Print

Mál nr. 179/2008

Lykilorð
  • Kærumál
  • Viðurlagaákvörðun
  • Ítrekun
  • Afturvirkni
  • Akstursbann
  • Sératkvæði

         

Mánudaginn 28. apríl 2008.

Nr. 179/2008.

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum

(enginn)

gegn

Axel Jóhanni Helgasyni

(Jón Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Viðurlagaákvörðun. Ítrekun. Afturvirkni. Akstursbann. Sératkvæði.

Með 8. gr. laga nr. 69/2007 sem tók gildi 27. apríl 2007 var 106. gr. a. bætt við umferðarlög nr. 50/1987, og kveður greinin á um heimild til að beita akstursbanni gegn byrjanda sem nýtur ökuréttar á grundvelli bráðabirgðaskírteinis, en með slíku banni töldust ökuréttindi viðkomandi afturkölluð. A hafði við gildistöku nefndra laga hlotið þrjá punkta í ökuferilsskrá sína, en hlaut þann fjórða 29. ágúst 2007. Í tilefni af þessu beitti L framangreindri heimild, en A bar þá ákvörðun undir héraðsdóm. Talið var að í nefndri lagabreytingu hafi falist þynging ítrekunaráhrifa fyrri brota A og að skilyrði og áhrif ítrekunar samkvæmt nefndu lagaákvæði hafi verið skýr og efni þess bæði aðgengilegt og fyrirsjáanlegt þannig að A hefði átt að geta séð fyrir hverjar afleiðingar umferðarlagabrot hans 29. ágúst 2007 hefði að lögum fyrir hann. Var því ekki fallist á með A að með fyrrgreindri ákvörðun hefði refsiheimild verið beitt með afturvirkum hætti og var kröfu hans um að  ákvörðunin yrði felld úr gildi því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2008, sem barst réttinum 1. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. mars 2008, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 8. janúar 2008 um að varnaraðili sætti akstursbanni samkvæmt 106. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 8. gr. laga nr. 69/2007. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun sóknaraðila verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Atvikum málsins er lýst í hinum kærða úrskurði. Varnaraðili nýtti heimild í 3. mgr. 106. gr. a. umferðarlaga og bar hinn 24. janúar 2008 undir Héraðsdóm Suðurlands ákvörðun sóknaraðila 8. janúar 2008 um akstursbann varnaraðila á þeirri forsendu að hann hefði hlotið fjóra punkta í ökuferilsskrá vegna umferðarlagabrota. Krafðist hann þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi og að sóknaraðila yrði gert að greiða sér málskostnað.

Með 4. gr. laga nr. 57/1997 var bætt við 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 nýrri 2. mgr. en í 2. málslið sagði svo: „Dómsmálaráðherra setur, að fenginni umsögn ríkissaksóknara, reglugerð um punktakerfi vegna umferðarlagabrota, þar á meðal um hvaða vægi einstök brot skuli hafa í punktum talið við ákvörðun um beitingu sviptingar ökuréttar vegna uppsöfnunar punkta.“

Með heimild í 2. mgr. 52. gr. og þessu nýmæli 2. mgr. 101. gr. umferðarlaga setti dóms- og kirkjumálaráðherra síðan reglugerð nr. 431/1998 um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota. Í 7. gr. reglugerðar þessarar var kveðið svo á að punkta vegna einstakra brota á ákvæðum umferðarlaga og reglna settra samkvæmt þeim skyldi ákvarða í samræmi við fyrirmæli og leiðbeiningar í viðauka við reglugerðina. Í 2. mgr. 8. gr. var síðan kveðið svo á að ökumaður með bráðabirgðaskírteini skyldi sviptur ökurétti þegar hann hefði hlotið samtals 7 punkta að frekari skilyrðum uppfylltum.

Framangreind reglugerð var leyst af hólmi með reglugerð um sama efni nr. 929/2006. Hélst ákvæði 8. gr. óbreytt frá reglugerð nr. 431/1998.

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði tók gildi 27. apríl 2007 nýtt ákvæði í 106. gr. a. umferðarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 69/2007. Þar er kveðið svo á að lögreglustjóri skuli banna byrjanda, sem hefur fengið bráðabirgðaskírteini í fyrsta sinn, að aka hafi hann fengið fjóra eða fleiri punkta samkvæmt punktakerfi vegna umferðarlagabrota. Við gildistöku lagabreytingarinnar hafði varnaraðili hlotið þrjá punkta. Hann hlaut svo einn punkt í viðbót 29. ágúst 2007. Ákvörðun sóknaraðila sem um er deilt í máli þessu var tekin á þeim grundvelli að varnaraðili hefði nú hlotið fjóra punkta og bæri því að beita akstursbanni því sem kveðið er á um í 1. mgr. 106. gr. a. umferðarlaganna, sem þá hafði tekið gildi. Varnaraðili byggir kröfu sína á því að við ákvörðun sóknaraðila sé viðurlögum samkvæmt hinni nýju reglu beitt með afturvirkum hætti um brot sem framin höfðu verið áður en reglan tók gildi, þar sem nú þurfi færri punkta en áður til að skylt sé að beita þann sem í hlut á akstursbanni.

II.

Í málinu er deilt um gildi stjórnvaldsákvörðunar lögreglustjórans í Vestmanna­eyjum 8. janúar 2008 sem fól í sér akstursbann. Lýtur ágreiningur aðila einkum að því hvort ákvörðunin hafi haft afturvirk réttaráhrif eða hvort hún sé viðurlagaákvörðun sem byggist á lögmæltri ítrekunarheimild. Með akstursbanni eru afturkölluð ökuréttindi sem bráðabirgðaskírteini byrjanda veitir. Akstursbannið gildir þar til byrjandi hefur sótt sérstakt námskeið og staðist ökupróf að nýju, sbr. 2. mgr. 106. gr. a. umferðarlaga. Ákvörðun lögreglustjórans hafði þannig að geyma refsikennd viðurlög sem eru afar íþyngjandi fyrir varnaraðila. Þessi viðurlög teljast á hinn bóginn ekki til refsinga í skilningi V. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 929/2006 heldur ríkislögreglustjóri landsskrá um ökuferil ökumanna og punkta sem þeir hafa hlotið vegna umferðarlagabrota samkvæmt reglugerðinni. Punktar fyrir einstök brot eru færðir á skrána á grundvelli fyrirmæla og leiðbeininga í viðauka við reglugerðina, sbr. 1. mgr. 7. gr. hennar. Hvert brot samsvarar einum til fjórum punktum eftir alvarleika brots. Þegar ákvörðun er tekin um punkta vegna brota á tveimur eða fleiri ákvæðum skal punktafjöldinn vera samtala punkta vegna hvers brots um sig, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Punktar vegna umferðarlagabrota skulu færðir í ökuferilsskrá þegar brot ökumanns hefur verið staðreynt með greiðslu sektar, undirritun lögreglustjórasáttar, eða áritun dómara, viðurlagaákvörðun eða dómi samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar. Réttaráhrif punkta falla niður að liðnum þremur árum frá þeim degi er brot var framið, þegar ákvörðun um sviptingu ökuréttar á grundvelli uppsafnaðra punkta hefur verið tekin eða þegar ákvörðun um viðurlög vegna brots, sem varðað hefur færslu punkta, er felld úr gildi, sbr. 12. gr. reglugerðarinnar. Í 8. gr. er mælt fyrir um sviptingu ökuréttar þegar tilteknum punktafjölda hefur verið náð, en ákvæði 106. gr. a. um akstursbann gengur framar ákvæðum 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar varðandi sviptingu bráða­birgða­skírteinis. Í 3. mgr. sömu greinar segir að svipting ökuréttar komi til viðbótar þeim viðurlögum sem liggi við síðasta broti ökumanns.

Við ákvörðun viðurlaga eru ítrekunaráhrif fólgin í því að eldra brot manns, sem er samkynja eða eðlislíkt, hefur þau áhrif að viðurlög við nýju broti hans eru ákveðin þyngri eða önnur en annars hefði verið. Þegar framangreint viðurlagakerfi er virt verður að telja að það hafi meðal annars að geyma sérreglur um ítrekun þar sem akstursbann eða svipting ökuréttar bætast við sem viðurlög við brotum á umferðarlögum þegar tilteknum punktafjölda er náð.

Með setningu 106. gr. a. umferðarlaga herti löggjafinn viðurlög við brotum á umferðarlögum þar sem sett var sú fortakslausa regla að banna skyldi byrjanda, sem fengið hafi bráðabirgðaskírteini í fyrsta sinn, akstur þegar hann hefur fengið fjóra eða fleiri punkta. Ekki eru settar sérstakar skorður í stjórnarskrá við því að löggjafinn þyngi refsikennd viðurlög þar sem ítrekun er ljáð aukið vægi, en í 3. gr. almennra hegningarlaga er gert ráð fyrir slíkum breytingum á ítrekunarheimildum.

Þegar varnaraðili braut umferðarlög og fékk fjórða punktinn samkvæmt reglugerð nr. 929/2006 höfðu ákvæði 106. gr. a. umferðarlaga tekið gildi, sbr. 8. gr. laga nr. 69/2007. Skilyrði og áhrif ítrekunar samkvæmt ákvæðinu eru skýr og var efni þess bæði aðgengilegt og fyrirsjáanlegt þannig að varnaraðili átti að geta séð fyrir hverjar afleiðingar umferðarlagabrot hans í ágúst 2007 hefði að lögum fyrir hann. Í ljósi þess að ákvæði 106. gr. a. umferðarlaga var beitt um brot sem framið var eftir gildistöku þess verður ekki talið að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hafi beitt ítrekunarheimildinni með afturvirkum hætti.

Af framansögðu athuguðu verður ekki fallist á að fyrrnefnd ákvörðun sýslumannsins í Vestmannaeyjum hafi brotið í bága við 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu og má í því sambandi minna á dóm yfirdeildar Mannréttinda­dómstóls Evrópu í máli Achour gegn Frakklandi frá 29. mars 2006.

Þótt fallast megi á að nokkur dráttur hafi orðið á að taka ákvörðun um akstursbann varnaraðila, sem ekki hefur verið réttlættur, varðar það ekki ógildingu ákvörðunar sóknaraðila.

Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði og I. kafla í atkvæði meirihluta dómara. Svo sem þar kemur fram hafði varnaraðili hlotið þrjá punkta í ökuferilskrá, þegar hið nýja lagaákvæði 106. gr. a. umferðarlaga, sem aukið var við lögin með 8. gr. laga nr. 69/2007, tók gildi 27. apríl 2007. Þann 29. ágúst 2007 fékk hann einn punkt í viðbót fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur. Hafði hann þá hlotið samtals fjóra punkta og ákvað sóknaraðili á þeim grundvelli 8. janúar 2008 að varnaraðili skyldi með vísan til hins nýja lagaákvæðis sæta akstursbanni. Fram að gildistöku þess hafði gilt sú regla að ökumaður með bráðabirgðaskírteini skyldi sviptur ökurétti þegar hann hefði hlotið samtals sjö punkta. 

Niðurstaða meirihluta dómara byggist á því að í hinu nýja lagaákvæði, felist sérreglur um ítrekun, það er að segja að ákvæðið feli það eitt í sér að brot sem framin hafi verið fyrir gildistöku laganna skuli hafa þyngri ítrekunaráhrif við ákvörðun viðurlaga fyrir nýtt brot en verið hafði áður. Þessu er ég ósammála. Samkvæmt 2. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 929/2006 falla réttaráhrif punkta niður, þegar ákvörðun um sviptingu ökuréttar á grundvelli uppsafnaðra punkta hefur verið tekin. Það er því ekki um ítrekunaráhrif að ræða, eins og það hugtak er notað í íslenskum lögum, heldur var með ákvörðun sóknaraðila einfaldlega tekin ákvörðun um viðurlög við þeim umferðarlagabrotum fyrir og eftir gildistöku laga nr. 69/2007, sem leiddu samtals til fjögurra punkta í ökuferilskrá varnaraðila, í viðbót við þau sektarviðurlög sem honum hafði verið gert að sæta fyrir brotin.

          Svipting ökuréttar og akstursbann teljast til refsikenndra viðurlaga við brotum gegn umferðarlögum. Viðurlög við refsiverðum brotum mega ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemi átti sér stað, sbr. 2. málslið 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Sama regla kemur einnig fram í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem veitt var lagagildi hér á landi með lögum nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, og 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með því að beita hinni yngri og þungbærari reglu um brot varnaraðila, sem framin höfðu verið í gildistíð eldri reglunnar, voru yngri reglunni gefin afturvirk áhrif. Það fær ekki staðist samkvæmt nefndum lagareglum. Með vísan til þessa verður ekki fallist á að heimilt hafi verið að beita varnaraðila akstursbanni svo sem sóknaraðili gerði með ákvörðun sinni 8. janúar 2008. Þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort meta beri það varnaraðila í hag að löggjafinn lét undir höfuð leggjast við setningu laga nr. 69/2007 að kveða skýrt á um, hvernig með skyldi fara í tilviki eins og því sem hér um ræðir, að ökumaður með bráðabirgðaskírteini, sem hefði hlotið punkta fyrir gildistöku laganna, gerðist sekur um nýtt brot eftir hana sem metin yrðu til punkta í ökuferilsskrá.

          Samkvæmt þessu tel ég að fallast beri á kröfu varnaraðila um að fella nefnda ákvörðun úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. mars 2008.

I.

Með bréfi Jóns Haukssonar, hdl.,dagsettu 24. janúar sl., sem móttekið var 29. janúar sl., var þess krafist að dómurinn felldi úr gildi þá ákvörðun varnaraðila, sýslumannsins í Vestmannaeyjum, að afturkalla ökuréttindi sóknaraðila, Axels Jóhanns Helgasonar, [kt.], Dverghamri 30, Vestmannaeyjum og jafnframt að embættinu yrði gert að greiða kærumálskostnað að mati dómsins.

Fram kemur í bréfi lögmannsins að sóknaraðili teljist hafa hlotið fjóra punkta í ökuferilsskrá vegna umferðarlagabrota.  Hann hafi hlotið þrjá þessara punkta 21.janúar 2007 og einn punkt 29. ágúst sama ár.  Hann hafi ekki gerst brotlegur við umferðarlög síðan.  Þann 29. nóvember sama ár hafi honum verið send viðvörun um að hann gæti átt von á sviptingu bráðabirgðaskírteinis hljóti hann sjö punkta í ökuferilsskrá  Honum hafi síðan fyrirvaralaust verið tilkynnt um akstursbann með bréfi dagsettu 8. janúar sl. með vísan til þess að hann hafi hlotið fjóra punkta í ökuferilsskrá og sé vísað í 106. gr. a umferðarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 69/2007 og reglugerðir byggðar á þeim lögum.

Lögmaðurinn bendir á að þegar sóknaraðili hafi hlotið þrjá punkta í ökuferilsskrá 24. janúar 2007 hafi gilt sú regla samkvæmt 106. gr. umferðarlaga að unnt væri að svipta menn bráðabirgðaökuskírteini hlytu þeim samtals sjö punkta í ökuferilsskrá.  Þessu hafi verið breytt 27. apríl sama ár með 8. gr. laga nr. 69/2007 eða rúmum þremur mánuðum eftir að sóknaraðili fékk ofangreinda punkta.  Telur sóknaraðili með öllu óheimilt að láta hin nýju lög gilda aftur fyrir sig eða byggja svo íþyngjandi ákvörðun á lagagrein sem ekki hafi verið í gildi þegar brot hafi verið framið.  Skorti ákvörðun varnaraðila því lagagrundvöll og beri að fella hana úr gildi.  Lögmaðurinn telur að hin nýja lagagrein sé hvergi túlkuð með þeim hætti sem hér sé gert og brjóti ákvörðun varnaraðila þannig gegn jafnræðisákvæðum stjórnarskrárinnar.

Sóknaraðili byggir kröfu um greiðslu kærumálskostnaðar á því að brotið hafi verið gróflega á rétti hans með ólögmætum hætti og hafi honum verið nauðugur einn kostur að leita til dómsins til að fá leiðréttingu mála sinna og eigi ekki að bera kostnað af þeim sökum.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og akstursbannið verði staðfest.  Hann bendir á að akstursbann sé ekki refsing og komið hafi í ljós við gildistöku laga nr. 69/2007 þann 27. apríl 2007 að sóknaraðili uppfyllti ekki lengur þær hæfiskröfur sem gerðar væru í þeim lögum.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 8. gr. laga nr. 69/2007 sem tók gildi 27. apríl 2007, skal lögreglustjóri banna byrjanda, sem fengið hefur bráðabirgðaskírteini í fyrsta sinn, að aka hafi hann fengið fjóra eða fleiri punkta samkvæmt punktakerfi vegna umferðarlagabrota.  Skal akstursbanni eingöngu beitt einu sinni á gildistíma bráðabirgðaskírteinis.  Samkvæmt 2. mgr. eru með akstursbanni afturkölluð ökuréttindin sem bráðabirgðaskírteinið veitir.  Gildir akstursbannið þar til byrjandinn hefur sótt sérstakt námskeið og staðist ökupróf að nýju.  Samkvæmt 3. mgr. skal svo fljótt sem unnt er banna byrjanda að aka þegar skilyrði akstursbanns séu fyrir hendi.  Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að framangreindum lögum segir að þegar akstursbanni sé beitt verði byrjandi, ökumaður með bráðabirgðaskírteini í fyrsta sinn, í sömu stöðu og sá sem ekki hafi lokið ökunámi.  Byrjandinn hafi misst ökuréttinn og verði að fara í sérstakt ökunám og taka ökupróf til þess að öðlast hann á ný.  Það sé mikilvægt að akstursbann taki gildi strax og skilyrði þess séu fyrir hendi, þ.e. þegar fyrir liggi að byrjandi hafi fengið fjóra eða fleiri refsipunkta.  Sé því sett hliðsett ákvæði varðandi akstursbann og sé í 103. gr. varðandi sviptingu ökuréttar til bráðabirgða.  Í nefndaráliti samgöngunefndar kemur fram að markmið frumvarpsins sé að gera auknar kröfur til ungra ökumanna með bráðabirgðaskírteini og sé í því skyni lagt til að bráðabirgðaskírteini gildi í þrjú ár í stað tveggja ára og að lögreglustjóri geti sett akstursbann á byrjanda, sem hafi fengið bráðabirgðaskírteini í fyrsta sinn, hafi hann fengið fjóra eða fleiri punkta í ökuferilsskrá vegna umferðarlagabrota.

III.

Óumdeilt er í máli þessu að við gildistöku 106. gr. a umferðarlaga þann 27. apríl 2007 hafði sóknaraðili hlotið þrjá punkta í ökuferilsskrá.  Tóku þá gildi þau nýmæli að heimilt var að beita akstursbanni eins og að framan er rakið hafi byrjandi, sem fengið hafi bráðabirgðaskírteini í fyrsta sinn, fengið fjóra eða fleiri punkta samkvæmt punktakerfi vegna umferðarlagabrota.  Var staða sóknaraðila því þannig við gildistöku laganna að ekki voru skilyrði til að beita hann akstursbanni.  Engin lagarök stóðu hins vegar til þess að þeir þrír punktar, sem sóknaraðili hafði hlotið um þremur mánuðum áður, þurrkuðust út og hefðu engin áhrif á stöðu hans að þessu leyti.  Sóknaraðili hafði því tækifæri til þess að halda bráðabirgðaökuskírteini sínu með því að gerast ekki brotlegur við umferðarlög og mátti honum því vera ljóst að fengi hann einn punkt til viðbótar kæmu framangreind nýmæli til framkvæmda.  Þrátt fyrir þetta braut sóknaraðili umferðarlögin með þeim afleiðingum að hann fékk þann eina punkt 29. ágúst sl. sem þurfti til þess að lögreglustóra bar skylda til þess að beita hann aksturbanni.  Verður kröfu sóknaraðila því hafnað.  Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kveður upp úrskurð þennan.  Uppkvaðning hans hefur dregist vegna embættisanna.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ákvörðun sýslumannsins í Vestmannaeyjum þann 8. janúar 2008, um að Axel Jóhann Helgason skuli sæta akstursbanni, er staðfest.

Málskostnaður fellur niður.