Print

Mál nr. 112/2003

Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Sekt
  • Skilorð
  • Aðfinnslur

Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. október 2003.

Nr. 112/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Pétri Júlíussyni

(Jón Magnússon hrl.)

 

Virðisaukaskattur. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Sekt. Skilorð. Aðfinnslur.

 

P var sem stjórnarmaður og daglegur stjórnandi U ehf., sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir brot á 1. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Brot P voru ekki talin meiri háttar og honum því ekki gert að sæta fangelsisrefsingu, en dæmdur til greiðslu sektar. Rannsókn málsins, sem hvorki taldist flókið né umfangsmikið, tók langan tíma og á henni höfðu orðið löng hlé. Var þessi dráttur í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Af þessum sökum var ekki hjá því komist að fresta greiðslu helmings sektarinnar skilorðsbundið í þrjú ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2003 af hálfu ákæruvalds og krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákvörðuð refsing.

Ákærði krefst aðallega sýknu. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærði áfrýjaði ekki héraðsdómi fyrir sitt leyti. Kemur krafa hans um sýknu ekki til álita nema að því marki, sem efni kunna að vera til samkvæmt 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994.

I.

Í málinu er ákærða í fyrri lið ákæru gefið að sök að hafa sem stjórnarmaður og daglegur stjórnandi Umboðsverslunarinnar Bross ehf. brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa ekki skilað virðisaukaskattskýrslum vegna einkahlutafélagsins fyrir öll uppgjörstímabil frá maí til og með desember 1996 og hafa skilað röngum virðisaukaskattskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar til febrúar og mars til apríl 1996 og hafa með þessu vantalið skattskylda veltu og virðisaukaskatt vegna sölu á 25 bifreiðum, sem einkahlutafélagið flutti inn, og komið einkahlutafélaginu hjá að standa tollstjóranum í Reykjavík skil á innheimtum virðisaukaskatti, samtals að fjárhæð 2.474.568 krónur. Er fjárhæðin sundurliðuð milli uppgjörstímabila eins og fram  kemur í hinum áfrýjaða dómi. Fyrir Hæstarétti gerði ákæruvaldið þá leiðréttingu á þessum lið ákæru að hún varðaði sölu 23 bifreiða, en sú leiðrétting  hefur ekki áhrif á fjárhæð sem ákært er vegna eða skiptingu hennar milli uppgjörstímabila. Í síðari lið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að halda lögboðið bókhald fyrir Umboðsverslunina Bros ehf. vegna ársins 1996.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn á bókhaldi og skattskilum Umboðsverslunarinnar Bross ehf. 30. maí 1997, sem lauk með skýrslu 11. ágúst 1998. Vísaði hann málinu til opinberrar rannsóknar með bréfi til ríkislögreglustjóra 26. júlí 2000. Með bréfi 23. júlí 2001 óskaði ríkislögreglustjóri eftir tilteknum gögnum frá skattrannsóknarstjóra, sem bárust honum með bréfi 24. október 2001. Verður ráðið af gögnum málsins að í framhaldi af því hafi ríkislögreglustjóri rannsakað málið af sinni hálfu. Gaf hann út ákæru í málinu 11. mars 2002 og var það þingfest fyrir héraðsdómi 3. apríl sama árs.

II.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í báðum liðum ákæru.

 Þá verður með vísan til forsendna héraðsdóm staðfest sú niðurstaða hans að virðisaukaskattslagabrot ákærða verði ekki talin meiri háttar og verða þau því ekki heimfærð til 1. mgr., sbr. 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995. Eðli og umfang bókhaldsbrots ákærða verður heldur ekki talið slíkt að það verði talið meiri háttar samkvæmt 2. mgr. sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Verður honum því ekki gert að sæta fangelsisrefsingu.

Sektarrefsing ákærða verður ekki færð niður úr lögmæltu lágmarki á grundvelli 3. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga enda bar honum að kynna sér þær reglur, sem giltu um starfsemi sem hann rak í atvinnuskyni. Samkvæmt því verður ákærða gert að greiða sekt í ríkissjóð, sem telst hæfilega ákveðin 4.950.000 krónur. Eins og að framan er rakið eru liðin meira en sex ár frá því að skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn á þeim brotum, sem ákærði er nú sakfelldur fyrir. Málið var tiltölulega einfalt úrlausnar og rannsókn þess afmörkuð við tilgreind viðskipti á árinu 1996 og því ekki umfangsmikil. Á rannsókn málsins hafa orðið löng hlé þar sem gögn þess bera ekki með sér að þeir, sem rannsókn stýrðu, hafi aðhafst neitt vegna viðurlaga- eða refsimeðferðar þess. Þannig liðu tæp tvö ár frá því að rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk þar til hann vísaði málinu til opinberrar rannsóknar ríkislögreglustjóra. Varð í framhaldi þess einnig verulegur dráttur á að ríkislögreglustjóri hæfi rannsókn málsins. Er þessi dráttur óhæfilegur og vítaverður. Hann er í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem henni var breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndum mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Verður af þessum sökum ekki komist hjá því að fresta greiðslu helmings sektarinnar í þrjú ár frá dómsuppsögu og fellur sá hluti hennar niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með síðari breytingum. Verði sá helmingur sektarinnar, sem er óskilorðsbundinn, ekki greiddur innan fjögurra vikna frá dómsuppsögu skal ákærði sæta fangelsi í tvo mánuði. Vararefsing þess hluta sektarinnar, sem skilorðbundinn er, ákveðst fangelsi í tvo mánuði. 

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist að jöfnu úr ríkissjóði og af ákærða, svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Pétur Júlíusson, greiði 4.950.000 krónur í sekt í ríkissjóð, en fresta skal greiðslu helmings sektarinnar í þrjú ár frá dómsuppsögu og skal sá hluti hennar niður falla að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Verði sá helmingur sektarinnar, sem er óskilorðsbundinn, ekki greiddur innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, sæti ákærði fangelsi í tvo mánuði. Vararefsing þess hluta sektarinnar, sem skilorðbundinn er, ákveðst fangelsi í tvo mánuði. 

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af ákærða, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2003.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 11. mars 2002 á hendur: “Pétri Júlíussyni, [ . . . ], fyrir eftirtalin brot:

 

I.         Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Með því að hafa sem stjórnarmaður og daglegur stjórnandi einkahlutafélagsins Umboðsverslunin Bros ehf., [ . . . ], sem úrskurðað var gjaldþrota 26. febrúar 1997, brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa ekki skilað virðisaukaskattsskýrslum vegna einkahlutafélagsins fyrir öll uppgjörstímabil frá maí til og með desember 1996 og hafa skilað röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar og mars – apríl 1996, og hafa með þessu vantalið skattskylda veltu og virðisaukaskatt vegna sölu á 25 bifreiðum sem einkahlutafélagið flutti inn og komið einkahlutafélaginu hjá að standa Tollstjóranum í Reykjavík skil á innheimtum virðisaukaskatti, í samræmi við það sem lög áskilja, samtals að fjárhæð kr. 2.474.568 og sundurliðast sem hér greinir;

 

 

Uppgjörstímabil:                                Vantalin skattskyld                                                 Vangoldinn

                                                                            velta:                                                        virðisaukaskattur:

 

Árið 1996                                                              

Janúar - febrúar                                                      kr.              2.409.639                           kr.            278.633

Mars - apríl                                           kr.                 7.168.698                                            kr.                 903.377

Maí - júní                                              kr.               13.918.737                                            kr.                 750.115

Júlí - ágúst                                            kr.                 1.526.105                                            kr.                   27.513

September - október                           kr.                 4.441.768                                            kr.                 432.271

Nóvember - desember                        kr.                 1.244.980                                            kr.                   82.659

 

Samtals:                                               kr.           30.709.927                                             kr.           2.474.568

 

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

 

II.         Fyrir bókhaldsbrot.

Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að halda lögboðið bókhald fyrir Umboðsverslunina Bros ehf. vegna ársins 1996 .

 

Telst þetta varða við 1. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr 36. gr. laga nr. 145, 1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37, 1995 um breytingu á þeim lögum og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr., 1. gr. laga nr. 39, 1995.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.

 

Málsatvik

Upphaf máls þessa má rekja til rannsóknar Skattrannsóknarstjóra ríkisins sem beindist upphaflega að lögaðilanum Umboðsversluninni Bros ehf., en bú fyrirtækisins hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði hinn 26. febrúar 1997.  Samkvæmt skýrslu Skattrannsóknarstjóra, dagsettri 11. ágúst 1998, hófst rannsókn málsins hinn 30. maí 1997 og beindist hún aðallega að þeirri starfsemi fyrirtækisins er varðaði innflutning og sölu á notuðum bifreiðum.  Afmarkaðist rannsóknin við árið 1996.  Við rannsóknina var höfð hliðsjón m.a. af skrá sem embættinu hafði borist frá Bílgreinasambandi Íslands þar sem upplýsingar voru gefnar um innfluttar bifreiðar á árinu 1996.  Hafði Bílgreinasambandið lýst áhyggjum yfir innfluttningi á bifreiðum sem ekki ætti sér stað í gegnum hefðbundin bifreiðaumboð.  Töldu forsvarsmenn sambandsins að þessar bifreiðar væru seldar hérlendis að miklu leyti án þess að staðin væru skil á lögbundnum gjöldum.

Niðurstaða rannsóknarinnar á hendur Umboðssversluninni Bros ehf. var sú að m.a. hefði verið vanrækt að færa rekstrarbókhald fyrirtækisins á árinu 1996 og væri vörslu gagna einnig áfátt.  Ekki hefði verið gerð grein fyrir skattskyldri veltu, útskatti og innskatti, vegna innflutnings og sölu á bifreiðum, á innsendum virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin janúar – febrúar og mars – apríl 1996.  Ekki hefði verið staðið skil á öðrum virðisaukaskattsskýrslum vegna reksturs fyrirtækisins vegna annarra uppgjörstímabila á árinu 1996.  Rannsókninni lauk með útgáfu skýrslu, dagsettri 11. ágúst 1998.

Málið var sent efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra með bréfi dagsettu 26. júlí 2000.  Þar er Pétur Júlíusson, ákærði í máli þessu, kærður sem fyrirsvarsmaður Umboðsverslunarinnar Bros ehf.   Kemur fram í kærunni að ákærði hefði sagt afsöl og samninga liggja til grundvallar skráningu tekna vegna sölu notaðra, innfluttra bifreiða.  Afsöl eða samningar hefðu hins vegar ekki verið fyrirliggjandi vegna allra þeirra innfluttu bifreiða sem seldar hefðu verið á árinu 1996.  Við mat á ætluðu söluverði bifreiðanna hefði verið tekið mið af útgefnum afsölum, upplýsingum frá viðskiptavinum fyrirtækisins eða upplýsingum ákærða sjálfs við yfirheyrslur. Ákæra á hendur ákærða fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og bókhaldsbrot var gefin út 11. mars 2002, eins og áður sagði.

Ákærði hefur játað bókhaldsbrot samkvæmt II. kafla ákærunnar en hefur neitað sök varðandi I. kafla um virðisaukaskattsbrot og byggir neitun hans fyrst og fremst á því að rangar upphæðir liggi til grundvallar útreikningum á þeim gjöldum sem honum hafi borið að standa skil á.   Véfengir hann forsendur ákæruvaldsins varðandi söluverð hluta þeirra bifreiða sem hann flutti inn og seldi á umræddu tímabili, en samkvæmt skýrslu ríkislögreglustjóra dagsettri 31. október 2001, liggja til grundvallar tölulegum forsendum ákærunnar upplýsingar um viðskipti ákærða, fyrir hönd Umboðsverslunarinnar Bros ehf., með 25 nánar tilgreindar bifreiðar á árinu 1996.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.

Ákærði, Pétur Júlíusson, neitar sök varðandi I. kafla ákæru á hendur honum en játar sök varðandi II. kafla ákærunnar.

Ákærði kvaðst ekki mótmæla því, sem fram kemur í upphafi ákærunnar, að hann hefði verið stjórnarmaður og daglegur sjórnandi einkahlutafélagsins á því tímabili sem hér um ræðir.  Hann kvað og rétt að þær 25 bifreiðar sem tilgreindar væru í gögnum ákæruvaldsins hefðu verið fluttar til landsins og seldar á vegum Bros ehf.  Hann hefði hins vegar ekki talið að um virðisaukaskattsskyld viðskipti væri að ræða.  Hann kvaðst mómæla þeim upphæðum sem lagðar væru til grundvallar í ákæru varðandi söluverð bifreiðanna RD-880 og ZZ-704 en þar væri um allt of hátt verð að ræða, 2.780.000 krónur fyrir RD-880 og 2.670.000 krónur fyrir ZZ-704.  Einnig kvaðst hann gera athugasemdir um vantalinn innskatt varðandi bifreiðarnar TE-060 og AG-112, en ekki væri tekið tillit til þess skatts til frádráttar skilaskyldum virðisaukaskatti.  Hann hefði talið sig eiga gögn sem hefðu sannað þann innskatt en brotist hefði verið inn í fyrirtækið tvisvar sinnum á árinu 1997 og einhver gögn hefðu tapast þá.  Hann kvaðst því ekki geta lagt fram sönnunargögn til stuðnings fullyrðingum sínum.

Varðandi bifreiðina RD-880 var borið undir ákærða afrit af skattframtali Bjarna E. Péturssonar, en þar kemur fram að Bjarni hafi keypt bifreiðina af Bros ehf. á 2.780.000 krónur.  Ákærði kvaðst ekki véfengja gögnin en kvaðst ekki muna eftir þessu í smáatriðum þar sem svo langt væri um liðið.  Hann teldi sig þó muna að hann hefði tapað á sölu þessa bíls en ekki hagnast.  Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta tjáð sig um hvort þetta væri eðlilegt verð fyrir ´94 árgerð af Cherokee jeppa.

Varðandi bifreiðina ZZ-704 kannaðist ákærði við undirskrift sína á afsal til Samvinnusjóðs Íslands fyrir bifreiðinni, en tilgreint kaupverð er þar 2.670.000 krónur.  Kvað ákærði þessa sölu hafa verið hluta af viðskiptum sínum við sjóðinn, hann hefði verið að greiða skuld með bílnum.  Þess vegna væri söluverðið algert hámarksverð.

Varðandi AG-112, var borið undir ákærða skattframtal Höllu Ásgeirsdóttur en þar kemur fram að hún hafi keypt bifreiðina af Bros ehf. fyrir 1.100.000 krónur.  Einnig var ákærða sýnt skjal sem er hluti af gögnum fyrirtækisins en þar kemur fram söluverðið 1.100.000 krónur.  Viðurkenndi ákærði að skjalið hefði verið útbúið af honum.

Varðandi TE-060 kannaðist ákærði við undirritun sína á afsal til B fyrir hönd X,  Söluverð er tilgreint sem 1.830.000 krónur.  Kvaðst ákærði telja að hann hefði t.d. lagt mikið til af varahlutum í bifreiðina en hún hefði ekki verið í fullkomnu lagi.  Hann hefði hins vegar ekki gögn um þann kostnað.

Ákærði kvaðst hafa fengið þær upplýsingar hjá tollvörðum að hann þyrfti ekki að gefa út reikning og innheimta virðisaukaskatt við sölu á hverjum einstökum bíl.  Hann hefði aldrei innheimt virðisaukaskatt af þeim bifreiðum sem hann hefði selt.  Hann kvað ekki hefðu verið mögulegt að hækka söluverðið með tilliti til virðisaukaskatts, hann hefði frekar verið talinn vera innifalinn í verðinu.  Aðspurður kvað ákærði rétt að hann hefði aðeins skilað virðisaukaskattsskýrslu fyrir tvö tímabil á árinu 1996, fyrir janúar – febrúar og mars – apríl.  Hann kvaðst telja að fylgiskjöl vantaði í bókhaldið sem ættu að sýna fram á hærri upphæð innskatts til frádráttar en byggt hefði verið á af ákæruvaldinu.

R kom fyrir dóminn og staðfesti kaup sín á bifreiðinni AG-112 fyrir eiginkonu hans, H.  Kaupverðið hefði verið 1.100.000 krónur en hann hefði tekið bílinn upp í greiðslu sem hann hefði innt af hendi til Bros ehf. fyrir jeppa sem aldrei hefði komið til landsins.

B kom fyrir dóminn og staðfesti að hann hefði keypt, fyrir hönd X, jeppabifreið af Bros ehf. en kvaðst ekki muna kaupverðið.  Borið var undir hann afsalið fyrir bifreiðinni og staðfesti hann að þar væri rétt verð, eða 1.830.000 krónur.  B kvaðst hafa verið sölumaður hjá Bh á þessum tíma og ekki hefði verið venja að gera reikninga við sölu á notuðum bílum, aðeins afsal.  Aldrei hefði verið greiddur virðisaukaskattur af notuðum bílum og hann vissi ekki til þess að um annað hefði verið að ræða þegar bílarnir voru fluttir inn notaðir erlendis frá.

 

Niðurstaða

I. kafli

Ákærði hefur játað rétta lýsingu á háttsemi í I. kafla ákæru og viðurkennt ábyrgð sína sem fyrirsvarsmaður fyrirtækisins en hefur véfengt upphæðirnar sem ákært er fyrir og telur þær of háar.  Einnig hefur hann borið því við að honum hafi ekki verið ljóst að hann þyrfti að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti við sölu á innfluttum, notuðum bifeiðum.

Ljóst er að ákærði ber refsiábyrgð í málinu sem stjórnarmaður og daglegur stjórnandi fyrirtækisins Umboðsverslunin Bros ehf.  Einnig er ljóst að samkvæmt reglum á þeim tíma sem um ræðir, eða á árinu 1996, bar ákærða að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti við sölu á þeim bifreiðum sem fluttar voru notaðar inn til landsins á vegum fyrirtækisins.  Ákærði hefur borið því við að hann hafi talið að ekki væri þörf á þessu en ekki er fallist á þá varnarástæðu þar sem ákærða bar að ganga úr skugga um þær reglur sem giltu um starfsemi sem hann rak í atvinnuskyni.

Ljóst er af framburði ákærða sjálfs fyrir dómi, skjölum málsins og framburði vitna, að fullyrðingar ákærða um að byggt sé á of háum fjárhæðum í ákæru varðandi einstakar bifreiðir eiga ekki við rök að styðjast.  Ekki hefur ákærða tekist að sýna fram á að innskattur sé vantalinn í forsendum ákærunnar, eins og hann hefur haldið fram.  Er ákæran í samræmi við framlögð gögn í málinu.

Samkvæmt framangreindu er sannað, gegn neitun ákærða að hluta, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem honum er gefin að sök í I. kafla ákæru.

Ákærði hefur með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.  Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 40. gr laga nr. 50/1998, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, varðar stórfellt brot gegn ákvæðinu við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Í 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga er því lýst hvenær brot telst meiri háttar. Dómurinn telur brotaandlag ekki svo hátt að það eitt nægi til að brot ákærða verði talin stórfelld. Þá eru ekki fyrir hendi önnur þau tilvik sem lýst er í 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga sem leiða til þess að meta beri brot ákærða sem stórfelld.

 

II. kafli

Ákærði hefur játað háttsemi samkvæmt II. kafla ákærunnar.  Þar sem játning hans er í samræmi við önnur gögn málsins telst sannað að hann hafi gerst sekur um brot það sem honum er þar gefið að sök.  Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæða í ákæru.

Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á refsiákvörðun í málinu.

Vísað er til þess sem áður var rakið um upphaf og lok rannsóknar máls þessa. Samkvæmt gögnum málsins lá afstaða ákærða til sakarefnisins að mestu leyti fyrir í ágúst 1997. Ákæra var gefin út í mars 2002 er liðið var hátt á fimmta ár frá því afstaða ákærða lá fyrir. Dráttur sá sem hér hefur verið lýst er ámælisverður og andstæður meginreglu 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og er einnig andstæður 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög 62/1994 og fer auk þess gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

Ákærða verður ekki kennt um dráttinn á málinu. Það er álit dómsins að refsing mörgum árum eftir framingu brota eins og þeirra sem hér um ræðir þjóni ekki ætluðum tilgangi og væri því réttast að fella refsingu niður sbr. 2. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga. Þar sem ekki er ótvíræð heimild til þess eins og hér stendur á verður að beita öðrum úrræðum. Með vísan til röksemdanna hér að framan er ljóst að óskilorðsbundnir refsidómar svo löngu eftir framningu brota eru til þess fallnir að færa líf fólks úr skorðum þegar á stendur eins og í máli þessu. Í dómaframkvæmd hefur verið brugðist við þessu með skilorðsbindingu.

Því áliti dómsins var lýst hér að framan að refsing eins og hér stendur á þjóni engum tilgangi og því kemur óskilorðsbundinn refsing ekki til álita. Dómurinn telur  engin rök hníga í þá átt að gera að þessu leyti mun á því hvort beitt er fangelsisrefsingu eða sekt. Sömu rök eigi við. Að öllu ofanrituðu virtu þykir rétt að fresta ákvörðun refsingar ákærða skilorðsbundið í 1 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsing hans falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talið 150.000 krónur í málsvarnarlaun til Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns.

Helgi Magnús Gunnarsson fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

DÓMSORÐ

Frestað er ákvörðun refsingar ákærða, Péturs Júlíussonar, skilorðsbundið í 1 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsing hans falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talið 150.000 krónur í málsvarnarlaun til Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns.