Print

Mál nr. 269/2000

A (Atli Gíslason hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.)
Lykilorð
  • Handtaka
  • Hald
  • Húsleit
  • Miskabætur
  • Gjafsókn
Reifun

A krafði Í um bætur vegna fjárhagslegs og ófjárhagslegs tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir. Opinbert mál hafði verið höfðað gegn A vegna gruns um að hann hefði dregið sér fé en hann verið sýknaður. Taldi A að Í hefði bakað sér tjón með rannsóknaraðgerðum lögreglu og málsmeðferð í sakamálinu sem hefði verið höfðað án nægjanlegs tilefnis. Fallist var á að Í hefði ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir því að nauðsyn hefði borið til að halda A í gæslu í rúmar tvær klukkustundir á rannsóknarstigi hins opinbera máls. Þá var fallist á að ekki hefði verið ástæða til að endurtaka leit á heimili A og í sameign fjöleignarhúss, sem hann bjó í. Voru honum dæmdar miskabætur vegna þessa. Þá var fallist á að A bæru skaðabætur vegna skyrtu sem lögregla hafði lagt hald á við rannsókn málsins en ekki skilað. Hins vegar var hafnað að ákvæði XXI. kafla laga nr. 19/1991 fælu í sér heimild til að dæma bætur vegna þess að A hefði verið sóttur til sakar án nægjanlegs tilefnis. Þótti ekki sýnt að skilyrði væru til slíkra bóta á grundvelli sakarreglunnar. Þá var hafnað kröfu A um bætur vegna mismunar á lögmannskostnaði samkvæmt gjaldskrá og tildæmdum málsvarnarlaunum í sakamálinu.

Fimmtudaginn 1

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2000. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 4.297.878 krónur, en til vara aðra lægri fjárhæð, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní 1999 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hann hefur notið á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hans verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.

I.

Í málinu hefur áfrýjandi uppi bótakröfu vegna tjóns, sem stefndi hafi bakað sér með rannsóknaraðgerðum lögreglunnar, ,,svo sem handtöku, fangelsun, skýrslutökum, húsleitum, útgáfu ákæru með tilheyrandi málsmeðferð fyrir dómi og annarri háttsemi“, eins og í héraðsdómsstefnu segir. Aðgerðir þessar gegn áfrýjanda hófust í kjölfar ráns [...] 1997, sem framið var í spilasalnum [...] að [...] í Reykjavík, en áfrýjandi annaðist daglegan rekstur salarins. Hinn 22. febrúar sama árs höfðu jafnframt horfið peningar úr rekstrinum, sem áfrýjandi átti að hafa þar í vörslum sínum. Var það kært til lögreglunnar 26. sama mánaðar sem þjófnaður. Það mál var óupplýst er fyrrnefnda atvikið átti sér stað. Í báðum tilvikum voru teknar umtalsverðar peningaupphæðir. Eru atvik rakin nánar í hinum áfrýjaða dómi.

Áfrýjandi telur að lögreglan og ákæruvald hafi haft hann fyrir rangri sök og farið offari gegn honum í allri meðferð málsins.

Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á þeim grunni að honum beri réttur til skaðabóta einkum með vísan til 175. gr., 176. gr., 178. gr. og 179. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en einnig til sakarreglunnar og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Telur hann að lögreglan hafi ekki gætt réttra aðferða við rannsókn málsins og brotið þannig gegn ýmsum ákvæðum laga nr. 19/1991, sem tilgreind eru í héraðsdómi. Telur hann einnig að öll málsmeðferðin hafi brotið í bága við 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og nánar tilgreind ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Áfrýjandi sundurliðar kröfu sína svo að 3.000.000 krónur séu vegna þess miska, sem hann hafi orðið fyrir, 1.000.000 krónur séu tjón vegna tapaðra vinnulauna, en 7.500 krónur séu tjón vegna skyrtu, sem lögreglan lagði hald á en hafi ekki skilað. Loks séu 290.378 krónur tjón hans vegna mismunar, sem verið hafi á tildæmdum málsvarnarlaunum lögmanns hans í máli ákæruvaldsins gegn honum, og þóknun, sem lögmanninum hefði borið samkvæmt gjaldskrá sinni.

II.

Skilyrði til skaðabóta í tilvikum eins og um ræðir í málinu lúta ákvæðum 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991. Ákvæði 175. gr. laganna var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999, sem tóku gildi 1. maí sama árs. Þótt atvik málsins hafi þannig gerst áður en sú breyting tók gildi eru aðilarnir báðir þeirrar skoðunar að skýra verði 175. gr. laga nr. 19/1991 til samræmis við hana. Fær þessi skoðun stoð í lögskýringargögnum.

Skýra ber 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 svo að í síðarnefndu greininni, svo og 177. gr. laganna sem ekki á hér við, séu tæmandi taldar þær aðgerðir, sem leitt geta til bótaskyldu stefnda á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu. Jafnframt þurfi þó að vera fullnægt öðrum skilyrðum, sem greinir í 176. gr. laganna, og þeim skilyrðum, sem tilgreind eru í 175. gr. þeirra. Ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar með áorðnum breytingum hafa verið skýrð svo að þau veiti ekki ríkari bótarétt en reglur XXI. kafla laga nr. 19/1991. Á hinn bóginn eru reglur tilgreinds kafla laganna ekki tæmandi í þeim skilningi að bótakröfur verði ekki reistar á almennum reglum skaðabótaréttar, svo sem áfrýjandi gerir ef þær teljast eiga við.

Verður leyst úr kröfu áfrýjanda á framangreindum grundvelli.

III.

Í 176. gr. laga nr. 19/1991 er heimilað að dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarra aðgerða, sem hafa frelsisskerðingu í för með sér, þó ekki fangelsi, en um það gildir 177. gr. laganna. Áskilið er að brostið hafi lögmæt skilyrði til slíkra aðgerða eða ekki hafi eins og á stóð verið nægilegt tilefni til þeirra eða þær framkvæmdar á óþarflega særandi eða móðgandi hátt. Að auki getur, í tilvikum eins og hér um ræðir, 175. gr. laganna leitt til niðurfellingar eða lækkunar bóta ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á.

Af framangreindu leiðir að útgáfa ákæru og rekstur opinbers máls á hendur áfrýjanda getur ekki leitt til bótaskyldu á grundvelli 176. gr., sbr. 175. gr. laga nr. 19/1991, þótt fallast verði á með honum að rannsóknargögn hafi ekki gefið neitt tilefni til þess að opinbert mál yrði höfðað á hendur honum.

Ekki verður á það fallist að áfrýjandi hafi sýnt fram á að lögreglumenn hafi almennt farið offari í aðgerðum sínum gegn honum við rannsókn á brotum þeim, sem málið varðar, né heldur að ómálefnalegar ástæður hafi búið að baki því að grunur féll á hann.

Áfrýjandi mætti til skýrslugjafar hjá lögreglunni sem vitni vegna atburðarins aðfaranótt [...] 1997 kl. 19.15 þann dag. Við töku þeirrar skýrslu var honum tilkynnt kl. 20.50 að réttarstaða hans hefði breyst og hann væri handtekinn og yfirheyrður sem grunaður um aðild að ráninu. Eftir að honum hafði verið kynnt réttarstaða hans óskaði hann eftir því að nafngreindur lögmaður yrði kvaddur til sem réttargæslumaður sinn. Í skýrslu lögreglunnar var tekið fram að reynt hefði verið án árangurs að ná í lögmanninn og eftir það í vakthafandi lögmann hjá Lögmannafélagi Íslands, en það hafi heldur ekki borið árangur. Var skráð í skýrsluna að töku hennar væri hætt kl. 21.05 ,,á meðan reynt er að ná í réttargæslumann og mætti færður í fangageymslu á meðan“. Eftir það var næst bókað ,,Kl. 23.10 er skýrslutöku framhaldið en ekki hefur náðst í vakthafandi lögmann hjá lögmannafélaginu.“ Áfrýjandi var því næst áminntur um sannsögli og neitaði hann aðild að málinu og kvaðst enga vitneskju hafa umfram það sem hann hafi þegar skýrt frá. Var því næst tekið fram að hann leyfði leit á heimili sínu og í bifreið, sem hann átti. Í skýrslu lögreglunnar um leitina kemur fram að hún hafi verið árangurslaus og henni lokið klukkan 00.22. Hafi áfrýjandi þá verið frjáls ferða sinna. Eins og að framan greinir var áfrýjanda haldið í fangaklefa í meira en tvær klukkustundir á meðan reynt var að ná í réttargæslumann að beiðni hans. Í ljósi þess að réttargæslumaður var ekki skipaður fyrr en 27. ágúst 1997 þegar skýrsla var næst tekin af áfrýjanda, svo og að ekki sýnist hafa verið talin ástæða til að taka frekari skýrslu af honum að kvöldi 3. sama mánaðar, hafa ekki verið færð viðhlítandi rök fyrir því að nauðsyn hafi borið til að halda honum í gæslu í umræddar tvær klukkustundir. Ber því að bæta honum þann miska, sem telja má að hann hafi hlotið vegna gæslu þessarar, enda verður ekki litið svo á að hann hafi á nokkurn hátt valdið eða stuðlað að þessari aðgerð.

Ekki verður talið að leitin á heimili áfrýjanda og í bifreið hans umrætt sinn hafi verið tilefnislaus eða framkvæmd með þeim hætti að það baki stefnda bótaskyldu. Á hinn bóginn hafa ekki verið færð rök fyrir því að ástæða hafi verið til þess að framkvæma aftur leit [...] 1997 á heimili áfrýjanda og í sameign fjöleignarhúss þess, er hann bjó í, en þetta var gert að undangenginni skýrslutöku, sem áfrýjandi hafði verið kvaddur til. Verður fallist á að honum beri miskabætur vegna þessarar aðgerðar þótt verjandi hans, sem þá hafði verið skipaður, væri viðstaddur og áfrýjandi samþykkti leitina.

Hinn [...] 1997 var lagt hald á skyrtu í eigu áfrýjanda, sem hann klæddist er atburðurinn [...] sama mánaðar varð. Haldlagning skyrtunnar var eðlilegur þáttur í rannsókn málsins. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn ekki fengið hana aftur þótt hann eigi rétt til þess samkvæmt 82. gr. laga nr. 19/1991 og hafi leitað eftir því. Hann krefst bóta að fjárhæð 7.500 krónur vegna skyrtumissisins, en þeim kröfulið hefur verið mótmælt sem ósönnuðum. Fallist er á að bæta beri áfrýjanda tjón hans vegna þessa og er það hæfilega ákveðið 3.000 krónur.

Ekki verður fallist á að áfrýjandi hafi fært sönnur að því að hann hafi beðið frekara fjártjón af þeim aðgerðum, sem raktar eru að framan. Er fram komið í málinu að hann samdi sjálfur við vinnuveitanda sinn um hálf laun í uppsagnarfresti, er hann lét af störfum sínum í spilasalnum, en þurfti ekki að vinna á þeim tíma. Er ekki sannað að hann hafi tapað launatekjum af framangreindum ástæðum.

Fallist er á forsendur héraðsdómara fyrir því að hafna kröfu um bætur vegna mismunar á lögmannskostnaði samkvæmt gjaldskrá og tildæmdum málskostnaði í sakamáli því, sem höfðað var á hendur áfrýjanda.

Ekki verður heldur fallist á að áfrýjandi hafi fært sönnur að því að lögreglan eða ákæruvald hafi með saknæmum hætti bakað honum tjón við rannsóknaraðgerðir eða höfðun opinbers máls á hendur honum, þótt ekki hafi verið tilefni til hennar. Á hann því ekki rétt til bóta á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar. Ekki eru því heldur rök til að beita 26. gr. laga nr. 50/1993.

Miskabætur til áfrýjanda vegna tveggja framangreindra tilvika eru hæfilega ákveðnar 50.000 krónur, auk tilgreinds fjártjóns hans 3.000 krónur. Ber því stefnda að greiða honum 53.000 krónur ásamt dráttarvöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði.

Vegna gjafsóknar áfrýjanda er ekki ástæða til að dæma stefnda til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, er renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði og ákveðst í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, A, 53.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní 1999 til greiðsludags.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, samtals 600.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2000.

Mál þetta var dómtekið 2. mars sl. en var endurflutt í dag og var dómtekið á ný.  Málið er höfðað með stefnu þingfestri 29. júní 1999 af A, [...], [...] gegn íslenska ríkinu til greiðslu skaðabóta, vaxta og málskostnaðar.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 4.297.878 krónur með dráttarvöxtum og vaxtavöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi 29. júní 1999 til greiðsludags.

Til vara að stefnanda verði tildæmd önnur lægri fjárhæð að álitum samkvæmt mati dómsins ásamt með sömu dráttarvöxtum og vaxtavöxtum og í aðalkröfu.

Þá er krafist málskostnaðar, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts auk dráttarvaxta og vaxtavaxta af málskostnaði samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. degi eftir dómsuppsögu til greiðsludags, hver sem úrslit málsins verða að öðru leyti.

Dómkröfur stefnda eru aðallega þær, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins.  Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar, en málskostnaður þá látinn niður falla.

Málavextir

Málavextir eru þeir að þann […] 1997 var stolið peningum og ávísunum samtals að fjárhæð 477.000 krónur úr spilasalnum […], […] í Reykjavík. Stefnandi, sem þá var starfsmaður spilasalarins og sá um daglegan rekstur, tilkynnti lögreglu um þjófnaðinn miðvikudaginn […] 1997 að höfðu samráði við atvinnurekendur sína og þegar ljóst var að eftirgrennslan þeirra á peningahvarfinu bar ekki árangur.  Gaf hann skýrslu um atburðinn, aðbúnað á staðnum og lýsingu á tveimur mönnum er verið höfðu á vettvangi á þeim tíma er stefnandi taldi þjófnaðinn hafa átt sér stað. 

Sama dag var stefnandi látinn reyna að bera kennsl á hugsanlega þjófa með því að skoða afbrotamannamyndasafn lögreglu.  Þá ræddi lögregla við annan eiganda staðarins hinn […] 1997 og tók skýrslu af stefnanda sem grunuðum 19. mars 1998.  Stefnandi heldur því fram að fyrirliggjandi rannsóknargögn gefi alls enga vísbendingu um af hverju stefnandi lá undir grun og að ekki hafi verið minnsta tilefni til útgáfu ákæru.  Lögreglumenn gáfu þær skýringar fyrir dómi að málið hefði verið tekið upp til rannsóknar gagnvart stefnanda sem grunuðum, tæpum þrettán mánuðum eftir þjófnaðinn, vegna máls sem sem upp kom [...] 1997, sem nánar verður greint frá hér á eftir.

Aðfaranótt sunnudagsins [...] 1997 var framið rán í spilasal [...] að [...] þar sem stefnandi var einn að störfum.  Lögregla var þegar kölluð á vettvang. Stefnandi lýsir atburðinum þannig að hann hafi verið að fara inn í eldhús og snúið baki í útidyr staðarins er hann fékk skyndilega þungt högg aftan á hnakkann svo að hann vankaðist og féll við.  Hann hafi því næst verið dreginn niður stiga sem lá úr eldhúsi niður í kjallara þar sem árásaraðili eða aðilar héldu áfram að láta höggin dynja á honum með hnefum og barefli meðan lyklar að peningaskiptivél staðarins voru teknir úr vasa hans, auk þess sem honum var hótað lífláti. Stefnandi ákvað að halda kyrru fyrir og veita ekki mótspyrnu, eins og honum hafði verið uppálagt af atvinnurekendum að gera ef aðstaða sem þessi kæmi upp. Mun ránsfengurinn hafa numið um 1.200.000 kr. 

Þegar árásin og ránið voru yfirstaðin og stefnandi taldi sig einan eftir í húsnæðinu ýtti hann á neyðarhnapp frá Securitas og skreið síðan upp í sal efri hæðarinnar.  Þar komu hjónin B og C að stefnanda.

Að kvöldi [...] 1997 gaf stefnandi skýrslu fyrir lögreglu um ránið sem framið var aðfaranótt þess dags.  Kl. 20.50 eða rúmri einni og hálfri klukkustund eftir upphaf skýrslugjafar var stefnanda tilkynnt um breytingu á réttarstöðu sinni og var hann í framhaldi af því handtekinn sem grunaður um aðild að ráninu án þess að ástæður fyrir því hafi verið tilgreindar eða skýrðar.  Gögn málsins skýra ekki þessa breytingu á réttarstöðu stefnanda.  Yfirheyrslum yfir stefnanda var frestað í framhaldi af því meðan reynt var að ná í réttargæslumann og stefnandi færður í fangageymslur lögreglu í rúmar 2 klst. þar til honum var sleppt, þar sem ekki náðist í lögmann.  Var stefnanda ekki skipaður réttargæslumaður fyrr en 8. september 1997 en hann hafði óskað eftir því hinn [...] 1997.

Í kjölfar ránsins og eftir að eigendur [...] fengu vitneskju um að stefnandi væri grunaður í málinu og um dóm sem stefnandi hafði hlotið árið 1992 sögðu þeir honum upp störfum, leystu hann fyrirvaralaust undan starfsskyldum og greiddu laun fyrir hálfan uppsagnarfrest eða 220.000 kr.  Á þetta uppgjör féllst stefnandi þar sem hann taldi sig bera nokkra ábyrgð á peningahvarfinu [...] 1997 með því að hafa ekki sýnt næga aðgæslu við vörslu peninganna sem hann bar ábyrgð á sem eins konar verkstjóri og gjaldkeri á vinnustaðnum.  Kveðst hann auk þess ekki hafa átt annarra kosta völ en að ganga að þessu samkomulagi til að tryggja framfærslu fjölskyldu sinnar. Í tvígang var framkvæmd húsleit á heimili stefnanda með hans samþykki, fyrst [...] 1997 og síðan [...] 1997.  Auk þess var framkvæmd leit í bifreið hans Ekkert fannst við þessar leitir sem gaf til kynna aðild stefnanda að ráninu eða fyrri þjófnaði.  Lögreglumenn gerðu ekki skýrslu um síðari húsleitina og niðurstöður hennar.

Ítarleg rannsókn fór fram á tréskafti sem stefnandi var barinn með, banka­viðskiptum hans, hreyfingum á greiðslukorti, gjaldeyrisviðskiptum, skyrtu sem stefnandi var í þegar ráðist var á hann, símanotkun, sög, sem tekin var við húsleit [...] 1997 og var eign nágranna og geymd í sameign hússins, peningakassa [...] og fleiru.  Auk þess fór fram sérstök læknisskoðun á stefnanda.  Heldur stefnandi því fram að ekkert hafi komið fram við þessar rannsóknir sem hafi gefið minnsta tilefni til þess að ætla að stefnandi væri bendlaður við ránið og því síður hafi nokkuð þar komið fram sem hefði átt að gefa tilefni til útgáfu ákæru.

Rannsókn var að mestu lokið í september 1997 en lauk endanlega í febrúar 1998, þegar niðurstöður rannsóknar á barefli og sög bárust frá Svíþjóð.  Rannsóknargögn voru send ríkissaksóknara með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 9. júní 1998.  Ríkissaksóknari endursendi lögreglustjóranum rannsóknargögnin með bréfi, dags. 25. júní 1998, og fól honum að höfða mál, „ef og þegar það er að fullu upplýst og skilyrði þar með til málshöfðunar”, eins og það er orðað í bréfinu.

Frekari rannsókn fór ekki fram en ákæra var loks gefin út 20. október 1998 og send Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi, dagsettu sama dag.  Í ákærunni var stefnandi ákærður fyrir fjárdrátt og rangan uppljóstur.  Vekur stefnandi athygli á því að engar kröfur borgararéttarlegs eðlis voru gerðar.  Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. desember 1998. Lögmaður stefnanda óskaði þá eftir því að ríkissaksóknari athugaði málið betur í þeirri von að ákæran yrði dregin til baka.  Á það var ekki fallist. 

Við meðferð málsins var gerð krafa um frávísun málsins, sem ekki var fallist á.  Aðalmeðferð málsins fór fram 9. febrúar 1998 í kjölfar yfirheyrslna fyrir dómi þann dag og 26. janúar 1998.  Dómur var kveðinn upp 11. febrúar 1998.  Þar var stefnandi sýknaður og allur sakarkostnaður lagður á ríkissjóð.  Í forsendum dómsins segir orðrétt um fyrri ákæruliðinn:

„Frásögn ákærða um peningahvarfið hefur verið stöðug og þykir ekki vera ótrúverðug í sjálfu sér.  Ákæruvaldið hefur heldur ekkert fært fram í málinu til þess að hnekkja henni.  Ber að sýkna ákærða af þessum ákærulið.”

Um síðari ákæruliðinn segir enn fremur orðrétt:

„Ákærði hefur fá upphafi verið stöðugur í fásögn sinni.  Ekkert af því sem komið er fram í lögreglurannsókn og málsmeðferð fyrir dómi rekst á frásögn hans af atburðinum og sumt þykir beinlínis geta stutt hana.  Ber því að sýkna ákærða af síðari ákæru­liðnum.”

Stefnandi kveður alla rannsókn málsins og málsmeðferð fyrir dómi, sem stóð yfir í hartnær tvö ár, hafa tekið mjög á sig og fjölskyldu sína.  Stefnandi kveður að í ljósi þess og í ljósi forsendna umrædds dóms hafi lögreglustjóranum í Reykjavík og ríkissaksóknara verið sendar orðsendingar, dags. 3. og 9. mars 1999, þar sem óskað var upplýsinga um það hvort dóminum yrði áfrýjað.  Þessum orðsendingum hafi ekki verið svarað og hafi stefnandi orðið að bíða þar til átta vikna áfrýjunarfrestur ákæruvaldsins var liðinn.  Ríkislögmaður hefur hafnað kröfum stefnanda um bætur.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að með rannsóknaraðgerðum lögreglu, svo sem handtöku, fangelsun, skýrslutökum, húsleitum, útgáfu ákæru með tilheyrandi máls­meðferð fyrir dómi og annarri háttsemi, hafi ríkið bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart honum og að öllum skilyrðum um bætur samkvæmt ákvæðum XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé fullnægt.  Eigi stefnandi lögvarinn rétt til skaðabóta úr hendi stefnda á grundvelli 175. 176. 177 og 179 gr. sömu laga, enda ljóst frá upphafi rannsóknar og slegið rækilega föstu við hana að stefnandi hafi verið alsaklaus af þeirri háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru, eins og hafi verið staðfest með afdráttarlausum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 11. febrúar 1999.  Frá upphafi rannsóknar og með ákæru var stefnandi hafður fyrir röngum sökum fullkomlega að ósekju.  Á því er byggt að lögregla hafi ekki gætt réttra aðferða við rannsókn málsins og að hún hafi brotið gegn ákvæðum VI. kafla laga nr. 19/1991, sbr. einkum 32., 33. gr. og 36. gr., og almennum rannsóknarákvæðum IX. kafla laganna. Enn fremur að brotið hafi verið gegn X., XI. og XII. kafla sömu laga varðandi hald á munum, leit og handtöku.  Rökstuddur grunur hafi aldrei verið fyrir hendi til aðgerða lögreglu gegn stefnanda heldur hafi lögregla byggt á huglægu mati og tilfinningu sem gengið hafi þvert á rannsóknargögn.  Sérstaklega er á því byggt að skilyrði 112. gr. laga nr. 19/1991 til útgáfu ákæru hafi ekki verið uppfyllt þar sem það sem fram var komið í málinu að rannsókn lokinni hafi hvorki verið nægilegt né líklegt til sakfellis.  Þá eigi stefnandi og rétt til miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en auk handtöku, frelsissviptingar við rannsókn málsins og tilefnislausra húsleita, hafi málsmeð­ferðin öll haft mikil óþægindi og mikla röskun í för með sér fyrir stefnanda og haft víðtæk áhrif á atvinnu, einkalíf, æru og persónu hans.  Hafi hann hugleitt sjálfsvíg og hjónaband hans hafi verið í hættu.  Kröfur sínar byggir stefnandi jafnframt á almennu skaðabótareglunni.  Sérstaklega er vísað til þess að lögreglu og ríkissaksóknara hafi augljóslega orðið á alvarleg mistök í starfi sem bitnað hafi harkalega á stefnanda. Enn fremur er vísað um málavexti, málsástæður og lagarök til greinargerðar á dskj. nr. 11.

Stefnandi telur að rannsókn málsins hafi frá upphafi litast af fordómum í sinn garð sem helgist af því að hann hafi afplánað refsingu á Litla-Hrauni um þriggja ára skeið fyrir brot gegn 211. gr. alm. hgl.  Þannig hafi rannsókn málsins verið beint gegn sér sem grunuðum strax hinn [...] 1998 vegna ránsins aðfaranótt sama dags þrátt fyrir að ekkert hefði komið fram sem gæfi minnstu vísbendingu um sekt stefnanda.  Virðist honum sem rannsóknarar málsins hafi gengið út frá sekt sinni sem vísri frá upphafi rannsóknar. Hafi hann nánast verið lagður í einelti við rannsóknina, gerður tortryggilegur með leiðandi spurningum og röngum ályktunum við yfirheyrslur og fleiru og rannsóknin þannig almennt brennimerkt af einhliða og fyrirframgefinni niðurstöðu rannsóknara.  Í þessu sambandi vísar stefnandi almennt til skýrslna sem lögregla tók af stefnanda.  Þá hafi lögreglan ritað villandi skýrslur, lagt vitnum orð í munn og samið beinlínis rangar upplýsingaskýrslur, eins og málsmeðferð fyrir dómi hafi staðfest.  Enn fremur hafi stefnanda verið haldið föngnum í kjölfar ránsins hinn [...] 1997 og ekki átt kost á læknisaðstoð vegna áverka sem hann hlaut við það fyrr en tæpum þremur tímum eftir að það átti sér stað.  Læknisvottorð og vottorð geðhjúkrunar­fræðings staðfesti hins vegar að stefnandi hafi orðið fyrir talsverðum áverkum við árásina og þurft á áfallahjálp að halda.  Þá telur stefnandi að upplýsingar sínar og skýringar hafi verið metnar ótrúverðugar, þó svo að alls ekkert sem komið hafi fram við rannsóknina hafi bendlað hann við málin og frásögn hans verið staðfest og studd af vitnum og ekkert misræmi hafi komið fram.  Jafnvel eftir dómsuppsögu hafi ákæruvaldið ekki tekið afstöðu til hugsanlegrar áfrýjunar og hafi átta vikna áfrýjunarfrestur runnið út án þess að orðsendingum þar að lútandi væri svarað.

Stefnandi byggir á því að rannsókn lögreglu, með þeim hætti sem henni var hagað og sett fram með skriflegum skýrslum, hafi verið til þess fallin að leiða til tilefnislausrar ákæru sem ekki fullnægði skilyrðum 112. gr. laga nr. 19/1991.  Bæði ríkissaksóknara og saksóknara við embætti lögreglustjórans í Reykjavík hafi þó verið í lófa lagið að kanna málið nánar og hafi ekki átt að geta dulist með almennri skoðun á rannsóknargögnum að ekki voru efni til útgáfu ákæru.

Til viðbótar framanrituðu byggir stefnandi skaðabóta- og miskakröfur sínar á því að lögreglumenn hafi við yfirheyrslur fyrir dómi hinn 26. janúar 1999 enn reynt að gera hann tortryggilegan með órökstuddum og röngum fullyrðingum, meðal annars um fjárhagsstöðu hans, og huglægri afstöðu sem hafi ekki átt við rök að styðjast eða rannsóknar­gögn.  Í kjölfar yfirheyrslna yfir þeim, sem staðfest hafi fordóma þeirra í garð stefnanda, hafi einhver þeirra, sem hafi mátt vita að rannsókn þeirra var aldrei til sakfellingar fallin, veitt blaðamanni Dagblaðsins upplýsingar um málið sem hafi leitt til afar meiðandi blaðaumfjöllunar um stefnanda á forsíðu og baksíðu blaðsins hinn 29. janúar 1999.  Þar hafi huglæg afstaða lögreglumannanna opinberast á nýjan leik. Heimildarmaðurinn dragi enn í efa atvikalýsingar stefnanda þrátt fyrir að vitni hafi staðfest hana sem og læknisvottorð og önnur rannsóknargögn.  Til málsmeðferðar fyrir dómi og ærumeiðandi blaðaumfjöllunar hefði aldrei komið ef gætt hefði verið hlutlægni við rannsókn málsins og réttra aðferða.

Stefnandi tekur fram að hann hafi aldrei komist í kast við lögin eftir að hann var dæmdur fyrir brot gegn 211. gr. alm. hgl. nr. 19/1940 árið 1992 fyrir tilviljunar­kennt afbrot framið undir áhrifum lyfja og áfengis.  Þvert á móti hafi hann tekið á sínum vandamálum, lokið stúdentsprófi í afplánun á Litla-Hrauni, hafi síðan stofnað fjölskyldu, hafi eignast tvö börn og hvarvetna komið sér vel síðan og reynst þjóðfélaginu nýtur þegn.  Rannsókn lögreglu og tilefnislaus ákæra hafi verið til þess fallin að leggja líf stefnanda í rúst.

Ljóst megi vera að miskatjón stefnanda sé mjög mikið.  Krafan er áætluð 3.000.000 kr. en til vara er krafist annarrar lægri fjárhæðar að álitum.  Þá er gerð krafa um töpuð vinnulaun að fjárhæð 1.000.000 kr., en stefnandi hafi misst vinnu sína og hafi ekki fengið aðra vinnu eða jafn vel launaða á meðan málsmeðferð stóð yfir honum sem sakborningi án rökstudds tilefnis.  Þá hafi lögreglan lagt hald á skyrtu stefnanda og hafi ekki skilað henni enn þrátt fyrir ákvæði 82. gr. laga nr. 19/1991.  Meti stefnandi tjón sitt vegna skyrtunnar á 7.500 kr.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli stefnanda þann 11. febrúar 1999, hafi ríkissjóður verið dæmdur til að greiða lögmanni stefnanda málsvarnarlaun að fjárhæð 80.000 krónur auk virðisaukaskatts, samtals 99.600 krónur.  Vinnutímar undirritaðs verjanda hans við málið voru 42 og nemur þóknun skv. gjaldskrá að meðtöldum virðisaukaskatti 389.978.  Mismunur nemur 290.378 kr.  Telur stefnandi sig eiga rétt á að koma skaðlaus frá aðgerðum lögreglu og ákæruvalds og beri því að taka tillit til vangreiddrar lögmannsþóknunar í máli þessu. Fjárhæð aðalkröfu sé samtala ofannefndra kröfuliða.  Kröfugerðin miði að því að gera stefnanda eins settan fjárhagslega og ef til aðgerða lögreglu, ákæru, blaðaumfjöllunar og dómsmeðferðar hefði ekki komið.  Varakrafa um bætur að álitum byggir á sömu málsástæðum og lagarökum.

Mál þetta er rekið sem gjafsóknarmál samkvæmni ákvæðum 178. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, þar sem kveðið er á um að veita skuli gjafsókn í máli sem rekið sé til heimtu skaðabóta skv. XXI. kafla l. nr. 19/1991.

Þá byggir stefnandi á því að málsmeðferðin öll hafi brotið í bága við 5. og 6. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu og 9., 14. og 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi nr. 10/1979.  Einnig byggir stefnandi á að brotið hafi verið í bága við persónufrelsisákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 5. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.  Loks styðst bótakrafa stefnanda við lögreglulög nr. 90/1996, einkum 1., 13., 16. og 22. gr.  Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum.  Um málskostnaðarkröfu stefnanda vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.  Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta og skila virðisaukaskatti vegna starfa sinna.  Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og er honum því nauðsyn að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Málsástæður stefnda og lagarök

Eins og ítarlega sé rakið í málsskjölum hafi ákæruvaldið talið ástæðu til þess að ákæra stefnanda í máli þessu.  Samkvæmt 112. gr. l. nr. 19/1991 skal ákærandi taka ákvörðun um saksókn eða niðurfellingu eftir að hafa gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið.  Í máli stefnanda hafi þessi ákvörðun verið tekin á grundvelli fyrirliggjandi rannsóknargagna sem ákærandi taldi væntanlega nægja til sakfellingar.  Hafa beri það í huga að samkvæmt ofannefndri 112. gr. oml. sé ákæranda veitt matskennd heimild til þess að ákveða hvenær sækja skuli mann til saka eða ekki, á grundvelli fyrirliggjandi rannsóknargagna.  Á þetta mat ákæranda hafi reynt í úrskurði héraðsdómara í sakamálinu sjálfu, eins og rakið sé hér að framan í málavaxtalýsingu.  Héraðsdómari hafi úrskurðað að það ætti undir ákæruvaldið eitt hvort forsendur væru til ákæru eða ekki.  Jafnframt hafi héraðsdómarinn talið að rannsókn máls stefnanda hefði uppfyllt hlutlæg skilyrði 112. gr.

Því er mótmælt að ákærandi hafi tekið ákvörðun um ákæru á grundvelli annarra sjónamiða en málefnalegra og faglegra.  Sýknudómur héraðsdóms í sakarmáli stefnanda breyti hér engu um.  Fullyrðingum stefnanda um ómálefnalegar og jafnvel annarlegar hvatir er harðlega mótmælt sem órökstuddum og ósönnuðum.

Stefndi telur að úrslit í dómsmáli þessu ráðist fyrst og fremst af túlkun á 175. og 176. gr. oml.  Að vísu byggi stefnandi á 177. og 179. gr. en þær greinar sýnist ekki eiga við í máli þessu. 177. gr. oml. eigi við um þann sem saklaus hefur hlotið refsidóm, þolað refsingu eða upptöku eigna.  Ekkert af þessu eigi við um stefnanda. 179. gr.oml. eigi heldur ekki við og muni stefndi því ekki taka sérstaka afstöðu til hennar, frekar en til 177. gr.

Vakin er athygli dómsins á því að 175. gr. oml. hafi breyst aðeins með lögum nr. 36/1999 en lögin hafi tekið gildi 1. maí sl.  Stefndi telur að eldri útgáfa 175. gr. eigi við um úrlausn máls þessa og mun byggja á því. 176. gr. oml. sé óbreytt efnislega.

Kröfur um bætur samkvæmt XXI. kafla oml., sbr. 175. gr. s.l. megi taka til greina ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

a.   sakborningur hafi ekki með vísvitandi eða stórvægilegu, gáleysislegu, ólögmætu framferði valdið þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á, o.s.frv., og að

b. sönnun hafi ekki m.a. tekist um háttsemi eða sakborningur hafi verið dæmdur sýkn af dómi, enda megi fremur telja hann líklegan til að vera saklausan af háttseminni en sekan.

Stefndi byggir á því að stefnandi uppfylli ekki þau skilyrði sem tilgreind eru í 175. gr. oml. eða að slíkur vafi sé á því að skilyrðum þessum sé fullnægt að ekki sé hægt að taka bótakröfu stefnanda til greina.  Í þessu sambandi er á því byggt að dómari eigi í bótakröfumáli að meta sjálfstætt, út frá gögnum málsins, um líkindi sektar eða sakleysis. B-liður 1. tl. 1. mgr. 175. gr. geri beinlínis ráð fyrir þessu mati héraðsdómara, þrátt fyrir að fyrir liggi t.d. sýknudómur í máli viðkomandi.  Stefndi telji að verulegar líkur séu á því að stefnandi hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir og þar af leiðandi eigi hann ekki rétt á bótum samkvæmt útilokunarreglum 175. gr.  Samkvæmt framansögðu eigi sýknudómur stefnanda ekki að skipta máli í þessu sambandi því sönnunarreglur í opinberum málum séu strangari en í einkamálum og beinlínis ráð fyrir því gert í 175. gr. oml.

Samkvæmt 176. gr. oml. megi dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, o.s.frv. ef lögmæt skilyrði hafi ekki verið fyrir hendi eða, sbr. b-lið 176, gr. oml., „ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.”

Stefndi byggir á því að öll lögmæt skilyrði til handtöku og til leitar á stefnanda hafi verið fyrir hendi.  Rannsóknar og ákæruferli í máli stefnanda sé lýst í smáatriðum í málsskjölum.  Dómari í ákærumáli stefnanda hafi beinlínis þurft að taka afstöðu í úrskurði til lögmætra skilyrða varðandi feril málsins alls.  Dómari hafi ekki komist að þeirri niðurstöðu að lögmæt skilyrði hefðu brostið við aðgerðir í málinu.  Stefndi telji því að eðlilega og lögformlega hafi verið staðið að rannsókn og ákæru í máli stefnanda í öllum atriðum.

Um tilefni til handtöku, rannsóknar og ákæru í máli stefnanda vísist til samantektar embættis lögreglustjórans í Reykjavík á dskj. nr. 36. Á bls. 3.- 4. í umsögninni séu tekin saman þau atriði í frásögn stefnanda sem hafi gert framburð hans ótrúverðugan.  Ekki sé annað að sjá, en að ærið tilefni hafi verið til aðgerða og erfitt sé að sjá hvernig rannsakendur hafi átt að bera sig öðru vísi að í málinu.  Hér skipti meginmáli, að ýmislegt hafi bent til sektar stefnanda þótt ekki hafi síðar tekist að sanna það fyrir dómi.  Tilefni til aðgerða, eins og á stóð, hafi því verið nægjanlegt.

Því er mótmælt að málsferill í máli stefnanda hafi verið framkvæmdur á „óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt”, sbr. b-lið 176. gr.  Aftur er vísað til málsskjala, en hvergi komi fram að rannsakendur hafi beitt óhefðbundnum aðferðum við rannsóknina.  Fullyrðingum um annað er mótmælt sem ósönnuðum. Allt sem gert hafi verið hafi verið talið nauðsynlegt í þágu rannsóknar og innan þess lagaramma sem íslensk lög geri ráð fyrir.  Enn og aftur sé bent á það að sýkna í sakarmáli hafi ekki úrslitaáhrif á það hvort eðlilega hafi verið staðið að framkvæmd máls.  Framkvæmdina verði að skoða sjálfstætt og leggja mat á hvort tilefni hafi verið til aðgerða á hverjum tíma og hvernig að hlutum var staðið.  Stefndi sé óhræddur við slíka endurskoðun.

Tölulegri kröfugerð stefnanda er mótmælt í heild sinni.

Skaðabótakrafa stefnanda sé studd takmörkuðum gögnum og því órökstudd.  Þeim lið í bótakröfu stefnanda sem varði lögmannsþóknun vegna meðferðar sakarmáls hans í héraði verði að mótmæla.  Stefnandi eigi ekki rétt á frekari málsvarnarlaunum en dómari úrskurðar honum í dómi sínum.  Stefnda sé ekki ljóst á hvaða lagareglu eða fordæmum stefnandi byggir kröfulið þennan.  Vinnulaunakrafa sé órökstudd og henni mótmælt sem ósannaðri.  Sama megi segja um tjón vegna meints skyrtutaps. Því er mótmælt sem ósönnuðu að stefnandi hafi orðið fyrir miskatjóni.

Niðurstaða

Stefnandi byggir kröfur sínar m.a. á 175 og 176. gr. laga nr. 19/1991.  Með lögum nr. 36/1999 var 175. gr. laganna breytt, sbr. 42. gr. laga nr. 36/1999.  Í ljósi þess að atburðir þeir sem um er fjallað í máli þessu gerðust fyrir gildistöku laga nr. 36/1999 verður við úrlausn málsins tekið mið af 175. gr. eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 36/1999.

Með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 20. október 1998, var stefnanda gefið að sök að hafa hinn 22. febrúar 1997 dregið sér fé úr peningakassa spilasalarins [...] að fjárhæð 447.000 krónur og jafnframt að hafa aðfararnótt [...] 1997 dregið sér fé frá sama aðila að fjárhæð 1.200.500 krónur, kallað til lögreglu og tilkynnt að tveir menn hafi framið þar rán, þeir hafi slegið stefnanda og farið með hann í kjallara spilasalarins, tekið af honum lykla og tekið peninga úr peningaskiptivél spilasalarins og haft á brott með sér.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 11. febrúar 1999 var stefnandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.  Í dóminum segir m.a. varðandi fyrri ákæruliðinn að frásögn ákærða um peningahvarfið hafi verið stöðug og þyki ekki vera ótrúverðug í sjálfu sér.  Ákæruvaldið hafi heldur ekkert fært fram í málinu til þess að hnekkja henni og var stefnandi sýknaður af þessum ákærulið.  Varðandi síðari ákæruliðinn segir m.a. í dóminum að ákærði hafi frá upphafi verið stöðugur í frásögn sinni.  Ekkert af því sem komið sé fram við lögreglurannsókn og málsmeðferð fyrir dómi rekist á frásögn hans af atburðunum og sumt þyki beinlínis geta stutt hana.  Var stefnandi einnig sýknaður af síðari ákæruliðnum.

Samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991 má því aðeins taka til greina kröfu um bætur að sakborningur hafi ekki með vísvitandi eða stórvægilegu, gáleysislegu, ólögmætu framferði valdið þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á og jafnframt að hann megi fremur telja líklegan til að vera saklausan af háttseminni en sekan, hafi hann verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum dómi, eins og hér á við.

 Við yfirheyrslu hjá lögreglu 26. febrúar 1997 bar stefnandi að hann hefði sett peninga og ávísanir að fjárhæð 477.000 krónur í búnt.  Taldi hann sig hafa sett það í skúffu í svonefndu búri í afgreiðslusal spilasalarins en þegar hann hafi uppgötvað að peningabúntið var horfið hafi hann í fyrstu talið að hann hefði lagt það frá sér einhversstaðar annars staðar.  Glerveggur nam við borðplötuna nema þar sem afgreiðsla fer fram.  Þetta bil var talið það lítið að ekki væri unnt að smeygja hendi undir það og fara ofan í skúffuna sem þarna var, en stefnandi kvaðst hafa sannreynt að það hafi verið mögulegt en erfitt og þyrfti langan og nettan handlegg til.  Stefnandi kvaðst hafa þurft að bregða sér frá um stund og hafi enginn verið til eftirlits í salnum á þeim tíma.  Fyrir dómi bar hann að ef hann hefði verið með peningana hefðu tveir menn sem voru í salnum getað séð hann.  Hjá lögreglu taldi stefnandi sig hafa séð þessa tvo menn áður en vissi ekki deili á þeim.  Var hann látinn reyna að bera kennsl á þá með því að skoða afbrotamyndasafn lögreglu en það bar ekki árangur.

Fyrir liggur að umrædd peningafjárhæð hvarf meðan stefnandi var einn að störfum í spilasalnum.  Þegar framanritað er virt, svo og þau gögn málsins sem snerta þennan atburð, þykir ekkert það hafa komið fram er sýni fram á að stefnanda megi fremur telja líklegan til þess að vera saklausan af nefndri háttsemi sem hann var ákærður fyrir en sekan.

Varðandi síðari ákæruliðinn segir m.a. í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að ákærði hafi frá upphafi verið stöðugur í frásögn sinni.  Ekkert af því sem komið sé fram við lögreglurannsókn og málsmeðferð fyrir dómi rekist á frásögn hans af atburðunum og sumt þyki beinlínis geta stutt hana.

Samkvæmt gögnum málsins verður að telja að stefnandi hafi verið stöðugur í frásögn sinni af atburðum hinn [...] 1997 um að á hann hefði verið ráðist þar sem hann var að störfum og hann fengið þungt högg aftan á höfuðið og hann síðan verið dreginn niður stiga sem lá niður í kjallara og þar laminn með hörðum hlut og honum hótað lífláti lægi hann ekki kyrr.  Meðan á þessu stóð hafi lyklar verið teknir úr vasa hans sem gengu að hurð á afgreiðslu og að peningaskiptivél.  Hann kvaðst ekki hafa séð árásarmennina.

Samkvæmt skýrslu lögreglumanns er kom fyrstur á vettvang var stefnandi með nokkra áverka og var mjög brugðið.  Þá bar fatnaður hans einnig merki um átök.  Tvö vitni sem komu að stefnanda og kölluðu til lögreglu báru að hann hefði verið hræddur og miður sín og hafi verið með áverka á hægra auga.  Ekki urðu vitnin vör við neitt óvenjulegt áður en þau gengu inn í spilasalinn.

Við komu á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur skýrði stefnandi frá því að hann hafi orðið fyrir árás í spilasalnum.  Hann sagðist hafa fengið högg á hægra gagnauga og einnig verið sleginn í vinstri framhandlegg og á vinstri fótlegg.  Taldi hann sig hafa misst meðvitund stutta stund.  Í vottorði D læknis segir að áverkar sem stefnandi hlaut geti vel hafa komið eftir þá atburði eins og stefnandi lýsti þeim.

Enda þótt framangreint þyki styðja frásögn stefnanda af atburðum hefur af hálfu stefnda m.a. verið bent á atriði sem stefndi telur gera frásögn stefnanda ótrúverðuga.  Er á það bent að á hann hafi verið ráðist  og honum dröslað niður stiga án þess að hann hafi séð árásarmennina.  Hann hafi ekki reynt að verjast árásarmönnunum,  ekki reynt að líta við til að geta þekkt þá aftur.  Erfitt sé að skýra áverka í andliti stefnanda og framan á fótum ef höggin frá árásarmönnunum komu aftan frá.  Miðað við að stefnandi hafi fengið högg á hægra gagnauga og hafi verið sleginn í vinstri framhandlegg og framan á vinstri fótlegg hefði hann átt að sjá árásarmanninn.  Á slysadeildinni hafi stefnandi ekki lýst höggum aftan á höfuðið eða aftan á líkamann.  Þá er bent á að ótrúverðugt sé að atburðarrásin, eins og stefnandi lýsir henni, hafi aðeins tekið 6 til 7 mínútur.  Þá er á það bent að eftirlíking af myndbandsupptökuvél hafi verið á staðnum og ekki komið fram annað en að einungis starfsmenn og eigendur hafi vitað að vélin var ekki virk.

Þegar virt er það sem að framan er rakið svo og litið til gagna málsins er það niðurstaða dómsins að allmargt komi þar fram sem geri frásögn stefnanda ótrúverðuga þannig að ekki þykir sýnt fram á í máli þessu að stefnandi hafi fremur verið saklaus en sekur af þeirri háttsemi er honum var gefin að sök.  Skilyrði b. liðar 175. gr. laga nr. 19/1991 telst því ekki uppfyllt og því ekki efni til að fallast á kröfu stefnanda um bætur samkvæmt 176. gr. sömu laga.   Ekki verður séð að ákvæði 177. gr. og 179. gr. laga nr. 19/1991 eigi hér við.

Fyrir liggur að allítarleg lögreglurannsókn fór fram.  Samkvæmt 112. gr. laga nr. 19/1991 á það alfarið undir ákæruvaldið að meta fram komin rannsóknargögn og meta hvort sækja skuli mann til sakar eða ekki.  Þótt stefnandi hafi í sakamálinu verið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins getur það ekki orðið grundvöllur bótaskyldu enda liggur ekkert fyrir um það að stefnandi hafi verið hafður fyrir röngum sökum fullkomlega að ósekju, eins og hann heldur fram.

Auk þess að byggja bótakröfur sína á ákvæðum X. kafla laga nr. 19/1991 byggir stefnandi kröfur sínar á almennu skaðabótareglunni og miskabótakröfu á 26. gr. skaðabótalaga.

Ljóst er að grunur féll á stefnanda við rannsókn málsins.  Hins vegar þykir ekki sýnt fram á að stefnandi hafi verið lagður í einelti við rannsóknina svo sem hann heldur fram. Með öllu er ósannað hver var heimildarmaður að frétt þeirri er birtist í DV 29. janúar 1999.  Þá þykir í máli þessu heldur ekki hafa verið sýnt fram á að brotið hafi verið gegn 67. gr. stjórnarskrárinnar um persónufrelsi eða 5. og 6. gr. um mannréttindasáttmála Evrópu eða að brotið hafi verið gegn Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi nr. 10/1979.

Samkvæmt framansögðu þykir ekki hafa verið sýnt fram á í máli þessu að rannsóknaraðilar eða ákæruvald hafi farið offari í máli þessu eða að þeir hafi bakað stefnanda tjón með saknæmum eða ólögmætum hætti.  Ber því að hafna kröfum stefnanda um miskabætur og bætur vegna tapaðra vinnulauna. 

Stefnandi krefst bóta vegna tjóns á skyrtu, 7.500 krónur.  Ekki liggur fyrir að stefnandi hafi gert kröfu um að fá afhenta skyrtu þá er lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.  Í stefnu áskilur stefnandi sér rétt til þess að leggja fram gögn varðandi þennan kröfulið en það hefur ekki verið gert.  Krafa um bætur vegna skyrtu telst órökstudd og er henni hafnað. 

Málsvarnarlaun vegna sakamálsins nr. 991/1998:  Ákæruvaldið gegn A voru ákvörðuð með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 1999.  Engin heimild er til þess að endurmeta þessa ákvörðun dómsins og er því alfarið hafnað kröfu stefnanda um bætur vegna vangreiddrar lögmannsþóknunar, enda liggur ekkert fyrir í málinu um að stefnandi hafi greitt nefnda fjárhæð fyrir vinnu lögmanns síns við vörn í sakamálinu.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af máli þessu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Atla Gíslasonar hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Atla Gíslasonar hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.