Print

Mál nr. 334/2003

Lykilorð
  • Skattur
  • Stimpilgjald
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. febrúar 2004.

Nr. 334/2003.

Haraldur Böðvarsson hf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

 

Skattar. Stimpilgjald. Stjórnarskrá.

H, sem selt hafði fiskiskip úr landi, var á grundvelli laga nr. 36/1978 gert að greiða stimpilgjald af afsali. Innti H greiðsluna af hendi með fyrirvara um endurgreiðslu, sem hann síðan krafðist á grundvelli þess að álagningin bryti gegn ákvæðum 65. og 72. gr. stjórnarskrár. Vísaði H í því sambandi til þess að með 7. og 8. tl. 1. gr. laga nr. 157/1998, um breytingu á lögum nr. 36/1978, hafi skylda til greiðslu stimpilgjalds vegna sölu á kaupskipum úr landi verið felld niður. Talið var að játa yrði löggjafanum víðtækt vald til að ákvarða, hvaða atriði skuli ráða af eða á um skattskyldu. Þá þótti undanþáguheimild laganna ekki brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Kröfum H var samkvæmt þessu hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2003. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.841.744 krónur með „vöxtum skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda“ frá 14. mars 2001 til 17. maí 2002, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Haraldur Böðvarsson hf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2003.

         Mál þetta, sem dómtekið var 14. þessa mánaðar, er höfðað 11. desember 2002 af Haraldi Böðvarssyni hf., Bárugötu 8-10, Akranesi, gegn íslenska ríkinu.

         Stefnandi krefst þess, að stefnda verði gert að greiða stefnanda 2.841.744 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, frá 14. mars 2001 til 17. maí 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

         Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

I.

         Með afsalsgerningi 14. mars 2001 afsalaði stefnandi nóta- og togveiði­skipinu Óla í Sandgerði, skipaskrárnúmer 2334, til norsku útgerðarinnar Ökland Fiskebåtsrederi í Bergen. Söluverð skipsins var 73.000.000 norskar krónur. Vegna sölu skipsins úr landi krafði stefndi stefnanda um greiðslu stimpil­gjalds af afsalinu, sem nam 0,4% af kaupverði skipsins, eða 2.841.744 krónum. Innti stefnandi greiðsluna af hendi 14. mars 2001 með fyrirvara um endurgreiðslu.

         Með bréfi, dagsettu 17. apríl 2002, gerði stefnandi kröfu um endurgreiðslu   stimpilgjaldsins með þeim rökum, að álagning stimpilgjalda á fiskiskip, sem seld eru úr landi, brjóti gegn ákvæðum 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Vísaði stefnandi til þess, að samkvæmt lögum nr. 36/1978 um stimpilgjald, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 157/1998, séu afsöl skipa, stærri en 5 brúttósmálestir, stimpilskyld, en ekki afsöl fyrir annað lausafé, svo sem loftför. Þegar komi að sölu lausafjár úr landi, séu afsöl vegna kaupskipa sérstaklega undanþegin stimpilgjaldi, auk þess sem við sölu kaupskipa og loftfara, til og frá landi, séu önnur skjöl, sem kaupunum tengjast, svo sem skuldabréf, einnig undanþegin stimpilgjaldi.  Stefndi hafnaði kröfunni með bréfi  30. maí 2002 með þeim rökum, að frestur til að kæra ákvörðun sýslumanns, samkvæmt 13. gr. laga nr. 36/1978, um stimpilgjald, væri liðinn.

II.

         Stefnandi byggir á því, að álagning stimpilgjalds, vegna sölu á lausafé úr landi, virðist sérstaklega beint gegn stærri fiskiskipum, en afsöl vegna sölu á öðru lausafé úr landi séu ekki stimpilskyld, þ.m.t. afsöl vegna sölu á öðru skráningarskyldu lausafé, svo sem bifreiðum, kaupskipum og loftförum. Bendi stefnandi á, að með lögum nr. 157/1998, um breytingu á lögum nr. 36/1978 um stimpilgjald, hafi skylda til greiðslu stimpilgjalds vegna sölu á kaupskipum úr landi verið felld niður, auk þess sem við sölu kaupskipa og loftfara, til og frá landi, hafi önnur skjöl, sem kaupunum tengjast, svo sem skuldabréf, einnig verið undanþegin stimpilgjaldi. Undir kaupskip falli öll skip, sem notuð séu til vöru- eða farþegaflutninga, svo sem fraktskip, olíuskip, ferjur og skip, sem notuð séu til skoðunarferða.

         Við mat á mismunun að þessu leyti verði einnig að hafa í huga, að stimpilgjald sé skattur, sem lagður sé á viðskipti, en ekki skattlagning á einstaka muni eða eignir, svo sem fasteignaskattur. Stimpilgjald sé þannig skattur, sem lagður sé á tiltekin viðskipti og viðskipti með tiltekna hluti, en skilyrði skattlagningar sé, að viðskipti eða útgáfa á viðskiptaskjölum eigi sér stað. Enginn munur sé á viðskiptum með kaupskip á milli landa og viðskiptum með fiskiskip milli sömu landa. Reyndar sé sáralítill munur á viðskiptum með allt stærra og einstaklega ákveðið lausafé á milli landa, hvort sem það sé skráningarskylt eða ekki. Megi spyrja hver sé t.d. munurinn á viðskiptum með stóran byggingarkrana, umfangsmiklar fiskvinnsluvélar, véla­samstæður, bifreiðar, kaupskip, ferjur og flugvélar milli Íslands og Noregs, sem réttlæti, að þessi viðskipti séu ekki skattlögð, en viðskipti með skip, sem eru stærri en 5 brúttósmálestir, önnur en kaupskip, milli sömu landa, séu skattlögð með sérstökum hætti. Þá þurfi jafnframt að hafa í huga, að einu viðskiptin á milli landa, sem séu skattlögð sérstaklega, séu viðskipti með umrædd skip. Feli ofangreint fyrirkomulag í sér mismunun milli eigenda fiskiskipa og eigenda kaupskipa og mismunun milli eigenda fiskiskipa og eigenda annars lausafjár. Fái stefnandi ekki séð hvaða lögmætu sjónarmið geti búið að baki þeirri mismunun, sem réttlætt geti mismunandi skattlagningu að þessu leyti. Uppfylli ofangreint fyrirkomulag á skattlagningu ekki skilyrði ákvæða 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar, sem talin séu tryggja, að skattar verði ekki með gildum hætti lagðir á og innheimtir, nema eftir almennum, efnislegum mælikvarða, þannig að gætt sé jafnræðis. Í því felist, að skattur verði ekki heimtur hjá tilteknum aðila, þannig að öðrum, sem eins eða líkt stendur á hjá, sé sleppt við sömu skattlagningu. Stefnandi byggir jafnframt á því, að hvorki í lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 157/1998, né greinargerð með ofangreindum lögum, sé að finna rök eða réttlætingu fyrir slíkri mismunun, en ætla verði, að löggjafanum hefði verið nauðsynlegt að færa fram fullnægjandi rök eða sjónarmið fyrir því.

         Krefst stefnandi endurgreiðslu á umræddri greiðslu með vísan til l. gr. laga nr. 2/1995 um endurgreiðslu á ofteknum sköttum og gjöldum. Krafa stefnanda um vexti frá greiðsludegi til 17. maí 2002 er studd með vísan í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, og dráttarvaxtakrafa styðjist við  III. kafla laga nr. 38/2001.

 

         Af hálfu stefnda er á því byggt, að álagning umrædds stimpilsgjalds sé reist á 1. mgr. 3. gr. laganna um stimpilgjald, en þar segi, að afsöl fyrir fasteignum hér á landi og skipum, sem hér eru skrásett, og önnur skjöl, er veita eða framselja réttindi yfir slíkum eignum, séu ávallt stimpilskyld hér á landi. Samkvæmt 16. gr. sömu laga skuli, fyrir stimplun afsalsbréfa fyrir fasteignum og skipum yfir 5 brúttósmálestum, greiða 4 krónur fyrir hvert byrjað þúsund af verði viðkomandi eignar og samkvæmt 5. mgr. sömu greinar skuli útdrættir úr embættisbókum eða vottorð embættismanna, félaga eða einstakra manna, er sýna eigendaskipti að skipi eða eru notuð sem afsöl, stimplast sem afsöl. Sé engin undanþága í stimpillögum frá gjaldskyldu umþrætts stimpilgjalds.

         Í 35. gr. stimpillaganna, eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 157/1998, hafi pósitívt verið tekið fram hvaða skjöl yrðu stimpilfrjáls og þau talin upp í 10 liðum. Fyrir breytinguna hafi greinin kveðið á um, að fjármálaráðuneytið myndi skera úr um, hvort ríkissjóður skyldi greiða stimpilgjöld af skjölum, sem hann snerti.

         Með lögum 157/1998 hafi löggjafarvaldið ákveðið hvaða skjöl yrðu stimpilfrjáls og hver ekki. Hafi löggjafarvaldið ákveðið, að afsöl vegna kaupskipa yrðu stimpilfrjáls, en ekki afsöl vegna fiskiskipa. Hafi hér legið til grundvallar almennur, efnislegur mælikvarði og fyllsta jafnræðis verið gætt. Í þessu sé ekki fólgin nein mismunun. Þeir, sem eins sé ástatt um, njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur. Ekki sé því um neitt brot á 65. gr. eða 72. gr. stjórnarskrárinnar að ræða.

         Rétt sé að taka fram, að löggjafanum sé heimilt innan vissra marka að tilgreina ákveðna mismunun í skattalögum. Sem dæmi megi nefna, að skattalögin geri ráð fyrir mismunun í skattlagningu t.d. eftir fjölskyldustærð, aldri, búsetu, tekjum o.fl. Af því að stimpilgjald leggst á viðskipti, sé í dæmaskyni bent á annan skatt, sem leggist einnig á viðskipti, virðisaukaskatt, en í 12. gr. virðisaukaskattslaganna sé tilgreint hvað teljist ekki til veltu. Ljóst sé, að færu dómstólar að endurmeta slíkar lögbundnar undanþágur, eins og um ræði í máli þessu, yrðu undanþágur frá skattskyldu í uppnámi. Sé ákvörðun allra slíkra undanþága að sjálfsögðu á valdsviði löggjafarvaldsins.

         Varðandi upphafstíma dráttarvaxta sé bent á, að mál þetta hafi ekki verið höfðað fyrr en í desember 2002, eða átta mánuðum eftir að fjármálaráðuneytið hafnaði kröfu stefnenda. Sé óeðlilegt, að krafan beri dráttarvexti þann tíma og væri nær lagi að miða upphafstíma dráttarvaxta við þingfestingu málsins.

III

         Með 7. og 8. tl. 1. gr. laga nr. 157/1998, um breytingu á lögum nr. 36/1978 um stimpilgjald, var skylda til greiðslu stimpilgjalds vegna sölu á kaupskipum úr landi felld niður, en undir kaupskip falla skip, sem notuð eru til vöru- eða farþegaflutninga. 

        

 

         Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að nefndum lögum, segir svo:

         „Með frumvarpi þessu er lagt til að hin almenna heimild fjármálaráðherra til að ákveða hvort ríkissjóður greiði stimpilgjald, sem er í 35. gr. núgildandi laga, falli brott en í staðinn verði undanþágur tilgreindar þegar það þykir eiga við í lögunum. Gert ert þannig ráð fyrir að ríkið greiði framvegis stimpilgjald vegna t.d. kaupa á fasteignum á sama hátt og það greiðir virðisaukaskatt í viðskiptum eins og aðrir. Jafnframt felst í frumvarpinu að ýmsar undanþágur sem hingað til hafa verið í sérlögum eða fjárlögum verði framvegis í lögum um stimpilgjald.”

         Í framsöguræðu fjármálaráðherra fyrir frumvarpinu kemur meðal annars fram, að tilgangur með því sé, að tekið verði skýrt fram um allar undanþágur og heimild til undanþágna frá greiðslu stimpilgjalds. Sé um það að ræða að taka fram með „pósitívum” hætti, hvaða undanþágur séu í gildi, en leggja það ekki í vald ráðherrans að meta slíkt og jafnframt að taka það skýrt fram í lögunum á almennum grundvelli, í stað þess að vera með slíkar undanþágur til að mynda í fjárlögum, eins og tíðkast hafi varðandi flugvélakaup hingað til lands. Þó sé ein breyting, sem geti haft efnislega þýðingu, en gert sé ráð fyrir, að afsalsgerningar eða skjöl, sem leggja höft eða bönn á kaupskip, sem einkum séu ætluð til farmflutninga og séu rekin af félögum, sem einkum stunda reglubundnar áætlunarsiglingar eða leigusiglingar innan lands eða á milli landa, falli niður. Hátti þannig til um þessi mál, að kaupskip, sem skráð séu hérlendis, séu orðin sárafá, meðal annars vegna þess að stimpilkostnaðurinn sé mikill. Hafi hann þannig fælt frá þá aðila, sem um sé að tefla, og þess vegna sé ekki um það að ræða, að hér sé á ferðinni tekjutap fyrir ríkissjóð, heldur þvert á móti muni þetta hugsanlega geta orðið til þess að draga inn í landið skráningu skipa og hugsanlega einhverjar tekjur í því sambandi.

         Innheimta stimpilgjalds er ein af tekjuöflunarleiðum ríkissjóðs. Er þar um að ræða skattlagningu á viðskiptum. Verður að játa löggjafanum víðtækt vald til að ákvarða, hvaða atriði skuli ráða af eða á um skattskyldu. Löggjafinn lagði þann efnislega mælikvarða á málið, að hagsmunum ríkissjóðs væri betur borgið með því að afnema greiðslu stimpilgjalds á viðskipti með kaupskip, sem áður höfðu verið skattlögð á sama hátt og viðskipti með fiskiskip yfir 5 brúttórúmlestum. Var markmið löggjafans með lagasetningunni þannig að fjölga skráningu kaupskipa í landinu og afla tekna með því. Nær undanþágan til allra þeirra, sem eins er ástatt um, og á sama hátt tekur greiðsla stimpilgjalds af skjölum vegna viðskipta með skip, yfir 5 brúttórúmlestum, til allra þeirra, sem þar eiga í hlut.

         Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins, að hin umdeilda skattheimta brjóti ekki gegn ákvæðum 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

         Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, er þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.                

         Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

         Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Haraldar Böðvarssonar hf., í máli þessu.

         Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.