Mál nr. 328/2013

Lykilorð
  • Gengistrygging
  • Viðbótarkrafa
  • EFTA-dómstóllinn
  • Vextir
  • Kærumál
  • Ráðgefandi álit
  • Lánssamningur

                                     

Föstudaginn 31. maí 2013.

Nr. 328/2013.

Helga Rún Pálsdóttir

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

 

Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Lánssamningur. Gengistrygging. Vextir. Viðbótarkrafa. Ráðgefandi álit.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna máls H á hendur L hf. Aðilar deildu um hvernig endurreikna bæri eftirstöðvar láns sem H hafði tekið hjá forvera L hf. Óumdeilt var að höfuðstóll lánsins hefði verið í íslenskum krónum og að binding hans við gengi erlendra gjaldmiðla hefði verið ólögmæt. L hf. hafði í endurútreikningi sínum lagt til grundvallar að frá stofnun til loka skuldbindingarinnar bæri að haga töku vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. H taldi að slíkt væri óheimilt og að vextir þeir sem aðilar hefðu samið um í upphafi giltu út samningstímann. H vildi leita ráðgefandi álits um hvort andstætt væri tilskipun ráðsins nr. 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum að kveða á um í lögum eða með dómi að vaxtaákvæði samnings aðila væri breytt með þessum hætti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að rétturinn hefði þegar markað hvernig haga skyldi töku vaxta af ólögmætum gengistryggðum lánum, á hvaða lagagrundvelli tilkall kröfuhafa um viðbótarvexti fyrir liðna tíð yrði metið þegar svo hagaði til, hvaða takmörkunum slíkt tilkall sætti út frá hagsmunum skuldara og hvaða skorður 72. gr. stjórnarskrárinnar setti beitingu þeirrar reglu um ákvörðun vaxta aftur í tímann sem fram kæmi í lögum nr. 151/2010. Í ljósi þessa og dómkrafna og málatilbúnaðar H var ekki talið að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins gæti haft þýðingu við úrlausn þess ágreinings sem deilt væri um í málinu. Var kröfu H því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál það er sóknaraðili rekur á hendur varnaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að leita ráðgefandi álits. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Sóknaraðili tók lán að fjárhæð 14.000.000 krónur hjá Landsbanka Íslands hf. í nóvember 2004. Skuldabréf það sem sóknaraðili gaf út 8. nóvember 2004 í tilefni lántökunnar var til 30 ára og bar að greiða með 360 jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 15. nóvember  2004. Ágreiningslaust er að skuldabréfið sem skyldi bera LIBOR-vexti auk vaxtaálags fól í sér ólögmæta bindingu höfuðstóls lánsins við gengi erlendra gjaldmiðla. Upphaflegum skilmálum skuldabréfsins og viðaukum við það er nánar lýst í hinum kærða úrskurði ásamt þeim greiðslum sem sóknaraðili hefur þegar innt af hendi. Í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní og 16. september 2010 í málum nr. 92/2010, nr. 153/2010 og nr. 471/2010 endurreiknaði varnaraðili lán sóknaraðila, sem hann hafði þá tekið yfir, og telur eftirstöðvar þess miðað við 1. mars 2011 vera 22.830.540 krónur. Í endurútreikningi sínum lagði varnaraðili til grundvallar að þegar fjárskuldbinding í íslenskum krónum fæli í sér ólögmæta tengingu höfuðstóls við erlenda gjaldmiðla bæri að haga töku vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Telur varnaraðili þetta gilda bæði um tímabilið frá stofnun skuldbindingar til þess dags er endurútreikningur fór fram og um tímabilið frá þeim degi til lokadags. Þessu er sóknaraðili ósammála og telur skuld sína vera mun lægri en varnaraðili heldur fram. Óheimilt sé að breyta vaxtaákvæðum í þegar gerðum samningum neytanda í óhag og krefjast svokallaðra seðlabankavaxta af láninu samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 38/2001 hvort heldur er fyrir liðna tíð eða til frambúðar. Þess í stað eigi lánið allan samningstímann að bera vexti samkvæmt ákvæðum lánssamningsins sjálfs og er aðalkrafa sóknaraðila á því reist. Þá telur sóknaraðili að greiðslum, sem þegar hafi verið inntar af hendi, hafi fyrst átt að ráðstafa til greiðslu áfallinna vaxta. Sóknaraðili vísar til þess að allar greiðslur sem hann hafi innt af hendi í samræmi við kröfur varnaraðila eigi að teljast fullnaðargreiðslur og geti varnaraðili ekki krafið hann um viðbótargreiðslur fyrir liðna tíð.

II

Í þinghaldi 13. desember 2012 krafðist sóknaraðili þess að héraðsdómur leitaði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Varnaraðili andmælti kröfu sóknaraðila og með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila hafnað. Krafa sóknaraðila er meðal annars á því reist að 1. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán standi því í vegi að breyta megi umsömdum vöxtum samkvæmt skuldabréfi því er um ræðir í málinu yfir í seðlabankavexti eða aðra vexti hvort sem það gerist með lagasetningu eða dómi. Af ákvæðum 3. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga leiði að vaxtaákvæði upphaflegs samnings, sem sé staðlaður og saminn einhliða af lánveitanda, skuli standa óbreytt, enda sé engum vandkvæðum bundið að efna samninginn að öðru leyti án hins ólögmæta vaxtákvæðis. Niðurstaða dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, nr. 153/2010 og nr. 471/2010 stríði gegn 1. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 93/13/EB frá 5. apríl 1993 um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum, en sú tilskipun hafi verið tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/94 frá 1994. Ákvæði 3. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936 hafi verið ætlað að innleiða efni 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar í íslenskan rétt.

Andmæli varnaraðila við því að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu eru í fyrsta lagi studd þeim rökum að slíkt sé þarflaust þar sem engum þeirra samningsskilmála sem um ræði í málinu hafi verið vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. c. laga nr. 7/1936. Engin dómkrafa hafi verið gerð um slíkt og þar með geti ekki reynt á túlkun þeirrar tilskipunar sem búi að baki því ákvæði og geti ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins því ekki haft þýðingu fyrir úrslit málsins. Því skorti lagaskilyrði til þess að leita ráðgefandi álits. Í annan stað eru andmæli varnaraðila á því reist að Hæstiréttur hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að nota beri vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 þegar lánssamningar hafi að geyma ákvæði um ólögmæta gengistryggingu. Sú niðurstaða sé reist á túlkun Hæstaréttar á ákvæðum laga nr. 38/2001 og því jafnframt hafnað í dóminum að ákvæði 36. gr. c. laga nr. 7/1936 hafi einhverja þýðingu í því sambandi. Í þriðja lagi vísar varnaraðili til þess að Hæstiréttur hafi nú þegar leyst úr kröfum sem séu sambærilegar aðalkröfu sóknaraðila og hafi þeir dómar fordæmisgildi um úrlausn aðalkröfunnar. Einnig af þessari ástæðu sé þarflaust að afla ráðgefandi álits. 

III

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 92/2010 var komist að þeirri niðurstöðu að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda höfuðstól þeirra við gengi erlendra gjaldmiðla. Þar var jafnframt tekið fram að reglur 13. gr. og 14. gr. laganna séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. þeirra, og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögunum. Eins og áður greinir er óumdeilt að lán sóknaraðila sem um ræðir í máli þessu fól í sér ólögmæta tengingu höfuðstóls lánsins við gengi erlendra gjaldmiðla.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 kom meðal annars fram að umsamin vaxtakjör af því gengisbundna láni sem þar um ræddi hefðu ekki getað komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu lánsins en fyrir lægi að óheimilt hafi verið að kveða á um slíkt. Þegar virt væri að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna væri ógilt og bein og órjúfanleg tengsl væru á milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti, væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lægi fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hefðu aldrei verið skráðir LIBOR- vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Í samningnum væri hins vegar ákveðið að skuldin bæri vexti og var komist að þeirri niðurstöðu í dóminum að um þá skyldi fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Eins og áður greinir tók varnaraðili mið af því við endurútreikning láns sóknaraðila að lánið skyldi bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá lántökudegi til lokadags. Af málatilbúnaði sóknaraðila má ljóst vera að hann telur endurútreikning varnaraðila á láninu á grundvelli síðastgreindra lagaákvæða í reynd fela í sér viðbótarkröfu um vexti fyrir liðna tíð.

Í dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 var til úrlausnar hvort lánveitandi, sem veitt hafði ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum og endurreiknað fjárhæð lánsins með vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, gæti krafið lántaka um viðbótarvexti á þeim lagagrundvelli fyrir liðna tíð. Sama álitaefni var til úrlausnar í dómi Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 464/2012. Þar var tekið fram að endurútreikningur lánsins fæli í reynd í sér viðbótarkröfu um vexti fyrir liðna tíð sem svaraði mismuninum á endurreiknaðri stöðu lánsins og því sem þá stæði eftir af höfuðstól skuldarinnar einum  og væri sú fjárhæð umtalsverð að virtri upphaflegri fjárhæð lánsins. Loks var þetta álitaefni einnig til úrlausnar í dómi Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 en þar var um jafngreiðslulán að ræða eða svokallað annuitetslán.

Í síðastgreindum þremur dómum vísaði Hæstiréttur til þeirrar meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi sem fengið hefur minna greitt en hann á rétt til eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Eins og fram kemur í dómi réttarins í máli nr. 600/2011 á meginreglan  sér örugga stoð í dómaframkvæmd. Í sama dómi er getið þeirrar undantekningar frá meginreglunni að einungis við sérstakar aðstæður verði tilkalli kröfuhafa um viðbótargreiðslu hafnað. Þar eru og rakin lagarök að baki undantekningarreglunni og fram kemur að hún eigi sér einnig stoð í dómaframkvæmd. Í framhaldi umfjöllunar um framangreinda meginreglu og undantekningu frá henni var í dómum réttarins í málum nr. 600/2011, nr. 464/2012 og nr. 50/2013 tekið til úrlausnar hvort atvik væru með þeim sérstaka hætti að hafna bæri tilkalli kröfuhafa um viðbótarvexti fyrir liðna tíð. Var það metið í fyrsta lagi út frá huglægri afstöðu lántaka til lögmætis skuldbindingar sinnar og þar með þess hvort greiðslur hans fyrir liðna tíð fælu í sér fullar og réttar efndir. Í öðru lagi hvort sá aðstöðumunur væri með aðilum lánssamnings að það réttlætti að hafna bæri tilkalli lánveitanda um viðbótarkröfu. Í þriðja lagi hvorum aðilanum stæði nær, út frá sjónarmiðum sem nánar eru reifuð, að bera þann vaxtamun fyrir liðna tíð sem um væri deilt og hlaust af ólögmætri gengistryggingu. Í dómunum þremur var komist að þeirri niðurstöðu að þegar þau atriði sem að framan greinir væru virt heildstætt bæri að hafna tilkalli lánveitanda um greiðslur til viðbótar þegar greiddum vöxtum fyrir liðna tíð. Loks var í dómunum þremur vitnað til laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara, sem meðal annars hafa að geyma ákvæði er lúta að ákvörðun vaxta aftur í tímann af skuldabréfum þar sem samningsákvæði um gengistryggingu hafa verið talin andstæð lögum. Var komist að þeirri niðurstöðu að með almennum lögum væri ekki unnt með íþyngjandi hætti að hrófla á afturvirkan veg við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt. Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þeirri ástæðu fengju nefnd lög ekki haggað þeirri niðurstöðu sem áður hefði verið komist að.

IV

Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir þeim kröfum sem sóknaraðili hefur uppi í málinu á hendur varnaraðila. Eins og áður segir felst það meðal annars í málatilbúnaði sóknaraðila að hann telur endurútreikning varnaraðila á láni sínu í reynd fela í sér viðbótarkröfu um vexti fyrir þann tíma sem liðinn er frá lántöku og til þess dags er endurútreikningur miðast við. Leitar sóknaraðili viðurkenningar á því í málinu að slíkt sé óheimilt og að vextir þeir sem aðilar sömdu um í upphafi gildi út samningstímann. Hann krefst þess að aflað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um hvort andstætt sé 1. mgr. 6. gr. tilskipunar ráðsins nr. 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum „að kveða svo á um í lögum, eða með dómi innlends dómstóls, að breytt verði vaxtaákvæði samnings aðila ... neytanda í óhag, þannig að [samningurinn] beri s.k. seðlabankavexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, í stað nafnvaxta skv. 3. gr. samnings aðila, með vísan til þess að samningurinn hafi að öðru leyti verið bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.“

Í 1. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 93/13/EBE segir: „Aðildarríkin skulu mæla svo fyrir um að óréttmætir skilmálar í samningi seljanda eða veitanda við neytanda séu ekki samkvæmt landslögum þeirra bindandi fyrir neytandann og að samningurinn verði áfram bindandi fyrir samningsaðila ef hann getur haldið gildi sínu að öðru leyti án óréttmætu skilmálanna.“ Með dómi í máli nr. 471/2010 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ógildi ákvæðis um gengistryggingu í lánssamningi leiði til þess að litið verði með öllu framhjá ákvæði samningsins um vaxtahæð en ef ákvæði eru í slíkum samningi um að skuld beri vexti skuli um þá fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Þá hefur Hæstiréttur í fyrrgreindum dómum í málum nr. 600/2011, nr. 464/2012 og nr. 50/2013 komist að þeirri niðurstöðu að réttur lántaka til að hafna kröfu lánveitanda til viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð ráðist af því hvort fullnægt sé þeim skilyrðum sem gilda samkvæmt óskráðum reglum íslensks kröfuréttar um heimild til að víkja frá áðurgreindri meginreglu um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu þegar vangreitt er. Undantekningarregla þessi, sem er skuldara til hagsbóta, styðst eins og nánar er rakið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 við sjónarmið um öryggi í viðskiptum. Rökin að baki reglunni eru þau að það geti haft í för með sér mikla röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara, sem um lengri tíma hefur hagað sér í samræmi við tilmæli kröfuhafa, ef kröfuréttarsambandið er tekið upp hvað fortíðina varðar og skuldara í framhaldinu gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð, þvert á væntingar sínar um hið gagnstæða.

Af framangreindu leiðir að Hæstiréttur hefur þegar markað hvernig haga skuli töku vaxta af ólögmætum gengistryggðum lánum samkvæmt íslenskum rétti, á hvaða lagagrundvelli tilkall kröfuhafa um viðbótarvexti fyrir liðna tíð verður metið þegar svo hagar til og hvaða takmörkunum slíkt tilkall sætir út frá hagsmunum skuldara. Þá hefur Hæstiréttur og í dómum í málum nr. 600/2011, nr. 464/2012 og nr. 50/2013 þegar tekið afstöðu til þess hvaða skorður 72. gr. stjórnarskrárinnar setur beitingu þeirrar reglu um ákvörðun vaxta aftur í tímann, sem fram kemur í lögum nr. 151/2010. Samkvæmt þessu og í ljósi dómkrafna sóknaraðila og málatilbúnaðar hans að öðru leyti verður ekki séð að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins um skýringu á 1. mgr. 6. gr. tilskipunar ráðsins nr. 93/13/EBE geti haft þýðingu við úrlausn þess ágreinings, sem um er deilt í málinu, en það er forsenda þess að ráðgefandi álits verði aflað, sbr. 2. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Verður því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Helga Rún Pálsdóttir, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2013.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð málsins, hinn 22. febrúar sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Helgu Rún Pálsdóttur Karfavogi 20, Reykjavík, á hendur Landsbanka Íslands hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 26. október sl.

                Dómkröfu stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf nr. 2146, dagsett 17. nóvember 2004, upphaflega að fjárhæð 14.000.000 króna, upphaflega á milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, áður gamla Landsbanka Íslands hf., en nú stefnda, Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280, skuli bera nafnvexti samkvæmt 3. gr. skuldabréfsins frá 17. nóvember 2004 til lokagjalddaga skuldabréfsins.

                Einnig krefst hún þess að viðurkennt verði með dómi að öllum greiðslum sem stefnandi hefur innt af hendi í samræmi við kröfur stefnda vegna veðskuldabréfsins skuli ráðstafað með þeim hætti að fyrst skuli greiðslur ganga upp í áfallna vexti samkvæmt 3. gr. bréfsins en greiðslu umfram áfallna vexti skuli hverju sinni ráðstafað á greiðsludegi viðkomandi greiðslu inn á höfuðstól lánsins eins og hann hefði verið frá upphafi án gengistryggingar í íslenskum krónum.

                Fyrsta varakrafa.  Að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf nr. 2146, dagsett 17. nóvember 2004, upphaflega að fjárhæð 14.000.000 króna, upphaflega á milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, áður gamla Landsbanka Íslands hf., en nú stefnda, Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280, skuli bera nafnvexti samkvæmt 3. gr. skuldabréfsins frá 17. nóvember 2004 til 15. febrúar 2012, en vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til lokagjalddaga skuldabréfsins.

                Einnig að viðurkennt verði með dómi að öllum greiðslum sem stefnandi hefur innt af hendi í samræmi við kröfur stefnda vegna veðskuldabréfsins skuli ráðstafað með þeim hætti að fyrst skuli greiðslur ganga upp í áfallna vexti samkvæmt 3. gr. bréfsins en greiðslu umfram áfallna vexti skuli hverju sinni ráðstafað á greiðsludegi viðkomandi greiðslu inn á höfuðstól lánsins eins og hann hefði verið frá upphafi án gengistryggingar í íslenskum krónum.

                Önnur varakrafa.  Að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf nr. 2146, dagsett 17. nóvember 2004, upphaflega að fjárhæð 14.000.000 króna, upphaflega milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, áður gamla Landsbanka Íslands hf., en nú stefnda Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280, skuli bera vexti samkvæmt 3. gr. skuldabréfsins frá 17. nóvember 2004 til 1. mars 2011, en vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til lokagjalddaga skuldabréfsins.

                Einnig að viðurkennt verði með dómi að öllum greiðslum sem stefnandi hefur innt af hendi í samræmi við kröfur stefnda vegna veðskuldabréfsins skuli ráðstafað með þeim hætti að fyrst skuli greiðslur ganga upp í áfallna vexti samkvæmt 3. gr. bréfsins en greiðslu umfram áfallna vexti skuli hverju sinni ráðstafað á greiðsludegi viðkomandi greiðslu inn á höfuðstól lánsins eins og hann hefði verið frá upphafi án gengistryggingar í íslenskum krónum.

                Þriðja varakrafa.  Að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf nr. 2146, dagsett 17. nóvember 2004, upphaflega að fjárhæð 14.000.000 króna, upphaflega milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf., en nú stefnda Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280, skuli bera nafnvexti samkvæmt 3. gr. skuldabréfsins frá 17. nóvember 2004 til 18. desember 2010, en vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til lokagjalddaga skuldabréfsins.

                Einnig að viðurkennt verði með dómi að öllum greiðslum sem stefnandi hefur innt af hendi í samræmi við kröfur stefnda vegna veðskuldabréfsins skuli ráðstafað með þeim hætti að fyrst skuli greiðslur ganga upp í áfallna vexti samkvæmt 3. gr. bréfsins en greiðslu umfram áfallna vexti skuli hverju sinni ráðstafað á greiðsludegi viðkomandi greiðslu inn á höfuðstól lánsins eins og hann hefði verið frá upphafi án gengistryggingar í íslenskum krónum.

                Í öllum tilvikum krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu.

                Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að skaðlausu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en úrskurður var kveðinn upp.

II

                Stefnandi tók lán hjá Landsbanka Íslands hf. hinn 8. nóvember 2004 að jafnvirði 14.000.000 króna og gaf af því tilefni út veðskuldabréf til Landsbanka Íslands hf.  Skuldabréfið var til 30 ára og bar að greiða það með 360 jöfnum mánaðarlegum afborgunum.  Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta var 15. desember 2004.  Samkvæmt skuldabréfinu var skuld stefnanda við stefnda í eftirgreindum myntum og hlutföllum:  45% í evrum, 25% í bandarískum dollurum, 20% í svissneskum frönkum og 10% í japönskum jenum.  Síðar óskaði stefnandi eftir því að  skuldin yrði 70% í japönskum jenum og 30% í svissneskum frönkum.  Samkvæmt 3. gr. skuldabréfsins skyldi lánið bera LIBOR vexti eins og þeir voru birtir tveimur dögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils, auk 1,25% vaxtaálags.

                Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og skipaði honum skilanefnd.  Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hinn 9. október 2008 var eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. skipt upp og tók stefndi við láninu.

                Stefnandi greiddi jafnan afborganir af láni sínu samkvæmt upphaflegum skilmálum þess á gjalddögum lánsins, eða tiltölulega skömmu eftir gjalddaga, til og með gjalddaga lánsins hinn 15. október 2008. 

Hinn 27. október 2008 var hins vegar gerður viðauki við skuldabréfið, þar sem kveðið var á um að greiðslu afborgana skyldi frestað til 15. mars 2009.  Þá skyldu áfallnir vextir frá síðasta gjalddaga lánsins hinn 15. október 2008 til 15. febrúar 2009 leggjast við höfuðstól lánsins og mynda nýjan höfuðstól.

                Hinn 23. mars 2009 var gerður annar viðauki við lánið.  Var þar kveðið á um að greiðslur afborgana og vaxta skyldi frestað til 15. júní 2009.  Áfallnir vextir frá síðasta gjalddaga lánsins skyldu leggjast við höfuðstól lánsins á 1 mánaðar fresti og mynda þar með nýjan höfuðstól.  Næsti gjalddagi afborgana og vaxta skyldi vera 15. júní 2009.

                Stefnandi greiddi því ekki sjö gjalddaga af hinu umþrætta láni, þ.e. frá 15. nóvember 2008 til 15. júní 2009, en þann dag hóf stefnandi að nýju að greiða af láni sínu.

                Hinn 3. júní 2009 var enn á ný gerður viðauki við skuldabréfið, þar sem kveðið var á um greiðslujöfnun lánsins.  Samkvæmt viðaukanum skyldi greiðslubyrði stefnanda af láninu miðast við greiðslubyrði þess í maí 2008 og skyldu greiðslur reiknaðar út með tilteknum hætti.  Greiðslur reiknaðar út samkvæmt ákvæðum viðaukans skyldu nefnast greiðslumark og mismunur þess og þeirra greiðslna sem stefnanda hefði borið að greiða samkvæmt upphaflegum skilmálum skuldabréfsins á hverjum gjalddaga skyldu mynda greiðslujöfnunarskuld.  Allar greiðslur sem stefnandi innti af hendi frá 15. júní 2009 til og með 15. júní 2010 tóku mið af framangreindum viðauka um greiðslujöfnun lánsins.

                Stefndi kveðst ekki hafa sent út greiðsluseðla til stefnanda vegna gjalddaga af láninu 15. júlí 2010 og 16. ágúst 2010, vegna þeirrar óvissu sem skapast hefði um lögmæti gengistryggingar lána í íslenskum krónum í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands sem kveðnir voru upp sumarið 2010.

                Hinn 4. ágúst 2010 var að nýju gerður viðauki við skuldabréfið.  Var þar kveðið á um nýtt greiðslufyrirkomulag, sem fól í sér að stefnandi skyldi greiða fasta fjárhæð af skuldinni á hverjum gjalddaga, eða 5.000 krónur af hverri milljón af upphaflegum höfuðstól lánsins í íslenskum krónum.  Skyldi framangreint fyrirkomulag gilda til 1. nóvember 2010.

                Hinn 17. október 2010 var enn gerður nýr viðauki við skuldabréfið, sem kvað á um sams konar fyrirkomulag greiðslna.  Var þar kveðið á um að það skyldi gilda meðan á endurútreikningi stæði, þó eigi lengur en til 1. mars 2011.  Stefnandi greiddi samkvæmt því 70.000 krónur af láninu á hverjum gjalddaga lánsins til endurútreikningsdags hinn 1. mars 2011.

                Vegna þess greiðslufyrirkomulags sem samið var um í viðaukum dagsettum 3. júní 2009, 4. ágúst 2010 og 17. október 2010 greiddi stefnandi lægri afborganir og vexti af láninu en henni hefði borið að greiða samkvæmt upphaflegum skilmálum skuldabréfsins á tímabilinu frá 15. júní 2009 til endurútreikningsdags hinn 1. mars 2011.

                Í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010, sem og gildistöku laga nr. 151/2010 til breytinga, m.a. á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, tók stefndi umþrætt lán til skoðunar og ákvað að leggja til grundvallar að um væri að ræða lán í íslenskum krónum með gengistryggingu sem stríði gegn 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001.  Því hefur stefndi endurútreiknað hið umþrætta lán stefnanda.  Samkvæmt endurútreikningi stefnda nam fjárhæð lánsins miðað við 1. mars 2011 22.830.540 krónum. 

                Stefnandi mótmælir endurútreikningi stefnda, enda séu þeir framkvæmdir án hennar aðkomu, séu ósamþykktir af henni og með öllu órökstuddir.  Stefnandi telur að uppgjör milli aðila eigi að fara fram í samræmi við þá dóma sem fallið hafa í Hæstarétti og varði vaxtaútreikning gengistryggðra lána, en stefnandi telur ljóst að við endurútreikninginn hafi ekki verið beitt réttum aðferðum.

                Ágreiningslaust er í málinu hverjar greiðslur stefnandi hefur innt af hendi til stefnda vegna lánsins.  Jafnframt liggur fyrir að lánssamningnum var myntbreytt með samkomulagi aðila á lánstímanum.  Þá er ágreiningslaust að um ólögmætt gengistryggt lán var að ræða.

                Eins og áður segir var upphaflegi lánssamningurinn, sem um er deilt í málinu, á milli gamla Landsbanka Íslands hf., en við setningu neyðarlaganna á árinu 2008 var lánið fært yfir í nýjan banka, stefnda þess máls, sem yfirtók réttindi og skyldur samkvæmt samningnum.  Er ekki ágreiningur um kröfuhafaskiptin á láninu.

Stefnandi fellir sig hins vegar ekki við endurútreikninginn og telur skuld sína við stefnda vera lægri.  Byggir hún aðallega á því, að óheimilt sé að krefja hana um seðlabankavexti af láninu, þar sem ekki sé heimilt að breyta vaxtaákvæðum í þegar gerðum samningum neytanda í óhag.  Lánið skuli því bera vexti samkvæmt ákvæðum lánssamningsins og greiðslum, sem þegar hafi verið inntar af hendi hafi fyrst átt að ráðstafa inn á áfallna vexti.

III

                Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því, að 1. mgr. 14. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994 komi í veg fyrir að heimilt sé að breyta umsömdum vöxtum á veðskuldabréfinu yfir í seðlabankavexti eins og gert hafi verið með lagasetningu eða aðra vexti ef því er að skipta, en í ákvæðinu segi: „Nú eru vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindur í lánssamningi og er lánveitanda þá eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra.  Að öðru leyti fer um vexti af neytendalánum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.“

                Samkvæmt þessu sé ljóst að óheimilt sé að krefja neytendur um seðlabankavexti af umþrættu veðskuldabréfi, enda falli það undir gildissvið laganna, sbr. 1. og 2. gr. laga um neytendalán.  Ljóst sé að umræddir vextir séu ekki tilgreindir í samningi aðila og verði því ekki séð hvernig heimilt geti verið, hvorki með afturvirkum né framvirkum hætti, að krefja stefnanda um greiðslu þeirra.  Beri þegar af þeirri ástæðu að fallast á aðalkröfu stefnanda.

                Stefnandi byggir jafnframt á því að óheimilt sé að breyta vaxtaákvæðum í þegar gerðum samningum neytanda í óhag, hvort sem það er gert með lögum eða með dómi.  Stefnandi bendir á að samningur aðila sé staðlaður samningur sem saminn sé einhliða af hálfu stefnda, sbr. 36. gr. a samningalaga nr. 7/1936.  Í þessu sambandi vísar stefnandi sérstaklega til 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936, en þar segi: „Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag.  Ef slíkum skilmála sé vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.“  Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 14/1995, um breytingu á samningalögum, segi m.a. um ákvæði 36. gr. c: „Í 3. mgr. fyrirhugaðrar 36. gr. c er mælt fyrir um réttaráhrif þess að samningur falli undir ákvæði tilskipunarinnar en jafnframt felst í þessari málsgrein eitt mikilvægasta ákvæði frumvarpsins.  Í málsgreininni segir:  Ef einum eða fleiri samningsskilmálum er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur óbreyttur enda stríði skilmálinn eða skilmálarnir gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna réttindum og skyldum samningsaðila neytanda í óhag.“

                Ljóst sé því að það hafi verið mikilvæg forsenda samkvæmt lögskýringargögnum með lögfestingu þessa ákvæðis að horfa skyldi til hagsmuna neytenda en ekki kröfuhafa.  Stefnandi hafni fordæmisgildi dóma Hæstaréttar í málum nr. 471/2010 og 603/2010 og öðrum málum þar sem komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að breyta vaxtaákvæðum í þegar gerðum samningum með þeim hætti að seðlabankavextir skuli gilda í stað umsaminna vaxta.  Stefnandi telji ljóst að af ákvæði 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 leiði að vaxtaákvæðin skuli standa að kröfu neytandans, enda auðvelt að efna samning aðila með þeim hætti, þ.e. einungis án hinnar ólögmætu gengistryggingar og reikna út kröfu bankans á hendur stefnanda.  Verði ekki séð að þetta sé slíkum vandkvæðum háð að samningurinn verði ekki efndur án skilmálans eins og undantekningarheimild 3. mgr. 36. gr. c laganna hafi mælt fyrir um.

                Með vísan til framangreinds telur stefnandi jafnframt ljóst að sú niðurstaða Hæstaréttar í fyrri úrlausnum sínum, að breyta vaxtaákvæðum samninga sem séu bundnir ólögmætri gengistryggingu, stríði gegn reglum EES réttar.  Nánar tiltekið sé hér átt við 1. mgr. 6. gr. tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum, en ákvæðið sé svohljóðandi:

                „Aðildarríkin skulu mæla svo fyrir um að óréttmætir skilmálar í samningi seljanda eða veitanda við neytanda séu ekki samkvæmt landslögum þeirra bindandi fyrir neytandann og að samningurinn verði áfram bindandi fyrir samningsaðila ef hann getur haldið gildi sínu að öðru leyti án óréttmætu skilmálanna.“

                Ætlunin hafi verið að innleiða þetta ákvæði í íslenskan rétt með 3. mgr. 36. gr. c samningalaganna.  Telur stefnandi að innleiðing ákvæðisins í íslenskan rétt og beiting Hæstaréttar á ákvæðinu eins og að framan hefur verið lýst, stangist á við inntak 1. mgr. 6. gr.  Telji stefnandi því rétt að óskað verði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins til að skera úr um þetta atriði.

                Stefnandi geri því í málinu kröfu um að aflað verði álits EFTA dómstólsins til að réttur og nákvæmur skilningur fáist á hinum tilgreindu ákvæðum EES samningsins.  Það sé í sjálfu sér dómsins að taka ákvörðun um hvort slíks álits verði aflað og hvaða álitaefni/spurningar verði lagðar fyrir dómstólinn, en stefnandi gerir eftirfarandi tillögu að spurningu til dómstólsins:  „Telst það andstætt 1. mgr. 6. gr. tilskipunar ráðsins nr. 93/13/EBe að kveða svo á um í lögum, eða með dómi innlends dómstóls, að breytt verði vaxtaákvæði samnings aðila, dags. 27.3.2006, stefnanda (neytanda) í óhag, þannig að hann beri s.k. seðlabankavexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, í stað nafnvaxta skv. 3. gr. samnings aðila, með vísan til þess að samningurinn hafi að öðru leyti verið bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.“

                Stefnandi krefst þess jafnframt að viðurkennd verði með dómi tiltekin aðferð við endurútreikning lánsins ef fallist verði á fyrri kröfulið aðalkröfunnar.  Nánar tiltekið krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að öllum greiðslum sem stefnandi hafi innt af hendi í samræmi við kröfur stefnda vegna skuldabréfsins skuli ráðstafað með þeim hætti að fyrst skuli greiðslur ganga upp í áfallna nafnvexti samkvæmt 3. gr. veðskuldabréfsins en það sem greitt hafi verið umfram vexti skuli ráðstafað inn á höfuðstól lánsins eins og hann hefði verið frá upphafi í íslenskum krónum og án gengistryggingar.  Stefnandi telji þetta augljóst og engin önnur aðferð komi til álita en telji hún rétt að leita viðurkenningar fyrir því samfara hinni viðurkenningarkröfunni.

                Fyrir liggi að lánið hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu og sé því réttur höfuðstóll þess frá upphafi 14.000.000 króna.  Ef fallist verður á það á annað borð að stefnandi hafi fengið fullnaðarkvittun, sbr. svokallað Elvirumál, fyrir þeim greiðslum sem inntar hafi verið af hendi til stefnda sé eina rökrétta niðurstaðan við endurútreikning sú að af hverjum greiddum gjalddaga skuli fyrst láta greiðslur ganga upp í umkrafða vexti á gjalddaganum en afgangurinn gangi þá upp í eftirstöðvar höfuðstóls lánsins eins og hann hafi verið á upphafsdegi, 14.000.000 króna.  Niðurstaðan sé þá í fullkomnu samræmi við nýfallinn dóm Hæstaréttar í máli nr. 464/2012, Borgarbyggðarmálið, þar sem þessi aðferð sé viðurkennd.

                Varakröfur sínar byggir stefnandi á því að óheimilt sé að krefja hana um seðlabankavexti af veðskuldabréfinu hvort sem sé fyrir liðinn tíma eða til framtíðar.  Verði hins vegar af einhverjum ástæðum ekki fallist á aðalkröfu stefnanda geri stefnandi varakröfu í þremur liðum.  Þessar kröfur séu að mestu leyti byggðar á sömu sjónarmiðum þótt miðað sé við mismunandi dagsetningar um vaxtaútreikninga eftir kröfuliðum. 

                Í þeim dómum sem fallið hafi í kjölfar fyrstu gengisdómanna hafi í einhverjum tilvikum verið deilt um það hvaða vexti skyldi reikna af lánum sem hefðu verið gengistryggð með ólögmætum hætti.  Í þessu sambandi vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 14. febrúar 2011 í máli nr. 603/2010.  Þar hafi verið deilt um það hvaða áhrif ógilding gengistryggingar hefði á vexti af láni sem samkvæmt skuldabréfi hafi átt að ráðast af millibankavöxtum í London af þeim myntum sem hin ólögmæta gengistrygging hafi tekið mið af.  Af þessum dómi megi ráða, sem og Hæstaréttardómi frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010, að reikna beri s.k. seðlabankavexti a.m.k. frá dómsuppsögu, þ.e.a.s. vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sem skuli á hverjum tíma vera jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Ísalands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna, eða seðlabankavextir.

                Í framangreindum dómi Hæstaréttar hafi verið ágreiningur um vaxtaviðmiðun frá undirritun skuldabréfs til dómsuppsögu í málinu.  Skuldarinn hafi byggt á því að ekki væri hægt að breyta vöxtum aftur í tímann, skuldara í óhag, með þeim hætti að miða við seðlabankavexti frá lántökudegi í stað svokallaðra LIBOR vaxta.  Vegna þess hvernig kröfugerð hafi verið háttað í málinu hafi ekki verið leyst úr þessum ágreiningi málsaðila.  Hins vegar hafi verið leyst úr slíkum ágreiningi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011, en þar hafi niðurstaðan verið sú að ekki væri hægt að krefja skuldarann um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra gjalddaga aftur í tímann.  Hafi þetta sjónarmið verið staðfest í síðari dómi Hæstaréttar eða í máli nr. 464/2012.

                Stefnandi byggir á því að ekki fáist staðist að vaxtaskilmálum lánsins sé breytt aftur í tímann.  Fyrir liggi í málinu að stefnandi hafi greitt af láninu í samræmi við kröfur stefnda á hverjum tíma og fengið gefna út kvittun vegna þeirra greiðslna án nokkurra athugasemda af hálfu stefnda.  Þá verði að telja að það sé í andstöðu við ákvæði samningalaga nr. 7/1936 og þau sjónarmið sem lögin byggist á, einkum ákvæði 36. gr. og 36. gr. a-d, sem og 72. gr. stjórnarskrárinnar, að breyta vaxtaákvæðum aftur í tímann skuldara í óhag.

                Þessi sjónarmið fái enn frekar stuðning í dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011, svokölluðu Elvirumáli, þar sem rétturinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að greiðslutilkynningar Frjálsa fjárfestingarbankans og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við þær tilkynningar hefðu jafngilt fullnaðarkvittunum.  Hafi Hæstiréttur talið það standa bankanum nær að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hafi hlotist og að hinn rangi lagaskilningur aðila, sem legið hafi til grundvallar lögskiptum þeirra, yrði í uppgjöri einungis leiðréttur til framtíðar.  Bankinn gæti því ekki krafið um viðbótagreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann.  Þá hafi Hæstiréttur vísað til laga nr. 151/2010 og talið að með almennum lögum væri ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti, að hrófla við, með afturvirkum hætti, réttarreglum um efni skuldbindingar og greiðslur skulda frá því sem gilt hafi þegar til þeirra hafi verið stofnað og af þeim greitt, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Gætu lögin því ekki haggað áðurgreindri niðurstöðu um uppgjör aðila.  Með vísan til framangreinds telur stefnandi ljóst að allar greiðslur á gjalddaga bæði fyrir svokallaða myntbreytingu og eftir, sem hann hafi innt af hendi í samræmi við kröfur bankans eigi að teljast fullnaðargreiðslur og geti bankinn ekki krafið hana um viðbótargreiðslur vaxta vegna þegar greiddra gjalddaga.

                Hins vegar hafi eftir Elvirudóminn enn verið ágreiningur um hvernig beri að túlka dómsniðurstöðuna með tilliti til þess hvenær „skurðpunkturinn“ skuli ákvarðaður í þessum efnum, þ.e. sá dagur sem lánastofnun sé talið stætt á að krefjast seðlabankavaxta í stað samningsvaxta úr hendi skuldara.  Miði varakröfur stefnda í málinu að því að fá fram skýrari niðurstöðu um það.

                Stefnandi kveður fyrstu varakröfu sína miða við nafnvexti eins og þeir séu skilgreindir í lánasamningnum og þeir skuli reiknast af láninu frá útgáfudegi 27. mars 2006 til 15. febrúar 2012 en seðlabankavexti frá þeim degi til lokagjalddaga bréfsins.  Fyrir liggi að 15. febrúar sé sá dagur sem dómur í Elvirumálinu hafi fallið í Hæstarétti.  Þetta sé sá dagur sem stefndi hafi hætt að taka við greiðslum frá stefnanda vegna lánsins.  Telur stefnandi því ljóst að viðurkenna beri að beita skuli nafnvöxtum fram til þessa dags enda liggi fyrir að stefndi hafi athugasemdalaust tekið við greiðslum úr hendi stefnanda fram að því og lánið verið í skilum.

                Lán stefnanda hafi verið skuldbreytt/myntbreytt eins og fram komi í gögnum málsins en hvað sem því líði hafi stefnandi alltaf staðið í skilum miðað við stöðu lánsins á hverjum tíma og þær afborganir er honum hafi borið að greiða á hverjum gjalddaga eftir hverja skuldbreytingu.  Lánið hafi aldrei verið skráð í vanskilum og engir dráttarvextir hafi í nokkru tilviki verið reiknaðir á greiðslur vegna lánsins.  Hafi því lánið formlega verið í skilum allan þennan tíma og sé því ljóst að vöxtum vegna þessa tíma verði ekki breytt afturvirkt.

                Stefnandi krefst þess jafnframt, eins og í aðalkröfu, að viðurkennd verði með dómi tiltekin aðferð við endurútreikning lánsins ef fallist verði á fyrri kröfulið fyrstu varakröfunnar.  Nánar tiltekið krefst stefnandi þess að viðurkennt verður með dómi að öllum greiðslum sem stefnandi hafi innt af hendi í samræmi við kröfur stefnda vegna veðskuldabréfsins skuli ráðstafað með þeim hætti að fyrst skuli greiðslur ganga upp í áfallna nafnvexti samkvæmt 3. gr. veðskuldabréfsins en það sem greitt hafi verið umfram vexti skuli ráðstafað inn á höfuðstól lánsins eins og hann hefði verið frá upphafi í íslensku krónum og án gengistryggingar.

                Fyrir liggi að lánið hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu og sé því réttur höfuðstóll þess frá upphafi 14.000.000 króna.  Ef aðalkröfunni er hafnað, en fallist verður á það á annað borð að stefnandi hafi fengið fullnaðarkvittun, sbr. Elvirumálið, fyrir þeim greiðslum sem inntar hafi verið af hendi til stefnda í samræmi við kröfur hans fyrir 15. febrúar 2012, sé eina rökrétta niðurstaðan við endurútreikning sú að af hverjum greiddum gjalddaga skuli fyrst láta greiðslur ganga upp í umkrafða vexti á gjalddaganum en afgangurinn gangi upp í eftirstöðvar höfuðstóls lánsins eins og hann hefði á upphafsdegi verið 14.000.000 króna.  Þá sé niðurstaðan jafnframt í fullkomnu samræmi við nýfallinn dóm Hæstaréttar í máli nr. 464/2012, Borgarbyggðarmálið, þar sem þessi aðferð sé viðurkennd. 

Þessi kröfuliður sé hafður uppi í öllum varakröfum stefnanda.

Um aðra varakröfu stefnanda.  Önnur varakrafan miði við að skuldabréfið beri nafnvexti frá 17. nóvember 2004 til 1. mars 2011, en seðlabankavexti frá þeim degi til lokagjalddaga skuldabréfsins.  Viðmiðunardagurinn 1. mars 2011 sé sá dagur sem stefndi hafi endurútreiknað lán stefnanda á grundvelli laga nr. 151/2010 og þar með viðurkennt ólögmæti gengistryggingarákvæðis veðskuldabréfsins.  Verði ekki fallist á að Elvirudómurinn leiði til þess að stefnandi hafi fengið fullnaðarkvittun fyrir öllum greiðslum fram til þess tíma er stefndi hafi hætt að taka við afborgunum, hinn 15. febrúar 2012, krefst stefnandi þess að hann hafi öðlast slíka réttarstöðu með tilliti til allra greiðslna sem inntar hafi verið af hendi fyrir 1. mars 2011.  Fram til þess tíma hafi stefndi talið lánið ólögmætt og krafið stefnanda um greiðslur á þeim grundvelli sem hann hafi innt af hendi í samræmi við kröfur stefnda.  Lánið hafi verið í skilum og beri því að viðurkenna réttarstöðu stefnanda í samræmi við framangreint.

Í þessu sambandi sé einnig vísað til nýfallins dóms Hæstaréttar í máli nr. 464/2012.  Í því máli hafi lántakinn farið fram á að viðurkennt yrði að hann hefði í höndunum fullnaðarkvittanir fyrir öllum greiðslu fram til 10. mars 2011, sem hafi verið sá dagur sem bankinn hafi endurútreiknað lánið, en það hafi verið á þeim degi í skilum.  Fallist hafi verið á þetta og að endurútreikningurinn skyldi framkvæmdur þannig að allir vextir teldust greiddir fyrir þann tíma eins og þeirra hafi verið krafist og allar aðrar greiðslur kæmu einfaldlega til lækkunar á höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. 

Þriðju varakröfu sína byggir stefnandi á því, að stefndi geti aldrei breytt vaxtakjörum aftur í tímann, þ.e. fyrir þann tíma sem lög nr. 151/2010 tóku gildi.  Samkvæmt því eigi skuldabréfið að bera nafnvexti frá 17. nóvember 2004 til 18. desember 2010, en seðlabankavexti frá þeim degi til lokagjalddaga skuldabréfsins.  Stefnandi telur ljóst að Elvirudómurinn svokallaði mæli fyrir um að stefndi geti ekki breytt neinum gjalddögum sem þegar hafi verið greiddir í samræmi við kröfur stefnda, sbr. fyrstu varakröfu stefnanda.  Verði hins vegar af einhverjum ástæðum ekki fallist á það, sé byggt á því að ekki sé hægt að beita lögunum með afturvirkum hætti fyrir gildistökudag þeirra til að breyta umsömdum vaxtaákvæðum í samningi aðila, sbr. fyrrgreindan dóm.  Stefnandi vísar til sömu málsástæðna og með fyrstu varakröfu sinni.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. laganna.  Einnig vísar stefnandi til samningalaga nr. 7/1936, einkum 36. gr. og 36. gr. a-d, og laga um neytendalán nr. 121/1994, einkum 14. gr.  Þá vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 93/13/EBE frá 5. apríl 1993, um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 21. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna.

 

IV

 

                Stefndi gerir í greinargerð sinni athugasemdir við málatilbúnað stefnanda.  Telur hann töluverða galla vera á máltilbúnaði stefnanda.  Bendir stefndi á, að ekki sé rökrænt samhengi milli kröfugerðar stefnanda í varakröfu og málsástæðum þar að baki.  Í varakröfum sínum geri stefnandi kröfu um að skuld hennar við stefnda, samkvæmt skuldabréfi, skuli bera LIBOR vexti, samkvæmt ákvæði 3. gr. skuldabréfsins, frá 17. nóvember 2004 til tiltekinna daga, en vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, upp frá því.  Á hinn bóginn virðist málsástæður stefnanda að baki varakröfu hennar byggjast á því að stefnandi telji að undantekningarregla kröfuréttar um fullnaðarkvittanir eigi að leiða til þess að líta skuli á þær vaxtagreiðslur sem stefnandi hafi innt af hendi af skuld sinni á nánar tilgreindum tímabilum sem fullnaðargreiðslu vaxta.  Lúti málsástæður stefnanda til stuðnings varakröfum hennar þannig í raun að því að skuldin hafi borið vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá stofndegi kröfunnar, en hins vegar hafi stefndi samkvæmt framangreindri undantekningarreglu kröfuréttar glatað rétti sínum til viðbótakröfu á hendur stefnanda um mismun þeirra vaxtagreiðslna sem stefnandi hafi innt af hendi og vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.  Þó að þetta tvennt leiði vissulega til sömu niðurstöðu, sé engu að síður rangt að gera kröfu um að skuldin skuli bera LIBOR vexti samkvæmt 3. gr. skuldabréfsins og þar af leiðandi skorti samhengi milli dómkrafna stefnanda og málsástæðna.

                Jafnframt bendir stefndi á að í kröfugerð sé ekki tekið mið af því að stefnandi hafi ekki greitt sjö afborganir af láni sínu á tímabilinu frá 15. nóvember 2008 til 15. júní 2009.  Hafi það verið í samræmi við viðauka sem gerðir hafi verið við skuldabréfið, líkt og rakið sé í málavöxtum.  Auk þess hafi stefnandi ekki greitt tvær afborganir af láninu á tímabilinu frá 15. júlí 2010 til 16. ágúst 2010.  Hafi stefnandi hvorki greitt vexti né afborganir af láninu á framangreindum tímabilum, heldur hafi greiðslum verið frestað og þær lagðar við höfuðstól.  Byggir stefndi á því að það sé grundvallarforsenda fyrir beitingu undantekningarreglunnar um fullnaðarkvittanir, að kröfuhafi hafi gefið út fullnaðarkvittun fyrir greiðslu til skuldara.  Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 hafi verið lagt til grundvallar að greiðslur skuldara í samræmi við greiðslutilkynningar kröfuhafa og fyrirvaralaus móttaka kröfuhafa á slíkum greiðslum, jafngildi fullnaðarkvittun í skilningi undantekningarreglunnar.  Byggir stefndi á því að þar sem engar greiðslu hafi átt sér stað af hálfu stefnanda á framangreindum tímabilum, geti stefnandi ekki talist hafa undir höndum fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta fyrir umrædd tímabil.  Auk þess byggir stefndi á því að stefnandi geti ekki hafa verið í góðri trú að um væri að ræða fullnaðargreiðslu af hennar hálfu vegna gjalddaga á framangreindum tímabilum.  Þegar af þeirri ástæðu komi beiting undantekningarreglu kröfuréttar um fullnaðarkvittanir ekki til álita hvað varði tímabilin frá 15. nóvember 2009 til 15. júní 2009 og 15. júlí 2010 til 16. ágúst 2010.

                Telur stefndi að líkt og málatilbúnaði stefnanda sé háttað sé hann ekki til þess fallinn að leysa úr þeim réttarágreiningi sem honum sé ætlað að leysa úr.  Telur stefndi nauðsynlegt að stefnandi bæti úr kröfugerð sinni í varakröfum þannig að hún sé rökrétt og í samræmi við þær málsástæður sem stefnandi byggi á og málatilbúnað að öðru leyti.

                Stefndi bendir jafnframt á að síðari hluti kröfugerðar stefnanda í öllum dómkröfum hennar uppfylli ekki skilyrði d-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um skýra og glögga kröfugerð og beri því að vísa þeim hluta dómkrafna stefnanda frá dómi.  Í þeim hluta kröfugerðar stefnanda sé þess krafist að viðurkennt verði með dómi að þeim greiðslum sem stefnandi hafi greitt af skuld sinni verði ráðstafað með tilteknum hætti, þar á meðal „upp í áfallna vexti samkvæmt 3. gr. bréfsins“.  Ekki sé hægt að notast við þá vaxtaviðmiðun fyrir skuld í íslenskum krónum líkt og Hæstiréttur hafi slegið föstu, meðal annars í dómum í málum nr. 471/2010 og 600/2011.  Þar af leiðandi sé kröfugerð stefnanda að þessu leyti ekki nægilega skýr og uppfylli ekki þá grundvallarreglu réttarfars að hægt sé að taka dómkröfur óbreyttar upp í dómsorð.  Í ljósi alls þessa skorar stefndi á stefnanda að bæta úr kröfugerð sinni.

                Sýknukröfu sína af aðalkröfu stefnanda byggir stefndi á því, að kröfugerð stefnanda feli í sér að skuld stefnanda við stefnda eigi að bera LIBOR vexti, en slíkir vextir hafi aldrei verið skráðir af lánum í íslenskum krónum.  Þar af leiðandi sé ekki hægt að notast við þá vaxtaviðmiðun sem kveðið sé á um í 3. gr. skuldabréfsins.  Byggir stefndi á því að krafa hans á hendur stefnanda skuli bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá stofndegi kröfunnar til lokagjalddaga hennar.  Ákvæði laga nr. 121/1994 um neytendalán og laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, fái því ekki haggað.

                Samkvæmt 3. gr. skuldabréfsins, sem stefnandi hafi gefið út til Landsbanka Íslands hf. hinn 8. nóvember 2004, skyldu vextir af skuld stefnanda taka mið af breytilegum LIBOR vöxtum af lánum í japönskum jenum og svissneskum frönkum eins og þeir hafi verið birtir tveimur dögum fyrir hvert vaxtatímabil, auk 1,25% vaxtaálags.  Þeir vextir sem kveðið hafi verið á um í skuldabréfinu hafi þannig verið tengdir beint við vexti á millibankamarkaði í London af lánum í þeim myntum, sem gengistryggingin samkvæmt skuldabréfinu hafi miðast við.  Í þessu sambandi verði að gæta að því að fullljóst sé að slík vaxtakjör af láninu geti ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess, sem nú liggi fyrir að óheimilt hafi verið að kveða á um, sbr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001.  Einnig verði að líta til þess að í ljósi þess að ákvæðið í skuldabréfinu um gengistryggingu sé í andstöðu við framangreind ákvæði vaxtalaga, séu skuldbindingar stefnanda við stefnda að öllu leyti í íslenskum krónum og algerlega óháðar þeirri tengingu við japönsk jen og svissneska franka, sem aðilarnir hafi gengið út frá við samningsgerðina.  Þegar virt sé að ákvæðið um gengistryggingu í skuldabréfinu sé ógilt og bein og órjúfanleg tengsl séu samkvæmt framansögðu milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti sé hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eða orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda hafi aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum á millibankamarkaði í London.  Vegna þessa sé óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiði til þess að líta verði fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð.

                Í skuldabréfinu hafi verið ákveðið að skuld stefnanda bæri vexti.  Með því að þar greindum fyrirmælum um hæð þeirra verði samkvæmt framansögðu ekki beitt sé óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik svari hér til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera.  Krafa stefnda á hendur stefnanda skuli því bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá stofndegi kröfunnar.  Framangreint eigi sér stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar, meðal annars í dómum í málum nr. 471/2010 og 600/2011.

                Stefndi hafnar því jafnframt að ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, leiði til þess að skuld stefnanda við stefnda eigi að bera breytilega LIBOR vexti eins og þeir séu birtir fyrir japönsk jen og svissneska franka samkvæmt 3 gr. skuldabréfsins allt til lokagjalddaga þess.  Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 sé kveðið á um að ef vextir eða annar lántökukostnaður er ekki tilgreindur í lánssamningi sé lánveitanda ekki heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra.  Að öðru leyti skuli fara með vexti af neytendalánum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.  Framangreint ákvæði laga nr. 121/1994 hafi verið lögfest í núverandi mynd með 8. gr. laga nr. 101/1994, sem breytt hafi þágildandi lögum nr. 30/1993, um neytendalán.  Í athugasemdum sem fylgt hafi þessari grein í frumvarpi er varð að lögum nr. 101/1994, segi enn fremur: „Í núgildandi 1. mgr. 14. gr. er kveðið á um að ef vextir séu ekki tilgreindir skuli þeir vera hinir sömu og vextir af almennum skuldabréfum samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands.  Þetta stríði gegn þeirri meginreglu vaxtalaga að vextir skuli einungis reiknaðir ef um þá er samið.  Ákvæðið er einnig í andstöðu við almennar reglur kröfuréttar.  Því er lagt til að sú breyting verði á ákvæðinu að ef ekki er kveðið á um vaxtatöku í lánssamningi þá skuli vextir ekki reiknaðir af láninu.  Sama gildir um annan lántökukostnað.“

                Stefndi byggir á því að túlka beri ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 á þann hátt að þar sé átt við það að hafi ekki verið samið um að krafa skuli bera vexti, sé lánveitanda óheimilt að krefjast þeirra.  Það sé í samræmi við framangreind ummæli í greinargerð með frumvarpi að neytendalögum og tilvitnaða meginreglu vaxtalaga um að vextir skuli einungis reiknaðir ef samið er um að skuld skuli bera vexti.

                Fyrir liggi að samið hafi verið um að skuld stefnanda við stefnda skyldi bera vexti og hafi þeir verið tilgreindir í skuldabréfinu.  Hins vegar liggi nú fyrir að ekki sé hægt að notast við þá vaxtaviðmiðun sem samið hafi verið um í upphafi enda séu ekki skráðir LIBOR vextir á lán í íslenskum krónum líkt og að framan sé rakið.  Atvikum verði því ekki jafnað til þess að aðilar hafi ekki samið um að skuldin skyldi bera vexti, heldur fremur til þess að aðilar hafi samið um að skuldin skyldi bera vexti, en ekki tilgreint vaxtahæð.  Skuldin skuli því bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, sbr. einnig síðari málslið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994.  Stefndi bendir jafnframt á dóm Hæstaréttar í máli nr. 604/2010.  Þar hafi niðurstaða réttarins verið sú að ákvæði 14. gr. laga nr. 121/1994 fengi ekki haggað fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að lán sem hafði verið gengistryggt með ólögmætum hætti skyldi bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.

                Stefndi hafnar því og að 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og 1. mgr. 6. gr. tilskipunar ráðsins nr. 93/13/EBE leiði til þess að skuld stefnanda við stefnda í íslenskum krónum eigi að bera LIBOR vexti í samræmi við 3. gr. skuldabréfsins.  Framangreint ákvæði samningalaganna fjalli annars vegar um skilyrði þess hvenær samningur teljist ósanngjarn og hins vegar hver séu réttaráhrif þess að samningsskilmáli sé ósanngjarn.  Bendir stefndi í fyrsta lagi á að það sé ekki á því byggt í málatilbúnaði stefnanda að ákvæði skuldabréfsins um gengistryggingu sé ósanngjarnt í skilningi 36. gr. c samningalaga og komi því síðari málsliður 3. mgr. 36. gr. c ekki til álita, enda eigi hann eingöngu við í tilvikum þar sem ósanngjörnum samningsskilmálum hafi verið vikið til hliðar.  Í öðru lagi segi í ákvæðinu að sé ósanngjörnum samningsskilmálum vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða þeim breytt, skuli samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.  Þegar ákvæði skuldabréfsins um gengistryggingu sleppi standi eftir skuldbinding stefnanda við stefnda í íslenskum krónum.  Líkt og áður hafi komið fram séu ekki og hafi aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum.  Því sé ómögulegt að efna skuldabréfið með vaxtaákvæði þess óbreyttu.

                Stefndi krefst sýknu af fyrstu varakröfu stefnanda þegar af þeirri ástæðu að krafan feli í sér að skuld stefnanda beri LIBOR vexti.  Stefndi hafi bent á þá ágalla sem hann telji vera á málatilbúnaði stefnanda í málinu og skorað á hann að bæta úr kröfugerð sinni.  Stefndi telur að þær málsástæður sem stefnandi byggi varakröfu sína á megi skilja á þann hátt að stefnandi telji að líta beri svo á að þær vaxtagreiðslur sem hún hafi innt af hendi frá 17. nóvember 2004 til 15. febrúar 2012 hafi verið fullnaðargreiðslur vaxta.  Virðist stefnandi þannig byggja á því að stefndi hafi glatað viðbótarkröfu sinni á hendur henni um mismun þeirra vaxta sem stefnandi hafi greitt á tímabilinu og vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 fyrir sama tímabil.

                Stefndi byggir á því, að skuld stefnanda við stefnda samkvæmt skuldabréfinu eigi að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá stofndegi kröfunnar líkt og slegið hafi verið föstu í fjölmörgum dómum Hæstaréttar, til að mynda dómum í áðurnefndum málum nr. 471/2010 og 600/2011.  Stefndi bendir á að það sé meginregla kröfuréttar að kröfuhafi sem hafi fengið minna greitt en hann hafi átt rétt til í lögskiptum aðila, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé.  Samkvæmt því myndi stefndi eiga kröfu á hendur stefnanda um mismun þess sem stefnandi hafi greitt í vexti af láni sínu og vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.  Ákveðnar undantekningar séu frá framangreindri meginreglu, meðal annars um að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu. Hvíli áherslan á því, að skuldari hafi, við móttöku kvittunar, fengið í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið og þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann sé búinn að gera upp að fullu greiðslu sína á viðkomandi gjalddaga og geti treyst því að ekki komi til frekari kröfu síðar.  Í nýlegum dómi Hæstaréttar, þar sem fallist hafi verið á beitingu undantekningarreglunnar um fullnaðarkvittun, sbr. Hæstaréttardóma í málunum nr. 600/2011 og 464/2012, hafi verið lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar sem fjármálafyrirtæki hafi sent viðskiptavinum sínum, um væntanlega gjalddaga lána þeirra með útreikningum á þeirri fjárhæð sem greiða skyldi, og síðan fyrirvaralaus móttaka þeirra á greiðslum í samræmi við tilkynningarnar, hafi jafngilt fullnaðarkvittunum um greiðslu á því sem gjaldfallið hafi hverju sinni.

                Hinn 1. mars 2012 hafi stefnanda verið tilkynnt um endurútreikning á láni hennar, þar sem lagt hafi verið til grundvallar að lán hennar hafi verið gengistryggt í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.  Geti stefnandi því ekki hafa talist vera í góðri trú um að vaxtagreiðslur sem hún hafi innt af hendi eftir 1. mars 2011, sem tekið hafi mið af annarri vaxtahæð en samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, væri fullnaðargreiðslur vaxta.  Skilyrði fyrir beitingu undantekningarreglu kröfuréttar um fullnaðarkvittanir hvað varði greiðslur stefnanda eftir að henni hafi borist tilkynning stefnda um endurútreikning lánsins hinn 1. mars 2011, séu því ekki uppfyllt. 

                Þá hafi stefnandi ekki greitt af láni sínu frá 15. nóvember 2008 til 15. júlí 2009 og ekki frá 15. júlí 2010 til 16. ágúst 2010, og geti því ekki talist hafa í höndum fullnaðarkvittun fyrir greiðslu vaxta á því tímabili.

                Önnur varakrafa stefnanda feli í sér að að skuld hennar við stefnda í íslenskum krónum skuli bera LIBOR vexti.  Vísar stefndi til málsástæðna sinna varðandi sýknu af aðalkröfu.

                Stefndi telur að þær málsástæður sem stefnandi byggir varakröfur sínar á megi skilja á þann hátt að stefnandi telji að líta beri svo á að þær vaxtagreiðslur sem hún hafi innt af hendi frá 17. nóvember 2006 til 1. mars 2011 hafi verið fullnaðargreiðslur vaxta.  Virðist stefnandi þannig byggja á því að stefndi hafi glatað viðbótarkröfu sinni á hendur henni um mismun þeirra vaxta sem stefnandi hafi greitt á tímabilinu og vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, fyrir sama tímabil.

                Stefndi byggir á því að skuld stefnanda við stefnda samkvæmt skuldabréfinu eigi að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá stofndegi kröfunnar líkt og slegið hafi verið föstu í fjölmörgum dómum Hæstaréttar, til að mynda dómum í áðurnefndum málum nr. 471/2010 og 600/2011.  Stefndi bendir á að það sé meginregla kröfuréttar að kröfuhafi sem hafi fengið minna greitt en hann hafi átt rétt til í lögskiptum aðila, eigi kröfu á hendur stefnanda um mismun þess sem stefnandi hafi greitt í vexti af láni sínu og vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.

                Það séu þó ákveðnar undantekningar frá framangreindri meginreglu, meðal annars um að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekar kröfu.  Stefndi bendir á að stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt gert tilraun í stefndu til að sýna fram á að atvikum í máli þessu hafi verið svo háttað að skilyrði til að beita undantekningarreglunni séu fyrir hendi.  Hefur stefndi látið nægja í því sambandi að vísa til dómafordæma þar sem fallist hafi verið á að undantekningarreglunni væri beitt án þess að leiða að því líkur að atvik í þessu máli hafi verið sambærileg þeim sem hafi verið uppi í tilvitnuðum dómum.  Líkt og að framan greini hvíli áherslan á því, að skuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið og þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann sé búinn að gera upp að fullu greiðslu sína á viðkomandi gjalddaga og geti treyst því að ekki komi til frekari kröfu síðar.  Verði hér lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar, sem stefndi hafi sent stefnanda um væntanlega gjalddaga láns hennar með útreikningum á þeirri fjárhæð sem greiða skyldi og móttaka stefnda á greiðslu frá stefnanda í samræmi við tilkynningarnar, hafi jafngilt fullnaðarkvittunum um greiðslu á því sem hafi gjaldfallið hverju sinni, sbr. Hæstaréttardóm nr. 600/2011 og 464/2012.  Í því samhengi bendir stefndi á, líkt og áður hefur komið fram, að stefnandi geti einungis talist hafa í höndum fullnaðarkvittanir fyrir þeim greiðslum sem hún hafi sannanlega innt af hendi.  Geti hún þannig ekki talist hafa í höndum fullnaðarkvittanir fyrir þau tímabil þar sem hún hafi ekki greitt neinar greiðslur af láninu.

                Þrátt fyrir að líta megi svo á að greiðslutilkynningar stefnda og móttaka hans á greiðslum samkvæmt þeim, jafngildi fullnaðarkvittunum, þurfi einnig önnur skilyrði að vera uppfyllt til að undantekningarreglunni verði beitt.  Í fræðikenningu á sviði kröfuréttar hafi verið talið að frávik frá framangreindri meginreglu komi einungis til álita í algerum undantekningartilvikum.  Til að undantekningarreglan geti átt við hafi verið talið að fullnægja þurfi öllum eftirfarandi skilyrðum:  Í fyrsta lagi verði skuldari að vera í góðri trú þegar hann greiði kröfuna um að hún feli í sér fullnaðargreiðslu.  Í þessu skilyrði felist efnislega að skuldari megi ekki hafa haft ástæðu til að ætla, í ljósi aðstæðna, að greiðslan væri ekki fullnaðargreiðsla.  Í öðru lagi sé það gert að skilyrði fyrir beitingu undantekningarreglunnar að aðstæður séu með þeim hætti að það standi kröfuhafa nær en skuldara að bera áhættuna af vangreiðslu.  Í þriðja lagi sé það gert að skilyrði fyrir beitingu undantekningarreglunnar að aðstæður séu með þeim hætti að það standi kröfuhafa nær en skuldara að bera áhættuna af vangreiðslu.  Í þriðja lagi megi viðkomandi aðstæður ekki vera auðgreinanlegar eða augljósar.  Í því felist að ef skuldari á, í ljósi aðstæðna, að geta áttað sig á því að ekki hafi verið um fullnaðaruppgjör að ræða, komi ekki til álita að beita undantekningarreglunni.

                Við beitingu þessarar reglu í dómum Hæstaréttar í málunum nr. 600/2011 og 464/2012 hafi rétturinn tekið til skoðunar hvort atvik í málinu væru með þeim sérstaka hætti að víkja bæri frá meginreglunni og hafna tilkalli kröfuhafa til viðbótargreiðslna.  Í báðum málunum komi fram að þegar skuldari hafi greitt afborganir og vexti af lánum sínum, hafi aðilar gengið út frá því að útreikningur kröfuhafa hafi tekið mið af því að ákvæði skuldabréfsins/lánssamningsins um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild.  Hafi rétturinn talið að skuldarar hafi verið í góðri trú um lögmæti þeirrar skuldbindingar sem þeir hafi gengist undir gagnvart kröfuhafa og þar með í góðri trú um að fyrrnefndar greiðslur þeirra fælu í sér fullar og réttar efndir af þeirra hálfu.  Verði ekki séð að atvik í þessu máli séu frábrugðin atvikum í framangreindum málum hvað þetta varði.  Beri því að líta svo á að stefnandi hafi verið í góðri trú um að greiðslur hennar væru fullnaðargreiðslur vaxta þegar hún hafi innt af hendi greiðslur af skuldabréfi sínu.  Stefndi ítreki þó að þetta eigi aðeins við um þær greiðslur af skuldabréfinu sem stefnandi hafi sannanlega innt af hendi frá því að hún hafi gefið út skuldabréfið og til þess dags er stefndi hafi tilkynnt stefnanda um endurútreikning lánsins.  Stefnandi geti ekki talist hafa í höndum fullnaðarkvittanir vegna gjalddaga af láninu sem hún hafi ekki greitt, til að mynda þeirra gjalddaga sem átt hafi að vera til greiðslu á tímabilinu 15. október 2008 til 15. júní 2009 og 15. júlí 2010 til 16. ágúst 2010.  Auk þess geti stefnandi ekki hafa talist vera í góðri trú um að greiðslur, sem hún hafi ekki innt af hendi, hafi verið fullnaðargreiðslur vaxta og því eigi framangreint ekki við um þær greiðslur afborgana og vaxta sem hafi verið frestað og bætt við höfuðstól lánsins.  Kröfugerð stefnanda sé ábótavant að því leyti að hún taki ekki mið af þessu.

                Þá hafi verið litið til þess í framangreindum dómum Hæstaréttar hversu langt hafi verið liðið á lánstímann og hvort fjárhæð viðbótarkröfu væri umtalsverð í ljósi upphaflegrar lánsfjárhæðar.  Stefnandi hafi gefið út hið umþrætta skuldabréf til stefnda hinn 8. nóvember 2004.  Þegar stefndi hafi endurreiknað skuld stefnanda hinn 1. mars 2011 hafi verið liðin fimm ár af 30 ára lánstíma samkvæmt skuldabréfinu.  Í ljósi Hæstaréttardóms í málinu nr. 464/2012 megi því segja að komin hafi verið á festa í framkvæmd endurgreiðslna af skuldabréfinu.  Samkvæmt endurútreikningi stefnda á fjárhæð skuldar stefnanda hinn 1. mars 2011 hafi hún numið 22.830.540 krónum.  Samkvæmt þeirri aðferðarfræði sem beitt hafi verið í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 464/2012 hefðu þá átt að standa eftir um það bil 11.394.444 krónur af höfuðstól skuldarinnar í ljósi þess að stefnandi hefði þá greitt 67 afborganir af 360 jöfnum afborgunum.  Samkvæmt framangreindri aðferðafræði hafi því endurútreikningurinn í reynd falið í sér viðbótarkröfu um vexti fyrir liðna tíð sem svarað hafi mismuninum á þessum tveimur fjárhæðum, eða 11.346.096 krónum.  Framangreindur útreikningur taki ekki mið af því að stefnandi hafi notið ákveðinna greiðsluúrræða, þ.e. greiðslujöfnunar og fastrar greiðslu fram að endurútreikningsdegi, líkt og rakið sé í málavaxtalýsingu.  Ekki verði öðru haldið fram en að viðbótarkrafa stefnda sé umtalsverð að því virtu að upphaflegur höfuðstóll skuldabréfsins hafi verið 14.000.000 króna.

                Við mat á því hvort að beiting undantekningarreglunnar komi til álita hafi í framangreindum dómum Hæstaréttar loks verið litið til þess hvort aðstöðumunur hafi verið á aðilum við samningsgerð.  Dómstólar virðist beita ströngu mati á aðstöðumun milli fjármálafyrirtækis og gagnaðila þess í sambærilegum málum og því sem hér sé til skoðunar, sbr. Hæstaréttardóm í málinu nr. 464/2012.  Í ljósi þess verði ekki öðru haldið fram hér en að töluverður aðstöðumunur hafi verið á aðilum við útgáfu skuldabréfsins, enda stefndi fjármálafyrirtæki, en stefnandi einstaklingur og stefnda sé ekki kunnugt um að hún hafi búið yfir sérþekkingu um fjármálastarfsemi.

                Stefndi fallist á, þegar öll framangreind atriði séu virt heildstætt, sbr. einnig niðurstöðu Hæstaréttar í framangreindum dómum réttarins í málum nr. 600/2011 og 464/2012, að það standi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlotist hafi af hinni ólögmætu gengistryggingu hvað varði þann tíma sem stefnandi hafi sannanlega greitt af láni sínu.  Telur stefndi því að skilyrði séu uppfyllt fyrir því að beita undantekningarreglunni um fullnaðarkvittanir í viðbótakröfu stefnda á hendur stefnanda um vexti fyrir liðna tíð.  Stefndi áskilji sér rétt til að leggja fram yfirlit yfir endurútreiknaða fjárhæð eftirstöðva láns stefnanda í samræmi við framangreint á síðari stigum málsins.

                Stefndi telur því, í samræmi við framangreinda umfjöllun, að fallast megi á það að þær vaxtagreiðslur stefnanda, sem hún sannanlega hafi innt af hendi af skuldabréfinu til endurútreikningsdags, hinn 1. mars 2011, séu fullnaðargreiðslur vaxta, en eftir þann dag skuli skuldin bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, þar til skuldin hafi verið að fullu upp gerð.

                Kröfu sína um sýknu af þriðju varakröfu stefnanda, um að viðurkennt verði að skuld hennar við stefnda samkvæmt skuldabréfi skuli bera nafnvexti samkvæmt 3. gr. skuldabréfsins frá 17. nóvember 2004 til 18. desember 2010, byggir stefndi á sömu málsástæðum og um sýknu af aðalkröfu stefnanda.  Þá kveðst stefndi, ef stefnandi bætir úr kröfugerð sinni í þriðju varakröfu, á síðari stigum, í samræmi við þær athugasemdir sem stefndi hafi gert við kröfugerð stefnanda, byggja á öllum sömu röksemdum og komi fram í tengslum við umfjöllun stefnda um aðra varakröfu stefnanda.  Vísi stefndi því alfarið í rökstuðning sinn í tengslum við aðra varakröfu.

                Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 3. og 4. gr. laganna, meginreglu kröfuréttar og 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda.

V

                Ágreiningur aðila lýtur að útreikningi á láni sem stefnandi tók hjá forvera stefnda, Landsbanka Íslands hf., hinn 8. nóvember 2004.

                Aðila greinir ekki á um að umdeildur samningur hafi verið með ólögmætri gengistryggingu, en stefnandi byggir á því að við endurútreikning lánsins vegna ólögmætu gengistryggingarinnar hafi verið óheimilt að breyta vaxtaákvæði samningsins og krefja um seðlabankavexti.  Breyting á samningsvöxtum í samningi aðila sé í andstöðu við tilskipun ráðsins 93/13/EBE, 3. mgr. 36. gr. c samningalaga og laga um neytendalán nr. 121/1994.

                Ekki skal leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins nema þörf sé á því við úrlausn á máli að taka afstöðu til skýringar á EES-samningnum, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem þar er getið, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1994, um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.  Ber því aðeins að leita slíks álits ef ætla má að túlkun tiltekinna ákvæða EES-samningsins eða viðkomandi gerða Evrópusambandsins geti að einhverju leyti breytt niðurstöðu í því ágreiningsmáli sem til meðferðar er.  Þegar afstaða er tekin til beiðni um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins er því óhjákvæmilegt að dómari taki að einhverju leyti afstöðu til þess hvaða þýðingu röksemdir aðila um beitingu EES-samningsins eigi að hafa.

                Eins og að framan er lýst lýtur ágreiningur aðila fyrst og fremst að því hvort tilgreint ákvæði í íslenskum lögum, þ.e. 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936, um samninga, umboð og ógilda löggerninga, eigi að leiða til þess að ákvæði um vexti í samningi aðila eigi að standa óbreytt.   Jafnframt er á því byggt að í ákvæði 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE felist meginregla um að ákvæði í samningi lánastofnunar við neytanda verði ekki breytt neytanda í óhag, gegn andmælum hans, en ákvæði þetta hafi verið innleitt í íslenskan rétt með 36. gr. a-d laga nr. 7/1936.  Skýring 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 ráðist m.a. af skýringu ákvæðis tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993, um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. 

                Eins og rakið hefur verið byggir stefndi sýknukröfu sína í málinu m.a. á því að lánið skuli bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá stofndegi kröfunnar til lokagjalddaga hennar.  Ákvæði laga nr. 121/1994, um neytendalán, og laga nr. 36/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, fái því ekki haggað, og vísar stefndi m.a. til dómafordæma Hæstaréttar í málunum nr. 471/2010 og 600/2011.

                Í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar var talið að samningsákvæði lánssamninga í íslenskum krónum, sem bundnir væru gengi erlendra gjaldmiðla, færu í bága við ófrávíkjanlegar reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Í hæstaréttarmálinu nr. 471/2010 var ekki, frekar en í máli því sem hér er til úrlausnar, ágreiningur um að gengistrygging í samningi aðila væri ógild, en aðila greindi á um hvort og þá hvaða áhrif þetta hefði á vexti af láninu.  Var þar talið að vextir samkvæmt samningi aðila væru tengdir beint við LIBOR vexti af lánum í þeim myntum, sem hin ógilda gengistrygging samkvæmt samningi aðilanna miðaðist við.  Slík gengistrygging gæti ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu lánsins.  Vegna þessa taldi Hæstiréttur óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð.  Taldi rétturinn að bein og órjúfanleg tengsl væru milli ólögmætra skilmála skuldabréfs um gengistryggingu láns og fyrirmæla þess um vexti.  Væri því hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt, né gefa þeim, með skýringu, annað inntak.  Því yrði með öllu að líta fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð.  Þar sem viðkomandi lánssamningur hafi hins vegar kveðið á um að skuldin bæri vexti, væri óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik hafi svarað til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu, án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera.  Með vísan til 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, voru vextir því ákveðnir jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga.  Síðan hafa fleiri dómar fallið í Hæstarétti þar sem reynt hefur á túlkun vaxtalaga og laga um neytendavernd, við endurútreikning á lánssamningum í íslenskum krónum sem taldir hafa verið bundnir ólögmætri gengistryggingu.

                Skilmálum umdeilds samnings í máli þessu svipar mjög til skilmála samninga sem um er fjallað í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar.  Í þeim dómum verður hins vegar ekki séð að þar hafi með beinum hætti verið byggt á málsástæðum tengdum efni þeirrar tilskipunar sem stefnandi vísar til í beiðni sinni. 

Beiðni stefnanda um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins er m.a. studd þeim rökum að dómar Hæstaréttar hafi ekki fordæmisgildi við úrlausn máls þessa. 

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.  Ekki verður hins vegar séð að túlkun á fyrrgreindri tilskipun varpi neinu ljósi á hvernig skýra beri fyrrgreint ákvæði 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936, eða túlkun Hæstaréttar Íslands á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, en um lögskipti aðila fer eftir íslenskum lögum, enda hefur samþykkt laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, engu breytt um hver fari með löggjafarvald hér á landi, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. 

Samkvæmt ofanrituðu þykir stefnandi því ekki hafa fært fyrir því fullnægjandi rök að álit EFTA-dómstólsins geti skipt máli við úrlausn á því hvort einungis beri að greiða vexti í samræmi við ákvæði lánssamningsins, sem um er deilt í málinu.  Í því ljósi verður kröfu stefnanda um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á ákvæðum tilskipunar nr. 93/13/EBE, um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, samkvæmt framansögðu hafnað. 

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Hafnað er beiðni stefnanda, Helgu Rúnar Pálsdóttur, um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu.