Print

Mál nr. 541/2005

Lykilorð
  • Friðhelgi einkalífs
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Lögbann
  • Kröfugerð
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. júní 2006.

Nr. 541/2005.

Jónína Benediktsdóttir

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

365-prentmiðlum ehf. og

Kára Jónassyni

(Jón Magnússon hrl.)

 

Friðhelgi einkalífs. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Lögbann. Kröfugerð. Gjafsókn.

 

J krafðist staðfestingar á lögbanni sem hún hafði fengið lagt við því að P birti í blaðinu F eða öðrum fjölmiðlum í hans eigu gögn sem hún taldi hafa verið fengin úr tölvupósthólfi sínu með ólögmætum hætti. Hún krafðist einnig staðfestingar á ákvörðun sýslumanns um að taka í sínar hendur tiltekin gögn í vörslum P. Ekki var hins vegar gerð krafa um þau réttindi, sem J leitaði verndar á til bráðabirgða með lögbanni, og ekki heldur um að fyrrgreind gögn yrðu afhent henni. Var kröfugerð J að þessu leyti talin í andstöðu við 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 og því ekki unnt að leysa úr öðru en því hvort formleg og efnisleg skilyrði væru til að staðfesta lögbannsgerðina. Talið var að krafa J um lögbann væri í senn of víðtæk og óákveðin til þess að taka mætti hana til greina og var kröfu hennar um staðfestingu lögbannsins því hafnað. Ekki var talið að krafa J um staðfestingu á ákvörðun sýslumanns um töku fyrrgreindra gagna úr vörslum P kæmi til álita, þar sem ekki yrði leitað sjálfstæðs dóms um slíka ráðstöfun. J krafðist þess jafnframt að K, ritstjóra F, yrði gerð refsing fyrir brot gegn 2. mgr. 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kom ekki til álita að K yrði gerð refsing samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laganna þar sem ætluðum verknaði hans var ekki lýst með þeim hætti í héraðsdómsstefnu og dómkrafa um refsingu við það miðuð að ákvæðið gæti átt við. Fallist var á með J að skrif F um fjárhagsleg málefni hennar hafi lotið að einkamálefnum í merkingu 229. gr. laganna, svo og það efni þessara skrifa, þar sem greint var frá hvatningum J og öðrum hlut hennar sjálfrar í ráðagerðum um að kæra nafngreinda menn. Litið var til þess að skrif F hefðu haft að geyma efni, sem ætti erindi til almennings og varðaði mál, sem miklar deilur hefðu staðið um í þjóðfélaginu. Þótt jafnframt hefði verið greint frá fjárhagsmálefnum J í umfjöllun F var talið að þau væru svo samfléttuð fréttaefninu í heild að ekki yrði greint á milli. Var fallist á með P að ekki hefði verið gengið nær einkalífi J en óhjákvæmilegt væri í opinberri umræðu um málefni sem varðaði almenning. Að þessu virtu var lagt til grundvallar að nægar ástæður hefðu verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu þessara skrifa blaðsins og K ekki gerð refsing samkvæmt ákvæðinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2005. Hún krefst þess að staðfest verði með dómi lögbann, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 30. september 2005 við því að stefndi 365-prentmiðlar ehf. birti opinberlega einkagögn áfrýjanda í dagblaðinu Fréttablaðinu eða öðrum fjölmiðlum sínum, að hluta til eða í heilu lagi, með beinni eða óbeinni tilvitnun, hvort heldur um er að ræða tölvupóst þar sem áfrýjandi sé ýmist sendandi eða viðtakandi eða önnur slík persónuleg einkaskjöl hennar sem stefndi hafði í sínum vörslum. Hún krefst þess einnig að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 30. september 2005 um töku einkagagna úr fórum stefnda 365-prentmiðla ehf. á starfsstöð hans að Skaftahlíð 24, Reykjavík, verði staðfest með dómi. Hún krefst þess ennfremur að stefnda Kára Jónassyni verði gerð ítrasta refsing fyrir brot gegn 2. mgr. 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá krefst hún þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 5.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. október 2005 til greiðsludags. Loks krefst hún málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með héraðsdómi var vísað frá kröfu áfrýjanda um að stefnda Kára Jónassyni yrði gerð refsing fyrir að hafa brotið ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Sú niðurstaða hefur ekki verið kærð til Hæstaréttar eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kemur hún því ekki endurskoðunar.

I.

Áfrýjandi bar fram kröfu við sýslumanninn í Reykjavík 29. september 2005 um að lagt yrði á lögbann við því að stefndi 365-prentmiðlar ehf. birti í Fréttablaðinu eða öðrum fjölmiðlum í eigu hans gögn, sem hún taldi vera fengin úr tölvupósthólfi sínu með ólögmætum hætti. Sýslumaður varð við kröfu áfrýjanda og lagði á lögbann degi síðar. Fréttablaðið hafði þá birt daglega frá 24. september 2005 fréttaefni, sem áfrýjandi taldi vera þannig fengið. Í lögbannsbeiðni sagði að áfrýjanda væri ókunnugt um hvernig blaðið hafi komist yfir gögnin, en þau væru ekki frá henni komin og hafi verið tekin ófrjálsri hendi úr tölvu hennar eða frá öðrum stað, þar sem þau voru vistuð. Óskað hafi verið eftir rannsókn lögreglu á tildrögum þess að Fréttablaðið fékk gögnin. Þessum aðdraganda málsins var lýst með svipuðum hætti í héraðsdómsstefnu. Stefndi Kári, sem er ritstjóri Fréttablaðsins, og Sigurjón M. Egilsson, fréttaritstjóri, gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Kom þar fram að hinum síðarnefnda hafi borist gögn, sem greinilega hafi verið prentuð út úr tölvu eða ljósrit slíkra gagna. Að öðru leyti kvaðst hann ekki vilja greina frá því með hvaða hætti þau bárust. Af hálfu blaðsins hafi strax verið kannað hvort gögnin væru í raun komin úr tölvu áfrýjanda, meðal annars með því að spyrja hana sjálfa. Hafi upplýsingar úr þeim ekki verið birtar fyrr en fullvíst var að þau stöfuðu frá áfrýjanda.

Í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar segir að hún hafi á sínum tíma rekið félagið Aktiverum ehf., sem starfrækti líkamsræktarstöð undir nafninu Planetpulse. Félagið hafi haft tölvulénið „planetpulse.is“ og áfrýjanda og öðrum starfsmönnum þess verið úthlutað þar tölvupóstfangi. Var notandanafn áfrýjanda „jonina@planetpulse.is“ og hafi hún ein þekkt lykilorð að tölvupóstfangi sínu hjá félaginu. Bú þess hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 2003 og eignir þess seldar, þar á meðal sú tölva eða netþjónn, þar sem áðurnefnd tölvupósthólf starfsmanna voru. Liggi ekki fyrir upplýsingar um að skiptastjóri þrotabúsins hafi hlutast til um að eyða tölvupósti af netþjóninum áður en hann var seldur. Fyrir héraðsdómi lýsti áfrýjandi þeirri skoðun að gögnin hafi verið prentuð út úr tölvupósthólfi hennar í júlí eða ágúst 2005, en þá hafi hennar eigin tölva, sem hún notaði 2002, verið löngu ónýt orðin.

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var lýst yfir að rannsókn lögreglu, sem áður var getið, væri ekki lokið.

II.

Fyrir liggur í málinu að Fréttablaðið birti efni úr hluta þeirra gagna, sem ágreiningur aðilanna stendur um, en úr öðrum hlutum þeirra hefur blaðið ekkert birt. Við lögbannsgerðina 30. september 2005 tók sýslumaður öll gögnin í sínar vörslur með stoð í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Beindist lögbann áfrýjanda jafnt að gögnum, sem birt hafði verið úr, sem öðrum gögnum. Fyrir dómi kvað stefndi Kári efni úr mestum hluta þeirra skjala, sem blaðinu bárust, hafa verið birt. Þau hafi haft að geyma upplýsingar um svokallað Baugsmál, sem ótvírætt hafi verið fréttaefni fyrir lesendur blaðsins og það viljað varpa ljósi á. Ekki hafi staðið til að birta persónulegar upplýsingar úr þessum gögnum eða skýra frá einkamálum áfrýjanda, enda hafi það ekki verið gert.

Áfrýjandi reisir kröfur sínar á því að stefndu hafi brotið rétt á henni með því að birta efni úr gögnum, sem tekin hafi verið með ólögmætum hætti úr tölvupósthólfi hennar. Það hafi að auki verið birt þvert ofan í bann hennar, meðal annars í símtali við stefnda Kára. Með því hafi stefndu rofið friðhelgi einkalífs hennar, sem hún njóti samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Sé hafið yfir vafa að bréfasamskipti hennar við aðra séu trúnaðarsamskipti, sem öðrum sé óheimilt að verða sér úti um aðgang að. Hún hafi mátt treysta því að enginn kæmist inn í samskipti hennar við aðra í tölvupósti, þar sem hún hafi sent og tekið við honum á persónulegum forsendum og í skjóli síns heimilis. Í málatilbúnaði áfrýjanda segir að tölvupóstsamskiptin hafi að geyma misjafnlega persónulegar og nærgöngular upplýsingar sem allar teljist þó vera einkamál hennar og þeirra, sem hún átti í trúnaðarsamskiptum við, í merkingu 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmálans og 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga.

Skrif í Fréttablaðinu í lok september 2005, sem að meira eða minna leyti voru reist á efni frá áfrýjanda samkvæmt framansögðu, hafa verið lögð fram í málinu. Var fjallað um þetta í mörgum greinum í blaðinu og er sú umfjöllun allmikil að vöxtum. Í héraðsdómi er einkum greint frá þeim skrifum á þann veg að teknar voru upp nokkrar fyrirsagnir og einstakar setningar að auki, sem gefa mynd af því efni, sem um ræðir. Stefndu lýsa sjálfir skrifum blaðsins á þann veg að þar sé fjallað um hvernig áfrýjandi og nokkrir þekktir menn í þjóðfélaginu hafi borið saman bækur sínar og lagt á ráðin um að nafngreindur maður kæmi fram kæru á hendur forráðamönnum fyrirtækisins Baugs Group hf., hvaða lögmann hann ætti að ráða til verksins og annað því tengt. Málefnið sé ekki einkamál áfrýjanda og fréttaflutningur blaðsins af þessum tjáskiptum hennar við aðra og afskipti af því að koma fram kærum á hendur öðrum hafi verið mikilvægur. Umfjöllun á grundvelli gagnanna hafi verið eðlileg, fagleg fréttamennska viðhöfð og blaðið átt skýlausan rétt á að birta efnið samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Verði hins vegar litið svo á að tölvubréf séu einkagögn, óháð því hvort þau fjalli um einkamálefni eða ekki, þá hljóti bréf, sem áfrýjandi hafi sent frá sér, að vera eign viðtakenda en ekki hennar. Málsóknarréttur sé þá á hendi viðtakenda en ekki sendandans. Í skrifum blaðsins sé einnig byggt á tölvubréfum, þar sem áfrýjandi hafi hvorki verið sendandi né viðtakandi, heldur sé þar um að ræða bréfaskipti annarra manna, sem hún hafi fengið framsend inn á sitt tölvupósthólf.

Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi neitaði stefndi Kári því að áfrýjandi hefði bannað frekari skrif, þar sem efni yrði sótt í margnefnd tölvugögn. Í stuttu símtali hafi áfrýjandi spurt hvort þessum skrifum yrði haldið áfram og hann gefið það svar að hann ætti von á að svo yrði.

III.

Áfrýjandi fékk eins og áður greinir lagt lögbann 30. september 2005 við því að stefndi 365-prentmiðlar ehf. „birti opinberlega einkagögn gerðarbeiðanda í dagblaðinu „Fréttablaðið“ eða öðrum fjölmiðlum gerðarþola, að hluta til eða í heilu lagi, með beinni eða óbeinni tilvitnun, hvort heldur um er að ræða tölvupóst þar sem gerðarbeiðandi er ýmist sendandi eða viðtakandi eða önnur slík persónuleg einkaskjöl gerðarbeiðanda sem gerðarþoli hefur í sínum vörslum.“ Í kjölfarið höfðaði hún málið með stefnu, sem gefin var út af dómstjóranum í Reykjavík 6. október 2005, og þingfesti það 11. sama mánaðar. Í héraðsdómsstefnu gerði áfrýjandi þá kröfu að lögbannið yrði staðfest og ennfremur að staðfest yrði sú ákvörðun sýslumanns að taka í sínar hendur gögn í vörslum stefnda 365-prentmiðla ehf. Engin krafa var hins vegar gerð um þau réttindi, sem áfrýjandi leitaði verndar á til bráðabirgða með lögbanni, og ekki heldur um að fyrrgreind gögn yrðu afhent henni. Kröfugerð áfrýjanda, sem er á sama veg fyrir Hæstarétti, er að þessu leyti í andstöðu við þá reglu 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um að leita skuli í einu og sama máli dóms um staðfestingu á lögbanni og þau réttindi, sem lögbanni er ætlað að vernda. Þessi annmarki á kröfugerð áfrýjanda getur þó ekki einn og sér valdið því að málinu verði vísað frá dómi að þessu leyti. Áfrýjandi verður á hinn bóginn að sæta því að í málinu verði ekki leyst úr öðru en því hvort formleg og efnisleg skilyrði séu til að staðfesta lögbannsgerðina.

Krafa áfrýjanda um lögbann tók sem fyrr segir til þess að stefnda 365-prentmiðlum ehf. yrði meinað að birta efni úr ótilgreindum einkagögnum hennar, í heild eða að hluta og hvort heldur með beinni eða óbeinni tilvitnun. Þótt áfrýjandi hafi leitast við að afmarka nánar inntak kröfu sinnar með því að taka fram að átt væri við tölvupóst, sem hún hafi sent eða tekið við, og önnur slík persónuleg einkaskjöl, var í engu tiltekið hvort krafa hennar varðaði öll atriði, sem fram komu í þessum gögnum, án tillits til þess hvort þau væru alkunn eða aðrar heimildir voru tiltækar fyrir. Enginn munur var þar gerður á gögnum, sem stöfuðu frá áfrýjanda sjálfri eða beint var til hennar af þeim, sem að orðsendingu stóð, og gögnum, sem voru henni óviðkomandi en komust höfðu allt að einu í hennar hendur. Ekki var skýrt nánar hvað átt væri við með orðunum „önnur slík persónuleg einkaskjöl“ í kröfu áfrýjanda og er ekkert fram komið um að slík skjöl hennar hafi komist í hendur stefnda 365-prentmiðla ehf. Ekkert var leitast við að afmarka frekar hvaða efni gögn þessi voru talin varða. Við svo búið var ógerlegt að leggja á lögbann, sem kostur gæti verið á að halda uppi samkvæmt efni sínu eftir reglum 32. gr. laga nr. 31/1990, nema eftir atvikum að undangengnu því að áfrýjandi afmarkaði nánar kröfu sína þegar í ljós var komið við gerðina hver gögnin voru, sem þessi stefndi hafði undir höndum, sbr. 2. mgr. 31. gr. sömu laga. Krafa áfrýjanda um lögbann var því í senn of víðtæk og óákveðin til þess að taka mætti hana til greina. Að þessu virtu er ekki annað unnt en að hafna kröfu áfrýjanda um staðfestingu lögbannsins.

Samkvæmt því, sem liggur fyrir í málinu, hefur sýslumaður varðveitt gögnin, sem tekin voru úr vörslum stefnda 365-prentmiðla ehf. við framkvæmd lögbannsins, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 31/1990. Samkvæmt VI. kafla sömu laga verður ekki leitað sjálfstætt dóms um staðfestingu á slíkri ráðstöfun, sem gripið er til við lögbannsgerð, heldur verður leyst úr um réttmæti hennar í tengslum við staðfestingu á gerðinni í heild. Áfrýjandi hefur ekki gert kröfu í málinu um að dæmt verði um rétt hennar til að fá gögn þessi afhent úr vörslum sýslumanns. Kemur það því ekki frekar til álita í málinu.

IV.

Fyrir héraðsdómi krafðist áfrýjandi þess að stefnda Kára yrði gerð refsing fyrir brot gegn 228. gr. almennra hegningarlaga. Sagði í stefnu að stefndi hafi brotið gegn því ákvæði með því að verða sér úti um aðgang að einkagögnum áfrýjanda, sem geymd hafi verið í tölvutæku formi, með brögðum eða annarri áþekkri, ólögmætri aðferð, og hnýsast í gögnin. Sú verknaðarlýsing í stefnu fellur að ákvæði 1. mgr. 228. gr., sem mælir fyrir um refsingu fyrir slíka háttsemi, en þar eru talin upp bréf og önnur gögn sem hafa að geyma upplýsingar um einkamál annars manns. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá kröfu um refsingu samkvæmt 1. mgr. og 3. mgr. 228. gr. Krefst hún þess að stefnda verði gerð refsing með heimild í 2. mgr. 228. gr., en samkvæmt henni varðar það refsingu að ónýta eða skjóta undan einkagögnum þeim, sem nefnd eru í 1. mgr. sömu greinar. Í héraðsdómsstefnu var ætluðum verknaði stefnda ekki lýst þannig að ákvæði þetta gæti átt við og dómkrafa um refsingu við það miðuð, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til álita að stefnda verði gerð refsing með heimild í 2. mgr. 228. gr. almennra hegningarlaga.

Áfrýjandi styður kröfu sína um að stefnda Kára verði gerð refsing jafnframt við 229. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt henni skal hver, sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum manns, án þess að nægar ástæður hafi verið fyrir hendi er réttlæti verknaðinn, sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Vegna þessarar kröfu kemur til úrlausnar hvort skrif Fréttablaðsins hafi lotið að einkamálefnum áfrýjanda, sem áðurnefnd tölvugögn hafi haft að geyma, og hafi svo verið hvort blaðið hafi skýrt frá þeim opinberlega án þess að nægar ástæður hafi réttlætt það.

Áður var þess getið að umfjöllun blaðsins hafi að einhverju leyti byggst á bréfaskiptum milli annarra manna, sem bárust áfrýjanda og þaðan til stefnda 365-prentmiðla ehf. Í þeim var í engu vikið að áfrýjanda og var umfjöllun blaðsins, sem byggði á þeim, því ekki brot gagnvart henni. Að stærstum hluta var þó byggt á bréfaskiptum áfrýjanda sjálfrar við aðra menn, sem ekki voru lengur varðveitt í hennar tölvu, heldur komin í hendur annarra í útprentuðu formi. Er að framan getið efnis þeirrar umfjöllunar, sem laut að ráðagerðum um kærur á hendur forráðamönnum Baugs Group hf., en einnig var í skrifum blaðsins vikið að tölvupóstskiptum áfrýjanda við annan mann um fjárkröfur hennar á hendur einum fyrirsvarsmanna félagsins. Þegar til þessa er litið verður fallist á með áfrýjanda að skrif Fréttablaðsins um fjárhagsleg málefni hennar hafi lotið að einkamálefnum í merkingu 229. gr. almennra hegningarlaga, svo og það efni þessara skrifa, þar sem greint var frá hvatningum áfrýjanda og öðrum hlut hennar sjálfrar í ráðagerðum um að kæra nafngreinda menn.

Kemur þá til álita sú málsvörn stefnda að nægar ástæður hafi verið fyrir hendi til að réttlæta birtingu skrifa, sem unnin voru upp úr margnefndum tölvupóstskiptum og höfðu meðal annars að geyma einkamálefni áfrýjanda. Við úrlausn um það verður litið til þess að þegar skrif Fréttablaðsins birtust hafði málefni tengd kæru um ætlaða refsiverða háttsemi forráðamanna Baugs Group hf. um alllangt skeið borið hátt í opinberri umræðu hér á landi og harðar deilur staðið um þau, meðal annars vegna húsleitar lögreglu hjá félaginu í ágúst 2002 og ákæru á hendur nokkrum fyrirsvarsmönnum þess í júlí 2005. Skrif blaðsins höfðu að geyma efni, sem átti erindi til almennings og varðaði mál, sem miklar deilur höfðu staðið um í þjóðfélaginu. Þótt jafnframt hafi verið greint í umfjöllun blaðsins frá fjárhagsmálefnum áfrýjanda voru þau svo samfléttuð fréttaefninu í heild að ekki varð greint á milli. Verður fallist á með stefnda að ekki hafi verið gengið nær einkalífi áfrýjanda en óhjákvæmilegt var í opinberri umræðu um málefni, sem varðaði almenning. Að öllu þessu virtu verður lagt til grundvallar að nægar ástæður hafi verið fyrir hendi, sem réttlættu birtingu þessara skrifa blaðsins. Verður stefnda Kára ekki gerð refsing samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga.

Áfrýjandi krefst þess loks að stefndu verði óskipt gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð 5.000.000 krónur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Að framan var komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið farið út fyrir mörk heimillar tjáningar í skrifum Fréttablaðsins. Er krafan að öðru leyti ekki lögð fyrir með þeim hætti að efni séu til að taka hana til greina svo sem rakið er í forsendum héraðsdóms. Verða stefndu samkvæmt því sýknaðir af henni.

Héraðsdómur verður samkvæmt öllu framansögðu staðfestur. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jónínu Benediktsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2005.

          Réttarstefna í máli þessu var gefin út 6. október sl.  Hún var birt lögmanni stefndu án þess að dagsetningar væri getið og málið var þingfest 11. s.m.  Það var dómtekið 29. f.m.

Stefnandi er Jónína Benediktsdóttir, Stigahlíð 70, Reykjavík.

Stefndu eru 365-prentmiðlar ehf., Skaftahlíð 24, Reykjavík og Kári Jónasson, Hvassaleiti 69, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

Á hendur stefnda, 365-prentmiðlum ehf.:

a)  Að lögbann, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 30. september 2005 við því að stefndi 365-prentmiðlar ehf. birti opinberlega einkagögn stefnanda í dagblaðinu “Fréttablaðið” eða öðrum fjölmiðlum gerðarþola, að hluta til eða í heilu lagi, með beinni eða óbeinni tilvitnun, hvort heldur um er að ræða tölvupóst þar sem stefnandi er ýmist sendandi eða viðtakandi eða önnur slík persónuleg einkaskjöl stefnanda sem stefndi hefur í sínum vörslum, verði staðfest með dómi.

b)  Að ákvörðun sýslumanns, dags. 30. september 2005, um töku einkagagna úr fórum stefnda á starfsstöð hans að Skaftahlíð 24, Reykjavík verði staðfest með dómi.

Á hendur stefnda, Kára Jónassyni:

c)  Að stefnda verði gerð ýtrasta refsing fyrir að hafa án samþykkis stefnanda komist yfir einkagögn stefnanda og skýrt opinberlega frá efni þeirra í dagblaðinu “Fréttablaðið”, samkvæmt ákvæðum 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 47. gr. sbr. 74. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, sbr. og 7. gr. 1. tl. sbr. 5. gr. og 42. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Á hendur báðum stefndu in solidum:

d)  Að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá þingfestingu málsins til greiðsludags.

e)  Að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar.

Dómkröfur stefndu:

a)  Að hafnað verði kröfu stefnanda um staðfestingu lögbanns sýslumanns frá 30. september 2005 á lögbannsgerð sýslumannsins í Reykjavík nr. L-26/2005.  Þess er hins vegar krafist að framangreint lögbann verði fellt úr gildi.

b)  Að hafnað verði kröfu stefnanda um staðfestingu ákvörðunar sýslumanns dags. 30. september 2005 í lögbannsgerð nr. 26/2005 um töku gagna úr fórum stefnda að Skaftahlíð 24, Reykjavík.  Þess er krafist að framangreind ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi.

c)  Af hálfu Kára Jónassonar er krafist sýknu af refsikröfu.

d)  Að sýknað verði af kröfu um miskabætur.

e)  Að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.  Jafnframt er farið fram á að fram komi í dóminum að trygging sú, sem stefnanda var gert að setja, standi einnig til tryggingar málskostnaði stefnda.

I

Í stefnu segir að stefndi, 365-prentmiðlar ehf., gefi út dagblöðin “Fréttablaðið” og “DV”, vikuritið “Hér og nú”, Birta”, “Sirkus RVK” og fleiri rit og að stefndi, Kári Jónasson, sé ritstjóri Fréttablaðsins.

Þann 29. september 2005 lagði lögmaður stefnanda fyrir sýslumanninn í Reykja­vík lögbannsbeiðni gegn stefnda, 365-prentmiðlum ehf.  Þess var krafist að lagt yrði lögbann við því að gerðarþoli;

“a) Birti opinberlega einkagögn gerðarbeiðanda í dagblaðinu “Fréttablaðið”   eða öðrum fjölmiðlum gerðarþola, að hluta til eða í heilu lagi, með beinni eða      óbeinni tilvitnun, hvort heldur um er að ræða tölvupóst þar sem gerðarbeiðandi      er ýmist sendandi eða viðtakandi eða önnur slík persónuleg einkaskjöl   gerðar­­beiðanda sem gerðarþoli hefur í sínum vörslum.

             Þá er þess krafist að;

b)  sýslumaður taki úr vörslum gerðarþola öll framangreind einkagögn sem gerðarþoli hefur í sínum vörslum og sem nýttir hafa verið eða bersýnilega eru ætlaðir til nota við þá athöfn sem krafist er lögbanns við.

Þá er þess krafist að lögbannið byrji á starfstöð gerðarþola án undanfarandi tilkynningar til gerðarþola um beiðni þessa, sbr. 26. gr. l. 31/1990 i.f. og 21. gr. 3. mgr. 2. tl. AFL.”

Í lögbannsbeiðninni var í meginatriðum skýrt frá málsatvikum sem hér segir:  Gerðarþoli, sem gefi út dagblaðið “Fréttablaðið”, hafi frá a.m.k. 24. september sl. birt daglega í Fréttablaðinu með áberandi hætti, ýmist með beinum eða óbeinum til­vísunum, upplýsingar um innihald tilgreindra tölvupóstsendinga sem teljist til einka­gagna gerðarbeiðanda, án þess að heimild gerðarbeiðanda væri fyrir hendi til slíkrar notkunar.  Gerðarþoli hafi lýst því yfir að hann hafi fengið téð einkagögn frá ónafn­greindum þriðja aðila án samþykkis gerðarbeiðanda og að hann muni birta frekar úr þeim á grundvelli “almannahagsmuna” þrátt fyrir að gerðarbeiðandi hafi mótmælt birtingu á gögnunum og raunar krafist afhendingar þeirra og ekki njóti við samþykkis hennar.  Vafalaust sé að Fréttablaðið hafi undir höndum einkagögn gerðarbeiðanda og hafi birt efni úr þeim eins og hjálögð myndrit úr Fréttablaðinu staðfesti.  Sem dæmi er eftirfarandi nefnt (sbr. einnig lýsingu í stefnu):

 “’Í Fréttablaðinu laugardaginn 24. september segir á forsíðu undir fyrirsögninni “Höfðu samráð um mál Jóns Geralds gegn Baugi” meðal annars að “. . . Fréttablaðið hefur undir höndum margs konar gögn sem sýna að Styrmir Gunnarsson, Jónína Benediktsdóttir og Jón Gerald Sullenberger höfðu unnið að undirbúningi málaferlanna gegn forsvarsmönnum Baugs . . .”   Þá segir ennfremur “ . . . í tölvupósti sem Styrmi sendir Jónínu að kvöldi 1. júlí 2002 segir . . .(endursögn).”   Í sama blaði á bls. 2 undir fyrirsögninni “Eyddu fingraförum Morgunblaðsins” segir ennfremur ”. . . í tölvupósti milli Styrmis og Jónínu Benediktsdóttur kemur fram að Jónína . . .(endursögn).”

Í Fréttablaðinu sunnudaginn 24. (svo) september 2005 er á forsíðu undir fyrirsögninni “Styrmir og Jónína sendu Baugsgögn til skattsins” staðhæft að “  . . . Jónína spurði Jón Gerald í tölvupósti 23. júlí hvort hann . . . (endursögn)” auk þess sem vísað er orðrétt í tölvupóstinn með eftirgreindum hætti: “. . . Næsta dag sagði hún í tölvupósti til Styrmis:” (tilvitnun) “ . . . Jónína sagði í tölvupósti til Styrmis Gunnarssonar 31. júlí:”  (tilvitnun).  Á bls. 2 í Fréttablaðinu þennan dag segir m.a. undir fyrirsögninni “Jón Gerald hringdi í Jón Steinar í maí” að þann ”. . . 9. maí 2002 sendi Jónína svohljóðandi tölvupóst til Jóns Geralds: “ (tilvitnun).  Þá segir: “ . . . 20. maí sendir Styrmir Jónínu svohljóðandi tölvupóst:” (tilvitnun), “. . . 29. maí sendir Styrmir Jónínu svohljóðandi tölvupóst:”  (tilvitnun).

Í Fréttablaðinu mánudaginn 25. (svo) september 2005) undir fyrirsögninni “Jón Steinar sendi Styrmi gögn frá Jóni Gerald án samþykkis” segir m.a.:  “ . . . Samkvæmt tölvupóstum sem Fréttablaðið hefur undir höndum . . .”  Í blaðinu er haldið uppteknum hætti að vísa ýmist beint eða óbeint í tölvupósta sem gerðarbeiðandi ýmist sendi eða móttök frá nafngreindum einstaklingum.

Í Fréttablaðinu þriðjudaginn 26. (svo) september 2005 er vísað orðrétt í einkagögnin.  Undir fyrirsögn á forsíðu “Þetta er ekki hótun” er vísað beinni ræðu í textann og staðhæft að textinn komi fyrir í “ . . . tölvupósti sem Jónína Benediktsdóttir sendi Tryggva Jónssyni, þáverandi stjórnanda í Baugi. . .”.”

Í lögbannsbeiðninni segir að gerðarþoli hagi birtingu úr einkagögnunum á þann veg að samhengi hluta sé fært úr skorðum og lagt sé út af efni þeirra með vísvitandi röngum og meiðandi hætti í því skyni að sverta mannorð gerðarbeiðanda.  Í ljósi yfirlýsinga Fréttablaðsins sé bersýnilegt og ótvírætt að a) Fréttablaðið hafi töluvert magn einkagagna gerðarbeiðanda í fórum sínum b) að Fréttablaðið hafi og muni birta téð gögn og c) að Fréttablaðið muni ekki virða kröfur gerðarbeiðanda um að láta þegar af allri birtingu gagnanna þótt stjórnendum gerðarþola sé ljóst eða eigi að vera að í hagnýtingu og birtingu gagnanna felist brot á réttindum gerðarbeiðanda.  Gerðar­beiðanda sé ókunnugt um hvernig Fréttablaðið hafi komist yfir téð einkagögn gerðar­beiðanda sem fullyrði að þau séu ekki frá henni komin og hafi því verið tekin ófrjálsri hendi úr tölvu hennar eða öðrum þeim stað þar sem tölvugögnin hafi verið vistuð.  Samkvæmt fréttum hafi Fjarskiptastofnun og Og vodafone hafið rannsókn á tildrögum þess að téð gögn komust í vörslur Fréttablaðsins.  Þá hafi gerðarbeiðandi óskað eftir lögreglurannsókn á hinu sama.

Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumannsins í Reykjavík (lögbannsgerð nr. L-26/2005) setti gerðarbeiðandi tryggingu að upphæð 800.000 krónur, sbr. 3. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 31/1990, fyrir greiðslu bóta sem gerðarþoli kynni að öðlast rétt til vegna beiðninnar eða meðferðar hennar.  Sýslumaður féllst á kröfu gerðar­­beiðanda um að gerðarþoli yrði ekki boðaður til gerðarinnar, sbr. 26. gr. laga nr. 31/1990 i.f. og 21. gr. 3. mgr. 2. tl. aðfararlaga, og var hún í tekin fyrir á starfsstöð gerðarþola að Skaftahlíð 24, Reykjavík.  Frestbeiðni lögmanns gerðarþola til að kynna sér kröfur gerðarbeiðanda og leggja fram greinargerð og frekari gögn var hafnað.  Sýslumaður skoraði á talsmenn gerðarþola að láta af þeirri háttsemi sem krafist væri lögbanns við.  Því var mótmælt þar sem það væri á valdi ritstjóra blaðanna að ákveða slíkt í samræmi við prentlög.

Sýslumaður lýsti því síðan yfir að “lagt sé lögbann við því að gerðarþoli 365-Prentmiðlar hf.; Birti opinberlega einkagögn gerðarbeiðanda í dagblaðinu “Frétta­blaðið” eða öðrum fjölmiðlum gerðarþola, að hluta til eða í heilu lagi, með beinni eða óbeinni tilvitnun, hvort heldur um er að ræða tölvupóst þar sem gerðarbeiðandi er ýmist sendandi eða viðtakandi eða önnur slík persónuleg einkaskjöl gerðarbeiðanda sem gerðarþoli hefur í sínum vörslum.”  Lögbannið skyldi þegar taka gildi.

Að lokum var bókað:  “Sýslumaður skorar á talsmenn gerðarþola að afhenda öll framangreind einkagögn sem gerðarþoli hefur í sínum vörslum og sem nýttir hafa verið eða bersýnilega eru ætlaðir til nota við þá athöfn sem krafist er lögbanns við.  Sigurjón M. Egilsson lýsir því yfir að hann hafi umrædd gögn undir höndum og afhendir þau sýslumanni sem tekur þau í sínar vörslur.  Lögmaður gerðarbeiðanda lýsir því yfir að hann sætti sig við þessa afhendingu á gögnum og að þar með sé uppfyllt krafa gerðarbeiðanda skv. b. lið í lögbannsbeiðni sinni.”

Í stefnu er vitnað til eftirfarandi ummæla sem höfð voru eftir fréttaritstjóra Fréttablaðsins í frétt Stöðvar 2 þ. 30. september sl. samkvæmt fréttabirtingu vefsíðunnar “vísir.is”:  “ . . . Spurður hvort eitthvað fleira hafi verið í póstunum sem for­svarsmenn blaðsins hafi ekki viljað að aðrir læsu segir Sigurjón svo vera, t.a.m. hlutir og fullyrðingar sem ættu ekki heima í jafn vönduðu blaði og Fréttablaðinu og hafi aldrei staðið til að birta. . .”

II

Stefnandi byggir á því að birting gagnanna, sem tekin hafi verið með ólög­mætum hætti af tölvu stefnanda, hafi verið ólögmæt þar sem um einkagögn stefnanda hafi verið að ræða og ekki notið við samþykkis hennar til opinberrar birtingar þeirra í fjölmiðlum.  Birtingin hafi verið saknæm, ólögmæt og refsiverð meingerð gegn persónu stefnanda og beri stefndu miskabóta- og refsiábyrgð gagnvart stefnanda vegna hinnar ólögmætu háttsemi.  Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að grípa til lögbanns­aðgerða til þess að stöðva réttarbrot stefndu þar sem ljóst hafi verið að stefndu hafi boðað frekari birtingar enn haft talsvert magn óbirtra einkagagna undir höndum eins og fréttaritstjóri stefnda, 365-prentmiðla ehf., hafi staðfest að lögbanninu loknu. 

Stefnandi styður kröfu sína um staðfestingu lögbanns við 24. gr. laga nr. 31/1990 og kröfu um að ákvörðun sýslumanns um töku “muna” úr fórum stefnda verði staðfest við 25. gr. 2. mgr. sömu laga.

Að því er varðar aðild er krafa um refsingu á hendur stefnda, Kára Jónassyni, reist á lögum um prentrétt nr. 57/1956.  Téðar greinar í Fréttablaðinu, sem innihaldi texta úr einkagögnum stefnanda, séu ekki höfundarmerktar á fullnægjandi hátt í skilningi nefndra laga og samkvæmt 15. gr. þeirra beri ritstjóri þá fébóta- og refsi­ábyrgð á efni blaðsins.  Með því að verða sér úti um aðgang að einkagögnum stefnanda, sem geymd hafi verið á tölvutæku formi, með brögðum eða annarri áþekkri ólögmætri aðferð hafi stefndi brotið gegn 228. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 30/1998, og með því að skýra opinberlega frá innihaldi téðra einkagagna án þess að samþykki stefnanda nyti við hafi hann brotið gegn ákvæði 229. gr. sömu laga.  Að auki er háttsemi stefnda talin varða hann refsingu samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 81/2003, kafla IX um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs, og lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.

Krafa um miskabætur á hendur báðum stefndu er reist á lögum um prentrétt og 26. gr.skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. og meginregluna um húsbóndaábyrgð og 17. gr. laga um prentrétt. 

III

Af hálfu stefnda, 365-prentmiðla ehf., er á því byggt að hafna beri staðfestingu lögbannsins þegar af þeirri ástæðu að samkvæmt 24. gr. 3. mgr. 1. tl. laga nr. 31/1990 verði lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega.  Einnig er á því byggt að synja beri um staðfestingu lögbannsgerðarinnar þar sem engin sönnunargögn hafi verið færð fyrir dóminn sem sýni að lögbannsgerð sýslumannsins í Reykjavík eigi rétt á sér og ekki hafi verið vikið að því nákvæmlega við hvaða gögn væri átt er   lögbann hafi verið lagt við birtingu á einkagögnum; hinu sama gegni um lög­bannsbeiðni og stefnu að þessu leyti.  Af hálfu stefnda er því haldið fram að þau gögn, sem vísað hafi verið til í Fréttablaðinu, hafi ekki verið einkagögn stefnanda.  Um sé að ræða gögn sem auðvelt sé að prenta út og fjölfalda auk þess sem hægt sé að senda þau á fjölda aðila í einu og gögnin, sem Fréttablaðið hafi fengið send, hafi líklega verið ljósrit eða útprentun af tölvugögnum.  Þá er á því byggt að birting gagnanna, sem Fréttablaðið hafi fengið send, hafi verið eðlileg fréttamennska og á  engan hátt saknæm, ólögmæt eða refsiverð meingerð gegn persónu stefnanda.  Fréttaflutn­ingur­inn hafi verið mikilvægur m.a. vegna þess að fram komi í umræddum gögnum hvernig stefnandi og nokkrir aðrir þekktir einstaklingar í þjóðfélaginu hafi borið saman bækur sínar og lagt á ráðin um að tiltekinn einstaklingur kæmi fram kæru á hendur forráðamönnum fyrirtækisins Baugs, hvaða lögmann hann ætti að ráða til verksins og hvaða kostum sá þyrfti að vera búinn.  Í umfjöllun blaðsins sé ekki á neinn hátt fjallað um einkamálefni viðkomandi aðila.

Varðandi refsikröfu á hendur stefnda, Kára Jónassyni, eru færð fram rökstudd andmæli gegn því að brotalýsing samkvæmt þeim lagagreinum, sem til er vísað af hálfu stefnanda, geti átt við.  Að auki heyri saksókn ekki undir stefnanda þar sem kveðið sé á um það í 31. gr. laga nr. 57/1956 að mál út af brotum á lögunum sæti meðferð opinberra mála.

Af hálfu stefndu er því mótmælt að skilyrði eða efnisrök séu til að dæma stefnanda miskabætur þar sem ekki hafi verið um að ræða ólögmæta meingerð gegn henni, friði hennar eða æru. 

IV

Í þinghaldi 10. nóvember var bókað að lögmenn væru sammála um að gögn, sem sýslumaður tók í sínar vörslur við lögbannsgerðina 30. september 2005, yrðu sýnd dómara en án þess að þau yrðu formlega lögð fram sem dómskjöl.  Þann 22. nóvember var eftirfarandi bókun gerð:  “Dómarinn greinir frá eftirfarandi:  Í dag fór fram á skrifstofu Þuríðar Árnadóttur, deildarstjóra sýslumannsins í Reykjavík, og að henni viðstaddri skoðun dómara og lögmanna aðila á gögnum sem haldlögð voru við lögbannsgerðina 30. september sl.  Þau reynast hafa að geyma tjáskipti stefnanda og nokkurra nafngreindra einstaklinga og virðast á einhverjum tíma hafa verið prentuð út af tölvupósthólfi stefnanda (jonina@planetpulse.is).”

             Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur stefnandi, stefndi Kári Jónasson og vitnið Sigurjón M. Egilsson, fréttaritstjóri Fréttablaðsins.

          Stefnandi kvað Sigríði Dögg Auðunsdóttur hjá Fréttablaðinu hafa hringt í sig áður en umræddar birtingar hófust og sagt að blaðið hefði gögn frá henni sem vörðuðu “Baugsmálið” en neitað beiðni hennar um að fá þau afhent.  Hún kvaðst hafa séð gögnin sem eru í vörslu sýslumanns.  Þau væru ekki prentuð úr tölvu hennar sem hefði verið biluð á útprentunartíma, þ.e. í júlí og ágúst sl., en hins vegar væru þau fengin úr tölvupósthólfi hennar. 

Stefndi kvað tölvugögnin, þ.e. ljósrit úr tölvu, hafa borist Sigurjóni M. Egilssyni.  Þeir hafi farið saman yfir gögnin sem hafi borið með sér að vera innlegg í umræðu um “Baugsmál”.  Vinnsla fréttaefnis úr þeim hafi ekki verið hafin fyrr en sann­leiksgildi þeirra hefði verið staðfest með símtölum við þá sem tengdust tjá­skiptum sem þar komi fram.  Ætlunin hafi verið að birta einungis það sem hefði fréttagildi í gögnunum en  alls ekki viðkvæmar persónulegar upplýsingar.  Hann kvað sér vera ókunnugt um að stefnandi hafi bannað birtingu.  Hún hafi hringt til sín eftir að birtingar hófust, á mánudegi eða þriðjudegi og spurt:  “Ætlið þið að halda þessu áfram?” og hann svarað:  “Já, ég geri ráð fyrir því.”  Hún hafi ekki beðið um að birtingum yrði hætt eða að hún fengi gögnin afhent.

Sigurjón M. Egilsson kvað umrædd gögn hafa borist sér en neitaði að upplýsa hvernig það hefði gerst.  Sigríði Dögg Auðunsdóttur hafi verið falið að leita stað­festingar á að þetta væru rétt gögn þótt þau hafi ekki virst vera fölsuð.  Hann kvaðst hafa orðið vitni að símtali hennar við stefnanda og einnig hafi sér verið kunnugt að hún hafi hringt í Styrmi Gunnarsson og farið með gögnin til hans, sýnt honum þau og átt við hann viðtal.  Hann kvað einungis hafa verið miðað að því að birta það sem væru almennar fréttir en ætlunin hafi aldrei verið að birta upplýsingar um persónuleg mál.

Í stefnu greinir frá því að stefnandi hafi óskað eftir því við lögreglu “að rannsakað yrði með opinberum hætti hvernig Fréttablaðið hefði komist yfir téð gögn án vitundar eða samþykkis stefnanda.”  Ekki var farið fram á að beðið yrði eftir lyktum þeirrar rannsóknar og verður ekki fullyrt að þetta hafi orðið með ólögmætum hætti.  Engin efni eru heldur til að staðhæft verði að útprentanir/ljósrit útprentana af tölvuskeytum, sem um ræðir í málinu, séu einkagögn stefnanda.  Fréttablaðið birti frásagnir, byggðar á þessum gögnum, um efni sem varðar ætlaðan aðdraganda viða­mikils opinbers máls en þar var ekki vikið að einkamálefnum stefnanda og er eigi sýnt fram á að sú hafi verið ætlunin.  Með skrifum Fréttablaðsins var ekki farið út fyrir mörk sem tjáningarfrelsi eru sett, sbr.73. gr. 3. mgr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. 2. mgr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994.  Samkvæmt þessu er ekki fullnægt þeim áskilnaði 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 að stefnandi hafi sannað eða gert sennilegt að athöfn, byrjuð eða yfirvofandi, sem lögbann yrði lagt við, hafi brotið eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hennar.  Ber því að synja kröfu stefnanda á hendur stefnda, 365-prentmiðlum ehf., um að staðfest verði með dómi lögbann, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 30. september 2005 við því að stefndi, 365-prentmiðlar ehf., birti opinberlega einkagögn stefnanda í dagblaðinu “Fréttablaðið” eða öðrum fjölmiðlum gerðarþola, að hluta til eða í heilu lagi, með beinni eða óbeinni tilvitnun, hvort heldur um er að ræða tölvupóst þar sem stefnandi er ýmist sendandi eða viðtakandi eða önnur slík persónuleg einkaskjöl stefnanda sem stefndi hefur í sínum vörslum. 

Af framangreindri niðurstöðu leiðir, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 31/1990, að einnig beri að sýkna stefnda, 365-prentmiðla ehf., af þeirri kröfu stefnanda að ákvörðun sýslumanns 30. september 2005 um töku gagna úr fórum stefnda á starfsstöð stefnda Skaftahlið 24, Reykjavík verði staðfest með dómi.

Brot gegn lögum um fjarskipti nr. 81/2003 og lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 sæta meðferð opinberra mála og ber af sjálfsdáðum að vísa frá dómi kröfu stefnanda um refsingu á hendur stefnda, Kára Jónassyni, að því leyti sem hún er reist á ákvæðum nefndra laga.  Málskostnaður skal falla niður í þeim þætti málsins. 

Samkvæmt 31. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956 sæta mál vegna brota á þeim meðferð opinberra mála.  Mál út af brotum gegn 228. gr. og 229. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940 getur hins vegar, sbr. 242. gr. s.l., sá einn höfðað sem misgert er við og breytir engu um það þótt í þessu tilviki sé byggt á 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um refsiábyrgð stefnda, Kára Jónassonar, sem ritstjóra Fréttablaðsins vegna efnis sem skortir nafngreiningu höfundar.

Með vísun til röksemda dómsins fyrir því að hafna beri staðfestingu lögbannsins er niðurstaða dómsins sú að ekki séu fram komnar sannanir um brot sem varði við 228. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 30/1998, og 229. gr., sbr. 121. gr. laga nr. 82/1998, almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að sýkna beri stefnda, Kára Jónas­son, af refsikröfu stefnanda reistri á þeim ákvæðum.

Tilvísun stefnanda í lög um prentrétt nr. 57/1956  án nánari heimfærslu til stuðnings miskabótakröfu mun fela í sér skírskotun til fébótaábyrgðar stefnda, Kára Jónassonar, sem ritstjóra samkvæmt ábyrgðarreglu 15. gr. 3. mgr. þeirra laga.  Í 17. gr. 1. mgr. sömu laga ræðir um innheimtu m.a. á fébótum sem ritstjóri er dæmdur til að greiða.  Samkvæmt 26. gr. 1. mgr. b-lið laga um skaðabætur nr. 50/1993 er heimilt að láta þann, sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, greiða miskabætur til þess sem misgert var við.   Niðurstaða dómsins er sú, með vísun til þess sem áður getur, að á engan hátt sé sýnt fram á að bótaskilyrði séu uppfyllt að þessu leyti og að því beri að sýkna stefndu af miskabótakröfu stefnanda.

Ákveðið er að aðilar málsins skuli bera hver sinn kostnað af rekstri þess.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Refsikröfu stefnanda, Jónínu Benediktsdóttur, á hendur stefnda, Kára Jónassyni, sem reist er á lögum um fjarskipti nr. 81/2003 og lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000, er vísað frá dómi.  Málskostnaður fellur niður í þeim þætti málsins.

Synjað er kröfu stefnanda um að staðfest verði með dómi lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 30. september 2005 við því að stefndi, 365-prentmiðlar ehf., birti opinberlega einkagögn stefnanda í dagblaðinu “Fréttablaðið” eða öðrum fjölmiðlum gerðarþola, að hluta til eða í heilu lagi, með beinni eða óbeinni tilvitnun, hvort heldur um er að ræða tölvupóst þar sem stefnandi er ýmist sendandi eða viðtakandi eða önnur slík persónuleg einkaskjöl stefnanda sem stefndi hefur í sínum vörslum.

Synjað er kröfu stefnanda um að ákvörðun sýslumanns 30. september 2005 um töku gagna úr fórum stefnda, 365-prentmiðla ehf., á starfsstöð hans Skaftahlíð 24, Reykjavík verði staðfest með dómi.

Stefndi, Kári Jónasson, er sýkn af refsikröfu stefnanda byggðri á 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Stefndu eru sýknir af miskabótakröfu stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.