Print

Mál nr. 356/2004

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur

Mánudaginn 21

 

Mánudaginn 21. mars 2005.

Nr. 356/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Þórhallsson hrl.

 Ásbjörn Jónsson hdl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum sem áttu sér stað er önnur þeirra var 8-10 ára, en hin 13-14 ára. Brot X gegn annarri stúlkunni voru hins vegar talin fyrnd. Refsing X var ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Þá var honum gert að greiða stúlkunum miskabætur, annarri 800.000 kr. en hinni 500.000 kr.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. ágúst 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að staðfest verði sakfelling ákærða, honum gerð refsing fyrir brot samkvæmt I. kafla og a. lið II. kafla ákæru, refsing hans þyngd og skaðabætur til Y hækkaðar í 1.500.000 krónur og til Z í 1.000.000 krónur.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður, en að því frágengnu að refsing verði milduð og dæmdar skaðabætur lækkaðar.

Ekki hafa verið færð fram haldbær rök fyrir aðalkröfu ákærða um frávísun málsins frá héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur að öðru leyti en því að um vexti af skaðabótakröfum fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er varðar refsingu ákærða, X, og sakarkostnað.

Ákærði greiði Y 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2000 til 27. desember 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Z 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. júlí 2000 til 1. júlí 2001, vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 12. mars 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns og Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur til hvorrar.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júlí 2004.

Málið höfðaði Ríkissaksóknari með ákæru útgefinni 26. maí 2004 á hendur ákærða, X, kt. [...], til refsingar

„fyrir kynferðisbrot gegn tveimur neðangreindum stúlkum:

I.       Y, fæddri í mars árið 1993:

a.         Með því að hafa í nokkur skipti að sumarlagi á árunum 2001 til 2003, þegar stúlkan var 8 til 10 ára, í bifreið ákærða sem hann hafði ekið ýmist að [...] eða að [...], káfað á kynfærum hennar innan­klæða, þar sem hún sat í fangi hans undir stýri bifreiðarinnar.

b.         Með því að hafa, í nokkur skipti frá miðju ári 2002 fram á árið 2003, þegar stúlkan var níu ára, á heimili ákærða að [...], þuklað á kynfærum hennar og sett fingur upp í endaþarm hennar. Áður hafði hann afklætt hana og látið hana leggjast á bakið ofan á sig, þar sem hann lá í rúmi sínu nakinn að neðan.

Brot skv. a lið teljast varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003, en brot skv. b lið teljast varða við 1. mgr. sama lagaákvæðis með áorðnum breytingum.

II.                  Z, fæddri í september árið 1985.

a.         Með því að hafa í nokkur skipti sumarið 1999, þegar stúlkan var 13 ára, í bifreið ákærða á [...], nálægt [...], káfað innanklæða á kynfærum hennar og farið með fingur inn í þau, þar sem hún sat í fangi hans undir stýri bifreiðarinnar.

b.      Að hafa, í nokkur skipti sumarið 2000, þegar stúlkan var 14 ára, í bifreið ákærða á [...], nálægt [...], sært blygðunarsemi hennar, með því að hafa káfað innanklæða á kynfærum hennar og farið með fingur inn í þau, þar sem hún sat í fangi hans undir stýri bifreiðarinnar.

Teljast brot skv. a lið varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003, en brot skv. b lið við 209. gr. sömu laga, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992.“

Af hálfu ætlaðra brotaþola í málinu eru gerðar svohljóðandi bótakröfur á hendur ákærða:

1. Að hann verði dæmdur til að greiða Y, 1.500.000 krónur í miska­bætur, með vöxtum sam­kvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2000 til 27. desember 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

2. Að hann verði dæmdur til að greiða Z, 1.000.000 krónur í miska­­bætur, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. júlí 2000 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til 12. mars 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðslu­dags.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru og að bótakröfum ætlaðra brotaþola verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og sýknu af nefndum bóta­kröfum, en til þrautavara að bætur verði lækkaðar verulega frá því sem krafist er.

I.

Við lýsingu málsatvika hér á eftir verður fjallað um sakarefni í sömu röð og gert er í ákæru. Þannig verður atvika­lýsingu skipt í tvo meginkafla (A. og B.), en í lok hvors kafla er að finna röksemdir dómsins um niðurstöðu varðandi við­komandi sakar­­­efni. Áður þykir rétt að gera grein fyrir for­sögu málsins og upphafi lög­reglu­­­rann­­­­­sóknar.

i. Ákærði er 54 ára að aldri, barnlaus og mun hafa búið alla tíð hjá foreldrum sínum. Þau fluttu að [...] 18. maí 2002, þar sem þau deila tveggja hæða íbúðarhúsnæði; ákærði í herbergi á neðri hæð og foreldrar hans í íbúð á þeirri efri. Áður bjuggu þau um langt árabil í [...], þar sem ákærði var virkur í íþrótta- og unglingastarfi og í aðal­stjórn [íþróttafélags]. Árið 1997 hóf S, móðir Y, þátttöku í unglinga­­ráði [íþróttafélagsins] og leitaði hún tals­­vert til ákærða vegna reynslu hans af félags­starfi unglinga. Tókust með þeim góð kynni, sem þróuðust á þann veg að ákærði varð heimilis­­vinur hjá S og T eiginmanni hennar og um­gekkst börn þeirra mikið. Í mars 2003 voru komnir alvarlegir brestir í hjóna­band S og T og flutti hann þá út af heimilinu. Um svipað leyti munu S og ákærði hafa tekið upp samband, en að sögn ákærða á samdráttur þeirra sér nokkuð lengri sögu.

Ákærði segir að frá árinu 1997 hafi það stundum komið fyrir að Y hafi heimsótt hann í [...] og þá helst til að leika við hunda hans eða horfa á dýra­­lífs­þætti í sjónvarpinu. Síðar meir, líklega um eða eftir 1999, hafi hún sóst eftir að fara með honum í mávs­eggjaleit á vorin og hann leyft henni að fara með í einhver skipti. Þau hafi farið saman í fólks­bifreið ákærða, af gerðinni Suzuki Baleno og yfir­leitt haldið á [...], í námunda við [...]. Þar hafi hann stundum leyft henni að stýra bifreiðinni, en á meðan hafi hún setið í fangi hans í ökumannssæti.

ii. Um svipað leyti og ákærði og S hófu samstarf sitt í [íþróttafélaginu] segist ákærði hafa kynnst Z, sem þá hafi verið að æfa knattspyrnu hjá félaginu. Hún hafi á þeim tíma sóst eftir að fara með honum að týna mávsegg og hann leyft henni að fara með, í ein fimm eða tíu skipti, á [...], yfirleitt í námunda við [...]. Í þau skipti hafi Q, vinur ákærða til margra ára, stundum slegist með í för. Z hafi svo nokkrum árum síðar farið að vinna í sjoppu á vallarsvæði [íþróttafélagsins], sem rekin hafi verið af knattspyrnudeild félagsins á sumrin. Á þeim tíma segist ákærði stundum hafa leyft henni að nota tölvu á skrifstofu félagsins á kvöldin og fara inn á internetið, á meðan hann hafi verið að vinna á skrif­stofunni. Einnig hafi hún, í að minnsta kosti eitt skipti, komið heim til hans í [...] og fengið að fara þar á spjall­rásina ircið. Að sögn ákærða hafi Z notað nafnið [...] á spjallrásinni. Þess utan kveðst ákærði, gegnum árin, margsinnis hafa ekið Z og öðrum krökkum lengri eða skemmri leið; stundum heim úr skóla, þegar veður hafi verið leiðinlegt og krakkarnir hafi veifað til hans að stöðva. Þá segist ákærði í einhver skipti hafa gaukað að Z sígarettum og gefið henni smá gjafir, yfirleitt í formi peninga. Þá hafi hann í eitt skipti fært henni bol frá Portúgal og einnig keypt handa henni kjól í jólagjöf, árið fyrir fermingu hennar. Kjólinn hafi hún sjálf valið í Kringlunni í Reykjavík. Ákærði kveðst síðast hafa hitt Z eftir að hann flutti til [...], en þá hafi hún komið til hans, verið á leið á skólaball og sníkt af honum 1.000 krónur.

iii. Upphaf máls þessa má rekja til þess er Y greindi S móður sinni frá því að kvöldi laugardagsins 23. ágúst 2003 að ákærði, sem þá var kærasti S, hefði misnotað hana kynferðislega. Í fram­haldi leitaði S til barnaverndarnefndar, sem vísaði málinu til lögreglunnar í [...] 27. ágúst sama ár, með beiðni um opinbera rannsókn. Y var tilnefndur réttargæslumaður daginn eftir og gaf hún skýrslu fyrir dómi í Barna­húsi 19. september, sem tekin var upp á mynd­band. Þar fór einnig fram læknis­rann­sókn á stúlkunni 30. sama mánaðar. Þá voru teknar vitna­­skýrslur af foreldrum Y (28. og 29. ágúst), hálfsystrum hennar, K (1. september) og L (13. febrúar 2004), auk annarra vitna, sem ekki verða nefnd, enda komu þau ekki fyrir dóm vegna málsins.

Ákærði var yfirheyrður tvívegis um ætluð brot gagnvart Y; 2. september og 27. nóvember 2003. Hann neitaði öllum ásökunum um kynferðislega misnotkun. Við seinni yfirheyrsluna var honum kynnt bótakrafa Y og hafnaði ákærði henni. Þá var einnig vikið að húsleit, sem fram fór í herbergi ákærða 19. september, en þann dag var lagt hald á ýmsa muni í eigu hans, meðal annars borð­tölvu. Við rannsókn á tölvunni og greiningu á innihaldi hennar vaknaði grunur um vörslur ákærða á barnaklámi. Var af því tilefni tekin önnur skýrsla af ákærða 27. nóvember og hann spurður um ýmis atriði varðandi tölvuna og innihald hennar. Er ekki ástæða til að rekja þann framburð ákærða, að öðru leyti en því, að þegar hann var spurður hvort hann kannaðist við notenda­nafnið [...] á spjallrásinni ircinu sagði hann Z hafa notað umrætt nafn, en hún hefði líklega fengið að nota tölvuna í eitt skipti á heimili hans.

iv. Í ljósi ofangreindra upplýsinga var Z boðuð til skýrslutöku 30. janúar 2004, sem vitni í rannsókn lögreglu á ætluðum brotum ákærða gagnvart Y. Í upphafi skýrslutökunnar greindi Z yfirheyranda frá því að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega tvö sumur í röð; líklega fyrst þegar hún hefði verið í 7. eða 8. bekk grunnskóla. Hún hefði engum þorað að segja frá þessu af ótta við umtal og að fólk myndi líta niður á hana, en sagði að eftir að hún hefði fengið boð daginn áður um að mæta í nefnda skýrslugjöf hefði hún „brotnað niður“ og sagt unnusta sínum frá því sem komið hefði fyrir hana. Skýrsla sú er tekin var af Z í fram­haldi af þessum upplýsingum varð í reynd kæruskýrsla hennar á hendur ákærða, sem hratt af stað sjálfstæðri lögreglurannsókn vegna þess þáttar málsins. Í tengslum við hana var meðal annars tekin vitnaskýrsla af móður Z, U 13. febrúar 2004, en daginn áður hafði ákærði verið yfirheyrður um sakar­­efnið og hann neitað öllum ásökunum á hendur sér. Við það tækifæri var ákærða kynnt bótakrafa Z, sem sett hafði verið fram af réttargæslumanni hennar og vísaði hann einnig þeirri bóta­kröfu á bug.

Verður nú vikið nánar að hvorum ákærukafla fyrir sig.

A. Ætluð brot gegn Y.

Atvikalýsing.

Y gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 19. september 2003; þá 10 ára gömul. Í upphafi skýrslugjafar var vitsmuna- og þroskastaða hennar könnuð með almennum spurningum. Jafnframt var kannað hvort Y þekkti muninn á réttu og röngu og hún í framhaldi spurð hver munurinn væri á því að segja satt og að plata. Y svaraði því svo: „Það er illt ef maður sé að plata og satt er gott.“ Hún lofaði að segja bara sannleikann og sagði, aðspurð um tilefni þess að hún væri stödd í Barna­húsi, að það væri „til að tala um það sem gerðist hjá mér.“ Aðspurð hvað hefði gerst hjá henni greindi Y fyrst frá eftirfarandi atviki.

[Tilvitnanir innan gæsalappa eru teknar orðrétt upp úr framburði stúlkunnar á mynd­bandsupptöku. Ef ósamræmis gætir við ritaðan texta í endurriti framburðarins skýrist það í öllum tilvikum af ónákvæmni í hinum ritaða texta]

Y kvaðst hafa verið 7 ára þegar ákærði, sem hún kallaði [...], hefði keyrt hana að samkomuhúsi, en þar hefði hún ætlað að sjá leikrit. Hún hefði ekki átt 500 krónur í aðgangseyri, en ákærði hefði gefið henni peninginn og hún farið á sýninguna. Að henni lokinni hefði hún verið á gangi þegar ákærði hefði látið hana setjast inn í bifreið hans og því næst ekið að [...]. Er þangað kom hefði ákærði sagt að hún „ætti að prófa, þannig að hann fór að fikta í hérna pjöllunni.“ Á meðan ákærði hefði gert þetta hefði hún setið í fangi hans í ökumannssæti bifreiðar­innar og ákærði látið hana stýra bifreiðinni „bara í hringi eins og svona 8.“ Y kvaðst greint sinn hafa verið í peysu og einhvers konar teygjubuxum og sagði ákærða hafa farið með hönd sína inn fyrir buxurnar og nærbuxur hennar þegar hann hefði káfað á henni.

Í frásögn Y, sem á eftir fylgdi og svörum hennar við spurningum yfir­heyranda, kom fram að ákærði hefði eftir umræddan atburð margsinnis, í „þrjú, tvö ár“, farið með hana í bifreið sinni, ýmist út að [...] eða „upp á heiði“ og þuklað á kynfærum hennar með sams konar hætti á meðan hún hefði verið að stýra bifreiðinni, en tilgangur ferðanna hefði verið „eigin­lega alltaf að fara í mávs­eggja­­leit.“ Y var beðin um að lýsa nánar einhverju atviki, sem hefði gerst á heiðinni og sagði svo frá: „Hérna, ég var sko á leiðinni heim og þarna, þá kom hann þá heim og ætlaði að fara þegar ég kom og hann spurði hvort að ég vildi fara í mávseggja­leit. Ég sagði "já já". Og hérna, hann keyrði, keyrði bara upp í heiði og hérna, síðan hérna, gerði hann það stundum, fikta í pjöllunni og hérna, síðan hérna og síðan fórum við bara alltaf út og finnum máva­egg.“ Nánar aðspurð hvað hefði gerst í bifreið ákærða á heiðinni svaraði Y svo til: „Hérna, ég, ég fór hérna, fór með honum nýja leið og hérna, við fórum alltaf upp á hól og þegar við vorum búin hérna í mávs­eggjaleit, þá gerðist þetta aftur, hann fiktaði alltaf í pjöllunni þá.“

Y greindi einnig frá atburðum, sem hún sagði hafa gerst á heimili ákærða, eftir að hann hefði flutt frá [...] til [...]. Hún lýsti húsakynnum þar og sagði ákærða hafa búið í lítilli „kompu“ á neðri hæð, en foreldrar hans búið á hæðinni fyrir ofan. Y sagði kompuna í reynd vera eitt herbergi, með klósetti og gangi. Í her­berginu hefði verið rúm, skápur, lítið borð og stólar, meðal annars svartur stóll, sem Y hefði alltaf viljað sitja á meðan hún og ákærði hefðu verið að horfa á „Animal Planet“ í sjónvarpinu. Hann hefði hins vegar ávallt tekið hana upp í rúmið. Aðspurð kvaðst Y ekki vita af hverju hún hefði farið heim til ákærða, en sagði: „Hann spurði alltaf hvort ég mætti koma með og svona la, la, la og þá bara fór ég bara með honum, þó ég vildi það ekki. ... Ég veit ekki af hverju, ég, það var eitthvað að mér, mér leið svo illa.“ Aðspurð hversu oft hún hefði farið heim til ákærða í [...] svaraði Y svo: „Ég held að það hafi verið svona mánuður. ... Ég held að það séu svona nítján, tíu skipti. ... Hérna, ég fór bara svona, held ég svona tíu sinnum heim til hans í [...].“

Nánar aðspurð um svarta stólinn sagði Y að ákærði hefði alltaf látið hana upp í rúmið. Í framhaldi hefði hann klætt hana úr buxum og nærbuxum, sett hana ofan á hann í rúminu og farið „bara að fikta í pjöllunni með puttunum.“ Hann hefði meitt hana „á pissugatinu“ þegar hann hefði reynt „alltaf að setja einn puttann sinn alltaf lengst inn í það“. Við þær aðfarir hefði Y kveinkað sér, hún sagt „bara alltaf ái“ og tekið hönd hans í burtu frá pissugatinu. Að sögn Y hefði ákærði þó reynt „bara alltaf að vera lengra og lengra og síðan gafst hann upp, þannig að hann hætti þá. Hann hann notaði eitthvað krem, með.“ Y sagði umrætt krem hafa verið „pissu­gult“ á litinn og kvað hún ákærða alltaf hafa notað það þegar hann hefði verið að fikta í henni. Umbúðirnar utan um kremið hefði hann tekið úr skúffu, sett kremið á fingur sína og því næst falið umbúðirnar undir kodda í rúminu. Að sögn Y hefði ákærði alltaf keyrt hana heim þegar hann hefði verið búinn að þessu.

Aðspurð hvernig ákærði hefði verið klæddur sagði Y að hann hefði ávallt verið í „jógings“ buxum og stundum í „jógings“ peysu, en hann hefði alltaf klætt sig úr buxunum, og í öll skiptin nema eitt líka úr nærbuxum, áður en hann hefði lagst á bakið í rúminu og sett hana ofan á hann, þannig að hún hefði legið á bakinu á maga hans. Í þeirri stöðu hefði ákærði haldið henni og hún ekki komist af honum þótt hún hefði alltaf reynt það. Í síðasta skiptið, sem þetta hefði gerst, hefði Y farið að gráta af sársauka. Aðspurð af hverju svo hefði verið svaraði hún: „Bara, hann fór aðeins lengra niður í pissugatið heldur en áður.“ Hún sagði að sér hefði aldrei blætt við þessar athafnir ákærða.

Aðspurð hversu oft ákærði hefði gert eitthvað svona við hana sagði Y fyrst: „Hundrað, milljón sinnum“, en dró síðan úr og sagði: „Eða eitthvað svona fimmtíu, hundrað sinnum.“ Hún kvaðst aldrei hafa séð typpi ákærða meðan á þessu hefði staðið, þótt hún hefði séð hann klæða sig úr nærbuxum og sagði ástæðuna vera þá, að hún hefði alltaf litið undan því hún „vildi aldrei horfa á það“. Aðspurð hvort hún hefði fundið fyrir typpi ákærða einhvers staðar svaraði Y „nei“ og sagði svo í beinu fram­haldi: „Hann hefur líka sett einn puttann upp í rassinn.“ Aðspurð hvort ákærði hefði gert þetta „einu sinni eða ...“ svaraði Y: „Hann hefur líka gert það oft og mörgum sinnum“. Aðspurð kvaðst Y hins vegar ekki hafa fundið fyrir typpi ákærða við rass hennar.

Y kvað engan annan en ákærða hafa gert eitthvað svona við hana og sagðist aðspurð aldrei hafa séð allsbert fólk á tölvuskjá eða í sjónvarpi. Hún sagði að mamma sín hefði einhvern tíma þurft að setja krem á hana af því að það hefði verið „svo vont að pissa“ eftir að hún hefði meitt sig í pjöllunni heima hjá ákærða.

Y sagði að hún hefði, nokkrum dögum eftir síðasta tilvikið, sagt mömmu sinni frá þessu, á meðan mamma hennar hefði verið að dansa. Ákærði hefði þó verið búinn að segja henni að hún ætti ekki að segja neinum frá. Henni hefði hins vegar liðið svo illa í hjartanu, hún orðið allt í einu leið vegna þess að vinkona hennar hefði skilið hana út undan og hjarta hennar „byrjað að slá svo mikið, þannig að ég sagði bara mömmu.“ Y kvaðst líka hafa verið „alltaf reið út af því að mamma og Mummi voru saman einu sinni“ og bætti svo við: „Þá sagði ég þetta við hana, hún var ennþá sko með honum, og þá yrði hún að hætta með honum.“ Y kvað reiðina hafa verið út í ákærða, sem henni hefði ekki líkað vel við. Hún hefði einnig verið reið út af því að mamma hennar og ákærði hefðu viljað „bara fara út til London og þau voru bara að gera eitthvað saman.“ Y var í framhaldi spurð að því hvort hún hefði sagt mömmu sinni frá þessu af því að hún héldi að pabbi hennar myndi koma heim aftur. Hún kvaðst ekki skilja spurninguna og var því spurð að nýju, á svohljóðandi veg: „En þú sagðir áðan, gafst ástæðuna fyrir því af hverju þú sagðir frá. Varstu einhvern tíma að vonast eftir því að pabbi þinn kæmi heim aftur?“ Þessari spurningu svaraði Y játandi og kinkaði greinilega kolli um leið. Í beinu framhaldi var hún spurð: „Ef þú segðir frá þessu?“ Í endurriti af fram­burði Y er skráð svarið „já“ við þessari spurningu, en við skoðun á mynd­bands­­upp­töku er augljóst að Y svaraði henni ekki. Hins vegar má greina á upp­tökunni að hún hreyfði höfuðið örlítið upp og niður. Spurningu þessari var ekki fylgt frekar eftir af hálfu yfirheyranda.

Aðspurð sagði Y að eftir að hún hefði sagt mömmu sinni frá þessu hefði hún rætt þetta við K og L hálfsystur sínar, bróður sinn og vinkonur sínar, sem hefðu þekkt ákærða, en hún hefði alltaf verið „svo hrædd um að hann myndi gera þetta við þær líka.“

S bar fyrir dómi að Y dóttir hennar hefði greint henni frá því laugardagskvöldið 23. ágúst 2003 að ákærði hefði misnotað hana kyn­ferðis­lega. Börn S, einkum Y, hefðu verið búin að vera erfið, reið og í fýlu um daginn, en þáliðna nótt hefði ákærði gist í fyrsta skipti á heimilinu, án þess að börnin hefðu verið að heiman. S hefði því stungið upp á því að þau myndu öll dansa úr sér reiðina og fýluna, hún því næst spilað tónlist og þau dansað og látið eins og vitleysingar. Y hefði þá „brotnað niður“ og farið að gráta. Að sögn S hefði hún í framhaldi lækkað tónlistina og spurt hvað amaði að henni. Y hefði sagt að hún yrði ekki glöð og ánægð með það sem hún vildi segja, því það varðaði ákærða. S hefði sent syni sína fram og því næst talað við Y þangað til hún hefði sagt að ákærði hefði gert svolítið við hana, sem S myndi ekki líka vel og nefndi í því sambandi að ákærði hefði fitlað við hana. S kvaðst hafa spurt Y nánar út í þetta og spurt hana hvar, hvenær og hvernig ákærði hefði gert eitthvað slíkt við hana. Y hefði svarað því þannig að ákærði hefði oft „notað puttana og svona“. Hún hefði ekki verið með ártöl á hreinu hvenær þetta hefði byrjað, en hefði sagt að þetta hefði gerst í mörg skipti. Þær hefðu svo ekki rætt þetta frekar um kvöldið, þar sem S hefði átt von á ákærða á hverri stundu. Hún hefði lofað Y að ákærði myndi ekki stoppa lengi og sagt henni að fara inn til sín á meðan. S hefði síðan spurt ákærða beint, hvað hann hefði verið að gera við Y og vísað til þess að telpan væri búin að segja henni frá einhverju misjöfnu. Ákærði hefði neitað slíkum ásökunum, sagt að Y væri bara afbrýðisöm út í S og hann ekki sagst skilja hvað vekti fyrir Y með slíkum áburði. Hún, sem væri búin að sitja í fanginu á honum og segjast ætla að verða konan hans þegar hún yrði stór. Ákærði hefði svo farið skömmu síðar. S kvað fyrstu viðbrögð sín við frásögn Y hafa verið dofi og vantrú. Nokkrum dögum síðar hefði hún verið farin að trúa frásögn Y, enda búin að spyrja hana betur um atburðarás. Í framhaldi hefði S skilið af hverju hegðun Y hefði breyst eftir að S og ákærði tóku upp samband, en fyrirfram hefði hún talið að Y yrði ánægðust barnanna með hið nýja samband, vegna mikils vinskapar hennar og ákærða. Y hefði hins vegar þvert á móti dregið sig æ meira í hlé og forðast heimilið. Hún hefði sótt meira til föður síns en áður og í nokkur skipti strokið að heiman. S kvaðst nú einnig skilja af hverju ákærði hefði aldrei boðið sonum hennar á rúntinn, niður á bryggju að veiða eða að leita að mávseggjum, heldur bara Y. Hún kvað Y aldrei hafa rætt um ferðir sínar með ákærða í leit að eggjunum, en stundum hefði hún komið heim með egg. Á þeim tíma hefði S þó ekki fundist neitt óeðlilegt við þetta, enda hefði ákærði verið heimilisvinur. Hún nefndi í þessu sambandi að það hefði verið á allra vitorði í [...] þegar ákærði hefði nokkrum árum áður rúntað með frænku S, Z, sér­stak­lega á sumrin. Kvaðst S nú vita að ákærði væri einnig grunaður um að hafa mis­notað Z kynferðislega, en sagðist sjálf hvorki hafa rætt þessi mál við Z né foreldra hennar eftir 23. ágúst, en hún og Z væru fjórmenningar og ekkert sam­­band milli heimilanna. S kvaðst hins vegar ekki hafa legið á grun sínum um ákærða á upp­skeru­hátíð [íþróttafélagsins] í september 2003, en þá hefði hún sagt fólki frá því sem hann eigi að hafa gert á hlut Y. Hún kvaðst hins vegar ekki minnast þess að hafa rætt við nokkurn mann um persónulegar grun­semdir sínar tengdar samskiptum ákærða við Z. S kvaðst vita að Y hefði farið heim til ákærða að [...]. Það hefðu bæði Y og ákærði sagt henni og Y getað lýst hýbýlum hans vel áður en S hefði komið þangað sjálf í fyrsta sinn, í apríl 2003. Hún kvaðst aldrei hafa farið þangað með Y. Fram kom hjá S að eftir að mál þetta kom upp hefði Y fjarlægst vini sína og krakkar í [...] farið að segja hana ljúga þessu öllu upp á ákærða. Það segðu foreldrar þeirra.

T bar fyrir dómi að Y dóttir hans byggi nú hjá honum á heimili móður hans í Njarðvík. Hann sagði að sér hefði alltaf fundist afar skrýtið af hverju ákærði hefði boðið Y með sér á rúntinn, að veiða og í mávs­eggja­leit, en aldrei sonum hans tveimur. Hann hefði einhverju sinni rætt það við S hvort ákærði gæti verið að misnota telpuna, en S ekki ljáð máls á því. Y hefði sjálf lítið talað um ferðir sínar með ákærða, en stundum komið heim með egg.

K og L, hálfsystur Y, báru fyrir dómi að þær hefðu rætt við Y um þessi mál eftir að hún hefði greint móður sinni frá atburðarás. L sagði að hún hefði aðeins rætt atburði lítil­lega við Y, skömmu fyrir 16. september 2003, aðallega í því skyni að byggja upp traust og sýna henni stuðning. L hefði við sama tækifæri einnig skýrt Y frá kynferðislegri misnotkun, sem hún hefði sætt. K kvaðst hafa búið á heimili Y þar til í mars 2003. Hún kvaðst hafa vitað um vinasamband Y og ákærða og að hann hefði oft boðið henni á rúntinn og stundum farið með hana í leit að mávseggjum. K kvaðst ekki hafa vitað betur en að ákærði hefði verið góður og almenni­legur við Y eða það hefði Y sagt og einnig nefnt að hann hefði stundum gefið henni peninga. Y hefði þó einnig sagt, eftir að mál þetta kom upp, að stundum hefði ákærði komið illa fram við hana og meitt hana kynferðislega. Það hefði þó ekki verið í öll skiptin, sem þau hefðu hist og gert eitthvað saman. K bar að Y hefði stundum komið til hennar, þegar K hefði verið að setja græðandi krem á ungabarn sitt og beðið um að fá sams konar krem á „pjölluna“ vegna sviða og þrota á því svæði. K hefði í að minnsta kosti eitt skipti sett kremið á sjálf og þá séð að „pjallan“ var rauð. Y hefði gefið þá skýringu á sviðanum að hún hefði dottið á reiðhjóli eða meitt sig í leikfimi.

Þóra Fischer kvensjúkdómalæknir bar fyrir dómi að hún hefði skoðað Y í Barnahúsi 30. september 2003 í þágu rannsóknar málsins og staðfesti skýrslu sína þar að lútandi frá 10. október 2003. Þóra bar að skoðun á kynfærum stúlkunnar hefði ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós. Meyjarhaft hefði verið órofið og eðli­legt miðað við aldur stúlkunnar og engin áverkamerki verið á ytri kynfærum. Enda­þarmssvæði hefði einnig verið eðlilegt.

Fyrir dómi neitaði ákærði sök alfarið, en kannaðist við að hafa átt samskipti við Y að sumarlagi á árunum 2001 til 2003. Á því tímabili hefði það komið fyrir að þau hefðu verið tvö ein í bifreið hans, af gerðinni [...] og farið bæði að [...] og upp á [...], við [...], í þeim tilgangi að tína mávsegg, en tímabil til eggjatökunnar væri frá um 20. maí og fram undir miðjan júní ár hvert. Ákærði kvaðst þó ekki minnast þess að hafa farið í eggjaleit með Y sumarið 2002, en það ár hefði hann verið að flytja frá [...] til [...] á eggja­töku­tíma­­bilinu. Ákærði kvað rétt að Y hefði í nokkur skipti fengið að stýra bifreiðinni þegar þau hefðu farið að tína egg, en aðeins þegar þau hefðu farið á [...]svæðið. Í fyrstu hefði hún setið í farþegasætinu við hliðina á ákærða og gripið í stýrið að hans beiðni, á meðan hann hefði fengið sér sígarettu. Y hefði þótt þetta spennandi og langað „að stýra meira“ og þá hefði hann leyft henni í nokkur skipti að sitja í kjöltu hans í ökumannssætinu á meðan hún stýrði bifreiðinni, á lítilli ferð. Ákærði kvaðst á meðan hafa haldið með annarri hendi yfir bringu hennar, í öryggis­skyni og haft hina höndina við stýrið, tilbúinn að grípa inn í ef þess gerðist þörf. Ákærði aftók með öllu að hafa nokkru sinni káfað á Y í þessum ferðum þeirra og sagði ekkert í framkomu hans eða snertingum hafa getað misskilist sem káf eða þukl á stúlkunni, svo sem honum væri gefið að sök í a-lið I. kafla ákæru. Hann kvað Y yfirleitt hafa átt frumkvæði að ferðum þeirra í leit að mávseggjum og sagði hana oft hafa veifað til hans úti á götu og spurt hvort hann vildi fara með henni í eggja­leit.

Um sakarefni samkvæmt b-lið I. kafla ákæru fullyrti ákærði að Y hefði aðeins einu sinni komið heim til hans að [...]. Í það skipti hefði móðir hennar, móðursystir og barnabarn á líkum aldri og Y verið með í för. Ákærði sagði þetta hafa verið í byrjun júní 2002. Fullorðna fólkið hefði setið úti á sól­palli fyrir aftan húsið og drukkið kaffi, en á meðan hefðu börnin hlaupið inn og út úr herbergi ákærða, sem hann sagði vera 12-15 m² á stærð. Því gæti vel verið að Y hefði í það skipti kíkt ofan í skúffu við hliðina á rúmi hans og séð vaselínumbúðir. Vaselínið hefði ákærði notað í samförum við móður Y, en þau hefðu verið orðin nokkuð náin á þessum tíma. Aðspurður hvort ákærði kynni einhverja skýringu á fram­­burði Y í málinu nefndi hann þrennt. Hann kom fyrst með þá mögulegu skýringu að Y hefði getað verið sár út í hann af því að hann hefði ekki komið í afmælið hennar í mars 2003, eins og hann hefði lofað. Ástæðan fyrir því hefði verið sú að hann hefði óvænt lagst inn á spítala og ekki komið boðum um það til Y eða móður hennar. Í annan stað nefndi ákærði að foreldrar Y hefðu verið nýskilin í ágúst 2003 og hann hefði þá í fyrsta skipti gist á heimili Y á meðan hún hefði verið heima. Hún hefði verið reið út af þessu og viljað fá föður sinn til baka. Ákærði kvað Y þó ekki hafa sagt honum þetta berum orðum, en hann dregið þá áyktun að hún teldi ef til vill að hann væri „að taka plássið“. Í þriðja lagi benti ákærði á að Y gæti átt það til að búa hlutina til og sagði að hún gæti verið „ansi góður leikari þegar hún vill það við hafa.“ Ákærði var í framhaldi minntur á að Y hefði lýst nákvæmlega kyn­­ferðis­legum athöfnum af hans hálfu og svaraði því til, að hún hefði jú sagt móður sinni frá einhverju að kvöldi laugardagsins 23. ágúst 2003. Ákærði benti hins vegar á að fyrr um daginn hefði Y orðið reið út í hann af því að hann hefði sagt í gríni að hann nennti ekki að skutla henni til [...] að kaupa skólabækur. Hann hefði svo gert það, en búðin verið lokuð þegar þau hefðu komið á staðinn. Einnig væri mögu­legt að rætt hefði verið við Y eftir 23. ágúst og að það gæti hafa haft áhrif á fram­burð hennar í málinu. Þá áréttaði ákærði fyrri skýringu þess efnis að Y gæti hafa viljað losna við hann úr lífi móður sinnar og fá föður sinn aftur inn á heimilið og því gæti hún hafa borið á hann rangar sakir. Ákærði sæi í raun ekki aðra skýringu á fram­burði hennar.

Móðir ákærða, Ö, bar vitni fyrir dómi. Hún kvaðst ekki vita til þess að börn hefðu komið ein heim til ákærða að [...], en sagðist minnast þess að Y hefði komið þangað í eitt skipti ásamt móður sinni og fleiri gestum.

             Niðurstöður.

             Ákærða er í þessum þætti málsins gefið að sök að hafa misnotað Y kynferðislega, annars vegar í nokkur skipti að sumarlagi á árunum 2001 til 2003, í ferðum þeirra upp á [...] og að [...] í leit að mávs­eggjum, sbr. a-lið I. kafla ákæru og hins vegar í nokkur skipti á heimili hans að [...], frá miðju sumri 2002 og fram á árið 2003, sbr. b-lið sama ákæru­kafla. Er hér um aðskilin sakarefni að ræða. Varðar hið fyrra ætlað káf á kynfærum Y innanklæða á meðan hún á að hafa setið í fangi ákærða undir stýri bifreiðar hans og hið síðara ætlað þukl á kyn­færum og pot með fingri eða fingrum í endaþarm hennar uppi í rúmi ákærða.

             Ákærði hefur neitað staðfastlega öllum ásökunum Y um kynferðislega mis­notkun. Hann kveður þó rétt að stúlkan hafi í einhver skipti farið með honum í leit að mávseggjum að sumarlagi á árunum 2001 til 2003, bæði við [...] og á [...], á tímabilinu frá því um 20. maí og fram undir miðjan júní, líklega þó ekki sumarið 2002 þegar hann hafi staðið í búferlaflutningum frá [...] til [...]. Af mála­­tilbúnaði ákæruvaldsins er ljóst að a-liður ákæru miðast við umrætt eggjatöku­tíma­bil. Í málinu liggur og fyrir að ákærði flutti að [...] 18. maí 2002. Miðast upphafstími ætlaðra brota samkvæmt nefndum b-lið óhjákvæmilega við það tímamark. Þá er ekki ætlað að brot hafi verið framin gagnvart stúlkunni eftir 23. ágúst 2003, en þá komu atburðir þeir sem ákært er út af fyrst upp á yfirborðið. Ákærði segir að á þessu tímabili hafi Y aðeins einu sinni komið heim til hans og þá í fylgd móður sinnar og fleiri gesta í byrjun júní 2002.

             Fyrir dómi var ákærði inntur eftir því hvort hann kynni einhverja skýringu eða skýringar á framburði Y og hinum alvarlegu ásökunum, sem hún hefði uppi í málinu. Ákærði bauð einkum fram ferns konar skýringar, sem hann taldi geta skýrt rangar ásakanir Y í hans garð. Í fyrsta lagi möguleg sárindi hennar út af því að hann hefði ekki mætt í afmæli hennar í mars 2003. Í öðru lagi nýlegan skilnað foreldra Y og gistingu ákærða á heimili hennar aðfaranótt 23. ágúst 2003, en það hefði vakið reiði hjá stúlkunni og hún af þeim sökum hugsanlega ákveðið að bera á hann rangir sakir til að koma honum út úr lífi móður sinnar og fá föður sinn til baka. Í þriðja lagi að Y ætti það til að vera skreytin og væri „ansi góður leikari“ þegar sá gállinn væri á henni. Í fjórða lagi að nánustu aðstandendur Y hefðu í kjölfar atburða 23. ágúst 2003 ef til vill haft áhrif á frásögn hennar og hún því borið með þeim hætti sem hún gerði fyrir dómi í Barnahúsi 19. september 2003. Er ljóst af fram­burði ákærða að hann telur atriði númer tvö líklegast til að skýra rangan framburð stúlkunnar.

             Af vitnisburði foreldra Y og hálfsystra hennar fyrir dómi verður ekki ráðið að stúlkan hafi skýrt þeim frá atburðum nema í stórum dráttum. Við mat á því hvort ætluð brot teljast sönnuð verður því fyrst og fremst að styðjast við dómsframburð ákærða annars vegar og Y hins vegar. Við það sönnunarmat ber að túlka skynsam­legan vafa ákærða í hag, bæði um sekt hans og hvert það atvik, sem telja má honum í óhag, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Dómurinn hefur skoðað myndbandsupptöku af framburði Y í Barna­­húsi, en skýrslugjöf hennar tók tæpa klukkustund. Hún var róleg í fasi og yfir­leitt skýrmælt. Hún virtist almennt hugsa sig um áður en hún svaraði beinum spurningum, tjáði sig ávallt á rólegum nótum og hraðaði aldrei máli sínu þótt hún væri að tala um óþægi­lega atburði.

Eftir vandlega yfirlegu er það álit dómsins að frásögn Y sé í heild einkar trú­verðug um þá atburði, sem ákært er út af í a-lið lið I. kafla ákæru. Ekki er síður trúverðug frásögn Y af því þegar ákærði á að hafa tekið hana, 7 ára gamla, upp í bifreið sína fyrir utan sam­komu­hús í [...], farið með hana að [...] og „fiktað í pjöllunni“ hennar er þangað var komið. Ekki er þó ákært út af nefndum atburði. Y skýrði ekki með jafn nákvæmum hætti frá neinu öðru einstöku tilviki, þar sem ákærði á að hafa káfað á kynfærum hennar innanklæða við [...] eða í námunda við [...] á [...], en frásögn hennar laut einatt að því að ákærði hefði í einhver skipti látið hana sitja í fangi hans í ökumannssæti bifreiðar hans, þaðan sem hún hefði stýrt bifreiðinni, en á meðan hefði ákærði farið með hönd sína inn fyrir nærbuxur hennar og káfað á henni. Y gat ekki tímasett þessa atburði nákvæmlega, en talaði um mörg skipti, á tveggja til þriggja ára tímabili, þar sem tilgangur ferða þeirra hefði verið „eiginlega alltaf að fara í mávs­eggja­­leit.“ Hún greindi nánar frá slíkum ferðum á þá leið, að ákærði hefði ekið „upp í heiði og hérna, síðan hérna, gerði hann það stundum, fikta í pjöllunni og hérna, síðan hérna og síðan fórum við bara alltaf út og finnum máva­egg.“ Enn fremur, að þau hefðu farið „alltaf upp á hól og þegar við vorum búin hérna í mávs­eggjaleit, þá gerðist þetta aftur, hann fiktaði alltaf í pjöllunni þá.“ Frásögn Y um þessa atburði, þótt tak­mörkuð sé að sumu leyti, er að áliti dómsins án ofhermis. Y var róleg og yfir­­­veguð í þeirri frásögn og virðist hafa tjáð sig af barnslegri einlægni um avik, sem hún hafði ekki eðlilegan skilning á.

             Dómurinn metur einnig framburð Y í heild einkar trúverðugan um þá atburði, sem ákært er út af í b-lið I. kafla ákæru. Því áliti til stuðnings má nefna lýsingu hennar á vistarverum ákærða að [...], sem samrýmist vel eigin lýsingu ákærða og framlögðum ljósmyndum af umræddu húsnæði. Er dóminum til efs að stúlkan gæti hafa lýst hýbýlum hans á þann veg, sem hún gerði fyrir dómi í september 2003, ef rétt væri að hún hefði aðeins komið þangað í eitt skipti í júní 2002, svo sem ákærði heldur fram í málinu. Þá er sú lýsing Y sláandi, að ákærði hafi ávallt sett „pissugult“ krem úr skúffu á fingur sína áður en hann hefði byrjað að „fikta í pjöllunni með puttunum“ og að hann hefði því næst falið umbúðir utan um kremið undir kodda í rúmi sínu. Er með hreinum ólíkindum að Y tæki upp á því hjá sjálfri sér að spinna upp slíka sögu og tengja jafn­framt notkun slíks krems við þær athafnir, sem hún lýsti sam­hliða á afar trú­verðugan hátt, þ.e. að ákærði hafi meitt hana í „pissu­gatinu“ þegar hann hafi reynt „alltaf að setja einn puttann sinn alltaf lengst inn í það“. Sú stað­reynd að lögregla fann við húsleit vaselín í skúffu við rúm ákærða eykur enn á trú­­verðug­leika frásagnar Y, en framburður ákærða um að stúlkan hafi ef til vill verið að hnýsast í náttborðsskúffu hans í júní 2002 og opnað þar dós eða túpu með gulu vase­líni er í senn ósennilegur og ómaklegur, en með honum er gefið í skyn að Y hafi lagt á minnið að ákærði ætti „pissu­gult“ krem í skúffu og að hún hafi síðan notað þá vitneskju til að klekkja á honum rúmu ári síðar. Af frásögn Y um atburða­rás má ráða, að ákærði hafi klætt sjálfan sig og hana úr að neðan, lagst upp í rúm og látið hana liggja á bakinu á maga hans. Þannig hafi hann haldið henni á meðan hann hafi káfað á kynfærum hennar og stungið fingri inn í „pissugat“ hennar þannig að hún hafi meitt sig. Fyrir dómi var Y ekki spurð að því hvað hún ætti við með orðinu „pissu­gat“ þótt orðið bæri nokkrum sinnum á góma, en samkvæmt lýsingu hennar verður vart ályktað á annan veg en að ákærði hafi í einhver skipti farið með fingur inn fyrir ytri skapabarma kynfæra hennar. Í málinu er þó ekki ákært sérstaklega fyrir slíka háttsemi. Aðspurð hversu oft hún hefði farið heim til ákærða að [...] svaraði Y: „Ég held að það hafi verið svona mánuður. ... Ég held að það séu svona nítján, tíu skipti. ... Hérna, ég fór bara svona, held ég svona tíu sinnum heim til hans í [...].“ Aðspurð hversu oft ákærði hefði komið fram við hana með þeim hætti, sem hún hefði lýst, sagði Y fyrst: „Hundrað, milljón sinnum“, en dró síðan úr og sagði: „Eða eitthvað svona fimmtíu, hundrað sinnum.“ Fljótt á litið mætti ætla að hér sé um misvísandi og óáreiðanlegan framburð að ræða, og jafnvel ýkjukenndan, en þegar umrædd svör eru metin telur dómurinn að hafa beri í huga bæði aldur og þroska stúlkunnar og tengsl nefndra svara við frásögn hennar að öðru leyti. Y var fyrir dómi spurð að því hvort hún hefði einhvern tíma séð typpið á ákærða á meðan á ætluðu atferli hans hefði staðið. Hún svaraði því afdráttarlaust neitandi og sagðist ekki hafa viljað horfa á það. Aðspurð kvaðst hún heldur ekki hafa fundið fyrir því að typpið kæmi við kynfæri hennar eða rass. Í framhaldi af spurningum þessa efnis sagði Y hins vegar, skýrt og skorinort: „Hann hefur líka sett einn puttann upp í rassinn ... oft og mörgum sinnum.“ Y var ekki spurð frekar út í slíka háttsemi af hálfu ákærða, eins og þó hefði verið full ástæða til. Þótt eflaust megi deila á yfirheyranda fyrir að hafa ekki fylgt nefndri frásögn Y eftir með frekari spurningum stendur eftir sú staðreynd, að dóminum ber að leggja mat á trúverðugleika þessarar frásagnar hennar. Við það sönnunarmat telur dómurinn enn að virða beri umrædda frásögn hennar í samhengi við trúverðugan framburð hennar í heild, þannig að hún líði ekki fyrir þær sakir einar að hafa ekki verið beðin um að gera betur grein fyrir máli sínu. Með hliðsjón af því einkum, að Y svaraði því neitandi, hvort hún hefði séð typpið á ákærða og sagði að typpið hefði aldrei komið við kynfæri hennar eða rass, sem henni hefði þó verið í lófa lagið að segja öðru vísi til um, þá telur dómurinn ekkert fram komið í málinu, sem gefur raunhæfa ástæðu til að vefengja framburð Y um að ákærði hafi stungið fingri inn í endaþarm hennar. Breytir engu um það álit dómsins, eins og ákærði hefur viljað meina, að það hafi verið honum ómögulegt að stinga fingri inn í endaþarm Y, miðað við þá lýsingu hennar, að hún hafi legið á bakinu ofan á maga hans. Hér er um barn að ræða, sem auðvelt er að hagræða hvernig sem er ofan á líkama fullorðins manns, ef því er að skipta.

             Að áliti dómsins er ekkert fram komið, sem bendir til þess að framburður Y fyrir dómi sé á einhvern hátt til kominn vegna beinna eða óbeinna áhrifa frá foreldrum hennar eða systkinum eða að hún hafi, með öðrum hætti en hún ber um, í annan tíma upp­lifað kyn­ferðislegar athafnir af hálfu annarra en ákærða, sem mótað hafi framburð hennar gegn honum. Þegar horft er til nefnds framburðar og þess að ákveðinn vin­skapur var milli hennar og ákærða á því tímabili, sem ákæran tekur til, er vandséð af hvaða hvötum stúlkan gæti hafa tekið upp á því að bera rangar sakir á ákærða. Skýringar ákærða fyrir slíkum áburði þykja fráleitar um annað en mögulega afbrýði­semi Y og söknuð eftir föður sínum. Sú skýring þykir þó ekki nærtæk, enda með hreinum ólíkindum að Y tæki upp á því, 10 ára gömul, undir þeim kringumstæðum sem uppi voru haustið 2003, að uppdikta falskar ásakanir á hendur ákærða um alvarleg kyn­ferðis­brot; ekki aðeins í eitt skipti heldur mörg og ávallt með sama eða svipuðu sniði. Telur dómurinn engu breyta í þessu sambandi þótt Y hafi fyrst skýrt móður sinni frá ætlaðri háttsemi ákærða daginn eftir að hann hafði í fyrsta skipti gist á heimili hennar, svo hún hafi vitað til, enda trúlegast að sá atburður hafi vakið enn meiri ótta og reiði í garð ákærða þegar hún gerði sér grein fyrir því að hann væri orðinn kærasti móður hennar. Samrýmist sú ályktun að vissu leyti framburði ákærða, sem sagði fyrir dómi, að fram að þeim tíma hefði Y ekki átt að vera kunnugt um sam­drátt hans og móður hennar.

Þegar framangreind atriði eru virt heildstætt telur dómurinn ekkert fram komið í málinu, sem bendir til þess að annarlegar hvatir hafi búið að baki framburði Y í Barnahúsi. Með sömu atriði í huga er það álit dómsins að framburður Y sé í alla staði trúverðugur um það að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega, svo sem honum er gefið að sök í a- og b-lið I. kafla ákæru. Breytir engu um þá afstöðu dómsins þótt ákærði hafi neitað sakar­giftum hjá lögreglu og fyrir dómi, enda þykir framburður hans ekki trú­verðugur í saman­burði við frásögn Y.

Eins og áður er rakið hefur Y ekki greint með skýrum hætti á milli atburða, sem eiga að hafa gerst annars vegar á [...] og hins vegar við [...], ef frá er talin skýr frásögn hennar af atburði, sem hún lýsti að hefði gerst við vitann þegar hún var 7 ára. Sem fyrr segir er ekki ákært út af þeim atburði. Í öðrum tilvikum verður fremur ráðið af framburði Y að atburðir hafi gerst „upp á heiði“. Sam­rýmist sú frásögn að því leyti þeim framburði ákærða að hann hafi aldrei leyft henni að stýra bifreiðinni við [...]. Þá hefur Y ekki getað greint sérstak­lega milli atburða, sem eiga að hafa gerst sumurin 2001 til 2003. Segist ákærði ekki minnast þess að hafa farið með hana í leit að mávseggjum sumarið 2002.

Síðastgreind tvö atriði ber að meta ákærða í hag, sbr. 45. og 46. gr. laga um meðferð opinberra mála. Með hliðsjón af þeim og öðru því, sem nú hefur verið rakið, telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi misnotað Y kyn­ferðis­lega, svo sem honum er gefið að sök í a- og b-lið I. kafla ákæru og að í því sam­bandi megi leggja til grundvallar trúverðugan framburð hennar fyrir dómi.

Sam­kvæmt framansögðu er því sannað, að ákærði hafi „í nokkur skipti“ káfað á kynfærum Y innanklæða í bifreið hans við [...] á [...] að sumar­lagi árið 2001 og 2003. Einnig er sannað að ákærði hafi „í nokkur skipti“, frá miðju ári 2002 fram til 23. ágúst 2003, þuklað á kynfærum Y og sett fingur upp í endaþarm hennar. Orðalagið „í nokkur skipti“ ber að túlka ákærða í hag, sbr. hæsta­réttar­­dóm 26. febrúar 2004 í máli nr. 414/2003, þannig að það taki ekki til fleiri en fjögurra tilvika.

Með háttsemi þeirri, sem lýst er í a-lið I. kafla ákæru (káf á kynfærum), hefur ákærði gerst sekur um brot á 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003, en brot, sem þar er lýst, varðar fangelsi allt að 4 árum. Með háttsemi þeirri, sem lýst er í b-lið I. kafla ákæru, hefur ákærði gerst sekur um brot á síðari málslið 1. mgr. (fingur í endaþarm Y) og 2. mgr. (þukl á kyn­færum hennar) 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003, en brot, sem lýst er í nefndri 1. mgr., varða fangelsi allt að 12 árum.

B. Ætluð brot gegn Z.

Atvikalýsing.

             Í skýrslu sinni hjá lögreglu 30. janúar 2004, sem nefnd er í kafla I.iv. að framan, greindi Z frá því að ákærði hefði misnotað hana kyn­ferðislega tvö sumur í röð; 1999, þegar hún hefði verið 13 ára og 2000, þegar hún hefði verið 14 ára. Z tengdi upphaf þessa við fermingarár sitt, þ.e. að þetta hefði byrjað sumarið eftir fermingu, en tók fram að hún hefði reynt að loka á allar minningar um framferði ákærða. Hún skýrði frá því að hún hefði æft fótbolta með [íþróttafélaginu] í [...] og kynnst ákærða gegnum æskulýðsstarf félagsins, en hann hefði verið afar virkur í íþrótta­hreyfingunni og virtur í samfélaginu. Allir hefðu þekkt ákærða og treyst honum. Í maí eða júní 1999 hefði Z fengið vinnu í sjoppu á vallarsvæði [íþróttafélagsins]. Hún hefði þá kynnst ákærða betur og hann falið henni að sjá alfarið um rekstur sjoppunnar. Ákærði hefði verið afar góður við hana, gefið henni peysu og framhliðar á GSM síma. Einnig hefði hann leyft henni að nota tölvu á skrifstofu [íþróttafélagsins] á kvöldin, á meðan hann hefði verið þar að vinna.

             Z greindi frá því að sumarið 1999 hefði ákærði farið að bjóða henni með sér í mávseggjaleit á [...], í námunda við [...]. Henni hefði fundist þetta spennandi og verið fús til að fara. Í fyrstu tvö skiptin hefðu þau bara týnt egg og ekkert óeðlilegt gerst. Í þriðja skiptið hefði ákærði spurt hvort hana langaði til að prófa að keyra bifreið hans. Hún hefði verið til í það og því sest milli fóta hans í ökumannssæti bifreiðarinnar. Þaðan hefði hún stýrt bifreiðinni, en á meðan hefði ákærði káfað á brjóstum hennar og kynfærum innanklæða. Z kvaðst á greindu tímabili ávallt hafa verið íklædd íþróttabuxum og sagði ákærða hafa farið inn fyrir þær og „sett fingur sína inn í kynfæri“ hennar. Hún kvaðst ekki muna hvort hann hefði hreyft fingurna upp og niður. Eftir þennan atburð hefði ákærði oft gert hið sama við hana um sumarið og ávallt undir sömu kringumstæðum. Z taldi að þetta hefði gerst „kannski 5-10 sinnum“ og einatt þegar þau hefðu verið búin að týna mávs­eggin og verið á leið heim. Hún tók fram, að ákærði hefði haldið áfram að taka hana með í eggjaleit, þrátt fyrir að eggin væru orðin stropuð, en það hefði hún vitað með því að leggja eggin við eyrun og hrista þau.

             Z sagði að sumarið hefði síðan liðið og vetur gengið í garð. Ákærði hefði gefið henni afmælisgjöf um haustið og einnig hringt í hana, spurt hvort hana vantaði far og sagt að hún mætti ávallt hringja í hann ef svo væri. Að sögn Z hefði hún gert það í nokkur skipti og ákærði skutlað henni frá [...] út í [...]. Sama vetur hefði ákærði einnig hringt nokkrum sinnum og boðið henni með til [...], en hún ekki þorað að fara með honum.

             Vorið 2000, í mars eða apríl, hefði Z byrjað æfingar að nýju með [íþróttafélaginu] og síðan tekið upp fyrra starf í sjoppunni. Í maí eða júní hefði ákærði byrjað að bjóða henni aftur í mávseggjaleit, en hún ekki þorað að fara með honum. Ákærði hefði haldið áfram að þrýsta á hana og hún haldið að „hann væri orðinn allt í lagi“. Hún hefði því farið með honum, en allt farið í sama horf og sumarið áður. Ákærði hefði leyft henni að stýra bifreið hans við [...] og á meðan káfað á brjóstum hennar og kynfærum innanklæða. Hún sagði ákærða hafa „sett fingur inn í leggöng“ hennar og hún fundið fyrir sársauka inni í kynfærunum, líkt og neglur ákærða hefðu meitt hana „þarna inni“. Að sögn Z hefðu svo tvær eða þrjár vikur liðið. Á því tímabili hefði henni fundist eins og ákærða þætti leitt að þetta hefði gerst. Hún hefði því farið með honum einu sinni enn í mávseggjaleit og hann enn á ný leyft henni að stýra bif­reiðinni úr kjöltu hans. Í þetta skipti hefði ákærði kippt niður buxum hennar og nær­buxum og hún orðið stjörf af hræðslu. Hún myndi því alls ekki hvað hefði gerst í fram­haldinu og kvaðst næst muna eftir sér þegar þau hefðu verið á leiðinni heim. Eftir þetta tilvik hefði hún reynt að forðast ákærða um sumarið, þótt hún héldi áfram vinnu sinni í sjoppunni og hefði hann ekki gert meira á hennar hlut eftir það.

             Z bar fyrir dómi að hún hefði fyrst kynnst ákærða þegar hún hefði verið 12 eða 13 ára gömul og byrjað að vinna í sjoppunni hjá [íþróttafélaginu] í [...], á leikdögum knatt­spyrnuliðsins. Ákærði hefði alltaf verið að hjálpa til og þau því átt mikil sam­skipti. Að sögn Z hefði farið mjög vel á með þeim og ákærði verið henni „rosa­lega góður“. Hann hefði hjálpað henni að mála skúr fyrir greiðasöluna og boðið henni með sér í leit að mávseggjum í kringum [...]. Z kvaðst muna eftir því að í fyrsta skipti, sem þau hefðu farið þangað, hefðu mávarnir verið að verpa og því hefði það örugglega verið í maí. Hún lýsti síðan atburðum, sem hefðu gerst „alla vega oftar en þrisvar, fjórum sinnum“ á tímabilinu frá maí til ágúst, á þá leið að ákærði hefði leyft henni að setjast í kjöltu hans í ökumannssæti bifreiðar hans, en sætið hefði hann fært í öftustu stöðu og þaðan hefði hún fengið að stýra bifreiðinni, stundum með hjálp frá honum. Z bar að það hefði líklega verið í annað skiptið, sem hún hefði fengið að stýra með þessum hætti, að ákærði hefði byrjað að þukla á henni innanklæða. Hún kvaðst yfirleitt hafa verið klædd í æfingapeysu og -buxur á þessum tíma. Ákærði hefði farið með hendur sínar inn fyrir peysuna, íþrótta­bol og „T-topp“ og káfað á berum brjóstum hennar og bringu. Einnig hefði hann fært hendurnar inn fyrir nærbuxur hennar og káfað á berum kynfærunum. Á meðan hefði hún í öll skiptin verið að stýra nefndri bifreið, á lítilli ferð og ávallt sama hringinn, með ákærða fyrir aftan hana í sætinu. Aðspurð kvaðst Z hafa stirðnað og hún orðið hrædd þegar þetta hefði gerst, en hún ekki sagt neitt við ákærða og einbeitt sér að því að klára hringinn, sem hún hefði átt að aka. Hún kvaðst hafa verið of skelkuð til að vita hvort ákærði hefði farið með fingur inn í leggöng hennar, en sagði hann hafa nuddað sníp hennar í hvert sinn. Ákærði hefði svo alltaf hætt að eigin frum­kvæði, hún fært sig yfir í sætið við hlið hans og þau ekið heim.

             Aðspurð kvaðst Z hafa haldið áfam að fara með ákærða í eggjaleitina, þrátt fyrir að hún hefði ekki viljað það og sagðist hafa verið hrædd um að ákærði myndi ella segja foreldrum hennar frá því að hún væri byrjuð að reykja og drekka áfengi. Nefndi Z í þessu sambandi að ákærði hefði áður verið búinn að gefa henni bæði sígarettur og áfengi, um eða eftir 12 ára aldur hennar. Hún sagði hann einnig oft hafa gefið henni peninga og í eitt skipti hafa farið með hana í Kringluna í Reykjavík og keypt handa henni kjól, sem hana hefði langað í. Í framhaldi hefði hann boðið henni út að borða á veitingastaðnum Aski í Reykjavík. Z sagði foreldra sína hafa vitað af vinskap hennar og ákærða, en þau hefðu þekkt hann vel. Z bar að hún og ákærði hefðu yfirleitt farið tvö ein í leitina að mávseggjum, en þó hefði vinur ákærða, Q, farið með þeim í eitt skipti.

             Aðspurð kvað Z framangreinda atburði hafa gerst sumarið þegar hún hefði verið 12 eða 13 ára og sagði að það væri örugglega aðeins um eitt sumar að ræða. Hún kvaðst nánast viss um að þetta hefði verið sumarið eftir að hún fermdist, en hún hefði fermst 1. apríl 1999. Hún hefði verið að vinna í sjoppunni tvö sumur, fyrir og eftir fermingu og það hefði verið seinna sumarið, sem ákærði hefði káfað svona á henni. Að sögn Z hefði hana oft langað til að segja frá nefndum atburðum, en verið of hrædd til þess og óttast að fólk myndi líta niður á hana. Hún hefði þess í stað lokað á allar minningar um atburðina, reynt að gleyma þeim og halda áfram með líf sitt. Þess vegna ætti hún nú erfitt með að rifja atburðina upp. Þegar Z hefði svo verið boðuð til skýrslugjafar hjá lögreglu í janúar 2004, vegna máls á hendur ákærða, hefði hún „brotnað saman“, sagt unnusta sínum frá atvikum og daginn eftir lagt spilin á borðið hjá lögreglu. Aðspurð kvaðst Z ekkert vita um mál Y og samskipti hennar við ákærða.

             Þegar hér var komið í framburði Z fyrir dómi var henni kynnt sú frá­sögn hennar hjá lögreglu 30. janúar 2004, að ákærði eigi að hafa misnotað hana kyn­ferðislega tvö sumur í röð, 1999 og 2000. Aðspurð hvort sú lýsing ætti ekki við rök að styðjast svaraði Z svo: „Jú, þetta getur alveg verið rétt eftir mér haft, en ég á rosalega erfitt með að muna þessar tímasetningar. Það er alveg rosalega erfitt fyrir mig að muna þær og ég hef reynt að muna betur, en það er rosalega erfitt fyrir mig þar sem ég er búin að loka alveg á það og ég hef verið með aðstoð við það að reyna að muna þetta betur, en þetta er allt rosalega, í rosalegri móðu hjá mér, tímasetningar og það.“ Í framhaldi var Z minnt á ætlað tilvik úr lögregluskýrslunni, þegar ákærði eigi að hafa kippt buxum hennar og nærbuxum niður. Hún staðfesti þá lýsingu og áréttaði að hún hefði orðið rosalega hrædd þegar þetta hefði gerst, en myndi ekkert frekar eftir því hvað komið hefði fyrir í það sinn. Hún kvað umrætt tilvik hafa verið hið síðasta þar sem ákærði hefði áreitt hana kynferðislega. Aðspurð hvort umrætt atvik hefði getað gerst „sumarið eftir“, svaraði Z svo: „Sko, þetta gæti alveg verið, ég hugsa að það hafi verið sennilega svoleiðis já. Ég er alveg, já, þetta er rosa­lega erfitt að muna, en hérna, ég hugsa, ég hef velt þessu mjög fyrir mér, hérna með lögreglumanninum og hann svona, já, ég hugsa að þetta sé, já, ... þegar hann er að hjálpa mér að rifja upp og þá hugsa ég að þetta hafi verið svoleiðis sko. Annars hef ég alveg reynt að gleyma þessu, alveg eins og ég get sko.“ Z var í framhaldi spurð að því beint hvort ákærði hefði misnotað hana með greindum hætti í eitt eða tvö sumur. Hún svaraði: „Þetta voru tvö sumur“ og sagði Z atvik hafa verið með sama eða svipuðum hætti bæði sumurin. Aðspurð hversu oft þetta hefði gerst umrædd sumur kvaðst Z telja að skiptin hefðu verið tvö eða þrjú fyrra sumarið, jafnvel fjögur og tvö seinna sumarið. Henni var í framhaldi kynnt að í lögregluskýrslunni væri bókað að skiptin hefðu verið 5-10 fyrra sumarið og sagði Z það vera „of mikið“. Framburður hennar fyrir dómi væri réttari. Z var enn spurð hvort ákærði hefði einhvern tíma farið með fingur inn í leggöng hennar og sagðist þá vita með vissu að svo hefði verið og að það hefði hann gert bæði sumurin. Henni fyndist þó að hann hefði verið meira í kringum snípinn og á svæðinu milli sníps og leg­ganga. Z var einnig spurð að því hvort atburðir þeir, sem hún lýsti, gætu hafa gerst fyrr eða jafnvel sumurin 1997 og 1998. Hún kvaðst draga það í efa, þar sem hún hefði ekki verið byrjuð að vinna í sjoppunni hjá [íþróttafélaginu] á þeim tíma.

U, móðir Z, bar fyrir dómi að henni hefði verið kunnugt um vinskap ákærða og dóttur hennar og vitað að hann hefði verið að færa henni gjafir. Eins hefði hún vitað að ákærði hefði oft boðið henni far í tengslum við knattspyrnuleiki og einnig boðið henni með sér í leit að mávseggjum. U hefði ekki fundist neitt óeðlilegt við þetta, enda hefðu ákærði og Z verið góðir vinir og hana aldrei grunað að ákærði hefði eitthvað misjafnt í huga. Þegar þau hefðu farið að tína mávsegginn hefði ákærði yfirleitt komið heim til U og sótt stúlkuna. U kvaðst muna að slitnað hefði snöggt upp úr sam­skiptum ákærða og Z. Hún hefði þá verið hætt að vinna í sjoppunni hjá [íþróttafélaginu]. Að sögn U hefðu kynni þeirra hafist þegar Z hefði byrjað að vinna í sjoppunni, nokkrum árum fyrir fermingu. Sjálf kvaðst U ekki hafa þekkt ákærða, en verið honum mál­kunnug.

Æ, faðir Z, bar fyrir dómi að ákærði hefði stundum boðið Z með sér í leit að mávseggjum. Þetta hefði hann gert í nokkur ár, á tímabilinu í kringum fermingu stúlkunnar, bæði fyrir og eftir fermingu, en á þeim tíma hefði Z verið að vinna í sjoppu á vallarsvæði [íþróttafélagsins]. Æ kvaðst vita að ákærði hefði farið með Z í nokkur skipti að tína mávsegg, tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum eða svo á hverju sumri. Hún hefði stundum komið heim með egg. Fram kom í vitnisburði Æ að hann og S, móðir Y, væru þremenningar, en Æ sagði engin samskipti vera milli fjölskyldnanna og svo hefði aldrei verið.

             Fyrir dómi neitaði ákærði sök og vísaði alfarið á bug öllum ásökunum Z á hendur honum. Hann kvað samskipti þeirra hafa byrjað 1995 þegar hún hefði verið að æfa knattspyrnu með [íþróttafélaginu] og hann setið í aðalstjórn félagsins. Hún hefði svo byrjað að vinna í sjoppu á vallarsvæði félagsins, líklega 1996-1997 eða jafnvel 1998, en verið hætt í þeirri vinnu fyrir fermingu. Þó gæti verið að hún hefði unnið í sjoppunni sumarið 1999. Ákærði lýsti samskiptum þeirra á þann veg, að hún hefði stundum kíkt til hans á skrifstofu félagsins eftir leiki og fengið að dunda þar í tölvunni og við fleira á meðan hann hefði verið að vinna. Þá hefði hann oft gefið henni far frá [...] út í [...], þegar það hefði verið í leið fyrir hann eftir vinnu. Einnig hefði það komið fyrir að Z hefði farið með honum í eggjaleit á [...]; þó ekki sumarið 1999 eða síðar. Hún hefði fermst 1999 og kvaðst ákærði muna að eftir það hefði henni ekki lengur þótt spennandi að fara með í mávseggjaleit. Hún hefði þá verið „orðin svoddan pæja eins og maður segir“ og ákærði tekið eftir því þegar hann hefði ekið framhjá heimili hennar að einhverjir strákar hefðu verið farnir að sækja hana. Ákærði hefði því umgengist Z mjög lítið sumarið 1999, þótt hún hefði ef til vill enn verið að vinna í sjoppunni. Aðspurður um fjölda skipta, sem Z hefði farið með honum að tína mávsegg sagði ákærði að skiptin hefðu ef til vill verið einhver sumarið 1998, en þá hefði þó verið farið að draga úr þeim. Þá hefði hún farið eitthvað smávegis með honum sumurin þar á undan, líklega fyrst 1996 eða 1997. Í þau skipti hefði vinur hans Q stundum slegist með í för. Ákærði kvað rangt að Z hefði fengið að stýra bifreið hans á heiðinni og sagði það aldrei hafa komið fyrir. Hann tiltók sérstaklega varðandi sumarið 2000 að hann skildi ekki hvernig hún hefði átt að komast fyrir í ökumannssætinu með honum, því hún hefði verið „í þykkara lagi.“

             Aðspurður um mögulegar skýringar á hinum alvar­­legu sökum sem Z bæri á hann í málinu kvaðst ákærði hafa verið sleginn þegar hann hefði fyrst heyrt af frásögn hennar hjá lögreglu, en hann hefði ávallt verið henni góður og haldið að þau hefðu verið góðir kunningjar. Þegar hann hefði verið yfirheyrður hjá lög­reglu vegna málsins (12. febrúar 2004) hefði ekkert annað komið upp í huga hans en að S hefði fengið Z til að bera á hann upplognar sakir, en S og Z hefðu verið að vinna í tveimur sjoppum á [íþróttavellinum] á sama eða svipuðum tíma. Ákærði kvaðst einnig hafa frétt það frá Q, að sá hefði hitt S ölvaða á balli fyrir áramót 2003/2004 og hún sagt honum að „það væri komin önnur stúlka í spilið“. Að sögn ákærða hefði hann ekki skilið orð S þá, en rúmum mánuði síðar hefði Z lagt fram kæru á hendur honum. Ákærði kvaðst því „reikna fastlega með því að S hafi verið búin að hræra í“ Z þegar hún gaf skýrslu sína hjá lögreglu og Z „notað tækifærið til að ná sér í pening þarna“, þ.e. „ákveðið að taka sjensinn til þess að ná sér í pening“. Ákærði kvaðst ekki sjá aðrar skýringar á framburði Z, þótt hann sæi ekki í hendi sér hvernig nákvæmlega S hefði „hrært í“ henni.

             Q bar fyrir dómi að hann og ákærði væru miklir vinir og hefði svo verið um áratuga skeið. Undanfarin tuttugu ár eða svo hefðu þeir farið í mávs­eggjaleit á vorin, á tímabilinu frá 15. maí og fram undir 10. júní. Stundum hefðu börn slegist með í för, meðal annars Z, sem hefði farið með þeim félögum í tvö eða þrjú skipti að minnsta kosti; öll fyrir sumarið 1999. Q kvaðst hafa orðið fyrir áfalli í lífi sínu árið 2000 og því myndi hann vel eftir þessu. Q kvaðst þekkja S og greindi frá því að þau hefðu hist á balli í árslok 2003 og hún sagt honum frá því, undir fjögur augu, að ákærði væri einnig grunaður um að hafa misnotað aðra stúlku en dóttur hennar. Að sögn Q hefði S notað orðin „það er önnur stúlka í spilinu“.

             Niðurstöður.

             Ákærða er í þessum þætti málsins gefið að sök að hafa misnotað Z kynferðislega, með því að hafa í nokkur skipti káfað á kynfærum stúlkunnar innanklæða og farið með fingur inn í þau, á meðan hún hafi setið í fangi ákærða og stýrt bifreið hans í námunda við [...] á [...]; annars vegar sumarið 1999, þegar hún var 13 ára, sbr. a-lið II. kafla ákæru og hins vegar sumarið 2000, þegar hún var 14 ára, sbr. b-lið sama ákærukafla.

Af málatilbúnaði ákæruvaldsins er ljóst að upphafstími ætlaðra brota er miðaður við tvenn tímamörk, sem tengjast innbyrðis og byggjast annars vegar á minni Z sjálfrar um það hvaða sumar hún hafi byrjað að vinna í sjoppu á vallarsvæði [íþróttafélagsins] í [...] og hins vegar þeirri staðreynd að hún fermdist 1. apríl 1999; þá 13 ára gömul. Svo virðist sem bæði foreldrar Z og ákærði hafi stuðst við sömu tíma­mörk þegar þau rifjuðu atburði upp fyrir dómi.

             Ákærði hefur neitað staðfastlega öllum ásökunum Z um kynferðislega mis­notkun. Hann kveður þó rétt að stúlkan hafi í einhver skipti farið ein með honum að tína mávsegg á [...], á eggjatökutímabili, sem standi frá því um 20. maí og fram undir miðjan júní ár hvert; þó ekki sumurin 1999 og 2000. Í nefnd skipti hafi hún aldrei fengið að stýra bifreið hans og hún heldur ekki beðið um það að sögn ákærða. Ákærði dró ekki dul á það að þau hefðu verið góðir kunningjar á árum áður og sagði fyrir dómi að þau hefðu kynnst sumarið 1995, þegar Z hefði verið að æfa knatt­spyrnu með [íþróttafélaginu] í [...]. Ákærði telur líklegast að Z hafi svo byrjað að vinna í umræddri sjoppu sumarið 1996 eða 1997 og að þau sumur og sumarið 1998 hafi hún í nokkur skipti farið með honum að tína mávsegg. Ákærði vildi ekki útiloka að Z hefði einnig unnið í sjoppunni sumarið 1999, en aftók með öllu að þau hefðu farið saman í mávseggjaleit á [...] það sumar.

             Framburður ákærða um það hvenær, þ.e. hvaða sumur, hann og Z hafi farið saman að tína mávs­egg fær nokkra stoð í vitnisburði foreldra Z fyrir dómi, en móðir hennar bar að stúlkan hefði kynnst ákærða þegar hún hefði byrjað að vinna í umræddri sjoppu, nokkrum árum fyrir fermingu. Faðir Z bar að ákærði hefði stundum boðið stúlkunni með sér í leit að mávseggjum, á nokkurra ára tímabili, bæði fyrir og eftir fermingu hennar, en á þeim tíma hefði Z verið að vinna í sjoppunni á sumrin. Vitnisburður Z fyrir dómi gefur vísbendingu í sömu átt, en hún bar í fyrstu, að hún hefði unnið í sjoppunni tvö sumur; fyrir og eftir fermingu. Samkvæmt þeim framburði hóf hún vinnu í sjoppunni 12 ára gömul, sumarið 1998. Eftir að stúlkunni hafði verið kynnt skýrsla hennar hjá lögreglu um nefnd atriði og hún spurð hvort verið gæti að ætluð brot hafi verið framin fyrir sumarið 1999 kvaðst hún draga það í efa, þar sem hún hefði ekki byrjað að vinna í sjoppunni fyrr en sumarið 1999.

Með hliðsjón af sönnunarreglum 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opin­berra mála, sem kveða svo á um að skynsam­legan vafa beri að meta ákærða í hag, og með vísan til samhljóða vitnisburðar foreldra Z um að stúlkan hafi byrjað að vinna í margumræddri sjoppu fyrir sumarið 1999, þykir verða að leggja til grund­vallar að svo hafi verið í raun og að ákærði hafi fyrir þann tíma farið með henni að tína mávsegg á [...]. Því áliti til stuðnings er einnig hafður í huga sá fram­burður Z fyrir dómi, að hún hafi reynt að gleyma hinum kærðu atburðum og eyða öllum minningum um þá. Er því ekki ólíklegt að hana geti mis­minnt um það hvaða sumar eða sumur hún hafi farið með ákærða á [...]na.

             Fyrir dómi var ákærði inntur eftir því hvort hann kynni einhverja skýringu eða skýringar á framburði Z og hinum alvarlegu ásökunum, sem hún hefði upp í málinu. Ákærði sagði að það kæmi ekkert annað upp í huga hans en að S, móðir Y, hefði fengið Z til að bera á hann upplognar sakir og kvaðst hann „reikna fastlega með því að S hafi verið búin að hræra í“ Z og hún „notað tækifærið“ og „ákveðið að taka sjensinn til þess að ná sér í pening“.

             Samkvæmt framburði Z fyrir dómi greindi hún engum frá því, sem ákærði eigi að hafa gert á hennar hlut, fyrr en 29. janúar 2004 þegar hún sagði unnusta sínum frá atburðum. Hann kom ekki fyrir dóm vegna málsins. Z lýsti síðan atvikum í lögregluskýrslu 30. janúar. Er því ljóst að við mat dómsins á því hvort ætluð brot teljast sönnuð verði fyrst og fremst að styðjast við framburð Z annars vegar og framburð ákærða hins vegar. Vegur þar þyngst framburður þeirra fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála, en við sönnunarmatið ber að túlka skynsam­legan vafa ákærða í hag, bæði um sekt hans og hvert það atvik, sem telja má honum í óhag, sbr. 45. og 46. gr. sömu laga.

             Ákærða og Z ber saman um það hvernig kynni þeirra hófust og hafa greint frá því með líkum hætti, að stúlkan hafi stundum farið til hans á skrifstofu [íþróttafélagsins] og fengið að fara þar í tölvu, ákærði verið henni góður og örlátur; gaukað að henni peningum og gefið henni tækifærisgjafir. Þeim ber einnig saman um að ákærði hafi í nokkur skipti tekið Z með sér í leit að mávseggjum í kringum [...]. Hitt greinir þau á um, hvort ákærði hafi leyft henni að stýra þar bifreið sinni og hvort og þá hvað hafi gerst meðan á því hefði staðið. Ákærði hefur boðið fram þá skýringu á frásögn Z um viðkomandi atburði, að S, fyrrverandi kærasta hans og móðir Y, sem fyrr er getið, hafi „hrært í“ Z og fengið hana til að bera á hann upplognar sakir. Stúlkan hafi gripið tækifærið og „ákveðið að taka sjensinn til þess að ná sér í pening.“ Þessi skýring á framburði Z þykir æði langsótt að mati dómsins og ekki í nokkru samræmi við þá mynd, sem ákærði hefur gefið af samskiptum sínum og kunningsskap við stúlkuna. Miðað við þá lýsingu er vand­séð af hverju Z tæki upp á því að bera á hann svo alvarlegar sakir, sem raun ber vitni, ef enginn fótur væri fyrir frásögn hennar. Nefnd skýring fær hvorki stoð í framburði Z fyrir dómi né heldur vitnis­­burði foreldra hennar og S, sem báru öll að ekkert samband væri á milli fjölskyldnanna tveggja og að þau hefðu aldrei rætt um málefni Y og Z sín á milli. Það eitt útilokar ekki að S hafi haft samband við Z og lagt að henni að bera ákærða röngum sökum, en til þess mun S hafa þurft að segja henni í nokkrum smáatriðum frá reynslu dóttur sinnar; svo lík er frásögn stúlknanna um fram­­ferði ákærða í þeirra garð. Hinu má ekki gleyma hver ástæðan var fyrir því að Z var boðuð til skýrslugjafar hjá lögreglu 30. janúar 2004 og mál hennar kom upp á yfir­borðið, en ákærði hafði þá nokkru áður getið um nafn hennar við yfirheyrslu hjá lög­reglu. Kom þannig hvorki til ábending frá S né frum­kvæði Z sjálfrar að nefndri skýrslugjöf. Dómurinn fellst því ekki á umrædda skýringu ákærða, enda er hún sam­kvæmt framansögðu ekki studd haldbærum gögnum. Breytir engu í því sam­bandi vitnis­burður Q fyrir dómi um ætlað samtal hans og S á balli í árslok 2003 og meintar getgátur hennar um að það væri önnur, ónafngeind stúlka „í spilinu“, en S kannast ekki við að umrætt sam­tal hafi farið fram. Ber hér einnig að hafa í huga, við mat á sönnunargildi nefnds vitnis­burðar Q, að hann og ákærði hafa verið nánir vinir um áratuga skeið.

             Með hliðsjón af framansögðu er það álit dómsins að Z hafi greint frá því fyrir dómi með trúverðugum hætti, að ákærði hafi, í ferðum þeirra í leit að mávs­eggjum, leyft henni í nokkur skipti að sitja í kjöltu hans í ökumanns­sæti bifreiðar hans og stýra henni og að á meðan hafi hann þuklað á brjóstum hennar og kynfærum innan­klæða. Samrýmist sá framburður stúlkunnar skýrslu hennar hjá lög­reglu 30. janúar 2004. Z lýsti því einnnig á trúverðugan hátt fyrir dómi hvernig hún hefði reynt að loka á allar minningar um framferði ákærða í hennar garð og gleyma því, sem gerst hefði í ferðum þeirra á [...]. Er ekki óeðlilegt að Z hafi reynt að þurrka slíkar minningar úr huga sér, en samkvæmt framburði stúlkunnar þorði hún aldrei að segja foreldrum sínum frá atburðum og óttaðist einnig að fólk í [...] myndi líta niður á hana ef hún segði frá. Er ekkert fram komið í málinu, sem bendir til annars en að frásögn hennar hefði legið áfram í þagnargildi, ef ákærði hefði ekki getið um nafn hennar.

Við mat á framburði Z er óhjákvæmilegt að líta til þess, sem hún segir sjálf, um erfiðleika við að rifja upp atburði á [...], bæði hvað varðar lýsingu á atburðarás, fjölda tilvika, sem ákærði eigi að hafa misnotað hana kyn­ferðis­lega, hvenær slíkt eigi að hafa gerst og hvort það hafi átt sér stað á einu sumri eða tveimur.

Í skýrslu sinni fyrir dómi, sem Z gaf að ákærða viðstöddum, greindi hún fyrst frá kynnum þeirra og sagði ákærða hafa verið henni „rosalega góður“. Í fram­­haldi sagði hún frá ferðum þeirra á [...] og lýsti því með nákvæmum hætti hvernig ákærði eigi að hafa káfað á henni í nefndri bifreið. Af þeirri lýsingu að dæma mun ákærði „alla vega oftar en þrisvar, fjórum sinnum“ hafa byrjað að þukla á Z með því að fara með báðar hendur inn fyrir peysu hennar, bol eða boli og káfað á berum brjóstum hennar og bringu. Í framhaldi hafi hann fært hendur sínar inn fyrir nærbuxur hennar og káfað á berum kynfærunum. Z var fyrir dómi spurð hver hefðu verið viðbrögð hennar við slíku háttalagi og svaraði því til, að hún hefði stirðnað og orðið hrædd, en látið sem ekkert væri og hún einbeitt sér að því stýra bifreiðinni og klára hringinn, sem hún hefði átt að aka. Telur dómurinn þessa frásögn stúlkunnar auka á trúverðugleika framburðar hennar, sem og svar hennar, sem á eftir fylgdi, þegar hún var spurð hvort ákærði hefði farið með fingur sína inn í leggöng hennar. Z svaraði því til, að hún hefði verið of skelkuð til að vita hvort ákærði hefði gert þetta, en sagði hann hafa nuddað sníp hennar í hvert sinn. Framburður Z, sem nú hefur verið rakinn, virtist gefinn af yfir­vegun og gætti þar hvergi ofhermis, að mati dómsins. Þannig hefði henni til dæmis verið í lófa lagið að nefna til sögunnar fleiri tilvik, þar sem greindir atburðir eigi að hafa gerst, sem og að fullyrða að ákærði hafi sett fingur sína inn í leggöng hennar. Með sama hætti greindi Z frá því, af varfærni og yfirvegun, að framangreindir atburðir hefðu gerst sumarið 1998, þegar hún hefði verið 12 ára, eða sumarið 1999, þegar hún hefði verið 13 ára. Jafn­framt bar hún að hér væri örugglega aðeins um eitt sumar að ræða. Hún kvaðst þó nánast viss um að atburðirnir hefðu gerst um sumarið eftir fermingu hennar, í apríl 1999.

Það er álit dómsins að ofangreindur framburður Z sé í heild trú­verðugur og að hún hafi þar lýst með skýrum hætti og eftir besta minni raunveru­legum atburðum, sem komið hafi fyrir hana í samskiptum sínum við ákærða á [...]. Breytir engu um það álit þótt Z hafi síðar í frásögn sinni breytt fyrri fram­burði eða öllu heldur hnikað honum til, í viðleitni til að samræma hann betur við lög­regluskýrsluna frá 30. janúar 2004, en miðað við allt það, sem stúlkan hafði áður borið um, er dóminum til efs að hún hafi í janúar síðastliðnum munað öll atvik með þeim hætti, sem lýst er í lög­regluskýrslunni. Ber þar of mikið á milli í samanburði við frásögn hennar fyrir dómi tæpum fimm mánuðum síðar. Þessari ályktun til stuðnings má benda á heilabrot Z fyrir dómi, eftir að henni var kynnt að nánar tiltekins ósamræmis gætti milli framburðar hennar og efni lögregluskýrslunnar. Dró stúlkan ekki undan því að hún myndi afar óljóst eftir frásögn þess efnis í lögreglu­skýrslunni að ákærði hefði brotið gegn henni tvö sumur í röð, sagði að þetta væri allt „í rosalegri móðu ..., tímasetningar og það.“ og gat þess að hún hefði fengið hjálp frá við­komandi rannsóknarlögreglumanni við að rifja það upp hvort umræddir atburðir hefðu gerst á einu sumri eða tveimur. Ber að virða í þessu ljósi dómsframburð Z, sem á eftir fylgdi, um að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega tvö sumur í röð. Nýtur ákærði skynsamlegs vafa að þessu leyti, sbr. 45. og 46. gr. laga um meðferð opinberra mála, sem og varðandi þann seinni framburð Z, að ákærði hafi farið með fingur sína inn í leggöng hennar. Stúlkan tiltók þó í þessu sambandi að henni fyndist sem ákærði hefði káfað meira í kringum sníp hennar og á svæðinu á milli sníps og legganga.

Samkvæmt öllu því, sem nú hefur verið rakið, telur dómurinn að leggja megi til grundvallar trúverðugan framburð Z fyrir dómi um að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega í bifreið sinni á [...], í fjögur skipti hið minnsta, á einu og sama sumrinu, með því að káfa á brjóstum hennar og bringu innanklæða, fara með hendur sínar inn fyrir nær­buxur hennar og þukla með fingrum á ytri kynfærum stúlkunnar. Breytir engu um þá afstöðu dómsins þótt ákærði hafi neitað sakar­giftum hjá lögreglu og fyrir dómi, enda þykir fram­burður hans alls ekki trú­­verðugur í saman­burði við nefnda frásögn Z. Ber samkvæmt því að sak­fella ákærða fyrir kyn­ferðislega áreitni (káf á kynfærum) í skilningi 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, en brot, sem þar er lýst, varðar fangelsi allt að 4 árum. Það athugast í þessu sambandi, að í málinu er ekki ákært fyrir káf á brjóstum stúlkunnar. Ákærði er hins vegar sýkn af því að hafa farið með fingur inn í kynfæri Z, svo sem honum er gefið að sök í ákæru, en skynsamlegan vafa þar að lútandi ber að meta honum í hag.

Kemur þá til álita hvenær líta beri á að umrædd brot hafi verið framin. Með hliðsjón af fyrrgreindum vitnisburði foreldra Z fyrir dómi, einkum vætti föður hennar, stað­föstum fram­burði ákærða um að hann og Z hafi ekki farið saman að tína mávs­egg sumurin 1999 og 2000 og loks framburði Z sjálfrar fyrir dómi, sem útilokar ekki að brotin hafi verið framin þegar hún var 12 ára, sumarið 1998, þykir slíkur vafi leika á því að brotin hafi verið framin sumarið 1999 eða enn síðar, að ekki verður á því byggt í málinu. Ber þannig að miða við að brotin hafi verið framin í síðasta lagi sumarið 1998. Z hefur í framburði sínum fyrir dómi tengt nefnda atburði við leit hennar og ákærða að mávseggjum og hefur saksókn í málinu einnig tekið mið af því. Ekki er annað fram komið í málinu en að svo­kallað eggjatökutíma­bil standi yfir ár hvert frá því um eða eftir miðjan maí og fram undir miðjan júní. Með hliðsjón af 45. og 46. gr. laga um meðferð opinberra mála þykir því verða að miða við það að brot ákærða hafi öll verið framin innan þess tímabils og þannig aldrei síðar en 15. júní 1998.

Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981, fyrnist sök á 5 árum, þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 4 ára fangelsi. Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. hegningarlaganna, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981, telst fyrningarfrestur frá þeim degi, er refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Nefndri 1. mgr. var breytt með 2. gr. laga nr. 63/1998, en þau lög tóku gildi 18. júní 1998. Með hinum nýju lögum var sú breyting gerð á 1. mgr., að fyrningar­frestur vegna kynferðisbrota samkvæmt 194.-202. gr. hegningarlaganna telst eigi byrja að líða fyrr en frá þeim degi er brotaþoli nær 14 ára aldri. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu dómsins, að refsiverðri háttsemi ákærða hafi lokið í síðasta lagi 15. júní 1998, verður lögum nr. 63/1998 þó ekki beitt við úrlausn þessa máls, þar sem fyrningar­frestur samkvæmt upphafsmarki 1. mgr. 82. gr. hegningarlaga, eins og hún hljóðaði fyrir breytinguna, var byrjaður að líða fyrir gildis­töku nýju laganna, sbr. megin­­reglu 2. gr. og 2. gr. a. hegningarlaganna og hæstaréttardóma 8. maí 2003 í máli nr. 4/2003 og 29. apríl 2004 í máli nr. 32/2004. Rannsókn málsins á hendur ákærða, vegna gruns um refsiverða háttsemi gagnvart Z hófst aldrei fyrr en með skýrslu­gjöf hennar hjá lögreglu 30. janúar 2004 og að öllum líkindum ekki fyrr en ákærði var fyrst yfir­heyrður af lögreglu vegna málsins 12. febrúar sama ár. Á hvorn veg, sem á þetta er litið, var sök ákærða samkvæmt framansögðu fyrnd þegar rannsókn málsins hófst, sbr. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Ber af þeirri ástæðu einni að sýkna ákærða af refsikröfu ákværuvaldsins í þessum þætti málsins.

II.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður sætt refsingu. Brot ákærða gegn Y, sem hann er sakfelldur fyrir, eru alvarleg og beinast að mikil­vægum hagsmunum. Þau náðu yfir langan tíma og voru framin í skjóli óskoraðs trúnaðartrausts, sem ákærði naut af hálfu stúlkunnar og foreldra hennar. Ákærði rauf þann trúnað ítrekað og á svívirði­legan hátt, einkum með þeirri háttsemi, sem lýst er í b-lið I. kafla ákæru og ákærði er sannur að í málinu. Hann á sér engar málsbætur. Að þessu virtu og með hliðsjón meðal annars af dómi Hæstaréttar 26. febrúar 2004 í máli nr. 414/2003 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Eru engin efni til að skilorðsbinda refsivistina þegar litið er til alvarleika brotanna.

III.

Af hálfu Y hefur verið sett fram í málinu miskabóta­krafa, sem reist er á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Með hlið­sjón af sak­fellingu ákærða fyrir hin alvarlegu kynferðisbrot þykir stúlkan eiga rétt til bóta úr hendi hans samkvæmt téðri lagagrein, sbr. og 2. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá hefur einnig verið gerð krafa um miska­bætur fyrir hönd Z. Þótt ákærði hafi á grundvelli sakar­­fyrningar verið sýknaður af refsikröfu vegna brota sinna gagnvart Z er ljóst að hann hefur með ólögmætri meingerð einnig brotið gegn frelsi, friði og persónu hennar í skilningi 26. gr. skaðabótalaga, eins og hún var orðuð fyrir nefnda lagabreytingu. Er því bótakrafa stúlkunnar tæk til efnismeðferðar, sbr. 3. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Ljóst er að brot þau, sem ákærði er fundinn sekur um í málinu, eru almennt til þess fallin að valda þeim, sem fyrir verða, margvíslegum sálrænum erfiðleikum.

Í málinu liggur fyrir skýrsla Barnahúss 21. júní 2004 vegna viðtalsmeðferðar og greiningar á Y. Skýrslan er undirrituð af Rögnu Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa og og hefur hún stað­fest skýrsluna fyrir dómi. Er þar greint frá högum Y og látið í ljósi álit á líðan hennar. Af skýrslunni og vitnisburði Rögnu fyrir dómi er ljóst að Y mætti aðeins í sex viðtöl, á tímabilinu frá 23. september til 28. nóvember 2003, en þá var meðferð hætt að svo stöddu, í samráði við foreldra hennar. Mun ástæðan hafa verið sú að stúlkunni hafi fundist óþægilegt að mæta í viðtölin vegna þess að þá færi hún að hugsa aftur um brotin. Á meðferðarímanum hafi talsvert áunnist og stúlkan fengið fræðslu í samræmi við aldur og þroska. Erfitt sé þó að segja til um áhrif brotanna á líf Y í framtíðinni, en aukinn þroski og skilningur geti leitt til þess að henni fari að líða illa þegar kemur að kynþroskaaldri eða síðar. Y sé hins vegar dugleg stúlka, sem eigi alla möguleika til að ganga vel í lífinu.

Við ákvörðun bótafjárhæðar verður litið til þess hversu alvarleg og lang­varandi brot ákærða voru gagnvart Y, en sýnt þykir af skýrslu Barnahúss og vitnis­burði foreldra stúlkunnar að brotin hafi valdið henni miklum þjáningum og er óvíst um áhrif þeirra á hana í framtíðinni. Þykja bætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 27. desember 2003 til greiðsludags.

Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur annaðist viðtalsmeðferð og sálfræði­prófun á Z í júní 2004. Liggur fyrir skýrsla sálfræðingsins 28. þess mánaðar um með­ferðina og niðurstöður prófana, sem hann staðfesti fyrir dómi. Af skýrslunni má ráða að Z hafi liðið verulega fyrir brot ákærða gagnvart henni, hún upplifað mikla skömm og ekki þorað að segja neinum frá atburðum. Fyrrum hafi hún hugsað mikið um ástæður þess að ákærði braut gegn henni og hún hugleitt að enda eigið líf, svo að hún þyrfti engum að segja frá og þyrfti ekki að líða illa. Hún hafi síðan reynt að gleyma því sem gerðist, en það ekki tekist. Hún muni þó illa tíma­setningar á atvikum og sumt af því sem gerðist sé „blokkað út úr höfðinu“ á henni. Samkvæmt skýrslunni mælist Z með langvinnt alvarlegt þunglyndi, sem lýsi sér meðal annars í sjálfsandúð, sjálfsvígshugsunum, grátgirni, eirðarleysi og áhugaleysi. Klínísk einkenni Z uppfylli einnig greiningarskilyrði langvinnrar áfallastreitu­röskunar og víðtæks kvíða. Er það álit sálfræðingsins að mikilvægt sé að stúlkan nýti sér faglega hjálp til að vinna úr þessum vandamálum og njóti áfram góðs skilnings og stuðnings fjölskyldu sinnar við að byggja sig upp og aðlagast betur félagslega. Telur sál­­fræðingurinn að framtíðarhorfur Z byggist að verulegu leyti á því að hún vinni á þennan hátt markvisst að því að styrkja sjálfa sig.

Því verður ekki slegið föstu að líðan Z og fjölþætt vandamál hennar megi öll rekja til brota ákærða gagnvart henni, en skýrsla sálfræðingsins og vitnis­burður hans fyrir dómi rennir þó stoðum undir þá ályktun að ákærði hafi með fram­ferði sínu framferði sínu valdið henni miklum þjáningum, sem enn sér ekki fyrir endann á. Brot hans voru ítrekuð og gróf, framin þegar stúlkan var á eða við það að komast á kynþroskaskeið. Þykja bætur til hennar hæfilega ákveðnar 500.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 12. mars 2004 til greiðsludags.

IV.

Samkvæmt framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. og 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þykir rétt að skipta sakarkostnaði í málinu þannig að ákærði greiði helming hans, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Málið er umfangsmikið og verða málsvarnarlaun og réttar­gæslu­­þóknun vegna starfa við rann­sókn og meðferð málsins að taka mið af því. Þykja málsvarnarlaun Ásbjörns Jónssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða, þannig ákveðin í einu lagi 500.000 krónur, en réttargæsluþóknun til héraðs­dóms­lög­mannanna Þórdísar Bjarnadóttur og Huldu Elsu Björgvinsdóttur í einu lagi 150.000 krónur til hvors þeirra um sig. Gætti Þórdís hagsmuna Y, en Hulda Elsa hagsmuna Z.

Sigríður Jósefsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Dómurinn er kveðinn upp af héraðsdómurunum Jónasi Jóhannssyni, Finnboga H. Alexanders­syni og Þorgeiri Inga Njálssyni.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði Y 800.000 krónur, með dráttar­vöxtum 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. desember 2003 til greiðsludags.

Ákærði greiði Z 500.000 krónur, með dráttar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 12. mars 2004 til greiðsludags.

             Ákærði greiði helming alls sakarkostnaðar, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkis­sjóði. Eru þar með talin 500.000 króna málsvarnarlaun Ásbjörns Jónssonar héraðs­dómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða, 150.000 króna þóknun Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttar­gæslu­manns Y og 150.000 króna þóknun Huldu Elsu Björgvinsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Z.