Print

Mál nr. 658/2007

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Fyrning
  • Áfengislagabrot
  • Miskabætur

         

Miðvikudaginn 23. apríl 2008.

Nr. 658/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

 Ólafur Helgi Árnason hdl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Fyrning. Áfengislagabrot. Miskabætur.

X var ákærður fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með nánar tilgreindri háttsemi gegn sex stúlkum, en þrjár þeirra voru frænkur hans. Þá var hann einnig ákærður fyrir áfengislagabrot. Var ákærði sakfelldur fyrir verulegan hluta þeirrar háttsemi sem honum var gefin að sök.  Tekið var fram að hvert brot um sig sætti sjálfstæðu mati og yrði sakfelling af einu, eða það að aðrar kærur hafi verið lagðar fram sem ekki hafi leitt til ákæru, ekki notað til sönnunar um sök af öðru. Við ákvörðun refsingar X var litið til þess að um var að ræða mörg brot framin yfir langt tímabil gegn börnum og unglingum og sum þeirra voru mjög alvarleg. Þá nýtti hann sér trúnað og traust sem stúlkurnar báru til hans sem náins ættingja. Þótti refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár. Þá þótti ákærði með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til stúlknanna sem þóttu hæfilega ákveðnar á bilinu 300.000 til 1.000.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. desember 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur að öllu leyti samkvæmt ákærum 4. júní og 24. september 2007 og refsing hans þyngd. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða A 1.500.000 krónur með vöxtum frá 1. september 2005, B 1.200.000 krónur með vöxtum frá 9. apríl 2005, C 1.500.000 krónur með vöxtum frá 31. ágúst 2005, D 1.200.000 krónur með vöxtum frá 24. september 2003 og E 600.000 krónur með vöxtum frá síðastgreindum degi. Í öllum tilvikum eru vextir nánar tilgreindir og þeirra krafist til greiðsludags.

Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum samkvæmt 1. til 5. tölulið ákæru 4. júní 2007, en að refsing samkvæmt 6. tölulið sömu ákæru verði svo væg sem kostur er. Hann krefst jafnframt sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæru 24. september 2007. Til vara er þess krafist að refsing verði milduð. Ákærði krefst þess jafnframt að öllum fjárkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en að því frágengnu verði þær lækkaðar.

I.

Málið var höfðað gegn ákærða með tveimur ákærum ríkissaksóknara. Sú fyrri frá 4. júní 2007 er í sex liðum fyrir kynferðisbrot gegn fjórum ungum stúlkum, en einnig áfengislagabrot. Í héraðsdómi var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru að öðru leyti en því að sýknað var vegna fjórða liðar og að hluta einnig vegna hins þriðja.  Síðari ákæran frá 24. september 2007 er í tveimur liðum fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum. Ákærði var sakfelldur í héraðsdómi fyrir brot gegn þeim báðum.

Af hálfu ákæruvaldsins hefur verið lagt fyrir Hæstarétt endurrit skýrslu, sem C gaf fyrir héraðsdómi 5. desember 2007. Hún bar þá að ákærði hafi í eitt skipti fengið hana og A til að hafa við sig munnmök og greitt þeim peninga fyrir. Kannaðist hún ekki við að hann hafi í önnur skipti sýnt henni kynferðislega áreitni. Þá bar hún að ákærði hafi rætt við sig nokkru áður og getið þess að yrði hann kærður myndi það leiða til þess að nafngreindir nánir ættingjar þeirra fengju ekki vinnu.

Ríkissaksóknari krefst þess að sakfellt verði samkvæmt öllum liðum ákæru 4. júní 2007. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu af broti samkvæmt 4. lið og að hluta samkvæmt 3. lið ákærunnar. Við mat á sönnun sakargifta samkvæmt þessari ákæru að öðru leyti skiptir ekki máli sú röksemd héraðsdóms að nafngreind frænka ákærða hafi lagt fram kæru á hendur honum fyrir kynferðisbrot, sem hafi þó ekki leitt til ákæru. Sakargiftir samkvæmt ákæru 24. september 2007 eru sannaðar gagnvart báðum stúlkunum og í þeim mæli gagnvart D sem lagt var til grundvallar í héraðsdómi. Verður þá ekki við mat á sönnun fyrir einstökum brotum hans litið til þess að hann hafi verið sakfelldur fyrir önnur samkynja brot í málinu, svo sem gert er í hinum áfrýjaða dómi. Brotin eru ófyrnd. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.

II.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að hann hefur gerst sekur um mörg brot, einkum kynferðisbrot gegn börnum og unglingum, og að sum þeirra eru mjög alvarleg. Brot hans tóku yfir langt tímabil og í mörgum tilvikum nýtti hann sér trúnað og traust, sem stúlkurnar báru til hans sem náins ættingja. Ljóst er af gögnum málsins að þær hafa beðið tjón af háttsemi ákærða, þótt enn sé óvíst að hvaða marki þær nái að vinna sig út úr þeim erfiðleikum, sem af þessu hafa leitt. Heimfærsla héraðsdóms á brotum ákærða til refsiákvæða verður staðfest. Falla kynferðisbrot hans undir 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður ekki jafnframt dæmt fyrir brot á 1. mgr. 194. gr. sömu laga. Styður hvorki orðalag ákvæðanna né lögskýringargögn með frumvörpum, sem urðu að lögum nr. 40/1992 og 61/2007, að 1. mgr. 194. gr. verði beitt samhliða 202. gr. þegar svo stendur á að verknaðarlýsing fyrrnefnda ákvæðisins á ekki við. Að öllu virtu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár og eru engin efni til að skilorðsbinda hana.

Með þeim brotum, sem ákærði er sakfelldur fyrir, hefur hann bakað sér skyldu til að greiða áðurnefndum stúlkum miskabætur. Þegar virt eru brot hans gagnvart hverri þeirra ásamt því, sem liggur fyrir í málinu um afleiðingar brotanna í einstökum tilvikum, eru miskabætur hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur handa A og sama fjárhæð til D, en að öðru leyti verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð miskabóta til brotaþola. Þær hafa hver fyrir sig krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því að kröfur þeirra voru kynntar ákærða, sbr. 9. gr. sömu laga, en upp frá því dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna. C krefst þó fyrir Hæstarétti dráttarvaxta frá 20. desember 2007. Vextir verða dæmdir þessu til samræmis eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í fjögur ár.

Ákærði greiði A 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2005 til 27. janúar 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. apríl 2005 til 16. nóvember 2006, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði C 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. ágúst 2005 til 20. desember 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði D 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. september 2003 til 11. október 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði E 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. september 2003 til 11. október 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.117.643 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 622.500 krónur, og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur, og Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 4. júní 2007 á hendur X, kennitala [...],[...], Reykjavík, fyrir eftirfarandi kynferðisbrot gagnvart A, B, F og C, bróðurdóttur ákærða, öllum fæddum árið 1992, og áfengislagabrot gagnvart A og C, með því að hafa:

1.  Sumarið 2005, í bakgarði húss í nágrenni Rauðarárstígs í Reykjavík, fengið A og C til að nudda kynfæri sín, utanklæða.

2.  Tvisvar sinnum, sumarið 2005, á þáverandi heimili ákærða að [...], Reykjavík, veitt A og C áfengi og fengið þær til að fróa sér og hafa við hann munnmök.

3.  Sumarið 2005, á þáverandi heimili ákærða að [...], Reykjavík, fengið A og F til að hafa við hann munnmök og strokið ber brjóst F.

4.  Á árinu 2004 eða 2005, á þáverandi heimili ákærða að [...], Reykjavík, strokið brjóst B innanklæða og kynfæri hennar utanklæða.

5.  Á sama tíma og stað og greint er í 4. tölulið látið B og C skrifa með penna á kynfæri sín.

6.  Í marsmánuði 2006, í Reykjavík, afhent A áfengi.

Brot ákærða samkvæmt 1. til 3. tölulið eru talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003 og a og b lið 11. gr. laga nr. 61/2007, og brot ákærða samkvæmt 4. og 5. tölulið við 2. mgr. sömu greinar, sbr. c lið 11. gr. laga nr. 61/2007. Brot ákærða samkvæmt 2. tölulið eru einnig talin varða við 1. mgr. 18. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998 og við það ákvæði er einnig brot ákærða samkvæmt 6. tölulið talið varða.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakröfur:

Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. júlí 2005 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa var kynnt sakborningi en með dráttar­vöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.

Af hálfu B, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.200.000 með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. apríl 2005 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafa var kynnt sakborningi en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðslu­dags auk greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.

Hinn 25. september 2007 var sakamálið nr. 1362/2007 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 24. september 2007 eftirfarandi kynferðisbrot, framin í Reykjavík, eins og hér greinir:

1.  Gegn D, fæddri 1984, með því að hafa á árunum 1988 til 1994, á þáverandi heimili ákærða fyrst í [...] og síðan að [...] margsinnis fengið D til að þukla á honum kynfærin utanklæða, margsinnis tekið hana í fangið og nuddað getnaðarlimi sínum við líkama hennar, í tíu skipti fengið D til að fróa sér uns honum varð sáðlát og einu sinni fengið D til að hafa við hann munnmök.

2.  Gegn E, fæddri 1987, með því að hafa árið 1993 eða 1994, á þáverandi heimili ákærða að [...], Reykjavík, fengið E til að fróa sér uns honum varð sáðlát.

Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 3. gr. og 11. gr. laga nr. 61/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakröfur:

Af hálfu D, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.200.000 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 3. september 1988 til 1. júlí 2001 en með vöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags auk greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.

Af hálfu E, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 600.000 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 1. apríl 1994 til 1. júlí 2001 en með vöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags auk greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði felldur á ríkissjóð.

Ákæra 4. júní 2007.

Með bréfi 14. mars 2006 fór Barnavernd Reykjavíkur þess á leit við lögreglu að fram færi lögreglurannsókn vegna gruns um að B hafi orðið fyrir kynferðisbroti. Var vísað til þess að móðir stúlkunnar hafi komið til viðtals til Barnaverndar Reykjavíkur 21. febrúar 2006 vegna dóttur sinnar og tilkynnt um að stúlkan hafi ef til vill orðið fyrir ósæmilegu athæfi af hálfu manns sem væri frændi vinkonu hennar. Er rakið að í könnunarviðtali í Barnahúsi hafi komið fram að umræddur maður hafi klætt sig úr buxum fyrir framan stúlkuna og hún m.a. verið neydd til að teikna á typpið á honum.

Þriðjudaginn 21. mars 2006 mætti G á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni B. Í kærunni kom m.a. fram að B hafi, ásamt vinkonu sinni, C, verið á heimili ákærða. C hafi þá haldið um typpi ákærða og hafi B teiknað á það. Hafi þetta verið gert að beiðni ákærða. Sama dag framkvæmdi lögregla húsleit á heimili ákærða að [...] í Reykjavík. Í rannsóknargögnum málsins í skýrslu Tæknideildar lögreglu frá 23. mars 2006 á skjali merkt. VII/2 er að finna ljósmyndir er teknar voru af húsnæðinu. Sýna þær húsnæðið að utanverðu, stigagang upp á fyrsta stigapall þar sem íbúð ákærða er, eldhús íbúðarinnar og stofu, en í stofunni eru sófi, rúm, sjónvarp og tölva á borði. Þá voru teknar myndir úr herbergi, þar sem inni eru rúm, sófi og bókahillur. Í herberginu er innangengt inn á baðherbergi. Undir rúmi í herberginu er kassi með blöðum í og er tekin mynd af efsta blaðinu sem er klámblað.

Miðvikudaginn 22. mars 2006 mætti á lögreglustöð H, móðir C. Lagði hún þá fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur hennar. Kvaðst H leggja kæruna fram eftir að lögregla hafi haft samband við sig og gert sér grein fyrir því að C hafi hugsanlega orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. Í kærunni kom fram að ákærði væri fyrrverandi mágur H og föðurbróðir C. Hafi C umgengist ákærða nánast daglega síðastliðin 12 ár. H kvaðst hafa rætt málið við C og hafi C neitað því að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða.

Á meðal rannsóknargagna málsins er læknisvottorð frá 29. mars 2006 er Sveinn Rúnar Hauksson læknir hefur ritað vegna B. Í vottorðinu kemur m.a. fram að Sveinn Rúnar hafi þrívegis tekið á móti B, fyrst 6. desember 2005. Þá hafi komið fram að hún hafi alllengi átt við kvíða að stríða, einkum á morgnanna. Hafi það verið rakið til eineltis sem hún hafi orðið fyrir í skóla en hún hafi skipt um skóla ríflega mánuði fyrir fyrsta viðtalið. Hafi hún þá verið komin í [...]skóla. Var vanlíðan hennar talin allmikil. Svefn hafi verið góður og reglubundinn. Greining Sveins Rúnars hafi verið kvíði og hafi hann ráðlagt B að leita til sálfræðings og prófa lyfjameðferð. Margrét Arnljótsdóttir sálfræðingur hefur ritað skýrslu 30. mars 2006 vegna B. Fram kemur að Margrét hafi hitt B í tvígang að beiðni foreldra hennar. Ástæða viðtala er sögð vera áhyggjur foreldra af líðan stúlkunnar. Fram kemur að B hafi byrjað í [...]skóla haustið 2005. Hafi hún blómstrað og liðið afar vel. Í desember 2005 hafi líðan hennar breyst. Hafi hún orðið grátgjörn og fengið hræðsluköst. Hafi þessi breyting á líðan stúlkunnar verið ástæða þess að foreldrar hennar hafi viljað senda hana í sálfræðiviðtöl. Ekki hafi neitt komið fram í viðtölunum sem hafi getað skýrt þá breytingu sem orðið hafi á líðan B. Í skýrslu Margrétar kemur fram að B hafi sagt móður sinni frá kynferðislegri áreitni sem lögregla hafi tekið til rannsóknar. Hafi verið ákveðið að gera hlé á sálfræðiviðtölunum á meðan rannsókn málsins færi fram til að trufla rannsóknina ekki.

Með úrskurði 4. janúar 2007 mælti héraðsdómur fyrir um að símafyrirtækjum væri skylt að veita lögreglu upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer hringt hafi verið úr og í símanúmerið 69x xxxx, en ákærði sé skráður rétthafi að því símanúmeri. Í rannsóknargögnum málsins á skjölum merkt VII/3.4, VII/3.5, VII/3.6 og VII/3.7 koma fram símasamskipti síma ákærða og síma B, C, A og F.

Á skjali í rannsóknargögnum málsins merkt 3.14 er búsetuvottorð fyrir ákærða. Fram kemur að ákærði hafi verið með skráð lögheimili að [...] í Reykjavík. [...]

Þriðjudaginn 28. mars 2006 var tekin skýrsla af B fyrir dómi á grundvelli a liðar 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. B kvað ákærða vera frænda vinkonu sinnar, C, en þær hafi á sínum tíma verið saman í [...]skóla. Ákærði og faðir C, I, hafi á sínum tíma búið saman í blokkaríbúð í húsnæði í [...]. Sennilega á árinu 2005 fremur en á árinu 2004, á skólahluta ársins sennilega í 7. bekk, hafi verið svokölluð pabbahelgi hjá C, en foreldrar hennar hafi þá verið búin að skilja. Hafi B átt að gista hjá C þá helgina. Um morgun hafi ákærði sagt við stúlkurnar að hann væri með þá hugmynd að þær myndu teikna á typpið á honum. Hafi C látið B fá yfirstrikunar- eða áherslupenna og sett í höndina á henni. Ákærði hafi ekki verið með reistan liminn þá. Hafi C látið B teikna á typpið á ákærða. Hafi C ekki þorað í fyrstu en síðan einnig sjálf teiknað á typpið á ákærða. Þær hafi teiknað strik á typpið, auk þess sem C hafi teiknað ,,broskarla” á typpið á honum. Einnig hafi C teiknað á maga ákærða. Atburðirnir hafi átt sér stað í stofu íbúðarinnar. Ákærði hafi verið í bol eða peysu þennan morgun en hann hafi klætt sig úr að neðan. Síðar hafi ákærði farið með þær inn í herbergi þar sem hann hafi gefið þeim sælgæti. Þá hafi ákærði beðið B og C um að nudda á sér bakið og boðið B að líta í klámblöð á meðan, en hann hafi verið með kassa fullan af klámblöðum. Hafi B sagt að hún vildi það ekki og C þá sagt við ákærða að ef til vill vildi B þetta ekki. Hafi ákærði þá sagt C að þegja. Bæði B og C hafi nuddað á honum bakið. Síðan hafi ákærði strokið B og strokið hana m.a. um brjóstin. Hafi það verið innan klæða. Þá hafi hann strokið henni um kynfærin utanklæða. Ákærði hafi ekkert strokið C. Öllu hafi lokið er C hafi slegið ákærða á kinnina. Þau hafi þá farið aftur inn í stofuna og farið í tölvuleiki. Klukkan hafi þá verið orðin um 13.00 og hafi B ætlað að hringja í móður sína úr gsm síma sínum er þar var komið og biðja hana um að sækja sig. Ákærði og C hafi þá hindrað B í því að hringja í móður sína og hindrað hana frá því að komast út úr íbúðinni. Einungis þau þrjú hafi verið í íbúðinni þennan morguninn. Bróðir ákærða, I, hafi verið í vinnunni er þetta hafi átt sér stað. Móðir B hafi síðan komið að ná í bæði hana og C. B kvað C einhverju sinni hafa sagt sér frá því að hún hafi haldið um typpið á ákærða. B kvað vinskap sinn og C hafa breyst eftir að B hafi lagt kæruna fram. Eftir það vildi C ekki lengur tala við hana og bæri hún á B að B væri að ljúga að lögreglunni. B kvaðst hafa rekist á ákærða eftir þetta og hafi hann m.a. spurt hana hvað hún vildi gera fyrir 15.000 krónur. Einnig hafi hann spurt hana og C hvað þær vildu gera fyrir Subway samloku. Hafi B grunað að ákærði ætti við með því eitthvað eins og að skrifa aftur á typpið á hinum eða eitthvað slíkt. Hafi B hafnað því.

Síðar sama dag var tekin skýrsla af C fyrir dómi á grundvelli a liðar 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. C kvaðst vera í [...]skóla og hafa J sem umsjónarkennara. C kvaðst hafa frétt af því að frændi hennar, ákærði, væri sakaður um kynferðisbrot gegn C og B. B kvað ákærða einhverju sinni hafa verið á heimili föður C í [...] og hafi B einnig verið á staðnum. Ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis. Um hafi verið að ræða svonefnda pabbahelgi, en faðir C og móðir hafi verið skilin. Hafi þær sofið eina nótt í íbúðinni. Í íbúðinni í herbergi hafi C og B skrifað á magann á ákærða, sem þá hafi verið sofandi. Ákærði hafi vaknað og spurt þær hvort þær hafi verið að gera þetta. Þær hafi ,,flissað” og ákærði þá sagt í gríni hvort þær vildu ekki líka krota á typpið á ákærða. Hafi hann verið á nærbuxunum og um leið togað í buxnastrenginn. Í beinu framhaldi hafi ákærði farið aftur að sofa. C og B hafi ekki ritað á typpið á ákærða. Hún kvað hana og B hafa nuddað bakið á ákærða inni í herbergi. C og B hafi síðan farið inn í stofu íbúðarinnar. Kvaðst C ekki hafa snert typpið á ákærða eða hafa orðið fyrir neinu kynferðislegu af hans hálfu. C kvaðst telja að faðir hennar hafi verið í vinnunni þennan dag og yngri bróðir hans, K, á öðrum stað með vini sínum. Atburðirnir hafi átt sér stað fyrir einu eða tveim árum síðan. Hafi faðir C beðið ákærða um að passa stelpurnar. Faðir C hafi síðan ekið stúlkunum heim síðar þennan dag. C kvaðst ekki vita af hverju B væri að bera um að C hafi sagt henni að hún hafi einhverju sinni haldið um typpið á ákærða.

Tekin var á ný skýrsla fyrir dómi af C miðvikudaginn 8. nóvember 2006. C kvaðst á þeim tíma búa með móður sinni að [...] í Reykjavík, en þar byggju þær mæðgur ásamt L, yngri systur C. C kvaðst á þeim tíma vera í [...]skóla. C kvað A vera vinkonu sína. Hafi A kært ákærða fyrir að hafa keypt handa sér áfengi og að hafa sýnt henni klámmyndir. A hafi tjáð C það þegar A hafi komið til landsins til að gefa skýrslu fyrir dómi vegna málsins. Sama dag eða daginn eftir skýrslutökuna hafi A greint C frá þessu. A hafi sagt C að hún hafi kært ákærða fyrir kynferðisofbeldi. Hafi hún sagt C að hún ætti að segja það sama og A hafi sagt. Þá hafi A sagt að hún hafi einnig rætt við F um málið. Hafi A sagt að ákærði hafi ,,nauðgað öllum” og verið búinn að ,,eyðileggja fullt af lífum” C kvaðst ekkert vita um brot ákærða gagnvart A eða hvað hafi farið fram þeirra á milli. Þá kvað hún A og B einnig vera vinkonur. C kvaðst vita til þess að A hafi alltaf verið að hringja í ákærða og senda honum sms símaskilaboð. Hafi A gert það til að biðja ákærða um eitthvað. A hafi einu sinni farið heim til ákærða, en þá hafi C verið með í ferð. Hafi þá verið samkvæmi heima hjá ákærða. Þá hafi vinir ákærða og bróðir hans verið heima hjá honum. Ákærði og félagar hans hafi verið að hluta á tónlist. Þær hafi farið heim til ákærða þar sem hann hafi ætlað að gefa C og A inneign í gsm síma þeirra. Hafi ákærði gefið þeim 500 króna inneignir með því að kaupa handa þeim símakort. Ekki kvaðst C muna hvort ákærði hafi verið búinn að kaupa kortin er þær hafi komið á staðinn. Þær hafi ekki staldrað lengi við heima hjá ákærða. A og C hafi farið einhverju síðar heim til ákærða, en þá hafi ekkert samkvæmi verið í gangi. Hafi þær þá verið að fá frá ákærða peninga til að eiga fyrir strætisvagnafargjaldi. C kvað ákærða hafa heimsótt móður C að [...], en þau væri góðir vinir. Ákærði hafi aldrei komið til að heimsækja C. C kvað ákærða aldrei hafa látið sig fá áfengi. Hann hafi hins vegar látið A fá áfengi, en A hafi greint C frá því. Það hafi C hins vegar ekki séð. C kvaðst ekki hafa átt í neinum kynferðislegum samskiptum við ákærða. Þá kvaðst hún ekki vita til þess að A hafi átt í kynferðislegum samskiptum við ákærða. C kvaðst aldrei hafa farið ein heim til ákærða. Þá kvað C rangt er A héldi fram að þær tvær hafi nuddað kynfæri ákærða utanklæða í bakgarði húss í nágrenni við Rauðarárstíg í Reykjavík. C kvað það einnig rangt er A héldi fram að þær tvær hafi fróað ákærða og haft við hann munnmök.

Miðvikudaginn 18. október 2006 mætti á lögreglustöð M og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur hennar A. Síðar sama dag var tekin skýrsla af A fyrir dómi á grundvelli a liðar 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. A kvaðst þá búa í [...], ásamt móður sinni, fósturföður, stórabróður og litlu systur. Þá byggi kærasta stórabróður A, N, oft á heimilinu. A kvaðst hafa verið misnotuð kynferðislega. Hafi allt byrjað með því að A hafi verið með C, frænku ákærða, en hún væri bróðurdóttir hans. Hafi ákærði nálgast þær með ákveðnum hætti og fengið þær til að ganga sífellt lengra. Hafi hann spurt þær að því hvort þær vildu leika í mynd og er þær hafi innt hann eftir því um hvað hún væri hafi hann tekið sem dæmi að einhver maður kæmi til þeirra og spyrði þær hvort þær vildu strjúka honum um typpið í gegnum buxurnar. Fyrir það myndi maðurinn greiða 5.000 krónur. Hafi þær ekki tekið vel í það. Hafi hann þá spurt þær hvað þær myndu gera ef hann myndi spyrja þær. Hafi þær ekki tekið í það í fyrstu. Síðan hafi þær manað hvora aðra upp í þetta og C byrjað. Hafi þær fengið mikinn pening fyrir. Hafi ákærði boðið þeim 10.000 krónur fyrir hverja mínútu. Hafi ákærði gengið alltaf lengra og lengra. Hafi hann boðið þeim hærri fjárhæðir og sígarettur og spurt þær hvort þær vildu ekki fróa honum.

Í fyrsta sinn er þær hafi átt í kynferðislegum samskiptum við ákærða hafi þær nuddað kynfæri hans utanklæða utandyra á bak við hús í götu fyrir ofan Rauðarárstíg í Reykjavík. Ákærði hafi staðið á meðan. Hafi getnaðarlimur ákærða orðið reistur við þetta. Það sinnið hafi þær hitt ákærða heima hjá C og hann beðið þær um að koma og tala við sig. Hafi þau farið nokkurn spöl frá húsi C að þessum stað. C hafi byrjað og A tekið við. Þetta hafi staðið í stuttan tíma og ákærða ekki orðið sáðfall. Þær hafi hætt er þær hafi ekki viljað gera þetta lengur. Fyrir þetta hafi hann látið þær fá einhvern pening og sígarettupakka. Atburðurinn hafi átt sér stað er A hafi nýlega verið flutt að [...] í Reykjavík, en þangað hafi þau flutt í júlí 2005. Næst er þær hafi átt í kynferðislegum samskiptum við ákærða hafi það verið á heimili hans í miðbæ Reykjavíkur. Ákærði hafi verið einn heima er hún og C hafi komið á heimili hans. Hafi ákærði gefið C og A bjór að drekka. Hafi ákærði látið þær fróa honum og hafa við hann munnmök. Athafnirnar hafi farið fram í stofunni og ákærði setið í sófa. Þær hafi staðið og beygt sig yfir hann. Hafi hann fyrst þvegið sér um getnaðarliminn og síðan sett á hann smokk. C hafi byrjað að fróa honum og hafi A tekið tímann á meðan, en þær hafi einungis viljað fróa honum í eina eða tvær mínútur hvor. Hafi C haft við hann munnmök í tvær mínútur og síðan A í jafn langan tíma. Á meðan A hafi haft munnmök við ákærða hafi C reykt og tekið tímann. Ákærði hafi viljað meira en þær ekki verið til í það. Hafi honum ekki orðið sáðfall þar sem þær hafi ekki fróað honum það lengi. Hafi þær fengið pening fyrir samskiptin og farið heim til sín. Hafi hvor þeirra fengið 30.000 eða 50.000 krónur fyrir þetta skiptið. Nokkrir dagar hafi liðið frá því að A og C hafi átt kynferðisleg samskipti við ákærða á bak við húsið við Rauðarárstíginn þar til þær hafi hitt hann í fyrsta skiptið heima hjá honum. Í næsta skiptið er C og A hafi átt kynferðisleg samskipti við ákærða á heimili hans í miðbænum hafi atvik verið með sama hætti og í fyrra skiptið. A kvaðst ekki viss hve oft hún og C hafi hitt ákærða á heimili hans í þessum kynferðislega tilgangi, en ákærði hafi alltaf verið að hringja í þær og biðja um þessi samskipti. Það gæti verið að þær hafi hitt hann í þessum tilgangi þrisvar sinnum. Ekki hafi liðið langur tími á milli þessara skipta.

Í eitt sinnið hafi A og F átt kynferðisleg samskipti við ákærða á heimili hans í miðbænum. Það hafi verið í júlí eða ágúst 2005. Hafi F fundist góð hugmynd að fá mikinn pening fyrir kynferðisleg samskipti. Hafi ákærði þá verið að gefa A sígarettur og þannig komist í samband við þær, en það hafi verið eftir að A og C hafi staðið í þessum athöfnum. Ákærði hafi hringt í A og F og beðið þær um að fróa honum. Ákærði hafi verið klæddur í svartar gallabuxur. Hafi hann tekið þær niður er þær hafi fróað honum og haft við hann munnmök. Ákærði hafi setið í sófa en þær staðið. Hafi F m.a. sýnt honum á sér brjóstin og leyft honum að strjúka þau. Hafi þær báðar haft við hann munnmök á þeim tíma og verið á hnjánum á gólfinu. Ákærði hafi alltaf verið að suða um að fá að taka af sér smokkinn og þær loks leyft honum það. Ekki hafi ákærða orðið sáðfall. Hafi hann greitt þeim talsverðar fjárhæðir fyrir þetta, sennilega 30.000 krónur. A og F hafi einungis einu sinni átt saman í kynferðislegum samskiptum við ákærða.

A kvað sér og C hafa liðið mjög illa yfir þessu öllu saman og hafi A ekki viljað gera þetta aftur. C hafi oft verið ein með ákærða og hafi hún stundum allt í einu verið komin með peninga. Er A hafi spurt hana hvar hún hafi fengið peninginn hafi hún svarað því til að ákærði hafi látið hana fá peninginn. Á tilteknum tíma hafi A hætt að eiga í hinum kynferðislegu samskiptum við ákærða en kvaðst hún ekki vita hvort C hafi haldið þeim áfram. Engu að síður hafi ákærði verið að kaupa áfengi og sígarettur fyrir A til að halda henni þægri. Hafi A þegar þar var komið ekki vilja hitta hann og hafi C þá alltaf farið og náð í varninginn. Einhverju sinni hafi A og C spurt ákærða er hann hafi greitt þeim fyrir hin kynferðislegu samskipti af hverju hann greiddi þeim lítið í það skiptið. Hafi hann þá sagt að hann þyrfti einnig að greiða hinni stelpunni. Hafi A séð þá í hendi sér að ákærði hafi einnig verið að misnota aðra stelpu. Hafi ákærði sagt að sú stúlka myndi veita honum munnmök í 6 mínútur fyrir 5.000 krónur. Er A hafi flutt til [...] hafi ákærði lagt inn á hana einhverja fjárhæð. A kvað ákærða alltaf hafa haft frumkvæðið að því að þær stúlkurnar hafi haft kynferðisleg samskipti við hann. A kvað ákærða hafa verið ljós aldur hennar þar sem hann hafi vitað að hún væri í bekk með C frænku hans. A kvaðst sumarið 2005 hafa spurt B að því hvort ákærði væri að misnota hana, en það hafi verið á þeim tíma er A og C hafi átt hin kynferðislegu samskipti við ákærða. Þá hafi B greint A frá því að ákærði hafi 2004 eða 2005 látið hana skrifa á typpið á sér. A kvaðst hafa flutt til [...] 2006. Kvaðst hún hafa skammast sín mjög mikið og hafa liðið mjög illa eftir þessa atburði. Hafi hún reynt að gleyma öllu og hafi henni tekist það að mestu leyti. Hafi hún enga virðingu borið fyrir sjálfri sér og verið með ekkert sjálfstraust. Fyrir þessa atburði hafi A alltaf verið glöð og verið ,,húmorinn í vinahópnum”. Eftir þetta hafi hún alveg skipt um vinahóp. Kvaðst A vera hrædd við ákærða í dag. Hafi hún sagt kærustu bróður síns, N, frá þessum atriðum. Hafi A ekki viljað segja móður sinni frá þessu þar sem hún hafi skammast sín svo mikið. N hafi sagt móður A frá þessu og þær mæðgur síðan rætt saman um þetta í kjölfarið. Eftir það hafi kæra verið lögð fram.

Við aðalmeðferð málsins miðvikudaginn 24. október sl. var tekin skýrsla af F fyrir dómi samkvæmt a lið 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. F kvað A hafa verið bestu vinkonu sína og væri hún það enn þó svo A byggi um þessar mundir í [...]. B hafi F verið með í skóla, en B væri hætt í [...]skóla. Þá hafi F einnig verið með C í [...]skóla. F hafi verið í sérstöku vinfengi með A og á tímabili með C. F kvaðst kannast við ákærða. Hafi hún fyrst hitt ákærða er hún og O, vinkona hennar og bekkjarfélagi, hafi verið saman niðri í bæ, en þar hafi þær hitt ákærða og C saman. Ákærði og C hafi verið í Kolaportinu. Hafi F þá verið eitthvað með þeim. F hafi verið 11 eða 12 ára þegar þetta hafi verið. Hafi ákærði fljótlega farið að grínast í stúlkunum og beðið þær um að kyssa á sig rassinn og eitthvað álíka. Hafi stúlkurnar tekið þessu sem gríni þar sem þær hafi verið það ungar er þetta hafi gerst. Ákærði hafi eftir þetta oft hringt í F og O þegar hann hafi verið undir áhrifum áfengis. Þær hafi látið ákærða í té símanúmer sín en hann hafi oft keypt handa þeim sælgæti, m.a. þegar hann hafi komið heim frá útlöndum. F kvaðst einhverju sinni hafa hringt sjálf í ákærða til að láta hann kaupa fyrir sig áfengi, auk þess sem hún hafi verið með A er A hafi hringt í hann þegar hún hafi beðið hann um að kaupa fyrir sig sígarettur og áfengi. Ákærði hafi keypt áfengi fyrir F í þetta skiptið. Er ákærði hafi keypt áfengi fyrir A hafi F fengið að drekka hjá henni. F kvað P vinkonu sína hafa tjáð sér að C hafi sagt við hana að ákærði hafi misnotað C og litlu systur hennar kynferðislega. Þá hafi A tjáð F hvað hafi gerst á milli hennar og ákærða. Hafi hún sagt ákærða hafa boðið sér 1.000 krónur fyrir að kyssa sig, 10.000 krónur fyrir að fróa honum og 15.000 krónur fyrir að hafa við hann munnmök. Í eitt skipti, á heimili ákærða á [...], hafi A fróað ákærða og haft við hann munnmök. F kvaðst ekki muna mikið eftir íbúð ákærða en muna að gengið hafi verið upp stiga til að komast upp í íbúðina. Í það skiptið hafi ákærði verið að drekka áfengi og þær stúlkurnar sennilega einnig. Ákærði hafi dregið niður um sig buxurnar og síðan sett smokk á getnaðarlim sinn. Þar hafi A fróað honum og haft við hann munnmök. Hafi ákærði þá staðið við sófa í stofu íbúðarinnar, en A og F setið í sófanum. Þær hafi fengið 10.000 eða 15.000 krónur fyrir þessi samskipti og í kjölfarið yfirgefið íbúðina. Ákærði hafi spurt A hvort hann mætti stinga getnaðarlim sínum inn í kynfæri hennar fyrir meiri pening en hún ekki leyft honum það. F kvaðst hafa setið við hlið A og ákærða er þetta hafi gerst. Ákærði hafi beðið um að fá að strjúka brjóst F. Hafi hún leyft honum það. Ákærði hafi strokið læri á F utanklæða. Kvaðst hún ekki muna hvaða svæði á lærunum ákærði hafi strokið. Hafi hann síðan í kjölfarið farið innan undir föt F til að geta strokið á henni brjóstin. F kvaðst hvorki hafa fróað ákærða né hafa haft við hann munnmök, þó svo ákærði hafi beðið hana um það. Ákærði hafi greitt stúlkunum í samræmi við það hve lengi A hafi haft við hann munnmökin. Ákærða hafi ekki orðið sáðfall við munnmökin. Ákærði hafi greitt F 2.000 krónur fyrir að fá að strjúka á henni brjóstin. F kvaðst ekki vera alveg viss um á hvaða ári þetta hafi gerst, en kvaðst telja að atburðirnir hafi gerst á þeim tíma er skóli hafi verið í gangi. F kvaðst hafa gefið skýrslu hjá lögreglu á sínum tíma. Hafi hún þá ekki gert lögreglu grein fyrir miklu af þessum hlutum og hafi það verið vegna þess að hún hafi verið í fíkniefnaneyslu á þeim tíma og af þeim sökum ekki munað hlutina vel. F kvað A hafa tjáð sér að hún hafi í önnur skipti átt í kynferðislegum samskiptum við ákærða á svipuðum nótum. Hafi ákærði sagt við F og A að hann ætti í kynferðislegum samskiptum við aðra stúlku sem tæki minni pening fyrir hin kynferðislegu samskipti en þær. Ákærði hafi ekki sagt hvaða stúlku væri um að ræða. A hafi tjáð F að ákærði hafi einnig átt í kynferðislegum samskiptum við C og væri C stórsködduð eftir hann. F kvaðst almennt lítið ræða við C og ekki hafa rætt þessi mál við hana. Í þau skipti er ákærði hafi hringt í F eða A og C hafi verið viðstödd hafi hún sagt að ákærði væri svolítið skrýtinn. F kvaðst ekki hafa rætt þessa hluti við B og því ekki vita hvort neitt á svipuðum nótum hafi komið fyrir hana. F kvaðst hafa verið stödd ásamt A niðri í bæ einhverju sinni er ákærði hafi beðið A um að hafa við hann munnmök gegn greiðslu. Hafi hún orðið vitni að því. F kvaðst hafa komið tvisvar sinnum á heimili ákærða á [...]. Í hitt skiptið hafi ákærði beðið F um að fróa honum eða hafa við hann munnmök. Hafi hún ekki orðið við því. F kvaðst hafa reynt að blokka þessa atburði út úr lífi sínu eftir þetta. Það hafi gengið vel en blossað aftur upp í tengslum við málareksturinn. Kvaðst F upplifa reiði er atburðirnir kæmu upp í huga hennar. Kvað hún atburðina há sér í samskiptum við drengi, sem hún kvaðst eiga erfitt með að treysta. F kvað atburðina sennilega hafa haft mikil áhrif á A. Hafi A t.a.m. farið að drekka mikið meira en áður, sem örugglega megi rekja til þessara atburða. Þá hafi hún orðið lokaðri en áður.

Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu um sakarefnið þriðjudaginn 21. mars 2006, eftir að mæður B og C höfðu lagt fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Ákærði kvaðst um einu og hálfu til tveimur árum áður hafa ásamt bræðrum sínum, þeim I og K, búið að [...] í Reykjavík. Á þeim tíma hafi C og B komið í heimsókn til þeirra, en C hafi trúlega verið hjá pabba sínum á svokallaðri pabbahelgi. Kvöldið áður hafi ákærði verið að drekka áfengi ofan í róandi lyf og þunglyndislyf. Hafi hann vaknað um kl. 7.00 eða 7.30 um morguninn í herberginu sínu. Hafi hann þá tekið eftir því að búið hafi verið að krota á maga hans með gulum, rauðum og bleikum tússi. Hafi hann farið fram í stofu á nærbuxunum einum klæða en í stofunni hafi C og B verið að horfa á barnatíma í sjónvarpinu. Þær hafi sennilega sofið í stofunni. Hafi hann spurt þær að því hvort þær hafi krotað á maga hans. Þær hafi báðar neitað því. Kvaðst ákærði telja að hann hafi um leið sagt eitthvað dónalegt eins og eitthvað í þeim dúr hvort þær vildu ekki krota á typpið á honum líka. Kvaðst hann telja að hann hafi girt niður um sig með snöggri hreyfingu um leið og hann hafi sagt þetta. Ákærði kvað hvoruga stúlkuna hafa snert á honum getnaðarliminn. Sökum vanlíðunar hafi ákærði farið aftur inn í herbergi til að sofa og sofið fram á kvöld. B hafi um kvöldið spurt ákærða að því hvort hann vildi að hún segði frá því er hann hafi gert um morguninn. Hafi hann þá munað eftir því sem hann hafi gert um morguninn og að hann hafi sagt eitthvað dónalegt. Hafi B minnt hann á að hann hafi girt niður um sig. Ákærði kvaðst hitta C nánast á hverjum degi heima hjá móður hennar. Í nokkra mánuði hafi hann einnig hitt B á því heimili. Hafi B alltaf fagnað honum þegar hann hafi verið þar og ekki kvartað undan neinu. Um mánuði fyrir skýrslutökuna hafi hann verið heima hjá sér að [...] í Reykjavík þegar auglýsingar Blátt áfram hafi byrjað. Bróðir ákærða, K, og C hafi einnig verið þar. Í umrætt sinn hafi B hringt í C. Hafi þær farið að rífast um ,,vinkonumál”. Hafi ákærði síðar fengið að vita hjá C að þær hafi rifist eitthvað áður. Þá hafi C tjáð honum að B hafi verið að hóta að segja frá öllu sem gerst hafi. Hafi ákærði þá rætt við B í síma og hún spurt hann hvort hann myndi ekki eftir því sem hann hafi látið þær gera.

Ákærði var næst yfirheyrður af lögreglu mánudaginn 16. október 2006, eftir að móðir A hafði lagt fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot og áfengislagabrot. Ákærði kvaðst kannast við A, en hún væri vinkona B. Ákærði kvað þær tvær einu sinni hafa komið á heimili ákærða að [...]. Í umrætt sinn hafi ákærði verið að skemmta sér ásamt öðru fólki. Hafi þær viljað fá frá ákærða pening. A hafi marghringt í gsm síma ákærða en það hafi alltaf verið í þeim tilgangi að biðja hann um að kaupa handa henni áfengi eða sígarettur eða til að biðja hann um að gefa sér pening. Kvaðst ákærði aldrei hafa gefið henni sígarettur eða peninga. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa eitt sinn keypt fyrir A, C og einhverjar vinkonur þeirra áfengi. Í umrætt sinn hafi þær ætlað að kaupa ,,landa”, en honum hafi fundist betra að gefa þeim sex stykki af gosbjór, eða Bacardi-Breeser, sem hann hafi átt. Hann hafi sennilega afhent þeim bjórinn fyrir utan heimili ákærða. Ákærði kvaðst sennilega hafa verið lítillega undir áhrifum áfengis þetta sinnið. Kvaðst ákærði þó ekki vilja útiloka að A hafi beðið ákærða um að kaupa handa sér gosbjórinn. Ákærði kvaðst hafa skammað A þrisvar til fjórum sinnum, bæði í gegnum síma, sem og á heimili móður C að [...] í Reykjavík. Hafi hann skammað A fyrir að stjórna C á þann hátt að C svaraði ekki símtölum móður sinnar og fleira þess háttar. Ákærði kvaðst einu sinni, ásamt móður C, hafa farið á heimili A, en þá hafi móðir A ekki hleypt C út. Hafi ákærði m.a. rætt við móður A, sem hafi fullyrt að móðir C væri oft að lemja C og að C þyrði ekki heim til sín af þeim sökum. Kvaðst ákærði telja að Aværi að hefna sín á ákærða með kærunni og að hún vildi hagnast peningalega á því að kæra hann. Ákærði kvað A hafa tjáð sér að móðir A hafi margspurt hana að því hvort hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti, en það hafi verið eftir að lögregla hafi talað við móður A um ætlað áfengislagabrot ákærða. Hafi komið fram að lögregla hafi greint frá því að ákærði hafi verið kærður fyrir kynferðisbrot og beðið móður A um að athuga hvort A hafi orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. Hafi A sagt að móðir hennar hafi spurt hana í þaula um þetta og hafi A neitað því að hafa orðið fyrir kynferðisbroti. Ákærði kvaðst vilja geta þess að B hafi hringt í hann 17. júlí 2006 kl. 15.14. Hafi hún einungis þagað í símtalinu. Hafi ákærði séð að hringt hafi verið úr númerinu [...] en B hafi verið skráð fyrir því númeri. Hafi C sagt ákærða frá því að B hafi sagt C að ákærði hafi hringt í hana umrætt sinn. Þá kvaðst ákærði hafa fengið torkennilega símhringingu úr símanúmerinu [...] þann 28. júlí 2006 kl. 14.36. Hafi ákærði heyrt stúlknarödd en ekki orðaskil. Kvaðst ákærði ekki þora að fullyrða hvort sú hringing hafi verið frá B.

Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 25. október 2006. Lá þá einnig fyrir grunur um kynferðisbrot ákærða gagnvart F. Kvaðst ákærði vilja leggja fram þrjú bréf með prentuðum skilaboðum á, sem ákærði kvaðst hafa fengið eftir að fyrsta kæra á hendur honum hafi verið lögð fram. Kvaðst ákærði ekki vita hvaðan skilaboðin væru komin en kvaðst gruna að þau væru komin frá A. Þá kvaðst ákærði vilja leggja fram bréf með sms skilaboðum er hann hafi fengið frá A á árinu á undan. Ákærði kvaðst telja að A hafi sent honum skilaboðin þar sem hún væri að kæra ákærða fyrir hluti sem hann hafi ekki gert. Í bréfunum kæmu fram hótanir í garð ákærða. Kvaðst ákærði ekki hafa tekið bréfin alvarlega á sínum tíma, auk þess sem að hann hafi óttast að ekki yrði lagður trúnaður á orð hans ef hann legði þau fram. Hafi ákærða liðið illa á þeim tíma og verið kvíðinn gagnvart öllu. Ákærði kvað C hafa sagt sér frá því sumarið 2006 að B hafi viðurkennt fyrir henni að hafa logið upp á ákærða. Þá hafi ákærði og C verið á heimili móður ákærða að [...] í Reykjavík. Ákærði kvaðst ekkert þekkja F, en hafa heyrt að hún væri í bekk með C. Þá gæti verið að ákærði hafi séð hana í barnaafmælum hjá C. Ákærði kvaðst ekki telja að F hafi komið á heimili ákærða að [...] í Reykjavík. Kvaðst ákærði þó vilja taka fram að 5 til 6 stúlkur hafi komið með C heim til ákærða sumarið 2005. Hafi C verið að biðja ákærða um pening fyrir ferð í kvikmyndahús. Hafi ákærði látið hana fá pening. Gæti F hafa verið í hópi stúlknanna. Ákærði kvaðst ekki hafa framið kynferðisbrot gagnvart F. Þá kvað hann rangt er fram hafi komið hjá A að A og F hafi fróað ákærða og haft við hann munnmök á heimili ákærða að [...] í júlí eða ágúst 2005.

Ákærði gaf loks skýrslu hjá lögreglu miðvikudaginn 7. mars 2007. Var honum í upphafi kynntur framburður B fyrir dómi 28. mars 2006. Kvað ákærði það rangt er fram kæmi í framburði B að ákærði hafi látið hana teikna á typpið á sér. Þá kvaðst ákærði ekki hafa látið B strjúka á honum bakið. B og C hafi ekkert farið inn í herbergi ákærða. Þá kvaðst ákærði ekki hafa strokið á B brjóstin eða kynfærin. Kvaðst ákærði aldrei hafa haldið B nauðugri í íbúðinni. Hafi ákærði aldrei verið einn með henni. Sama dag var borinn undir ákærða framburður A sem hún gaf fyrir dómi 18. október 2006. Ákærði kvað framburð A alfarið rangan. Kvaðst ákærði vilja taka fram að hann hafi ekki vitað að C hafi reykt. Kvaðst ákærði aftaka með öllu að hafa gefið henni sígarettur. A hafi hins vegar stundum fengið C til að geyma fyrir sig sígarettur og hafi C alltaf verið ,,stressuð” yfir því og óttast að móðir hennar myndi finna sígaretturnar.

Ákærði gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Ákærði kvað C vera frænku sína, en hún væri bróðurdóttir ákærða. Hafi ákærði komið í mörg ár á heimili stúlkunnar og hafi verið náið samband á milli þeirra. Sambandið hafi ekki breyst mikið í tímans rás, þó svo ákærða hafi á tímabili verið meinað að hitta C. Þannig hafi ákærði ekkert komið á heimili stúlkunnar eftir að kæra B hafi komið fram. C hafi engu að síður rætt málin við ákærða og verið miður sín eftir að hafa gengið í gegnum yfirheyrslu fyrir dómi á sínum tíma. C hafi rætt við ákærða um B og A og reynt að útskýra af hverju þær hafi lagt fram kærur á hendur ákærða. Hafi C sagt B skrýtna og áhrifagjarna. Hafi B sagt við C að hún hafi ekki sagt rétt frá fyrir dómi. Þá hafi C talað um að A væri að sækjast eftir fé. Hafi ákærði hitt C á heimili móður ákærða, ömmu C. Á þeim tíma er ákærði hafi oft hitt stúlkuna hafi hún búið ásamt móður sinni að [...] í Reykjavík. Ákærði kvaðst hafa kynnst vinkonum C á heimili móður C. Hafi ákærði þar kynnst B og A. Ekki kvaðst ákærði hafa kynnst F. B hafi oft komið á heimili móður C og verið þar oft langt fram yfir kvöldmat. Ákærði kvaðst ekki kannast við þau sakarefni er honum væru gefin að sök í 1. tl. ákæru. Hafi ákærði ekki verið á ferð með C eða vinkonum hennar í bakgarði húss í nágrenni Rauðarárstígs í Reykjavík sumarið 2005. Ákærði kvaðst stundum hafa verið á ferð með K, bróður sínum, í bifreið er þeir hafi rekist á stúlkurnar. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa í marsmánuði 2006 keypt áfengi fyrir A. Hafi hún hringt þetta sinnið og beðið ákærða um að kaupa fyrir sig áfengi. Ákærði kvaðst einhverju sinni hafa boðið B á Subway. Varðandi sakarefni samkvæmt 2. tl. ákæru kvaðst ákærði muna að C og A hafi einhverju sinni komið að heimili ákærða að [...] er ákærði hafi verið þar með samkvæmi. Ákærði hafi látið [...] fá peninga þar sem hún hafi verið á leið í kvikmyndahús og vantað peninga. Varðandi sakarefni samkvæmt 3. tl. ákæru kvaðst ákærði ekki kannast við að A og F hafi komið tvær saman á heimili hans að [...]. Kvaðst ákærði ekki einu sinni vita hvernig F liti út. Ekki væri þó útilokað að hún hafi verið í hópi með C er C hafi fengið pening vegna ferðarinnar í kvikmyndahúsið. Ákærði kvaðst hafa verið að vinna í [...] sumarið 2005 við húsaviðgerðir. Hafi ákærði oft sofið í [...] þetta sumarið en hann hafi ekki haft bifreið til umráða. Hann hafi fengið ígerð í auga um sumarið og farið í augnaðgerð til augnlæknis. Hafi ákærði farið í aðgerðina 7. júlí 2005. Eftir aðgerðina hafi hann fengið lepp fyrir augað. Hafi hann farið að vinna of fljótt eftir aðgerðina og fengið sýkingu í augað. Af þessum ástæðum hafi hann verið heima með bólgið auga. Að því er varðaði sakarefni samkvæmt 4. og 5. tl. ákæru kvaðst ákærði muna eftir því að B hafi verið í pössun hjá I, bróður ákærða, eina nótt. Samskipti á milli ákærða og B hafi verið lítil. Er hann hafi vaknað um morguninn hafi verið búið að krota á hann með tússpenna og hafi verið notaðir tveir eða þrír litir. Hafi hann gengið fram í stofu en stúlkurnar hafi verið að horfa á sjónvarpið. Hafi hann spurt stúlkurnar hvort þær hafi gert það, en þær neitað því. Hafi ákærði þá sagt við þær að þær hefðu getað krotað á typpið á ákærða. Hafi hann um leið togað í nærbuxur sínar, en þó ekki sýnt þeim typpið á sér. Í framhaldi af því hafi ákærði farið aftur inn í herbergið og sofnað. I, bróðir ákærða, hafi verið á heimilinu er þetta hafi gerst. Hafi hann ekki verið í vinnunni, svo sem B héldi fram. Þá hafi L, dóttir I, einnig verið á heimilinu. Þau hafi því verið fimm á heimilinu þennan dag. Ákærði kvaðst hafa sofið í svefnherbergi í íbúðinni. I, bróðir ákærða, hafi ekið stúlkunum heim þennan dag. I hafi ekki skipt sér af börnunum í íbúðinni en verið inni í sínu herbergi. Ákærði kvaðst hafa fengið sms skilaboð í síma sinn og bréf send á heimilið. Væru þau á skjali í rannsóknargögnum málsins merkt. IV/3.2. Ákærði kvað bréfin hafa verið send á heimili hans og hafi þau legið innan um annan póst til ákærða. Þau hafi verið í umslögum. Hafi bréfin verið merkt ákærða sem [...]. Hafi ákærði farið þess á leit við lögreglu að hún myndi taka umslögin og láta leita fingrafara á þeim. Ákærði kvaðst hafa fengið þessi skilaboð í mars eða apríl 2005, stuttu eftir að B hafi sagt A frá því að hún hafi lagt fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Kvaðst ákærði hafa þá trú að þessi bréf væru frá A komin. Í bréfunum hafi ákærða verið sagt að afhenda pening á ákveðnum stað. Kvaðst ákærði hafa farið með bréf þar sem hann hafi hótað viðkomandi einstakling að fara með bréfin í fingrafararannsókn. Þá hafi ákærði fengið til baka bréf þar sem fram hafi komið að þetta væri allt grín. Garðinum þar sem ákærði hafi átt að fara með bréfin væri lýsti í bréfi. Viðkomandi staður hafi verið ekki langt frá heimili C á [...]. Bréf í rannsóknargögnum málsins þar sem fram komi að viðkomandi aðilar hafi verið að grínast hafi verið síðasta bréfið sem hafi komið. Ákærði kvaðst vilja taka fram að C hafi oft í gegnum tíðina fengið síma ákærða lánaðan til að hringja í vinkonur sínar.

M, móðir A, kvað lögreglu hafa haft samband við sig í apríl eða maí 2006. Hafi lögreglumaður tjáð M að ákærði hafi viðurkennt að hafa selt A áfengi. Þá lægi fyrir grunur um að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. M kvaðst hafa borið undir A hvort ákærði hafi selt henni áfengi og hafi A viðurkennt það. Hafi hún tjáð móður sinni að hún hafi borgað áfengið með vasapeningum sínum. Hafi A ekki séð ástæðu til að fara í skýrslutöku á lögreglustöð á þessum tíma þar sem A hafi ekki viljað ræða neitt í tengslum við hugsanlegt kynferðisbrot. Fjölskyldan hafi flutt til [...] 2006. Í október 2006 hafi Q, sonur M, greint móður sinni frá því að A hafi sagt kærustu Q, N, frá því að hún hafi verið misnotuð kynferðislega. Hafi M rætt við A sama kvöld og hún sagt frá því að hún hafi verið misnotuð kynferðislega af ákærða. Frásögnin hafi komið smátt og smátt hjá dótturinni. Hafi M fundist eins og A ætti erfitt með að segja frá hlutunum vegna skammar. Hafi A sagt að þetta hafi byrjað með því að ákærði hafi beðið hana um að snerta örstutt kynfæri sín utanklæða og greitt henni fyrir það 1.000 krónur. Hafi brotin síðan orðið grófari og hafi hann m.a. fengið A til að hafa við hann munnmök gegn greiðslu peninga og með því að láta hana fá áfengi. Hafi komið fram að ákærði hafi eitt sinn greitt A 50.000 krónur fyrir slíka þjónustu. Hjá A hafi komið fram að C hafi oftast verið með A er þessir atburðir hafi átt sér stað. Hafi C einnig gert þessa sömu hluti. Sumarið 2005 hafi A og C verið mjög góðar vinkonur og þær mikið verið heima hjá hvorri annarri. Hafi fleiri stúlkur komið við sögu í þessu sambandi. Hafi M haft samband við þær en þær ekki viljað gera neitt í málinu. Allt hafi orðið mjög erfitt og mæður þessara stúlkna borið upp á A að hún væri að ljúga öllu saman upp á dætur þeirra. M kvað A hafa komið til Íslands í apríl 2007 til að heimsækja föður sinn, vini og ættingja. Hafi ferðin verið mjög erfið og hafi mæður vinkvenna A meinað dætrum sínum að hitta A. Í þeirri ferð hafi A rekist á ákærða í strætisvagni. Hafi það haft mjög slæm áhrif á A. Hafi M þá ákveðið að A færi ekki til Íslands í bráð. Ekki hafi M rætt þessa hluti nánar við A. Að mati M hafi A tekið algera stefnubreytingu er þessi misnotkun hafi byrjað. Hafi M þá tengt það einhverskonar ,,unglingaveiki” eða óreglu. Fyrir þann tíma hafi A verið fyrirmyndarbarn, lífsglöð, áhugasöm, dugleg í ballett og stundað skóla vel. Allt hafi hrunið og A hætt að stunda þessa hluti. Hafi hún orðið sífellt pirruð og með hlutina á hornum sér. Hún hafi síðan orðið þunglynd og leið. Hafi kennari A í [...]skóla, J, greint frá því hvernig námsárangur A hafi hrunið. M kvað A vera hjá sálfræðingi í [...], en hún hafi komið dóttur sinni í slíka meðferð um leið og þær hafi flutt út. Hún kvað A hafa mjög lágt sjálfsmat og stúlkunni finnast hún ómöguleg í öllu. Hafi hún fyrir þessa atburði alla saman verið mjög vinsæl í skóla, en eftir atburðina hafi henni fundist enginn vilja vera með henni lengur.

G, móðir B, kvaðst hafa merkt þunglyndi hjá B sem hafi byrjað í desember 2005. Hafi hún á þeim tíma skipt um skóla og farið í [...]skóla. Fyrir þann tíma hafi mikil samskipti verið á milli B og C og mjög kært með stúlkunum. Í desember 2005 hafi farið að bera á miklum kvíða hjá stúlkunni og hún verið send til heimilislæknis vegna þessa. Þessi tími hafi verið fjölskyldunni mjög erfiður. B væri mjög sérstök og saklaus stúlka og hafi foreldrar hennar reynt að gera allt fyrir stúlkuna. B væri áhrifagjörn og tilleiðanleg. B hafi sagt föður sínum frá því í febrúar 2006 að ákærði hafi beðið hana og C um að teikna á typpið á sér, en hún hafi þá verið stödd á heimili föður C þar sem ákærði hafi einnig búið. Sagan hafi komið smátt og smátt og hafi foreldrarnir gætt að því að pressa ekkert á stúlkuna í frásögninni. Hafi verið auglýsing í sjónvarpi frá Blátt áfram. Þá hafi B sagt að hún vissi að ákærði hafi ekki mátt gera slíka hluti við sig. Hafi B greint frá því að C hafi haldið um typpið á ákærða og B teiknað á það. Jafnframt hafi B greint frá því að ákærði hafi fengið B og C til að nudda á sér bakið og boðið B að skoða klámblöð á meðan. Ákveðið hafi verið að ræða þessa hluti ekkert sérstaklega við B til að skemma ekki fyrir hugsanlegri rannsókn málsins. Kvaðst G þess fullviss að þunglyndi B mætti m.a. rekja til kynferðisbrotsins. Hafi B farið til heimilislæknis og síðan sáfræðings vegna líðan sinnar. Hjá heimilislækni hafi hún m.a. fengið þunglyndislyf. G kvaðst hafa séð B hafa átt msn tölvusamskipti við ákærða á árinu 2004. Hafi G ekki fundist það í lagi að fullorðinn maður væri að eiga msn samskipti við svo unga stúlku. Þá hafi hún séð í síma dóttur sinnar símanúmer er B hafi sagt vera númer ákærða. Hafi hún bannað dóttur sinni að vera í slíkum samskiptum við ákærða. Ný greining á B væri að stúlkan væri með athyglisbrest. Pétur Lúðvíksson barnalæknir hafi greint stúlkuna. Fengi hún lyf vegna þess. G kvaðst minnast þess að B og C hafi eitt sinn gist heima hjá ákærða. Það hafi sennilega verið veturinn 2005. Ákærði hafi á þeim tíma búið í [...]. Þangað hafi þær sennilega farið um hádegi á laugardegi og komið til baka seinni part sunnudags. Hafi G talið að allt hafi verið í lagi í þessari heimsókn. G kvað B hafa farið í fermingaveislu hjá C eftir að fram hafi verið lögð kæra í málinu. Ákærði hafi verið í þeirri veislu. B hafi verið mjög leið er hún hafi komið heim úr veislunni.

H, móðir C, bar að hringt hafi verið í sig frá lögreglunni og henni tilkynnt að dóttir hennar, C, hafi hugsanlega orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. H kvað ákærða hafa umgengist C nánast daglega undanfarin 12 ár. Kvaðst H hafa rætt málið við C, en C neitað því að hafa orðið fyrir kynferðisáreiti af hálfu ákærða. H kvað B og A hafa verið vinkonur C og hafi þær oft verið á heimili C að leika við hana. H kvað C ekki hafa samskipti við ákærða eftir að kæra í málinu hafi komið fram. H lýsti C þannig að stúlkan væri feimin, ljúf og góð stúlka. Léti hún stjórnast af öðrum. H kvað óeðlilegt hvernig ákærði hafi látið C sitja í fangi sínu eftir að stúlkan hafi verið orðin 12 ára gömul. Hafi henni fundist þau óeðlilega náin. Ákærði hafi ekki tekið stúlkuna í fangið í sama mæli er hún hafi verið yngri. Hafi H beðið ákærða um að hætta þessu. Hafi H ekki þolað hvernig C hafi sífellt verið utan í ákærða og nefnt það við C. Eftir viðtal í Barnahúsi hafi C farið í viðtalsmeðferð en stúlkan hafi verið sátt við að fara í þau viðtöl.

P kvaðst hafa umgengist C mikið á liðnum árum sem vinkona C. Hafi hún verið mikið heima hjá C að [...] í Reykjavík. Hafi P verið í bekk í [...]skóla með C og B. A og C væru einnig vinkonur P. Ákærði hafi mikið haldið til á heimili C á [...]. Í gegnum tíðina hafi ákærði verið með mikið ,,dónatal” við P og C og hafi hann m.a. boðið þeim að sjá typpið á sér. Þær aldrei þegið það. Hafi hann spurt þær hvort þær vildu ,,snerta hann á kónginn”. Þá hafi hann oft beðið P um að nudda á sér bakið, en hún alltaf neitað því. Ákærði hafi oft gefið C peninga, jafnan á bilinu 1.000 til 2.000 krónur. Fyrir jólin 2005 til 2006 hafi P gist heima hjá C. Þá hafi C sagt P frá því að hún og B hafi teiknað á typpið á ákærða og kvaðst P telja að það hafi átt að hafa gerst heima hjá ákærða. Hafi B verið í eldhúsinu á meðan C hafi sagt P frá þessu. Þá hafi ákærði búið með föður C og K bróður þeirra. Bæði C og B hafi skammast sín fyrir að hafa gert þetta. B hafi síðan einnig sagt P frá hinu sama. P kvaðst, ásamt A, hafa verið að koma úr skóla föstudaginn 24. mars 2006. Hafi ákærði komið þar að á bifreið er þær hafi þá verið staddar á horni [...] og [...]. A hafi veifað ákærða og hann stöðvað bifreiðina. Hafi A beðið ákærða um að kaupa fyrir sig bjór og hann samþykkt það. Kvaðst P ekki hafa viljað vera í kringum A við þessar aðstæður og því gengið í burtu. P kvaðst vita til þess að A hafi ekki verið með peninga á sér er þetta hafi gerst. Hafi A drukkið áfengi þetta kvöld, en myndir og frásögn af þeirri drykkju hafi farið á internetið á bloggsíðu A. Í mars 2006 hafi C sagt við P að B hafi logið því hjá lögreglu að hún og C hafi teiknað á typpið á ákærða. Hafi P fundist það skrýtið þar sem C hafi áður verið búin að segja að hún og B hafi teiknað á typpið á honum. P kvað F hafa sagt sér frá því að A hafi fengið sígarettur og pening frá ákærða fyrir að hafa við hann munnmök. A hafi einnig sagt P frá hinu sama. Þá hafi bæði C og B sagt báðar við P að þær hafi verið að fá pening frá ákærða fyrir eitthvað. P kvaðst einhverju sinni hafa farið á heimili ákærða ásamt C. Hafi C sagt að hún ætlaði að ná í pening. Ákærði hafi þá verið undir áhrifum áfengis. K bróðir ákærða hafi komið að og sagt stúlkunum að fara. Þær hafi þá verið á bilinu 12 til 13 ára gamlar.

N, kvaðst vera kærasta Q, bróður A. Kvaðst hún dvelja talsvert á heimili A í [...]. Kvaðst N hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku og hafa greint A frá því fyrir löngu síðan. Í byrjun október 2006 hafi N verið á heimili A og hún og A rætt ýmsa hluti. Tal þeirra hafi beinst að kynferðisbrotamálum. Hafi A trúað henni fyrir því að hún hafi verið misnotuð kynferðislega af manni og hafi hún haldið því leyndu. Hafi maðurinn látið A og vinkonur hennar horfa á klámefni. Síðan hafi hann fengið þær til að hafa við sig munnmök. Fyrir það hafi þær fengið sígarettur, áfengi og peninga. Kvaðst N hafa spurt A að því hvaða maður þetta væri og hafi A eftir nokkurt þóf sagt að maðurinn héti X og væri frændi vinkonu A. Kvaðst N hafa ráðlagt A að segja móður sinni frá þessu, en A ekki þorað það í fyrstu. Kvaðst N hafa sagt Q frá þessu og hann síðan greint móður sinni frá atburðunum. Það hafi orðið til þess að A hafi rætt við móður sína um málið. Í framhaldi hafi móðir A og A sjálf farið til Íslands og gefið skýrslu vegna málsins. N kvaðst vera þeirrar skoðunar að frásögn A skýrði marga hluti sem hún hafi tekið eftir í fari A. Hafi A átt í mætingarerfiðleikum í skóla og drukkið mikið áfengi. Þá hafi hún séð að A hafi ekki liðið vel. Eftir að A hafi greint frá þessum hlutum í héraðsdómi hafi létt mikið á henni. Hafi mætingar í skóla t.a.m. snarbatnað og væri stúlkan nú öllu glaðari. N kvaðst hafa verið með A í bifreið í [...] eftir að A hafi komið út aftur eftir skýrslutökuna. Þá hafi frænka X hringt í A og verið ósátt við að A skyldi kæra X. Hafi frænka X verið í bifreið með X á þessum tíma.

J kvaðst hafa verið kennari A, B, F og C. B, C og A hafi verið nemendur í bekk J frá í 5. bekk. F hafi verið í hinum 10. bekknum í [...]skóla. Hafi J engu að síður kennt F mjög mikið. A hafi ekki rætt ætluð kynferðisbrot gagnvart sér við J. A hafi þó rætt við J ýmis mál í sínu lífi. Á árinu 2006 hafi A talað um að hún ætti erfitt. Hafi stúlkan verið í slæmum félagsskap, en hún hafi bæði verið byrjuð að reykja og drekka. A hafi alltaf verið örlítið utan við sig. Áður en stúlkan hafi flutt til [...] hafi hún verið hætt að læra og sinna námi sínu. Hafi verið um að ræða breytingu frá því sem áður var. Einkunnir stúlkunnar hafi hrapað og verið greinilegt að henni hafi liðið illa. J kvaðst lítið hafa rætt við B, en stúlkan hafi verið öllu dulari en A. Hafi henni gengið illa í námi. C sé enn í bekk J og sé hún talsvert opin. Gangi henni reyndar ekki vel og eigi erfitt með bóklegan hluta námsins. Fari hún stundum í sérkennslu. Á árinu 2006 hafi C lent í slæmum félagsskap eldri krakka. Hún væri áhrifagjörn stúlka og hafi J orðið mjög hrædd um stúlkuna. Hafi J farið í samstarf við móður C til að koma henni út úr þessum aðstæðum. Hafi þessir eldri krakkar verið að reykja og drekka og hafi C ekki komið heim til sín þegar hún hafi átt að koma heim. Hafi tekist að lokum að ná C út úr þessum félagsskap, ekki síst við það að góður vinskapur hafi orðið með C og stúlku sem væri nýbúi. Engu að síður væri C í áhættuhópi. Þessi ætluðu kynferðisbrotamál hafi aldrei komið upp í samræðum við C.

I, bróðir ákærða, kvaðst hafa skilið við móður C þegar C hafi verið 6 til 7 ára. Eftir skilnaðinn hafi mæðgurnar búið að [...] í Reykjavík. I kvað dóttur sína, C, talsvert hafa umgengist ákærða. Hafi ákærði séð um ýmsa snúninga fyrir móður stúlkunnar og m.a. sótt C í skóla. Hafi ákærði talsvert verið inni á heimili þeirra mæðgna að [...]. I kvaðst aldrei hafa orðið var við að ákærði áreitti C kynferðislega. Kvaðst I þó vilja taka fram að honum hafi stundum fundist ákærði sitja fullþétt upp við C og verið að faðma hana fullmikið þegar fjölskyldan hafi hist. Þetta hafi farið í taugarnar á I og hann stundum gert athugsemdir um þetta við ákærða. Varðandi sakarefni samkvæmt 4. og 5. tl. ákæru, þá kvað I B hafa verið í heimsókn umrætt sinn og gist um nóttina en þessa helgi hafi verið svokölluð pabbahelgi. Kvaðst I hafa verið heima í [...] allan þann tíma sem B hafi verið þar. Yngri dóttir I hafi einnig verið á heimilinu þennan morgun. Ekki hafi I orðið vitni að neinu sem gerst hafi. Kvaðst hann sennilega hafa vaknað með stúlkunum um morguninn. Kvaðst hann ekki muna eftir því að ákærði hafi skammað stúlkurnar um morguninn. Sennilega hafi stúlkurnar horft á sjónvarp þennan morgun eða verið í tölvu. Ákærði hafi verið á heimilinu þennan dag. Kvaðst I lauslega hafa rætt þessa hluti við C og hafi C tjáð sér að ekkert hafi gerst í [...]. Þá kvaðst I ekki hafa orðið var við að C og vinkonur hennar væru að heimsækja ákærða á heimili hans að [...]. I kvaðst hafa verið í verslunarmiðstöðinni Kringlunni á árinu 2007 með dóttur sinni C og ákærða. Hafi þetta verið fljótlega eftir afmæli C, sem væri í [...]. Hafi C verið að velja sér afmælisgjöf. B hafi þá komið til þeirra og kallað á C. Hafi hún spurt C hvort C væri til í að spyrja I og ákærða hvort hún mætti vera með þeim í Kringlunni. Hafi I og ákærði neitað B um það vegna þess máls sem upp hafi verið komið.

K, bróðir ákærða, kvaðst hafa búið ásamt ákærða og I bróður sínum að [...]. K kvaðst ekki hafa verið í íbúðinni er C frænka K og einhver önnur stúlka hafi verið þar. K hafi verið með kærustu á þessum tíma. K kvaðst muna eftir að einhverjar stúlkur hafi komið í heimsókn til ákærða að [...] í Reykjavík. Kvaðst K hafa rekið þær í burt þar sem ákærði hafi það sinnið verið undir áhrifum áfengis. C hafi á þessum tíma oft verið að biðja um peninga. Hafi hún oft hringt til að reyna að fá peninga frá ákærða. K kvaðst hafa verið mikið á [...] sumarið 2005, en það sumar hafi hann verið atvinnulaus. Ákærði hafi þá verið að vinna í [...]. Þetta sumar hafi ákærði farið í aðgerð á auga. Hafi hann allur verið ,,lemstraður” og hafi K gert grín að ákærða vegna þess. Ákærði hafi verið með lepp fyrir auga í einhvern tíma og verið mikið bólginn í einhverjar vikur.

R kvaðst vera æskuvinur ákærða, en þeir hafi þekkst í ein 20 ár. R kvaðst hafa komið úr áfengismeðferð sumarið 2005 og hafi hann reynt að ,,forðast helgar”. Hafi hann því varið mörgum dögum með ákærða, hvort sem var um helgar eða í miðri viku. Ákærði hafi fengið ígerð í auga þetta sumarið. Hafi ígerðin varað í einhverjar vikur og verið í vinstri augntóft. Hafi ígerðin ekki farið fram hjá neinum er mætt hafi ákærða. Af þessum ástæðum hafi ákærði verið mikið heima og horft mikið á myndbönd. Kvaðst R muna eftir að C hafi stundum komið og beðið ákærða um pening fyrir ferð í kvikmyndahús. Hafi yngri systir hennar, L, verið með í ferð. C hafi einnig verið í símasambandi við ákærða en greinilegt hafi verið að hún hafi litið upp til hans.

Sveinn Rúnar Hauksson læknir staðfesti læknisvottorð sitt vegna B og gerði grein fyrir einstökum atriðum í því. Kvað hann B ekki hafa rætt við sig um að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti. Þá staðfesti Margrét Arnljótsdóttir sálfræðingur vottorð sitt vegna B og gerði einnig grein fyrir einstökum atriðum í því. Margrét kvað einkenni í fari B hafa getað komið til vegna þess að stúlkan hafi orðið fyrir kynferðisbroti. Eftir á að hyggja sjái hún nú ákveðin tengsl sem geti skýrst af því. Kvaðst Margrét hafa starfað mikið með börnum á öllum stigum í kerfinu. Einkenni vegna kynferðisbrots geti komið fram talsverðu eftir að brot sé framið. Fari það nokkuð eftir aldursskeiði viðkomandi. Eftir fyrstu viðtöl við stúlkuna hafi Margrét ekki vitað hvað væri að gerast í viðtölunum því einelti hafi verið gefið sem skýringin á því hvernig stúlkunni hafi liðið. Hafi Margrét síðan frétt á milli viðtala að hugsanlega hefði stúlkan orðið fyrir kynferðisbroti og þá áttað sig fyrst á tilteknum einkennum í fari stúlkunnar sem hafi komið heim og saman við að hún hafi orðið fyrir slíku broti.

Margrét Magnúsdóttir sálfræðingur staðfesti vottorð sitt á dskj. nr. 5 vegna C og gerði grein fyrir einstökum atriðum í því. Margrét kvað viðtalsmeðferðina við C hafa verið óvenjulega að því leyti að C hafi verið til í að koma í viðtöl til hennar vegna kynferðisofbeldis, þó svo hún hafi ekki viljað kannast við að hafa orðið fyrir slíku ofbeldi. Kvaðst Margrét hafa gert henni grein fyrir því að viðtalsmeðferðin miðaði við slíkt ofbeldi. C hafi komið alls þrisvar sinnum í viðtöl. C hafi talað um ákærða sem fjölskylduvin. Hafi stúlkan virkað mjög lokuð.

Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins og gerði grein fyrir framvindu hennar. Kristján Ingi staðfesti að ákærði hafi komið til lögreglu með bréf sem hann hafi sagt að tengdust kæru á hendur honum fyrir kynferðisbrot. Hafi einnig átt að vera sms símaskilaboð sem hafi átt að vera frá A. Allt hafi þetta átt að tengjast fjárkúgun. Kvaðst Kristján muna eftir að ákærði hafi óskað eftir því að leitað yrði fingrafara á umslögum og bréfum. Það hafi verið skoðað innan embættisins en þar á bæ hafi ekki verið talið heimilt að taka fingraför af ungum stúlkum í þágu rannsóknar málsins sem ekki væru grunuð um refsiverða háttsemi. Bréfin hafi því ekki verið send í fingrafararannsókn. Þá hafi ýmislegt annað verið sérkennilegt við bréfin, s.s. að A hafi verið skrifuð með tveim [...] og að sms skilaboðin hafi verið margorð, sem sé ekki í samræmi við þann ritmáta er ungt fólk noti á þessum vettvangi. Þá hafi þótt ákaflega ósennilegt að ungmenni færu að rita bréf til að senda frá sér.

Niðurstaða:

Ákærði neitar því að hafa framið kynferðisbrot gagnvart stúlkunum A, B, F og C, svo sem honum er gefið að sök í 1. til 5. tl. ákæru. Ákærði játar að hafa framið brot samkvæmt 6. tl. ákæru.

Ákæra í málinu byggir á því að þrjár ungar stúlkur, fæddar á árinu 1992 og þá skólasystur úr [...]skóla í Reykjavík, hafa sitt í hvoru lagi lagt fram kærur á hendur ákærða um kynferðisbrot gagnvart þeim. Brotin eiga að meginstefnu til að hafa átt sér stað sumarið 2005, fyrir utan að brot ákærða gagnvart B á að geta hafa verið á árinu 2004. Þannig hefur A greint frá því að sumarið 2005 hafi ákærði látið hana og C koma við kynfæri ákærða, fróa honum og hafa við hann munnmök. Í fyrsta sinnið hafi þetta átt sér stað í bakgarði húss í nágrenni við Rauðarárstíg í Reykjavík, ekki fjarri heimili C að [...], en þá hafi ákærði látið stúlkurnar nudda kynfæri ákærða utanklæða. Í önnur tvö skipti síðar þetta sumar hafi þetta gerst á heimili ákærða að [...] í Reykjavík. Þar hafi ákærði veitt þeim áfengi og fengið þær báðar til fróa honum og hafa við hann munnmök. Hún hefur einnig greint frá því að í eitt sinn síðar þetta sumar hafi hann fengið A og F til að hafa við ákærða munnmök á heimili ákærða að [...] í Reykjavík. Í því tilviki hafi ákærði jafnframt strokið brjóst F. Framburður A fær stoð í framburði F að því leytinu til að F hefur einnig lýst því tilviki er hún og A hafi farið saman á heimili ákærða að [...]. Hefur F lýst því hvernig A hafi haft munnmök við ákærða en kveðst ekki hafa gert það sjálf. F hefur lýst því að ákærði hafi strokið ber brjóst F. Bæði A og F hafa lýst þessum tilvikum með afdráttarlausum og eindregnum hætti og er framburður stúlknanna staðfastur og trúverðugur að mati dómsins. Það ber að hafa í huga að stúlkurnar eru að lýsa nokkuð liðnum atburðum en innbyrðis samræmi er í framburðunum um veigamestu atriðin. Í ákveðnum atriðum hefur frásögnin verið einkar sannfærandi og rak F t.a.m. minni til að hafa þurft að ganga upp stiga til að komast inn í íbúð ákærða á [...]. Myndir úr rannsóknargögnum málsins sýna að aðstæður á heimilinu voru með þeim hætti. Stúlkurnar greindu öðrum stúlkum frá þessum atburðum á sínum tíma. Þannig greindi A þeim F, B og P, skólasystur þeirra, frá sakarefnum samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru. Þetta hafa F, B og P allar staðfest.

Framburður ákærða hér fyrir dóminn er sérkennilegur. Hefur hann neitað því að hafa að ráði verið í tengslum við stúlkurnar, ef undan er skilin C, og ekki viljað kannast við F. Þrátt fyrir þetta leiða gögn málsins í ljós að ákærði hefur verið í umtalsverðum símasamskiptum við allar stúlkurnar. Skýringu ákærða á tilvist þessara símasamskipta um að C, og jafnvel aðrar stúlkur, hafi fengið síma ákærða lánaðan og hringt úr honum í vinkonurnar verður að telja ósennilega í ljósi þess að þær bera ekki um neitt slíkt og hafa allar fullyrt að ákærði hafi verið að hringja í þær reglubundið. Hafi það gengið svo langt að einhverjar þeirra hafi þurft að skipta um símanúmer til að fá frið fyrir ákærða. Þá hefur ákærði leitast við að láta stúlkurnar líta illa út í augum dómsins. Hefur hann borið út ummæli er stúlkurnar eigi að hafa viðhaft sín á milli og við ákærða þar sem þær geri lítið úr eða nánast dragi til baka kæruefnin. Þá greindi hann frá því að B hafi fengið að vera lengi úti og langt fram yfir kvöldmat eins og til að gefa til kynna að framferði stúlkunnar væri ekki öðrum til eftirbreytni. Þá hefur hann ítrekað sagt og gefið í skyn að A viðhefði lygar og fullyrti hann að stúlkan hafi sent ákærða hótunarbréf.

B lagði fyrst stúlknanna fram kæru á hendur ákærða og þá vegna sakarefna samkvæmt 4. og 5. tl. ákæru. Hefur B verið sjálfri sér samkvæm og trúverðug í frásögninni allt frá því kæruefnið kom fram. Greindi hún m.a. vinkonu sinni og skólasystur, P, frá því á sínum tíma. Foreldrar B hafa lýst því við hvaða aðstæður það kom til að B greindi frá þessu. Þau viðbrögð er stúlkan sýndi þá bera ótvírætt vitni um að eitthvað hefur gerst í íbúðinni að [...], sem brotið hefur gegn siðferðisvitund stúlkunnar. Ákærði hefur lýst því að stúlkurnar B og C hafi krotað með merkipenna á maga ákærða. Er útilokað með öllu að slíkur verknaður einn og sér hafi kallað fram þau viðbrögð er stúlkan sýndi. Þá er til þess að líta að P hefur fullyrt að bæði C og B hafi í tvö aðgreind skipti greint henni frá því að ákærði hafi látið B og C skrifa á typpið á honum í íbúðinni að [...]. P greindi einnig frá því að eftir að kæra hafi komið fram hafi C breytt frásögn sinni og hafi eftir það ekki viljað kannast við þetta tilvik.

Að mati dómsins er ekki komin fram sennileg skýring á því af hverju þrjár ungar stúlkur ættu að hafa sammælst um að bera rangar sakir á ákærða. C er bróðurdóttir ákærða. Frá unga aldri voru ákærði og C í miklum samskiptum, allt fram til þess tíma er kærur voru lagðar fram í málinu. Ákærði hefur sjálfur borið um hin miklu samskipti við stúlkuna á heimili hennar, auk þess sem símagögn sýna fram á, svo ekki verður um villst, að samskiptin hafa verið mjög mikil. Framburður C er í beinni andstöðu við framburði fyrrverandi skólasystra hennar er lögðu fram kærur í málinu. Að auki er hann í beinni andstöðu við framburð P, sem hefur borið um samtal þeirra tveggja. Vill C augljóslega ekki bera á ákærða sakir. Þær sakir sem stúlkurnar hafa borið á ákærða eru allar af sama toga en þær eiga að hafa falist í því að koma við eða nudda kynfæri ákærða, fá stúlkurnar til að fróa honum eða hafa við hann munnmök. Eru þetta sakir af svipuðum toga og frænkur hans þær D og E bera á ákærða samkvæmt ákæru frá 24. september 2007, auk þess sem önnur frænka hans, S, lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot, sem ekki hefur fengið framgang. Niðurstaða dóms í málum af þessum toga er jafnan reist á mati á því hvort trúnaður verði lagður á framburð brotaþola, þar sem eðli málsins samkvæmt jafnan er litlum öðrum sönnunargögnum til að dreifa í málunum. Þegar dómurinn lítur til samhljóða framburða stúlknanna A, B og F, sem sækir stoð í framburð skólasystur þeirra P, telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að atvik hafi verið með þeim hætti er stúlkurnar lýsa. Telur dómurinn því sannað að ákærði hafi látið A og C nudda kynfæri ákærða utanklæða í bakgarði húss við Rauðarárstíg í Reykjavík. A hefur lýst því að atburðirnir hafi verið stuttu eftir að A flutti á [...] í Reykjavík, sem hefur verið sumarið 2005. Þá telur dómurinn sannað að ákærði hafi í tvígang þetta sumar veitt A og C áfengi á heimili ákærða og fengið þær til að fróa honum og hafa við hann munnmök. Með samhljóða framburði A og F telur dómurinn jafnframt sannað að ákærði hafi fengið A til að hafa við hann munnmök þetta sumarið að [...] og að hann hafi þá strokið ber brjóst F. Í ljósi eindregins framburðar F verður ákærði sýknaður af því að hafa látið F hafa við hann munnmök. Með framburði B, sem sækir stoð í framburð P og framburð foreldra stúlkunnar um þær aðstæður er hafi verið fyrir hendi er mál þetta kom fyrst upp á yfirborðið, telur dómurinn jafnframt sannað að ákærði hafi látið B og C skrifa á typpið á honum. P hefur ekki borið um að B eða C hafi sagt frá því að ákærði hafi strokið brjóst B innanklæða eða kynfæri hennar utanklæða. Er því eingöngu framburði B einnar til að dreifa um þetta atriði. Með hliðsjón af því verður ákærði sýknaður af sakarefni samkvæmt 4. tl. ákæru. Ekki liggur ljóst fyrir hvort þessir atburðir hafi verið á árinu 2004 eða 2005, en það stendur ekki í vegi fyrir sakfellingu samkvæmt þessum ákærulið. Framburður I, bróður ákærða, sem kveðst hafa verið í íbúðinni þennan dag þykir ekki hagga þessari niðurstöðu, en B kveður hann ekki hafa verið á staðnum, auk þess sem af framburði C má ráða að svo hafi ekki verið.

Með vísan til þessa verður ákærði sakfelldur samkvæmt 1. til 3. tl. ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr., laga nr. 19/1940 varðandi brot gagnvart A og C, en fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. laganna varðandi brot gagnvart F. Brot hans samkvæmt 2. tl. varða einnig við 1. mgr. 18. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Ákærði verður sakfelldur fyrir brot samkvæmt 5. tl. ákæru og varðar það við 2. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940. Loks varðar brot ákærða samkvæmt 6. tl. ákæru við 1. mgr. 18. gr., sbr. 27. gr. laga nr. 75/1998.

Ákæra 24. september 2007.

Föstudaginn 17. ágúst 2007 mætti D á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Við það tilefni gaf hún skýrslu hjá lögreglu þar sem hún greindi frá því að þegar hún hafi sennilega verið 6 ára gömul hafi ákærði látið hana fróa honum á heimili móður hans. Hafi það gerst aftur í ein þrjú til tíu skipti. Einu sinni þegar D hafi verið á bilinu 7 til 9 ára hafi hann viljað að hún hefði við hann munnmök. Hún hafi fljótlega orðið að hætta því þar sem hún hafi kúgast mikið og ekki getað haldið áfram. Þá greindi D frá því að þegar yngri systir D, E, hafi verið 6 eða 7 ára hafi ákærði verið með E inni í herbergi þar sem hann hafi læst að þeim. Er D hafi knúið dyra og ákærði opnað hafi ekki leynt sér á svip E að eitthvað alvarlegt hafði komið fyrir. Síðar hafi E að litlum hluta sagt frá því sem hafi gerst.

Síðar sama dag mætti á lögreglustöð T til að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Gaf hún einnig skýrslu hjá lögreglu þar sem hún greindi frá því að ákærði hafi einu sinni verið að passa T á heimili foreldra hennar. Hafi hann þá farið í leik þar sem hún hafi átt að geta hvað væri undir viskustykki. Hafi hann m.a. lagt viskustykkið yfir typpið á sér og hún átt að þreifa á því og segja hvað væri undir. Hafi hún gert það. Þá greindi T frá kitlleikjum er ákærði hafi verið í og því tilviki er þær systur þrjár hafi verið að leika heima hjá foreldrum ákærða. Þá hafi T og D tekið eftir því að E hafi verið inni í herbergi með ákærða og hurðin læst. Hafi þær bankað og E verið skömmustuleg er þær hafi náð í hana. Í bifreið á leið heim þetta kvöld hafi D tjáð foreldrum sínum frá því hvað ákærði hafi gert við hana er D hafi verið yngri.

Þriðjudaginn 28. ágúst 2007 mætti E á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Gaf hún við það tilefni skýrslu hjá lögreglu þar sem hún greindi m.a. frá því að er hún hafi verið í pössun á heimili ákærða ásamt systrum sínum hafi ákærði farið með hana inn í herbergi. Þar hafi hann látið hana fróa honum uns honum varð sáðfall. Þá hafi hún verið á bilinu 6 til 7 ára. Þetta hafi gerst einu sinni en þar sem þær systur hafi greint foreldrum þeirra frá því hvað ákærði hafi verið að gera við þær hafi þær ekki verið sendar á heimili hans í pössun eftir það.

Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu um sakarefnið miðvikudaginn 29. ágúst 2007. Ákærði kvað D og E vera frænkur sínar en þau væru systkinabörn. Þá ætti ákærði frænku sem héti U. Þau væru einnig systkinabörn. U ætti systur, S, sem væri mjög veik andlega, en hún hafi verið búin að þjást af þunglyndi og anorexíu, auk þess sem hún hafi lent í ýmsum áföllum í lífinu. S hafi verið hjá sálfræðingi í mörg ár. Á einhverjum tíma hafi sálfræðingur sagt henni að fram væru að koma bældar minningar. Þá hafi komið upp það viðhorf að það hlyti að vera eitthvað kynferðislegt á bak við þetta þar sem mjög algengt væri að kynferðislegar skýringar ættu við þegar um anorexíusjúklinga væri að ræða. U hafi orðið mjög reið út í ákærða og farið í einhvers konar herferð gagnvart honum þar sem hún teldi hann bera sök á líðan systur hennar. Hafi hún m.a. fengið upplýsingar hjá lögreglu um önnur kynferðisbrotamál sem væru í gangi gagnvart ákærða. Hafi U sett sér að markmiði að ákærði yrði settur á bak við lás og slá og hafi hún tjáð móður ákærða það. Hafi U rætt við D og systur hennar E og ýtt á þær að kæra ákærða fyrir kynferðisbrot. Ákærði kvaðst saklaus af þeim brotum er D og E hefðu borið á hann. Ákærði kvaðst hafa umgengist D er þau hafi verið yngri, eins og aðrar frænkur sínar, þegar þær hafi verið ásamt föður sínum í heimsókn hjá móður ákærða. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa farið í kitlleiki við D er D hafi verið yngri, eða hafa farið í viskustykkisleiki við þær systur, sem hafi falist í því að breiða viskustykki yfir hluti sem hafi átt að þreifa á til að finna út hvað væru. Þá kvaðst hann alfarið hafna því að hafa fengið hana til að fróa honum þegar hún hafi verið á bilinu 6 til 9 ára. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa tekið D í fangið á þessum árum og hossað henni um leið og hún hafi fundið að ákærði hafi verið með harðann getnaðarliminn. Þá kvaðst ákærði aldrei hafa reynt að fá hana til að hafa við hann munnmök. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa nokkru sinni passað E er E hafi verið yngri. Þá kvaðst hann aldrei hafa fengið hana til að fróa honum. Ákærði bar að mjög gott samband væri á milli móður ákærða og þeirra systra.

Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu þriðjudaginn 11. október 2007. Ákærði kvaðst fyrst hafa frétt af ásökunum D á árinu 1993, en þá hafi faðir þeirra, V, komið til móður ákærða og sagt að eitthvað kynferðislegt hafi gerst á milli ákærða og D. Ákærði kvað ekkert kynferðislegt hafa gerst á milli þeirra á sínum tíma. Ákærði kvaðst hafa verið ásakaður um 14 ára gamall að eitthvað kynferðislegt hafi gerst á milli ákærða og S, frænku hans. Faðir S, Y, hafi ásakað ákærða um það. Í umrætt sinn hafi ákærði verið að passa S. Einnig hafi það verið að U, systir S, hafi séð ákærða pissa í fjöru og talað um að hann hafi verið að sýna henni ,,perraskap”. Eitthvað hafi verið fundað um þetta í fjölskyldunni á sínum tíma, en ákærði kvaðst ekki vita meira um það. Eftir þetta hafi hann ekki verið látinn passa neina af frænkum sínum. Kvaðst ákærði reikna með að D hafi vitað af þessu. Ákærða og D hafi orðið sundurorða um páskana 1992, en þá hafi ákærði skammað hana fyrir að hafa tekið dót af bróður ákærða, K. Kvaðst ákærði reikna með að D hafi þá ásakað ákærða um kynferðisbrot til að ná sér niður á honum. Á þeim tíma hafi D verið þekkt fyrir að vera ,,krónískur lygari” og hafi hún átt að fara í meðferð vegna þess. Ákærði kvaðst hafa verið þunglyndur og kvíðinn á þessum árum. Hafi hann verið mjög miður sín vegna þessara ásakana. Hafi móðir ákærða talað við ákærða, undir áhrifum frá V og D, en móðir ákærða hafi viljað að ákærði leitaði sér hjálpar hjá geðlækni vegna þessa og margs annars. Hafi hún gefið í skyn að V hafi sagt að ákærði yrði kærður fyrir kynferðisbrot ef hann færi ekki í áfengismeðferð. Kvaðst ákærði hafa farið í geðlæknis, þar sem ákærði hafi verið greindur með þunglyndi og kvíða. Í kjölfarið hafi hann tekið þunglyndistöflur. Hafi ákærði gjörbreyst við það og þá farið að birta til í lífi hans. Ákærði kvaðst aldrei hafa brotið gegn E, en hann hafi aldrei verið einn með systrunum þremur.

Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins greindi ákærði svo frá að á árunum 1987 til 1990 hafi hann hafa búið hjá foreldrum sínum í [...] í Reykjavík. Foreldrar ákærða hafi skilið á árinu 1990 og þá flutt frá [...]. Ákærði kvaðst þá hafa flutt með föður sínum að [...] í Reykjavík en móðir ákærða hafi flutt að [...], þar sem hún hafi búið í um 6 mánuði, eða þar til hún hafi flutt að [...]. Þaðan hafi hún flutt í [...] 1993. Ákærði kvaðst sjálfur hafa verið talsvert á þvælingi á þessum árum. Hafi hann fengið póst sinn á heimili móður sinnar. Hann hafi slasast í lok júlí 1992 og búið hjá móður sinni þá. Á árunum 1988 til 1990 hafi systurnar D og T oft verið í heimsókn hjá bróður ákærða, K. Hafi þær því komið inn á heimili fjölskyldunnar þar sem ákærði hafi einnig verið.

Varðandi 1. tl. ákæru þá kvað ákærði bróður þeirra systra hafa orðið fyrir slysi. Faðir þeirra systra, V, hafi komið til móður ákærða og tjáð henni að D hafi lent í ákærða og orðað þannig að það hafi verið eitthvað kynferðislegt. Það hafi þó ekki átt að hafa verið alvarlegt. Hafi verið greinilegt að V hafi þurft að létta af sér. D hafi á þessum árum átt það til að segja ýmsar sögur. I hafi nýlega eignast dóttur. Hafi Z viljað hafa varann á vegna máls frænku ákærða S. Ákærði kvaðst hafa passað S á heimili sínu að [...] í Reykjavík, en þá hafi S verið 3ja ára en ákærði 13. Hafi þetta verið á árunum 1980 til 1981. S hafi verið lítil í sér og grátið. Ákærði hafi farið að fíflast til að létta henni lundina og m.a. sett vasaljós undir andlit sitt. Stúlkan hafi verið með ekka er foreldrar hennar hafi náð í hana. Um 30 mínútum síðar hafi faðir stúlkunnar komið aftur mjög reiður og ásakað ákærða um kynferðisbrot gagnvart stúlkunni. Þá kvaðst ákærði á þessum árum hafa farið í fjöru með U, systur S. Hafi hún séð ákærða pissa og brugðist illa við. Þessum málum hafi síðan öllum verið blandað saman. Í framhaldi hafi verið ákveðið að biðja ákærða ekki um að passa neinar frænkur sínar og hafi hann ekki gert það. Þessi mál hafi greinilega verið rædd innan fjölskyldunnar þar sem D hafi sagt við ákærða að hún hafi frétt frá S að S hafi séð typpið á ákærða í fjöru. Á árunum 1997 eða 1998 kvaðst ákærði hafa sagt frænkum sínum að hætta þessu tali um hugsanleg brot ákærða, ella myndi hann leggja fram kæru á hendur þeim. Síðar, eða á árinu 1992, hafi orðið rifrildi yfir einhverjum myndbandsspólum. Þá hafi D og systur hennar ætt út mjög óhressar. Kvaðst ákærði gruna að þá hafi eitthvað verið sagt tengt ákærða. Ákærði kvað móður sína hafa rætt málefni S við sig á sínum tíma. Þá hafi ákærði verið þunglyndur og drukkið áfengi í óhófi. Hafi móðir ákærða sagt að eitthvað væri að hjá honum og hafi hún hótað að kæra hann færi hann ekki í áfengismeðferð, auk þess sem hann yrði að fara til geðlæknis. Ákærði kvaðst bæði hafa verið hræddur við lætin í V, auk þess sem hann hafi verið hræddur við Y, föður S. Ákærði kvaðst ekki hafa viðurkennt nein kynferðisleg samskipti við stúlkurnar í tali við móður sína á sínum tíma. Ákærði kvaðst aldrei hafa verið einn með D, hvorki að [...] né [...]. Hafi hann aldrei litið einn eftir þeim stúlkum. Móðir ákærða hafi stundum haft umsjón með þeim systrum. Ákærði kvað það örugglega geta staðist að þær hafi t.a.m. á árinu 1988 verið í pössun hjá móður ákærða að [...]. Hafi ákærði rekist á þær er þær hafi verið í heimsókn. Ákærði kvað vel geta staðist að hann hafi eitthvað leikið við þær, t.d. í eltingaleik. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa farið í einhverja kitlleiki við þær systur. Ákærði kvað vel geta verið að hann hafi t.d. tekið þær systur D og T á háhest. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa farið í einhvern hlutaleik þar sem hlutir hafi verið faldir. Þær systur hafi aðallega leikið við bróður ákærða.

Að því er varðar sakarefni samkvæmt 2. tl. ákæru þá kvaðst ákærði ekki kannast við sakarefni samkvæmt þeim ákærulið. Eftir að foreldrar þeirra systra hafi skilið á árunum 1990 til 1991 hafi ákærði ekkert séð til E, en hún hafi fylgt móður sinni við skilnaðinn. Ákærði kvaðst muna eftir tilviki þar sem hún hafi ásamt móður sinni komið á heimilið. Þá hafi eldri systur hennar örugglega verið með í för. Ákærði kvað samband móður stúlknanna og móður ákærða hafa verið erfitt í lok árs 1993. Hafi móðir stúlknanna og E nánast aldrei komið á heimilið í [...]. Þá hafi verið rætt um að ákærði myndi aldrei gæta stúlknanna til að ekki kæmi upp aftur misskilningur í samskiptum þeirra. Ákærði kvað U hafa frétt af því að eitthvað hafi átt að hafa komið fyrir í samskiptum ákærða við A og vinkonur hennar. Hafi U komið á heimili móður ákærða mjög æst og veik. Hafi U m.a. hringt í Kristján Inga Kristjánsson rannsóknarlögreglumann til að frétta af málinu. Hafi U sagt að ákærði hafi eyðilagt líf S, systur U. Væri S með anorexíu vegna þess sem ákærði hafi gert henni. Það hafi því verið mikið af sögum í gangi varðandi ákærða. Ákærði kvaðst telja að U og eða S hafi rætt málið við D og E og þá hafi öll skriðan farið af stað. Finnist ákærða sem U telji sig vera í herferð í því að bjarga börnum frá ákærða. Beri stúlkurnar út sögur um ákærða. M.a hafi S talað um að hún hafi af einhverjum ástæðum verið hrædd við ákærða en viti ekki af hverju. S hafi síðan farið til Stígamóta og í framhaldi hafi herferð gegn ákærða farið af stað. Hafi ákærða borist til eyrna frá þeim að fjöldinn myndi granda ákærða.

D kvað langt um liðið síðan atburðirnir hafi átt sér stað og myndi hún því tímasetningar ekki vel. Hafi atburðirnir byrjað er D hafi verið 4 eða 5 ára og alltaf farið fram á heimili móður ákærða. Hafi atburðirnir fyrst gerst á meðan foreldrar ákærða hafi búið saman, en síðan haldið áfram eftir að þau hafi skilið og móðir ákærða flutt í nýtt aðsetur. Þá hafi þeir fyrst orðið alvarlegir. Allt hafi verið saklaust í upphafi og ákærði farið í einhvers konar leiki við D, tvíburasystur hennar T og K, bróður ákærða. Hafi m.a. verið um að ræða kitlleiki sem hafi falist í því að þau hafi átt að koma við ákærða og ákærði ætlast til að komið væri við kynfæri hans. Hafi hann ætlað að greiða fyrir ef einhver fyndi stað þar sem hann kitlaði. Þau hafi þó ekki komið þá við kynfæri hans. Síðan hafi leikir falist í því að ákærði var með handklæði yfir kynfærum sínum og hafi stúlkurnar ekki átt að vita hvað væri undir, en þar hafi hann verið nakinn. Í framhaldi hafi atburðirnir sífellt orðið alvarlegri og alvarlegri og ákærði verið með ,,klúrt” tal. Hafi hann sífellt verið að ræða um klámstjörnur. Hafi ákærði tekið D eina með sér inn í herbergi og sýnt D klámmyndir og talað um að þannig myndu klámstjörnur gera. Tvíburasystir D og K hafi verið að leika sér frammi á meðan. Í eitt skiptið hafi ákærði látið D fróa honum. Þá hafi hún sennilega verið orðin 6 ára gömul. Hafi D ekki mátt nota hanska við aðfarirnar, en það hafi hún viljað. Hafi D fundist hún þvinguð og ekki geta sagt nei. Er ákærði hafi fengið sáðlát hafi hann sagt að sæðið væru litlu börnin. Hafi ákærði sagt það sama við yngri systur D er hann hafi látið hana fróa honum. Hafi ákærði gefið D pening fyrir þetta og sagt henni að hún mætti engum segja frá hvað hafi gerst. Hafi þessir atburðir átt sér stað í nokkur skipti. D kvaðst telja að ákærði hafi í allt fengið hana til að fróa honum á bilinu 3 til 10 sinnum. Af meiri nákvæmni gæti hún ekki tilgreint það. Í þessi skipti hafi ákærði legið í rúminu og sett buxurnar niður á hæla sér. Bolinn hafi hann tekið upp og hún setið á rúmstokknum. Er hann hafi fengið sáðlát hafi sæðið farið út á magann og hann þurrkað það upp með handklæði. Í eitt skiptið hafi ákærði reynt að fá D til að hafa við hann munnmök. Þá hafi hún sennilega verið orðin 7, 8 eða 9 ára gömul. Kvaðst D hafa kúgast við lyktina. Hafi hún kúgast þegar hún hafi reynt og náð að hafa við hann munnmök í stutta stund en ekki náð að halda lengi áfram. Ákærði hafi legið í rúminu er hún hafi reynt að hafa við hann munnmökin. Í fjölskylduboðum á þessum tíma hafi ákærði gefið sig mikið að þeim systrum og oft tekið þær í fang sér og nuddað líkama sínum upp við líkama þeirra. Í eitt skiptið hafi D áttað sig á því að yngri systur hennar, E, var horfin. Kvaðst D hafa ,,klikkast” og látið sem hún væri að rífast við K til að hafa ástæðu til að banka á dyr herbergis er ákærði hafi verið inni í. Hafi ákærði verið búinn að læsa hurð herbergisins og flýtt sér að opna er D hafi bankað á hurðina. Kvaðst D þá hafa séð andlit litlu systur sinnar inni í herberginu. Af svip hennar kvaðst D hafa merkt að eitthvað hafi komið fyrir. Kvaðst D hafa rifið litlu systur sína út úr herberginu og þær systur þrjár gengið heim til ömmu þeirra sem hafi átt heima rétt hjá í [...] í Reykjavík. Hafi þær beðið þar uns foreldrar þeirra hafi komið. Kvaðst D hafa sagt þeim frá því sem gerst hafi. Ekki hafi meira verið rætt um hlutina fyrr en D hafi verið orðin 14 eða 15 ára. D kvaðst telja að ákærði hafi viðurkennt fyrir móður sinni að hafa verið í þessum kynferðislegu samskiptum við D og systur hennar. Sömuleiðis hafi hann viðurkennt það fyrir föður D og móður. Hafi hann leitað sér geðrænnar aðstoðar og málið verið þaggað niður á sínum tíma. Þá hafi þessari háttsemi ákærða átt að vera lokið. D kvað E systur sína aldrei hafa talað um hvað hafi komið fyrir inni í herberginu. Síðar, þegar E hafi verið orðin 16 eða 17 ára gömul, hafi þær systur verið saman í bifreið og D farið að segja systur sinni frá því hvernig ákærði hafi átt kynferðisleg samskipti við hana. Hafi E brostið í grát og sagt að ákærði hafi sagt það sama við sig um sæðið og litlu börnin er hann hafi fengið sáðlát. E hafi verið 6 eða 7 ára þegar hún hafi verið inni í herberginu með ákærða. Bróðir þeirra systra hafi verið á sjúkrahúsi á þessum tíma eftir alvarlegt slys og hafi foreldrar þeirra verið með hugann við bróðurinn og upptekin af því. Bróðir þeirra hafi síðar látist af afleiðingum slyssins. Tengdi hún atburðina í tíma við þessi veikindi bróður síns. D kvaðst engum hafa sagt frá þessum atburðum á sínum tíma fyrir utan foreldra sína. Kvaðst hún hafa fundið til skammar og fundist hún vera ógeðsleg. Kvaðst hún telja að atburðirnir hafi haft mikil áhrif á líf sitt. Þó svo hún væri ekki viss um hvort það væri ástæðan þá hafi hún 11 eða 12 ára farið að drekka áfengi og ung farið í neyslu fíkniefna. Hafi hún verið mjög reið á þessum tíma. Þá kvaðst hún ekki hafa getað haft eðlileg samskipti við stráka og enga virðingu borið fyrir sjálfri sér. D kvaðst hafa greint frá þessum hlutum er hún hafi verið vistuð á unglingaheimili. Þrátt fyrir það hafi ekkert gerst í málinu á sínum tíma. D kvaðst hafa frétt af því að frænka hennar, S, hafi orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. Hafi D heyrt að S ætlaði að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir brot gagnvart sér. Þá kvaðst S með kærunni vilja tryggja að aðrar frænkur hennar myndu ekki lenda í svipuðum brotum ákærða. D kvað ömmu sína hafa vitað af því hvað fyrir hafi komið á sínum tíma. Engu að síður væri hún að bjóða fólki saman í matarboð til að reyna að sætta fólk, en þetta hafi splundrað fjölskyldunni.

E kvaðst hafa verið 6 eða 7 ára þegar hún og systur hennar hafi verið að leika heima hjá ákærða, bróður hans og móður í [...]hverfi. Hafi þær systur verið í pössun þar sem foreldrar þeirra hafi verið uppi á spítala hjá bróður E sem hafi lent í alvarlegu slysi. Móðir ákærða hafi sennilega átt að passa þær systur en hún þurft að fara eitthvert. Hafi ákærði beðið E um að koma inn í herbergi til að leika í dótaleik með teppi. Hin börnin hafi sennilega verið að leik fyrir utan húsið. Hafi átt að setja dót undir teppið og E átt að þukla á því. Kvaðst E muna eftir að allt í einu hafi ákærði verið búinn að fela dótið og verið kominn ,,á typpið”. Hafi hann látið E koma við það. Hafi hún spurt hvort hún mætti vera með hanska og hafi hann ekki heimilað henni það. Hafi hann síðan kennt henni hvernig hún hafi átt að fara að því að fróa honum. Á meðan ákærði hafi legið uppi í rúmi hafi E setið á rúmstokknum. Kvaðst E hafa beðið ákærða einu sinni eða tvisvar um að fá að hætta og fá hanska en hann neitað henni um það. Á endanum hafi hann fengið sáðlát og hafi hann bent á sæðið og sagt að þetta væru litlu börnin. Systur E hafi síðan komið inn í herbergið. Kvaðst E lítið muna eftir atvikum að öðru leyti, nema muna að foreldrar þeirra hafi síðan sótt þær systur. E kvaðst hafa sagt foreldrum sínum frá þessu fljótlega á eftir. Fjölskyldan hafi verið á leið út að fá sér að borða og hafi sennilega D byrjað að segja frá. Kvaðst E sjálf hafa verið of hrædd til að segja frá. Ekkert hafi orðið úr þessu á sínum tíma. Bróðir þeirra systra hafi legið alvarlega slasaður á sjúkrahúsi og dáið stuttu síðar. Hafi það allt verið mikið áfall fyrir fjölskylduna. E kvaðst hafa sagt foreldrum sínum frá því að hún vildi ekki fá ákærða í ferminguna sína og hafi þau vitað af hverju það var. Engu að síður hafi ákærði mætt. E kvaðst einnig hafa skýrt frá þessum hlutum hjá barnaverndaryfirvöldum á sínum tíma en ekkert hafi gerst þrátt fyrir það. Þá kvaðst E sennilega hafa verið 12 ára gömul. E kvað foreldra sína hafa bannað sér að fara aftur á heimili ákærða eftir þetta og hafi því ekkert meira gerst í þessa veruna. E kvaðst telja að þessir atburðir hafi haft einhver áhrif á líf sitt. Kvaðst E eiga erfitt með að treysta karlmönnum. Þá væri hún lokuð og ætti hún t.a.m. erfitt með að faðma móður sína. Vildi hún einfaldlega ekki líkamlega snertingu.

T kvað ákærða hafa passað þær systur er þær hafi verið yngri. Hafi ákærði þá farið í ýmsa leiki, þ.á m. kitlleiki. Þá hafi átt að finna stað á líkama ákærða þar sem hann kitlaði og ef sá staður fyndist hafi átt að greiða fyrir það. Hafi T snert alla staði á líkama ákærða fyrir utan kynfæri og ákærða aldrei kitlað. Hafi verið greinilegt að ákærði hafi viljað að honum yrði kitlað á kynfærunum. Þá hafi ákærði farið í svokallaðan viskustykkisleik, en í því tilviki hafi átt að nota viskustykkið til að hylja hluti og átt að reyna finna út hvað væri undir viskustykkinu. Hafi ákærði látið T vinna og látið hana fá pening í staðinn. Annar aðilinn hafi farið út á meðan hinn hafi sett viskustykkið yfir. Leikurinn hafi þróast yfir í að er T hafi komið inn hafi ákærði verið með viskustykkið yfir typpinu á sér. T kvaðst a.m.k. hafa verið orðin 5 ára þegar þetta var því hún hafi áttað sig á því hvað væri í gangi. Engu að síður hafi hún komið við viskustykkið og sagt við ákærða að hún vissi hvað þetta væri. T kvað þessa atburði hafa átt sér stað á heimili hennar og hafi systur hennar ekki verið heima. Foreldrar hennar hafi verið að skilja á þessum tíma. Kvaðst T hafa skammast sín mikið og ekki þorað að segja upphátt við ákærða hvað þetta væri. Kvaðst hún samt hafa viljað fá peninginn fyrir að hafa vitað hvað hafi verið undir. Um þetta hafi spunnist rökræður og hafi hún m.a. sagt foreldrum sínum frá þessu þar sem hún hafi óttast að ákærði myndi svíkja hana um peningana. Einnig kvaðst T minnast þess að hafa setið í kjöltu ákærða í barnaafmæli og hafi henni fundist óþægilegt að sitja í fanginu á honum þar sem typpið á honum hafi verið hart. Einu sinni, þegar T hafi verið 9 eða 10 ára, hafi þær systur verið að leik heima hjá ákærða á heimili foreldra hans í [...]hverfi í Reykjavík. Hafi T og D áttað sig á því að yngri systir þeirra, E, var ekki lengur á staðnum. Án þess að þurfa að ræða hlutina hafi T og D vitað hvað var í gangi. Hafi verið búið til rifrildi við K og þær síðan ætlað að ná í E. Þá hafi hurð að herbergi ákærða verið læst eða lokuð og tekið stuttan tíma að opna hana. Hafi E verið skömmustuleg á svipinn er þær hafi náð í hana. Komið hafi í ljós að ákærði hafi einnig verið að misnota E. Þær systur hafi hringt í foreldra sína og beðið þá um að koma að ná í sig. Er foreldrar þeirra hafi komið að ná í þær systur hafi D tjáð þeim hvað hafi komið fyrir. Kvaðst T tengja þennan atburð við sjúkrahúslegu bróður síns, en þær systur hafi átt að leika við K, bróður ákærða. Hafi þetta verið í fyrsta sinn sem T hafi heyrt systur sína segja frá þessum hlutum hvað hana varðaði. Þá hafi E að hluta til sagt hvað hafi komið fyrir hana. Allir hafi verið mjög hissa, en þessir tímar hafi verið fjölskyldunni erfiðir þar sem bróðir þeirra systra hafi lent í slysi og hafi legið fyrir dauðanum. Bróðir T hafi lent í slysinu er hún hafi verið 10 ára og hafi hann legið á spítala í 9 mánuði. T kvað þær systur hafa verið sendar á meðferðarheimili 14 ára. Þá hafi þetta mál komið upp og þær sagt frá því. T kvaðst hafa frétt frá frænku sinni, S, að S ætlaði líka að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. T kvað E aldrei hafa viljað ræða það nákvæmlega hvað hafi komið fyrir hana. T kvað kæru sína nú á hendur ákærða ekki hafa leitt til þess að hann yrði ákærður fyrir brot gagnvart sér.

Þ, móðir D og E, kvaðst fyrst á árinu 1993 hafa frétt af því að ákærði hafi áreitt dætur hennar kynferðislega. Tengdi hún atvikið slysi er Æ bróðir þeirra systra hafi orðið fyrir. Í ágúst á árinu 1993 hafi hún og V náð í stúlkurnar í [...] þangað sem móðir ákærða hafi nýlega verið flutt. Í bifreiðinni á leið heim hafi E gefið í skyn að eitthvað kynferðislegt hafi gerst á heimilinu. Hvorki þá né síðar hafi hún lýst því hvað í raun hafi gerst. Þ kvað aðrar dætur sínar hafa tekið undir með E í bifreiðinni að eitthvað hafi gerst. Á þessum tíma hafi fjölskyldan verið harmi slegin vegna þess slyss sem bróðir þeirra systra hafi lent í. Hafi ekkert frekar verið aðhafst í málinu á sínum tíma. D og tvíburasystur hennar, T, hafi lent í óreglu við 11 eða 12 ára aldurinn. Þær hafi verið á aldursbilinu 13 til 15 ára þegar kynferðisbrotamálið hafi aftur komið upp. Þá hafi komið í ljós að þær hafi orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. Hafi Þ ekki fengið að vita um hvað hin ætluðu kynferðisbrot hafi átt að snúast en henni hafi verið sagt að allt væri í réttum farvegi. Hin ætluðu brot hafi komið upp í viðræðum Guðrúnar Höllu Jónsdóttur félagsráðgjafa við D og T. Er D og T hafi verið komnar í [...] á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi þær greint frá því að yngri systir þeirra, E, hafi einnig orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða. Þá hafi Helga Einarsdóttir félagsráðgjafi sinnt þeirra málum. Hafi Helga m.a. vísað Þ og E í viðtal við sérfræðing á vegum Félagsþjónustunnar. Hafi sérfræðingur rætt einslega við E. Það muni hafa verið á árunum 1998 eða 1999. Þ kvaðst hafa fari með E til sálfræðings er E hafi verið 12 ára. E hafi lítið viljað tala um ætlaða misnotkun í gegnum tíðina. D hafi verið opnari og lýst því að ákærði hafi neytt hana til að hafa við hann munnmök. Þ kvað D hafa tjáð sér að hún hafi frétt að ákærði hafi brotið gegn öðrum stúlkum. Hafi D lýst því að nú ætlaði hún að aðhafast eitthvað í sínu máli og að loks hafi hún öðlast kjark til að gera eitthvað. Staða D hafi verið slæm er hún hafi verið í [...]. Hafi henni þá gengið erfiðlega að taka málið upp gagnvart foreldrum sínum. Þ kvaðst telja að hin ætluðu brot hafi haft mikil áhrif á allar dætur hennar. Óstöðugleiki, flökt og biturð hafi einkennt líf þeirra systra. Sjálfsmat þeirra hafi verið lítið sem ekkert og þær átt í erfiðleikum í samskiptum við hitt kynið og átt erfitt með að mynda trúnaðarsambönd við karlmenn. Þ kvaðst minnast þess að E hafi sérstaklega óskað eftir því við föður sinn að ákærði kæmi ekki í fermingarveislu hennar. Hafi faðir hennar ætlað að sjá til þess. Þrátt fyrir það hafi ákærði komið í veisluna og kvaðst Þ hafa tekið eftir því að dóttur hennar hafi liðið illa í veislunni. Sé þetta það eina er E nefni þegar rætt sé um fermingarveisluna hennar. Þ kvaðst telja að ákærði hafi rætt við móður ákærða á sínum tíma vegna málsins. Kvaðst hún hafa frétt að ákærði ætlaði í meðferð hjá sálfræðingi vegna þess. Kvaðst Þ aldrei hafa rætt málið sjálf við móður ákærða.

V, faðir D og E, kvað dætur sínar D og T hafa verið í óreglu er þær hafi verið 14 ára gamlar. Hafi þær m.a. verið vistaðar á vegum Barnaverndar Reykjavíkur í [...]. Kvaðst V þá hafa fengið af því fregnir frá Helgu Einarsdóttur félagsráðgjafa að þær hafi sætt kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða. Hafi Helga talað um að málið yrði tekið upp á viðeigandi hátt. Kvaðst V ekkert hafa frétt af málinu en kvaðst þó hafa reiknað með að eitthvað yrði gert. Hafi V rætt málið við móður ákærða. Hafi móðir ákærða sagt V að ákærði hafi gengið til sálfræðings vegna þessa. Eftir það hafi þau ekkert rætt málið frekar. V kvað móður ákærða hafa tjáð sér að ákærði hafi játað að hafa brotið gegn D og T. V kvaðst telja að E hafi verið um 9 ára gömul er D og T hafi tjáð honum að E hafi einnig lent í ákærða. Hafi V reynt að ræða málið við E, en hún ekkert viljað við hann tala um það. Hafi V þá verið nýbúinn að missa son sinn af slysförum, en hann hafi lent í slysi [...] 1993. Hann hafi dáið í [...] 1994. Hafi V því ef til vill ekki gefið málinu nægjanlegan gaum á sínum tíma. V kvað systur sína hafa haft samband við sig símleiðis vorið 2007 og spurt hann hvort dætur hans væru búnar að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Hafi V þá ekkert verið búinn að heyra um kæru þeirra systra. Hafi hann fengið þær fréttir frá systur sinni að S og U hafi einnig lagt fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. V kvað talsverðan samgang á sínu tíma hafa verið á milli fjölskyldu sinnar og fjölskyldu systur sinnar. Dætur hans hafi stundum gist á heimili móður ákærða og eflaust farið í nokkur skipti þangað í pössun. Ekki kvaðst V muna sérstaklega eftir að ákærði hafi verið beðinn um að passa stúlkurnar. Hann hafi þó verið á heimili móður hans fram undir það að hann hafi náð 40 ára aldrinum. E hafi oft fylgt systrum sínum er þær hafi farið á heimili systur V til að leika við K, bróður ákærða. V kvaðst ekki muna eftir tilviki þar sem dætur hans hafi ungar að árum hringt í hann og beðið hann um að sækja þær á heimili systur V. V kvaðst aldrei hafa rætt þessi mál sjálfur við ákærða. V kvaðst minnast þess að E hafi óskað eftir því að ákærða yrði ekki boðið í fermingarveislu sína. Ákærði hafi samt sem áður komið í ferminguna í fylgd móður sinnar.

Z, móðir S og U, kvað ákærða vera son systur hennar. Z kvað V hafa rætt við hana fyrir um 14 árum síðan að dætur hans hafi orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. Hafi hún tekið það svo að um væri að ræða þær þrjár systurnar. Þetta hafi verið á árinu 1994, en það tengi hún því að dætur hennar hafi þá gengið með sín fyrstu börn. Kvaðst Z aldrei hafa rætt málin sjálf við D eða E. Z kvaðst hins vegar hafa rætt málið við móður ákærða, eftir að V hafi rætt við hana um málið. Kvaðst Z hafa beðið móður ákærða um að láta I og H, foreldra C, vita um málið. Kvaðst Z sjálf hafa ætlað að gera það, en móðir ákærða beðið um að fá að gera það sjálfs. Z kvað dóttur hennar, S, hafa sagt henni frá því sem lítil stúlka, sennilega 4 ára, að ákærði hafi sagt við hana að hún ætti að koma við typpið á ákærða. Þá hafi mál verið rædd við ákærða á alvarlegum nótum í eitt skipti. Þá hafi ákærði sennilega verið 15 ára. Hafi hann þrætt fyrir verknaðinn. Eftir það hafi foreldrarnir verið grunlausir um alvarleika málsins þar til í febrúar eða mars 2007 er S hafi sagt frá því hve brot ákærða gagnvart henni hafi verið alvarleg og staðið yfir í um 10 ár. Þar sem foreldrarnir hafi á sínum tíma talið að málinu væri lokið hafi þau ekki komið í veg fyrir umgengni ákærða við dætur hennar. Z kvað bróður sinn á sínum tíma hafa tjáð sér að félagsráðgjafi hafi tjáð honum að mál D, T og E myndu halda áfram í kerfinu. Hafi V treyst því að svo yrði.

S kvaðst hafa verið misnotuð kynferðislega af ákærða þegar hún hafi verið á aldursbilinu 4 til 14 ára. Hafi ákærði látið hana koma við typpið á sér og horfa á klámmyndir. Hafi hann á þessum tíma notað nánast hvert tækifæri sem hafi gefist til að gera það. Kvaðst S hafa sagt foreldrum sínum frá þessu á sínum tíma þegar hún hafi verið 4 ára, en málið þá verið afgreitt með því að um væri að ræða ,,hvolpavit”. Kvaðst S telja að faðir hennar hafi ráðist að ákærða vegna málsins á sínum tíma. S kvaðst hafa nýlega kært mál sitt til lögreglu. Kvaðst hún vita til þess að U, systir hennar, hafi einnig orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. Hafi U greint henni frá því að hann hafi farið í feluleik í fjörunni þegar U hafi verið 9 ára gömul. Þar hafi hann sýnt henni á sér kynfærin og beðið hana um að koma við þau. S kvað brot þessi hafa haft alvarleg áhrif á sig. Kvaðst hún hafa átt við andlega erfiðleika að stríða, svo sem þunglyndi og átröskun. Þá hafi hún um tíma þurft að sækja tíma hjá geðlækni vegna þessa. S kvaðst lítið hafa heyrt um hvað hafi komið fyrir frænkur hennar D, T og E. Hafi hún heyrt fyrir 13 eða 14 árum síðan að ákærði hafi látið stelpurnar koma við sig undir teppi. Hafi hún ekki vitað meira um málið þar til fyrir skömmu er hún hafi frétt að ákærði eigi að hafa misnotað D. Kvaðst S ekki vita nákvæmlega hvað þar hafi gerst. Móðir S hafi gert henni grein fyrir þessu. Þá kvaðst S hafa frétt að C og einhverjar vinkonur hennar hafi kært ákærða fyrir kynferðisbrot. Hafi hún fregnað af því frá móður ákærða.

Ö kvaðst hafa verið á aldrinum 7 til 10 ára þegar ákærði hafi oft farið í feluleik með henni í fjöru í vesturbæ Reykjavíkur. Þegar hún hafi fundið hann í fjörunni hafi hann iðulega sýnt henni á sér kynfærin og reynt að fá hana til að snerta þau. Hafi þetta í allt gerst 3 til 5 sinnum. Þá hafi hann oft sagt óviðeigandi hluti við hana sem unga stúlku. Fyrir um 13 árum síðan, á árinu 1994 er Ö hafi verið ófrísk, hafi móðir Ö, Z, greint henni frá því að D og T hafi sagt frá því að þær hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða. Þetta hafi orðið til þess að Ö og systur hennar, U og S, hafi sagt frá því að þær hafi einnig orðið fyrir barðinu á ákærða á sama hátt. Upp frá því hafi þeim systrum verið bannað að umgangast ákærða. Ö kvað systur sína, S, nýlega hafa opnað sig fyrir fjölskyldunni varðandi þessi brot. Í framhaldi af því hafi S lagt fram kæru á hendur ákærða. Þær systur hafi viljað koma í veg fyrir að fleiri börn yrðu fyrir slíku ofbeldi af hálfu ákærða. Hafi þær t.a.m. haft samband við eiginkonu I og greint henni frá því sem komið hafi fyrir þær systurnar. Kvaðst Ö vera þeirrar skoðunar að C hafi sýnt ýmis merki þess að hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Hafi hegðun stúlkunnar, tengsl hennar við drengi og áfengi gefið það til kynna. Hafi Ö heyrt frá móður ákærða um tengsl C við drengi. Þá hafi C einungis verið 13 til 14 ára, en það hafi Ö fundist vera mjög ungt fyrir tengsl við drengi. Hafi þær systur hringt í skóla stúlkunnar fyrir um fjórum árum síðan. Einnig hafi þær hringt í Barnavernd Reykjavíkur vegna þessa.

Í móðir ákærða, kvað mikinn samgang hafa verið á milli heimilis hennar og heimilis V bróður hennar. Hafi mikill samgangur verið við dætur V. Í kvaðst hafa flutt í [...] á árunum 1993 til 1994. Er hún hafi nýlega verið flutt hafi V komið til hennar og gefið í skyn að ákærði hafi gert D dóttur hans eitthvað kynferðislegt. Kvaðst Í hafa brotnað saman við þetta. Hafi málið lítið verið rætt sem hafi verið mistök. Hafi öllum í fjölskyldunni liðið illa út af þessu. Hafi hún á þeim tíma metið það svo að ekki hafi verið um alvarlega hluti að ræða, en það hafi hún byggt á framkomu allra í fjölskyldunni. Kvaðst Í hafa rætt þessa hluti við ákærða, sem hvorki hafi játað né neitað að hafa gert eitthvað kynferðislegt við D. Hafi ákærði verið mjög þunglyndur á þessum tíma, auk þess sem hann hafi drukkið töluvert áfengi. Hafi hún fengið ákærða til að leita til geðlæknis vegna þessa. Í kvaðst ekki hafa heyrt af ætluðum brotum ákærða gagnvart E fyrr en á árinu 2007. Fyrir skömmu síðan hafi komið fram hjá systradætrum Í, þeim U, Ö og S, að þær hafi kært ákærða fyrir kynferðisbrot. Mál þeirra væru þó sennilega fyrnd. Kvaðst Í hafa frétt af málinu á sínum tíma varðandi S, en faðir S hafi þá komið að máli við Í og verið ,,brjálaður” og sagt að eitthvað hafi gerst. Stuttu síðar hafi D sagt við Í að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega og að það hafi staðið lengi. Í kvaðst ekki hafa orðið vitni að neinu misjöfnu í samskiptum ákærða við stúlkurnar. Í kvað ákærða ekki hafa passað dætur V bróður hennar á árunum 1988 til 1994. Verið gæti að hann hafi verið á heimilinu á meðan Í hafi skotist út í búð. Yngsta systirin, E, gæti hafa komið einu eða tvisvar sinnum með eldri systrum sínum í heimsókn er þær hafi verið að leika við K. Kvaðst Í á þessum árum hafa verið varkár gagnvart þessu vegna þess máls sem komið hafi upp gagnvart S. Í kvaðst ekki hafa sagt Z, systur sinni, að ákærði hafi viðurkennt fyrir sér brot sín. Hafi Í aldrei tekið afstöðu til þess hvort ákærði væri sekur um þessi kynferðisbrot.

K bróðir ákærða, kvað D og E vera frænkur sínar. Á meðan K hafi búið að [...] í Reykjavík ásamt fjölskyldu sinni myndi hann eftir því að tvíburasysturnar D og T hafi komið í pössun. Kvaðst K ekki muna eftir að E hafi komið í pössun. Hafi þær systur oftast komið til að leika við K. K kvaðst ekki muna eftir því að ákærði hafi farið í einhverja kitlleiki við hann og tvíburasysturnar á meðan þau hafi búið í [...]. Kvaðst K almennt ekki muna eftir samskiptum ákærða við tvíburasysturnar. Ákærði hafi þó örugglega rætt við þær er þær hafi komið í heimsókn. K kvað ákærða oft hafa leikið við sig. K kvaðst hafa búið með móður sinni í [...]. Ákærði hafi þá verið með herbergi í kjallara fjölbýlishússins. Hafi þetta verið talsvert eftir að móðir K hafi flutt í [...]. Ákærði hafi áður en það var oft sofið í stofunni í [...]. K kvaðst ekki muna eftir tilviki þar sem E hafi verið ein í herbergi með ákærða að [...] eða að hafa þar lent í rifrildi við tvíburasysturnar.

Kristján Már Magnússon sálfræðingur, kvaðst hafa tengst málefnum D, er D hafi verið vistuð að [...] haustið 1999. Þá hafi Kristján unnið sem sálfræðingur og haft skjólstæðinga [...] til meðferðar. D og tvíburasystir hennar, T, hafi verið vistaðar að [...] frá í byrjun mars 1999. Hafi Kristján verið sálfræðingur þeirra þar til þær hafi útskrifast í júní 2001. D hafi rætt við Kristján um ætlað kynferðisbrot gagnvart sér. Ákveðið hafi verið að þær myndu ræða við konu um málið og hafi Guðbjörg Ingimarsdóttir rætt við stúlkurnar. Þá hafi þessir hlutir verið ræddir á svokölluðum fjölskylduhelgum. D hafi ekki rætt hið ætlaða kynferðisofbeldi mikið við Kristján þar sem ætlunin hafi verið að hún myndi ræða það við Guðbjörgu. Þá kvaðst Kristján hafa haldið sig nokkuð til hlés varðandi þetta atriði þar sem reiknað hafi verið með að D færi til skýrslutöku í Barnahúsi vegna málsins. Á þessum tíma hafi foreldrar þeirra verið illa í stakk búnir til að styðja stúlkurnar og hafi verið nokkur ,,hringlandaháttur” í kringum þetta. Hafi D óskað eftir að Guðbjörg myndi hjálpa til við að ræða þessi mál við foreldra hennar, en þær systur hafi óttast viðbrögð foreldranna. Lítill stuðningur hafi verið við D af hálfu foreldranna. D hafi sýnt ýmis einkenni þolanda kynferðisbrots. Engu að síður hafi nokkur lausung verið á heimili hennar. D hafi verið óviss um hver hún væri og verið tortryggin gagnvart öllu. Hafi hún átt í erfiðleikum með að tjá sig. Kvaðst Kristján telja sig muna að D hafi nefnt við sig að hún hafi rætt við foreldra sína um hin ætluðu brot en að það hafi ekki haft nein áhrif á foreldrana. Hafi hún jafnframt kvartað undan því að þurfa að mæta í matarboð þar sem frændi hennar, sem brotið hafi gegn henni, væri.

Þorgeir Magnússon sálfræðingur, kvaðst á sínum tíma hafa komið að málefnum D. Haldinn hafi verið fundur með Helgu Einarsdóttur ráðgjafa í ágúst 2000. Á þeim tíma hafi Þorgeir verið sálfræðingur í fjölskyldudeild Félagsþjónustunnar. Hafi hlutverk þeirrar deildar, allt þar til Barnahúsi hafi verið komið á laggirnar, verið að ræða við börn sem hugsanlega hafi verið misnotuð. Hlutverkið hafi m.a. falið í sér að búa til skýrslu vegna málsins og fylgja síðan málinu eftir. Á fundinum í ágúst 2000 hafi Þorgeir verið gestkomandi sem ráðgefandi aðili. Gera hafi átt áætlun um meðferð málsins, en áður hafi verið búið að reifa málið af hálfu ráðgjafa. Samkvæmt þeim bókunum er Þorgeir hefði undir höndum hafi D og tvíburasystir hennar T upplýst að þær hafi orðið fyrir áreiti. Það hafi reyndar ekki verið nýjar upplýsingar því það hafi komið fram á árinu 1998. Á árinu 1998 hafi líka verið ákveðið að vísa málinu áfram í kerfinu. Það hafi því alls verið haldnir þrír fundir um það efni, á árinu 1998 og tveir á árinu 2000, annar í ágúst en hinn í október. Alltaf hafi verið tekin sama ákvörðunin um að vísa málinu áfram. Þrátt fyrir það sæjust engin merki þess í gögnum stúlknanna um að máli þeirra hafi verið vísað áfram. Á fundinum í október 2000 hafi verið rætt um málefni E. Þar sé skráð í skýrslur að fyrir liggi grunur um kynferðisofbeldi. Sé ritað að stúlkan hafi greint frá kynferðislegri áreitni. Almenna reglan hafi verið sú á þessum tíma að fundir sérfræðinga hafi tekið ákvarðanir um að málum ætti að fylgja eftir í kerfinu. Viðkomandi starfsmaður sem hafi verið með málið hafi síðan átt að fylgja því eftir. Ekki verði séð af gögnum þeirra systra af hverju mál þeirra hafi ekki fengið framgang.

Helga Einarsdóttir ráðgjafi, kvaðst á árinu 1998 hafa starfað hjá Barnavernd. Hafi hún m.a. komið að vistun D, T og E að [...]. Hafi hún verið ráðgjafi á þeim tíma og hennar hlutverk verið að fylgja málum þeirra stúlkna áfram. Á fjölskylduhelgi 23. nóvember 1998 hafi komið fram upplýsingar um að grunur væri um kynferðisofbeldi innan fjölskyldunnar. Helga kvaðst hafa komið lítið að málefnum E. Af gögnum málsins verði ráðið að ætlunin hafi verið að fara fram á rannsókn vegna grunsemda um kynferðisbrot. Kvaðst Helga engar skýringar hafa á því af hverju það hafi síðan ekki orðið reyndin, en ljóst sé af málinu að brotið hafi ekki verið kært á sínum tíma. Skýring á af hverju það sé liggi ekki fyrir í gögnum málsins.

Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins og greindi frá einstökum atriðum varðandi rannsóknina. Staðfesti Kristján að S hafi lagt fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Lögfræðideild embættis lögreglustjóra hafi metið það svo að hugsanleg brot ákærða gagnvart stúlkunni væru fyrnd og hafi málið því ekki fengið frekari framgang hjá lögreglu.

Niðurstaða:

D hefur fullyrt að ákærði hafi brotið gegn henni kynferðislega með því að hafa, þegar D var á aldursbilinu 4 til 10 ára, fengið hana til að þukla á kynfærum ákærða utanklæða, tekið stúlkuna í fang sitt og nuddað getnaðarlim sínum við líkama hennar og í tíu skipti fengið D til að fróa honum og í eitt skipti hafa við hann munnmök. Þessir atburðir hafi átt sér stað á þáverandi heimili ákærða og fjölskyldu hans, fyrst að [...] í Reykjavík þar sem fjölskyldan hafi búið, en síðan eftir skilnað foreldra hafi þessir atburðir gerst á heimili móður ákærða að [...] í Reykjavík. D lagði fyrst fram kæru vegna málsins 17. ágúst sl., eða um 13 árum eftir að hinni ætluðu brotahrinu lauk.

Þá hefur yngri systir D, E, fullyrt að ákærði hafi á árinu 1993 eða 1994 á þáverandi heimili ákærða að [...] fengið E til að fróa honum uns honum varð sáðlát. Lagði E  fram kæru á hendur ákærða á svipuðum tíma og systir hennar, eða um 13 árum eftir að brotið átti sér stað.

Við mat á trúverðugleika framburða D og E er til þess að líta að framburðir vitna í málinu leiða í ljós að á yngri árum D og E bar á umræðu um hugsanleg kynferðisbrot ákærða gagnvart stúlkunum. Að auki bera skjalleg gögn vitni um hið sama. Þannig hefur D fullyrt að í tengslum við brot ákærða samkvæmt 2. tl. ákæru gagnvart E hafi D greint foreldrum sínum og systrum frá að ákærði hafi brotið gegn henni kynferðislega þegar hún var yngri. Nýtur þetta m.a. stuðnings framburðar móður hennar og T, tvíburasystur D. Hafa D, T og móðir þeirra tengt þetta tilvik við þann atburð í lífi fjölskyldunnar að bróðir D og T hafi slasast alvarlega sem leitt hafi til þess að hann var lagður inn á sjúkrahús alvarlega slasaður. Hafi hann látist af slysförunum níu mánuðum síðar, eftir að hafa varið fyrstu þrem eða fjórum mánuðunum á sjúkrahúsi hér á landi. Eftir það hafi hann verið lagður inn á sjúkrahús í [...]. Faðir D og E kveður slysið hafa átt sér stað í júlí 1993. Þá ber föður D og móður ákærða saman um að V hafi komið til fundar við móður ákærða á árunum 1993 eða 1994 og greint henni frá áhyggjum sínum vegna kynferðislegrar hegðunar ákærða gagnvart stúlkunum. Kemur sá tími heim og saman við þann tíma er bróðir D og E var lagður inn á spítala. Þá hefur komið fram að Z, systir V, hafi vitað af þessu en í framhaldi hafi dætur Z, S og Ö, fregnað af málinu.

Þá liggur fyrir í gögnum málsins og var staðfest af sálfræðingunum Kristjáni Má Magnússyni og Þorgeiri Magnússyni, að þegar D og systur hennar voru vistaðar á vegum barnaverndaryfirvalda að [...] á árunum 1999 til 2000 hafi fram komið grunur um að D, T og E hafi orðið fyrir kynferðisbroti á sínum yngri árum af hálfu nákomins aðila. Hafi málið komið í þrígang upp á fundum og kvaðst Þorgeir hafa litið svo á að málið fengi framgang á sínum tíma með því að það yrði kært til lögreglu. Þetta hefur Helga Einarsdóttir, sem á þessum árum starfaði sem ráðgjafi og hafði einkum málefni D með höndum, staðfest. Gat Helga ekki gefið skýringu á því af hverju málið var ekki kært til lögreglu þegar það kom upp á árunum 1989 til 2000, en hún kvaðst hafa reiknað með að svo yrði gert.

Öll sú umgjörð sem hér var rakin þykir ótvírætt bera vitni um að rökstuddur grunur hafi verið uppi um að D, T og E hafi allar orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða er þær voru yngri. Þá liggur fyrir grunur um samkynja brot ákærða gagnvart öðrum frænkum hans en hér hafa verið taldar, en mál þeirra stúlkna hafa ekki fengið framgang eftir að kæra var lögð fram. Lágu á sínum tíma fyrir grunsemdir í þeim málum sem m.a. leiddu til þess að faðir S og Ö ásakaði ákærða um að hafa áreitt dætur hans kynferðislega. Ákærði hefur kannast við það, sem og móðir ákærða. Verður samkvæmt öllu þessu ráðið að innan fjölskyldunnar hafi á árum áður verið talið að ákærði sýndi af sér óæskilega kynferðislega hegðun gagnvart ungum frænkum sínum.

Fram er komið að eftir skilnað foreldra D, T og E hafi hagur systranna verið slæmur og foreldrarnir illa í stakk búnir til að sinna þörfum dætranna. Út frá þessu má slá föstu að fleiri en einn þáttur hafi orðið þess valdandi að þeim systrum vegnaði illa félagslega. Þó svo engum vitnum sé til að dreifa sem hafi séð ákærða brjóta gegn systrunum þykir dóminum óhætt að leggja framburð D og E til grundvallar niðurstöðu. Er það gert á grundvelli þess að stúlkurnar hafa frá upphafi verið staðfastar og sjálfri sér samkvæmar í frásögn sinni. Er framburður þeirra studdur raunverulegum atvikum í lífi systranna á þeirra yngri árum er grunsemdir voru uppi um að ákærði hafi brotið gegn þeim og öðrum frænkum þeirra. Þá hefur ákærði hér að framan orðið sannur að kynhegðun sem hefur beinst að því að láta ungar stúlkur nudda getnaðarlim ákærða, fróa honum og hafa við hann munnmök. Er þar um samkynja brot og hann er hér ákærður fyrir. Með hliðsjón af öllu þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt báðum töluliðum ákæru. D hefur talið að ákærði hafi minnst þrisvar sinnum og að hámarki tíu sinnum látið ákærða fróa honum uns honum varð sáðlát. Með hliðsjón af því verður miðað við að ákærði hafi þrisvar sinnum látið D fróa honum. D hefur lýst því að brotahrinunni gagnvart henni hafi lokið er ákærði hafi brotið gegn E. Með hliðsjón af framburðum fjölda vitna verður slegið föstu að það brot hafi átt sér stað á árinu 1993 og að þá hafi jafnframt lokið brotahrinunni gagnvart D.

Í ákæru er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940, með síðari breytingum, en með lögum nr. 61/2007 voru gerðar gagngerar breytingar á XXII. kafla almennra hegningarlaga. Ákæruvald lýsti yfir í munnlegum málflutningi að ákveðið hafi verið að láta á reyna hvort rétt væri að dæma samhliða fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940 og 1. mgr. 202. gr. laganna þegar um væri að ræða brot gegn barni yngra en 15 ára að aldri. Í réttarframkvæmd á liðnum árum hefur ákæruvald látið við það sitja að ákæra einungis fyrir brot gegn 202. gr. laga nr. 19/1940 þegar kynferðisbrot hefur beinst gegn barni yngra en 14 ára að aldri, en það var aldursviðmiðið fyrir gildistöku laga nr. 61/2007. Verður ekki séð að þær breytingar hafi orðið í löggjöf sem skýra af hverju frá fyrri réttarframkvæmd verði nú horfið. Þá er til þess að líta að ákvæði 202. gr. er sérákvæði sem sérstaklega er ætlað að vernda kynfrelsi barna og ungmenna undir 15 ára aldri. Þá er refsirammi ákvæðanna nú orðinn sá sami, en brot gegn báðum þessum ákvæðum getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Verður við það miðað hér að fella háttsemi ákærða einungis undir 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laganna. Brotahrinu ákærða gagnvart D lauk á árinu 1993. Þá höfðu öðlast gildi lög nr. 40/1992 um breyting á XXII. kafla laga nr. 19/1940, en í þeim var m.a. kveðið á um að brot gegn 1. mgr. 202. gr. laganna varðaði fangelsi allt að 12 árum. Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940, sem kveður á um 15 ára fyrningartíma slíkra brota, eru brot ákærða gagnvart D ekki fyrnd. Sama á við um brot ákærða gagnvart E.

Ákærði er fæddur í ágúst 19xx. Hann hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Brot ákærða eru alvarleg, en hann hefur verið sakfelldur fyrir misjafnlega gróf kynferðisbrot gagnvart sex ungum stúlkum. Eru brotin trúnaðarbrot, en þau hafa beinst að stúlkum er honum var beint og óbeint treyst fyrir. Þá voru sumar stúlkurnar á viðkvæmu þroskaskeiði er brotin áttu sér stað. Er háttsemi ákærða sérlega ámælisverð þar sem tvær stúlknanna voru einungis börn er atvikin áttu sér stað. Með hliðsjón af þessu og með vísan til 1. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 og 1/2 ár.

Réttargæslumenn hafa krafist skaðabóta fyrir hönd brotaþolanna. Krafa A hefur verið rökstudd þannig að A hafi liðið mjög illa þegar ákærði hafi misnotað hana. Hafi atvikin haft gríðarlega mikil áhrif á stúlkuna sem enga virðingu hafi borið fyrir sjálfri sér. Misnotkunin hafi leitt til þess að A hafi staðið sig mun verr í skóla en áður. Hafi hún verið mjög hrædd við ákærða og óttast að ákærða myndi takast að fá hana til að taka þátt í samskonar framferði aftur. Brotin hafi verið mjög gróf og alvarleg gegn persónu- og kynfrelsi stúlkunnar. Að mati dómsins hefur brot ákærða gagnvart A verið til þess fallið að valda henni miska. Eru bætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Ber sú fjárhæð vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Krafa B hefur verið rökstudd með þeim hætti að stúlkan hafi verið barn að aldri er brot ákærða gagnvart henni hafi átt sér stað. Hafi komið fram að stúlkan væri hrædd við ákærða. Hafi ákærði misnotað gróflega vald sitt yfir stúlkunni. Hafi atburðurinn sett mark sitt á andlega líðan stúlkunnar. Með vísan til alvarleika háttsemi ákærða var brot hans til þess fallið að valda B miska. Með vísan til þess er hér að framan greinir eru bætur til hennar hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Ber sú fjárhæð vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Krafa C hefur verið rökstudd með þeim hætti að brot ákærða gagnvart stúlkunni hafi verið margítrekuð. Ákærði sé náin ættingi stúlkunnar og hafi sú staða að hann hafi misnotað trúnaðartraust stúlkunnar verið til þess fallið að auka enn á miska stúlkunnar. Þá hafi fjölskyldulíf stúlkunnar raskast verulega vegna brota ákærða og sambönd stúlkunnar við vinkonur hennar liðið fyrir það. Atburðirnir séu almennt á vitorði jafnaldra stúlkunnar sem hún hafi umgengist og auki það enn á miska hennar og hafi skaðlega áhrif á félagslega aðlögun hennar. Brot ákærða olli C miska. Með hliðsjón af því er hér að framan er rakið og verknaði ákærða eru bætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Ber sú fjárhæð vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Krafa D hefur verið rökstudd með þeim hætti að D hafi liðið mjög illa þegar ákærði hafi verið að misnota stúlkuna. Hafi hún fundið til mikils vanmáttar og skammar og fundist hún sjálf ógeðsleg. Hafi D birgt þessa reynslu lengi inni og að hennar sögn hafi það haft gríðarleg áhrif á allt hennar líf og þá leið sem hún hafi valið í lífinu. Hafi D byrjað mjög snemma í óreglu og byrjað að drekka áfengi 11 til 12 ára gömul. Síðan hafi hún byrjað að nota fíkniefni. Hafi allir í fjölskyldunni vitað af afbrigðilegri hegðun ákærða en enginn talað um það og hafi D þá fundist hún vera vanmáttug gagnvart ákærða. Hafi henni liðið mjög illa yfir því að ekkert hafi verið aðhafst í málinu. Brot ákærða var til þess fallið að valda D miska. Þó svo hún hafi glímt við erfiðar félagslegar aðstæður sem rekja megi einnig til annarra þátta í lífi hennar er ljóst að brot ákærða skiptir talsverðu um líðan hennar. Eru bætur til hennar ákveðnar 600.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Krafa E hefur verið rökstudd með þeim hætti að E hafi liðið mjög illa þegar atvikið hafi átt sér stað, þó svo hún hafi ekki gert sér fulla grein fyrir því. Hafi atvikið haft áhrif á líðan E sem sé í dag mjög spéhrædd og eigi erfitt með að umgangast eldri menn. Eigi hún erfitt með að tjá tilfinningar sínar. Í ljósi þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni á hún rétt á miskabótum úr hendi hans, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Bætur verða ákvarðaðar með hliðsjón af því að framferði ákærða var mjög ófyrirleitið. Er fjárhæð miskabóta ákveðin 400.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Mál vegna brota ákærða gagnvart D og E var höfðað við útgáfu ákæru 24. september 2007 og eru vextir, sem féllu eftir atvikum á kröfur brotaþola fyrir 24. september 2003, því fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en ákærði hefur m.a. haldið uppi vörnum á grundvelli fyrningar. Vextir verða dæmdir þessu til samræmis svo sem í dómsorði segir.

Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum vegna meðferðar málsins fyrir dómi. Þá greiði ákærði flugfargjöld að heildarfjárhæð 52.920 krónur. Að auki greiði ákærði laun réttargæslumanns brotaþolanna. Einnig greiði ákærði þóknun til Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, en Guðrún Björg hafði með höndum réttargæslu fyrir B og C á rannsóknarstigi málsins. Þessar fjárhæðir eru tildæmdar, að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari.

Héraðsdómararnir Símon Sigvaldason, Sigrún Guðmundsdóttir og Sigurður H. Stefánsson kváðu upp dóminn.

Dómsorð

Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 og 1/2 ár.

Ákærði greiði A, 800.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2005 til 27. janúar 2007, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B, 300.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. apríl 2005 til 15. júlí 2007, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði C, 800.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2005 til 15. júlí 2007, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði D, 600.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. september 2003 til 11. október 2007, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði E, 400.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. september 2003 til 11. október 2007, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 2.311.213 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, 1.333.644 krónur og þóknun til réttargæslumanna brotaþolanna Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 194.220 krónur, Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, 155.376 krónur, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 313.989 krónur, Daða Ólafssonar héraðsdómslögmanns, 103.584 krónur og Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, 129.480 krónur.