Print

Mál nr. 460/2000

Lykilorð
  • Tollur
  • Tollskrá

Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. maí 2001.

Nr. 460/2000.

Tölvudreifing ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

 

Tollur. Tollskrá.

Aðila greindi á um tollflokkun tölvuhátalara, sem notaðir eru við tölvur, þegar þeir eru fluttir inn sérstaklega en ekki með ákveðnum tölvum. Laut ágreiningsefnið að túlkun á tollskránni, sem byggir á samræmdri vörulýsingar- og vörunúmeraskrá sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig að þjóðarétti til að fara eftir og er lögfest sem viðauki við tollalögin. Héraðsdómur kvað almennar reglur tollskrárinnar um túlkun hennar kveða á um flokkun vara eftir orðalagi vöruliðar. Með hliðsjón af því þótti rétt að flokka tölvuhátalarana undir vörulið 8515, sem hátalara, en ekki undir vörulið 8471, sem einingu fyrir gagnavinnsluvél. Var Í sýknað af kröfu T. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með þeirri athugasemd, að þar sem T hefði ekki sýnt fram á annað en að eins væri farið með innflutning allra þeirra sem flytja inn staka hátalara yrði málsástæða hans um ólögmæta mismunun ekki tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. desember 2000. Hann krefst þess að úrskurður ríkistollanefndar frá 26. apríl 1999 verði felldur úr gildi og stefndi greiði sér 3.102.287 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. nóvember 1998 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann verulegrar lækkunar dómkrafna áfrýjanda og að málskostnaður verði látinn falla niður.

Málavextir eru reifaðir í héraðsdómi. Svo sem þar greinir varðar ágreiningur málsaðila tollflokkun á hátölurum, sem notaðar eru við tölvur, þegar þeir eru fluttir inn sérstaklega en ekki með ákveðnum tölvum. Aðilar eru sammála um að þeir heyri undir XVI. flokk tollskrár. Hins vegar greinir þá á um hvort þeir eigi við þessar aðstæður að flokkast undir vörulið 8471 í 84. kafla, á sama hátt og þegar þeir eru fluttir inn með tölvu, eins og áfrýjandi heldur fram, eða vörulið 8518 í 85. kafla, svo sem stefndi vill vera láta.

Fyrir Hæstarétti er ekki á því byggt af hálfu áfrýjanda að endurákvörðun tollyfirvalda brjóti gegn ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, svo sem haldið var fram í stefnu hans í héraði. Kemur þessi málsástæða því ekki til úrlausnar réttarins.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar séu nýjar málsástæður þar sem nú sé vitnað til 40. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Áfrýjandi sé með þessu að breyta grundvelli málsins og er því mótmælt. Af hálfu áfrýjanda er á það bent að í stefnu hans í héraði hafi verið á því byggt að í  endurákvörðun tollyfirvalda hafi falist ólögmæt mismunun þar sem ekki hafi verið farið eins með tölvuhátalara þegar þeir voru fluttir inn stakir og þegar þeir eru fluttir inn sem hluti af ákveðinni tölvu. Ekki sé því um það að ræða að verið sé að breyta grundvelli málsins.

Telja verður að með greindum tilvitnunum til stjórnarskrár sé aðeins verið að skjóta frekari lagastoðum undir málsástæðu áfrýjanda og hafi því grundvelli málsins ekki verið raskað. Áfrýjandi hefur hins vegar ekki sýnt fram á annað en að eins sé farið með innflutning allra þeirra sem flytja inn staka hátalara og verður málsástæða hans um ólögmæta mismunun því ekki tekin til greina.

Með þessum athugasemdum en annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber áfrýjanda að greiða stefnda málskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Tölvudreifing ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.