Print

Mál nr. 426/1998

Lykilorð
  • Hnefaleikar
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Upptaka
  • Evrópska efnahagssvæðið
  • Skilorð

Fimmtudaginn 6

Fimmtudaginn 6. maí 1999.

Nr. 426/1998.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Sigurjóni Gunnsteinssyni

Ólafi Hrafni Ásgeirssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Fjölni Þorgeirssyni og

(Tómas Jónsson hrl.)

Ásbirni Kristni Morthens

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Hnefaleikar. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Upptaka. Evrópska efnahagssvæðið. Skilorð.

S, Ó, F og Á voru ákærðir fyrir að hafa brotið lög nr. 92/1956 um að banna hnefaleika með því að hafa kennt hnefaleika og með því að hafa staðið fyrir sýningu á hnefaleikum. Töldu þeir bannið ekki ná yfir þá háttsemi sem ákært var fyrir, þar sem þeir hefðu stundað áhugamannahnefaleika sem hefðu þróast eftir að bannið var sett og hefðu ekki sömu hættueiginleika og hnefaleikar sem þá voru stundaðir. Ekki var fallist á þetta og voru ákærðu sakfelldir fyrir brot sín, enda þóttu lögin hvorki vera fallin brott fyrir notkunarleysi né vera andstæð jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ákvörðun refsingar var frestað skilorðsbundið en ákærðu gert að þola upptöku á ýmsum búnaði til hnefaleikaiðkunar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. október 1998 að ósk allra ákærðu, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins til refsiákvörðunar, staðfestingar á sakfellingu ákærðu og upptöku muna. Af hálfu ákærðu er krafist sýknu.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Þar á meðal er sænsk rannsókn frá 1990 á því hvort varanlegur heilaskaði geti stafað af áhugamannahnefaleikum og myndband ásamt reglum um bardagaíþróttina Tae Kwon Do.

I.

Með bréfi 13. apríl 1999, rúmri viku fyrir boðaðan flutning málsins, óskaði skipaður verjandi Fjölnis Þorgeirssonar þess að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, samkvæmt 3. gr. laga nr. 21/1994 þar um, á því hvort lög nr. 92/1956 um að banna hnefaleika brytu í bága við 8. gr., 28. gr., 31. gr. og 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið ásamt síðari breytingum. Samkvæmt gögnum málsins var þessu ekki hreyft í héraði. Þá hefur verjandinn ekki með fullnægjandi hætti orðað þær spurningar, sem hann vill að lagðar verði fyrir EFTA-dómstólinn. Af hálfu ákæruvaldsins hefur þessari ósk verjandans verið mótmælt og á það bent að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið fjalli fyrst og fremst um efnahagslega starfsemi. Hann miði að því að samræma lög og reglur er varða ýmiss konar efnahagsstarfsemi og afnema mismunun milli borgara aðildarríkjanna vegna þjóðernis á ýmsum sviðum þeirrar starfsemi. Margs konar önnur starfsemi falli utan samningssviðsins, þar á meðal hnefaleikar. Verjendur annarra ákærðu hafa ekki látið uppi sérstakar óskir hér að lútandi.

Ákærði Fjölnir er ekki ákærður fyrir efnahagslega starfsemi í máli þessu. Hefur hann ekki lögvarða hagsmuni af því að leitað verði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Ákæran að öðru leyti er tæpast þannig fram sett að telja megi að ákært sé fyrir efnahagslega starfsemi. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gerir ráð fyrir að takmarkanir á hinu svokallaða fjórþætta frelsi geti komið til með hliðsjón af allsherjarreglu, almannaöryggi og almannaheilbrigði, sbr. einkum ákvæði 3. mgr. 28. gr. og 33. gr. Ákærðu eru íslenskir ríkisborgarar og þeir eru eingöngu ákærðir fyrir starfsemi hér á landi. Hvert ríki fyrir sig getur sett reglur sem á framangreindan hátt takmarka réttindi innan sinna endimarka að uppfylltum sjónarmiðum um jafnræði og meðalhóf. Á þessi sjónarmið reynir í málinu vegna varnarástæðna ákærðu sem varða ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Verða ekki talin efni til þess að afla álits EFTA-dómstólsins í málinu.

II.

Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Í héraði voru ákærðu Sigurjón, Ólafur Hrafn og Ásbjörn Kristinn sakfelldir fyrir að hafa 16. október 1997 staðið fyrir og skipulagt sýningu á hnefaleikum í æfingasal Hnefaleikafélags Reykjavíkur að Dugguvogi 19 í Reykjavík, en ákærði Sigurjón var formaður félagsins og Ólafur Hrafn varaformaður. Þá voru ákærðu Sigurjón og Fjölnir sakfelldir fyrir að hafa sýnt hnefaleika í greint sinn. Ennfremur voru ákærðu Sigurjón og Ólafur Hrafn dæmdir fyrir að hafa kennt fjölmörgum mönnum hnefaleika svo sem nánar greinir í dóminum. Var háttsemi þeirra talin varða við ákvæði laga nr. 92/1956, sem banna alla keppni eða sýningu hnefaleika og kennslu þeirra. Loks voru þeir síðast töldu dæmdir til að þola upptöku nánar tilgreindra muna sem taldir voru tengjast þeirri háttsemi sem sakfellt var fyrir.

Ákærðu játuðu allir þessum ásökunum en tóku fram að hér hefði verið um að ræða áhugamannahnefaleika sem í verulegum atriðum væru frábrugðnir hnefaleikum atvinnumanna. Þá væru hér á landi stundaðar aðrar bardagaíþróttir, svo sem Karate, Kickbox, Tae Kwon Do og jafnvel Judo, sem ekki hefðu minni hættueiginleika en áhugamannahnefaleikar, nema síður væri, og væri í sumum leyfð spörk í höfuð andstæðingsins. Væru þær látnar óáreittar af stjórnvöldum. Loks hefði reglum og framkvæmd áhugamannahnefaleika í heiminum verið mjög breytt frá því er lögin voru sett og mætti í raun tala um aðra íþrótt. Ákærðu Sigurjón og Ólafur Hrafn töldu sig hafa haft til hliðsjónar við kennslu sína og sýninguna í greint sinn reglur sænska hnefaleikasambandsins sem staðfestar hafi verið af Alþjóðahnefaleikasambandi áhugamanna.  Hafa reglur þessar verið lagðar fram.

 Breytingarnar munu einkum í því fólgnar að gert hefur verið skylt að bera höfuðhlífar í hnefaleikakeppni áhugamanna. Eiga þær að vernda aftari hluta höfuðsins, augu og augabrúnir. Þetta mun hafa orðið skylt eftir 1956 og vera frábrugðið því sem er við keppni í atvinnuhnefaleikum. Höfuðhlífar eru hins vegar notaðar við æfingar í báðum tilvikum. Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að reglunum hafi aðeins lítillega verið breytt frá 1956. Í aðalatriðum sé um sömu íþrótt að ræða og fyrr og aðeins sé stigsmunur á áhugamannahnefaleikum og atvinnuhnefaleikum.

Stjórn Læknafélags Íslands hefur ályktað um málið og bent þar á Sigurbjörn Sveinsson lækni til upplýsinga um hættueiginleika hnefaleika. Samkvæmt frásögn hans fyrir héraðsdómi munu allir læknar um það sammála að atvinnuhnefaleikar séu hættuleg íþrótt. Þekktar séu langvinnar afleiðingar á miðtaugakerfið af ástundun þeirrar íþróttar. Einnig séu þekkt mjög hættuleg slys sem verði við hnefaleikana sjálfa. Þannig slys verði ekki við áhugamannahnefaleika. Hins vegar liggi ekkert fyrir um langtíma afleiðingar af áhugamannahnefaleikum. Höfuðhlíf dragi að sjálfsögðu úr yfirborðsáverkum á þau líffæri sem hún hlífi, en hún komi ekki í veg fyrir snúningsáverka á höfuð og fram- og aftursveiflu, en það sé aðalatriðið.

 Lögð hefur verið fram sænsk rannsókn frá 1990 um hugsanlega varanlega skaða á heila af völdum áhugamannahnefaleika, sem gerð var af Yvonne Haglund lækni. Niðurstaða læknisins er sú að slíkir hnefaleikar virðist ekki leiða af sér nein alvarleg merki um varanlegan heilaskaða, sé fylgt ströngum áhugamannareglum eins og þær séu í Svíþjóð.

III.

Réttilega er á það bent í héraðsdómi að unnt sé að takmarka athafnafrelsi borgaranna og gera þeim að sæta ákveðnum almennum skilyrðum fyrir athöfnum sínum. Slíkar kvaðir skuli ákvarðaðar með lögum og hafa samfélagslegan tilgang, svo sem að vera til verndar heilsu eða siðgæði og samrýmast lýðræðislegum hefðum samfélagsins. Til þessara takmarkana þurfa því að liggja málefnaleg sjónarmið, en auk þess ber við setningu þeirra að virða jafnræði og stilla þeim í hóf að teknu tilliti til markmiðsins með þeim.

Af greinargerð með lögum nr. 92/1956 og umræðum á Alþingi má ráða að hnefaleikar hafi verið bannaðir til verndar heilsu og til þess að stemma stigu við líkamsáverkum af völdum manna sem vanist hefðu hnefaleikum. Lögin taka til allra Íslendinga jafnt. Fullyrðingar um að hættueiginleikar annarra bardagaíþrótta séu þeir hinir sömu eða meiri eru ekki einar saman rök gegn því að löggjafarvaldið banni hnefaleika, enda sé gætt málefnalegra sjónarmiða. Fallast má á það með héraðsdómi að lög þessi séu ekki fallin niður fyrir notkunarleysi, svo sem verjendur hafa haldið fram. Til þess ber þó að líta í þessu samhengi að á þeim tíma, sem liðinn er frá gildistöku laganna, hefur löggjafinn sett nýjan lagaramma um ýmis lýðréttindi, sbr. stjórnarskipunarlög nr. 97/1995, sem gerðu breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, og lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Má því segja að lagaumhverfið sé orðið nokkuð annað, auk þess sem aðstæður séu um sumt breyttar, svo sem áður er að vikið.

Ákæruvaldið hefur að vísu ekki sýnt fram á að eins brýn heilsuverndarsjónarmið liggi til banns við áhugamannahnefaleikum og var við gildistöku laganna eða eru til banns við atvinnuhnefaleikum. Íslenskir læknar hafa þó bent á að hætta geti stafað frá áhugamannahnefaleikum þótt gætt sé ströngustu reglna. Bardagaíþróttir, svo sem Tae Kwon Do og Kickbox sem verjendur ákærðu vilja miða við, eru nýjar íþróttir hér á landi. Verður því ekkert fullyrt um viðhorf löggjafans til þessara íþrótta. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til röksemda héraðsdóms ber að staðfesta hann um sök ákærðra og heimfærslu til refsiákvæða. Þá þykir mega una við refsiákvörðun héraðsdóms og ákvæði hans um upptöku muna þegar litið er til málavaxta.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Samkvæmt þessari niðurstöðu skulu ákærðu greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar á meðal málsvarnarlaun verjanda sinna, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                    Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærðu greiði sameiginlega allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti. Ákærðu Sigurjón Gunnsteinsson og Ólafur Hrafn Ásgeirsson greiði sameiginlega málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur. Ákærði Fjölnir Þorgeirsson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Tómasar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur. Ákærði Ásbjörn Kristinn Morthens greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 1998.

Ár 1998, miðvikudaginn 8. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í dómhúsinu við Lækjartorg af Hjördísi Hákonardóttur héraðsdómara, kveðinn upp svohljóðandi dómur í sakamálinu nr. 1008/1997: Ákæruvaldið gegn Sigurjóni Gunnsteinssyni, Ólafi Hrafni Ásgeirssyni, Fjölni Þorgeirssyni og Ásbirni Kristni Morthens.

Mál þetta sem dómtekið var í dag er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 9. desember 1997 á hendur ákærðu, Sigurjóni Gunnsteinssyni, Seljavegi 29, Reykjavík, kt. 200966-4309, Ólafi Hrafni Ásgeirssyni, Austurgerði 9, Reykjavík, kt. 030962-3629, Fjölni Þorgeirssyni, Bergstaðastræti 33, Reykjavík, kt. 270671-3149, Ásbirni Kristni Morthens, Eiðistorgi 17, Seltjarnarnesi, kt. 060656-2239 fyrir eftirtalin brot gegn lögum um að banna hnefaleika nr. 92, 1956:

I.

Ákærðu, Sigurjón, Ólafur Hrafn og Ásbjörn Kristinn, með því að hafa fimmtudaginn 16. október 1997 staðið fyrir og skipulagt keppni og sýningu á hnefaleik í æfingasal Hnefaleikafélags Reykjavíkur að Dugguvogi 19 í Reykjavík, sbr. II. lið en ákærði Sigurjón var formaður félagsins og Ólafur Hrafn varaformaður.

II

Ákærðu, Sigurjón og Fjölnir, með því að hafa í nefnt skipti, sbr. I. lið, keppt í og sýnt hnefaleik og notað við það meðal annars hnefaleiksglófa.

III

Ákærðu, Sigurjón og Ólafur Hrafn, með því að hafa á árunum 1992 til 1997 í Reykjavík kennt fjölmörgum mönnum hnefaleik svo sem hér greinir og notað við kennsluna hnefaleiksglófa og önnur tæki, sbr. IV. lið, sem ætluð eru til þjálfunar hnefaleikara:

1. Ákærði, Sigurjón, frá seinni hluta árs 1992 til fyrri hluta árs 1994 í æfingastöðinni Gallerí í Mörkinni 8 og frá árinu 1994 til 1996 í Eróbik Sport í Faxafeni 12, sem ákærði Sigurjón rak báðar og frá júlí 1997 hjá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur í Dugguvogi 19, sem ákærðu Sigurjón og Ólafur Hrafn stofnuðu og ráku í félagi.

2. Ákærði, Ólafur Hrafn, frá febrúar 1992 til miðs árs 1993 í æfingastöðinni Gallerí í Mörkinni 8, frá ágúst til október 1994 í Eróbik Sport í Faxafeni 12, árið 1995 í Gym 80 að Suðurlandsbraut 6 og frá miðju ári 1997 hjá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur.

IV

Framangreind brot teljast varða við 1. gr. og 2. gr., sbr. 3. gr. laga um að banna hnefaleika nr. 92, 1956, sbr. 27. gr. laga nr. 116, 1990.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og jafnframt að ákærðu, Sigurjón og Ólafur Hrafn, verði dæmdir til að sæta upptöku samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 á eftirtöldum munum sem fundust við húsleit í æfingasal Hnefaleikafélags Reykjavíkur í Dugguvogi 19 í Reykjavík og lögregla lagði hald á og notaðir voru í framangreindri keppni og sýningu og/eða til kennslu í hnefaleik:

þremur pörum af rauðum hnefaleiksglófum,

tveimur pörum af svörtum hnefaleiksglófum,

tveimur pörum af brúnum hnefaleiksglófum,

pari af rauðum og svörtum hnefaleiksglófum,

stökum svörtum og rauðum sekkhanska,

þremur pörum af svörtum og rauðum sekkhönskum,

pari af grænum hönskum með höggpúðum,

þremur stökum rauðum og bláum hönskum með höggpúða,

höggpúða fyrir handlegg,

svörtum hnefaleikasekk,

ljósum hnefaleikasekk,

ljósum hnefaleikasekk vöfðum svörtu límbandi,

hvítum og svörtum hnefaleikasekk,

tveimur appelsínurauðum belgjum,

svörtum dropa,

dropahaldara,

tveimur stykkjum af gulum munnstykkjum,

keðjum fyrir hnefaleikasekki,

stuðpúðum í horn á hnefaleikahring,

gólfdúk úr hnefaleikahring,

snæri til að festa niður gólfdúk í hnefaleikahring,

þremur köðlum úr hnefaleikahring,

tveimur festingum fyrir kaðla á súlur úr hnefaleikahring,

tveimur járnsúlum með festingum fyrir kaðla úr hnefaleikahring.

Enn fremur er krafist upptöku samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á eftirtöldum munum sem fundust við framangreinda húsleit og lögregla lagði hald á og notaðir voru í framangreindri keppni og sýningu og/eða til kennslu í hnefaleik:

fimm pörum af rauðum hnefaleiksglófum,

stökum rauðum hnefaleiksglófa,

pari af brúnum hnefaleiksglófum,

pari af svörtum sekkhönskum,

appelsínurauðum belg,

appelsínurauðum dropa,

tveimur dropum,

tveimur dropum á línu, svörtum og rauðum,

svörtum dropa,

gulri höfuðhlíf,

tveimur rauðum höfuðhlífum,

setti af lotuspjöldum.

Loks gerir sækjandi kröfu um að ákærðu verði dæmdir til að greiða hæfileg saksóknarlaun í ríkissjóð.

Verjandi ákærðu, Sigurjóns og Ólafs Hrafns, krefst aðallega að ákærðu verði sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að ákvörðun refsingar ef til kemur verði frestað skilorðsbundið. Einnig er þess krafist að upptöku eigna verði hafnað að öllu leyti eða að hluta. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Verjandi ákærða, Fjölnis, gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu, en til vara að dæmd verði vægasta refsing sem lög leyfa og refsingin verði skilorðsbundin, ef refsivist er dæmd. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Verjandi ákærða, Ásbjörns Kristins, gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu, en til vara að dæmd verði vægasta refsing sem lög leyfa og refsingin verði skilorðsbundin. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði ásamt málsvarnarlaunum.

Ákærði, Sigurjón, játaði þá háttsemi sem lýst er í ákærulið I en neitaði að um saknæma háttsemi hefði verið að ræða. Hann gerði þá athugasemd við lýsingu í ákæru að ekki hefði verið um keppni að ræða. Varðandi ákærulið II gerði ákærði þá athugasemd við orðalag ákærunnar að hann hafi ekki keppt í hnefaleik, þar sem ekki hafi verið um keppni að ræða, en hann kvaðst játa að hafa sýnt ólympíska hnefaleika. Ákærði neitaði að þar hefði verið um saknæman verknað að ræða. Varðandi ákærulið III, tölulið 1, kvaðst ákærði játa þá háttsemi sem þar er lýst með þeirri athugasemd að um ólympíska hnefaleika hafi verið að ræða og enn fremur gerir hann athugasemd við það tímabil sem tilgreint er í tölulið 1 þannig að kennslan hafi verið frá seinni hluta árs 1992 til mars 1994 annars vegar og frá september 1994 til loka árs 1995 hins vegar og síðan frá júlí til október á árinu 1997. Ákærði telur að hér hafi ekki verið um refsiverðan verknað að ræða. Ákærði mótmælti kröfu um upptöku þeirra muna sem taldir eru í ákæru.

Ákærði, Ólafur Hrafn, játaði þá háttsemi sem lýst er í I. lið ákærunnar að öðru leyti en því að þar hafi verið um sýningu á ólympískum hnefaleikum að ræða en ekki keppni. Ákærði neitaði að hér hefði verið um refsiverðan verknað að ræða. Varðandi ákærulið III, tl. 2, gerði ákærði þá athugasemd að um hafi verið að ræða kennslu í ólympískum hnefaleikum og játar að öðru leyti þá háttsemi sem þar er greind en neitar að þar hafi verið um refsiverða háttsemi að ræða. Ákærði gerir þá athugasemd enn fremur við ákærulið III, tl. 2, að það tímabil sem um hafi verið að ræða sé febrúar 1992 til mars 1993, ágúst til október 1994, janúar til mars 1995 og október til desember 1995 og loks frá júlí til október á árinu 1997. Ákærði mótmælti kröfu um upptöku þeirra muna sem taldir eru í ákæru.

Ákærði, Fjölnir, játaði þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir samkvæmt ákærulið II en gerði þá athugasemd við orðalag ákærunnar að um ólympíska hnefaleika hafi verið að ræða.

Ákærði, Ásbjörn Kristinn, játaði þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákærulið I, en gerði þá athugasemd við orðalag ákærunnar að hér hafi verið um sýningu að ræða en ekki keppni, og að um sýningu á ólympískum hnefaleikum hafi verið að ræða. Hann neitaði því að um saknæma háttsemi hefði verið að ræða.

Ákærðu eru áhugamenn um hnefaleika og vilja að afnumið verði það bann sem lagt var á keppni, sýningu og kennslu í hnefaleikum með lögum nr. 92, 1956. Leggja þeir einkum áherslu á að iðkun hnefaleika í dag sé með allt öðrum hætti en var þegar framangreind lög voru sett, bæði hvað varði öryggisbúnað iðkenda og keppnisreglur. Telja þeir breytinguna svo mikla að lögin eigi ekki við. Enn fremur að þessi lög séu fallin brott fyrir notkunarleysi. Þá telja þeir að ýmsar aðrar íþróttagreinar sem séu viðurkenndar og mikið stundaðar, svo sem karate, júdó, kickbox eða sparkbox og taekwondo séu enn ofbeldisfyllri og hættulegri en hnefaleikar, og með því að banna hnefaleika eingöngu sé íþróttamönnum mismunað. Af þessum ástæðum neita þeir að háttsemi þeirra geti talist refsiverð.

Málavextir og framburður ákærðu og vitna.

Málavextir eru þeir að hinn 16. október 1997 sýndi Stöð 2, í þættinum "Ísland í dag", beint frá uppákomu að Dugguvogi 19 í Reykjavík. Átti sér þar stað fjölmiðlakynning á nýjum hljómdiski ákærða Ásbjörns Kristins, Bubba Morthens, og keppni eða sýning á hnefaleik sem að sögn ákærðu átti að sýna framkvæmd og búnað hnefaleika eins og þeir eru stundaðir af áhugamönnum í dag og þegar keppt er í þessari íþrótt, m.a. á Ólympíuleikunum. Ákærði, Fjölnir, telur að um raunverulega keppni hafi verið að ræða, en aðrir ákærðu bera að þetta hafi aðeins átt að vera sýndarkeppni. Sýningin fór fram í hnefaleikahring í æfingasal Hnefaleikafélags Reykjavíkur. Í hringnum voru ákærðu, Sigurjón og Fjölnir, og Ólafur Hrafn var dómari en Ásbjörn Kristinn kynnti. Ólafur Hrafn og Sigurjón halda því fram að þetta hafi aðeins átt að vera pot eða laus högg og dómarinn hafi aðeins verið til staðar sýningarinnar vegna og bar Ólafur Hrafn að ákveðið hefði verið fyrirfram að niðurstaðan yrði jafntefli og að dómarinn myndi lyfta höndum beggja þátttakenda. Hann kvaðst ekki hafa verið eiginlegur dómari og ekki kunna til þess. Fjölnir hafi hins vegar veitt mun fastari högg en ætlunin var og sýningin farið úr böndunum. Á myndbandsupptöku af sjónvarpsútsendingunni má sjá að fljótlega blæddi úr nefi Sigurjóns, og greip dómarinn inn í leikinn til þess að hann gæti þurrkað af sér blóð. Sigurjón lýsti því fyrir dóminum að hann fengi mjög gjarnan blóðnasir, hann hefði marg nefbrotnað og væri viðkvæmur í nefi. Ólafur Hrafn staðfesti þetta, kvað Sigurjón auðveldlega fá blóðnasir og því hefði hann vitað, þegar blæddi úr Sigurjóni, að þetta væru ekki alvarleg meiðsli. Ákærði Sigurjón kvað uppákomuna hafa verið sniðna að þörfum fjölmiðla og minna hafi orðið úr undirbúningi en ætlað var. Þykir ekki ástæða til að rengja þessa lýsingu.

Ekki er ljóst nákvæmlega hver átti frumkvæðið að þessari uppákomu, og verður að ganga út frá því að ein hugmynd hafi leitt af annarri og hlutirnir þróast á þann hátt að ákveðið var að útgáfukynning ákærða, Ásbjörns Kristins, yrði haldin í húsnæði Hnefaleikafélags Reykjavíkur og eitt af þeim atriðum sem bjóða skyldi upp á yrði sýning á hnefaleikum. Ásbjörn Kristinn bar fyrir dóminum að hann veldi gjarnan óvenjulega staði fyrir útgáfukynningar sínar eða blaðamannafundi í tengslum við útgáfu hljómdiska sinna og væri þetta þáttur í listrænni tjáningu hans. Ákærði Sigurjón mun hafa haft samband við ákærða Fjölni, sem var erlendis, og kveðst hafa spurt hvort hann væri til í að taka þátt í sýninu á því hvernig hnefaleikakeppni færi fram. Ákærði, Ólafur Hrafn, mun hafa haft samband við fréttamenn á Stöð 2 sem hann vissi að hefðu áhuga á málinu. Hugsýn ákærðu var að halda Íslandsmót í hnefaleikum ef leyfi fengist. Ákærði, Fjölnir, kvaðst hafa komið til leiks erlendis frá í þeim tilgangi að keppa í hnefaleikum í fyrsta sinn á Íslandi síðan hnefaleikar voru bannaðir. Hafi markmið hans verið að verða fyrsti Íslandsmeistari í hnefaleik. Framburður Fjölnis bendir til þess að hann hafi talið að Íslandsmótið ætti að fara fram í þetta tiltekna sinn, en ganga verður út frá því að hann hafi misskilið málið enda augljóst að slíkt mót þarf meiri undirbúning en þarna var viðhafður. Á meðan á sjónvarpsútsendingunni stóð fór fram skoðanakönnun. Voru áhorfendur ítrekað hvattir til að hringja í ákveðin símanúmer og lýsa skoðun sinni á því hvort viðhalda ætti eða afnema bann við hnefaleikum.

Framburður ákærðu og vitna.

Ákærðu gáfu allir skýrslu fyrir dóminum og enn fremur voru kölluð til vitni til að bera um framkvæmd hnefaleika, reglur áhugamanna og mismun þeirra reglna sem settar eru af alþjóðasamtökum áhugamanna um hnefaleika annars vegar og hins vegar reglna í hnefaleikum atvinnumanna, sem og um líkamstjón sem hlotist getur af iðkun hnefaleika.

Ákærði, Sigurjón Gunnsteinsson, formaður Hnefaleikafélags Reykjavíkur, kvaðst hafa kennt hnefaleik frá árinu 1992 í Gallerí sport, Eróbik sport og Hnefaleikafélagi Reykjavíkur. Yfirleitt hafi verið kennt í þrjá mánuði í einu frá janúar til mars og frá september til nóvember. Hann hafi kennt tvær annir en síðan hafi verið hlé í tvö ár. Í Eróbik sport hafi hann kennt eina önn, vorönn 1996. Hann hafi ekki kennt frá mars 1996 til júlí 1997. Hann tók hins vegar fram að hann myndi ekki þessar dagsetningar vel nú en hefði kannað þær þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Hann kvaðst ásamt Ólafi Hrafni hafa stofnað Hnefaleikafélag Reykjavíkur í ágúst-september 1997. Hann kvaðst vera formaður félagsins. Hafi um 100 manns stundað þar hnefaleika. Hann kveður þá Ólaf hafa átt eitthvað af þeim búnaði sem lagt var hald á en eitthvað hafi félagsmenn átt. Hann kvað mikið af búnaðinum hafa verið notað áður við aðrar íþróttir, en hann hafi stundað karate í 11 ár. Hann kvað marga hafa komið að því að skipuleggja sýninguna. Ólafur hafi talað við einhverja hjá Stöð 2. Bubbi hafi verið að gefa út plötu og það hafi verið ákveðið að slá þessu saman. Hann kvaðst hafa talað við Fjölni um að taka þátt. Hafi þeir stefnt að því að halda Íslandsmót ef hnefaleikar yrðu leyfðir, en annars í einhverju öðru landi. Hér hafi hins vegar verið um sýningu á keppni að ræða. Kvað hann Fjölni eitthvað hafa misskilið þetta. Kvað hann aðalbúnaðinn hafa verið höfuðgrímur, tannhlífar og hnefaleikahanska. Aðspurður um reglur kvað hann þetta hafa verið sýningu. Miðað hafi verið við reglur í ólympískum hnefaleikum, en tíminn hafi verið ákveðinn 3 lotur 2 mínútur hver. Hafi verið miðað við þarfir sjónvarpsins. Kvað hann þá Fjölni hafa ætlað að hittast oftar en ekki hafi orðið úr að þeir hittust nema einu sinni og færu yfir hvað þeir ætluðu að gera. Til að gera þetta raunverulegra hafi verið hafður dómari, en ákveðið fyrirfram að dómari myndi lyfta höndum beggja í lokin. Hann kvaðst vera með mjög viðkvæmt nef og stundum vakna með blóðnasir. Dómarinn hafi ekki átt að stöðva vegna þessa því að hann hafi verið upp á punt. Hann kvað þá styðjast við reglur sænska áhugamannasambandsins um hnefaleika. Hann kvaðst hafa barist nokkurn tíma fyrir lögleiðingu hnefaleika til þess að hægt væri að halda íþróttamót og iðka íþróttina. Hann kvaðst vita að hnefaleikar hefðu verið bannaðir á Íslandi en taldi svo mikið hafa breyst síðan, að sú íþrótt sem bönnuð hefði verið væri allt önnur en sú sem keppt væri í á Ólympíuleikum, til dæmis reglur um höfuðhlífar og reglur um hvar mætti kýla og hversu langar og margar loturnar væru, einnig reglur um hvenær dómari eigi að stöðva leik o.fl. Sigurinn byggist á því hver fái fleiri stig. Séu reglurnar að öllu leyti miklu strangari en í hnefaleikum atvinnumanna. Kvað hann alltaf verið að herða reglurnar, síðast 1973. Hann kvað áhugamenn um ólympíska hnefaleika hafa leitað eftir inngöngu í Íþróttasamband Íslands. Kvað hann stofnun félagsins og sýninguna á keppninni hafa átt að vera lið í því að fá þetta leyft en sýningin hefði farið úrskeiðis. Hann kvað menn verða að æfa í 3-4 ár til þess að geta tekið þátt í keppnismóti. Hann kvað karate vera miklu harðari íþrótt en hnefaleika. Hann kvað hanska eins og þá sem notaðir eru í keppni á Ólympíuleikum ekki vera meðal þeirra muna sem haldlagðir voru, slíkir hanskar séu þyngri og merktur sá staður sem leyft sé að slá með. Suma hanskana kvað hann vera frá eldri tíma og ekki notaða. Sumir hanskarnir, eins og sekkhanskar, væru aðeins notaðir til að kýla í sekki og aðrir í skuggaboxi. Hanski með höggpúða sé notaður til að slá í og hann sé einnig notaður í öðrum íþróttum við æfingar til dæmis í karate. Þá séu þarna hanskar sem ekki séu notaðir í hnefaleikum heldur í öðrum íþróttum eins og taekwondo. Í sýningu þeirri sem málið snýst um hafi verið notaðir hanskar sem séu nálægt því að vera eins og keppnishanskar. Munu þessir hanskar ekki hafa verið meðal þess sem haldlagt var. Vildi ákærði koma því að, að læknisfræðilegar rannsóknir sem gerðar hafi verið í Svíþjóð sýndu fram á að ólympískir hnefaleikar sköðuðu menn ekki þannig að þörf væri að banna íþróttina. Ákærði staðfesti skýrslur sem teknar voru af honum hjá lögreglu. Hann staðfesti einnig munaskrá yfir haldlagða muni og félagaskrá.

Ákærði, Ólafur Hrafn Ásgeirsson, varaformaður Hnefaleikafélags Reykjavíkur, kvaðst hafa æft hnefaleika í Svíþjóð og kennt þá á Íslandi frá 1992 í Gallerí Sport, Eróbik Sport og Gym 80 og síðan frá miðju ári 1997 í Hnefaleikafélagi Reykjavíkur, Dugguvogi 19. Kennslan hafi ekki verið samfelld, heldur vor og haust alls 6 mánuði á ári. Kennsla 1995 í Gym 80 hafi verið allt árið en hann hafi þá aðeins haft einn mann í einkatímum. Engin kennsla hafi verið á árinu 1996 og til október 1997. Vísaði hann um kennslu sína til lögregluskýrslu. Kvað hann félagsmenn í Hnefaleikafélaginu vera um 100. Hann kvað búnað sem lagt var hald á og var í húsakynnum Hnefaleikafélagsins hafa tilheyrt bæði félaginu og félagsmönnum. Þetta hafi verið hnefaleikaklúbbur og þessi búnaður hafi verið notaður þar. Aðdragandi atburðarins 16. október 1997 hafi verið að Bubbi hafi haft samband, þetta hafi átt að vera uppákoma í útgáfuteiti hans. Þetta hafi ekki verið keppni, aðeins sýning. Dómarinn aðeins verið til skrauts. Í keppni séu fjórir dómarar, og hann hafi ekki réttindi til að vera dómari. Búnaður sem var notaður hafi verið æfingahanskar fyrir hnefaleika, grímur og gómar. Þetta hafi átt að líta út eins og hnefaleikar. Það hafi ekki átt að slá neitt, bara pota. Leikurinn hafi endað með því að þeir hafi tekist í hendur og báðum höndum hafi verið lyft upp, enginn hafi verið sigurvegari. Hann kvaðst þekkja Sigurjón og vita að hann sé með viðkvæmt nef, svo hann hafi ekkert farið úr jafnvægi þótt hann fengi blóðnasir. Hann hafi aðeins stoppað leikin til að leyfa honum að þurrka. Hann kvað hnefaleika áhugamanna og atvinnumanna vera eins og svart og hvítt. Þróunin hafi verið mjög jákvæð og byggist á öryggi. Hann kvað grunnkennslu felast í því að standa rétt, slá í sekki, en lítið sé boxað. Árið 1997 hafi þeir komið sér upp hnefaleikahring og þá hafi loksins verið komin aðstaða til æfinga. Hann kvað þá Sigurjón hafa útbúið hringinn og hafi þeir verið 7 ár að safna þessum munum sem hafi verið haldlagðir. Í áhugamannklúbbum fari maður ekki inn í hringinn nema þjálfari fylgist með og maður verði að hafa grímu, góm og þykka hanska, þykkari hanska en Fjölnir og Sigurjón hafi notað á sýningum. Kvaðst hann aldrei hafa haldið að hann væri að brjóta lög. Hafi hann talið að lögin frá 1956 sem banna hnefaleika væru úrelt, hann hafi verið að vinna að því að fá hnefaleika inn í Íþróttasambandið. Hafi margir talið að lögin væru úrelt og það hafi verið farið að leyfa margar íþróttir þar sem maður noti hendurnar. Hann hafi verið í viðtölum allt frá 1992 í sjónvarpinu og DV og aldrei hafi verið gerð athugasemd eða neitt gert, þeir hafi ekki verið að koma út úr neinum skáp 1997. Ákærði staðfesti skýrslur er hann gaf hjá lögreglunni, munaskrá og félagaskrá.

Ákærði, Fjölnir Þorgeirsson fjölíþróttamaður, kvað aðdraganda atburðarins, 16. október 1997, hafa verið að Sigurjón hafi hringt í hann þar sem hann var í Istanbul og beðið hann að taka þátt í þessu ævintýramáli sem hafi verið lengi í gangi. Hafi honum verið sagt að þar sem ætti fara að leyfa þetta þá væri þessi hnefaleikakeppni og sýning og að það ætti að krýna fyrsta Íslandsmeistara eftir fjörutíu og eitthvað ár. Hann kvað hafa skilið málið þannig að þetta væri keppni og sýning. Sigurjón hafi bara talað við hann og hafi hann skipulagt þetta með Ólafi Hrafni. Búnaðurinn hafi verið ólympískir hnefaleikahanskar, gríma og pungbindi, stuttbuxur og strigaskór. Hanskarnir hafi verið á staðnum. Sigurjón hafi fengið blóðnasir og hafi þá átt að hætta eftir 40 sekúndur samkvæmt reglum og lýsa hann sigurvegara, en leiknum hafi verið haldið áfram þrjár lotur. Komið hafi í ljós að Ólafur hafði ekki réttindi til að vera dómari og hefði því átt að vera annar dómari. Hann kvaðst vera íþróttamaður og hafa marga titla og hafi hann haft áhuga á að fá Íslandsmeistaratitilinn. Daginn sem hann hafi mætt hafi sér verið sagt að þetta ætti að vera sýning. Hann hafi neitað því, hann hafi ekki verið tilbúinn til þess og því komið í þetta sem keppni. Hann hefði verið mikið í fjölmiðlum mánuðina áður og hafi þeir líklega ætlað að notfæra sér það. Hann kvaðst hafa æft hnefaleika erlendis en ekki keppt. Hann hafi verið mikið erlendis og ekki kannað málið sjálfur og talið að þetta væri löglegt. Það hafi verið skoðanakönnun á Stöð 2 um hvort ætti að leyfa hnefaleika, hafi hann talið að það væri lokapunkturinn. Vildi hann styðja það og fá titilinn í leiðinni. Kvað hann föðurbróður sinn hafa verið Íslandsmeistara í hnefaleik þegar þeir voru bannaðir og það hefði höfðað til hans að halda titlinum í fjölskyldunni. Hann kvaðst hafa vitað að Bubbi væri með útgáfutónleika og talið að það vekti athygli. Hann kvað muninn á áhugamanna- og atvinnumannahnefaleikum felast í búnaði, til dæmis væru hanskar þyngri og því ekki eins hættulegir, grímur fyrir andliti, og reglur, sérstaklega varðandi lotur, væru öðruvísi, sem og reglur varðandi dómgæsluna. Í áhugamannaleikum eigi að stöðva leikinn meiðist annar eitthvað, blæði til dæmis, og hafi hinn þá unnið leikinn. Hann kvaðst hafa komið á röngum forsendum til leiks. Hann kvaðst þá hafa verið búinn að heyra að ekki væri farið að leyfa hnefaleika. Kvaðst hann telja aðrar íþróttir vera mun hættulegri, svo sem kickbox, karate og júdó. Kvað hann hnefaleikahanska og púða vera á flestum heilsuræktarstöðvum. Hann staðfesti lögregluskýrslu sína.

Ákærði, Ásbjörn Kristinn Morthens tónlistarmaður, kvaðst hafa verið áhugamaður um hnefaleika í um 30 ár. Hann kvað aðdraganda atburðarins 16. október 1997 hafa verið þann í grófum dráttum að hjá honum hafi staðið fyrir dyrum að gefa út hljómdisk og hafi hann haft það fyrir venju að velja óvenjulega staði í slíkum tilvikum til að vekja athygli á því sem hann væri að gera og þá um leið að hafa einhvers konar uppákomur með. Hann hafi til dæmis haldið blaðamannafundi í fokheldri Perlunni og Sundlaugum Reykjavíkur. Hann hafi heyrt á Stöð 2 að áhugi væri á að filma einhverja hnefaleikara og hafi hann fengið þá hugmynd að halda útgáfuteiti í Dugguvogi. Síðan hafi Jón Ársæll fréttamaður spurt hvort hann mætti filma þetta útgáfuteiti. Hann kvaðst hafa talað við Ólaf um það hvort þeir gætu haft einhvers konar sýningu. Hnefaleikasýningin hafi hins vegar ekki átt að vera aðalatriðið og hafi það ekki komið til fyrr en á síðustu stundu og hann ekki verið alls kostar ánægður með það, því hagur hans sem tónlistarmanns hafi verið sá að platan hans vekti athygli. Engu að síður hafi þetta átt að vera uppákoma eða skemmtiatriði. Hann kvað fjölmiðlamennina hafa verið búna að undirbúa þetta í marga daga. Hann kvaðst hins vegar hafa verið hlynntur því að hafa hnefaleika, hann væri áhugamaður um hnefaleika og vissi að það myndi vekja athygli. Þannig hafi uppákoman tengst því að auglýsa þennan hljómdisk. Hafi þetta verið hluti af listrænni tjáningu hans. Sjálfur kvaðst hann hafa æft hnefaleika í Danmörku sér til heilsubótar, sippað, skuggaboxað og slegið í púða, hann kvað tæki til þessa vera á mörgum heilsuræktastöðvum, og alls staðar þar sem karate eða taekwondo sé stundað. Hann kvaðst þekkja mjög vel til þess munar sem sé á hnefaleikum áhugamanna og atvinnumanna. Hann hafi verið áhugamaður um hnefaleika í 30 ár, hafi kynnst þessu í Danmörku og menn geti nálgast þetta nú á veraldarvefnum. Reglunum hafi oft verið breytt og síðast fyrir rúmlega einu ári síðan, þá hafi verið fyrirskipað að þumallinn væri saumaður inn í hanskann til að koma í veg fyrir augnmeiðsli. Munurinn sé fyrst og fremst sá að atvinnumenn fái greitt fyrir að stunda íþróttina en áhugamenn ekki. Áhugamannahnefaleika geti maður byrjað að æfa 6-7 ára gamall og byrjað að keppa 16 ára en ekki megi keppa eftir 33 ára aldur. Í áhugamannahnefaleikum sé læknir viðstaddur allar keppnir. Fái maður þungt högg, vankist, sé bannað að keppa í 30 til 90 daga og má ekki byrja aftur nema læknir gefi leyfi til þess. Rotist maður, sem sé sjaldgæft, sé skylt að vera á sjúkrahúsi í 48 klukkutíma. Ekki sé leyft að keppa nema með höfuðhlífar. Skýrslur frá Kanadíska læknasambandinu og ólympíska sambandinu greini frá því að innan við 98% keppenda sleppi við meiðsli í áhugamannahnefaleikum og deginum áður hafi lokið Evrópumeistaramótinu í áhugamannahnefaleikum, sem hafi staðið yfir í 10 daga, og hafi ekki orðið nein meiðsli í þeirri keppni. Það sé mjög sjaldgæft að meiðsli verði og þá yfirleitt sé um hreint slys að ræða. Lýsti hann því áliti sínu að hnefaleikar hefðu verið bannaðir á Íslandi 1956 af tilfinningalegum ástæðum en ekki með gildum rökum. Hann kvað þarna hafa farið fram sýningu á hnefaleikum. Þriðji maðurinn í hringnum, dómarinn, hafi verið upp á punt. Hann kvaðst hafa tekið að sér, eftir að lagt hafði verið hart að honum af starfsmönnum Stöðvar 2, að lýsa þessu og hafi það verið óundirbúið því hann hafi ekki verið í því hlutverki þarna. Áður en þessi sýning fór fram kveðst hann hafa talað við bæði Sigurjón og Fjölni, vegna þess að þetta var sýning í hans teiti og hafi komið skýrt fram hjá þeim báðum að þetta væri sýning, og kvaðst hann hafa áminnt þá báða um að sýna léttleika og vera ekkert að taka á, en því miður hafi það ekki gengið eftir. Hafi Fjölni hlaupið kapp í kinn og tekið öðruvísi á þessu. Í sýningu af þessu tagi séu engar sérstakar reglur nema að þar sé enginn sigurvegari. Hann kvaðst hafa litið á þetta sem kynningu og þar af leiðandi hafi engar reglur verið settar niður nema um tíma lotanna og að ekki ætti að slá þungt. Hann kvaðst hafa tekið á móti fólki og útskýrt að þarna færi fram sýning. Aðspurður hvort tilgangur hans með þessari uppákomu hafi verið að koma á framfæri mótmælum gegn banni við hnefaleikum, kvað hann þetta bara vera part af sinni tjáningu, sínu litrófi sem listamaður.

Vitnið, Ellert Schram, forseti Íþróttasambands Íslands, kvað það, að íþróttagrein væri viðurkennd af alþjóða ólympíunefndinni, þýða að viðkomandi íþróttagrein fengi réttindi innan alþjóðlegrar íþróttahreyfingar og heimilað væri að taka hana upp á Ólympíuleikum. Hafi hnefaleikar verið á dagskrá Ólympíuleikanna lengst af þessari öld. Það væri einsdæmi að íþróttagrein væri bönnuð. Hann taldi það vera mál Íþróttasambandsins að ákveða hvort tiltekið fyrirbæri væri íþróttagrein. Fjöldamargar nýjar íþróttagreinar hafi sprottið upp á síðustu árum sem þurfi að skilgreina hvort falli undir þetta hugtak "viðurkennd íþrótt". Að því er hnefaleika varði hafi það aldrei verið vafi að hnefaleikar væru íþróttagrein. Afstaða íþróttahreyfingarinnar sé að öllum sé frjálst að stunda allt það sem teljist íþrótt. Eigi menn að geta leikið sér á eigin áhættu og vísaði vitnið í því sambandi til Jónsbókar. Íþróttahreyfingin lúti hins vegar landslögum og þar af leiðandi sé ekki unnt að taka hnefaleika inn í Íþróttasambandið. Hann kvað það vera viðleitni Ólympíunefndarinnar að gera leikana að vettvangi allra íþrótta. Kvað hann vera til tvenns konar hnefaleika og væru strangari kröfur gerðar til reglna og búnaðar í keppni á Ólympíuleikunum, sem miðaði að því að koma í veg fyrir meiðsli. Kvað hann um allt aðra íþrótt að ræða í dag en þá sem hefði verið stunduð hér 1956. Taldi hann að margar fangbragðaíþróttir sem stundaðar væru á Íslandi í dag væru ekki hættuminni en hnefaleikar og enginn hefði gert athugasemdir við iðkun þeirra. Lýsti vitnið þeirri skoðun sinn að hann teldi það brot á mannréttindum að banna mönnum með lögum að stunda ákveðna íþróttagrein.

Vitið, Sigurbjörn Sveinsson, stjórnarmaður í Læknafélagi Íslands, kvaðst ekki hafa fylgst með breytingum á reglum í áhugamannahnefaleikum og ekki vera kunnugt í smáatriðum um þær breytingar sem þar hefðu orðið. Hann kvað það hins vegar vera ljóst að hnefaleikar atvinnumanna væru hættuleg íþrótt og skaðaði þá einstaklinga sem tækju þátt í þeim. Hættuleg slys yrðu í slíkum leikum og þekktar væru langvinnar afleiðingar þeirra á miðtaugakerfið. Hann kvað einnig vera viðurkennt að slík hættuleg slys yrðu ekki á áhugamannaleikum. Hins vegar hefðu langtímaafleiðingar af völdum áhugamannahnefaleika ekki verið rannsakaðar og lægi ekkert fyrir um þær. Hann vísaði til rannsóknar sem gerð hefði verið á augum áhugamanna sem stunduðu hnefaleika og samanburðarhópi sem hefði gefið afgerandi niðurstöðu um meiðsli í hnefaleikahópnum. Aðspurður kvað hann höfuðhlíf draga úr yfirborðsáverkum en hún kæmi ekki í veg fyrir alvarlega snúningsáverka og fram- og aftursveiflu á höfuð. Hann kvaðst ekki þekkja til sænskrar rannsóknar frá árinu 1973. Hann kvað Læknafélagið telja að löggjöfin hefði reynst vel og ekki ætti að breyta henni nema að vel yfirveguðu máli.

Vitnið, Þorsteinn Einarsson, var íþróttakennari og íþróttafulltrúi ríkisins í 40 ár og var meðlimur í Ólympíunefnd Íslands og síðan ritari fræðsluráðs, eða akademíu, Ólympíunefndar. Hann kvað fyrst hafa verið keppt í áhugamannahnefaleikum á Ólympíuleikunum í St Luis 1904 og aftur í London 1908, en svo næst 1920 í Antwerpen og allar götur síðan. Hann kvað alþjóða ólympíunefndina ekki setja reglur fyrir neinar íþróttir, en hún sjái um að sérsamböndin fyrir hverja grein setji þessar reglur. Árið 1920 hafi Alþjóðasambandið um hnefaleika verið myndað og hafi þá verið gerður greinarmunur á hnefaleikum atvinnumanna og áhugamanna. Áhugamennirnir hafi myndað alþjóðasamtök. Þessi sérsambönd sjái um að semja reglur. Merkasta breytingin sem hafi verið gerð á reglunum frá því sem var hjá atvinnumannahnefaleikum hafi verið að keppt skyldi í þremur lotum sem hver mætti ekki vara lengur en í þrjár mínútur. Þá sé rothögg til dæmis ekki endanlegur sigur, heldur ráði stig. Markmiðið hafi verið heilbrigði og öryggi Hjá atvinnumönnum hafi loturnar mátt vera sex, en lotulengdin tvær mínútur.. Ýmsar fleiri reglur hafi verið settar og breytt. Hann kvað ólympíska hnefaleika ekki vera til. Átt væri við að greinin væri viðurkennd sem keppnisgrein á Ólympíuleikum. Reglur Alþjóðasambandsins gildi á Ólympíuleikum, í heimsmeistarakeppni áhugamanna, Evrópumeistarakeppni áhugamanna, landsmótskeppni áhugamanna sem og á öðrum mótum. Höfuðhlífar og tanngarðshlífar hafi verið til 1956 en það hafi ekki verið skylda að nota slíkt og hafi ekki verið gert. Hann kvaðst mótfallinn því að banna íþróttagrein með lögum, slíkar ákvarðanir eigi íþróttamennirnir sjálfir að taka. Hann kvaðst ekki hafa næga þekkingu á þeim breytingum sem orðið hefðu á íþróttinni á síðari árum til að tjá sig um þær. Hann kvað hnefaleika áhugamanna og atvinnumanna vera sömu íþrótt en reglurnar sem giltu væru ólíkar. Umgerðin væri önnur en íþróttin hin sama. Með lögunum 1956 hafi allir hnefaleikar hvaða nafni sem nefndust verið bannaðir, þetta hafi verið allsherjarbann. Menn hafi ekki mátt eiga hanska heima hjá sér, það hafi ekki mátt sýna myndir eða skrifa lýsingar á hnefaleikakeppni og bannað hafi verið að sýna hnefaleika í kvikmyndahúsum.

Málsástæður aðila

Sækjandi rakti að nokkru sögu hnefaleika í málflutningi sínum og þær reglur sem gilda á mótum áhugamanna. Lögð hafa verið fram gögn þar að lútandi. Kvað hann lotureglur vera óbreyttar frá upphafi alþjóðasamtaka áhugamanna um hnefaleika sem hefðu verið stofnuð 1920. Eðli hnefaleika væri slíkt að atlagan beindist sérstaklega að höfði mótleikara og slys gætu orðið. Markmiðið væri að veikja andstöðu mótleikara með höggum og vinna þannig stig, stig væru í samræmi við fjölda högga. Það væri markmið að slá andstæðing niður og lytu reglur til dæmis að því hvenær það hefði tekist og um ráðstafanir eftir rothögg. Lögum nr. 92, 1956 hefði verið ætlað að ná bæði til hnefaleika atvinnumanna og áhugamanna, enda væri um eina íþrótt að ræða. Samkvæmt lögunum væri bannað að keppa, sýna og kenna hnefaleika. Í þessu fælist takmörkun á athafnafrelsi og þar sem meginreglan væri að allar íþróttir væru leyfðar bæri að skýra bann þetta þröngt. Tilgangur laganna hefði hins vegar verið að koma í veg fyrir meiðsli, lögin væru eins konar slysavörn. Hér væri um árásaríþrótt að ræða en ekki sjálfsvarnaríþrótt. Meðan Alþingi hefði ekki breytt afstöðu sinni væru hnefaleikar bannaðir. Ákærðu hefði verið vel ljóst að hnefaleikar væru bannaðir svo sem fram komi í framburði þeirra og komið hafi fram í fjölmiðlum. Að því er jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar varðar, þá séu allir borgarar jafnir fyrir lögum um að banna hnefaleika og eigi það jafnt við um ákærðu og aðra sem hafi fylgt þeim. Þá sé þjóðfélagi rétt, samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu, að takmarka athafnir af heilbrigðis- eða siðferðisástæðum. Samræmist lögin um bann við hnefaleikum því sáttmálanum. Þessi lög þjóni þeim tvíþætta tilgangi að vernda heilbrigði og siðgæði. Siðferðisreglur séu brotnar ef hegðun teygi sig út fyrir visst viðmið, barsmíðar særi siðferðiskennd almennings. Þá hafi veri leitað álits Læknafélags Íslands og hafi niðurstaða stjórnar félagsins verið að ekki væri rétt að breyta lögunum. Í framburði vitnisins, Sigurbjörns Sveinssonar læknis, hafi komið fram að þótt höfuðhlíf dragi úr höggum, verndi hún ekki gegn snúningsáverkum. Loks sé sannað að ákærðu hafi brotið gegn lögum nr. 92, 1956 með því að skipuleggja sýningu, sýna og kenna hnefaleika. Ákærðu, Sigurjón og Ólafur Hrafn, hafi um árabil safnað munum til hnefaleika og innréttað hnefaleikasal. Þá hafi sýning hnefaleikakeppninnar farið fram á þeim tíma sem hvað mest sé horft á sjónvarp og ákærðu hafi verið ljóst að um lögbrot var að ræða.

Verjandi ákærðu, Sigurjóns og Ólafs Hrafns, vísaði til 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33, 1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97, 1995 um að allir skuli jafnir fyrir lögum. Kvað hann hér á landi vera stundaðar ýmsar íþróttir sem hafi það að markmiði að koma andstæðingi í gólfið eða gera hann óvígan, að sparka í andstæðinginn og slá, jafnvel í höfuð, nefndi hann til dæmis karate, júdó, taekwondo og sparkbox. Þessar íþróttagreinar séu kallaðar sjálfsvarnaríþróttir og hafi þær ekki þekkst hér á landi þegar lög nr. 92, 1956 voru sett. Í hnefaleik skipti vörn ekki síður máli en sókn og gæti íþróttin því kallast sjálfsvarnaríþrótt. Hnefaleikar í dag séu allt önnur íþrótt en sú sem hafi verið bönnuð með lögum 1956. Aðdragandi laganna hafi verið að lögreglumaður hafi hlotið alvarleg meiðsl af völdum einhvers sem talinn var stunda hnefaleika. Engin gögn eða rökstuðningur séu til stuðnings þeim fullyrðingum sem komið hafi fram í greinargerð með lögunum að stórslys og dauðsföll leiddu af hnefaleikum. Hafi lögin farið nær umræðulaust í gegnum þingið. Sú íþróttagrein þar sem flest alvarleg slys verði sé knattspyrna. Þar sé mikil harka og margir stundi íþróttina. Menn hljóti beinbrot, liðbönd slitni, menn vankist og rotist og höfuðmeiðsl hafi hlotist af. Knattspyrna sé ekki bönnuð þrátt fyrir þessar afleiðingar. Það séu því ekki tæk rök að líkja banni á hnefaleikum við einskonar slysavarnir. Löggjafinn hafi ekki séð fyrir þá þróun sem orðið hafi í reglum og búnaði og sem nú gildi við iðkun hnefaleika. Löggjafinn hafi ekki séð fyrir sjónvarp, menn geti nú horft á hnefaleika í sjónvarpi og leigt myndbönd með hnefaleikum. Hér gildi það sama, að um gjörbreytta íþrótt sé að ræða frá því sem löggjafinn bannaði. Allir eigi að vera jafnir fyrir lögum, en ekkert sé aðhafst í sambandi við sjónvarp og myndbönd í dag og ekki sé amast við sambærilegum íþóttum. Í tilviki sem þessu verði að nota mjög þrönga lagatúlkun. Það sem lögin banni sé sú hnefaleikaíþrótt sem stunduð hafi verið hér 1956. Þá bendi ekkert til þess að þau rök sem voru til staðar 1956 séu til staðar í dag og sá læknisfróði maður sem komið hafi fyrir dóminn hafi aðeins getað nefnt eina rannsókn frá 1993. Orsakir þeirra meiðsla sem hún fjalli um, þ.e. á augum, megi ef til vill rekja til þumalfingurs. Nú hafi hnefaleikahanskanum verið breytt með því að sauma þumalinn inn í hanskann til að fyrirbyggja meiðsli á augum. Niðurstaðan sé sú að lög nr. 92, 1956 taki ekki til þeirrar kennslu né til þeirrar sýningar sem ákært sé fyrir. Ekki hafi verið um keppni að ræða 16. október 1997. Enginn hafi staðið uppi sem sigurvegari. Hér hafi verið um að ræða uppákomu til kynningar á geisladiski. Útfærslan hafi verið tjáning listamannsins. Enn fremur séu þessi lög fallin brott fyrir notkunarleysi. Ekki hafi reynt á lögin í 42 ár. Vitað sé að hnefaleikar hafi verið stundaðir í mörgum einkaklúbbum, en þeim hafi ekki verið beitt þrátt fyrir vitneskju ákæruvalds og lögreglu um að þau væru margbrotin. Af því leiði að lögunum verði nú ekki beitt.

Verjandi ákærða, Fjölnis, kvað hann hafa att kappi í íþróttagrein sem sé viðurkennd og keppt sé í á Ólympíuleikunum. Bann við hnefaleikum með lögum nr. 92, 1956 nái ekki til þeirrar íþróttar sem hann hafi verið að keppa í . Ef ekki verði fallist á þetta sé um að ræða brot á 65. gr. stjórnarskrár gegn ákærða, þar sem hvers konar mismunun sé bönnuð á öllum sviðum löggjafar. Lög sem þessi yrðu varla sett nú eftir að 65. gr. stjórnarskrár tók gildi . Hér sé um að ræða gömul lög sem ekki hafi verið breytt og sem valdi mismunun. Árið 1956 hafi þjóðfélagsmyndin verið önnur, þá hafi verið þjóðfélag hafta og banna. Lýsti verjandi búnaði og reglum alþjóðasamtaka áhugafélaga um hnefaleika sem gilda í dag og bar saman við ástandið þegar lögin voru sett. Hann kvað slys í dag í hnefaleikum ekki vera meiri en í öðrum íþróttagreinum og um sé að ræða íþróttagrein sem sé stunduð í flestum lýðræðisríkjum. Íþróttin samræmist markmiði 1. gr. íþróttalaga.

Verjandi ákærða, Ásbjörns Kristins, lagði áherslu á að hlutur hans í uppákomunni hefði verið að tjá afstöðu sína til hnefaleikabannsins. Hann væri þekktur fyrir að hafa skoðanir á málefnum og að láta þau til sín taka. Sett hefði verið á svið eins konar leiksýning til þess að tjá þessa afstöðu til banns á íþróttagrein sem hefði verið bönnuð með lögum stuttu eftir að almenn íþróttalög voru sett, þar sem íþróttir eru skilgreindar og lýstar frjálsar. Að refsa ákærða fyrir þessa tjáningu væri skerðing á tjáningarfrelsi listamanns sem sé verndað af 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 11. gr. laga nr. 97, 1995. Væri þetta bann sambærilegt banni sem sett var við að gefa út rit eldri en frá 1400 nema með samræmdri stafsetningu fornri og fjallað hafi verið um í svonefndu Hrafnkötlumáli. Ekki sé rétt að gera mönnum refsingu fyrir að að gera grín að lagareglu og setja á svið líkingu af hnefaleik í því skyni að vekja menn til umhugsunar um málefni. Vert sé að hyggja að því í þessu sambandi að Íslendingar hafi nú árum saman haft aðgang að sýningum á hnefaleikum á sjónvarpsstöðinni Eurosport. Í máli þessu vanti öll efnisatriði sem lög um að banna hnefaleika frá 1956 taki til og verði því ekki refsað samkvæmt þeim. Þá brjóti lögin í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Niðurstaða.

Tilgangur laga nr. 92, 1956 um að banna hnefaleika var samkvæmt lögskýringargögnum að banna hvers konar hnefaleika á Íslandi. Á þeim tíma hafði verið keppt í hnefaleikum á Ólympíuleikum í hálfa öld. Þær reglur sem farið er eftir í hnefaleikakeppni á Ólympíuleikum eru þær sömu og í öðrum alþjóðlegum keppnum áhugamanna í þessari íþrótt, og hið sama á við um iðkun áhugamanna almennt. Einstaka landssambönd kunna þó að hafa vissar sérreglur á sínu svæði. Hugtakið "ólympískir hnefaleikar" þykir vera villandi þar sem ekki er um að ræða sérstaka íþróttagrein, frábrugðna þeirri sem áhugamenn í hnefaleikum stunda. Ekki er fallist á þá fullyrðingu að hnefaleikar áhugamanna séu í dag önnur íþrótt en sú sem stunduð var á árinu 1956. Hins vegar er upplýst að þróun reglna og útbúnaðar hefur breyst á þessum árum og að markmið þeirra breytinga hefur verið að fyrirbyggja áverka og slys. Ekki verður annað séð, samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja, og rakið hefur verið hér að framan, en að verulegur árangur hafi náðst í þá veru. Hins vegar er ekki fallist á að þessar framfarir valdi því að lög nr. 92, 1956 eigi ekki við um íþróttina í dag. Af því leiðir að sú háttsemi sem ákært er fyrir samkvæmt ákæruliðum I. - III. á undir lög nr. 92, 1956.

Þá er því haldið fram af hálfu verjenda að lög nr. 92, 1956 séu fallin brott fyrir notkunarleysi. Ekki er fallist á það. Hér er ekki um mjög gömul lög að ræða. Á árunum 1994 og 1995 var ákært fyrir háttsemi sem talin var fara í bága við þau. Árin 1993, 1994 og 1995 var á Alþingi flutt þingsályktunartillaga um að skipuð yrði þriggja manna nefnd til þess "að kanna hvort rétt sé að leyfa ólympíska hnefaleika sem íþróttagrein hér á landi". Í febrúar 1995 samþykkti þingið að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Hnefaleikafélag Reykjavíkur er stofnað af ákærðu, Sigurjóni og Ólafi Hrafni, meðal annars sem þáttur í þeirri baráttu þeirra að fá íþróttina viðurkennda á ný og höfðu þeir samband við alþingismenn og Íþróttasamband Íslands í þessu skyni. Ekkert af framangreindum atriðum samrýmist þeirri fullyrðingu að lögin séu fallin úr gildi fyrir notkunarleysi. Þótt það kunni að vera rétt sem verjendur halda fram að á seinni árum hafi lögum þessum ekki verið fylgt fast eftir, að því er lýtur að sýningu í fjölmiðlum á efni um hnefaleika eða með útleigu myndbanda, þá þykir það í sjálfu sér ekki fullnægjandi til þess að lögin verði talin fallin brott fyrir notkunarleysi.

Því er haldið fram að í lögum nr. 92, 1956 felist mannréttindabrot. Hugtakið mannréttindi tekur til tiltekinna grundvallarréttinda. Frelsi manna til sérhverra athafna fellur hins vegar ekki undir hugtakið mannréttindi. Samfélag getur með réttu takmarkað athafnafrelsi þegna sinna eða gert þeim að sæta ákveðnum skilyrðum. Slíkar kvaðir skulu ákvarðaðar með lögum og hafa samfélagslegan tilgang svo sem að vera til verndar heilsu eða siðgæði, og samrýmast lýðræðislegum hefðum samfélagins. Sem dæmi má nefna skyldu til að nota öryggisbelti í bifreið og reglur um meðferð skotvopna. Markmið löggjafans með setningu laga nr. 92, 1956 um að banna hnefaleika var af heilsufarslegum og siðgæðislegum toga. Endurmat á því hvort lögin þjóni í dag þessum tilgangi er á verksviði löggjafarþingsins.

Verjendur telja lög nr. 92, 1956 stangast á við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. laga nr. 97, 1995. Ekki er fallist á þetta sjónarmið. Lögin taka jafnt til allra íslenskra þegna án tillits til kynferðis, skoðana, samfélagsstöðu eða annars þess er máli skiptir. Margvísleg mismunun á sér óumflýjanlega, og eðli málsins samkvæmt, stað í lýðræðislegu samfélagi. Túlka verður 65. gr. stjórnarskrárinnar með hliðsjón af grundvallarréttindum. Lögmæt takmörkun á athafnafrelsi telst ekki mismunun. Fullyrðing um að aðrar skyldar athafnir, hættulegri eða ósiðlegri, séu ekki bannaðar að lögum eru ekki rök fyrir því að bann við tiltekinni háttsemi sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Ekki er fallist á að með sakfellingu sé brotið gegn tjáningafrelsi ákærða Ásbjörns Kristins sem listamanns. Þó að uppákoman væri þáttur í útgáfuteiti hans var hún í sjálfu sér ekki hans hugverk.

Samkvæmt því er hér hefur verið rakið eru ákærðu hver um sig fundinn sekur um þá háttsemi sem lýst er í I., II. og III. lið ákæru, að öðru leyti en því að telja verður að sú háttsemi sem ákært er fyrir í I. og II. ákærulið hafi verið sýning á hnefaleik en ekki keppni. Að því er varðar ákærulið III. verður einnig að leggja frásögn ákærðu sjálfra til grundvallar um það tímabil sem þeir hafa kennt hnefaleik. Ákærði Sigurjón kvaðst ekki muna gjörla hvaða tímabil hann kenndi og vísaði til lögregluskýrslu sinnar. Hann kvaðst hafa kannað málið þegar hann gaf hana. Þykir því rétt að leggja lögregluskýrsluna til grundvallar um þetta atriði. Samkvæmt þessu verður hlé á kennslu beggja ákærðu í eitt og hálft ár, frá lokum árs 1995 til júlí 1997. Mál þetta var þingfest 22. janúar 1998. Sök ákærðu, Sigurjóns og Ólafs Hrafns, vegna kennslu til ársloka 1995 er því fyrnd og eru þeir aðeins sakfelldir fyrir að hafa kennt hnefaleik frá júlí til október 1997. Enginn ákærðu hefur sakarferil sem skiptir máli við ákvörðun refsingar. Í tilvikum allra er ýmist um það að ræða að brotið megi teljast þáttur í baráttu fyrir því að fá lögum nr. 92, 1956 breytt eða að til staðar hefur verið sú trú að gildi þeirra laga væri að minnsta kosti umdeilanlegt. Eins og atvikum er hér háttað þykir rétt að að fresta ákvörðun refsingar allra ákærðu og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.

Með 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 er heimilað að gera upptæka með dómi hluti sem orðið hafa til við misgerning eða hafðir hafa verið til að drýgja brot með, nema þeir séu eign manns sem ekkert er við brotið riðinn. Ekki hefur tekist að upplýsa í máli þessu hvaða hnefaleikahanskar voru notaðir í ofangreindri sýningu hinn 16. október 1997, né hvort þeir eru meðal þess sem lagt var hald á. Eitthvað af þeim munum sem krafist er upptöku á er eign annarra en ákærðu, eitthvað af þeim munum sem krafist er upptöku á er notað við aðrar íþróttir, sem ekki eru bannaðar með lögum, sumir munirnir teljast til minjagripa eða sýningargripa. Ákæran er þannig fram sett að ekki er unnt að sundurgreina munina samkvæmt framansögðu að öðru leyti en því er varðar allt það er tengist hnefaleikahring, sem tekinn var niður í húsnæði Hnefaleikafélags Reykjavíkur að Dugguvogi 19 í Reykjavík og tengist alfarið þeirri háttsemi sem sakfellt er fyrir. Skulu þeir munir sem hér eru taldir ásamt setti af lotuspjöldum gerðir upptækir:

Stuðpúðar í horn á hnefaleikahring,

gólfdúkur úr hnefaleikahring,

snæri til að festa niður gólfdúk í hnefaleikahring,

þrír kaðlar úr hnefaleikahring,

tvær festingar fyrir kaðla á súlur úr hnefaleikahring,

tvær járnsúlur með festingum fyrir kaðla úr hnefaleikahring.

Að öðru leyti þykir verða að vísa kröfu ákæruvaldsins, um upptöku muna þeirra sem lagt var hald á, frá dómi.

Ákærðu skulu allir sameiginlega greiða 100.000 krónur í saksóknarlaun í ríkissjóð. Ákærðu, Sigurjón og Ólafur Hrafn, skulu greiða skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, sameiginlega 100.000 krónur í málsvarnarlaun. Ákærði, Fjölnir Þorgeirsson, skal greiða skipuðum verjanda sínum, Guðmundi Ágústssyni héraðsdómslögmanni, 80.000 krónur í málsvarnarlaun. Ákærði, Ásbjörn Kristinn, skal greiða skipuðum verjanda sínum, Sigurði G. Guðjónssyni hæstaréttarlögmanni, 80.000 krónur í málsvarnarlaun.

Með sókn málsins fór Hrund Hafsteinsdóttir fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

Dómsorð:

Ákvörðun um refsingu ákærðu, Sigurjóns Gunnsteinssonar, Ólafs Hrafns Ásgeirssonar, Fjölnis Þorgeirssonar og Ásbjörns Kristins Morthens, skal fresta í tvö ár frá birtingu dóms þessa að telja og falli hún niður að þeim tíma liðnum haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Eftirtaldir munir skulu gerðir upptækir: Stuðpúðar í horn á hnefaleikahring, gólfdúkur úr hnefaleikahring, snæri til að festa niður gólfdúk í hnefaleikahring, þrír kaðlar úr hnefaleikahring, tvær festingar fyrir kaðla á súlur úr hnefaleikahring, tvær járnsúlur með festingum fyrir kaðla úr hnefaleikahring og sett af lotuspjöldum. Að öðru leyti er kröfu ákæruvaldsins um upptöku muna vísað frá dómi.

Ákærðu skulu greiða sameiginlega 100.000 krónur í saksóknarlaun í ríkissjóð. Ákærðu, Sigurjón Gunnsteinsson og Ólafur Hrafn Ásgeirsson, skulu sameiginlega greiða skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 100.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði, Fjölnir Þorgeirsson, skal greiða skipuðum verjanda sínum, Guðmundi Ágústssyni héraðsdómslögmanni, 80.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði, Ásbjörn Kristinn, skal greiða skipuðum verjanda sínum, Sigurði G. Guðjónssyni hæstaréttarlögmanni, 80.000 krónur í málsvarnarlaun.