Print

Mál nr. 291/2016

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Snorri Snorrason hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Haldlagning
  • Útlendingur
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að haldlagningu farsíma hans yrði aflétt. Hæstiréttur taldi að uppfyllt hafi verið skilyrði 2. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. IX. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til þess að leggja hald á farsímann, enda gætu upplýsingar og gögn í símanum varpað ljósi á hver X væri í raun og veru. Hæstiréttur tók aftur á móti fram að L þyrfti dómsúrskurð til þess að rannsaka efni farsímans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2016 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að haldlagningu farsíma hans yrði aflétt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að haldlagningunni verði aflétt.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms var varnaraðili handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 13. mars 2016, grunaður um að hafa framvísað frönsku kennivottorði annars manns og þannig gerst brotlegur meðal annars við 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í tengslum við rannsókn málsins var farsími og minniskort í fórum varnaraðila haldlagt, en hann hefur neitað að greina lögreglu frá lykilorði sem nauðsynlegt er til þess að fá aðgang að þeim upplýsingum og gögnum sem þar er að finna. Lögreglan telur sig þó geta afritað gögnin en að það muni taka tíma.

Í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 segir að leggja skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla má að þeir ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Þá segir í 2. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga að leiki vafi á hver útlendingur er við komu til landsins eða síðar geti lögregla lagt hald á ferðaskilríki, farseðla og annað sem getur verið til upplýsinga um hver hann er. Varnaraðili hefur játað að hafa við komu til landsins framvísað kennivottorði annars manns. Hann hefur hjá lögreglu sagst heita X og vera fæddur árið 1999 í A. Á hinn bóginn hefur sóknaraðili aflað upplýsinga frá lögreglu í Þýskalandi þar sem borin voru saman fingraför varnaraðila við erlendan gagnagrunn og samkvæmt þeirri rannsókn heitir varnaraðili [...] og er fæddur árið 1995 í B. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002, sbr. IX. kafla laga nr. 88/2008, til þess að leggja hald á farsíma varnaraðila, enda geta upplýsingar og gögn í símanum varpað ljósi á hver hann er í raun og veru.

Það athugast að sóknaraðili hefur gert tilraun til þess að rannsaka efnisinnihald umrædds farsíma án þess að fyrir liggi samþykki varnaraðila eða dómsúrskurður. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs heimilis og fjölskyldu og má ekki skerða einkalíf manns nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Þótt heimilt sé að haldleggja hlut án dómsúrskurðar, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, verður 68. gr. laganna ekki skilin á þann veg að lögregla geti rannsakað efnisinnihald raftækja án þess að fyrir liggi úrskurður dómara. Aðstæður þær sem hér um ræðir eru efnislega sambærilegar þeim sem ákvæði 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 84. laga nr. 88/2008 taka til og samkvæmt lögjöfnun frá þeim er ljóst að lögreglu ber að afla dómsúrskurðar til þess að rannsaka efni farsímans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                            

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2016.

Mál þetta barst Héraðsómi Reykjaness 21. mars sl. með bréfi sóknaraðila dagsett sama dag. Málið var þingfest 23. mars sl. en frestað að beiðni sóknaraðila í þeim tilgangi að kanna afstöðu kærða frekar. Var málið tekið til úrskurðar þann 11. apríl sl. að málflutningi loknum.

                Sóknaraðili er X, sagður fæddur [...] 1999.

Varnaraðili er lögreglustjórinn á Suðurnesjum.

Sóknaraðili krefst þess að lögreglustjóranum á Suðurnesjum verði gert að aflétta haldlagningu á síma, sem hald var lagt á þann 13. mars sl. í lögreglumálinu 008-2016-[...]. Þá krefst kærði málskostnaðar og að hann verið lagður á ríkissjóð.

                Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila og krefst að henni verði hafnað.

I

Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 13. mars 2016 eftir að hafa framvísað persónuskilríkjum annars manns. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði gefið upp raunverulegt nafn sitt og móður sinnar. Gaf hann einnig upp ríkisfang sitt, síðasta heimilisfang og ferðaleið. Hafi kærði verið á allan hátt samvinnuþýður bæði við rannsókn og skýrslutöku hjá lögreglu.

Vísar sóknaraðili um kröfuna til 2. mgr. 102., sbr. 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 3. mgr. 69. gr. sömu laga. Einnig er vísað til 1. mgr. 71. gr. Stjórnarskrár Íslands og 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá kveður lögmaður kærða að 68. gr. laga nr. 88/2008 stangist á við lög nr. 62/1994, sbr. 8. gr. MSE og þannig samkvæmt túlkunarvenju einnig 71. gr. Stjórnarskrá Íslands.

Til stuðnings kröfu sinni vísar sóknaraðili til þess að hann sé tilbúinn til að opna símann og sýna lögreglunni þau gögn sem rannsóknina varði. Hafi því lögreglan allt í höndunum sér sem þörf sé á til að bera kennsl á kærða. Í símanum sé að finna viðkvæmar persónuupplýsingar fyrir aðra en kærða sem sé rannsókninni algerlega óviðkomandi. Á grundvelli meðalhófsreglu telji sóknaraðili því að beita megi vægari þvingunarúrræðum til að ná markmiðum rannsóknarinnar, en með haldlagningu símans. Þá telur sóknaraðili að 68. gr. laga nr. 88/2008 sé svo opið ákvæði að það brjóti gegn stjórnarskrárbundnu friðhelgi einkalífsins skv. 71. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944. Meðal annars vísar kærði til meðalhófsreglunnar sem kemur fram í 12. gr. laga nr. 37/1993 og 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Telur kærði að lögreglu sé óheimilt að skoða innihald símans nema að undangengnum dómsúrskurði.

II

Í skýrslu varnaraðila yfir kærða kemur fram að hann viðurkenni að hafa komið til landsins á fölskum skilríkjum þann 13. mars sl. Við komuna til landsins hafi kærði framvísað kennivottorði útgefnu á [...], gefið út í Frakklandi 21. mars 2011. Hafi niðurstaða á rannsókn kennivottorðsins verið sú að það væri ófalsað en kærði væri ekki réttmætur handhafi þess. Við fyrstu skýrslutöku hafi kærði sagst vera sá sem franska kennivottorðið var gefið út til. Hafi aðilinn sagst hafa ætlað að hitta kærustu sína hér á landi. Kvaðst aðilinn ekki hafa símanúmer hjá kærustunni. Við mynda- og fingrafaratöku hafi aðilinn óskað eftir hæli hér á landi. Hafi hann þá sagst heita X og vera fæddur [...] 1999 í [...] í A. Hann hafi flúið frá A vegna stríðsástands þar, eigi þar enga fjölskyldu nema móður sem búsett væri í [...] og faðir hans væri látinn. Við leit í upplýsingakerfum og gagnagrunnum hafi ekkert fundist á nafn aðilans né á franska kennivottorðið sem hann hafði framvísað. Í yfirheyrslu hjá lögreglu hafi aðilinn sagst hafa fundið franska kennivottorðið á kaffihúsi í Frakklandi.

Þá kemur einnig fram að kærði hafi verið reiðubúinn aðspurður að veita lögreglu upplýsingar um aðgangsorð eða númer að farsíma sínum en á sama tíma ekki sagst vita um lykilorðið að símanum. Lögreglan hafi komist inn í símann og fundið þar meðal annars mynd af öðru vegabréfi á minniskorti sem hafi fundist í fórum hans. Á því vegabréfi hafi verið ljósmynd af kærða en annað nafn komi þar fram, fæðingardagur og uppruni en kærði hafi greint frá við fyrri skýrslutökur. Kærði hafi ekki viljað kannast við það og sagt það aðeins vera ljósmynd en ekki vegabréf. Á þeirri ljósmynd kemur fram að viðkomandi er sagður fæddur [...] 1995 og heita [...] frá B. Þá hafi tvö önnur minniskort fundist í fórum kærða sem læst væru með lykilnúmeri en kærði neitað að gefa upp aðgangsorð að þeim. Þá hafi kærði neitað því að hafa sótt um hæli í öðru landi en við rannsókn málsins hafi komið fram að kærði hafi sótt um hæli í Þýskalandi í desember 2015. Því hafi kærði aðspurður neitað.

Í skýrslutöku þann 16. mars sl. tekur kærði það skýrt fram að hann vilji hvorki ræða við né hlusta á lögreglu. Hafi þá ekki fleiri spurningar verið lagðar fyrir kærða. Í upplýsingaskýrslu kemur fram að í kjölfar skýrslutöku þann 16. mars hafi kærða verið afhentur farsími hans undir eftirliti rannsakara þar sem kærði kvaðst ætla að veita lögreglu aðgang að símanum svo rannsaka mætti innihald hans. Hafi kærði sagt að hann gæti ekki opnað símann nema hafa hann í höndunum en síminn væri opnaður með því að draga línu á milli punkta á snertiskjá símans og þannig teiknað upp ákveðið mynstur. Fljótlega hafi orðið ljóst að tilraunir kærða til að opna símann hafi verið fyrirsláttur og raunverulegt markmið kærða verið það eitt að læsa símanum enn frekar til að torvelda rannsókn málsins. Hafi síminn því verið tekinn aftur af kærða. Hafi kærði, að höfðu samráði við verjanda sinn, spurt lögreglu hvort unnt væri að tryggja að lögregla skoðaði ekki ákveðin gögn sem væru að finna í símanum en þau gögn tengdust öðrum aðilum sem hann hafi ekki viljað blanda inn í málið. Hafi því verið neitað.

Í kjölfar skýrslutöku þann 1. apríl sl. hafi kærði krafist þess að fá gögn málsins afhent. Ítrekað hafi verið reynt að útskýra fyrir honum að lögmaður hans myndi óska eftir afriti af gögnum málsins og ákvörðum um gagnaafhendingu yrði tekin í kjölfarið en ekki væri unnt að afhenda gögn málsins að svo komnu. Kærði hafi brugðist illa við og neitað að yfirgefa skýrslugerðarherbergið og sýnt ógnandi hegðun.

III

Í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 segir að leggja skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla megi að þeir ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafi að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Í 2. mgr. segir að nú sé þess kostur að tryggja sönnun í því skyni sem í 1. mgr. segir án þess að leggja þurfi hald á mun og skuli þá þess í stað beina því til eiganda eða vörsluhafa munarins að veita aðgang að honum eða láta í té upplýsingar, sem hann hafi að geyma, svo sem með því að afhenda afrit af skjali eða annars konar upplýsingum. Í 1. mgr. 69. gr. laganna segir að lögreglu sé heimilt að leggja hald á muni án dómsúrskurðar sbr. þó 2. mgr. sem kveður á um það að séu munir í eigu þriðja manns verði ekki lagt hald á þá nema með úrskurði eða ótvíræðu samþykki eiganda eða vörsluhafa.

Í greinargerð með 1. mgr. 68. gr. segir m.a. að með tilvísun til upplýsinga sem munur hafi að geyma, sé t.d. átt við tölvu. Tölvan sjálf hafi sjaldnast sönnunargildi heldur eigi það við þær rafrænu upplýsingar sem þar sé að finna. Um 2. mgr. segir að stundum sé hægt mögulegt að ná því meginmarkmið, sem að sé stefnd með því að leggja hald á mun, þ.e. að tryggja sönnun í sakamáli, með öðru og vægara móti. Á þann hátt sé unnt að komast hjá því tjóni og óhagræði sem af því leiði að hald sé lagt á mun. Sé þess á annað borð kostur sé til þess ætlast samkvæmt ákvæðinu að í stað þess að leggja hald á mun beini lögregla því til eiganda eða vörslumanns munar að veita aðgang að honum þannig að skoða megi hann og taka af honum myndir í þágu rannsóknar. Einnig að láta í té upplýsingar, sem hlutur hefur að geyma, endurrit af rafrænum upplýsingum úr tölvu.

IV

Eins og mál þetta er vaxið liggur fyrir að sóknaraðili hefur a.m.k. gefið upp tvö nöfn og fæðingardaga hjá lögreglu auk þess sem þriðja nafnið fannst á ljósmynd í síma sóknaraðila. Ekki verður séð að sóknaraðili sé samvinnufús við rannsókn málsins og neitar að svara spurningum lögreglu sem mættu upplýsa málið. Í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 segir að leggja skuli hald á mundi ofl. ef þeir hafa sönnunargildi í sakamáli. Í máli þessu er þegar ljóst að lögregla hefur fundið skjal eða ljósmynd sem gefur til kynna að sóknaraðili reynir að torvelda rannsókn málsins. Þá verður að leggja snjallsíma að jöfnu við tölvur en tekið er fram í greinargerðinni með ákvæðinu að m.a. sé átt við tölvur. Af gögnum málsins liggur fyrir að sóknaraðili hefur ekki sýnt samstarfsvilja og hefur vægari úrræði en haldlagning því ekki reynst mögulegt. Þá tekur dómurinn ekki undir það með sóknaraðila að orðalag 68. gr. laga nr. 88/2008 sé svo opið að það brjóti í bága við friðhelgi einkalífsins sem bundið er í Stjórnarskrá Íslands né 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Sóknaraðili hefur gerst brotlegur við íslensk lög með því að framvísa röngu kennivottorði við komu til landsins. Er málið enn á rannsóknarstigi og verður ekki annað séð af gögnum málsins en að sóknaraðili hafi sjálfur tafið fyrir rannsókninni. Þá verður ekki tekið undir það með sóknaraðila að 71. gr. Stjórnarskrárinnar né að 8. gr. MDE verndi önnur gögn við rannsókn sakamáls en þau sem kærði sjálfur kýs að sýna lögreglu. Þá verður umræddri heimild til haldlagningar ekki jafnað við heimildir og skilyrði XI. kafla laga nr. 88/2008 um upplýsingar úr símum, hlerum ofl. eins og sóknaraðili byggði á í málflutningi sínum, þ.e. að lögregla þurfi úrskurð dómara til að geta skoðað innihald tölvu eða snjallsíma við rannsókn sakamála. Getur haldlagning vissulega skert persónulega friðhelgi manna og veður heimildinni því ekki beitt nema gætt sé meðalhófs og rannsókn máls sé forsvaranleg að öðru leyti. Til að vega upp á móti slíkum óþægindum og mögulegu tjóni sem menn geta orðið fyrir eru rúm ákvæði um skaðabætur vegna meðfarðar sakamála í XXXVII. kafla laganna.

Eins og mál þetta er vaxið telur dómurinn rannsóknarhagsmuni enn vera til staðar þar sem rannsókn málsins er enn í fullum gangi og heimild sé til staðar í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 til að haldleggja umræddan síma í þeim tilgangi að afla hugsanlegra sönnunargagna. Fer sú heimild ekki gegn 71. gr. Stjórnarskrár Íslands né 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna málsins þykir lögregla hafa sýnt fram á að þær rannsóknaraðgerðir sem m.a. felast í því að rannsaka innihald farsíma kærða, geti haft þýðingu og skipt miklu fyrir yfirstandandi rannsókn. Eru samkvæmt ofansögðu ekki skilyrði til að fella haldlagninguna niður.  Verður því að hafna kröfu sóknaraðila í máli þessu.

Málskostnaður verður ekki úrskurðaður.

Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu sóknaraðila X um að lögregla aflétti haldlagningu á farsíma hans er hafnað.