Mál nr. 244/2014

Lykilorð
  • Skuldamál
  • Aðild

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 6. nóvember 2014.

Nr. 244/2014.

 

Guðmundur Benediktsson

(sjálfur)

gegn

Landsbankanum hf.

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

 

Skuldamál. Aðild.

L hf. höfðaði mál gegn G til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á tékkareikningi. G bar því m.a. við að vísa ætti málinu frá héraðsdómi þar sem stefna málsins væri óskýr og illskiljanleg. Þá byggði hann á því að uppi væri aðildarskortur þar sem lánið hefði í reynd verið ,,dulbúið lán“ til félagsins H ehf. og að það væri ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju L hf. að bera samninginn fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ennfremur hefði L hf. ekki gætt ákvæða laga nr. 121/1994 um neytendalán. Í dómi Hæstaréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að engir þeir annmarkar væru á kröfugerð L hf. sem leitt gætu til þess að vísa ætti málinu frá dómi. Kom fram í því sambandi að þrátt fyrir að sá annmarki væri á héraðsdómsstefnu að fyrirsvarsmanns L hf. hefði ekki verið getið leiddi það ekki til frávísunar málsins. Hvað ákvæði þágildandi laga um neytendalán varðaði var tekið fram að samkvæmt a. lið 4. gr. laganna væri neytandi einstaklingur sem ætti lánsviðskipti sem lögin næðu til, enda væru þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu. Fyrir lægi að lánið, sem deilt væri um í málinu, væri að rekja til fjárhagserfiðleika félagsins H, sem G hefði átt hlut í, og lánsfjárhæðin hefði runnið óskert inn á reikning félagsins með vitund og vilja G. Lánið hefði þannig verið tekið í atvinnuskyni af hans hálfu og því giltu ákvæði fyrrgreindra laga ekki um viðskiptin. Með vísan til þessa, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, var staðfest sú niðurstaða hans að taka kröfu L hf. til greina.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. apríl 2014. Hann krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Að því frágengnu krefst hann sýknu af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fallist er á með héraðsdómi að engir þeir annmarkar séu á kröfugerð stefnda sem leiði til þess að máli þessu verði vísað frá héraðsdómi. Fyrir Hæstarétti byggir áfrýjandi á því að það varði frávísun málsins að fyrirsvarmanns stefnda hafi ekki verið getið í héraðsdómsstefnu. Þótt rétt hefði verið að gera það, sbr. b. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, getur sá annmarki ekki leitt til frávísunar málsins. Verður kröfu áfrýjanda um vísun málsins frá héraðsdómi því hafnað.

Áfrýjandi hefur ekki fært haldbær rök fyrir þeirri kröfu sinni að röng beiting héraðsdóms á lögum eigi að leiða til ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins. Kröfu hans þar um er því hafnað.

Samkvæmt 1. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 um neytendalán tóku þau til lánssamninga sem lánveitandi gerði í atvinnuskyni við neytendur. Eftir a. lið 4. gr. laganna var neytandi einstaklingur sem átti lánsviðskipti sem lögin náðu til, enda væru þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu. Fram er komið að tilurð yfirdráttarláns þess, sem um ræðir í málinu, var að rekja til fjárhagserfiðleika hlutafélagsins HBT, sem áfrýjandi átti hlut í, en tilgangur félagsins var framleiðsla á raf- og rafeindabúnaði í vélknúin ökutæki og hreyfla þeirra. Er ágreiningslaust að lánsfjárhæðin rann 9. desember 2009 óskert inn á reikning félagsins með vitund og vilja áfrýjanda. Var lánið því tekið í atvinnuskyni af hans hálfu. Þegar af þeirri ástæðu giltu lög nr. 121/1994 ekki um lántökuna. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

                        Áfrýjandi, Guðmundur Benediktsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. febrúar 2014.

                   Mál þetta, sem var höfðað 14. maí 2013, var dómtekið 17. janúar 2014. Stefnandi er Landsbankinn hf., kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík, vegna útibús 0140, Fjarðargötu 9, Hafnarfirði. Stefndi er Guðmundur Benediktsson, kt. [...],[...],[...].

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 8.324.432 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 8.324.432 krónum frá 8. mars 2013 til greiðsludags.

Einnig er krafist málskostnaðar að mati dómsins, en málskostnaðarreikningur verði lagður fram við aðalflutning málsins ef til kemur. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda. Þá krefst stefndi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda skv. málskostnaðarreikningi er verði lagður fram síðar.

                Hinn 16. október 2013 fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu sem stefndi gerði í málinu, en kröfu hans var hafnað með úrskurði 23. október 2013. 

I.

Í stefnu er málsatvikum lýst þannig að hinn 13. júní 2008 hafi stefndi stofnað veltureikning nr. 9799 við útibú stefnanda að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði. Yfirdráttar­heimild á reikningnum hafi runnið út án þess að uppsöfnuð skuld reikningsins væri greidd og hafi reikningnum í kjölfarið verið lokað 31. desember 2012. Uppsöfnuð skuld reikningsins hafi þá numið 8.324.432 krónum, en það sé stefnufjárhæð málsins. Stefnda hafi verið sent innheimtubréf 8. febrúar 2013 en skuld þessi hafi ekki fengist greidd og því sé nauðsynlegt að höfða mál til heimtu hennar.

Stefndi kveður að aðdragandi málsins sé sá að hann hafi farið 9. desember 2009 ásamt bróður sínum, Jóhanni Ragnari Benediktssyni, þá framkvæmdastjóra HBT hf., og Pétri Christiansen, vini og nágranna Jóhanns Ragnars, til fundar í útibúi stefnanda í Hafnarfirði, í þeim tilgangi að finna leiðir til lausnar a.m.k. á tímabundnum fjárhagsvanda HBT hf., kt. 520908-1020. Báðir aðilar hefðu haft hag af því; stefnandi vegna fyrri lánaviðskipta og stefndi sem hafi átt hlut í félaginu og einnig vegna skyldleikans við framkvæmdastjóra félagsins. Af stefnanda hálfu hafi setið þennan fund Ingimar Haraldsson aðstoðarútibússtjóri og Matthías Gíslason, þáverandi útibússtjóri.

Á fundinum hafi stefnda verið tjáð að HBT hf. og Jóhann Ragnar væru búin að fá hámarksyfirdrætti sem útibúið gæti veitt án samþykkis aðalbankans, eða 8.000.000 kr. Aðalbankinn myndi ekki samþykkja hærri yfirdrætti og þá heldur ekki aðra lánafyrirgreiðslu, þar sem HBT hf. hafi ekki getað veitt tryggingar fyrir endur­greiðslum. Útibúið gæti hins vegar veitt stefnda og Pétri 8.000.000 kr. yfirdrátt hvorum á reikningum þeirra hjá stefnanda, í þágu HBT. hf. Það hafi verið ákveðið og útibúið séð um að millifæra þessar fjárhæðir yfir á reikning HBT. hf., enda hafi verið um lán að ræða til HBT. hf., sem gengið hafi verið frá með þessum hætti svo að ekki blasti við brot á lánareglum stefnanda.

Stefndi hafi verið með reikning nr. 9799 hjá útibúi stefnanda sem hafi verið nýttur í þessum tilgangi, þ.e. að veita 8.000.000 kr. lán til HBT hf. Stefndi hafi stundum greitt vextina af þessu láni, en svo hafi þó farið að þeir hafi hlaðist upp ásamt kostnaði og hafi HBT hf. ekkert getað greitt áður en félagið fór í gjaldþrotameðferð. Stefndi hafi greitt vextina þar sem lánsfjárhæðin var ekki hærri en 8.000.000 kr. Til hafi staðið að stefndi fengi svo vextina greidda frá HBT hf., en félagið hafi ekki getað greitt þá. Beðið hafi verið eftir því að úr rættist með rekstur HBT hf. en það ekki gengið eftir og  stefnandi hafið innheimtu þegar það var orðið ljóst.

Því er mótmælt sem fram kemur í innheimtubréfi stefnanda, dags. 8. febrúar 2013, að útgáfudagur yfirdráttarins hafi verið 13. júní 2008 og að gjalddagi hafi verið 31. desember 2012. Stefndi kveðst hafa fengið tilkynningu um óheimilan yfirdrátt í vanskilum frá 29. október 2010 með tilkynningu stefnanda 8. nóvember 2010. Yfirdrættinum hafi aldrei verið komið í skil. Útgáfudagur yfirdráttarlánsins hafi verið 9. desember 2009, en ekki 13. júní 2008.

Stefndi kveðst ekki hafa verið í viðskiptum við útibúið, þó að hann ætti þennan reikning. Hvorki laun hans né önnur innlánsviðskipti hafi átt sér stað. Stefndi noti þó stundum kreditkort sem hann fékk hjá bankanum, með 200.000 kr. hámarksúttekt á mánuði.   

Stefndi kveðst hafa verið veikur síðustu ár og óvinnufær frá apríl 2009. Hann sé núna 75% öryrki og fái greiddar örorkubætur úr lífeyrissjóði sínum og einnig tímabundið fái hann greitt úr afkomutryggingu. Aðrar tekjur hafi hann ekki. Húsið sem hann búi í sé hjúskapareign konu hans. Á því hafi hvílt þrjú lán frá viðskipta­banka hans, sem búið hafi verið að færa niður í 110% af andvirði hússins. Á bílnum, sem einnig sé hjúskapareign konu hans, hvíli bílalán og nettóeignarhlutur í honum sé enginn.

Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu vitnið Matthías Gíslason, sem var útibússtjóri hjá stefnanda á þeim tíma sem framangreindur fundur átti sér stað, 9. desember 2009. Vitnið sagði að á fundinum hefði verið rætt um HBT hf. Félagið hefði verið í tímabundnum lausafjárvandræðum en talið hafi verið að það ætti góða framtíð fyrir sér. Samkvæmt útlánaheimildum hafi ekki verið heimilt að lána félaginu meira fé en þegar hafði verið gert. Vitnið hefði hins vegar bent á að ef hluthafar gætu komið með peninga inn í fyrirtækið væri það hið besta mál. Upp úr þessum fundi hafi sprottið sú hugmynd að það væri mögulegt að bankinn gæti lánað stefnda persónulega, til að leggja fram hlutafé. Lánið, sem hefði svo verið samþykkt af vitninu og aðstoðar­útibússtjóra, hafi verið tímabundin fyrirgreiðsla til stefnda og hugsað sem viðbótar­hlutafjár­framlag til HBT hf. Þegar stefndi spurði vitnið af hverju ákvæðum laga um neytendalán hefði ekki verið fylgt eftir, fyrst þetta var lán til stefnda en ekki HBT hf., sagði vitnið að ef stefndi hefði fengið ábyrgðarmann hefði hann þurft að fara í greiðslu­mat gagnvart ábyrgðarmanninum. Á þessum tíma hafi þetta verið eðlileg fyrirgreiðsla. Stefndi hefði reyndar ekki verið í miklum viðskiptum við bankann en hann hafi verið hluthafi í félaginu og litið hafi verið á stefnda sem heiðvirðan og góðan viðskiptavin og ekkert verið því til fyrirstöðu að aðstoða stefnda og félagið á þennan hátt. Stefndi og annar einstaklingur hefðu fengið lán og svo hafi það verið þeirra mál að nota fjármagnið til HBT hf. Jafnframt sagði vitnið að aðeins væri gerður lánssamningur þegar um langtímalán væri að ræða, en það hafi ekki tíðkast þegar maður fengi tímabundna yfirdráttar­heimild, eins og í tilviki stefnda. Stefndi benti vitninu á að hann hefði verið veikur á þessum tíma og ekki átt nettóeign í fasteign sinni og svaraði vitnið að það vissi ekki betur en að stefndi hefði verið starfandi sem bæjarlögmaður á þessum tíma og ekki væri endilega litið á nettóeign aðila heldur greiðsluhæfið, þ.e. tekjurnar. Spurt hver hefði séð um millifærsluna af reikningi stefnda til HBT hf. sagði vitnið að einhver starfsmaður hefði gert það og það hefði aldrei verið gert nema að beiðni eiganda. Þá fullyrti stefndi við vitnið að í raun hafi verið um að ræða lán til HBT hf. og sagði vitnið að það væri ekki rétt heldur hefði stefndi lagt fram viðbótarhlutafé í félagið og að væntanlega hafi átt að nota hagnað af fyrirtækinu til að endurgreiða lánið. Þetta hefði verið meginatriði fundarins, að það hafi þurft að koma með meira hlutafé inn í félagið og það hafi verið mál hluthafanna að sjá um það, annars myndi félagið stoppa.    

Vitnið Ingimar Haraldsson, starfsmaður stefnanda, greindi frá því fyrir dómi að á fundinum 9. desember 2009 hafi verið rætt um vanda HBT hf. Vitnið kvaðst ekki muna hvort rætt hafi verið á fundinum sjálfum að veita stefnda fyrirgreiðslu eða hvort vitnið hafi átt að sjá um millifærsluna. Stefndi spurði vitnið hvort ekki færi fram mat á greiðslugetu þegar einstaklingi væru lánaðar 8.000.000 króna og sagði vitnið að það hefði ekki verið viðtekin venja á umræddum tíma. Þetta hafi verið hámarkslán sem útibússtjóri hafi haft heimild til að veita. Þá sagði vitnið að það hefði ekki verið venja að gera lánssamning í tilvikum sem þessum. Yfirdráttarlán hefðu almennt verið veitt í mjög stuttan tíma, en svo hafi kannski teygst úr þeim.

Vitnið Jóhann Ragnar Benediktsson, bróðir stefnda, sagðist hafa farið ásamt stefnda á fundinn 9. desember 2009 til að fá lánafyrirgreiðslu til HBT hf. og stungið hafi verið upp á því, vegna lánareglna útibúsins, að það væri einfaldara, svo þetta þyrfti ekki að fara í aðalbankann, að lána félaginu í gegnum stefnda.

II.

Málatilbúnaður stefnanda er reistur á því að hinn 13. júní 2008 hafi stefndi stofnað veltureikning nr. 9799 við útibú stefnanda að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði. Yfirdráttarheimild á reikningnum hafi runnið út og uppsöfnuð skuld reikningsins hafi ekki verið greidd. Reikningnum hafi verið lokað 31. desember 2012 og uppsöfnuð skuld þá numið 8.324.432 krónum. Stefndi hafi ekki sinnt áskorunum um að greiða skuldina.

Stefnandi vísar hvað aðild varðar til þess að Fjármálaeftirlitið (FME) hafi tekið, með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þá ákvörðun að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Ákvörðun FME um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280 (nú Landsbankinn hf., kt. 471008-0280), sé dagsett 9. október 2008.

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.

III.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að um aðildarskort sé að ræða, sbr. 2. tl. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en HBT hf. ætti með réttu að vera stefndi í þessu máli. Rökin fyrir því séu eftirfarandi:

Stefnandi hafi ekki gert skriflegan lánssamning við stefnda sem honum hafi þó borið að gera fyrst hann haldi því fram að samningur sé milli hans og stefnda, sbr. 5. gr. laganna um neytendalán nr. 121/1994 með síðari breytingum. Munnlegur samningur hafi heldur ekki verið gerður. Launamenn fái ekki yfirdrátt að fjárhæð 8.000.000 kr. án sérstakrar ástæðu eða neinna skýringa. Útibú stefnanda í Hafnarfirði sé heldur ekki viðskiptabanki stefnda. Í þessu tilviki sé um að ræða dulbúið lán til félags.

Ástæðan fyrir því að lögunum um neytendalán nr. 121/1994 hafi ekki verið beitt sé sú að áliti stefnda að þau taki til einstaklinga sem eigi lánsviðskipti sem lögin nái til, enda séu þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu, sbr. 4. gr. a laga um neytendalán nr. 121/1994. Þau gildi því ekki um félög, sem styðji það að HBT hf. sé lántakinn.

Lánsfjárhæðin hafi runnið öll til HBT hf. fyrir tilverknað stefnanda sem hafi annast lánafyrirgreiðsluna. Lánið hafi verið veitt vegna fjárþarfar HBT hf. og komi fjárhagsstöðu stefnda ekkert við. Afgreiðslan á láninu til HBT hf. með umræddum hætti hafi verið gerð samkvæmt uppástungu stefnanda af ástæðum sem fram komi í málsatvikalýsingu. Innheimta yfirdráttarlánsins, sem hafði verið í vanskilum frá febrúar 2010, hafi ekki hafist vegna atvika sem vörðuðu stefnda, heldur þegar ljóst var orðið að HBT hf. gæti ekki greitt.

Fallist dómurinn ekki á að um aðildarskort sé að ræða er krafist sýknu með stoð í 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum. Svo að 36. gr. laganna verði beitt þurfi að fullnægja þeim skilyrðum að ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera loforð fyrir sig og skuli við mat á því líta til efnis samnings, atvika við  samningsgerð, stöðu aðila við hana og atvika sem síðar koma til.

Stefnandi, sem sé fjármálafyrirtæki, byggi sína starfsemi aðallega á útlánum sem gerðir séu skriflegir samningar um í samræmi við lög og reglur og lánareglur stefnanda, sem feli m.a. í sér mat á lánshæfi lántakenda. Rekstur fjármálafyrirtækja hérlendis og í hinum vestræna heimi grundvallist algjörlega á þessu og verði að gera þá kröfu til stefnanda, sem sé sérfræðingur á þessu sviði, að hann standi faglega að málum. Því sé ekki að heilsa í þessu máli. Hefði stefnandi framkvæmt greiðslumat hefði fjárhagsleg staða stefnda komið í ljós og að hann gæti því ekki endurgreitt 8.000.000 kr. þremur mánuðum eftir að yfirdrátturinn var veittur 9. desember 2009 eða síðar. Það sé því bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig samning sem stefndi hafi ekki getað efnt og sé í raun alls ekki fyrir hendi milli stefnanda og stefnda. Þess sé því krafist með vísan til 1. mgr., sbr. a-lið  36. gr. samningalaganna, með síðari breytingum, að þessum ætlaða samningi við stefnda verði vísað frá í heild.

Þá segir stefndi að komi upp vafi um merkingu samnings skuli túlka samninginn neytandanum í hag, sbr. 1. mgr. 36. gr. b í samningalögunum. Stefnandi beri hallann af því að hann gerði engan samning við stefnda. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. hvíli sönnunarbyrðin á stefnanda fyrir því að samið hafi verið sérstaklega um samning og að hann falli ekki undir 1. mgr. a 36. gr. laganna.     

Málskostnaðarkrafa stefnda styðst við 1. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1088. Stefndi kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda.

                                                                                          IV.

                Í máli þessu byggir stefndi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Nánar tiltekið heldur stefndi því fram að HBT ehf. ætti að vera stefndi í máli þessu þar sem um hafi verið að ræða „dulbúið lán“ til félagsins. Stefndi og vitnin Matthías Gíslason, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, og Ingimar Haraldsson, núverandi starfsmaður stefnanda, hafa lýst því að á fundi 9. desember 2009 hafi stefndi, ásamt bróður sínum og einum öðrum aðila, leitað eftir lánafyrirgreiðslu til HBT hf., vegna fjárhags­vanda félagsins. Á fundinum kom fram að ekki væri hægt að lána félaginu meira, en stefndi gæti fengið lán. Varð úr að stefndi fékk 8.000.000 króna yfirdráttarheimild á reikning sem hann átti í bankanum. Samkvæmt g-lið 2. gr. þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994 tóku lögin ekki til lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar af tékka­reikningi. Var því ekki skylt að gera skriflegan samning um lánið eða framkvæma greiðslumat. Vitnið Matthías neitaði því alfarið fyrir dómi að um hafi verið að ræða lán til HBT hf., heldur hafi stefndi verið að leggja fram viðbótar­hlutafé í félagið. Þetta hefði verið meginefni fundarins 9. desember 2009. Vitnið lýsti því einnig að litið hafi verið á stefnda sem heiðvirðan viðskiptamann sem var í góðri stöðu og því ekki óeðlilegt að veita honum umrædda yfirdráttarheimild. Stefndi kannast við það í greinargerð sinni að hann hafi fengið tilkynningu 8. nóvember 2010 um óheimilan yfirdrátt í vanskilum. Þá kveðst hann stundum hafa greitt vexti af láninu og hann hreyfði aldrei athugasemdum við yfirdráttinn, millifærsluna til HBT hf., eða tilkynningu um vanskil, sem beint var að honum persónulega, fyrr en með framlagningu greinargerðar í máli þessu. Var umræddur yfirdráttur á reikningi stefnda og millifærslan til HBT hf. greinilega tilkomin með vitund og vilja hans. Með vísan til alls framan­greinds og í ljósi þess að stefndi er löglærður, og hafði starfað í áratugi sem lögmaður, mátti hann gera sér grein fyrir því að hann bar persónulega ábyrgð á yfirdrættinum á reikningi hans. Með vísan til alls framangreinds er málsástæðu stefnda um aðildarskort hafnað.

                Stefndi reisir sýknukröfu í öðru lagi á því að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki staðið faglega að málum þar sem hann hafi ekki framkvæmt greiðslumat, en þá hefði komið í ljós að stefndi gæti ekki greitt 8.000.000 króna. Þá heldur stefndi því fram að í raun hafi enginn samningur verið fyrir hendi milli aðila. Eins og áður hefur verið rakið var ekki skylt að gera skriflegan samning um yfirdráttarheimild stefnda eða framkvæma greiðslumat og var ótvírætt í gildi samningur milli aðila. Stefndi var eigandi í HBT hf. og honum var kunnugt um fjárhagsvanda félagsins. Stefndi hafði hagsmuni af því að taka sjálfur lán og láta féð renna til félagsins. Þá hafði hann langa reynslu sem lögmaður og staða aðila því ekki með þeim hætti að hallað hafi á stefnda. Að öllu þessu virtu eru ekki lagaskilyrði til þess að víkja samningnum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.

                Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða kröfu stefnanda að fjárhæð 8.324.432 krónur. Í greinargerð stefnda er upphafstíma dráttarvaxta ekki mótmælt og er því fallist á kröfu stefnanda um að dráttarvextir reiknist frá 8. mars 2013.

                Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

                Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

                Stefndi, Guðmundur Benediktsson, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 8.324.432 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. mars 2013 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.