Print

Mál nr. 102/2006

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Aðfinnslur

Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. febrúar 2007.

Nr. 102/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Michal Piecychna

(Hilmar Ingimundarson hrl.

 Jón Höskuldsson hdl.)

 

Kynferðisbrot. Miskabætur. Aðfinnslur.

M var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft eða reynt að hafa önnur kynferðismök við Y á meðan hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Í héraðsdómi, sem staðfestur var um sakfellingu M, var talið sannað að hann hefði brotið gegn 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þrátt fyrir þær tafir sem orðið höfðu á rannsókn málsins var staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu hans. Var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi og til að greiða Y 400.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. febrúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms, þyngingar á refsingu og að ákærða verði gert að greiða 500.000 krónur í miskabætur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í ákæru greinir.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Hann krefst þess einnig að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Að gefnu tilefni hefur verið lagt nýtt skjal fyrir Hæstarétt. Stafar það frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi, göngudeild húð- og kynsjúkdóma. Kemur þar fram að sýni frá brotaþola sem rannsakað var fyrir HIV smiti reyndist neikvætt, en í skýrslu ákærða fyrir héraðsdómi kom fram að honum hafi verið sagt að hún væri smituð.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi varð nokkur dráttur á rannsókn máls þessa. Brot ákærða var framið 24. janúar 2004. Framkvæmd var réttarlæknisfræðileg skoðun á brotaþola í kjölfar komu hennar á neyðarmóttöku 27. sama mánaðar og voru sýni send til DNA greiningar í Rettsmedisinsk Institutt í Noregi 7. júlí 2004. Eftir að svar rannsóknarstofunnar barst 19. október sama ár virðist rannsókn að mestu hafa legið niðri þar til frekari skýrslur voru teknar af ákærða og brotaþola í maí 2005. Ákæra var svo gefin út 14. júní það ár. Þessi dráttur málsins á rannsóknarstigi er aðfinnsluverður og hefur ekki verið skýrður. Brýtur hann í bága við meginreglu 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og er í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir framangreint verður héraðsdómur staðfestur um refsingu ákærða. Þá verður jafnframt staðfest ákvæði héraðsdóms um miskabætur. Er þá litið til þess að ekki hafa önnur gögn verið lögð fram henni til grundvallar en frásögn brotaþola af líðan sinni.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Michal Piecychna, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 437.211 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.

                                                                                                                  

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17 janúar 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 14. júní 2005 á hendur Michal Piecychana, kt. 290975-2639, Vallarhúsum 41, Reykjavík, fyrir kynferðisbrot með því að hafa að morgni laugar­dagsins 24. janúar 2004 á veitingahúsinu A, Reykja­vík, haft eða reynt að hafa önnur kynferðismök en samræði við Y, kt. [...], gegn vilja hennar, með því að klippa göt á buxur hennar og sokkabuxur á sitjanda og í klofi, leggjast ber að neðan ofan á Y aftanverða og viðhafa samfara­hreyfingar, en ákærði notfærði sér það að Y gat ekki spornað við kynferðisbrotinu sökum ölvunar og svefndrunga.

Þetta er talið varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992 en til vara við 196. gr. sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Y krefst miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta og dráttarvaxta skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá 24. janúar 2004 til greiðsludags, auk greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að hann hljóti vægustu refsingu er lög leyfa. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð. Loks krefst hann þess að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun.

Í skýrslu tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík frá 12. febrúar 2004 kemur fram að 26. janúar 2004 hafi lögreglufulltrúi í ofbeldisbrotadeild og B, eigandi veitingastaðarins A, Reykjavík, komið í tæknideild lögreglu. Meðferðis hafi þeir haft eftirlitsmyndavélakerfi veitingastaðarins A, en á upptökum í kerfinu frá laugardeginum 24. janúar 2004 hafi B borið að hann hafi séð einn af starfsmönnum veitingastaðarins misnota sér kynferðislega ástand síðbúins gests, Y. Lögreglumenn í tæknideild hafi skoðað myndir úr kerfinu. Um hafi verið að ræða upptökur úr 9 myndavélum á veitingastaðnum. Það atvik er málið hafi snúist um hafi komið fram á myndavél úr setukrók á fyrstu hæð. Tekið hafi verið afrit af upptökunni sem hafi náð frá kl. 08.10 til kl. 13.38. Myndskeið beri með sér að starfsmaður sé að klippa eða skera göt á buxur Y í klofi og virðist hann gera tilraun til að hafa við hana samfarir. Tekið er fram að afrit úr myndavélakerfinu hafi verið á formi sem einungis kerfið sjálft hafi getað lesið. Upptakan sé mjög léleg og erfitt að þekkja einstaklinga af myndum sökum lélegra birtuskilyrða. Eftirlitsmyndavélakerfinu hafi verið skilað til B eftir að gögnum um atburðinn hafi verið eytt úr kerfinu.

Rituð hefur verið skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á Y, vegna komu hennar á neyðarmóttöku 27. janúar 2004, kl. 20.11. Í skýrsluna er skráð eftir Y að hún hafi verið á veitingastað fram undir morgun. Hafi hún orðið eftir sökum þess að hún hafi átt eftir að ljúka við drykk. Er allir hafi yfirgefið staðinn hafi dyravörður verið eftir en hann hafi þurft að taka til. Hafi hann boðið Y í annað glas. Hún hafi farið á snyrtingu en er hún hafi komið til baka hafi hún fengið í hendur flösku af Breezer. Hún hafi setið og drukkið en eftir það myndi hún ekkert frekar af atburðum. Hún hafi vaknað og farið á snyrtinguna en þá tekið eftir að buxur hennar hafi verið rifnar. Hafi hún spurt dyravörðinn að því hvað hafi komið fyrir en hann borið að ekkert hafi gerst. Buxurnar hafi rifnað á snyrtingunni. Hafi dyravörðurinn séð að Y hafi verið reið vegna skemmda á buxunum og hann fylgt henni til dyra. Hafi hún farið heim og sofnað. Hún hafi vaknað kl. 15.00 á mánudeginum á eftir. Á þeim degi hafi eiginkona dyravarðarins komið í heimsókn. Hafi hún boðist til að kaupa ný föt ef Y færi ekki til lögreglu. Hafi Y leitað skýringa hjá henni á því hvað hafi átt sér stað og hvort dyravörðurinn hafi misnotað sig. Hafi konan sagt svo ekki vera en að ákærði hafi verið að ,,fitla við sjálfan sig”. Vinkona Y hafi haft það eftir öðrum eigenda staðarins að dyravörðurinn hafi komið ,,alveg óður” á laugardeginum, greini­lega undir einhverskonar áhrifum, og viljað taka myndir úr eftirlitsmynda­vélakerfi veitingastaðarins. Eigandi veitingastaðarins hafi skoðað myndir úr kerfinu seint á laugardagskvöldinu. Í svæði fyrir frásögn um ástand við skoðun er fært að Y hafi verið óraunveruleikatengd, yfirveguð og skýr í frásögn. Hún hafi ekkert munað. Þá hafi hún verið með niðurgang. Tekin hafi verið sýni til réttarlæknisfræðilegra rannsókna.

Fimmtudaginn 29. janúar 2004 lagði Y fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot.

Tæknideild lögreglu hefur 9. nóvember 2004 ritað greinargerð vegna DNA greiningar á sýnum er tekin voru á neyðarmóttöku. Fram kemur að 7. júlí 2004 hafi sýnin verið send til DNA greiningar til Rettsmedisinsk Institutt við Háskólann í Osló í Noregi. Svör rannsóknarstofunnar hafi borist 19. október 2004. Hafi rannsóknin leitt í ljós að í innsendum gögnum hafi engin sýni reynst nothæf til DNA greininga.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 26. febrúar 2004. Kvaðst hann umrædda nótt hafa starfað sem dyravörður á veitingastaðnum A. Y hafi komið á veitingastaðinn þessa nótt, en hann hafi kannast við hana þar sem hún hafi áður komið þangað. Eftir lokun hafi starfsfólk sest niður og drukkið bjór. Y hafi setið með þeim og drukkið áfengi. Er starfsfólk hafi verið í því að yfirgefa staðinn hafi ákærði spurt konu sem rekið hafi staðinn hvort ákærði mætti vera lengur á staðnum. Hafi hún leyft það. Hafi hún einnig sagt að hún hafi séð Y ,,reyna við” ákærða og hafi hún varað hann við henni. Hafi hún sagt að Y væri veik, en hún væri með sjúkdóminn ,,aids”. Þegar starfsfólkið hafi verið farið hafi Y spurt ákærða hvort hún mætti vera lengur og hafi ákærði leyft henni það. Hafi þau setið í sófa í herbergi til hliðar og inn af bar veitingastaðarins. Hafi þau bæði verið orðin mjög ölvuð er þar var komið. Á meðan þau hafi setið í sófanum hafi þau rætt saman og ákærði strokið henni, meðal annars um brjóstin. Eins hafi hann reynt að klæða hana úr buxum. Það hafi ekki tekist sökum þess hve þröngar þær hafi verið. Hafi ákærði strokið henni bæði innan klæða og utan. Á þeim tíma hafi hún verið vakandi og engar athugasemdir gert þótt ákærði hafi verið að strjúka henni. Ekki hafi verið annað að sjá en að henni hafi líkað það vel. Ekki gæti ákærði áttað sig á hvað hafi gerst næst en hann myndi þó eftir að hann hafi ætlað að klæða Y úr buxum en þar sem þær hafi verið þröngar hafi það ekki tekist. Hafi ákærði klippt göt á buxur hennar en hann hafi langað að snerta Y nakta. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hafi snert hana en hann hafi verið mjög ölvaður. Erfitt væri að fullyrða hvort Y hafi allan tímann vitað hvað hafi farið fram, en ákærði kvaðst þó telja að svo væri. Hún hafi engar athugasemdir gert eða reynt að stöðva ákærða er hann hafi strokið henni. Eftir því sem ákærði myndi hafi hann hneppt frá eigin buxum, en ekki farið alveg úr þeim. Ekki hafi hann haft samfarir við Y. Ákærði kvaðst hafa hringt í Y og beðist afsökunar á því sem gerst hafi. Hafi hann óskað eftir því að hún myndi ekki kæra atburðinn til lögreglu. Ítrekaði ákærði að ekkert annað hafi gerst en að ákærði hafi strokið Y og hafi hún verið fullkomlega meðvituð um það og engar athugasemdir gert.  

Ákærði var yfirheyrður á ný hjá lögreglu 6. maí 2005. Við það tilefni var honum sýnd upptaka úr eftirlitsmyndavélakerfi veitingastaðarins A með myndskeiði frá kl. 11.21 til 11.31 að morgni laugardagsins 24. janúar 2004. Kvaðst hann kannast við myndefnið. Tók ákærði skýrt fram að allt það sem fram hafi farið á milli hans og Y hafi verið með hennar samþykki. Hafi Y komið þannig fram við ákærða þessa nótt að hún hafi gefið til kynna að hún vildi stunda kynlíf með honum. Hafi hún verið að reyna við ákærða alla nóttina. Kvaðst ákærði ekki muna eftir öllu sem gerst hafi. Hann myndi þó eftir að hún hafi sest við hlið ákærða í sófa á veitingastaðnum, auk þess sem hún hafi sest ofan á ákærða og verið að kyssa hann. Eins hafi hún strokið ákærða. Hafi ákærði reynt að taka Y úr buxum en sökum þess hve þröngar þær hafi verið hafi það ekki tekist. Hafi þau bæði verið vakandi og hún engar athugasemdir gert er ákærði hafi reynt að taka hana úr buxunum. Ákærða hafi langað til að snerta Y nakta. Hafi hann af þeim sökum klippt gat á buxur Y. Dómgreind ákærða hafi ef til vill ekki verið góð þar sem ákærði hafi verið orðinn töluvert ölvaður. Kvaðst ákærði nokkuð viss um að Y hafi verið meðvituð um það sem fram hafi farið og ekkert haft á móti því. Ekki hafi ákærði haft kynferðisleg mök við Y.

Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins bar ákærði að mestu með sama hætti og við yfirheyrslur hjá lögreglu. Kvaðst ákærði hafa orðið mjög drukkinn þessa nótt. Y hafi hegðað sér eins og hún væri hrifinn af ákærða. Hafi hún látið eins og hún vildi gera ,,eittvað meira” með honum. Í sófa við barinn hafi ákærði reynt að ná henni úr buxum en það ekki tekist. Af þeim sökum hafi hann náð í hníf eða skæri og skorið buxurnar. Ákærði kvað langt um liðið frá atburðum og myndi hann ekki hvort hann hafi snert kynfæri hennar. Hafi ákærða langað til að snerta Y nakta. Hafi hann í upphafi ætlað að láta hana sjálfa fara úr fötum en það hafi ekki tekist. Hafi hann því næst reynt það sjálfur. Hafi þau rætt saman nánast allan tímann. Ekki kvaðst ákærði geta fullyrt hvort hann hafi rætt við Y á meðan hann hafi klippt buxur hennar. Kvaðst hann þó viss um að hún hafi ekki verið sofandi, en hann hafi séð andlit hennar á meðan. Kvaðst hann viss um að hún hafi verið með opin augun. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þeim atvikum er myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfi sýnir hann án klæða að neðan leggjast að Y. Kvaðst hann þó sennilega hafa verið að æsa sig upp kynferðislega. Hann hafi þó aldrei áformað að hafa við hana samfarir þar sem hann hafi vitað að hún var HIV smituð.  

Ákærði kvaðst hafa drukkið áfengi eftir lokun, en staðnum hafi verið lokað um kl. 6.00 að morgni laugardagsins. Kvaðst hann muna eftir að hafa drukkið tvöfaldan viskí úr glasi. Ekki kvaðst hann muna hvort hann hafi fengið sér fleiri en einn drykk. Y hafi verið undir áhrifum áfengis þó svo hún hafi ekki verið ölvuð að ráði. Ekki kvaðst ákærði hafa útskýrt fyrir Y um morguninn af hverju rifur hafi verið á buxum hennar. Kvaðst hann ekki kannast við framburð hennar þar að lútandi. Þá kvaðst ákærði ekki muna hvað klukkan hafi verið er Y hafi yfirgefið staðinn. Honum hafi verið tjáð að eigendur staðarins hafi látið Y vita um hvað hafi átt sér stað. Hafi eigendurnir látið ákærða vita um það. Hafi hann af þeim ástæðum hringt í Y. Hafi hann beðið hana afsökunar á að hafa skemmt fatnað hennar. Hann hafi ekki óskað eftir því að hún myndi ekki kæra atburðinn. Rangt væri túlkað í framburðarskýrslu hans hjá lögreglu um það efni. Ákærði kvað B hafa hringt í sig vegna þessara atvika. Ekki kvaðst ákærði muna hvað B hafi sagt við sig. Ákærði kvað rétt vera að eiginkona sín hafi rætt við Y eftir atburði. Hafi eiginkona ákærða viljað vita hvað Y hefði að segja um atburði, auk þess sem hún hafi viljað bæta henni buxurnar sem hafi rifnað. Ákærði kvaðst ekki hafa sett neitt í drykk Y er hafi orðið til þess að hún hafi sofnað.

Er Y lagði fram kæru á hendur ákærða skýrði hún svo frá að hún hafi farið á veitingastaðinn A í Reykjavík aðfaranótt laugardagsins 24. janúar 2004. Á staðinn hafi Y verið komin um kl. 3.00 til 3.30 um nóttina. Þar hafi hún hitt vinkonu sína og þær farið saman á veitingahús þar sem þær hafi dvalið í um eina eða tvær klukkustundir. Eftir það hafi þær farið aftur á A. Að því hafi komið að staðnum hafi verið lokað og hafi Y spurt ákærða, sem starfað hafi sem dyravörður á staðnum, hvort hún mætti ljúka við drykk er hún hafði fengið í hendi. Hafi ákærði heimilað það, en hún hafi þekkt hann og treyst. Er hún hafi spurt ákærða að því hvort hún mætti ljúka við drykkinn hafi allir verið farnir út af staðnum nema þau tvö. Hafi Y setið með drykkinn en ákærði tekið til á staðnum. Hafi hún innt hann að því hvort hún mætti fara á snyrtinguna. Hafi hann bent henni á að nota snyrtingu fyrir starfsmenn sem hafi verið á sömu hæð og veitingastaðurinn. Hafi ákærði fylgt henni að snyrtingunni, en er hún hafi komið þaðan hafi hann boðið henni drykk af barnum. Hafi hún þegið boðið. Hafi ákærði fært henni drykk í sófa í horni veitingastaðarins. Drykkurinn hafi verið blandaður Breezer í flösku. Hafi hún drukkið af flöskunni. Það næsta er hún myndi hafi verið er hún hafi rankað við sér í sófanum, en þá hafi klukkan verið á bilinu 9.00 til 9.30 um morguninn. Er hún hafi vaknað hafi hún í fyrstu verið rugluð en áttað sig á að hún væri ekki heima hjá sér. Glös og annað á borði fyrir framan hana hafi legið á hliðinni. Veski hennar hafi legið opið á gólfinu. Einnig hafi hún tekið eftir seðlaveski og karlmannsúri á borðinu. Hafi hún ekki áttað sig á hvað hafi komið fyrir en staðið á fætur til að fara á snyrtinguna. Í því hafi hún orðið vör við að buxur hennar hafi verið rifnar. Hafi hún spurt ákærða hvað hafi komið fyrir. Hafi hann borið að hún hafi rifið buxurnar á klósettrúlluhaldara á snyrtingunni. Hafi hann farið með Y á snyrtinguna og sýnt henni hvernig það hafi atvikast. Eftir að hafa notað snyrtinguna hafi Y yfirgefið staðinn. Er hún hafi komið heim til sín hafi hún afklæðst og lagst til svefns. Hafi hún ekki vaknað aftur fyrr en um kl. 14.00 á mánudeginum 26. janúar. Hafi hún legið í rúminu með ógleði og svima. Um kl. 17.00 á mánudeginum hafi verið bankað á dyrnar. Þar hafi verið komin eiginkona ákærða. Hafi hún komið inn til Y og borið að hún væri miður sín yfir því sem eiginmaður hennar hafi gert Y. Y kvaðst hafa verið mjög ringluð og ekki hafa vitað hvað ákærði hafi átt að hafa gert. Hafi eiginkona ákærða þá sagt að ákærði hafi gert Y ,,hræðilegan hlut.” Hafi Y innt konuna nánar eftir því hvað það hafi verið og hvort ákærði hafi haft við hana samfarir. Hafi eiginkonan neitað því en borið að ákærði hafi horft á Y og ,,fróað sjálfum sér um leið.” Hafi eiginkonan sagt að ákærði væri reiðubúinn að bæta Y síðbuxurnar. Þau ættu einungis 70.000 krónur en væru engu að síður reiðubúin til að bæta buxurnar. Hafi hún síðan greint frá því að hún væri ófrísk, komin átta mánuði á leið. Af þeim ástæðum mætti ekki kæra atburðinn til lögreglu. Er eiginkonan hafi nefnt bætur fyrir síðbuxurnar hafi Y skoðað buxurnar nánar. Hafi hún þá séð rifu í klofi aftanverðu. Hafi konan sagt að maður sinn væri í bifreið fyrir utan húsið og að hann vildi koma inn til að biðjast afsökunar. Hafi Y hafnað því alfarið. Í framhaldinu hafi konan yfirgefið íbúðina. Y kvaðst aðfaranótt 24. janúar hafa drukkið þrjá litla bjóra, eitt staup af líkjör, eitt staup af ,,snaps” og síðan þann drykk sem ákærði hafi boðið sér. Ekki hafi hún verið ölvuð. Kvaðst hún ekki gera sér grein fyrir hvort ákærði hafi þessa nótt haft við sig kynmök. Hafi hún skoðað nærföt sín á mánudeginum og ekki séð neitt sem gefið hafi til kynna að svo hafi verið. Ákærði hafi hringt í sig miðvikudaginn 28. janúar 2004. Í því símtali hafi hann grátbeðið sig um að kæra málið ekki til lögreglu. Hafi hann borið að hann hafi verið drukkinn á veitingastaðnum umrætt sinn. Hafi hann aldrei áður gert neitt viðlíka. Hafi hann lofað að bæta Y tjón hennar. Hún hafi í engu svarað honum.

Y var á ný boðuð til skýrslutöku hjá lögreglu 11. maí 2005. Var henni við það tilefni kynntur framburður ákærða hjá lögreglu. Kvað hún rangt að hún hafi verið að reyna við ákærða þetta kvöld eða að hún hafi gefið honum til kynna að hún vildi hafa við hann kynmök. Kvaðst hún ekki muna eftir að ákærði hafi verið að strjúka henni um brjóst eða að hann hafi verið að reyna að klæða hana úr buxum. Þá kvaðst hún ekki muna eftir að ákærði hafi klippt buxur hennar í sundur. Hafi hún sofnað í sófa á veitingastaðnum eftir að hafa drukkið drykk er ákærði hafi fært henni. Hafi hún ekki vaknað fyrr en löngu síðar og yfirgefið staðinn sennilega á milli kl. 9.00 og 10.00 um morguninn. Kvað hún þá tímasetningu ekki þurfa að vera rétta.

Fyrir dómi bar Y um atvik með svipuðum hætti og hjá lögreglu. Kvaðst hún hafa pantað sér drykk nærri lokunartíma veitingastaðarins. Ákærði hafi verið dyravörður á staðnum. Hafi hún fengið leyfi hjá honum til að klára drykkinn, þó svo búið væri að loka staðnum. Eftir að hafa fengið annan drykk hjá ákærða eftir lokun myndi hún ekkert af atburðum næturinnar. Hafi þau ekki látið vel hvort að öðru á þeim tíma er hún myndi eftir. Kvaðst hún hafa tekið eftir götum á buxum sínum inni á salerni eftir að hún hafi vaknað. Hafi ákærði skýrt það svo að hún hafi rifið buxurnar inni á salerni. Kvaðst hún hafa staðið í þeirri trú að klukkan hafi verið 10.00 eða 11.00 er hún hafi yfirgefið staðinn. Hafi hún sofnað eftir að heim var komið og sofið samfellt í tvo daga. Eftir að hún hafi vaknað hafi hún tekið eftir götum á sokkabuxum sínum. Eiginkona ákærða hafi komið í heimsókn. Hafi hún farið þess á leit við Y að hún myndi ekki kæra atburðinn. Kvaðst Y hafa velt fyrir sér af hverju það væri. Þá hafi eiginkona ákærða boðið fram fjármuni ef það gæti orðið til þess að kæra yrði ekki lögð fram. Eiginkona ákærða hafi sagt að eitthvað mjög slæmt hafi gerst, en ekki nákvæm­lega hvað. Maður að nafni C hafi unnið á veitingastaðnum A á þessum tíma og kona að nafni D verið vinkona hans. Eftir að eiginkona ákærða hafi yfirgefið Y hafi D og C komið til hennar og sagt Y að hún yrði að fara til lögreglu til að leggja fram kæru á hendur ákærða. Hafi þau sagt að ákærði hafi gert eitthvað við hana, en ekki nefnt hvað það hafi verið. Þau hafi ekki heldur greint frá því hvaðan þau hafi fengið vitneskju um það sem átt hafi sér stað. Y kvaðst ekki hafa hugmund um hvað ákærði eigi að hafa gert við sig, en hún hafi ekki séð myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi staðarins, auk þess sem enginn hafi sagt sér nákvæmlega frá því hvað hafi komið fyrir. Sú staða hafi haft mikil áhrif á Y, en allt hafi umturnast í lífi hennar við þetta. Henni liði eins og hún hafi tapað virðingu sinni. Þá hafi hún verið veik í marga mánuði eftir þetta, en hún kvaðst telja að það hafi verið vegna einhvers er ákærði hafi sett í drykk sinn.      

E, eiginkona ákærða, gaf skýrslu fyrir dómi, þrátt fyrir að henni hafi verið gerð grein fyrir ákvæði a-liðar 1. mgr. 50. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. E kvað ákærða hafa komið heim um hádegi laugardaginn 24. janúar 2004. Ákærði hafi sagt sér að eitthvað hafi komið fyrir á veitingastaðnum A þennan morgun. Hann hafi þó ekki sagt sér nákvæmlega hvað það hafi verið að öðru leyti en því að hann hafi nánast haft samfarir við aðra konu. Ekkert hafi þó gerst. Kvaðst E hafa heimsótt viðkomandi konu, en þangað hafi ákærði ekið henni. Hafi hún viljað vita hvað þessi kona hefði að segja um atburði. Komið hafi í ljós að konan hafi ekkert getað sagt um samskipti sín og ákærða þessa nótt. Það hafi verið eins og konan vissi að eitthvað hafi gerst en ekki hvað. Hún hafi sýnt E rifnar buxur sínar. Hafi E boðist til að greiða fyrir þær. E kvaðst ekki hafa beðið konuna um að fara ekki til lögreglu vegna þessara atburða.   

F kvaðst hafa rekið veitingastaðinn A í upphafi árs 2004 ásamt þáverandi sambýlismanni sínum B. Kvað hún rekstraraðila staðarins jafnan hafa athugað eftirlitsmyndavélakerfi staðarins eftir helgar. Það hafi verið gert umrætt sinn og þá komið í ljós þau atvik sem mál þetta snúist um. Y hafi oft komið á veitingastaðinn og verið ágætur vinur þeirra er þar hafi starfað. Kvaðst F hafa séð ákærða og Y ræða saman á veitingastaðnum þessa nótt fyrir lokun, en hún ekki séð þau láta vel hvort að öðru. Kvaðst hún hafa rætt þessa atburði við Y í síma tveim til þremur dögum eftir atvikið. Ekki hafi F lýst fyrir Y þeim atvikum er hún hafi séð á myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélakerfinu. Hafi F spurt Y hvað hafi átt sér stað en Y sagt að hún myndi ekkert af atvikum þennan morgun. F kvaðst ekki muna hvort hún hafi sagt ákærða aðfaranótt laugardagsins 24. janúar 2004 að Y væri hugsanlega með sjúkdóminn ,,aids”. Hún kvaðst þó einhverju sinni hafa haft það á orði við einstaklinga er tengdust staðnum. Kvaðst hún hafa fengið vitneskju um að D og C hafi farið með Y upp á spítala eftir atburði. D hafi ekki unnið á veitingastaðnum en verið vinkona C er unnið hafi á staðnum. Kvaðst F ekki hafa greint D eða C frá því er komið hafi fram á upptökum úr myndavélakerfinu. Hafi hún einungis sagt þeim að Y hafi verið misnotuð.  

B kvaðst hafa rekið veitingastaðinn A í janúar 2004. Þá helgi er atburðir hafi átt sér stað hafi B verið í sumarbústað. Á laugardeginum hafi ákærði hringt og sagt að hann þyrfti að komast inn í herbergi þar sem eftirlitsmyndavélakerfið væri geymt. Ekki hafi hann útskýrt af hverju það væri. Hafi B neitað honum um það, auk þess sem ekki hafi verið hægt að skoða myndir úr kerfinu nema með því að nota sérstakt aðgangsorð að kerfinu. Þeir hafi slitið samtalinu og B fundist það einkennilegt. Hafi hann farið til Reykjavíkur á laugardeginum og þá skoðað myndir úr kerfinu. Við þá skoðun hafi hann séð ákærða og Y sitja við drykkju í herbergi á veitingastaðnum. Fleira hafi komið í ljós sem hafi orðið til þess að hann hafi á mánudeginum farið með eftirlitsmyndavélakerfið til lögreglu. Ákærða hafi þá þegar verið sagt upp störfum á veitingastaðnum. B kvaðst einhverju síðar hafa rætt við hann um atvikin og hafi ákærði þá borið af sér allar sakir. B kvaðst ekki hafa sýnt neinum myndir úr eftirlitsmyndavélakerfinu. F hafi þó þekkt aðgangsorð að kerfinu. B hafi þó talið að hún kynni ekki á kerfið. Ekki kvaðst B vita hver hafi rætt við Y um þessa atburði, en það gæti hafa verið F. B kvað klukku í eftirlitsmyndavélakerfinu ávallt hafa verið rétta.

Guðmundur Ásgeirsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Kvað hann rekstraraðila veitingastaðarins A hafa komið með eftirlits­mynda­vélakerfið til lögreglu, þ. á m. tölvu er kerfið hafi verið vistað á. Úr tölvunni hafi verið tekið myndskeið um 7 klukkustunda langt. Vandkvæðum bundið hafi verið að vinna með myndir úr kerfinu þar sem myndgæði hafi ekki verið góð. Þau hafi minnkað við að myndskeið hafi verið færð yfir á DVD disk. Eftirlitsmynda­vélakerfið væri þannig gert að myndavélar væru á nokkrum stöðum á veitingastaðnum. Myndavélar færu hins vegar ekki af stað nema þær yrðu varar við hreyfingu. Myndskeið bæru með sér samskipti ákærða og Y. Tekin hafi verið afrit af atburðum frá kl. 8.10 á laugardagsmorgninum til kl. 13.38.

Niðurstaða: 

Ákærða er gefið að sök að hafa að morgni laugardagsins 24. janúar 2004, á veitingastaðnum A í í Reykjavík, haft eða reynt að hafa önnur kynferðismök en samræði við Y, gegn vilja hennar, með því að klippa göt á buxur hennar og sokkabuxur í sitjanda og í klofi, leggjast ber að neðan ofan á Y aftanverða og viðhafa samfarahreyfingar, en ákærði hafi notfært sér það að Y hafi ekki getað spornað við kynferðisbrotinu sökum ölvunar og svefndrunga. Sakarefnið byggir að meginstefnu á atvikum er fram koma á myndum úr eftirlits­mynda­vélakerfi staðarins, en sá einstaklingur er sá um rekstur hans á þessum tíma fór með kerfið til lögreglu mánudaginn 26. janúar 2004, eftir að hafa borið augum kynferðislegar athafnir ákærða.

Ákærði neitar sök og byggir varnir sínar á því að athafnir hans greint sinn hafi farið fram með fullu samþykki Y, sem hafi verið vel áttuð. Y ber að hún muni ekkert eftir atburðum þennan morgun. Hún hafi sofnað í sófa á veitingastaðnum eftir að ákærði hafi borið henni áfengan drykk. Hún hafi vaknað talsverðu síðar og þá tekið eftir að klippt hafi verið göt á buxur hennar.

Dómendur og sakflytjendur hafa í réttinum horft á upptökur úr eftirlits­myndavélakerfi veitingastaðarins A. Myndgæði gætu verið betri en þó er unnt að greina myndefni í öllum aðalatriðum. Upptaka úr myndavél sem staðsett er í rými inn af vínbar veitingastaðarins sýnir ákærða og Y verja talsverðum tíma í rýminu, lengst af í sófa. Á tilteknum tíma færir Y sig úr þriggja sæta sófa er hún og ákærði höfðu setið í yfir í eins sætis sófa og leggst þar fyrir. Stuttu síðar tekur ákærði til við að klippa eða skera göt á buxur Y í sitjanda og klofi. Í beinu framhaldi tekur hann niður um sig eigin buxur og leggst ber að neðan aftan á Y þannig að kynfæri hans nema við afturenda hennar. Í skamma stund viðhefur hann þannig samfara­hreyfingar. Við mat á sök er til þess að líta að ákærði hefur viðurkennt að hafa klippt göt á buxur Y og að það hafi verið gert í kynferðislegum tilgangi. Y fullyrðir að hún muni ekkert eftir atvikum er þar var komið og að hún hafi ekki gefið samþykki sitt fyrir þessu framferði ákærða. Sá framburður hennar er trúverðugur að mati dómsins og styðst aukreitis við framburði vitna í málinu. Þá sýna upptökur úr eftirlitsmynda­vélakerfinu hvernig Y fyrr þennan morgun ítrekað bandaði ákærða frá sér er hann gerðist of nærgöngull við hana. Einnig virðast upptökur benda til að hún hafi fært sig yfir í sófa er hún lá í er ákærði klippti gat á buxur hennar, gagngert í þeim tilgangi að leggjast til hvílu. Loks verður að mati dómsins ekki annað séð af upptökum en að Y hafi verið í fastasvefni er ákærði klippti göt á buxur hennar og viðhafði samfarahreyfingar við hana. Þegar til alls þessa er litið, hafður er í huga sá tími er líður frá kynferðislegum athöfnum ákærða þar til Y vaknar og horft til framburðar ákærða og ósennilegra skýringa hans á ástæðum þess að hann klippti göt á buxur Y, verður ekki við annað miðað en að ákærði hafi klippt götin og viðhaft samfara­hreyfingar við hana, án þess að fyrir hafi legið samþykki hennar eða hún haft vitneskju um þær athafnir ákærða sökum ölvunar og svefndrunga. 

Samkvæmt 196. gr. laga nr. 19/1940 varðar það refsingu að viðhafa önnur kynferðismök en samræði við einstakling sem þannig er ástatt fyrir að hann getur ekki spornað við verknaði eða skilið þýðingu hans. Y gat ekki spornað við þeim athöfnum er ákærði viðhafði umrætt sinn þar sem hún svaf ölvunarsvefni. Það framferði ákærða að girða niður um sig buxur sínar, leggjast án klæða að neðan aftan á Y þannig að kynfæri hans námu við afturenda Y og viðhafa í kjölfarið samfarahreyfingar, eru önnur kynferðismök en samræði. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot gegn 196. gr. laga nr. 19/1940.

Rétt þykir að gera nokkra grein fyrir framvindu máls þessa. Brot þau sem hér er dæmt um voru kærð til lögreglu í lok janúar 2004. Skýrslur voru teknar af Y 29. janúar 2004 og ákærða 26. febrúar 2004. Sýni úr réttarlæknisfræðilegri skoðun voru send til Noregs til DNA greiningar 7. júlí 2004. Niðurstöður voru sendar að utan 19. október 2004. Í desember 2004 var mælt fyrir um frekari skýrslutökur af Y og ákærða og voru skýrslur teknar af þeim 6. og 11. maí 2005. Ákæra var gefin út 14. júní 2005. Fyrirkall var gefið út 21. júní 2005 og málið þingfest fyrir héraðsdómi 2. september sama ár. Aðalmeðferð málsins var ákveðin 3. nóvember 2005 og voru á þeim degi teknar skýrslur af ákærða og vitnum. Í ljósi framburða er gefnir voru við aðalmeðferð málsins var ákveðið að taka skýrslur af fleiri vitnum á dómþingi 5. desember 2005. Vitnin mættu ekki við aðalmeðferðina þann dag en skýrslutakan fór fram 15. desember 2005. Ákærði mætti ekki við aðalmeðferðina þann dag þar sem hann var þá farinn til Póllands. Að ósk verjanda ákærða var ákveðið að fresta málinu fram yfir áramót til að ákærða gæfist færi á að taka afstöðu til atriða er fram komu við skýrslutökuna 15. desember. Var málið tekið fyrir 4. janúar 2006 þar sem ákærði sótti þing. Var málið flutt þann dag. Þó svo nokkuð sé um liðið frá því þeir atburðir áttu sér stað sem sakarefni þetta er sprottið af, þykir mál þetta ekki hafa dregist þannig að máli skipti um refsingu.

 Ákærði er fæddur í september 1975. Hefur hann í tvígang gerst sekur um umferðarlagabrot og gengist undir sektargreiðslur í febrúar 2004 og mars 2005 af þeim ástæðum. Brot hans nú er hegningarauki við fyrri brot og verður litið til þess við ákvörðun refsingar. Ákærði á sér engar málsbætur. Með vísan til 1. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði. 

  Þórdís Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður hefur krafist skaðabóta fyrir hönd Y að fjárhæð 500.000 krónur, auk vaxta. Í kröfunni er vísað til þess að Y muni atburði ekki fyllilega og valdi það henni mikilli reiði. Hafi hún gefið skýra frásögn af því er hún muni en hafi ekki verið fyllilega áttuð á hvernig hún ætti að taka á atburðum. Hafi hún verið með óraunveruleikakennd og verið misboðið. Um sé að ræða mjög alvarlegt og gróft brot sem hafi beinst gegn persónu brotaþola en ákærði hafi notfært sér ölvunarástand hennar og misnotað hana kynferðislega. Gerð sé krafa um bætur fyrir brot sem komi til með að hafa mikil áhrif á brotaþola í framtíðinni. Með vísan til þess er hér að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða gagnvart Y hafi valdið henni miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði er kveðið á um.

Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirlitum lögreglustjóra um sakar­kostnað ásamt tildæmdum málsvarnar- og réttargæslulaunum að viðbættum virðis­aukaskatti, sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið litið til þess að þóknun til handa dómtúlki samkvæmt yfirliti lögreglustjóra greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari.

Símon Sigvaldason, Sigrún Guðmundsdóttir og Sigurður H. Stefánsson héraðsdómarar kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Michal Piecychana, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði greiði Y, kt. [...], 400.000 krónur í skaða­bætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. janúar 2004 til 26. mars 2004, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 618.024 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns 199.200 krónur og þóknun til réttargæslumanns brotaþola Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 124.500 krónur.