Print

Mál nr. 257/2004

Lykilorð
  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabótamál
  • Stjórnarskrá
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. janúar 2005.

Nr. 257/2004.

Sívar Sturla Bragason

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Gæsluvarðhald. Skaðabótamál. Stjórnarskrá. Gjafsókn. Sératkvæði.

S krafðist miskabóta vegna gæsluvarðhalds sem hann taldi sig hafa sætt að ósekju en mál er varðaði þátt hans í tiltekinni líkamsárás hafði verið fellt niður. Tekið var fram að ákvæði XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála hefðu með hliðsjón af 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar verið skýrð þannig, að þeir sem sæta þurfi gæsluvarðhaldi, án þess að hafa sannanlega til frelsisskerðingar unnið, nytu bótaréttar, nema eitthvað sérstakt komi til sem skerði hann eða felli hann niður. Talið var ljóst að framburður S hefði breyst stöðugt um veigamikil atriði við upphaf rannsóknarinnar. Hefði hann því stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisti kröfu sína á. Þá var ekki fallist á sjónarmið S um að upplýsingar, sem felldu hann undan grunsemdum um aðild að brotinu, hefðu verið komnar fram með þeim hætti, að hann hefði átt kröfu á lausn úr gæsluvarðhaldi fyrr en raun varð á. Að lokum var tekið fram að S hefði ekki tekist sönnun um þá staðhæfingar sínar að hann hefði á hluta gæsluvarðhaldstímans ekki notið viðhlítandi læknisþjónustu. Var ríkið því sýknað af kröfum S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari og Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein fyrrverandi hæstaréttardómarar.

Héraðsdómi var áfrýjað 21. júní 2004. Áfrýjandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. desember 2002 til 30. júní 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en áfrýjandi nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að dómkrafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður fyrir Hæstarétti látinn falla niður.

I.

Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um miskabætur vegna gæsluvarðhalds sem honum var gert að sæta tímabilið 4. ágúst 2002 til 13. september sama ár. Stóð þá yfir lögreglurannsókn á alvarlegri líkamsárás, sem átt hafði sér stað í íbúð tveggja sona áfrýjanda að Skeljagranda 4 í Reykjavík og eftir atvikum utan við það hús aðfararnótt 2. ágúst 2002 og að morgni þess dags. Áfrýjandi hafði dvalið í íbúðinni um nokkra hríð og verið staddur þar umrædda nótt. Var hann auk sonanna grunaður um aðild að líkamsárásinni. Með bréfi ríkissaksóknara 20. desember 2002 var málið fellt niður að því er varðaði áfrýjanda. Synir hans voru hins vegar ákærðir fyrir þennan verknað og sakfelldir með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2003.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi telur áfrýjandi sig hafa sætt gæsluvarðhaldi að ósekju. Hann hafi alveg frá upphafi rannsóknarinnar lýst sig saklausan af þessum verknaði og telur hann ekkert hafa komið fram við rannsóknina sem benti til aðildar hans, þannig að réttlætti gæsluvarðhaldið yfir honum. Þá byggir hann kröfu sína einnig á því, að við framkvæmd gæsluvarðhaldsins hafi verið gengið óþarflega nærri sér, þar sem hann hafi ekki notið viðhlítandi læknisaðstoðar meðan á því stóð. Verði talið hafa verið réttmætt að hneppa hann í gæsluvarðhald telur hann það hafa staðið lengur en efni hafi þá staðið til.

          Við málflutning sinn vísar áfrýjandi til 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar til stuðnings kröfu sinni. Þá vísar hann einnig til ákvæða í XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, einkum 175. gr. og 176. gr. laganna. Loks vísar hann til 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

          Af hálfu stefnda er á því byggt að áfrýjandi uppfylli ekki skilyrði 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 til þess að geta átt rétt á bótum. Ekki felist ríkari bótaréttur honum til handa í tilvitnuðum ákvæðum stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu heldur en leiði af þessum lagaákvæðum.

II.

          Í 67. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um rétt borgara til verndar fyrir frelsissviptingum og við framkvæmd þeirra. Í 1. - 4. mgr. er vikið að efnislegum atriðum sem þetta varða. Síðan er í 5. mgr. kveðið svo á, að maður skuli eiga rétt til skaðabóta hafi hann verið sviptur frelsi að ósekju. Ákvæði 5. mgr. komu ný inn í stjórnarskrána með 5. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögunum segir meðal annars, að í orðin „verið sviptur frelsi að ósekju“ sé unnt að leggja þann almenna skilning að þau vísi til þess „að maður hafi verið sviptur frelsi saklaus eða að ástæðulausu. Með orðalagi ákvæðisins er ætlunin að mönnum verði tryggður bótaréttur ef þeim hefur verið gert að sæta frelsissviptingu án þess að hafa til þess unnið.“

Við skýringu þessa stjórnarskrárákvæðis verður að hafa í huga, að það úrræði að handtaka menn og loka þá inni, felur í sér afar íþyngjandi skerðingu á frelsi þeirra. Heimild til þessa án þess að staðreynt hafi verið, hvort þeir hafi unnið til frelsisskerðingar, helgast fyrst og fremst af hagsmunum þjóðfélagsins af því að upplýsa afbrot í því skyni að geta beitt refsingum lögum samkvæmt. Standa rök til þess að sá maður, sem þurft hefur að sæta sviptingu á frelsi sínu í þágu slíkra almannahagsmuna, geti átt rétt á bótum frá ríkinu ef niðurstaðan verður sú, að rannsókn máls leiði ekki til málsóknar gegn honum eða hann verður fyrir dómi sýknaður af sakargiftum á þeim grundvelli að sök hans hafi ekki sannast.  Í nokkrum dómum Hæstaréttar á undanförnum árum hefur verið fjallað um skilyrði bótaréttar samkvæmt áðurnefndum ákvæðum í XXI. kafla laga nr. 19/1991 og þau þá verið skýrð með hliðsjón af 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Þannig er ljóst að þeir sem sæta þurfa gæsluvarðhaldi, án þess að hafa sannanlega til frelsisskerðingar unnið njóta bótaréttar, nema eitthvað sérstakt komi til sem skerði eða felli hann niður.

III.

Grunur hlaut að falla á áfrýjanda um aðild að líkamsárásinni, sem tekin var til rannsóknar 2. ágúst 2002, þegar hann var handtekinn þann dag. Fyrir lá að hann hafði dvalist í íbúðinni, þar sem verknaðurinn var framinn og hann var blóðugur og með áverka í andliti, þegar lögregla handtók hann. Það verður því fallist á það með héraðsdómi að nægilegt tilefni hafi verið til vistunar hans í gæsluvarðhaldi, eins og á stóð við upphaf rannsóknarinnar. Réttur hans til bóta fyrir gæsluvarðhald það sem honum var gert að sæta 4. ágúst til 13. september 2002 ræðst þá einkum af því hvort talið verði að hann hafi sjálfur átt þátt í að skapa þær aðstæður sem réttlættu gæsluvarðhaldið, auk þess sem taka þarf afstöðu til málsástæðna hans um að hann hafi ekki notið viðhlítandi læknishjálpar meðan á því stóð, sem og þess hvort það hafi staðið lengur en efni stóðu til.

Áfrýjandi var fyrst yfirheyrður af lögreglu eftir handtökuna aðfararnótt 3. ágúst 2002. Þá kvaðst hann meðal annars ekkert kannast við líkamsárás í íbúðinni, ekki þekkja SV, enginn hefði gist hjá þeim feðgum nóttina áður og engar skýringar geta gefið á áverkum sínum í andliti. Við yfirheyrslu fyrir dómi síðar sama dag kvaðst hann á hinn bóginn kannast við heimsókn SV og hafi hann verið í íbúðinni um morguninn, þegar áfrýjandi hafi farið út. Hann sagðist þá ekkert vita til þess að átök hefðu átt sér stað. Áverkana á andliti sínu sagði hann stafa af því, að hann hefði gengið á útidyrahurð. Kvaðst hann ekki hafa verið blóðugur þegar hann var handtekinn. Í þessari sömu skýrslu staðfesti áfrýjandi að rétt væri eftir sér haft í lögregluskýrslunni sem hann hafði gefið um nóttina.

Fyrir dómi daginn eftir sagði áfrýjandi að það hefði rifjast upp fyrir sér að áverki á kinnbeini við vinstra auga væri eftir son sinn S, sem hefði slegið sig, þegar hann hefði reynt að ganga á milli hans og SV eftir að þeir hafi verið byrjaðir að slást. Nú sagði hann að blóð á fötum sínum hefði getað smitast á sig þegar hann hefði gengið á milli mannanna.

          Af þessari lýsingu á framburði áfrýjanda við upphaf rannsóknarinnar er ljóst, að hann breyttist stöðugt um veigamikil atriði, sem snertu hugsanlegan þátt hans í líkamsárásinni. Honum tjáir ekki að bera því við, að þetta skýrist af áfengis- og fíkniefnaneyslu sinni, enda ber hann sjálfur ábyrgð á röngum og misvísandi framburði af þeim sökum. Samkvæmt þessu stuðlaði áfrýjandi að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á, eins og þetta er orðað í niðurlagi 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 og verða honum ekki dæmdar bætur fyrir að gripið var til þess úrræðis að hneppa hann í gæsluvarðhald við rannsókn málsins.

IV.

          Kemur þá til athugunar, hvort gæsluvarðhaldsvist áfrýjanda hafi orðið lengri en nauðsynlegt var vegna rannsóknarinnar. Fyrsti úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um gæsluvarðhald áfrýjanda var kveðinn upp 4. ágúst 2002 og staðfestur í Hæstarétti 9. sama mánaðar. Samkvæmt honum sætti hann gæsluvarðhaldi til 14. ágúst. Þann dag var gæsluvarðhaldsvist áfrýjanda framlengd til 4. september og staðfesti Hæstiréttur þá ákvörðun með dómi 19. ágúst 2002. Gæsluvarðhaldið var svo enn framlengt til 18. september með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Stytti Hæstiréttur þann tíma til 13. september með dómi 9. sama mánaðar. Að liðnum gæsluvarðhaldstíma samkvæmt þessum síðasta dómi var áfrýjanda sleppt.

          Fallist verður á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að unnið hafi verið ötullega að rannsókn málsins á gæsluvarðhaldstímanum. Rannsóknin laut meðal annars að því að rannsaka blóðsýni sem tekin höfðu verið á vettvangi og af fötum og líkama hinna grunuðu, þar á meðal áfrýjanda. Voru sýni þessi send til Rettsmedisinsk Institutt í Osló til skoðunar í tvennu lagi, 8. ágúst og 27. ágúst 2002. Bréfleg svör bárust þaðan 22. ágúst 2002 og með bréfi dagsettu 5. september sama ár. Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar 9. september var tekið fram að frekari úrvinnsla á rannsóknargögnum frá Noregi stæði yfir auk þess sem eftir væri að bera niðurstöður þessarar rannsóknar undir áfrýjanda. Af hálfu áfrýjanda hefur ekki sérstaklega verið á því byggt, að skort hafi á hraða við framgang þessa þáttar rannsóknarinnar. Hann hefur á hinn bóginn talið að sakleysi sitt hafi verið leitt í ljós fljótlega eftir að rannsóknin hófst.

Í lögregluskýrslu 12. ágúst 2002 játaði annar sona áfrýjanda aðild sína að líkamsárásinni og kvað áfrýjanda hvergi hafa komið nærri. Hinn sonurinn bar á þessum tíma við minnisleysi um atburði. Ekki verður talið að framburður sonanna hafi einn sér verið til þess fallinn að leysa áfrýjanda undan grunsemdum um refsiverða þátttöku í líkamsárásinni. Réttarmeinafræðileg rannsókn á áverkum SV lá fyrir 26. ágúst 2002. Um sama leyti var lokið yfirheyrslu flestra vitna sem talið var að gætu gefið upplýsingar um mannaferðir við íbúðina að Skeljagranda 4 á þeim tíma sem máli skipti. Skýrslur þeirra voru bornar undir áfrýjanda 30. ágúst 2002. Eftir að rannsóknargögn úr fyrrnefndri blóðrannsókn höfðu borist var gæsluvarðhaldstíma áfrýjanda að ljúka. Var þá tekin skýrsla af honum 12. september 2002, þar sem hann var meðal annars spurður um niðurstöður úr rannsókninni. Daginn eftir var honum sleppt úr gæsluvarðhaldi.

          Þegar þetta er virt verður ekki fallist á sjónarmið áfrýjanda um að upplýsingar, sem felldu hann undan grunsemdum um aðild að brotinu, hafi verið komnar fram með þeim hætti, að hann hafi átt kröfu á lausn úr gæsluvarðhaldi fyrr en raun varð á. Verður því fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms, að ekki séu efni til þess í málinu að dæma áfrýjanda bætur á þeim grundvelli, að gæsluvarðhaldsvist hans hafi staðið lengur en efni stóðu til.

V.

          Áfrýjandi hefur einnig reist kröfu sína á því að hann hafi á hluta gæsluvarðhaldstímans ekki notið viðhlítandi læknisþjónustu. Í hinum áfrýjaða dómi eru raktar vitjanir lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna til áfrýjanda eins og þær voru skráðar í dagbók gæsluvarðhaldsdeildar fangelsisins að Litla-Hrauni. Af hálfu áfrýjanda hefur þeirri skráningu ekki verið mótmælt. Hann hefur á hinn bóginn haldið því fram að kvörtunum sínum hafi ekki verið nægilega sinnt.

Áfrýjandi hefur ekki leitast við að sanna í málinu réttmæti staðhæfinga sinna um þetta. Þannig hefur hann ekki aflað og lagt fram vottorð eða aðrar upplýsingar frá þeim læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, sem til hans komu, um það sem fram fór við heimsóknir þeirra og raunar ekki heldur um þá sjúkdóma sem hann kveðst hafa verið haldinn. Áfrýjandi ber sönnunarbyrði í málinu um staðhæfingar sínar sem að þessu lúta. Þá sönnun hefur hann ekki fært fram og verður stefndi því sýknaður af kröfum sem hann reisir á þessum ástæðum.

VI.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Sívars Sturlu Bragasonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.


Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

          Ég á aðild að forsendum og niðurstöðu meirihluta dómenda að öðru leyti en því, að undir lokin í kafla II í forsendum meirihlutans, frá orðunum „Standa rök til þess að sá maður ...“ og út kaflann, tel ég að eftirfarandi texti ætti að koma í staðinn: „Standa augljós rök til þess að sá maður, sem þurft hefur að sæta sviptingu á frelsi sínu í þágu slíkra almannahagsmuna, skuli eiga rétt á bótum frá ríkinu ef niðurstaðan verður sú, að rannsókn máls leiði ekki til málsóknar gegn honum eða ef hann verður fyrir dómi sýknaður af sakargiftum á þeim grundvelli að sök hans hafi ekki sannast. Í slíkum bótarétti felst einungis, að sá sem átti þá hagsmuni sem kröfðust frelsissviptingarinnar, þ.e.a.s. almenningur, greiði bætur til þess einstaklings sem þurft hefur að fórna frelsi sínu tímabundið í þágu þeirra. Samkvæmt þessu verður talið að stjórnarskráin verndi bótarétt þeirra sem sæta þurfa gæsluvarðhaldi, án þess að hafa sannanlega til frelsisskerðingar unnið, nema eitthvað sérstakt komi til sem skerði eða felli þann bótarétt niður.“

          Þá tel ég að við þennan II. kafla í forsendunum ætti að bæta því sem hér fer á eftir:

          „Í XXI. kafla laga nr. 19/1991 er að finna ákvæði um bætur handa sakborningi o.fl. Þar er í 1. mgr. 175. gr. kveðið svo á, að kröfu um bætur megi taka til greina ef rannsókn hafi verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að háttsemi sem sakborningur var borinn hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana, eða sakborningur hafi verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu. Þó megi fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á. Í 176. gr. eru svo taldar upp þær rannsóknaraðgerðir sem leitt geti til bótaréttar og síðan sagt að bætur megi dæma: a. ef lögmæt skilyrði hefur brostið til aðgerða eða b. ef ekki hefur verið eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.

          Skilyrði b. liðar í 176. gr. laga nr. 19/1991 geta leitt til þess, að sakborningi verði synjað um bætur fyrir það eitt, að nægilegt tilefni teljist hafa verið til þeirra aðgerða sem bótakrafa byggist á. Ákvæðið gengur þannig lengra í að skerða bótarétt sakborninga en heimilt er samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Fullt tilefni getur hafa verið til aðgerða gegn sakborningi, þó að hann hafi ekki að neinu leyti sjálfur átt sök á að skapa þær aðstæður sem leiða til aðgerðanna. Verður það ekki talið standast að skerða rétt til bóta í slíkum tilvikum.

          Á hinn bóginn er ljóst, að sakborningur getur sjálfur hafa valdið eða stuðlað að því, að til rannsóknaraðgerða var gripið gegn honum. Er þá gert ráð fyrir í 175. gr. laga nr. 19/1991 að bætur til hans verði lækkaðar eða felldar niður eftir atvikum. Ekki verður talið, að ákvæði með þessu efni fari að neinu leyti í bága við 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár. Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga 1995 var tekið fram að bótaréttur samkvæmt ákvæðinu geti fallið brott ef maður telst sjálfur hafa átt sök á því að gripið hafi verið til sviptingar frelsis hans eða frelsissvipting hafi orðið svo löng sem raun beri vitni.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 er þeim, sem grunaður er um refsiverða háttsemi, óskylt að svara spurningum sem hana varða. Þá er í 1. mgr. 50. gr. laganna að finna heimild manna til að skorast undan vitnaskyldu, meðal annars um ætlaða refsiverða háttsemi nákominna ættingja, svo sem skyldmenna að feðgatali og niðja, og í 51. gr. er ákvæði sem kveður svo á, að manni sé ekki skylt að svara spurningu að viðlagðri vitnaábyrgð ef ætla megi að svar við henni geti fellt sök á hann sjálfan eða tilgreinda nána venslamenn hans. Kjósi maður í þeirri aðstöðu sem hér er lýst allt að einu að svara spurningum ber honum skylda til skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kann að skipta, sbr. 1. mgr. 33. gr. laganna.

Við lögreglurannsókn þá sem mál þetta varðar óskaði áfrýjandi ekki eftir að nýta sér rétt sinn til að neita að svara spurningum lögreglunnar, þó að sá réttur væri kynntur fyrir honum með þeim hætti sem lög ráðgera. Honum bar því að segja satt frá því sem hann var um spurður. Röng og villandi svör sem grunaður maður gefur eru til þess fallin að fella á hann sök, sem eftir atvikum getur valdið lækkun eða niðurfellingu bótakröfu hans vegna frelsissviptingar að ósekju.“

Svo sem fyrr sagði á, ég aðild að forsendum meirihlutans að öðru leyti og er sammála niðurstöðunni.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2004.

Mál þetta var höfðað 18. júní 2003 og dómtekið 22. þ.m.

Stefnandi er Sívar Sturla Bragason, Fannarfelli 4, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér miskabætur að upphæð 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr laga nr. 39/2001 frá 20. desember 2002 til 30. júní 2003 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga.  Einnig krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál en honum var veitt gjafsóknarleyfi 10. september 2003.

 Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur hans verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I

Föstudaginn 2. ágúst 2002 kl. 11.08 barst lögreglunni í Reykjavík tilkynning um að tveir menn væru á leið frá Skeljagranda 4 með alblóðugan mann á milli sín og hafi maðurinn verið með sárabindi á höfði.  Tilkynnandi kvað þá hafa komið út frá Skeljagranda 4, gengið göngustíg til austurs og farið að berja manninn.  Skömmu síðar tilkynnti íbúi að Seilugranda 13 að manni hefði verið kastað yfir grindverk inn á lóð leikskólans Gullborgar.  Fyrir ábendingu hans fann lögreglan manninn nær með­vitundar­lausan.  Hann var blóðugur á höfði, sokkin augu, sprungnar varir og rann blóð úr vitum hans.  Alblóðugt sárabindi var um höfuð hans.  Hann var algjörlega hulinn í runna þar sem hann lá á grúfu rétt innan við girðinguna.  Íbúi að Seilugranda 13, kvaðst hafa séð er synir stefnanda, S og K, Skeljagranda 4, Reykjavík hefðu kastað hinum slasaða yfir grindverk inn í runna á leikskólalóð Gullborgar.

Rannsóknarlögreglumenn komu til vettvangsrannsóknar kl. 12.05.  Þá hafði lögregla girt af vettvang og sjúkraflutningamenn flutt hinn slasaða af vettvangi.  Blóð sást á göngustígum, á grasi og á girðingu við leikskólann og sáraumbúðir voru við girðinguna.  Á bráðamóttöku slysadeildar fengust upplýsingar um það hver þolandinn var, þ.e. SV. Samkvæmt bráðabirgðaáverkavottorði reyndist hann við komu á spítala vera með mjög alvarlega áverka, aðallega á höfði,  auk þess sem hann hafði verið skorinn eða stunginn víða um líkamann.  Röntgenmyndir sýndu blæðingu á heila og brot á andlitsbeinum og var hann strax tekinn í aðgerð hjá heila- og taugaskurðlæknum.

Lögreglumenn fóru síðan að Skeljagranda 4 og var rætt við nokkra íbúa hússins en þeir vildu ekki koma fram undir nafni vegna hræðslu við hefndaraðgerðir af hendi K og S, eftir því sem skráð er í lögregluskýrslu.  Vitni númer 1 kvaðst hafa séð þá feðga hafa komið heim fimmtudaginn 1. ágúst, á bilinu kl. 17-18, með mikið magn áfengis.  Vitnið kvað stefnanda máls þessa hafa dvalist í íbúðinni um tíma.  Vitni númer 2 kvað annan þeirra bræðra, þann eldri, hafa komið heim um klukkan níu þá um morguninn, kallað eitthvað og klifrað síðan upp rennuna.  Eftir að hann hafi komið inn í íbúðina hafi byrjað mikil læti eins og um áflog væri að ræða.  Vitni númer 3 kvað mikil læti og köll hafa verið í íbúð þeirra bræðra aðfararnótt föstudagsins og húsgögn gengið til þannig að benti til áfloga.  Viðkomandi kvaðst hafa farið um húsið um klukkan sjö um morguninn og séð blóð á svalagólfinu fyrir framan íbúð þeirra bræðra.

Klukkan 12.30 sama dag voru synir stefnanda, K og S, handteknir vegna líkamsárásar við Eiðistorg og stefnandi var handtekinn í áfengisversluninni við Eiðistorg á svipuðum tíma.  Hann var þá með áverka og blóðugur í andliti, í blóðugum fötum og skóm.

Vegna rannsóknar málsins var stefnanda tekið blóðsýni kl. 15.45 þ. 2. ágúst og þvagsýni kl. 15.50 sama dag.  Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði 11. nóvember 2002 sýna niðurstöður rannsókna að etanól (alkóhól) var ekki í mælanlegu magni, hvorki í blóði né þvagi stefnanda, en hinsvegar að hann hafi verið undir áhrifum amfetamíns og kannabis þegar blóðsýnið var tekið.

Í málinu liggur frammi skýrsla tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík dags. 21. ágúst 2002.  Þar segir að þann 2. ágúst s.á. klukkan 18 hafi hafist vettvangsrannsókn á Skeljagranda 4, annarri hæð til hægri.  Íbúðin sé í eigu móður kærðu, S og K, sem búi þar þótt þeir séu ekki skráðir þar til heimilis. Í skýrslunni greinir frá blóðugum skóförum frá útihurð íbúðarinnar að millihurð stigagangsins og að á grasi fyrir neðan svalirnar og útidyrahurðina hafi legið blóðug grisja.  Strax, er komið hafi verið inn í forstofu, hafi blasað við blóðslettur á veggjum, forstofuhurð, á gólfi og á skóm í forstofunni og að auki í stofu, baðherbergi og fleiri stöðum.  Haft hafi verið samband við  Þóru Steffensen réttarmeinafræðing til að skoða vettvanginn með lögreglumönnum.  Klukkan 24 hafi lokið fyrsta hluta vettvangsrannsóknar í íbúðinni og þá hafi verið búið að tryggja lífsýni sem tekin hafi verið.  Þessi  sýni og samanburðarblóðsýni við SV og feðgana (sem höfðu stöðu kærðra við rannsókn málsins) hafi verið send til dr. Gunnlaugs Geirssonar og þaðan til Noregs í DNA-kennslagreiningu.  Dagana 6. og 7. ágúst hafi farið fram rannsókn á blóðslettum á vettvangi og hafi hún að mestu leyti verið í höndum Þóru Steffensen.  Í skýrslu lögreglunnar segir síðan að af ummerkjum í íbúðinni að dæma verði ekki séð að nokkur hafi skollið utan í veggi eða ofna og hlotið þannig skaða af, heldur hafi verið um að ræða blóðslettur sem rekja megi til högga, annað hvort með hnefum eða áhöldum.

Skýrsla Þóru Steffensen  um réttarmeinafræðilega rannsókn á ávekum SV er dagsett 26. ágúst 2002.  Samkvæmt niðurstöðu hennar voru honum veittir áverkar af ýmsu tagi, m.a. með hníf, mar, rispur, glóðaraugu, nefbrot og áverki á eyra sem samrýmist því að vera gerður af beltisgatara..  “Höfuðáverkarnir voru alvarlegastir og hefðu leitt til dauða [SV] hefði hann ekki fundist eins fljótt og raun bar vitni og komist undir læknishendur.”   Skýrsla Þóru Steffensen um blóðslettu­rannsókn er dagsett 13. janúar 2003.  Niðurstaða hennar er á þá leið að miðað við útbreiðslu og magn blóðs í hægindastól í stofunni hafi mikið af áverkum SV hlotist þegar hann sat í stólnum.  Staðsetning og útlit annarra blóðslettna sé ósértækari og samrýmist þær því að blóð hafi slest af áhöldum eða líkamshlutum við hreyfingu um íbúðina en ekkert af þeim hafi útlit sem bendi til að SV hafi verið barinn annars staðar í íbúðinni en í stofunni.  Í baðherberginu sjáist víðtæk merki um að blóð hafi verið þrifið með vatni og mikið slest og lekið í ýmsar áttir við þá hreingerningu.

Í álitsgerð Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði, dags. 11. september 2002, er greint frá niðurstöðum DNA-rannsókna-framhaldsrannsókna.  Samkvæmt því fannst blóð þolanda, SV, á líkama stefnanda máls þessa (báðum höndum-fingrum, lófum og báðum fótum-milli táa) og fatnaði hans (gallabuxum og strigaskóm beggja fóta).

Með eftirtöldum úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur var fallist á kröfur lögreglu­stjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald stefnanda með heimild í a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 en stefnandi  kærði alla úrskurðina til Hæstaréttar.  Með úrskurði 4. ágúst 2002 var stefnanda gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 14. ágúst 2002 kl. 16.  Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn með dómi 9. ágúst 2002.  Með úrskurði 14. ágúst 2002 var stefnanda gert að sæta áfram gæslu­varðhaldi allt til miðvikudagsins 4. september 2002 kl. 16.  Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn með dómi 19. ágúst 2002.  Með úrskurði 4.  september 2002 var stefnanda gert að sæta gæsluvarðhaldi  allt til miðvikudagsins 18. september  2002 kl. 16.  Með dómi  9. september 2002 féllst Hæstiréttur á að fullnægt væri skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til áframhaldandi gæsluvarðhalds en markaði gæslu­varðhaldinu þann tíma að það skyldi vara allt til kl. 16 föstudaginn 13. september 2002.

Samkvæmt vottorði fangelsisins Litla Hrauni losnaði stefnandi úr gæsluvarðhaldi 13. september 2002 og tók þá við afplánum vararefsingar sem lauk 3. október 2002.

Allan gæsluvarðhaldstímann var stefnandi í einangrunarvistun með þeim takmörkunum, sem greinir í b-d liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991, að því undanskildu að fjölmiðlabanni var aflétt 28. ágúst 2002 með dómi Hæstaréttar sem staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðinn 24. s.m. en með honum var fallist á kröfu stefnanda.   

Í málinu krefst stefnandi bóta vegna gæsluvarðhaldsins og sendi lögmaður hans  dómsmálaráðuneytinu kröfubréf þess efnis 30. maí 2003.

Í skýrslugjöf hjá lögreglu 2. ágúst kvað K SV hafa komið í heimsókn til sín að Skeljagranda 4 klukkan 10-11 kvöldið áður, stoppað smá stund og farið síðan í burtu.  Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvort bróðir hans hafi verið heima en faðir hans hafi verið heima.  Hann kvaðst ekki muna hvenær hann hafi farið að heiman um morguninn en farið á bensínstöð og keypt sígarettur, farið síðan heim og vakið bróður sinn og föður. Aðrir hafi ekki þar þá.  Eftir það hafi þeir bræður farið út á Eiðistorg  þar sem þeir voru handteknir.

Lögregluskýrsla var tekin af S 3. ágúst.  Hann kvaðst hafa séð SV morguninn áður er hann hafi hent honum út úr íbúðinni.  Hann hafi komið með fullt af vínflöskum um miðnætti aðfararnótt föstudagsins og verið í íbúðinni er hann hafi sjálfur farið að sofa.  Hann kvað föður sinn og bróður einnig hafa verið heima og verið að drekka áfengi.  Er hann hafi vaknað um morguninn hafi hann séð SV inni á baðherbergi, á grúfu ofaní klósettinu, og er hann hafi lyft honum upp hafi hann séð að hann var krambúleraður í framan.  SV hafi verið mjög ölvaður og er hann hafi verið að klæða sig í skóna hafi hann skollið með höfuðið í miðstöðvarofn svo sprungið hafi fyrir.  Hann kvaðst hafa bundið grisju um hausinn á honum og hent honum út.  Hann hafi síðan farið í að þrífa upp blóðið og taldi að bróðir hans og faðir hafi verið sofandi og að hann hafi verið einn við þrifin.  Eftir það hafi þeir bræður farið út á Eiðistorg til að ná sér í sígarettupakka en þá verið handteknir.  Aðspurður hvort faðir hans eða bróðir hafi séð útlitið á SV er hann hafi hent honum út kvaðst hann halda að bróðir hans hefði séð hann en ekki faðir hans þar sem hann hafi verið sofandi að hann héldi.

Við upphaf yfirheyrslu lögreglu yfir stefnanda 3. ágúst var honum kynnt að hann væri grunaður um aðild að stórfelldri líkamsárás og kvaðst hann ekki vita hvað verið væri að ræða um og ekki þekkja SV.  Hann kvaðst hafa verið að Skeljagranda 4 hjá strákunum sínum, þar sem hann hafi verið í mánuð, fimmtudagskvöldið 1.ágúst og hafi þeir verið þar einir.  Hann kvaðst ekki hafa drukkið áfengi um kvöldið og hafi þeir feðgar verið að horfa á sjónvarp.  Aðspurður hvort einhver hafi komið í heimsókn sagði hann:  “Það er alltaf fullt hús heima hjá þeim.”  Hann kvaðst ekki halda að neinn hefði gist hjá þeim um nóttina.  Hann kvaðst hafa vaknað klukkan um níu til tíu um morguninn.  Einhverjir strákar hafi þá komið heimsókn en hann hafi sagt að hann vildi ekki neitt fyllerí og farið út klukkan um tíu til ellefu.  Aðspurður hvort einhver læti hefðu verið í íbúðinni þá um morguninn sagði hann að þar hefði verið rifrildi en að hann vissi ekki á milli hverra.  Hann kvaðst ekki hafa séð blóð í íbúðinni.  Honum var bent á að hann væri með áverka í andliti og var spurður hvernig hann hefði fengið þá.  Hann kvaðst ekki vita það.  Hann kvaðst hafa verið á leiðinni í ríkið við Eiðistorg þegar hann var handtekinn.

Síðar komu fram játningar S og K um líkamsárásir á SV, fyrst af hálfu hins fyrrnefnda fyrir dómi við fyrirtöku kröfu um gæsluvarðhald 3. ágúst og af hálfu hins síðarnefnda í lögregluskýrslu 13. september. 

Við skýrslutöku af S 12. ágúst kvaðst hann hafa barið stefnanda, sem hafi verið sofandi í sófa, eftir að SV hefði sagt sér að stefnandi hefði tekið peninga sem S grunaði SV um að hafa tekið. Hann hafi kýlt hann í vinstra auga og K hafi komið og kýlt hann hinum megin í andlitið.  Við yfirheyrslu hjá lögreglu 12. ágúst kvaðst K hafa gefið stefnanda, sem hafi setið í sófa, á kjaftinn af því að hann hafi rænt af sér peningum.  Þetta hafi verið u.þ.b. hálftíma áður en hann var handtekinn.

Við skýrslutöku lögreglu 12. ágúst kvaðst S hafa þrifið blóðið heima hjá sér með aðstoð K.  Við skýrslutöku lögreglu 3. september kvaðst hann telja að hafi mikið blóð fundist í fötum stefnanda gæti það verið úr SV þar sem hann hafi verið að hjálpa sér við að þrífa.  Í lögregluskýrslu 6. september var hann spurður út í það hvar þeir feðgar hafi verið að hjálpast að við að þrífa.  Hann svaraði því til að hann myndi eftir að hafa skipað stefnanda að fara að þrífa blóðið úr íbúðinni á meðan þeir K færu í burtu en hann hafi aldrei séð hann þrífa neitt.  Við skýrslutöku lögreglu 12. september bar hann á  sama veg um það að hann hefði sagt stefnanda að þrífa þegar hann fór út og var handtekinn en ekki séð hann þrífa neitt. 

Við skýrslutöku lögreglu af K 9. september var hann spurður hvort hann hefði hjálpað S og stefnanda að þrífa upp blóð í íbúðinni og svaraði hann því til að hann myndi eftir að hafa hjálpað S að þrífa upp blóð eftir að þeir skildu við SV á leikskólalóðinni.  Hann kvaðst minnast þess að þeir hafi reynt að vekja stefnanda til að hann hjálpaði þeim en það hafi ekki tekist.  Samkvæmt lögregluskýrslu, sem var tekin af honum 13. september, var hann spurður hvort stefnandi hefði aðstoðað við þrifin og svaraði hann því til að það hafi hann ekki gert enda ekki verið fær um það.

Við fyrirtöku í dómi 3. ágúst vegna kröfu um gæsluvarðhald yfir stefnanda kvaðst hann ekkert vita um málið og ekki hafa lagt hendur á SV sem hafi verið kunningi sona sinna en hann hafi ekki skipt sér af þeim.  Til rifrildis hafi komið en hann vissi ekki til að átök hefðu orðið. Spurður um áverka á andliti hans sagði stefnandi að það hafi gerst þegar hann fór út og hafi hann gengið á útidyrahurðina.  Hann kvað SV hafa verið í íbúðinni og allt verið í lagi þegar hann fór út í áfengisverslun um morguninn.  Hann óskaði að taka fram að hann hefði hvorki verið alblóðugur né blóðugur þegar hann hafi verið handtekinn.  Við fyrirtöku í dómi 4. ágúst vegna gæsluvarðhaldskröfunnar kvað stefnandi það hafa rifjast upp fyrir sér að áverki á kinnbeini við vinstra auga væri eftir son sinn,  S.  Hann hafi reynt að ganga á milli S og SV þegar þeir voru byrjaðir að slást en þá hafi S slegið sig og sagt sér að skipta sér ekki af því sem honum kæmi ekki við.  Hann kvaðst hafa vankast við höggið og ekki muna eftir dvöl sinni á Eiðistorgi.  Varðandi sár á vör sagði hann það vera frunsu en það gæti einnig verið eftir högg sem gæti hafa átt sér stað í sama skiptið.  Aðspurður um blóð, sem fannst á fötum hans, sagði hann að það gæti hafa smitast á sig þegar hann gekk á milli þeirra S og SV. 

Í lögregluskýrslu, sem var tekin af stefnanda 9. ágúst, skýrði hann frá því að á fimmtudagskvöldinu hefði hann verið að drekka með sonum sínum og SV og þegar hann hafi farið að sofa hafi þeir SV, S og K setið í stofunni og ekki annað að sjá en að allt væri þar í góðu.  Hann kvaðst muna eftir því að SV og S hefðu eitthvað verið að rífast.  Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa vaknað neitt um nóttina en taldi sig hafa farið út í ríki til að kaupa áfengi á föstudagsmorgninum.  Hann kvaðst ekkert muna eftir sér frá því að hann sofnaði á fimmtudagskvöldið eða aðfararnótt föstudag og þar til hann vaknaði í fangaklefa.  Hann var beðinn um að lýsa ástandi íbúðarinnar eins og hann myndi eftir henni síðast og svaraði hann því til að eftir því sem hann myndi hefði hún verið snyrtileg enda hafi þeir feðgarnir hjálpast að við að skúra þar, skrúbba og bóna alla vikuna.  Hann kvaðst vera hálfblindur og ætti að nota gleraugu og gæti það verið ástæða þess að hann hefði ekki tekið eftir blóði í íbúðinni.  Auk þess gæti ástæðan einnig verið sú að hann hafi verið drukkinn.

Lögregluskýrsla var tekin af stefnanda 30. ágúst.  Honum voru kynntir fram­burðir, annars vegar konu um að hún hafi mætt honum í stigagnginum klukkan 8.30 þar sem hann hafi verið á leið upp berfættur og með blað í hendi og hins vegar annarrar konu þess efnis að hún hafi séð hann fara frá húsinu um klukkan níu og ganga í áttina að Eiðistorgi.  Hann kvað sig ráma í það að hafa farið niður að sækja blaðið og minntist þess að hafa þá mætt karlmanni en mundi ekki eftir að hafa mætt konu.  Þá hafi allt verið í lagi uppi í íbúðinni eða hann vissi ekki betur.  Hann gæti ekki munað hvernig aðstæður voru í íbúðinni þegar hann fór niður en hann héldi að hann hafi verið nývaknaður.  Hann teldi sig mundu hafa tekið eftir því ef þar hefðu verið slagsmál.  Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa farið út og áleiðis að Eiðisgranda.  Einhvern tímann á föstudagsmorgninum hafi hann gegnið á milli SV og S í íbúðinni þegar þeir hafi verið að rífast.  S hafi verið mjög reiður á svipinn og teldi hann að S hefði kýlt sig á vinstra auga en mundi þó ekki eftir að hafa fengið á sig högg.  Hins vegar myndi hann eftir að hafa verið að hlaupa út úr íbúðinni og hafi hann þá verið mjög hræddur og vankaður.  Hann kvaðst ekki hafa séð nein átök.  Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir því að blóð væri í íbúðinni og kvaðst engar skýringar geta gefið á ætluðu blóði á vettvangi.  Aðspurður um blóð í fötum hans sagði hann hafa blætt úr sári, sem hann hefði fengið þegar S kýldi hann, og  fyndist sér líklegt að blóðið gæti hafa farið í föt sín.  Hann kvaðst enga skýringu hafa á því hvers vegna ætlað blóð hafi verið bæði aftan og framan á fatnaði hans og skóm.  Þá  kvaðst hann enga skýringu geta gefið á því að hann var með blóðtaum á milli tánna.

II

Kröfugerð stefnanda er reist á því að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi að ósekju.  Frá upphafi rannsóknar málsins hafi stefnandi haldið fram sakleysi sínu og við rannsóknina hafi ekkert komið fram um það að hann ætti hlut að líkamsárásinni á SV.  Þrátt fyrir þessar staðreyndir hafi stefnanda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarhagsmuna frá 4. ágúst til 13. september s.á. 

Ekki sé vafamál að gæsluvarðhaldið og sú einangrun, sem stefnandi hafi sætt, hafi haft í för með sér fyrir hann andlega þjáningu og miska.  Miskabótakrafan sé áætluð og verði að telja hana síst of háa miðað við þann tíma sem stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi svo og með tilliti til hinna alvarlegu sakargifta.

Um lagarök er af hálfu stefnanda vísað til XXI. kafla laga nr. 19/1991 og þá sér í lagi 175. gr. og 176. gr.  Einnig er vísað til 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 5. gr. og  8. gr. laga nr. 97/1995, svo og til 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

III

Af hálfu stefnda er mótmælt staðhæfingum stefnanda um að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi að ósekju.  Hann hafi legið undir rökstuddum grun um að hafa í félagi við syni sína ráðist á SV, misþyrmt honum á hrottafenginn hátt í íbúðinni og hafi ætluð brot getað varðað við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur um að stefnandi skyldi sæta gæsluvarðhaldi, sem hafi verið staðfestir af Hæstarétti, og gæsluvarðhaldsvist sú, sem stefnandi hafi sætt á grundvelli þeirra til 13. september, hafi í einu og öllu verið lögmætar aðgerðir sem helgast hafi af rannsóknarhagsmunum, sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Rannsókn málsins hafi verið haldið sleitulaust áfram meðan sakborningar sættu gæsluvarðhaldi en fyrir margra hluta sakir hafi hún reynst torveld, ekki síst vegna hins nána skyldleika sakborninganna.

Á því er byggt af hálfu stefnda að stefnanda hafi mátt vera ljóst mikilvægi þess að skýra greinilega og undanbragðalaust frá þannig að unnt væri að afla staðfestinga þess að rétt væri frá greint.  Í því efni er vísað til þess að framburður stefnanda um að hann hafi ekkert blóð séð í íbúðinni hafi verið með miklum ólíkindablæ, hann hafi orðið margsaga, m.a. um tilkomu áverka sem hann hafði á andliti, og eftir því sem leið á rannsóknina hafi hann farið að svara því til að hann myndi ekki neitt.  Með framferði sínu hafi stefnandi torveldað rannsókn málsins og sjálfur háð sér það gæsluvarðhald sem hann sætti.  Það leiði til sýknu af kröfum stefnanda, sbr. lokamálslið 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991.

Á því er byggt af hálfu stefnda að með öllu bresti skilyrði fyrir því að stefnandi geti átt bótarétt samkvæmt 176. gr., sbr. 1. mgr. 175. gr., laga um meðferð opinberra mála en ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála veiti ekki ríkari bótarétt en tilgreind ákvæði.

Varakrafa stefnda er á því byggð að lækka beri bætur stórlega, sbr. umfjöllun hér að framan, þ.á m. vegna eigin sakar stefnanda.  Því er mótmælt að dráttarvextir dæmist frá fyrri tíma en þingfestingu málsins en kröfubréfi stefnanda 30. maí 2003 hafi engin gögn fylgt.

IV

Gögn málsins sýna að af hálfu lögreglu hafi verið unnið ötullega og án undandráttar að rannsókn málsins.  Vegna hinna miklu áverka sem SV hlaut reyndist hann ekki hæfur til skýrslutöku lengi vel og síðar kom í ljós að hann mundi lítið eftir því sem gerðist.  Verulegs misræmis gætti í framburðum feðganna.  Í þágu rannsóknarinnar þurfti að taka skýrslur af fjöldamörgum vitnum.  Vettvangsrannsókn í íbúðinni stóð til 13. ágúst 2002 og vinnu í tæknideild við úrvinnslu hennar lauk 21. ágúst s.á.  Framkvæma þurfti mikilvægar og tímafrekar réttarlæknisfræðilegar rannsóknir.  Fyrri skýrsla Þóru Steffensen réttarmeinafræðings barst 26. ágúst 2002 og álitsgerð rannsóknastofu Háskólans í meinafræði um DNA rannsókn lá fyrir þ. 11. september 2002.

Rannsókn á ætluðum þætti stefnanda lauk án þess að hann væri að fullu skýrður. Málið var fellt niður gagnvart stefnanda með bréfi ríkissaksóknara 20. desember 2002.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2003 (mál nr. S-4097/2002) voru áðurnefndir synir stefnanda dæmdir til refsingar fyrir líkamsárás sem um ræðir í málinu.

Fyrir því eru dómafordæmi Hæstaréttar (t.d. mál nr. 175/2000 og 269/2000), sem lögð verða til grundvallar við úrlausn málsins, að hvorki 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar né 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði skýrðar svo að með þeim sé sakborningi veittur ríkari réttur til skaðabóta en mælt er fyrir um í ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Tilvísun stefnanda í 70. gr. stjórnarskrárinnar á ekki við um efni málsins.

Í 1. ml. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 eru talin grundvallarskilyrði þess að fallist verði á kröfur um bætur til handa sakborningi samkvæmt XXI. kafla laganna.  Í þessu tilviki er fullnægt því skilyrði að rannsókn hafi verið hætt og ákæra ekki gefin út vegna þess að ekki fékkst sönnun um þá háttsemi sem stefnandi var borinn.  Í 176. gr. laga nr. 19/1991 eru talin tilvik þess að dæma megi bætur vegna tiltekinna aðgerða, sem byggjast á rannsókn ætlaðra brota, m.a.gæsluvarðhalds:  a.  ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða b.  ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.    uppfylltum skilyrðum samkvæmt framangreindu getur reynt á ákvæði 2. ml. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 um að fella megi niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. 

Engin efni eru til þess, með vísun til þess sem upplýst hefur verið um atvik sem að framan greinir, að komist verði að annarri niðurstöðu en þeirri, sem fram kemur í tilvitnuðum dómum Hæstaréttar sem staðfestu gæsluvarðhaldsúrskurði, að lögmæt skilyrði, og eins og á stóð nægilegt tilefni, hafi verið til vistunar stefnanda í gæsluvarðhaldi, sbr. a. lið og að hluta b. lið 176. gr. laga nr. 19/1991.  Um önnur tilvik, sem fallið geti undir b. lið, greinir frá því í lýsingu málsatvika í stefnu að stefnandi hafi ítrekað óskað eftir lækni, geðlækni og sálfræðingi en því hafi ekki verið sinnt.  Með bréfi, dags. 19. ágúst 2002, til framkvæmdastjóra fangelsisins Litla Hrauni hafi verið kvartað undan þessu af hálfu stefnanda og þess óskað að hann fengi þá læknisþjónustu sem honum væri nauðsynleg.  Þá loks hafi verið við þessu brugðist á viðeigandi hátt.  Þessu er af hálfu stefnda svarað með framlagningu vottorðs fangelsisins Litla Hrauni sem hefur að geyma samantekt úr dagbók gæsluvarð­haldsdeildar.  Þar kemur eftirfarandi fram sem hefur ekki verið hrakið af hálfu stefnanda:  Þann 4. ágúst, þ.e. við móttöku stefnanda í gæsluvarðhaldið, var haft samband við lækni sem ákvað lyfjagjöf handa honum og þ. 6. ágúst kom læknirinn og ræddi við stefnanda.  Þann 8. ágúst kom læknir og tók blóðprufu úr stefnanda.  Hjúkr­unar­fræðingar, geðlæknir, læknir og sálfræðingur töluðu síðan við stefnanda hvern eftirtalinna daga í ágúst 2002:  13. (hjúkrunarfræðingur), 14. (hjúkrunar­fræðingur), 15. (geðlæknir og læknir), 20. (sálfræðingur),  22. (læknir).

Samkvæmt framangreindu er fallist á það með stefnda að skilyrði þess skorti að fallist verði á miskabótakröfu stefnanda.

Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun lögmanns hans, Hilmars Ingi­mundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem eru ákveðin 300.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Sívars Sturlu Bragasonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.