Print

Mál nr. 338/2002

Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Rannsókn sakamáls
  • Handtaka
  • Gæsluvarðhald
  • Embættismissir
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. apríl 2003.

Nr. 338/2002.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

gegn

Hannesi Inga Guðmundssyni

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

og gagnsök

 

Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Rannsókn opinbers máls. Handtaka. Gæsluvarðhald. Embættismissir. Skaðabætur. Miskabætur. Gjafsókn. Sératkvæði.

H starfaði sem tollfulltrúi þegar grunur beindist að honum um að hafa tvisvar átt þátt í ólöglegum innflutningi á áfengi. Í kjölfarið var hann handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald 16. janúar 1997 sem framlengt var í tvígang til 12. febrúar 1997. Þá var honum veitt lausn úr starfi um stundarsakir í lok janúar sama ár og vikið úr starfi að fullu í byrjun nóvember. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2001 var H sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en þeim dómi var ekki áfrýjað. Höfðaði H mál til heimtu skaðabóta vegna handtöku og gæsluvarðhalds að ósekju, missis embættis og dráttar á málsmeðferð. Með vísan til málsatvika og málsgagna var talið að fullt tilefni hefði verið til handtöku H og gæsluvarðhaldsúrskurðanna 16. og 23. janúar 1997. Málið hefði hins vegar verið að fullu upplýst 30. janúar þegar enn var beðið um framlengingu gæsluvarðhaldsins en ekki yrði séð að þörf hefði verið á beiðni lögreglunnar þar um. Tekið var fram að í lausnarbréfi fjármálaráðherra hefði verið fullyrt að ekkert benti til þess að ávirðingar sem á hann væru bornar væru ekki réttar, en á þeim tíma var rannsókn lögreglu ekki lokið. Ávirðingar þær sem H var grunaður um, voru taldar réttlæta frávikningu hans um stundarsakir án áminningar samkvæmt 3. og 4. mgr. 26. gr. nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hins vegar sönnuðust þær ekki og gat Í þannig ekki sýnt fram á að lagaskilyrði hefðu verið til þess að víkja H að fullu úr embætti. Þá var talið að dráttur á meðferð málsins frá því að rannsókn lögreglu lauk endanlega í júní 1998 hefði verið óhóflegur og ekki skýrður og andstæður 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um það efni. Var Í gert að greiða H bætur eftir XXI. kafla laga nr. 19/1991 vegna ólögmæts gæsluvarðhalds frá 30. janúar 1997 til 12. febrúar sama ár, fjárhags- og miskabætur vegna embættismissis og miskabætur vegna óhóflegs dráttar á rannsókn opinbers máls, sem meðal annars beindist að honum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. júlí 2002. Hann krefst sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda og greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á dómkröfum gagnáfrýjanda og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 9. september 2002. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 40.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. janúar 1997 til 1. júlí 2001, en með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 11. nóvember 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 8. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms um fjárhæð bóta, vexti og málskostnað varðandi brottvikningu úr starfi, en að auki greiði aðaláfrýjandi honum 10.000.000 krónur, auk vaxta og málskostnaðar í bætur vegna frelsissviptingar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki lögbundið gjafsóknarmál varðandi skaðabætur vegna frelsissviptingar að ósekju. Hann hefur fengið gjafsókn fyrir Hæstarétti að því er þann þátt varðar.

I.

Málsatvikum er ítarlega lýst í héraðsdómi. Þar kemur meðal annars fram að gagnáfrýjandi hafði verið tollvörður hjá Tollgæslunni í Reykjavík frá 1. júlí 1987, þar af tollfulltrúi frá 1. apríl 1991, þegar í upphafi árs 1997 beindist að honum grunur um að hafa tvisvar átt þátt í ólöglegum innflutningi á áfengi árið 1996. Var hann handtekinn 15. janúar 1997 og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Gagnáfrýjandi sat í gæsluvarðhaldi til 12. febrúar sama ár, er hann var látinn laus. Hann var ákærður 8. nóvember 2000, annars vegar fyrir að hafa veitt kunningja sínum liðsinni við ólöglegan innflutning á samtals 9.240 lítrum af sterku áfengi þegar hann veitti bráðabirgðaafgreiðsluleyfi (neyðarleyfi) fyrir vörugámi þann 5. júní 1996 til Kjötgæða hf., sem innflytjanda. Þetta átti hann að hafa gert enda þótt vörur þær, sem tilgreindar voru í vörulýsingu, féllu ekki undir heimild til slíks leyfis, án þess að hafa fullnægjandi gögn um vörur þær sem í gáminum voru og án þess að hafa sannreynt það, en með þessu hafi innflytjandinn komist hjá því að greiða innflutningsgjöld af áfenginu. Hins vegar var hann ákærður fyrir að hafa flutt 7.848 lítra af sterku áfengi til landsins á ólögmætan hátt ásamt áðurgreindum kunningja, en áfengið áttu þeir að hafa keypt haustið 1996 í ferð, sem þeir fóru saman til Bandaríkjanna. Áfengið var flutt til Íslands í gámi sem kom til landsins 4. desember 1996 á nafni TH. Ólafssonar. Áfenginu var komið inn í landið án tollafgreiðslu á þann hátt að gámurinn var afhentur innflytjandanum að viðstöddum gagnáfrýjanda á tollsvæði Hf. Eimskipafélags Íslands í Sundahöfn 19. desember 1996 til flutnings yfir á frísvæði Tollvörugeymslunnar hf. við Héðinsgötu. Gámurinn var klukkan 17:00 sama dag afhentur út af frísvæðinu að beiðni innflytjandans undir því yfirskyni að flytja ætti hann tafarlaust aftur á tollsvæði Eimskipafélagsins til endurútflutnings. Því var haldið fram í ákæru að gagnáfrýjandi hefði andstætt starfsreglum innsiglað gáminn á frísvæðinu, sem ekki var á vinnusvæði hans í greint sinn. Gámurinn skilaði sér ekki inn á tollsvæði Eimskipafélagsins í Sundahöfn fyrr en kl. 17.20 daginn eftir. Hafði kunninginn látið í millitíðinni flytja hann á athafnasvæði  fyrirtækis í Reykjavík þar sem hann rauf tollinnsiglið og tók mest allt áfengið úr gáminum og setti annan varning í staðinn til þess að gámurinn héldi álíka þyngd. Kunninginn mun síðan hafa gengið aftur frá tollinnsiglinu, en upplýst var að það snéri þá öfugt.

Tollstjórinn í Reykjavík veitti gagnáfrýjanda lausn úr starfi um stundarsakir 31. janúar 1997 með vísun til 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 3. júlí sama ár var mál hans fengið nefnd samkvæmt 27. gr. þeirra laga til meðferðar. Í álitsgerð nefndarinnar 15. september 1997 var ekki talin þörf á því að ganga eftir rannsóknargögnum frá embætti ríkislögreglustjóra. Var niðurstaða hennar sú að gagnáfrýjanda hefði verið réttilega vikið úr starfi um stundarsakir án þess að honum væri áður gefinn kostur á að tala máli sínu, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996. Gagnáfrýjanda var síðan vikið úr starfi að fullu og öllu frá 1. nóvember 1997 með bréfi fjármálaráðuneytis 29. október 1997. Honum hafði áður verið gefinn kostur á andmælum og hélt hann þá fram sakleysi sínu af þeim ávirðingum sem á hann höfðu verið bornar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2001 var gagnáfrýjandi sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Var þeim dómi ekki áfrýjað. Sagði í dóminum að í málinu lægju ekki fyrir skriflegar reglur um framkvæmd tollskoðunar á vörum, sem veitt er bráðabirgðaleyfi fyrir. Það var álit dómsins að afgreiðsla gagnáfrýjanda á bráðabirgðaafgreiðslunni hefði ekki augljóslega verið andstæð reglum um slíka afgreiðslu. Þótti ósannað gegn neitun hans að hann hefði framið brot það sem honum var gefið að sök varðandi bráðabirgðaleyfið. Þá sagði í dóminum varðandi innflutninginn í desember 1996 að engin gögn bentu til þess að gagnáfrýjandi hafi komið að því sem gert var við gáminn eftir að hann var kominn af svæði Tollvörugeymslunnar 19. desember. Engin gögn styddu að heldur þátt hans í því að hafa staðið að kaupum á áfenginu eða að hafa átt þátt í að koma því inn í landið nema með því að sjá um tollafgreiðslu gámsins bæði á svæði Eimskipa og í Tollvörugeymslunni. Hugsanlegt brot á starfsreglum þess efnis að tollverðir sinntu ekki tollafgreiðslu á milli svæða, sem ekki virðast hafa verið skriflegar eða skýrar á þessum tíma, nægði ekki til að fella sök á gagnáfrýjanda gegn neitun hans. Loks sagði í dóminum um málsmeðferðina að ríkistollstjóraembættið hafi sent málið til rannsóknarlögreglu ríkisins í janúar 1997 og hafi rannsókn strax verið hafin. Gögn málsins bæru með sér að rannsókn hafi að mestu verið lokið fyrri hluta árs 1997 að því undanskildu að reynt hafi verið að afla gagna frá Bandaríkjunum um kaup á áfenginu. Í bréfi fjármálaráðuneytis 9. júní 1998 komi fram að þessari rannsókn væri lokið, en óheimilt væri að nota gögnin vegna tvísköttunarsamninga milli ríkjanna. Samkvæmt þessu hafi þáttur kunningja gagnáfrýjanda verið ljós um mitt ár 1997 og rannsókn málsins í heild verið lokið ekki síðar en í júní 1998. Sagði í dóminum að rekstur málsins hafi dregist langt úr hófi hjá ríkislögreglustjóra.

Gagnáfrýjandi höfðar mál þetta til heimtu skaðabóta í fyrsta lagi vegna handtöku og gæsluvarðhalds að ósekju, í öðru lagi sökum missis embættis og í þriðja lagi vegna dráttar á málsmeðferð.

II.

Samkvæmt gögnum málsins voru teknar skýrslur af gagnáfrýjanda 22., 24. og 30. janúar og 4. og 12. febrúar meðan hann sætti gæsluvarðhaldi 1997. Fóru yfirheyrslurnar fram á skrifstofu rannsóknarlögreglu ríkisins og var gagnáfrýjandi fluttur í bifreið á milli Litla-Hrauns og yfirheyrslustaðar. Gagnáfrýjandi heldur því fram að við komu í gæsluvarðhaldsfangelsið hafi hann jafnan verið berháttaður í leitarskyni og látinn leggjast á fjóra fætur og síðan verið leitað í endaþarmi hans. Hafi honum verið sagt að um ófrávíkjanlegar reglur væri að ræða.

Gagnáfrýjandi var boðaður til skýrslutöku hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 15. janúar 1997. Lágu þá fyrir skýrslur Tollgæslu Íslands 10. janúar 1997 og 14. janúar sama ár, þar sem fram kom þáttur gagnáfrýjanda í umræddum tveimur tollafgreiðslum. Í skýrslu lögreglunnar frá 15. janúar kl. 14:46 var skráð að hann væri grunaður um hlutdeild í ætluðum tollalagabrotum og brot í opinberu starfi. Honum var í upphafi yfirheyrslunnar kynnt að hann væri handtekinn og honum boðinn réttargæslumaður, sem hann þáði. Eftir að réttargæslumaðurinn hafði komið á vettvang og rætt einslega við gagnáfrýjanda fór skýrslugjöfin fram. Var gagnáfrýjanda kynnt sakarefnið og skýrði hann greiðlega frá þátttöku sinni í þeim tveimur tollafgreiðslum, sem málið fjallaði um. Var frásögn hans mjög á svipaða lund og síðar fyrir dómi. Þá skýrði hann í þetta sinn frá því að hann hefði kynnst umræddum kunningja sínum í upphafi árs 1996. Hann hafi sjálfur verið með smáfyrirtæki sem hét K-50 og kynnst honum í gegnum það og einnig hafi hann keypt af honum farsíma. Síðan hafi kunninginn einnig verið að flytja inn matvöru og notaða bíla frá Bandaríkjunum og hafi þeir tveir ásamt einum manni öðrum farið þangað í september 1996 í fylgd bandarísks bílasala og hafi þeir hver fyrir sig keypt bifreiðir af bílasalanum og flutt til Íslands. Var það gert í nafni fyrirtækis kunningjans Kjötgæða hf. Í Bandaríkjunum hafi hann orðið þess var að hugur kunningjans stóð til þess að flytja inn áfengi til Íslands og heyrt hann ræða þann áhuga við bandarískan mann. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa tekið þátt í þeirri umræðu. Þá skýrði hann frá símaviðskiptum við umræddan kunningja 19. desember 1996.

Daginn eftir handtöku gagnáfrýjanda var sett fram krafa um gæsluvarðhald yfir honum og kveðinn upp úrskurður um það sama dag. Sagði í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að með vísun til rannsóknargagna væri gagnáfrýjandi undir rökstuddum grun um aðild að brotum á tollalögum og um brot í opinberu starfi. Rannsóknin væri umfangsmikil og enn á frumstigi og eftir væri að taka skýrslur af vitnum og grunuðum og væri því krafa rannsóknarlögreglu tekin til greina með vísun til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Næst var gagnáfrýjandi yfirheyrður 22. janúar og þá spurður nánar um ákveðin atriði, sem fram höfðu komið við fyrri framburð, og beðinn um heimild til að fá upplýsingar um notkun hans á farsíma og um bankaviðskipti. Veitti gagnáfrýjandi þessar heimildir greiðlega. Gæsluvarðhald gagnáfrýjanda var framlengt með úrskurði 23. janúar á þeim forsendum að enn ætti eftir að yfirheyra fleiri aðila, svo sem samstarfsmenn gagnáfrýjanda þegar atburðir gerðust og að afla ítarlegri upplýsinga frá yfirvöldum í þeim ríkjum, sem gámarnir komu frá. Við skýrslutöku daginn eftir var gagnáfrýjanda kynntur útprentaður listi um hringingar úr farsíma hans 18., 19. og 20. desember 1996 til kunningjans og spurður um þessar hringingar. Kvaðst hann meðal annars hafa verið að biðja kunningjann um að útvega sér varahluti í fyrrgreinda bifreið þar á meðal dekk á felgu, sem hann þurfti að nota vegna ferðar til Ólafsvíkur um jólin. Þá var hann jafnframt spurður um hringingar til kunningjans 4., 5., 6. og 7. júní 1996. Hann kvaðst ekki muna eftir þeim sérstaklega. Gæsluvarðhaldið var enn framlengt á sömu forsendum og næst áður með úrskurði 30. janúar 1997. Við yfirheyrslu 4. febrúar 1997 var gagnáfrýjandi spurður um það sama og áður og kom ekkert nýtt fram. Það sama gerðist 12. febrúar, en gagnáfrýjanda var sleppt úr gæsluvarðhaldi þann sama dag.

Ekki er fram komið að starfsmönnum ríkistollstjóra eða ríkislögreglustjóra verði gefin sök á því að grunur beindist að gagnáfrýjanda.  Um rétt hans til skaðabóta vegna handtöku og gæsluvarðhalds fer því að 67. gr. stjórnarskrárinnar, ákvæðum 176. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 199. gr. laga nr. 82/1998 og 175. gr. sömu laga, sbr. 42. gr. laga nr. 36/1999, en aðilar eru sammála um að breytingarlögin eigi við um kröfu gagnáfrýjanda. Ekki liggur annað fyrir en að rannsókn málsins hafi farið fram á lögformlegan hátt og að lagaskilyrði hafi verið til aðgerða gegn gagnáfrýjanda, eins og háttað var brotum þeim sem hann var grunaður um og aðstæðum öllum. Niðurstaða málsins er því undir því komin hvort nægilegt tilefni hafi verið til aðgerðanna eins og á stóð eða þær hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt og hvort hann var hafður lengur í haldi en þörf var á.

Bráðabirgðatollafgreiðslur og afhending vöru í neyðartilvikum fóru að reglugerð þar um nr. 64/1991. Aðilar eru sammála um að mat á afskiptum gagnáfrýjanda af afgreiðslu fyrri áfengissendingarinnar ráðist af því hvort hann mátti afgreiða gáminn á grundvelli 3. gr. reglugerðarinnar. Þar var heimilað að afhenda vöru þegar brýnir hagsmunir voru í húfi og afhending hennar þoldi ekki bið vegna ástands og eðlis vörunnar, enda lægju fyrir upplýsingar og eftir atvikum leyfi sem áskilið var í 1. gr. reglugerðarinnar. Var í ákvæðinu tekið fram að heimild þessi gæti meðal annars náð til hráefnis til iðnaðarframleiðslu, vélavarahluta í atvinnutæki og hliðstæðra sendinga. Innflytjandi lagði fyrir gagnáfrýjanda útfyllt eyðublað samkvæmt 4. gr. um neyðarsendingu þar sem tilgreint var að í gáminum væri vara undir tilgreindum tollskrárnúmerum, sem samkvæmt handbók tollvarða er olífuolía til matvælaframleiðslu, olía úr fræi sólblóma ofl. til matvælaframleiðslu og svo slöngur, pípur ofl. Áðurnefndur héraðsdómur í máli ákæruvaldsins gegn gagnáfrýjanda o.fl. komst að þeirri niðurstöðu að með hliðsjón af framburði vitna, og þar sem afgreiðslan hafði ekki vakið sérstaka athygli tollendurskoðunar, væri ekki unnt að fullyrða að þær vörur, sem tilgreindar voru, hlytu augljóslega að falla að einhverju eða öllu leyti utan heimildar til veitingar slíks leyfis. Verður við það að miða, en ekki hefur verið hnekkt þeirri fullyrðingu gagnáfrýjanda að Kjötgæði hf. hafi meðal annars átt að vinna að matvælaframleiðslu.

Að því er síðari innflutninginn varðaði kom fram í sakamálinu að kunningi gagnáfrýjanda hefði, eftir að gámurinn var kominn yfir á frítollsvæðið, opnað gáminn í viðurvist yfirtollvarðar til að huga nánar að innihaldi hans. Að þeirri athugun lokinni bað hann um að gámurinn yrði innsiglaður á ný svo að unnt yrði að flytja hann aftur á svæði Eimskipa til útflutnings. Þar sem hins vegar leyfi skorti hafi yfirtollvörðurinn neitað að innsigla gáminn. Verði við það að miða að ekki hafi í upphafi verið ráð fyrir því gert að gagnáfrýjandi innsiglaði gáminn. Síðar sama dag hafi kunninginn svo leitað til gagnáfrýjanda þar sem hann fann ekki tollvörð á svæðinu. Styðst þetta við frásögn starfsmanns Tollvörugeymslu. Síðan sagði að ekkert hafi bent til annars en að kunninginn hafi þá verið kominn með tilskilið leyfi um endursendingu. Þótt meginreglan væri að tollverðir færu ekki á milli svæða til að sinna tollafgreiðslu nema samkvæmt heimild og að fyrirmælum sinna yfirmanna nyti engra skriflegra fyrirmæla um þetta efni. Gagnáfrýjandi gerði yfirmanni sínum grein fyrir þessari afgreiðslu næsta dag og ekki mun þetta vera fordæmalaust. Í dóminum kom loks fram að engin gögn bentu til þess að gagnáfrýjandi hefði haft afskipti af gáminum eftir að hann fór af frísvæði Tollvörugeymslunnar.

Þótt framangreindar afgreiðslur gagnáfrýjanda kunni að hafa farið nokkuð á skjön við venjubundna og eðlilega háttsemi við tollgæslu treysti aðaldeildarstjóri hjá ríkistollstjóraembættinu sér ekki til að fullyrða, þegar hann var inntur eftir því fyrir dómi, hvort þetta væri alvarlegt eða smávægilegt, hvort gagnáfrýjandi myndi hafa hlotið áminningu fyrir slíkar afgreiðslur. Kunningsskapur hans við innflytjandann, sérstakar aðstæður við tollafgreiðsluna og óvandvirkni hans sjálfs hlutu þó að verða til þess að hugað yrði að hugsanlegum þætti hans í innflutningnum þegar uppvíst varð um brot kunningjans. Verður ekki af málsatvikum og gögnum málsins annað ráðið en fullt tilefni hafi verið til handtöku gagnáfrýjanda og gæsluvarðhaldsúrskurðanna 16. og 23. janúar 1997 og liggur ekki annað fyrir en að málinu hafi undið fram með hæfilegum hraða allt til 30. janúar, er gæsluvarðhaldið var  framlengt í annað sinn. Gagnáfrýjandi svaraði öllum fyrirspurnum lögreglu greiðlega þegar frá upphafi og veitti strax, er eftir því var leitað, heimildir til skoðunar á síma- og bankaviðskiptum sínum sem máli skiptu. Af málsgögnum verður ekki annað ráðið en að málið hafi að því er hann varðaði að fullu verið upplýst 30. janúar þegar enn var beðið um framlengingu gæsluvarðhalds hans. Eftir það leiða frekari yfirheyrslur ekki til nýrra upplýsinga. Verður ekki séð að þörf hafi verið á beiðni lögreglunnar um framlengingu gæsluvarðhaldsins.

 Í málinu liggja frammi skýrslur fangavarða á Litla-Hrauni um líkamsleit án snertingar 23. janúar 1997 og 4. febrúar sama ár. Um líkamsleit fer eftir 5. gr. reglugerðar nr. 179/1992 um gæsluvarðhaldsvist. Þar er mælt fyrir um að gæsluvarðhaldsfangi skuli afhenda persónulega muni og líkamsleit gerð eftir að starfsmaður fangelsis hefur staðreynt að fangi skuli settur í gæsluvarðhald. Jafnframt að líkamsleitin skuli gerð með þeim hætti að mannlegri virðingu sé ekki misboðið. Í a. lið 1. mgr. 83. gr. sömu reglugerðar er heimilað að gera líkamsleit á gæslufanga þegar hann kemur til gæslu eða kemur aftur í fangelsi eftir dvöl utan þess. Verður ekki séð hver nauðsyn er til slíkrar leitar þegar fangi fer ekki úr umsjá lögreglu þann tíma sem hann er utan fangelsis, svo sem var í tilviki gagnáfrýjanda. Hins vegar er ósannað að líkamsleit á honum hafi farið fram með sérstaklega niðurlægjandi hætti þannig að til bótaskyldu leiði.

Af því sem að framan er rakið ber að dæma gagnáfrýjanda bætur fyrir þann tíma sem hann sat í gæsluvarðhaldi að óþörfu samkvæmt b. lið 176. gr., sbr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Verður við ákvörðun bótafjárhæðar að taka tillit til þess að gagnáfrýjandi sætti á þessum tíma algjörri einangrun.

III.

Gagnáfrýjandi var embættismaður samkvæmt 8. tl. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um lausn hans frá embætti fór því að VI. kafla þeirra laga. Hann var grunaður um háttsemi sem gat haft í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 31/1961. Mátti því víkja honum úr embætti um stundarsakir samkvæmt niðurlagi 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga og var ekki skylt að gefa honum kost á að tjá sig um ástæður lausnar, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Mál hans var til rannsóknar að hætti opinberra mála og var því samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sömu laga ekki þörf á að vísa því til nefndar sérfróðra manna, svo sem gert var. Gat sú meðferð máls hans ekki leitt til sjálfstæðrar niðurstöðu nema lausn um stundarsakir væri jafnframt byggð á öðrum ástæðum en fram koma í niðurlagi 3. mgr. 26. gr. laganna.

 Í lausnarbréfi fjármálaráðherra til gagnáfrýjanda 29. október 1997 var vísað til 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaganna um heimild til lausnar að fullu og til þess vitnað að nefnd samkvæmt 27. gr. laganna hafi komist að þeirri niðurstöðu að gagnáfrýjanda hefði verið réttilega veitt lausn um stundarsakir og fullyrt að ekkert benti til þess að ávirðingar sem lágu að baki þeirri lausn hefðu ekki reynst vera ekki fyrir hendi.

Að framan er því lýst að gagnáfrýjanda hafði verið gefinn kostur á andmælum og hann þá haldið fram sakleysi sínu, svo sem hann gerði frá upphafi lögreglurannsóknar. Rannsókn lögreglunnar var ekki lokið á þessum tíma, ekki hafði verið ákært í málinu eða dómur gengið. Eins og hér stóð á hafði þannig ekki verið gengið úr skugga um að ávirðingar þær, sem á gagnáfrýjanda voru bornar, ættu við rök að styðjast, sbr. 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga. Ávirðingar þær, sem hann var grunaður um, en sá grunur réttlætti frávikningu hans um stundarsakir án áminningar samkvæmt 4. mgr. 26. gr. sömu laga, hafa ekki sannast. Hefur aðaláfrýjandi þannig ekki getað sýnt fram á að lagaskilyrði hafi verið til þess að víkja gagnáfrýjanda að fullu úr embætti. Tók aðaláfrýjandi, eins og með þetta mál var farið, á sig áhættu af því að gagnáfrýjandi fékk ekki haldið stöðunni meðan gengið var úr skugga um ávirðingar hans. Ber því að bæta honum embættismissinn og fer um það samkvæmt 2. mgr. 32. gr. sömu laga.

Gagnáfrýjandi er fæddur 1963. Hann naut helmings af föstum launum sínum meðan á lausn um stundarsakir stóð, sbr. 1. mgr. 28. gr. starfsmannalaganna, og hefði átt rétt á að fá hinn helminginn hefði hann hlotið stöðu sína á ný, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hann var skipaður í starf tollvarðar 1. júlí 1987. Samkvæmt 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis starfsmannalaga, sbr. 25. gr. sömu laga, mátti hann að öllu óbreyttu búast við því að halda embætti sínu þar til hann næði hámarksaldri. Ber að taka tillit til þessa þegar fjártjón hans er metið.

Stöðumissir gagnáfrýjanda var til þess fallinn að sverta æru hans og gera honum erfitt fyrir um stöðuval og verður að líta til þess við ákvörðun bóta, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Á móti kemur að í upphafi mátti ætla, eins og málið blasti við stjórnvöldum, að gagnáfrýjandi væri að einhverju leyti flæktur í mál kunningja síns og þáttur hans í umræddum tollafgreiðslum var  ekki vandaður. Þá eiga að dragast frá bótum hans þær tekjur sem ætla má að hann hafi unnið sér inn frá því er honum var vikið frá störfum og til áramóta 2001-2002.

IV.

Í héraðsdómi er frá því skýrt að mikill dráttur varð á rannsókn lögreglu á máli gagnáfrýjanda og var ákæra ekki gefin út fyrr en 8. nóvember 2000 en héraðsdómur var, svo sem áður getur, kveðinn upp 3. apríl 2001 og gagnáfrýjandi þá sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Voru þá liðin rúmlega fjögur ár frá því að gagnáfrýjandi var hnepptur í gæsluvarðhald. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli ákæruvaldsins gegn gagnáfrýjanda o.fl var komist að þeirri niðurstöðu að rannsókn lögreglu hafi verið endanlega lokið að minnsta kosti í júní 1998. Dráttur á meðferð málsins frá þessum tíma er óhóflegur og hefur ekki verið skýrður, en alveg sérstök ástæða var til að hraða rannsókn málsins vegna starfsmissis gagnáfrýjanda. Er þessi framkvæmd andstæð 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um það efni, og er á ábyrgð embættis ríkislögreglustjóra. Ber aðaláfrýjanda að bæta gagnáfrýjanda miska af þessum sökum, sbr. 26. gr. skaðabótalaga, en meta verður þennan óhæfilega drátt sem brot á friði og æru hans.

V.

Samkvæmt framansögðu ber aðaláfrýjanda að greiða gagnáfrýjanda bætur eftir XXI. kafla laga nr. 19/1991 vegna ólögmæts gæsluvarðhalds frá 30. janúar 1997 til 12. febrúar sama ár. Jafnframt ber að greiða honum fjárhags- og miskabætur vegna embættismissis. Loks ber að greiða honum miskabætur vegna óhóflegs dráttar á rannsókn opinbers máls sem meðal annars beindist að honum. Heildarbætur þessar þykja hæfilega ákveðnar að álitum með öll framangreind sjónarmið í huga 9.500.000 krónur með dráttarvöxtum frá þeim degi er mánuður var liðinn frá þingfestingu.

Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um greiðslu málskostnaðar til gagnáfrýjanda. Hefur þá verið litið til þess að hann hafði lögbundna gjafsókn að hluta í héraði.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem greinir í dómsorði, en gagnáfrýjandi hafði gjafsókn að hluta fyrir réttinum.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Hannesi Inga Guðmundssyni, 9.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. nóvember 2001 til greiðsludags og 950.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms er staðfest.


Sératkvæði

Garðars Gíslasonar

Svo sem greinir hjá meiri hluta dómenda höfðar gagnáfrýjandi mál þetta til heimtu bóta í fyrsta lagi vegna handtöku og gæsluvarðhalds að ósekju, öðru lagi vegna missis embættis og þriðja lagi dráttar á málsmeðferð.

Ég er sammála kafla I og niðurstöðu í kafla II um að gagnáfrýjandi eigi rétt á bótum fyrir þann tíma sem hann sat í gæsluvarðhaldi að óþörfu samkvæmt b. lið 176. gr., sbr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Ég er einnig sammála niðurstöðu kafla IV um að hann eigi rétt á miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga vegna óhæfilegs dráttar á meðferð máls hans. En það er í forsendum meiri hlutans í kafla II um ávirðingar gagnáfrýjanda sem leiðir skiljast. Hefi ég annan skilning á þessum ávirðingum og tel að hann eigi að leiða til annarrar niðurstöðu en komist er að í kafla III um rétt gagnáfrýjanda til bóta vegna embættismissis.

Gagnáfrýjandi var tollfulltrúi hjá tollstjóranum í Reykjavík. Hann gegndi ábyrgðarstarfi þar sem ríkar kröfur eru gerðar um vandvirkni og vammleysi. Honum voru því vel kunnar þær reglur sem um starf hans giltu, bæði starfsreglur og fyrirmæli reglugerða eins og nr. 64/1991 um bráðabirgðatollafgreiðslur. Var ekki frekari þörf á skriflegum leiðbeiningum til tollvarða en þar greinir, enda eru þær skýrar. Reglugerðin fjallar um tollafgreiðslur og afhendingu á vöru í neyðartilvikum og eru reglurnar undantekningar frá almennum reglum um tollafgreiðslu og lúta þröngri skýringu. Eftir þessum reglum mátti einungis afhenda vöru þegar brýnir hagsmunir voru í húfi og afhending hennar þoldi ekki bið vegna ástands og eðlis vörunnar. Svo sem greinir í héraðsdómi nær þessi heimild meðal annars til lyfja og lækningatækja vegna ákveðinna, tilgreindra nota, lifandi blóma og dýra, grænmetis, hráefnis til iðnaðarframleiðslu, vélavarahluta í atvinnutæki svo og hliðstæðra sendinga, en ekki til almennrar verslunarvöru. Samkvæmt vörureikningi átti innihald gámsins, sem kom frá Frakklandi og var til afgreiðslu 5. júní 1996, að vera 667 kassar af ólífuolíu, 250 kassar af fræolíu og 1 kassi af plastslöngum. Jafnvel þótt telja mætti að slíkar vörur ættu að fara til iðnaðarframleiðslu í fyrirtækinu Kjötgæði hf. er fallist á með héraðsdómi að þær voru augljóslega almennar verslunarvörur sem ekki mátti veita bráðabirgðaafgreiðsluleyfi fyrir. Gagnáfrýjandi gaf engu að síður út slíkt leyfi án þess að ganga úr skugga um að skilyrði 3. gr. reglugerðarinnar væru uppfyllt. Mátti greiðasemi við kunningja hans, sem flutti inn vöruna, ekki vera grundvöllur ákvörðunar í þessu starfi. Í hinu síðara tilviki, 19. desember 1996, fór gagnáfrýjandi út fyrir þau mörk sem starfskyldur hans gerðu ráð fyrir, þegar hann innsiglaði gám fyrir sama kunningja sinn á frísvæði Tollvörugeymslunnar hf. Gagnáfrýjanda hlaut að vera kunnugt um það skipulag sem tollyfirvöld höfðu sett um slík afskipti, enda hlaut hann ákúrur yfirtollvarðar fyrir. Verður ekki séð að þörf hafi verið hér á skriflegum reglum.

Vegna þessara brota í starfi féll grunur á gagnáfrýjanda að vera viðriðinn ólöglegan innflutning áfengisins sem í þessum gámum voru. Vegna þessa rökstudda gruns var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar málsins, eins og rakið er í héraðsdómi. Eftir að gæsluvarðhald hans hafði verið framlengt 30. janúar 1997 var honum veitt lausn um stundarsakir með bréfi tollstjórans í Reykjavík 31. sama mánaðar, með vísan til 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996. Var mál hans síðar sent til nefndar samkvæmt 27. gr. sömu laga, sem taldi í áliti sínu að fyrir hendi hafi verið skilyrði til að veita honum þessa lausn úr embætti um stundarsakir.

Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 skal víkja embættismanni úr embætti að fullu ef meiri hluti nefndar samkvæmt 27. gr. laganna kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stundarsakir, nema þær ávirðingar, sem honum voru gefnar að sök, hafi ekki reynst vera fyrir hendi. Með bréfi fjármálaráðherra 29. október 1997 var gagnáfrýjanda veitt lausn að fullu úr embætti sem tollfulltrúi hjá tollstjóranum í Reykjavík, en honum hafði verið boðað með bréfi 26. september 1997 að fullnaðarlausn væri fyrirhuguð. Í bréfi ráðherra var vísað til 2. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996 og tekið fram, að mat ráðuneytisins væri að ekkert hefði komið fram í málinu, sem benti til þess að þær ástæður sem lausn um stundarsakir byggðist á, hefðu ekki reynst vera fyrir hendi. Honum hafi verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum um þetta mat ráðuneytisins og það hafi hann gert með bréfi 6. október 1997, en þar hafi ekkert komið fram sem benti til að aðstæður hafi breyst frá því að lausn um stundarsakir hafi verið veitt.

Í refsimáli, sem höfðað var á hendur gagnáfrýjanda og sex öðrum mönnum með ákæru 8. nóvember 2000, var gagnáfrýjandi sýknaður af öllum sakargiftum ákæruvaldsins um ólöglegan innflutning á áfengi frá Bandaríkjunum í desember 1996 og um að hafa veitt meðákærða liðsinni við ólöglegan innflutning á áfengi frá Frakklandi þegar hann veitti bráðabirgðaafgreiðsluleyfið 5. júní 1996. Á hinn bóginn er ljóst, sbr. fordæmi í Hrd.1997.490, að sönnunarstaða í einkamáli út af lausn gagnáfrýjanda frá starfi er ekki hin sama og í refsimálinu. Þótt vísað væri til 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 í bréfi ráðherra, er ekki unnt að telja að hið ætlaða refsinæmi atferlis gagnáfrýjanda hafi verið úrslitaskilyrði þess að lausn ætti við. Verður að líta svo á að þær ávirðingar gagnáfrýjanda, sem þá þegar voru kunnar og raktar voru hér að framan og voru að mati ákæruvaldsins þáttur hans í stærra máli, hafi sem slíkar verið taldar embættisvanræksla og bera vott um atferli, sem ósamrýmanlegt væri því ábyrgðarstarfi sem hann hafði á hendi. Þessar forsendur lausnarinnar standa óhaggaðar þótt fyrir liggi að gagnáfrýjandi sé sýkn af þeim sökum sem á hann voru bornar í hinu opinbera máli. Vegna þessa er ekki fallist á að lagaskilyrði hafi skort til þess að víkja honum að fullu úr embætti og ber að sýkna aðaláfrýjanda af þessari bótakröfu.

Eins og fyrr greinir er ég sammála meirihluta dómenda um bætur til gagnáfrýjanda vegna gæsluvarðhalds að óþörfu og vegna óhæfilegs dráttar á máli hans. Þykja þær hæfilega ákveðnar samtals 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum frá 11. nóvember 2001 til greiðsludags.

Staðfesta ber niðurstöðu héraðsdóms um málskostnað til gagnáfrýjanda, en rétt er að málskostnaður falli niður fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2002.

          Mál þetta, sem dómtekið var 24. apríl s.l., er höfðað með stefnu birtri 2. október s.l.

          Stefnandi er Hannes Ingi Guðmundsson, kt. 300963-3829, Öldugranda 3, Reykjavík.

          Stefndi er íslenska ríkið og fyrir þess hönd er stefnt Geir H. Haarde, fjár­mála­ráð­herra og Sólveigu Pétursdóttur, dómsmálaráðherra.

          Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda í skaða­bætur kr. 40.000.000 með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. janúar 1997 til 1. júlí 2001, en með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til og með 11. nóvember 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 8. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi máls­kostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál að því er varði skaða­bætur vegna frelsissviptingar.  Við flutning málsins upplýsti lögmaður stefn­anda að um lögbundið gjafsóknarmál væri að ræða en gjafsóknarleyfi hefði ekki fengist útgefið.

          Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og máls­kostnaður felldur niður.

Málavextir.

          Málavextir eru þeir að stefnandi var ráðinn tollvörður hjá Tollgæslunni í Reykja­vík 1. júlí 1987.  Hann varð tollfulltrúi 1. apríl 1991.  Stefnandi mun hafa kynnst Þóri Arnari Ólafssyni snemma ársins 1996 og munu þeir það ár hafa haldið til Banda­ríkjanna í þeim tilgangi að kaupa bifreiðar.  Munu stefnandi og Þórir Örn hafa haft í hyggju að flytja inn vörur frá tiltekinni heildsölu í Bandaríkjunum en ekkert hafi orðið úr þeim áformum.  Stefnandi heldur því fram að Þórir Örn hafi innt sig eftir því hvort honum væri heimilt að flytja inn áfengi til Íslands og kveðst stefnandi hafa tjáð honum að það væri heimilt gegn greiðslu lögboðinna gjalda.  Stefnandi hafði vitneskju um það að Þórir Örn ræddi við mann nokkurn um tegundir og verð á áfengi, en stefnandi kvaðst ekki hafa tekið þátt í þeim viðræðum.

          Samkvæmt skýrslu Tollgæslu Íslands, dagsettri 10. janúar 1997, fór fram könnun toll­yfirvalda á flutningi og tollafgreiðslu tiltekins gáms milli svæða Eimskipafélags Íslands hf. og frísvæðis Tollvörugeymslunnar í lok ársins 1996.  Samkvæmt skýrsl­unni kom umræddur gámur á farmbréfi Eimskipafélagsins og var sendandi sagður Jenkins Spirit Corp. Ltd. í Bandaríkjunum, en móttakandi TH Ólafsson, en það er skamm­stöfun fyrir Þóri Örn Ólafsson.  Innihaldið var sagt 885 kassar af vodka, sam­tals 10.634 kg.  Fram kemur að samkvæmt afhendingarseðli skipafélagsins, dagsettum 19. desember 1996, hafi gáminum verið ekið að beiðni  Þóris Arnar á frísvæði Toll­vöru­geymslunnar þann sama dag þar sem hann var opnaður um klukkan 15:00.  Þórir Örn hafi farið fram á að gámurinn yrði endursendur þar sem ekki væru réttir merki­miðar á flöskunum.  Um klukkan 16:50 sama dag hafi stefnandi innsiglað gáminn, þar sem hafi átt að keyra hann til baka til Eimskips við Sundahöfn en að sögn Þóris Arnar átti gámurinn að fara daginn eftir um borð í skip til endursendingar.  Gámurinn var síðan fluttur af svæði Tollvörugeymslunnar.  Hjá Eimskip var gámurinn skráður inn á svæðið þann 20. desember kl. 17:20 til útflutnings.  Samkvæmt farmbréfi var hann þá samtals 15.720 kg og mismunur á þunga gámsins við inn- og útflutning 5.086 kg.  Inni­hald á farmbréfi til útflutnings var sagt vélar og tæki.  Könnun leiddi í ljós að gám­inum hafði í millitíðinni verið ekið að fyrirtækinu Nonna hf., Langholtsvegi 111, Reykjavík.  Samkvæmt skýrslunni fóru tollverðir þangað þann 10. janúar og hittu fyrir Þorstein Jakob Þorsteinsson, eiganda fyrirtækisins, sem kvaðst hafa gefið Rúnari Þresti Grímssyni, hjá fyrirtækinu Eydil hf., leyfi til að geyma gám á lóð fyrirtækis hans í nokkra daga rétt fyrir jólin.  Fyrir greiðann hefði hann fengið einn kassa af vodka af tegundinni Jenkins.

          Í skýrslu Tollgæslunnar dagsettri 14. janúar 1997 kemur fram að kannaður hafi verið innflutningur á gámi, sem barst með Samskipum frá Frakklandi.  Móttakandi var Kjöt­gæði ehf., en eigandi þess fyrirtækis er áðurgreindur Þórir Örn.  Gámur þessi mun hafa verið sendur tómur til Frakklands en komið fullhlaðinn til baka.  Fram kemur að innihald gámsins hafi ekki verið sú vara sem farmbréf gaf til kynna heldur áfengi, 1.400 kassar af vodka, 300 kassar af gini og 400 kassar af Scotch.  Gámurinn mun hafa komið til Reykjavíkur 5. júní 1996 með Dísarfelli.  Gámur þessi var toll­af­greiddur samdægurs með bráðabirgðaafgreiðslu (neyðarleyfi), sem felur í sér skuld­bind­ingu innflytjanda um tollafgreiðslu vörunnar innan 20 daga frá komu.  Einnig var toll­stimpill tollgæslunnar dagsettur sama dag á viðkomandi skjali, um að toll­af­greiðslu­heimild hafi verið veitt og innihaldið sé samkvæmt reikningi sem fylgdi toll­af­greiðslunni.  Samkvæmt reikningi átti innihald gámsins að vera 667 kassar af Oliveoil, 250 kassar af Seedoil og 1 kassi af Plastic hoses.  Stefnandi áritaði afgreiðsl­una.  Samkvæmt skjali um akstursbeiðni frá Samskipum, dags. 5. júní 1996, var við­kom­andi gámur afhentur Þóri Erni, á athafnasvæði Samskipa, þann 5. júní 1996 og sóttur 2 dögum seinna og var hann þá tómur.

          Rannsóknarlögregla ríkisins hóf rannsókn málsins og vaknaði grunur um að stefn­andi væri viðriðinn ólöglegan innflutning áfengis.  Hann var handtekinn 15. janúar 1997 kl. 15:15, færður fyrir dómara sólarhring síðar og úrskurðaður í gæslu­varð­hald til 23. janúar sama ár.  Með úrskurði upp kveðnum þann dag var gæslu­varð­hald stefnanda framlengt til 30. janúar sama ár og þann dag var gæsluvarðhaldið enn framlengt, eða til 12. febrúar sama ár.  Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar Íslands sem staðfesti hann með dómi 6. febrúar sama ár.  Stefnandi var látinn laus 12. febrúar sama ár.

          Samkvæmt gögnum málsins voru teknar skýrslur af stefnanda meðan hann sætti gæslu­varðhaldi 22., 24. og 30. janúar og 4. og 12. febrúar 1997.  Hafi yfirheyrslur farið fram á skrifstofu RLR og hafi stefnandi verið fluttur í bifreið á milli Litla-Hrauns og yfirheyrslustaðar.   Stefnandi heldur því fram að við komu í gæsluvarðhalds­fang­elsi hafi hann jafnan verið berháttaður í leitarskyni og látinn leggjast á fjóra fætur og síðan hafi verið leitað í endaþarmi hans.  Hafi honum verið sagt að um ófrávíkjanlegar reglur væri að ræða.

          Með bréfi Tollstjórans í Reykjavík, dagsettu 31. janúar 1997 var stefnanda veitt lausn úr starfi um stundarsakir frá og með sama degi með vísan til 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Með bréfi dagsettu 11. júní sama ár óskaði Tollstjórinn í Reykjavík eftir því við fjármálaráðuneytið að nefnd samkvæmt 27. gr. laganna rannsakaði mál stefnanda og fékk nefndin málið til með­ferðar 3. júlí sama ár.  Í álitsgerð nefndarinnar segir að ekki hafi verið talin þörf á því að ganga eftir rannsóknargögnum frá embætti Ríkislögreglustjóra og taldi hún málið nægi­lega vel upplýst með þeim gögnum er lögð hefðu verið fram til þess að hún gæti skilað rökstuddu áliti.  Nefndin taldi að það hvíldi á stjórnvaldi, sem fengið hafi þá nið­urstöðu nefndarinnar að veiting lausnar um stundarsakir hafi verið réttmæt, að taka ákvörðun um það hvort víkja bæri embættismanni þegar að fullu úr starfi sínu, eða hvort það ætti að bíða með ákvörðun sína, þar til sýnt væri hvort þær ávirðingar, sem honum eru gefnar að sök, reynast réttar eða ekki.  Kjósi stjórnvald að víkja em­bætt­ismanni að fullu, en síðar komi í ljós að ávirðingar þær, sem á hann voru bornar reyndust ekki réttar, hljóti það að koma til skoðunar hvort embættismaður geti átt bóta­rétt á hendur ríkissjóði vegna ólögmætrar frávikningar.  Í álitinu segir að í 2. ml. 3. mgr. 26. gr. laganna, sbr. 2. mgr. sömu greinar, komi fram að heimilt sé að veita manni lausn um stundarsakir ef hann er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér svipt­ingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga.  Þá komi fram í 4. mgr. 26. gr. sú regla að sé embættismanni veitt lausn um stundarsakir af þessum ástæðum sé ekki skylt að gefa honum kost á því að tjá sig um ástæður lausnar áður en hún tekur gildi.  Taldi nefndin að fyrir hendi hafi verið skilyrði til að veita stefnanda lausn um stund­arsakir, en Tollstjórinn í Reykjavík hefði mátt rökstyðja frekar í bréfinu ákvörðun sína um lausn um stundarsakir.  Þá hafi átt að benda stefnanda á rétt hans til að bera ákvörðunina undir ráðherra, svo og að málinu yrði vikið til nefndarinnar, en ekki var þó talið að þessir annmarkar leiddu til þess að ákvörðun um veitingu lausnar um stundarsakir ætti að vera ógild.  Þá taldi nefndin það ekki hagga gildi ákvörð­un­ar­innar að meira en fjórir mánuðir hafi liðið frá því stefnanda hafi verið veitt lausn um stundarsakir þar til málinu hafi verið skotið til nefndarinnar.  Var það því niður­staða nefndarinnar að Tollstjóranum í Reykjavík hafi verið heimilt að veita stefnanda lausn um stundarsakir úr embætti sem tollfulltrúi þann 31. janúar 1997.

          Með bréfi fjármálaráðuneytis dagsettu 26. september 1997 var stefnanda kynnt að ráðu­neytið hefði til skoðunar hvort víkja ætti honum úr embætti að fullu með vísan til 2. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996.  Segir í bréfinu að samkvæmt þeirri lagagrein skuli víkja embættismanni úr embætti að fullu ef meirihluti nefndar skv. 27. gr. laganna kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stund­ar­sakir nema þær ávirðingar, sem honum voru gefnar að sök, hafi ekki reynst vera fyrir hendi.  Var það mat ráðuneytisins að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að þær ástæður sem lausnin um stundarsakir byggðist á hafi ekki reynst vera fyrir hendi.  Stefnanda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar síns og í bréfi lögmanns hans dagsettu 6. október sama ár segir svo meðal annars: „Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. áð­urnefndra laga kemur fram að heimilt sé að víkja embættismanni úr starfi ef meiri­hluti nefndarinnar skv. 27. gr kemst að því að rétt hafi verið að víkja embættismanni frá um stundarsakir, nema þær ávirðingar sem honum hafi verið gefnar að sök, hafi ekki reynst vera fyrir hendi.  Í þessu tilviki eins og öðrum gildir sú gullvæga regla að enginn telst sekur fyrr en sekt er sönnuð.  Langur vegur er frá því að rann­sókn­ar­aðilum hafi tekist að sanna einhverja sök á Hannes og hefur hann þráfaldlega lýst yfir sakleysi sínu.  Og þar sem ekki hefur gengið dómur er staðfestir þær ávirðingar sem á Hannes eru bornar, er ekki unnt að sjá með hliðsjón af téðum lagaákvæðum að heimilt sé að víkja honum úr embætti.  Það væri alltént ekki unnt nema með því um leið að skapa mikla bótaábyrgð á hendur ríkisjóði fyrir ólögmæta uppsögn.  Brott­vikn­ingu úr embætti er því mótmælt harkalega af hálfu Hannesar.”

          Með bréfi fjármálaráðuneytisins dagsettu 29. október sama ár var stefnanda veitt lausn að fullu úr embætti tollfulltrúa frá og með 1. nóvember sama ár.

          Með ákæru dagsettri 8. nóvember 2000 var höfðað opinbert mál fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur á hendur stefnanda og sex öðrum mönnum.  Var stefnanda gefið að sök tolla­lagabrot og brot í opinberu starfi.   Í fyrsta lagi var stefnanda, Þóri Erni Ólafssyni og Rúnari Þresti Grímssyni gefið að sök, „að hafa flutt inn til Íslands, með ólög­mæt­um hætti, 872 kassa með 12 750 ml. flöskum í hverjum kassa, samtals 7.848 lítra, af sterku áfengi, tegundarheiti Jenkins, að styrkleika 40%, sem ákærðu, Þórir og Hannes keyptu haustið 1996 í New York í Bandaríkjunum. Áfengið var flutt til Íslands með leigu­fari Hf. Eimskipafélags Íslands, Altona, í gámi númer EIMU 202170 0, með send­ingarnúmer E ALT 04 12 6 US EVE W202 H og kom til landsins þann 4. desember 1996 á nafni TH. Ólafssonar.

          Áfenginu komu ákærðu inn í landið án tollafgreiðslu með því að blekkja starfs­menn Hf. Eimskipafélags Íslands og Tollstjórans í Reykjavík til að afhenda gám númer EIMU 202170 0, ótollafgreiddan á milli tollsvæða. Við þann verknað gáfu ákærðu, Þórir og Hannes Ingi, sem þá var tollvörður á tollsvæði Hf. Eimskipafélags Íslands í Sundahöfn, Reykjavík, Tómasi Grímkeli Egilssyni, aðstoðarverkstjóra, þann 19. desember 1996, á tollsvæði Hf. Eimskipafélags Íslands, 0,75 lítra af sterku áfengi, sem var í gámi númer EIMU 202170 0, án þess að það væri tollafgreitt.

          Gámurinn var, skömmu fyrir klukkan 17:00 þann 19. desember 1996, afhentur út af frísvæði Tollvörugeymslunnar hf., við Héðinsgötu, að beiðni ákærða, Þóris, undir því yfirskyni að flytja ætti hann án tafar aftur á tollsvæði Hf. Eimskipafélags Íslands til endurútflutnings. Ákærði, Hannes hafði þá, andstætt starfsreglum, innsiglað gám­inn á frísvæði Tollvörugeymslunnar hf., sem ekki var vinnusvæði ákærða, en eftir það var gámurinn í raun fluttur á athafnasvæði fyrirtækisins Nonna hf. við Langholtsveg 111 í Reykjavík. Þar rauf ákærði Þórir tollinnsigli sem á gáminum var og færðu ákærðu, Þórir og Rúnar samtals 872 kassa með 12 750 ml. flöskum í hverjum kassa, samtals 7.848 lítra, af sterku áfengi, tegundarheiti Jenkins, að styrkleika 40%, úr gám­inum yfir í gám númer TRIU 280031-9 sem þar hafði verið komið fyrir. Í fram­haldinu var gámur númer EIMU 202170 0, hlaðinn með tveimur þungum rafölum og 120 0,75 lítra flöskum af sterku áfengi. Ákærði, Þórir, lét flytja gáminn til vigtunar klukkan 15:06 þann 20. desember 1996 á athafnasvæði Hf. Eimskipafélags Íslands í Sunda­höfn og var gáminum skilað á tollsvæði Hf. Eimskipafélags Íslands, í Sunda­höfn, um kl. 17:20 þann sama dag.

          Með þessari háttsemi komust ákærðu hjá greiðslu aðflutningsgjalda af hluta áfeng­isins samtals kr. 8.834.511, en 120 flöskur sendu þeir til baka en auk þeirra voru 6606 flöskur haldlagðar af lögreglu við rannsókn málsins.”

          Þetta brot stefnanda var talið varða við 1. mgr. 123. gr. tollalaga, sbr. 1. mgr. 124. gr. sömu laga, sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga.

          Í öðru lagi var stefnanda gefið að sök, „að hafa veitt meðákærða, Þóri, liðsinni við ólöglegan innflutning á samtals 9.240 lítrum af sterku áfengi þegar hann veitti bráða­birgðaafgreiðsluleyfi (neyðarleyfi) þann 5. júní 1996 til Kjötgæða hf., sem inn­flytjanda á vörum þeim sem voru í gámi númer GSTU 367742-8 með sendingarnúmer S DIS 05 06 6 NL RTM AS06, þrátt fyrir að vörur þær sem tilgreindar voru í vöru­lýsingu féllu ekki undir heimild til veitingu slíks leyfis, án þess að hafa fullnægjandi gögn um vörur þær sem í gáminum voru og án þess að hafa sannreynt hvort gámurinn inni­héldi vörur samkvæmt vörulýsingu þannig að hægt væri að flytja gáminn að starf­stöð Kjötgæða hf., Háaleitisbraut 68 Reykjavík, þar sem áfengið var tekið úr gám­inum. Með þessu komst ákærði, Þórir hjá því að greiða aðflutningsgjöld af 9.240 lítrum af sterku áfengi en greiddi í staðinn aðflutningsgjöld samkvæmt röngum vöru­reikningi sem hann framvísaði með aðflutningsskýrslu þann 24. júní 1996, samanber lýsingu sem fram kemur í b-lið, II. kafla hér að framan.”

          Þetta brot stefnanda var talið varða við 139. gr. almennra hegningarlaga.

          Við meðferð sakamálsins fyrir dómi skýrði stefnandi svo frá að því er fyrri lið ákæru varðar að hann hafi farið ásamt meðákærða, Þóri Erni, og tveimur öðrum mönn­um til Boston föstudaginn 18. október eða laugardaginn 19. október 1996 til þess að skoða tjónabíla og kaupa bíla.  Hann hafi síðan farið ásamt meðákærða, Þóri Erni, til New York einkum til að skoða borgina. Þar hafi þeir hitt mann að nafni Secola eitt kvöldið og farið með honum út að borða.  Síðan hafi þeir farið aftur að hótelinu þar sem Þórir Örn og Secola hafi verið að ræða um verð og tegundir áfengis.  Hann hafi ekki tekið þátt í þessum umræðum og engin kaup hafi verið gerð á áfengi í þessari ferð.  Þetta myndi koma í ljós ef skýrsla yfir Secola sem tekin var í Banda­ríkjunum hefði verið lögð fram.

          Stefnandi kvaðst hafa skoðað umræddan gám þann 19. desember 1996 en milli klukkan ellefu og tólf þann dag hafi Þórir Örn sagt honum að hann hefði flutt inn áfengi, og beðið hann að opna gáminn til að athuga hvort það væri ekki í lagi með hann.  Þeir hafi farið með Tómasi Grímkeli, starfsmanni hjá Eimskip hf., sem hafi rofið innsiglið og opnað gáminn. Meðákærði, Þórir Örn, hafi farið inn í gáminn og rifið eitthvað upp og talað um að eitthvað væri brotið í gáminum og rangir merkimiðar og að hann ætlaði að athuga það betur á frísvæði Tollvörugeymslunnar.  Meðákærði, Þórir Örn, hafi síðan gefið honum og Tómasi Grímkeli flösku.  Hafi hann sagt að það væru að koma jól og hafi hann trúlega rétt honum flöskurnar þar sem hann stóð við dyrnar og ákærði hafi rétt Tómasi Grímkeli aðra flöskuna.  Hann taldi sig ekki vera að gefa Tómasi Grímkeli flöskuna þar sem hann hafi ekki átt áfengið.  Eftir það hafi gám­urinn verið innsiglaður aftur.  Um fjögurleytið hafi meðákærði, Þórir Örn, hringt í hann til að fá hann til að innsigla gáminn hjá Tollvörugeymslunni.  Hafi hann sagt að það næðist ekki í tollvörð og gámurinn þyrfti að komast í skip daginn eftir.  Hann hafi verið frekar tregur til þess að fara vegna þess að það hafi verið mjög óvinsælt að fara inn á tollsvæði annarra tollvarða.  Ástæða þess væri sú að þá væri verið að taka yfir­vinnu af starfsfélögunum.  Daginn eftir hafi hann tilkynnt til yfirmanns síns, Péturs S. Guðmunds­sonar, að hann hefði unnið þarna yfirvinnu og innsiglað í Toll­vöru­geymslu.  Ekki hafi verið gerðar neinar athugasemdir við það.

          Stefnandi kvaðst ekki hafa vitað að tollvörður hafi verið á svæðinu og því farið og sinnt þessari beiðni. Það séu mörg fordæmi fyrir því að tollvörður fari úr einu toll­svæði á annað, t.d. hafi hann gert slíkt þegar hann hafi verið á skipavakt sem sé annað toll­svæði.  Engin skráð starfslýsing sé til varðandi þessi störf tollvarða.  Stefnandi kvað Einar Halldórsson yfirtollvörð hafa skammað sig fyrir að hafa farið inn í Toll­vöru­geymslu, en hann hafi sagt honum að það hefði ekki náðst í neinn tollvörð og starfs­menn Tollvörugeymslunnar hefðu talið að það væri útilokað að ná í tollvörð.

          Fyrir dómi við meðferð sakamálsins skýrði stefnandi svo frá að því er seinni lið ákæru varðaði, að ákærði, Þórir Örn, hafi komið til hans í tollafgreiðsluna og beðið um neyðarleyfisafgreiðslu vegna þess að mikið hafi legið á.  Varðandi afgreiðslu leyf­is­ins,  þá hafi nafn viðkomandi fyrirtækis verið Kjötgæði sem benti til að fyrirtækið væri í kjötiðnaði.  Fram hafi komið að vörutegund samkvæmt beiðninni væri matar­olía og síðan tollskrárnúmer 1509 1001, 1512 1101 og 3917 3100.  Fyrri tveir liðirnir ættu við matarolíu en sá síðasti ætti við plastslöngur, hosur og pípur.  Taldi ákærði að af­greiðsla þessa neyðarleyfis uppfyllti allar reglugerðir um afgreiðslu slíkra leyfa og væri þar af leiðandi ekkert við hana að athuga.

          Stefnandi kvaðst ekki hafa skoðað innihald gámsins þar sem ákærði, Þórir Örn, hefði áður flutt inn ýmsan varning og hann hafi enga ástæðu haft til þess að gruna hann um neitt ólöglegt.  Þá hafi gámar yfirleitt mjög lítið verið skoðaðir á þessum tíma.  Innan við 1% af þeim hafi verið skoðaðir og í hverri einustu viku hafi komið mörg hundruð gámar. Á þessum tíma hafi verið í gildi yfirvinnubann og neyð­ar­leyf­is­gámar hafi allra síst verið skoðaðir.  Kvaðst stefnandi ekki muna til að hafa skoðað neyð­arleyfisgáma.  Það hafi þurft ríka ástæðu til þess skoða gáma, sérstaklega neyð­ar­leyfisgáma, enda ekki tiltækur mannafli til þess.  Engar athugasemdir hafi komið frá tollendurskoðun eftir afgreiðslu þessa gáms.

          Í niðurstöðu dómsins um fyrri lið ákærunnar segir svo:  „Engin gögn benda til að ákærði, Hannes Ingi, hafi komið að því sem gerðist með gáminn eftir að hann var kom­inn af svæði Tollvörugeymslunnar umrætt sinn.  Engin gögn styðja heldur þátt hans í því að hafa staðið að kaupum á áfenginu eða hafa átt þátt í að koma því inn í landið nema með því að sjá um tollafgreiðslu gámsins bæði á svæði Eimskipa og í Toll­vörugeymslunni.  Hugsanlegt brot á starfsreglum þess efnis að tollverðir sinntu ekki tollafgreiðslu á milli svæða, sem þó virðast ekki hafa verið skriflegar og skýrar á þessum tíma, þykir ekki nægja eitt og sér til að fella sök á ákærða samkvæmt þessum ákærulið.

          Samkvæmt framansögðu þykir slíkur vafi leika á um sök ákærða, Hannesar Inga, í málinu að ekki sé unnt, gegn neitun ákærða, að sakfella hann.  Ber því að sýkna ákærða, Hannes Inga, af öllum kröfum ákæruvaldsins þessum þætti málsins.” 

          Niðurstaða dómsins í seinni lið ákæru er svohljóðandi:  „Í málinu liggja ekki fyrir neinar skriflegar reglur um framkvæmd tollskoðunar á vörum sem veitt eru bráða­birgða­leyfi fyrir.  Það er því álit dómsins samkvæmt því sem hér hefur verið rakið að afgreiðsla ákærða, Hannesar Inga, á umræddri bráðabirgðaafgreiðslu hafi ekki aug­ljós­lega verið andstæð reglum um slíka afgreiðslu.  Hér að framan hefur verið rakið hvernig kunningskap ákærðu, Hannesar Inga og Þóris Arnar, var háttað.  Það er því nær­tækt að álykta að með afgreiðslu bráðabirgðaleyfisins, án þess að skoða innihald gáms­ins, hafi ákærði, Hannes Ingi, veitt liðsinni sitt til að ákærði, Þórir Örn, gæti flutt áfengið ótollafgreitt til landsins.  Á hinn bóginn þykir ekki loku fyrir það skotið að ákærði, Þórir Örn, hafi nýtt sér kunningsskap þeirra við brot sitt án þess að ákærða, Hannesi Inga, væri það ljóst og hann því ekki hlutdeildarmaður í broti ákærða, Þóris Arnar.  Þegar allt þetta er virt þykir ósannað, gegn neitun ákærða, Hannesar Inga, að hann hafi framið brot það sem honum er gefið að sök hér.  Ber því að sýkna hann af þessum ákærulið.”

          Í dóminum segir svo um málsmeðferðina: „Eins og rakið hefur verið hér að framan var mál þetta sent af ríkistollstjóraembættinu til rannsóknarlögreglu ríkisins í janúar 1997, sem hóf þegar í þeim mánuði rannsókn á málinu.  Gögn málsins bera með sér að rannsókn þess hafi að mestu verið lokið fyrri hluta árs 1997 ef undan er skilið að reynt var að afla gagna frá Bandaríkjunum um kaup á áfengi ákærðu, Þóris Arnar og Hannesar Inga, samkvæmt I. kafla a) í ákæru.  Þetta staðfestir vitnið, Grétar Sigmundur Sæmundsson, sem vann að frumrannsókn málsins.  Samkvæmt framburði Högna Einarssonar, sem einnig vann að rannsókn málsins frá upphafi, dróst mjög á langinn að leitað væri með formlegum hætti eftir skýrslum frá Bandaríkjunum.  Í bréfi fjár­málaráðuneytisins, dagsettu 9. júní 1998, kemur hins vegar fram að umbeðinni rann­sókn sé lokið, en óheimilt sé að nota gögnin vegna tvísköttunarsamninga milli land­anna.  Samkvæmt þessu var þáttur ákærða, Þóris Arnar, ljós um mitt ár 1997 og rann­sókn málsins í heild lokið eigi síðar en í júní 1998.

          Ákæra var gefin út í málinu 8. nóvember 2000 og var málið þingfest í Hér­aðs­dómi 13. desember 2000.  Málinu var síðan frestað til 16. janúar 2001, m.a. til að ljúka öflun sýnilegra sönnunargagna og til undirbúnings aðalmeðferðar.  Þann dag var málinu frestað til aðalmeðferðar 12. mars sl. og fór hún þá fram.  Málið var dóm­tekið 13. mars sl. 

          Ákærði, Þórir Örn, hefur lýst því fyrir dóminum að hann hafi ýtt á eftir rekstri máls­ins hjá rannsóknaraðila og benti hann á hversu dráttur á því hefði haft slæm áhrif á framtíðaráform hans.

          Ljóst er að rekstur málsins hjá ríkislögreglustjóra hefur dregist langt úr hófi. Þessi dráttur verður að teljast vítaverður enda ekki talið að sakborningum verði um kennt.  Hann brýtur því í bága við 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opin­berra mála og er í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 64/1994 um mann­rétt­inda­sáttmála Evrópu. Ekki verður hjá því komist að taka tillit til þessa óhæfilega dráttar á rekstri málsins við ákvörðun refsingar ákærðu eftir því sem við á og fjallað verður um í næsta kafla.”

          Samkvæmt framansögðu var stefnandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.  Þessum dómi var ekki áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

          Stefnandi byggir á því að samkvæmt íslenskum rétti eigi sé maður rétt á skaða­bótum fyrir fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón sem handtekinn sé og hafður í gæslu­varðhaldi, þegar sakborningur hefur verið dæmdur sýkn með óáfrýjanlegum dómi vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur var borinn, er ósaknæm eða sönnun hefur ekki fengist um hana.  Því aðeins komi til álita að lækka bætur eða fella þær niður hafi sakborningur stuðlað að handtöku eða gæsluvarðhaldi.  Skilyrði bóta séu fyrir hendi í þessu máli, enda hafi stefnandi verið sýknaður og hann hafi hvorki valdið né stuðlað að aðgerðum ríkisvaldsins.  Þá er á því byggt að ekki hafi verið tilefni til hand­töku og gæsluvarðhalds eða a.m.k. ekki nægilegt tilefni og hafi stefnandi ekkert tilefni gefið til slíkra aðgerða.  Þá hafi hin langa gæsluvarðhaldsvist aukið á saknæmi að­gerðanna og jafnframt beri stefndi fébótaábyrgð á þeim langa drætti sem orðið hafi frá því eiginlegri lögreglurannsókn lauk þar til hafist var handa um ákæru í málinu.  Sé þessi dráttur sagður vítaverður í héraðsdómi og hafi stefnandi mátt þola það í næstum fjögur ár að vera borinn sökum án þess að njóta málsmeðferðar fyrir dómi innan hæfi­legs tíma.  Verði þessi dráttur ekki réttlættur og hljóti að hafa áhrif á saknæmi og bóta­fjárhæð, enda sérstök ástæða til að flýta málinu eftir að stefnandi hafði setið svo lengi í gæsluvarðhaldi.  Allan þennan tíma hefði stefnandi verði stimplaður sakamaður sem sviptur hefði verið embætti.  Hafi meðferð sú er stefnandi sætti í gæsluvarðhaldinu verið andstæð 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og þá sé dráttur á málsmeðferð andstæður 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mann­rétt­indasáttmálans.

          Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt til skaðabóta fyrir óréttmætan embætt­is­missi með vísan til 32. gr. laga nr. 70/1996.  Er á því byggt að bæði nefnd samkvæmt 27. gr. laganna og fjármálaráðuneytinu hafi verið ljóst eða átt að vera ljóst að stefn­andi fór eftir tíðkanlegum reglum við störf sín umrædd tvö skipti.  Hefði átt að kanna sjálf­stætt gildandi reglur um störf tollgæslumanna og á hvern hátt þau væru fram­kvæmd.  Hefði lögmaður stefnanda bent nefndarmönnum á þetta, en þessi sjónarmið hefðu verið sniðgengin og réttmæti þeirra ekki kannað, heldur hefði nefndin aðeins fengist við formið eitt.  Að öðrum kosti hefði komið í ljós að stefnandi stóð að störfum sínum á venjubundinn hátt og hafi vanræksla á að upplýsa þessi atriði leitt til em­bætt­is­missis stefnanda.  Stefnandi byggir á því að það sé rangur skilningur á ákvæðum 29. gr. laga nr. 70/1996 að grunur skv. 2. mgr. jafngildi lokadómi um embættismissi skv. 1. mgr. eða játningu um refsiverðan verknað skv. 3. mgr.   Samkvæmt 2. mgr. eigi nefndin að kanna hvort ávirðingar sem embættismanni eru gefnar að sök séu réttar.  Því aðeins að komist nefndin að þeirri niðurstöðu að sannaðar séu ávirðingar, sem leiða myndu til embættismissis skv. 68. gr. almennra hegningarlaga, sé nefndinni heimilt að komast að þeirri niðurstöðu að heimilt hafi verið að víkja embættismanni frá um stundarsakir.  Þar sem nefndin hafi ekki farið rétt með valdheimildir sínar hafi fjár­málaráðuneytinu verið óheimilt að byggja ákvörðun sína á henni og bar að taka sjálf­stæða ákvörðun byggða á lögum.  Hafi margvísleg réttindi verið brotin á stefn­anda, svo sem rannsóknarregla, leiðbeiningarregla og meðalhófsregla.  Þá telur stefn­andi umrædda nefnd ekki hafa verið óháða í störfum sínum, en hún sé að meiri hluta valin af stefnda.

          Byggir stefnandi á því að óheimilt hafi verið með öllu að veita honum fulln­að­ar­lausn úr embætti þar sem lagaskilyrði hafi skort til þess og hann hafi verið talinn sak­laus með öllu af þeim ávirðingum sem á hann hafi verið bornar.  Stefnandi hafi verið æviráðinn embættismaður og verði honum ekki vikið úr starfi nema hann brjóti af sér í starfinu, en því sé ekki til að dreifa í þessu tilviki.  Hafi verið óheimilt að líta fram hjá þeirri stjórnskipunarreglu að sérhver maður teljist saklaus þar til sekt hans sé sönnuð með lokadómi, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.  Eigi þessi regla ekki einungis við í refsimálum heldur ekki síður þegar um önnur réttindi sé að ræða.  Virði brott­vikningin sem refsikennd viðurlög gagnvart stefnanda og njóti embætti hans og réttur hans til launa verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.

          Stefnandi sundurliðar bótakröfu sína þannig, að fjárhagslegt tjón vegna handtöku, gæslu­varðhalds og dráttar á dómsmeðferð sé kr. 10.000.000, fjárhagslegt tjón vegna em­bættismissis sé kr. 10.000.000, miski vegna handtöku, gæsluvarðhalds og dráttar á máls­meðferð sé kr. 10.000.000 og miski vegna embættismissis sé kr. 10.000.000.

          Stefnandi viðurkennir að erfitt kunni að vera að greina á milli fjárhagslegs tjóns stefn­anda eftir því hvort það verði rakið til handtöku, gæsluvarðhalds eða em­bætt­is­missis, enda af sömu rót runnið.  Stefnandi segist hafa verið á hálfum launum frá því hann var leystur frá starfi um stundarsakir þar til hann var leystur frá embætti að fullu og öllu og hafi hann eftir það engin laun fengið frá stefnda.  Vegna blaðafrétta af hand­töku stefnanda og nafnbirtingar í dómasafni Hæstaréttar hafi aðstaða stefnanda orðið alkunn nánast frá upphafi.  Þá sé einangrunarvist í fangaklefa afar hættuleg andlegri og líkamlegri heilsu manna og geti tekið mörg ár að jafna sig eftir það.  Hafi þetta áhrif á starfsgetu og aflahæfi og ljóst sé að gæsluvarðhaldið og em­bætt­is­svipt­ingin hafi útilokað embættisframa stefnanda.  Þá hafi komið í ljóst að vinnuveitendur hiki við að ráða stefnanda til vel launaðra starfa þegar þeir komist að því að stefnandi hafi ekki aðeins sætt gæsluvarðhaldi, heldur hafi verið sviptur embætti og ekki veitt það að nýju eftir sýknudóm.  Séu þeir ályktanir dregnar á vinnumarkaði að stefnandi hljóti að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi.  Stefnandi segir tekjur sínar hafa lækkað um því sem næst helming og þá muni hann ekki njóta þeirra launa og líf­eyr­is­sjóðsréttinda sem óbreyttur embættisframi benti til.

          Stefnandi byggir ekki á tryggingastærðfræðilegum útreikningi við útreikning á tapi stefnanda og vísar til fordæmisreglu Hæstaréttar þar að lútandi.  Sjónarmið sem máli skipti séu til dæmis hvort starfsreynsla stefnanda við tollgæslu nýtist honum til að fá starf á almennum vinnumarkaði með sambærilegum kjörum, hversu mörg ár eru eftir af starfsævinni, hverjar séu afleiðingar embættismissisins o.fl.

          Stefnandi byggir á því að samtvinnun gæsluvarðhalds, vítaverðs dráttar á meðferð fyrir dómi og embættissviptingar margfaldi áhrifin af mistökum sem stefndi beri fé­bóta­ábyrgð á.

          Stefnandi vísar til 2. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 að því er varðar miskabætur vegna handtökunnar og gæsluvarðhaldsins.  Bent er á að stefnandi hafi verið niður­lægður heimildarlaust í gæsluvarðhaldinu og hann látinn bíða næstum fjögur ár eftir sýknu­dómi með þeim líkamlegu og andlegu áhrifum sem af því leiði.

          Stefnandi vísar til 26. gr. skaðabótalaga að því er varðar bótakröfu vegna em­bætt­ismissis, en telja verði sannað að háttsemi nefndarinnar og fjármálaráðuneytisins hafi verið með þeim hætti að fullkomlega megi jafna til þeirrar háttsemi sem áskilin sé í ákvæðinu., sbr. staflið b, 2. mgr. 26. gr.

Málsástæður og lagarök stefnda.

          Stefndi byggir á því að af 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 leiði að veita megi em­bætt­ismanni lausn um stundarsakir sem grunaður er um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda, sbr. 68. gr. almennra hegningarlaga.  Stefnandi hafi setið í gæslu­varðhaldi, grunaður um refsiverða háttsemi og leiði af 4. mgr. 26. gr. laganna að ekki hafi verið skylt að gefa stefnanda kost á að tjá sig um ástæður lausnarinnar áður en hún tók gildi eða veita honum áður áminningu.

          Stefndi byggir á því að hlutverk nefndar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna sé að upp­lýsa hvort rétt sé að veita embættismanni, sem vikið hefur verið úr starfi um stund­arsakir, lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu.  Leiði af  2. mgr. 29. gr. laganna að embættismanni skuli víkja úr embætti að fullu ef meirihluti nefnd­arinnar kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stundarsakir, nema þær ávirðingar, sem honum voru gefnar að sök, hafi ekki reynst vera fyrir hendi.  Af niðurlagi 2. mgr. 29. gr. leiði að í framhaldi af niðurstöðu nefnd­arinnar beri þeim, sem ákvörðun taki um lausn að fullu, að meta hvort fyrir hendi séu atvik sem leiða eigi til þess að þær ávirðingar, sem hlutaðeigandi séu gefnar að sök, séu ekki fyrir hendi.  Nefndin hafi ekki talið nauðsynlegt að ganga eftir rann­sókn­argögnum frá embætti Ríkislögreglustjóra, en fyrir hafi legið greinargóð lýsing á hátt­semi stefnanda sem laut að afskiptum hans af umræddum innflutningi.  Annars vegar hafi stefnandi gefið út neyðarleyfi 5. júní 1996 til innflutnings á gámi til aðila, sem hann hafði staðið í kunningsskap við, án þess að kanna raunverulegt innihald gáms­ins.  Hins vegar hafi hann af greiðasemi við áðurnefndan innflytjanda farið inn á starfs­svið annars tollfulltrúa 19. desember sama ár, m.a. til þess að innsigla gám er fluttur hafði verið á frísvæði Tollvörugeymslunnar hf.

          Stefndi tekur undir þær röksemdir nefndarinnar að skýra beri fyrirmæli 1. mgr. 27. gr. laganna í samhengi við 2. mgr. 29. gr. sömu laga um að það sé í verkahring hlut­aðeigandi stjórnvalds að taka sjálfstæða og endanlega ákvörðun um, hvort þær ávirð­ingar, sem embættismanni séu gefnar að sök, hafi reynst vera fyrir hendi.  Sé því rangt að nefndinni hafi verið kunnugt um að niðurstaða hennar fæli annars vegar í sér fulln­aðardóm um að svipta stefnanda starfi og hins vegar játningu embættismanns um að hann hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla mætti að hefði í för með sér svipt­ingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga.  Þá tekur stefndi undir þau sjónarmið nefndarinnar um þann eðlismun sem sé á rannsókn hennar og rannsókn að hætti opinberra mála.

          Stefndi mótmælir því að nefndin hafi ekki verið óháð í störfum sínum.  Hafi hlut­verk hennar með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga fyrst og fremst verið að upplýsa hvort fram­komnar ávirðingar væru réttar svo heimilt væri að veita honum lausn um stund­ar­sakir.  Hafi nefndin sjálfstætt aflað gagna og veitt stefnanda andmælarétt.  Legið hafi fyrir tveir gæsluvarðhaldsúrskurðir og hafi nefndin látið í té rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið að veita stefnanda lausn um stundarsakir.  Hafi það síðan verið í verka­hring fjármálaráðuneytisins að taka ákvörðun um framhald málsins.

          Að því er varðar lausn stefnanda úr embætti að fullu byggir stefndi á því að fyrir hafi legið gæsluvarðhaldsúrskurðir og varð ekki annað af þeim ráðið en að rökstuddur grunur væri um aðild stefnanda að brotum gegn tollalögum, áfengislögum og XIV. kafla almennra hegningarlaga.  Hafi því verið skilyrði til að veita stefnanda lausn úr starfi um stundarsakir.  Þá leiði af almennum reglum um málshraða í stjórnsýslunni, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga, að taka bar mál stefnanda til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.  Stefndi hafi ekki getað litið til þess að opinberri rannsókn málsins var ekki lokið og bar honum að taka ákvörðun á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu í málinu og í samræmi við þau lagaákvæði er máli skiptu.  Stefndi hafi gert stefnanda grein fyrir því mati sínu að ekkert hefði fram komið í málinu sem benti til þess að þær ástæður sem lausn um stundarsakir byggðist á, hafi ekki reynst vera fyrir hendi.  Hafi stefn­anda verið að fullu ljósar þær ávirðingar sem á hann höfðu verið bornar.  Stefn­anda hafi verið gefinn kostur á því að skýra mál sitt frekar og hafi lögmaður hans sent stefnda athugasemdir sínar.  Að mati stefnda hafi lögmaðurinn á engan hátt leitast við að svara þeim ávirðingum sem stefnandi var sakaður um.  Verði bréf stefnda, þar sem nið­urstaða hans var tilkynnt, ekki skilið á annan hátt en þann að tekin hafi verið af­staða til framkominna skýringa stefnanda, en þær hafi ekki falið í sér frekari viðbót við það sem áður var komið fram um háttsemi stefnanda.

          Stefndi leggur áherslu á að stefnandi hafi gegnt ábyrgðarstarfi þar sem ríkar kröfur séu gerðar til vandvirkni og vammleysis.  Geti stefnandi ekki borið fyrir sig van­kunnáttu um þær reglur sem um starf hans giltu, sérstaklega fyrirmæli reglugerðar nr. 64/1991 um bráðabirgðatollafgreiðslur, en samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar skal toll­starfsmaður ekki samþykkja neyðarafgreiðslu samkvæmt reglugerðinni nema hann telji að skilyrði 3. gr. um afhendingu vöru í neyðartilvikum séu fyrir hendi.  Geti greiða­semi við aðila sem stefnandi hafði stofnað til kunningsskapar við ekki verið grund­völlur ákvarðana í starfi hans, sbr. 14. gr. laga nr. 70/1996. Þá sé ekki hægt að fall­ast á það með stefnanda að það sé ekki venja að ganga úr skugga um hvort inni­hald gáms sé það sem tilgreint sé á reikningi.  Þá  hafi stefnanda verið ljóst að með af­skiptum sínum af gámi á fríhafnarsvæði 20. desember 1997 hafi hann farið út fyrir þau mörk sem starfsskyldur hans gerðu ráð fyrir.

          Að því er varðar handtöku, gæsluvarðhald og meðferð sakamálsins byggir stefndi á því að stefnanda hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna rökstudds gruns um aðild hans að ólögmætum innflutningi áfengis og gat brotið varðað fangelsi ef það yrði sannað.  Um hafi verið að ræða mjög umfangsmikla rannsókn sem hafi beinst að dreif­ingu áfengisins og hlutverki þeirra sem tengdust eða kynnu að tengjast ein­stökum þátt­um innflutningsins.  Hafi verið nauðsynlegt að halda stefnanda í gæslu­varð­haldi í ljósi umfangs málsins, trúverðugleika stefnanda og rannsóknar út fyrir land­steinana.  Hafi viðeigandi dómstólar staðfest þetta mat.

          Stefndi byggir á því að þvingunaraðgerðir þær sem stefnandi sætti meðan á rann­sókn málsins stóð hafi í alla staði verið lögmætar og í samræmi við réttarframkvæmd.  Ósannað sé að stefnandi hafi verið látinn sæta ótilhlýðilegri líkamsleit og hvergi að sjá í gögnum málsins að stefnandi hafi kvartað yfir harkalegri meðferð í gæslu­varð­halds­vistinni.

          Það mat rannsakenda að nauðsynlegt hafi verið í þágu rannsóknarhagsmuna að halda stefnanda í gæsluvarðhaldi hafi verið staðfest af dómstólum og hafi forsendur gæslu­varðhaldsins því verið löglegar og því ekki bótaskyldar samkvæmt XXI.kafla laga nr. 19/1991.

          Stefndi byggir á því að niðurstaða um bótaskyldu ráðist af túlkun á 176. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 175. gr. laganna.  Þurfi að leggja mat á það hvort skilyrðum a og b liða 176. gr. séu fyrir hendi.  Varla sé hægt að túlka 175. gr. sem sjálfstæða bótareglu og séu ákvæði greinarinnar almenn ákvæði fyrir öll bótaákvæði XXI. kafla laganna og fjalli fyrst og fremst um að taka megi bótakröfu til greina og á sama hátt fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á.  Sýknudómur einn og sér ráði ekki úrslitum um bótaskyldu.  Ráðist bóta­grundvöllurinn af skilyrðum 176. gr. og eftir atvikum af almennu skaða­bóta­regl­unni og síðan taki ákvæði 175. gr. við.

          Stefndi byggir á því að ákvæði 175. gr., 176. gr. og 177. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið skýrð svo af dómstólum að þar séu tæmandi taldar þær aðgerðir sem leitt geti til bóta­skyldu stefnda á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu.  Jafnframt þurfi þó að vera full­nægt öðrum skilyrðum 176. gr. og 175. gr. laganna.  Hafi ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórn­arskrárinnar verið skýrð svo að þau veiti ekki ríkari bótarétt en reglur XXI. kafla laga nr. 19/1991.  Þó geti bótakröfur verið reistar á almennum reglum skaða­bóta­réttar, teljist þær eiga við.  Geti því rekstur opinbers máls á hendur stefnanda ekki leitt til bótaskyldu á grundvelli 176. gr. sbr. 175. gr. laganna.  Það sama eigi vænt­an­lega við þótt tafir hafi orðið á rannsókn málsins eftir að gæsluvarðhaldsvist stefnanda lauk og dregist hafi að gefa út ákæru.  Í máli stefnanda sé fyrst og fremst hægt að dæma bætur á grundvelli efnisákvæða 176. gr. laga nr. 19/1991 og því sé ekki hægt að dæma bætur vegna reksturs opinbers máls og/eða vegna dráttar á rekstri þess.

          Stefndi byggir á því að byggja beri á 175. gr. laganna í því horfi sem hún varð eftir lagabreytingu árið 1999, sbr. 42. gr. laga nr. 36/1999.

Niðurstaða.

          Aðilar málsins eru sammála um að við úrlausn máls þessa skuli beita 175. gr. laga nr. 19/1991 í því horfi sem hún er nú eftir lagabreytingu er tók gildi 1. maí 1999, sbr. 42. gr. laga nr. 36/1999.  Af því leiðir að ekki verður lagt mat á sekt eða sakleysi stefnanda.

          Í máli þessu krefst stefnandi bóta vegna handtöku og gæsluvarðhalds að ósekju, en hann var handtekinn 15. janúar 1997 og sat í gæsluvarðhaldi frá 16. janúar til 12. febrúar sama ár vegna gruns um aðild að ólöglegum innflutningi áfengis.  Stefnandi krefst annars vegar bóta vegna tekjutaps og hins vegar miskabóta og reisir kröfur sínar sam­kvæmt þessum lið á XXI. kafla laga nr. 19/1991 og jafnframt vísar hann til stjórn­arskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu kröfum sínum til stuðnings.  Þá krefst stefnandi bóta vegna dráttar sem varð á málsmeðferðinni, en ákæra í málinu var ekki gefin út fyrr en 8. nóvember 2000.  Var upplýst við munnlegan flutning málsins að bótakrafa samkvæmt þessum lið sé byggð á almennu sakarreglunni en ekki ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991.  Eru gerðar kröfur um bætur fyrir fjárhagslegt tjón af þessum sökum svo og er krafist miskabóta.  Þá gerir stefnandi kröfu um bætur vegna ólögmætrar brottvikningar og reisir þær á 32. gr. laga nr. 70/1996.  Gerir stefn­andi kröfu um bætur jafnt fyrir fjárhagslegt tjón sem og miska.

          Eins og að framan er rakið féll grunur á stefnanda um aðild að ólöglegum inn­flutn­ingi á áfengi til landsins í tveimur vörugámum, annars vegar í júnímánuði 1996 og hins vegar í desembermánuði sama ár.  Voru afskipti stefnanda af öðrum gáminum þau að hann innsiglaði hann á frísvæði Tollvörugeymslunnar að beiðni kunningja síns, Þóris Arnar Ólafssonar, en það svæði var ekki hluti af vinnusvæði stefnanda.  Átti að endur­senda gáminn daginn eftir þar sem ekki voru réttir merkimiðar á áfengisflöskum sem í honum voru.  Við rannsókn kom í ljós að gámurinn hafði í millitíðinni verið fluttur að húsi við Langholtsveg hér í borg og þegar hann var vigtaður til útflutnings var hann orðinn rúmlega fimm tonnum léttari og var innihaldið þá sagt vélar og tæki.  Af­skipti stefnanda af hinum gáminum voru þau að hann tollafgreiddi gám með bráða­birgða­leyfi, svokölluðu neyðarleyfi, en í þessum gámi reyndist vera verulegt magn áfengis.  Þennan gám hafði Þórir Örn flutt inn frá Frakklandi.  Samkvæmt reikningi átti innihald gámsins að vera 667 kassar af Oliveoil, 250 kassar af Seedoil og 1 kassi af Plastic hoses.  Þegar stefnandi var handtekinn lá fyrir að hann hafði skömmu áður farið til Bandaríkjanna í þeim tilgangi að kaupa bifreiðar og hefur verið upplýst að í ferð­inni hafi áfengiskaup borið á góma.

          Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 64/1991um bráðabirgðatollafgreiðslur, sem sett er samkvæmt heimild í 21. gr. tollalaga, er heimilt að afhenda farmflytjanda vöru þegar brýnir hagsmunir eru í húfi og afhending hennar þolir ekki bið vegna ástands eða eðlis vörunnar.  Nær heimild þessi m.a. til lyfja og lækningatækja vegna ákveð­inna tilgreindra nota, lifandi blóma og dýra, grænmetis, hráefnis til iðn­að­ar­fram­leiðslu, vélavarahluta í atvinnutæki, svo og hliðstæðra sendinga, en hins vegar ekki til al­mennrar verslunarvöru.  Ljóst er að neyðarleyfi það er stefnandi áritaði var ekki í sam­ræmi við áðurgreind reglugerðarákvæði, enda augljóst að vara sú, sem tilgreind er á reikningi, fellur ekki undir reglugerðina.  Samkvæmt framansögðu var því fram kominn rökstuddur grunur um að stefnandi ætti aðild að ólögmætum innflutningi áfengis og varð því ekki hjá því komist með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að úrskurða hann í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar málsins.  Ekki hefur annað verið í ljós leitt en gæsluvarðhaldsúrskurðirnir hafi verið fyllilega lögmætir og í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu.  Þá hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi sætt ólögmætri með­ferð í gæsluvarðhaldinu eða aðgerðir gagnvart honum hafi verið framkvæmdar á óþarf­lega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.

          Samkvæmt 2. mgr. 105. gr. laga nr. 19/1991 skal gæsluvarðhaldi markaður ákveð­inn tími.  Sá sem krafist hefur gæsluvarðhalds skal láta sakborning lausan þegar ástæður til gæslu eru ekki lengur fyrir hendi.  Ljóst er að yfirgripsmikil rannsókn fór fram á ætluðum brotum í tengslum við innflutning á umræddum gámum og þurfti að yfir­heyra fjölda manns.  Stefnandi var yfirheyrður 22., 24. og 30. janúar og 4. og 12. febrúar 1997 og þá var þess freistað að afla gagna frá Bandaríkjunum um hugsanleg tengsl stefnanda og fleiri við sakarefnið.  Eins og mál þetta var vaxið verður að telja að óhjákvæmilegt hafi verið að halda stefnanda þann tíma í gæsluvarðhaldi og raun bar vitni.  Samkvæmt framansögðu verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda um bætur fyrir handtöku og gæsluvarðhald að ósekju.

          Kemur þá til skoðunar hvort stefnandi eigi rétt á bótum vegna brottvikningar úr starfi í samræmi við reglur 32. gr. laga nr. 70/1996.  Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. lag­anna veitir stjórnvald er skipar í embætti og lausn frá því um stundarsakir.
Sam­kvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar er rétt að veita embættismanni lausn um stund­ar­sakir ef hann hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við lög­legt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð full­nægjandi árangri í starfi, sbr. meðal annars 38. gr., hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar því embætti sem hann gegnir. 
Nú hefur em­bætt­is­maður fjárreiður eða bókhald með höndum og má þá veita honum lausn um stund­ar­sakir ef ætla má eða víst þykir að óreiða sé á bókhaldi eða fjárreiðum, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga. Sama er ef embættismaður er grun­aður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegn­ingarlaga.  Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna skal mál embættismanns, sem veitt hefur verið lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi, þá þegar rann­sakað af nefnd sérfróðra manna svo að upplýst verði hvort rétt sé að veita honum lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu.  Skal nefndin skal láta í ljós rök­stutt álit á því hvort rétt hafi verið að víkja embættismanni frá störfum um stundarsakir.

          Farið var með mál stefnanda samkvæmt framansögðu og komst nefnd samkvæmt 27. gr. laganna að þeirri niðurstöðu að Tollstjóranum í Reykjavík hafi verið rétt að veita stefnanda lausn um stundarsakir úr embætti sem tollfulltrúi þann 31. janúar 1997.  Verður fallist á álit nefndarinnar, enda einungis áskilið samkvæmt 2. ml. 3. mgr. 26. gr. laganna að embættismaður sé grunaður um háttsemi, sem hefði í för með sér réttindasviptingu samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga.

          Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laganna skal víkja embættismanni úr embætti að fullu ef meiri hluti nefndar skv. 27. gr. kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stundarsakir nema þær ávirðingar, sem honum voru gefnar að sök, hafi ekki reynst vera fyrir hendi.  Þegar fjármálaráðuneytið tók þá ákvörðun 29. október 1997 að víkja stefnanda úr embætti að fullu hafði rannsókn lögreglu ekki leitt til útgáfu ákæru og engar sönnur höfðu verið færðar á ávirðingar stefnanda.  Upplýst hefur verið að umrædd nefnd hafði ekki aðgang að rannsóknargögnum lögreglu og tekið var sérstaklega fram í áliti hennar að henni bæri einungis í áliti sínu að taka af­stöðu til þess hvort rétt hefði verið að veita stefnanda lausn um stundarsakir.  Tekur nefndin fram að telja verði að það hvíli því á stjórnvaldi, sem fengið hefur þá nið­ur­stöðu nefndarinnar að veiting lausnar úr embætti hafi verið réttmæt, að taka ákvörðun um það hvort víkja eigi embættismanni þegar að fullu úr starfi sínu, eða hvort það eigi að bíða með ákvörðun sína, þar til sýnt er hvort þær ávirðingar, sem honum eru gefnar að sök, reynast réttar eða ekki.  Þá bendir nefndin á að kjósi stjórnvald að víkja em­bætt­ismanni að fullu, en síðar kemur í ljós að ávirðingar þær, sem á hann voru bornar, reyndust ekki réttar, hljóti að koma til skoðunar hvort embættismaður geti átt bótarétt á hendur ríkissjóði vegna ólögmætrar frávikningar. 

          Áður en fjármálaráðuneytið tók þá ákvörðun að veita stefnanda lausn úr embætti að fullu var honum gefinn kostur á að tala máli sínu.  Í bréfi lögmanns stefnanda til ráðun­eytisins kemur skýrt fram að stefnandi hafi lýst yfir sakleysi sínu og hafi rann­sókn­araðilum ekki tekist að sanna ávirðingar á stefnanda.  Ljóst er að nefnd samkvæmt 27. gr. laganna hafði ekki tök á að rannsaka til hlítar þær sakir sem bornar voru á stefnanda, enda sætti hann lögreglurannsókn af þessum sökum og fengust gögn úr þeirri rannsókn ekki afhent.  Við þessar aðstæður var ráðuneytinu óheimilt að veita stefnanda lausn að fullu, enda höfðu engar ávirðingar sannast á stefnanda.  Bar því að bíða niðurstöðu dómstóla um það hvort þær sakir, sem bornar voru á stefnanda, voru sannar eða ekki.  Fær þessi niðurstaða stoð í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, en samkvæmt því ákvæði skal hver sá, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, tal­inn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.  Sambærileg regla er í 2. mgr. 6. gr. mann­réttindasáttmála Evrópu.

          Samkvæmt framansögðu og með vísan til 32. gr. laga nr. 70/1996, á stefnandi rétt á bótum fyrir ólögmæta brottvikningu.  Stefnandi gerir kröfu um greiðslu á kr. 10.000.000 vegna embættismissis, en þessi krafa er ekki rökstudd sérstaklega en bent á að stefnandi hafi misst u.þ.b. helming tekna þeirra er hann hafði í embætti sínu sem toll­fulltrúi.  Hefur stefnandi lagt fram skattframtöl áranna 1996-2001 og hafa þau gögn ekki verið hrakin.  Þykir hæfilegt að stefndi bæti stefnanda tekjutap að álitum með kr. 4.000.000.  Ekki verður fallist á að stefnandi eigi rétt á miskabótum af þessum sökum.

          Eins og rakið hefur verið hér að framan varð mikill dráttur á því að ákæra væri gefin út í umræddu sakamáli.  Ákæra var ekki gefin út fyrr en 8. nóvember 2000 og dómur var kveðinn upp 3. apríl 2001 og var stefnandi sýknaður af öllum kröfum ákæru­valdsins í málinu.  Voru þá liðin rúmlega fjögur ár frá því stefnandi var úr­skurð­aður í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar málsins.  Í umræddum dómi er komist að þeirri niðurstöðu að rekstur málsins hjá ríkislögreglustjóra hafi dregist langt úr hófi.  Verði þessi dráttur að teljast vítaverður og ekki var talið að sakborningum væri um að kenna.  Það er meginregla í opinberu réttarfari að rannsókn og meðferð sakamála skuli hraðað eftir föngum.  Fær þessi regla stoð í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 64/1994 um mann­rétt­indasáttmála Evrópu.  Stefnandi þurfti að bíða í rúm fjögur ár eftir niðurstöðu í máli sínu og allan þann tíma var hann grunaður um refsiverða háttsemi og hafði jafn­framt verið vikið úr starfi að fullu sem tollfulltrúi.  Hefur því freklega verið brotið á grund­vallarmannréttindum stefnanda að þessu leyti og ber stefndi skaðabótaábyrgð samkvæmt almennum bótareglum á þeim mistökum starfsmanna sinna sem leiddu til þess­arar niðurstöðu.  Ekki hefur verið sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir sér­stöku fjárhagstjóni af þessum sökum, en hins vegar þykir hann eiga rétt á miskabótum og þykja þær hæfilega ákveðnar kr. 1.000.000.

          Samkvæmt framansögðu verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda kr. 5.000.000 með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

          Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda kr. 750.000 í máls­kostnað.  Gjafsóknarleyfi hefur ekki fengist útgefið í málinu.

          Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

          Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Hannesi Inga Guðmundssyni, kr. 5.000.000 með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. janúar 1997 til 1. júlí 2001, en með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til og með 11. nóvember 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 8. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og kr. 750.000 í málskostnað.