Print

Mál nr. 559/2016

Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X (Stefán Karl Kristjánsson hrl., Jón Bjarni Kristjánsson hdl. 1. prófmál)
, (Jón Egilsson réttargæslumaður )
Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Ómerking héraðsdóms
Reifun

Í héraði var X sakfelldur fyrir meðal annars frelsissviptingu, meiri háttar líkamsárás, kynferðislega áreitni, hótanir og stórfelldar ærumeiðingar gegn sambýliskonu sinni, A, auk þess sem hann var sakfelldur fyrir nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í kjölfar alls framangreinds þvingað A til munnmaka. Á hinn bóginn var það mat héraðsdóms, að virtum vitnisburði A hjá lögreglu og fyrir dómi, að X hefði verið í góðri trú þegar hann hafði við hana endaþarmsmök í framhaldi munnmakanna og var hann með vísan til þess sýknaður af þeim sakargiftum vegna skorts á ásetningi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar litið væri til framangreinds ofbeldis sem X hefði beitt A á heimili þeirra og aðstæðna allra fælist þversögn í þeirri niðurstöðu héraðsdóms að sakfella fyrir fyrri hluta háttsemislýsingar nauðgunarbrotsins en sýkna af sakargiftum vegna hennar að öðru leyti. Voru því taldar fram komnar nægar líkur fyrir því að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2016. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að „hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur að því er varðar sýknu ákærða af hluta brots gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940“, hann verði sakfelldur samkvæmt ákæru 29. mars 2016, refsing hans verði þyngd og staðfest ævilöng ökuréttarsvipting hans.

Ákærði krefst þess að „hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur er varðar sakfellingu vegna meintra brota á ákvæðum 1. mgr. 194. gr. og 199. gr. almennra hegningarlaga“ og hann „verði sýknaður af öllum þeim liðum.“ Þá krefst ákærði þess að refsing verði milduð og gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 7. febrúar 2016 komi til frádráttar refsingu.

A krefst þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu verði staðfest.

I

Mál þetta var höfðað gegn ákærða með ákæru 29. mars 2016. Þá var önnur ákæra gefin út á hendur honum 3. maí sama ár og voru málin sameinuð við málsmeðferð í héraði. 

Í fyrri ákærunni er ákærði sagður hafa 5. febrúar 2016 gerst sekur um meiri háttar líkamsárás, hótanir, kynferðisbrot, frelsissviptingu og stórfelldar ærumeiðingar gegn brotaþola á heimili þeirra. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir að hafa svipt brotaþola frelsi með því að meina henni för af heimilinu um stund og slegið hana ítrekað hnefahöggum í síðu og höfuð, rifið í hár hennar, sparkað ítrekað í síðu hennar og fætur þar sem hún lá á gólfinu og skipað henni að setjast í stól en sparkað svo stólnum undan henni svo hún féll á gólfið. Þá var ákærði fundinn sekur um að hafa hótað brotaþola lífláti, þótt ekki hafi það verið ítrekað eins og í ákæru greinir. Hvorki er þess krafist af hálfu ákæruvalds né ákærða að þessi niðurstaða héraðsdóms verði endurskoðuð, að öðru leyti en því að ákæruvaldið telur að frelsissvipting brotaþola hafi staðið lengur en að framan greinir.

Til viðbótar þessu var ákærði í hinum áfrýjaða dómi talinn hafa gerst sekur um brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa í kjölfar framangreindrar háttsemi áreitt brotaþola kynferðislega með því að láta hana girða niður um sig og síðan skoðað kynfæri hennar og rass með vasaljósi auk þess að hafa tekið mynd af berum kynfærum hennar. Ákærði krefst ómerkingar héraðsdóms að þessu leyti eða sýknu af þessu ákæruatriði.

Samkvæmt ákærunni er ákærða ennfremur gefið að sök brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, nánar tiltekið með því að hafa í framhaldi alls þess sem að framan er lýst þvingað brotaþola til munnmaka og endaþarmsmaka með ofbeldi og ólögmætri nauðung. Leit héraðsdómur svo á að vitnisburður brotaþola hjá lögreglu og síðar fyrir dómi, þar sem hún kvaðst hafa sagt ákærða að sér væri illt í munninum, yrði ekki skilinn öðru vísi en svo að hún hafi ekki verið samþykk munnmökum. Með vitnisburði brotaþola hjá lögreglu og öðrum tilgreindum málsgögnum var talið sannað gegn neitun ákærða að hann hafi þvingað hana til slíkra kynmaka sem hann hafi vitað að hún væri mótfallin og með því gerst sekur um það brot sem að framan greinir. Ekki var sérstaklega vísað til vitnisburðar brotaþola fyrir dómi til stuðnings sakfellingunni. Á hinn bóginn var það mat héraðsdóms, að virtum vitnisburði brotaþola í heild, að ákærði hafi verið í góðri trú þegar hann hafði við hana endaþarmsmök og var hann því sýknaður af þeim sakargiftum vegna skorts á ásetningi. Ákæruvaldið krefst ómerkingar á þessum þætti dómsins, en ella að ákærði verði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga fyrir að hafa haft endaþarmsmök við brotaþola umrætt sinn. Ákærði krefst aftur á móti sýknu af því að hafa brotið gegn lagagreininni með því að hafa haft munnmök við brotaþola, en að öðrum kosti ómerkingar á þeim þætti héraðsdóms sem lýtur að sakfellingu fyrir þau.

Á þann hátt sem nánar greinir í héraðsdómi var ákærði einnig sakfelldur samkvæmt síðari ákæru á hendur honum 3. maí 2016 fyrir umferðarlagabrot 8. október 2014 og 26. júlí 2015, auk líkamsárásar gegn brotaþola 29. október sama ár sem felld var undir 217. gr. almennra hegningarlaga. Hvorki ákæruvaldið né ákærði leita endurskoðunar á þessari niðurstöðu.

II

Til stuðnings kröfum sínum hefur ákæruvaldið á það bent að aðstæður þær sem uppi voru á heimili ákærða og brotaþola 5. febrúar 2016 geti ekki leitt til framangreindrar niðurstöðu héraðsdóms um skort á ásetningi ákærða. Í því ljósi hefði borið að meta skýrslugjöf ákærða og brotaþola við rannsókn og meðferð málsins. Þá hafi héraðsdómur látið hjá líða að líta til annarra gagna málsins í því samhengi, einkum skilaboða brotaþola umræddan dag í síma til vinkonu sinnar með beiðni um hjálp. Því verði annað hvort að sakfella ákærða fyrir nauðgun eins og í ákæru greinir eða ómerkja héraðsdóm að hluta.

Af hálfu ákærða hefur einkum verið til þess vísað að ekki sé rökrétt að sakfella hann fyrir munnmök við brotaþola en sýkna hann að öðru leyti af ákæru um kynferðismök við hana. Ekki sé í héraðsdómi réttilega litið til yfirlýsinga ákærða og brotaþola um þau atriði í ákæru er lúta að kynferðisbrotum. Því verði að sýkna ákærða af þessum sakaratriðum eða ómerkja héraðsdóm að þessu leyti.

III

Eins og að framan greinir hefur af hálfu ákæruvalds og ákærða verið krafist ómerkingar hins áfrýjaða dóms, þó aðeins að því er varðar umfjöllun um þau kynferðisbrot sem honum eru gefin að sök í ákæru 29. mars 2016.

Fram er komið að eftir ofbeldi það sem ákærði beitti brotaþola á heimili þeirra hafði hann munnmök og þegar í framhaldi af því endaþarmsmök við hana. Þegar litið er til þessa og aðstæðna allra felst þversögn í þeirri niðurstöðu héraðsdóms að sakfella fyrir fyrri hluta þessarar háttsemi en sýkna af sakargiftum vegna hennar að öðru leyti. Niðurstaða héraðsdóms er reist á mati á munnlegum framburði þar fyrir dómi og kemur hér ekki til endurskoðunar, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt framansögðu er á hinn bóginn fullnægt skilyrðum 3. mgr. sömu lagagreinar um að telja fram komnar nægar líkur fyrir því að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls. Eins og sakarefni málsins er háttað verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm í heild sinni og vísa málinu til meðferðar í héraði og dómsálagningar að nýju.

Ákvörðun um sakarkostnað í héraði skal bíða nýs dóms í málinu þar. 

Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Ákvörðun um sakarkostnað í héraði bíður nýs efnisdóms þar.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2016.

Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 29. mars 2016, á hendur:

,,X, kennitala [...],

  [...], [...], dvst. fangelsið Litla-Hrauni,

fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, hótanir, kynferðisbrot og stórfelldar ærumeiðingar gegn sambýliskonu sinni, með því að hafa föstudaginn 5. febrúar 2016, svipt þáverandi sambýliskonu sína, A, frelsi frá um klukkan 11 til 15, á heimili þeirra að [...] í [...]. Á meðan á frelsissviptingunni stóð veittist ákærði að A og sló hana ítrekað hnefahöggum í síðuna og höfuðið, reif í hár hennar, tók hana hálstaki og sparkaði ítrekað í síðu hennar og fætur þar sem hún lá á gólfinu. Ákærði skipaði A jafnframt að setjast í stól og sparkaði stólnum svo undan henni svo hún féll í gólfið. Á meðan á þessu stóð hótaði ákærði A ítrekað lífláti og meinaði henni útgöngu úr íbúðinni og er hún reyndi að flýja í eitt skiptið stöðvaði ákærði hana í forstofu, reif í hár hennar og sló hana hnefahöggum. Ákærði lét svo A girða niður um sig og skoðaði kynfæri hennar og rass með vasaljósi auk þess sem hann tók mynd af berum kynfærum hennar og árétti hana þannig kynferðislega. Í kjölfar ofbeldis þess sem að framan er lýst og á meðan á frelsissviptingunni stóð, þvingaði ákærði A til munnmaka og endaþarmsmaka og beitti hana þannig ofbeldi og ólögmætri nauðung. Af öllu þessu hlaut A mar á höfði, bæði á enni og í hársvörð, eymsli víða um líkamann og jaxl brotnaði í efri gómi vinstra megin auk þess sem ákærði móðgaði og smánaði A með háttseminni.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr., 199. gr., 1. mgr. 218. gr., 226. gr., 233. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 4.300.000 kr. auk vaxta af 4.000.000 kr. samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2016 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er birt ákærða, en með dráttarvöxtum af 4.300.000 kr.  frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Brotaþoli krefst þess einnig að ákærði verði dæmdur til að greiða þóknun réttargæslumanns.“

Þann 3. maí 2016 gaf lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu út nýja ákæru á hendur ákærða þar sem ákært er fyrir:

 

,,I.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 8. október 2014 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 220 ng/ml) gegn rauðu umferðarljósi á gatnamótum Reykjavegar og Suðurlandsbrautar en lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar við Hallarmúla í Reykjavík.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 5. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

 

II.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 26. júlí 2015 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist vínandamagn 1,45 ‰ og amfetamín 30 ng/ml) um Akrafjallsveg á Akranesi, við norðan við Garðalund, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða.

 

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., 1., sbr. 2. gr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

 

III.

Fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 29. október 2015, ráðist með ofbeldi á A, sambýliskonu sína, á heimili þeirra að [...] í [...], ýtt henni í sófa í stofunni og þar rifið í hár hennar og slegið hana hnefahöggi í andlitið, í þvottahúsi íbúðarinnar haldið A í gólfinu, slegið hana með krepptum hnefa í höfuðið, sparkað hnéparki í höfuð hennar og tekið hana hálstaki, allt með þeim afleiðingum að A hlaut skurð hægra megin á höfði, eymsl og roða vinstra megin á höfði, stórt mar vinstra megin á enni, fjölda klórfara á enni, bólgu á nefi, bólgu yfir vinstra kinnbeini, skurði á munn, rauð för og eymsl á hálsi, mar og roða beggja vegna á höndum, eymsl yfir vinstri úlnlið og skeinu og eymsl á vinstri fæti.

 

Telst brot þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

Málin voru sameinuð.

Verjandi ákærða krefst sýknu af ákæru dagsettri 29. mars 2016 en til vara vægustu refsingar. Aðallega er krafist frávísunar III. kafla ákæru dagsettrar 3. maí 2016, til vara er krafist sýknu og til þrautavara er krafist vægustu refsingar vegna þess kafla ákærunnar sem og annarra liða hennar. Þess er krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist. Málsvarnarlauna er krafist samkvæmt tímaskýrslu. 

 

Ákæra dagsett 29. mars 2016

   Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dagsettri 6. febrúar 2016, kom A á lögreglustöð kl. 15.30 þann dag vegna líkamsárásar af hálfu sambýlismanns síns X eins og greinir frá í skýrslunni. Þar er lýst viðbrögðum lögreglu en ákærði var handtekinn síðar sama dag.

Teknar voru skýrslur af A hjá lögreglunni 5. 18. og 24. febrúar 2016. Hluti skýrslnanna verður rakinn síðar.

Teknar voru skýrslur af ákærða hjá lögreglunni 7. og 23. febrúar 2016 þar sem hann neitar sakargiftum að mestu leyti.

  

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi

Ákærði neitar sök að mestu leyti. Hann kvað þau A hafa verið sambýlisfólk frá því í ágúst 2015 en fram kom hjá honum að sambandið hefði verið gott ef frá er talin óregla ákærða sem hefði haft mikil áhrif á samband þeirra og hefði það verið stormasamt á köflum vegna þess. Hann kvaðst hafa komið heim um tvö-leytið aðfaranótt 5. febrúar sl., hann hefði þá verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og ástand hans verið slæmt vegna óreglu dagana á undan. Af þessum sökum væri minni sitt af þessum atburðum lélegt. Hann lýsti því að hann hefði verið illa á sig kominn og kvaðst nóttina áður hafa séð nektarmynd af stelpu á Facebook. Hann hefði ásakað A um að hafa tekið myndina af sjálfri sér og sett á Facebook. A hefði einnig ásakað ákærða um að hafa tekið myndina og deildu þau vegna þessa en þetta hafi hins vegar verið „rugl“. Þau hefðu farið að sofa um fimm-leytið um nóttina en A vaknað milli klukkan átta og níu morguninn eftir og ákærði vaknað á sama tíma. Hann hafi þá enn verið undir miklum áhrifum. A hefði farið til læknis en við komu til baka hafi rifrildi hafist á milli þeirra, meðal annars vegna manna sem komu á heimili þeirra en mennirnir voru á eftir ákærða. Ákærði kvaðst hafa rætt við þá í síma A en hann hafi talið hana í slagtogi með þessum mönnum og ásakað hana um það. Ákærði tók fram að hann hefði verið haldinn mikilli „noju“ á þessum tíma og þau m.a. rifist vegna þessa. Ákærði kvaðst hafa ýtt við A svo að hún lenti á dyrakarmi auk þess að hafa slegið til hennar og kýlt hana einu sinni. Ákærði breytti framburði sínum um þetta frá því sem hann bar hjá lögreglunni en hann kvaðst hafa ákveðið að greina satt og rétt frá öllu fyrir dómi. A hefði hlaupið fram á gang og þau öskrað hvort á annað. Ástandið hefði síðan róast og þau tekið utan um hvort annað. Upp úr þessu fóru þau inn í herbergi þar sem þau lögðust niður og héldu utan um hvort annað og hafi allt róast við þetta. Hann hafi þá spurt A hvort hún vildi veita honum munnmök sem hún samþykkti en síðan sagðist hún vilja stunda „venjulegt kynlíf“ sem þau gerðu. Eftir kynlífið fór ákærði í sturtu og lokaði að sér inni á snyrtingunni. A var frammi á meðan. Hann hafi eftir það spurt hana hvort hún vildi ekki fara í sturtu á eftir sér sem hún gerði auk þess að baða son sinn. Ákærði beið frammi á meðan en á þessum tíma hafi B, vinkona þeirra, verið á leiðinni til þeirra til að gefa þeim start á bílinn sem hún gerði. Eftir það fór A með B en ákærði taldi þær hafa farið að sækja bifreið sem var í vörslu lögreglu. Hann hitti A ekki eftir þetta þennan dag.

Fram kom hjá ákærða að hann teldi hegðun sína við heimkomuna hafa verið óboðlega og lýsti hann því nánar.

Ákærði kvaðst ekki hafa svipt A frelsi sinu milli klukkan 11 og 15 þennan dag þótt samskiptin sem hér um ræðir hefðu átt sér stað á því tímabili. A hefði getað farið út af heimilinu þegar hún vildi. Spurður um hnefahögg í síðu og höfuð A á þessum tíma kvaðst ákærði hafa slegið hana en hann kvaðst ekki geta útilokað að þessi lýsing ákærunnar væri rétt. Spurður að því hvort hann hefði rifið í hárið á  A, tekið hana hálstaki og sparkað ítrekað í síður hennar og fætur þar sem hún lá á gólfinu kvaðst ákærði ekki muna eftir hálstaki en hann myndi eftir því að hafa rifið í hárið á henni á þessum tíma.

Ákærða er gefið að sök að hafa skipað A að setjast á stól og að hafa síðan  sparkað stólnum undan henni svo hún féll í gólfið. Ákærði kvaðst ekki geta útilokað að þetta hefði gerst svona en honum var greint frá vitnisburði A um þetta.

Ákærði neitaði því að hafa hótað A lífláti og meinað henni útgöngu úr íbúðinni. Spurður um hvort hann hefði rifið í hárið á henni í forstofunni er hún reyndi að flýja og slegið hana hnefahöggum á sama tíma kvaðst ákærði ekki geta útilokað að það væri rétt. Hún hafi hins vegar getað farið meðan ákærði var í sturtu. Hann kvaðst aldrei hafa bannað henni að fara en sonur A hafi verið í stofunni og hafi hann orðið vitni að hluta þess sem að fram fór.

Ákærða er gefið að sök að hafa látið A girða niður um sig og að hafa skoðað kynfæri henni og rass með vasaljósi auk þess að taka mynd af berum kynfærum hennar og þannig áreitt hana kynferðislega. Misritun er í ákærunni um þetta þar sem segir árétt í stað áreitt. Þetta kemur ekki að sök eins og á stendur. Ákærði kvað myndatökuna hafa átt sér stað. Þetta hafi verið rugl í sér. Hann kvað aðdragandann hafa verið þann að A hefði sagt honum í síma nóttina áður er ákærði ásakaði hana um að hafa sett mynd af sér á Facebook að hann skyldi koma heim og taka mynd sjálfur og ganga úr skugga um þetta. Ákærði kvaðst hafa tekið hana á orðinu og tekið myndina. Sú lýsing ákærunnar væri rétt en myndatakan hefði átt sér stað eftir átök þeirra og rifrildi sem að framan greinir. Ákærði kvaðst hafa séð að A sárnaði við myndatökuna vegna samskiptanna sem á undan voru gengin. Hann hafi því „séð að sér“ og hætt. Spurður hvort A hafi viljað láta taka af sér mynd kvað ákærði hana hafa sagt bæði í síma og í Facebook samskiptum þeirra „komdu bara og skoðaðu“. A hefði sagt um morguninn að ákærði skyldi taka mynd sjálfur, sem hann gerði með hennar samþykki eins og sjá megi af Facebook samskiptum þeirra A og staðfesti hann að gögn málsins sýndu Facebook samskipti þeirra um þetta. Ákærði kvað þau síðan hafa sæst og nokkur stund liðið uns kynmökin áttu sér stað.

Þá er ákærða gefið að sök í kjölfar ofbeldisins sem lýst er í ákærunni og á meðan á frelsissviptingunni stóð að hafa þvingað A til munnmaka og endaþarmsmaka og þannig beitt hana ofbeldi og ólögmætri nauðung. Ákærði kvað mökin hafa átt sér stað en þau hafi verið af fúsum og frjálsum vilja beggja. Hann minntist þess ekki að A hefði haft orð á því að hún vildi ekki munnmökin vegna þess að tönn í henni hefði brotnað. Hann hefði ekki þvingað A eins og ákært sé fyrir.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglunni 7. febrúar 2016. Þar lýsti hann kynlífi þeirra A á þessum tíma og að hún hefði gefið syni sínum sælgæti og látið hann horfa á sjónvarpið meðan þau stunduðu kynlífið með hennar samþykki. Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglunni 23. febrúar 2016. Þar kom hið sama fram, þ.e. að kynlífið hefði verið af fúsum og frjálsum vilja þeirra beggja.

Spurður um áverka A sem lýst er í niðurlagi ákærunnar kvaðst ákærði ekki geta útilokað að þeir væru af sínum völdum. Hann kvaðst ekki átta sig á því hvenær í atburðarásinni hann braut tönn í henni en hann rengi það ekki að hafa valdið tannbrotinu. Spurður um það hvort hann hafi skýringu á för A á lögreglustöð kvað hann hana hafa kært sig vegna ofbeldis en ekki fyrir nauðgun eða frelsissviptingu. Hann kvað A ávalt hafa talað um atburðinn þannig að nauðgun hefði ekki átt sér stað og hún hefði ekki upplifað það sem fram fór sem nauðgun.

Við fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu kannaðist ákærði ekki við myndatökuna sem hann hefur nú gert fyrir dómi. Spurður um breyttan framburð um þetta kvaðst hann sér hafa fundist „ógeðslegt“ að taka svona myndir og hann hefði ekki verið tilbúinn til að viðurkenna það. Hann hafi hins vegar óskað eftir því að breyta framburði sínum og hann hefði bætt þessu við í síðari skýrslutöku hjá lögreglu. Hann kvaðst sjá eftir því sem gerðist á þessum tíma. Spurður um samband sitt við A eftir þetta kvað hann A hafa verið í sambandi við föður sinn strax sama dag og atburðirnir gerðust. Ákærði kvað A hafa viljað tala við sig strax og hann varð laus úr einangrun í gæsluvarðhaldi. Hann lýsti samskiptum þeirra eftir þetta og kvað þau góð. Hann hefði fengið leyfi úr gæsluvarðhaldi og dvalið þann tíma á heimili A og á sama tíma flutti lögheimili sitt þangað en þau stefni á sambúð.

Vitnið A var sambýliskona ákærða á þessum tíma en sambúð þeirra hófst í september 2015. Hún kvað ákærða hafa verið á „djamminu“ og hefði hann verið með ranghugmyndir um að hún færi bak við sig. Við heimkomu ákærða þennan dag hafi þau rætt málin en síðan gengið til náða. Morguninn eftir fór hún með son sinn til læknis og við heimkomu þaðan um kl. 11.00 hefði ákærði enn byrjað með ásakanirnar sem hún nefndi. B, vinkona hennar, kom til þeirra upp úr kl. 15.00, eins og síðar verður vikið að. Enduðu þessi samskipti þeirra með því að ákærði kýldi hana og braut í henni tönn er þau voru stödd í eldhúsinu. Þau hafi rifist áfram. Ákærði hafi skipað henni að setjast á stól í eldhúsinu og er hún gerði það sparkaði hann stólnum undan henni. Hún hafi þá hlaupið í forstofuna en ákærði á eftir þar sem hann tók í hárið á henni og kýldi hana. Tveggja ára sonur hennar varð vitni að hluta þessa atburðar og fór hann að gráta. Eftir það fóru þau inn í stofu þar sem ákærði hrinti henni og er hún lá í gólfinu sparkaði hann í síðu hennar og fætur. Þessu næst settist hún í sófann og hótaði ákærði því þá meðal annars að brjóta ramma á hausnum á henni, eins og hún bar, og að drepa hana ef hún segði ekki satt. Rifrildið hafi haldið áfram en hún kvað ákærða hafa greint frá því að hann hefði séð nektarmynd af stelpu á netinu og hafi hann talið að hún væri á myndinni. A kvaðst hafa sagt við ákærða í kaldhæðni á Facebook vegna þessa „komdu bara og skoðaðu“. Ákærði hefði þá beðið um að fá að ganga úr skugga um það að myndin sem um ræðir hafi ekki verið af henni. Spurð hvort hún hafi verið fús til þessa kvaðst hún ekki hafa sagt neitt en gert þetta. Þau hefðu eftir það farið inn í herbergi þar sem hún girti niður um sig en ákærði hafi ekki sagt henni að gera það. Hún hefði gert það til að ákærði gæti athugað það sem til stóð og tekið mynd af rassi hennar. Spurð hvort hún hefði heimilað ákærða myndatökuna kvaðst hún hafa gert það „þannig séð“. Hún hefði þá farið að gráta og ákærði þá sagt að nú skyldu þau hætta. Ákærði tók myndina á síma hennar. Hann lagði símann frá sér eftir þetta og áður en hann fór í sturtu. Hún kvað ekkert ofbeldi hafa átt sér stað eftir að myndatökunni lauk.

Eftir það settust þau upp í rúm, héldu utan um hvort annað og „knúsuðumst og kysstumst“ eins og hún bar og voru að sættast. Þá hafi ákærði beðið hana um munnmök sem hún kvaðst hafa veitt honum en sagt ákærða að sér væri illt í munninum vegna þess að jaxl hefði brotnað og eftir að hann hefði tekið í hálsinn á henni. Hún kvaðst þrátt fyrir þetta hafa veitt ákærða munnmök. Hún hefði sagt honum að sér væri illt í munninum og lagt til að þau gerðu þetta hinsegin bara eins og hún bar. Ákærði hefði beðið hana um „smá meira“ sem þau gerðu uns þau „gerðu hitt“. Fram kom hjá henni að hún bað ákærða um að „klára venjulega“ sem ákærði varð við sem og þau gerðu síðan. Ákærði hefði ekki þvingað hana til munnmakanna.

Eftir þetta fór ákærði í sturtu og síðar út að laga dekk á bíl fyrir utan. Á meðan kvaðst hún hafa farið í bað með syni sínum uns vinkona hennar kom og fór með henni.

Spurð um frelsissviptingu kvað hún ákærða hafa verið með síma hennar í vasa sínum. Hún hefði ekki beðið um símann en fram kom hjá henni að ákærði hefði lagt símann frá sér eftir myndatökuna sem lýst var. Spurð um það hvort hún hefði komist út úr íbúðinni á þessum tíma kvaðst hún hafa reynt það einu sinni en þá hafi „allt verið í gangi“ og ákærði komið að henni í forstofunni og rifið í hár hennar eins og rakið var. Hún hefði getað komist út meðan ákærði fór í sturtu og hún kvaðst hafa getað gert það þótt sonur hennar yrði eftir þar sem hún vissi að ákærði myndi aldrei gera börnunum neitt.

A var gerð grein fyrir ákvæðum almennra hegningarlaga um ranga kæru og rangan framburð og var sérstaklega fjallað um þann þátt ákærunnar sem lýtur að kynferðisbroti samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga. Hún kvaðst ekki hafa upplifað það sem gerðist sem nauðgun. Hún hefði ekki orðað nauðgun við skýrslutökur hjá lögreglunni og sér hefði ekki liðið eins og slíkt brot hefði átt sér stað. Hún hefði ávallt sagt að hún hefði verið samþykk kynlífinu. Hún hefði sagt að sér hefði liði illa vegna myndatökunnar. Lögreglan hefði talið, að hennar sögn, að hún hefði stundað kynlíf vegna þess að hún hefði verið hrædd. Hún kvaðst hafa beðið þáverandi réttargæslumann sinn um að koma á framfæri leiðréttingu um þetta en hann hefði sagt að það væri ekki hægt. Hún hefði þá sent saksóknara tölvupóst þar sem þessi afstaða hennar komi fram. Hún hefði skipt um réttargæslumann vegna þessa.

Farið var ítarlega yfir þann hluta ákærunnar þar sem segir að í kjölfar ofbeldis sem að framan sé lýst og meðan á frelsissviptingunni stóð hafi ákærði þvingað A til munnmaka og endaþarmsmaka og beitt hana þannig ólögmætri nauðung. A ítrekaði vitnisburð sinn um að kynmökin hefðu verið af fúsum og frjálsum vilja og að hún hefði sagt við skýrslutökur hjá lögreglunni að hún hefði verið samþykk kynlífinu.

Fram kom hjá A að þau ákærðu hefðu oft rifist og stundað kynlíf á eftir og að það sem gerðist þennan dag hafi aðeins verið það sem þau voru vön að gera að hennar sögn.

A kvaðst á þessu tímabili hafa sent B, vinkonu sinni, SMS-skilaboð og beðið hana um að drífa sig til þeirra en hún vildi ræða við hana um allt sem hafði gerst. Hún lýsti ferð þeirra ákærða og B á dekkjaverkstæði til að sækja startkapla og þau hefðu farið heim eftir það. Ákærði hefði farið að skipta um dekk en A og B farið saman á lögreglustöð. Hún kvaðst hafa farið þangað vegna ofbeldisins sem ákærði beitti hana.

A lýsti samskiptum þeirra ákærða eftir að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Ákærði hefði verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi um tíma og þá dvalið hjá henni og hann hafi með hennar vitneskju fært lögheimili sitt til hennar. Hún kvað þau ákærða reyna að ná sáttum. A lýsti afleiðingum árásarinnar á sig. Hún hafi orðið slæm í síðunni og átt erfitt með að standa upp en hún hafi verið veik fyrir og þyrfti lítið högg til að miklar afleiðingar hlytust af. Hún var með mikla verki eftir þetta. Þá lýsti hún sálrænum áhrifum þessa.

A gaf skýrslu hjá lögreglunni 5. febrúar 2016. Hún kvaðst hafa greint þar satt og rétt frá. Í skýrslunni er svofelldur kafli: ,,Og ég leggst bara uppí þú veist í peysunni og öllu og hann segir bara segir mér að fara úr peysunni og eitthvað og byrjar eitthvað. Og hann vill sem sagt að ég fari niður á sig og ég segi við hann að hann sé nýbúinn að brjóta jaxl í mér og taka mig hálstaki og annað þannig að ég vilji ekki gera þetta núna. Ég segi bara getum við ekki gert þetta seinna. Nei, gerðu smá plís og hann svona ýtir mér bara svona niður og lætur mig byrja og hann gerir þetta eiginlega bara svona, ég er eitthvað svona kyrr og ég bara svona, já er að halda inni í mér að gráta ekki af því að alltaf ef ég græt þá segir hann að hann gangi frá mér ef ég hætti ekki að gráta, hann var búinn að segja það oft þarna. Og ég reyni að biðja hann um að klára þetta hinsegin, þú veist í venjulegu kynlífi og þarna, af því og þetta var náttúrulega ekki staður og stund fyrir kynlíf þarna þegar hann var nýbúinn að vera að þessu og mér leið bara ekki vel.“

A var spurð um þennan hluta skýrslunnar sem lýsir kynlífinu kvað hún sér hafa liðið illa vegna þess sem hafði gerst en hún hefði ekki haft á móti kynlífinu. Nánar spurð um þetta kvaðst hún aldrei hafa velt fyrir sér kynferðisbroti og hún hefði gefið skýrsluna ósofin og í sjokki. Hún kvað því hafa verið ýtt að sér að það sem fram fór hafi verið nauðgun. Hún hefði greint rétt frá hjá lögreglunni en tók fram að sér hefði ekki liðið eins og sér hefði verið nauðgað. Kynlífið hefði verið af frjálsum vilja. Hún kvað ákærða hafa verið í góðri trú um að kynlífið væri með hennar samþykki. Hún hefði aldrei neitað um kynlífið og þau höfðu oft rifist áður og stundað kynlíf á eftir eins og rakið var og ákærði hefði því ekki haft ástæðu til að ætla eitthvað annað þarna, eftir því sem best verður ráðið í vitnisburðinum. Kynlífið hafi verið að vilja beggja.

A gaf skýrslu hjá lögreglunni 18. febrúar 2016. Þar ef svofelldur kafli:  ,,Og hann byrjaði að afklæða sig og ég, ég sagði bara hvað ertu að gera og hann sagði hvað ætlarðu bara að vera í peysunni eða, og ég fór úr peysunni. Og síðan biður hann um sem sagt munnmök og ég svona vill helst ekki gera það og ég segi það við hann að hann væri náttúrulega nýbúinn að brjóta í mér jaxl og taka mig hálstaki og svona, ég væri að drepst í hálsinum og munninum og hvort við gætum ekki bara gert þetta venjulega. Og hann vill endilega gera þetta svona og svona ýtir mér svona að þessu og hérna þannig séð bara, já ég geri þetta en hann, það er nú hann sem er búinn að hreyfa sig. Og ég eitthvað svona, já alveg að fara að gráta bara á meðan þetta er að gerast og, en ég vill ekki sýna honum það af því hann sagði í hvert skipti sem ég fór að gráta þarna þegar hann var að lemja mig að hann myndi ganga frá mér ef ég myndi gráta af því þú veist ef að strákurinn minn, þú veist hann vildi ekki að strákurinn minn myndi sjá mig gráta og eitthvað. Og já, þannig að þetta gengur svona í smá stund og ég er svona að stoppa á milli og biðja hann um að klára þetta venjulega og síðan loksins vill hann það og biður hann um sem sagt að fá að fara hérna í rassinn eða endaþarminn og ég samþykki það bara.“

Borinn var undir A hluti vitnisburðar hennar hjá lögreglunni um þennan hluta sakarefnisins. Hún var spurð um það hvort hún væri að breyta vitnisburði sínum fyrir dómi þannig að hann væri ósamrýmanlegur því sem hún greindi frá hjá lögreglunni um hið ætlaða kynferðisbrot. Hún kvað svo ekki vera. Hún hefði ekki sagt ósatt hjá lögreglu og vitnisburð sinn þar beri að skilja þannig að kynlífið hefði verið með vilja beggja. Hún skýrði afstöðu sína til þessa og hvað hún ætti við með vitnisburði sínum. Mestu varðar það sem var sem rauður þráður í vitnisburði hennar um þetta, þ.e. að kynlífið hafi ekki verið þvingað fram. Það hafi farið fram að vilja beggja.

Vitnið B kvaðst vera vinkona A og hún hefði komið til hennar þennan dag til að veita aðstoð vegna bifreiðar sem var rafmagnslaus. Við komu á heimilið upp úr klukkan 15.00 þennan dag hafi ákærði og A komið út en hún hefði vitað að ekki var allt í lagi þar sem hún hafði verið í SMS-sambandi við A fyrr um daginn þegar A bað hana um að koma til sín. Ákærði bað þær A um að sækja bíl til Hafnarfjarðar en þær hafi farið á lögreglustöð í Grafarholtinu. Spurð um tilefni ferðarinnar á lögreglustöðin kvað hún A hafa greint sér frá tilefninu sem var að ákærði hefði beitt hana ofbeldi. Það hafi sést á henni og hún hafi verið í sjokki. A hafi greint sér frá atburðum og að upphaflega hefði málið snúist um mynd sem ákærði taldi vera af A. Myndin hefði birst á netinu og ákærði tekið mynd af A til að fullvissa sig um að myndin væri ekki af henni. Þá hefði ákærði „tekið hressilega í hana og hún verið með brotinn jaxl til dæmis“. Ákærði hefði slegið hana í andlitið svo að jaxl brotnaði, sparkað undan henni stól og hún hefði verið lemstruð eftir átök þeirra. Hún kvað það hafa verið sameiginlega ákvörðun þeirra A að fara á lögreglustöðina og að hún hefði ætlað að fá aðstoð lögreglu til að koma ákærða út af heimilinu. Vitnið kvaðst hafa annast son A og ekki farið með henni inn á lögreglustöðina. Hún kvað A ekki hafa lýst neinum kynferðisbrotum ákærða en hún hefði greint sér frá því að ákærði hefði beðið hana um munnmök. Hún hefði beðið ákærða um annars konar mök þar sem hún væri að farast í munninum út af brotinni tönn. B gaf skýrslu hjá lögreglunni þar sem hún kvaðst hafa greint rétt frá. Við skýrslutökuna þar greindi hún svo frá að ákærði hefði þvingað A til að totta sig. Hún mundi ekki eftir því að hafa greint svo frá en kvað A hafa greint sér frá því að ákærði hefði látið hana eða beðið hana um þetta. Þetta væru sín orð en ekki A sem ekki hafi sagt ákærða hafa þvingað hana til maka. B kvað hafa komið fram hjá A að hún hefði ekki verið samþykk myndatökunni.

Vitnið C, faðir ákærða, vissi til þess að ákærði hefði ráðist á A á heimili þeirra. Hann viti ekki meira um atburðinn en það sem hann hefur eftir ákærða og A eftir samskipti við þau. Hann kvað X son sinn hafa verið eftirlýstan og hann hafi hjálpað til við að finna hann og hvatt hann til að gefa sig fram. Hann lýsti samskiptum við A sem hefði sagt honum upp og ofan af því hvernig atburðir voru. Honum hefði skilist á henni að málið varðaði líkamsárás en sér hefði skilist á henni að málið hefði snúist í höndum hennar við yfirheyrslu upp í það að vera nauðgun og frelsissvipting. Hann hefði sagt henni að sér þætti óþægilegt að ræða þetta við hana vegna þess hvernig málið þróaðist og vísaði hann þá í fjölmiðlaumfjöllun um málið. A hefði hins vegar leitað eftir því að fá að vera í sambandi við hann vegna þessa og hún hefði greint sér frá því að hún hefði hvorki orðið fyrir nauðgun né frelsissviptingu. Hann kvað alltaf hafa verið gott samband milli þeirra A en á þeim tíma sem mál þetta kom upp hafi staðið til að ákærði og A flyttu út á land þar sem vitnið býr. Hann viti ekki annað um málið en það sem A greindi honum frá. Hann hafi ekki rætt þetta við ákærða son sinn.

Vitnið D, móðir A, lýsti samskiptum sínum og A þennan dag en hún hefði passað son hennar þennan dag. Hún lýsti því er fulltrúi Barnaverndar hafði samband við hana og hún hefði hitt þann aðila. Hún viti um atburði á heimili A og ákærða á þeim tíma sem í ákæru greinir en A hafi ekki greint sér frá því sem gerðist.

Vitnið E, systir A, kvaðst ekki geta greint frá því sem gerðist á heimili systur sinnar á þessum tíma. Hún kvaðst hafa farið með henni á neyðarmóttöku en A hefði ekki greint sér frá því sem gerðist.

Vitnið F rannsóknarlögreglumaður stýrði rannsókn málsins. Hann skýrði það að eftir fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu hefði komið upp grunur um kynferðisbrot og þá hafi verið farið með A á neyðarmóttöku. Vitnið tók við rannsókn málsins eftir það og greindi hann frá rannsókninni í framhaldinu. Hann kvað A hafa verið í sambandi við sig fyrir nokkrum dögum og greint frá því að hún hefði skipt um réttargæslumann og að hún væri efins um hvað hún ætti að fara langt með þetta. Henni hefði fundist þetta of mikið. Hann kvaðst hafa greint A frá því að málið væri úr hans höndum og hún yrði að beina máli sínu til héraðssaksóknara. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað af tölvupósti A til héraðssaksóknara þess efnis að það sem fram fór hefði ekki verið nauðgun.

Vitnið G lögreglumaður staðfesti og skýrði skýrslu sem hann ritaði vegna rannsóknar vettvangs að [...] í [...] vegna málsins. G tók einnig ljósmyndir af vettvangi og fleira.

Vitnið H, sérfræðilæknir á neyðarmóttöku, staðfesti og skýrði gögn sem hún ritaði eftir skoðun A á neyðarmóttöku hinn 5. febrúar 2016. H skýrði hvernig hún ritaði niður kafla skýrslunnar sem heitir frásögn sjúklings. Þar sé höfð eftir frásögn A sem hafi verið nokkuð yfirveguð. Frásögn A á neyðarmóttökunni er efnislega á sama veg og hún bar við skýrslutökur hjá lögreglunni en kaflar úr skýrslunum voru raktir að framan. Hún kvað áverkana sem greindust á A geta samrýmst frásögn hennar af atburðum.

Vitnið I, hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku, lýsti því hvernig A greindi frá því sem gerðist á heimili hennar á þessum tíma. Frásögn hennar komi fram í skýrslu neyðarmóttöku sem læknir undirriti en A hafi lýst kynferðisbroti sem hún hefði orðið fyrir af hálfu sambýlismanns. Áverkar í andliti A samrýmist því að hún hafi verið kýld auk þess sem tönn hafi brotnað.

Vitnið J tannlæknir skýrði og staðfesti skýrslu sína frá 2. mars 2016 þar sem því er lýst að brotnað hafi úr jaxli vinstra megin uppi eftir líkamsárás sem A varð fyrir hinn 5. febrúar 2016 en skoðunin fór fram 18. s.m. J skýrði að brotnað hefði úr jaxlinum sem hafi verið í rótarfyllingarmeðferð sem ekki var lokið.

Vitnið K lögreglumaður kvaðst hafa fengið tilkynningu um að A væri komin á lögreglustöð vegna heimilisofbeldis. Rannsóknarlögreglumaður hefði rætt við A um það sem gerðist en A hefði virst fremur róleg. Fram kemur í skýrslu lögreglunnar um komu A á lögreglustöðina að hún sé þangað komin vegna líkamsárásar. Vitnið var spurt hvort A hefði komið á lögreglustöðina til að kæra líkamsárás. Hún taldi svo vera fyrst hún hefði ritað það í skýrslu en þær upplýsingar hefði hún fengið frá rannsóknarlögreglumanni.

 

Niðurstaða ákæru dagsettrar 29. mars 2016

Ákærði neitar sök að hluta en játar sakargiftir að hluta.

Ákærða er gefið að sök af hafa svipt A, þáverandi sambýliskonu, sína frelsi frá því um klukkan 13.00 til klukkan 15.00 á heimili þeirra að [...] framangreindan dag. Ákærði neitar þessu og kvað A hafa getað farið út er hún vildi en kvaðst hins vegar ekki geta útilokað að hafa slegið hana og rifið í hár hennar er hún reyndi að flýja. Hann kvað hana hins vegar hafa getað farið er ákærði var í sturtu.

Vitnið A kvað ákærða hafa komið á eftir sér er hún hljóp fram í forstofuna eins og rakið var. Hann hafi þá rifið í hár hennar og slegið hana. Hún kvaðst hafa komist út úr íbúðinni er ákærði var í sturtu en ekki farið.

Ráða má af framburði ákærða og af vitnisburði A í heild að eftir myndatökuna, sem lýst er í ákærunni, hafi ekki orðið frekara ósætti á milli þeirra og hafa þau bæði lýst því að kynmökin hafi átt sér stað eftir þetta. Þótt ekki sé með vissu hægt að slá neinu föstu um tímasetningar er ljóst af þessu að A komst út af heimilinu eftir að þessu ástandi linnti. Hins vegar er sannað með trúverðugum vitnisburði A um þetta og að mestu leyti með játningu ákærða að hann hafi meinað henni för út úr íbúðinni um stund og þannig svipt hana frelsi sínu svo varðar við 1. mgr. 226 gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir en undir flutningi málsins kom sækjandinn því á framfæri að tilvísun til framangreindrar málsgreinar í ákæru hefði fallið niður fyrir mistök. Þetta kemur ekki að sök.

Ákærða er gefin að sök líkamsárás sem hann hefur játað að stórum hluta og að hluta ekki getað útilokað að hafi átt sér stað. Þessi afstaða ákærða nær til þess að hafa slegið A meðal annars svo að jaxl í efri gómi vinstra megin brotnaði, rifið í hár hennar, sparkað undan henni stól svo að hún féll í gólfið og sparkað í síðu hennar og fætur. Ákærði neitaði að hafa tekið A hálstaki.

Vitnið A bar ekki um það fyrir dómi að ákærði hefði tekið hana hálstaki. Að öllu ofanrituðu virtu er sannað með trúverðugum vitnisburði A, sem fær stoð í vitnisburði B, og að mestu leyti með framburði ákærða, að hann hafi gerst sekur um þann hluta ákærunnar er varðar líkamsárás utan að ósannað er, gegn neitun ákærða, að hann hafi tekið A hálstaki og er sýknað af þeim hluta ákærunnar. Háttsemi ákærða sem hér hefur verið fjallað um varðar við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.

Ákærða er gefin að sök hótun og að hafa ítrekað hótað A lífláti. Ákærði neitar þessum sakargiftum. Vitnið A kvað ákærða hafa hótað sér lífláti svo sem rakið var. Ákærði hefur borið að hann muni atburði illa frá þessum tíma. Ástandið á heimilinu á þessum tíma var rakið að framan. Í ljósi þess er rétt að leggja trúverðugan vitnisburð A til grundvallar og er með honum sannað, gegn neitun ákærða, að ákærði hótaði A lífláti þótt ekki sé sannað að það hafi gerst ítrekað eins og ákært er fyrir. Þessi háttsemi ákærða varðar við 233. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærða er gefið að sök að hafa látið A girða niður um sig og skoðað kynfæri hennar og rass með vasaljósi auk þess að hafa tekið mynd af berum kynfærum hennar og áreitt hana þannig kynferðislega. Ákærði hefur játað þennan verknað en neitar sök á þeirri forsendu að A hafi heimilað þessa háttsemi. Þegar aðdragandi þessa atburðar er virtur í heild og það sem gengið hafði á á milli ákærða og A áður en þetta gerðist og þegar vitnisburður A er virtur er það mat dómsins að ráða megi af þessu að það sem fram fór hafi verið í óþökk A. Engu breyta í þessu sambandi samskipti ákærða og A á Facebook áður eða símtal þeirra um þetta. Þessi háttsemi ákærða varðar við 199. gr. almennra hegningarlaga svo sem í ákæru greinir.

Ákærða er gefið að sök að hafa í kjölfar ofbeldisins sem fjallað hefur verið um og meðan á frelsissviptingunni stóð þvingað A til kynferðismaka og beitt hana þannig ólögmætri nauðung. Því var lýst að framan að ekkert ofbeldi átti sér stað eftir að ákærði tók myndina af berum kynfærum A. Ákærði og A hafa bæði frá upphafi borið um þetta. Þá er það niðurstaða dómsins að framan að frelsissviptingunni hafi verið lokið fyrir klukkan 15.00 eins og ákæran byggir á. Þótt ekki sé alveg hægt að slá því föstu hvenær henni lauk er ljóst af vitnisburði A og af framburði ákærða að henni var lokið er kynferðismökin áttu sér stað. Er því ósannað það sem stendur í ákærunni að kynferðismökin hafi átt sér stað meðan á frelsissviptingunni stóð.

Ákærði hefur frá upphafi neitað sök að því er varðar þennan hluta ákærunnar. Þá hefur vitnið A borið fyrir dómi að kynmökin hafi verið að vilja beggja. Vísað er til ítarlegs vitnisburðar um þetta að framan og skýringar sem hún gaf á vitnisburði sínum hjá lögreglu og að hann beri ekki að skilja þannig að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti. Auk þess sem þar var rakið er þess að geta að þann 30. mars 2016 sendi A héraðssaksóknara tölvupóst þar sem hún tekur fram að henni hafi ekki verið nauðgað. Hún hefði ekki upplifað það sem fram fór sem nauðgun.

Ákærði og A eru tvö til frásagnar um það sem gerðist. Vitnisburður A hjá lögreglu um það hvernig munnmökin hófust og vitnisburður hennar fyrir dómi um að hún hefði sagt ákærða að sér væri illt í munninum verður ekki skilinn öðruvísi en svo að hún hafi ekki verið samþykk munnmökunum. Skýringar hennar fyrir dómi á breyttum framburði um þetta eru ekki trúverðugar og verður ekki byggt á þeim. Það er því sannað með vitnisburði A hjá lögreglu, með stoð í öðrum gögnum málsins, svo sem gögnum frá neyðarmóttöku og með vitnisburði H sérfræðilæknis og I hjúkrunarfræðings, gegn neitun ákærða, að hann hafi þvingað A til munnmaka sem hann vissi að hún var mótfallin. Hefur ákærði með þessu gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.

Ákærða er jafnframt gefið að sök að hafa þvingað A til endaþarmsmaka. Ákærði hefur neitað þessu. Þegar vitnisburður A um þessi mök er virtur í heild og það að hún kvað ákærða hafa verið í góðri trú og ekki getað hafa vitað annað en að hún væri samþykk mökunum, sem hún kvaðst hafa verið, auk þess sem það sem gerðist hefði ekki verið óvenjulegt í sambandi þeirra, er það mat dómsins, að ákærði hafi verið í góðri trú varðandi endaþarmsmökin. Samkvæmt þessu er ásetningskrafa ekki uppfyllt og ber samkvæmt því að sýkna ákærða af þessum hluta ákærunnar.

Ákærða er gefið að sök að hafa móðgað og smánað A með háttseminni sem í ákæru greinir. Háttsemin sem ákærði er sakfelldur fyrir er slík að rétt er að fella hana undir 233. gr. b almennra hegningarlaga svo sem í ákæru greinir.

 

Ákæra dagsett 3. maí 2016

Ákæruliðir I og II

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum tveimur ákæruliðum greinir og eru brot ákærða rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

Ákæruliður III

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar, dagsettri 29. október 2015, fór lögreglan að [...] vegna heimilisofbeldis eins og segir í skýrslunni. Í skýrslunni segir að allt hafi verið rólegt við komu lögreglu en ákærði og A muni hafa lent í átökum skömmu áður í kjölfar ágreinings.

A skoraðist undan vitnaskýrslu hjá lögreglunni á grundvelli 2. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008.

Skýrsla var tekin af ákærða hjá lögreglunni 10. febrúar 2016. Hann lýsti ósætti þeirra A á þessum tíma.

 

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi

   Ákærði neitar sök að hluta. Hann kvað þau A hafa verið sambýlisfólk á þessum tíma en þau hefðu farið út um kvöldið og systir A hefði passað börnin á meðan. Er þau komu heim var frændi ákærða með í för. Sá fór skömmu síðar og kvaðst ákærði þá einnig hafa viljað fara. A hefði þá ásakað sig um framhjáhald. Vegna þessa varð rifrildi milli þeirra og er ákærði kvaðst hafa sagst sekur um framhjáhald, sem ekki var raunin, hefði A „tryllst“ og hafi hún klipið hann í framan og staðið í vegi hans er hann reyndi að komast út. Þau rifust uns A sótti hamar í þvottahúsið. Er hún ætlaði að ráðast á ákærða, vopnuð hamrinum, tók hann í hár hennar og hélt henni niðri á meðan hún reyndi að slá hann með hamrinum og urðu átök milli þeirra inni í þvottahúsinu. E, systir A, vaknaði þá og hringdi á lögregluna. Er E vaknaði kvaðst ákærði hafa hlaupið út og haldið hurðinni þannig að A komst ekki að honum og kvaðst myndi opna ef hún sleppti hamrinum. Í kjölfarið hefði ástandið róast og lögreglan komið skömmu síðar. Ákærði kvaðst ekki hafa slegið A hnefahöggum en síðar er hann lýsti átökum þeirra kvaðst hann telja að hann hefði í þessari atburðarás slegið A tvisvar sinnum með flötum lófa er átökin á milli þeirra hófust inni í stofu íbúðarinnar. Nánar spurður um þetta kvaðst hann ekki geta útilokað að hafa kýlt hana í átökunum í þvottahúsinu en hann kvaðst muna atburði mjög illa. Hann hefði hvorki sparkað í hana né tekið hana hálstaki. Hann hefði aðeins rifið í hárið á henni og haldið henni niðri eins og lýst var. Spurður um skýringar á áverkum A sem lýst er í ákærunni kvað hann mikil átök hafa orðið milli þeirra og kvaðst hann sjálfur hafa hlotið áverka í þeim. Hann kvað lögregluna hafa fengið sig út af heimilinu en það hafi ekki verið með vilja A. Hann lýsti ferðum sínum eftir þetta uns A sótti hann til félaga hans morguninn eftir þaðan sem þau fóru og dvöldu saman á hóteli í Keflavík.

   Vitnið A, sambýliskona ákærða, skoraðist undan vitnisburði fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 117. gr. laga 88/2008. A skoraðist einnig undan vitnisburði hjá lögreglu eins og rakið var.

   Vitnið E, systir A, kvaðst hafa verið að passa börn A þann 29. október 2015. Hún hefði vaknað er A og ákærði komu heim en sofnað aftur. Hún vaknaði aftur um nóttina er A öskraði á hjálp. Er hún fór fram sá hún blóð en ákærði og A voru þá í þvottahúsinu þar sem A hélt á hamri sem E tók af henni. Ákærði hefði haldið A niðri. Hún sá ákærða kýla A einu sinni í andlitið en hún sá hann ekki slá eða sparka í hana eða taka hana hálstaki. Hún sá áverka (gat) á höfði A sem var bólgin í andliti. Ákærði var með klórför og blóðugur í andliti. Greinilegt var að báðum hafði blætt. E kvaðst hafa rætt rólega við þau og hvatt þau til að hætta. Hún náði þeim út úr þvottahúsinu og náði að róa þau niður svo að þau slepptu takinu hvort á öðru. Eftir það hljóp ákærði út en hún kvaðst hafa hringt í lögregluna og hefði ákærði verið kominn inn aftur er lögreglan kom.

   Vitnið D, móðir A, kvað A hafa komið til sín eftir þennan atburð og hún hefði síðar frétt að ákærði hefði veist að henni. Hún hefði orðið reið og farið á heimili þeirra. Ákærði var þá heima og spurði hún A hvað hefði komið fyrir andlitið á henni en hún bar áverka í andliti. A sagðist hafa dottið í tröppunum. Er hún gekk á A varðandi þetta hafi hún snúið út úr fyrir sér og viljað hana burt. Hún kvaðst ekki vita hvað gerðist en hafði eftir E, dóttur sinni, hvað hefði gerst en E var á staðnum um nóttina.

   Vitnið L lögreglumaður lýsti komu sinni á vettvang. Hún tók skýrslu af A á vettvangi og ritaði niður frásögn hennar. Í skýrslunni segir að þau X hafi verið að rífast inni í stofu eftir heimkomu og X hefði viljað fara í partý en hún ekki viljað að hann færi. Hún segir X hafa ögrað sér og sagt að hann ætlaði að slá sig. Hann hafi svo ýtt við henni ofan í sófann í stofunni og haldið henni niðri, kýlt hana í andlitið og rifið í hárið á henni. Hún hefði svo farið inn í þvottaherbergið og náð þar í hamar til að verja sig með. X hefði komið á eftir henni og teldi hún sig hafa náð að slá X einu sinni í fótlegginn með hamrinum. Hann hefði haldið henni niðri í gólfinu og sparkað hnénu í höfuð hennar og eftir það hefði hún tekið eftir því að blæddi úr höfðinu á henni. Hún sagði að E, systir hennar, sem hefði verið sofandi í herbergi við hliðina, hefði þá komið fram og sagt þeim að hætta. X hafi þá farið út og og haldið útidyrunum lokuðum. Hann hafi síðan opnað smá rifu á dyrnar og þau hafi reynt að róa sig. X hafi sagt henni að róa sig. Fram kom að hún vildi ekki aðkomu lögreglu að málinu. L staðfesti að hafa ritað frásögn A eftir hljóðupptöku á staðnum.

   Vitnið M lögreglumaður ritaði frumskýrslu um málið sem hann staðfesti. Hann lýsti komu lögreglu á staðinn, þá hafi allt verið rólegt en blóð á ganginum. Rætt var við ákærða, A og E. Hann kvað A og X ekki hafa borið alveg eins. A hefði rætt um að frændi X hefði komið heim með þeim og hefði X viljað fara með frændanum eftir heimkomuna en hún hafi ekki viljað það og þau rifist vegna þessa. Þetta hafi leitt til þess að X hafi orðið ógnandi í hennar garð, ráðist að henni, rifið í hárið á henni, kýlt hana og er hún hafi reynt að verja sig, meðal annars með hamri. Þá hafi X farið út og systir hennar vaknað og komið fram.

Ákærði hefði lýst atburðum svo að A hefði orðið reið og afbrýðisöm að ástæðulausu, ráðist á hann og reynt að klóra hann. Hann hefði varið sig með því að halda A. Hún hefði sótt hamar og hann þá farið út. Hann kvað töluvert hafa blætt úr hársverði A, hún hefði verið marin í andliti og blóðug. Ákærði var með klórför á hálsi og á eyra og blóðugur á höndum.

   Fyrir liggur læknisvottorð A dagsett 23. febrúar 2016. Þar er svofelldur kafli:

Aðdragandi og sjúkrasaga

[...] ára gömul kona sem kemur í fylgd lögreglu eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás af hálfu kærasta, sambandið varað í um tvo mánuði.

Aðdragandi er að þau fara á bar að hitta frænda kærastans og fá þeir sér eitthvað að drekka, A kveðst ekki drekka áfengi sjálf.

Þau koma heim og vill hann þá halda áfram að skemmta sér en hún biður hann að fara ekki, enda klukkan orðin 04.00. Hann reiðist og byrjar að ögra henni og biður hana að slá til sín sem hún gerir ekki. Við það verður hann mjög reiður, rífur í hárið á henni og heldur henni niðri í sófa, dregur svo niður á gólf og byrjar að kýla hana í andlitið og notar á einhverjum tímapunkti líka hné í andlitið á henni. A nær að kalla til systur sinnar sem hafði gist til að gæta barna A og við það fipast kærastinn en nær henni svo aftur og dregur niður í gólf og heldur áfram barsmíðum. Tekur kverkataki líka í átökunum. A náði litlum vörnum að koma við en reyndi að ná sér í barefli meðan honum fipaðist en náði ekki að verja sig.

Skoðun:

Er í uppnámi, gefur góða og skýra sögu.

Höfuð: Það er skurður hægra megin í hári um 2 cm að lengd, blæðir úr. Vinstra megin eru eymsli og roði.

Á enni vinstra megin er stórt mar og eymsli og fjöldi klórfara á enni.

Nef er bólgið, ekki að sjá skekkju en mikil eymsli og blámi. Andar jafnt um nasir. Það sem mikil eymsli líka neðan við vinstra auga og bólga þar yfir kinnbeini.

Það eru litlir skurðir í munni en ekki áverka að sjá í fljótu bragði á tönnum.

Á hálsi eru rauð för og eymsli. Kyngir eðlilega en verkjar.

Á höndum beggja vegna er mar og roði. Sér í lagi aum yfir vinstri úlnlið.

Á vinstri fæti neðan hnés er smá skeina og mikil eymsli við þreifingu neðan við patellu, haltrar við gang og vegna verkja.

Greiningar:

Opið sár á höfði, hluti ótilgreindur S01.9

Margir yfirborðsáverkar á höfði S00.7

Margir yfirborðsáverkar á öxl og upphandlegg S40.7

Gangur og meðferð:

Fer í tölvusneiðmyndarrannsókn af andlitsbeinum.

Saumuð eru 3 spor með 4-0 ethilon eftir deyfingu, leggst vel saman.

Reynist ekki með brot á andlistbeinum samkvæmt sneiðmyndarrannsókn.

Boðin áfallahjálp og útskrifast heim en er ráðlagt eftirlit á heilsugæslu.“

N sérfræðilæknir ritaði vottorðið. Hún staðfesti það og skýrði fyrir dóminum og kvaðst telja áverkana geta samrýmst frásögn A af atburðum.

Niðurstaða ákæruliðar III

Verjandi ákærða krefst frávísunar þessa ákæruliðar.

Ákæruvaldið mótmælir frávísunarkröfunni og krefst efnisdóms.

Engin haldbær rök hafa verið færð fyrir frávísun þessa ákæruliðar og er frávísunarkröfunni hafnað.

Ráða má af framburði ákærða að átök urðu milli þeirra A á þessum tíma. Bæði hlutu áverka eins og rakið hefur verið. Ákærði hefur játað að hafa slegið hana tvisvar sinnum með flötum lófa inni í íbúðinni og að hafa kýlt hana í átökunum í þvottahúsinu. Hann neitaði að hafa sparkað í hana og tekið hana hálstaki en kvaðst hafa tekið í hárið á henni til að halda henni niðri.

Vitnið E sá ákærða kýla A einu sinni í andlitið en hún sá hann ekki slá eða sparka í hana eða taka hana hálstaki.

Vitnið A hefur skorast undan vitnisburði í málinu á grunvelli 2. mgr. 117. gr. laga 88/2008.

Eins og rakið var ritaði lögreglumaður skýrslu eftir hljóðupptöku sem ekki liggur fyrir. Frásögnin var ekki borin undir A sem neitar að tjá sig um málið. Það er mat dómsins að lögregluskýrslan sem hér um ræðir verði ekki lögð til grundvallar niðurstöðunni nema að því leyti sem hún fær stoð í öðrum gögnum málsins en að mati dómsins er sá stuðningur ekki nægur til að unnt sé að leggja skýrsluna í heild til grundvallar. Af öllu ofanrituðu virtu verður niðurstaða reist á framburði ákærða og vitnisburði E og með stoð í læknisvottorði sem rakið var. Samkvæmt þessu er sannað að ákærði hafi slegið A tvisvar sinnum með flötum lófa inni í íbúðinni og kýlt hana í þvottahúsinu. Gegn neitun ákærða er ósannað að hann hafi gerst sekur um aðra háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið og er hann sýknaður af þeim hlutum ákærunnar. Með læknisvottorðinu og vitnisburði N sérfræðilæknis er sannað að afleiðingarnar urðu þær sem í ákæru greinir og varðar brot ákærða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákærunni greinir.

 

   Ákærði hefur frá árinu 2008 hlotið fjóra refsidóma fyrir umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot, nytjastuld og þjófnað. Ákærði hefur ekki áður hlotið fangelsisrefsingu en síðasti refsidómurinn er sektardómur frá 21. maí 2014 fyrir umferðarlagabrot. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. og 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og þykir þannig hæfilega ávörðuð fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Til frádráttar refsingunni og með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga komi óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 7. febrúar 2016 til dagsins í dag.

Ákærði er nú í þriðja sinn fundinn sekur um brot gegn 45. gr. og/eða 45. gr. a í umferðarlögum. Ber samkvæmt því og með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákæru frá 3. maí 2016 að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

Undir dómsmeðferð málsins var bótakrafa A lækkuð í 3,3 milljónir. Ákærði hefur samþykkt að greiða hina breyttu kröfu auk vaxta svo sem krafist er. Er hann þannig dæmdur til að greiða A þá fjárhæð auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en dráttarvextir reiknast frá 8. maí 2016 er mánuður var liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða.

Þá greiði ákærði 818.400 króna réttargæsluþóknun Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns A undir rannsókn málsins, og 1.166.220 króna réttargæsluþóknun Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttagæslumanns A undir dómsmeðferðinni.

Ákærði greiði 297.619 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði greiði 4/5 hluta á móti 1/5 hluta úr ríkissjóði af 2.987.160 króna málsvarnarlaunum Stefáns Karls Kristjánsson hæstaréttarlögmanns. Þá greiði ákærði 26.448 krónur vegna aksturskostnaðar verjandans.

   Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Arngrímur Ísberg og Arnfríður Einarsdóttir.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Til frádráttar refsivistinni komi óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 7. febrúar 2016 til dagsins í dag að telja.

Ákærði skal sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði 297.619 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði greiði A kt. [...], 3,3 milljónir króna auk vaxta af 3 milljónum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2016 til 8. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 3,3 milljónum króna frá þeim degi að telja til greiðsludags.

Ákærði greiði 818.400 króna réttargæsluþóknun Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns og 1.166.220 króna réttargæsluþóknun Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns. 

Ákærði greiði 4/5 hluta á móti 1/5 hluta úr ríkissjóði af 2.987.160 króna málsvarnarlaunum Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns og 26.448 krónur í aksturskostnað verjandans.

Þóknun lögmanna er ákvörðuð með virðisaukaskatti.