Print

Mál nr. 385/2007

Lykilorð
  • Hlutafélag
  • Hlutafé
  • Bókhaldsbrot
  • Rangfærsla skjals
  • Fjárdráttur
  • Áfrýjunarstefna
  • Áfrýjunarfrestur
  • Ákæra
  • Lögreglurannsókn
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Aðfinnslur
  • Sératkvæði

                                     

 

Fimmtudaginn 5. júní 2008.

Nr. 385/2007.

Ákæruvaldið

(Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari)

gegn

Jóni Ásgeiri Jóhannessyni

(Gestur Jónsson hrl.)

Tryggva Jónssyni og

(Jakob R. Möller hrl.)

Jóni Gerald Sullenberger

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Hlutafélag. Hlutafé. Bókhaldsbrot. Rangfærsla skjals. Fjárdráttur. Áfrýjunarstefna. Áfrýjunarfrestur. Ákæra. Lögreglurannsókn. Frávísunarkröfu hafnað. Aðfinnslur. Sératkvæði.

 

Opinbert mál var höfðað á hendur JÁ, T og JG með ákæru í 19 liðum. Á fyrri stigum hafði einum lið ákærunnar verið vísað frá héraðsdómi, svo og hluta eins annars. Í 9 af þeim liðum, sem eftir stóðu, var JÁ einn borinn sökum um að hafa brotið gegn 1. og 2. mgr. 104. gr., sbr. 153. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög með því að hafa látið almenningshlutafélagið B, sem hann var forstjóri fyrir, ýmist veita hluthöfum í félaginu lán eða veita lán til kaupa á hlutum í félaginu. Í 7 liðum voru JÁ og T sakaðir um stórfelld bókhaldsbrot samkvæmt 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa látið rangfæra bókhald B, en í einum af þeim liðum var JG borinn sökum með þeim. Að auki var JÁ sakaður í 6 liðanna um að hafa brotið gegn 1., sbr. 3. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga og 153. gr. og 1. mgr. 154. gr. laga nr. 2/1995 með því að hafa í blekkingarskyni látið senda frá B til Verðbréfaþings Íslands rangar opinberar tilkynningar um hag félagsins, þar sem gætt hafi áhrifa af ætluðum rangfærslum bókhalds þess. Loks voru JÁ og T báðir í einum lið ákærunnar og T einn í öðrum lið bornir sökum um að hafa dregið fé af B. Í héraði var JÁ sýknaður af sakargiftum í fyrstnefndu 9 liðum ákærunnar. Einnig voru JÁ og T sýknaðir af sökum í 3 liðum hennar, sem vörðuðu ætluð bókhaldsbrot, en þeir báðir ásamt JG sakfelldir samkvæmt einum lið og JÁ að auki í því tilviki fyrir að hafa látið senda ranga opinbera tilkynningu um hag B. Þá var T einn sakfelldur fyrir bókhaldsbrot samkvæmt 3 ákæruliðum. JÁ og T voru sýknaðir af sökum um fjárdrátt samkvæmt þeim lið í ákærunni, sem beindist að þeim saman, en T var sakfelldur að hluta fyrir slíkt brot samkvæmt þeim lið, sem sneri að honum einum. Ákærðu lýstu allir yfir áfrýjun varðandi þá liði ákærunnar, sem þeir voru sakfelldir fyrir, en af hálfu ákæruvaldsins var áfrýjað til sakfellingar ákærðu samkvæmt öllum liðum hennar, þó ekki T í því tilviki, þar sem hann hafði verið sakaður ásamt JÁ um fjárdrátt. Fyrir Hæstarétti var ekki tekin til greina krafa JÁ og T um að málinu yrði vísað frá réttinum varðandi nokkra af þeim ákæruliðum, sem þeir höfðu verið sýknaðir af í héraði, enda var ekki fallist á með þeim að ríkissaksóknara hefði borið að tryggja sönnur fyrir því að áfrýjunarstefna hafi í raun verið gefin út á þeim degi, sem hún bar með sér og var lokadagur áfrýjunarfrests gagnvart ákæruvaldinu. Ekki var heldur tekin til greina krafa JÁ og T um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, en hana höfðu þeir einkum reist á því að ríkissaksóknara hafi verið óheimilt að höfða þetta mál sökum þess að fyrra máli á hendur þeim um samsvarandi sakarefni hafði verið vísað frá dómi, svo og að miklar tafir hafi orðið á málinu og rannsókn þess hjá lögreglu hafi í tilteknum atriðum verið áfátt. Varðandi þá 9 liði ákæru, sem beindust að JÁ vegna ætlaðra brota gegn 104., sbr. 153. gr. laga nr. 2/1995, var ekki fallist á þá málsvörn hans að í ákvæðum þessum væri ekki að finna nægilega skýra refsiheimild. Í 6 af þeim tilvikum var talið að B hefði ekki veitt lán í skilningi 104. gr. og var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu JÁ að því leyti. Í 3 tilvikum var á hinn bóginn litið svo á að félagið hefði veitt lán í skilningi ákvæðisins. Í héraðsdómi hafði JÁ verið sýknaður af sökum samkvæmt þeim liðum ákærunnar án þess að afstaða væri tekin til þess hvort sannað væri að hann hafi af ásetningi látið B veita þessi lán, en lánin voru veitt á árunum 1999 og 2001. Með því að litið var svo á að brot þessi, ef sönnuð yrðu, myndu ekki varða þyngri refsingu en sektum þótti sýnt að hugsanleg sök hafi hér verið fyrnd, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Yrði andstætt rétti JÁ samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar til réttlátrar meðferðar máls innan hæfilegs tíma að ómerkja héraðsdóm til þess eins að láta meta hvort sök hans væri sönnuð samkvæmt þessum ákæruliðum en sýkna hann að því búnu vegna fyrningar. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu JÁ var því einnig staðfest um þessa ákæruliði. Varðandi önnur brot, sem ákærðu voru gefin að sök og þeir höfðu verið sýknaðir af í héraði, var ekki fallist á með ákæruvaldinu að fært væri samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að endurskoða sönnunarmat héraðsdóms á grundvelli skjallegra gagna einna og án tillits til munnlegra skýrslna fyrir héraðsdómi. Í þeim tilvikum þóttu ekki efni til að ómerkja héraðsdóm á grundvelli 5. mgr. sömu lagagreinar, en niðurstöður hans um sakfellingar JÁ, T og JG voru staðfestar, að frátalinni sakfellingu þess fyrstnefnda fyrir að hafa látið senda ranga opinbera tilkynningu um hag B, enda lá slík tilkynning ekki fyrir í málinu. JÁ og JG voru dæmdir til að sæta fangelsi í 3 mánuði og T í 12 mánuði, en refsing þeirra allra var bundin skilorði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní og 15. ágúst 2007 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt liðum 2 til 9 og 11 til 19 í ákæru, svo og varakröfu í lið 10, en þó aðeins ákærði Jón Ásgeir Jóhannesson að því er varðar sakargiftir samkvæmt lið 18. Þá er þess krafist að refsing allra ákærðu verði þyngd.

Ákærði Jón Ásgeir Jóhannesson krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að málinu verði vísað frá Hæstarétti að því er varðar sakir á hendur honum samkvæmt liðum 11 til 14 og 16 til 18 í ákæru. Að þessu frágengnu krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til ítrustu vara að refsing, sem honum var gerð í héraði, verði milduð.

Ákærði Tryggvi Jónsson krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að málinu verði vísað frá Hæstarétti varðandi sakir á hendur honum samkvæmt liðum 11, 12 og 13 í ákæru. Að því frágengnu krefst hann sýknu, en ella að refsing verði milduð.

Ákærði Jón Gerald Sullenberger krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

I.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2007 á málið rætur að rekja til þess að ákærði Jón Gerald bar upp við ríkislögreglustjóra í ágúst 2002 nánar tilteknar sakir meðal annars á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva. Að undangengnum skýrslutökum af ákærða Jóni Gerald 25. og 26. ágúst 2002 aflaði lögregla 28. sama mánaðar heimildar héraðsdóms til leitar í húsakynnum Baugs hf. og Aðfanga hf. að Skútuvogi 7 í Reykjavík og fór hún fram sama dag. Á grundvelli rannsóknar, sem hófst á þennan hátt, gaf ríkislögreglustjóri út ákæru 1. júlí 2005 á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva, svo og F, A, B og C. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2005 var því máli vísað frá dómi. Sú niðurstaða var í dómi Hæstaréttar 10. október sama ár í máli nr. 420/2005 staðfest um fyrstu 32 liði ákærunnar, en úrskurðurinn felldur úr gildi að öðru leyti og lagt fyrir héraðsdóm að taka átta síðustu liði hennar til efnismeðferðar.

Að gengnum þessum dómi Hæstaréttar ákvað ríkissaksóknari að taka í sínar hendur frekari athugun á þeim hluta málsins samkvæmt ákærunni frá 1. júlí 2005, sem vísað hafði verið frá dómi. Með bréfi til dómsmálaráðherra 13. október 2005 tilkynnti síðan ríkissaksóknari að hann hefði ákveðið að víkja sæti í málinu og var Sigurður Tómas Magnússon með bréfi ráðherra 21. sama mánaðar settur ríkissaksóknari til að fara með það, svo og heimildir ríkissaksóknara varðandi þann hluta málsins samkvæmt ákærunni 1. júlí 2005, sem eftir stóð. Tók settur ríkissaksóknari í kjölfarið við sókn þess máls. Dómur gekk í því í héraði 15. mars 2006, þar sem allir, sem bornir voru sökum í málinu, voru sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins. Af hálfu þess var dóminum áfrýjað að því er varðaði sakir á hendur ákærða Jóni Ásgeiri, A, B og C. Með dómi Hæstaréttar 25. janúar 2007 í máli nr. 181/2006 var héraðsdómur látinn standa óraskaður.

Settur ríkissaksóknari höfðaði mál þetta með ákæru 31. mars 2006. Ákærði Jón Ásgeir var borinn sökum í 18 fyrstu liðum hennar, ákærði Tryggvi með honum í 11. til 18. lið en einn í 19. lið og ákærði Jón Gerald með þeim báðum í 15. lið. Ákærðu kröfðust þess hver fyrir sitt leyti að málinu yrði vísað frá dómi. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2006 var málinu vísað frá að því er varðaði 1. lið ákærunnar, en kröfu ákærðu um frávísun hafnað að öðru leyti. Af hálfu ákæruvaldsins var sá úrskurður kærður til Hæstaréttar og gerðu ákærðu það jafnframt hver fyrir sig. Með dómi Hæstaréttar 21. júlí 2006 í máli nr. 353/2006 var staðfest niðurstaða úrskurðarins um frávísun málsins að hluta, en málskoti ákærðu á hinn bóginn vísað frá með því að heimild brast til kæru af þeirra hendi.

Að undangenginni aðalmeðferð máls þessa var kveðinn upp dómur í héraði 3. maí 2007. Samkvæmt honum var málinu vísað frá dómi varðandi sakir samkvæmt 2. til 10. lið ákæru, sem eins og fyrr greinir beindust að ákærða Jóni Ásgeiri einum, og samkvæmt 19. lið, sem sneri að ákærða Tryggva einum, en að auki sakir á hendur ákærða Jóni Gerald, sem eingöngu voru í 15. lið ákæru. Ákærði Tryggvi var sakfelldur fyrir brot, sem honum voru gefin að sök í 14. til 17. lið ákærunnar, og ákærði Jón Ásgeir með honum að því er 15. lið hennar varðaði, en að öðru leyti voru þeir sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins. Af þess hálfu voru ákvæði dómsins um frávísun málsins að hluta kærð til Hæstaréttar, sem með dómi 1. júní 2007 í máli nr. 254/2007 staðfesti niðurstöðu um frávísun aðalkröfu í 10. lið ákæru, en felldi í öðrum atriðum úr gildi hin kærðu ákvæði og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því leyti. Það var gert með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2007. Þar var ákærði Jón Ásgeir sýknaður af sökum samkvæmt 2. til 10. lið ákærunnar, en ákærði Tryggvi sakfelldur að hluta fyrir brot, sem hann var borinn sökum um í 19. lið hennar. Þá var ákærði Jón Gerald sakfelldur fyrir brot, sem hann var sakaður um í 15. lið ákærunnar.

Héraðsdóminum frá 3. maí 2007 var skotið til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnu setts ríkissaksóknara 28. júní sama ár, en héraðsdóminum frá 28. júní 2007 með áfrýjunarstefnu hans 15. ágúst sama ár. Málið hefur verið rekið í einu lagi fyrir Hæstarétti. Svo sem ráðið verður af áðurgreindum kröfum af hálfu ákæruvaldsins er leitað hér fyrir dómi endurskoðunar á ákvæðum fyrri héraðsdómsins um sýknu ákærða Jóns Ásgeirs af sökum samkvæmt 11. til 14. og 16. til 18. lið ákæru og ákærða Tryggva samkvæmt 11., 12. og 13. lið, en unað er við sýknu hans af sakargiftum samkvæmt 18. lið ákærunnar. Þá er af hálfu ákæruvaldsins leitað endurskoðunar á ákvæðum síðari héraðsdómsins um sýknu ákærða Jóns Ásgeirs af sökum samkvæmt 2. til 9. lið ákærunnar og varakröfu í 10. lið hennar, svo og um sýknu ákærða Tryggva af hluta sakargifta samkvæmt 19. lið ákæru. Að auki er af hálfu ákæruvaldsins krafist þyngingar á refsingu, sem ákærðu var gerð með hinum áfrýjuðu dómum. Refsing ákærða Jóns Ásgeirs var ákveðin með héraðsdóminum 3. maí 2007 og ákærða Jóns Gerald með dóminum 28. júní sama ár, en refsing ákærða Tryggva endanlega ákveðin með síðarnefnda dóminum. Að endingu er af hálfu ákæruvaldsins leitað endurskoðunar á ákvörðun sakarkostnaðar, eins og niðurstaða varð um hann í héraðsdómunum tveimur til samans.

II.

Varakrafa ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva tekur til þess að málinu verði vísað frá Hæstarétti að því leyti, sem settur ríkissaksóknari hefur áfrýjað héraðsdóminum frá 3. maí 2007 til að fá hnekkt ákvæðum hans um sýknu ýmist annars þeirra eða beggja af einstökum liðum ákæru. Þótt krafa þessi snúi aðeins að hluta málsins er óhjákvæmilegt taka afstöðu til hennar áður en tekin verður til úrlausnar aðalkrafa sömu ákærðu um að málinu verði vísað í heild frá héraðsdómi gagnvart þeim, enda getur Hæstiréttur ekki kveðið á um slíkt nema máli eða hluta þess sé réttilega skotið til hans með áfrýjun eða kæru.

Ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi voru ekki staddir á dómþingi við uppkvaðningu héraðsdóms 3. maí 2007 og var hann birtur fyrir þeim fyrrnefnda 31. maí 2007, en þeim síðarnefnda 1. júní sama ár. Yfirlýsing ákærða Jóns Ásgeirs um áfrýjun dómsins var dagsett 27. júní 2007 og ákærða Tryggva 28. sama mánaðar. Yfirlýsingarnar munu hafa verið afhentar settum ríkissaksóknara við uppkvaðningu síðari héraðsdómsins í málinu 28. júní 2007. Þann dag lauk fjögurra vikna fresti ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum til að lýsa yfir áfrýjun fyrri héraðsdómsins og jafnframt átta vikna fresti setts ríkissaksóknara til að gefa út stefnu til áfrýjunar dómsins af ákæruvaldsins hálfu samkvæmt fyrri málslið 152. gr. sömu laga. Áfrýjunarstefna vegna þessa héraðsdóms var dagsett 28. júní 2007, en hún var birt ákærða Tryggva 4. júlí 2007 og ákærða Jóni Ásgeiri 11. sama mánaðar. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti staðhæfði settur ríkissaksóknari að hann hafi gefið áfrýjunarstefnuna út með undirritun sinni síðla dags 28. júní 2007. Krafa ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva um frávísun málsins að hluta frá Hæstarétti er reist á því að ríkissaksóknara beri að tryggja sönnur fyrir því að stefna til áfrýjunar héraðsdóms af hálfu ákæruvaldsins sé í reynd gefin út fyrir lok áfrýjunarfrests ef hún hefur ekki verið birt ákærða innan þess tíma. Slík sönnunarkrafa á ekki stoð í lögum nr. 19/1991, enda er þar byggt á því að leggja megi trúnað á dagsetningu skjals af hendi æðsta handhafa ákæruvaldsins og beri sá sönnunarbyrði, sem öðru heldur fram í tilteknu tilviki. Af hálfu ákærða Jóns Ásgeirs var því lýst yfir í málflutningi fyrir Hæstarétti að ekki væri dregið í efa réttmæti áðurgreindrar staðhæfingar setts ríkissaksóknara um útgáfu áfrýjunarstefnunnar og henni var ekki mótmælt af hálfu ákærða Tryggva. Að þessu virtu eru ekki efni til að vísa málinu að hluta frá Hæstarétti.

III.

Fyrir Hæstarétti er krafa ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva um frávísun málsins í heild frá héraðsdómi gagnvart þeim studd sömu rökum og frávísunarkrafa, sem þeir gerðu undir rekstri málsins í héraði. Til þeirrar kröfu tók Héraðsdómur Reykjavíkur afstöðu í fyrrnefndum úrskurði 30. júní 2006, en kröfunni varð ekki komið að í kærumáli, sem lauk með dómi Hæstaréttar 21. júlí sama ár, að því leyti, sem henni var hafnað í þeim úrskurði, sbr. i. lið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991.

Ríkislögreglustjóri gaf sem fyrr segir út ákæru 1. júlí 2005 meðal annars á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva. Að því leyti, sem máli um þá ákæru var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar 10. október 2005, tók hún að miklu leyti til sömu sakarefna og ákæra setts ríkissaksóknara í þessu máli, sem í einstökum atriðum er þó frábrugðin þeirri fyrri, auk þess sem henni er jafnframt beint að ákærða Jóni Gerald, sem ekki var borinn sökum í fyrra málinu. Þegar fyrra málinu um þau sakarefni var vísað frá héraðsdómi ónýttist málatilbúnaður af hálfu ákæruvaldsins að því leyti, þar á meðal ákæran, sem málið var höfðað með. Kom því til kasta þess, sem með ákæruvald fór í þessu tilviki, að taka ákvörðun um málsókn án tillits til þess, sem áður hafði verið gert, þar á meðal um hverjar sakir yrðu bornar upp í einstökum atriðum í nýju máli, á hendur hverjum það yrði gert og til hvaða refsiákvæða ætluð brot yrðu heimfærð. Í lögum nr. 19/1991 eru engar skorður reistar við því að ákært sé á ný eftir að upphaflegu máli hefur verið vísað frá dómi. Engin efni eru til að líta svo á að ákvæði síðari málsliðar 1. mgr. 118. gr. laganna um sérstakan frest til að gefa út framhaldsákæru í máli taki til þessara aðstæðna, enda er regla um það efni sett til að koma eftir föngum í veg fyrir að meðferð máls, sem þegar er rekið fyrir héraðsdómi, tefjist með því að leitað sé úrlausnar um frekari sakarefni en greindi í upphaflegri ákæru. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi á grundvelli röksemda ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva, sem að þessu lúta.

Eins og áður greinir hóf ríkislögreglustjóri rannsókn á sakargiftum á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva í ágúst 2002. Ferli málsins upp frá því hefur í meginatriðum verið lýst hér að framan, en nærri þrjú ár liðu frá upphafi rannsóknar þar til ákæra var upphaflega gefin út á hendur þeim, tæplega sex mánuðir liðu frá því að máli samkvæmt þeirri ákæru var vísað frá héraðsdómi þar til þetta mál var höfðað með nýrri ákæru og nærri fimmtán mánuðir liðu frá þeim tíma þar til efnisdómur var felldur í héraði á þau sakarefni samkvæmt ákærunni, sem til þess voru hæf. Frá uppkvaðningu síðari héraðsdómsins liðu síðan rúmir tíu mánuðir þar til málið var munnlega flutt fyrir Hæstarétti. Á það verður að fallast með ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva að meginreglu 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um hraða meðferð sakamáls hefur ekki verið fylgt sem skyldi, en þó öðru fremur varðandi þær tafir, sem urðu frá upphafi lögreglurannsóknar þar til ákæra í þessu máli var gefin út. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa tafir á meðferð sakamáls ekki valdið frávísun þess, heldur hefur verið til þeirra litið við efnisúrlausn máls, einkum varðandi ákvörðun viðurlaga. Í máli þessu er ekki tilefni til að víkja frá þeirri framkvæmd.

Í málatilbúnaði ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva varðandi kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi hafa verið gerðar margvíslegar athugasemdir við lögreglurannsókn í því, þar á meðal að þar hafi ekki verið tekið tillit til ýmissa athugasemda þeirra og ábendinga, aðferðum við skýrslutöku af sakborningum og vitnum og við aðrar rannsóknaraðgerðir hafi í mörgum atriðum verið áfátt, sakargiftir hafi ekki í öllum atriðum verið bornar undir þá, sem síðar sættu ákæru, og rannsókn hafi hvorki verið lokið né settur ríkissaksóknari lagt sjálfstætt mat á hana áður en hann gaf út ákæru í málinu. Um þessi atriði er í einu lagi til þess að líta að samkvæmt 77. gr. og 112. gr. laga nr. 19/1991 er það háð mati ákæranda hvort rannsókn lögreglu hafi náð því marki að unnt sé að taka ákvörðun um saksókn, en verði af henni skal leyst úr máli eftir þeim sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð þess fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr. sömu laga. Við meðferð þessa máls fyrir dómi hafa ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi haft öll tök á að færa fram sönnunargögn og röksemdir varðandi atriði, sem þeir kunna að telja að lögregla hafi vanrækt að líta til, sakargiftir hafa verið kynntar þeim og þeir tekið til varna og við flutning málsins hefur þeim gefist kostur á að bera fram aðfinnslur um aðgerðir við lögreglurannsókn að því leyti, sem einhverju gæti varðað við úrlausn um efni málsins. Þegar þetta er virt er ekki ástæða til að vísa málinu frá héraðsdómi vegna þeirra atriða, sem áður er getið.

Samkvæmt framansögðu og með því að ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi hafa ekki að öðru leyti fært fram haldbær rök fyrir kröfu sinni um að málinu verði vísað frá héraðsdómi verður henni hafnað.

IV.

Í 2. til 9. lið ákæru, svo og 10. lið hennar að því leyti, sem honum hefur ekki verið vísað frá héraðsdómi, er ákærði Jón Ásgeir borinn sökum um að hafa í starfi forstjóra Baugs hf. látið veita Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., Fjárfari ehf. og A, sem öll voru hluthafar í Baugi hf., lán af fjármunum félagsins í níu nánar tilgreindum tilvikum á tímabilinu frá 20. ágúst 1999 til 18. maí 2001, þar á meðal í fimm skipti í tengslum við aukningu eða kaup á hlutum í félaginu. Af hálfu ákæruvaldsins er þessi háttsemi talin varða ýmist við 1. mgr. eða 2. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög með áorðnum breytingum.

Í 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 er mælt fyrir um að hlutafélagi sé hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán né setja tryggingu fyrir þá. Í lokamálslið ákvæðisins er þó gerð sú undantekning að þessi fyrirmæli taki ekki til venjulegra viðskiptalána. Þá er í 2. mgr. 104. gr. kveðið á um að hlutafélag megi ekki veita lán til að standa straum af kaupum á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess eða leggja fram fé eða setja tryggingu í tengslum við slík kaup. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. gilda þessar reglur þó ekki um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum. Í 2. tölulið 153. gr. segir að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að brjóta vísvitandi meðal annars gegn ákvæðum laganna um „lán eða tryggingu til handa hluthöfum o.fl. (104. gr.)“.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjuðu dómum hefur ákærði Jón Ásgeir meðal annars borið fyrir sig að í framangreindum lagaákvæðum sé ekki mælt fyrir um refsiheimild, sem beitt verði á hendur einstökum manni, eða að minnsta kosti sé það ekki nógu skýrlega gert. Um þessa málsvörn verður að gæta að því að í lögum nr. 2/1995 er hvergi mælt fyrir um heimild til refsingar á hendur hlutafélagi, svo sem beinlínis hefði orðið að taka fram ef henni ætti að koma við, sbr. 19. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Í fjölmörgum ákvæðum laga nr. 2/1995 er mælt fyrir um heimildir og skyldur hlutafélaga og bann við gerðum þeirra án þess að tekið sé sérstaklega fram að reglurnar varði menn í tiltekinni stöðu hjá félagi. Þetta á meðal annars við um ýmis önnur ákvæði en 104. gr. laganna, sem vísað er til í 2. tölulið 153. gr. þeirra. Augljóst er að þau ákvæði laganna fela í sér fyrirmæli um heimild eða skyldu þeirra manna, sem eru bærir til að ráðstafa hagsmunum hlutafélags, til nánar tiltekinna aðgerða og bann við því að þeir grípi til annarra tilgreindra aðgerða, enda gerir hlutafélag ekkert slíkt án atbeina einhvers manns. Getur að þessu virtu enginn skynsamlegur vafi leikið á um að ákvæði 1. og 2. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 hafi að geyma reglur um bann við þargreindri háttsemi starfsmanns hlutafélags að viðlagðri refsingu á hendur honum samkvæmt 2. tölulið 153. gr. laganna. Ákærði Jón Ásgeir gegndi á þeim tíma, sem atvik í 2. til 10. lið ákæru gerðust, stöðu forstjóra Baugs hf., sem þá var almenningshlutafélag. Vegna reynslu sinnar af atvinnurekstri átti hann, á sama hátt og sérhver annar maður í samsvarandi aðstöðu, að geta séð fyrir að hann gæti bakað sér refsingu með ráðstöfunum í starfsemi félagsins, sem stönguðust á við 1. eða 2. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995, en jafnvel þótt hann teldi þetta orka tvímælis hefði mátt ætlast til að hann gengi þá úr skugga um það með því að leita leiðsagnar sérfræðings. Að þessu athuguðu getur ákærði Jón Ásgeir ekki með réttu borið því við að ákvæði 1. og 2. mgr. 104. gr. og 2. töluliðar 153. gr. laga nr. 2/1995 hafi ekki að geyma nægilega skýra refsiheimild, sem beita megi gagnvart honum verði þær sakir taldar sannaðar, sem hann er borinn í 2. til 10. lið ákæru, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar.

V.

Í 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 er sem fyrr segir lagt bann við að hlutafélag veiti lán til hluthafa í því, stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra. Með 2. mgr. sömu lagagreinar er hlutafélagi bannað að veita lán til að „fjármagna kaup“ á hlutum í því eða móðurfélagi þess, svo og að leggja fram fé eða setja tryggingu í tengslum við slík kaup, en þetta ákvæði er ekki bundið við þann tiltekna hóp, sem regla 1. mgr. nær til. Í hvorugu þessara ákvæða er skýrt út hvað átt sé þar við með orðinu lán.

Í máli ákæruvaldsins, sem beindist meðal annars að ákærða Jóni Ásgeiri og lokið var með áðurnefndum dómi Hæstaréttar 25. janúar 2007, reyndi við úrlausn um tiltekna liði ákæru á skýringu þessa sama orðs í 43. gr. þágildandi laga nr. 144/1994 um ársreikninga, en ákærði var þar borinn sökum um að hafa látið hjá líða að tilgreina í skýringum við ársreikninga Baugs hf. árin 1998 til 2001 tiltekna fjárhæð lána, sem félagið hafi veitt honum, Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., Fjárfari ehf. og A. Á hliðstæðan hátt og gert var í þeim dómi verður að gæta að því að á skýringu orðsins lán í 1. og 2. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 reynir hér eingöngu við úrlausn um hvort ákærði Jón Ásgeir hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi, en af þeim sökum verður orðinu ekki gefið víðara inntak en leiðir af hljóðan þess. Jafnframt verður að gæta að því að í ákvæðum þessum er ekki rætt um að hlutafélagi sé bannað að eignast kröfu á hendur tilteknum mönnum eða stofna til inneignar hjá þeim, svo sem löggjafanum hefði verið í lófa lagið ef ætlunin hefði verið að gefa ákvæðunum slíkt inntak.

Að virtu framangreindu verður að beita þeirri skýringu að hlutafélag teljist hafa veitt lán í skilningi 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 ef það hefur greitt hluthafa í því, stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra peningaupphæð eða ígildi hennar eða látið af hendi til einhvers þeirra önnur fjárhagsleg verðmæti með áskilnaði um endurgreiðslu peningaupphæðarinnar eða ígildis hennar eða skil á verðmætunum. Má leggja að jöfnu við þetta ef hlutafélag hefur með sama áskilnaði greitt peningaupphæð eða ígildi hennar til þriðja manns eða afhent honum önnur fjárhagsleg verðmæti til að efna skyldu, sem hvílt hefur gagnvart honum á hluthafa, stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra í félaginu, en með því má líta svo á að lán hafi verið veitt þeim, sem greiðsla eða afhending var til hagsbóta fyrir.

Við skýringu á ákvæði 2. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 verður að gæta að því að þar er, á sama hátt og í 1. mgr. sömu lagagreinar, lagt bann við því að hlutafélag veiti lán. Ákvæðin tvö eru þó frábrugðin sérstaklega að því leyti annars vegar að í 1. og 2. málslið 2. mgr. er ekki fjallað um lán til tiltekinna aðila, gagnstætt 1. mgr., sem snýr að lánveitingu til hluthafa, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra hlutafélags, og hins vegar að í 2. mgr. er fjallað um lán í ákveðnum tilgangi, nánar tiltekið til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu, svo og að leggja fram fé eða setja tryggingu í tengslum við slík kaup, en gagnstætt þessu má einu gilda samkvæmt 1. mgr. í hvaða tilgangi lán er veitt, ef frá eru talin venjuleg viðskiptalán, sem lokamálsliður þeirrar málsgreinar tekur til. Af þessu verður ekki annað ályktað en að merking orðsins lán sé sú sama í báðum þessum málsgreinum, enda hlyti löggjafinn að öðrum kosti að hafa gert mun á orðalagi ákvæðanna að þessu leyti ef ætlunin hefði verið önnur, en ekki verður séð að nokkurs staðar sé að slíku vikið í lögskýringargögnum. Auk þessa verður að gæta að því að fyrirmæli 2. og 3. málsliðar 2. mgr. gefa ekki sjálfstætt tilefni til að álykta að bann við veitingu láns samkvæmt þeirri málsgrein geti einnig náð til þess að hlutafélag eftirláti hluthafa að efna áskrift að hlutafé með öðru en staðgreiðslu peninga við afhendingu hlutabréfs. Til þeirra atriða taka á hinn bóginn ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 5. gr., 2. mgr. 16. gr., 1. mgr. 37. gr. og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 2/1995, þar sem heimilað er að víkja frá meginreglu um staðgreiðslu hlutafjár með nánar tilteknum skilyrðum, þar á meðal að stoð sé fyrir því í samþykktum félagsins eða ákvörðun hluthafafundar, en brot á þessum reglum um greiðslu hlutafjár varðar refsingu samkvæmt 2. tölulið 153. gr. laganna. Að þessu virtu, svo og því, sem áður er getið, að hér reynir á skýringu 2. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 við úrlausn refsimáls, verður að líta svo á að hlutafélag teljist hafa veitt lán í merkingu ákvæðisins ef það hefur greitt öðrum peningaupphæð eða ígildi hennar eða látið af hendi önnur fjárhagsleg verðmæti með áskilnaði um endurgreiðslu peningaupphæðarinnar eða ígildis hennar eða skil á verðmætunum, í því skyni að standa straum af efndum á áskrift að hlutum í félaginu eða kaupum á þeim, auk þess sem félagi er bannað að láta af hendi önnur fjárframlög eða veita tryggingar í tengslum við slík viðskipti.

VI.

Að gættu því, sem greinir í V. kafla hér að framan, verður nú lagt mat á það hvort einstakar ráðstafanir, sem um ræðir í 2. til 10. lið ákæru, hafi verið andstæðar 1. eða 2. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995.

2. liður ákæru: Í þessum lið er ákærða Jóni Ásgeiri gefið að sök að hafa brotið gegn 2. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 með því að hafa 20. ágúst 1999 látið Baug hf. veita Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. lán að fjárhæð 100.000.000 krónur til að efna áskrift að hlutum, sem þetta einkahlutafélag hafi skráð sig fyrir við hlutafjárútboð í Baugi hf. Samkvæmt gögnum málsins varðandi þennan lið ákærunnar var stjórn Baugs hf. heimilað á aðalfundi félagsins 8. apríl 1999 að auka hlutafé í því um allt að 40.000.000 krónur að nafnverði. Stjórnin ákvað á fundi 1. júní 1999 að neyta þessarar heimildar og bauð hlutaféð út á tímabilinu frá 15. júní til 5. júlí sama ár á genginu 9,95. Meðal þeirra, sem skrifuðu sig þar fyrir hlutum, var Fjárfestingafélagið Gaumur ehf., sem leitaði eftir nýjum hlut að nafnverði 10.000.000 krónur. Í málinu eru ekki gögn um nánari skilmála í útboði þessu, en Íslandsbanki hf. mun hafa annast innheimtu hlutafjárins. Baugur hf. greiddi bankanum með millifærslu af tékkareikningi félagsins 100.000.000 krónur 20. ágúst 1999 og var þá búið til á skrifstofu þess bókhaldsfylgiskjal með fyrirsögninni „staðfesting á lánveitingu“, þar sem tiltekið var að þetta væri „greiðsla til Íslandsbanka v/hlutafjárútboðs fyrir Gaum hf.“ Í bókhaldi Baugs hf. var fjárhæðin færð félaginu til eignar á viðskiptamannareikningi Fjárfestingafélagsins Gaums ehf.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007 hefur ákærði Jón Ásgeir borið því við að greiðslan, sem hér um ræðir, hafi tengst viðskiptum milli Baugs hf. og NRP ehf., sem hafi snúið að öflun sérleyfis handa fyrrnefnda félaginu til að reka hér á landi verslanir undir merkjum enska félagsins Debenhams Plc. Til að tryggja Baugi hf. það sérleyfi hafi verið samið um að rétthafinn að því, NRP ehf., fengi að kaupa hlut í Baugi hf. að nafnverði 10.000.000 krónur á genginu 9. Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. hafi orðið milliliður í þeim viðskiptum með því að Baugur hf. hafi greitt í þágu félagsins fyrir hlutabréf sem þessu svaraði. Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. hafi síðan gert skriflegan samning við NRP ehf. 15. nóvember 1999 um sölu á þessum hlutabréfum fyrir 90.000.000 krónur. Söluverðið hafi ekki verið greitt Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., heldur Baugi hf. í þrennu lagi á tímabilinu frá 28. október 1999 til 28. júní 2000. Fyrir liggur að þessar greiðslur frá NRP ehf. voru færðar í bókhaldi Baugs hf. sömu daga til lækkunar á skuld á viðskiptamannareikningi Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., auk þess sem þar voru færðar í sama skyni 10.000.000 krónur 31. desember 1999 sem greiðsla Baugs hf. fyrir áðurnefnt sérleyfi.

Þótt framangreindar skýringar ákærða eigi sér nokkra stoð í gögnum málsins breyta þær engu um það meginatriði að Baugur hf. greiddi Íslandsbanka hf. 100.000.000 krónur 20. ágúst 1999 til að efna skuldbindingu, sem Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. hafði áður tekið á sig í útboði á nýju hlutafé í Baugi hf. Með þessu lét Baugur hf. af hendi peningaupphæð að láni til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu í skilningi 2. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995, en bann er þar lagt við ráðstöfun sem þessari án tillits til þess hvort sérstakar ástæður búi að baki henni eða hlutafélag kunni að njóta hags af henni.

3. liður ákæru: Ákærða Jóni Ásgeiri er þar gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 með því að hafa 11. október 1999 látið Baug hf. veita Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., sem þá hafi verið hluthafi í Baugi hf., lán að fjárhæð 4.500.000 krónur. Af gögnum málsins verður ráðið að Baugur hf. hafi millifært þá fjárhæð fyrrgreindan dag af tékkareikningi sínum inn á bankareikning í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Á grundvelli skjals með fyrirsögninni „staðfesting á lánveitingu“ var greiðsla þessi færð samdægurs í bókhaldi Baugs hf. sem inneign félagsins á viðskiptamannareikningi Fjárfestingafélagsins Gaums ehf.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007 hefur ákærði lýst því að þessi greiðsla hafi verið innt af hendi vegna sameiginlegra kaupa félaganna tveggja á fasteign að Viðarhöfða 6 í Reykjavík, en tveir aðrir þáverandi forráðamenn Baugs hf. báru jafnframt fyrir héraðsdómi um ráðagerðir um þau kaup. Fyrir liggur að Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. gerði samning um kaup á fasteigninni 8. júlí 1999 fyrir 27.000.000 krónur. Af þeirri fjárhæð átti félagið að greiða 4.500.000 krónur við undirritun samningsins og 4.177.048 krónur við útgáfu afsals 7. október sama ár, en eftirstöðvar kaupverðsins skyldu greiddar með því að félagið tæki að sér veðskuldir, sem hvíldu á eigninni. Óumdeilt er að engar frekari ráðstafanir voru gerðar til að Baugur hf. eignaðist hlut í fasteigninni, sem enn mun vera í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., en því hefur verið borið við að fyrrnefnda félagið hafi allt að einu haft not af hluta eignarinnar án endurgjalds. Þau atvik, þótt sönnuð væru, fengju engu breytt um það að Baugur hf. lét af hendi í peningum 4.500.000 krónur til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. 11. október 1999 og liggur ekkert fyrir til stuðnings öðru en að það hafi verið gert með áskilnaði um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Þessi ráðstöfun verður þannig að skoðast sem lán í skilningi 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995, en engar forsendur eru til að líta á hana sem venjulegt viðskiptalán í skilningi lokamálsliðar þess ákvæðis.

4. liður ákæru: Í honum er ákærða Jóni Ásgeiri gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 með því að hafa 3. desember 1999 látið Baug hf. veita Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., sem þá hafi verið hluthafi í Baugi hf., lán að fjárhæð 8.000.000 krónur. Af gögnum, sem snúa að þessum lið í ákæru, verður séð að Baugur hf. greiddi fjárhæðina áðurgreindan dag með millifærslu af tékkareikningi sínum til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á grundvelli reiknings frá honum, sem gefinn var út á hendur Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. 2. desember 1999, og var greiðslan færð daginn eftir í bókhaldi Baugs hf. sem inneign félagsins á viðskiptamannareikningi Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Í reikningnum frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis kom fram að hann væri fyrir greiðslu samkvæmt samningi 12. mars 1999 með gjalddaga 1. desember sama ár. Í málinu liggur fyrir samningur frá þeim degi, sem undirritaður var af hálfu Baugs hf., Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, um kaup fjárfestingafélagsins á helmingshlut sparisjóðsins í Viðskiptatrausti hf. fyrir 8.000.000 krónur, en tekið var þar fram að það félag væri í eigu Baugs hf. að öðru leyti. Þá liggur fyrir að í bókhaldi Baugs hf. var gerð færsla 30. júní 2000 um kaup félagsins á hlutabréfum í Viðskiptatrausti hf. af Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. fyrir 16.000.000 krónur, svo og um lækkun á skuld þess síðastnefnda á viðskiptamannareikningi um sömu fjárhæð.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007 hafa ákærði Jón Ásgeir og nafngreind vitni skýrt svo frá að Viðskiptatraust hf. hafi á sínum tíma verið stofnað af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Bónus sf. og verið í eigu þeirra að jöfnu. Við stofnun Baugs hf. hafi heildareignir þessa sameignarfélags verið færðar ýmist til hlutafélagsins eða Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Þegar það var gert hafi eignarhluturinn í Viðskiptatrausti hf. verið færður fyrir mistök til fjárfestingafélagsins í stað Baugs hf., en starfsemi Viðskiptatrausts hf. hafi snúið að verslunarrekstri, sem Baugur hf. tók við af Bónus sf. Þessi mistök hafi ekki komið í ljós fyrr en í tengslum við kaup á eignarhluta sparisjóðsins í Viðskiptatrausti hf. og hafi Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. því komið þar fram sem kaupandi, en mistökin hafi svo verið leiðrétt með áðurgreindum hætti á árinu 2000. Þótt skýringarnar á viðskiptunum, sem hér um ræðir, séu ekki í öllum atriðum nærtækar er þess að gæta að í málinu liggja ekki fyrir svo að séð verði gögn um stofnun Viðskiptatrausts hf., hlutaskrá í félaginu við gerð áðurnefnds samnings 12. mars 1999, ráðstöfun á eignum Bónus sf. til Baugs hf. og Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. eða færslu á eignarhlut í Viðskiptatrausti hf. í bókhaldi þessara félaga á þeim tímabilum, sem hér skipta máli. Að því virtu verður að fallast á með héraðsdómi að ekki liggi nægilega fyrir að greiðsla Baugs hf. til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á 8.000.000 krónum 3. desember 1999 hafi í reynd verið lán til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. í skilningi 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995.

5., 8. og 9. liður ákæru: Í fyrstnefnda liðnum er ákærði Jón Ásgeir borinn sökum um að hafa brotið gegn 2. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 með því að hafa 13. febrúar 2001 látið Baug hf. veita Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. lán að fjárhæð 50.529.987 krónur til að fjármagna kaup á hlutum í Baugi hf. Ákærði er sakaður um sams konar brot í 8. og 9. lið ákæru með því að hafa látið Baug hf. veita lán í sama skyni áðurgreindan dag til annars vegar Fjárfars ehf. að fjárhæð 85.758.591 króna og hins vegar A að fjárhæð 3.786.727 krónur.

Samkvæmt gögnum málsins, sem snúa að þessum þremur liðum í ákæru, samþykkti hluthafafundur í Baugi hf. 9. október 2000 að hækka hlutafé í félaginu um 110.000.000 krónur að nafnverði. Ákveðið var að hluthafar fengju tiltekinn frest til að neyta forkaupsréttar að nýjum hlutum á genginu 11,6 og skyldi greitt fyrir þá innan fjögurra vikna frá ákvörðun um hækkun hlutafjárins. Hlutafjárútboð á þessum grunni, sem Íslandsbanki-FBA hf. annaðist, stóð yfir frá 18. til 22. desember 2000 og fengust áskrifendur að nýju hlutunum, en þeim var veittur frestur til að standa skil á hlutafénu til 8. janúar 2001. Meðal þeirra, sem skrifuðu sig þar fyrir nýjum hlutum, voru Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. með hluti að andvirði 401.958.780 krónur, Fjárfar ehf. að andvirði 85.758.591 króna og A að andvirði 3.786.727 krónur. Íslandsbanki-FBA hf. mun hafa fengið greiddar samtals 351.428.793 krónur af hlutafénu, sem Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. hafði skrifað sig fyrir, en ekkert af hlutafjáráskrift Fjárfars ehf. eða A. Að fenginni skilagrein frá bankanum vegna hlutafjárútboðsins voru gerðar færslur í bókhaldi Baugs hf. 13. febrúar 2001, þar sem andvirði ógreiddra hluta samkvæmt áskrift Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., Fjárfars ehf. og A var flutt af reikningslið, sem virðist hafa verið ætlaður fyrir óinnheimt hlutafé, yfir á viðskiptamannareikninga þeirra þriggja.

Af hálfu ákæruvaldsins er litið svo á að með síðastgreindum ráðstöfunum hafi umræddum þremur hluthöfum í Baugi hf. verið veitt lán, sem 5., 8. og 9. liður ákæru taka til. Um það er til þess að líta að samkvæmt fyrrnefndu ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 2/1995 eru skorður settar við því að efna áskrift við hlutafjáraukningu með öðru en staðgreiðslu peninga, en þá fyrst má afhenda hlutabréf, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Eins og málið liggur fyrir verður ekki annað séð en að ráðstafanirnar, sem 5., 8. og 9. liður ákæru snúa að, hafi verið í andstöðu við þessi lagaákvæði, en millifærsla í bókhaldi Baugs hf. á kröfuréttindum á hendur Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., Fjárfari ehf. og A af reikningslið fyrir ógreitt hlutafé yfir á viðskiptamannareikninga þeirra þriggja var til þess fallin að draga dul á að ekki hafi verið staðin rétt skil á hlutafénu. Þetta fær því á hinn bóginn ekki breytt að Baugur hf. lét ekki með framangreindum ráðstöfunum af hendi til annarra peningaupphæð, ígildi hennar eða önnur fjárverðmæti með áskilnaði um endurgreiðslu fjárhæðarinnar eða skil á verðmætunum. Þessum þremur hluthöfum var því hvorki veitt lán í áðurnefndum skilningi 2. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 til að standa skil á hlutafé sínu né lagði Baugur hf. á annan hátt fram fé í þeirra þágu í því skyni. Ráðstafanirnar, sem sakargiftir í 5., 8. og 9. lið ákæru varða, voru því ekki andstæðar síðastnefndu lagaákvæði, en ákærði er ekki borinn sökum um að hafa brotið með þeim gegn reglum laga nr. 2/1995 um greiðslu hlutafjár eða afhendingu hlutabréfa, þannig að refsing liggi við samkvæmt 2. tölulið 153. gr. laganna.

6. liður ákæru: Ákærði Jón Ásgeir er þar sakaður um að hafa brotið gegn 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 með því að hafa 18. maí 2001 látið Baug hf. veita Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., sem þá hafi verið hluthafi í félaginu, lán að fjárhæð 100.000.000 krónur. Í gögnum varðandi þennan lið ákærunnar kemur fram að Baugur hf. hafi fyrrgreindan dag millifært 100.000.000 krónur af tékkareikningi sínum inn á bankareikning Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Á grundvelli bókhaldsfylgiskjals með fyrirsögninni „staðfesting á lánveitingu“, sem gert var á skrifstofu Baugs hf., var þessi fjárhæð færð félaginu til eignar á viðskiptamannareikningi Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., en tekið var fram í skjalinu að síðarnefnda félagið ætti 15. júní 2001 að standa skil á fjárhæðinni ásamt vöxtum og svokölluðu álagi samtals að fjárhæð 1.544.444 krónur. Eftir gögnum málsins var það ekki gert.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007 mun Baugur hf. hafa í maí 2001 fengið 100.000.000 krónur að láni hjá Straumi fjárfestingabanka hf. í tengslum við ráðagerðir um kaup á hlut í nafngreindri erlendri veitingahúsakeðju, en ákærði Jón Ásgeir hefur borið að féð hafi verið látið ganga áfram til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. til að láta það taka á sig áhættu af þessum viðskiptum í þágu Baugs hf. Því er einnig haldið fram og að nokkru stutt framlögðum gögnum að Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. hafi lagt af mörkum talsvert meira fé til þátttöku í þessu verkefni, en síðan orðið að afskrifa stóran hluta fjárframlagsins og selt loks Baugi hf. hlut sinn í veitingahúsakeðjunni í febrúar 2004 fyrir 65.900.000 krónur. Þessi atvik geta þó engu breytt um að Baugur hf. lét af hendi 18. maí 2001 til hluthafa í félaginu fyrrgreinda peningaupphæð og bendir ekkert til annars en að það hafi verið gert með áskilnaði um endurgreiðslu fjárhæðarinnar. Tilgangur þessarar ráðstöfunar getur ekki skipt hér máli, enda fer fjarri að hún geti talist venjulegt viðskiptalán í merkingu 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995. Að þessu virtu verður að skoða þetta sem lán, sem bannað var að veita samkvæmt því lagaákvæði.

7. liður ákæru: Með honum er ákærði Jón Ásgeir borinn sökum um að hafa brotið gegn 2. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 með því að hafa 16. maí 2000 látið Baug hf. veita Fjárfari ehf., sem þá hafi verið hluthafi í félaginu, lán að fjárhæð 64.500.000 krónur til að fjármagna kaup á hlutabréfum í Baugi hf. að nafnverði 5.000.000 krónur.

Meðal gagna, sem varða þennan ákærulið, er samningur 16. maí 2000 milli Fjárfars ehf. og Baugs hf. um kaup fyrrnefnda félagsins á hlutabréfum í því síðarnefnda fyrir áðurgreinda fjárhæð, sem greiða átti 2. júní 2000, en óumdeilt er að sú skuldbinding var ekki efnd af kaupandanum. Af gögnum um færslu þessara viðskipta í bókhaldi Baugs hf. verður ráðið að félagið hafi með þessu selt eigið hlutafé að bókfærðu andvirði 41.500.000 krónur, en söluverðið, 64.500.000 krónur, var fært sem inneign Baugs hf. á viðskiptamannareikningi Fjárfars ehf. Með þessari ráðstöfun lét Baugur hf. hvorki af hendi peningaupphæð með áskilnaði um endurgreiðslu hennar né önnur fjárverðmæti með áskilnaði um skil á þeim, heldur seldi félagið eign sína gegn greiðslufresti á kaupverði. Slík ráðstöfun telst ekki lán í áðurgreindri merkingu 2. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995.

10. liður ákæru: Að því leyti, sem þessum lið hefur ekki á fyrri stigum verið vísað frá héraðsdómi, er ákærði Jón Ásgeir sakaður þar um að hafa brotið gegn 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 með því að hafa látið Baug hf. lána Fjárfari ehf. 50.000.000 krónur, sem færðar hafi verið 30. júní 2000 í bókhaldi Baugs hf. sem inneign félagsins á viðskiptamannareikningi Fjárfars ehf., en á þeim tíma hafi síðastnefnt félag verið hluthafi í Baugi hf.

Í gögnum, sem snúa að þessum lið í ákæru, er meðal annars samningur milli Baugs hf. og Fjárfars ehf. 16. júní 2000, þar sem síðarnefnda félagið keypti af því fyrrnefnda hlutabréf í Baugi.net ehf. að nafnverði 2.500.000 krónur fyrir 50.000.000 krónur. Kaupverðið átti að greiða 15. september 2000 og Fjárfar ehf. um leið að öðlast „full réttindi sem hluthafi“ í Baugi.net ehf., en fyrir liggur að ráðstöfun þessi var færð í bókhaldi Baugs hf. á þann hátt, sem lýst er í ákæru og áður er getið. Ekki varð af greiðslu kaupverðsins og voru viðskipti þessi bakfærð í bókhaldi Baugs hf. 21. febrúar 2002. Með þeirri ráðstöfun, sem hér hefur verið lýst, lét Baugur hf. hvorki af hendi peningaupphæð með áskilnaði um endurgreiðslu hennar né önnur fjárverðmæti með áskilnaði um skil á þeim, heldur seldi félagið hlut sinn í öðru félagi gegn greiðslufresti á kaupverði. Slík ráðstöfun telst ekki lán í áðurgreindri merkingu 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995.

Af þeim ástæðum, sem nú hafa verið greindar, verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms frá 28. júní 2007 um sýknu ákærða Jóns Ásgeirs af þeim sökum, sem bornar eru á hann í 4., 5., 7., 8. og 9. lið ákæru, svo og í varakröfu við 10. lið hennar.

VII.

Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að þær ráðstafanir í starfsemi Baugs hf., sem um ræðir í 2., 3. og 6. lið ákæru, hafi verið óheimilar samkvæmt 2. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 að því er varðar fyrstnefnda liðinn, en samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar í hinum tilvikunum tveimur. Þótt ákærði Jón Ásgeir hafi verið forstjóri Baugs hf. þegar þessar ráðstafanir voru gerðar ber hann ekki sjálfkrafa út af þeirri stöðu sinni refsiábyrgð á þeim vegna ákvæða 68. gr. laga nr. 2/1995, enda er slík ábyrgð háð því skilyrði samkvæmt 2. tölulið 153. gr. þeirra að sá, sem sóttur er til sakar fyrir þær, hafi með þeim brotið vísvitandi gegn 104. gr. laganna. Ákærði Jón Ásgeir hefur neitað sök samkvæmt þessum ákæruliðum. Í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007 var hvorki tekin afstaða til þess hvort sannaður hafi verið sá þáttur í sakargiftum á hendur ákærða Jóni Ásgeiri í þessum liðum ákæru að hann hafi látið veita þau lán, sem þar er lýst, né hvort sýnt hafi verið fram á að huglægum refsiskilyrðum 2. töluliðar 153. gr. laga nr. 2/1995 væri fullnægt, enda var ákærði sýknaður að þessu leyti í héraði þegar með þeim rökum að í því ákvæði og 104. gr. sömu laga væri ekki að finna nægilega skýra refsiheimild. Samkvæmt áðursögðu er ekki fallist á þau rök og getur niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða Jóns Ásgeirs af sakargiftum samkvæmt 2., 3. og 6. lið ákæru því ekki staðist á þeim grunni. Eftir meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa meðferð máls, sem býr meðal annars að baki 48. gr. og 4. mgr. og 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, getur Hæstiréttur ekki lagt mat á sönnun fyrir sök ákærða, sem héraðsdómur hefur enga afstöðu tekið til, enda er markmið áfrýjunar um efni máls að leita endurskoðunar á niðurstöðum héraðsdóms, sbr. 147. gr. sömu laga.

Til þess verður á hinn bóginn að líta að samkvæmt upphafsorðum 153. gr. laga nr. 2/1995 varða brot gegn 104. gr. þeirra, sem ákærði Jón Ásgeir er borinn sökum um, sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Lánið, sem Baugur hf. veitti og um ræðir í 2. lið ákæru, var að fullu greitt meira en tveimur árum áður en lögregla hóf rannsókn þessa máls, en ekki liggur annað fyrir en að lánsfé, sem 3. og 6. liður ákæru varða, hafi verið endurgreitt um þær mundir, sem rannsókn fór í hönd. Verður við það að miða að tjón hafi ekki hlotist af þeim ráðstöfunum, sem hér um ræðir, og hefur enginn svo að séð verði borið fram kæru eða einkaréttarlega kröfu vegna þessarar háttsemi. Þessu til viðbótar verður ekki horft fram hjá því að af hálfu ákæruvaldsins hefur ekki verið hnekkt áðurgreindum skýringum ákærða varðandi þessa þrjá liði ákærunnar að því leyti, sem í þeim felst að hann hafi ekki sjálfur notið ávinnings af þessum ráðstöfunum. Að því virtu verður að leggja til grundvallar að refsing, sem unnið væri til með þessum ætluðu brotum, þótt ákærði Jón Ásgeir yrði sakfelldur fyrir þau öll, færi ekki fram úr sektum. Þegar svo stendur á fyrnist sök á tveimur árum, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Lán, sem 2. og 3. liður ákæru varða, voru veitt 20. ágúst og 11. október 1999 og voru því liðin meira en tvö ár frá þeim tíma þegar lögreglurannsókn hófst í ágúst 2002. Lán, sem 6. liður ákæru snýr að, var veitt 18. maí 2001. Ekki verður annað séð af gögnum málsins en að spurning varðandi þá ráðstöfun hafi fyrst verið borin upp við ákærða Jón Ásgeir við skýrslutöku hjá lögreglu 11. apríl 2003, þar sem tugir annarra ráðstafana voru jafnframt tilefni fyrirspurna, en síðan ekki aftur fyrr en við skýrslutöku 9. apríl 2005, þar sem nánar var um þetta spurt og sakir þá fyrst bornar beinlínis á hann um að hafa gerst sekur um refsivert brot með þessari ráðstöfun. Samkvæmt 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 2. málslið 5. mgr. sömu lagagreinar, verður að miða við að fyrningarfrestur sakar vegna þessa ætlaða brots hafi ekki verið rofinn fyrr en 9. apríl 2005, en þá voru liðin meira en tvö ár frá því að lán þetta var veitt. Að þessu virtu getur ekki staðist áskilnað 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta meðferð sakamáls innan hæfilegs tíma að ómerkja niðurstöðu um 2., 3. og 6. lið ákæru í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007, svo sem ella hefði orðið að gera, til þess eins að fá leyst úr um sönnun sakargifta í þeim á hendur ákærða Jóni Ásgeiri og sýkna hann síðan að því búnu vegna fyrningar saka ef sannaðar væru. Af þessum ástæðum verður að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ákærða af sakargiftum í þessum liðum ákæru.

VIII.

Í 11. til 17. lið ákæru eru ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva gefin að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa í sjö nánar tilgreindum tilvikum látið rangfæra bókhald Baugs hf. Í 15. lið ákæru er ákærði Jón Gerald sakaður um að hafa veitt öðrum ákærðu aðstoð í slíku broti og stuðlað að því. Auk þessa er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök í 11. til 16. lið ákærunnar rangfærsla skjala og brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa látið senda frá Baugi hf. nánar tilteknar opinberar tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands, sem hafi haft að geyma upplýsingar um hag félagsins, en þær hafi verið reistar á reikningsskilum, sem hafi verið rangfærð með fyrrgreindri háttsemi.

Eins og áður hefur komið fram voru ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi báðir sýknaðir með hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 af sökum í 11., 12. og 13. lið ákærunnar. Ákærði Tryggvi var á hinn bóginn sakfelldur samkvæmt 14., 16. og 17. lið ákærunnar en ákærði Jón Ásgeir sýknaður af sökum þar. Þeir voru báðir sakfelldir fyrir brot, sem borin voru á þá í 15. lið. Með héraðsdóminum 28. júní 2007 var ákærði Jón Gerald jafnframt sakfelldur fyrir brot, sem honum var gefið að sök í síðastnefndum lið ákærunnar. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist að ákvæði héraðsdómanna um sakfellingu ákærðu verði staðfest, en jafnframt verði ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi sakfelldir fyrir brot samkvæmt öllum þessum liðum ákærunnar, sem þeir voru dæmdir sýknir af í héraði.

Um síðastnefnda þáttinn í kröfugerð fyrir Hæstarétti hefur af hálfu ákæruvaldsins verið vísað til þess að fjölmörg skjöl, sem lögð hafi verið fram í málinu, sýni að þess mati án vafa fram á sök ákærðu, en þau gögn fái að auki stuðning í munnlegum skýrslum, sem vitni hafi gefið fyrir héraðsdómi. Úrslit málsins hljóti einkum að ráðast af heildarmati á sönnunargildi skjala, sem fái stoð í framburði vitna, en af þessum sökum sé Hæstarétti fært að endurskoða sönnunarmat héraðsdóms í heild. Fyrir Hæstarétti hafa af hálfu ákæruvaldsins verið gerðar með nokkrum rétti athugasemdir við að ekki sé greint í hinum áfrýjuðu dómum svo að teljandi sé frá skjölum, sem lögð hafa verið fram í málinu, eða framburði vitna fyrir héraðsdómi, en þessi gögn málsins eru gífurleg að umfangi. Þetta breytir því ekki að héraðsdómur hefur í hinum áfrýjuðu dómum tekið nægilega skýra afstöðu til þess hvað hann telji sannað í málinu varðandi 11. til 17. lið ákæru, en óhjákvæmilegt er að líta svo á að við mat á þessu hafi dómendur ekki aðeins litið til þeirra gagna, sem sérstaklega er vísað til í dómunum, heldur einnig gætt að vægi annarra sönnunargagna, bæði skjala og munnlegs framburðar. Til þess verður einnig að líta að munnlegar skýrslur ákærðu og vitna fyrir héraðsdómi snerust að talsverðu leyti um skjöl, sem sakflytjendur lögðu fyrir skýrslugjafa. Það, sem þannig kom fram við munnlega sönnunarfærslu í héraði, getur ekki annað en að hafa sett mark sitt á mat á sönnunargildi skjalanna og efni þeirra hlýtur um leið að hafa skipt máli við mat dómsins á sönnunargildi munnlegs framburðar vitna, sem tjáðu sig um þau. Að þessu virtu er engin leið að gera hér þann mun á sönnun á grundvelli framlagðra skjala annars vegar og munnlegra skýrslna hins vegar, sem áðurgreindar röksemdir af hálfu ákæruvaldsins um heimildir Hæstaréttar til að endurskoða sönnunarmat héraðsdóms eru reistar á. Verður því við úrlausn málsins svo sem endranær að beita ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 og eftir atvikum 5. mgr. sömu lagagreinar með tilliti til þess.

IX.

Að því virtu, sem segir í VIII. kafla hér að framan, verða nú teknar til úrlausnar sakir á hendur ákærðu í 11. til 17. lið ákærunnar.

11. liður ákæru: Þar er ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., látið búa til gögn, sem ekki áttu stoð í viðskiptum við aðra, og hagað bókhaldinu þannig að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna þegar ákærði Tryggvi, með vitund og vilja ákærða Jóns Ásgeirs, hafi látið færa félaginu til tekna 25.000.000 krónur 30. apríl 2000 á reikningslið fyrir svokallaðar aðrar fjármunatekjur og sömu fjárhæð til eignar á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf. Þá er ákærða Jóni Ásgeiri jafnframt gefið að sök að hafa látið senda frá Baugi hf. opinberar tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands 28. ágúst 2000 og 19. mars 2001, sem honum hafi verið ljóst að væru rangar vegna framangreindra bókhaldsfærslna, og skýrt með því vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum félagsins þannig að áhrif gæti haft á sölu eða söluverð hluta í því.

Samkvæmt gögnum málsins varðandi þennan lið ákærunnar voru færslur gerðar í bókhaldi Baugs hf. eins og að framan er lýst, en það var gert á grundvelli fylgiskjals, sem fjármálastjóri félagsins staðfesti í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi að hafa ritað með eigin hendi. Meginmál bókhaldsfylgiskjalsins var svohljóðandi: „Tekjur Baugs v/ábyrgðar á hlutabréfum í UVS. Heildartekjur 50 mills. 25 tekjufært í apríl samkv. TJ.“ Í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 er greint frá því hvernig ákærði Tryggvi skýrði fyrir dómi atvik að baki þessari bókhaldsfærslu, en hann bar því við að hafa í samtali við fjármálastjórann getið þess í flýti að Baugur hf. hafi keypt hlutabréf í Urði Verðandi Skuld hf., sem færa ætti á vörslureikning hjá Kaupþingi hf. í Luxembourg. Jafnframt hafi hann sagt að færa ætti upp verðgildi eigin hlutabréfa Baugs hf., sem einnig hafi verið þar í vörslu, um 25.000.000 krónur vegna hækkunar á markaðsverði. Texti bókhaldsfylgiskjalsins hafi orðið á framangreindan veg vegna misskilnings fjármálastjórans, en efnislega hafi færslurnar í bókhaldinu þó allt að einu verið réttar.

Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að með framburði ákærða Tryggva og vitna væri sannað að fyrrgreint bókhaldsfylgiskjal væri efnislega rangt, en ekki væri útilokað að skýringar hans um misskilning að baki því væru réttar. Þá taldi héraðsdómur, sem meðal annars var skipuðum sérfróðum manni um reikningshald, að ekki yrði byggt á því í málinu að færsla um hækkun á andvirði eigin hluta Baugs hf. um 25.000.000 krónur hafi verið óheimil. Samkvæmt þessu þóttu sakir á hendur ákærðu í þessum lið ákærunnar ósannaðar. Hvorki eru efni til að hreyfa við þessu mati héraðsdóms á sönnunargögnum í málinu né skýringu hans á ákvæðum áðurgildandi laga nr. 144/1994 og stjórnvaldsfyrirmælum, sem að þessu snúa. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest um sýknu ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva af sakargiftum í þessum lið ákærunnar.

12. liður ákæru: Ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi eru hér bornir sökum um að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf. og hagað því með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna þegar ákærði Tryggvi, með vitund og vilja ákærða Jóns Ásgeirs, hafi látið færa félaginu til tekna 13.045.954 krónur 30. júní 2000 á reikningslið með heitinu „tekjur utan samstæðu án vsk“ og til eignar sömu fjárhæð á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf. Þá er ákærða Jóni Ásgeiri jafnframt gefið að sök að hafa látið senda frá Baugi hf. opinberar tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands 28. ágúst 2000 og 19. mars 2001, sem honum hafi verið ljóst að væru rangar vegna framangreindra bókhaldsfærslna, og skýrt með því vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum félagsins þannig að áhrif gæti haft á sölu eða söluverð hluta í því.

Af gögnum málsins, sem snúa að þessum ákærulið, er sýnt að framangreind lýsing á færslum er í samræmi við bókhald Baugs hf., en að baki þeim mun ekki hafa verið eiginlegt bókhaldsfylgiskjal, heldur aðeins skýring í færslubók hjá félaginu, þar sem sagði að um væri að ræða „þóknun vegna hlutabréfa“. Í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 eru raktar skýringar, sem ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi gáfu fyrir héraðsdómi á tilefni þessarar færslu, en hana töldu þeir mega rekja til þess að við stofnun Baugs hf. á árinu 1998 hafi Kaupþing hf. og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. haft til sölu stóran hlut í félaginu. Forráðamenn Baugs hf. hafi haft milligöngu um kaup nafngreinds erlends félags 28. október 1998 á hlutum af þessum tveimur lánastofnunum fyrir 1.660.000.000 krónur og talið að Baugur hf. ætti tilkall til þóknunar úr þeirra hendi fyrir það. Hafi Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. gert slíka þóknun upp fyrir sitt leyti, en Kaupþing hf. á hinn bóginn ekki, þótt krafa Baugs hf. um hana hafi verið samþykkt. Framangreind bókhaldsfærsla hafi verið gerð um þá kröfu.

Í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 var komist að þeirri niðurstöðu að með framburði vitna og skýrslum ákærðu væri sannað að þeir síðastnefndu hafi talið Baug hf. eiga framangreinda kröfu á hendur Kaupþingi hf., krafan hafi í reynd verið til og hún hafi verið gerð upp síðar í viðskiptum félaganna tveggja. Af þeim sökum hafi ákærðu ekki haft ásetning til að rangfæra bókhald Baugs hf. eins og þeim væri gefið að sök. Ekki verður hreyft við þessu sönnunarmati héraðsdóms og verður því staðfest niðurstaða hans um sýknu ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva af sökum samkvæmt þessum ákærulið.

13. liður ákæru: Í honum eru ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi sakaðir um að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., látið búa til gögn, sem ekki áttu stoð í viðskiptum við aðra, og hagað bókhaldinu þannig að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna þegar þeir létu færa félaginu til tekna samtals 40.000.000 krónur 31. desember 2000 á reikningslið vegna rekstrar verslana með heitinu 10-11 og til eignar sömu fjárhæð á viðskiptamannareikningi Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Þá er ákærða Jóni Ásgeiri jafnframt gefið að sök að hafa látið senda frá Baugi hf. opinbera tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands 19. mars 2001, sem honum hafi verið ljóst að væri röng vegna framangreindra bókhaldsfærslna, og skýrt með því vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum félagsins þannig að áhrif gæti haft á sölu eða söluverð hluta í því.

Samkvæmt gögnum málsins varðandi þennan lið ákærunnar voru 1. febrúar 2001 gefnir út í nafni 10-11 tveir reikningar á hendur Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., þar sem tiltekið var að „bókunardags.“ væri 31. desember 2000. Annar reikningurinn hljóðaði á 30.000.000 krónur vegna þátttöku í auglýsingaherferð, en hinn á 10.000.000 krónur vegna þátttöku í stjórnunarkostnaði. Í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 er greint frá þeim skýringum ákærða Jóns Ásgeirs á þessum tveimur reikningum að hann hafi lagt mikið kapp á að Baugur hf. keypti á árinu 1999 verslunarkeðju með heitinu 10-11, en komið hafi svo í ljós að rekstur hennar gengi ekki sem skyldi. Með því að hann hafi talið sig bera ábyrgð á þessum kaupum hafi hann lagt til við aðra eigendur Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. að það félag léti af hendi framlag til þessara verslana vegna kostnaðar af auglýsingum og stjórnun og hafi það verið samþykkt. Fyrrgreindir reikningar hafi verið gefnir út af því tilefni og færðir í bækur Baugs hf. Í héraðsdómi var talið að þessar skýringar fengju stoð í framburði vitna. Þótti því ósannað að viðskiptin, sem hér um ræðir, hafi ekki verið gerð og færslur um þau í bókhaldi Baugs hf. væru rangar. Ekki verður hreyft við þessu sönnunarmati héraðsdóms og verður því staðfest niðurstaða hans um sýknu ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva af sakargiftum í þessum ákærulið.

14. liður ákæru: Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er í þessum lið gefið að sök að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf. og hagað því þannig að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna með þremur röngum og tilhæfulausum færslum. Í fyrsta lagi með því að ákærði Tryggvi hafi með vitund og vilja ákærða Jóns Ásgeirs látið færa lækkun á eign Baugs hf. í erlendum hlutabréfum 31. desember 2000 um 167.399.464 krónur, hagnað félagsins um 164.610.536 krónur vegna sölu hlutabréfa og inneign þess á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf. að fjárhæð 332.010.000 krónur, en með þessu hafi átt að líta svo út að Baugur hf. hafi selt Kaupþingi hf. fyrir síðastgreinda fjárhæð hlutabréf í Arcadia Group Plc. að nafnverði 3.100.000 sterlingspund. Í öðru lagi með því að ákærði Tryggvi hafi látið færa til lækkunar 2. febrúar 2001 á inneign Baugs hf. á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf. 332.010.000 krónur og sömu fjárhæð til eignar á bankareikningi hjá Íslandsbanka hf., en með þessu hafi átt að líta svo út að Kaupþing hf. hafi umræddan dag greitt kaupverð hlutabréfanna í Arcadia Group Plc. og andvirðið runnið inn á bankareikning Baugs hf. Í þriðja lagi með því að ákærði Tryggvi hafi látið færa 11. maí 2001 til skuldar við Kaupþing hf. á viðskiptamannareikningi 544.050.000 krónur og til eignar sömu fjárhæð sem stofnframlag Baugs hf. til erlends hlutafélags, A. Holding S.A., en með þessu hafi átt að líta svo út að Baugur hf. hafi keypt til baka af Kaupþingi hf. áðurnefnd hlutabréf í Arcadia Group Plc. og látið þau af hendi sem framlag til nýs erlends félags. Í reynd hafi Baugur hf. ekki selt þessi hlutabréf í lok ársins 2000, heldur sett þau á vörslureikning hjá Kaupþingi hf. í Luxembourg, Baugur hf. hafi ekki fengið söluverð þessara hlutabréfa greitt frá Kaupþingi hf., heldur tekið þar fé að láni, og Baugur hf. hafi ekki keypt hlutabréfin á ný, heldur tekið þau aftur af erlenda vörslureikningnum, en á hinn bóginn hafi verið rétt að hlutabréfin hafi orðið stofnframlag Baugs hf. til félagsins A. Holding S.A. Með þessu er talið af hálfu ákæruvaldsins að í bókhaldi Baugs hf. hafi verið myndaður hagnaður á árinu 2000 að fjárhæð 164.610.536 krónur og jafnframt skuld á árinu 2001 að fjárhæð 212.040.000 krónur, en hvorugt hafi átt við rök að styðjast. Í tengslum við þetta er ákærða Jóni Ásgeiri einnig gefið að sök að hafa látið senda frá Baugi hf. opinbera tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands 19. mars 2001, sem honum hafi verið ljóst að væri röng vegna þess að ársreikningur, sem tilkynningin var studd við, hafi borið með sér að félagið ætti engin hlutabréf í Arcadia Group Plc. Með þessu hafi hann skýrt vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. þannig að áhrif gæti haft á sölu eða söluverð hluta í því.

Í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 eru skýrð frekar tiltekin atriði varðandi framangreindar bókhaldsfærslur. Þá er greint þar frá leiðréttingu þeirra í bókhaldi Baugs hf. á árinu 2003 og talið að með henni hafi réttilega komið fram viðbótarhagnaður félagsins að fjárhæð 212.040.000 krónur, sem myndast hafi á árinu 2001 við ráðstöfun hlutabréfanna í Arcadia Group Plc. til A. Holding S.A., en þannig hafi tekjufærslu á hagnaðinum í reynd verið frestað. Í dóminum eru í meginatriðum raktar skýringar ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva á viðskiptum Baugs hf. með hlutabréf í Arcadia Group Plc. og bókhaldsfærslurnar, sem þessi liður ákærunnar snýr að, svo og framburður vitna og skjöl, sem þetta varða. Á þeim grunni komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að umrædd hlutabréf hafi ekki verið seld Kaupþingi hf. í lok árs 2000, heldur sett í vörslu á reikningi hjá því félagi í Luxembourg, að Kaupþing hf. hafi ekki greitt Baugi hf. kaupverð hlutabréfanna í febrúar 2001, heldur hafi Baugur hf. fengið sömu fjárhæð lánaða hjá félaginu ytra, og að Baugur hf. hafi ekki keypt hlutabréfin aftur af Kaupþingi hf. í maí 2001. Færslur um þetta í bókhaldi Baugs hf. hafi því verið rangar og fallnar til að gefa ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Var talið sannað að ákærði Tryggvi hafi staðið að þessum færslum, en á hinn bóginn ósannað að ákærði Jón Ásgeir hafi átt þar hlut að máli á saknæman hátt. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærði Tryggvi hafi með þessu gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Verður að una við mat héraðsdóms á sönnunargögnum um sakargiftir á hendur ákærða Jóni Ásgeiri um þátt í þessum brotum, enda eru ekki næg efni til að hreyfa við því samkvæmt 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Með því að fallast verður á röksemdir hins áfrýjaða dóms frá 3. maí 2007 um aðrar sakir, sem ákærði Jón Ásgeir er hér borinn, verður staðfest niðurstaða dómsins um sýknu hans af sakargiftum samkvæmt þessum ákærulið.

15. liður ákæru: Í honum er ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn, sem ekki áttu stoð í viðskiptum við aðra, og hagað bókhaldinu þannig að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna með því að láta færa félaginu til eignar á biðreikningi 61.915.000 krónur og sömu fjárhæð til tekna á reikningslið fyrir svokallaðar tekjur utan samstæðu, en þetta hafi verið gert á grundvelli rangs og tilhæfulauss afsláttarreiknings 30. ágúst 2001 frá Nordica Inc. í Miami í Bandaríkunum að fjárhæð 589.890 bandaríkjadalir. Ákærða Jóni Gerald er í þessum lið ákærunnar gefið að sök að hafa aðstoðað aðra ákærðu við að rangfæra bókhald Baugs hf. og stuðlað að framangreindu broti þeirra með því að gera þennan reikning að tilhlutan ákærða Jóns Ásgeirs og eftir fyrirsögn ákærða Tryggva. Þá er ákærði Jón Ásgeir jafnframt borinn sökum um að hafa látið senda frá Baugi hf. opinbera tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands 3. september 2001, sem honum hafi verið ljóst að væri röng vegna fyrrnefndra bókhaldsfærslna, og skýrt með því vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum félagsins þannig að áhrif gæti haft á sölu eða söluverð hluta í því.

Samkvæmt gögnum málsins varðandi þennan lið ákærunnar gaf ákærði Jón Gerald út svokallaðan kreditreikning í nafni Nordica Inc. 30. ágúst 2001 til Baugs hf. fyrir fyrrgreindri fjárhæð í bandaríkjadölum, en eftir texta reikningsins fól hann í sér afslátt af vörukaupum og endurgreiðslu vegna galla eða vöntunar í vörusendingum til Aðfanga hf. frá 1. júlí 2000 til 30. júní 2001. Við gerð árshlutareiknings fyrir Baug hf. vegna tímabilsins frá 1. janúar til 30. júní 2001 færði starfsmaður hjá KPMG Endurskoðun hf. fjárhæðina, sem greindi í reikningi Nordica Inc., ásamt þeirri fjárhæð, sem lýst er í tengslum við lið 16 í ákæru, í einu lagi í bókhald Baugs hf. í sérstökum lið á eyðublaði fyrir lokafærslur með svofelldri skýringu: „Kreditreikn. frá erl. birgjum skv. JÁJ (sjá ljósrit af reikn. dags. 30.6. færa hjá aðalskrifstofu 30.6. þegar greiðsla berst bakfæra þá og færa hjá Aðföngum 61.915.000 og 46.679.000 hjá Bónus)“. Óumdeilt er að þessi reikningur var aldrei innheimtur hjá Nordica Inc. eða honum beitt til skuldajafnaðar við síðari reikninga félagsins á hendur Baugi hf. vegna vörukaupa. Fjárhæð hans var bakfærð í bókhaldi síðarnefnda félagsins í áföngum frá árslokum 2001 fram á árið 2003.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 hefur ákærði Jón Ásgeir borið því við að hann hafi gert samning við ákærða Jón Gerald vorið 2001 um að Nordica Inc. myndi veita Baugi hf. afslátt með fyrrnefndri fjárhæð vegna uppsöfnunar á óseldum vörubirgðum allt frá því að viðskipti hófust 1992 milli fyrrnefnda félagsins og Bónus sf., sem Baugur hf. hafi síðar tekið við. Eftir að þetta hafi verið bundið fastmælum hafi komið í hlut ákærða Tryggva að ljúka málinu, þar á meðal að ákveða texta reikningsins, sem gefinn yrði út af þessu tilefni. Þegar til átti að taka hafi Nordica Inc. ekki getað greitt reikninginn og hafi því fjárhæð hans verið gjaldfærð í bókhaldi Baugs hf. Ákærði Tryggvi bar á sama veg um aðdragandann að gerð reikningsins, en hann kvaðst hafa komið honum í hendur endurskoðanda, sem hafi gert fyrrnefndan árshlutareikning. Ákærði Jón Gerald lýsti því á hinn bóginn fyrir dómi að ákærði Tryggvi hafi símleiðis borið upp ósk 30. ágúst 2001 um að hann gerði svonefndan kreditreikning í nafni Nordica Inc. með því efni, sem áður greinir. Hann hafi orðið við því og sent reikninginn samdægurs í símbréfi. Reikningurinn hafi ekki átt stoð í viðskiptum félaganna og verið tilhæfulaus, en ekki hafi verið rætt milli þeirra ákærða Tryggva til hvers nota ætti reikninginn. Hann hafi aldrei verið færður í bókhald Nordica Inc., heldur legið í skápi á skrifstofu félagsins innan um önnur skjöl, þar sem íslenskir lögreglumenn hafi fundið hann við leit að gögnum við rannsókn málsins.

Í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 var komist að þeirri niðurstöðu að sannað væri gegn neitun ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva að reikningur Nordica Inc. hafi verið rangur og tilhæfulaus og að þessum ákærðu hafi báðum verið það ljóst. Þessu til stuðnings var vísað sérstakstaklega til skýrslu ákærða Jóns Gerald, sem fengi stuðning í vitnisburði nafngreinds fyrrverandi starfsmanns Nordica Inc., fundarstaðar reikningsins á skrifstofu þess félags og þess að engin samtímagögn frá Baugi hf. styddu staðhæfingar ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva um að safnast hafi upp óseldar vörur frá Nordica Inc. Um þennan rökstuðning er þess að gæta að ekki verður séð hvernig sönnun fyrir sök ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva verði sérstaklega studd við það hvernig umræddur reikningur hafi fundist á skrifstofu Nordica Inc., en með þeirri athugasemd verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þetta staðfest með vísan til forsendna hans.

Í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007 var ákærði Jón Gerald jafnframt sakfelldur fyrir brot, sem hann er borinn sökum um í 15. lið ákærunnar. Í þeim efnum vísaði dómurinn einkum til þess að ákærði Jón Gerald hafi viðurkennt að hafa gert reikninginn, sem áður er getið, að ósk ákærða Tryggva og sent til hans í símbréfi, þótt engin viðskipti hafi legið þar að baki, en reikningnum hafi þegar að þessu gerðu verið eytt úr tölvufærðu bókhaldskerfi Nordica Inc. Um þá frásögn ákærða Jóns Gerald, sem héraðsdómur hefur stuðst hér við, er þess að gæta að skýrslur voru teknar af honum sem vitni hjá lögreglu, svo og fyrir dómi við meðferð máls í héraði, sem höfðað var með ákæru ríkislögreglustjóra 1. júlí 2005, allt þar til hann gaf skýrslu hjá lögreglu 22. febrúar 2006, þar sem hann hafði stöðu sakaðs manns. Í síðastnefndri lögregluskýrslu og við skýrslugjöf fyrir dómi í máli þessu hvikaði ákærði Jón Gerald á hinn bóginn ekki frá fyrrgreindri frásögn og eru því ekki tormerki á að leggja hana til grundvallar. Með þessari athugasemd verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms frá 28. júní 2007 um sakfellingu ákærða Jóns Gerald, enda hlaut honum að hafa verið ljóst að reikningurinn hafi verið fenginn frá Nordica Inc. til að nota í bókhaldi Baugs hf.

Sem fyrr segir er ákærði Jón Ásgeir jafnframt borinn sökum í 15. lið ákæru fyrir að hafa látið senda frá Baugi hf. opinbera tilkynningu 3. september 2001 til Verðbréfaþings Íslands, en hún hafi verið reist á áðurnefndum reikningsskilum, þar sem gætt hafi áhrifa rangfærslu, sem rakin verði til reiknings Nordica Inc. 30. ágúst sama ár. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að tilkynning, sem vísað er til í þessu sambandi, liggi ekki fyrir, heldur aðeins texti, sem birtur hafi verið á vefsíðu Verðbréfaþings Íslands, en málflutningur af hálfu ákæruvaldsins verður ekki skilinn svo að því sé haldið fram að sá texti hafi að geyma orðrétt efni ætlaðrar tilkynningar. Fallast verður á með ákærða Jóni Ásgeiri að ekki sé fært að sakfella hann fyrir efni tilkynningar, sem ekki hefur verið lögð fram í málinu. Hann er því sýknaður af sakargiftum í 15. lið ákærunnar að þessu leyti.

Framangreind brot, sem ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi eru sakfelldir fyrir, varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994, en líta verður svo á að tilvísun í ákæru til 1., sbr. 3. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga og 153. gr. og 1. mgr. 154. gr. laga nr. 2/1995 varðandi sakargiftir á hendur ákærða Jóni Ásgeiri í þessum ákærulið hafi varðað ætlað brot, sem hann er sýknaður af sökum um samkvæmt áðursögðu. Brot ákærða Jóns Gerald varðar við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994.

16. liður ákæru: Í þessum lið er ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn, sem ekki áttu stoð í viðskiptum við aðra, og hagað bókhaldinu þannig að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna með því að hafa látið færa félaginu til eignar á biðreikningi 46.679.000 krónur og sömu fjárhæð til tekna á reikningslið fyrir svokallaðar tekjur utan samstæðu, en þetta hafi verið gert á grundvelli yfirlýsingar 30. júní 2001 frá félaginu Z í Færeyjum með fyrirsögninni „Credit Invoice“, sem hafi hljóðað á 3.900.000 danskar krónur. Ákærði Jón Ásgeir er einnig borinn sökum um að hafa látið senda frá Baugi hf. opinbera tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands 3. september 2001, sem honum hafi verið ljóst að væri röng vegna framangreindra bókhaldsfærslna, og skýrt með því vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum félagsins þannig að áhrif gæti haft á sölu eða söluverð hluta í því.

Meðal gagna í málinu varðandi þennan ákærulið er yfirlýsingin frá Z, sem um ræðir í ákæru. Yfirlýsingunni var beint til Baugs hf. Að frátalinni fyrirsögn skjalsins var það ekki að efni til svokallaður kreditreikningur, en í yfirlýsingunni sagði að staðfest væri að hlutdeild Bónus á Íslandi í markaðsstuðningi frá Dagrofa 1. júlí 2000 til 30. júní 2001 næmi 3.900.000 dönskum krónum. Dagrofa mun vera heildsala í Danmörku, en Z mun standa að smásöluverslun í Færeyjum og vera að helmingi í eigu Baugs hf. Fjárhæðin, sem greindi í yfirlýsingunni, var færð í bókhald Baugs hf. í einu lagi með fjárhæð reikningsins frá Nordica Inc., sem um ræðir í 15. lið ákæru, en þetta var sem fyrr segir gert í lokafærslum endurskoðanda í tengslum við gerð árshlutareiknings fyrir Baug hf. vegna tímabilsins frá 1. janúar til 30. júní 2001. Áður er getið skýringartexta, sem fylgdi þessum færslum. Færslurnar á grundvelli yfirlýsingar Z voru bakfærðar í bókhaldi Baugs hf. í árslok 2001.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 lýsti ákærði Tryggvi því í skýrslu fyrir héraðsdómi að hann hafi af tilteknum ástæðum staðið í misskilningi um að Baugur hf. ætti fyrrnefnda fjárhæð ógreidda hjá Z og hafi hann því kallað eftir yfirlýsingu því til staðfestingar. Í dóminum er jafnframt greint frá vitnisburði framkvæmdastjóra erlenda félagsins, sem ritaði undir yfirlýsinguna, en hann kvaðst hafa gert hana samkvæmt beiðni ákærða Tryggva og hafi hún hvorki tengst viðskiptum milli félaganna né verið færð í bókhaldi Z. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem reistar eru á framangreindu, verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða Tryggva fyrir brot samkvæmt 16. lið ákæru, sem þar er réttilega heimfært til 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994, en ekkert hald er í þeirri málsvörn hans að ekki eigi að meta honum þessa ráðstöfun til sakar í ljósi þess að Baugur hf. hafi á umræddum tíma átt í vændum afslætti frá öðrum viðskiptamönnum, sem hafi numið hærri fjárhæð en hafi ekki verið bókfærðir. Héraðsdómur komst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að umræddar bókhaldsfærslur hafi verið gerðar með vitund og vilja ákærða Jóns Ásgeirs. Ekki eru skilyrði til annars en að una við það mat héraðsdóms á sönnunargögnum um sakargiftir á hendur honum. Með því að fallast verður á röksemdir hins áfrýjaða dóms frá 3. maí 2007 um aðrar sakir, sem ákærði Jón Ásgeir er hér borinn, verður staðfest niðurstaða dómsins um sýknu hans samkvæmt þessum ákærulið.

17. liður ákæru: Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er í þessum lið gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að sá síðarnefndi hafi með vitund og vilja þess fyrrnefnda látið gera rangar og tilhæfulausar færslur um viðskipti og notkun fjármuna í bókhaldi Baugs hf. þegar þar var færð sala á eigin hlutabréfum félagsins 30. júní 1999 að nafnverði 40.000.000 krónur en bókfærðu verði 330.764.000 krónur og jafnframt inneign, sem nam síðargreindu fjárhæðinni, á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf. Í raun hafi Baugur hf. ekki selt þessi hlutabréf, heldur flutt þau á vörslureikning hjá Kaupþingi hf. í Luxembourg, og hafi þau því áfram verið í eigu Baugs hf. Ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi hafi að nokkru ráðstafað þessum hlutabréfum eða andvirði þeirra til að greiða ýmsar skuldbindingar félagsins, þar á meðal við nokkra af æðstu stjórnendum þess, en hlutabréfin hafi verið flutt á vörslureikninginn til að dylja þessar ráðstafanir. Með framangreindum færslum hafi verið mynduð í bókhaldi Baugs hf. tilhæfulaus skuld Kaupþings hf. við félagið.

Samkvæmt gögnum málsins, sem varða þennan lið ákæru, stofnaði ákærði Tryggvi áðurnefndan vörslureikning Baugs hf. hjá Kaupþingi hf. í Luxembourg 14. október 1998. Baugur hf. tók síðan lán 15. apríl 1999 hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og ráðstafaði fénu, sem að frádregnu lántökugjaldi nam 413.455.006 krónum, til að kaupa hlutabréf í Baugi hf. af bankanum að nafnverði 50.000.000 krónur. Í bókum félagsins virðast þessi hlutabréf hafa verið færð sama dag á sérstakan biðreikning. Sá biðreikningur virðist hafa verið lagður af í bókhaldi Baugs hf. 30. júní 1999 þegar færð var til lækkunar á honum sala hlutabréfa til Kaupþings hf. fyrir 330.764.000 krónur og var sú fjárhæð um leið færð sem inneign fyrrnefnda félagsins á viðskiptamannareikningi þess síðarnefnda, en afgangur fjárhæðarinnar á biðreikningnum, 82.691.006 krónur, var fluttur á bókhaldsreikning fyrir eigið hlutafé. Þessar færslur virðast eingöngu hafa verið studdar við handritað fylgiskjal, sem hafði ekki að geyma frekari upplýsingar, sem máli skipta, en bókunarfyrirmæli. Áður en þessar ráðstafanir voru gerðar hafði ákærði Tryggvi tilkynnt 31. mars 1999 til hluthafaskrár Baugs hf. að þann dag hafi hlutabréf í félaginu að nafnverði 40.000.000 krónur verið seld Kaupþingi hf. í Luxembourg, en samkvæmt reikningsyfirliti frá þeim síðarnefnda voru hlutabréf með þessu sama nafnverði færð á vörslureikning þar í eigu Baugs hf. 15. júní 1999. Í málinu liggja fyrir gögn um ráðstöfun hlutabréfa út af þessum reikningi á síðari stigum, þar á meðal til að fullnægja ákvæðum um kauprétt að hlutabréfum í Baugi hf. í ráðningarsamningum nokkurra starfsmanna félagsins, en að öðru leyti eru þær ráðstafanir óviðkomandi sakarefnum í málinu.

Í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 er í meginatriðum greint frá skýrslum ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva og framburði vitna fyrir héraðsdómi um þennan ákærulið, en ekki er deilt um að fyrrgreind hlutabréf í Baugi hf. hafi ekki verið seld Kaupþingi hf., svo sem bókhaldsfærslur gáfu til kynna, heldur hafi þau áfram verið í eigu fyrrnefnda félagsins og varðveitt á erlendum vörslureikningi hjá því síðarnefnda. Í dóminum er jafnframt getið þeirrar skýringar á þessum færslum, sem ákærði Tryggvi hefur borið við, að tíðkast hafi á umræddum tíma að færa í bókhaldi upplýsingar um flutning eigna á vörslureikninga sem sölu þeirra. Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, starfaði ákærði Tryggvi um árabil sem löggiltur endurskoðandi áður en hann tók við starfi aðstoðarforstjóra Baugs hf. Honum átti því að vera alls kostar ljóst að slík tilhögun á bókhaldsfærslum, sem hann hefur lýst, fær ekki staðist ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 145/1994. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærði Tryggvi hafi með háttsemi sinni, sem lýst er í 17. lið ákærunnar, gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994. Í héraðsdómi var á hinn bóginn komist að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að bókhaldsfærslurnar, sem þessi ákæruliður varðar, hafi verið gerðar með vilja og vitneskju ákærða Jóns Ásgeirs. Verður að una þessu mati héraðsdóms á sönnunargögnum um sakargiftir á hendur honum, enda eru ekki næg efni til að beita í þessu sambandi ákvæðum 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Jóns Ásgeirs af sakargiftum í 17. lið ákærunnar.

X.

Í 18. lið ákæru voru ákærði Jón Ásgeir og Tryggvi bornir sökum um fjárdrátt, en í 19. lið er sakargiftum um slík brot beint að ákærða Tryggva einum. Eins og áður var getið voru báðir ákærðu sýknaðir af sökum samkvæmt 18. ákæruliðnum í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 og er unað við þá niðurstöðu af hálfu ákæruvaldsins að því er ákærða Tryggva varðar, en dóminum að þessu leyti áfrýjað gagnvart ákærða Jóni Ásgeiri með kröfu um sakfellingu og refsingu. Í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007 var ákærði Tryggvi sem fyrr segir sakfelldur fyrir hluta þeirra brota, sem hann er borinn sökum um í 19. lið ákærunnar. Fyrir Hæstarétti leitar ákærði endurskoðunar héraðsdómsins að þessu leyti, en af hálfu ákæruvaldsins hefur honum verið áfrýjað til að fá ákærða sakfelldan að öllu leyti samkvæmt þessum ákærulið. Að virtu því, sem sagði í VIII. kafla hér að framan um heimildir Hæstaréttar til að endurskoða sönnunarmat héraðsdóms, verður nú tekin afstaða til þessara tveggja síðustu liða ákærunnar.

18. liður ákæru: Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti er ákærði Jón Ásgeir nú einn sakaður um að hafa á tímabilinu frá 20. janúar 2000 til 11. júní 2002 dregið Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. samtals 32.262.645 krónur frá Baugi hf. með því að ákærði Tryggvi hafi með vitund og vilja ákærða Jóns Ásgeirs látið síðastnefnt félag greiða 31 reikning á hendur því frá Nordica Inc. í Miami í Bandaríkjunum, en útgjöldin, sem reikningarnir hafi verið gerðir fyrir, hafi verið Baugi hf. óviðkomandi. Nánar er þetta skýrt á þann hátt í ákærunni að reikningarnir hafi „að stærstum hluta“ verið gerðir vegna afborgana af lánum og kostnaði af tilteknum skemmtibát, sem bandaríska félagið New Viking Inc. hafi keypt 30. september 1999, en eigendur Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., sem á þessum tíma hafi verið ákærði Jón Ásgeir ásamt foreldrum hans og systur, hafi talið það „eiga eignarhlutdeild í skemmtibátnum.“ Ákærði Tryggvi hafi gefið forráðamanni beggja áðurnefndra bandarískra félaga, ákærða Jóni Gerald, fyrirmæli um á hendur hverjum reikningar þessir hafi átt að hljóða, skýringartexta þeirra og fjárhæðir, en ákærði Tryggvi hafi síðan áritað reikningana um samþykki og látið færa þá til gjalda í bókhaldi Baugs hf. undir reikningsliðum, sem ýmist hafi snúið að tæknilegri aðstoð eða ferðakostnaði erlendis. Fjárhæð reikninganna hafi samtals numið 356.159 bandaríkjadölum, en af þeirri fjárhæð er af hálfu ákæruvaldsins talið að Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. hafi verið dregnir 352.809 bandaríkjadalir.

Í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 er réttilega vísað til þess að féð, sem greitt var af Baugi hf. á grundvelli áðurnefndra reikninga, hafi ekki runnið til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., en af gögnum málsins verður ráðið að það hafi gengið inn á erlenda bankareikninga, sem ýmist voru á nafni Nordica Inc. eða New Viking Inc. Með þessari athugasemd verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Jóns Ásgeirs af sakargiftum í 18. lið ákæru staðfest með vísan til forsendna hans. Í ljósi þeirrar niðurstöðu eru ekki efni til að taka afstöðu til röksemda, sem ákærði Jón Ásgeir hefur haldið fram fyrir Hæstarétti, um að grundvöll hafi brostið fyrir ákæru á hendur sér í þessum lið vegna ákvörðunar af hálfu ákæruvaldsins um að una niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ákærða Tryggva, sem eftir hljóðan ákæruliðarins hafi einn verið aðalmaður við framningu ætlaðs brots.

19. liður ákæru: Í þessum lið er ákærði Tryggvi borinn sökum um að hafa dregið sér frá Baugi hf. samtals 1.315.507 krónur á tímabilinu frá 11. janúar 2000 til 12. febrúar 2002 með því að hafa látið félagið greiða þrettán reikninga, sem Nordica Inc. í Miami í Bandaríkjunum hafi gefið út á hendur því, en þeir hafi í reynd verið gerðir til að síðastnefnt félag fengi endurgreidd útgjöld, sem ákærði hafi stofnað til í eigin þágu með notkun greiðslukorts á nafni þess og verið Baugi hf. óviðkomandi. Reikningarnir hafi eftir hljóðan sinni verið gerðir vegna kostnaðar af ferðum og dvöl erlendis og fjárhæð þeirra numið samtals 14.354,10 bandaríkjadölum, en ákærði Tryggvi hafi áritað þá um samþykki og látið að lokinni greiðslu færa fjárhæð þeirra til gjalda í bókhaldi Baugs hf., ýmist á reikningslið vegna ferðakostnaðar erlendis eða tæknilegrar aðstoðar. Í ákærunni er gerð nánari grein fyrir dagsetningu reikninganna, texta þeirra, fjárhæð og greiðsludegi.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007 verður ráðið af gögnum málsins að reikningarnir þrettán frá Nordica Inc. hafi í meginatriðum samsvarað reikningum til þess félags vegna notkunar á áðurnefndu greiðslukorti, sem ákærði Tryggvi hefur kannast við. Í dóminum er jafnframt í einstökum atriðum greint frá tilefni útgjaldanna, sem ákærði stofnaði til með notkun greiðslukortsins, og skýringanna, sem hann gaf um hvert tilvik við skýrslugjöf fyrir dómi. Á grundvelli þeirra skýringa, framburðar vitna, sem báru um atriði varðandi þennan ákærulið fyrir dómi, og skjalfestra gagna komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að 547.985 krónur af áðurgreindri fjárhæð hafi átt rætur að rekja til útgjalda ákærða sjálfs og verið Baugi hf. óviðkomandi, en því til samræmis taldist hann hafa dregið sér það fé frá félaginu. Ekki eru skilyrði til annars en að una við mat héraðsdóms á sönnunargögnum um þær sakargiftir, sem ákærði var sýknaður af.

Í héraðsdómi er fjárhæðin, sem ákærði var sakfelldur fyrir að hafa dregið sér, sundurliðuð eftir reikningunum, sem Baugur hf. greiddi. Af fjárhæð fyrsta reikningsins var ákærða talið hafa verið óheimilt að láta félagið greiða 7.330 krónur vegna úttektar í tískuvöruverslun, af öðrum reikningnum 7.295 krónur vegna skókaupa, af þeim þriðja samtals 166.317 krónur vegna kaupa á fatnaði og íþróttavörum, af sjöunda reikningnum 342.339 krónur vegna kaupa á garðáhöldum og loks af þeim áttunda 24.704 krónur vegna aðgangseyris að skemmtigarði. Um einstaka þessa liði hefur ákærði einkum gert athugasemdir fyrir Hæstarétti varðandi niðurstöðu um sjöunda reikninginn. Hann bar fyrir héraðsdómi að ákærði Jón Gerald og F, stjórnarmaður í Baugi hf., hafi báðir verið viðstaddir kaup hans á þargreindum garðáhöldum og hafi hann við það tækifæri óskað eftir því við þann fyrrnefnda að gerður yrði sérstakur reikningur á hendur sér vegna þeirra, en F staðfesti þessa frásögn í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi. Þessu til frekari stuðnings hefur ákærði vísað til þess fyrir Hæstarétti að hann hafi greitt flutningskostnað og aðflutningsgjöld vegna áhaldanna og notið síðan liðsinnis Aðfanga hf., félags í eigu Baugs hf., við tollafgreiðslu þeirra, en í tengslum við hana hafi verið fenginn sérstakur reikningur frá Nordica Inc. fyrir kaupverði garðáhaldanna, sem síðan hafi verið jafnaður út með svokölluðum kreditreikningi. Varðandi þetta hafi fyrrverandi fjármálastjóri Aðfanga hf. greint frá því í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi að hún minntist þessa innflutnings ákærða á garðáhöldum, en Aðföng hf. hafi oft aðstoðað starfsmenn Baugs hf. við innflutning eins og gert hafi verið fyrir ákærða í þessu tilviki. Þegar það hafi verið gert hafi Aðföng hf. gefið út reikning á hendur starfsmanninum til endurgreiðslu á verði viðkomandi hlutar og kostnaði. Í tilviki ákærða hafi átt að gera honum reikning vegna kaupverðs garðáhaldanna, en það hafi á hinn bóginn gleymst og kvað vitnið ekki vera við aðra en sig að sakast í þeim efnum. Um þetta er til þess að líta að Aðföng hf. tók ekki að sér að greiða fyrir ákærða vörureikning vegna garðáhaldanna, sem hér um ræðir, heldur lét hann Baug hf. standa straum af verði þeirra með greiðslu reiknings frá Nordica Inc., sem eftir hljóðan sinni stóð í engum tengslum við þennan innflutning. Að þessu virtu verður ekki séð hvernig staðist gæti að Aðföng hf. hafi átt að krefja ákærða um kaupverð garðáhaldanna. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur frá 28. júní 2007 staðfestur um sakfellingu ákærða Tryggva samkvæmt 19. lið ákærunnar. Með þeirri háttsemi hefur hann gerst sekur um brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga.

XI.

Í málinu er ákærði Jón Ásgeir sem fyrr segir sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994, eins og honum var gefið að sök í 15. lið ákæru. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að hann framdi þetta brot í starfi forstjóra almenningshlutafélags til að rangfæra niðurstöðu reikningsskila þess um verulega fjárhæð. Brotið var drýgt í samvinnu við aðra ákærðu. Honum til hagsbóta verður á hinn bóginn að líta til þess dráttar, sem orðið hefur á málinu, og jafnframt þeirrar röskunar, sem óhjákvæmilega hefur orðið á högum hans vegna umfangsmikillar lögreglurannsóknar og saksóknar, sem þó hefur ekki leitt til sakaráfalls nema í einum lið. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, sem einhverju gæti skipt við úrlausn þessa máls. Refsing ákærða er að þessu virtu hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 sem fangelsi í þrjá mánuði, en hún verður bundin skilorði eins og greinir í dómsorði.

Ákærði Tryggvi er samkvæmt áðursögðu sakfelldur í málinu fyrir að hafa brotið gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994, með þeirri háttsemi, sem greinir í niðurstöðum um 14., 15., 16. og 17. lið ákæru. Hann er jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga vegna hluta þeirra sakargifta, sem hann hefur verið borinn í 19. lið ákærunnar. Við ákvörðun refsingar verður að gæta að því að ákærði framdi þessi brot í starfi forráðamanns almenningshlutafélags og voru þau einkar ófyrirleitin í ljósi langrar starfsreynslu hans á fyrri stigum sem löggiltur endurskoðandi. Fjögur fyrstnefndu brotin leiddu til þess að reikningsskil Baugs hf. urðu röng um teljandi fjárhæðir og var í einu tilviki um að ræða samverknað við aðra ákærðu. Til hagsbóta ákærða verður að taka tillit til þess að dráttur hefur orðið á málinu, hann hefur eftir gögnum málsins staðið Baugi hf. skil á fé, sem 19. liður ákæru tekur til, að því leyti, sem félagið áskildi sér endurgreiðslu, og hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Að öllu þessu virtu er refsing ákærða Tryggva hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007 sem fangelsi í tólf mánuði, en rétt er að binda hana að öllu leyti skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði Jón Gerald er sakfelldur samkvæmt þeim lið ákæru, sem að honum beindist, og hefur með því gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994. Brotið framdi hann í atvinnurekstri og í samstarfi við aðra ákærðu, sem virðist hafa verið auðsótt að fá hann til verknaðarins án þess að hann skeytti neinu um þær afleiðingar, sem háttsemi hans gæti haft. Eftir að ákærði var fyrst borinn sökum í máli þessu hefur enginn teljandi dráttur orðið á rekstri þess, en hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo að séð verði. Refsing ákærða er að þessu virtu hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007 sem fangelsi í þrjá mánuði, en hún verður bundin skilorði eins og greinir í dómsorði.

Af hálfu ákæruvaldsins hafa ekki verið færð fram rökstudd andmæli í einstökum liðum gegn ákvörðun héraðsdóms um fjárhæð sakarkostnaðar. Sú ákvörðun var tekin í tvennu lagi varðandi hvorn ákærða Jón Ásgeir og Tryggva, fyrst í hinum áfrýjaða dómi frá 3. maí 2007 og síðan í dóminum frá 28. júní sama ár. Ekki eru efni til að hreyfa við þeim niðurstöðum héraðsdóms, en ákvæði dómanna tveggja verða tekin hér upp í dómsorði samanlögð varðandi hvorn þessara ákærðu fyrir sig. Sakarkostnaður vegna ákærða Jóns Gerald var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi frá 28. júní 2007 með því að honum var gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem voru felld á hann að öllu leyti. Niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð málsvarnarlaunanna verður látin standa óröskuð. Þótt ákærða sé hér dæmt sakaráfall að fullu samkvæmt ákæru verður að líta til þess að verulegum hluta starfa verjanda hans hefur óhjákvæmilega verið varið til viðveru í þinghöldum og könnunar gagna, sem að mestu leyti vörðuðu sakargiftir á hendur öðrum ákærðu. Að því virtu er rétt að ákærði Jón Gerald verði látinn bera fjórðung málsvarnarlauna verjanda síns í héraði, en að öðru leyti verður ekki felldur á hann sakarkostnaður þar.

Af hálfu ákæruvaldsins hefur ekki verið lagt fram yfirlit um áfallinn sakarkostnað fyrir Hæstarétti og kemur því slíkur kostnaður ekki til álita við úrlausn málsins. Ákærði Jón Ásgeir hefur lagt fyrir Hæstarétt reikninga vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð samtals 1.011.607 krónur, sem hann hafi orðið að bera vegna málatilbúnaðar síns hér fyrir dómi. Kostnaður þessi tengist eftir framlögðum reikningum að verulegu leyti þýðingu á kæru, sem ákærði hefur borið fram við mannréttindadómstól Evrópu, og þýðingu á úrlausn þess dómstóls í öðru máli, en engin efni voru til að stofna til þeirra útgjalda vegna rekstrar þessa máls. Ekki er heldur ástæða til að fella aðra kostnaðarliði, sem hér um ræðir, undir sakarkostnað fyrir Hæstarétti.

Ákærðu verða látnir bera hver fyrir sig hluta af málsvarnarlaunum verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, en að öðru leyti skulu þau greidd úr ríkissjóði, allt eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna verjenda ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva hefur verið litið til framlagðra upplýsinga þeirra um fjölda vinnustunda, sem þeir hafa sjálfir varið til starfans, sbr. fyrri málslið 2. mgr. 41. gr. laga nr. 19/1991.

Það athugast að af hálfu ákæruvaldsins var lögð fram í Hæstarétti greinargerð, sem er 69 þéttritaðar blaðsíður að lengd, en að auki stuttu fyrir munnlegan flutning málsins yfirlit yfir málflutningsræðu, sem svo var nefnt, 124 blaðsíður að lengd. Þótt sá búningur, sem greinargerð setts ríkissaksóknara var í, hafi gefið tilefni til ítarlegri greinargerðar en ella af hendi verjenda, reyndist sameiginleg greinargerð verjenda ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva 109 blaðsíður að lengd. Þessi gögn sakflytjenda hafa að geyma samfelldan skriflegan málflutning og eru í andstöðu við ákvæði 2. mgr. 155. gr. og 1. mgr. og lokamálsliðar 2. mgr. 157. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Ákærði Jón Ásgeir Jóhannesson sæti fangelsi í þrjá mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Tryggvi Jónsson sæti fangelsi í tólf mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð samkvæmt framangreindum lagaákvæðum.

Ákærði Jón Gerald Sullenberger sæti fangelsi í þrjá mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð samkvæmt framangreindum lagaákvæðum.

Ákærði Jón Ásgeir greiði af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.530.000 krónur vegna rekstrar málsins í héraði og 750.000 krónur vegna rekstrar málsins fyrir Hæstarétti. Málsvarnarlaun verjandans að öðru leyti, samtals 20.920.000 krónur á báðum dómstigum, greiðast úr ríkissjóði.

Ákærði Tryggvi greiði af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Jakobs R. Möller hæstaréttarlögmanns, 2.515.000 krónur vegna rekstrar málsins í héraði og 1.875.000 krónur vegna rekstrar málsins fyrir Hæstarétti. Málsvarnarlaun verjandans að öðru leyti, samtals 15.410.000 krónur á báðum dómstigum, greiðast úr ríkissjóði.

Ákærði Jón Gerald greiði af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns í héraði og fyrr Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 2.025.000 krónur vegna rekstrar málsins í héraði og 400.000 krónur vegna rekstrar málsins fyrir Hæstarétti. Málsvarnarlaun verjandans að öðru leyti, samtals 7.275.000 krónur á báðum dómstigum, greiðast úr ríkissjóði.

Ákærði Jón Ásgeir greiði í ríkissjóð vegna annars sakarkostnaðar í héraði samtals 7.568.519 krónur, þar af 5.000.000 krónur óskipt með ákærða Tryggva.

Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins úr ríkissjóði.

 

                                      Sératkvæði

Páls Hreinssonar

          Ég er sammála atkvæði meirihlutans að undanskilinni síðari málsgrein VII. kafla.

          Samkvæmt 153. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög varða þau brot gegn 104. gr. þeirra, sem ákærða Jóni Ásgeiri eru gefin að sök, sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Í kafla VI. í atkvæði meirihlutans hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að lánveitingar samkvæmt 2., 3. og 6. tölulið ákæru hafi farið í bága við 104. gr. laga nr. 2/1995. Þegar til þess er litið að 6. liður ákæru varðar 100.000.000 króna lánveitingu, sem bannað var að veita samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 og ákærði er borinn sökum um tvær ólögmætar lánveitingar til viðbótar, verður að mínum dómi að leggja til grundvallar, eins og málið liggur fyrir Hæstarétti, að fangelsisrefsing geti með réttu legið við brotum þessum, reynist ákærði sannur að sök. Af þessum sökum tel ég ekki hægt að slá því föstu að sakir samkvæmt fyrrnefndum ákæruliðum fyrnist á tveimur árum samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu athuguðu tel ég að ómerkja beri dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. júní 2007 að því er varðar ákæruliði 2, 3 og 6 og vísa þeim á ný til héraðsdóms til löglegrar meðferðar og dómsálagningar.

          Með því að meiri hluti dómenda hefur komist að því, að ekki eigi að ómerkja dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2007 að hluta, ber mér að greiða atkvæði um efni málsins samkvæmt 6. málslið 2. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 163. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Að því virtu er ég sammála meiri hluta dómenda um niðurstöðu atkvæðis þeirra.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2007.

I

          Með ákæru, dagsettri 31. mars 2006, höfðaði settur ríkissaksóknari samkvæmt umboðsskrá  opinbert mál á hendur þeim

“Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, kt. 270168-4509,

Laufásvegi 69, Reykjavík,

Tryggva Jónssyni, kt. 140755-2739,

Vesturhúsum 22, Reykjavík,

Jóni Gerald Sullenberger, kt. 240664-2089,

832 Santiago Street, Coral Gables, Florida, USA.

          Ákærðu eru gefin að sök brot á eftirtöldum ákvæðum almennra hegningarlaga, laga um bókhald og hlutafélög á árunum 1998 til 2002, samkvæmt mála­vaxtalýsingum sem hér fara á eftir og rakið er í hverju tilviki fyrir sig.

             Brot ákærðu tengdust rekstri Baugs hf. sem stofnað var 1. júlí 1998. Hlutabréf félagsins voru skráð á aðallista Verðbréfaþings Íslands 28. apríl 1999 en afskráð af þeim lista 11. júlí 2003. Félagið var á þeim tíma almenningshlutafélag með dreifða eignaraðild.

I. kafli.  Auðgunarbrot í tengslum við viðskipti með hlutafé tveggja hlutafélaga með nafninu Vöruveltan á árunum 1998 og 1999.”

Þessum kafla var vísað frá dómi með úrskurði 30. júní 2006 sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 21. júlí sama ár.

“II. kafli.  Lánveitingar andstæðar lögum um hlutafélög

Ákærða Jóni Ásgeiri eru, sem forstjóra Baugs hf., gefin að sök, í ákæruliðum 2-9, brot gegn lögum um hlutafélög með því að láta veita lán af fjármunum Baugs hf. til Fjár­fest­ingarfélagsins Gaums ehf., Fjárfars ehf. og A á árunum 1999-2001. Baugur hf. var á þessum tíma skráð hlutafélag á aðallista Verðbréfaþings Íslands með dreifða eignaraðild.

Ólögmætar lánveitingar til Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf.

2. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 20. ágúst 1999, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 100.000.000 frá Baugi hf., til að fjármagna kaup á hlutafé í Baugi hf., en ákærði var þá jafnframt framkvæmdastjóri Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. Lánið var veitt með þeim hætti að millifærðar voru kr. 100.000.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, til Íslandsbanka hf., sem greiðsla Fjár­fest­ingar­félagsins Gaums ehf. vegna innheimtu bankans á hlutafjárloforði Fjárfestingar­félagsins Gaums ehf., að nafnverði kr. 10.000.000, í hlutafjárútboði Baugs hf. í apríl 1999. Gefin var út skrifleg yfirlýsing Baugs hf. til staðfestingar á lánveitingunni og að lánið bæri 12,2% vexti frá 20. júlí 1999 en gjalddagi ekki tilgreindur. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskiptamannareikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. hjá Baugi hf. hinn 23. ágúst 1999. Eftir bókunina stóð skuld Fjár­fest­ingar­félagsins Gaums ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 182.782.689 en staða á lánar­drottnareikningi Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. þennan dag nam kr. 131.350.000 sem krafa á Fjárfestingarfélagið Gaum ehf. sem þannig skuldaði Baugi hf. samtals kr. 314.132.689. Dráttarvextir voru ekki greiddir og láns­fjárhæðin ekki innheimt í samræmi við hlutafélagalög. Lán þetta var endurgreitt á tíma­bilinu 28. október 1999 til 28. júní 2000.

3. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 11. október 1999, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 4.500.000 frá Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að milli­færðar voru kr. 4.500.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 1150 26 000077, á banka­reikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf., nr. 0527 26 001099, vegna kaupa þess félags á hluta fasteignarinnar að Viðarhöfða 6, Reykjavík. Gefin var út skrifleg yfir­lýsing Baugs hf. til staðfestingar á lánveitingunni og að lánið  bæri 11,5% vexti frá 1. október 1999. Gjalddagi var ekki tilgreindur. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eign­færð á viðskiptamannareikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. Eftir bókunina stóð skuld Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 187.665.005 en staða á lánardrottnareikningi Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bók­haldi Baugs hf. þann dag nam kr. 3.650.000, sem skuld Baugs hf. við Fjár­fest­ingar­félagið Gaum ehf., sem þannig skuldaði Baugi hf. samtals kr. 184.015.005. Láns­fjár­hæðin var ógreidd 28. ágúst 2002.

4. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 3. desember 1999, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 8.000.000 frá Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að milli­færðar voru kr. 8.000.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, til Spari­sjóðs Reykjavíkur og nágrennis, vegna kaupa Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. á helm­ingi hlutafjár í Viðskiptatrausti ehf., sem var í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Lánið var veitt án skriflegra gagna um endurgreiðslu og greiðslukjör. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskiptamannareikning Fjár­festingar­félagsins Gaums ehf. hjá Baugi hf. Eftir bókunina stóð skuld Fjár­fest­ing­ar­fél­ags­ins Gaums ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 168.031.286. Lánar­drottna­reikningur Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. stóð á núlli þennan dag. Þetta lán var gert upp 30. júní 2000 án vaxta.

5. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa hinn 13. febrúar 2001, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 50.529.987 til að fjármagna kaup á hlutum í Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að Fjárfestingarfélagið Gaumur ehf. skráði sig fyrir hlutafé í Baugi hf. að verðmæti kr. 340.529.987 í hlutafjárútboði í félaginu í desember árið 2000. Þar af voru greiddar kr. 290.000.000 til Baugs hf. en eftirstöðvarnar, kr. 50.529.987, voru ekki greiddar heldur var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskiptamanna­reikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. 13. febrúar 2001. Eftir bókunina stóð skuld Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. á viðskiptamanna­reikningnum í kr. 145.871.863. Í bókhaldi Baugs hf. stóð lánardrottnareikningur Fjárfestingar­félagsins Gaums ehf. á núlli þennan dag. Lánið var veitt án skriflegra gagna um endur­greiðslu og greiðslukjör og lánsfjárhæðin ekki innheimt í samræmi við hlutafélagalög. Láns­fjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002.

6. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa hinn 18. maí 2001, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 100.000.000 frá Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að milli­færðar voru kr. 100.000.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, inn á banka­reikning nr. 0527 26 001099 í eigu Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. Gefin var út skrifleg yfirlýsing, undirrituð af hálfu Baugs hf., til staðfestingar á lánveitingunni. Þar kom fram að lánið skyldi endurgreiða 15. júní 2001 og að lánið bæri 16% vexti auk kr. 300.000 álags. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskipta­manna­reikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. Eftir bókunina stóð skuld Fjár­fest­ingarfélagsins Gaums ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 262.836.989. Lánar­drottna­reikningur Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. stóð á núlli þennan dag. Lánsfjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002.

Ólögmætar lánveitingar til Fjárfars ehf.

7. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 16. maí 2000, látið veita Fjárfari ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 64.500.000 frá Baugi hf. til að fjármagna kaup á hlutfé í Baugi hf. af félaginu að nafn­virði kr. 5.000.000 en að verðmæti kr. 64.500.000. Hlutaféð var selt í samræmi við óundir­ritaðan, skriflegan samning þessara aðila, dagsettan 16. maí 2000, þar sem fram kom að kaupverðið skyldi greiða 2. júní 2000 en engin greiðsla fór þá fram og engin tilraun gerð til innheimtu lánsins. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskipta­mannareikning Fjárfars ehf. 16. maí 2000 og var um að ræða fyrstu færslu á þeim viðskiptamannareikningi. Lánsfjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002.

8. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 13. febrúar 2001, látið veita Fjárfari ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 85.758.591 til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu. Lánið var veitt með þeim hætti að Fjárfar ehf. skráði sig fyrir hlutafé í Baugi hf. að verðmæti kr. 85.758.591 í hluta­fjár­útboði í félaginu í desember árið 2000. Ekki var greitt fyrir hlutaféð og láns­fjárhæðin ekki innheimt í samræmi við hlutafélagalög. Lánsfjárhæðin var ógreidd hinn 28. ágúst 2002. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á við­skipta­manna­reikning Fjárfars ehf. 13. febrúar 2001. Eftir bókunina stóð skuld Fjárfars ehf. á viðskipta­mannareikningnum í kr. 194.350.540.

Ólögmæt lánveiting til A.

9. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 13. febrúar 2001, látið veita A, hluthafa í Baugi hf., lán að fjár­hæð kr. 3.786.727 til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu. Lánið var veitt með þeim hætti að A skráði sig fyrir hlutafé í Baugi hf. að verðmæti kr. 3.786.727 í hlutafjárútboði í félaginu í desember árið 2000. Ekki var greitt fyrir hlutaféð og lánsfjárhæðin ekki innheimt í samræmi við hlutafélagalög. Lánsfjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á við­skipta­mannareikning A 13. febrúar 2001 og var það fyrsta færslan á þeim reikningi.

Brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt ákæruliðum 3, 4 og 6 teljast varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr., laga um hlutafélög nr. 2/1995 en brot ákærða samkvæmt ákæru­liðum 2, 5, 7, 8 og 9 teljast varða við 2. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr., laga um hlutafélög nr. 2/1995.

III. kafli.  Meiri háttar bókhaldsbrot, rangfærsla skjala og brot gegn lögum um hlutafélög

Ákærðu Jóni Ásgeiri, forstjóra Baugs hf., og Tryggva, aðstoðarforstjóra Baugs hf., eru í ákæruliðum 10-16 gefin að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa á árunum 2000 og 2001 rangfært bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin voru til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldinu með þeim hætti að það gaf ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Auk þess er ákærða Jóni Ásgeiri í ákærulið 10 gefin að sök ólögmæt lánveiting.

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri í ákæruliðum 10-16 gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hlutafélagalögum með því að láta, sem forstjóri Baugs hf., senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands opinberar tilkynningar sem ákærða var ljóst að voru rangar. Um var að ræða tilkynningu, birta 28. ágúst 2000, um afkomu félagsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2000, tilkynningu, birta 19. mars 2001, um afkomu félagsins á árinu 2000 og tilkynningu, birta 3. september 2001, um afkomu félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2001. Með þessum röngu, opinberu tilkynningum sem byggðust á niðurstöðum árshlutareikninga og ársreiknings Baugs hf. skýrði ákærði Jón Ásgeir vísv­itandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði vísvitandi rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu. 

Ákærða Jóni Gerald Sullenberger er í ákærulið 15 gefið að sök brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög um bókhald, með því að hafa á árinu 2001 aðstoðað ákærðu Jón Ásgeir og Tryggva við að rangfæra bókhald Baugs hf. með því að búa til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum.

Rangar færslur á fyrri helmingi ársins 2000 höfðu þau áhrif á árshlutareikning Baugs hf. fyrir fyrstu sex mánuði þess árs að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 13 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 1,7% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 60 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 26% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 1,7% hærra en ella hefði verið.

Rangar færslur á árinu 2000 höfðu þau áhrif á ársreikning Baugs hf. fyrir árið 2000 að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 53 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 3,2% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 203 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 52% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 4,1% hærra en ella hefði verið.

Rangar færslur á fyrri helmingi ársins 2001 höfðu þau áhrif á árshlutareikning Baugs hf. fyrir fyrstu sex mánuði þess árs að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 108 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 15,6% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 76 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 25,6% hækkun hagnaðar og eigið fé var 0,7% hærra en ella hefði verið.

Meiri háttar bókhaldsbrot og rangar tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands um afkomu Baugs hf. á árinu 2000.

10. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að láta, færa í bókhaldi Baugs hf. 30. júní 2000 sölu á hlutafé Baugs hf. í Baugi.net ehf., að nafn­verði kr. 2.500.000 til Fjárfars ehf., sem ákærði stjórnaði og réð yfir, fyrir kr. 50.000.000. Í bókhaldi Baugs hf. voru kr. 2.500.000 færðar til lækkunar á hluta­bréfa­eign en kr. 47.500.000 sem tekjur af sölu hlutabréfa. Fjárfar ehf. greiddi ekki fyrir hlutaféð og voru kr. 50.000.000 eignfærðar í bókhaldi Baugs hf. á viðskiptareikning Fjárfars ehf. Bókhaldsfærslurnar voru byggðar á samningi milli Baugs hf. og Fjárfars ehf., dagsettum 16. júní 2000, um umrædd hlutafjárkaup. Viðskipti félaganna með hlutaféð gengu ekki eftir og bakfærsla var gerð í bókhaldi Baugs hf. hinn 21. febrúar 2002 með þeim hætti að eign Baugs hf. á viðskiptareikningi Fjárfars ehf. var lækkuð um kr. 50.000.000, nafnverð hlutafjár í Baugi.net ehf. kr. 2.500.000 eignfært en hagnaður af sölu hlutabréfa, kr. 47.500.000, gjaldfærður. Þessi færsla var síðan leiðrétt 28. febrúar 2002 og gjaldfærslunni var breytt í eignfærslu að fjárhæð kr. 47.500.000 og stóð þannig bókfærður söluhagnaður óhaggaður.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 28. ágúst 2000, um afkomu félagsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2000 var í samræmi við árshlutareikning félagsins fyrir sama tímabil, sem meðal annars var byggður á framangreindri rang­færslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif að hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 33 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 12,9% hækkun hagnaðar, og eigið fé 0,9% hærra en ella hefði verið.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 19. mars 2001, um afkomu fél­agsins á árinu 2000 var í samræmi við ársreikning félagsins fyrir það ár, sem meðal annars var byggður á framangreindri rangfærslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif að hagn­aður eftir skatta var u.þ.b. 33 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem sam­svarar 6% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,7% hærra en ella hefði verið.

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félaga­lögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 28. ágúst 2000 og 19. mars 2001, framangreindar, opinberar tilkynningar, sem ákærða var ljóst að voru rangar en þessar tilkynningar voru í kjölfarið birtar á heimasíðu Verð­bréfa­þings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu. Ákærði Jón Ásgeir var á þessum tíma forstjóri Baugs hf. og jafnframt rak hann og stjórnaði Fjár­fari ehf.

Til vara er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa lánað Fjár­fari ehf. kaupverð hlutafjárins, kr. 50.000.000. Í bókhaldi Baugs hf. var krafa félags­ins eignfærð á viðskiptamannareikning Fjárfars ehf. 30. júní 2000. Eftir bók­unina stóð skuld Fjárfars ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 114.500.000.

11. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., látið búa til gögn sem áttu sér ekki stoð í við­skiptum við aðra aðila og hagað bókhaldinu með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna þegar ákærði Tryggvi lét, með vilja og vitneskju ákærða Jóns Ásgeirs, færa til eignar á viðskiptamannareikning Kaupþings hf., í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf. kr. 25.000.000 með eftirgreindri rangri og tilhæfulausri færslu:

Færsla nr. L0565 dags. 30.04.2000 með texta:  „Tekjur v.ábyrgð á hlutabréfum“

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

25.000.000

 

F 51990

Aðrar fjármunatekjur

 

25.000.000

 

Eignfærslan á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., sem þannig myndaði tilhæfu-lausa skuld Kaupþings hf. við Baug hf. í bókhaldi Baugs hf., er byggð á fyrirmælum um færslur á bókhaldslykla, í handskrifuðu og óundirrituðu fylgiskjali,  dagsettu 30. apríl 2000, þar sem eftirfarandi skýring kemur fram: „Tekjur Baugs v/ábyrgðar á hluta­bréfum í UVS. Heildartekjur 50 mills. 25 tekjufært í apríl samkv. TJ“. Engin önnur gögn lágu færslunni til grundvallar. Færslan var bakfærð við gerð ársreiknings Baugs hf. fyrir tímabilið 1. mars 2002 til 28. febrúar 2003.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 28. ágúst 2000, um afkomu félagsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2000 var í samræmi við árshlutareikning félagsins fyrir sama tímabil, sem meðal annars var byggður á framangreindri rang­færslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif á árshlutareikninginn að hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 17 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 6,4% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,5% hærra en annars hefði verið.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 19. mars 2001, um afkomu félagsins á árinu 2000 var í samræmi við ársreikning félagsins fyrir það ár, sem meðal annars var byggður á framangreindri rangfærslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif á ársreikninginn að hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 17 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 3,1% hækkun hagnaðar, og eigið fé 0,3% hærra en annars hefði verið.

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félaga­lögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 28. ágúst 2000 og 19. mars 2001, framangreindar, opinberar tilkynningar, sem ákærða var ljóst að voru rangar en þessar tilkynningar voru í kjölfarið birtar á heimasíðu Verð­bréfa­þings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

12.        Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot, með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf. og hagað því með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna þegar ákærði Tryggvi lét, með vilja og vitneskju ákærða Jón Ásgeirs, færa til eignar á viðskiptamannareikning Kaup­þings hf., í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf. kr. 13.045.954 með eftir­greindri rangri og tilhæfulausri færslu:

 

Færsla nr. L0619  dags. 30.06.2000 með texta: „Þóknun vegna hlutabréfakaupa“

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

13.045.954

 

F 19922

Tekjur utan samstæðu án vsk

 

13.045.954

 

Eignfærslan á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., sem þannig myndaði tilhæfulausa skuld Kaupþings hf. við Baug hf. í bókhaldi Baugs hf., var gerð án þess að nokkur gögn lægju að baki í bókhaldi Baugs hf. Færslan var bakfærð við gerð ársreiknings Baugs hf. fyrir tímabilið 1. mars 2002 til 28. febrúar 2003.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 28. ágúst 2000, um afkomu félagsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2000 var í samræmi við árshlutareikning félagsins fyrir sama tímabil, sem meðal annars var byggður á framangreindri rangfærslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif á árshlutareikninginn að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 13 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 1,7% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 9 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 3,2% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,3% hærra en ella hefði verið. 

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 19. mars 2001, um afkomu félagsins á árinu 2000 var byggð á ársreikningi félagsins fyrir það ár, sem meðal annars var byggður á framangreindri rangfærslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif á árs­reikninginn að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 13 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 0,8% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 9 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 1,6% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,2% hærra en ella hefði verið. 

J           afnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 28. ágúst 2000 og 19. mars 2001, framangreindar, opinberar tilkynningar, sem ákærða var ljóst að voru rangar en þessar tilkynningar voru í kjölfarið birtar á heimasíðu Verð­bréfa­þings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

13. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot, með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., látið búa til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna þegar ákærðu létu færa til eignar á við­skipta­mannareikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf., í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf. kr. 40.000.000 með eftirgreindum röngum og tilhæfulausum færslum:

 

Dags. færslu

Skýring í bókhaldi Baugs

Fjárhæð

31.12.2000

Þátttaka í auglýsingaherferð

30.000.000

31.12.2000

Þátttaka í stjórnunarkostnaði

10.000.000

 

Samtals kr.

40.000.000

 

Færslurnar voru byggðar á tveimur reikningum, dagsettum 31. desember 2000, samtals að fjárhæð kr. 40.000.000 sem „10-11“, sem þá var deild í Baugi hf., gaf út á hendur Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf.  Reikningar þessir voru ógreiddir samkvæmt bókhaldi Baugs hf. 28. ágúst 2002.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 19. mars 2001, um afkomu félagsins á árinu 2000 var í samræmi við ársreikning félagsins fyrir það ár, sem meðal annars var byggður á framangreindri rangfærslu. Umrædd færsla hafði þau áhrif á árs­reikn­inginn að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 40 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 2,4% hækkun EBITDA-hagn­aðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 28 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem sam­svarar 5% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,5% hærra en ella hefði verið. 

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 19. mars 2001, framangreinda, opinbera tilkynningu, sem ákærða var ljóst að var röng en þessi tilkynning var í kjölfarið birt á heimasíðu Verðbréfaþings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

14. Ákærðu Jóni og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að láta rangfæra bókhald Baugs hf. og haga því með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af við­skiptum og notkun fjármuna með eftirfarandi, þremur röngum og tilhæfulausum færslum:

Ákærði Tryggvi lét í mars 2001, með vitund og vilja ákærða Jóns Ásgeirs, bókfæra í bók­haldi Baugs hf., með færsludegi 31. desember 2000, sölu á hlutabréfum félagsins í Arcadia Group Plc. að nafnverði 3.100.000 GBP til Kaupþings hf. fyrir kr. 332.010.000 en þessi sala átti sér í raun ekki stað. Baugur hf. hafði selt Íslandsbanka-FBA hf. umrætt hlutafé 13. október 2000 en bankinn selt félaginu bréfin framvirkt með afhendingardegi 13. desember 2000 en þeir skilmálar voru þá framlengdir til 18. janúar 2001 og þá aftur framlengdir til 1. febrúar 2001.

Ákærði Tryggvi lét færa kr. 332.010.000 til eignar á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf. í bókhaldi Baugs hf., kr. 167.399.464 til lækkunar á erlendri hluta­bréfa­eign og kr. 164.610.536 til tekna hjá Baugi hf., sem hagnað af sölu hlutabréfa, með eftir­greindri rangri færslu. Með þessari færslu varð til tilhæfulaus skuld Kaupþings hf. við Baug hf. í bókhaldi Baugs hf.

Færsla nr. I00296 dags. 31.12.2000 með texta: „Lokaf. Sala hlbr. Arcadia til Kaupþ. Lux“

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

332.010.000

 

F65595

Erlend hlutabréf

 

167.399.464

F55505

Hagnaður af sölu hlutabréfa

 

164.610.536

 

Færslan var framkvæmd í samræmi við óundirritað lokafærsluskjal frá KPMG Endurskoðun hf., dagsett 23. mars 2001. Til grundvallar þessari færslu lá samningur milli Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og Baugs hf., dagsettur 28. desember 2000, undir­ritaður af D, framkvæmdastjóra bankans, af hálfu bankans sem kaupanda og ákærða Tryggva af hálfu Baugs hf. sem seljanda um framsal til bankans á hlutum að nafnverði 3.100.000 GBP í Arcadia Group Plc. á genginu 0,85 fyrir 2.635.000 GBP. Samningurinn var útbúinn 1. febrúar 2001 af D.

Með eftirfarandi rangri og tilhæfulausri færslu lét ákærði Tryggvi líta svo út að Kaup­þing hf. hefði greitt Baugi hf. kaupverð hlutabréfanna 2. febrúar 2001. Með þessari færslu var skuld Kaupþings hf. á viðskiptamannareikningi í bókhaldi Baugs hf. lækkuð.

 

Færsla nr. T000630 dags. 02.02.2001 með texta: „Sala á Arcadia hlutabréfum“

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

B 720

Íslandsbanki hf.

332.010

 

B 720

Íslandsbanki hf.

331.677.990

 

V560882-0419

Kaupþing

 

332.010.000

 

Færslan var byggð á ódagsettu og óundirrituðu, handskrifuðu blaði, með skýringunni „Sala á Arcadia hlutabréfum“, auk afrits af bankayfirliti Baugs hf. sem sýndi innborgun sömu fjárhæðar á reikning Baugs hf. 1. febrúar 2001.

Innborguð fjárhæð var í raun lán frá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og var fjár­hæðin greidd inn á tékkareikning Baugs hf. nr. 527 26 000720 hjá Íslandsbanka hf.

Ákærði Tryggvi lét í júní 2001 bókfæra í bókhaldi Baugs hf., með færsludegi 11. maí 2000, endurkaup félagsins á framangreindum hlutabréfum í Arcadia Group Plc. fyrir kr. 544.050.000 af Kaupþingi hf., sem stofnframlag (hlutafé) í A-Holding S.A. en þessi endurkaup áttu sér í raun ekki stað. Sama fjárhæð var færð til skuldar á við­skipta­mannareikningi Kaupþings hf. í bókhaldi Baugs hf. með eftirgreindri rangri og tilhæfulausri færslu:

 

Færsla nr. L1073 dags. 11.05.2001 með texta: „Stofnhlutafé í A-Holding“

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

F 65193

Hlutafé, A-Holding

544.050.000

 

V560882-0419

Kaupþing

 

544.050.000

            

Færslan byggir á handskrifuðu blaði, dagsettu 27. júní 2001, merktu Jóhanna. Til grundvallar þessari færslu lá samningur milli Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og Baugs hf., dagsettur 15. febrúar 2001, undirritaður af D fram­kvæmda­stjóra bankans, af hálfu bankans sem seljanda og ákærða Tryggva af hálfu Baugs hf. sem kaupanda, um framsal til Baugs hf. á hlutum að nafnverði 3.100.000 GBP í  Arcadia Group Plc. á genginu 1,35 fyrir 4.185.000 GBP. Í raun var verið að leggja hlutafé Baugs hf. í Arcadia Group Plc. inn í A-Holding S.A. sem framlag Baugs hf. Skjal þetta samdi D í febrúar 2001.

Með færslum þeim sem tilgreindar eru í þessum ákærulið var ranglega búinn til hagn­aður í bókhaldi Baugs hf. á árinu 2000 að fjárhæð kr. 164.610.536 og jafnframt var búin til skuld í bókhaldi félagsins á árinu 2001, að fjárhæð kr. 212.040.000, sem ekki átti við rök að styðjast.

Þessar færslur voru leiðréttar í bókhaldi Baugs hf. á árinu 2003 þegar reikningar Baugs hf. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. voru færðir inn í bókhald félagsins en þeim hafði af ráðnum hug verið haldið utan þess.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 19. mars 2001, um afkomu fél­agsins á árinu 2000 var í samræmi við ársreikning félagsins fyrir það ár, sem meðal annars var byggður á framangreindum rangfærslum. Umræddar færslur höfðu þau áhrif á ársreikninginn að hagnaður eftir skatta var u.þ.b. kr. 115 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 24,2% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 2,3% hærra en ella hefði verið. 

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félaga­lögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 19. mars 2001, framangreinda, opinbera tilkynningu, sem ákærða var ljóst að var röng, enda bar ársreikningurinn það með sér að félagið ætti engin hlutabréf í Arcadia Group Plc. Þessi tilkynning var í kjölfarið birt á heimasíðu Verðbréfaþings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

Meiri háttar bókhaldsbrot og rangar tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands um afkomu Baugs hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2001.

15. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Þetta gerðu þeir með því að láta færa til eignar (........) í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf., sem lækkuð vörukaup,  kr. 61.915.000 á grundvelli rangs og tilhæfulauss kreditreiknings (afsláttar­reiknings) frá Nordica Inc., Miami í Flórída í Bandaríkjunum, dagsetts 30. ágúst 2001, að fjárhæð USD 589.890, sem jafngilti kr. 61.915.000 á færsludegi.

Ákærða Jóni Gerald Sullenberger er gefið að sök að hafa aðstoðað ákærðu Jón Ásgeir og Tryggva við að rangfæra bókhald Baugs hf. og stuðlað að bókhaldsbroti þeirra með því að útbúa framangreindan kreditreikning að tilhlutan ákærða Jóns Ásgeirs og samkvæmt fyrirsögn ákærða Tryggva. Reikningurinn átti sér ekki stoð í viðskiptum þeirra félaga sem ákærðu voru í fyrirsvari fyrir.

Samtala þessa kreditreiknings frá Nordica Inc. og þeirrar fjárhæðar sem kom fram í yfirlýsingu frá P/F SMS í Færeyjum að jafnvirði kr. 46.679.000 var vegna mistaka færð öfugt í bókhald Baugs hf., með færsludegi 30. júní 2001, sem kostnaðarfærsla í stað tekjufærslu með textaskýringunni ”Lokaf. Kreditreikn. skv. JÁJ KSV”. Fylgiskjal í bókhaldi að baki færslunni er lokafærslublað frá endurskoðendum félagsins, dagsett 27. september 2001. Færslan var síðar leiðrétt með fskj. nr. I00751, dags 30.06.2001, með texta: leiðr.lokafærsla v/bókað öfugt” Áhrif af færslunum á bókhald Baugs hf. var því eftirfarandi:

 

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

F 19922

Tekjur utan samstæðu (rekstrarreikn.)

 

108.594.000

F 73112

Biðreikningur (efnahagsreikningur)

108.594.000

 

 

Í árslok 2001 var tekjufærslan lækkuð um kr. 13.321.000 og sama fjárhæð færð til lækkunar eignfærðri kröfu á biðreikningi. Tekjufærslan var síðar lækkuð um samtals kr. 49.500.000 í bókhaldi Baugs hf. þannig að kr. 4.500.000 voru gjaldfærðar mánað­arlega (lotaðar) í bókhaldi Baugs hf. í ellefu skipti frá og með 16. apríl 2002. Færslur vegna þessa kreditreiknings voru gerðar í bókhaldi aðalskrifstofu Baugs hf.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 3. september 2001, um afkomu fél­agsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2001 var byggð á árshlutareikningi félagsins fyrir sama tímabil. Framangreindar færslur höfðu þau áhrif á árshlutareikninginn að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 62 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 8,4% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 43 milljónum hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 13,2% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 0,4% hærra en ella hefði verið. 

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 3. september 2001, framangreinda, opinbera tilkynningu, sem ákærða var ljóst að var röng en þessi tilkynning var í kjölfarið birt á heimasíðu Verðbréfaþings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opin­berum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

16. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Þetta gerðu þeir með því að láta færa til eignar (...........) í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf. kr. 46.679.000 á grundvelli yfirlýsingar frá P/F SMS, dagsettrar 30. júní 2001, með fyrir­sögninni: Credit Invoice og textanum: „We confirm that Bónus Iceland share af Marketing support from Dagrofa July 1. 2000 – June 30. 2001 amounts to dkr. 3.900.000 en fjárhæðin jafngilti kr. 46.679.000 á færsludegi. Yfirlýsingin var útbúin að frumkvæði ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva og höfðu ákærðu vitneskju um að hún átti sér ekki stoð í viðskiptum aðila. Baugur hf. átti stóran eignarhluta í P/F SMS. Færslur vegna þessarar yfirlýsingar voru gerðar í bókhaldi aðalskrifstofu Baugs hf.

Samtala fjárhæðarinnar sem fram kom í fyrrnefndri yfirlýsingu og kreditreikningsins frá Nordica Inc. að jafnvirði kr. 61.915.000 var vegna mistaka færð öfugt í bókhald Baugs hf., með færsludegi 30. júní 2001, sem kostnaðarfærsla í stað tekjufærslu með textaskýringunni „Lokaf. Kreditreikn.skv. JÁJ KSV”. Fylgiskjal í bókhaldi að baki færslunni er merkt I00751. Færslan var síðar leiðrétt með fskj. nr. I00751, dags 30.06.2001, með texta: leiðr.lokafærsla v/bókað öfugt”. Áhrif af færslunum á bók­hald Baugs hf. var því eftirfarandi:

 

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

F 19922

Tekjur utan samstæðu (rekstrarreikn.)

 

108.594.000

F 73112

Biðreikningur (efnahagsreikningur)

108.594.000

 

 

Í árslok 2001 var áhrifum tekjufærslu vegna yfirlýsingarinnar frá P/F SMS eytt úr bókhaldi Baugs hf. með færslu með færslutextanum: „Lokaf. 1 bakf. kreditreikn. frá SMS skv. TJ/JÁJ” og sama fjárhæð færð til lækkunar eignfærðri kröfu á biðreikningi.

Tilkynning Baugs hf. til Verðbréfaþings Íslands, birt 3. september 2001, um afkomu félagsins á fyrstu 6 mánuðum ársins 2001 var í samræmi við árshlutareikning félagsins fyrir sama tímabil, sem meðal annars var byggður á framangreindum rang­færslum. Framangreindar færslur höfðu þau áhrif á árshlutareikninginn að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 46 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 6,2% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 32 milljónum hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 9,6% hækkun hagn­aðar, og eigið fé var 0,3% hærra en ella hefði verið. 

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 3. september 2001, framangreinda, opinbera tilkynningu, sem ákærða var ljóst að var röng en þessi tilkynning var í kjölfarið birt á heimasíðu Verðbréfaþings Íslands. Þannig skýrði ákærði vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opin­berum vettvangi og skapaði þar með vísvitandi, rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

Brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt ákæruliðum 10-16 teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Einnig teljast brot ákærða, samkvæmt framan­greindum ákæruliðum, varða við 1., sbr. 3. mgr., 158. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 153. gr. og 1. mgr. 154. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Brot ákærða samkvæmt ákærulið 10 telst til vara varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr., hluta­félagalaga nr. 2/1995.

Brot ákærða Tryggva samkvæmt ákæruliðum 11-16 teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Til vara við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994 um bókhald.

Brot ákærða Jóns Geralds, samkvæmt ákærulið 15, telst varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994 um bókhald.

IV.  kafli.  Meiri háttar bókhaldsbrot

17. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot, með því að Tryggvi lét færa, með vilja og vitneskju ákærða Jóns Ásgeirs, rangar og tilhæfu­lausar færslur um viðskipti og notkun fjármuna í bókhald Baugs hf. þannig að þar var færð sala á hlutabréfum Baugs hf. í félaginu sjálfu að nafnverði kr. 40.000.000 en bókfærðu verði kr. 330.764.000, miðað við færsludag 30. júní 1999. Hlutabréfin voru í raun afhent Kaupthing Bank Luxembourg S.A. til varðveislu inn á fjár­vörslu­reikning Baugs hf.,  sem stofnaður var á grundvelli samnings milli Baugs hf. og bankans, dagsetts 14. október 1998. Ákærðu ráðstöfuðu bréfunum og andvirði þeirra til greiðslu ýmissa fjárskuldbindinga sem tengdust Baugi hf., þar með talið til nokkurra af æðstu stjórnendum hlutafélagsins, án þess að þessara ráðstafana væri getið í bókhaldi Baugs hf. Samkvæmt bókhaldsfærslunni var Kaupþing hf. sagður kaup­andi og kaupverð hlutanna eignfært á viðskiptareikningi Kaupþings hf. hjá Baugi hf. og myndaði færslan þannig tilhæfulausa skuld Kaupþings hf. við Baug hf. í bók­haldi Baugs.

Markmiðið með þessari færslu hlutafjárins inn á vörslureikninginn var að draga dul á hverjir væru raunverulegir viðtakendur þeirra verðmæta sem ráðstafað var af reikn­ingnum og bankareikningi Baugs hf. honum tengdum. Vörslureikningurinn var einnig notaður í tengslum við þá verknaði sem um er fjallað í ákæruliðum 1 og 14. Eftir athuga­semdir stjórnar Baugs hf. voru gerðar ráðstafanir á árinu 2003 til þess að leiðrétta bókhald Baugs hf. hvað þennan fjárvörslureikning snerti.

Rangar og tilhæfulausar færslur í tengslum við færslu hlutabréfanna á vörslu­reikn­inginn voru eftirfarandi: Færsla nr. 9281 dags. 30.06.1999 með texta: „Hlutabréf í Baugi seld Kaupþingi“.

 

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

V560882-0419

Kaupþing

330.764.000

 

F 73112

Biðreikningur

 

330.764.000

 

Færslan, til eignar á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., sem þannig myndaði til­hæfu­lausa skuld Kaupþings hf. við Baug hf. í bókhaldi Baugs hf., var eingöngu byggð á handskrifuðu, ódagsettu og óundirrituðu fylgiskjali þar sem fram kom eftirfarandi: „Baugur kaupir 5% í Baugi og fær lán hjá FBA ... Selur Kaupþingi 4/5 hlut 330.764.000 út af biðreikn. D/viðskm. KÞ“.

Brot ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva samkvæmt ákærulið 17 teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald.

V. kafli.  Fjárdráttur í tengslum við skemmtibátinn Thee Viking og notkun greiðslukorts

18. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa, á tímabilinu frá 20. janúar 2000 til 11. júní 2002, dregið Fjárfestingarfélaginu Gaumi, einka­hlutafélagi sem á þessum tíma var í eigu ákærða Jóns Ásgeirs, föður hans, móður og systur, samtals kr. 32.262.645, frá Baugi hf. til að fjármagna eignarhlutdeild Fjár­festingarfélagsins Gaums ehf. í skemmtibátnum Thee Viking og greiða kostnað vegna hans. Brot ákærðu fólust í því að ákærði Tryggvi, aðstoðarforstjóri Baugs hf., lét með vitund og vilja ákærða Jóns Ásgeirs, forstjóra félagsins, félagið greiða 31 reikning, sem gefnir voru út af félaginu Nordica Inc. á hendur Baugi hf., vegna útgjalda sem voru Baugi hf. óviðkomandi. Reikningar þessir voru að stærstum hluta vegna afborgana af lánum, rekstrarkostnaðar og annars tilfallandi kostnaðar vegna skemmtibátsins Thee Viking sem staðsettur var í Miami í Flórída í Bandaríkjunum. Skráður eigandi Thee Viking, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 30. september 1999, var félagið New Viking Inc., skrásett í Delaware í Bandaríkjunum. Eigendur Fjár­festingarfélagsins Gaums ehf. töldu félagið eiga eignarhlutdeild í skemmtibátnum. Ákærði Tryggvi gaf Jóni Gerald Sullenberger, eiganda og framkvæmdastjóra Nordica Inc. og New Viking Inc., fyrirmæli um á hendur hverjum reikningarnir skyldu gefnir út, fjárhæðir þeirra og skýringartexta. Fjárhæð umræddra reikninga var samtals 356.159 USD en sá hluti þeirra sem dreginn var Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf. úr sjóðum Baugs hf. var samtals að fjárhæð 352.809 USD. Reikningarnir voru áritaðir af ákærða Tryggva um samþykki og gjaldfærðir í bókhaldi Baugs hf. sem „Tæknileg aðstoð án vsk“ eða „Ferðakostnaður erlendis án vsk“. Gjaldfærður kostnaður í bókhaldi Baugs hf. vegna þessara reikninga var samtals kr. 32.262.645 og er þá útlagður bankakostnaður aðeins talinn með í þeim tilvikum sem annar kostnaður var ekki greiddur á sama tíma.

Í neðangreindri töflu eru fjárdráttartilvikin sundurliðuð:

Dagsetning reiknings

 

   Nr.

Texti reiknings

Erlend fjárhæð í USD

Fjárhæð í USD sem ákært er vegna

Dags. greiðslu

Gjaldfærður kostnaður í kr.

18.01.2000

 

--

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

8.000

8.000

20.01.2000

582.190

02.02.2000

 

  

10

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work. Hotel and travel exp for January 2000

9.250

8.000

29.02.2000

590.720

23.03.2000

 

 

 

 

14

contract fee for retail services commissions  finders fees and consulting work, Travel and transportation services for March 2000

10.100

8.000

24.03.2000

588.560

27.01.2000

 

 

 23

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

8.000

8.000

14.04.2000

591.390

05.05.2000

 

 

48

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

8.000

8.000

11.05.2000

614.670

07.06.2000

 

     

  61

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

8.000

8.000

14.06.2000

606.510

28.09.1999

 

 

   

71

reserch and survey work for marketing in Florida area on supermarkets warehouses and strip malls

12.000

12.000

13.07.2000

951.070

04.08.2000

 

 

82

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

10.08.2000

962.470

07.09.2000

 

 

96

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

     12.000

12.000

11.09.2000

1.005.320

07.09.2000

 

 

107

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

05.10.2000

1.009.510

06.11.2000

 

 

 117

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

07.11.2000

1.041.670

01.12.2000

 

   123

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

21.12.2000

1.029.670

09.01.2001

 

     17

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

29.01.2001

1.036.800

08.02.2001

 

 

24

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

12.02.2001

1.031.710

05.03.2001

 

 

 41

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

09.03.2001

1.031.430

05.04.2001

 

 

 78

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

18.04.2001

1.114.560

30.04.2001

 

 

114

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

03.05.2001

1.203.980

01.06.2001

 

 

146

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

11.06.2001

1.259.400

29.06.2001

 

 161

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

06.07.2001

1.239.150

23.07.2001

 

173

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

25.07.2001

1.216.710

04.09.2001

 

197

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

14.09.2001

1.186.560

26.09.2001

    205

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

01.10.2001

1.207.800

29.10.2001

 

  226

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

08.11.2001

1.274.670

27.11.2001

 

     238

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

03.12.2001

1.281.240

03.01.2002

 

     246

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

10.01.2002

1.223.760

29.01.2002

 

   253

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

12.02.2002

1.216.200

28.02.2002

 

     266

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

12.03.2002

1.213.950

27.03.2002

 

     269

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

04.04.2002

1.191.750

26.04.2002

 

     274

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

30.04.2002

1.127.550

22.05.2002

 

     279

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

16.808,8

16.809

27.05.2002

1.552.725

30.05.2002

 

     282

contract fee for retail services commissions finders fees and consulting work

12.000

12.000

11.06.2002

1.078.950

 

 

Samtals :

356.159

352.809

 

32.262.645

 

19. Ákærða Tryggva er gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa dregið sér samtals kr. 1.315.507 á tímabilinu frá 11. janúar 2000 til 12. febrúar 2002, þegar ákærði lét Baug hf. greiða félaginu Nordica Inc. í Bandaríkjunum í 13 skipti reikninga sem gefnir voru út af Nordica Inc. á hendur Baugi hf., vegna persónulegra útgjalda ákærða sem voru Baugi hf. óviðkomandi. Ákærði stofnaði einkum til útgjaldanna erlendis með úttektum á American Express greiðslukorti í reikning Nordica Inc., sem það lagði út fyrir og innheimti síðan hjá Baugi hf., samkvæmt fyrirmælum ákærða. Skýr­ingar­texti reikninganna gaf til kynna að þeir væru vegna ferða- og dvalarkostnaðar erlendis. Úttektirnar voru í raun vegna kaupa Tryggva á varningi og þjónustu í eigin þágu, meðal annars í tónlistarverslunum, tískuvöruverslunum, golfvöruverslun, skemmti­garði, veitingastöðum og vegna kaupa á sláttudráttarvél. Ákærði, sem var að­stoð­ar­forstjóri Baugs hf. á þessum tíma, hafði til afnota greiðslukort frá Baugi hf. til þess að greiða með kostnað vegna rækslu starfa í þágu félagsins erlendis. Ákærði áritaði alla 13 reikningana um samþykki, en þeir voru án fylgigagna og samtals að fjárhæð 14.354,10 USD, og lét færa þá til gjalda í bókhaldi Baugs hf. sem „Ferða­kostnaður erlendis án vsk“ eða sem „Tæknileg aðstoð án vsk“. Gjaldfærður kostnaður í bókhaldi Baugs hf. vegna þessara reikninga var samtals kr. 1.315.507 og er þá út­lagður banka­kostnaður aðeins talinn með í þeim tilvikum sem annar kostnaður var ekki greiddur á sama tíma.

Í neðangreindri töflu eru fjárdráttartilvikin sundurliðuð:

 

Dags. reiknings

Nr.

Texti reiknings

Fjárhæð reiknings í USD

Dags. greiðslu

Gjaldfærður kostnaður í kr.

31.12.1999

99107

Hotel and travel exp. Dec 99

329,58

11.01.2000

24.678

05.05.2000

49

Travel and trans-portation services

548,90

18.05.2000

43.596

07.09.2000

95

Travel expenses for July and August 2000

2.220,00

11.09.2000

186.636

10.10.2000

108

Travel lodging and telephone exp. Sep 2000

638,31

17.10.2000

55.420

11.01.2001

5

Hotel and travel exp.

270,00

29.01.2001

23.328

08.02.2001

26

Hotel and traveling expense January 01 to 31 2001

2.333,33

12.02.2001

201.536

05.04.2001

77

Travel expenses for March 2001

3.813,23

18.04.2001

354.173

16.07.2001

169

Travel expenses for June 2001

1.525,78

25.07.2001

155.357

04.09.2001

199

Food/beverage and traveling expenses

445,55

14.09.2001

44.056

26.09.2001

206

Travel expenses for September 2001

1.209,99

01.10.2001

121.785

27.11.2001

239

Travel expenses for November 2001

247,04

03.12.2001

26.372

03.01.2002

247

Travel expenses for November 2001 and December 2001

458,81

10.01.2002

46.789

29.01.2002

254

Travel expenses for January 2002

313,58

12.02.2002

31.781

 

 

Samtals :

  14.354,10

 

1.315.507

 

Brot ákærða Jóns Ásgeirs, samkvæmt ákærulið 18, telst varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Brot ákærða Tryggva, samkvæmt ákæruliðum 18 og 19, teljast varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot.”

             Ákærðu neita sök og hafa verjendur þeirra krafist sýknu og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun þeirra, verði greiddur úr ríkissjóði.

II

          Upphaf máls þessa má rekja til þess að 13. ágúst 2002 kom U hæstaréttarlögmaður á fund Jóns H.B. Snorrasonar, sem þá var sak­sóknari við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.  Jón H.B. bar að U hefði haft með sér talsvert af gögnum og óskað eftir að leggja fram kæru fyrir hönd Jóns Geralds Sullenberger, meðal annars á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva. 

          Jón Gerald, sem einnig er ákærður, kom svo til skýrslutöku hjá efna­hags­brotadeild ríkislögreglustjóra klukkan 10.00 að morgni sunnudagsins 25. ágúst 2002.  Í skýrslunni kvaðst hann “vilja greina frá atvikum sem hann taldi að kunni að varða við lög”, eins og segir í skýrslu lögreglufulltrúa.  Jón Gerald kvaðst vera kaupsýslumaður, búsettur í Flórída og reka þar fyrirtækið Nordica Inc.  Hann hafi um langt skeið stundað stórinnkaup á vörum í Bandaríkjunum er hann hafi selt til Íslands.  Stærstu viðskiptavinir hans þar hafi verið fyrirtæki feðganna F og sonar hans Jóns Ásgeirs, sem er ákærður í málinu.  Hin síðari ár hafi þeir verið einu viðskiptavinir hans, en viðskiptin verið honum mjög óhagstæð og hafi hann tapað á þeim síðustu þrjú árin.  Kvaðst Jón Gerald hafa leitað til lögmannsins er hafi ráðlagt honum að leita til lögreglu og aðstoðað hann við það.  Jafnframt væri lögmaðurinn að undir­búa einkamál vegna viðskiptanna.  Samkvæmt gögnum málsins slitnaði upp úr sam­skiptum Jóns Geralds og Baugs hf., og þeirra sem honum tengdust, vorið 2002.  Einka­málum, sem risið höfðu milli þeirra vegna viðskiptanna, lauk með sátt í Banda­ríkjunum í ágúst 2003 og á sama ári féll niður einkamál sem höfðað hafði verið hér á landi.

          Í lögregluskýrslunni er haft eftir Jóni Gerald að meint brot þeirra feðga og Tryggva Jónssonar hafi annars vegar verið þau að fá hann til að gefa út reikninga til að ná fé út úr Baugi hf. og hins vegar snúi þau að kaupum og rekstri skemmtisnekkju í Flórída, sem hafi verið fjármögnuð af fyrirtækjum þeirra feðga.  Á grundvelli fram­burðar Jóns Geralds og gagna frá honum var krafist dómsúrskurðar 28. ágúst, er heimilaði leit í húsnæði fyrirtækjanna Aðfanga hf. og Baugs hf. og jafnframt að handtaka framangreinda Jón Ásgeir og Tryggva.  Héraðsdómur Reykjavíkur heimilaði leit þennan sama dag og við leitina var lagt hald á mikið af gögnum.  Þá var Tryggvi handtekinn og hafður í haldi lögreglu þar til síðdegis næsta dag.  Jón Ásgeir var erlendis.

          Rannsókn lögreglu sem hófst í lok ágúst 2002 hélt áfram næstu árin og teygði anga sína víða um lönd.  Henni lauk með því að ríkislögreglustjóri gaf út ákæru 1. júlí 2005 á hendur F, syni hans, Jóni Ásgeiri, A, framan­greindum Tryggva og tveimur endurskoðendum, B og C, og var málið þingfest 17. ágúst.  Héraðsdómur taldi vera annmarka á málinu, er væru þess eðlis að varða kynni frávísun.  Var málflytjendum gefinn kostur á að flytja málið varðandi þau atriði 13. september og með úrskurði 20. sama mánaðar vísaði héraðsdómur málinu frá dómi.  Ríkislögreglustjóri kærði úr­skurðinn til Hæstaréttar og með dómi hans 10. október var fyrstu 32 ákæruliðunum vísað frá dómi.  Dómur gekk um þá 8 ákæruliði sem eftir voru, 15. mars 2006 og voru ákærðu öll sýknuð.  Hæstiréttur staðfesti dóminn 25. janúar sl.

          Eftir að frávísunardómur Hæstaréttar gekk sagði ríkislögreglustjóri sig frá málinu og, eftir að ríkissaksóknari sagði sig líka frá því, setti dómsmálaráðherra sérstakan ríkissaksóknara til að fara með það og gaf hann út ákæruna.  I. kafla ákærunnar, ákærulið 1, var vísað frá héraðsdómi 30. júní 2006.  Hæstiréttur staðfesti frá­vísunarúrskurðinn með dómi 21. júlí sama ár.

          Upphaf rekstrar Baugs hf. má rekja til þess að í apríl 1989 opnuðu þeir feðgar, F og Jón Ásgeir, lágvöruverðsverslunina Bónus.  Starfsemin óx með árunum og var Baugur hf. stofnað í júlí 1998 með samruna nokkurra félaga, sem störfuðu á sviði smásöluverslunar.  Núna er starfsemin hluti af fyrirtækinu Baugur Group, sem  er alþjóðlegt fjárfestingafélag með áherslu á fjárfestingar í þjónustu og smásölu­verslun og fasteignarekstur á Íslandi og erlendis. 

          Á þeim tíma sem rannsókn lögreglu hófst, þ.e. í ágúst 2002, var ákærði, Jón Ásgeir, stjórnarformaður Baugs hf., en hann hafði verið forstjóri þess frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002.  Ákærði, Tryggvi Jónsson, tók þá við starfi forstjóra, en hann hafði verið aðstoðarforstjóri frá miðju ári 1998.  Á meðan ákærði, Tryggvi, gegndi stöðu aðstoðar­forstjóra fór hann með daglega stjórn fjármála fyrirtækisins.

          Gaumur ehf., sem við sögu kemur hér síðar, er fjárfestingarfélag í eigu ákærða, Jóns Ásgeirs, foreldra hans og A, systur hans, sem er fram­kvæmda­stjóri félagsins.

III

          Í II. kafla ákærunnar, sem ber heitið Lánveitingar andstæðar lögum um hlutafélög, er ákærða, Jóni Ásgeiri, sem forstjóra Baugs hf., gefið að sök brot gegn lögum um hlutafélög með því að láta veita lán af fjármunum Baugs hf. til Fjár­festingar­félagsins Gaums ehf., Fjárfars ehf. og A á árunum 1999-2001.  Baugur hf. hafi á þessum tíma verið skráð hlutafélag á aðallista Verð­bréfa­þings Íslands með dreifða eignaraðild.

          Í ákæruliðum 2-6 er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa látið Baug hf. veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán eins og nánar er rakið í þessum liðum.  Í ákæruliðum 7-8 er ákærða gefið að sök brot gegn sömu lögum með því að hafa látið Baug hf. veita Fjárfari ehf., hluthafa í Baugi hf., lán eins og rakið er í þessum liðum ákærunnar.  Loks er ákærða í 9. ákærulið gefið að sök brot gegn sömu lögum með því láta Baug hf. veita A, hluthafa í Baugi hf., lán eins og rakið er í ákæruliðnum.

          Í ákærunni eru brot ákærða samkvæmt ákæruliðum 3, 4 og 6 talin varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 og brot ákærða samkvæmt ákæruliðum 2, 5, 7, 8 og 9 eru talin varða við 2. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr. sömu laga.

          104. gr. laga nr. 2/1995 er í XII. kafla laganna sem ber heitið Arðsúthlutun, vara­sjóðir o.fl.  Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. er hlutafélagi hvorki heimilt að veita hlut­höfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins, eða móðurfélags þess, lán né setja tryggingu fyrir þá.  Félagi er einnig óheimilt að veita þeim lán eða setja fyrir þann tryggingu sem giftur er eða í óvígðri sambúð með aðila samkvæmt 1. málslið eða er skyldur honum að feðgatali eða niðja ellegar stendur hlutaðeigandi að öðru leyti sérstaklega nærri.  Ákvæði þessarar málsgreinar taka þó ekki til venjulegra við­skipta­lána.

          Samkvæmt 2. mgr. má hlutafélag ekki veita lán til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess hvort heldur móðurfélagið er hlutafélag eða einka­hlutafélag.  Hlutafélag má heldur ekki leggja fram fé né setja tryggingu í tengslum við slík kaup.  Ákvæðin eiga þó ekki við um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá.

          Samkvæmt 2. tl. 153. gr. laga nr. 2/1995 varðar það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að brjóta vísvitandi ákvæði laganna um lán eða tryggingu til handa hlut­höfum o.fl. (104. gr.).

          Eins og hér kemur fram lýtur verknaðarlýsing 104. gr. ekki að athöfnum einstakl­ings heldur hlutafélags.  Í 153. gr. er engin verknaðarlýsing heldur vísar hún til 104. gr.  Í 4. mgr. 104. gr. segir að hafi félagið innt af hendi greiðslur í tengslum við ráðstafanir sem andstæðar eru 1. og. 2. mgr. skuli endurgreiða þær með dráttar­vöxtum.  Og í 5. mgr. segir að ef ekki sé unnt að endurgreiða féð eða afturkalla trygg­ingu séu þeir sem gerðu eða framkvæmdu síðar ráðstafanir samkvæmt 1. og 2. mgr. ábyrgir fyrir tapi félagsins.

          Í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, segir að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem var refsi­verð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað, eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi.  Þetta ákvæði hefur í framkvæmd verið talið gera ákveðnar kröfur til skýrleika refisheimilda, meðal annars með hliðsjón af túlkunum á 6. og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

          Hér að framan voru rakin þau ákvæði 104. gr. laga nr. 2/1995 sem ákæru­valdið telur ákærða hafa brotið.  Í þeim ákvæðum er lagt bann við tilteknum athöfnum hluta­félags en ekki einstaklings.  Þá er í greininni kveðið á um hvernig brugðist skuli við ef veitt eru lán eða tryggingar í andstöðu við bann greinarinnar.  Í 2. tl. 153. gr. laganna er einungis sagt að það varði refsingu að brjóta gegn 104. gr. eins og rakið var.  Samkvæmt þessu er verulegur brestur á að refsiheimild 104. gr. sé svo skýr að hægt sé að dæma einstakling á grundvelli hennar.  Af þessari ástæðu og með vísan til 69. gr. stjórnarskrárinnar er óhjákvæmilegt að vísa II. kafla ákærunnar, ákæruliðum 2-9, frá dómi.

IV

           III. kafli ákærunnar, ákæruliðir 10-16, ber heitið:  Meiri háttar bókhaldsbrot, rang­færsla skjala og brot gegn lögum um hlutafélög.  Í ákærulið 10 er ákærði, Jón Ásgeir, einn ákærður, en hann og ákærði, Tryggvi, í ákæruliðum 11-16.  Ákærði, Jón Gerald, er ákærður með þeim í ákærulið 15.  Nú verður gerð grein fyrir hverjum ákærulið fyrir sig og niðurstöðu dómsins varðandi hvern þeirra. 

             Ákæruliður 10.

          Í þessum lið segir að ákærða, Jóni Ásgeiri, sé gefið að sök meiri háttar bókhalds­brot með því að láta færa í bókhaldi Baugs hf. sölu á hlutafé félagsins í Baugi.net ehf., að nafnverði 2.500.000 krónur til Fjárfars ehf., sem ákærði stjórnaði og réð yfir, fyrir 50.000.000 króna.  Síðan er því lýst í ákæruliðnum hvernig þessi sala var færð í bókhaldi Baugs hf.  Þá er því lýst að Fjárfar ehf. hafi ekki greitt fyrir hlutaféð og hvernig við hafi verið brugðist með færslum í bókhaldi Baugs hf. sem lauk með eignfærslu 28. febrúar 2002 eins og rakið er í ákærunni.

          Í þessari efnislýsingu er því í engu lýst í hverju brot ákærða á að vera fólgið.  Aðeins er lýst færslum á viðskiptum sem gengu ekki eftir og hvernig við var brugðist með bakfærslu og loks eignfærslu á hlutabréfum sem höfðu verið seld, en kaupin gengið til baka.

          Í 116. gr. laga um meðferð opinberra mála kemur fram hvað greina skuli í ákæru, en samkvæmt c – lið er það hvert brotið er sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og önnur skilgreining og loks heimfærsla þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta.  Til að ákæra geti uppfyllt þessi skilyrði laganna verður verknaðarlýsing hennar að vera þannig úr garði gerð að hvorki ákærði né dómari þurfi að vera í vafa um hvaða refsiverð háttsemi ákærða er gefin að sök.  Verður að vera hægt að ráða þetta af ákærunni einni saman og skiptir engu hvaða ályktanir megi draga af rannsóknargögnum eða hvað ákærða kann að vera ljóst vegna rann­sóknar málsins.  Með ákærunni á þannig að leggja fullnægjandi grundvöll að málinu svo hægt sé að fella dóm á það samkvæmt því sem í ákærunni er tilgreint.  Í þessum ákærulið er ætluðu broti ákærða ekki lýst og er ákæruliðurinn því ekki í samræmi við nefnt lagaákvæði og óhjákvæmilegt að vísa honum frá dómi.  Breytir engu um þessa niðurstöðu að í ákæruliðnum er talað um að tilkynningar Baugs hf. til Verð­bréfa­þings Íslands hafi byggst á “framangreindri rangfærslu”, enda rangfærslunni í engu lýst.

          Til vara er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum eins og rakið er.  Með vísun til þess sem segir um refsiheimild hlutafélagalaga í III. kafla hér að framan er varakröfu ákæruvaldsins einnig vísað frá dómi.

             Ákæruliður 11.

          Í þessum ákærulið er ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., látið búa til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldinu með þeim hætti  að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Um hafi verið að ræða ranga og tilhæfulausa færslu að fjárhæð 25.000.000 króna til eignar á viðskipta­mannareikningi Kaupþings hf. og til tekna hjá Baugi hf. svo sem nánar er rakið í ákæru.

          Jafnframt er ákærða, Jóni Ásgeiri, gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands, 28. ágúst 2000 og 19. mars 2001, opinberar tilkynningar sem ákærða hafi verið ljóst að voru rangar og þannig skýrt vísvitandi og í blekkingarskyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapað þar með rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

          Með færslu 30. apríl 2000, sem merkt er nr. L0565, og með skýringartextanum “Tekjur v. ábyrgð á hlutabréfum” er viðskiptamannareikningur Kaupþings hf. eign­færður fyrir 25.000.000 króna með mótfærslu sömu fjárhæðar kredit á bók­halds­lykilinn F 51990  “aðrar fjármunatekjur”.  Fylgiskjalið með þessari færslu er hand­skrifað og óundirritað blað með sömu dagsetningu þar sem eftirfarandi skýring kemur fram:  “Tekjur Baugs v/ ábyrgðar á hlutabréfum í UVS. Heildartekjur 50 mills. 25 tekju­fært í apríl samkv. TJ.”  Auk þess koma fram á blaðinu færslufyrirmælin: D/viðskm. Kaupþing, K/51990-2-2. og færslumerkingin L 0565. Engin ytri gögn fylgja til staðfestingar þessarar færslu.

          Framangreind færsla er síðan millifærð með sömu dagsetningu milli bókhalds­lykla með færslu nr. L0618 og textanum “Lei.þóknun vegna hlutabréfa”, þannig að færðar eru 25.000.000 króna debet á fyrrgreindan bókhaldslykil F 51990 og kredit á bók­haldslykil F199222 “Tekjur utan samstæðu án vsk”.

          Síðastnefnd færsla er síðan bakfærð við gerð ársreiknings Baugs hf. fyrir reiknings­tímabilið 1. mars 2002 til 28. febrúar 2003 þannig að 25.000.000 króna eru færðar kredit á viðskiptamannareikning Kaupþings hf., ásamt öðrum færslum, og sama fjárhæð debet gegnum rekstrarreikning á bókhaldslykil F 52255 “Fjármagnsk. v. Kaupþ.Lux (rekstrarr)” með textanum “Bakf.fskj.L0565”.  Þessi bakfærsla, sem er dagsett 28. febrúar 2003, er gerð í tengslum við afstemmingu á vörslureikningi hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (hér eftir nefnt Kaupthing Lux), sbr. ákærulið 17 hér á eftir, en vörslureikningnum var þá lokað.  Eftir þessa bakfærslu eru áhrif upp­haflegra færslna á efnahag og rekstrarniðurstöðu færð til baka.

          Ákærði, Jón Ásgeir, kannaðist hvorki við færslu nr. L 0565 né fylgiskjalið sem henni fylgir. Hann bar að færslan tengdist ekki hlutabréfum í félaginu Urði Verðandi Skuld.  Kvaðst hann telja að ákærði, Tryggvi, hafi útbúið færsluskjalið og fengið það stað­fest eftir á af endurskoðanda félagsins að um eðlilega tekjufærslu hefði verið að ræða.  Ákærði kvaðst ekki hafa komið nálægt gerð skjalsins.

          Ákærði, Tryggvi, kannaðist ekki við handskrifaða fylgiskjalið, sem dagsett er 30. apríl 2000, og lá til grundvallar færslu L 0565 og neitaði að hafa komið að gerð þess á nokkurn hátt eða því að það hafi verið notað í bókhaldi Baugs hf. fyrir hans tilstilli.  Hann upplýsti þó að UVS sé fyrirtækið Urður Verðandi Skuld.  Nánar að­spurður bar hann að menn í yfirstjórn Baugs hf. hafi verið mikið á ferðalögum erlendis á þessum tíma og þess vegna hafi oft þurft að fara hratt yfir sögu varðandi ýmis mál með fjármálastjóra Baugs hf.  Hann kvaðst hafa verið að segja fjár­mála­stjór­anum frá því að Baugur hf. hefði fjárfest í hlutabréfum í Urði Verðandi Skuld og jafn­framt því verið að tala við fjármálastjórann um eitt og annað varðandi vörslu­reikn­inga, sbr. ákærulið 17, og að Baugur hf. væri með hlutabréf þar inni og það ætti að færa þar verðbætur upp á 25 milljónir.  Fjármálastjórinn hafi hins vegar nokkru síðar útbúið færslu eða fylgiskjal í þessu sambandi og þar hafi þetta misfarist.  Ákærði hafi síðan ekki séð þetta fylgiskjal fyrr en við yfirheyrslur hjá lögreglu.  Fylgiskjalið sé því ekki lýsandi um það sem þarna var verið að gera eða framkvæma. Ákærði bar að engin ytri fylgiskjöl hafi legið til grundvallar þessari færslu og það eina sem sé rétt í fylgiskjalinu séu bókhaldslyklarnir.  Ekki hafi verið um að ræða neina ábyrgð Baugs hf. á hlutabréfum í Urði Verðandi Skuld, en á þessum tíma hefði Baugur hf. verið að kaupa hlutabréf í því fyrirtæki fyrir eina milljón dollara, en þau hefðu verið flutt á vörslureikninginn í Luxemborg.  Færslurnar hafi ekkert með Urði Verðandi Skuld að gera.  Þetta séu fyrst og fremst verðbætur á eigin hlutabréf, sem voru þarna úti í Luxemborg.  Hann mundi ekki nákvæmlega hvernig fjárhæðin 25 milljónir var fundin, enda sé langt um liðið, en ákvörðun fjárhæðarinnar hafi verið frekar varfærin ef eitthvað var.  Varðandi uppfærslu verðbréfaeignarinnar, sem var seld samkvæmt bókum Baugs hf., vísaði ákærði til þess að skráning á eigin hlutabréfum hafi farið að nafninu til yfir á Kaupþing hf. á árinu 1999, sbr. ákærulið 17., en síðar hafi verið litið á vörslureikninginn hjá Kaupthing Lux sem venjulegan vörslureikning.  Þessi verð­bóta­færsla hafi verið færð eingöngu í eitt skipti.  Ákærði vísaði til þess að fjárhæðin og færslan hafi verið rétt en skýringartextinn ekki réttur. Ákærði bar að tölvupóstur frá honum, frá 3. ágúst 2000, til D framkvæmdastjóra hjá Kaupþingi í Luxemborg, styðji framburð sinn.  Þar sé minnst á hugsanlega ábyrgðar­þóknun til handa Baugi hf. frá Kaupþingi hf. að fjárhæð 500.000 bandaríkjadalir, vegna hlutabréfa í Urði Verðandi Skuld, en bréfin hafi átt að selja viðskiptavini Kaupþings hf.  Væntanlegur kaupandi hefði hins vegar hætt við kaupin og hefði því grund­völlurinn fyrir tekjum af ábyrgðarþóknuninni fallið niður.

          Nefndur tölvupóstur var borinn undir nefndan D sem kannaðist ekki við að Kaupþing hf. hafi skuldað Baugi hf. hálfa milljón bandaríkjadala vegna ábyrgðar­þóknunar og bar hann að engar færslur þar að lútandi væru á bankareikningum Baugs hf. hjá Kaupthing Lux.

          E, fjármálastjóri Baugs hf., bar um fylgiskjal nr. L 0565 að það hafi orðið til í samtölum hennar og ákærða, Tryggva, og þetta hafi verið punktar sem hún tók niður á fundi með honum.  E bar að fyrirtækið Urður Verðandi Skuld hafi ekki verið skráð í bækur Baugs hf. hér heima.  Að öðru leyti mundi hún ekki eftir til­drögum færslunnar.  Hún kveðst hafa fært áfallnar verðbætur á öll lán í hverjum mánuði og varðandi 25 milljónirnar líti út fyrir að þarna hafi verið um að ræða upp­færslu á verðbótum á þessa eign.  Ástæða þess að þetta hafi verið fært á Kaupþing hf. sé að til hafi verið lykill á efnahagsreikningi á Kaupþing hf. og hlutabréf hafi verið í umsjá Kaupþings hf.  E bar að vel geti verið að hún hafi verið að rugla þessu saman við eitthvað annað.

          Af hálfu ákærðu er því haldið fram að með eign- og tekjufærslu á þeim 25.000.000 króna sem ákært er fyrir hafi verið ætlunin að tekjufæra verðhækkanir á eigin hlutum Baugs hf., sem fluttir höfðu verið á vörslureikning félagsins hjá Kaupthing Lux. Verður því ekki komist hjá því að taka afstöðu til þess hvort slík færsla kunni að hafa verið réttlætanleg.

          Eins og rakið verður hér á eftir í umfjöllun um ákærulið 17 er það niðurstaða dómsins að 40.000.000 hlutir hafi áfram verið í eigu Baugs hf., þrátt fyrir flutninginn yfir á vörslureikning félagsins í júní 1999 og tilgreiningu Kaupthing Lux sem eiganda þeirra að nafninu til.  Þá kemur fram samkvæmt yfirliti yfir vörslureikning Baugs hf. hjá Kaupthing Lux að 20.000.000 hlutir voru færðir út af reikningnum 15. júní 1999 til þess að fullnægja kaupréttarákvæðum æðstu stjórnenda Baugs hf. að hluta.  Það er þannig ljóst að í lok júní 1999  stóðu eftir 20.000.000 hlutir í Baugi hf. sem, miðað við gengið 8,2691, voru bókfærðir á 165.382.000 krónur, sbr. nánar ákærulið 17.  Miðað við yfirlit frá Kaupthing Lux yfir vörslureikning nr. 400017 voru þessir 20.000.000 hlutir óhreyfðir á vörslureikningnum í lok júní 2000.  Svo sem lýst er hér að framan var færsla nr. L 0565 dagsett 30. apríl 2000 en þá var skráð gengi hluta í Baugi hf. 13.  Gengi hlutanna í lok 6 mánaða uppgjörstímabilsins, það er 30. júní 2000, var 12,65. Af þessu verður ráðið að virði eigin hlutanna í Baugi hf. var mun hærra en bókfært verð þeirra.

           Samkvæmt áliti reikningsskilanefndar Félags löggiltra endurskoðenda frá 29. september 1999 skal færa eigin hlutabréf hlutafélags til lækkunar á eigin fé, en álit þetta byggði á áliti álitsnefndar alþjóðlegu reikningsskilanefndarinnar (Standing Interpretation Committee – SIC), sem byggði meðal annars á alþjóðlegum reiknings­skila­staðli nr. 32 (IAS 32).  Með lögum nr. 45/2005 er lögfest reglugerð ESB nr. 1606/2002, um innleiðingu reikningsskilastaðla reikningsskilanefndar IASB (International Accounting Standards Board).  Fyrir gildistöku nefndra laga kemur ekki til álita að beita þessum reikningsskilastöðlum í málinu.

          Meginreglan um skráningu veltufjármuna var í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga en þar segir að veltufjármuni skuli ekki færa til eignar við hærra verði en kostnaðarverði eða raunverði ef það er lægra, sbr. nú 1. mgr. 32. gr. laga nr. 3/2006.  Frávik frá þessari reglu var í 29. gr. þágildandi ársreikningslaga þar sem segir að verðbréf sem ekki séu ætluð til varanlegrar eignar og skráð séu á opin­beru verðbréfaþingi sé heimilt að meta við síðasta skráða kaupgengi þrátt fyrir ákvæði 26. gr.

          Samkvæmt 34. gr. þágildandi laga um ársreikninga var aðalreglan að eigin hlutir skyldu færðir til lækkunar á heildarhlutafé.  Undantekningin var að eigin hlutir, sem keyptir höfðu verið á síðustu tveimur reikningsárum, mátti færa til eignar enda hefði þeirra verið aflað í þeim tilgangi að selja þá aftur.  Samkvæmt reglugerð nr. 696/1996, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga, er gert ráð fyrir því, sbr. t.d. í 4. tl. c liðar 3. gr., undir liðnum verðbréf og eignarhlutar, að meðal eigna í efnahagsreikningi skuli sérgreina eigin hluti, sbr. 34. gr. laga um árs­reikninga.

          Ákvæði nefndrar reglugerðar eru misvísandi varðandi það hvort færa skuli mats­breytingar eignarhluta í skráðum félögum á rekstrarreikning eða eigið fé,

þó líklegast sé að matsbreyting hlutabréfa á markaði eigi að fara á eigið fé, sbr. 2. tl. d liðar 3. og 4. gr. reglugerðarinnar.

          Af framansögðu má ráða að eignfærsla eigin hluta Baugs hf. hafi ekki verið óheimil enda hefur komið fram í málinu að þeirra hafi verið aflað til þess að uppfylla kaup­réttarákvæði í samningum við æðstu stjórnendur félagsins.  Óljósara er með heimild til tekjufærslu hækkana á matsverði eigin hluta gegnum rekstrarreikning. Þessi vafi leiðir til þess að ekki verður byggt á því í refsimáli að slík hækkun hafi verið óheimil.

          Hér fyrr var það rakið að ákærði, Tryggvi, bar fyrir dómi að fylgiskjalið frá 30. apríl 2000, sem lá til grundvallar færslu nr. L 0565, hafi verið efnislega rangt og ekki tengst fyrirtækinu Urði Verðandi Skuld eins og það bar með sér að gera.  Þá bar ákærði, Jón Ásgeir, að nefnd færsla hafi ekki tengst hlutabréfum þeim sem Baugur átti í Urði Verðandi Skuld.

          Með framburði ákærðu og vitna er sannað að framangreint fylgiskjal, sem lá til grundvallar færslu nr. L 0565, er efnislega rangt og tengist ekki fyrirtækinu Urði Verðandi Skuld, eins og það ber með sér að gera.  Fyrir liggur í málinu að fylgiskjalið varð til eftir fund milli ákærða, Tryggva, og fjármálastjóra Baugs hf.  Skýring ákærða, Tryggva, um að um misskilning hafi verið að ræða við gerð fylgiskjalsins fær stuðning í framburði fjármálastjórans, sem ekki útilokar að um slíkt hafi verið að ræða.  Samkvæmt þessu er ósannað að ákærði, Tryggvi, hafi af ásetningi eða af stór­felldu gáleysi látið búa til fylgiskjalið með hinu ranga efni og verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.  Þá er ósannað að ákærði, Jón Ásgeir, hafi vitað um þau gögn sem til urðu í samskiptum þeirra ákærða, Tryggva, og fjármálastjórans og færslu þeirra.  Það er einnig ósannað að ákærði hafi vitað annað en tilkynningar, sem sendar voru Verðbréfaþingi Íslands, hafi verið réttar.  Ákærði, Jón Ásgeir, er því einnig sýknaður af því sem á hann er borið í þessum ákærulið.

             Ákæruliður 12.

          Ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, er í þessum ákærulið gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf. og hagað því með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Ákærða, Tryggva, er gefið að sök að hafa, með vilja og vitneskju ákærða, Jóns Ásgeirs, látið færa 13.045.954 krónur til eignar á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf. í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá félaginu, með færslu sem lýst er í ákærunni.  Færslan hafi verið bakfærð við gerð ársreiknings Baugs hf. fyrir tímabilið 1. mars 2002 til 28. febrúar 2003.

          Þegar ákveðið var að hefja sölu á hlutabréfum í Baugi hf. á markaði tóku Kaup­þing hf. og Fjárfestingabanki atvinnulífsins (FBA) að sér söluna.  Forsvarsmenn Baugs hf. höfðu hins vegar milligöngu um sölu á bréfum til norska félagsins Reitan Gruppen og töldu þeir að Baugi hf. bæri hluti af þóknuninni sem bankarnir tóku fyrir söluna á bréfunum.  Framangreind færsla á rót sína í þessum viðskiptum.

          Ákærði, Jón Ásgeir, bar að um hafi verið að ræða færslu á kröfu á Kaupþing hf. vegna sölu hlutabréfa sem Kaupþing hf. átti í Baugi hf. til Reitan Gruppen.  Baugur hf. hafi séð um að selja þessi bréf.  Félagið hafi einnig séð um að selja bréf er FBA átti og hafi bankinn gefið afslátt af þóknun sinni vegna sölunnar.  Sama aðferð hafi verið notuð gagnvart kröfunni um þóknun á Kaupþing hf. og hlutfallslega sama fjár­hæð færð sem eign á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., enda hafi félagið viður­kennt kröfuna.  Það hafi hins vegar dregist að fá hana greidda.  Ákærði kvaðst að öðru leyti ekki hafa komið nálægt færslunni í bókhaldið.  Aðspurður af hverju færslan hafi verið án fylgiskjala kvað ákærði hana hafa byggst á munnlegum samningi.  Færslan hafi síðar verið bakfærð vegna þess að þá hafi verið búið að gera þóknunina upp í öðrum viðskiptum, en ekki kvaðst ákærði muna hver þau hafi verið.

          Ákærði, Tryggvi, bar að hann og meðákærði hafi fundið fjárfesta að bréfum í Baugi hf. og, vegna þess að tregðu hafi gætt hér á landi til að kaupa, hafi verið leitað til Reitan Gruppen sem hafi keypt hluti.  Ákærðu hafi talið eðlilegt að Baugur hf. fengi hlut af þóknun FBA og Kaupþings hf. fyrir að selja bréfin og hafi verið tekið vel í það.  FBA hafi gengið frá sínum málum, en Kaupþing hf. ekki þótt það hafi sam­þykkt kröfuna og ákærðu gengið á eftir greiðslu.  Ákærði gat ekki borið um færsluna sjálfa og minntist þess ekki að hafa gefið fyrirmæli um hana, en ákærðu hafi talið rétt að bóka hana með þeim hætti sem gert var.  Fjárhæðin hafi verið reiknuð út með sama hætti og krafan á FBA.  Ákærði kvaðst hafa verið hættur störfum hjá Baugi hf. þegar færslan var bakfærð og því ekki geta borið um hana. 

          F bar að hann hafi, þegar erfiðlega hafi gengið að selja hluti í Baugi hf., hringt í G og selt honum stóran hlut í félaginu.  Taldi F félagið hafa átt að fá þóknun fyrir þessa sölu.

          E, sem var fjármálastjóri Baugs hf. á þessum tíma, gat ekkert um færsluna borið.  Hið sama gilti um aðra starfsmenn Baugs hf. er komu fyrir dóminn. 

          H, var forstjóri Kaupþings hf. á þessum tíma.  Hann bar að stjórnendur Baugs hf. hafi haft milligöngu um sölu á hlutafé til Reitan Gruppen og töldu þeir að félaginu bæri hluti af söluþóknun Kaupþings hf. fyrir vikið.  Ekki mundi H hvernig viðræðum um þessa kröfu lyktaði en taldi líklegast að hún hafi verið gerð upp í öðrum viðskiptum. 

          I, var aðstoðarforstjóri Kaupþings hf. á þessum tíma.  Hann bar að forsvarsmenn Baugs hf. hafi alfarið séð um sölu á hlutafé til Reitan Gruppen og þeir hafi talið sig eiga rétt á hlut í þóknun vegna þessa, en ekki mundi hann um hvaða fjárhæðir eða prósentutölu var rætt í því samhengi.  Um þessa kröfu hafi oft verið rætt og taldi I að hún hefði verið gerð upp í sambandi við alls­herjaruppgjör á mörgum viðskiptum, en ekki gat hann gert nánari grein fyrir þeim.  Hann staðfesti hins vegar að krafan hafi verið viðurkennd í uppgjörinu. 

          Meðal gagna málsins er bréf Kaupþings banka hf. frá 1. júlí 2005 undirritað af J, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs, og K, fram­kvæmdastjóra fjármálasviðs, þar sem svarað er spurningu efnahagsbrotadeildar ríkis­lögreglustjóra um komu Baugs hf. að viðskiptunum og hvort kostnaður vegna þeirra hafi verið færður í bókhald bankans, svo sem vegna þóknunar til Baugs hf.  Í svar­bréfinu segir:  “Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar verður ekki séð að þessi kostnaður hafi verið færður í bókhald bankans og ekki eru til skriflegir samningar eða önnur skrifleg gögn sem sýna aðkomu Baugs að viðskiptunum.”  J og K komu bæði fyrir dóm og staðfestu efni bréfsins.

          L, forstjóri Glitnis hf. áður Íslandsbanka hf., gat ekki með vissu borið um þóknun til Baugs hf. í þessum viðskiptum. 

          M, starfsmaður Kaupþings hf. á þessum tíma, bar að forsvars­menn Baugs hf. hafi haft milligöngu um sölu á hlutum til Reitan Gruppen vegna þess að erfiðlega hafi gengið að selja hluti í félaginu hér á landi og hafi þeir viljað að félagið fengi hlutdeild í þóknun Kaupþings hf. fyrir vikið.  Ekki gat hann  borið um með vissu hvernig þau máli voru þó leyst á endanum.

          Með framburði ákærðu og vitna, sem rakinn var, er sannað að ákærðu töldu sig eiga kröfu á Kaupþing hf. vegna þóknunar fyrir sölu hlutabréfa.  Þótt ekkert skjal hafi verið gert um kröfuna, og ekkert formlegt samkomulag, er sannað, með fram­burði framangreindra vitna, að hún var til og var gerð upp í viðskiptum Baugs hf. og Kaup­þings hf. síðar og í framhaldinu bakfærð, eins og lýst er í ákærunni.  Af þessu leiðir að ósannað er að ásetningur ákærðu hafi staðið til þess að rangfæra bókhald Baugs hf. eins og þeim er gefið að sök.  Það var hins vegar gáleysi af þeirra hálfu að afla ekki gagna, sbr. 8. gr. bókhaldslaga, áður en þeir létu færa kröfuna.  Krafan átti sér hins vegar stoð í viðskiptum og þess vegna metur dómurinn gáleysi ákærðu ekki stórfellt.  Samkvæmt þessu verða þeir sýknaðir af þessum ákærulið.  Með sömu rökum er ákærði, Jón Ásgeir, sýknaður af ákæru um rangfærslu skjala og brot gegn hluta­félagalögum.

             Ákæruliður 13.

          Ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, er í þessum ákærulið gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., látið búa til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gaf ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna eins og rakið er í ákærunni.

          Vorið 1999 keypti Baugur hf. verslanir 10-11 og voru kaupin gerð á for­sendum sem Gaumur ehf. hafði lagt fyrir hluthafa Baugs hf.  Í kjölfarið kom upp óánægja hjá hluthöfum Baugs hf. vegna slæmrar stöðu verslana 10-11, en hún mun hafa verið verri en þeir höfðu gert ráð fyrir.  Forstjóri Baugs hf., ákærði, Jón Ásgeir, lagði þá til að Gaumur ehf. myndi leggja fé til markaðssetningar og annars meðan verið væri að koma rekstrinum í betra horf.  Gefnir voru út tveir reikningar af 10-11 á hendur Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf.  Var annar að fjárhæð 30.000.000 króna en hinn að fjárhæð 10.000.000 króna og voru þeir bókaðir með þeim hætti sem lýst er í ákærunni.

          Ákærði, Jón Ásgeir, bar að hann hafi lagt mikið kapp á að Baugur hf. eignaðist verslanir 10-11 og þess vegna hafi það verið sér vonbrigði þegar í ljós hafi komið að rekstur þeirra gekk ekki sem skyldi.  Sér hafi fundist að hann bæri ábyrgð á því að Baugur hf. réðist í kaupin og því lagt það til við meðeigendur sína í Gaumi ehf. að félagið styrkti rekstur 10-11 með þessu framlagi til auglýsingaherferðar og þátttöku í stjórn­unarkostnaði vegna hennar.  Krafa um þetta hafi hins vegar ekki komið frá hlut­höfum í Baugi hf.  Reikningarnir hafi verið gefnir út af þessu tilefni og hafi hann ráðið texta þeirra.

          Ákærði, Tryggvi, bar að hann hefði ekki komið að útgáfu reikninganna, en kvað þarna hafa verið um að ræða styrk frá Gaumi ehf. til Baugs hf. vegna þess að væntingar vegna kaupa þess síðarnefnda á verslunum 10-11 hafi ekki gengið eftir.     

          A, framkvæmdastjóri Gaums ehf., bar að fljótlega eftir kaup Baugs hf. á verslunum 10-11 hafi komið í ljós að þær þurftu á meiri markaðs­setningu að halda og hafi verið ákveðið að Gaumur ehf. styrkti hana og hafi féð verið greitt inn á viðskiptareikning. 

E, fjármálastjóri Baugs hf., gat ekki borið um þessa reikn­inga og færslur þeirra.

          Í, stjórnarformaður Baugs hf., bar að það hafi verið rætt í stjórn­inni að ekki hafi verið jafn góð kaup í verslunum 10-11 og höfðu átt að vera.  Ákærða, Jóni Ásgeiri, hafi fundist hann verða að koma til móts við þessi sjónarmið og beitt sér fyrir þessum greiðslum frá Gaumi ehf.

          Í þessum ákærulið er ákærðu gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot og heldur ákæru­valdið því fram að reikningarnir sem þeir hafi látið færa í bókhaldi Baugs hf. hafi ekki átt sér stoð í viðskiptum við aðra aðila.  Ákærðu hafa neitað sök og gefið þær skýringar sem að framan voru raktar.  Þessar skýringar fá stoð í framburði vitna.  Það er niðurstaða dómsins að ósannað sé að viðskipti þau sem þessi ákæruliður fjallar um hafi ekki átt sér stað og því hafi færslurnar sem byggðust á þeim verið réttmætar.  Af þessu leiðir að ákærðu verða sýknaðir af þessum lið ákærunnar.  Með sömu rökum er ákærði, Jón Ásgeir, sýknaður af ákæru um rangfærslu skjala og brot gegn hluta­félaga­lögum.

             Ákæruliður 14. 

          Í þessum ákærulið er ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að láta færa í bókhaldi Baugs hf. þrjár rangar færslur. 

          Í fyrsta lagi er færsla ákærða, Tryggva, með vitund og vilja ákærða, Jóns Ásgeirs, á sölu hlutabréfa Baugs hf. í Arcadia Group Plc. að nafnverði 3.100.000 pund til Kaupþings hf. fyrir 332.010.000 krónur.  Telur ákæruvaldið að þessi sala hafi ekki átt sér stað í raun. 

          Í öðru lagi er því haldið fram í ákæru að ákærði, Tryggvi, hafi með rangri færslu látið líta svo út að Kaupþing hf. hafi greitt Baugi hf. kaupverð hlutabréfanna 2. febrúar 2001.  Fjárhæð sú sem greidd var hafi í raun verið lán frá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (hér eftir nefnt Kaupthing Lux). 

          Þá er því í þriðja lagi haldið fram að ákærði,Tryggvi, hafi látið færa í júní 2001, með skráðan færsludag 11. maí 2000, kaup félagsins á þessum sömu bréfum fyrir 544.050.000 krónur af Kaupþingi hf.  Í raun hafi hlutafé Baugs hf. í Arcadia Group Plc. verið lagt inn í A-Holding S.A. sem framlag Baugs hf. 

          Í ákæru er sagt að með þessum færslum hafi ranglega verið búinn til hagnaður í bókhaldi Baugs hf. á árinu 2000 að fjárhæð 164.610.536 krónur.  Þá hafi verið ranglega búin til skuld í bókhaldinu á árinu 2001 að fjárhæð 212.040.000 krónur.  Þessar færslur hafi síðan verið leiðréttar á árinu 2003 þegar reikningar félagsins hjá Kaupthing  Lux hafi verið færðir inn í bókhald félagsins. 

          Í ákæru segir einnig að tilkynning til Verðbréfaþings Íslands um afkomu félagsins á árinu 2000 hafi verið í samræmi við ársreikning er byggður hafi verið á þessum röngu færslum.  Sé því sýndur 115 milljóna króna meiri hagnaður eftir skatta en ella hefði verið, og 2,3% hærra eigið fé. 

          Loks er ákærða, Jóni Ásgeiri, gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hluta­félagalögum með því að láta senda framangreinda tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands, vitandi að hún var röng.   

          Það sem um er að ræða í þessum ákærulið er færsla nr. I00296 í bókhaldi Baugs hf. frá 31. desember 2000 þar sem færðar eru 167.399.464 krónur til lækkunar á hlutafjáreign, 164.610.536 krónur sem tekjufærsla hagnaðar af sölu og 322.010.000 krónur sem inneign á viðskiptamannareikningi Kaupþings hf., svo sem nánar er rakið í ákæru, en þar kemur enn fremur fram á hvaða grundvelli hún er byggð.  Nefnd inneign er síðan jöfnuð út með færslu nr. T000630 2. febrúar 2001, þar sem látið er líta út fyrir að greiðsla á kaupverði bréfanna komi frá Kaupþingi hf. til greiðslu inn á tékka­reikning Baugs hf. hjá Íslandsbanka hf. þegar greiðslan kom í raun frá vörslu­reikningi Baugs hf. hjá Kaupthing Lux sem ekki var færður í bókhaldi Baugs hf.  Með færslu nr. L1073 11. maí 2001, eru síðan 544.050.000 krónur færðar debet sem stofn­framlag Baugs hf. í A-Holding, eignarhaldsfélagi um Arcadia bréfin, en kredit á við­skipta­reikning Kaupþings hf. í bókhaldi Baugs hf., eins og nánar er lýst í ákæru, sem þýddi að hann stóð þá í skuld að fjárhæð 544.050.000 krónur. Með færslu nr. I00743 30. júní 2001 með textanum “Lokaf. Bakf. skuld við Kaupþing” er þessi kredit mis­munur, að undanskildum 50.000 krónum, færður af viðskiptareikningi Kaupþings hf. með 544.000.000 krónum yfir á viðskiptareikning Baugs Holding S.A. í kredit.  Í bók­haldi Baugs hf. fyrir árið 2003 voru síðan gerðar leiðréttingar á framangreindum færslum með nokkrum færslum 31. desember 2003, en eftir þær færslur var búið að tekju­færa hagnað af sölu hlutabréfanna í Arcadia í bókhaldi Baugs hf. sem nam rúmum 212 milljónum króna.  Eins og að framan er lýst var áður búið að tekjufæra rúmar 164 milljónir krónur í árslok 2000 sem hagnað af sölu hlutabréfa í Arcadia þannig að eftir þessar færslur á árinu 2003 hafði hagnaður vegna þessara hluta­bréfa­viðskipta að fjárhæð rúmar 376 milljónir króna verið tekjufærður í gegnum rekstrar­reikning Baugs hf. sem hagnaður af sölu hlutabréfa. Samkvæmt framangreindu virðast færslurnar á árinu 2001 hafa í för með sér frestun tekjufærslu á 212 milljónum króna til síðari tíma.        

          Ákærði, Jón Ásgeir, bar að bréfin í Arcadia hafi verið skammtímaeign og á þessum tíma hafi verið talið heimilt að færa skammtímaeignir upp til markaðsverðs.  Þessar færslur gefi því rétta mynd.  Um aðkomu sína að færslunni kvað ákærði þetta hafa verið fært á fjármálasviði félagsins, en hann hefði gefið fyrirmæli um að færa eignir eins og þessa upp að markaðsvirði.  Hann hafi ekki vitað af þessum færslum.  Komið hafi fram í samþykkt stjórnar að þetta væri skammtímaeign og hluturinn hafi raunar verið seldur inn í annað félag stuttu síðar. 

                                                                        Ákærði bar að Baugur hf. og Gaumur ehf. hefðu byrjað að kaupa bréf í Arcadia síðari hluta árs 2000.  Hann hefði að mestu séð um þessi kaup fyrir Baug hf., en ákærði, Tryggvi, komið að þeim síðar. 

                                                                        Ákærði kvaðst telja að Baugur hf. hafi haft umráð bréfanna meðan framvirkir samn­ingar voru í gangi.  Hann hafi hins vegar ekki vitað um alla framvirka samninga sem í gildi voru.  Þeir hafi varðað skammtímafjármögnun félagsins sem hann hafi ekki haft umsjón með. 

                                                                        Ákærði, Tryggvi, bar að þessi viðskipti hafi verið færð sem sala í bókhaldinu og hann hafi litið á þetta sem sölu.  Hvernig sem á það væri litið breytti það engu um reiknings­skilin.  Baugur hf. hafi verið að fjárfesta í Arcadia um nokkurt skeið er þetta átti sér stað.  Það hafi verið litið á þetta sem skammtímafjárfestingu og hafi verið fjár­magnað með láni frá Íslandsbanka hf.  Ákærði kvaðst hafa viljað selja þessi bréf og lækka skuldir.  Hann hafi sett söluferli í gang í desember, en það hafi tekið tíma að losa bréfin þar sem þau hafi verið veðsett eða í vörslu erlendis.  Þetta hafi því ekki klárast fyrr en eftir áramótin.  Í millitíðinni hafi ákærði, Jón Ásgeir, samið við FBA, Íslands­banka hf. og Kaupþing hf. um stofnun A-Holding og að lokum hafi bréfin verið lögð inn í það félag.  Taldi ákærði að færslan hefði alltaf átt rétt á sér vegna þess að það eigi sér stað tekjufærsla, hvort sem bréfin séu seld eða ekki.  Munurinn liggi í því hvort það sé söluhagnaður eða verðhækkun hlutabréfaeignar.  Hvort sé valið breyti engu um ársreikninginn.  Það breyti engu um rekstrarniðurstöðu ársins 2000, eigið fé ársins 2000, eða efnahagsreikninginn, það er niðurstöðutölur þeirra, hvort sem var innan tímabilsins eða milli áranna 2000 og 2001. 

                                                                        Ákærði hélt því fram að hann hefði verið búinn að semja um þessi viðskipti í desember 2000, þó að skjölin hefðu ekki verið undirrituð fyrr en í byrjun febrúar 2001.  Hann hefði viljað halda sig við að ganga frá þessum skjölum, þó að þá hefði verið búið að stofna A-Holding og færa bréfin inn í það félag.  Það hefði ekki breytt neinu efnislega.  Ekki hafi verið hægt að ganga frá þessu í desember vegna þess að bréfin voru þá veðsett erlendis á vegum Íslandsbanka hf. 

                                                                        Ákærði kvaðst vita að svonefndur „Share transfer agreement” fæli ekki í sér raun­verulega sölu, heldur einungis nafnskráningu til vörsluaðila. 

                                                                        D, framkvæmdastjóri Kaupthing Lux, gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti að samningur 29. desember 2000 hafi verið undirritaður í byrjun febrúar 2001.  Hann bar að hann hefði rætt þessi málefni við ákærða, Tryggva, fyrir ára­mótin, en ekki hefði verið gengið frá skjölunum fyrr en í febrúar. 

                                                                        N, stjórnarmaður í Baugi hf., kannaðist við umræður í stjórn félagsins um kaup á hlutum í Arcadia og hafi það verið ætlunin að eignast þar stóran hlut.  N kvaðst hafa haft efasemdir um þessi kaup vegna þess að hann hafi haft takmarkaða þekkingu á tískufatnaði kvenna.  

                                                                        Í, stjórnarformaður Baugs hf., bar að það hefði fyrst og fremst verið ákærði, Jón Ásgeir, sem vann í því að kaupa hlut í Arcadia.  Ákærði, Tryggvi, hafi verið í öðrum verkefnum á þessum tíma og verið mikið á ferðinni.  Í fyrstu hafi ekki verið skýrar hugmyndir um hvað stjórnendur Baugs hf. vildu með því að kaupa þessi hlutabréf.  Það hafi breyst er kom fram á árið 2001 og þá hafi þeir viljað eignast stóran hlut.  Það hafi hins vegar í byrjun verið ákveðin togstreita innan stjórnarinnar, því Baugur hf. hafi á þessum tíma verið smásölufyrirtæki, en ekki fjárfestingafélag.  Þegar ákveðið hafi verið að fjárfesta verulega í Arcadia hafi komið í ljós að Baugur hf. gæti ekki gert það einn og því hafi A-Holding verið stofnað. 

                                                                        Í staðfesti fyrir dómi bréf frá 28. maí 2004, sem hann hafði sent lög­reglu.  Í því kemur fram að Baugur hf. stofnaði vörslureikning hjá Kaupthing Lux á árinu 1998.  Síðan er lýst aðdragandanum að því að Baugur hf. og Gaumur ehf. fengu Íslands­banka-FBA og Kaupþing hf. til samstarfs um kaup á 20% hlut í Arcadia snemma árs 2001.  Orðrétt segir síðan:  “Þeir Tryggvi (ákærði) og [...] (vitnið D) virðast ekki hafa verið hafðir með í ráðum þegar útfærsla á fjár­mögnun A-Holding var á teikniborðinu.  Salan á hlut Baugs í Arcadia var bókfærð hjá Baugi eins og áður greinir (...) og samkvæmt bókhaldi félagsins var hluturinn keyptur aftur af Kaupthing Bank, eftir að ákveðið var að stofna A-Holding og leggja bréfin veðbandalaus inn í það félag.  Kaupin fóru fram á markaðsverði miðað við 15. febrúar 2001, eða GBP 1,35, alls GBP 4.185.000, sem svarar til 544 milljóna króna ... en það gengi er í samræmi við viðskipti annarra hluthafa A-Holding við stofnun þess félags um líkt leyti.  Skýrist hækkunin úr 332 í 544 milljónir króna af breytingum á gengi hlutafjár í Arcadia.  Líkt og áður segir gat Baugur ekki afhent bréfin í Arcadia þar sem veðböndum hafði ekki verið aflétt.  Viðskiptin gengu því til baka með gerð greinds kaupsamnings.  Engin greiðsla var innt af hendi vegna kaupanna.”

          B, löggiltur endurskoðandi, staðfesti fyrir dómi að hann hefði séð kaupsamninginn, Share Transfer Agreement, sem færslan er byggð á áður en lokafærsluskjalið var útbúið hjá endurskoðun KPMG.  Hann kvaðst hafa litið á þetta sem kaupsamning, samning um sölu bréfanna til Kaupthing Lux.  Tilgangurinn hafi verið að fá fjármagn inn í reksturinn.  Fram kom í skýrslu B að hann hefði ekki vitað að kaupsamningurinn var ekki undirritaður fyrr en í febrúar. 

          C, löggiltur endurskoðandi, sagði að sér hefði verið tjáð að viðskiptin við Kaupþing hf. um Arcadia bréfin hefðu gengið til baka.  Það hafi átt að hafa gerast í gegnum vörslureikninginn.  Mismunurinn á söluverðinu, 332 milljónum króna, og 544 milljóna króna kaupverði hefði ekki verið færður í bókhaldið fyrr en síðar.  Endurskoðendurnir hefðu staðið í þeirri meiningu að bréfin hefðu verið seld í árslok 2000 og keypt aftur fyrri hluta árs 2001 fyrir hærra verð.  Taldi hún að endan­legar færslur eftir leiðréttingar hefðu sýnt að bréfin hefðu aldrei farið úr eigu Baugs hf. 

                                                                        Ákæruliður þessi í þremur hlutum varðar færslur sem ákæruvaldið telur rangar, en þær tengjast allar innbyrðis. 

                                                                        Fyrsti hluti þessa ákæruliðar varðar það að færsla á sölu hlutabréfa í Arcadia með færsludegi 31. desember 2000 hafi verið röng.  Salan hafi ekki átt sér stað.  Þá segir að ákærði, Tryggvi, hafi látið færa 332.010.000 krónur til eignar á við­skipta­manna­reikningi Kaupþings hf. í bókhaldi Baugs hf., fært 167.399.464 krónur til lækk­unar á erlendri hlutabréfaeign og 164.610.536 krónur sem tekjur af sölu hlutabréfa.  Telur ákæruvaldið færslu þessa tilhæfulausa og bókun um skuld Kaupþings hf. við Baug hf. hafi einnig verið tilhæfulaus. 

                                                                        Það er niðurstaða dómsins að hér hafi efnislega ekki farið fram sala hlutafjár.  Hluta­féð var með samningnum afhent Kaupthing Lux til vörslu, en ekki selt og var færslan því röng.

 Annar hlutinn varðar færslu 2. febrúar 2001, þar sem látið er líta út fyrir að inn­borgun á bankareikning Baugs hf. á Íslandi sé greiðsla frá Kaupþingi hf. á kaup­verði hlutabréfanna í Arcadia, sbr. fyrsta hluti hér að framan, þegar innborgunin var í rauninni lán sem veitt var gegnum vörslureikning Baugs hf. hjá Kaupthing Lux sem ekki var færður í bókhaldi Baugs hf.  Sannað er að um ranga færslu var að ræða, en hún var til þess fallin að gefa ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Er sannað, eins og rakið var, að ákærði, Tryggvi, hafi staðið að þessari færslu.                                                          

                                                                        Þriðji hluti þessa liðar varðar færslu 11. maí 2001, en ekki 2000, eins og segir í ákæru.  Hér var verið að færa stofnhlutafé Baugs hf. í A-Holding, sem er félag stofnað  utan um eignarhlutina í Arcadia.  Debet færslan á í sjálfu sér rétt á sér enda var hér verið að leggja þessa hluti inn sem hlutafjárframlag Baugs í A-Holding.  Kredit færslan á reikning Kaupþings hf. var hins vegar ekki rétt, sbr. það sem rakið er hér á undan um fyrsta og annan hluta þessa liðar, enda var Baugur hf. hér ekki að kaupa hluta­bréf af Kaupþingi hf.  Sannað er að um ranga færslu var að ræða, en hún var til þess fallin að gefa ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Er sannað, eins og rakið var, að ákærði, Tryggvi, hafi staðið að þessari færslu.

                                                                        Með framangreindu hefur ákærði, Tryggvi, gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994.

                                                                        Hins vegar er ósannað að ákærði, Jón Ásgeir, hafi með saknæmum hætti komið að þessum færslum og verður hann því sýknaður hvað það varðar. 

          Eins og áður er vikið að hefur því verið haldið fram af ákærða, Tryggva, að tekju­færslan á 164.610.536 krónum sem söluhagnaði í árslok 2000 breyti ekki niður­stöðum rekstrarreiknings Baugs hf. vegna þess að hefði þessi hagnaður ekki verið færður sem söluhagnaður á þessum tíma, hefði mátt færa hlutabréfin í Arcadia upp í markaðs­verð í árslok, en salan til Kaupþings hf. var færð á markaðsgengi Arcadia hlut­anna í árslok 2000 sem var 0,85.  Þetta myndi hafa leitt til þess að færa hefði mátt mats­hækkunina, að fjárhæð 164.610.536 krónur, af þessari fjárfestingu sem ákærði, Tryggvi, taldi hafa verið skammtímafjárfestingu, til tekna gegnum rekstrarreikning Baugs hf. sem myndi hafa leitt til sömu niðurstöðu og færsla söluhagnaðarins.

          Það er álit dómsins, að miðað við viðbrögð við fjárfestingunni innan stjórnar Baugs hf. haustið 2000, og að langtímafjármögnun hennar lá þá ekki fyrir og þann skamma tíma sem hlutabréfin í Arcadia voru í raun í eigu Baugs hf., sé ekki óeðlilegt að miða við það að um skammtímafjárfestingu hafi verið að ræða. Að fenginni þeirri niðurstöðu og með vísan til þágildandi 29. greinar laga nr. 144/1994 um ársreikninga, telur dómurinn að forráðamönnum Baugs hf. hafi verið heimilt að færa gengishækkun vegna Arcadia hlutabréfanna til tekna hjá félaginu í árslok 2000. Samkvæmt þessu telst ekki sannað að ársreikningur sá fyrir Baug hf. fyrir árið 2000 sem byggt er á í tilkynn­ingu félagsins til Verðbréfaþings Íslands, sem birt var 19. mars 2001, hafi verið efnislega rangur.  Ákærði, Jón Ásgeir, verður því alfarið sýknaður af þessum ákæru­lið.

             Ákæruliður 15.

          Í þessum ákærulið er ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bók­haldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjár­muna.  Þetta hafi þeir gert með því að láta færa til eignar í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf., sem lækkuð vörukaup, 61.915.000 krónur, á grundvelli rangs og til­hæfu­lauss kreditreiknings (afsláttarreiknings) frá Nordica Inc., dagsetts 30. ágúst 2001, að fjárhæð USD 589.890, sem jafngilti 61.915.000 krónum á færsludegi.  Ákærða, Jóni Gerald Sullenberger, er gefið að sök að hafa aðstoðað ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggva, við að rangfæra bókhald Baugs hf. og stuðlað að bókhaldsbroti þeirra með því að útbúa framangreindan kreditreikning að tilhlutan ákærða, Jóns Ásgeirs, og samkvæmt fyrirsögn ákærða, Tryggva.  Ákæran er á því byggð að reikning­urinn hafi ekki átt sér ekki stoð í viðskiptum þeirra félaga sem ákærðu voru í fyrirsvari fyrir eins og nánar er rakið í ákærunni.

          Texti reikningsins er svohljóðandi:  “ Discount on purchased goods and reimbursement for damage or shortages shipments to Adfong from July 01, 2000 to June 30, 2001.  This cover all cargo shipped thru Nordica Inc Warehouse in Miami Florida”.  Að öðru leyti er reikningnum lýst hér að framan.  Hann var fyrst færður á bið­reikning ásamt reikningi þeim, sem um getur í 16. ákærulið, en ekki á við­skiptareikning Nordica Inc.  Reikningurinn var aldrei innheimtur hjá Nordica Inc. og var síðan gjaldfærður í bókhaldi Baugs hf. eins og lýst er í ákæru.

          Nú verður rakinn framburður ákærðu varðandi þennan lið og síðan vitna eftir því sem við á.

          Ákærði, Jón Ásgeir, bar að Baugur hf. og þar áður Bónus hafi verið í viðskiptum við ákærða, Jón Gerald, og fyrirtæki hans allt frá árinu 1992.  Á árinu 2000 hafi ákærði, Jón Gerald, stofnað vöruhús í Bandaríkjunum til að auka viðskiptin enn frekar.  Í framhaldi af því, eða í ársbyrjun 2001, hafi viðræður hafist um eflingu við­skiptanna og þá hafi komið fram hjá forsvarsmönnum Baugs hf. að það væri tals­vert magn af “vandræðabirgðum” frá Nordica Inc., fyrirtæki ákærða, Jóns Geralds, í versl­unum og vöruhúsum Baugs hf. á Íslandi, þ.e. vörum sem höfðu ekki selst, en ekki mundi ákærði hversu mikið magnið hafði verið.  Vorið 2001 hafi samningum um þessi mál verið lokið og menn orðnir ásáttir um upphæðina, sem hafi verið fundin út í íslenskum krónum og síðan umreiknuð í bandaríkjadali.  Aðspurður hvort upphæðin hafi verið reiknuð út út frá gögnum kvað ákærði menn hafa haft tilfinningu fyrir stærð málsins og það verið leyst með “pennastriksaðferð”.  Ákærði, Jón Gerald, hafi gefið reikn­inginn út í samræmi við samkomulagið og ákærði, Tryggvi, síðan gengið frá mál­unum, þar með talið að ákveða texta reikningsins.  Síðar hafi komið í ljós að ákærði, Jón Gerald, gat ekki greitt reikninginn og hafi hann því verið gjaldfærður (lotaður) mánaðarlega í bókhaldi Baugs hf.

          Ákærði, Tryggvi, bar að hann hefði kallað eftir reikningnum frá ákærða, Jóni Gerald, sem hefði gert reikninginn.  Gerð reikningsins hefði byggst á samkomulagi ákærðu, Jóns Ásgeirs og Jóns Geralds, um ónýtar vörur er hefðu safnast saman í áranna rás.  Aðallega vegna heimildar ákærða, Jóns Geralds, til að fylla gáma, sem hann sendi til Baugs hf., með vörum til að nýta plássið í gámunum.  Þetta hafi verið að hluta til skýringin á því af hverju óseljanlegar vörur söfnuðust upp hjá Baugi hf.  Ákærði kvað meðákærðu eina hafa samið um lausn þessa máls og þar með að ákveða upp­hæð reikningsins og texta.  Hann hafi lesið textann yfir eins og hann kom frá ákærða, Jóni Gerald, og endursent honum hann með smávægilegum leiðréttingum og þannig leiðréttan hafi ákærði, Jón Gerald, sent sér reikninginn í símbréfi.  Ákærði kvaðst síðan hafa sent reikninginn til KPMG sem var að ljúka við gerð árs­hluta­reiknings á þessum tíma og hafi endurskoðendurnir fært hann sem lokafærslu.         

          Ákærði, Jón Gerald, kvaðst hafa útbúið reikninginn að beiðni ákærða, Tryggva.  Það hafi borið þannig til að 30. ágúst 2001 hafi ákærði, Tryggvi, hringt í sig og spurt hvort hann gæti útbúið fyrir sig kreditreikning og sagt sér hver texti hans ætti að vera.  Ákærði kveðst hafa skrifað textann og sent ákærða, Tryggva, í tölvupósti.  Hann hafi endursent sér textann leiðréttan og þann texta kvaðst ákærði hafa sett á reikn­inginn og endursent í símbréfi.  Engin viðskipti hafi verið á bak við reikninginn og hann því verið algerlega út í bláinn.  Ekki hafi ákærði, Tryggvi, minnst á til hvers ætti að nota reikninginn og það hafi aldrei verið rætt þeirra á milli.  Ákærði kvaðst ekki hafa fært reikninginn í bókhald sitt heldur hafi hann hafnað í pappírsbunka inn í skáp hjá sér og þar hafi lögreglumenn frá Íslandi síðan fundið hann þegar þeir voru að leita gagna hjá honum í tengslum við rannsókn málsins.  Ákærði kvað skýringar með­ákærðu ekki eiga við rök að styðjast og benti á að hann hefði ekki pantað vörur frá Banda­ríkjunum, heldur séð um að afgreiða vörupantanir.  Þá bar hann að aðallega hafi verið fluttar niðursuðuvörur frá Bandaríkjunum og þar eð þær væru mjög þungar væri oft laust pláss í gámunum sem hann hafi fyllt upp með auðseljanlegum vörum, svo sem eldhúsrúllum.

          O, sem starfaði hjá ákærða, Jóni Gerald, þegar hann útbjó reikninginn, bar að hún hefði ekki komið að gerð hans, en séð hann, líklega daginn eftir að ákærði sendi hann.  Hún kvaðst hafa sagt ákærða að hann ætti ekki að gera þetta þar eð engin viðskipti væru á bak við reikninginn og hann hafi ekki verið færður í bókhaldi Nordica Inc., heldur hafi honum verið eytt úr bókhaldskerfinu.  Hún kvað ákærða hafa gefið sér þá skýringu á gerð reikningsins að ákærði, Tryggvi, hefði beðið sig um að gera hann.  O kannaðist ekki við að Baugur hf. hefði setið uppi með ill- eða óseljanlegar vörur frá Nordica Inc.  Stærsti hluti varanna hafi verið dósa­matur sem endist í mörg ár.  Einstaka sinnum hafi komið fyrir að sent hafi verið of mikið af vörum og hafi það verið gert upp.  Hið sama hafi gilt um skemmdir og rýrnun á vörum.

          Ó, þá löglærður fulltrúi ríkislögreglustjóra, bar að hann hafi fundið reikninginn á skrifstofu ákærða, Jóns Geralds, í Miami.  Hann hafi fundist nánast fyrir tilviljun þar eð hann hafi ekki verið færður í bókhald og ákærði hafi ekki framvísað honum.

          P, innkaupastjóri hjá Aðföngum, bar að hafa séð um innkaup frá Banda­ríkjunum, þar með talið frá Nordica Inc., en fyrirtækið Aðföng er í eigu Baugs hf.  P bar að komið hafi fyrir að vörur hefðu borist frá Nordica Inc. sem ekki höfðu verið pantaðar og eins hafi komið fyrir að vörur hafi vantað.  Brugðist hafi verið við þessu með því að gefa út debet- eða kreditreikninga eftir því um hvort var að ræða.  Á árunum 2000 og 2001 hafi Nordica Inc. hins vegar átt orðið mikið af vörum hjá Aðföngum sem hafi stafað af því að þá hafi verið ætlunin að auka verulega viðskiptin við félagið en það ekki gengið eftir.  Það hafi stafað af tvennu:  Í fyrsta lagi hafi neytendum ekki fallið við vörurnar og í öðru lagi hafi gengið verið óhagstætt.      

          Q, framkvæmdastjóri Aðfanga, bar að farið hefði verið yfir vöru­sendingar frá Nordica Inc. á sama hátt og frá öðrum.  Hvort sem of mikið var í send­ingunni eða of lítið, hafi það verið gert upp með debet- eða kreditreikningum eftir því sem við átti hverju sinni.  Á árinu 2001 hafi verið gert átak í að auka vörukaupin frá Nordica Inc. og í framhaldinu hafi birgðir þaðan aukist hjá Aðföngum.  Það hafi hins vegar gerst áður að birgðir hafi verið miklar frá Nordica Inc.  Þannig hafi verið verulegar birgðir frá fyrirtækinu þegar hann hóf störf hjá Aðföngum 1997.  Hann gat hins vegar ekkert borið um reikninginn sem þessi ákæruliður fjallar um.

          R, framkvæmdastjóri Bónuss, bar að þegar hann hóf störf 1998 hafi verið til mikill lager, en ekki hafi hann allur verið frá Nordica. Inc.  Hann gat ekkert um reikninginn borið.

          S, yfirmaður matvörusviðs Baugs hf. á árinu 2001, bar að á árinu 2001 hafi Aðföng verið með miklar vörubirgðir frá Nordica Inc. sem hafi meðal annars stafað af því að til hafi staðið að auka verulega viðskiptin við félagið.  Það hafi ekki gengið eftir.  Hins vegar kannaðist hann ekki við reikninginn sem þessi ákæru­liður fjallar um. 

          E, fjármálastjóri Baugs hf., mundi ekki eftir reikningnum og taldi sig ekki hafa bókað hann.  Hún tók fram af gefnu tilefni að fjárhæð hans væri ekki há miðað við veltu Baugs hf.       

          T var innri endurskoðandi Baugs hf. á þessum tíma.  Hún kvaðst hafa athugað reikninginn og tildrög þess að hann var gerður, en þau hafi verið samkomulag á milli forstjóra tveggja viðskiptafélaga, Baugs hf. og Nordica Inc.  Hún bar að hafa kannað heildarviðskipti félaganna og komist að því að miðað við þau væri reikningurinn ekki hár, enda hafi hann tekið til allra þátta viðskiptanna frá upp­hafi þeirra.  T kvaðst hafa aflað sér upplýsinga með viðtölum við ýmsa stjórn­endur hjá Baugi hf. og hafi þau leitt í ljós að veltuhraði á vörum frá Nordica Inc. hafi ekki verið mikill.  Þá hafi það og gerst að vörur hafi runnið út á “líftíma”.  Þetta hafi verið skráð en við skráninguna hafi ekki verið greint á milli birgja þannig að ekki hafi verið hægt að greina á milli varnings frá Nordica Inc. og öðrum birgjum.  Lögreglunni hafi verið bent á að hægt væri að fá gögn um skráninguna hjá fyrirtækinu en hún hafi ekki haft áhuga á því.  T vann skjal, sem lagt hefur verið fram í málinu, og hún staðfest, og er það yfirlit yfir viðskipti félaganna á árunum 1995 til 2002 að báðum meðtöldum.  Í skjalinu koma fram tölur um heildarviðskiptin hvert ár fyrir sig og hvernig þau skiptist á milli matvöru og sérvöru.  Einnig er gerð grein fyrir rýrnun, bæði þekktri og óþekktri, svo og tilgreint hver afsláttur frá birgjum hafi verið, en af­sláttur hafi ekki fengist frá Nordica Inc.  Niðurstaða T á skjalinu er sú að “Kreditreikningur frá Nordica vegna viðskipta þessi sjö ár hefði þurft að vera á bilinu 190-230 milljónir svo hægt sé að bera þau saman við samskipti við sambærilega birgja.”

          B var löggiltur endurskoðandi Baugs hf. á þessum tíma.  Hann bar að hafa séð reikninginn fyrst í lok ágúst 2001, nánar tiltekið á loka­degi milliuppgjörsins sem var sami dagurinn og reikningurinn var útbúinn.  Það hafi verið ákærði, Tryggvi, sem hafi látið koma reikningnum til sín og minnti B að ákærði hefði sagt að um væri að ræða afslætti sem félagið ætti útistandandi og því þyrfti að færa reikninginn.  Hann kvaðst ekki hafa gert athugasemdir við reikn­inginn, enda ekki óvenjulegt að birgjar veittu Baugi hf. afslætti og hefðu þeir verið færðir þegar reikningar vegna þeirra bárust. 

          Eins og nú hefur verið rakið byggðist gerð framangreinds reiknings á ákvörðun ákærða, Jóns Ásgeirs, sem hann ber að hafa tekið að undangengnum samn­inga­viðræðum við meðákærða, Jón Gerald.  Ákærði, Jón Gerald, kannast ekki við þennan samning eins og rakið var.  Framburður ákærða, Jóns Geralds, fær stuðning í fram­burði O svo og því að reikningurinn var ekki færður í bókhaldi Nordica Inc. heldur fannst á skrifstofu félagsins nánast fyrir tilviljun eins og rakið var.  Framburður ákærða, Jóns Ásgeirs, styðst að nokkru við framburð starfs­manna Baugs hf., sem hafa borið að safnast hafi saman vörur hjá félaginu frá Nordica Inc. sem ekki hafi tekist að selja eins og rakið var.  Þessi framburður starfsmannanna styðst þó ekki við skrifleg gögn, hvorki gögn úr bókhaldi Baugs hf. né önnur, en fram kom að ekki hafi verið hægt að sérgreina birgðir frá Nordica Inc. frá birgðum annarra birgja.  Úttekt T sýnir aðeins hverju hefði mátt gera ráð fyrir í viðskiptum félaganna, hefði Baugur hf. búið við sömu kjör gagnvart Nordica Inc. og gagnvart öðrum viðskiptavinum.  En í málinu hefur komið fram að viðskipti fél­ag­anna voru ekki sambærileg viðskiptum við önnur félög.  Hjá Baugi hf. og fyrirtækjum þess var frekar litið á ákærða, Jón Gerald, sem samstarfsmann en viðskiptafélaga. 

          Þegar virtur er framangreindur framburður ákærða, Jóns Geralds, sem fær stuðning í framburði O, fundarstaður reikningsins hjá Nordica Inc. og sú staðreynd að engin samtímagögn hjá Baugi hf. styðja þá full­yrðingu ákærðu, Jóns Ásgeirs og Tryggva, að til hafi verið uppsafnaður vörulager frá Nordica Inc., er það niðurstaða dómsins að sannað sé, þrátt fyrir neitun ákærðu, Jóns Ásgeirs og Tryggva, að reikningurinn hafi verið rangur og tilhæfulaus og þeim hafi báðum verið það ljóst.  Brot ákærðu hafði þau áhrif á árshlutauppgjör Baugs hf. sem lýst er í ákæruliðnum og þar af leiðandi var tilkynning félagsins til Verðbréfaþings Íslands röng, en á því bar ákærði, Jón Ásgeir, ábyrgð sem framkvæmdastjóri fél­agsins.  Brot ákærða, Jóns Ásgeirs, varðar við 1., sbr. 3. mgr. 158. gr. almennra hegn­ing­arlaga sem tæmir sök ákærða og verður brot hans því ekki jafnframt talið varða við önnur þau lagaákvæði sem tilgreind eru í ákærunni.

          Brot ákærða, Tryggva, varðar við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr. bókhaldslaga, eins og í ákæru greinir.

          Í II. kafla dómsins er upphafi málsins lýst og þar með hvernig það bar til að ákærði, Jón Gerald, sneri sér til ríkislögreglustjóra í ágúst 2002 og tekin var af honum skýrsla.  Við þessa skýrslutöku, og allar skýrslutökur hjá lögreglu eftir það, hafði ákærði stöðu vitnis, þótt einnig hafi verið gætt ákvæða 51. gr. laga um meðferð opin­berra mála.  Við aðalmeðferð málsins, sem dæmt var 15. mars 2006, var athygli hans í ein­staka tilvikum vakin á ákvæðum 51. gr.  Eftir að settur ríkissaksóknari tók við mál­inu var ákærði einu sinn yfirheyrður af lögreglu og hafði þá stöðu grunaðs manns.  Í fram­haldinu var hann svo ákærður.

          Í lögregluskýrslum sem teknar voru af ákærða sem vitni er í raun iðulega verið að yfirheyra hann um atferli meðákærðu og annarra sem lögreglan mat refsivert. Gætti hún ætíð viðeigandi ákvæða laganna um meðferð opinberra mála þegar þeir menn voru yfirheyrðir.  Öllum sem lesa framburðarskýrslur ákærða má þó ljóst vera að hann er þar að tjá sig um þátttöku sína í atferli þessu með þeim hætti að engum, allra síst lög­lærðum mönnum, getur dulist að þar er ekki vitni að tjá sig.  Í 2. mgr. 32. gr. lag­anna um meðferð opinberra mála segir að sá, sem yfirheyrður er við rannsókn máls, eigi rétt á því að fá vitneskju um það, þegar mál er orðið svo skýrt að þess er kostur, hvort hann er spurður vegna gruns á hendur honum um refsivert brot eða hvort hann er kvaddur vitnisburðar.  Það er mat dómsins að þegar við fyrstu lögregluyfirheyrslu, 25. ágúst 2002 og alltaf eftir það, hafi borið að láta ákærða njóta réttarstöðu sakaðs manns, enda er ákvæði 51. gr. undantekningarákvæði sem ber að skýra þröngt og fram­burður ákærða gaf ekkert tilefni til að leggja það í mat hans hvort skilyrði grein­arinnar ættu við.

          Ákvæði 69. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, hafa verið skýrð svo að þeim sem sakaður er um refsi­verða háttsemi sé óskylt að tjá sig eða láta í té upplýsingar sem leitt geta til sak­fell­ingar hans.  Í 3. mgr. 32. gr. laganna um meðferð opinberra mála segir að sakborningi sé óskylt á öllum stigum opinbers máls að svara spurningum sem varða refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök og ber yfirheyranda að benda sakborningi ótvírætt á þennan rétt hans þegar efni standa til.   Ákærði var að vísu yfirheyrður af lög­regl­unni sem sakaður maður 22. febrúar 2006 og sérstaklega spurður um þau atriði sem hann er ákærður fyrir og svaraði hann á sama hátt og hann hafði gert fyrr í rannsókn málsins.  Þegar hins vegar er litið til umfangs fyrri lögreglurannsóknar, þar sem ákærði hafði stöðu vitnis, verður ekki hjá því komist að líta á þessa einu skýrslu sem mála­myndaskýrslu er ekki breyti þeirri staðreynd að hann hafði haft stöðu vitnis alla rann­sókn málsins þótt hann væri í raun að tjá sig um atriði er hefðu getað leitt til ákæru á hendur honum. Lögreglan hefði frá upphafi átt að yfirheyra ákærða sem sakaðan mann og breytir engu um það þótt lögmaður hans hafi verið viðstaddur þegar lokið var að taka fyrstu lögregluskýrsluna af ákærða og lesið hana yfir með honum.  Lögmaðurinn var einnig viðstaddur upphaf og lok næstu yfirheyrslu.  

          Með vísun til framangreinds er það niðurstaða dómsins að ákærði, Jón Gerald, hafi ekki notið þeirra réttinda sakbornings við lögreglurannsókn málsins sem nefnd laga­ákvæði áskilja.  Ákæra á hendur honum verður því ekki reist á lögreglu­rann­sókn­inni og verður ákærunni vísað frá dómi hvað ákærða varðar.  

             Ákæruliður 16. 

          Ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, er í þessum ákærulið gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum við aðra aðila og haga bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Þetta eiga þeir að hafa gert með því að láta færa til eignar í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf. 46.679.000 krónur á grundvelli yfirlýsingar frá P/F SMS 30. júní 2001 með fyrirsögninni:  “Credit Invoice” og textanum:  “We confirm that Bónus Iceland share af Marketing support from Dagrofa July 1. 2000 – june 30. 2001 amounts to dkr. 3.900.000” en fjárhæðin hafi jafngilt framangreindri fjárhæð í íslenskum krónum, eins og nánar er rakið í ákærunni.

          Fyrirtækið Z er verslunarfyrirtæki í Færeyjum og á Baugur hf. helming í því.  Dagrofa er dönsk heildsala.  Forsvarsmenn Baugs hf. komust að því að Z naut betri kjara við innkaup á kaffi frá Danmörku en Baugur hf. og reyndu þeir því að flytja kaffi inn til Íslands frá Danmörku í gegnum færeyska fyrirtækið.  Þetta gekk ekki þar eð færeyska fyrirtækinu var gert að hætta að hafa milligöngu um viðskiptin.  Hætti það því ekki myndi kaffiverðið til þess hækka til jafns við það sem var til Íslands.

          Ákærði, Jón Ásgeir, bar að þessi færsla hefði byggst á misskilningi.  Þarna hefði annaðhvort verið oftalinn markaðsstyrkur eða innkaupum blandað saman.  Að öðru leyti vísaði hann á meðákærða, Tryggva, sem hefði séð um þessi mál.  Þegar mis­tökin hafi uppgötvast hafi færslan verið lotuð út í lokafærslum.  Hann kvaðst ekki muna hvenær hann hafi séð yfirlýsinguna frá Z og kannaðist ekki við að hún hafi farið um sínar hendur til endurskoðanda Baugs hf. og gat ekki skýrt af hverju upp­hafs­stafir hans væru prentaðir með færslunni.  Þá gat hann heldur ekki skýrt af hverju krafan var færð á biðreikning en ekki viðskiptamannareikning Z.

          Ákærði, Tryggvi, bar að forsvarsmenn Baugs hf. hefðu komist að raun um að Z gæti keypt vörur á mun hagstæðara verði en þeir.  Þar hafi einkum verið um kaffi að ræða og hefðu þeir talið að þetta gæti þýtt um 3,9 milljóna danskra króna lækkun á innkaupsverði.  Hann kveðst hafa talið að Baugur hf. ætti ógreidda inneign hjá Z sem nam þessari fjárhæð, vegna þess að hann hafi ekki vitað að ekki hafði orðið af viðskiptunum.  Hann hafi því haft samband við [...] AA og BB, framkvæmdastjóra Z, og sagt þeim að sig vantaði fylgiskjal um þann markaðs­stuðning, sem um hafði verið rætt og samsvaraði þeirri verðlækkun sem hefði orðið ef kaffið hefði verið keypt í gegnum Færeyjar.  Ákærði kveðst ekki hafa vitað á þessum tíma að íslenskir heildsalar hefðu komið í veg fyrir að hægt væri að kaupa kaffi á þennan hátt í gegnum Færeyjar.  Þegar upp hafi verið staðið hafi þessi kredit­færsla ekki alveg átt rétt á sér.  Ákærði kvaðst hins vegar telja að þessi reikningur hefði í raun ekki skekkt árshlutauppgjör félagsins, vegna þess að ófærðir hafi verið afslættir, bæði í Færeyjum og á Íslandi.  Þetta hafi verið bakfært um haustið. 

          AA, framkvæmdastjóri Z, bar að ákærði Tryggvi hefði haft samband við sig varðandi útgáfu kreditnótu, en þar eð hann hafi verið staddur úti á sjó og heyrt illa í símanum hafi hann vísað honum á [...], BB. 

          BB, framkvæmdastjóri Z, bar að hann hefði útbúið framan­greinda yfirlýsingu að beiðni ákærða, Tryggva, sem hafi ákveðið texta hennar og fjár­hæð.  Hans kvað ákærða hafa sagt sér að yfirlýsinguna ætti að nota sem innan­húss­skjal, en ekki mundi hann hvort það var á fundi hjá Baugi hf. eða ekki.  Hins vegar hafi yfirlýsingin ekki verið færð í bókhaldi Z.  Hans kvað hana ekki hafa tengst við­skiptum milli Baugs og Z. 

          Endurskoðandi Z í Færeyjum, CC, staðfesti yfirlýsingu sína um að á árunum 2000 og 2001 hefðu ekki verið viðskipti á milli Z og Baugs hf. og að umræddrar yfirlýsingar væri ekki getið í bókhaldiZ.

          Eins og hér hefur verið rakið gaf BB út umrædda yfirlýsingu að beiðni ákærða, Tryggva.  Með játningu ákærða, Tryggva, sem fær stuðning í fram­burði nefnds BB og CC, er sannað að engin viðskipti lágu til grundvallar yfir­lýsingunni, en ákærði taldi hins vegar að þau hefðu átt sér stað og þess vegna ætti Baugur hf. rétt á afslætti vegna þeirra. Yfirlýsingin var færð í bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti sem rétt er lýst í ákæru.  Yfirlýsing þessi átti sér ekki stoð í viðskiptum og hlaut ákærða, Tryggva, að vera það ljóst.  Tekjufærsla í bókhaldi á grundvelli þessarar yfirlýsingar var því óheimil.   Hefur ákærði, Tryggvi, því gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994.  Hins vegar er ósannað að færslan í bókhaldinu hafi verið færð með vilja og vitneskju ákærða, Jón Ásgeirs, og verður hann því sýknaður af þessum lið og þar með einnig af því að hafa látið Baug hf. senda Verðbréfaþingi Íslands ranga tilkynningu.

V

             Ákæruliður 17.

          Ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, er í þessum ákærulið gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að ákærði, Tryggvi, hafi látið færa, með vilja og vitneskju ákærða, Jóns Ásgeirs, rangar og tilhæfulausar færslur um viðskipti og notkun fjármuna í bókhald Baugs hf. með því að færa sölu á eigin hlutabréfum í félaginu til Kaupþings hf., þegar bréfin voru í raun afhent Kaupthing Bank Luxembourg S.A. til varðveislu, inn á vörslureikning sem Baugur hf. stofnaði í þeim banka svo sem nánar er rakið í ákæru.  Eftir athugasemdir stjórnar Baugs hf. hafi verið gerðar ráðstafanir á árinu 2003 til þess að leiðrétta bókhald Baugs hf. hvað þennan vörslureikning snerti.

          Ákærði, Tryggvi, stofnaði 14. október 1998, fyrir hönd Baugs hf., vörslu­reikning nr. 400017 hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (hér eftir nefnt Kaupthing Lux).  Í skýringum af hálfu bankans segir að þegar viðskiptavinur opni reikning hjá Kaupthing Lux og vilji koma verðbréfum í vörslu bankans sé almenna reglan sú að við­skiptavinurinn framselji (nafnbreyti) bréfin yfir á nafn Kaupthing Lux.  Bankinn komi því fram sem formlegur eigandi (nominee) bréfanna í hlutaskrá þeirra félaga sem fjárfest sé í.  Verðbréfin séu því bókuð inn á reikning viðskiptavinarins og sé hann raunverulegur eigandi (“beneficial owner”) þeirra og njóti þar af leiðandi allra réttinda og beri allar skyldur er tengjast verðbréfunum og hafi jafnan ráðstöfunarrétt yfir þeim, sem takmarkist þó af þeim skilmálum sem felist í opnun vörslureiknings.

          Baugur hf. keypti, 15. apríl 1999, 5% eignarhluta í sjálfu sér að nafnverði 50.000.000 króna af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. á genginu 8,2691 fyrir 415.950.711 krónur.  Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. var annar tveggja um­sjón­araðila útboðs og skráningar verðbréfa Baugs hf. á Verðbréfaþing Íslands hf. í apríl 1999, en hinn aðilinn var Kaupþing hf.  Kaupverð eignarhlutanna, 413.455.006 krónur, var eignfært á biðreikning, lántökukostnaður, 2.495.705 krónur, var gjald­færður og lántaka vegna kaupanna, 415.950.711 krónur, færð til skuldar við Fjár­fest­ingar­banka atvinnulífsins.

          Með færslu 30. júní 1999 með skýringartextanum “Hlutabréf í Baugi seld Kaup­þingi” selur Baugur hf. 4% eignarhluta í sjálfu sér að nafnverði 40.000.000 króna á genginu 8,2691 til Kaupþings hf.  Söluverðið, 330.764.000 krónur, var eign­fært á viðskiptareikning Kaupþings í bókhaldi Baugs hf. og var mótfærslan til lækk­unar á eigin hlutabréfaeign, sem áður hafði verið færð til eignar í áðurnefndum bið­reikn­ingi.  Fylgiskjal að baki nefndri færslu var útprentun úr dagbók 7. júlí 1999, og hand­skrifað blað, ódagsett og óundirritað, þar sem segir, m.a., “Baugur kaupir 5% í Baugi og fær lán hjá FBA” og einnig “Selur Kaupþingi 4/5 hlut” Á fylgiskjalinu koma fram fyrirmæli um færslur.

          Samkvæmt upplýsingum frá Kaupthing Lux voru færðir 40.000.000 hluta inn á vörslureikning Baugs hf. nr. 400017 15. júní 1999 og sama dag eru færðir 20.000.000 hluta út af sama reikningi til þess að fullnægja kaupréttarákvæðum við æðstu stjórnendur Baugs hf. að hluta.

          Í bréfi ákærða, Tryggva, til hlutaskrár Baugs hf. 31. mars 1999, er tilkynnt um sölu Baugs hf. á hlutafé til Kaupthing Lux að nafnverði 40.000.000 króna.

          Útboðs- og skráningarlýsing hlutabréfa Baugs hf. á Verðbréfaþingi Íslands er dagsett 15. apríl 1999 og undirrituð meðal annars af ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, og  DD, þáverandi stjórnarformanni Baugs hf.  Þar er því lýst yfir að útboðs- og skráningarlýsingin sé “eftir bestu vitund í fullu samræmi við staðreyndir og í hana vanti engin mikilvæg atriði sem áhrif geti haft á mat á félaginu eða hluta­bréfum þess”.  Í nefndri lýsingu er að finna lista yfir stærstu hluthafa Baugs hf. 31. mars 1999.  Þar kemur fram að Kaupthing Lux eigi 4% í Baugi hf.

          E, fjármálastjóri Baugs hf., hefur borið að hún hafi hand­ritað blaðið að baki færslunni á sölu hlutabréfa í Baugi hf. til Kaupþings hf. sem að framan er lýst.  Varðandi tilurð þessa fylgiskjals hefur E vísað til þess að ákærði, Tryggvi, hafi verið yfirmaður hennar.  Auk þess hefur hún borið fyrir lögreglu að færslan hefði verið færð á þennan hátt samkvæmt beiðni ákærða og hafi hann tekið ákvörðun um bókunina.  Þetta staðfesti E fyrir dómi.

          D, framkvæmdastjóri Kaupthing Lux, hefur staðfest að for­ráðamenn Baugs hf. hafi haft ráðstöfunarrétt á hlutabréfunum á vörslureikningi nr. 400017.  Þá hefur D staðfest að í upphafi hafi tilgangur vörslureikningsins verið að halda utan um kaupréttarsamninga fyrir æðstu yfirmenn Baugs hf. og minntist hann þess að hafa séð gögn þar að lútandi á þeim tíma.

           B, endurskoðandi Baugs hf. á þessum tíma, hefur borið að hann hafi fyrst vitað um kaupréttarákvæði æðstu stjórnarmanna Baugs hf. og tilvist vörslu­reikningsins hjá Kaupthing Lux í október 2002, eða eftir að rannsókn lögreglu hófst.  Þá bar B einnig  að hann hafi haldið frá upphafi að viðskiptastaðan á við­skipta­reikningi Kaupþings væri vegna sölu Baugs hf. á hlutum í sjálfu sér til Kaup­þings, enda hefðu öll tiltæk gögn bent til þess.  Hann hefur staðfest að eftir færslu á sölu á hlutunum til Kaupþings hafi ekkert legið fyrir í bókhaldi Baugs hf. sem benti til þess að félagið ætti eigið hlutafé á vörslureikningi í Luxemborg.

           C, sem byrjaði að vinna sem endurskoðandi að endurskoðun Baugs hf. um áramótin 1999 og 2000, hefur borið að hún hafi ekki fengið vitneskju um kaupréttarsamningana fyrr en um áramótin 2002 og 2003.  Þá staðfesti C að hún hafi ekki vitað um tilvist vörslureikningsins sem Baugur hf. átti hjá Kaupthing Lux fyrr en frá sama tíma.  Hún bar að þetta hafi horft þannig við sér að um hafi verið að ræða kröfu Baugs hf. á hendur Kaupþingi hf. vegna sölu á eigin hlutabréfum til þess og ekkert í bókhaldi Baugs hf. hafi bent til vörslureiknings hjá Kaupthing Lux.  Þá bar C að af hálfu endurskoðenda félagsins hefði verið sent svokallað stað­fest­ingarbréf til Kaupthing Lux þar sem beðið var um staðfestingu á kröfunni, en ekkert svar hefði borist.

          Ákærði, Tryggvi, kvaðst ekki vita hver ritaði blaðið, sem áður er lýst og lá til grund­vallar færslunni á sölu eigin bréfa Baugs hf. til Kaupþings hf.  Þá kvaðst hann ekki þekkja rithönd þess sem ritaði skjalið.  Enn fremur kvaðst hann ekki muna hver átti hugmyndina að því að færa færsluna sem sölu á hlutabréfum til Kaupþings hf.  Hann, það er ákærði, Tryggvi, ákærði, Jón Ásgeir, DD, Kaup­þings­menn og fleiri sem að málinu komu hefðu talið að svona ætti að standa að færslunni enda væru eignir á vörslureikningi alltaf færðar sem sala.  Nánar rökstuddi ákærði, Tryggvi, færsluna sem sölu í bókum Baugs hf. þannig að þegar fært sé inn á vörslu­reikning þá flytjist nafnskráningin yfir á Kaupþing hf. og þess vegna sé þetta fært sem sala.

          Ákærði, Jón Ásgeir, bar að hafa ekki vitað nákvæmlega hvaða viðskipti fóru gegnum vörslureikninginn og hann hafi ekki komið að þessum reikningi eða ein­stökum færslum á honum.  Ákærði vísaði um færslurnar og framkvæmd þeirra á ákærða, Tryggva, og fjármálasvið Baugs hf.  Ákærði bar að sér hafi verið sagt að ekki þyrfti að færa hverja færslu vörslureikningsins í bókhald Baugs hf. heldur væri nóg að færa aðeins upphafs- og lokafærslu reikningsins.  Aðspurður um það hver hafi tekið ákvörðun um stofnun vörslureikningsins kvað ákærði að hann, það er ákærði, Jón Ásgeir, ákærði, Tryggvi, og DD hafi gert það.  Ákærði skýrði þetta nánar þannig að vörslureikningnum hafi upphaflega verið ætlað að halda utan um kaup­réttarhluti og hafi eigin hlutum í Baugi hf., að nafnverði 40 milljónum króna, verið ráðstafað inn á vörslureikninginn og hafi það fé verið bundið til ráðstöfunar vegna kaupréttar æðstu starfsmanna félagsins.  Þessi kaupréttur hafi verið samkvæmt sam­starfssamningi félags í eigu Kaupþings hf., Kaupthing Lux, Fjárfestingarbanka atvinnu­lífsins og Gaums ehf., en þetta félag, Gír hf., hafi verið undanfari Baugs hf.

          Samkvæmt starfssamningum Gírs hf. við ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggva, og DD, stjórnarformann Baugs hf., frá 18. júní 1998, áttu þeir ákærði, Jón Ásgeir, og DDr kauprétt að 1,5% hvor af væntanlegu hlutafé í Baugi hf., en ákærði, Tryggvi, kauprétt að 1%.  Samtals var því um að ræða kauprétt þessara þriggja að 4% í væntanlegu hlutafé Baugs hf., eða sem nam 40.000.000 króna að nafnverði.

          Af hálfu ákærða, Tryggva, er því haldið fram að á þeim tíma sem færslan á vörslu­reikninginn var gerð hafi það tíðkast að færa eignir sem færðar voru á vörslu­reikning sem seldar og byggðist þetta á því að við þessa færslu hafi nafnskráningin á bréfunum færst yfir á Kaupthing Lux.  Ekki hafa verið lögð  fram gögn til stuðnings þessari staðhæfingu.  Þá er ljóst að ákærðu ráðfærðu sig ekki við endurskoðendur Baugs hf. um þessa færslu eða réttmæti hennar svo sem tíðkanlegt er hjá for­svars­mönnum félaga þegar vafi leikur á tilteknum færslum í bókhaldi.  Ljóst er af ráðstöfun helmings þeirra hluta sem færðir voru á vörslureikninginn í júní 1999 að Baugur hf. taldi sig vera að uppfylla kaupréttarákvæði við æðstu starfsmenn félagsins, sem ekki hefði verið unnt nema félagið ætti viðkomandi hluti.  Þá hefur það komið skýrt fram af hálfu Kaupthing Lux að þrátt fyrir færslu hlutanna yfir á vörslureikninginn hafi Baugur hf. verið áfram raunverulegur eigandi þeirra eins og lýst er hér að framan.  Það er því niðurstaða dómsins að Baugur hf. hafi áfram átt þessa 40.000.000 hluta í félaginu, þrátt fyrir færsluna yfir á vörslureikning félagsins 30. júní 1999 og til­grein­ingu Kaupthing Lux sem eiganda þeirra að nafninu til.

          Með framburði ákærðu og vitna og öðru því sem rakið er hér að framan er sannað að færslur þær sem raktar eru í ákæru að fjárhæð 330.764.000 krónur voru rangar og til þess fallnar að gefa ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.  Er sannað að ákærði, Tryggvi, hafi gefið fyrirmæli um þessar færslur sem honum var ljóst að voru rangar og hefur hann því gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 262. gr. al­mennra hegningarlaga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994.  Hins vegar er ósannað að færslurnar í bókhaldinu hafi verið færða með vilja og vitneskju ákærða, Jóns Ásgeirs, og verður hann því sýknaður af þessum lið.

VI

          Í V. kafla ákærunnar er ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, í ákærulið 18 gefinn að sök fjárdráttur í tengslum við skemmtibátinn Thee Viking.  Í ákærulið 19 er ákærða, Tryggva einum, gefinn að sök fjárdráttur í tengslum við notkun greiðslukorts.

             Ákæruliður 18. 

          Ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, er í þessum ákærulið gefinn að sök fjár­dráttur með því að hafa, á tímabilinu frá 20. janúar 2000 til 11. júní 2002, dregið Fjár­fest­ingarfélaginu Gaumi, einkahlutafélagi sem á þessum tíma var í eigu ákærða, Jóns Ásgeirs, föður hans, móður og systur, samtals 32.262.645 krónur, frá Baugi hf. til að fjár­magna eignarhlutdeild Gaums ehf. í skemmtibátnum Thee Viking og greiða kostnað vegna hans.  Brotin hafi verið framin með þeim hætti að ákærði, Tryggvi, hafi, með vitund og vilja ákærða, Jóns Ásgeirs, látið Baug hf. greiða 31 reikning, sem gerð er grein fyrir í ákærunni, og gefnir voru út af fyrirtækinu Nordica Inc.  Síðan segir í ákærunni:  “Skráður eigandi Thee Viking, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 30. september 1999, var félagið New Viking Inc., skrásett í Delaware í Banda­ríkjun­um.  Eigendur Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. töldu félagið eiga eignar­hlut­deild í skemmti­bátnum.”

          Ákærðu hafa neitað þessu og halda því fram að greiðslurnar, sem þessi ákæru­liður fjallar um, hafi runnið til Nordica Inc. sem þóknun til Jóns Geralds Sullenberger fyrir störf er hann vann á vegum Baugs hf. í Bandaríkjunum við að afla og viðhalda við­skiptasamböndum, fara á vörusýningar og annað sem tengdist starfsemi félagsins.  Þessu hefur Jón Gerald hafnað og borið að greiðslurnar frá Baugi hf. hafi verið til að greiða afborganir af lánum og kostnað við að reka bátinn.  Hann hefur borið að enginn fótur sé fyrir skýringum ákærðu. 

          Í málinu hafa verið lögð fram gögn um eignarhald New Viking Inc. á bátnum, en engin gögn hafa verið lögð fram um að Gaumur ehf. hafi verið skráður eigandi bátsins eða talið hann til eignar í bókhaldi sínu.  Einkaeigandi New Viking Inc. var Jón Gerald.  Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi varðandi eignar­haldið á bátnum.

          Ákærði, Jón Ásgeir, neitaði sök og bar að Jón Gerald hafi verið eigandi bátsins eða félag í hans eigu.  Greiðslur þær sem Baugur hf. greiddi Nordica Inc. samkvæmt reikn­ingunum í þessum ákærulið hafi verið vegna þjónustu er Nordica Inc. innti af hendi fyrir Baug hf. í Bandaríkjunum.  Hann kvaðst ekki geta borið um í hvað Jón Gerald hefði ráðstafað peningunum, hvort þeir hefðu runnið til reksturs bátsins eða í annað, en Baugur hf. hafi ekki greitt fé til Nordica Inc. vegna reksturs bátsins.  Ákærði bar að Gaumur ehf. hafi lánað Jóni Gerald fé til að kaupa bátinn og tvo báta þar áður og taldi Gaumur ehf. sig eiga kröfu á Jón Gerald vegna kaupanna.  Ekki hafi verið um það samið hvernig þetta yrði endurgreitt, en til tals hafi komið að því yrði breytt í eignarhlutdeild í New Viking Inc. sem var skráður eigandi bátsins.  Af því hafi þó ekki orðið.  Gaumur ehf. hafi hins vegar ekki kostað viðhald og útgjöld vegna bátanna, þótt eitthvað af láninu kunni að hafa runnið til þeirra þátta.  Upphaflega hafi þeir Jón Gerald leigt sér bát, enda hafi þetta verið sameiginlegt áhugamál þeirra, en síðar hafi verið keyptur bátur, sá fyrsti af þremur.  Bátar þessir hafi verið notaðir af þeim tveimur, föður ákærða og systur en einnig hafi verið farnar boðsferðir á honum með starfsmenn og viðskiptavini Baugs hf.  Jón Gerald hafi algerlega séð um bátinn, enda hans eign.  Hann einn hafi haft lyklavöld að honum og jafnvel meinað fólki á vegum ákærða afnot af honum.  Þegar samskiptum Jóns Geralds við Baug hf. og for­svars­menn þess lauk hafi Jón Gerald sett bátinn á sölu án nokkurs samráðs við sig eða aðra sér tengda.          

          Ákærði, Tryggvi, neitaði sök og bar að Jón Gerald hafi átt bátinn og engar greiðslur hafi runnið frá Baugi hf. til hans til að kosta rekstur bátsins.  Reikningarnir sem um ræðir í þessum ákærulið hafi verið greiddir Nordica Inc. vegna margvíslegrar þjónustu sem Jón Gerald hafi innt af hendi fyrir Baug hf. í Bandaríkjunum en tengdust á engan hátt rekstri bátsins.  Ákærði kannaðist hins vegar við að báturinn hafi verið notaður til skemmtiferða með viðskiptavini og starfsmenn Baugs hf.  Hann bar að Gaumur ehf. hafi lánað fé til bátakaupanna og meiningin hafi verið að félagið eða feðg­arnir, ákærði, Jón Ásgeir, og F, eignuðust hlut í bátnum en það hafi ekki gengið eftir. 

          Jón Gerald Sullenberger bar að hann og ákærði, Jón Ásgeir, hafi keypt saman fyrsta bátinn og hafi ætlunin verið að hvor um sig ætti helming í honum.  Jón Gerald hafi hins vegar verið einn skráður eigandi hans þar eð ekki hafi mátt vitnast að ákærði ætti hlut í skemmtibát.  Kostnaður við rekstur bátsins hafi verið greiddur af Jóni Gerald eða Nordica Inc. og svo hafi verið gerður reikningur á Bónus, er hafi verið sendur ákærða, Tryggva, sem lét greiða hann.  Jón Gerald kvaðst alfarið hafa hugsað um bátinn og alltaf verið með þegar hann var notaður, en auk hans og ákærða, Jóns Ásgeirs, hafi fjölskylda ákærða notað bátinn svo og starfsmenn og viðskiptavinir Baugs hf.  Þessi bátur var seldur og annar keyptur sem fjármagnaður var með sölu fyrsta bátsins auk þess sem F hafi komið með ávísun að fjárhæð 200.000 bandaríkjadali og lagt til kaupanna.  Jón Gerald kvaðst hafa litið svo á að ákærði, Jón Ásgeir, ætti bátinn á móti sér á sama hátt og fyrsta bátinn.  Báturinn hafi þó verið skráður á sig einan og hann hafi greitt kostnað vegna hans og gert reikninga fyrir honum á sama hátt og lýst var varðandi fyrsta bátinn.  Á árinu 1999 var svo þriðji báturinn keyptur og nefndist hann Thee Viking og bar Jón Gerald að þegar þau kaup voru rædd hafi hugmyndin verið að hann ætti þriðjungshlut og feðgarnir sinn þriðjung­inn hvor.  Ákveðið hafi verið að stofna félag um bátinn og reka hann með reglu­legum greiðslum frá Baugi hf. samkvæmt reikningum sem Jón Gerald átti að senda, en ákærði, Tryggvi, ákvað texta þeirra.  Eigandi bátsins var hins vegar skráður New Viking Inc., félag sem Jón Gerald átti einn.  Þetta átti að vera bráða­birgða­ráðstöfun því að til stóð að stofna fyrirtæki á Bahamaeyjum er myndi eignast bátinn.  Ekki var gert ráð fyrir að Jón Gerald ætti í því, heldur myndi hans hlutur í bátnum verða greiddur honum þegar það yfirtæki bátinn.  Um þessar ráðagerðir eru ekki til skrif­legir samningar og ekkert mun hafa orðið úr stofnun fyrirtækisins á Bahama­eyjum.  Sérstaklega aðspurður kvað Jón Gerald það aldrei hafa komið til tals að Gaumur ehf. eða önnur félög hér á landi ættu eða myndu eignast bátinn.  Hann hafi verið í eigu þeirra þriggja, hans, ákærða, Jóns Ásgeirs, og F.  Eftir að slitnaði upp úr viðskiptum og vinskap Jóns Geralds við forsvarsmenn Baugs hf. kvaðst hann hafa selt bátinn og borgað lánin og kostnað af sölunni.  Þá “var ósköp lítill afgangur eftir” bar hann og þegar hann var spurður hvort feðgarnir hafi fengið sinn hlut svaraði hann því til að enginn hlutur hafi verið eftir.  Skömmu síðar kom fram hjá honum að mikill kostnaður hafi fylgt málarekstri á hendur sér í Banda­ríkjunum, en í lausn þeirra mála hafi meðal annars falist að fallið var frá kröfum á hendur honum vegna bátsins.   

          F bar að Gaumur ehf. hafi lagt fram samtals 40 milljónir króna til kaupa á bátunum þremur.  Þessir fjármunir hafi verið afhentir Jóni Gerald og hafi ætlunin verið að síðar yrði Gaumur ehf. eigandi bátsins sem hverju sinni var skráður á Jón Gerald.  Ekki hafi verið gerður neinn áskilnaður um væntanlega eignarhlutdeild Gaums ehf. eða þeirra feðga, enda hafi menn treyst Jóni Gerald fullkomlega.  Það hafi hins vegar aldrei orðið að Gaumur ehf. eða þeir yrðu eigendur að hlut í bátnum.  F mundi ekki eftir því að rætt hefði verið um hver eignarhlutur Jóns Geralds yrði í bátnum, enda kvaðst hann ekki hafa komið að þeim viðræðum.  Þá gat hann ekki upplýst hvernig rekstrarkostnaður bátsins hefði verið greiddur eða afborganir af lánum.  Hins vegar hafi Jón Gerald talað um að auðvelt væri að leigja svona stóran bát og hafa af honum tekjur.  Eftir að upp úr slitnaði með Jóni Gerald og forsvarsmönnum Baugs hf. hafi Gaumur ehf. höfðað mál á hendur Jóni Gerald en síðan gert við hann sátt sem meðal annars fól í sér að fallið var frá öllum kröfum á hendur honum vegna bátsins.  Eftir það kvaðst F ekki hafa heyrt meira af bátnum. 

          A, systir ákærða, Jóns Ásgeirs, hefur verið fram­kvæmda­stjóri Gaums ehf. frá haustinu 1999.  Þegar hún kom til starfa hjá félaginu var henni greint frá því að það hefði lagt fram fé til bátakaupa og reksturs þeirra.  Hún bar hins vegar að hún hefði ekkert komið nálægt þessum málum og kvaðst ekki þekkja til sam­skipta Jóns Geralds við föður sinn og bróður, en sá síðarnefndi hafi alfarið séð um þau mál.  A bar að Gaumi ehf. hafi ekki tekist að breyta framlögum sínum til bátsins í eignarhlutdeild og á endanum hafi þessar kröfur tapast þegar gerð var sátt í mála­ferl­unum í Bandaríkjunum.

          DD, eiginkona Jóns Geralds Sullenberger, bar að ákærði, Jón Ásgeir, og Jón Gerald hafi keypt saman fyrsta bátinn, en Jón Gerald hafi einn verið skráður eigandi hans.  Ákærði hafi ekki viljað að það fréttist að hann ætti skemmti­bát.  Annan bátinn hafi þeir keypt ásamt F, en Jón Gerald hafi eftir sem áður verið einn skráður eigandi hans, þótt hann ætti bara helming á móti feðg­unum.  Eignarhlutföllin í þriðja bátnum, Thee Viking, hafi einnig verið þau sömu. DD mundi eftir að fundað hefði verið um kröfur ákærða og F um að þeir eignuðust hlut í félaginu um bátinn.

          O starfaði hjá Nordica Inc. á árunum 2000 til 2002.  Hún bar að Jón Gerald hafi einn verið skráður fyrir bátnum, en ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggvi, hafi átt hann ásamt F.  Bar hún Jón Gerald fyrir þessu.  Hún kvaðst ekki þekkja til Gaums ehf., en vita til þess að áður en hún hóf störf hjá Nordica Inc. hafi Gaumur ehf. greitt Nordica Inc. vegna bátsins.

          FF, sambýliskona ákærða, Jóns Ásgeirs, bar að í eitt sinn, er hún hafi verið á bátnum, hafi Jón Gerald beðið hana að yfirgefa hann vegna þess að hann þyrfti að nota hann.

          GG, sem bjó með F á árunum 1999 til 2000, bar að sér hafi skilist að Jón Gerald og feðgarnir ættu Thee Viking saman. 

          Í gögnum málsins er allmikið af gögnum, svo sem tölvupóstum, útreikningum og fleiru, sem ákæruvaldið byggir á að sanni að greiðslur þær, sem þessi ákæruliður fjallar um, hafi runnið til þess að kosta rekstur Thee Viking.  Einnig eru þar gögn varð­andi rekstur dómsmáls í Bandaríkjunum.  Því máli lauk með samningi um lausn á ágrein­ingnum.  Aðilar þess samnings voru annars vegar Nordica Inc., New Viking Inc., Jón Gerald Sullenberger og EE, í samningnum nefndir bandarískir aðilar, og hins vegar Baugur Group hf., Gaumur ehf., Aðföng, Fjár­festingar­félagið Gaumur ehf., Jón Ásgeir Jóhannesson og A, í samn­ingnum nefndir íslenskir aðilar.  Í samningnum segir orðrétt um Thee Viking:  “Gaumur lætur hér með niður falla allar kröfur sem hann hefur haft uppi eða kynni að hafa haft uppi í skipið “Thee Viking” og fellst á að hann eigi engan frekari rétt af neinu tagi til eignar, umráða, nota eða annars varðandi það skip.  Hinir Íslensku aðilar lýsa því yfir að þeir eigi engin réttindi til skipsins að því tagi sem nefnt var.  Íslensku að­ilarnir vísa einnig frá sér að þeir eigi nokkur réttindi varðandi félagið New Viking Inc., þar með talið til hlutafjár eða eigna eða krafna í eigu þess.  Íslensku aðilarnir skulu enga ábyrgð, kostnað eða útgjöld bera af skipinu, hvort sem slíkt er þegar til komið eða kemur til síðar.”  Að mati dómsins sýna þessi gögn fram á að Jóni Gerald hafi verið lánað fé til að kaupa bátana tvo sem keyptir voru á undan Thee Viking.  Það hafi hins vegar aldrei tekist að ganga frá málum á þann hátt sem ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggvi, og F stefndu að, það er að eignarhald á bátnum yrði, að minnsta kosti að hluta til, skráð á þá eða félag í þeirra eigu.

          Í þessum lið ákærunnar er ákærðu gefið að sök að hafa dregið Fjár­fest­ing­ar­félaginu Gaumi ehf. framangreinda fjárhæð, og með þeim hætti sem lýst var, til að fjár­magna eignarhlutdeild félagsins í Thee Viking og greiða kostnað vegna hans.  Eins og fram kemur í ákærunni var félagið New Viking Inc. skráður eigandi bátsins, en einka­eigandi þess félags var Jón Gerald Sullenberger.  Hins vegar er ljóst að Gaumur ehf. lagði fram fjármuni til kaupa á bátum er keyptir voru á undan Thee Viking, en andvirði þeirra rann til kaupanna á honum.  Það er einnig ljóst af framburði ákærðu og vitna, sem rakinn var hér að framan, að ákærði, Jón Ásgeir, og faðir hans, F, töldu sig eiga kröfu um að eignast hlut í bátnum, en aldrei tókst að ganga frá þeim eignarhlut áður en Jón Gerald seldi bátinn án samráðs við þá feðga, að því er best verður séð.  Hins vegar nefndi enginn Gaum ehf., við yfirheyrslur í aðal­með­ferðinni, í sambandi við eignarhlut í bátnum, nema F, en af framburði hans má ráða að hann geri ekki greinarmun á Gaumi ehf. og fjölskyldu sinni, enda félagið í eigu hennar. 

          Fjármunir þeir, sem ákærðu eru ákærðir fyrir að hafa dregið Gaumi ehf. frá Baugi hf., runnu ekki til þess félags, heldur til Nordica Inc., en ákærðu eru þó ekki ákærðir fyrir að hafa dregið féð því félagi.  Samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 má ekki dæma ákærðan mann fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir og með því að ósannað er að ákærðu hafi dregið Gaumi ehf. fé, eins og þeir eru ákærðir fyrir, verða þeir sýknaðir af þessum lið ákærunnar.  Að fenginni þessari niðurstöðu er þarflaust að fjalla um skýringar ákærðu á greiðslum Baugs hf. til Nordica Inc. sem þessi ákæruliður fjallar um.

             Ákæruliður 19. 

          Í þessum ákærulið er ákærða, Tryggva, gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa dregið sér samtals 1.315.507 krónur á tímabilinu frá 11. janúar 2000 til 12. febrúar 2002, þegar ákærði lét Baug hf. greiða félaginu Nordica Inc. í Bandaríkjunum reikninga í 13 skipti, sem gefnir voru út af Nordica Inc. á hendur Baugi hf., vegna persónulegra útgjalda ákærða sem voru Baugi hf. óviðkomandi.  Síðan segir að ákærði hafi einkum stofnað til útgjaldanna erlendis með úttektum á American Express greiðslukorti í reikning Nordica Inc., sem það hafi lagt út fyrir og innheimt síðan hjá Baugi hf. samkvæmt fyrirmælum ákærða.  Skýringartexti reikninganna hafi gefið til kynna að þeir hafi verið vegna ferða- og dvalarkostnaðar erlendis, en úttektirnar verið í raun vegna kaupa ákærða á varningi og þjónustu í eigin þágu.  Segir í ákærunni að þær hafi meðal annars verið vegna kaupa ákærða í tónlistarverslunum, tísku­vöru­versl­unum, golfvöruverslun, skemmtigarði, veitingastöðum og vegna kaupa á sláttu­dráttarvél. 

          Reikningarnir 13 hafa verið lagðir fram og eru þeir samtals að fjárhæð 14.354,10 bandaríkjadalir, eins og segir í ákærunni. Þá hafa verið lögð fram gögn þar sem fjárhæð hvers reiknings fyrir sig hefur verið sundurliðuð eftir notkun kortsins hvert tímabil fyrir sig.  Af þessum sundurliðunum má sjá að það hefur verið notað til að greiða í fríhöfnum, tískuvöruverslunum, tónlistarverslunum, skóverslun, raf­tækja­verslun, á veitingastöðum, í golfvöruverslun, garðvöruverslunum, aðgöngumiða, síma­kostnað, bækur og einnig hefur  árgjald kortsins verið greitt, auk annars sem ekki er auðvelt að átta sig á hvað er.  Sundurliðanirnar greina í einu tilfelli hærri fjárhæð en við­komandi reikningur er, þ.e. reikningur 7. september 2000 sem sagður er í ákæru vera 2.220 dalir en samkvæmt sundurliðuninni er hann 2.220,76 dalir.  Í 5 tilfellum greina sundurliðanirnar lægri fjárhæð en viðkomandi reikningur sem hér segir:  Reikningur 10. október 2000 er 638,31 dalur, en sundurliðunin er að fjárhæð 603,31 dalur, reikningur 11. janúar 2001 er 270 dalir en sundurliðunin tilgreinir 260,73 dali, reikningur 5. apríl 2001 er 3.813,23 dalir en sundurliðunin tilgreinir 3.800,13 dali, reikningur 4. september 2001 er 445,55 dalir en sundurliðunin tilgreinir 415,55 dali og reikningur 3. janúar 2002 er 458,81 dalur en sundurliðunin tilgreinir 390,52 dali.

          Í 116. gr. laga um meðferð opinberra mála kemur fram hvað greina skuli í ákæru, en samkvæmt c – lið er það hvert brotið er sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og önnur skilgreining og loks heimfærsla þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta.  Til að ákæra geti uppfyllt þessi skil­yrði laganna verður verknaðarlýsing hennar að vera þannig úr garði gerð að hvorki ákærði né dómari þurfi að vera í vafa um hvaða refsiverð háttsemi ákærða er gefin að sök.  Verður að vera hægt að ráða þetta af ákærunni einni saman og skiptir engu hvaða ályktanir megi draga af rannsóknargögnum eða hvað ákærða kann að vera ljóst vegna rannsóknar málsins.  Með ákærunni á þannig að leggja fullnægjandi grundvöll að málinu svo hægt sé að fella dóm á það samkvæmt því sem í ákærunni er tilgreint, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir, sbr. 117. gr. laganna.

          Í þessum ákærulið gefur ákæruvaldið ákærða að sök fjárdrátt með því að láta Baug hf. greiða félaginu Nordica Inc. í Bandaríkjunum reikninga í 13 skipti, sem gefnir voru út af Nordica Inc. á hendur Baugi hf., vegna persónulegra útgjalda ákærða sem voru Baugi hf. óviðkomandi og segir hann hafa látið færa framangreinda reikninga í bókhaldi Baugs hf. eins og nánar er rakið í ákærunni.  Það kemur hins vegar fram í ákærunni að ákæruvaldið telur fjárdráttinn vera vegna notkunar ákærða á greiðslu­korti í allmörg skipti í eigin þágu án þess að lýsa notkun hans nánar en að segja hann hafa meðal annars notað það í viðskiptum á tilteknum stöðum, eins og rakið var.  Rannsóknargögn benda þó til þess að það hafi verið notað víðar.  Þá bera þau með sér að ekki er samræmi á milli reikninganna og sundurliðunar lögreglu á notkun kortsins, eins og rakið var.  Með því að ákæruvaldið ákærir ákærða fyrir fjár­drátt bar nauðsyn til þess að það lýsti notkun hans kortinu í ákærunni með þeim hætti að honum og dómnum væri fært að taka afstöðu til hvers atviks fyrir sig.  Nauðsynlegt var að hafa þennan hátt á þar eð varnir ákærða hlutu að byggjast á því að hann gæti tekið afstöðu til sérhverrar greiðslu með kortinu.  Þetta var ekki gert og er ákæran þess vegna, að þessu leyti, ekki í samræmi við það sem áskilið er í 116. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Er óhjákvæmilegt að vísa þessum ákærulið frá dómi.                 

VII

          Ákæran var upphaflega í 19 liðum, en 1. lið hennar var vísað frá dómi eins og rakið var í II. kafla.  Með þessum dómi hefur 10 liðum til viðbótar verið vísað frá dómi, auk þess sem ákæru á hendur ákærða, Jóni Gerald, hefur verið vísað frá dómi.  Ákærði, Jón Ásgeir, hefur verið sakfelldur fyrir brot samkvæmt einum ákærulið og ákærði, Tryggvi, samkvæmt fjórum liðum. 

          Ákærði, Jón Ásgeir, er fundinn sekur um brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga og ákærði, Tryggvi, um brot gegn 2. mgr. 262. gr. sömu laga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994.  Sakavottorð ákærðu skipta ekki máli við ákvörðun refsingar.  Refsing ákærða, Jóns Ásgeirs, er hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði og refsing ákærða, Tryggva, fangelsi í 9 mánuði og hefur verið höfð hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar hans.  Skilyrði eru til að skilorðsbinda refsingarnar og skulu þær falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins fyrir þeim, haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegn­ingar­laga.

          Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið mið af vinnuskýrslum verjenda og við­mið­unarreglum dómstólaráðs.  Þá er virðisaukaskattur innifalinn í máls­varn­ar­laununum. 

          Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Ásgeirs, Gests Jónssonar hrl. ákveðast 15.300.000 krónur og skal ákærði greiða 1/10 hluta þeirra en að 9/10 hlutum skulu þau greidd úr ríkissjóði.

          Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Tryggva, Jakobs R. Möller hrl. ákveðast 11.900.000 krónur og skal ákærði greiða 1/5 hluta þeirra en að 4/5 hlutum skulu þau greidd úr ríkissjóði.

          Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Geralds, Brynjars Níelssonar hrl. ákveðast 7.900.000 krónur og skulu þau greidd úr ríkissjóði.

          Sakarkostnaður samkvæmt yfirliti setts ríkissaksóknara nemur 55.802.221 krónu.  Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 verða ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggvi, dæmdir til að greiða hluta þess kostnaðar.  Þegar litið er til þess að aðeins er sak­fellt fyrir hluta ákæruatriða, lengdar aðalmeðferðar, sem var ekki að öllu leyti í sam­ræmi við umfang málsins og þess að lagt var í kostnað vegna vitna sem ekki verður séð að þörf hafi verið á að leiða, verður ákærðu gert að greiða óskipt 5.000.000 króna í sakarkostnað til ríkissjóðs.

          Af hálfu ákærða, Jón Ásgeirs, hefur verið krafist greiðslu kostnaðar vegna vinnu aðstoðarmanna verjanda hans.  Þá hefur verið krafist greiðslu kostnaðar vegna vinnu PriceWaterhouseCoopers, en það endurskoðunarfyrirtæki vann álitsgerðir um ákæru­liði 10 til 19.  Loks er krafist greiðslu 685.192 króna vegna útlagðs skrifstofu- og ritfangakostnaðar og fylgja reikningar til stuðnings þeirri kröfu.  Þegar litið er til um­fangs málsins verður ekki hjá því komist að ákvarða kostnað vegna að­stoð­ar­mann­anna 25.000.000 króna og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.  Þá verður fallist á að skrifstofu- og ritfangakostnaður ákærða teljist til sakarkostnaðar.  Hins vegar er ekki fallist á að vinna PriceWaterhouseCoopers hafi, nema að litlu leyti, verið óhjákvæmileg vegna rannsóknar og meðferðar málsins, sbr. 1. mgr. 164. gr. laga nr. 19/1991 og verður þessi kostnaður því ekki talinn til sakarkostnaðar.  Samkvæmt þessu ákveðst kostnaður ákærða, Jóns Ásgeirs, 25.685.192 krónur og skal ákærði greiða 1/10 hluta hans, en 9/10 skulu greiddir úr ríkissjóði.

          Dóminn kváðu upp Arngrímur Ísberg, héraðs­dómari, dómsformaður, Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, og Garðar Valdimarsson, hæstaréttarlögmaður og lög­giltur endurskoðandi.

          Dómsuppsaga hefur dregist fram yfir lögmæltan tíma vegna umfangs málsins.

Dómsorð

          Ákæruliðum 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10 og 19 er vísað frá dómi.

          Ákæru á hendur ákærða, Jóni Gerald Sullenberger, er vísað frá dómi.

          Ákærði, Jón Ásgeir Jóhannesson, sæti fangelsi í 3 mánuði.

          Ákærði, Tryggvi Jónsson, sæti fangelsi í 9 mánuði.

          Fresta skal fullnustu refsinga ákærðu og falli þær niður að liðnum 2 árum frá birt­ingu dómsins fyrir þeim, haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

          Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Ásgeirs, Gests Jónssonar hrl., 15.300.000 krónur, skal ákærði greiða að 1/10 hluta, en að 9/10 hlutum skulu þau greidd úr ríkissjóði.

          Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Tryggva, Jakobs R. Möller hrl., 11.900.000 krónur, skal ákærði greiða að 1/5 hluta, en að 4/5 hlutum skulu þau greidd úr ríkissjóði.

          Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Geralds, Brynjars Níelssonar hrl., 7.900.000 krónur skulu greidd úr ríkissjóði.

          Ákærðu, Jóns Ásgeir og Tryggvi, greiði óskipt 5.000.000 króna í sakarkostnað til ríkissjóðs.

          Kostnaður ákærða, Jóns Ásgeirs, 25.685.192 krónur, skal að 1/10 hluta greiddur af ákærða, en að 9/10 hlutum skal hann greiddir úr ríkissjóði.

 

                      Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2007.

I

  Með ákæru, dagsettri 31. mars 2006, höfðaði settur ríkissaksóknari samkvæmt um­boðs­skrá  opinbert mál á hendur þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, kt. 270168-4509,

Laufás­vegi 69, Reykjavík, Tryggva Jónssyni, kt. 140755-2739,Vesturhúsum 22, Reykja­vík og Jóni Gerald Sullenberger, kt. 240664-2089,832 Santiago Street, Coral Gables, Florida, USA.

  Ákæran var upphaflega í 19 liðum en með úrskurði 30. júní 2006 vísaði héraðs­dómur 1. ákæruliðnum frá dómi og var sá úrskurður staðfestur af Hæstarétti 21. júlí sama ár.  Dómur gekk í héraði um þá 18 ákæruliði sem eftir stóðu 3. maí sl. og var 2. – 10. og 19. ákærulið vísað frá dómi svo og ákærulið 15 hvað varðaði ákærða, Jón Gerald.  Í 2. – 10. ákærulið er ákærði, Jón Ásgeir, einn ákærður og í 19. ákærulið er ákærði, Tryggvi, einn ákærður.  Með dómi Hæstaréttar 1. júní sl. var frávísunin felld úr gildi nema frávísun aðal­kröfu samkvæmt 10. ákærulið.

  Málið var endurflutt um framangreinda ákæruliði 13. júní sl. auk þess sem eitt vitni var yfirheyrt.  Þeir kaflar ákærunnar sem dómur verður nú felldur á eru svohljóðandi:

“II. kafli.  Lánveitingar andstæðar lögum um hlutafélög

Ákærða Jóni Ásgeiri eru, sem forstjóra Baugs hf., gefin að sök, í ákæruliðum 2-9, brot gegn lögum um hlutafélög með því að láta veita lán af fjármunum Baugs hf. til Fjár­fest­ing­arfélagsins Gaums ehf., Fjárfars ehf. og A á árunum 1999-2001. Baugur hf. var á þessum tíma skráð hlutafélag á aðallista Verðbréfaþings Íslands með dreifða eignaraðild.

Ólögmætar lánveitingar til Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf.

2. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 20. ágúst 1999, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjár­hæð kr. 100.000.000 frá Baugi hf., til að fjármagna kaup á hlutafé í Baugi hf., en ákærði var þá jafnframt framkvæmdastjóri Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. Lánið var veitt með þeim hætti að millifærðar voru kr. 100.000.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, til Íslandsbanka hf., sem greiðsla Fjár­festingar­félagsins Gaums ehf. vegna innheimtu bankans á hlutafjárloforði Fjár­festingar­félagsins Gaums ehf., að nafn­verði kr. 10.000.000, í hlutafjárútboði Baugs hf. í apríl 1999. Gefin var út skrifleg yfir­lýsing Baugs hf. til staðfestingar á lánveitingunni og að lánið bæri 12,2% vexti frá 20. júlí 1999 en gjalddagi ekki tilgreindur. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á við­skipta­mannareikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. hjá Baugi hf. hinn 23. ágúst 1999. Eftir bókunina stóð skuld Fjár­fest­ingarfélagsins Gaums ehf. á viðskiptamanna­reikn­ingn­um í kr. 182.782.689 en staða á lánar­drottnareikningi Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bók­haldi Baugs hf. þennan dag nam kr. 131.350.000 sem krafa á Fjárfestingarfélagið Gaum ehf. sem þannig skuldaði Baugi hf. samtals kr. 314.132.689. Dráttarvextir voru ekki greiddir og láns­fjárhæðin ekki innheimt í samræmi við hlutafélagalög. Lán þetta var endur­greitt á tímabilinu 28. október 1999 til 28. júní 2000.

3. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 11. október 1999, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 4.500.000 frá Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að milli­færðar voru kr. 4.500.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 1150 26 000077, á banka­reikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf., nr. 0527 26 001099, vegna kaupa þess félags á hluta fasteignarinnar að Viðarhöfða 6, Reykjavík. Gefin var út skrifleg yfirlýsing Baugs hf. til stað­festingar á lánveitingunni og að lánið  bæri 11,5% vexti frá 1. október 1999. Gjald­dagi var ekki tilgreindur. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskipta­manna­reikning Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. Eftir bókunina stóð skuld Fjárfestingar­félagsins Gaums ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 187.665.005 en staða á lánardrottnareikningi Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bók­haldi Baugs hf. þann dag nam kr. 3.650.000, sem skuld Baugs hf. við Fjár­festingar­félagið Gaum ehf., sem þannig skuldaði Baugi hf. samtals kr. 184.015.005. Láns­fjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002.

4. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 3. desember 1999, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 8.000.000 frá Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að milli­færðar voru kr. 8.000.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, til Spari­sjóðs Reykjavíkur og nágrennis, vegna kaupa Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. á helm­ingi hlutafjár í Við­skipta­trausti ehf., sem var í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Lánið var veitt án skriflegra gagna um endurgreiðslu og greiðslukjör. Í bók­haldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskiptamannareikning Fjár­festingar­félagsins Gaums ehf. hjá Baugi hf. Eftir bókunina stóð skuld Fjár­fest­ingar­félagsins Gaums ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 168.031.286. Lánardrottna­reikn­ingur Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. stóð á núlli þennan dag. Þetta lán var gert upp 30. júní 2000 án vaxta.

5. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa hinn 13. febrúar 2001, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjár­hæð kr. 50.529.987 til að fjármagna kaup á hlutum í Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að Fjárfestingarfélagið Gaumur ehf. skráði sig fyrir hlutafé í Baugi hf. að verð­mæti kr. 340.529.987 í hlutafjárútboði í félaginu í desember árið 2000. Þar af voru greiddar kr. 290.000.000 til Baugs hf. en eftirstöðvarnar, kr. 50.529.987, voru ekki greiddar heldur var lánsfjárhæðin eignfærð á við­skipta­manna­reikning Fjárfestingar­fél­ags­ins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. 13. febrúar 2001. Eftir bókunina stóð skuld Fjár­fest­ing­arfélagsins Gaums ehf. á viðskiptamanna­reikningnum í kr. 145.871.863. Í bókhaldi Baugs hf. stóð lánardrottnareikningur Fjár­fest­ingarfélagsins Gaums ehf. á núlli þennan dag. Lánið var veitt án skriflegra gagna um endurgreiðslu og greiðslukjör og láns­fjár­hæðin ekki innheimt í samræmi við hluta­félaga­lög. Lánsfjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002.

6. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa hinn 18. maí 2001, látið veita Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjár­hæð kr. 100.000.000 frá Baugi hf. Lánið var veitt með þeim hætti að milli­færðar voru kr. 100.000.000 af bankareikningi Baugs hf., nr. 0527 26 000720, inn á banka­reikning nr. 0527 26 001099 í eigu Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. Gefin var út skrifleg yfirlýsing, undir­rituð af hálfu Baugs hf., til staðfestingar á lán­veit­ingunni. Þar kom fram að lánið skyldi endurgreiða 15. júní 2001 og að lánið bæri 16% vexti auk kr. 300.000 álags. Í bók­haldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á við­skipta­manna­reikning Fjár­fest­ingar­fél­agsins Gaums ehf. Eftir bókunina stóð skuld Fjárfest­ingar­félagsins Gaums ehf. á við­skipta­manna­reikningnum í kr. 262.836.989. Lánar­drottna­reikningur Fjár­festingar­félagsins Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. stóð á núlli þennan dag. Lánsfjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002

Ólögmætar lánveitingar til Fjárfars ehf.

7. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 16. maí 2000, látið veita Fjárfari ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 64.500.000 frá Baugi hf. til að fjármagna kaup á hlutfé í Baugi hf. af félaginu að nafn­virði kr. 5.000.000 en að verðmæti kr. 64.500.000. Hlutaféð var selt í samræmi við óundir­ritaðan, skrif­legan samning þessara aðila, dagsettan 16. maí 2000, þar sem fram kom að kaup­verðið skyldi greiða 2. júní 2000 en engin greiðsla fór þá fram og engin tilraun gerð til inn­heimtu lánsins. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskipta­manna­reikning Fjárfars ehf. 16. maí 2000 og var um að ræða fyrstu færslu á þeim við­skipta­manna­reikningi. Lánsfjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002.

8. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 13. febrúar 2001, látið veita Fjárfari ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 85.758.591 til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu. Lánið var veitt með þeim hætti að Fjárfar ehf. skráði sig fyrir hlutafé í Baugi hf. að verðmæti kr. 85.758.591 í hlutafjár­út­boði í félaginu í desember árið 2000. Ekki var greitt fyrir hlutaféð og láns­fjár­hæðin ekki inn­heimt í samræmi við hlutafélagalög. Lánsfjárhæðin var ógreidd hinn 28. ágúst 2002. Í bók­haldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á viðskipta­manna­reikning Fjárfars ehf. 13. febrúar 2001. Eftir bókunina stóð skuld Fjárfars ehf. á við­skipta­mannareikningnum í kr. 194.350.540.

Ólögmæt lánveiting til A.

9. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, hinn 13. febrúar 2001, látið veita A, hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 3.786.727 til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu. Lánið var veitt með þeim hætti að A skráði sig fyrir hlutafé í Baugi hf. að verðmæti kr. 3.786.727 í hluta­fjárútboði í félaginu í desember árið 2000. Ekki var greitt fyrir hlutaféð og láns­fjár­hæðin ekki innheimt í samræmi við hlutafélagalög. Lánsfjárhæðin var ógreidd 28. ágúst 2002. Í bókhaldi Baugs hf. var lánsfjárhæðin eignfærð á við­skipta­mannareikning A 13. febrúar 2001 og var það fyrsta færslan á þeim reikningi.

Brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt ákæruliðum 3, 4 og 6 teljast varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr., laga um hlutafélög nr. 2/1995 en brot ákærða samkvæmt ákæru­liðum 2, 5, 7, 8 og 9 teljast varða við 2. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr., laga um hluta­félög nr. 2/1995.

III. kafli.  Meiri háttar bókhaldsbrot, rangfærsla skjala og brot gegn lögum um hlutafélög

Ákærðu Jóni Ásgeiri, forstjóra Baugs hf., og Tryggva, aðstoðarforstjóra Baugs hf., eru í ákæru­liðum 10-16 gefin að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa á árunum 2000 og 2001 rangfært bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin voru til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldinu með þeim hætti að það gaf ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Auk þess er ákærða Jóni Ásgeiri í ákærulið 10 gefin að sök ólögmæt lánveiting.

Jafnframt er ákærða Jóni Ásgeiri í ákæruliðum 10-16 gefin að sök rangfærsla skjala og brot gegn hlutafélagalögum með því að láta, sem forstjóri Baugs hf., senda frá Baugi hf. til Verðbréfaþings Íslands opinberar tilkynningar sem ákærða var ljóst að voru rangar. Um var að ræða tilkynningu, birta 28. ágúst 2000, um afkomu félagsins á fyrstu 6 mán­uðum ársins 2000, tilkynningu, birta 19. mars 2001, um afkomu félagsins á árinu 2000 og til­kynningu, birta 3. september 2001, um afkomu félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2001. Með þessum röngu, opinberu tilkynningum sem byggðust á niðurstöðum árs­hluta­reikninga og ársreiknings Baugs hf. skýrði ákærði Jón Ásgeir vísvitandi og í blekk­ing­ar­skyni rangt frá högum Baugs hf. á opinberum vettvangi og skapaði vísvitandi rangar hugmyndir um hag félagsins þannig að áhrif gat haft á sölu eða söluverð hluta í félaginu. 

Ákærða Jóni Gerald Sullenberger er í ákærulið 15 gefið að sök brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög um bókhald, með því að hafa á árinu 2001 aðstoðað ákærðu Jón Ásgeir og Tryggva við að rangfæra bókhald Baugs hf. með því að búa til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum.

Rangar færslur á fyrri helmingi ársins 2000 höfðu þau áhrif á árshlutareikning Baugs hf. fyrir fyrstu sex mánuði þess árs að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 13 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 1,7% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 60 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 26% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 1,7% hærra en ella hefði verið.

Rangar færslur á árinu 2000 höfðu þau áhrif á ársreikning Baugs hf. fyrir árið 2000 að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 53 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 3,2% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 203 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 52% hækkun hagnaðar, og eigið fé var 4,1% hærra en ella hefði verið.

Rangar færslur á fyrri helmingi ársins 2001 höfðu þau áhrif á árshlutareikning Baugs hf. fyrir fyrstu sex mánuði þess árs að hagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA-hagnaður) var u.þ.b. 108 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 15,6% hækkun EBITDA-hagnaðar. Hagnaður eftir skatta var u.þ.b. 76 milljónum kr. hærri en ella hefði verið, sem samsvarar 25,6% hækkun hagnaðar og eigið fé var 0,7% hærra en ella hefði verið.

Meiri háttar bókhaldsbrot og rangar tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands um afkomu Baugs hf. á árinu 2000.

10. Ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að láta, færa í bókhaldi Baugs hf. 30. júní 2000 sölu á hlutafé Baugs hf. í Baugi.net ehf., að nafnverði kr. 2.500.000 til Fjárfars ehf., sem ákærði stjórnaði og réð yfir, fyrir kr. 50.000.000. Í bók­haldi Baugs hf. voru kr. 2.500.000 færðar til lækkunar á hlutabréfaeign en kr. 47.500.000 sem tekjur af sölu hlutabréfa. Fjárfar ehf. greiddi ekki fyrir hlutaféð og voru kr. 50.000.000 eignfærðar í bókhaldi Baugs hf. á viðskiptareikning Fjárfars ehf. Bók­halds­færslurnar voru byggðar á samningi milli Baugs hf. og Fjárfars ehf., dagsettum 16. júní 2000, um umrædd hlutafjárkaup. Viðskipti félaganna með hlutaféð gengu ekki eftir og bak­færsla var gerð í bókhaldi Baugs hf. hinn 21. febrúar 2002 með þeim hætti að eign Baugs hf. á viðskiptareikningi Fjárfars ehf. var lækkuð um kr. 50.000.000, nafnverð hluta­fjár í Baugi.net ehf. kr. 2.500.000 eignfært en hagnaður af sölu hlutabréfa, kr. 47.500.000, gjaldfærður. Þessi færsla var síðan leiðrétt 28. febrúar 2002 og gjald­færsl­unni var breytt í eignfærslu að fjárhæð kr. 47.500.000 og stóð þannig bókfærður sölu­hagnaður óhaggaður.”

“Til vara er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa lánað Fjárfari ehf. kaupverð hlutafjárins, kr. 50.000.000. Í bókhaldi Baugs hf. var krafa félagsins eignfærð á viðskiptamannareikning Fjárfars ehf. 30. júní 2000. Eftir bókunina stóð skuld Fjárfars ehf. á viðskiptamannareikningnum í kr. 114.500.000.”

“Meiri háttar bókhaldsbrot og rangar tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands um afkomu Baugs hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2001.

15. Ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva er gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Þetta gerðu þeir með því að láta færa til eignar (........) í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf., sem lækkuð vörukaup,  kr. 61.915.000 á grundvelli rangs og tilhæfulauss kreditreiknings (afsláttarreiknings) frá Nordica Inc., Miami í Flórída í Bandaríkjunum, dagsetts 30. ágúst 2001, að fjárhæð USD 589.890, sem jafngilti kr. 61.915.000 á færsludegi.

Ákærða Jóni Gerald Sullenberger er gefið að sök að hafa aðstoðað ákærðu Jón Ásgeir og Tryggva við að rangfæra bókhald Baugs hf. og stuðlað að bókhaldsbroti þeirra með því að útbúa framangreindan kreditreikning að tilhlutan ákærða Jóns Ásgeirs og samkvæmt fyrir­sögn ákærða Tryggva. Reikningurinn átti sér ekki stoð í viðskiptum þeirra félaga sem ákærðu voru í fyrirsvari fyrir.

Samtala þessa kreditreiknings frá Nordica Inc. og þeirrar fjárhæðar sem kom fram í yfirlýsingu frá P/F SMS í Færeyjum að jafnvirði kr. 46.679.000 var vegna mistaka færð öfugt í bókhald Baugs hf., með færsludegi 30. júní 2001, sem kostnaðarfærsla í stað tekju­færslu með textaskýringunni ”Lokaf. Kreditreikn. skv. JÁJ KSV”. Fylgiskjal í bókhaldi að baki færslunni er lokafærslublað frá endurskoðendum félagsins, dagsett 27. september 2001. Færslan var síðar leiðrétt með fskj. nr. I00751, dags 30.06.2001, með texta: leiðr.lokafærsla v/bókað öfugt” Áhrif af færslunum á bókhald Baugs hf. var því eftirfarandi:

 

Bókhaldslykill

Heiti lykils

Debet

Kredit

F 19922

Tekjur utan samstæðu (rekstrarreikn.)

 

108.594.000

F 73112

Biðreikningur (efnahagsreikningur)

108.594.000

 

 

Í árslok 2001 var tekjufærslan lækkuð um kr. 13.321.000 og sama fjárhæð færð til lækkunar eignfærðri kröfu á biðreikningi. Tekjufærslan var síðar lækkuð um samtals kr. 49.500.000 í bókhaldi Baugs hf. þannig að kr. 4.500.000 voru gjaldfærðar mánaðarlega (lotaðar) í bókhaldi Baugs hf. í ellefu skipti frá og með 16. apríl 2002. Færslur vegna þessa kreditreiknings voru gerðar í bókhaldi aðalskrifstofu Baugs hf.”

“Brot ákærða Jóns Ásgeirs .... samkvæmt ákærulið 10 telst til vara varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr., hlutafélagalaga nr. 2/1995.”

“Brot ákærða Jóns Geralds, samkvæmt ákærulið 15, telst varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 37. gr., sbr. 8. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994 um bókhald.”

Fjárdráttur í tengslum við skemmtibátinn Thee Viking og notkun greiðslukorts.

“19. Ákærða Tryggva er gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa dregið sér samtals kr. 1.315.507 á tímabilinu frá 11. janúar 2000 til 12. febrúar 2002, þegar ákærði lét Baug hf. greiða félaginu Nordica Inc. í Bandaríkjunum í 13 skipti reikninga sem gefnir voru út af Nordica Inc. á hendur Baugi hf., vegna persónulegra útgjalda ákærða sem voru Baugi hf. óviðkom­andi. Ákærði stofnaði einkum til útgjaldanna erlendis með úttektum á American Express greiðslukorti í reikning Nordica Inc., sem það lagði út fyrir og innheimti síðan hjá Baugi hf., samkvæmt fyrirmælum ákærða. Skýringartexti reikninganna gaf til kynna að þeir væru vegna ferða- og dvalar­kostnaðar erlendis. Úttektirnar voru í raun vegna kaupa Tryggva á varningi og þjónustu í eigin þágu, meðal annars í tónlistarverslunum, tísku­vöru­verslunum, golf­vöru­verslun, skemmtigarði, veitingastöðum og vegna kaupa á sláttu­dráttarvél. Ákærði, sem var aðstoðarforstjóri Baugs hf. á þessum tíma, hafði til afnota greiðslu­kort frá Baugi hf. til þess að greiða með kostnað vegna rækslu starfa í þágu félagsins erlendis. Ákærði áritaði alla 13 reikningana um samþykki, en þeir voru án fylgi­gagna og samtals að fjárhæð 14.354,10 USD, og lét færa þá til gjalda í bókhaldi Baugs hf. sem „Ferðakostnaður erlendis án vsk“ eða sem „Tæknileg aðstoð án vsk“. Gjaldfærður kostnaður í bókhaldi Baugs hf. vegna þessara reikninga var samtals kr. 1.315.507 og er þá út­lagður bankakostnaður aðeins talinn með í þeim tilvikum sem annar kostnaður var ekki greiddur á sama tíma.

Í neðangreindri töflu eru fjárdráttartilvikin sundurliðuð:

 

Dags. reiknings

Nr.

Texti reiknings

Fjárhæð reiknings í USD

Dags. greiðslu

Gjaldfærður kostnaður í kr.

31.12.1999

99107

Hotel and travel exp. Dec 99

329,58

11.01.2000

24.678

05.05.2000

49

Travel and trans-portation services

548,90

18.05.2000

43.596

07.09.2000

95

Travel expenses for July and August 2000

2.220,00

11.09.2000

186.636

10.10.2000

108

Travel lodging and telephone exp. Sep 2000

638,31

17.10.2000

55.420

11.01.2001

5

Hotel and travel exp.

270,00

29.01.2001

23.328

08.02.2001

26

Hotel and traveling expense January 01 to 31 2001

2.333,33

12.02.2001

201.536

05.04.2001

77

Travel expenses for March 2001

3.813,23

18.04.2001

354.173

16.07.2001

169

Travel expenses for June 2001

1.525,78

25.07.2001

155.357

04.09.2001

199

Food/beverage and traveling expenses

445,55

14.09.2001

44.056

26.09.2001

206

Travel expenses for September 2001

1.209,99

01.10.2001

121.785

27.11.2001

239

Travel expenses for November 2001

247,04

03.12.2001

26.372

03.01.2002

247

Travel expenses for November 2001 and December 2001

458,81

10.01.2002

46.789

29.01.2002

254

Travel expenses for January 2002

313,58

12.02.2002

31.781

 

 

Samtals :

  14.354,10

 

1.315.507

 

“Brot ákærða Tryggva, samkvæmt ákæruliðum 18 og 19, teljast varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot.”

  Ákærðu neita sök og hafa verjendur þeirra krafist sýknu og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun þeirra, verði greiddur úr ríkissjóði.

II

  Ákæruliðir 2 til 9 og varakrafa samkvæmt ákærulið 10.

  Í þessum kafla ákærunnar og í ákærulið 10 í III. kafla er ákærða Jóni Ásgeiri gefið að sök brot gegn lögum um hlutafélög nr. 2 1995 með því að láta veita lán af fjár­munum Baugs hf. til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., Fjárfars ehf. og A á árunum 1999-2001.  Í 1. mgr. 104. gr. nefndra laga er m.a. lagt bann við því að hlutafélag veiti hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins lán, og í 2. mgr. sömu greinar er hlutafélagi m.a. bannað að veita lán til að fjár­magna kaup á hlutum í félaginu eða leggja fram fé í tengslum við slík kaup.  Tekið er fram í 1. málsgreininni að bann hennar við lánveitingum taki þó ekki til viðskiptalána.

  Í ákæruliðum 2 til 10 getur því reynt á skýringu á merkingu orðanna “lán” og “við­skipta­lán”.  Við skýringu á merkingu þessara orða er óhjákvæmilegt að taka mið af því að í málinu reynir á þau eingöngu við úrlausn þess hvort ákærði hafi gerst sekur um refsi­verða háttsemi.

  Þetta hefur verið skýrt svo að hlutafélag teljist hafa veitt lán í þessum skilningi þegar það hefur greitt hluthafa eða stjórnanda félags peningaupphæð eða ígildi hennar eða látið af hendi til þeirra önnur fjárhagsleg verðmæti með áskilnaði um endurgreiðslu pen­inga­upp­hæðarinnar eða ígildis hennar eða skil á verðmætum.  Að jöfnu við þetta megi, m.a., leggja ef félag hefur með sama áskilnaði innt af hendi peningagreiðslu til þriðja manns til að efna skyldu, sem hvílt hefur gagnvart honum á félagsaðila, en með því megi líta svo á að lán hafi verið veitt þeim, sem greiðsla var til hagsbóta fyrir.  Þá hefur verið litið svo á að færslur á viðskiptareikningum hlutafélags á grundvelli reikninga og kaupsamninga, þar sem hönd hefur ekki selt hendi, vegna vöruúttekta og með greiðslu krafna á hendur hluta­félagi, sem félagið virðist hafa talið sig eiga framkröfu fyrir, teljist ekki hafa komið til með veitingu láns í áðurgreindum skilningi.  Í athugasemdum við 1. mgr. þeirrar greinar sem nú er 104. gr. hlutafélagalaga segir að ákvæðið taki til láns í peningum eða ígildi þeirra en nái þó ekki til venjulegra viðskiptalána.  Samkvæmt 15. grein laga nr. 145/1994 um bókhald er gert ráð fyrir því að haldinn sé sérstakur við­skipta­manna­reikn­ingur fyrir viðskipti við hvern viðskiptamann, önnur en þau sem hönd selur hendi.  Staðan á viðskiptamannareikningi í lok reikningsárs fellur undir viðskiptakröfur undir liðnum skammtímakröfur í veltufjármunum, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 696/1996 um fram­setningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga.  Með viðskiptakröfu eða við­skipta­láni er venjulega átt við hvers konar fjárhæðir sem viðskiptamaður fyrirtækis skuldar því vegna kaupa hans á vörum eða þjónustu frá því út í reikning. 

  Ákæruliður 2.

  Í þessum ákærulið er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, 20. ágúst 1999, látið veita Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð kr. 100.000.000 frá Baugi hf. til að fjármagna kaup á hlutafé í Baugi hf., en ákærði var þá jafnframt framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Gaums ehf.  Í ákæru­liðnum er þessari ætluðu ólögmætu lánveitingu lýst.  Gaumur ehf. var í eigu ákærða og fjölskyldu hans

  Meðal gagna málsins er skjal sem ber heitið, Staðfesting á lánveitingu.  Í texta þess segir að lántaki sé Gaumur ehf., tímabil sé frá 20. ágúst 1999 og fjárhæð 100.000.000.  Vextir eru 12,20% og reiknast frá 20. júlí 1999.  Þá er tilgreindur sami bankareikningur og í ákæru og loks segir, Greiðsla til Íslandsbanka v/hlutafjárútboðs fyrir Gaum hf.  Undir skjalið ritar E. fyrir hönd Baugs hf., en enginn undirritar fyrir hönd Gaums ehf.  Þá eru og meðal gagna málsins skjöl er sýna að 23. ágúst 1999 var framangreind fjárhæð færð af reikningi Baugs hf. í Íslandsbanka hf. til Íslandsbanka hf. sem greiðsla Gaums ehf. vegna innheimtu bankans á hlutafjárloforði Gaums ehf. að nafnverði 10.000.000 í hluta­fjárútboði Baugs hf. í apríl 1999.

  Ákærði bar að um hafi verið ræða viðskiptalán er tengdist viðskiptum í sambandi við svonefndan “franchise” rétt fyrir Debenhams.  Hann kannaðist ekki við að hafa áður séð skjalið sem ber heitið Staðfesting á lánveitingu og gat ekki borið um önnur skjöl er tengjast þessum ákærulið, en kvað Gaum ehf. hafa verið að kaupa hlutabréf í Baugi hf. til að uppfylla samning Baugs hf. við Smáralind eða félag á vegum Smáralindar.  Ekki mundi ákærði hver hafi tekið ákvörðunina um hlutafjárkaupin en kvað föður sinn, F, hafa verið framkvæmdastjóra Gaums ehf. á þessum tíma.  Fjár­mála­svið Baugs hf. hafi annast um færslur í bókhald félagsins.  Nánar bar ákærði að þessi færsla tengdist samningi sem gerður hafi verið við Smáralind um að Baugur hf. tæki á leigu 1.000 fermetra verslun fyrir Hagkaup.  Síðar var svo rætt um að félagið fengi sér­vöru­leyfi fyrir Debenhams og að NRP ehf. fengi að kaupa 10 milljónir, að nafnverði, í Baugi hf. og væri það greiðsla fyrir sér­leyfis­samninginn.  Samið hafi verið um gengið 9 fyrir hlutaféð og að Gaumur ehf. yrði milliliður í viðskiptunum.  Þetta hafi síðan gerst þannig að Gaumur ehf. hafi skrifað sig fyrir 10 milljónum í hlutafjárútboðinu sem hafi runnið til NRP ehf. er hafi greitt beint inn á reikning Baugs hf. 90 milljónir.  Baugur hf. hafi síðan greitt Gaumi ehf. mis­muninn, 10 milljónir, fyrir Debenhams sérleyfið.  Ákærði kvaðst hafa séð um það af hálfu Baugs hf. að efna samninginn við NRP ehf. 

  Tryggvi Jónsson, sem ekki er ákærður í þessum kafla ákærunnar, var að­stoð­ar­for­stjóri Baugs hf. á þessum tíma og bar meðal annars ábyrgð á fjármálasviði félagsins.  Hann bar að hann myndi ekki eftir gerð framangreinds skjals, hann hefði ekki komið að gerð þess.  Hann bar á sama hátt og ákærði um viðskiptin sem tengdust þessu og hvernig þau vörðuðu öflun Baugs hf. á Debenhams sérleyfinu.

  Vitnið, B, endurskoðandi Baugs hf., hefur borið að Gaumur ehf. hafi riðið á vaðið í viðskiptum við þá aðila sem voru handhafar eða umboðsaðilar vöru­merk­isins Debenhams en síðar hafi svo Baugur hf. komið að málinu.  

  E, er var fjármálastjóri Baugs hf. á þessum tíma, bar að hún hefði út­búið skjalið með heitinu, Staðfesting á lánveitingu, til að nota sem fylgiskjal í bók­haldinu, en hún hafi ekki haft nein önnur gögn um þessa færslu.  Sem fyrirmynd hafi hún notað skjöl frá bönkum og skjalið hafi verið fylgiskjal með banka­reikn­ingnum til að hún vissi hvert greiðslan hefði runnið.  Vextirnir hefðu verið markaðs­vextir á þessum tíma.  Hún kveðst sjálf hafa tekið ákvarðanir varðandi þessa færslu, en ekki fengið fyrirmæli um hana frá öðrum.  Hún kvaðst ekki muna til hvers verið var að færa fjármuni til Gaums ehf. eða annað sem tengdist viðskiptunum. 

  Meðal gagna málsins er einnig kaupsamningur frá 15. nóvember 1999 milli NRP ehf. og Gaums ehf., en samkvæmt honum selur Gaumur ehf. NRP ehf. hlutabréf í Baugi hf. að nafnverði 10 milljónir króna á 90 milljónir króna.  Í bréfi sem HH, sem var framkvæmdastjóri NRP ehf. á þessum tíma, ritar ríkislögreglustjóra 12. maí 2005 segir að viðskiptin með hlutabréfin í Baugi hf. samkvæmt kaupsamningnum hafi verið “vegna            “óbeins framsals” NRP ehf. á sér­leyfis­samningi við Debenhams plc yfir til Baugs hf.  Upphaflega var gengið frá munn­legu samkomulagi á milli NRP ehf. og Baugs hf. um fram­salið og um sérstakt endur­gjald fyrir það í formi kaupréttarins á umræddum hluta­bréfum.  Síðar kom í ljós að Baugur hf. átti ekki eigin hlutabréf til að afhenda NRP ehf. og var gengið frá framan­greindum kaupsamningi við Gaum ehf. sem þá var stærsti hlut­hafi Baugs hf.  Framan­greindar greiðslur frá NRP ehf. vegna kaupanna fóru inn á bankareikning Baugs hf. eins og upphaflegt samkomulag NRP ehf. og Baugs hf. gerði ráð fyrir.  Tekið skal fram að Debenhams plc var ekki aðili að framangreindum samningum á milli hinna íslensku aðila.  Gerður var samningur á milli NRP ehf. og Debenhams plc um slit á fyrri samningi þeirra og í framhaldi af því var gengið frá sérleyfissamningi milli Baugs hf. og Debenhams plc.”  HH bar efnislega á sama veg og í bréfinu greinir.  Hann kvað greiðslur samkvæmt kaupsamningnum hafa runnið til Baugs hf. þótt ekki sé ákvæði um það í samningnum.

  Þá er meðal gagna málsins skýrsla endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte frá 27. maí 2005, unnin af endurskoðendunum II og JJ um grein­ingu á bókhaldsfærslum á viðskiptamanna- og lánadrottnareikningum Gaums ehf. í bók­haldi Baugs hf.

  Samkvæmt framansögðu hafði NRP ehf. gert sérleyfissamning við Debenhams plc  hér á landi.  NRP ehf. samdi síðan um það við Baug hf. að falla frá þessum samningi til hagsbóta fyrir Baug hf. gegn því að Baugur hf. seldi fyrrnefnda félaginu hluti í sjálfu sér á undirverði, nánar tiltekið að nafnverði 10 milljónir króna á genginu 9 í stað útboðs­geng­isins 10.  Þar eð Baugur hf. átti á þessum tíma enga hluti í sjálfu sér var Gaumur ehf. látið af­henda NRP ehf. þessa 10 milljón hluti, sem Gaumur ehf. hafði sem áður segir skráð sig fyrir á genginu 10 eða fyrir 100 milljónir króna.  Þess vegna lagði  Baugur hf. út fyrir Gaum ehf. þessar 100 milljónir króna til þess að Gaumur ehf. gæti efnt hlutafjárloforð sitt við umsjónaraðila hlutafjárútboðs Baugs hf., Íslandsbanka hf.  Nefndir hlutir voru síðan afhentir NRP ehf. á undirverði á genginu 9 eða á 90 milljónir króna.

   Samkvæmt framangreindri skýrslu endurskoðendanna greiddi NRP ehf. kaup­verð hlutanna með þremur greiðslum, eða 28. október 1999 15 milljónir króna, 2. nóvember 1999 15 milljónir króna og 28. júní 2000 60 milljónir króna.  Þessar endur­greiðslur koma allar beint frá NRP ehf. inn á bankareikning Baugs hf., en Baugur hf. færir þær til lækk­unar á viðskiptareikningi Gaums ehf. hjá Baugi hf.  Auk þess færir Baugur hf. til tekna vaxta­tekjur að fjárhæð 8.242.952 krónur sem viðskiptareikningur Gaums ehf. er skuld­aður fyrir.  Mismunurinn á útboðsverði hlutanna og undirverðinu til NRP ehf., 10 milljónir króna, var síðar færður til eignar í bókhaldi Baugs hf. sem stofn­kostnaður, en á móti til lækkunar viðskiptareikningi Gaums ehf. hjá Baugi hf., samkvæmt upplýsingum endur­skoðanda Baugs hf.

  Miðað við kaupsamninginn frá 15. nóvember 1999 milli NRP ehf. og Gaums ehf. um sölu Gaums ehf. á hlutum í Baugi hf. að nafnverði 10 milljónir króna fyrir 90 milljónir króna og þann færslumáta sem hafður var á í bókhaldi Baugs hf. varðandi þær 100 milljónir króna sem Baugur hf. greiddi fyrir hönd Gaums ehf. til Íslands­banka, sem sá um inn­heimtu hlutafjáráskriftar Baugs hf. á árinu 1999 verður að telja sannað að  Baugur hf. hafi lánað eða lagt Gaumi ehf. til fé til að fjármagna kaup Gaums ehf. á nefndum hlutum í Baugi hf. Þá er það mat dómsins að jafnvel þótt talið væri að NRP ehf. væri kaupandi hlutanna beint frá Baugi hf. er ljóst að það er Baugur hf. sem fjármagnar kaupin.  Með hliðsjón af því að undantekning 1. mgr. 104. gr. hluta­félagalaga um viðskiptalán tekur efni sínu samkvæmt eingöngu til þeirrar máls­greinar, verður að telja að nefnd fjár­muna­tilfærsla Baugs hf. til hluthafans Gaums ehf. að fjárhæð 100 milljónir króna sé andstæð 2. mgr. 104. gr. hlutafélagalaga sem leggur bann við lánum hlutafélags og framlagningu fjár til að fjármagna kaup á hlutum í því.

  Ákæruliður 3.

  Í þessum ákærulið er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, 11. október 1999, látið veita Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð 4.500.000 krónur frá Baugi hf. eins og nánar greinir í ákærunni. Samkvæmt ákærunni var lánið veitt með þeim hætti að millifærðar voru 4.500.000 krónur af bankareikningi Baugs hf. á bankareikning Gaums ehf. vegna kaupa þess félags á hluta fast­eignarinnar að Viðarhöfða 6, Reykjavík.

  Með kaupsamningi 8. júlí 1999 kaupir Gaumur ehf. hluta í fasteigninni að Viðar­höfða 6 af Róða ehf. fyrir 27 milljónir króna.  Við gerð kaupsamningsins og af­hend­ingu voru greiddar 4.500.000 krónur og 7. október sama ár voru greiddar 4.177.48 krónur, en að öðru leyti var kaupverðið greitt með yfirtöku skulda.  Fyrir hönd Gaums ehf. ritar KK undir samninginn, en hún starfaði á þessum tíma sem ritari ákærða.  KK bar að hún hefði á þessum tíma haft prókúru fyrir ávísanahefti Gaums ehf., en að öðru leyti gat hún ekki um málavexti borðið.    

  Meðal gagna málsins er skjal sem ber heitið, Staðfesting á lánveitingu.  Í texta þess segir að lántaki sé Gaumur ehf., tímabil sé frá 1. október 1999 og fjárhæð 4.500.000.  Vextir eru 11,50%.  Undir skjalið ritar E. fyrir hönd Baugs hf., en enginn undirritar fyrir hönd Gaums ehf.  Þá eru og meðal gagna málsins skjöl er sýna að 11. október 1999 var framangreind fjárhæð færð af reikningi Baugs hf. í Íslandsbanka til Gaums ehf. og er í einu skjalinu ritað að um lán frá Baugi sé að ræða.

  Ákærði bar að ekki hafi verið um lán að ræða heldur hafi félögin Baugur hf. og Gaumur ehf. verið að kaupa saman húsnæði að Viðarhöfða 6, er hafi átt að nýtast báðum.  Orða­notkunin, Staðfesting á lánveitingu, gæti stafað af því að sá sem færði bókhaldið hafi ekki vitað um hvað var að ræða.  Baugur hf. hafi hins vegar ekki eignast hlut í húsnæðinu en í staðinn hafi félagið fengið að geyma þar bókhaldsgögn án þess að leiga væri inn­heimt, en ekki væru til gögn um það.  Ætlunin hafi verið að Stoðir, fasteignafélag Baugs hf., myndi eignast húsnæðið en ekkert hafi orðið úr því og sé það nú eign Gaums ehf. 

  LL bar að hafa komið að þessum húsakaupum ásamt F.  Þeir hafi verið að kaupa geymsluhúsnæði sem Baugur hf. gæti nýtt sér.  Til stóð að félagið myndi kaupa húsnæðið af Gaumi ehf. og leggja það inn í fast­eigna­félagið Stoðir, en af því hafi ekki orðið.  Baugur hf. hafi engu að síður notað húsnæðið án þess að greiða leigu fyrir það. 

  E bar að hafa ritað undir framangreint skjal, sem ber heitið Stað­festing á lántöku, en ekki mundi hún á hvaða upplýsingum hún byggði þegar hún lét færa skjalið til bókar.  Að öðru leyti kvað hún vera um sams konar bókhaldsgagn að ræða og hún bar um varðandi 2. ákærulið.

  F, stjórnarmaður í Baugi hf. og faðir ákærða, Jóns Ásgeirs, bar að hann hafi tekið þátt í kaupunum á húsnæðinu og hafi það verið hugsað sem geymslur fyrir félögin bæði, Baug hf. og Gaum ehf.  Til hafi staðið að félögin ættu þetta saman, en síðan hafi það breyst á þann veg að Gaumur ehf. var einn eigandinn.  F gat ekkert borið um greiðslur vegna þessara kaupa eða færslur í bókhald.

  Samkvæmt framburði ákærða, Jóns Ásgeirs, og framburði vitnanna LL og F, ætlaði Baugur hf. að taka þátt í kaupunum á Viðar­höfða 6 ásamt Gaumi ehf.  Engin ytri gögn styðja þennan framburð og er Baugs hf. að engu getið í kaupsamningi um húsnæðið, sem Gaumur ehf. stóð einn að sem kaupandi. Ljóst er að Baugur hf. greiddi Gaumi ehf. peningagreiðslu að fjárhæð sem samsvaraði út­borgun vegna húsnæðiskaupa Gaums ehf.  Þá var gert ráð fyrir því af hálfu fjármálastjóra Baugs hf. að þessi fjárhæð væri vaxtareiknuð.  Miðað við þetta og þann færslumáta sem viðhafður var í bókhaldi Baugs hf. varðandi þær 4.500.000 króna sem Baugur hf. greiddi til Gaums ehf. verður að telja sannað að Baugur hf. hafi lánað Gaumi ehf., hlutahafa sínum, nefnda peningafjárhæð, sem fer í bága við 1. mgr. 104. gr. hlutafélagalaga sem leggur bann við lánum hlutafélags til hluthafa sinna.

  Ákæruliður 4.

  Í þessum ákærulið er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, 3. desember 1999, látið veita Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð 8.000.000 króna frá Baugi hf. eins og nánar greinir í ákærunni.

  Meðal gagna málsins er reikningur frá SPRON á Gaum ehf. fyrir 8.000.000 króna.  Á reikninginn hefur verið ritað að frumrit komi í pósti og ath. LL varðandi bókun.  Einnig eru gögn sem sýna að 3. desember 1999 var þessi fjárhæð millifærð af reikn­ingi þeim, sem greindur er í ákærunni, til SPRON.  Samkvæmt gögnum úr bók­haldi Baugs hf. var upp­hæðin eignfærð á viðskiptamannareikning Gaums ehf.

  Ákærði bar að hér hafi verið um mistök að ræða og málið hafi ekki snert Gaum ehf. heldur Bónus er á sínum tíma hafi stofnað Viðskiptatraust ehf. með Sparisjóði Reykja­víkur og nágrennis.  Síðar hafi sparisjóðurinn viljað selja Baugi hf. sinn hlut sem þá hafi borið ábyrgð á Bónus.  Reikningurinn vegna kaupanna hafi hins vegar verið stílaður á Gaum ehf. í staðinn fyrir Baug hf.  Hann var svo greiddur af Baugi hf. og settur inn á við­skipta­reikning Gaums ehf. er síðar hafi greitt féð til baka.  Ákærði bar síðar í yfir­heyrsl­unni að Gaumur ehf. hafi átt helminginn í Viðskiptatrausti ehf. en Gaumur ehf. hafi ekki keypt hlut SPRON heldur hafi færslan stafað af misskilningi sem hafi verið leiðrétt.  Eignarhluti Gaums ehf. hafi verið frá þeim tíma þegar Baugur hf. var stofnað og eignum skipt, en þá hafi helmingshlutur í Viðskiptatrausti ehf. lent hjá Gaumi ehf.  Ákærði bar að LL hafi annast þessi viðskipti. 

  LL bar að áður en Baugur hf. var stofnað hafi Bónus og SPRON haft með sér samstarf um viðskiptakort sem komið hafi í stað almennra greiðslukorta sem Bónus hafi ekki tekið við í viðskiptum.  Eftir stofnun Baugs hf. hafi eignum verið skipt á milli þess og Gaums ehf. og þá hafi það gerst fyrir mistök að eignarhlutinn í Við­skipta­trausti ehf. hafi lent hjá Gaumi ehf. en ekki Baugi hf.  Þetta hafi ekki komið í ljós fyrr en verið var að ganga frá samningum við sparisjóðinn um kaup á fyrirtækinu og þess vegna hafi þeir orðið að vera í nafni Gaums ehf. þótt þetta hafi alfarið verið mál Baugs hf. 

  F staðfesti að við stofnun Baugs hf. hafi eignarhlutdeildin í Við­skipta­trausti ehf. átt að lenda hjá því félagi en ekki Gaumi ehf. 

  E bar á sama hátt og að framan er rakið um samstarf Bónuss og spari­sjóðsins um rekstur viðskiptakorts.  Þegar því var hætt hafi Baugur hf. keypt hlut spari­sjóðsins í félaginu um rekstur kortsins.

  MM, sparisjóðsstjóri, bar að sparisjóðurinn hafi átt Viðskipta­traust ehf. að hálfu á móti Bónus.  Rekstur kortsins hafi ekki gengið upp og því hafi við­skipta­fél­aginn keypt hlut sparisjóðsins, en ekki mundi MM hvað það félag hét.

  NN, hæstaréttarlögmaður, bar að þegar í ljós kom að rekstur kortsins gekk ekki sem skyldi hafi sparisjóðurinn krafist þess að Baugur hf. leysti til sín hlut sjóðsins í félaginu um kortið og hafi verið orðið við því.  Í lok samnings­gerð­ar­innar hafi komið fram ósk frá forsvarsmönnum Baugs hf. um að í stað þess félags kæmi Gaumur ehf. og hafi verið orðið við því.  Þá hafi Gaumur ehf. orðið kaupandi hluta­fjárins og ábyrgðaraðili skuldarinnar.

  Samkvæmt framansögðu, sem styðst við önnur gögn málsins, höfðu  SPRON og Bónus sf. stofnað saman fyrirtækið Viðskiptatraust ehf. árið 1997 og var heildar­nafn­verð hlutafjár 16.000.000 króna eftir hækkun á árinu 1998, en hlutaféð áttu stofnendur félagsins að jöfnu, eða 8.000.000 króna hvor.  Hlutverk félagsins var að annast korta­við­skipti í samvinnu við SPRON og Bónus sf.  Þegar Bónus sf. var slitið í desember 1998 og eignum þess ráðstafað rann þessi eignarhlutur félagsins í Viðskiptatrausti ehf. fyrir mistök inn í Gaum ehf., en hann átti að renna inn í Baug hf., enda um rekstur að ræða sem tengdur var smásöluverslun.  Rekstur kortaviðskipta á vegum Við­skipta­trausts ehf. gekk ekki sem skyldi og krafðist SPRON þess því að Baugur hf. leysti til sín hlut spari­sjóðsins í félaginu og varð Baugur hf. við þeirri kröfu.  Þar sem eignar­hlut­urinn í Við­skipta­trausti ehf., var samkvæmt framansögðu, á nafni Gaums ehf. kom fram ósk um það af hálfu Baugs hf. að í stað þess félags kæmi Gaumur ehf. að samn­ings­gerðinni og var orðið við þeirri ósk af hálfu sparisjóðsins.  Þar með varð Gaumur ehf. kaupandi hlutafjár SPRON og ábyrgðaraðili þeirra skulda sem Viðskiptatraust ehf. var komið í, en gengið var frá samningum við SPRON 12. mars 1999.  Eftir þessi viðskipti átti Gaumur ehf. alla eignar­hlutina í Viðskiptatrausti ehf.  Baugur hf. eign­aðist síðan þessa eignarhluti 30. júní 2000 í samræmi við munnlegt samkomulag við Gaum ehf.  Viðskiptatraust ehf. var síðan sam­einað Baugi hf. á árinu 2000.

  Þegar Baugur hf. greiddi  8.000.000 króna í peningum til SPRON 3. desember 1999 var sú fjárhæð eignfærð á viðskiptareikning Gaums ehf. sem var hinn formlegi eigandi eignar­hlutanna í Viðskiptatrausti ehf.  Þegar Baugur hf. keypti alla eignar­hlutina í Viðskipta­trausti ehf. af Gaumi ehf. 30. júní 2000 var kaupverð þeirra, sem var samtals jafnt nafnverði þeirra, eða 16.000.000 króna, skuldfært á viðskipta­reikning Gaums ehf. hjá Baugi hf., þannig að þær 8.000.000 króna sem þá voru í mis­mun komu þannig til lækkunar inneignar Baugs hf. hjá Gaumi ehf.

  Með vísun til þess sem lýst er hér að framan verður að fallast á það með ákærða að greiðslan á nefndum 8.000.000 krónum til SPRON 3. desember 1999, sem færð var til eignar á viðskiptareikning Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf., hafi ekki falið í sér lán til Gaums ehf. heldur verið hluti af greiðslu Baugs hf. fyrir kaup þess á eignarhlutum í Við­skipta­trausti ehf. af Gaumi ehf., sem vegna misskilnings var færð á Gaum ehf. en ekki Baug hf.   

  Ákæruliður 5.

  Í þessum ákærulið er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, 13. febrúar 2001, látið veita Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð 50.529.987 krónur til að fjármagna kaup á hlutum í Baugi hf. eins og nánar greinir í ákærunni, en samkvæmt henni var þessi fjárhæð ógreidd 28. ágúst 2002.

  Málavextir eru þeir að í desember 2000 var boðið út hlutafé í Baugi hf. samtals að nafnverði 110.000.000 króna  en að kaupverði 1.232.500.000 krónur og skráði Gaumur ehf. sig fyrir 340.529.987 krónum.  Fjárfestingafélagið Gilding hf. hafi greitt 290.000.000 króna fyrir Gaum ehf., vegna hlutafjárloforðs þess.  Hlutafjárloforð Gaums ehf. var upp­haflega fært til eignar í bókhaldi Baugs hf. á reikninginn óinn­heimt hlutafé.  Samkvæmt fylgiskjali í bókhaldi Baugs 13. febrúar 2001 eru nefndar 340.529.987 krónur færðar til lækkunar síðastnefnds reiknings og til hækkunar eignar á viðskiptamannareikningi Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf.  Samkvæmt sama fylgi­skjali eru 290.000.000 krónanna frá Gildingu hf. færðar til lækkunar eignar á viðskipta­mannareikningi Gaums ehf. í bók­haldi Baugs hf.  Samkvæmt þessu stóð skuld Gaums ehf. við Baug hf. vegna hluta­fjárloforðs þess fyrrnefnda gagnvart fél­ag­inu í 50.529.987 krónum, sem er sú fjárhæð sem ákært er fyrir.

  Samkvæmt ákvörðun hluthafafundar 6. nóvember 2000 var ákveðið í tengslum við nefnda hlutafjárhækkun að nýja hluti skyldi staðgreiða innan tveggja vikna frá lokum áskrift­artímabils.  Samkvæmt tilkynningu Baugs hf. til Kauphallar Íslands 27. desember 2000 skyldu áskrifendur nýju hlutanna greiða þá í síðasta lagi mánudaginn 8. janúar 2001.  Eins og áður segir telur ákæruvaldið að 50.529.987 krónurnar hafi enn verið ógreiddar 28. ágúst 2002, en af hálfu ákærða er því haldið fram að við­skipta­reikningur Gaums ehf. hjá Baugi hf. hafi verið greiddur upp með víxli, út­gefnum 20. maí 2002.

  Ákærði bar að fjárfestingafélagið Gilding hf. hafi ætlað að kaupa hlutaféð, sem hér um ræðir, en af því hafi ekki orðið, heldur hafi félagið aðeins keypt hlutafé fyrir 290.000.000 króna og greitt fyrir það til Baugs hf.  Afganginn hafi Gaumur ehf. keypt og and­virðið verið skuldfært á viðskiptamannareikning þess hjá Baugi hf.  Ákærði bar að hann vissi ekki nákvæmlega hvernig frá þessu var gengið, en allt hefði verið greitt og ekkert fé tapast.

  LL bar að Gilding hf. hafi ætlað að kaupa hluti í Baugi hf., en Gaumur ehf. hafi skráð sig fyrir þeim og þeir síðan átt að ganga til Gildingar hf.  Síðar hafi komið í ljós að Gilding hf. hafi ekki greitt fyrir öll bréfin, en ekki mundi LL af hverju. Mis­mun­urinn muni hafa verið færður á viðskiptamannareikning Gaums ehf., en LL mundi ekki frekar eftir þessu.

  E bar að Íslandsbanki, sem sá um hlutafjárútboðið, hafi sent Baugi hf. upplýsingar um þá er ekki höfðu greitt eða ekki greitt að fullu og hafi fjár­mála­svið Baugs hf. þá ákveðið að færa ógreitt hlutafé á hvern og einn sem skuldaði það í stað þess að færa það á einn bókhaldslykil.

  A, framkvæmdastjóri Gaums ehf., kannaðist við að Gaumur ehf. hafi skráð sig fyrir hlutafé eins og rakið var og að Gilding hf. hafi ætlað kaupa það.  Félagið hafi hins vegar ekki keypt nema hluta.  Hún kvaðst ekki hafa komið að við­skipt­unum við Gildingu hf.

  Um greiðslu hlutafjár gildir III. kafli hlutafélagalaga.  Sé hlutafjárhækkun ekki greidd á gjalddaga skal stjórn félagsins án tafar annað hvort innheimta skuldina með mál­sókn eða afhenda öðrum rétt til hlutar eða hluta áskrifanda, sbr. 17. gr. laganna.  Verði skuldin ekki innheimt koma ákvæði 19. gr. til, en samkvæmt þeim skulu hlut­irnir greiddir að fullu í síðasta lagi einu ári eftir að hækkunin hefur verið tilkynnt hluta­félagaskrá.  Í grein­inni er einnig að finna það úrræði til handa hlutafélagskrá, ef ekki er greitt, að skrá sam­svarandi lækkun hlutafjár.  Með vísun til þessa verður sú ógreidda hlutafjárhækkun sem um ræðir í þessum ákærulið, 50.529.987 krónur, ekki talin til láns í þeim skilningi sem leggja verður í það orð í máli þessu.  Breytir þar engu um ákvörðun starfsmanna Baugs hf. að færa hina vangreiddu hækkun í við­skipta­mannareikning Gaums ehf. hjá Baugi hf. í stað þess að skrá hana áfram inni á reikn­ingnum óinnheimt hlutafé, sem hefði gefið stjórn félagsins tilefni til þess að beita lög­boðnum úrræðum.

  Ákæruliður 6.

  Í þessum ákærulið er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, 18. maí 2001, látið veita Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð 100.000.000 króna frá Baugi hf. eins og nánar greinir í ákærunni, en samkvæmt henni var lánið enn ógreitt 28. ágúst 2002.

  Meðal gagna málsins er skjal sem ber heitið, Staðfesting á lántöku með gjalddaga 15. júní 2001.  Í texta þess segir að lántaki sé Gaumur ehf., tímabil sé frá 18. maí 2001 til 15. júní 2001 og fjárhæð 100.000.000 króna.  Vextir eru 16,00%.  Þá er tilgreind fjár­hæð vaxta og álag, samtals 1.544.444 krónur.  Síðan segir að Baugur hf. leggi inn á reikning Gaums ehf. 18. maí 2001 100.000.000 króna og að Gaumur ehf. leggi inn á reikn­ing Baugs hf. 15. júní 2001 1.544.444 krónur.  Undir skjalið ritar E fyrir hönd Baugs hf., en enginn undirritar fyrir hönd Gaums ehf.  Þá er og meðal gagna málsins skjal er sýnir að 18. maí 2001 voru 100.000.000 króna færðar af reikningi Baugs hf. í Íslands­banka til bankareiknings í eigu Gaums hf.  Þann 18. maí 2001 eru færðar  100.000.000 króna sem lán til hækkunar eignar á viðskiptamannareikningi Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. og 15. júní sama ár eru færðar 1.477.778 krónur sömu­leiðis til hækkunar á sama reikning sem áfallnir vextir á lánið.

  Ákærði bar að þessi færsla hefði tengst viðskiptum með flatbökufyrirtækið NRG AB (Nordic Restaurant Group).  NRG var handhafi rekstrarleyfis fyrir Pizza Hut í Svíþjóð og á Íslandi.  Ætlunin hafi verið að kaupa og sameina fyrirtæki á þessu sviði í Noregi og Svíþjóð og hafi Gaumur ehf. fjárfest í því skyni og þannig verið að taka áhættu fyrir Baug hf.  Þegar ásættanlegur árangur hefði náðst átti reksturinn að renna inn í Baug hf.  Það hafi því ekki verið um það að ræða að Baugur hf. væri að lána Gaumi ehf., heldur væri Gaumur ehf. að vinna fyrir hönd Baugs hf. að þessu verkefni með fjármunum frá Baugi hf.  Straumur hf. hafi síðan verið tilbúinn til að lána því fyrir­tæki sem á endanum átti að verða til um þennan rekstur.  Þessar áætlanir hafi hins vegar ekki gengið eftir að fullu, en í dag eigi Baugur hf. NRG.     

  LL bar á sama hátt og ákærði um brautryðjendastarf Gaums ehf. í fjár­fest­ingum sem síðar komust í eigu Baugs hf.  Straumur hafi viljað lána til verk­efnisins, en viljað að lánið rynni til þess sem á endanum fjárfesti í fyrirtækinu, það er til Baugs hf.

  A bar á sama hátt og LL og ákærði um forgöngu Gaums ehf. í fjárfestingum og um lánið frá Straumi til verkefnisins.

  OO, forstjóri Straums, kannaðist við að fyrirtækið hafi lánað Baugi hf. 100.000.000 króna í maí 2001 til kaupa á veitingahúsakeðju og hafi ákærði komið fram fyrir hönd Baugs hf., en ekki kvaðst OO hafa átt samskipti við önnur fyrirtæki vegna þessa.

  B, endurskoðandi Baugs hf., bar að Gaumur ehf. hefði keypt hlutabréf í NRG og borgað fyrir þau á þriðja hundrað milljónir króna.  Reksturinn hefði ekki gengið nógu vel hjá NRG og hefði Gaumur ehf. selt bréfin í NRG yfir til Baugs hf. á árinu 2004 fyrir rúmlega sextíu milljónir.  Tap Gaums ehf. af þessum við­skipt­um hefði verið á þriðja hundrað milljónir.  B bar að þarna hefði Gaumur ehf. farið á undan í verk­efninu og fyrirhugað hefði verið að Baugur hf. kæmi að þessu verk­efni síðar þegar það væri komið áleiðis.

  Samkvæmt skýrslu endurskoðenda ríkislögreglustjóra frá 27. maí 2005, greiddi Gaumur ehf. 100.000.000 krónanna sem það móttók 18. maí 2001 frá Baugi hf. sam­dægurs sem hlutafjárframlag til NRG AB.  Þar kemur einnig fram að Gaumur ehf. keypti eign­arhluti í norska félaginu á árunum 2001 og 2002 og nam bókfærður eignar­hluti Gaums í NRG AB, að viðbættum bókfærðum eignarhlut Gaums ehf. í Pönnu­pizzum að fjár­hæð 176.084.627 krónur,  433.745.515 krónum áður en hann var færður niður um 74.000.000 króna.  Á árinu 2003 var enn fjárfest fyrir 9.745.318 krónur en síðan var fjár­fest­ingin færð niður um 300.000.000 króna eða niður í 59.490.833 krónur.  Gaumur ehf. seldi síðan öll hlutabréfin í NRG AB til Baugs hf. á 65.900.000 krónur 20. febrúar 2004.

  Eins og áður segir telur ákæruvaldið að hin meinta lánsfjárhæð hafi verið ógreidd 28. ágúst 2002, en af hálfu ákærða er því haldið fram að viðskiptareikningur Gaums ehf. hjá Baugi hf. hafi verið greiddur upp með víxli, útgefnum 20. maí 2002.

  Samkvæmt því sem að framan er rakið greiddi Baugur hf. Gaumi ehf. reiðufé að fjárhæð 100.000.000 króna með þeim áskilnaði í sérstöku skjali sem bar heitið Stað­festing á lántöku, að Gaumur ehf. sem lántakandi endurgreiddi peningafjárhæðina á ákveðnum gjalddaga með vöxtum og álagi.  Verður því að telja að Baugur hf. hafi með þessu veitt hlutahafa sínum Gaumi ehf. lán í þeim skilningi sem í þessu máli verður að leggja í það orð í 1. málslið 1. mgr. 104. gr. hlutafélagalaga.  Kemur þá til álita hvort und­an­þága lokamálsliðar 1. mgr. nefndrar 104. um venjulegt viðskiptalán tekur til umrædds láns.

  Samkvæmt athugasemdum með þeirri frumvarpsgrein sem síðar varð að 104. gr. nú­gild­andi hlutafélagalaga er banni 1. mgr. 104. gr. gegn lánveitingum hlutafélags til hlut­hafa ekki ætlað að ná til venjulegra viðskiptalána, t.d. greiðslukortaviðskipta, eða lána til fyrir­tækja sem eru hluthafar ef þau eru liður í viðskiptum og venjubundin bæði í fyrir­tækinu og almennt í slíkum fyrirtækjum.  Eins og rakið er í inngangi að þessum kafla er með viðskiptaláni venjulega átt við hvers konar fjárhæðir sem viðskiptamaður fyrir­tækisins skuldar því vegna kaupa hans á vörum eða þjónustu frá því út í reikning.  Í málinu hefur komið fram af hálfu forsvarsmanna Baugs hf. og endurskoðanda þess að það félag og Gaumur ehf. hafa staðið saman að viðskiptum og gjarnan með þeim hætti að Gaumur ehf. hafi farið fyrir og tekið áhættu en Baugur hf. síðan tekið fjár­fest­inguna yfir.  Ekki er hægt að fallast á að slíkt samstarf félaganna geti undanþegið Baug hf. frá bann­ákvæðum 1. mgr. 104. gr. hlutafélagalaga, enda er hvorki lána- né fjár­festingastarfsemi til­greind sem tilgangur félagsins í samþykktum þess.  Með hlið­sjón af því verður lán það sem lýst hefur verið í þessum ákærulið ekki talið til venju­legra viðskiptalána í merkingu loka­málsliðar 1. mgr. 104. gr. hlutafélagalaga.

  Ákæruliður 7.

  Í þessum ákærulið er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, 16. maí 2000, látið veita Fjárfari ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð 64.500.000 króna frá Baugi hf. til að fjármagna kaup á hlutafé í Baugi hf. eins og nánar greinir í ákærunni. Samkvæmt ákærunni var lánsfjárhæðin ógreidd 28. ágúst 2002.

  Ákærði kvað Fjárfar ehf. hafa fengið greiðslufrest þegar það keypti hlutafé í Baugi hf. og hafi hann samið um frestinn fyrir hönd Baugs hf. 

  Samkvæmt kaupsamningi milli Baugs hf. og Fjárfars ehf. 16. maí 2000, seldi Baugur hf. Fjárfari ehf. hlutabréf í Baugi hf. að nafnverði 5.000.000 króna.  Umsamið kaupverð var 64.500.000 krónur og skyldi það greitt 2. júní 2000.  Samningur þessi var undirritaður fyrir hönd seljanda af ákærða Jóni Ásgeiri og fyrir hönd kaupanda af ÓÓ.  Kaupverð nefndra hluta var eignafært með bókunardeginum 16. maí 2000 á við­skiptamannareikning Fjárfars ehf. sem stofnaður var í bókhaldi Baugs hf.  Frá þeirri eign var dreginn arður til Fjárfars ehf. á árunum 2000 til 2001 og voru eftir­stöðvar skuldar Fjarfars ehf. enn ógreiddar 28. ágúst 2002.  Samkvæmt þessu afhenti Baugur hf. Fjárfari ehf. hluti í Baugi hf. gegn gjaldfresti á greiðslu kaupverðs.  Lítur dómurinn svo á að Baugur hf. hafi þar með fjármagnað kaup Fjárfars ehf. á hlutum í félaginu þannig að í bága fer við ákvæði 2. mgr. 104. gr. hlutafélagalaga sem leggur ekki eingöngu bann við láni hlutafélags til fjármögnunar á hlutum í félaginu heldur bannar einnig að leggja fram fé í tengslum við slík kaup.

  Ákæruliður 8.

  Í þessum ákærulið er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, 13. febrúar 2001, látið veita Fjárfari ehf., hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð 85.758.591 króna frá Baugi hf. til að fjármagna kaup á hlutafé í Baugi hf. eins og nánar greinir í ákærunni, en samkvæmt henni var þessi fjárhæð ógreidd 28. ágúst 2002.

  Málavextir eru þeir að í desember 2000 var boðið út hlutafé í Baugi hf., sbr. ákærulið 5,  og hafi Fjárfar ehf. skráð sig fyrir 85.758.591 krónu.  Greiðsla hluta­fjárins hafi ekki verið innt af hendi til Íslandsbanka sem annaðist um útboðið og hluta­fjár­loforðið því verið fært samkvæmt fylgiskjali 13. febrúar 2001 til lækkunar reikn­ingsins óinnheimt hlutafé og til eignar á móti á viðskiptareikning Fjárfars ehf. í bók­haldi Baugs hf.

  Samkvæmt ákvörðun hluthafafundar 6. nóvember 2000 var ákveðið í tengslum við nefnda hlutafjárhækkun að nýja hluti skyldi staðgreiða innan tveggja vikna frá lokum áskriftartímabils.  Samkvæmt tilkynningu Baugs hf. til Kauphallar Íslands 27. desember 2000, skyldu áskrifendur nýju hlutanna greiða þá í síðasta lagi mánudaginn 8. janúar 2001.

  Ákærði bar að fjárfestingafélagið Gilding hf. hafi ætlað að kaupa hlutaféð, sem hér um ræðir, en af því hafi ekki orðið.  Þegar Baugur hf. hafi fengið eftir­stöðva­listann frá bankanum hafi skuldin verið færð á viðskiptamannareikning þess hjá Baugi hf.  Ákærði bar að hann vissi ekki nákvæmlega hvernig frá þessu var gengið.  Hann vísaði að öðru leyti til framburðar síns varðandi 5. ákærulið sem rakinn var hér að framan.

  LL bar á sama hátt og ákærði og kvað sömu skýringar eiga við og þær sem gefnar voru við 5. ákærulið. 

  E bar á sama hátt og um 5. ákærulið.  Komið hafi upplýsingar frá Íslandsbanka um ógreitt hlutafé og það verið fært á viðskiptareikning Fjárfars ehf.

  Um greiðslu hlutafjár gildir III. kafli hlutafélagalaga.  Sé hlutafjárhækkun ekki greidd á gjalddaga skal stjórn félagsins án tafar annað hvort innheimta skuldina með mál­sókn eða afhenda öðrum rétt til hlutar eða hluta áskrifanda, sbr. 17. gr. laganna. Verði skuldin ekki innheimt koma ákvæði 19. gr. til, en samkvæmt þeim skulu hlut­irnir greiddir að fullu í síðasta lagi einu ári eftir að hækkunin hefur verið tilkynnt hluta­félagaskrá.  Í greininni er einnig að finna það úrræði til handa hlutafélagaskrá, ef ekki er greitt, að skrá samsvarandi lækkun hlutafjár.  Með vísun til þessa verður sú ógreidda hlutafjárhækkun sem um ræðir í þessum ákærulið, 85.758.591 króna, ekki talin til láns í þeim skilningi sem leggja verður í það orð í máli þessu.  Breytir þar engu um ákvörðun starfsmanna Baugs hf. að færa hina vangreiddu hækkun í við­skipta­mannareikningi Gaums ehf. hjá Baugi hf. í stað þess að skrá hana áfram inni á reikn­ingnum óinnheimt hlutafé, sem hefði gefið stjórn félagsins tilefni til þess að beita lögboðnum úrræðum.

  Ákæruliður 9.

  Í þessum ákærulið er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa, 13. febrúar 2001, látið veita A, hluthafa í Baugi hf., lán að fjárhæð 3.786.727 krónur frá Baugi hf. til að fjármagna kaup á hlutafé í Baugi hf. eins og nánar greinir í ákærunni, en samkvæmt henni var þessi fjárhæð ógreidd 28. ágúst 2002.

  Málavextir eru þeir að í desember 2000 var boðið út hlutafé í Baugi hf., sbr. ákærulið 5, og hafi A skráð sig fyrir 3.786.727 krónum, er hafi verið ógreiddar þegar útboðinu lauk.  Íslandsbanki, sem annaðist útboðið, sendi upp­lýs­ingar um eftirstöðvarnar til Baugs hf. þar sem þær voru fyrst færðar á reikninginn óinnheimt hlutafé, en síðar, eða samkvæmt fylgiskjali 13. febrúar 2001, til lækkunar þess reiknings og á móti til eignar á viðskiptamannareikning A í bókhaldi fél­agsins.  Með færslu á síðastnefndan reikning 5. júlí 2001, var arðgreiðsla að fjár­hæð 397.894 krónur dregin frá nefndri skuld sem þá stóð í var 3.388.833 krónum, sem samkvæmt viðskiptamannareikningnum var greidd 20. maí 2002.

     Samkvæmt ákvörðun hluthafafundar 6. nóvember 2000 var ákveðið í tengslum við nefnda hlutafjárhækkun að nýja hluti skyldi staðgreiða innan tveggja vikna frá lokum áskriftartímabils.  Samkvæmt tilkynningu Baugs hf. til Kauphallar Íslands 27. desember 2000, skyldu áskrifendur nýju hlutanna greiða þá í síðasta lagi mánudaginn 8. janúar 2001.  Eins og áður segir telur ákæruvaldið að lánið hafi numið 3.786.727 krónum sem hafi enn verið ógreiddar 28. ágúst 2002, en af hálfu ákærða er því haldið fram að viðskiptareikningur A hjá Baugi hf. hafi fyrst verið lækkaður um arð­greiðslu að fjárhæð 397.894 krónur og síðan greiddur upp með víxli, útgefnum 20. maí 2002.

     Ákærði hefur borið á sama hátt um þennan ákærulið og liðina hér að framan þar sem ákært er fyrir lán til hluthafa Baugs hf. til kaupa á hlutafé í félaginu.  Þá hafa LL og E gefið sömu skýringar á því sem þessi ákæruliður fjallar um og að framan var rakið varðandi sams konar ákæruliði og vísast til þess.

     A bar að hún hefði skráð sig fyrir hlutafé í Baugi hf., en síðan hafi orðið vanskil á greiðslu hjá sér án þess að hún gæti útskýrt af hverju.  Hún hafi hvorki verið krafin um greiðslu né hafi hún óskað eftir greiðslufresti.  Hún hafi síðan greitt þetta í maí 2002.

     Um greiðslu hlutafjár gildir III. kafli hlutafélagalaga.  Sé hlutafjárhækkun ekki greidd á gjalddaga skal stjórn félagsins án tafar annað hvort innheimta skuldina með málsókn eða afhenda öðrum rétt til hlutar eða hluta áskrifanda, sbr. 17. gr.  Verði skuldin ekki innheimt koma ákvæði 19. gr. til, en samkvæmt þeim skulu hlutirnir greiddir að fullu í síðasta lagi einu ári eftir að hækkunin hefur verið tilkynnt hluta­félaga­skrá.  Í greininni er einnig að finna það úrræði til handa hlutafélagaskrá, ef ekki er greitt, að skrá samsvarandi lækkun hlutafjár.  Með vísun til þessa verður sú ógreidda hlutafjárhækkun sem um ræðir í þessum ákærulið, að fjárhæð 3.388.833 krónur, ekki talin til láns í þeim skilningi sem leggja verður í það orð í máli þessu.  Breytir þar engu um ákvörðun starfsmanna Baugs hf. að færa hina vangreiddu hækkun í viðskiptamannareikning Gaums ehf. hjá Baugi hf. í stað þess að skrá hana áfram inni á reikningnum óinnheimt hlutafé, sem hefði gefið stjórn félagsins tilefni til þess að beita lögboðnum úrræðum.

  Þá er þess enn fremur að gæta að A hefur síðan haustið 1999 verið starfs­maður Gaums ehf. sem teljast verður tengt Baugi hf. í skilningi lokamálsliðs 2. mgr. 104. gr. hlutafélagalaga, en bannákvæði 1. og 2. málsl. 2. mgr. eiga ekki við um kaup starfs­manna tengdra félaga á hlutum í félaginu.

  Ákæruliður 10.

  Í þessum lið var ákærða, Jóni Ásgeiri, aðallega gefið að sök meiri háttar bókhalds­brot með því að láta færa í bókhaldi Baugs hf. sölu á hlutafé félagsins í Baugi.net ehf., að nafnverði 2.500.000 krónur til Fjárfars ehf., sem ákærði stjórnaði og réð yfir, fyrir 50.000.000 króna.  Síðan var því lýst í ákæruliðnum hvernig þessi sala var færð í bókhaldi Baugs hf.  Þá var því lýst að Fjárfar ehf. hefði ekki greitt fyrir hlutaféð og hvernig við hafi verið brugðist með færslum í bókhaldi Baugs hf. sem lauk með eignfærslu 28. febrúar 2002 eins og rakið var í ákærunni.  Aðalkröfunni var vísað frá dómi með dóminum 3. maí sl. og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti 1. júní sl.

  Til vara er ákærða gefið að sök brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa lánað Fjárfari ehf. kaupverð hlutafjárins, 50.000.000 króna.  Í bókhaldi Baugs hf. hafi krafa félagsins verið eignfærð á viðskiptamannareikning Fjárfars ehf. 30. júní 2000.  Eftir bókunina hafi skuld Fjárfars ehf. á viðskiptamannareikningnum staðið í 114.500.000 krónum. 

  Málavextir eru þeir að með samningi um hlutafjárkaup 16. júní 2000, undir­rituðum af ákærða, Jóni Ásgeiri, og PP fyrir hönd Baugs hf. og ÓÓ fyrir hönd Fjárfars ehf.,  lofaði Baugur hf. að selja og Fjárfar ehf. að kaupa 5% hlutafjár í Baugi.net ehf. að nafnverði 2.500.000 krónur á 50.000.000 króna.  Samkvæmt 1. gr. samningsins skyldi kaupverðið greitt með einni greiðslu að fullu 15. september 2000 og í 2. gr. var kveðið á um að Fjárfar ehf. öðlað­ist full réttindi sem hluthafi í Baugi.net ehf., í samræmi við eignarhluta sinn og sam­þykktir félagsins, við fullnaðargreiðslu samkvæmt 1. gr., þ.e. 15. september 2000.  Í bók­haldi Baugs hf. var kaupverð hlutanna, 50.000.000 króna, fært til eignar á við­skipta­mannareikning Fjárfars ehf. með færslu 30. júní 2000.  Fjárfar ehf. greiddi ekki fyrir hlutina og gekk samningurinn  til baka.  Síðar var 50.000.000 króna eignfærslan færð til baka á viðskiptamannareikningi Fjárfars ehf. í bókhaldi Baugs hf. með færslu 21. febrúar 2002.

  Ákærði bar að Baugur hf. hefði selt Fjárfari ehf. hlutafé í Baugi.net ehf. með greiðslufresti og hafi upphæðin verið færð á viðskiptamannareikning Fjárfars ehf. hjá Baugi hf. sem hafi verið dráttarvaxtareiknaður.  Baugur.net ehf. hafi verið eitt af svo­nefndum “netbólufyrirtækjum” sem stofnuð voru á þessum tíma og miklar vonir voru bundnar við.  Þær vonir gengu hins vegar ekki eftir og kaup Fjárfars ehf. á hlutnum gengu til baka á kaupverðinu, en ekki með dráttarvöxtunum.  Að öðru leyti kvaðst ákærði ekki muna hvernig að þessu var staðið og ekki vita hvernig gengið var frá færsl­unni í bókhaldi Baugs hf. 

  LL bar á sama hátt og ákærði um að Fjárfar ehf. hefði keypt hluti í Baugi.net ehf., en þau kaup gengið til baka þegar væntingar til netfyrirtækjanna hafi brugðist.

  PP, sem var yfirmaður þróunarsviðs Baugs hf. á þessum tíma, bar að miklar væntingar hafi verið tengdar stofnun Baugs.net ehf. og ætlunin hafi verið að setja hlutabréf í því á markað og selja fjárfestum.  Fjárfar ehf. hafi keypt hlut, en kaupin hafi síðan gengið til baka.  PP gat ekki borið um þann þátt málsins.

  Samkvæmt ákvæðum samningsins um hlutafjárkaup milli Fjárfars ehf. og Baugs hf. virðast kaup hlutanna í Baugi.net ehf. hafa átt að miðast við 15. september 2000, en á þeim degi átti Fjárfar ehf. að greiða kaupverð hlutanna og öðlast full réttindi sem hluthafi í Baugi.net ehf.  Þar sem greiðsla kaupverðsins fór hvorki fram á tilskildum degi eða síðar má álykta sem svo að ekkert hafi orðið af kaupunum og Fjárfar ehf. hafi þannig aldrei orðið eigandi hlutanna í Baugi.net. ehf.  Samkvæmt þessu virðist eign­færsla kaupverðs hlutanna í Baugi.net ehf. á viðskiptareikning Fjárfars ehf., sem er grund­völlur þessa ákæruliðar, ekki byggð á nægilega traustum grunni.  Hefur þannig, að mati dómsins, ekki tekist að sanna með ótvíræðum hætti að um lán hafi verið að ræða frá Baugi hf. til Fjárfars ehf.

III

  Ákæruliður 15 varðandi ákærða, Jón Gerald Sullenberger.

  Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí sl. er svofelld lýsing á málavöxtum varð­andi þennan ákærulið:  “Í þessum ákærulið er ákærðu, Jóni Ásgeiri og Tryggva, gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið rangfæra bókhald Baugs hf., átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bók­haldi Baugs hf. með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjár­muna.  Þetta hafi þeir gert með því að láta færa til eignar í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi hf., sem lækkuð vörukaup, 61.915.000 krónur, á grundvelli rangs og til­hæfu­lauss kreditreiknings (afsláttarreiknings) frá Nordica Inc., dagsetts 30. ágúst 2001, að fjárhæð USD 589.890, sem jafngilti 61.915.000 krónum á færsludegi.  Ákærða, Jóni Gerald Sullenberger, er gefið að sök að hafa aðstoðað ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggva, við að rangfæra bókhald Baugs hf. og stuðlað að bókhaldsbroti þeirra með því að útbúa framangreindan kreditreikning að tilhlutan ákærða, Jóns Ásgeirs, og samkvæmt fyrirsögn ákærða, Tryggva.  Ákæran er á því byggð að reikn­ing­urinn hafi ekki átt sér ekki stoð í viðskiptum þeirra félaga sem ákærðu voru í fyrir­svari fyrir eins og nánar er rakið í ákærunni.

  Texti reikningsins er svohljóðandi:  “Discount on purchased goods and reimbursement for damage or shortages shipments to Adfong from July 01, 2000 to June 30, 2001.  This cover all cargo shipped thru Nordica Inc Warehouse in Miami Florida”.  Að öðru leyti er reikningnum lýst hér að framan.  Hann var fyrst færður á bið­reikning ásamt reikningi þeim, sem um getur í 16. ákærulið, en ekki á við­skipta­reikning Nordica Inc.  Reikningurinn var aldrei innheimtur hjá Nordica Inc. og var síðan gjaldfærður í bókhaldi Baugs hf. eins og lýst er í ákæru.

  Nú verður rakinn framburður ákærðu varðandi þennan lið og síðan vitna eftir því sem við á.

  Ákærði, Jón Ásgeir, bar að Baugur hf. og þar áður Bónus hafi verið í viðskiptum við ákærða, Jón Gerald, og fyrirtæki hans allt frá árinu 1992.  Á árinu 2000 hafi ákærði, Jón Gerald, stofnað vöruhús í Bandaríkjunum til að auka viðskiptin enn frekar.  Í framhaldi af því, eða í ársbyrjun 2001, hafi viðræður hafist um eflingu við­skipt­anna og þá hafi komið fram hjá forsvarsmönnum Baugs hf. að það væri tals­vert magn af “vandræðabirgðum” frá Nordica Inc., fyrirtæki ákærða, Jóns Geralds, í versl­unum og vöruhúsum Baugs hf. á Íslandi, þ.e. vörum sem höfðu ekki selst, en ekki mundi ákærði hversu mikið magnið hafði verið.  Vorið 2001 hafi samningum um þessi mál verið lokið og menn orðnir ásáttir um upphæðina, sem hafi verið fundin út í íslenskum krónum og síðan umreiknuð í Bandaríkjadali.  Aðspurður hvort upphæðin hafi verið reiknuð út frá gögnum kvað ákærði menn hafa haft tilfinningu fyrir stærð málsins og það verið leyst með “pennastriksaðferð”.  Ákærði, Jón Gerald, hafi gefið reikn­inginn út í samræmi við samkomulagið og ákærði, Tryggvi, síðan gengið frá mál­unum, þar með talið að ákveða texta reikningsins.  Síðar hafi komið í ljós að ákærði, Jón Gerald, gat ekki greitt reikninginn og hafi hann því verið gjaldfærður (lotaður) mánaðarlega í bókhaldi Baugs hf.

  Ákærði, Tryggvi, bar að hann hefði kallað eftir reikningnum frá ákærða, Jóni Gerald, sem hefði gert reikninginn.  Gerð reikningsins hefði byggst á samkomulagi ákærðu, Jóns Ásgeirs og Jóns Geralds, um ónýtar vörur er hefðu safnast saman í áranna rás.  Aðallega vegna heimildar ákærða, Jóns Geralds, til að fylla gáma, sem hann sendi til Baugs hf., með vörum til að nýta plássið í gámunum.  Þetta hafi verið að hluta til skýringin á því af hverju óseljanlegar vörur söfnuðust upp hjá Baugi hf.  Ákærði kvað meðákærðu eina hafa samið um lausn þessa máls og þar með að ákveða upp­hæð reikningsins og texta.  Hann hafi lesið textann yfir eins og hann kom frá ákærða, Jóni Gerald, og endursent honum hann með smávægilegum leiðréttingum og þannig leiðréttan hafi ákærði, Jón Gerald, sent sér reikninginn í símbréfi.  Ákærði kvaðst síðan hafa sent reikninginn til KPMG sem var að ljúka við gerð árs­hluta­reikn­ings á þessum tíma og hafi endurskoðendurnir fært hann sem lokafærslu.         

  Ákærði, Jón Gerald, kvaðst hafa útbúið reikninginn að beiðni ákærða, Tryggva.  Það hafi borið þannig til að 30. ágúst 2001 hafi ákærði, Tryggvi, hringt í sig og spurt hvort hann gæti útbúið fyrir sig kreditreikning og sagt sér hver texti hans ætti að vera.  Ákærði kveðst hafa skrifað textann og sent ákærða, Tryggva, í tölvupósti.  Hann hafi endursent sér textann leiðréttan og þann texta kvaðst ákærði hafa sett á reikn­inginn og end­ursent í símbréfi.  Engin viðskipti hafi verið á bak við reikninginn og hann því verið algerlega út í bláinn.  Ekki hafi ákærði, Tryggvi, minnst á til hvers ætti að nota reikn­inginn og það hafi aldrei verið rætt þeirra á milli.  Ákærði kvaðst ekki hafa fært reikn­inginn í bókhald sitt heldur hafi hann hafnað í pappírsbunka inni í skáp hjá sér og þar hafi lögreglumenn frá Íslandi síðan fundið hann þegar þeir voru að leita gagna hjá honum í tengslum við rannsókn málsins.  Ákærði kvað skýringar með­ákærðu ekki eiga við rök að styðjast og benti á að hann hefði ekki pantað vörur frá Banda­ríkjunum, heldur séð um að afgreiða vörupantanir.  Þá bar hann að aðallega hafi verið fluttar inn niður­suðuvörur frá Bandaríkjunum og þar eð þær væru mjög þungar væri oft laust pláss í gámunum sem hann hafi fyllt upp með auðseljanlegum vörum, svo sem eld­hús­rúllum.

  O, sem starfaði hjá ákærða, Jóni Gerald, þegar hann útbjó reikninginn, bar að hún hefði ekki komið að gerð hans, en séð hann, líklega daginn eftir að ákærði sendi hann.  Hún kvaðst hafa sagt ákærða að hann ætti ekki að gera þetta þar eð engin viðskipti væru á bak við reikninginn og hann hafi ekki verið færður í bókhaldi Nordica Inc., heldur hafi honum verið eytt úr bókhaldskerfinu.  Hún kvað ákærða hafa gefið sér þá skýringu á gerð reikningsins að ákærði, Tryggvi, hefði beðið sig um að gera hann.  O kannaðist ekki við að Baugur hf. hefði setið uppi með ill- eða óseljanlegar vörur frá Nordica Inc.  Stærsti hluti varanna hafi verið dósa­matur sem endist í mörg ár.  Einstaka sinnum hafi komið fyrir að sent hafi verið of mikið af vörum og hafi það verið gert upp.  Hið sama hafi gilt um skemmdir og rýrnun á vörum.

  Ó, þá löglærður fulltrúi ríkislögreglustjóra, bar að hann hafi fundið reikninginn á skrifstofu ákærða, Jóns Geralds, í Miami.  Hann hafi fundist nánast fyrir tilviljun þar eð hann hafi ekki verið færður í bókhald og ákærði hafi ekki fram­vísað honum.

  P, innkaupastjóri hjá Aðföngum, bar að hafa séð um innkaup frá Banda­ríkjunum, þar með talið frá Nordica Inc., en fyrirtækið Aðföng er í eigu Baugs hf.  P bar að komið hafi fyrir að vörur hefðu borist frá Nordica Inc. sem ekki höfðu verið pantaðar og eins hafi komið fyrir að vörur hafi vantað.  Brugðist hafi verið við þessu með því að gefa út debet- eða kreditreikninga eftir því um hvort var að ræða.  Á árunum 2000 og 2001 hafi Nordica Inc. hins vegar átt orðið mikið af vörum hjá Aðföngum sem hafi stafað af því að þá hafi verið ætlunin að auka verulega viðskiptin við félagið en það ekki gengið eftir.  Það hafi stafað af tvennu:  Í fyrsta lagi hafi neytendum ekki fallið við vörurnar og í öðru lagi hafi gengið verið óhagstætt.      

  Q, framkvæmdastjóri Aðfanga, bar að farið hefði verið yfir vöru­send­ingar frá Nordica Inc. á sama hátt og frá öðrum.  Hvort sem of mikið var í send­ingunni eða of lítið, hafi það verið gert upp með debet- eða kreditreikningum eftir því sem við átti hverju sinni.  Á árinu 2001 hafi verið gert átak í að auka vörukaupin frá Nordica Inc. og í framhaldinu hafi birgðir þaðan aukist hjá Aðföngum.  Það hafi hins vegar gerst áður að birgðir hafi verið miklar frá Nordica Inc.  Þannig hafi verið veru­legar birgðir frá fyrirtækinu þegar hann hóf störf hjá Aðföngum 1997.  Hann gat hins vegar ekkert borið um reikninginn sem þessi ákæruliður fjallar um.

  R, framkvæmdastjóri Bónuss, bar að þegar hann hóf störf 1998 hafi verið til mikill lager, en ekki hafi hann allur verið frá Nordica. Inc.  Hann gat ekkert um reikninginn borið.

  S, yfirmaður matvörusviðs Baugs hf. á árinu 2001, bar að á árinu 2001 hafi Aðföng verið með miklar vörubirgðir frá Nordica Inc. sem hafi meðal annars stafað af því að til hafi staðið að auka verulega viðskiptin við félagið.  Það hafi ekki gengið eftir.  Hins vegar kannaðist hann ekki við reikninginn sem þessi ákæru­liður fjallar um. 

  E, fjármálastjóri Baugs hf., mundi ekki eftir reikningnum og taldi sig ekki hafa bókað hann.  Hún tók fram af gefnu tilefni að fjárhæð hans væri ekki há miðað við veltu Baugs hf.            

  T var innri endurskoðandi Baugs hf. á þessum tíma.  Hún kvaðst hafa athugað reikninginn og tildrög þess að hann var gerður, en þau hafi verið sam­komulag á milli forstjóra tveggja viðskiptafélaga, Baugs hf. og Nordica Inc.  Hún bar að hafa kannað heildarviðskipti félaganna og komist að því að miðað við þau væri reikn­ingurinn ekki hár, enda hafi hann tekið til allra þátta viðskiptanna frá upp­hafi þeirra.  T kvaðst hafa aflað sér upplýsinga með viðtölum við ýmsa stjórn­endur hjá Baugi hf. og hafi þau leitt í ljós að veltuhraði á vörum frá Nordica Inc. hafi ekki verið mikill.  Þá hafi það og gerst að vörur hafi runnið út á “líftíma”.  Þetta hafi verið skráð en við skráninguna hafi ekki verið greint á milli birgja þannig að ekki hafi verið hægt að greina á milli varnings frá Nordica Inc. og öðrum birgjum.  Lögreglunni hafi verið bent á að hægt væri að fá gögn um skráninguna hjá fyrirtækinu en hún hafi ekki haft áhuga á því.  T vann skjal, sem lagt hefur verið fram í málinu, og hún stað­fest, og er það yfirlit yfir viðskipti félaganna á árunum 1995 til 2002 að báðum með­töldum.  Í skjalinu koma fram tölur um heildarviðskiptin hvert ár fyrir sig og hvernig þau skiptist á milli matvöru og sérvöru.  Einnig er gerð grein fyrir rýrnun, bæði þekktri og óþekktri, svo og tilgreint hver afsláttur frá birgjum hafi verið, en af­sláttur hafi ekki fengist frá Nordica Inc.  Niðurstaða T á skjalinu er sú að “Kreditreikningur frá Nordica vegna viðskipta þessi sjö ár hefði þurft að vera á bilinu 190-230 milljónir svo hægt sé að bera þau saman við samskipti við sambærilega birgja.”

  B var löggiltur endurskoðandi Baugs hf. á þessum tíma.  Hann bar að hafa séð reikninginn fyrst í lok ágúst 2001, nánar tiltekið á loka­degi milli­uppgjörsins sem var sami dagurinn og reikningurinn var útbúinn.  Það hafi verið ákærði, Tryggvi, sem hafi látið koma reikningnum til sín og minnti B að ákærði hefði sagt að um væri að ræða afslætti sem félagið ætti útistandandi og því þyrfti að færa reikninginn.  Hann kvaðst ekki hafa gert athugasemdir við reikn­inginn, enda ekki óvenjulegt að birgjar veittu Baugi hf. afslætti og hefðu þeir verið færðir þegar reikningar vegna þeirra bárust. 

  Eins og nú hefur verið rakið byggðist gerð framangreinds reiknings á ákvörðun ákærða, Jóns Ásgeirs, sem hann ber að hafa tekið að undangengnum samn­inga­við­ræðum við meðákærða, Jón Gerald.  Ákærði, Jón Gerald, kannast ekki við þennan samning eins og rakið var.  Framburður ákærða, Jóns Geralds, fær stuðning í fram­burði O svo og því að reikningurinn var ekki færður í bókhaldi Nordica Inc. heldur fannst á skrifstofu félagsins nánast fyrir tilviljun eins og rakið var.  Framburður ákærða, Jóns Ásgeirs, styðst að nokkru við framburð starfs­manna Baugs hf., sem hafa borið að safnast hafi saman vörur hjá félaginu frá Nordica Inc. sem ekki hafi tekist að selja eins og rakið var.  Þessi framburður starfsmannanna styðst þó ekki við skrifleg gögn, hvorki gögn úr bókhaldi Baugs hf. né önnur, en fram kom að ekki hafi verið hægt að sérgreina birgðir frá Nordica Inc. frá birgðum annarra birgja.  Úttekt T sýnir aðeins hverju hefði mátt gera ráð fyrir í viðskiptum félaganna, hefði Baugur hf. búið við sömu kjör gagnvart Nordica Inc. og gagnvart öðrum viðskiptavinum.  En í málinu hefur komið fram að viðskipti fél­ag­anna voru ekki sambærileg viðskiptum við önnur félög.  Hjá Baugi hf. og fyrirtækjum þess var frekar litið á ákærða, Jón Gerald, sem samstarfsmann en viðskiptafélaga.”

  Til viðbótar framangreindu er rétt að geta framburðar QQ, löggilts endurskoðanda, sem vann hjá KPMG á árunum 1998 til 2002 og kom að gerð milliuppgjörs Baugs hf. í lok ágúst 2001.  Hún bar að lokafærslan, sem byggðist á umræddum reikningi, hefði ekki verið færð nema endurskoðendurnir hefðu haft reikninginn í höndunum eða staðfestingu er samsvaraði honum.

  Ákærði, Jón Gerald, hefur viðurkennt að hafa skrifað framangreindan reikning samkvæmt beiðni meðákærða, Tryggva, eins og rakið var, og sent í faxtæki á skrif­stofu hans.  Hann hefur sagt að engin viðskipti hafi verið á bak við reikninginn og hafi hann eytt honum úr bókhaldskerfi Nordic Inc. eftir að hafa prentað hann út.  Það er niðurstaða dómsins sannað sé að reikningurinn hafi verið notaður í bókhaldi Baugs hf. og með hliðsjón af reynslu ákærða og störfum hafi honum hlotið að vera ljóst að reikn­ingurinn myndi verða notaður í bókhaldinu.  Ákærði hafi því gerst sekur um að aðstoða meðákærðu við brot þeirra samkvæmt þessum lið.  Er brot hans réttilega fært til refsiákvæða í ákæru.  Brotið framdi ákærði á starfsstöð sinni í Flórída en reikn­ingurinn  var notaður í bókhaldi hér á landi og samkvæmt 7. gr. sömu laga ber að líta svo á verkið hafi einnig verið unnið hér á landi.

IV

  Fjárdráttur í tengslum við notkun greiðslukorts.

  19. ákæruliður.

  Í þessum ákærulið er ákærða, Tryggva, gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa dregið sér samtals 1.315.507 krónur á tímabilinu frá 11. janúar 2000 til 12. febrúar 2002, þegar ákærði lét Baug hf. greiða félaginu Nordica Inc. í Bandaríkjunum reikn­inga í 13 skipti, sem gefnir voru út af Nordica Inc. á hendur Baugi hf., vegna per­sónu­legra útgjalda ákærða sem voru Baugi hf. óviðkomandi.  Síðan segir að ákærði hafi einkum stofnað til útgjaldanna erlendis með úttektum á American Express greiðslu­korti í reikning Nordica Inc., sem það hafi lagt út fyrir og innheimt síðan hjá Baugi hf. samkvæmt fyrirmælum ákærða.  Skýringartexti reikninganna hafi gefið til kynna að þeir hafi verið vegna ferða- og dvalarkostnaðar erlendis, en úttektirnar verið í raun vegna kaupa ákærða á varningi og þjónustu í eigin þágu.  Segir í ákærunni að þær hafi meðal annars verið vegna kaupa ákærða í tónlistarverslunum, tísku­vöru­versl­unum, golfvöruverslun, skemmtigarði, veitingastöðum og vegna kaupa á sláttu­dráttarvél. 

  Reikningarnir 13 hafa verið lagðir fram og eru þeir samtals að fjárhæð 14.354,10 Banda­ríkjadalir, eins og segir í ákærunni, og þar er texti þeirra einnig tekinn upp.  

  Ákærði bar að á árinu 1999 hafi komið til tals á milli hans, Jóns Ásgeirs og Jóns Geralds að hann fengi American Express greiðslukort til að nota í Bandaríkjunum.  Þetta kort hafi verið gefið út til Nordica Inc. en hann hafi notað það fyrst og fremst í þágu Baugs hf.  Auk þessa korts hafi hann haft önnur kort á vegum Baugs hf.  Í ein­hverjum tilvikum hafi hann þó notað American Express greiðslukortið í eigin þágu en þá hafi hann gefið Jóni Gerald skýr fyrirmæli um að hann ætti að rukka sig fyrir reikn­inga sem ekki tengdust félaginu.  Hann kvaðst hafa algerlega treyst Jóni Gerald til sjá um þetta, en hann hafi gert reikninga fyrir ferðakostnaði og hafi ákærði samþykkt þá.  Nánar aðspurður kvað ákærði Jón Gerald hafa sent sér reikningana á faxskeyti og hafi ákærði treyst því að á þeim reikningum hafi aðeins verið tilgreindur kostnaður sem Baugi hf. bæri að greiða.  Þá kvaðst ákærði einnig hafa látið Jón Gerald hafa peninga til að greiða eigin úttektir með kortinu.  Varðandi notkun sína á kortinu almennt bar ákærði að hann hafi haft risnu í starfi sínu hjá Baugi hf. og annars vegar hafi sér borið hálfir dagpeningar samkvæmt ráðningarsamningi, en þá hafi hann aldrei látið greiða sér.  Hann hafi þannig átt inni hjá félaginu verulegar fjárhæðir.  Ákærði benti og á að verið væri að ákæra sig fyrir tilvik þar sem hann hefði notað kortið til að greiða fyrir útgjöld Baugs hf. sem hann hafi haft fulla heimild til.  Þetta hafi félagið staðfest þegar það hafi gert þessi mál upp við hann á árinu 2003. 

  Nú verður rakinn framburður ákærða um reikningana þrettán, hvern  fyrir sig og jafn­framt gerð grein fyrir sundurliðun hvers og eins.

  Fyrsti reikningurinn er að fjárhæð 329,58 dalir eða 24.678 krónur.  Samkvæmt sund­urliðuninni var kortið notað þrisvar sinnum.  Í fyrsta skiptið til að kaupa fyrir 101,18 dal í tískuverslun og bar ákærði að um einkaútgjöld hafi verið að ræða og hafi hann greitt Jóni Gerald þessa fjárhæð þá þegar með peningum.  Í annað skiptið keypti ákærði geisladiska til að nota um borð í skemmtibátnum Thee Viking, en hann hafi verið þar á viðskiptaferð með gesti á vegum Baugs hf.  Í þriðja skiptið kvaðst hann hafa keypt reiknivél í fríhöfn og hafi hún verið til að nota á vegum félagsins. 

  Annar reikningurinn er að fjárhæð 548,90 dalir eða 43.596 krónur.  Samkvæmt sundur­liðuninni var kortið notað fimm sinnum.  Í fyrsta skiptið til að kaupa fyrir 93,34 dali og bar ákærði hann hafi keypt skó til að nota um borð í bátnum, sundlaugarskó, þar eð ekki hafi verið hægt að vera þar á venjulegum skóm.  Í hin skiptin kvaðst ákærði hafa keypt geisladiska til að nota um borð í Thee Viking.

  Þriðji reikningurinn er að fjárhæð 2.220,76 dalir eða 186.636  krónur.  Samkvæmt sundurliðuninni var kortið notað átta sinnum.  Í tvö skipti í tísku­vöru­verslun og bar ákærði að um einkaútgjöld hafi verið að ræða og hafi hann greitt Jóni Gerald þessa fjárhæð með peningum á staðnum, en ekki hefði hann nein gögn til stuðn­ings því.  Í eitt skipti í tónlistarverslun og bar ákærði að hann hafi þar keypt geisla­diska til að nota í bátnum.  Í eitt skipti keypti hann vörur í raftækjaverslun og kvað hann þær hafa verið notaðar í bátnum.  Í þrjú skipti notaði ákærði kortið á veitinga­stöðum og kvað þar vera um að ræða útgjöld er Baugur hf. hafi átt að greiða.  Loks notaði ákærði kortið til að greiða með golfsett sem hafi átt að endurkrefja hann um en það hafi ekki verið gert.

  Fjórði reikningurinn er að fjárhæð 638,31 dalur eða 55.420 krónur.  Samkvæmt sundur­liðuninni var kortið notað fjórum sinnum.  Í þrjú skipti í tónlistarverslun og bar ákærði að hann hefði keypt geisladiska til að nota á vinnustað Baugs hf. í Lundúnum.  Í eitt skipti hafi hann keypt skjalatösku sem sé í vörslu félagsins.  Sundurliðunin ber með sér að úttektirnar séu að fjárhæð 603,31 dalur og kvað ákærði mismuninn á henni og reikningnum vera vegna þess að Jón Gerald væri að innheimta 30 dali fyrir þjónustu sína.

  Fimmti reikningurinn er að fjárhæð 270,00 dalir eða 23.328 krónur.  Samkvæmt sundur­liðuninni var kortið notað þrisvar sinnum.  Í öll skiptin í tónslistarverslun og bar ákærði að hann hefði keypt geisladiska til að nota í samkvæmi á hóteli í New York þar sem saman hafi verið komnir starfsmenn og viðskiptavinir Baugs hf.  Þetta hafi verið risna.  Sundurliðunin ber með sér að úttektirnar séu að fjárhæð 260,73 dalir en mismunurinn hefur ekki verið skýrður.

  Sjötti reikningurinn er að fjárhæð 2.333,33 dalir eða 201.536  krónur.  Samkvæmt sundurliðuninni var kortið notað fjórum sinnum.  Í tvö skipti í tón­listar­verslun, en ákærði bar að hafa verið að kaupa geisladiska fyrir vinnustaðinn í Lundúnum.  Í eitt skipti á veitingastað í Miami og kvaðst ákærði þar hafa greitt fyrir veislu sem Baugur hf. hafi haldið starfsmönnum og viðskiptavinum og hafi verið um risnu að ræða.  Loks er færsla  sem tilgreind er sem árgjald kortsins, en ákærði kvaðst hafa haft heimild til að stofna kortið og ætti hann því ekki að bera kostnaðinn af árgjaldinu.

  Sjöundi reikningurinn er að fjárhæð 3.813,23 dalir eða 354.173  krónur.  Samkvæmt sundurliðuninni var kortið notað sjö sinnum.  Í tvö skipti í tón­listar­verslun, en ákærði bar að hafa verið að kaupa geisladiska fyrir vinnustaðinn í Lundúnum.  Í eitt skipti er úttekt í fríhöfn er ákærði kvað hafa verið á vegum fél­agsins.  Í fjögur skipti eru úttektirnar greindar sem garðvörur og íhlutir og bar ákærði að þarna hefði hann keypt garðsláttuvél.  Sundurliðunin ber með sér að úttektirnar séu að fjárhæð 3.800,83 dalir og kvað ákærði mismuninn á henni og reikningnum vera vegna þess að Jón Gerald væri að innheimta þóknun fyrir þjónustu sína.

  Áttundi reikningurinn er að fjárhæð 1.525,78 dalir eða 155.357  krónur.  Samkvæmt sundurliðuninni var kortið notað þrettán sinnum.  Í eitt skipti voru keyptir að­göngumiðar í Disney World, en ákærði bar að það hafi verið hluti af persónulegri risnu hans.  Í eitt skipti hafi hann keypt bók um viðskipti á netinu.  Þá hafi í þrjú skipti verið greiddur símakostnaður.  Einnig hafi verið keyptir geisladiskar til að nota um borð í bátnum.  Allar aðrar færslur hafi verið vegna kostnaðar við fund sem haldinn hafi verið í Flórída. 

  Níundi reikningurinn er að fjárhæð 445,55 dalir eða 44.056 krónur.  Samkvæmt sundur­liðuninni var kortið notað þrisvar sinnum og alltaf í tónlistarverslunum.  Ákærði bar að hann hefði keypt geisladiska til að nota um borð í bátnum og á vinnu­stað í Lundúnum.  Sundurliðunin ber með sér að úttektirnar séu að fjárhæð 415,55 dalir og kvað ákærði mismuninn á henni og reikningnum vera vegna þess að Jón Gerald væri að innheimta þóknun fyrir þjónustu sína.

  Tíundi reikningurinn er að fjárhæð 1.209,99 dalir eða 121.785 krónur.  Samkvæmt sundurliðuninni var kortið notað sex sinnum, tvisvar í tónlistarverslun og fjórum sinnum á veitingastöðum.  Ákærði bar að hann hefði keypt geisladiska í tón­listar­verslunum til að nota  á vinnustað í Lundúnum og greitt risnu á vegum Baugs hf. á veitingastöðum í New York.

  Ellefti reikningurinn er að fjárhæð 247,04 dalir eða 26.372 krónur.  Samkvæmt sundur­liðuninni var kortið notað tvisvar sinnum, einu sinni í tónlistarverslun og einu sinni bókaverslun.  Ákærði bar að annars vegar hafi hann keypt bók eftir merkan fræði­mann í viðskiptalífinu og hins vegar geisladiska eða hugsanlega tímarit fyrir vinnu­staðinn í Lundúnum.

  Tólfti reikningurinn er að fjárhæð 458,81 dalur eða 46.789 krónur.  Samkvæmt sundur­liðuninni var kortið notað fjórum sinnum, þrisvar í tónlistarverslun og einu sinni í tískuvöruverslun.  Ákærði bar að hann hefði keypt geisladiska í tón­listar­verslunum til að nota  á vinnustað í Lundúnum.  Úttektin í tískuvöruversluninni hafi verið vegna þess að í vinnuferð á vegum Baugs hf. hafi hellst rauðvín yfir sig og hann orðið að henda fötum.  Þar eð hann hafi ekki átt til skiptanna hafi hann keypt sér ný föt.  Sundurliðunin ber með sér að úttektirnar séu að fjárhæð 390,52 dalir og hefur mis­munurinn ekki verið skýrður.

  Þrettándi reikningurinn er að fjárhæð 313,58 dalir eða 31.781 króna  Samkvæmt sund­urliðuninni var kortið notað þrisvar sinnum.  Einu sinni í fríhöfn, en þar kvaðst ákærði hafa keypt sér reiknivél þar eð sams konar vél hefði verið stolið frá sér.  Einu sinni kvaðst ákærði hafa notað kortið til að kaupa geisladiska í Lundúnum og gaf sömu skýringar á þeim kaupum og áður hefur verið getið.  Loks er ein færsla vegna árgjalds kortsins.

  Jón Ásgeir Jóhannesson bar að hann hefði gefið leyfi fyrir nefndu greiðslukorti sem gefið var út á nafn Nordica Inc.  Þá hafi Jóni Gerald verið gefin fyrirmæli um að einkakostnaður ákærða ætti ekki að innheimtast hjá Baugi hf. heldur átti að gera ákærða reikning fyrir honum.  Sérstaklega aðspurður um geisladiskakaup ákærða bar Jón Ásgeir að þau hafi verið á vegum félagsins, enda hafi ákærði séð um þau mál hjá því. 

  Jón Gerald bar að ákærði og Jón Ásgeir hefðu haft greiðslukort frá American Express sem hafi verið tengd sínu korti.  Sundurliðaða reikninga fyrir kortanotkun þeirra hafi fyrirtæki sitt fengið.  Jón Gerald kvað ákærða hafa gefið þau fyrirmæli að gerður yrði einn reikningur á Baug hf. vegna kortanotkunar ákærða sem hann myndi senda félaginu og texti hans hafi átt að vera ferðakostnaður.  Ekki hafi mátt flokka út­tektirnar og aldrei hafi komið til tals að senda ákærða sjálfum reikning vegna útgjalda hans.  Ákærði hafi aldrei látið sig fá afrit af kvittunum vegna notkunar hans á kortinu, aldrei óskað eftir að fá send greiðslukortayfirlit og aldrei gert athugasemdir við reikn­ingana sem sendir voru Baugi hf.  Þá kvað Jón Gerald það alrangt að ákærði hefði látið hann hafa peninga til að greiða úttektir sínar með kortinu.  Jón Gerald kannaðist ekki við að keyptir hefðu verið geisladiskar til að spila um borð í bátnum, hann kvað menn hafa stundum komið með íslenska diska, en þeir hefðu verið fáir. 

  E kvaðst ekki hafa vitað að ákærði hefði haft greiðslukortið, enda hefði sér ekki komið það við.  Hún bar að ákærði hefði samþykkt reikningana og hún hefði ekki séð undirgögn með þeim.

  ÍÍ, sem var fjármálastjóri Baugs hf. frá 1. september 2001, bar á sama hátt og E.

  F bar að hann hefði verið staddur í verslun í Miami þegar ákærði hafi keypt sláttudráttarvél og greitt fyrir hana með greiðslukorti.  Ákærði hefði tekið það fram við Jón Gerald að þetta væru útgjöld sem ættu að færast á hann sjálfan en ekki Baug hf.

  Þá hafa verið leidd nokkur vitni sem hafa borið að þau hafi snætt með ákærða á veitinga­stöðum í Bandaríkjunum í boði hans á vegum Baugs hf.  Enn fremur vitni sem hafa borið að þau hafi verið viðstödd þá er ákærði keypti hljómdiska og að þau hafi heyrt spilaða tónlist um borð í bátnum.  Ekki þykir þörf á að greina frekar frá þessum framburði.

  Í tengslum við starfslok ákærða hjá Baugi hf. var gengið frá uppgjöri við hann vegna greiðslukortsins.  Var um fullnaðaruppgjör að ræða og því lýst yfir af hálfu aðila að hvorugur ætti kröfur á hinn vegna notkunar kortsins.

  Ákærði notaði greiðslukortið eins og að framan var rakið.  Hann hefur borið að verulegur hluti útgjaldanna hafi verið vegna Baugs hf. en til annarra hafi hann mátt stofna vegna ákvæðis í ráðningarsamningi sínum um dagpeninga og risnu.  Loks hafi hann á endanum gert upp skuld sína og sé því ekki sekur um fjárdrátt.

  Dómurinn fellst á að útgjöld vegna árgjalds kortsins, símakostnaður, kostnaður á veitinga­stöðum, kaup á bókum, skjalatösku, reiknivél og öðrum tækjum hafi verið útgjöld sem Baugur hf. hafi átt að bera.  Svo virðist sem Jón Gerald hafi lagt þóknun á út­tektirnar samkvæmt kortinu eins og rakið var.  Með því að kortið var á vegum Baugs hf. verður að líta svo á að þessi þóknun sé útgjöld er félagið verði að bera.  Lang­oftast var kortið notað til að greiða fyrir geisladiska sem ákærði hefur borið að notaðir hafi verið um borð í bátnum og á vinnustöðum Baugs hf. í Lundúnum og New York.  Vitni hafa borið um tónlistaráhuga ákærða og Jón Ásgeir tók svo til orða að hann hefði séð um þau mál hjá Baugi hf.  Að þessu virtu þykir dómnum ekki alveg nægi­lega sannað að kaup ákærða á diskunum hafi ekki verið á vegum Baugs hf.  Þá þykir mega fella kaup ákærða á fatnaði í stað fata sem skemmdust í vinnu hjá Baugi hf. undir útgjöld er félagið hafi átt að bera.

  Hins vegar teljast kaup á fatnaði í tískuverslunum vera einkaútgjöld ákærða, eins og hann hefur reyndar játað, en ósannað er að hann hafi greitt Jóni Gerald úttektirnar með peningum eins og ákærði heldur fram.  Þessu hefur Jón Gerald neitað og engin gögn eru til stuðnings þessari fullyrðingu ákærða, sem hefði borið að leiðrétta reikn­inga frá Jóni Gerald í samræmi við greiðslurnar.  Á sama hátt eru aðgöngumiðar í Disney World, kaup á golfsetti og sláttudráttarvél og öðrum garðvörum og íhlutum, einka­útgjöld ákærða, svo og kaup á skóm til nota um borð í bátnum.  Hafi ákærði gefið Jóni Gerald fyrirmæli um að gera sér reikning fyrir sláttudráttarvélinni, eins og F, hefði ákærði á sama hátt átt að sjá til þess að þessi útgjöld yrðu sér­greind þegar honum barst reikningurinn, en það gerði hann ekki.

  Af framburði ákærða og Jóns Ásgeirs verður sú ályktun dregin að ákærða hafi verið heimilt að nota greiðslukortið til að greiða einkaútgjöld.  Þeir bera báðir að Jón Gerald hafi átt að sjá til þess að einkaútgjöld ákærða væru aðgreind og honum gerður reikn­ingur fyrir þeim.  Þessu hefur Jón Gerald hafnað og borið að ákærði hafi lagt fyrir sig að senda reikninga með tilgreindum texta, eins og rakið var.  Þessi fram­burður Jóns Geralds fær stuðning í því að allir reikningarnir, sem ákært er fyrir, eru með texta sem ekki er í samræmi við það sem Nordica Inc. var að greiða.  Allir þessir reikningar bárust ákærða sem samþykkti þá til greiðslu af Baugi hf. sem greiddi þá Nordica Inc.  Ákærða, sem einn notaði greiðslukortið, hlaut þó að vera ljóst að samkvæmt þessum reikningum var verið að greiða úttektir sem voru einkaútgjöld hans.  Honum bar því að kalla eftir sundurliðun frá Jóni Gerald og sjá til þess að einka­útgjöld sín væru færð sem slík og það sem tilheyrði félaginu fært á viðeigandi hátt.  Þetta gerði ákærði ekki heldur lét Baug hf. greiða alla þessa reikninga.  Það er niður­staða dómsins að með þessu hafi ákærði gerst sekur um fjárdrátt varðandi þau tilvik þar sem um einkaútgjöld hans var að ræða, eins og framan var rakið.  Fjárdráttur ákærða nemur samtals 547.985 krónum og er fjárhæðin fundin út eftir sundurliðun lögreglu sem er meðal gagna málsins.  Um er að ræða í fyrsta reikningi kaup á vörum í GAP tískuvöruverslun fyrir sem nemur 7.330 krónum.  Í öðrum reikningi eru kaup á sund­laugarskóm fyrir 7.295 krónur.  Í þriðja reikningi eru kaup í þessari sömu verslun, GAP Kids og Alfs Golf Shop fyrir samtals 166.317 krónur.  Þá er í sjöunda reikn­ingi um að ræða kaup á garðvörum og íhlutum hjá Sears Roebuck fyrir samtals 342.339 krónur.  Loks er í áttunda reikningi greiðsla vegna aðgöngumiða í Walt Disney World að fjárhæð 24.704 krónur. 

V

  Í II. kafla var komist að þeirri niðurstöðu að atferli það sem lýst er í ákæruliðum 4, 5, 8, 9 og 10 væri ekki brot á hlutafélagalögum, eins og ákærða, Jóni Ásgeiri, er gefið að sök og verður hann því sýknaður af ákærunni hvað þessa liði varðar.

  Dómurinn hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að atferli sem lýst er í 2., 3., 6 og 7. ákærulið sé brot á þeim ákvæðum hlutafélagalaga sem rétt eru tilgreind í ákærunni.

  Í ákærunni er atferli ákærða samkvæmt ákæruliðum 3 og 6 talið varða við 1. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 og atferli ákærða samkvæmt ákæruliðum 2 og 7 eru talin varða við 2. mgr. 104. gr., sbr. 2. tl. 153. gr. sömu laga.

  104. gr. hlutafélagalaga er í XII. kafla laganna sem ber heitið Arðsúthlutun, vara­sjóðir o.fl.  Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. er hlutafélagi hvorki heimilt að veita hlut­höfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins, eða móðurfélags þess, lán né setja tryggingu fyrir þá.  Félagi er einnig óheimilt að veita þeim lán eða setja fyrir þann tryggingu sem giftur er eða í óvígðri sambúð með aðila samkvæmt 1. málslið eða er skyldur honum að feðgatali eða niðja ellegar stendur hlutaðeigandi að öðru leyti sérstaklega nærri.  Ákvæði þessarar málsgreinar taka þó ekki til venjulegra við­skipta­lána.

  Samkvæmt 2. mgr. má hlutafélag ekki veita lán til að fjármagna kaup á hlutum í félag­inu eða móðurfélagi þess hvort heldur móðurfélagið er hlutafélag eða einka­hluta­félag.  Hlutafélag má heldur ekki leggja fram fé né setja tryggingu í tengslum við slík kaup.  Ákvæðin eiga þó ekki við um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaupum á hlutum fyrir þá.

  Samkvæmt 2. tl. 153. gr. hlutafélagalaga varðar það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að brjóta vísvitandi ákvæði laganna um lán eða tryggingu til handa hlut­höfum o.fl. (104. gr.).

  Eins og hér kemur fram lýtur verknaðarlýsing 104. gr. ekki að athöfnum einstakl­ings heldur hlutafélags.  Í 153. gr. er engin verknaðarlýsing heldur vísar hún til 104. gr.  Í 4. mgr. 104. gr. segir að hafi félagið innt af hendi greiðslur í tengslum við ráð­stafanir sem andstæðar eru 1. og. 2. mgr. skuli endurgreiða þær með dráttar­vöxtum.  Og í 5. mgr. segir að ef ekki er unnt að endurgreiða féð eða afturkalla trygg­ingu séu þeir sem gerðu eða framkvæmdu síðar ráðstafanir samkvæmt 1. og 2. mgr. ábyrgir fyrir tapi félagsins.

  Í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, segir að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem var refsi­verð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað, eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi.  Þetta ákvæði hefur í framkvæmd verið talið gera ákveðnar kröfur til skýrleika refsiheimilda, meðal annars með hliðsjón af túlkunum á 6. og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

  Hér að framan voru rakin þau ákvæði 104. gr. laga nr. 2/1995 sem ákæru­valdið telur ákærða hafa brotið.  Í þeim ákvæðum er lagt bann við tilteknum athöfnum hluta­félags en ekki einstaklings.  Þá er í greininni kveðið á um hvernig brugðist skuli við ef veitt eru lán eða tryggingar í andstöðu við bann greinarinnar.  Í 2. tl. 153. gr. laganna er einungis sagt að það varði refsingu að brjóta gegn 104. gr. eins og rakið var.  Samkvæmt þessu er verulegur brestur á að refsiheimild 104. gr. sé svo skýr að hægt sé að dæma einstakling á grundvelli hennar.  Af þessari ástæðu og með vísan til 69. gr. stjórnar­skrárinnar er óhjákvæmilegt að sýkna ákærða af ákærunni hvað þessa liði varðar.

  Ákærði, Tryggvi, hefur verið sakfelldur fyrir fjárdrátt eins og rakið var í IV. kafla og varðar brot hans við 247. gr. almennra hegningarlaga.  Ákærði var dæmdur í 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi með dómnum 3. maí sl.  Hann hafði ekki áður sætt refs­ingu.  Verður sá dómur nú tekinn upp og dæmdur með þessu máli.  Með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða hæfilega ákveðin 12 mánaða fang­elsi en skilyrði eru til að skilorðsbinda hana og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir ákærða, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegn­ingarlaga.

  Ákærði, Jón Gerald, var sakfelldur eins og rakið var í III. kafla og varðar brot hans við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald.  Ákærða hefur ekki áður verið refsað.  Refsing hans er hæfi­lega ákveðin 3 mánaða fangelsi en skilyrði eru til að skilorðsbinda hana og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir ákærða, haldi hann almennt skil­orð 57. gr. almennra hegningarlaga.

  Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Ásgeirs, Gests Jónssonar hrl., 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skulu greidd úr ríkissjóði.

  Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Tryggva, Jakobs R. Möller hrl., 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skulu greidd af ákærða að 1/3 hluta en að 2/3 hlutum úr ríkissjóði.

  Með dómi Hæstaréttar 1. júní sl. var fellt úr gildi ákvæði héraðsdóms frá 3. maí sl. um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Geralds, Brynjars Níelssonar hrl.  Verður nú að ákveða honum málsvarnarlaun fyrir málið sem dæmt var þá og eins það sem nú er dæmt.  Eru þau ákveðin 8.100.000 krónur að meðtöldum virðis­auka­skatti og skal ákærði greiða þau, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opin­berra mála.

  Dóminn kváðu upp Arngrímur Ísberg, héraðs­dómari, dómsformaður, Jón Finnbjörns­son, héraðsdómari, og Garðar Valdimarsson, hæstaréttarlögmaður og lög­giltur endurskoðandi.

Dómsorð

  Ákærði, Jón Ásgeir Jóhannesson, er sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.

  Ákærði, Tryggvi Jónsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

  Ákærði, Jón Gerald Sullenberger, sæti fangelsi í 3 mánuði.

  Fresta skal fullnustu refsinga ákærðu og falli þær niður að liðnum 2 árum frá birt­ingu dómsins fyrir þeim, haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

  Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Ásgeirs, Gests Jónssonar hrl., 400.000 krónur, skulu greidd úr ríkissjóði.

  Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Tryggva, Jakobs R. Möller hrl., 400.000 krónur, skal ákærði greiða að 1/3 hluta, en að 2/3 hlutum skulu þau greidd úr ríkissjóði.

  Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Geralds, Brynjars Níelssonar hrl., 8.100.000 krónur skal ákærði greiða.