Print

Mál nr. 389/2010

Lykilorð
  • Sjómaður
  • Laun
  • Veikindaforföll
  • Fordæmi

                                                         

Þriðjudaginn 19. apríl 2011.

Nr. 389/2010.

HB Grandi hf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)       

gegn

Þresti Magnússyni

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

Sjómenn. Laun. Veikindaforföll. Fordæmi.

Þ var sagt upp störfum hjá H hf. í kjölfar þess að hann meiddist í baki í veiðiferð á skipinu V í eigu H hf. en læknir hafði metið Þ óvinnufæran eftir að veiðiferðinni lauk. Þ höfðaði mál og krafðist þess að sér yrðu greidd veikindalaun samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 vegna veiðiferðar V sem var farin skömmu eftir að hann var metinn óvinnufær. H hafnaði kröfunni og vísaði til þess að Þ hefði átt að vera í fríi þegar sú ferð var farin. Í dómi Hæstaréttar var miðað við réttur Þ til launa vegna óvinnufærni hefði getað tekið til tímabils sem hófst þegar læknir mat hann óvinnufæran, enda hefði Þ leyst af hendi störf á V eftir að hann meiddist til loka yfirstandandi veiðiferðar. Talið var að skýra bæri 1. mgr. 36. gr. laga nr. 35/1985 á þann veg að skipverji sem forfallaðist við vinnu sína héldi launum þótt hann hefði átt að fara í launalaust frí á veikindatímabilinu. Vísað var til skýringa í frumvarpi til eldri sjómannalaga þar sem var að finna samhljóða reglu og í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 35/1985 auk eldri dóms um beitingu þeirrar reglu en dóminum hafði verið fylgt eftir sem fordæmi í sams konar tilvikum við beitingu núgildandi laga. Af þessum sökum var fallist á kröfu Þ.         

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2010 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins hóf stefndi á árinu 1999 störf sem skipverji á fiskiskipinu Venusi HF 519 og mun hafa verið fastráðinn einu eða tveimur árum síðar. Fyrir liggur í málinu að á skipi þessu, sem er í eigu áfrýjanda, hafi vinnutilhögun um einhvern tíma verið með þeim hætti að hver skipverji hafi að jafnaði farið tvær veiðiferðir í röð og tekið síðan frí í þeirri þriðju. Stefndi var við störf á skipinu í veiðiferð, sem stóð yfir frá 5. október til 14. nóvember 2008, og kveðst hann hafa orðið þar fyrir meiðslum í baki. Þetta hafi gerst 17. október 2008 þegar hann hafi unnið við snyrtingu á fiskflökum í vinnslurými skipsins og þurft að taka upp fullan fiskkassa við færiband. Kassinn, sem hafi verið um 25 til 30 kg að þyngd, hafi verið skorðaður og stefndi þurft að rykkja í hann til að ná honum upp, en við það hafi stefndi fengið „svakalega í bakið“, svo sem hann komst að orði í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi. Eftir þetta hafi stefndi orðið að hlífa sér mjög í veiðiferðinni og honum verið fengin léttari störf, sem hann hafi leyst af hendi með því að harka af sér, en rakleitt eftir ferðina hafi hann leitað til læknis. Stýrimaður á skipinu staðfesti þessa lýsingu stefnda í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi að öðru leyti en því að hann hafi ekki verið viðstaddur þegar stefndi hafi orðið fyrir meiðslunum, en áfrýjandi andmælir því ekki að stefndi hafi hlotið þau á þann hátt, sem hann hefur greint frá. Óumdeilt er að stefndi hafi samkvæmt vinnufyrirkomulagi á skipinu átt að vera í launalausu leyfi í næstu veiðiferð þess, sem mun hafa staðið yfir frá 21. nóvember til 29. desember 2008. Samkvæmt læknisvottorðum, sem stefndi hefur lagt fram, var hann óvinnufær vegna þessara meiðsla frá 14. nóvember 2008 til 11. febrúar 2009. Stefndi kveðst hafa tilkynnt skipstjóra um óvinnufærni sína sama dag og skipið kom úr síðastgreindri veiðiferð. Við þessu hafi áfrýjandi brugðist með því að segja upp ráðningarsamningi þeirra með bréfi, sem borist hafi stefnda 9. janúar 2009, en uppsagnarfrestur hafi verið einn mánuður. Í framhaldi af þessu hafi stefndi krafið áfrýjanda um greiðslu veikindalauna vegna veiðiferðarinnar frá 14. nóvember til 29. desember 2008. Því hafi áfrýjandi neitað með vísan til þess að stefndi hafi átt að vera í fríi meðan á þeirri veiðiferð stóð, en á hinn bóginn hafi áfrýjandi greitt veikindalaun vegna næstu veiðiferðar þar á eftir, sem hafi verið frá 2. janúar til 11. febrúar 2009. Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu 24. júní 2009, en eins og greinir í héraðsdómi reisir hann kröfu sína á því að sér hafi borið að fá veikindalaun samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 vegna tveggja fyrstu mánaðanna, sem hann hafi verið óvinnufær. Laun fyrir veiðiferðina frá 14. nóvember til 29. desember 2008 hefðu numið 1.594.334 krónum, en fyrir þrettán fyrstu daga næstu veiðiferðar 466.232 krónum. Áfrýjandi hafi greitt stefnda 1.470.423 krónur vegna síðari veiðiferðarinnar allrar og komi sú fjárhæð til frádráttar kröfu hans, sem nemi þannig 590.143 krónum.

Þótt leggja verði til grundvallar að stefndi hafi 17. október 2008 orðið fyrir meiðslum, sem leiddu samkvæmt framlögðum læknisvottorðum til óvinnufærni hans frá 14. nóvember sama ár, verður ekki litið svo á að hann hafi haft forföll frá vinnu allt frá fyrrnefnda deginum, enda er óumdeilt að hann hafi þrátt fyrir meiðslin leyst af hendi störf á skipi áfrýjanda til loka yfirstandandi veiðiferðar, þótt þau hafi ekki verið sams konar og hann hefði ella sinnt. Af þeim sökum verður að miða við að réttur stefnda til launa vegna óvinnufærni geti tekið til tímabils, sem hófst 14. nóvember 2008.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, sem stefndi reisir málsókn sína á, skal skipverji, sem verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur, ekki missa neins í af launum sínum, í hverju sem þau eru greidd, svo lengi sem hann er óvinnufær af þeim sökum, en þó ekki lengur en í tvo mánuði. Samhljóða regla var áður í 1. málslið 3. mgr. 18. gr. sjómannalaga nr. 67/1963 eins og þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 49/1980. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 138/1984, sem birtur er í dómasafni 1985 bls. 1360, var tekin afstaða til kröfu sjómanns á fiskiskipi, sem veiktist í veiðiferð en hafði áður sammælst við útgerðarmann þess um að taka launalaust leyfi eftir lok hennar, um laun í veikindaforföllum vegna næstu veiðiferðar á grundvelli 3. mgr. 18. gr. laga nr. 67/1963. Þar var fallist á þá kröfu með því að lagaákvæði þetta yrði ekki skýrt þannig að réttur skipverja, sem veiktist við vinnu sína, til launa yrði skertur sökum þess að hann hefði á veikindatímabilinu átt að vera í launalausu leyfi. Til stuðnings þessu var vísað til skýringa í athugasemdum við frumvarp, sem varð að lögum nr. 49/1980, en þar sagði meðal annars eftirfarandi: „Hins vegar er gert ráð fyrir að skipverji, sem forfallast við vinnu sína, haldi launum þótt hann hafi átt að fara í launalaust frí síðar.“ Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur þessu fordæmi í sams konar tilvikum verið fylgt við beitingu 1. mgr. 36. gr. núgildandi sjómannalaga, sbr. dóm í máli nr. 207/2005, sem birtur er í dómasafni 2005 bls. 4121, en þess er að gæta að dómar réttarins 6. mars 2008 í málum nr. 288 og 289/2007, sem áfrýjandi hefur skírskotað til í málatilbúnaði sínum, vörðuðu ósambærileg atvik. Að þessu virtu verður nú að skýra þetta lagaákvæði á sama veg, en af því leiðir að niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, HB Grandi hf., greiði stefnda, Þresti Magnússyni, 590.143 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. janúar 2009 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2010.

I

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 9. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þresti Magnússyni, kt. 100279-4609, Engjavöllum 9, Hafnarfirði, með stefnu, þingfestri 25. júní 2009, á hendur Granda hf., kt. 541185-0389, Norðurgarði, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi, Grandi hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 590.143, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 5. gr., frá 1. desember 2008 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, að teknu tilliti til þess, að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.  Til vara krefst stefndi þess, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður milli aðila verði felldur niður.

II

Málavextir

Stefnandi starfaði sem háseti á frystitogara stefnda, b.v. Venusi HF – 519 (1308 og hafði starfað þar frá árinu 2006.  Ráðningarfyrirkomulag var þannig, að sögn stefnda, að á skipið er ráðin ein og hálf áhöfn.  Almennt róðrarfyrirkomulag skipverja var þannig, að þeir fóru tvo túra, en áttu frí þann þriðja.  Kveður stefnandi slíkt fyrirkomulag á frystiskipum vera í dag allsráðandi, þannig að hægt sé að hvíla mennina, án þess að stöðva rekstur á skipinu.   

Í veiðiferð skipsins, er hófst þann 5. október 2008 og lauk þann 14. nóvember 2008, fékk stefnandi slæman hnykk á bakið, nánar tiltekið þann 17. október 2008.  Kveðst stefnandi hafa verið að vinna við snyrtingu á flökum á vinnsludekkinu, þegar fullur fiskbakki festist í járngrind.  Þegar stefnandi reyndi að losa bakkann, hafi hann kippst upp með þeim afleiðingum, að stefnandi fékk hnykk á bakið. 

Stefnandi kveðst hafa harkað af sér og unnið sína vinnu um borð, en strax þegar í land kom, hinn 14. nóvember 2008, leitaði hann til heilsugæslunnar í Hafnarfirði, þar sem læknir úrskurðaði hann óvinnufæran um óákveðinn tíma.  Næsta veiðiferð á eftir, þ.e. svokallaður desembertúr, sem stóð frá 21. nóvember til 31. desember 2008, átti að vera frítúr hjá stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi hans. 

Þann 29. desember 2008 kom b.v. Venus HF – 519 til löndunar.  Sama dag tilkynnti stefnandi skipstjóra skipsins, að hann væri enn óvinnufær vegna áverkans og kæmist því ekki með í næstu veiðiferð skipsins, þ.e janúartúrinn, sem hann átti að fara í.  Kveður stefnandi skipstjórann hafa brugðist illa við og tilkynnt sér, að hann gæti átt von á uppsagnarbréfi, sem stefnanda barst svo þann 9. janúar 2009  í ábyrgðarbréfi.  Uppsagnarfrestur stefnanda var einn mánuður.

Samkvæmt læknisvottorði var stefnandi metinn óvinnufær frá 14. nóvember 2008 og til 11. febrúar 2009.

Stefnandi krafði stefnda um veikindalaun vegna desembertúrsins, sem stefndi hafnaði á þeim forsendum, að stefnandi hefði átt að vera í frítúr þann túr og ætti því ekki rétt á veikindalaunum.  Aftur á móti greiddi stefndi stefnanda án læknisvottorðs alla janúarveiðiferðina, sem  stóð yfir frá 2. janúar til 11. febrúar 2009 á þeim forsendum, að stefnandi hefði átt að fara þá veiðiferð.

Aðila greinir á um rétt stefnanda til launa vegna desembertúrsins.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á því, að hann hafi sannanlega orðið óvinnufær á ráðningartíma sínum hjá stefnda og sannanlega óvinnufær þann tíma, sem hann krefur stefnda um veikindalaun.  Enginn skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður við stefnanda, sbr. 6. gr. sjómannalaganna.  Ráðningartíma stefnanda hafi lokið vegna uppsagnar stefnda þann 9. febrúar 2009, sem hafi engin áhrif á veikindalaunarétt hans.

Frítúrataka og veikindalaunaréttur.

Stefndi byggi synjun sína á veikindalaunakröfu stefnanda á  því, að stefnandi hafi átt að vera í frítúr næstu veiðiferð skipsins, þ.e.a.s  desemberveiðiferðina, og eigi af þeim sökum ekki rétt á veikindalaunum, þar sem hann hafi ekki misst af neinum vinnutekjum vegna óvinnufærninnar.  Í þessum efnum skuli, að mati stefnda, gilda regla skaðabótaréttarins compensatio lucri cum damno, en ekki sérregla 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, þ.e að greiða skuli full staðgengilslaun (stöðugildislaun) fyrstu tvo mánuði óvinnufærninnar.

Stefnandi telji á hinn bóginn, með vísan til dómafordæma Hæstaréttar, einkum Hrd. 2001:3484 (3487), að það skipti ekki neinu máli varðandi rétt óvinnufærs skipverja til staðgengilslauna, hvað gerist næstu 60 dagana, eftir að skipverji verði óvinnufær.  Sé sjómaður í ráðningarsambandi við útgerð, er hann verði óvinnufær, eigi hann rétt á forfallakaupi í öllum tilvikum.  Breyti engu þótt skipverjinn sé að hætta störfum eða fara í frí eða í frítúr.  Réttur hans sé óskertur og algildur í öllum tilvikum.       

Samkvæmt 36. gr. sjómannalaganna skuli óvinnufær skipverji fá fyrstu tvo mánuði óvinnufærni sinnar þau heildarlaun, er staða hans á skipinu gefi þann tíma, sem hann sé forfallaður, svokölluð staðgengilslaun, sem réttara væri að kalla stöðugildislaun, því launarétturinn falli ekki niður, þótt enginn staðgengill sé ráðinn í stað hins óvinnufæra skipverja, eins og oft gerist.

Það frítúrafyrirkomulag, sem hafi að jafnaði gilt á skipinu, að skipverjarnir færu tvo túra á sjó og síðan einn túr í frí, breyti engu um rétt stefnanda til fullra staðgengilslauna fyrstu 60 daga óvinnufærninnar.

Tilvísun lögmanns stefnda í tvo dóma Hæstaréttar í samkynja málum nr. 288 og 289/2007 frá 6. mars 2008 eigi ekki við í þessu máli hér.  Í þeim málum byggi Hæstiréttur á því, að viðkomandi hefði verið ráðinn í hálft hásetastarf á móti öðrum háseta, þótt annar þeirra hefði verið ráðinn á skipið 5 árum fyrr en hinn.  Þessir tveir hásetar, sem ráðnir hafi verið saman um eina hásetastöðu, hafi því farið aðra hverja veiðiferð á móti hvor öðrum og deilt með sér launum, þ.e hafi verið í svokallaðri innbyrðisgreiðslumiðlun.  Þar sem þeir hafi verið tveir um eina hásetastöðu, hafi staðgengill ekki komið í stað hins veika, heldur sá sem ráðinn hafi verið í hálfa stöðu á móti honum.  Hinn óvinnufæri skipverji hafi því ekki verið í ráðningarsambandi við útgerðina, þegar hann var ekki lögskráður á skipið, heldur hinn hásetinn. 

Dómafordæmi Hæstaréttar.

Stefnandi vitni máli sínu til stuðnings í eftirfarandi dómfordæmi Hæstaréttar, sem haldi sínu fulla gildi og hafi skorið úr þeim ágreiningi, sem liggi til úrlausnar.

Hrd. 1985:1360:  Réttur til veikindalauna haldist, þótt skipverjinn hafi sannanlega átt að fara í launalaust frí í næstu veiðiferð á eftir.  Niðurstaðan í málinu byggist fyrst og fremst á því, að hinn óvinnufæri skipverji teljist ekki vera í fríi, meðan forföllin varin og verði því að taka sér launalaust frí einhvern tímann síðar eftir að forföllunum ljúki.

Hrd. 1985:43:  Réttur til veikindalauna haldist, þótt fyrir liggi, að skipverjinn hafi verið að hætta eftir veiðiferðina, sem hann slasaðist í, (hafi verið að fara í guðfræðinám), og hefði þar af leiðandi ekki misst af neinum vinnutekjum.  Lengra verði ekki gengið í þessum efnum. 

Hrd. 2006:211:  Réttur til veikindalauna haldist, þótt fyrir liggi, að skipverjinn hafi verið að hætta eftir veiðiferðina, sem hann slasaðist í, (hafi verið að fara í skipstjórnarnám).

Hrd. 2005:4121:  Í þessum dómi komist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, að óvinnufær skipverji, sbr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, ætti rétt á staðgengilslaunum í fulla tvo mánuði, þótt hann hafi starfaði á skiptimannakerfi, þ.e færi tvær veiðiferðir (2/3) á sjó og væri eina veiðiferð (1/3) í fríi, eins og vinnufyrirkomulagið hafi verið á þeim togara, eins og hafi verið á b.v Venusi HF - 519.  Skipverjinn hafi því fengið greidd veikindalaun allan forfallatímann, enda þótt hann hefði sannanlega verið í launalausu fríi þriðju hverja veiðiferð.

Stefnandi telji, að það sama eigi að gilda gagnvart sér og fram komi í þessum dómum og breyti engu, þótt stefnandi hafi átt að fara í frí í næstu veiðiferð, þ.e desemberveiðiferðina.  Hæstiréttur Íslands hafi þegar, með þessum tilvitnaða dómi, skorið úr ágreiningsefni aðila, enda alveg eins tilvik.

Hrd. 2001:3484 (3487):  Í dómi þessum segi m.a., að 36. gr. sjómannalaganna sé sérregla.  Þar af leiðandi gildi ekki ákvæði skaðabótalaga varðandi compensatio lucri cum damno.  Af þeim ástæðum greiðist fullar bætur fullan staðgengilstímann, en ekki eingöngu sannanlegt fjártjón, eins og við ákvörðun tímabundins tekjutaps, hvað útreikning skaðabóta snerti, skv. skaðabótalögunum nr. 50/1993.  Þrátt fyrir þennan hæstaréttardóm og H. 2005 – 4121, byggi stefndi mál sitt á því, að regla skaðabótaréttar, compensatio lucri cum damno, gildi einnig varðandi 36. gr. sjómannalaganna.  Snúist dómsmál það, sem hér sé rekið, fyrst og fremst um það, hvort þessi hæstaréttardómur haldi sínu fulla gildi í dag eða ekki.             

Varðandi þetta atriði um frítúra og forföll vísi stefnandi í umburðarbréf LÍÚ nr. 8/1993 neðst á bls. 3, sbr. dskj. nr. 11.  Þar segi:  „Slasist eða veikist skipverji og verði óvinnufær á ráðningartímanum fær hann forfallakaup, jafnvel þótt hann hefði verið að hætta störfum.  Sama gildir, ef skipverjinn hefur verið búinn að biðja um frí, enda ekki talið að hann sé í fríi, ef hann getur ekki notið frísins vegna veikinda eða meiðsla.“

Þessi sjónarmið, sem þarna komi fram í þessum dómfordæmum Hæstaréttar, hafi í engu breytst í dag, og breyti dómarnir í málunum nr. 288 og 289/2007 ekki neinu í þeim efnum.  Byggi Hæstiréttur á því, í þessum tilvitnuðum dómum, að réttur skipverja, sem verði óvinnufær, skuli vera hinn sami, hvort heldur skipverjinn hefði haldið áfram störfum eða farið í fyrirframákveðið frí, Hrd. 1985:1360, sbr. Hrd. 2005:4121, eða verið að hætta störfum á skipinu, Hrd. 1985:43 og Hrd. 2006:211.  Réttur skipverjans til forfallakaups skuli í öllum tilvikum byggjast á þeim rétti, sem skipverjinn hafi notið á slysadegi, burtséð frá því, hvað næstu mánuðir hefðu borið í skauti sér fyrir hinn slasaða skipverja varðandi vinnufyrirkomulag eða launagreiðslur.  Miðað sé við staðgildislaun fyrstu 60 daga óvinnufærninnar.  Regla 36. gr. sjómannalaga sé sérregla, og gildi regla skaðabótalaga, compensatio lucri cum damno, ekki vegna slysa- eða veikindalauna sjómanna.

Stefnandi telji, að stefnda sé ekki tækt að neita að virða tilvitnaðar niðurstöður dómafordæma Hæstaréttar Íslands í þessum efnum.  Við dóma Hæstaréttar verði stefndi að una, eins og aðrir landsmenn, nema Hæstiréttur sjálfur breyti þeim.

Sundurliðun krafna.

Krafa stefnanda byggist á launaseðli annars háseta á skipinu vegna 9. veiðiferðar, þ.e desemberveiðiferðar b.v. Venusar HF – 519 (1308), er hafi staðið yfir tímabilið 21. nóvember til 31. desember 2008.  Heildarlaun háseta vegna þessarar veiðiferðar hafi verið kr. 1.594.334, sbr. dskj. nr. 7.

Stefnandi hafi orðið óvinnufær þann 14. nóvember 2008 og eigi rétt á staðgengilslaunum næstu 60 dagana, eða til 14. janúar 2009.  Stefndi hafi neitað að greiða stefnanda desembertúrinn, en hafi greitt honum allan janúartúrinn, þar sem stefnandi hafi átt að fara þann túr.  Túrinn hafi staðið yfir dagana frá 2. janúar til 11. febrúar 2009, eða í 41 dag, og hafi hásetahluturinn verið alls kr. 1.470.423.  Þar sem 60 daga staðgengilslaunatímabili stefnanda hafi lokið þann 14. janúar 2009, hafi stefnandi skv. því eingöngu  átt rétt á 13/41 af þeim túr, eða kr. 466.232   (1.470.423: 41 x 13 = kr. 466.232).  Umframgreiðsla stefnda til stefnanda vegna janúartúrsins sé því kr. 1.004.191 (kr.1.470.423 - kr. 466.232 = kr. 1.004.191), sem dragist frá desembertúrnum.

Krafa stefnanda sé því um greiðslu desembertúrsins, kr. 1.594.334, að frádregnum kr. 1.004.191 vegna janúartúrsins, eða að eftirstöðvum kr. 590.143, sem sé stefnukrafan.

Lagarök.

Stefnandi byggir kröfur sínar á 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 27. gr.  Um dráttarvexti vísist til III. kafla  vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 5. gr.  Um málskostnað vísist til 1. mgr. 130. gr. eml. nr. 91/1991.  Um virðisaukaskatt vísist til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður stefnda

Stefndi hafni málsástæðum stefnanda, og byggi á því, að í uppgjöri við stefnanda vegna veikinda hans í ársbyrjun 2005 hafi stefndi fylgt ákvæðum 1. mgr. 36. gr. laga nr. 35/1985 og kjarasamnings aðila, grein 1.21, dskj. nr. 10.

Stefnandi hafi orðið óvinnufær þann 14.11. 2008, eftir að hann kom úr þeim veiðitúr, sem þá hafi lokið, enda hafi hann í þeim túr ekki verið óvinnufær, eða eins og hann lýsi sjálfur „harkað af sér“.  Stefndi byggi á því, að um sé að ræða veikindi vegna bakverkja, en ekki vinnuslys, enda hafi stefnandi ekki orðið fyrir slysi, heldur hafi hann tognað í baki við vinnu sína.  Er stefnandi var metinn óvinnufær þann 14.11. 2008, hafi hann átt rétt til þess að fá laun í veikindaforföllum frá og með þeim tíma, sem hann hafi átt að koma aftur til vinnu, eða frá og með þeim túr, sem hafi hafist þann 2. janúar og staðið til 11. febrúar 2009.  Stefndi hafi greitt honum allan túrinn, enda hafi hann litið svo á, að tveggja mánaðar réttur til veikinda- og slysalauna byrji frá og með þeim tíma, sem sjómaður eigi að mæta til vinnu, eftir að veikindi komu upp.  Stefndi hafi því ekki byggt á því, að réttur stefnanda til að halda fullum launum hafi fallið niður þann 14. janúar 2009, eins og stefnandi byggi sjálfur á.

Stefndi byggi einnig á því, að stefnandi hafi á tímabili því, sem hann var óvinnufær skv. framlögðum læknisvottorðum, frá 14. nóvember 2008 til 11. febrúar 2009, fengið greidd full laun í samræmi við ákvæði 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en þar sé kveðið á um, að hann skuli „eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær... ... þó eigi lengur en í tvo mánuði.  Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju“.

Telji stefndi, að það sé óumdeilt í málinu, að stefnandi hafi eigi misst neins í af launum sínum, á meðan hann var óvinnufær.

Stefndi byggi á því, að þegar lagaákvæði, eins og 1. mgr. 36. gr. sjómannalaganna sé skýrt, sé ávallt nauðsynlegt að hafa í huga grundvallarrök, sem að baki reglunum búi.  Reglur um, að launþegar skuli í ákveðinn tíma njóta fullra launa í forföllum vegna veikinda eða slysa, byggi á sjónarmiðum um samhjálp og séu gerðar til að tryggja betur en ella fjárhagslegt öryggi starfsmanna.  Alltaf megi deila um það, hversu háar slíkar bætur skuli vera, eða hversu lengi starfsmaður skuli njóta þeirra.  Sú niðurstaða, sem komist hafi verið að varðandi þessi réttindi verkamanna og sjómanna með lögum frá 1979 og 1980, hafi byggt á þeim grunni, að fyrst um sinn skyldu þessir aðilar „eigi missa neins í launum sínum í hverju sem þau eru greidd“, þ.e. landverkamenn í einn mánuð, en sjómenn í tvo mánuði.

Hefur þessi regla um ákvörðun launa verið nefnd „staðgengilsreglan“, og bæturnar „staðgengilslaun“.  Þetta heiti á reglunni eigi að vísa til efnis hennar, en sé ekki fyllilega nákvæmt, enda ráðist réttur viðkomandi til launa ekki af launum „staðgengils“, hvort sem hann sé ímyndaður eða ekki, heldur eigi sjómaðurinn rétt á að fá þau laun, sem hann hefði fengið, ef veikindi eða slys hefðu ekki komið í veg fyrir, að hann gæti gegnt starfi sínu áfram, sbr. Hrd. 1994:2514, en þar segi Hæstiréttur um ákvæði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga:

Lagaákvæðið er svo afdráttarlaust, að það verður eigi skilið öðruvísi en svo, í því samhengi, sem hér reynir á, að stefndi eigi rétt til þeirra launa, sem hann hefði fengið greidd fyrir að gegna starfi sínu áfram, ef veikindi hefðu ekki gert hann ófæran til þess.

Er ofangreint ákvæði kom inn sem breyting á 18. gr. sjómannalaga nr. 67/1963, með lögum nr. 49/1980, hafi tilgangurinn með þeim lögum verið sá, að veita sjómönnum sama rétt til uppsagnarfrests og launa vegna sjúkdóms og slysaforfalla og landverkafólk hafi fengið árinu á undan með l. nr. 19/1979.

Hæstiréttur staðfesti ofangreind sjónarmið í tveimur nýlegum dómum frá 6. mars 2008, mál nr. 288/2007 og 289/2007, og vísi Hæstiréttur m.a. í forsendum sínum í áður tilvitnaðan dóm réttarins nr. 1994:2514.  Í forsendum Hæstaréttar segi svo m.a.:

Samkvæmt ráðningu áfrýjanda var þannig fyrir fram ljóst að hann var í fríi meðan á veiðiferð stóð 2. janúar til 3. febrúar 2005.  Hann veiktist 30. desember 2004, en veikindin hindruðu hann ekki í að gegna starfsskyldum sínum fyrr en 8. febrúar 2005 þegar kom að því að hann skyldi hefja störf.

Tilgreind mál séu algerlega sambærileg máli stefnanda, að öðru leyti en því, að í þessum málum hafi verið ágreiningur um það, hvort viðkomandi hafi átt að fara í næstu veiðiferð eftir að veikindi hófust eða ekki.  Slíkum ágreiningi sé ekki til að dreifa í máli stefnanda, enda viðurkenni hann, að hann hafi ekki átt að vera í áhöfn skipsins í næstu veiðiferð.  Það liggi því fyrir jafn ljóst í þessu máli og þeim, sem vísað sé til, að enginn „staðgengill“ hafi verið ráðinn í túrinn fyrir stefnanda vegna veikinda hans.

Stefndi bendir á, að dómar þeir, sem stefnandi vísi til í málatilbúnaði sínum, séu allir þeir sömu og vísað hafi verið til í tilgreindum málum Hæstaréttar og rétturinn komi inn á í forsendum sínum.

Stefndi kveði það vera grundvallarreglu í vinnurétti, að launþegi eigi ekki að hagnast á slysi eða veikindum á kostnað vinnuveitanda síns.  Stefndi telji einnig, að löggjafinn hafi ekki heimild til þess að kveða á um skyldu vinnuveitanda til að greiða starfsmanni sínum bætur, sem séu hærri en umsamin laun.  Ákvæðið verði einnig að skýra út frá grunnreglunni og með það í huga, að löggjafanum sé óheimilt að mismuna vinnuveitendum með svo grófum hætti, að einum afmörkuðum og þröngum hópi þeirra, útgerðarmönnum skipa, skuli gert að greiða launþegum sínum, ekki aðeins bætur fyrir launamissi í tiltekinn tíma, heldur greiðslur umfram sannanlega töpuð laun, þ.e. sérstaka þóknun eða aukagreiðslur vegna veikinda, sem séu miklu mun hærri en þau laun, sem launþeginn hefði getað unnið sér inn óforfallaður.

Í öllu falli verði að gera kröfu til þess, að slíkt frávik frá meginreglunni yrði að koma fram með skýrum hætti í texta laganna og að færð væru fram gild rök fyrir slíku fráviki í greinargerð.  Hvorugu hafi verið fyrir að fara við setningu laga nr. 49/1980.

Í málinu liggi fyrir, stefnandi hafi verið í hálfu starfi.  Hann hafi fengið greidd laun í veikindum sínum miðað við þau laun, sem hann hefði fengið, ef hann hefði ekki veikst.  Hann eigi ekki rétt á frekari launum og því beri sýkna stefnda af kröfum stefnanda um frekari laun á úthaldstímanum.

Verði talið, að í 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga felist réttur til handa stefnanda til að fá slysa- eða veikindalaun, sem séu hærri en þau laun, sem hann hefði notið óforfallaður, byggi stefndi á því, að sýkna beri hann af slíkri kröfu með vísan til þess, að ákvæðið, þannig skýrt, brjóti gegn 1. gr. samningsviðauka nr. 1, við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis (mannréttindasáttmáli Evrópu), en samningsviðauki þessi hafi lagagildi skv. 1. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Stefndi telji jafnframt, að slík niðurstaða feli í sér brot gegn ákvæðum 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Stefndi byggi á því, að ákvörðun löggjafans um að setja lög þess efnis, að vinnuveitendur skuli bæta launþega launamissi í veikindum eða slysum, feli í sér inngrip í eignarétt vinnuveitenda og tilfærslu á peningalegum verðmætum frá þeim til launþega við þær aðstæður.  Hafi verið um það almenn sátt, að það falli undir heimildir löggjafans að setja almenn lög um bætur fyrir missi á launum í veikinda- og slysaforföllum.  Við slíka lagasetningu verði löggjafinn að gæta að jafnvægi milli hagsmuna vinnuveitenda og launþega og feta þá slóð, sem standist þá skoðun, að hún sé í almannaþágu.  Löggjafinn þurfi  jafnframt að gæta að því, að slíkt inngrip í eignarétt vinnuveitanda sé málefnalegt og almennt og að þeim sé ekki mismunað, nema fyrir þeirri mismunun séu rök, sem jafnframt standist þann mælikvarða, að mismununin sé málefnaleg og í þágu almannahagsmuna.

Stefndi byggi á því, að verði talið, að í 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga felist réttur til handa stefnanda til að  fá slysa- eða veikindalaun, sem séu hærri en þau laun, sem hann hefði notið óforfallaður, standist sú niðurstaða ekki þann almenna mælikvarða, sem áður sé vísað til, og því feli það í sér brot gegn eignarréttindum útgerðarmanna og ólögmæta mismunun gagnvart þeim í samanburði við aðra vinnuveitendur.  Sú almenna regla vinnuréttar, að launþegar eigi ekki að hafa fjárhagslegan hag af veikindum sínum, telji stefndi að sé almennt og viðurkennt viðhorf, sem byggi á þeim grundvallarsjónarmiðum, sem mótast hafi og birtist í viðhorfum til heimilda löggjafans til að setja almennar reglur, sem feli í sér inngrip í eignaréttindi.  Stefndi hafni því alfarið og telji, að því sé hvergi að finna stoð eða réttlætingu, að launþegi fái hærri greiðslur fyrir veikindi frá vinnuveitanda en sem svari til missis hans á launum, hvað þá að hann fái tvöföld laun í veikindaforföllum, líkt og grunnsjónarmið stefnanda byggi á.

Af hálfu stefnda sé vaxtakröfu stefnanda, bæði vaxtafæti og upphafsdegi vaxta, mótmælt sérstaklega. Stefnandi krefjist vaxta frá 1. desember 2008 vegna missis launa vegna veiðiferðar, sem hafi lokið þann 11. febrúar 2009.  Samkvæmt ákvæði 1.12 í kjarasamningi SSÍ og LÍÚ eigi uppgjör að fara fram 15 dögum eftir lok kauptryggingartímabils, en varðandi skuttogara sé það hver veiðiferð fyrir sig.  Stefnandi hafi því ekki átt kröfu til uppgjörs vegna veiðiferðar þeirrar, sem hafi lokið þann 11. febrúar 2009, fyrr en þann 15. febrúar 2009.

Stefndi telji, að fjárkrafa stefnanda hafi ekki komið fram fyrr en í stefnu, þingfestri 25. júní 2009.  Samkvæmt reglum vaxtalaga eigi stefnandi því ekki rétt á dráttarvöxtum, telji dómurinn einhvern fót fyrir kröfum hans, fyrr en í fyrsta lagi mánuði síðar, eða frá 25. júlí 2009, sbr. 3. mgr. 5. laga nr. 38/2001.

Um málskostnað sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi, sem og Einar Bjarni Einarsson stýrimaður.

Ágreiningslaust er með aðilum, að stefnandi hlaut bakáverka þann, sem leiddi til óvinnufærni hans tímabilið 14. nóvember 2008 til 11. febrúar 2009, meðan á ráðningartíma hans hjá stefnda stóð, eða í þeim túr, sem lauk hinn 14. nóvember 2008.  Gildir því regla 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga um launagreiðslur á veikindatíma hans.  Breytir þá engu, þótt stefnandi hafi harkað af sér og unnið sína vinnu, þar til túrnum lauk, svo sem hann greinir frá í stefnu.  Hann bar reyndar fyrir dómi, að honum hefðu verið falin léttari störf það sem eftir var túrsins, og var það staðfest af vitninu Einari.

Stefndi heldur því m.a. fram, að stefnandi hafi verið í hálfu starfi, þegar hann varð fyrir meiðslum sínum.  Þegar af þeim sökum, að stefnandi fór í tvo túra af hverjum þremur, fær þessi staðhæfing ekki staðist.  Þá liggur ekkert fyrir um það, að stefnandi hafi deilt einni stöðu með þeim, sem gegndi starfanum, þegar stefnandi átti svokallaðan frítúr, og liggur ekki annað fyrir en að stefnandi hafi einn gegnt þeirri stöðu, sem hann hafði um borð í skipinu, eins og ráðningarfyrirkomulagi hans var háttað.

Samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga á stefnandi rétt til óskertra launa í allt að tvo mánuði, án tillits til þess, hvort ráðning hans í skiprúm hefði staðið þann tíma, ef hann hefði ekki orðið fyrir meiðslunum, og fær þessi niðurstaða stoð í dómafordæmum Hæstaréttar, sbr. t.d. Hrd. 207:2005.

Ekki er fallist á með stefnda, að þessi niðurstaða brjóti gegn mannréttindasáttmála Evrópu eða tilvitnuðum ákvæðum stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Ekki er í sjálfu sér ágreiningur um útreikning stefnanda á dómkröfunni, og verður hún því tekin til greina með þeirri breytingu, að dráttarvextir reiknast frá 15. janúar 2009, en stefnandi hefur ekki sýnt fram á, að launauppgjör skyldi fara fram frá fyrri tíma en að loknu staðgengilslaunatímabili hans.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 250.000, að meðtöldum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Grandi hf., greiði stefnanda, Þresti Magnússyni, kr. 590.143, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 5. gr. frá 15. janúar 2009 til greiðsludags og kr. 250.000 í málskostnað.