Print

Mál nr. 809/2015

Ákæruvaldið (Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)
gegn
X (Sigurður G. Guðjónsson hrl.), Y (Hörður Felix Harðarson hrl.), Z (Kristín Edwald hrl.), Þ (Grímur Sigurðsson lögmaður) og Æ (Halldór Þ. Birgisson hrl., Stefán A. Svensson hrl. f.h. einkaréttarkröfuhafa)
Lykilorð
  • Hæfi dómara
  • Vanhæfi
  • Ómerking héraðsdóms
Reifun

Hæstiréttur ómerkti héraðsdóm í sakamáli ásamt meðferð þess frá upphafi aðalmeðferðar og vísaði því heim í hérað til úrlausnar á ný, með skírskotun til þess að sérfróðan meðdómsmann í málinu brysti hæfi samkvæmt g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála einkum vegna ummæla og athafna á samfélagsmiðlum þar sem hann lýsti eindreginni afstöðu sinni um málefni A hf. og stjórnenda, meðal annars ákærðu Y og Z sérstaklega. Taldi Hæstiréttur óhjákvæmilegt að virtum atvikum málsins að líta svo á að umrædd tilvik gæfu tilefni til að draga með réttu í efa að meðdómsmaðurinn hefði verið óhlutdrægur í garð ákærðu við meðferð málsins í héraði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. nóvember 2015, og með framhaldsáfrýjunarstefnu 13. sama mánaðar, af hálfu ákæruvaldsins og í samræmi við yfirlýsingar ákærðu Y, Þ og Æ um áfrýjun. Af hendi ákæruvaldsins er gerð krafa um að ákærðu X, Y og Æ verði sakfelld fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og að refsing ákærðu Y, Z og Æ verði þyngd. Þá krefst ákæruvaldið þess að ákærðu Æ og Þ verði gert að sæta upptöku samkvæmt ákæru.

Ákærða X krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að því er hana varðar.

Ákærði Y krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar, en að því frágengnu að hann verði sýknaður.

Ákærði Z krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar, að því frágengnu að hann verði sýknaður, en að öðrum kosti að refsing verði milduð.

Ákærði Þ krefst sýknu af upptökukröfu ákæruvaldsins.

Ákærði Æ krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af þeim.

A ehf. krefst þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu verði staðfest. Þá krefst félagið þess að ákærðu Y, Z og Æ verði óskipt gert að greiða sér málskostnað vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Sérstakur saksóknari höfðaði mál þetta með ákæru 26. júní 2014.

Í henni voru ákærðu borin sökum í þremur köflum. Í þeim fyrsta voru ákærðu Y og X sökuð um að hafa í störfum sínum fyrir A hf., Y sem forstjóri og X sem fjármálastjóri, gerst sek aðallega um fjárdrátt og ákærði Z, í starfi sínu sem framkvæmdastjóri B, aðallega fyrir hlutdeild í fjárdrætti, með því að X hafi, að undirlagi Y og í samráði við Z, látið millifæra 19. desember 2007, 3.016.750.000 krónur af reikningi A hf. inn á reikning B hjá fyrrnefnda bankanum en að undirlagi Z hafi sama fjárhæð verið færð 28. sama mánaðar á reikning ákærða Þ hjá hinum síðarnefnda. Með þessu hafi ákærðu dregið í sameiningu Þ, sem hafi að fullu verið í eigu ákærða Æ, umrædda fjármuni frá A hf. Til vara voru þau Y og X borin sökum um umboðssvik, en með háttsemi sinni hefðu þau misnotað aðstöðu sína, í samráði og samvinnu við Z, þannig að tjón hafi hlotist af.  Ákærði Z var sakaður um  hlutdeild í því broti. Að því frágengnu var þessum ákærða gefin að sök hylming en að því frágengnu peningaþvætti. Jafnframt var ákærða Æ gefin að sök hylming en til vara peningaþvætti.

Í öðrum kafla voru ákærðu Y og X sökuð um aðallega fjárdrátt og ákærði Z um hlutdeild í fjárdrætti með því að X hafi, að undirlagi Y og í samráði við Z, látið millifæra 30. júní 2008, 3.080.250.000 krónur af reikningi A hf. inn á reikning B hjá C hf., dótturfélagi fyrrnefnda bankans, en  að undirlagi Z hafi sama fjárhæð degi síðar verið færð inn á reikning ákærða Þ hjá síðarnefnda bankanum. Með þessu hafi ákærðu í sameiningu dregið Þ umrædda fjármuni frá A hf. Til vara voru þau Y og X ákærð fyrir umboðssvik vegna háttseminnar og Z fyrir hlutdeild í því broti, en hin fyrrnefndu hafi misnotað aðstöðu sína með háttseminni í samráði og samvinnu við Z. Að því frágengnu var Z ákærður fyrir hylmingu vegna háttseminnar með því að hafa haldið ólöglega þeim fjármunum A hf. sem millifærðir voru með þeim hætti sem áður greinir og þannig aðstoðað Þ og þar með eiganda félagsins, ákærða Æ, við að halda ávinningi brotsins, auk þess sem háttsemi hans hafi stuðlað að því að halda við afleiðingum brotsins með því að ráðstafa ávinningnum fyrir hönd Þ. Að þessu frágengnu var Z ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað Þ og þar með eiganda þess, Æ, ávinnings af brotinu, flutt ávinninginn og aðstoðað við afhendingu hans og geymslu. Æ var í þessum kafla gefin að sök, aðallega hylming með því að halda ólöglega þeim fjármunum A hf. sem millifærðir voru inn á reikning Þ, taka þátt í ávinningnum af auðgunarbrotum meðákærðu og stuðla að því að halda við hinu ólögmæta fjártjóni bankans. Til vara var Æ gefið að sök peningaþvætti með því að hafa sem eigandi áðurnefnds félags tekið við og geymt ávinning af auðgunarbrotum, sem meðákærðu voru gefin að sök, inni á bankareikningi félagsins hjá B þar sem ávinningnum var ráðstafað fyrir hönd félagsins.

Í þriðja kafla voru ákærðu Y og X gefin að sök umboðssvik, og ákærða Z hlutdeild í því broti, með því að Y og X hafi misnotað aðstöðu sína á þann hátt að hún hafi, að undirlagi Y og Z, látið A hf. kaupa 20. maí 2008 af ákærða Þ með nánar tilgreindum hætti skuldabréf, útgefin af bankanum. Þau hafi verið í sjö skuldabréfaflokkum og tveimur gjaldmiðlum, að nafnverði að viðbættum vöxtum samtals 57.482.596 evrur og 45.378.883 Bandaríkjadalir, sem hafi verið langt yfir markaðsverði skuldabréfanna og þannig valdið A hf. fjártjóni. Með þessu hafi ákærðu komið því í kring að mismunurinn, sem samtals hafi numið 2.071.868.691 krónu miðað við gengi 20. maí 2008, hafi orðið eftir hjá Þ án þess að lögmætar viðskiptalegar forsendur hafi legið til grundvallar þessum ráðstöfunum. Hafi félagið þannig hagnast með óréttmætum og ólögmætum hætti á kostnað A hf. Tjón bankans hafi numið í íslenskum krónum 1.840.862.224 hið minnsta miðað við gengi gjaldmiðla á fyrrgreindum degi. Til vara var Z gefin að sök hylming með því að hafa haldið ólöglega mismuninum, sem varð eftir hjá Þ, frá A hf. og þannig aðstoðað fyrrnefnda félagið og eiganda þess, ákærða Æ, við að halda ávinningi brotsins, en auk þess stuðlað að því að halda við afleiðingum brotsins með því að ráðstafa ávinningnum fyrir hönd félagsins. Að þessu frágengnu var Z ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað félaginu og þar með eiganda þess ávinnings af brotinu, flutt ávinninginn og aðstoðað við afhendingu og geymslu hans. Æ var í þessum kafla borinn sökum um hylmingu með því að halda ólöglega mismuninum sem varð eftir hjá félaginu frá A hf. og taka þátt í ávinningnum af auðgunarbroti meðákærðu og stuðla að því að halda við fjártjóni A hf. Til vara var Æ gefið að sök peningaþvætti með því að hafa sem eigandi Þ tekið við og geymt ávinning af auðgunarbroti, sem meðákærðu voru sökuð um samkvæmt framansögðu, inni á bankareikningi félagsins hjá B þar sem ávinningnum var ráðstafað fyrir hönd félagsins.

II

Málið var þingfest í héraði 9. september 2014. Ákærðu neituðu öll sök. Við upphaf aðalmeðferðar 7. september 2015 upplýsti héraðsdómarinn, Símon Sigvaldason, sem fram til þessa hafði farið einn með málið, að kvödd hefðu verið til setu í dóminum sem meðdómendur, Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari og Ásgeir Brynjar Torfason lektor í fjármálum og reikningsskilum sem sérfróður meðdómandi. Ekki voru gerðar athugasemdir af þessu tilefni og lauk aðalmeðferðinni 11. sama mánaðar og var málið þá dómtekið. Með bréfi verjanda ákærða Y 30. september 2015 var gerð krafa um að hinn sérfróði meðdómandi viki sæti í málinu. Var málið endurupptekið af þessari ástæðu 6. október sama ár, flutt um kröfuna og tekið til úrskurðar af dómsformanni í framhaldinu. Af hálfu ákærðu X, Z og Þ var tekið undir kröfuna um að meðdómsmaðurinn viki sæti. Af hálfu ákæruvaldsins var þess krafist að kröfunni yrði hafnað.

Með úrskurði héraðsdóms 7. október 2015 var kröfunni hafnað. Dómur gekk síðan í málinu 9. október sama ár, en með honum var ákærði Y sakfelldur fyrir fjárdrátt samkvæmt fyrsta og öðrum kafla ákæru og ákærði Z sakfelldur fyrir hlutdeild í fjárdráttarbrotunum. Ákærði Y var sakfelldur fyrir umboðssvik samkvæmt þriðja kafla ákærunnar og ákærði Z fyrir hlutdeild í því broti. Ákærða X var sýknuð af öllum sakargiftum í málinu. Ákærði Æ var sakfelldur fyrir að hafa af gáleysi gerst sekur um peningaþvætti en sýknaður að öðru leyti af refsikröfum.

Ákærðu Y, Z og Æ voru með háttsemi þeirri, sem þeir voru sakfelldir fyrir, taldir hafa bakað A hf. fjártjón, sem þeim bæri að bæta A ehf. Var í dóminum fallist á kröfu félagsins um viðurkenningu á skaðabótaskyldu þeirra gagnvart því.

Að framan er lýst áfrýjun málsins og kröfum ákæruvalds og sakborninga. Svo sem þar greinir gera ákærðu Y og Z kröfu um að héraðsdómur verði ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með upphafi aðalmeðferðar og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Hæstiréttur ákvað að fram skyldi fara sérstakur málflutningur um ómerkingarkröfuna 9. febrúar 2017.

III

Ómerkingarkröfu sína reisa ákærðu báðir á því að Ásgeir Brynjar Torfason, lektor, sem var sérfróður meðdómsmaður í héraði, hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði Y reisir kröfuna einnig á því að Fangelsismálastofnun hafi sett slíkar skorður við því að hann gæti verið viðstaddur aðalmeðferð málsins að hann þyrfti ekki við það að una, enda fari það í bága við grundvallarregluna um réttláta málsmeðferð sem mælt sé fyrir um í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ákærði Z reisir fyrir sitt leyti ómerkingarkröfuna einnig á þeirri röksemd að sönnunarmati héraðsdóms hafi verið verulega áfátt og að sönnunargögnum hafi ekki verið gerð viðunandi skil í dóminum.

Ákærði Y kveður sér hafa borist vitneskja um það, eftir að aðalmeðferð lauk, að meðdómsmaðurinn hafi margsinnis tjáð sig opinberlega um málefni íslensku bankanna, fjármálahrunið og A hf. sérstaklega. Krafan um ómerkingu héraðsdóms sé til komin vegna þess að með ummælum sínum og afstöðu hafi hinn sérfróði meðdómsmaður verið vanhæfur til meðferðar málsins. Undir þetta er tekið af hálfu ákærða Z. Nánar tiltekið sé hinn sérfróði meðdómsmaður stjórnarmaður í Gagnsæi, samtökum gegn spillingu. Ákærðu séu sakaðir um spillingu og þeir eigi ekki að þurfa að sæta því að einn af forvígismönnum slíkra samtaka sitji í dómi í máli þar sem sakarefnið er vaxið eins og í þessu máli. Hinn sérfróði meðdómsmaður hafi, ásamt öðrum stjórnarmanni í samtökunum, ritað grein 28. febrúar 2015 í Fréttablaðið. Þar hafi komið fram sú skoðun að fjármálahrunið haustið 2008 sé sýnileg táknmynd spillingar í viðskiptalífinu. Fjármálahrunið sé efst í huga allra þegar rætt sé um spillingu.  Einnig er bent á skrif á vefsíðu fjölmiðlamannsins D 10. desember 2009. Þar komi fram að íslenskir bankar hafi svikið útlendinga og eyðilagt orðspor Íslendinga í útlöndum. Þar komi einnig fram í skrifum 22. febrúar 2011 árétting fyrri greinar um að Íslendingar eigi ekki að láta orðspor óreiðumanna festast við alla Íslendinga. Með óreiðumönnum telja ákærðu að sýnilega sé vísað til stjórnenda bankanna ,,óábyrgra útlána seðlabankans til óreiðumannanna í gjaldþrota bönkum“. Megi ætla að þar sé einkum, og hugsanlega eingöngu, vísað til stjórnenda A hf. því sá banki [...]. Þá er bent á skrif á samskiptamiðlinum Twitter um A hf. og niðurstöður dóma, meðal annars yfir ákærða Y, og komi fram ítrekaður áhugi meðdómsmannsins og jákvæð afstaða til dóms yfir þessum ákærða og fleiri stjórnendum A hf. Bent er á önnur skrif meðdómsmannsins 7. maí 2012 á sama samskiptamiðli en þar sé tekið undir ummæli um að eignasafn A hf. hafi ekki þolað dagsins ljós. Þá hafi meðdómsmaðurinn í þremur tilvikum látið í ljós afstöðu sína á þann hátt sem hér skipti máli. Í fyrsta lagi með því að deila ummælum á samskiptamiðlinum Facebook 26. apríl 2013, en með því taki hann undir það sem þar kemur fram um að hrærigrautur spillingar, græðgi, frændhygli og vankunnáttu hafi skapað svokallað hrun. Þá hafi hann í tvígang merkt við að honum líkaði ummæli á sama samskiptamiðli og þar með tekið undir ummælin. Fyrra sinnið hafi verið 2. desember 2010 en þau ummæli hafi lotið að því að starfsemi í bankakerfinu hafi verið svikastarfsemi og starfsmenn þar talið sig hafna yfir aðra og almennt siðferði. Seinna tilvikið hafi verið 30. mars 2012, en þau ummæli hafi lotið að því að öllum hafi verið ljóst í byrjun október 2008 að A hf. væri á leið í þrot. Þá sé einnig neikvæð umfjöllun um lánveitingu [...]. Loks er bent á það sem nefnt er ,,videoblogg“ frá 4. apríl 2011, en þar komi fram ,,einstaklega neikvæð umræða um bankana og [A hf.] sérstaklega.“ Talað sé um bankabófana og Seðlabanki Íslands gangrýndur fyrir að lána peninga ,,jafnvel til [A hf.].“ Þessu til viðbótar benda ákærðu einnig á að hinn sérfróði meðdómandi hafi við kennslustörf sín í Háskóla Íslands og á mannamótum ítrekað haldið fram skoðun um að bönkunum hafi verið stýrt af glæpamönnum. Ekki er þó með gögnum eða öðrum hætti rennt stoðum undir þessar staðhæfingar ákærða og verður því ekki frekar að þeim vikið.

Af hálfu ákæruvalds er því hafnað að hinn sérfróði meðdómsmaður hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins. Ákæruvaldið bendir sérstaklega á að ummælin sem höfð séu eftir meðdómsmanninum verði að lesa, og hlusta á þegar það á við, í samhengi enda megi ráða af því að hann sé í einhverjum tilvikum að vísa til skoðana annarra á tilteknum álitaefnum. Sem dæmi í þessu sambandi tekur ákæruvaldið tilvik þegar meðdómsmaðurinn vísaði til forsvarsmanna íslensku bankanna sem ,,bankabófa“. Tilvísunin sé í svokölluðu ,,videobloggi“ frá 4. apríl 2011 og í framhaldi af umræðu um Icesave og innstæðutryggingar komi eftirfarandi fram: ,,Við getum ekki farið að breyta öllu fjármálakerfi heimsins, með þessu eina máli. Þó að sumir hafi viljað blása það upp og sagt að þetta hafi nú verið sniðugt hjá Íslendingum, að láta bankana rúlla og ekki að bjarga bankabókunum, bófunum, ég meina það, þetta er enn ein svona eftirá skýringin sem er gerð“. Ákæruvaldið telur að í tilvitnuðum orðum meðdómsmannsins komi skýrlega fram það sem ,,sumir hafi viljað blása ... upp“. Þetta sé, samkvæmt orðanna hljóðan, ekki sett fram sem skoðun meðdómsmannsins. Telur ákæruvaldið að mat á hæfi hans hljóti að ráðast af því hvað hann hafi í raun sagt og skrifað en ekki út frá ályktunum sem ákærðu draga af ummælunum.

Ákæruvaldið bendir á að í sumum tilvikum sé um að ræða ummæli eða skrif almenns eðlis, sem feli ekki í sér skoðanir meðdómsmannsins. Þá er á það bent að skrif hans 22. febrúar 2011 í pistli á vefsvæði D um ,,að standa í lappirnar gagnvart stórveldum“ og að ,,ekki skuli greiða skuldir óreiðumanna“ feli í sér líkingar, sem meta verði í því ljósi. Loks bendir ákæruvaldið á að þegar einhver setji merki um að honum líki efni, sem fjallað sé um á samfélagsmiðlum, þýði það fremur að sá hafi áhuga á efninu og vilji vekja athygli annarra á því, en að hann sé að lýsa því yfir að hann sé sammála því sem fjallað hafi verið um.

Ákæruvaldið bendir einnig á að þótt ríkar kröfur séu gerðar til hæfis dómara yrði gengið of langt ef litið yrði svo á að meðdómsmaðurinn ætti að víkja sæti.

IV

Svo sem fram er komið er hinn sérfróði meðdómsmaður félagi í Gagnsæi, samtökum gegn spillingu, sem stofnuð voru í september 2014, og situr þar í stjórn ásamt sex öðrum. Í samþykktum félagsins segir meðal annars að tilgangur þess sé að vinna með margvíslegum hætti gegn spillingu með því að auka þekkingu í íslensku samfélagi á einkennum og aðstæðum sem hvatt geta til spilltrar hegðunar og efla almennan skilning á afleiðingum spillingar. Félagið muni starfa í samræmi við markmið og grunngildi alþjóðlegra samtaka um sama efni og það muni sækja um að verða sérstök deild í þeim samtökum. Þá segir að tilgangi sínum hyggist félagið ná með því að standa fyrir fræðslu, rannsóknum og opinni umræðu svo og að hvetja til gagnsærrar ákvarðanatöku í opinberri stefnumótum, stjórnun og samskiptum.

Svo sem áður greinir vísar ákærði Y til skrifa meðdómsmannsins 10. desember 2009 á því sem hann segir vera vinsæla vefsíðu D. Þótt nafn meðdómsmannsins hafi ekki komið fram sem höfundur greinarinnar verður fallist á með ákærða að síðari tilvísun meðdómsmannsins til greinarinnar staðfesti að hann sé höfundur hennar. Í greininni, sem bar yfirskriftina ,,Orðspor Íslendinga“ og fjallaði almennt um það efni í kjölfar fjármálaáfalla haustið 2008, sagði meðal annars: ,,Útlendingar eru ekki að leika Íslendinga grátt, heldur var því þver öfugt farið, íslenskir bankar sviku útlendingana. Hrunið var ekki útlendingum að kenna – það er mikilvægt að horfast heiðarlega í augu við þá staðreynd.“ Meðdómsmaðurinn vék aftur að sama efni í grein á sömu vefsíðu 22. febrúar 2011. Þar fjallaði hann mest um svonefnda Icesave deilu og gagnrýndi röksemdir þeirra sem lögðust gegn samningi um greiðslu svonefndra Icesave skulda. Hann lýsti röksemdum þeirra svo, að þeir noti líkingar ,,eins og að standa í lappirnar gagnvart stórveldum og að ekki skuli greiða skuldir óreiðumanna.“ Síðar í greininni sagði hann að allir hafi áttað sig á því að skuldina þyrfti að greiða með einhverjum hætti á endanum. ,,Alveg eins og skuldir vegna óábyrgra útlána seðlabankans til óreiðumannanna í gjaldþrota bönkunum.“ Í lok greinarinnar sagði: ,,Nú er kominn tími til að standa í lappirnar sem ábyrg þjóð meðal þjóða og láta ekki orðspor óreiðumannanna festast við alla Íslendinga.“

Þá vísar ákærði til greinar sem meðdómsmaðurinn ritaði ásamt öðrum stjórnarmanni í Gagnsæi, samtökum gegn spillingu, 28. febrúar 2015 í Fréttablaðið, sem bar heitið ,,Baráttan gegn spilltu viðskiptaumhverfi“. Stærstur hluti greinarinnar var almennt um spillingu í viðskiptalífinu, um góða og vonda stjórnarhætti fyrirtækja og baráttu gegn spillingu í viðskiptalífinu á heimsvísu. Ákærði tilfærir eftirfarandi úr upphafi greinarinnar: ,,Spilling í viðskiptalífinu getur birst með margvíslegum hætti; mútuþægni, mútum, þjófnaði, fjárkúgun, samráði, fölsun ársreikninga og svikum hvers konar.“ Í kafla í greininni um viðbrögð og aðgerðir sagði: ,,Þó að flestum sé efst í huga fjármálahrunið 2008 þegar talað er um spillingu í viðskiptalífinu, þá voru framin afdrifarík svik í tengslum við fjármálakrísuna árið 2001, sérstaklega hjá bandaríska orkusölufyrirtækinu Enron.“

Ennfremur vísar ákærði til skrifa meðdómsmannsins á samskiptamiðlinum Twitter. Hann leggur fram ljósrit skjámynda af aðgangi meðdómsmannsins á samskiptamiðlinum sem hafi komið upp þegar leitað hafi verið undir orðunum ,,[A hf.]“ og ,,[A hf.]“. Á skjámyndunum má sjá að meðdómsmaðurinn fjallar oft um málefni stjórnenda A hf. Þess er getið að ákæra hafi verið gefin út í tilteknu máli á hendur þeim og í nokkur skipti sagt frá sakfellingum í málum, sem ákæruvaldið höfðaði gegn stjórnendum bankans. Var birt mynd úr dómþingi undir rekstri sakamáls á hendur þeim og einnig mynd af ákærðu Y og Z þegar lýst var sakfellingu í máli á hendur þeim.

Vísað er til þess að meðdómsmaðurinn hafi merkt við ummæli sem birtust á Twitter aðgangi Ríkisútvarpsins ohf. þar sem haft er eftir tilgreindum manni það sem fram kom í vitnaskýrslu hans fyrir Landsdómi í máli nr. 3/2011 frá 23. apríl 2012 að hann efaðist um að A hf. hefði getað eða viljað flytja til útlanda því þá hefði þurft að sýna eignasafn bankans sem hefði verið slæmt. Með þessu hafi meðdómsmaðurinn lýst sig sammála ummælum vitnisins.

Þá liggur fyrir að meðdómsmaðurinn deildi á svæði sínu á samskiptamiðlinum Facebook grein sem nafngreindur maður hafði ritað á bloggsvæði miðilsins www.dv.is í apríl 2013 undir heitinu ,,Æpandi prinsippleysi“. Þar fjallaði greinarhöfundur um viðbrögð meðal annars fjölmiðla við þeim fjármálaáföllum sem urðu haustið 2008. Eftir það hafi verið „flett ofan af hverjum hroðanum á fætur öðrum, bæði í fortíð og nútíð.“ Svo sagði: ,,Ef við leggjum svo skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis í púkkið, má fullyrða að ekki sé til sú þjóð í veröldinni sem telst betur upplýst um þann hrærigraut spillingar, græðgi, frændhygli og vankunnáttu sem skóp hrunið – svo ekki sé minnst á eftirleikinn.“ Meðdómsmaðurinn segir við deilinguna að hann hafi aldrei hitt greinarhöfund en hann sé að skrifa, og það ekki í fyrsta sinn, nákvæmlega það sem hann sjálfur hafi verið að hugsa.

Meðdómsmaðurinn merkti á svæði sitt á samskiptamiðlinum Facebook 2. desember 2010 að honum líkaði skrif D, fjölmiðlamanns, á vefnum þar sem D gerði grein fyrir skoðunum nafngreinds manns, sem hann sagði að væri ,,þekktur fjármálaeftirlitsmaður frá Bandaríkjunum“ og telji að hugarfarið á bak við svikastarfsemi í bankakerfinu felist í því að menn þar hafi oftrú á hæfileikum sínum, telji sig ,,vera hafna yfir aðra og að almennt siðferði eigi ekki lengur við um þá.“ Hann hafi einnig merkt á sama stað að honum líkaði við grein, sem E dósent hafi ritað 30. mars 2012 á vefmiðlinum www.visir.is undir titlinum ,,Lánað úr litlum forða“. Í greininni var fjallað um [...] síðustu dagana fyrir fall bankans í október 2008, lánin hafi verið þrjú og samtals numið 600.000.000 evra. Höfundur taldi það sérkennilega ákvörðun að veita lánin því öllum hafi átt að vera ljóst að A hf. væri á ,,leið í þrot“ þótt þá hafi ekki legið fyrir hve rýrt eignasafn bankans hafi verið í raun. Það hafi ekki verið nein von til þess að bankinn ,,gæti lifað af gjaldþrot [F hf.] og [G hf.]. Gjaldþrot eins af stóru bönkunum þremur hlaut að fella hina tvo – og nú voru þeir þegar fallnir.“ Í greininni kom fyrst og fremst fram gagnrýni á Seðlabanka Íslands og framangreinda ákvörðun bankans, ekki síst í ljósi þess að höfundur taldi gjaldeyrisforða bankans hafa verið mjög lítinn.

Þá tilfærir ákærði skoðanir sem meðdómsmaðurinn setti fram á svonefndu ,,videobloggi“ í viðtali við H 4. apríl 2011. Viðtalið fjallaði um Icesave málið og fór fram í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Nefndi ákærði sérstaklega eins og að framan greinir að meðdómsmaðurinn tali um ,,bankabófana“, en í viðtalinu sagði hann jafnframt: ,,Seðlabankinn var að lána pening, jafnvel til [A hf.] þarna rétt fyrir hrun. Það voru hins vegar erlendir seðlabankar og fjármálamarkaðurinn sem veittu Íslendingum ekki meira lán af því að það var orðið augljóst að þeir væru að fara með þetta í tóma vitleysu.“

V

Þátttaka meðdómsmannsins í almennu félagi eins og Gagnsæi, samtökum gegn spillingu, getur ein og sér ekki leitt til þess að hann teljist vanhæfur til meðferðar máls eins og þess sem hér um ræðir. Ummæli hans á vefsvæði D voru almenns eðlis og beindust ekki sérstaklega að ákærða Y eða öðrum stjórnendum A hf. Þýðingu þeirra fyrir hæfi meðdómsmannsins verður að meta í því samhengi sem þau voru. Hið sama á við um grein þá í Fréttablaðinu, sem meðdómsmaðurinn ritaði ásamt öðrum 28. febrúar 2015, enda var í henni ekki vikið sérstaklega að A hf., stjórnendum hans eða annarra banka.

Á hinn bóginn hefur meðdómsmaðurinn ítrekað á samskiptamiðlum tekið upp fréttir af dómsmálum gegn stjórnendum A hf. og birt mynd meðal annars af ákærðu Y og Z við frásögn um sakfellingu þeirra í dómsmáli. Þær tilgreiningar verða ekki skildar á annan veg en þann, að meðdómsmaðurinn lýsi yfir stuðningi við það, sem fram kom í því efni sem hann tekur upp. Þá lýsir tal hans um ,,bankabófa“ sem hann viðhafði á árinu 2011 afstöðu hans til stjórnenda bankanna, þar með talið ákærðu.

Atvik þau, sem ákærði Y nefnir til stuðnings kröfu sinni og rakin hafa verið, spanna langt tímabil og sýna sum hver eindregna afstöðu meðdómsmannsins til stjórnenda bankanna, meðal annars ákærðu Y og Z sérstaklega. Ummæli og afstaða í garð stjórnenda bankanna verður einnig að meta í ljósi almennrar afstöðu meðdómsmannsins og yfirlýstra áhugamála hans.

Tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess, en einnig til að tryggja traust til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Framangreind ummæli meðdómsmannsins og tilvik þar sem hann lýsir sérstaklega afstöðu sinni og lúta að A hf. og stjórnendum bankans verður sem fyrr segir að meta í ljósi almennrar afstöðu hans. Þau tilvik gefa hlutlægt séð tilefni til að draga með réttu í efa að hann hafi verið óhlutdrægur í garð ákærðu við meðferð málsins, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm ásamt meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því til héraðsdóms til úrlausnar á ný. Í samræmi við kröfur ákærðu verður áfrýjunarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjenda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, en í ljósi niðurstöðu málsins eru ekki efni til að dæma A ehf. málskostnað fyrir Hæstarétti úr hendi ákærðu.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og er því vísað heim í hérað til úrlausnar á ný.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, 1.860.000 krónur til hæstaréttarlögmannanna Harðar Felix Harðarsonar og Kristínar Edwald hvors um sig og 868.000 krónur til hæstaréttarlögmannanna Sigurðar G. Guðjónssonar, Halldórs Þ. Birgissonar og Gríms Sigurðssonar hvers um sig.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. september sl., er höfðað með ákæru útgefinni af embætti sérstaks saksóknara, 26. júní 2014, gegn Y, kt. [...], með lögheimili í [...], X, kt. [...], með lögheimili í [...], Z, kt. [...], með lögheimili í [...] og Æ, kt. [...], með lögheimili í [...], fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og jafnframt á hendur félögunum Þ, með lögheimili í [...], I, með lögheimili í [...], J, með lögheimili í [...], K, með lögheimili í [...] og L, með lögheimili á [...], til upptöku.

 

I

a)               Á hendur ákærðu Y, þáverandi forstjóra A hf., [...], Reykjavík, kt. [...] og X, þáverandi fjármálastjóra A hf., aðallega fyrir fjárdrátt og á hendur ákærða Z, þáverandi framkvæmdastjóra B, [...], kt. [...], aðallega fyrir hlutdeild í fjárdrætti, með því að ákærða X lét, að undirlagi ákærða Y og í samráði við ákærða Z, millifæra 19. desember 2007, 3.016.750.000 krónur af reikningi A hf., nr. [...], inn á reikning B, nr. [...], hjá A hf., en að undirlagi ákærða Z var sama fjárhæð færð 28. desember 2007, með gildisdegi 19. desember 2007, inn á reikning Þ nr. [...] hjá B. Með þessum hætti drógu ákærðu, í sameiningu Þ, umrædda fjármuni A hf. Fjármunafærslan frá A hf. til Þ var einhliða og ekki liður í lögmætum viðskiptum eða samningum milli félagsins og A hf. eða B.

 

Til vara á hendur ákærðu Y og X fyrir umboðssvik og ákærða Z fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að þau Y og X misnotuðu aðstöðu sína, með framangreindri háttsemi, í samráði og samvinnu við ákærða Z, þannig að tjón hlaust af fyrir A hf.

 

Til þrautavara á hendur ákærða Z fyrir hylmingu, með því að hafa haldið ólöglega þeim fjármunum A hf. sem millifærðir voru inn á reikning félagsins Þ og þannig aðstoðað Þ og þar með eiganda þess, ákærða Æ, við að halda ávinningi brotsins. Auk þess stuðlað að því að halda við afleiðingum brotsins með því að ráðstafa ávinningnum fyrir hönd Þ.

 

Til þrautaþrautavara á hendur ákærða Z fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað Þ og þar með eiganda þess, ákærða Æ, ávinnings af brotinu, flutt ávinninginn, aðstoðað við afhendingu og geymslu hans.

 

b)               Á hendur ákærða Æ, eina eiganda félagsins Þ, aðallega fyrir hylmingu með því að halda ólöglega þeim fjármunum A hf. sem millifærðir voru inn á reikning Þ, taka þátt í ávinningnum af auðgunarbrotum meðákærðu samkvæmt a-lið og stuðla að því að halda við hinu ólögmæta fjártjóni A hf.

 

Til vara á hendur ákærða Æ fyrir peningaþvætti með því að hafa, sem eini eigandi Þ, tekið við og geymt ávinning af auðgunarbrotum, sem meðákærðu eru gefin að sök samkvæmt a-lið, inni á bankareikningi félagsins hjá B þar sem ávinningnum var ráðstafað fyrir hönd félagsins.

 

II

a)       Á hendur ákærðu Y, þáverandi forstjóra A hf. og X, þáverandi fjármálastjóra A hf., aðallega fyrir fjárdrátt og á hendur ákærða Z, þáverandi framkvæmdastjóra B, aðallega fyrir hlutdeild í fjárdrætti, með því að ákærða X lét, að undirlagi ákærða Y og í samráði við ákærða Z, millifæra, 30. júní 2008, 3.080.250.000 krónur af reikningi A hf., nr. [...], inn á reikning B, nr. [...] hjá C hf., dótturfélagi A hf., en að undirlagi ákærða Z var sama fjárhæð færð 1. júlí 2008, með gildisdegi 2. júlí 2008, inn á reikning Þ, nr. [...], hjá B. Með þessum hætti drógu ákærðu í sameiningu Þ umrædda fjármuni A hf., en félagið var þá í eigu ákærða Æ. Fjármunafærslan frá A hf. til Þ var einhliða og ekki liður í lögmætum viðskiptum eða samningum milli félagsins og A hf. eða B.

 

Til vara á hendur ákærðu Y og X fyrir umboðssvik og ákærða Z fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að þau Y og X, misnotuðu aðstöðu sína með framangreindri háttsemi, í samráði og samvinnu við ákærða Z, þannig að tjón hlaust af fyrir A hf.

 

Til þrautavara á hendur ákærða Z fyrir hylmingu, með því að hafa haldið ólöglega þeim fjármunum A hf. sem millifærðir voru inn á reikning félagsins Þ og þannig aðstoðað Þ og þar með eiganda þess, ákærða Æ, við að halda ávinningi brotsins. Auk þess stuðlað að því að halda við afleiðingum brotsins með því að ráðstafa ávinningnum fyrir hönd Þ.

 

Til þrautaþrautavara á hendur ákærða Z fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað Þ og þar með eiganda þess, ákærða Æ, ávinnings af brotinu, flutt ávinninginn, aðstoðað við afhendingu og geymslu hans.

 

b)       Á hendur ákærða Æ, eina eiganda félagsins Þ, aðallega fyrir hylmingu með því að halda ólöglega þeim fjármunum A hf. sem millifærðir voru inn á reikning Þ, taka þátt í ávinningnum af auðgunarbrotum meðákærðu samkvæmt a-lið og stuðla að því að halda við hinu ólögmæta fjártjóni A hf.

 

Til vara á hendur ákærða Æ fyrir peningaþvætti, með því að hafa, sem eigandi Þ, tekið við og geymt ávinning af auðgunarbrotum, sem meðákærðu eru gefin að sök samkvæmt a-lið, inni á bankareikningi félagsins hjá B þar sem ávinningnum var ráðstafað fyrir hönd félagsins.

 

III

a)      Á hendur ákærðu Y, þáverandi forstjóra A hf. og X, þáverandi fjármálastjóra A hf. fyrir umboðssvik og á hendur ákærða Z, þáverandi framkvæmdastjóra B aðallega fyrir hlutdeild í umboðssvikum er ákærðu Y og X misnotuðu aðstöðu sína, með því að ákærða X lét, að undirlagi ákærðu Y og Z, A hf. kaupa, 20. maí 2008, skuldabréf útgefin af A hf. í sjö skuldabréfaflokkum og tveimur gjaldmiðlum af Þ, á nafnverði bréfanna að viðbættum áföllnum vöxtum, samtals 57.482.596 evrur og 45.378.883 Bandaríkjadali,  sem var langt yfir markaðsverði skuldabréfanna og ollu A hf. með því fjártjóni. Uppgjörsdagur viðskiptanna var 21. maí 2008.

 

Nánar tiltekið hafði ákærði Z, að undirlagi ákærða Y, látið B kaupa þessi sömu skuldabréf á markaði með miklum afföllum í apríl og maí 2008 og síðan látið B selja skuldabréfin til Þ, á tímabilinu frá 16. apríl til 20. maí 2008, á sama verði og þau voru keypt, það er 41.719.280 evrur og 41.724.378 Bandaríkjadali.

 

Með þessum hætti komu ákærðu því í kring að mismunurinn á því verði sem A hf. greiddi fyrir skuldabréfin og því verði sem B hafði keypt og síðan selt skuldabréfin á, að frádregnum 0,2% kostnaði, það er 15.648.351 evra og 3.563.748 Bandaríkjadalir eða samtals 2.071.868.691 króna, miðað við miðgengi umræddra gjaldmiðla 20. maí 2008, varð eftir hjá Þ. Hvorki lágu lögmætar viðskiptalegar forsendur að baki því að A hf. keypti skuldabréfin á verði langt yfir markaðsverði né að Þ væri milliliður í viðskiptunum, en þar með hagnaðist félagið með óréttmætum og ólögmætum hætti á kostnað A hf.

 

Tjón A hf. nam að minnsta kosti muninum á því verði sem A hf. greiddi fyrir skuldabréfin 20. maí 2008 og markaðsverði skuldabréfanna þann dag, að teknu tilliti til áfallinna vaxta, eða 12.814.019 evrum og 5.143.300 Bandaríkjadölum, og ætluðum 0,2% kostnaði eða jafngildi 1.840.862.224 króna miðað við miðgengi umræddra gjaldmiðla 20. maí 2008.

 

Í töflunni hér að neðan eru upplýsingar um nafnverð, kaupverð, markaðsverð, ávinning og tjón hvað varðar einstaka skuldabréfaflokka.

 

Skuldabréfa-flokkar

Gjald-miðill

Dags. kaupa Þ

Nafnverð skulda-bréfanna

Kaupverð B og Þ

Kaupverð A hf. 20. maí

Fært á reikning Þ / söluverð að frádr. kostnaði

Mism. á kaupverði A hf. og kaupverð Þ að frádr. kostnaði

Markaðs-verð skulda- bréfa m.v. gengi 20/5 2008 auk vaxta

Mism. á kaupverði A hf. og markaðs-verði m.v. 20/5 2008 auk vaxta

XS0194859277

EUR

16.4.2008 -19.5.2008

    29.334.000

19.535.138

30.875.819

30.814.067

11.278.929

22.103.897

8.771.922

XS0219823266

EUR

20.5.2008

7.500.000

6.629.480

7.581.037

7.565.875

936.395

6.737.422

843.615

XS0226781242

EUR

20.5.2008

13.500.000

10.778.058

13.503.795

13.476.787

2.698.729

11.278.995

2.224.800

XS0283601341

EUR

20.5.2008

5.500.000

4.776.604

5.521.945

5.510.901

734.297

4.548.264

973.682

Samtals

EUR

 

 55.834.000

41.719.280

57.482.596

57.367.631

15.648.351

44.668.577

 12.814.019

US48632GAA76

USD

20.5.2008

14.347.000

13.094.201

14.454.702

14.425.793

1.331.592

1.360.501

2.528.659

US48632GAC33

USD

20.5.2008

26.700.000

24.802.091

26.791.131

26.737.548

1.935.457

1.989.040

2.286.321

XS0206352824

USD

20.5.2008

4.104.000

3.828.086

4.133.050

4.124.784

296.698

304.964

328.320

Samtals

USD

 

45.131.000

41.724.378

45.378.883

45.288.125

3.563.747

3.654.505

5.143.300

 

Til vara á hendur ákærða Z fyrir hylmingu með því að hafa haldið ólöglega mismuninum, sem varð eftir hjá Þ frá A hf., og þannig aðstoðað Þ og þar með eiganda þess, ákærða Æ, við að halda ávinningi brotsins. Auk þess stuðlað að því að halda við afleiðingum brotsins með því að ráðstafa ávinningnum fyrir hönd Þ.

 

Til þrautavara á hendur ákærða Z fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað Þ og þar með eiganda þess, ákærða Æ, ávinnings af brotinu, flutt ávinninginn, aðstoðað við afhendingu og geymslu hans.

 

b)      Á hendur ákærða Æ, eina eiganda félagsins Þ, aðallega fyrir hylmingu með því að halda ólöglega mismuninum sem varð eftir hjá Þ frá A hf., taka þátt í ávinningnum af auðgunarbroti meðákærðu samkvæmt a-lið og stuðla að því að halda við hinu ólögmæta fjártjóni A hf.

 

Til vara á hendur ákærða Æ fyrir peningaþvætti, með því að hafa, sem eigandi Þ, tekið við og geymt ávinning af auðgunarbroti, sem meðákærðu er gefið að sök samkvæmt a-lið, inni á bankareikningi félagsins hjá B. þar sem ávinningnum var ráðstafað fyrir hönd félagsins.

 

IV

Eru brot ákærðu, Y og X, samkvæmt a-lið I. kafla og a-lið II. kafla ákæru, aðallega talin varða við 247. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 en til vara við 249. gr. sömu laga. Brot ákærða Z, samkvæmt a-lið I. kafla og a-lið II. kafla ákæru, teljast aðallega varða við 247. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr., til vara við 249., sbr. 1. mgr. 22. gr., til þrautavara við 254. gr. en til þrautaþrautavara við 264. gr. laga, nr. 19/1940.

   Brot ákærðu, Y og X, samkvæmt a-lið III. kafla ákæru, telst varða við 249. gr. laga, nr. 19/1940. Brot ákærða Z, samkvæmt a-lið III. kafla ákæru, telst aðallega varða við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr., til vara við 254. gr. en til þrautavara við 264. gr. laga, nr. 19/1940.

   Brot ákærða Æ, samkvæmt b-liðum I., II. og III. kafla ákæru, teljast aðallega varða við 254. gr. en til vara við 264. gr. laga, nr. 19/1940.

 

V

Er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Með með vísan til 1. mgr. 69. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 69. gr. þágildandi upptökuákvæða laganna, er þess krafist að ákærða Æ, og eftirfarandi félögum í hans eigu verði gert að sæta upptöku á eftirfarandi innstæðum og eignasöfnum á reikningum í M og N sem kyrrsett/haldlögð voru í Lúxemborg að beiðni embættis sérstaks saksóknara, 3. júní 2011. Á kyrrsetningar-/haldlagningardegi var virði eignanna 44.310.395 evrur, sem samsvara 6.849.057.755 krónum á gengi evru 16. júní 2014, en virði eignanna var 46.749.907 evrur, sem samsvara 7.226.133.125 krónum þegar eignirnar voru síðast virtar, miðað við sama gengi. Upptökukrafan tekur einnig til áfallinna vaxta og verðmætaaukningar hinna kyrrsettu/haldlögðu verðmæta frá kyrrsetningar-/haldlagningardegi, til upptökudags.

 

Aðili

Reikningur

Eignir

Virði á haldl.d. 3.6.2011 í EUR

Síðast virt

Virði í EUR þegar síðast virt

Þ

 400637 M

Verðbréf, fjárfestingar-sjóður og innstæða á hlaupareikningi

6.763.253 EUR

3.6.2011

6.763.253 EUR

Æ

0947-693105-2 (81636) N

Innstæða á hlaupareikningi

228.726 EUR

7.5.2013

230.171 EUR

L

0947-211345-2 (81814) N

Innstæður á hlaupa- og verðbréfareikningi

22.253.476 EUR

9.4.2014

24.064.119 EUR

I

0947-579598-8 (81659) N

Innstæður á hlaupa- og verðbréfareikningi

13.909.461 EUR

9.4.2014

14.597.563 EUR

J

0947-512821-3 (81643) N

Innstæður á hlaupa- og verðbréfareikningi

1.145.978 EUR

9.4.2014

1.084.958 EUR

K

0947-479162-8 (81590) N

Innstæða á hlaupareikningi

9.501 EUR

9.4.2014

9.843 EUR

Samtals:

44.310.395 EUR

46.749.907 EUR

EUR/kr. @ 154,57 kr. 16.6.2014

6.849.057.755 kr.

7.226.133.125 kr.

 

VI

Af hálfu A hf.  eru gerðar eftirfarandi kröfur um skaðabætur:

1)       Að X, Y, Z og Æ verði dæmd til að greiða A hf. óskipt 3.016.750.000 króna með vöxtum, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 19. desember 2007 til þess dags er mánuður er liðinn frá þingfestingardegi sakar, en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

2)       Að X, Y, Z og Æ verði dæmd til að greiða A hf. óskipt 3.080.250.000 króna með vöxtum, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 30. júní 2008 til þess dags er mánuður er liðinn frá þingfestingardegi sakar en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

3)       Að X, Y, Z og Æ verði dæmd til að greiða A hf. óskipt 15.648.350,78 evrur og 3.563.747,55 Bandaríkjadali ásamt vöxtum, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 21. maí 2008 til þess dags er mánuður er liðinn frá þingfestingardegi sakar en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags

Til vara í öllum tilvikum er krafist greiðslu skaðabóta að álitum.

Til þrautavara í öllum tilvikum er krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu.

Loks er þess krafist að öllum fjórum ákærðu verði gert að greiða A hf. málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til áhrifa virðisaukaskatts.

 

I

a. Aðdragandi stofnunar A hf.

Búnaðarbanki Íslands var stofnaður með sérstökum lögum um hann, sem voru nr. 115/1941, og var hann í eigu íslenska ríkisins. Með lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, varð sú breyting að Búnaðarbanki Íslands hf. tók til starfa 1. janúar 1998, en um sinn var hann þó áfram eign ríkisins. Þeim lögum var svo breytt, með 1. gr. laga nr. 70/2001, á þann hátt að ríkinu var heimilað að selja þann hlut, sem það átti þá enn í Búnaðarbanka Íslands hf., og var þeirrar heimildar endanlega neytt 16. janúar 2003. Síðar á því ári var félagið sameinað A hf. og fékk sameinaða félagið seinna heitið A hf. Frá árinu 1998 mun A hf. hafa átt dótturfélagið B, sem hafði á hendi starfsemi í því landi og varð dótturfélag A hf. eftir fyrrgreinda sameiningu. Þá mun A hf. jafnframt hafa, á árinu 2005, keypt enskan banka og á grunni hans sett á fót dótturfélag þar í landi með heitinu O. Á þessum árum jókst starfsemi A hf. mjög, hér á landi og erlendis, og á árinu 2008 mun hafa verið svo komið að félagið átti ýmist dótturfélög eða rak orðið útibú í 15 löndum. Á þeim tíma var ákærði Y forstjóri A hf. Mun ákærði Z hafa stýrt dótturfélaginu B allt frá stofnun og ákærði Y átt sæti í stjórn þess ásamt ákærða Z og tveimur öðrum mönnum.

Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar, samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í A hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, en slit á félaginu, sem nú ber heitið A hf., hófust 22. apríl 2009 og standa þau enn yfir. Í framhaldi af þessari aðgerð Fjármálaeftirlitsins mun B hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar og M á síðari stigum tekið yfir starfsemi félagsins.

 

b. Upphaf rannsóknar málsins

Upphaf rannsóknar þess sakamáls sem hér er til úrlausnar má rekja til þess að með bréfi 22. mars 2010 vísaði Fjármálaeftirlitið til embættis sérstaks saksóknara rannsókn Fjármálaeftirlitsins á viðskiptum A hf. við Þ og P vegna hugsanlegra brota á almennum hegningarlögum. Að því er félagið Þ varðar var í kærunni vísað til óvenjulegra fjármagnsflutninga til félagsins frá A hf. Í kærunni kemur m.a. fram að meginhluti þeirra atriða er snúi að viðskiptum A hf. í tengslum við Þ hafi átt sér stað í Lúxemborg og varði B. Rakið er að félagið Þ hafi verið stofnað 30. júní 2006 og það skráð í Lúxemborg. Félagið hafi verið tekið yfir af ákærða Æ, þann 20. júní 2007. Ákærði hafi verið skráður eigandi félagsins eða ,,beneficial owner“ og einnig verið stór hluthafi í A hf. ásamt því að vera viðskiptavinur bankans til langs tíma.

Í bréfi Fjármálaeftirlitsins kemur fram að A hf. hafi, 31. janúar 2008, gefið út ábyrgð sem falið hafi í sér að bankinn ábyrgðist allar skuldir félagsins Þ, allt að 50 milljónir evra, við B. A hf. hafi hækkað fjárhæð ábyrgðarinnar upp í 140 milljónir evra 31. júlí 2008. Undir ábyrgðarskjalið hafi ritað ákærði Y og forstöðumaður fyrirtækjasviðs A hf. Ýmis álitaefni hafi vaknað upp varðandi ábyrgðina. Fram kemur að svo virtist sem B gæti veitt félaginu Þ lán í hvaða tilgangi sem væri og gegn hvaða veði sem væri og í kjölfarið krafið A hf. um greiðslu á þeim skuldum sem þetta félag gæti ekki greitt á því tímabili sem ábyrgðin tæki til. Jafnframt væri hvergi skilgreint skilyrði þess að A hf. gæti endurheimt greiðslur sem bankinn hefði greitt vegna ábyrgðarinnar ef ekki væri lengur þörf á henni. A hf. hafi 3. október 2008 greitt til B, vegna Þ, 10 milljarða króna vegna ábyrgðarinnar en þann næsta viðskiptadag, eða 6. október 2008, hafi Þ selt megnið af þeim skuldabréfum sem veðsett hefðu verið vegna ábyrgðarinnar. Þá hafi Þ, 8. október 2008, tekið 10,4 milljónir punda út af reikningi sínum í reiðufé. A hf. hafi ekki fengið framangreinda fjármuni endurgreidda.

Í kjölfar rannsóknar á félaginu Þ skoðaði embætti sérstaks saksóknara færslu fjármuna frá A hf. til Þ í desember 2007, júní 2008 og október 2008, sem og skuldabréfaviðskipti bankans og Þ í maí og júní 2008. Við lok rannsóknarinnar ákvað embættið að skipta rannsókn málsins upp og rannsaka fjármagnsflutninga frá A hf. til Þ 19. desember 2007, sem varða I. kafla ákæru, 30. júní 2008, sem varða II. kafla ákæru og skuldabréfaviðskipti Þ og A hf. 20. maí 2008, sem varða III. kafla ákæru.

Við rannsókn málsins voru vitni yfirheyrð á Íslandi og í Lúxemborg á tímabilinu 24. janúar 2010 til janúar 2014. Þá voru teknar skýrslur af ákærðu vegna málsins á tímabilinu 8. febrúar 2010 til 31. október 2013. Þannig voru skýrslur teknar hjá lögreglu af ákærða Y, 6. maí 2010 og 29. júní 2011. Skýrslur voru teknar af ákærðu X, 8. apríl 2010 og 29. júní 2011. Skýrslur voru teknar af ákærða Z, 6. maí 2010, 8. maí 2010, 28. maí 2010 og 29. júní 2010. Loks voru teknar skýrslur af ákærða Æ, fyrst með réttarstöðu vitnis, 27. maí 2010, en síðan með réttarstöðu sakbornings, 29. júní 2011, 7. júní 2013, 10. júní 2013, 12. júlí 2013 og loks 31. október 2013.

Í þágu rannsóknar málsins lagði embætti sérstaks saksóknara fram réttarbeiðnir gagnvart yfirvöldum í Lúxemborg. Á grundvelli þeirra fóru fram húsleitir í Lúxemborg á tímabilinu 9. til 12. febrúar 2010 og 29. mars til 1. apríl 2011. Þá aflaði embætti sérstaks saksóknara dómsúrskurða til heimilda til símhlustana hjá ákærðu og voru símar ákærðu, utan ákærða Æ, hlustaðir á tilteknum tímabilum á árinu 2010. Þá aflaði embættið heimilda til kyrrsetningar á eignum ákærða Æ og félaganna I, J, K og L í bönkunum N, M og Q, sem allir eru með aðsetur í Lúxemborg. Að ósk ákærða Æ voru honum og ofangreindum félögum veittar heimildir til viðskipta með eignasöfn í bönkunum ytra til verndar og viðhalds eignasafnanna. Heimild til þess var fyrst veitt 21. mars 2012, en sú heimild var útvíkkuð 28. júní 2012.  

Við aðalmeðferð málsins gáfu ákærðu skýrslu fyrir dóminum. Þá komu fyrir dóminn R, fyrrum viðskiptastjóri hjá B, S, yfirlögfræðingur hjá B, T, fyrrum starfsmaður B, U fyrrum lögfræðingur hjá B, V, fyrrum innri endurskoðandi A hf., AA, fyrrum framkvæmdastjóri fjármálasviðs A hf., BB, fyrrum framkvæmdastjóri fjárstýringar A hf., CC, fyrrum forstöðumaður eigin viðskipta A hf., DD, fyrrum forstöðumaður fjárstýringar A hf., EE, fyrrum forstöðumaður afleiðudeildar A hf., fyrrum starfsmaður fjármálasviðs A hf., fyrrum forstöðumaður bakvinnsludeildar fjárstýringar hjá A hf., fyrrum forstöðumaður kostnaðarbókhalds A hf., fyrrum starfsmaður kostnaðarbókhalds A hf., fyrrum starfsmaður C hf., þrír starfsmenn slitastjórnar A hf., vitnið FF og GG, systir ákærða Æ. Loks komu fyrir dóminn HH, fyrrum lögreglumaður hjá embætti sérstaks saksóknara, II, fyrrum lögreglumaður hjá embættinu og loks lögreglumaðurinn JJ en þeir tveir síðastgreindu unnu að rannsókn málsins.  

Rannsóknargögn lögreglu telja alls 4436 blaðsíður. Ekki er ástæða til að gera hér í dómi skil nema á hluta af þessum rannsóknargögnum. Ákærðu og vitni gáfu skýrslur hjá lögreglu eins og áður greinir. Skýrslur ákærðu og vitna þar verða ekki raktar í dóminum. Hins vegar verður gerð grein framburðum ákærðu og vitna hér fyrir dóminum, að því marki sem máli skiptir fyrir niðurstöðu málsins.

 

II

a. Viðskipti með hlutabréf í KK hf. 

Á meðal gagna málsins eru tvær óundirritaðar og ódagsettar ábyrgðir í nafni A hf. Samkvæmt ábyrgðunum hefur félagið LL gengið inn í söluréttarsamning gagnvart MM ehf. um kaup á hlutabréfum í KK hf., samkvæmt annarri ábyrgðinni að nafnverði ríflega 414 milljónir króna en hinni ríflega 207 milljónir króna. Í ábyrgðunum er kveðið á um að A hf. ábyrgist greiðslu á kaupverði hlutabréfanna til eignarhaldsfélagins innan 30 daga, fari svo að félagið LL geti ekki greitt kaupverðið.

Samkvæmt gögnum málsins sendi S, yfirlögfræðingur hjá B, tölvupóst til starfsmanns á lögmannsstofu í Reykjavík, 28. júní 2007, þess efnis að Þ ætli að virkja svonefndan kauprétt. Tekið er fram að í skjalinu sé að finna samning sem undirritaður hafi verið af MM ehf. Fram kemur að sá samningur hafi verið yfirtekinn af Þ, samkvæmt kaupréttarsamningnum í stað óstofnaða félags, sem tilgreint sé mótaðili. Samningur þessi liggur fyrir í gögnum málsins en samkvæmt honum gera MM ehf. og óstofnað félag með sér kaupréttarsamning um hlutabréf í KK hf. að nafnverði ríflega 207 milljónir króna. Samningur þessi er undirritaður fyrir hönd MM ehf. Honum  fylgdi fundargerð stjórnarfundar í félaginu Þ, sem  haldinn var 25. júní 2007, sem samkvæmt fundargerðinni samþykkti að nýta sér kauprétt að hlutabréfum í KK hf. þar sem seljandi væri MM ehf. Bréf undirritað af fulltrúum stjórnendafélaga í stjórn Þ er sent MM ehf. 12. júlí 2007 og í því er staðfest að félagið ætli að nýta kauprétt á hlutabréfum í KK hf.

Samkvæmt gögnum málsins sendi S tölvupóst, 20. júlí 2007, til R, viðskiptastjóra í B, með þeim skilaboðum að ekki séu lausir 5,5 milljarðar króna í bankanum til að greiða fyrir hlutabréfin í KK hf. Síðar sama dag svarar R S á þann veg að það verði að láta félagið taka lán hjá móðurfélaginu. S sendi R póst þennan sama dag um að ,,Gabi“ hafi bjargað þessu. Sama dag sendi S tölvupóst á lögmann hjá lögmannsstofunni Fulltingi um að greiðsla til MM ehf. hefði verið innt af hendi. Starfsmaður hjá B sendi starfsmanni C hf., einnig þennan dag, tölvupóst um að S hefði gert grein fyrir því að starfsmaður C hf. myndi láta vita þegar búið væri að færa hlutabréf í KK hf., að nafnverði ríflega 207 milljónir króna, yfir til ,,okkar“. Síðar sama dag sendi S tölvupóst á netfang hjá KK hf. með þeim skilaboðum að hann sé búinn að móttaka hlutabréfin og greiða fyrir þau. Viðskiptunum sé þar með lokið.

Samkvæmt gögnum málsins sendi starfsmaður B tölvupóst 29. október 2007 til S og ákærða Z, með staðfestingu á að Þ hefði kauprétt að hlutabréfum í KK hf. til 27. nóvember 2007. Samkvæmt gögnum málsins sendi S tölvupóst á ákærða Z, 30. nóvember 2007, með skilaboðum um að S hefði rætt við lögmann á lögmannsstofunni Fulltingi, um að það væri ekkert mál af hans hálfu að ,,putta“ á Þ. S sendi sama lögmanni tölvupóst 5. desember 2007 um að B muni ábyrgjast greiðslu á söluréttarverði söluréttarsamnings á milli MM ehf. og Þ. Í sama tölvupósti kemur fram að 1. desember 2007 sendi lögmaður á lögmannsstofunni Fulltingi S tölvupóst þar sem lögmaðurinn, fyrir hönd MM ehf., sendir tilkynningu vegna kaup- og söluréttar á hlutum í KK hf. Lögmaðurinn óskar eftir staðfestingu S, fyrir hönd Þ, á því að tilkynning hafi borist um neytingu söluréttar og að LL staðfesti ábyrgð sína á greiðslu söluréttarverðsins sem losi rúma 28 í gengi með hvern hlut í KK hf. Að öðrum kosti skoðist tilkynningin send til LL og að greitt verði í samræmi við sölurétt í síðasta lagi föstudaginn 21. desember 2007. Lögmaðurinn sendi í framhaldi tölvubréf til S um skannað afrit tilkynningar, frá 1. desember 2007, um beitingu söluréttar. Fram kemur að lögmaðurinn hafi jafnframt móttekið tilkynningu S um að B ábyrgist greiðslu söluréttarverðsins til MM ehf. fyrir hönd Þ. Miðvikudaginn 19. desember 2007 sendi S tölvupóst til ákærða Z varðandi ,,frágang á [Þ] málinu“. Fram kemur að bankinn fái hlutabréfin í KK hf. í hús seinnipartinn þann 20. desember 2007. Snemma dags þann 21. desember 2007 geti ,,við“ móttekið bréfin inn í safn Þ og flutt íslenskar krónur inn á tilgreindan bankareikning MM ehf. S sendi ákærða Y tölvupóst, miðvikudaginn 19. desember 2007, þar sem fram kemur að S sé búinn að tryggja 2/3 af 5,9 milljörðum vegna söluréttarsamnings MM ehf. Föstudaginn 21. desember 2007 sendi R, viðskiptastjórinn, tölvupóst til samstarfsmanna innan bankans um að millifæra skuli tæplega 6 milljarða króna inn á reikning MM ehf. út af reikningi Þ í bankanum.    

 

b. Skjöl varðandi stofnun félagsins Þ

Fimmtudaginn 21. júní 2007 var ákærða Æ sendur tölvupóstur frá starfsmanni B með þeirri yfirskrift að um væri að ræða skjöl sem þyrfti að undirrita. Gerð er grein fyrir því að um sé að ræða viðskipti tengd KK hf., sem ákærði Z hafi rætt við ákærða Æ fyrr sama dag. Afrit af þessum tölvupósti er sent til S. Með tölvupóstinum voru send skjöl varðandi félagið Þ. Um er að ræða kaupsamning um stofnun félagsins, á milli B og ákærða Æ. Fram kemur að ákærði, sem stofnandi, reiði fram 31.000 evrur í hlutafé. Kaupsamningsþóknun er 35.000 evrur. Þá fylgdi téðum tölvupósti samkomulag um hýsingu milli Þ og B um að félagið hafi heimilisfesti á aðsetri bankans í Lúxemborg. Fram kemur að ákærði Æ komi fram fyrir hönd félagsins. Í samningnum er kveðið á um ýmiss konar þjónustu er bankinn veiti félaginu, skyldur bankans gagnvart félaginu og skyldur félagsins gagnvart bankanum. Einnig fylgdi skjölunum umboð, þar sem ákærði Æ, sem skráður hluthafi í félaginu Þ, veitir nafngreindum lögmanni í Lúxemborg umboð til að koma fram fyrir hönd félagsins á sérstökum aðalfundi félagsins 22. júní 2007, frammi fyrir ,,notary“ í Lúxemborg. Að lokum fylgdi tölvupóstinum afrit fundargerðar stjórnar í Þ, sem haldinn var 25. júní 2007, þar sem fulltrúar þriggja stjórnarfélaga í félaginu eru mættir. Fundarefni er meðal annars að samþykkja það að ganga inn í söluréttarsamning um hlutabréf í KK hf., sem undirritaður var 30. maí 2006, af hálfu félags sem síðar yrði stofnað. Síðar sama dag sendir sami starfsmaður ákærða Æ annan tölvupóst og biður um að skjölin verði send undirrituð á faxi þennan sama dag eða þann næsta. Með þeim tölvupósti fylgdi skjal þar sem ákærða Æ var ætlað að rita undir yfirlýsingu þess efnis að hann væri ,,beneficial owner“ að þeim fjármunum sem greiða ætti inn í félagið Þ. Lagt var hald á framangreind skjöl við húsleit í B og voru þau þá undirrituð af ákærða Æ.

Við framangreinda húsleit var meðal annars lagt hald á ódagsetta fundargerð stjórnarfundar í Þ. Samkvæmt fundargerðinni samþykkti stjórn félagsins að óska eftir lánalínu frá B að hámarki 100 milljónir evra. Undir fundargerðina rita fulltrúar stjórnunarfélaga í stjórn Þ, ásamt ákærða Æ. Eins var lagt hald á ábyrgð nr. 0358-9757, þar sem A hf. ábyrgist, gagnvart B, endurgreiðslu á láni sem B hefur veitt félaginu Þ. Nemur ábyrgðin að hámarki 50 milljónir evra. Undir ábyrgðina ritar ákærði Y fyrir hönd A hf., 31. janúar 2008.

Þann 4. febrúar 2008 er gengið frá lánalínu af hálfu B, gagnvart félaginu Þ, að hámarki 100 milljónir evra. Ritað er undir lánalínuna bæði af hálfu bankans og Þ. Þá liggur fyrir í gögnum málsins ábyrgð nr. 0665-6757 frá A hf. frá 31. júlí 2008, gagnvart B, þar sem bankinn ábyrgist greiðslu á láni Þ hjá B að hámarksfjárhæð 140 milljónir evra. Ákærði Y ritar undir ábyrgðina fyrir hönd A hf. Með bréfi lögmannsstofunnar Kleyr Grasso Assoies í Lúxemborg 16. nóvember 2010, var A hf. gerð grein fyrir því að félagið Þ hefði ekki brugðist við greiðslutilmælum B vegna útistandandi lánveitinga til félagsins. Fram kemur að ef ekki kæmi til greiðslu yrði ábyrgð A hf., samkvæmt ábyrgðum nr. 0358-9757 og nr. 0665-9757, virkjuð. Bréfi þessu svaraði lögmannsstofan O&A Advocates í Lúxemborg 26. nóvember 2011, þar sem fram kemur að lögmannsstofan gæti hagsmuna ákærða Æ. Í bréfinu kemur meðal annars fram að ákærði sé endanlegur eigandi, eða ,,beneficial owner“, að félaginu.

Á meðal gagna málsins er að finna tvennskonar útdrátt úr hluthafaskrá Þ sem tekur mið af föstudeginum 20. júní 2007. Í öðrum útdrættinum er ákærði Æ skráður sem eini hluthafi félagsins. Í hinum útdrættinum er B skráð sem eini hluthafi félagsins. Í báðum tilvikum er ritað undir hluthafaskrána af fulltrúum stjórnenda félaga í stjórn Þ. 

Föstudaginn 4. júlí 2008 sendi R viðskiptastjóri tölvupóst til ákærða Z og ber hann yfirskriftina ,,[Þ]“. R kveður starfsfólk í lánadeild B vera að ,,elta“ R í tengslum við það að fá ákærða Æ til að skrifa undir tryggingar varðandi Þ, í öðrum eignum hans. Spyr R ákærða Z hvort hann sé sáttur við að R biðji ákærða Æ um þetta.

Á meðal gagna málsins er skjal er varðar stofnun reiknings nr. 400637 fyrir Þ í B. Stofnskjölin eru undirrituð 2. ágúst 2007. Í skilmálum með reikningnum, í ákvæði 8,1 og 8,2, er kveðið á um tryggingar og veðsetningu reikningsins fyrir öllum kröfum bankans á hendur viðskiptavininum. Bankanum eru settar að veði allar eignir viðskiptavinarins í bankanum.  Reikningsyfirlit varðandi reikning nr. 400637 eru á meðal gagna málsins. Þar koma fram millifærslur út af reikningi B inn á reikning Þ samkvæmt I., II. og III. kafla ákæru.

 

c. Lánsumsóknir ákærða Æ í B.

Starfsmaður í B sendi samstarfsmanni sínum tölvupóst, 1. ágúst 2007, í tengslum við lánsumsókn ákærða Æ sem viðskiptastjórinn R tók saman 12. júlí 2007 og beint er til lánanefndar bankans. Í umsókninni, sem dagsett er 12. júlí 2007, kemur fram að ákærði Æ sé um þessar mundir að endurskipuleggja félög sín, með því að færa eignir og skuldir á milli félaga. Tekið er fram að heildarlánamörk bankans vegna félaga ákærða nemi samtals 193 milljónum evra. Sótt sé um hækkun að fjárhæð 58 milljónir evra þannig að lánamörk fyrir félögin í heild nemi liðlega 251 milljónum evra. Fram kemur að allar skuldir félaganna séu í umsókninni miðað við núverandi stöðu þeirra. Félög í eigu ákærða eru sögð vera J, [...], [...], [...], [...], [...], [...] og Þ. Að því er félagið Þ varðar eru tryggingar sagðar vera hlutabréf í KK hf. Hvað upplýsingagjöf varðar er tekið fram að bankinn hafi verið upplýstur um að ákærði hafi fengið aðra kaupréttarsamninga um kaup á hlutabréfum í KK hf. sem hægt yrði að nýta í september 2007. 

Meðal gagna málsins er önnur lánsumsókn, sem haldlögð var við húsleit í B, sem beint er til lánanefndar bankans. Lánsumsóknin er dagsett 22. ágúst 2007 og varðar ákærða Æ og sömu félög og áður. Hún er efnislega á sama veg fyrir utan það að sótt er um aukin lánamörk sem nemi 180 milljónum evra þannig að mörkin verði eftir það liðlega 373 milljónir evra. Þá er umsóknin ítarlegri varðandi áhættumat á einstök félög. Þessu til viðbótar var við húsleit haldlögð umsókn um lánalínu. Í þessari lánsumsókn er farið fram á að lánalínan taki einnig til félagsins K, til viðbótar við áðurnefnd félög í eigu ákærða. Félagið K er sagt áður hafa borið nafnið [...]. Á meðal gagna málsins er ein önnur umsókn, frá 25. júlí 2008, vegna ákærða Æ um lánalínu. Farið er fram á að heildarlánamörk félaga á vegum ákærða nemi alls 531.700.000 evra. Á meðal félaga í eigu ákærða er félagið Þ og kemur fram að verið sé að sækja um 40 milljóna evra aukningu á lánalínu félagsins. Í yfirliti með lánsumsókninni kemur meðal annars fram að Þ hafi sem tryggingu hlutabréf í A hf., hlutabréf í KK hf. og í indverskum sjóði. 

Miðvikudaginn 27. desember 2007 sendi starfsmaður í B tölvupóst á R viðskiptastjóra varðandi málefni ákærða Æ. Með tölvupóstinum fylgdi yfirlit um eignir og skuldir félaga í eigu ákærða, en um var að ræða félögin [...], J, [...], [...], [...], [...], [...], Þ, [...], K. Í tengslum félagið Þ er gerð grein fyrir eignum og skuldum. Að því er tillögur varðandi félagið varðar er tekið fram að staðan sé þröng og lagt til að ,,take pledge on [...]“ eða að ábyrgð verði fengin frá því félagi. Í tölvupóstinum sjálfum tekur starfsmaðurinn fram að staðan sé ekki góð hjá félögunum Þ og [...]. Að endingu getur hann þess að hann vilji fá tryggingar frá [...] varðandi Þ.

Á meðal rannsóknargagna málsins er tölvupóstur, sem starfsmaður fyrirtækjasviðs A hf. sendi á forstöðumann fyrirtækjasviðs bankans, 15. febrúar 2008, með yfirskriftinni að um væri að ræða lánabeiðni frá [...] sem fara ætti fyrir næsta lánafund stjórnar. Forstöðumaðurinn svarar starfsmanninum 22. sama mánaðar með fyrirmælum um að uppfæra beiðnina miðað við dagsetningar og fjárhæðir og senda til baka. Þá tekur forstöðumaðurinn fram að ágætt væri ef starfsmaðurinn gæti tekið út Þ, sem forstöðumanninum skiljist að tilheyri ekki ákærða Æ. Þann 25. febrúar 2008 svarar starfsmaðurinn forstöðumanninum og gerir meðal annars grein fyrir því að hann hafi tekið út félagið Þ.

 

III

a. Fjármunayfirfærslur skv. I. kafla ákæru

Meðal gagna málsins er fylgiskjal úr bókhaldi A hf. Efst á skjalinu kemur fram að um sé að ræða peningagreiðslu, 19. desember 2007, til B vegna viðskiptavinar. Um sé að ræða ,,Option“ samning sem gerður hafi verið við viðskiptavin B 22. október 2007 um valrétt um að selja bankanum hlutabréf í A hf. Fram kemur að fjöldi bréfa sé 11.181.430. Þóknun til bankans sé 5% eða 158.776.306 krónur og greiddar séu til B 3.016.750.000 krónur. Lögregla hefur rannsakað uppruna þessa skjals. Samkvæmt skráningarsögu skjalsins var skjal þetta stofnað 12. janúar 2008, kl. 14.49, í tölvu ákærðu X. Var það síðast prentað kl. 15.16 og síðast vistað þennan dag kl. 15.19. 

Samkvæmt gögnum málsins sendi ákærða X tölvupóst klukkan 17.04, miðvikudaginn 19. desember 2007, til starfsmanns í bakvinnslu A hf. með beiðni um millifærslu á 3.016.750.000 krónum inn á reikning B.  Á sama tíma, eða kl. 17.15 sendir ákærða X ákærða Z tölvupóst og tjáir honum að sig vanti reikningsnúmer um það hvert hún eigi að greiða. Ákærði Z svarar ákærðu kl. 17.15 og spyr hvort tilgreindur starfsmaður í bankanum hafi ekki sent henni upplýsingarnar. Kl. 17.17 sendir ákærða X póst á ný á ákærða Z og segir honum að hún hafi heyrt í S sem upplýst hafi hana um reikningsnúmerið. Greiðslan sé farin af stað. Starfsmaðurinn í A hf. svarar ákærðu X, kl. 17.47 sama dag, og spyr hvaðan taka eigi fjárhæðina. Í beinu framhaldi, eða kl. 17.53, svarar ákærða starfsmanninum og gefur fyrirmæli um að taka eigi fjárhæðina út af ,,1010“.

Fimmtudaginn 20. desember 2007 sendi R viðskiptastjóri tölvupóst til starfsmanns B og biður hann um að vera á varðbergi gagnvart um 3ja milljarða króna inngreiðslu, sem verið sé að bíða eftir. Skilaboð þessi endurtekur R föstudaginn 21. desember 2007, kl. 09.03,. og upplýsir að greiðslan sé frá A hf. vegna reiknings Þ. Föstudaginn 28. desember 2007, kl. 09.13, sendir starfsmaður í B tölvupóst til R og tjáir honum að greiðslan, 3.016.750.000 krónur, hafi komið inn þann 19. desember 2007 í fjórum fræslum, þ.e. þremur sem hver um sig hafi verið að fjárhæð 990.000.000 krónur og einni að fjárhæð 46.750.000 krónur. R svarar sama dag og fær S þann póst einnig. Segir R að um sé að ræða fjármuni sem beðið hafi verið eftir varðandi Þ. Fjárhæðin tengist lokun framvirks samnings sem hafi verið framkvæmdur í A hf.

Föstudaginn 21. desember 2007, kl. 11.47, sendi S tölvupóst á starfsmenn í B og biður um millifærslu á tæplega 6 milljörðum króna inn á reikning MM ehf. Fjárhæðina eigi að færa út af reikningi Þ í bankanum. Lýsir S því að bankinn fái 2/3 hluta fjárhæðarinnar til baka sama dag og að Þ hafi móttekið liðlega 3 milljarða króna.

 

b. Fjármunayfirfærslur skv. II. kafla ákæru

Við húsleit í B, við rannsókn málsins, voru haldlögð skjöl úr bókhaldi bankans, sem bera með sér að stafa frá A hf. og tengjast millifærslu á 3.080.250.000 krónum, 30. júní 2008, inn á reikning B í A hf. Eitt skjalanna ber yfirskriftina ,,Uppgjör á framvirkum gjaldmiðlaviðskiptum“. Er viðskiptamaður sagður vera B, en fyrir aftan nafnið er fært inn handritað, Þ. Er gjalddagi sagður vera 30. júní 2008 og fjárhæðin tilgreind annars vegar í pundum en hins vegar í evrum. Mismunur er sagður vera 3.080.250.000 krónur, sem leggist inn á reikning B. Með þessu skjali var lagt hald á tvær staðfestingar á framvirkum gjaldmiðlaviðskiptum dagsettum 23. maí 2008, annars vegar vegna evra og hins vegar vegna punda, sem einnig bera með sér að stafa frá A hf. Er viðskiptamaður í báðum tilvikum sagður vera B, en fyrir aftan nafn bankans fært inn eigin hendi, félagið Þ. Ákærðu Y og Z rita undir báðar staðfestingarnar og eru undirritanir ákærðu vottaðar af ákærðu X.

Mánudaginn 30. júní 2008, kl. 9.37, sendi ákærða X ákærða Z tölvupóst með beiðni um að staðfesta fjárhæð. Þennan sama dag, kl. 11.54, sendi ákærða X tölvupóst til bakvinnslu bankans með fyrirmælum um að millifæra 3.080.250.000 krónur út af reikningi A hf. inn á tilgreindan reikning B í bankanum. Ákærða tók fram að í skýringu við færsluna ætti að koma fram að greiðslan væri samkvæmt samningi. Þann sama dag, kl. 12.32, sendir viðtakandi tölvupóstsins tölvupóst á ákærðu og segir að þetta verði gert en spyr jafnframt hvort ákærða sendi gögn til bókunar. Ákærða svarar því játandi, kl. 12.44, þennan sama dag. Kl. 15.24 þennan dag sendir viðtakandi tölvupóstsins ákærðu tölvupóst um að greiðslan hafi verið framkvæmd. Miðvikudaginn 2. júlí 2008, kl. 10.11, sendi starfsmaður af fjármálasviði A hf. tölvupóst á ákærðu X þar sem starfsmaðurinn leitar upplýsinga um hvert hún eigi að bóka fjárhæðina 3.080.250.000 krónur. Ákærða svarar sama dag, kl. 10.25, að bóka eigi fjárhæðina á gjaldeyrisreikning innan deildar eigin fjár í bankanum. Starfsmaðurinn eigi að fá réttan lykil hjá AA. AA svarar starfsmanninum, 3. júlí 2008, með leiðbeiningum um bókunina. Mánudaginn 30. júní 2008 kl. 13.25 sendi starfsmaður úr kostnaðarbókhaldi A hf. tölvupóst á gjaldkera hjá C hf. þar sem upplýst er að A hf. hafi verið að greiða 3.080.250.000 krónur inn á reikning B. Fjárhæðin hafi verið færð í fjórum færslum að fjárhæð 990.000.000 krónur og einni að fjárhæð 110.250.000 krónur.

Þriðjudaginn 1. júlí 2008 sendi starfsmaður B tölvupóst á starfsmann C hf. og spyr hvort starfsmaðurinn viti um tilefni þess að 3.080.250.000 krónur hafi verið millifærðar inn á reikning bankans. Starfsmaður af fjármálasviði A hf. svarar á þann hátt að samkvæmt ákærðu X eigi ákærði Z að hafa allar upplýsingar varðandi millifærsluna. Í framhaldi sendi starfsmaðurinn ákærða Z tölvupóst og spyr um greiðsluna og hvenær megi bóka hana inn í bankann. Ákærði Z svarar tölvupóstinum og bendir á R viðskiptastjóra, sem viti meira um greiðsluna þar sem hún varði viðskiptavin hans. Starfsmaðurinn sendi R tölvupóst í framhaldi og spyr um greiðsluna. R svarar öðrum starfsmanni bankans á þann hátt að um sé að ræða lán til Þ inn á reikning 400637.

 

c. Fjármunayfirfærslur skv. III. kafla ákæru

Mánudaginn 19. maí 2008 sendi ákærði Y tölvupóst til ákærðu X með staðfestingu á viðskiptum um skuldabréf. Kveðst ákærði vilja ,,keyra“ þessi viðskipti í vikunni, sem væru kaup á eigin skuldabréfum A hf. sem B væri búið að vera að safna á undanförnum vikum. Þetta ætti ekki að hafa áhrif á lausafjárstöðu bankans þar sem B myndi leggja fjárhæðina sem A hf. myndi greiða fyrir skuldabréfin, inn á reikning hjá A hf. aftur. Ákærði biður ákærðu X um að hafa samband við ákærða Z til að tryggja að viðskiptin gangi snurðulaust fyrir sig. Ákærða X sendi ákærða Y staðfestingu síðar sama dag um að hún geri þetta. Ákærði Z sendi síðar þennan dag tölvupóst á starfsmann í B þess efnis að ákærði ætli að selja þessi skuldabréf til Íslands í gegnum viðskiptavin ,,in need“. Biður ákærði starfsmanninn um að senda, ákærðu X í A hf., greiðslufyrirmæli varðandi söluna. Þriðjudaginn 20. maí 2008 sendi viðkomandi starfsmaður í B tölvupóst á ákærðu X varðandi skuldabréf útgefin af A hf. í sjö skuldabréfaflokkum. Skuldabréf þessi keypti A hf. af Þ á nafnverði bréfanna, að viðbættum áföllnum vöxtum. Uppgjörsdagur viðskiptanna var 21. maí 2008. Skuldabréf þessi hafði ákærði Z látið B kaupa á markaði með afföllum í apríl og maí 2008. B seldi Þ þessi skuldabréf á tímabilinu frá 16. apríl til 20. maí 2008 á sama verði og þau voru keypt. 

 

IV

Ársskýrsla A hf., reglubók bankans og verkferlar

Ársskýrsla A hf. vegna ársins 2007 er á meðal gagna málsins. Hluti skýrslunnar varðar útlánaáhættu tengda afleiðum. Fram kemur að afleiða sé fjármálagerningur eða annar samningur, þar sem virði fjármálagernings breytist vegna breytinga í undirliggjandi breytu. A hf. noti afleiður í viðskiptalegum tilgangi og til áhættustýringar, t.d. til að áhættuverja skuldbindingar sínar vegna markaðsverðsáhættu, gengis- og vaxtaáhættu sem hljótist í starfsemi, fjármögnun eða fjárfestingu. Ef viðskiptamaður geri afleiðusamning við bankann sé markaðsáhættu, vegna undirliggjandi breytu, stýrt. Aftur á móti skapist mótaðilaáhætta þar sem viðskiptamaðurinn beri ábyrgð á að greiða til baka mögulegt tap á samningnum. A hf. beiti ströngum reglum og verkferlum í afleiðuviðskiptum til að jafna þessa áhættu. Áður en samningur taki gildi þurfi að staðfesta lánshæfismat viðskiptamanns og beri viðskiptamanni að leggja fram veð til að mæta mögulegu tapi af samningi. Veðþekja, sem krafist sé, sé breytileg eftir undirliggjandi þáttum. Aðeins reiðufé og í sumum tilvikum sérvalin skráð verðbréf séu leyfð sem veð. Við mat á veðhæfum eignum, sé frádrag notað, bæði fyrir viðkomandi veðsett verðbréf og einnig til að gera grein fyrir því þegar undirliggjandi þáttur og veð séu ekki í sama gjaldmiðli. Ef tap á samningum eða lækkað virði veðs, vegna markaðshreyfinga eða endurmats, lækki þekju niður fyrir ákveðið stig, beri viðskiptamanni að bæta við veðið og færa veðþekjuna aftur á upprunalegt stig. Annars sé samningi rift.  

Þá er á meðal rannsóknargagna málsins afrit af reglubók A hf., sem samþykkt var á stjórnarfundi í bankanum 27. september 2007. Í kafla 3.3 er vikið að útlána- og mótaðilaáhættu. Í kafla 3.3.6.2 er fjallað um veðvirði og veðfrádrag. Á meðal rannsóknargagna eru verklagsferlar vegna afleiðuviðskipta sem samþykktir voru af forstöðumanni fjárstýringar og forstöðumanni afleiðuviðskipta A hf. 27. mars 2007. Á myndrænan hátt er lýst því ferli sem verður er beiðni um valrétt kemur inn í bankann. Loks eru meðal gagna málsins afrit af almennum markaðsskilmálum fyrir verðbréfaviðskipti milli A hf. og viðskiptavina hans. Samkvæmt 6. tölulið skilmálanna skal viðskiptavinur staðfesta að allar eignir, sem hafi verið eða muni verða lagðar inn á reikning hjá A hf. af honum, tilheyri honum persónulega og að hann teljist vera raunverulegur eigandi þeirra, eða ,,beneficial owner“. Í 15. tölulið skilmálanna er kveðið á um tryggingar og viðbótartryggingar vegna viðskipta.

 

V

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði Y kvaðst hafa verið forstjóri A hf. fram að falli bankans í október 2008. Aðdragandi þess að félagið Þ keypti hlutabréf í KK hf. hafi verið sá að á árinu 2006 hafði átt sér stað mikil umfjöllun erlendra greiningaraðila og alþjóðlegra lánshæfismatsfyrirtækja um að einn helsti veikleiki íslenska fjármálakerfisins væru innbyrðis tengsl aðila sem kæmu fram í krosseignarhaldi félaga. Af hálfu stjórnenda A hf. hafi, af þessum ástæðum, verið lögð áhersla á að rjúfa eina krosseignarhaldið sem fyrirfannst í bókum A hf., en þau tengsl hafi snúið að hlutabréfaeign bankans á hlutabréfum í KK hf. og eignarhlut KK hf. í A hf. Til að leysa krosseignarhaldið hafi verið ákveðið að stefna að því að efla rekstur og efnahag KK hf. verulega, skrá félagið í kauphöll og samhliða selja hluti A hf. í KK hf. Með þessu hafi margt áunnist. Krosseignarhald á milli félaganna yrði úr sögunni, fjárhagslegur styrkur KK hf. ykist, hluthöfum KK hf. myndi fjölga verulega og gegnsæi myndi myndast um rekstur og efnahagslegan styrk stærsta hluthafa A hf., sem yrðu um leið hagsmunir bankans. Fyrsta skref í þessu ferli fyrir A hf. hafi verið yfirtaka KK hf. á öllum hlutabréfunum í [...] hf., en með því hafi stærsta tryggingarfélag landsins orðið hluti af samstæðu KK hf. Með yfirtöku á [...] hf. hafi stöðugt fjárstreymi KK hf. samstæðunnar aukist verulega og gott jafnvægi myndast í rekstrinum. Viðræður hluthafa KK hf. og [...] hf. hafi farið fram eftir áramót 2006 sem endað hafi með samkomulagi um yfirtöku vorið 2006.

Við yfirtöku KK hf. á hlutabréfunum í [...] hf. hafi komið fram krafa frá MM ehf., sem hafi verið einn stærsti hluthafi [...] hf., þess efnis að félaginu yrði tryggð sala á hlutabréfunum í KK hf. eftir skráningu félagsins á markað. MM ehf. hafi með öðrum orðum viljað tryggja að félagið gæti selt hlutabréfin sín í KK hf. á því matsverði sem sameiningin hafi farið fram á en ekki bera áhættuna af þróun markaðsverðs eftir skráningu. Fallist hafi verið á þessa beiðni félagsins og verið útbúnir kaup- og söluréttarsamningar á milli MM ehf., óstofnaðs hlutafélags og LL, um samningana. A hf. hafi ábyrgst efndir söluréttarsamningsins gagnvart MM ehf. Félagið Þ hafi yfirtekið hluta af þessum samningum en um hafi verið að ræða samninga um kaup- og sölurétt á rúmlega 414 milljónum hluta í KK hf. að verðmæti um 11,4 milljarðar króna. Rekstur KK hf. hafi gengið vel eftir skráningu félagsins á markað um miðjan september 2006 og hlutabréfin haldið áfram að hækka nokkuð stöðugt fram á sumarið 2007. Eftir að KK hf. hafi verið komið á markað í ársbyrjun 2007 hafi orðið ljóst að félagið LL hafði ekki áhuga á að eignast aukinn hlut í KK hf., þrátt fyrir að gengi hlutabréfa félagsins hefði hækkað töluvert og verið orðið hærra en gengi afleiðusamninganna. Fyrir því hafi legið eðlileg viðskiptasjónarmið en á þessum tíma hafi hlutabréf í KK hf. verið langsamlega stærsta eign LL. Úr hafi orðið að meðákærða Æ hafi sumarið 2007 verið boðið að taka yfir bæði kaup- og söluréttarsamningana í KK hf. Skilningur ákærða á viðskiptunum hafi verið á þann veg að samningar tækjust sumarið 2007 við Þ, félag sem ákærði hafi talið á þeim tíma vera í eigu meðákærða Æ, um kaup á 207,2 milljónum hluta í KK hf., gegn því að Þ myndi yfirtaka bæði kaup- og söluréttarsamningana að 207,2 milljónum hluta, með viðskiptadögum í nóvember og desember 2007. A hf. myndi ábyrgjast þau viðskipti. Á þann hátt hafi viðskiptin síðar verið framkvæmd. Ákærði kvaðst telja að hann hafi haft upplýsingar um eignarhald Þ frá meðákærða Z. Við upphafsviðskiptin hafi myndast töluvert eigið fé í kaupunum hjá Þ en félagið hafi á sama tíma tekið á sig töluverða áhættu af söluréttarsamningi með viðskiptadegi í desember 2007. Það hafi því haldist í hendur ágóðavon og áhætta. 

Gengi hlutabréfa KK hf., sem hækkað hafi hratt fram eftir árinu 2007, hafi byrjaði að lækka haustið 2007 og fjárhagsstaða Þ versnað samhliða enda áhætta félagsins bundin við fjárfestingu þess í hlutabréfum í KK hf. Í október 2007 hafi ákærði verið í sambandi við ákærða Z og þeir rætt áhyggjur sínar af stöðu Þ og lánveitingar til félagsins þar sem A hf., sem lánveitandi félagsins, hafi verið óvarinn ef lækkun hlutabréfa í KK hf. héldi áfram. Úr hafi orðið að ákærði hafi, fyrir hönd A hf., undirritað söluréttarsamning við Þ þar sem félagið hafi getað tryggt sig fyrir lækkun hlutabréfa í A hf.  Bókhaldsskjal sem fundist hafi í gögnum málsins hafi verið í fullkomnu samræmi við þennan samning. Hvers vegna frumrit þess samnings hafi ekki fundist geti ákærði ekki skýrt. Samningurinn hafi verið undirritaður af ákærða og meðákærða Z, bankastjóra B. Viðskiptin hafi að fullu verið framkvæmd þegar greiðslan hefði átt sér stað og samningur verið bókaður í bókhaldi.  Það geti verið margar skýringar á því hvers vegna samningur hafi ekki fundist í höfuðstöðvum bankans enda hafi hann einungis verið skráður í fjárhagsbókhaldi bankans. Viti ákærði ekki hvort leitað hafi verið í þeim gögnum sem fjarlægð hafi verið af skrifstofu hans eftir að hann hafi látið af störfum í október 2008. Ákærði telji líklegast að samningurinn hafi verið í þeim gögnum á skrifstofu ákærða, en hann hafi geymt fjölda samninga og skjala í möppum á skrifstofu sinni.

Hugsunin að baki samningnum hafi verið sú, að eina áhætta Þ á þessum tíma hafi verið hlutabréfaeign í KK hf., sem hafi verið stærsta eign Þ. Stærsta eign KK hf. hafi verið hlutabréfaeignin í A hf. Með því að tryggja Þ gegn lækkun hlutabréfaverðs í A hf. hafi A hf., sem lánveitandi, verið að tryggja hagsmuni sína. Hugsunin með þessum samningi hafi ekki verið að ganga á hagsmuni A hf. heldur að minnka áhættu bankans af lánveitingunni. Hagnaður Þ af söluréttarsamningnum við A hf., sem gengið hafi verið til 22. október 2007, með lokadegi 18. desember 2007, hafi verið um 3.017 milljónir króna. Sú fjárhæð hafi verið notuð til að greiða inn á lán Þ við A hf. Ef Þ hefði ekki gengið til þessa samnings hefði eigið fé verið 3.017 milljónum lægra og útlánatap A hf. numið sömu fjárhæð. Þrátt fyrir þennan hagnað af söluréttarsamningnum, sem gerður hafi verið á milli Þ og A hf., hafi Þ verið með neikvætt eigið fé 31. desember 2007 upp á rúmlega 600 milljónir króna eins og ársreikningur félagsins beri með sér. Allar eigur Þ á þessum tíma hafi staðið til tryggingar skuldbindingum við A hf., með veðsamningi samkvæmt skilmálum B, og enginn möguleiki fyrir hluthafa Þ að greiða sér arð, kaupa eigin bréf eða koma til sín fjármunum á annan hátt. A hf. hafi haft tögl og haldir á Þ, en starfsmenn B hafi setið í stjórn félagsins og bankinn getað gengið að eignum félagsins hvenær sem var. Þar sem eigið fé Þ hafi verið neikvætt í öllu þessu ferli þá hafi það einungis verið hagsmunir A hf. sem verið hafi undirliggjandi. Ákærði sé í fyrsta ákærulið ákærður fyrir fjárdrátt úr sjóðum A hf. þar sem fé sem ákærði sé sakaður um að hafa dregið Þ hafi verið notað til að greiða skuldir félagsins við A hf. Engir fjármunir hafi runnið til eigenda Þ. Ekkert fjártjón hafi orðið hjá A hf. vegna söluréttarsamningsins þar sem hagnaður Þ af samningnum hafi farið til A hf. Engin sjónarmið eða markmið hafi legið að baki hjá ákærða önnur en þau að gæta hagsmuna A hf. A hf. samstæðan hafi fengið alla fjármunina vegna söluréttarsamningsins sem gerður hafi verið 22. október 2007, með lokadegi 18. desember 2007.

Á fyrri árshelmingi ársins 2008 hafi hlutabréfaverð í KK hf. lækkað töluvert.  Með því að skoða yfirlit yfir rekstur Þ sjáist að þeir sem stjórnað hafi fjárfestingum Þ hafi gripið til ráðstafana í rekstri félagsins til að minnka áhættu þess, m.a. með því að selja hluta af hlutabréfum félagsins í KK hf., ásamt almennri eignastýringu fyrir félagið. Til að draga enn frekar úr áhættu í  rekstri félagsins og til að auka líkur á að Þ gæti staðið í skilum með lán sem Þ hefði tekið hjá A hf. hafi verið gripið til tveggja ráðstafana í rekstri félagsins sem aldrei hafi getað leitt til tjóns fyrir A hf. Í fyrsta lagi hafi félagið gert gjaldmiðlaskiptasamning við A hf. þar sem Þ hafi tryggt sig gegn gengisfalli íslensku krónunnar. Allir sem starfað hafi á íslenskum hlutabréfamarkaði á þessum tíma hafi vitað að mikil fylgni væri á milli gengis íslensku krónunnar og gengi hlutabréfamarkaðarins. Það hafi því verið skynsamlegt, bæði fyrir A hf. og Þ að gera samning þar sem Þ tryggði sig gegn falli krónunnar en A hf. hafi á þeim tíma verið með svokallaða ,,gnótt stöðu“ í gjaldeyri. Árshlutauppgjör bankans sýni vel að A hf. hafi verið með ,,gnótt stöðu“ í erlendum gjaldeyri á þessum tíma, en ,,gnótt staða“ í erlendum gjaldmiðli þýði að A hf. hafi átt meiri erlendan gjaldeyri en félagið hafi skuldað í erlendum gjaldeyri. Framvirkir samningar um gjaldeyrisviðskipti, sem A hf. hafi gert við Þ í gegnum B, 23. maí 2008, séu í gögnum málsins undirritaðir af ákærða og meðákærða Z. Engin annarleg sjónarmið hafi legið að baki þessum samningum og hafi ákærði verið að gæta hagsmuna A hf.

Svo hafi farið að bæði hlutabréfamarkaðir og gengi krónunnar hafi haldið áfram að lækka á öðrum ársfjórðungi 2008. Niðurstaðan hafi orðið sú að Þ hafi hagnast á gjaldmiðlasamningunum en tapað á hlutabréfaeign sinni. Hagnaðurinn sem Þ hafi getað innleyst af gjaldmiðlaskiptasamningum hafi verið nýttur til að greiða niður lán hjá A hf. samstæðunni.  Engir fjármunir hafi runnið til eigenda Þ, en fjármunir runnið til A hf. samstæðunnar. Hagnaðurinn af framvirka samningnum hafi tryggt að ekki hafi orðið samsvarandi útlánatap af lánveitingunni til Þ. Eins og áður sagði hafi A hf. verið með ,,gnótt stöðu“ í erlendum gjaldeyri og því hafi lækkun krónunnar ekki haft neikvæð áhrif á rekstur bankans. Í öðru lagi hafi Þ keypt skuldabréf útgefin af A hf. af B. Ákærði hafi ekki tekið ákvörðun um að Þ keypti þessi skuldabréf enda hafi ákærði ekki haft umboð til að taka ákvarðanir fyrir Þ. Ákærði hafi hins vegar tekið ákvörðun um að greiða af skuldabréfum þeim sem Þ hafi átt fyrir gjalddaga þeirra en andvirðið hafi verið notað til að greiða upp skuld Þ við B sem verið hafi með ábyrgð A hf. Fjármunir þeir sem Þ hafi hagnast um, á kaupum og með endurgreiðslu á skuldabréfum A hf., hafi runnið til A hf. samstæðunnar en ekki til Þ eða eiganda félagsins. Ekkert fjártjón hafi orðið af þessari ráðstöfun þar sem A hf. hafi skuldað þá fjárhæð sem A hf. hafi greitt Þ. Ekkert hafi kom í veg fyrir að Þ hefði átt skuldabréfin áfram og fram á gjalddaga. Á gjalddaga skuldabréfanna hefði A hf. þurft að gera upp skuldina á nafnverði. Ákvörðun um að greiða af skuldabréfunum, sem verið hafi í eigu Þ, hafi einfaldlega verið ákvörðun um að greiða réttmæta kröfu fyrir gjalddaga. Þ hafi nýtt fjármunina sem það hafi fengið fyrir skuldabréfin til að greiða inn á skuld sína við A hf. Sem fyrr hafi félagið Þ verið með neikvæða eiginfjárstöðu og félagið alfarið í ,,fanginu“ á A hf. Eigandi Þ hafi enga hagsmuni haft af þessum viðskiptum og þeir alfarið legið hjá A hf. Það sem í raun hafi gerst í þessum viðskiptum hafi verið að Þ og A hf. hafi í raun skipt á skuldum sínum. Þ með því að afhenda skuldabréfin sem félagið hafi átt á A hf. og A hf. með því að greiða inn á skuld Þ við A hf. Þrátt fyrir að markaðsverð skuldabréfa banka A hf. hafi á þessum tíma verið um 80% af nafnverði þá hefði markaðsverð lánssamnings Þ við A hf. verið miklu lægra. Verðmætin sem A hf. hafi fengið í hendur hafi verið meira en hugsanlegt verðmæti láns Þ á þessum tíma, ef farin væri sú leið að horfa á líklegt markaðsverð. Það hafi því ekki verið eðlilegt að stilla viðskiptum Þ og A hf. þannig upp að A hf. hafi látið af hendi lánasamning sem meta skyldi á 100% virði en fengið í staðinn skuldabréf sem bankinn hafi gefið út og þau skyldu metin á 80% virði. Það væri röng framsetning. Viðskipti Þ og A hf. með skuldabréf A hf. og lækkun skulda Þ í framhaldinu hafi engu tjóni valdið fyrir A hf. Viðskiptin hafi verið skynsamleg ráðstöfun fyrir bæði félög og leitt til minna útlánataps, hjá A hf., en ella. Skuld Þ við A hf. hafi lækkað, komið hafi verið í veg fyrir samsvarandi útlánatap hjá A hf. og eigið fé A hf. hafi ekki lækkað. 

Þ hafi á árinu 2007 tekið um 11,4 milljarða króna lán hjá A hf. til kaupa á hlutabréfum í KK hf. A hf. hafi, að auki árunum 2007 og 2008, krafið Þ um tæplega 1,6 milljarða króna í vexti. Lán og áfallnir vextir frá A hf. hafi því samtals numið um 13 milljörðum króna. Þ hafi tekist að greiða þessa 13 milljarða króna, þ.e. lán og vexti, að stærstum hluta til baka, þrátt fyrir að aðaleign félagsins hefði hrunið í verði á 18 mánaða tímabili og á endanum orðið verðlaus. Útlánatap A hf. af lánveitingu til Þ hafi orðið mun lægri fjárhæð en 13 milljarðar króna, eða um 4 milljarðar króna, meðal annars vegna afleiðusamninga og skuldabréfaviðskipta Þ og A hf. Samningar sem gerðir hafi verið hafi einvörðungu miðað að því að minnka áhættu í rekstri Þ og bæta stöðu A hf. sem eina lánveitanda félagsins.

   Að því er önnur atvik málsins varðaði bar ákærði á þann veg að meðákærða X hafi, innan A hf., heyrt beint undir ákærða og hafi hann í skjóli stöðu sinnar getað gefið henni fyrirmæli. Meðákærða hafi ekki komið að þeim samningum er ákærði hafi gert varðandi Þ og tengdust ákæru málsins. Hafi ákærði einungis gefið henni fyrirmæli um útgreiðslu í samræmi við samninga. Að því er varði fylgiskjal í gögnum máls varðandi útgreiðslu á 3.016.750.000 krónum væri um að ræða valréttarsamninginn um hlutabréf í A hf. sem gerður hafi verið við Þ. Samninginn hafi ákærði, eins og áður sagði, gert við meðákærða Z. Ákærði kvaðst ekki hafa munað sérstaklega eftir þessum samningi er tekin var af honum lögregluskýrsla vegna málsins og því hafi svör hans verið með þeim hætti í fyrstu yfirheyrslum hjá lögreglu. Ákærði kvaðst oft hafa fengið inn á borð hjá sér málefni stærri viðskiptavina þar sem leysa hafi þurft úr flóknum málum. Mál Þ hafi verið þeirrar gerðar og því ekkert óeðlilegt við það að það hafi verið leyst af ákærða. Samningar hafi verið gerðir til að leysa vanda A hf. og því ekki þurft að kveða á um sérstakar varnir vegna samninga. Kvaðst ákærði telja að hann hefði falið sérfræðingum innan bankans að vinna að vörnum, ef hann hefði talið þeirra þörf. Að því er varðar útreikning þóknunar fyrir bankann kvað ákærði bankann geta samið á þann hátt sem hann teldi best. Í tilviki Þ hafi verið um að ræða sérstakt tilvik og það því ekki fallið að venjulegum reglum bankans. Þau hafi þar af leiðandi ekki lent annars staðar í deildum bankans, svo sem almennt væri varðandi einstakar tegundir samninga. Ákærði kvaðst ekki þekkja til nákvæmra útreikninga samkvæmt samningum og því ekki vita af hvaða ástæðum mismunur væri í tölulegum útreikningi. Ákærði kvaðst oft hafa ritað undir gjaldmiðlaskiptasamninga fyrir hönd A hf.

Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega hver hefði útbúið gjaldmiðlaskipta-samninginn, skv. II. kafla ákæru. Kaup skuldabréfa skv. III. kafla ákæru hafi verið færð inn á reikning yfirstjórnar A hf. Hafi það verið gert þannig í ljósi þess að ákærði hafi mælt fyrir um þessi viðskipti, en hann hafi borið ábyrgð á eignasafni undir yfirstjórn. Að því er varðaði ábyrgð er A hf. hefði tekið á sig varðandi kaup- og sölurétt á milli félaganna LL og MM ehf. hafi sú ábyrgð verið gefin út sem þáttur í þeirri lausn, er KK hf. hafi verið skráð á markað. Ábyrgðin hafi verið gefin út á árinu 2006. Þessi ábyrgð hefði síðan færst yfir á Þ og ætlunin að ábyrgðin kæmi í gegnum B. Staðan hafi því verið sú að B hafi veitt lán sem A hf. hafi ábyrgst. Slíkar ábyrgðir hafi tíðkast í ljósi þess hve lítið eigið fé B hafi verið. Það hafi því alltaf verið ljóst að það væri A hf. sem ábyrgðist viðskiptin um hlutabréfin í KK hf. en ekki B.     

   Ákærði Z kvaðst hafa hafið störf hjá A hf. á Íslandi 1994 og A hf. á þeim tíma verið verðbréfafyrirtæki. Ákærði hafi fljótlega verið gerður að yfirmanni einkabankaþjónustu. Á árinu 1997 hafi ákærða verið falið að undirbúa stofnun B sem hafi verið sett á laggirnar sem verðbréfafyrirtæki. Á árinu 2000 hafi félagið sótt um bankaleyfi og starfað sem banki eftir það með áherslu á einkabankaþjónustu. Höfuðstöðvar bankans hafi alla tíð verið í Lúxemborg, en útibú verið rekin í Genf í Sviss, Brussel og Antwerpen í Belgíu. Á árinu 2007 hafi meðákærði Y haft samband og spurt hvort að ákærði teldi að meðákærði Æ myndi vilja taka yfir kauprétt á hlutabréfum í KK hf., sem væru með óinnleystan hagnað. Sá böggull fylgdi skammrifi að hann þyrfti á sama tíma að taka yfir sölurétt á hlutabréfum í sama félagi. Þar sem ákærði hafi gætt hagsmuna meðákærða Æ og töluverð áhætta verið samfara því að taka yfir söluréttinn hafi ákærði óskað eftir að meðákærði fengi að nota til viðskiptanna félag með takmarkaða áhættu. Meðákærði Æ hafi samþykkti áformin og ákærði falið lögfræðisviði bankans að ganga frá nauðsynlegum atriðum er viðskiptin varðaði. Hafi ákærði aldrei séð endanleg skjöl en alltaf gert ráð fyrir því að meðákærði Æ hafi eignast félagið.

Í október 2007 hafi ákærði rætt við meðákærða Y um að ákærði hefði áhyggjur af þróuninni á markaði og að sölurétturinn og lækkandi hlutabréfaverð myndi skapa stórt tap fyrir Þ og þar að leiðandi A hf. Úr hafi orðið að meðákærði Y hafi samið við ákærða, fyrir hönd Þ, um að félagið myndi verja áhættu sína með því að fá valrétt í formi söluréttar á hlutabréfum í A hf. Hafi ákærði í framhaldi skrifað undir samning þess efni fyrir hönd Þ. Hlutabréf í A hf. hefðu eðlilega haft mjög mikla fylgni við verðþróun á hlutabréfum í KK hf. og því verið tilvalin vörn fyrir félagið og lánveitanda þess. Þar hafi í huga ákærða farið saman hagsmunir lánveitanda og lántaka. Meðákærði Y hafi ekki viljað semja um sölurétt á hlutabréfum í KK hf. þar sem það myndi þýða að A hf. gæti eignast bréfin aftur, sem ekki hafi verið í samræmi við þá stefnu félagsins að losna við og slíta kross-eignatengsl við KK hf. Ákærði þekkti hins vegar ekki hvernig meðákærði Y hafi gengið frá viðskiptunum innan A hf. Þekkti ákærði ekki til ferla innan þess banka og hvernig ákvörðunum hefði verið fylgt eftir. Aukin heldur þekkti ákærði ekki til þess hvort meðákærði hafi látið bankann ,,verja þessa stöðu“ eða hvort meðákærða hafi þótt nægilegt að ákvörðun um viðskiptin myndi minnka áhættu A hf. af lánveitingum til Þ.

Þar sem Þ hafi átt sín viðskipti beint við A hf. hafi viðskiptin ekki farið í gegnum miðlunarborð B, ekki frekar en viðskipti sem ákærði hafi átt fyrir félög sem keypt hafi skuldabréf útgefin af Deutsche Bank tengd skuldaafleiðum á Ahf. Valrétturinn um sölu á hlutabréfum í A hf. hafi fallið á gjalddaga á sama tíma og sölurétturinn á hlutabréfum í KK hf., enda samningurinn gerður til að minnka áhættu af þeim samningi. Frá þeim tíma sem að kauprétturinn var nýttur þar til að sölurétturinn var nýttur hafi verð hlutabréfa í KK hf. lækkað um 45% eða úr 34,4 í 19,1 og tap Þ í árslok 2007, samkvæmt ársreikningi orðið 647 milljónir króna, þrátt fyrir varnir sem settar hafi verið með söluréttinum. Á þessum tímapunkti hafi verið ljóst að meðákærði Æ hafi enga hagsmuni lengur átt af Þ og félagið verið komið í ,,fangið“ á A hf. Rétt eins og önnur erfið skuldamál í B hafi málefni félagsins endað inni á borði hjá ákærða, rétt eins og önnur erfið skuldamál hjá A hf. hafi endað inni hjá meðákærða Y. Hefði ákærði því fullan skilning á þeim framburði meðákærða Æ þegar hann héldi því fram að hann ætti ekki Þ, enda hefði hann enga hagsmuni haft af rekstri þess í lok árs 2007 og einungis verið uppi sú spurning hversu mikið tap A hf. myndi verða af lánum þess til félagsins. Þessu tapi hefði A hf. orðið fyrir hvort sem af viðskiptunum við Þ hefði orðið eða ekki því A hf. hafi gefið loforð fyrir fullnustu söluréttarins á hlutabréfum í KK hf. til MM ehf. löngu áður en að félagið Þ eða meðákærði Æ komu að málum. Eftir þessi viðskipti hafi ákærði átt fjölmörg viðskipti fyrir Þ sem öll hafi verið til þess gerð að reyna að draga úr tjóni A hf. Hafi ákærði ekkert samráð haft við meðákærða Æ um þessi viðskipti. Liðlega 30% af hlutabréfum Þ í KK hf. hafi verið seld að meðákærða Æ forspurðum, á grundvelli lágrar veðþekju og mati ákærða á að markaðurinn með hlutabréf í KK hf. hafi enn verið að lækka. Allir fjármunir af þeirri sölu hafi farið til niðurgreiðslu á lánum Þ hjá A hf.

Á vormánuðum 2008 hafi ákærði, fyrir hönd Þ, byrjað að kaupa skuldabréf útgefin af A hf. í þeim sama tilgangi og lýst var áður. Þau hafi verið gerð án vitundar meðákærða Æ enda félagið komið á forræði kröfuhafa þess. Tölvupóstur frá þáverandi framkvæmdastjóra lánasviðs A hf. styðji það, en hann lýsi því að meðákærði Æ sé ekki eigandi Þ. Félagið hafi getað notað skuldabréfin í skuldajöfnun við A hf. ef salan hefði ekki gengið í gegn. Ákærði hafi ekki tekið ákvarðanir fyrir A hf. og enga ástæðu haft til að ætla að meðákærði Y hefði ekki haft heimildir til þess að taka þær ákvarðanir, enda viðskiptin fyrir allra augum. Í maí 2008 hafi verið gerður framvirkur gjaldmiðlaskiptasamningur þar sem að ákærði hefði samið við meðákærða Y um að Þ myndi gera skortssamning á krónum gegn erlendum myntum. Mikil fylgni hafi verið milli hlutabréfaverðs á Íslandi og gengi krónunnar.  Á gjalddaga samningsins hafi hagnaður af samningnum verið lagður inn á reikning Þ til lækkunar á skuldum félagsins. Áfram hafi verið seld hlutabréf félagsins í KK hf. til að minnka markaðsáhættu þess eins og yfirlit félagsins gefi til kynna.

Ákærði kvaðst 3. október 2008 hafa samið við þáverandi framkvæmdastjóra lánasviðs A hf. og meðákærða Y um greiðslur áfallinna ábyrgða fyrir eftirstandandi skuldbindingar Þ, greiðslu fyrir áfallnar ábyrgðir vegna lána til félagsins [...] og greiðslu fyrir sölu félagsins K á hlutabréfum í fasteignafélaginu [...]. Á grundvelli þess samkomulags hafi verið gerð greiðslubeiðni af fjármálastjóra A hf., meðákærðu X. Augljóst sé að millifærslan varði þrjá óskylda löggerninga, sem allir hafi verið greiddir með einni millifærslu í stað þriggja. Sé það ástæða þess að öll upphæðin endi inn á reikning Þ, í stað þess að vera skipt upp í þrennt við móttöku greiðslunnar á bankareikningi B. Greiðslufyrirmæli A hf. hafi ekki verið stíluð á Þ heldur hafi greiðslufyrirmælin verið stíluð beint á B sem móttakanda. Sé þetta útskýrt í ýmsum samtímagögnum hjá B.

   Um atvik að öðru leyti bar ákærði að meðákærði Æ hafi komi að fyrstu viðskiptum Þ þegar ákveðið hafi verið að félagið yfirtæki valréttarsamninga vegna hlutabréfa í KK hf. af LL og MM ehf. Meðákærði hafi hins vegar ekkert komið að síðari viðskiptum fyrir félagið og ákærði annast þau fyrir hönd félagsins. Hafi ákærði litið svo á að hann hefði umboð til einstakra viðskipta fyrir hönd félagsins. Ákærði kvaðst ekki hafa verið í neinum samskiptum við meðákærðu X vegna þeirra viðskipta sem ákært væri fyrir. Ákærði kvaðst ekki þekkja ástæðu þess að söluréttarsamningur sá er legið hafi til grundvallar millifærslu í desember 2007 hafi ekki fundist í gögnum A hf. Ákærði kvaðst viss um að hann hafi skrifað undir þann samning í október 2007. Sá samningur hafi átt að enda í bókhaldi B og í bókhaldi Þ. Ákveðið hafi verið að félagið myndi ekki greiða fyrir söluréttinn í upphafi viðskipta, svo sem venja hafi verið, þar sem Þ hafi verið eignalaust félag og ljóst að til þess hafi þurft að koma lán frá A hf. Ákveðið hafi verið að þóknunin yrði gerð upp í lok viðskipta. Að því er varðaði framvirka gjaldmiðlaskiptasamninginn sem legið hafi til grundvallar millifærslunni í júní 2008 kvaðst ákærði hafa ritað undir þann samning fyrir hönd Þ. Skjölin hafi verið útbúin í A hf. Á samninginn hafi verið fært inn handritað nafn Þ. Það hafi verið gert eftir að undirritun hafi farið fram og áður en samningurinn hafi verið færður inn í bókhald Þ. Alltaf hafi legið fyrir að félagið yrði mótaðili í samningnum og því eins mátt setja nafn þess strax inn í samninginn. Kvaðst ákærði ekki þekkja til þess af hverju svo hafi ekki verið gert. Ekki hafi verið gerð krafa um tryggingu af hálfu Þ vegna samningsins. Félagið hafi ekki haft burði til þess að reiða slíka tryggingu fram. Með þessum samningi hafi, átt að laga stöðu félagsins gagnvart A hf., en bankinn hafi ábyrgst félagið gagnvart B. Að því er varðaði skuldabréfakaup kvað ákærði B hafa keypt skuldabréf útgefin af A hf., á markaði vorið 2008. Þá hafi ekki legið fyrir loforð frá A hf. að kaupa skuldabréfin aftur. Skuldabréfin hafi bankinn keypt fyrir hönd A hf. og geymt þessi bréf fyrir A hf. Meðákærði Æ hafi ekki vitað um að Þ keypti bréfin af B á markaðsverði og selt þau aftur A hf. á nafnverði. Á þessum tíma hafi Þ verið komið í ,,fangið“ á A hf. og hafi það gert stöðuna einstaka. Ábyrgðin að þessu leyti hafi legið fyrir strax í upphafi. Móðurfélagið, A hf., hefði borið ábyrgðina og alltaf borið tapið. Áhættan hafi einungis verið færð í dótturfélag. Grundvallaratriðið hafi verið að meðákærði Æ hafi aldrei getað tekið eignir út úr Þ vegna allsherjarveðs B í eignum félagsins. 

   Ákærða X kvaðst allt frá árinu 2005 hafa starfað sem fjármálastjóri A hf. Undir hennar svið hafi heyrt bókhald og uppgjör vegna bankans. Hennar nánasti yfirmaður hafi verið meðákærði Y. Ákærða kvaðst í störfum sínum fyrir bankann ekki hafa þekkt til félagsins Þ eða hvernig eignarhaldi í því félagi hafi verið háttað. Að því er varðaði söluréttarsamning um hlutabréf í A hf., sem legið hafi til grundvallar millifærslu á liðlega 3 milljörðum króna, inn á reikning B hjá A hf. 19. desember 2007, bar ákærða að meðákærði Y hafi kallað ákærðu inn á skrifstofu sína og óskað eftir því að ákærða myndi annast þessa millifærslu. Hafi meðákærði farið yfir forsendur að baki millifærslunnar, auk þess sem hann hafi verið með gögn hjá sér varðandi greiðsluna. Hafi meðákærði Y nefnt meðákærða Z sem mótaðila í viðskiptunum. Af þeim ástæðum hafi ákærða þurft að kalla eftir reikningsnúmeri hjá meðákærða. Ákærða hafi sent millifærsluna áfram innan bankans til starfsfólks í bakvinnslu. Skjal til grundvallar þessari millifærslu, sem fundist hafi í bókhaldi, hafi ákærða samið sjálf. Hún hafi fengið upplýsingar að baki, frá meðákærða Y, upp úr söluréttarsamningi. Þann samning hafi ákærða séð á borði meðákærða Y. Hún hafi hins vegar ekki fengið hann í hendur. Ákærða kvaðst ekki þekkja ástæður þess að sá samningur hafi ekki fundist í skjölum bankans. Á því geti verið skýringar, en varsla bankans á skjölum hafi ekki verið fullkomin. Að því er varði skjal sem fundist hafi í bókhaldinu kvaðst ákærða ekki geta sagt til með vissu hvenær hún hafi búið það til. Ákærða kvað ekki hafa verið óalgengt að hún hafi fylgt eftir viðskiptum eins og afleiðuviðskiptum, sérstaklega á milli móðurfélagsins og dótturfélaga. Hún kvaðst ekki hafa komið að verðlagningu söluréttarins í þessu tilviki. Ákærða kvaðst ekki þekkja til verkferla innan bankans á sínum tíma hvort verja hafi þurft samning sem þennan gagnvart bankanum. 

Að því er varðar millifærsluna 30. júní 2008 af reikningi A hf. inn á reikning B hjá A hf. hafi það verið sem áður að meðákærði Y hafi kallað ákærðu til og beðið hana um að annast millifærsluna. Komið hafi fram að millifærslan væri vegna framvirkra gjaldmiðlaskiptasamninga. Staðfesting á viðskiptunum hafi verið komin og ákærða sennilega verið í sambandi við meðákærða Z vegna millifærslunnar. Ákærða kvaðst þess fullviss að hún hafi séð staðfestingar vegna framvirku gjaldmiðlaviðskiptanna á sínum tíma, enda hafi hún undirritað þær sem vottur. Ekki myndi ákærða hvort hún hafi vottað skjölin við undirritun þeirra. Hún hafi framsent málið innan bankans í bakvinnslu til að millifærslan yrði framkvæmd. Ákærða kvaðst ekki þekkja hver hafi útbúið umrædd skjöl. Er ákærða hafi séð umrædd skjöl hafi ekki verið búið að handfæra inn á þau nafn Þ. Er hún hafi séð skjölin hafi B verið viðskiptamaður samkvæmt samningnum. Ákærða kvaðst þá ekkert hafa þekkt til þess félags eða fjárhagsstöðu þess. Hún kvaðst ekki kunna skýringu á því að gögn varðandi þessa færslu hafi ekki fundist hjá A hf. né kvaðst hún þekkja hvort farið hafi verið eftir verkferlum A hf. vegna afleiðuviðskipta við meðferð málsins.

Að því er varðaði skuldabréfakaup A hf. af Þ, 20. maí 2008, hafi það mál verið á hendi meðákærða Y. Ákærða hafi þó þekkt stefnu A hf. á þessum tíma varðandi kaup á eigin skuldabréfum. Stjórnendur bankans hafi tekið allar ákvarðanir um áherslur í því sambandi. Ákærða kvaðst hafa komið þessum viðskiptum áfram í bakvinnslu bankans til að viðskiptin gætu gengið í gegn. Hafi það verið eina hlutverk hennar í þessu ferli. Þetta hafi ekki verið eina dæmið um að meðákærði Y kæmi að viðskiptum af þessum toga. Ákærða kvaðst ekki hafa þekkt tiltekin atriði í viðskiptunum, eins og að A hf. hafi verið að kaupa bréfin af Þ á nafnverði. Að því er varðaði tölvupósta innan bankans um að þessi viðskipti skyldu færð á yfirstjórn, þá hefðu viðskipti er meðákærði Y hefði staðið fyrir verið færð þar, hvort sem um hafi verið að ræða hlutabréf eða skuldabréf. Það hafi verið gert í ljósi þess að hann hafi ákveðið viðskiptin og þannig borið ábyrgð á þeim. Öll fyrirmæli frá meðákærða Y, varðandi þessi viðskipti og önnur er ákært væri fyrir í málinu, hafi ekki á neinn hátt verið óvenjuleg í starfi ákærðu. Ekki hafi verið óalgengt að meðákærði kæmi að daglegum viðskiptum. Meðákærði Z hafi hins vegar ekkert boðvald haft innan bankans. Ákærða kvaðst aldrei hafa verið í samskiptum við meðákærða Æ vegna neinna þessara viðskipta.

   Ákærði Æ kvaðst skilgreina sig sem fagfjárfesti. Hann hafi átt viðskipti við B allt frá því meðákærði Z hafi farið ytra 1998. Í upphafi hafi ákærði verið í miklum samskiptum við meðákærða Z vegna fjárfestinga sinna. Er meðákærði hafi verið gerður að framkvæmdastjóra B hafi R verið gerður að viðskiptastjóra ákærða ytra. Þrátt fyrir það hafi meðákærði Z verið inni í ýmsum fjárfestingum hans. Það sama hafi gilt bæði um meðákærða Z sem og R, að allar fjárfestingar fyrir hönd ákærða hafi verið gerðar í samráði við ákærða. Venjulega hafi í upphafi verið gerður svonefndur fjárvörslusamningur, en hann hafi falið það í sér að viðskiptastjóri hafi farið með tilgreindar heimildir til fjárfestinga, sem hafi verið skilgreindar í samningi. Þrátt fyrir það hafi viðskiptastjórar ekki getað gert neinar meiriháttar skuldbindingar án samráðs við ákærða. Hafi það einnig gilt um meðákærða Z, sem ákærði kvaðst þó hafa treyst fullkomlega til fjárfestinga fyrir sig. Ákærði kvaðst við rannsókn málsins á sínum tíma ekkert hafa munað eftir félagi með nafninu Þ er það félag og eignarhald á því hafi verið borið undir hann. Hefði ákærði ekki munað eftir að hafa ritað undir neina pappíra tengda félaginu fyrr en honum hafi verið sýndir slíkir pappírar. Kvaðst hann ekki muna eftir að hafa greitt fyrir félagið, hvorki gagnvart B, né gagnvart yfirvöldum úti, sem þó væri skilyrði ef ný félög væru skráð. Þá hefði ákærði engin gögn séð um að félag þetta hefði verið framselt frá eigendum til ákærða. Ákærði hafi ekkert þekkt til fjárfestinga þessara félaga, eða hvort félagið ætti kaup- eða sölurétti á einhver hlutabréf, svo sem á A hf. Ákærði kvaðst ekki vilja tjá sig um þann framburð meðákærðu Y og Z að ákærði hafi sumarið 2007 tekið yfir kaup- og sölurétt á hlutabréfum í KK hf. Ákærði hafi aldrei verið upplýstur um nein slík viðskipti í þessu félagi. Hann kvaðst ekkert þekkja til lánveitinga gagnvart Þ og hafi ákærði ekki látið í té neinar ábyrgðir gagnvart félaginu. Þá hafi ákærði á sínum tíma ekkert þekkt til skuldabréfakaupa þessa félags á A hf., sem ákært væri út af í III. kafla ákæru.

Ákærði bar að eftir hið svokallaða efnahagshrun, í október 2008, hafi meðákærði Z minnst á gjaldmiðlaskiptasamninga. Það hafi komið til af því að ákærði hafi eignast hlut í fasteignafélaginu [...]. Hafi ákærði átt 1/3 hluta í upphafi og [...] 2/3 hluta. Hafi meðákærði Z beðið ákærða að kaupa [...] út. Ákærði hafi verið tregur til að gera það þar sem ákærði hafi átt nóg af fasteignafélögum og óskráðum félögum. Hafi meðákærði beðið ákærða um að hjálpa bankanum og gera þeim greiða, en fjárfestingin hafi verið töluverð. Hafi ákærði samþykkt þetta gegn því að fá sölurétt á A hf. sem gilt hafi í 1 ár. Vitni að þessu samtali hafi verið S, yfirlögfræðingur hjá B. Hafi þetta gengið eftir og ákærði eignast sölurétt á A hf. Hafi ákærði virkjað söluréttinn, 30. september 2008, með gjalddaga 3. október 2008. Sölurétturinn hafi verið í eigu félagsins K. Þegar peningurinn hafi ekki skilað sér inn á reikning K, 8. október 2008, hafi ákærði spurt meðákærða Z, nokkrum dögum síðar, hvert peningurinn hafi farið og meðákærði þá sagt að peningurinn hafi óvart farið inn á Þ. Hafi ákærði þá spurt meðákærða hvað Þ væri og meðákærði sagt að það væri félag sem ákærði ætti. Hafi ákærði spurt meðákærða af hverju hann hafi ekki heyrt af félaginu og meðákærði sagt að það væri vegna þess að meðákærði hafi verið að stýra og stjórna félaginu. Hafi ákærði spurt meðákærða hvað hann hafi verið að gera og meðákærði sagt að hann hafi verið að kaupa skuldabréf á A hf. Hafi meðákærði um leið minnst á einhver hlutabréf og gjaldmiðlaskiptasamninga. Ákærði hafi lagt trúnað á framburð meðákærða. Meðákærði hafi á þessum tíma vitað fullvel að ákærði hafi verið að kaupa skuldabréf á A hf., sem R hafi haft með höndum, inn í félagið [...], sem hafi verið í eigu ákærða. Það hafi ekki verið nein ástæða fyrir ákærða að kaupa skuldabréf á A hf. á tveimur stöðum. Það merkilega hafi verið að Þ hafi verið að selja skuldabréf inn í [...]. Ekki hafi verið nein ábyrgð á þeim bréfum sem keypt hafi verið inn í [...], en bréfin sem keypt hafi verið inn í Þ hafi verið á ábyrgð A hf. Ef ákærði hafi átt það félag hafi hann ekki verið að taka neina áhættu þar sem hún hafi öll legið hjá A hf. Annað hafi gilt um [...]. Þrátt fyrir þetta hafi það aldrei verið neinn greiði af hálfu ákærða að taka yfir hlutabréfin í KK hf. Hafi ákærði, ásamt meðákærða Z, farið á kynningu á sínum tíma þegar KK hf. hafi verið kynnt til sögunnar. Kvaðst ákærði hafa sagt við meðákærða á þeim tíma að hann myndi ekki fjárfesta í hlutabréfum í KK hf. þar sem engin sérstök þekking væri til staðar í félaginu og það því ekki góður kostur til fjárfestinga. Hlutabréf KK hf. væri ekki eign til að eiga. Ákærði þekkti einfaldlega ekki til þeirra viðskipta. Ákærði kvað félagið J hafa verið stofnað árið 1999. Hafi ákærði stofnað það ásamt tveimur systrum sínum. Hafi það verið gert á sama tíma og félagið [...] hafi verið selt. Söluverðið hafi runnið inn í félagið. Önnur systir ákærða hafi selt sinn hlut og ætti hann nú félagið að 60%  á móti systur sinni, GG.

   Vitnið R kvaðst á árunum 2007 og 2008 hafa starfað sem viðskiptastjóri á eignastýringasviði hjá B. Hafi R sem slíkur m.a. starfað fyrir ákærða Æ. Í starfinu hafi falist ýmis samskipti við viðskiptavini og í raun almenn þjónusta. Ákærði hafi verið með nokkur félög í þjónustu í bankanum og mismunandi að hvaða marki R hafi verið með umboð til að fjárfesta fyrir ákærða. Ákærði Z hafi komið talsvert að fjárfestingum ákærða Æ. R kvaðst lítið hafa vitað um félagið Þ eða fjárfestingarstefnu þess. Í upphafi hafi ákærði Æ átt að eiga félagið, eða svo hafi R talið. Ekki hafi R þó verið í sambandi við ákærða vegna félagsins, þó svo R hafi verið skráður viðskiptastjóri fyrir félagið. Það hafi verið ákærði Z sem séð hafi um þetta félag. Hafi ákærði rætt um að ákærði Æ hafi samþykkt að kaupa hlutabréf í KK hf. Kvaðst R hafa séð um einhverjar millifærslur vegna viðskiptanna að beiðni S, yfirlögfræðings hjá B. Hafi ákærði Z sagt að það væru væntanlegar greiðslur til félagsins vegna kaupanna. R hafi enga vitneskju haft um hvaðan peningarnir væru að koma. Að því er varðaði skuldabréfakaup Þ á A hf. hafi ákærði Z einnig séð um þau viðskipti. Hafi R ekkert þekkt til viðskiptanna. Við upphaf viðskipta félaga, eins og Þ, hafi opnunarskjöl verið undirrituð. Með þeim hafi bankanum verið settir að veði reikningar félagsins og um leið allar eignir þess.

Vitnið S kvaðst á árunum 2007 og 2008 hafa starfað sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Þ. Hans næsti yfirmaður hafi verið ákærði Z. Félagið Þ hafi verið félag sem stofnað hafi verið í bankanum á sínum tíma, en bankinn hafi verið með félög á ,,lager“ fyrir viðskiptavini sína. Ekki myndi S nákvæmlega hvenær stofndagurinn hafi verið. Hafi bankinn þannig verið upphaflegur eigandi félagsins.  Félagið hafi í upphafi verið notað vegna viðskipta með hlutabréf í KK hf. Hafi ákærði Æ orðið eigandi félagsins í framhaldi af þessum viðskiptum með hlutabréfin í KK hf. Ákærði Z hafi tjáð S að ákærði Æ væri eigandinn. Á síðari stigum hafi S séð í gögnum bankans í Lúxemborg um eignarhald ákærða Æ á félaginu. Alla jafnan hafi verið leitað samþykkis hluthafa fyrir viðskiptum og þeir látnir kvitta fyrir. Misjafnt hafi verið hvernig viðskiptavinir hafi viljað haga skráðu eignarhaldi á félagi. Í sumum tilvikum hafi eigendur ekki viljað koma fram og samningur verið gerður við bankann um að bankinn yrði skráður eigandi, þó svo hinn endanlegi eigandi væri annar. Félagaformið hafi verið með ýmsu móti, en um hafi verið að ræða hlutafélagaform, einkahlutafélagaform, svonefnd ,,special purpose vehicle“ og síðan SPF félög, sem hafi verið tiltekið form af hlutafélagi og einkahlutafélagi, með takmarkaða starfsemi. Bankinn hafi sjálfur ekki getað átt þessi SPF félög, í ljósi starfsemi þeirra. S hafi ekki rætt viðskipti um kaup Þ á hlutabréfum í KK hf. við ákærða Æ. Komið hafi beiðni frá A hf. um að ganga frá þessum viðskiptum. Í þessum viðskiptum hafi MM ehf. fengið greitt fyrir söluréttinn. S kvað MM ehf. hafa nýtt sér sölurétt á hlutabréfunum í KK hf. gagnvart Þ. Hafi B ábyrgst söluréttarsamninginn gagnvart eignarhaldsfélaginu. Það hafi hugsanlega verið hluti af stærri viðskiptum. S kvaðst ekki þekkja til þess hvort sölurétturinn af hlutabréfunum í KK hf. hafi verið yfirtekinn af Þ um leið og kauprétturinn hafi verið yfirtekinn eða síðar. Ákærði Z hafi verið í forsvari fyrir þessi viðskipti. Hlutverk S hafi verið að fylgja eftir viðskiptum sem búið hafi verið að ákveða.  

Vitnið V, fyrrum innri endurskoðandi A hf., kvaðst hafa tekið við starfi innri endurskoðanda í bankanum í október 2006. Kvaðst hún ekki kannast við valréttarsamning að baki greiðslu á liðlega 3 milljörðum króna frá A hf. til B í desember 2007. Í skjali sem greiðslan sé reist á í bókhaldi A hf. sé vísað í undirliggjandi samning. Sá samningur hafi átt að koma fram í kerfum bankans. Leit hafi verið gerð að þessum samningi eftir að rannsókn málsins hófst en hann hafi ekki fundist. Að því er varðar millifærslu á liðlega 3 milljörðum króna frá A hf. til B, í lok júní 2008, hafi ekkert fylgiskjal fundist í bankanum með færslunni. Viti hún ekki hvort gögn að baki þessari greiðslu, sem fundist hafi við húsleit í B, hafi komið úr tölvukerfum A hf. Númer á samningi hefði átt að koma fram og finnast í kerfum bankans. V kvaðst ekki hafa komið að þeim samningum sem ákært væri fyrir í málinu.

Vitnið BB fyrrum framkvæmdastjóri fjárstýringar A hf. á Íslandi, sem var móðurfélag A hf., bar að fjárstýring bankans hafi verið sett saman úr þremur deildum, þ.e. hinni eiginlegu fjárstýringu, afleiðuviðskiptum og eigin viðskiptum. Valréttarsamningar hafi einkum verið seldir í gegnum markaðsviðskipti innan bankans. Verð í þá hafi verið fengið hjá fjárstýringu. Valréttarsamningar við aðra banka hafi verið gerðir af fjárstýringu. Verðlagning á valréttarsamningum hafi verið nokkuð flókin, en stuðst hafi verið við tiltekna formúlu og samningar verðlagðir samkvæmt henni. Þar hafi skipt máli hvort um hafi verið að ræða hlutabréf eða eitthvað annað. Síðan fari eftir ákveðnum aðferðum hvernig bankinn verji sig gagnvart slíkum samningum, sé hann ekki með mótstöðu í einhverju öðru. Fjárstýring hafi átt að halda utan um alla samninga sem deildin gerði við bók markaðsviðskipta og annarra banka. Þessa samninga hafi átt að vista í deild afleiðuviðskipta innan fjárstýringar innan tiltekins tölvukerfis, sem notað hafi verið. BB kvaðst ekki geta sagt til um hvar aðrir afleiðusamningar, sem gerðir hafi verið á öðrum stöðum innan bankans, ættu að liggja. Varðandi fylgiskjal í bókhaldi A hf. er varðar millifærslu á liðlega 3 milljörðum króna út af reikningi bankans inn á reikning B, í desember 2007, sé vísað í undirliggjandi söluréttarsamning. Ef fjárstýring hefði átt að bera ábyrgð á þessum samningi hefði samningurinn átt að vera í kerfum fjárstýringar og verðlagning að vera í samræmi við formúlu. Verðlagningin hafi þá farið fram í upphafi samnings. Í þessu tilviki sé um að ræða 5% þóknun til bankans af lækkun hlutabréfanna, þ.e. 5% af hagnaði. Samningar hafi almennt ekki litið svona út. Um hafi verið að ræða valréttargreiðslu sem hafi verið markaðsvirði valréttarins en ekki kölluð þóknun. Ekki þekki BB til þess hvort fjárstýring hafi komið að því að verja þennan samning en það ætti ekki að vera flókið að sjá það út frá því hvort samningurinn hafi verið í bókum fjárstýringar. Flest af þessum toga hafi farið í gegnum fjárstýringu. Hagnaður hafi verið um 3 milljarðar króna og undirliggjandi fjárhæð mjög há. Allir valréttarsamningar í bókum fjárstýringar hafi verið varðir. Fjárstýring hafi ekki tekið opna stöðu á móti valréttarsamningum. Innan bankans hafi verið farið eftir verklagsreglum vegna afleiðuviðskipta.

Varðandi uppgjör og staðfestingar á tveimur framvirkum gjaldmiðlaskipta-samningum, sem fram komi í gögnum málsins, að baki millifærslu A hf. til B frá í júní 2008, að fjárhæð ríflega 3 milljarðar króna þá hafi almenna reglan verið sú að verð í slíka samninga hafi verið byggt á stundargengi dagsins sem samningurinn hafi verið gerður á og síðan vöxtum í hvorri mynt. Ef um væri að ræða aðra viðskiptavini en banka hefði því hagað þannig til að markaðsviðskipti hafi fengið verð frá fjárstýringu, tækju litla þóknun fyrir og seldu síðan samninginn áfram. Grunnverðið mætti þá rekja til fjárstýringar. Ef um væri að ræða samning milli banka hefði fjárstýring verið beinn aðili. Varðandi þann samning sem um ræði, ef hann hefði verið á milli A hf. og B hefði samningurinn líklega verið á milli fjárstýringa þeirra banka. Að öðrum kosti hefði samningurinn verið milli markaðsviðskipta og viðskiptavinarins. BB kvaðst þó ekki þekkja það til hlítar hvort markaðsviðskipti hefðu aldrei gert slíkan samning við B í ljósi þess að sá banki hefði verið banki innan samstæðunnar. Öll staða A hf., í framvirkum samningum, hefði að minnsta kosti átt að koma fram í gjaldeyrisjöfnuði fjárstýringar. Þau tölvukerfi sem samningarnir hefðu átt að koma fram í hafi borið nöfnin [...] og [...]. Varðandi verklagsreglur A hf. vegna afleiðuviðskipta þá hefðu þeir verklagsferlar verið lagðir til grundvallar varðandi framvirka gjaldmiðlaskiptasamninga að því er varðaði fjárstýringu og markaðsviðskipti. Hefði bankinn almennt varið áhættu af slíkum viðskiptum. Varðandi reglubók A hf., þar sem fram kæmi að mótaðili í framvirkum gjaldmiðlaviðskiptum hefði þurft að leggja fram tryggingar sem numið hefðu 8% af höfuðstól eða grundvallarfjárhæð samningsins, þá hafi það verið þannig að ef samningar hefðu verið á milli banka hefði öðru vísi tryggingasamningar verið á milli eða daglegar tryggingar. Annað hefði gilt á milli bankans og annars viðskiptavinar en banka. BB kvaðst ekki hafa komið að þeim samningum sem gerðir hafi verið og tengdust ákæru málsins. 

Vitnið CC, fyrrum forstöðumaður eigin viðskipta A hf., kvað eigin viðskipti að einhverju leyti hafa komið að hlutabréfavalréttum innan bankans. Deildin hefði að mestu verið í hlutabréfavalréttum sem hafi verið skráðir á markaði. Óskráðir hlutabréfavalréttir hafi verið í annarri deild í fjárstýringu. Ef um hefði verið að ræða samninga sem bankinn gerði sjálfur hefði það getað farið í gegnum eigin viðskipti eða fjárstýringu hvernig bankinn myndi verja sig í slíkum tilvikum. Slíkir samningar hefðu oftar farið í gegnum afleiðudeild fjárstýringar. Varðandi hagnað að fjárhæð ríflega 3 milljarðar króna til félagsins Þ, samkvæmt söluréttarsamningi með undirliggjandi 11 milljónir hluta af hlutabréfum í A hf. að verðmæti 12,9 milljarðar króna, þá hefðu slík viðskipti almennt verið í afleiðudeild fjárstýringar. Slíkt verðmæti hefðu verið nokkuð mikil miðað við almennt séð. Slíkur valréttarsamningur hefði verið talinn nokkuð stór á sínum tíma. 

Vitnið DD kvaðst hafa verið forstöðumaður á millibankaborði innan fjárstýringar A hf. DD staðfesti að hafa fengið afrit af tölvupósti frá ákærðu X til [...] með greiðslufyrirmælum 19. desember 2007 um millifærslu ríflega 3ja milljarða króna frá A hf. inn á vörslureikning B í A hf. Eðlilegt hefði verið að senda DD afrit af millifærslunni þar sem hann hafi verið forstöðumaður á millibankaborði og þurft að vita um stórar millifærslur innan bankans til að viðhalda réttri stöðu á bankareikningi A hf. DD kvaðst hafa komið að sumum gjaldmiðlaskiptasamningum hjá bankanum,  ef þeir voru á milli banka, en deildin hafi haldið utan um áhættu bankans með framvirka afleiðusamninga. Haldið hafi verið utan um það í tölvukerfi sem hafi heitið [...]. Hafi samningar verið settir inn í kerfið til að halda utan um þá. Samningar í gögnum málsins um uppgjör á framvirkum gjaldmiðlaskiptasamningum varðandi millifærslu í lok júní 2008 til B hafi verið í samræmi við þau form sem notuð hafi verið innan bankans. Þetta form væri þó frábrugðið að því leyti að númer úr kerfi vanti, en númer hafi verið á þeim samningum sem verið hafi inni í [...]. Fjárstýring hafi almennt séð um að reikna upp verð í samningum og fá framvirka punkta. Áhættustýring hafi einnig reiknað út verðmæti samninga eftirá. Einnig hafi miðlunarborð notað verð frá fjárstýringu til að fá verð "í viðskiptavin". DD kvaðst ekki muna eftir því að ákærði Y hefði sjálfur gert framvirka gjaldmiðlaskiptasamninga. Upplýsingar úr slíkum samningi hafi þó að lokum þurft að skila sér til fjárstýringar.  

Vitnið EE, fyrrum forstöðumaður afleiðuviðskipta A hf., lýsti því að ef viðskiptavinur hafi viljað kaupa valrétt hjá A hf. hafi það venjulega farið í gegnum gjaldeyris- og afleiðumiðlun sem hefði verið í sambandi við afleiðuviðskipti, deild EE. Deildin hefði reiknað út verðmæti valréttarins eftir sínum reglum og gjaldeyrismiðlun fengið það verð og komið því áfram til viðskiptavinarins. Samningur um valrétt, eins og sá sem greitt hafi verið samkvæmt, við millifærslu til B 19. desember 2007, hafi  átt að koma fram í kerfum bankans. Svonefnd Vog hafi verið verðbréfakerfi og hefði valrétturinn venjulega verið stofnaður þar inni þegar um viðskiptavin hafi verið að ræða. Valrétturinn hafi verið verðmetinn og tölurnar settar inn í þetta verðbréfakerfi. Varðandi greiðsluna, þar sem kæmi fram að fjöldi hluta væri tæplega 11 milljónir að verðmæti 12,9 milljarðar króna þá hafi fjárhæðin verið mjög há miðað við það sem venjulega hafi verið unnið með tengt hlutabréfum. Eigin viðskipti bankans hafi einnig gert svona samninga varðandi innlend viðskipti. Ekki myndi EE eftir því að stjórnendur A hf. hefðu sjálfir gert slíka samninga að öðru leyti en því að kaupréttaráætlun hafi verið í gangi innan bankans. Ef um hefði verið að ræða önnur hlutabréf en í A hf. hefði bankinn átt að verja sig, en eigin bréf hefðu áhrif á eiginfjárstöðu bankans og væri því hugsanlegt að bankinn hefði í því ljósi þurft að verja sig. Varðandi verðlagningu þessara samninga hjá bankanum þá hefði það farið eftir tímalengd, undirliggjandi flökti, verði á markaði og vaxtamun. Verðlagningin hefði þó ekki verið alveg föst í hendi á valréttarsamningum, þar sem þáttur eins og flökt á markaði væri liður sem væri metinn. Það hefði verið hlutverk afleiðuviðskipta að meta flökt. Varðandi verklagsferla vegna gjaldeyrisvalrétta þá hafi verðlagning á valréttum vegna hlutabréfa verið komin inn í eigin viðskipti.

Vitnið AA, fyrrum framkvæmdastjóri fjármálasviðs A hf., kvaðst hafa séð um bókhald A hf. og dótturfélaga. Hafi AA sett saman samstæðureikninga fyrir samstæðuna. Fylgiskjal í bókhaldi vegna millifærslu liðlega 3ja milljarða króna af reikningi A hf. inn á reikning B í bankanum í desember 2007 hefði vísað til valréttarsamnings. Slíkur samningur hefði átt að vera í kerfum bankans.

Vitnið U kvaðst hafa starfað á lögfræðisviði B á árunum 2007 og 2008. S yfirmaður lögfræðisviðs bankans hefði verið næsti yfirmaður hans. U kvaðst hafa setið í svonefndum stjórnunarfélögum á þessum tíma. Bankinn hafi boðið viðskiptavinum sínum heildarþjónustu. Í því hafi falist ýmiskonar umsýsla fyrir viðskiptavini, stofnun félaga, sæti í stjórnum félaga, o.s.frv. Í þessum tilvikum hafi lögfræðisvið bankans haft með höndum alla pappírsvinnu varðandi stofnunina og framhaldið. Ákveðið hafi verið innan bankans að skipta út einstaklingum í stjórnum félaga og setja félög í staðinn sem stjórnendur. Hafi þetta verið gert til að einfalda allt utanumhald. Byggt hafi verið á samningi við eiganda hverju sinni hvernig einstaka félagi yrði stýrt. Þannig hafi eigendur þurft að samþykkja ákvarðanir varðandi fjárfestingar og rekstur áður en þær yrðu teknar og hafi frumkvæði að starfsemi ekki komið frá þessum stjórnunarfélögum. Að því er varðaði félagið Þ kvaðst U á sínum tíma ekki hafa vitað hver hafi verið hinn raunverulegi eigandi félagsins. Annar stjórnarmaður, [...], hafi haft meiri þekkingu á því á sínum tíma og U frétt frá honum að ákærði Æ væri hinn raunverulegi eigandi.

Vitnið T kvaðst hafa starfað í B á árunum 2007 og 2008. Á þeim tíma hafi T m.a. setið í stjórnum svonefndra stjórnunarfélaga. Ekki myndi vitnið sérstaklega eftir því að hafa hitt ákærða Æ vegna málefna félaga ákærða, en það gæti þó hugsanlega verið í tengslum við öflun undirskrifta á stjórnarfundum. Ekki myndi vitnið sérstaklega eftir félaginu Þ eða störfum fyrir það félag. Myndi vitnið því ekki sérstaklega eftir undirritunum fyrir hönd þess félags.

Fyrir dóminn komu fjórir fyrrum starfsmenn A hf., en um var að ræða  fyrrum starfsmann fjármálasviðs, fyrrum forstöðumann bakvinnsludeildar fjárstýringar, fyrrum forstöðumann kostnaðarbókhalds, fyrrum starfsmann kostnaðarbókhalds og síðan fyrrum starfsmann C hf.  Ekki er ástæða til að rekja framburði þessara vitna, sem samkvæmt fyrirmælum yfirmanna sinna önnuðust framkvæmd millifærslna samkvæmt I. og II. kafla ákæru. Öll þessi vitni kváðust ekki muna sérstaklega eftir millifærslunum.

Þrír starfsmenn slitastjórnar A hf. komu fyrir dóminn og staðfestu að þeir hefðu framkvæmt leit í gagnagrunnum og fjármálakerfum A hf. að tveimur framvirkum gjaldmiðlaskiptasamningum og einum söluréttarsamningi um hlutabréf í A hf. Engir slíkir samningar hafi fundist í viðskiptakerfunum.

Vitnið FF kvaðst, ásamt bróður sínum, hafa verið eigandi að félaginu [...] ehf. Hafi MM ehf. átt sölurétt á hlutabréfum í KK hf. á félagið. Gengið hafi verið frá kauprétti á bréfunum á óstofnað félag á vegum þeirra bræðra. Hafi A hf. ábyrgst efndir á söluréttarsamningnum með hlutabréfin í KK hf. Ábyrgð bankans hafi verið forsenda í viðskiptunum. Síðan hafi verið ákveðið að leysa upp svonefnt krosseignarhald á milli bankans og KK hf. Í því skyni hafi á árinu 2007 félagið Þ keypt hlutabréfin í KK hf., í stað félagsins [...] ehf. Hafi félagið á sama tíma yfirtekið bæði kaupréttinn og söluréttinn. Tilgangur með viðskiptunum hafi verið að minnka áhættu af hlutabréfum í KK hf. og A hf. A hf. hafi áfram ábyrgst samninga. Ekki kvaðst FF þekkja hvort Þ hafi greitt fyrir þá ábyrgð. Það hafi verið hagsmunir fólgnir í því fyrir A hf. að leysa upp nefnt krosseignarhald á hlutabréfum. 

Vitnið GG systir ákærða Æ, kvaðst vera skráður eigandi tveggja félaga í málinu sem krafist væri upptöku fjármuna gagnvart,  en um væri að ræða félögin J og L. GG kvaðst ekki vita til þess að nefnd félög hafi nokkru sinni fengið fjármuni frá Þ. Félagið J hafi verið stofnað af þeim systkinum er fyrirtækið [...] hafi verið selt. Í félaginu væri eign sem komið hafi inn í félagið árið 2000 við sölu á [...], að viðbættum arði. Aðrar eignir hafi ekki komið inn í félagið. 

Fyrir dóminn kom vitnið HH, fyrrum lögreglumaður hjá embætti sérstaks saksóknara. Gerði vitnið grein fyrir framkvæmd símhlustana á starfstíma vitnisins hjá embætti sérstaks saksóknara. Þá komu fyrir dóminn JJ lögreglumaður og II, fyrrverandi lögreglumaður og gerðu grein fyrir einstökum þáttum í rannsókn málsins, þ. á m. varðandi símhlustanir lögreglu.

  

VI

Niðurstaða

a

   Ákærðu Y og X er í I. og II. kafla ákæru aðallega gefið að sök fjárdráttur, en til vara umboðssvik, vegna millifærslu fjármuna í desember 2007 og júní 2008 frá A hf., inn á reikning B, og þaðan áfram inn á reikning félagsins Þ. Ákærða Z er aðallega gefið að sök hlutdeild í fjárdrætti meðákærðu, en til vara hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu. Til þrautavara er ákærða Z gefið að sök hylming. Ákærða Æ er, sem eiganda Þ, aðallega gefið að sök hylming en til vara peningaþvætti, vegna ofangreindra millifærslna. 

Þá er ákærðu Y og X í III. kafla ákæru gefið að sök umboðssvik með því að láta A hf. kaupa skuldabréf útgefin af bankanum á nafnverði bréfanna af Þ, en skuldabréfin hafði félagið keypt af B skömmu áður á mun lægra verði. Ákærða Z er aðallega gefið að sök hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu að því er þessi viðskipti varðar en til vara hylming og þrautavara peningaþvætti. Ákærða Æ er í þessum þætti, aðallega gefið að sök hylming en til vara peningaþvætti. 

 

b

   Ákærðu neita öll sök. Ákærði Y krefst sýknu. Ákærði Z krefst þess að málinu verði vísað frá dómi, ellegar að hann verði sýknaður.  Ákærða X krefst sýknu. Loks krefst ákærði Æ þess að málinu verði vísað frá dómi, ellegar að hann verði sýknaður. Úr frávísunarkröfum var leyst á fyrri stigum undir rekstri málsins, enda ber að leysa úr kröfum um frávísun máls áður en til efnismeðferðar málsins kemur, sbr. 2. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008. Ákærðu Z og Æ setja á ný fram frávísunarkröfur í greinargerðum til dómsins, sem krafa er gerð um að leyst verði úr samhliða efnisúrlaus málsins. Á sama hátt setja hin ákærðu félög fram frávísunarkröfu í greinargerð, sem krafa er gerð um að leyst verði úr samhliða efnisúrlausn. Eins og hér háttar til er heimilt að leysa úr kröfum um frávísun málsins í efnisdómi. 

   Krafa ákærða Z um frávísun byggir á því að saksækja hafi átt ákærða í einu lagi í öllum þeim málum sem til meðferðar séu á hendur honum. Annað sé brot á 1. mgr. 143. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé lýsing á hinum refsiverða verknaði og heimfærslu til refsiákvæða vanreifuð. Loks séu alvarlegir annmarkar á rannsókn málsins. Að því er þessar frávísunarkröfur ákærða varðar er til þess að líta að í úrskurði dómsins frá 16. desember 2014 var komist að þeirri niðurstöðu að ákæra í málinu væri ekki vanreifuð og að málinu yrði ekki vísað frá dómi á þeim grundvelli. Með vísan til þeirra röksemda sem þar koma fram verður kröfu um frávísun á þessum grundvelli hafnað. Að því er varðar frávísun byggða á þeim grunni að saksækja hafi átt ákærða í einu lagi í öllum málum sem til meðferðar hafi verið hjá embætti sérstaks saksóknara er til þess að líta að embætti sérstaks saksóknara hefur frá því embættið var sett á laggirnar með lögum nr. 135/2008, sem gildi tóku 12. desember 2008, haft til meðferðar viðamiklar rannsóknir vegna gruns um refsiverða háttsemi einstaklinga og lögaðila, þar á meðal ákærða, tengdar lánveitingum og öðrum fjármálagerningum sem tengjast efnahagshruninu í október 2008. Þó svo almennt skuli tryggja að öllum málum á hendur sakborningi sé lokið í einu lagi, sbr. 1. mgr. 143. gr. laga nr. 88/2008, er til þess að líta að sú regla sætir takmörkunum, ekki síst með tilliti til hagsmuna sakbornings á þeim grunni að málum gegn honum verði lokið innan hæfilegs tíma. Getur þessi málsgrundvöllur ákærða ekki leitt til frávísunar málsins á hendur honum. Þeir annmarkar á rannsókn málsins er ákærði byggir frávísun á eru ekki þess eðlis að leiði til frávísunar málsins frá dómi. 

Krafa ákærða Æ um frávísun byggir í fyrsta lagi á því að refsilögsaga íslenska ríkisins nái ekki til ákærða, en ákærði sé búsettur í Lúxemborg og hafi verið búsettur þar frá því um miðjan síðasta áratug og verið með lögheimili þar í landi allt frá árinu 2007. Í annan stað hafi ákærði ekki verið lögmætur eigandi félagsins Þ. Það eigi að leiða til frávísunar málsins að því er ákærða varðar. Þá eru í greinargerð ákærða tíundaðar aðrar forsendur fyrir frávísun málsins byggðar á því að ákærði hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar undir rannsókn og meðförum málsins. Undir meðförum málsins hafði ákærði uppi kröfu um frávísun byggða á því að ákærði hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hafi grundvallarmannréttindi hans ekki verið virt með því að hann hafi notið réttarstöðu vitnis til ársins 2011. Í úrskurði dómsins frá 16. desember 2014 var ekki fallist á þessar frávísunarkröfur ákærða eða frávísunarkröfu byggða á vanreifun. Með vísan til þeirra röksemda dómsins sem þar koma fram verður frávísunarkröfum á þessum grundvelli hafnað. Að því er varðar kröfu um frávísun byggða á því að íslensk refsilögsaga taki ekki til ákærða er til þess að líta að samkvæmt 1. tl. 4. gr. laga nr. 19/1940 skal refsað eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot framin innan íslenska ríkisins. Ákæruefni í máli þessu miða við að frumbrot samkvæmt ákæru hafi verið framið hér á landi. Afleiðingar brotanna hafi komið fram í Lúxemborg á þann hátt að félagið Þ hafi auðgast með ólögmætum hætti vegna hinnar saknæmu háttsemi ákærðu, sbr. 7. gr. laga nr. 19/1940. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1940 skal refsað eftir íslenskum hegningarlögum fyrir verknað sem íslenskir ríkisborgarar eða menn búsettir á Íslandi hafa framið erlendis ef brot er framið á stað sem refsivald annars ríkis nær til að þjóðarétti og var þá jafnframt refsivert eftir lögum þess. Á þessum forsendum nær íslensk refsilögsaga til ætlaðra refsiverðra brota ákærða í málinu. Sætir málið ekki frávísun gagnvart ákærða Æ á þessum grundvelli og er kröfum ákærða þar að lútandi hafnað. Úr kröfum reistum á því að ákærði hafi ekki verið eigandi að Þ verður leyst hér á eftir undir efnisúrlausn málsins þar sem ágreiningur um þetta atriði varðar efnishlið málsins en ekki formhlið. 

 

c

Að því er sýknukröfur varðar byggja varnir ákærðu, Y og Z einkum á því að fjármunayfirfærslur samkvæmt öllum köflum ákæru megi rekja til lögmætra viðskiptagerninga. Lýsa þeir því báðir að upphaf viðskipta Þ með hlutabréf í KK hf. á árinu 2007 megi rekja til þess að stjórnendur A hf. og KK hf. hafi ákveðið að skera á svonefnt krosseignarhald á milli þessara félaga. Ákærði Y bar að A hf. hafi átt hlutabréf í KK hf. á sama tíma og KK hf. hafi átt umtalsverðan eignarhlut í bankanum. MM ehf. hafi verið einn stærsti hluthafi í [...] hf. Við yfirtöku KK hf. á hlutabréfum í [...] hf. hafi komið fram krafa frá eignarhaldsfélaginu að félaginu yrði tryggð sala á hlutabréfum í KK hf. Í framhaldi hafi verið ákveðið að búa til kaup- og söluréttarsamninga á milli eignarhaldsfélagsins og óstofnaðs hlutafélags og LL. Hafi A hf. ábyrgst efndir á söluréttarsamningnum gagnvart eignarhaldsfélaginu. Ákærði Y lýsti því að samningar hafi tekist um þessi viðskipti við Þ sem ákærða hafi skilist að væri í eigu ákærða Æ. Ákærði Z bar að ákærði Y hafi spurt sig hvort ákærði teldi að ákærði Æ myndi vilja taka yfir kauprétt að hlutabréfum í KK hf. og um leið sölurétt á bréfunum. Hafi ákærði Æ samþykkt áformin og lögfræðisvið B gengið frá nauðsynlegum skjölum varðandi viðskiptin. Ákærðu byggja varnir sínar á því að A hf. hafi verið að verja hagsmuni sína þar sem bankinn hafi gengist í ábyrgð á skuldbindingum B. Í desember 2007 hafi ákærðu haft áhyggjur af stöðu Þ eftir að gengi hlutabréfa í KK hf. hafi lækkað. Sem lánveitandi hafi A hf. verið óvarinn ef lækkun hlutabréfa í KK hf. héldi áfram. Söluréttarsamningur hafi verið útbúinn í október 2007 þar sem Þ hafi getað tryggt sig fyrir lækkun hlutabréfa í A hf. Fjármunayfirfærslan 19. desember 2007 hafi komið til vegna þessa og bankinn um leið leitast við að minnka áhættu sína af lánveitingum til Þ. Á fyrri árshelmingi 2008 hafi verð hlutabréfa KK hf. haldið áfram að lækka og aftur verið gripið til ráðstafana til að minnka áhættu A hf. Í þeim tilgangi hafi meðal annars verið gripið til þess ráðs að gera gjaldmiðlaskiptasamning á milli Þ og A hf. Fjármunayfirfærslan 30. júní 2008 tengist því. Eins hafi verið ákveðið að A hf. myndi kaupa skuldabréf útgefin af A hf. af Þ, fyrir gjalddaga bréfanna, og nota andvirðið til að greiða inn á skuld Þ við B. Félagið Þ hafi verið komið á forræði bankans og bankinn átt veð í öllum eignum félagsins. Hafi eigendur þess ekki getað ráðstafað fjármunum út úr félaginu og bankinn, með fjármunayfirfærslunum, verið að rétta af stöðu þess gagnvart A hf. þar sem fjármunirnir hafi runnið til A hf. samstæðunnar.

Varnir ákærðu byggja einnig á því að þeir hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar í skilningi stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Embætti sérstaks saksóknara hafi ekki rannsakað málið hlutlægt, beitt hafi verið ólöglegum símhlustunum, brotið hafi verið gegn rétti ákærðu til aðgangs að gögnum málsins og að reka hafi átt öll mál á hendur ákærðu í einu lagi. Að því er þessar varnir ákærðu varðar er til þess að líta að úr nánast öllum þessum atriðum var leyst í dómi Hæstaréttar í máli nr. 145/2014. Í dómi Hæstaréttar í því máli var komist að þeirri niðurstöðu að varnir á þessum grundvelli leiddu ekki til frávísunar eða sýknu. 

Varnir ákærðu X byggja einkum á því að hún hafi mælt fyrir um millifærslur fjármuna, samkvæmt ákæru, til undirmanna sinna eftir að hafa fengið fyrirmæli þar að lútandi frá ákærða Y. Hafi hún enga ástæðu eða forsendu haft til að ætla annað en að lögmætar viðskiptalegar forsendur hafi búið að baki millifærslunum. Hún hafi ekkert þekkt til félagsins Þ eða verið þess meðvituð að fjármunir samkvæmt ákæru hafi runnið til félagsins. 

Loks byggja efnisvarnir ákærða Æ einkum á því að hann hafi ekki verið eigandi félagsins Þ. Hafi hann ekkert þekkt til viðskipta félagsins eða komið að þeim á nokkurn hátt.

 

d

   Í málinu er ekki deilt um að millifærslur fjármuna samkvæmt I., II. og III. kafla ákæru hafi átt sér stað heldur er, eins og áður greinir, uppi ágreiningur um hvort lögmæt viðskipti eða samningar hafi legið að baki millifærslunum. Að því er I. kafla ákæru varðar fannst við leit í bókhaldi A hf., undir rannsókn málsins, fylgiskjal sem ber með sér að millifærsla að fjárhæð 3.016.750.000 krónur, 19. desember 2007, sé vegna valréttarsamnings um sölu á hlutabréfum í A hf. Enginn valréttarsamningur eða önnur gögn að baki þessari millifærslu hafa fundist í bankanum eða hjá B. Ákærðu Y og Z staðhæfa þrátt fyrir það að þeir hafi gert slíkan samning á milli A hf. og Þ. Kveðst ákærða X hafa séð slíkan samning á skrifborði ákærða Y þegar hann hafi lagt fyrir hana að millifæra þessa fjárhæð inn á reikning B. Í samræmi við fyrirmælin hafi hún búið til skjalið sem fundist hafi í bókhaldi A hf. Samkvæmt gögnum málsins var skjal þetta stofnað í tölvu ákærðu X, 12. janúar 2008. Að því er II. kafla ákæru varðar fundust engin gögn í bókhaldi A hf. að baki millifærslu að fjárhæð 3.080.250.000 krónur, 30. júní 2008. Gögn að baki millifærslunni fundust hins vegar undir rannsókn málsins við húsleit yfirvalda í Lúxemborg. Ákærðu Y og Z halda því fram að þeir hafi gert þann samning og kveðst ákærða X hafa vottað bæði uppgjör vegna samninganna sem og tvo samninga sem gerðir hafi verið og varða færsluna.  

Tölvupóstssamskipti frá í júní og júlí 2007, á milli starfsmanna B annars vegar og á milli starfsmanna bankans við einstaklinga utan bankans hins vegar, varpa nokkru ljósi á þann framburð ákærðu að kaup Þ á hlutabréfum í KK hf. á árinu 2007 megi rekja til þess að kaup- og söluréttarsamningar á milli MM ehf. og félagsins LL hafi verið virkjaðir. Í bókhaldi eða tölvukerfum A hf., B eða Þ hafa hins vegar ekki fundist undirritaðar ábyrgðir A hf., þar sem bankinn ábyrgist greiðslu á kaupverði hlutabréfanna til MM ehf. að því er félagið LL varðar eða félagið Þ. Fyrirsvarsmenn MM ehf. eða LL hafa heldur ekki leitt tilvist slíkrar undirritaðrar ábyrgðar í ljós, að öðru leyti en því að fyrirsvarsmaður félagsins LL fullyrti fyrir dóminum að slík ábyrgð hafi verið til staðar. Verður að telja að slík ábyrgð hafi átt að koma fram í bókum bankanna eða félaganna, hafi slíkri ábyrgð á annað borð verið til að dreifa. Óumdeilt er hins vegar að félagið Þ keypti hlutabréf í KK hf. í júlí og desember 2007, fyrir umtalsverðar fjárhæðir, svo sem síðar verður rakið. Þá liggur fyrir að heildartap Þ vegna viðskipta með hlutabréf í KK hf. nam um 3 milljörðum króna þegar um miðjan desember 2007.     

Yfirlit yfir reikning nr. 400637 í eigu félagsins Þ í B liggur fyrir í gögnum málsins. Sýnir yfirlitið að Þ greiddi MM ehf. 5,5 milljarða króna fyrir hlutabréf í KK hf. 18. júlí 2007. Tölvupóstssamskipti á milli yfirlögfræðings B og viðskiptastjóra bankans 20. júlí 2007 og samskipti bankans við lögmannsstofu vegna þeirra, varða þessa greiðslu. Þennan dag sendi yfirlögfræðingurinn tölvupóst á netfang hjá KK hf. þess efnis að hlutabréfin væru móttekin og að greitt hafi verið fyrir þau. Í desember 2007 nýtti MM ehf. sölurétt á hlutabréfum í KK hf., en 21. desember 2007 voru 5,9 milljarðar króna færðar af nefndum reikningi Þ inn á reikning eignarhaldsfélagsins vegna kaupa á bréfunum. Tölvupóstssamskipti á milli yfirlögfræðings B og ákærðu, Y og Z 19. desember 2007, varða þessi viðskipti, sem og tölvupóstur viðskiptastjóra B frá 21. desember 2007 um að millifæra skuli tæplega 6 milljarða króna inn á reikning MM ehf. út af reikningi Þ í bankanum. 

Að því er félagið Þ varðar liggur, eins og áður segir, fyrir framburður ákærðu Y og Z um að þeir hafi litið svo á að ákærði Æ hefði samþykkt að taka yfir kaup- og sölurétt á hlutabréfunum í KK hf. í gegnum félagið Þ. Á meðal gagna málsins eru stofnskjöl fyrir félagið. Rannsókn málsins leiddi í ljós tölvupóstssamskipti á milli starfsmanna B og ákærða Æ, 21. júní 2007, um stofnskjölin, en það er á sama tíma og kaup- og söluréttarsamningar voru gerðir á milli félagsins og MM ehf. Hefur ákærði Æ fyrir dóminum staðfest að undirritanir ákærða séu undir þessi stofnskjöl Þ. Þá er til þess að líta að nokkrar lánabeiðnir voru til afgreiðslu innan B á árinu 2007 varðandi ákærða Æ og félög í hans eigu. Í yfirlitum sem fylgdu lánabeiðnum innan bankans er félögum ákærða gerð skil og félagsins Þ jafnan getið þar á meðal. Er gerð grein fyrir eignum félagsins og skuldum. Loks er til þess að líta að föstudaginn 4. júlí 2008 sendi viðskiptastjóri B tölvupóst á ákærða Z þar sem viðskiptastjórinn lýsir því að starfsfólk í lánadeild bankans sé að ,,elta“ viðskiptastjórann í þeim tilgangi að fá ákærða Æ til að skrifa undir tryggingar varðandi Þ í öðrum eignum hans. Spyr viðskiptastjórinn hvort ákærði Z sé sáttur við að viðskiptastjórinn biðji ákærða Æ um þetta. Að endingu er til þess að líta að fyrrum yfirlögfræðingur B bar fyrir dóminum að bankinn hafi átt félög á ,,lager“ fyrir viðskiptavini sína. Þegar öll þessi atriði eru virt er að mati dómsins ekki trúverðug sú staðhæfing ákærða Æ að hann hafi ekki talið sig vera eiganda að félaginu Þ. Ákærði skilgreinir sig sem fagfjárfesti. Telur dómurinn sannað að honum hafi verið kunnar fjármálahreyfingar og viðskipti sem áttu sér stað í tengslum við félagið, allt frá því í júní 2007, þegar fyrstu viðskipti með hlutabréf í KK hf. áttu sér stað.

Samkvæmt ársskýrslu A hf. fyrir árið 2007 varði bankinn sig á ýmsan hátt gegn útlánaáhættu sem tengist afleiðum. Þar kemur meðal annars fram að markaðsáhættu vegna undirliggjandi breytu hafi verið stýrt af bankanum. BB fyrrum framkvæmdastjóri fjárstýringar A hf. á Íslandi bar að halda hafi þurft utan um alla valréttarsamninga í bankanum í þeim tilgangi að verja þá. Að því er varðaði framvirka samninga hafi staða þeirra þurft að koma fram í gjaldeyrisjöfnuði fjárstýringar. Hafi bankinn almennt varið áhættu af slíkum viðskiptum. Svo sem fyrr greinir fannst ekki í bókhaldi eða tölvukerfum A hf., við rannsókn á bókhaldi og kerfum hans, söluréttarsamningur um sölu á hlutabréfum í A hf., sem ákærðu Y og Z staðhæfa að gerður hafi verið og sé ástæða millifærslu 3.016.750.000 króna 19. desember 2007. Ekki fannst heldur gjaldmiðlaskiptasamningur, sem ákærðu staðhæfa að legið hafi til grundvallar millifærslu 3.080.250.000 króna 30. júní 2008. 

Hvað sem líður þeirri skýringu ákærðu, Y og Z, að kaup Þ á hlutabréfum í KK hf. á árinu 2007 megi upphaflega rekja til slita á krosseignarhaldi á milli A hf. og KK hf. verður ekki fram hjá því litið að þegar á árinu 2007 voru blikur á lofti á fjármálamörkuðum vegna skorts á aðgengi banka að lánsfjármagni. Svo sem fram hefur komið í málum er tengjast hinu íslenska efnahagshruni og rekin hafa verið fyrir íslenskum dómstólum leiddi þessi skortur meðal annars til þess að íslensku bankarnir opnuðu útibú í Evrópu í því skyni að koma höndum yfir innlánsfé og bregðast með því við skorti á lausafjárinnstreymi. Kreppa á fjármálamörkuðum var yfirvofandi. Stjórnendum A hf., sem og stærsta eiganda bankans KK hf., mátti því vera ljóst sumarið 2007 að líkur væru á því að hlutabréf í KK hf. myndu lækka á komandi mánuðum, svo sem síðar varð raunin.   

A hf. var ekki skráður eigandi að félaginu Þ er millifærslur samkvæmt ákæru fóru fram. Var félagið því ekki innan samstæðuuppgjörs bankans. Því var um óskyldan lögaðila að ræða. Ákærðu, Y og Z, leituðust ekki við að koma málum þannig fyrir að A hf. ætti endurkröfu á félagið Þ vegna þessara millifærslna, svo sem verið hefði ef um venjubundin lánsviðskipti hefði verið að ræða. Ef framburðir ákærðu eru teknir trúanlegir um gerð söluréttarsamnings og gjaldmiðlaskiptasamnings lá fyrir á þeim tíma sem til þessara gerninga var stofnað, að umtalsverður fjárhagslegur ávinningur yrði af gerningunum fyrir Þ. Hefur ákærði Y að sínu leyti viðurkennt þetta í þeim framburði sínum að markmiðið með millifærslunum hafi verið að lækka skuld Þ við A hf. Sú staðreynd að ætlaður söluréttarsamningur frá í október 2007 og ætlaðir gjaldmiðlaskiptasamningar frá 23. maí 2008 voru ekki í bókum A hf., sem hefði leitt til þess að aldrei hefði verið unnt að verja þá, skýtur ennfremur stoðum undir að ekki hafi verið um lögmæta fjármálagerninga að ræða. Fjármunayfirfærslurnar, samkvæmt I. og II. kafla ákæru voru því í formi gjafagerninga er til þeirra var stofnað, þær röskuðu fjárskiptagrundvellinum og voru ekki liður í lögmætum viðskiptum.

Ákærði Y tók ákvörðun um að láta millifæra ríflega 6 milljarða króna, samkvæmt I. og II. kafla ákæru, út af reikningum A hf. inn á reikning B á þeirri forsendu að fjárhæðin yrði síðan millifærð þaðan áfram inn á reikning Þ. Ákærði gaf ákærðu X nauðsynleg fyrirmæli til að millifærslan yrði framkvæmd. Með þessari ólögmætu háttsemi sinni dró ákærði Y félaginu Þ þessa fjármuni, sem hann hafði í vörslum sínum sem forstjóri A hf. Hefur hann með þessari háttsemi gerst sekur um brot gegn 247. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði Z veitti ákærða Y liðsinni til verksins. Fólst þátttaka hans í brotinu í því að leggja á ráðin með ákærða Y um viðskiptin og gefa undirmönnum sínum nauðsynleg fyrirmæli til að fjármunayfirfærslunum yrði við komið. Verður ákærði Z sakfelldur fyrir hlutdeild í fjárdráttarbroti ákærða Y samkvæmt I. og II. köflum ákæru. 

Ákærði Y tók ákvörðun um að láta A hf. kaupa skuldabréf, samkvæmt III. kafla ákæru, af Þ á nafnverði, þegar markaðsverð bréfanna var langtum lægra en nafnverðið. Hafði Þ keypt skuldabréfin skömmu áður á markaðsverði af Þ. Á grundvelli þessara viðskipta sat eftir um 2ja milljarða króna hagnaður inni hjá Þ. Ákærða Y var kunnugt um verð sem Þ hafði keypt bréfin á af B. Ákærði Y lýsti því að kaupin hafi verið liður í að rétta af stöðu Þ gagnvart A hf. Engar lögmætar viðskiptalegar forsendur gátu legið að baki slíkum viðskiptum og átti A hf. þess ekki kost að endurheimta fjármunina síðar, svo sem verið hefði ef um venjubundin lánsviðskipti hefði verið að ræða. Með því að kaupa bréfin á nafnverði sat eftir óréttmætur hagnaður inni í félaginu Þ á kostnað A hf. Fór ákærði Y með þessu út fyrir umboð sitt til viðskipta fyrir hönd A hf. Verður hann því sakfelldur samkvæmt III. kafla ákæru fyrir brot gegn 249. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði Z veitti ákærða Y sem fyrr liðsinni við verkið. Verður hann því sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum ákærða Y.  

Ákærða X hefur fullyrt að hún hafi gefið undirmönnum sínum innan A hf. fyrirmæli um millifærslur fjármuna, samkvæmt I., II. og III. kafla ákæru, eftir að hafa áður fengið fyrirmæli þar að lútandi frá ákærða Y. Hafi hún talið lögmæta viðskiptagerninga búa að baki og séð þá. Hún hafi ekki verið meðvituð um að fjármununum yrði síðar ráðstafað inn á reikning Þ hjá B. Ákærði Y hefur staðfest þennan framburð ákærðu X og lýst því að hún hafi ekki verið upplýst um að fjármunir samkvæmt ákæru myndu renna inn á reikning Þ hjá B. Bar ákærði að ákærða hafi verið að fylgja fyrirmælum ákærða Y um millifærslurnar. Gögn málsins eða framburðir ákærðu eða vitna leiða ekki í ljós, svo vafalaust sé, vitneskju ákærðu X um kaup Þ á hlutabréfum í KK hf., eða að hún hafi þekkt til þess að millifærslunum væri ætlað að lækka skuld Þ við A hf. Þegar það er virt er að mati dómsins ekki komin fram lögfull sönnun um brot ákærðu gegn 247. gr. eða 249. gr. laga nr. 19/1940. Verður ákærða því sýknuð af öllum sakarefnum í málinu.

Sannað er að ákærði Æ var eigandi Þ þegar fjármunir, samkvæmt I., II. og III. kafla ákæru, voru millifærðir inn á reikning félagsins. Þ var meðal þeirra félaga ákærða sem voru í viðskiptum við B. Með hliðsjón af því sem áður var rakið um aðdraganda að stofnun félagsins Þ og kaup félagsins á hlutabréfum í KK hf. er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi í upphafi viðskipta verið með í ráðum þegar kaup félagsins á nefndum hlutabréfum voru ákveðin. Gátu honum á engan hátt dulist hreyfingar fjármuna sem áttu sér stað inni á reikningi félagsins í B, allt frá því í júní 2007, þegar fyrstu viðskipti með hlutabréf í KK hf. áttu sér stað. Eins og áður var rakið innti félagið af hendi 5,5 milljarða króna greiðslu fyrir hlutabréf í KK hf., 18. júlí 2007, til MM ehf. og 5,9 milljarða króna greiðslu fyrir hlutabréf í KK hf., 21. desember 2007, til eignarhaldsfélagsins. Ekki verður séð að ákærði hafi ritað undir lánsskjöl gagnvart B varðandi þessar útgreiðslur. Gögn málsins eða framburðir ákærðu eða vitna leiða hins vegar ekki í ljós að ákærði hafi þekkt einstök atriði varðandi millifærslur fjármuna frá A hf. inn á reikning B og þaðan áfram inn á reikning Þ eða á hvaða grundvelli það hafi verið gert. Hefur ákærði Z lýst því að hann hafi alfarið tekið ákvörðun um viðskiptin fyrir hönd Þ. Vafi leikur þannig á að hvaða marki ákærði hafi haft vitneskju um að ólögmæt viðskipti eða samningar hafi legið að baki millifærslunum. Þar sem sök hans telst ekki sönnuð að því leyti verður hann sýknaður af hylmingu samkvæmt 254. gr. laga nr. 19/1940. Þá er vafa undirorpið að hvaða marki ákærða var ljóst að hann væri að geyma ávinning af auðgunarbrotum meðákærðu. Dómurinn telur hins vegar fram komið að ákærði hafi látið sér þessi atriði í réttu rúmi liggja. Hafi honum, sem eiganda Þ og í ljósi þeirra fjárhæða sem um ræddi, borið að krefja meðákærðu upplýsinga um forsendur að baki millifærslunum. Verður háttsemi ákærða metin honum til gáleysis og felld undir 4. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði Y er fæddur í [...], ákærði Z í [...] og ákærði Æ í [...]. Ákærði Y var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2013, sem staðfestur var hvað refsingu ákærða varðar í Hæstarétti [...] 2015, dæmdur í 5 ára og 6 mánaða fangelsi fyrir umboðssvik og brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti. Ákærða var ekki gerð sérstök refsing í dómi héraðsdóms [...] vegna umboðssvika og brota gegn lögum um verðbréfaviðskipti, en um hegningarauka var að ræða við fyrri dóm. Ákærði Z var, á sama tíma og meðákærði og að hluta til vegna samskonar háttsemi, dæmdur í fangelsi 4 ár og 6 mánuði. Ákærði Æ hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, svo kunnugt sé. 

Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að fjárdráttarbrot, samkvæmt I. og II. kafla ákæru, snérust um gífurlegar fjárhæðir. Sama á við um umboðssvik samkvæmt III. kafla ákæru. Fól háttsemi ákærðu, samkvæmt þessum köflum ákæru, í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns. Ákærðu eiga sér engar málsbætur. Brot gegn 247. gr. og 249. gr. laga nr. 19/1940 varðar allt að 6 ára fangelsi. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940 varðar hlutdeild í broti gegn lögunum sömu refsingu og við brotinu er lögð.  Brot gegn 4. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940, varðar allt að 6 mánaða fangelsi. Að öllu framangreindu virtu og með tilliti til þess að brot ákærðu Y og Z eru hegningarauki við refsidóminn frá 12. desember 2013, sem leiðir til þess að þeir verða ekki dæmdir í þyngri refsingu en 6 og 18 mánaða fangelsi sökum refsihámarksins sem áður var nefnt, skal ákærði Y sæta fangelsi í 6 mánuði, ákærði Z sæta fangelsi í 18 mánuði og ákærði Æ sæta fangelsi í 6 mánuði.

 

VII

Upptaka

Í ákæru er þess krafist, með vísan til 1. mgr. 69. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 69. gr. þágildandi upptökuákvæða sömu laga, að ákærða Æ og félögunum Þ, I, J, K og L verði gert að sæta upptöku á tilgreindum innstæðum og eignasöfnum á reikningum í bönkunum M og N í Lúxemborg.

Ákærði Æ krefst þess að kröfum um upptöku verði hafnað. Félögin I, J, K og L gera kröfu um að málinu verði vísað frá dómi að því er þau varðar, ellegar gera þau kröfu um að upptökukröfum verði hafnað. Félagið Þ krefst þess að upptökukröfu verði hafnað.

Krafa ákærða Æ og ákærðu félaganna I o.fl. um frávísun málsins varðandi upptöku byggir á því að refsilögsaga íslenska ríkisins nái ekki til ákærða og þessara félaga. Að því er þessar varnir ákærðu varðar er til þess að líta að ákæra miðar við að frumbrot samkvæmt ákæru hafi verið framið hér á landi. Afleiðingar brotanna hafi komið fram í Lúxemborg með því að félagið Þ hafi auðgast með óréttmætum hætti vegna hinnar saknæmu háttsemi ákærðu. Hinn  óréttmæti ávinningur hafi runnið inn til annarra félaga ákærða Æ samkvæmt ákæru. Með hliðsjón af 1. tl. 4. gr., sbr. 7. gr. laga nr. 19/1940, sbr. og 2. tl. 1. mgr. 5. gr. laganna nær íslensk refsilögsaga til krafna um upptöku í málinu. Það fer síðan eftir ákvæðum laga í Lúxemborg hvert gildi úrlausna íslenskra dómstóla er þar í landi sem mæla fyrir um upptöku fjármuna í Lúxemborg. Verður kröfum á hendur ákærða Æ eða hinum ákærðu félögum ekki vísað frá dómi á þessum grundvelli.

Eftir þágildandi 3. tl. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 19/1940, sem krafa um upptöku fer eftir, má gera upptækt með dómi muni eða ávinning, sem aflað hefur verið með broti og enginn á löglegt tilkall til, eða fjárhæð sem svarar til slíks ávinnings. Ef ekki er unnt að færa fullar sönnur á fjárhæð ávinnings er dómara heimilt að áætla fjárhæðina. Að framan hefur því verið slegið föstu að félagið Þ hafi auðgast við hinar ólögmætu millifærslur fjármuna frá A hf. Við kyrrsetningu fjármuna í félaginu undir rannsókn málsins náði kyrrsetningin til verðbréfa, fjárfestingarsjóðs og innstæða á hlaupareikningi í M samtals að fjárhæð 6.763.253 evrur. Á grundvelli þágildandi 3. tl. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 19/1940, sem heimilar jafnvirðisupptöku, verða allir fjármunir og aðrar eignir inni á reikningi nr. 400637 gerðir upptækir til ríkissjóðs.

Á sama tíma og fjármunir Þ voru kyrrsettir í ofangreindum banka voru jafnframt kyrrsettar eignir ákærða Æ og ákærðu félaganna I, J, K og L í N í Lúxemborg. Með lögum nr. 149/2009, um breyting á lögum nr. 19/1940, var ákvæðum VII. kafla laganna breytt umtalsvert, í þeim tilgangi að rýmka gildissvið ákvæða um eignaupptöku og gera ákvæðin skýrari til að unnt væri að bregðast betur við skipulagðri brotastarfsemi. Var í þessu skyni lögfestur nýr kafli, VII. A, um upptöku. Var að því stefnt eftir lagabreytinguna að unnt yrði að bregðast við því ef ávinningi brots hefði verið breytt eða skipt í aðrar eignir eða ef ávinningi brots hefði verið blandað saman við aðrar eignir að hluta eða öllu leyti, sem aflað hefði verið með lögmætum hætti. Eins var ætlunin að bregðast við því ef eignum hefði verið skotið undan og verið færðar til annarra einstaklinga eða lögaðila, en ákvæði eldri laga þóttu ekki geta náð til slíkra aðstæðna.

Í október 2008 runnu fjármunir út af reikningi Þ inn á reikning félagsins I og blandaðist um leið inn í aðrar eignir félaga í eigu ákærða Æ. Að mati dómsins, og þá sérstaklega í ljósi þeirra lagabreytinga er áttu sér stað með gildistöku laga nr. 149/2009, þykir þágildandi ákvæði 3. tl. 69. gr. laga nr. 19/1940 ekki fullnægjandi lagaheimild til upptöku fjármuna úr fórum ákærða Æ eða í félögunum I, J, K og L. Verður því hafnað kröfu ákæruvaldsins um upptöku fjármuna gagnvart ákærða Æ og þessum ákærðu félögum.

 

VIII

Skaðabætur

Af hálfu kröfuhafans A hf. er þess krafist að ákærðu verði dæmd til greiðslu skaðabóta og málskostnaðar. Aðallega er þess krafist að ákærðu Y, Z, X og Æ verði dæmd til að greiða A hf. óskipt 6.097.000.000 krónur, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum, og óskipt 15.648.350,78 evrur og 3.563.747,55 Bandaríkjadali, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum. Til vara er krafist greiðslu skaðabóta að álitum. Til þrautavara er krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu ákærðu. Þá er gerð sú krafa að nýtt verði heimild í 69. gr. e laga nr. 19/1940 til að ákveða í dómi að verðmæti sem gerð eru upptæk og andvirði þeirra skuli nýtt til greiðslu á skaðabótakröfum A hf. að því marki sem þau hrökkva til greiðslu krafnanna og jafnframt að A hf. skuli í því skyni eiga forgang til upptækra verðmæta og andvirðis þeirra. A hf. byggir skaðabótakröfu sína á hinni almennu skaðabótareglu, sakarreglunni, vegna  þess tjóns sem ákærðu hafi valdið bankanum með þeirri saknæmu háttsemi sem ákært er fyrir í málinu. 

Ákærðu krefjast þess aðallega að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi. Til vara krefjast þau sýknu af skaðabótakröfu, en til þrautavara að hún verði lækkuð. Þá krefjast ákærðu málskostnaðar. Ákærðu byggja á því að skaðabótakrafan sé vanreifuð og ósönnuð. Ekki hafi verið gerð tilraun til að sýna fram á fjártjón og þá hverrar fjárhæðar slíkt fjártjón sé. Í 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög sé að finna sérreglu um skaðabótaábyrgð stjórnenda hlutafélags. Samkvæmt ákvæðinu sé stjórnendum skylt að bæta hlutafélagi það tjón sem þeir hafi valdið í störfum sínum. Ákvörðun um það skuli tekin á hluthafafundi. Mál þurfi að höfða á hendur stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum innan tveggja ára frá lokum þess reikningsárs sem ákvörðun eða athöfn sem málið varði hafi verið tekin. Regla 134. gr. sé sérregla sem ekki verði beitt samhliða sakarreglunni. Frestur til málshöfðunar hafi runnið út áður en skaðabótakrafa hafi legið fyrir í málinu af hálfu A hf. Hvað sem þessu líði fyrnist skaðabótakröfur á 4 árum frá því A hf. hafi fengið nauðsynlegar upplýsingar um tjónið. Félagið hafi búið yfir nauðsynlegum gögnum og upplýsingum við stofndag ætlaðrar kröfu. Krafan sé fyrnd. Þá sé sýknukrafa byggð á meginreglum um tómlæti. Engum athugasemdum hafi verið hreyft vegna viðskiptanna fyrr en 5 til 6 árum eftir þau.

Varakrafa sé um lækkun. Í 3. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 sé kveðið á um heimild til að lækka skaðabótakröfur. Þá sé vísað til 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um hina almennu reglu um lækkun skaðabótakröfu eða niðurfall skaðabótaábyrgðar. Reglur þessar eigi við í málinu. Þá hafi A hf. borið að takmarka tjón sitt. Svokölluð stjórnendaábyrgð hafi verið í gildi í A hf. Ekki hafi verið látið reyna á hana gagnvart vátryggjendum. Ákærði Y krefst þess einnig að frá skaðabótum verði dreginn réttur ákærða til launa í uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi.

Ákærða X hefur hér í dómi verið sýknuð af refsikröfu ákæruvaldsins. Verður skaðabótakröfu á hendur henni vísað frá dómi á grundvelli 2. mgr. 176. gr.  laga nr. 88/2008.

Skaðabótakrafa A hf. nýtur þess réttarfarshagræðis að vera rekin samhliða refsimáli á hendur ákærðu, sbr. 1. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 5. mgr. 173. gr. laganna. Sá sem neytir heimildar samkvæmt 1. mgr. 172. gr. laganna verður ekki aðili að sakamáli nema að því leyti einu sem varðar kröfu hans, sbr. 3. mgr. 172. gr. laganna. Gagnaöflun og flutningur um skaðabótakröfu kröfuhafans A hf. verður, eðli máls samkvæmt, takmarkaðri en ef krafan hefði verið höfð uppi í almennu einkamáli á hendur ákærðu, þar sem krafan má ekki tefja framgang refsimálsins. Ákærðu hafa uppi varnir gegn skaðabótakröfunni byggðar á sérreglum laga nr. 2/1995, reglum um fyrningu og tómlæti og lækkunarheimildum laga nr. 2/2995 og laga nr. 50/1993. Skaðabótakrafan er ekki reifuð þannig hér fyrir dóminum af hálfu kröfuhafa við aðalmeðferð málsins, að teknu tilliti til þeirra mótbára er ákærðu hafa uppi, að unnt sé að dæma ákærðu til greiðslu skaðabóta, hvorki þannig sem krafist er, né að álitum. Hefði skaðabótakröfunni því verið vísað frá dómi ef ekki hefði verið fyrir þær sakir að A hf. hefur uppi þrautavarakröfu um viðurkenningu skaðabótaskyldu. 

Ákærðu Y, Z og Æ, hafa hér að framan verið sakfelldir fyrir refsiverða háttsemi gagnvart A hf. Því er slegið föstu að með þessari ólögmætu háttsemi sinni hafi ákærðu bakað A hf. eitthvert fjártjón, sem þeim ber að bæta eftir reglum skaðabótaréttar. Þar sem þannig háttar til verður ekki hjá því komist að taka til greina þrautavarakröfu A hf. og viðurkenna skaðabótaskyldu ákærðu Y, Z og Æ gagnvart bankanum. Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af þessum þætti málsins. 

 

IX

Sakarkostnaður

Ekki hefur annan sakarkostnað leitt af máli þessu en kostnað við vörn ákærðu. Ákærðu greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna og útlagðan kostnað þeirra, með þeim hætti er í dómsorði er mælt fyrir um. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.  

 

D ó m s o r ð :

Ákærði Y sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði Z sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði Æ sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærða X er sýkn af kröfum ákæruvalds. 

Upptækt er gert til ríkissjóðs öll verðbréf, allur fjárfestingarsjóður og öll innstæða á hlaupareikningi nr. 400637, sem við útgáfu ákæru í málinu nam samtals 6.763.253 evrum, sem yfirvöld í Lúxemborg lögðu hald á undir rannsókn málsins inni á reikningi Þ í M í Lúxemborg.

Hafnað er kröfu ákæruvalds um upptöku eigna ákærðu Æ og hinna ákærðu félaga I, J, K og L, sem yfirvöld í Lúxemborg lögðu hald á undir rannsókn málsins inni á reikningum félaganna í N í Lúxemborg.

Vísað er frá dómi skaðabótakröfu A hf. á hendur ákærðu X. Málskostnaður fellur niður.

Viðurkennd er skaðabótaskylda ákærðu Y, Z og Æ gagnvart A hf. á grundvelli háttsemi sem sakfellt er fyrir í máli þessu. Málskostnaður fellur niður.

Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Harðar Felix Harðarsonar hæstaréttarlögmanns, 21.871.740 krónur og útlagðan kostnað verjandans að fjárhæð 1.728.932 krónur.

Ákærði Z greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns, 11.682.660 krónur.

Ákærði Æ greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Halldórs Þ. Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 16.613.520 krónur og útlagðan kostnað verjandans að fjárhæð 865.549 krónur, og málsvarnarlaun tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi, Garðars G. Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, 7.754.340 krónur.

Úr ríkissjóði greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu X, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 18.270.780 krónur.

Þ greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 1.861.860 krónur.

Úr ríkissjóði greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda félaganna I, J, K og L, Ólafs Arnar Svanssonar hæstaréttarlögmanns, 11.682.660 krónur og útlagðan kostnað verjandans að fjárhæð 1.104.968 krónur.