Print

Mál nr. 382/2003

Lykilorð
  • Meiðyrði
  • Stjórnarskrá
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Miskabætur

Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. mars 2004.

Nr. 382/2003.

Bjarni F. Einarsson

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Guðrúnu Sveinbjarnardóttur

Helga Þorlákssyni og

John Hines

(Hörður F. Harðarson hrl.)

 

Meiðyrði. Stjórnarskrá. Tjáningarfrelsi. Friðhelgi einkalífs. Miskabætur.

B sótti um stöðu kennara við HÍ og sátu G, H og J í dómnefnd sem meta skyldi hæfi umsækjenda í samræmi við 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands. Talið var að tilgreind tvenn ummæli, sem komu fram í áliti dómnefndarinnar um störf B, hefðu verið ærumeiðandi og voru þau dæmd ómerk og B dæmdar miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. september 2003. Hann krefst þess að síðargreind ummæli í áliti dómnefndar um starf kennara í fornleifafræði við heimspekideild Háskóla Íslands verði dæmd dauð og ómerk og að stefndu greiði honum óskipt 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.000.000 krónum frá 28. nóvember 2002 til uppsögu dóms í málinu, en af 1.500.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara, að fjárkrafa áfrýjanda verði lækkuð.

I.

Málsatvik eru rakin í héraðsdómi og eru þau ágreiningslaus. Stefndu sátu í dómnefnd til að meta hæfi sækjenda um starf kennara, dósents eða lektors, í fornleifafræði við sagnfræðiskor heimspekideildar Háskóla Íslands, sem auglýst var 31. desember 2001. Áfrýjandi var einn fjögurra umsækjenda, og þau ummæli sem krafist er ómerkingar á, komu fram í áliti dómnefndarinnar. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að einn umsækjenda væri hæfur til að gegna starfi dósents og annar til að gegna starfi lektors. Tveir voru ekki taldir hæfir. Annar þeirra var áfrýjandi en hinn dró umsókn sína til baka, og var umsögn dómnefndar um hann felld niður í endanlegri gerð dómnefndarálitsins.

Hin átöldu ummæli voru í þeim hluta dómnefndarálits sem fjallaði um áfrýjanda. Hann segir að í álitsgerðinni komi fram ýmis ummæli, sem vegi að æru hans og persónu, en einkum séu það tvenn ummæli sem séu mjög ærumeiðandi fyrir hann. Þau séu lítt eða ekki rökstudd þótt þau feli í sér sterkar fullyrðingar um störf hans. Ummælin séu sérlega meiðandi fyrir fornleifafræðing sem sinni mikið rannsóknum, meðal annars fyrir opinbera aðila. Hann telur samhengis vegna nauðsynlegt að birtur sé eftirfarandi texti úr álitinu, en þar séu feitletruð ummælin sem krafist er ómerkingar á:

1.      „Minjarnar í Hólmi í Laxárdal virðast vera enn eitt dæmi um landnámsbýli sem ekki var vitað um áður og rannsókn þeirra er því mikilvægt framlag til rannsókna á fyrstu byggð í landinu. Lítið verður sett út á aðferðir Bjarna við uppgröftinn. Sama er ekki hægt að segja um túlkun hans á minjunum. Þar slær hann fram fullyrðingum sem ekki eru byggðar á neinum rökum, en það er hreint og beint ábyrgðarleysi.“

2.      „Rannsóknin var gerð fyrir Vegagerðina vegna fyrirhugaðrar vegagerðar sem kæmi til með að eyðileggja rúst á Snæfellsnesi. Farið var út í nákvæma fornleifarannsókn á nausti frá 20. öld sem upplýsingar hefði mátt fá um frá staðarmönnum fyrir rannsókn. Rústin, sem var eyðilögð við rannsóknina, var ekki staðsett í landskerfi. Tilgangi rannsóknarinnar var því ekki náð og illa var farið með almannafé.“

Áfrýjandi sendi athugasemdir við niðurstöðu dómnefndarinnar með bréfi til rektors Háskóla Íslands 12. maí 2002 og fór fram á að niðurstaðan yrði ógilt og skipuð ný nefnd, sem fjallaði á nýjan leik um umsækjendur. Hann gerði og athugasemdir við skipan dómnefndarinnar, efnislega meðferð hennar á umsókn hans og umsögn hennar um einstök ritverk hans sem fylgdu umsókninni. Rektor sendi athugasemdirnar til stefndu, sem svöruðu þeim með bréfi í sama mánuði. Þar tekur dómnefndin fram að athugasemdir áfrýjanda breyti ekki niðurstöðu hennar. Engu að síður viðurkenndi nefndin að „óþarflega fast“ hafi verið kveðið að orði í álitinu og felldi því niður í endanlegri álitsgerð síðasta málsliðinn í umsögn um rannsókn á Hjarðarbólsodda, sem feitletraður er undir 2. tölulið.

Áfrýjandi reisir kröfu sína varðandi hin auðkenndu ummæli undir 1. tölulið á því að fullyrðing dómnefndar um að hann hafi ekki stutt niðurstöðu sína neinum rökum sé röng. Fullyrðingin um ábyrgðarleysi sé engum rökum studd. Með henni hafi dómnefndin farið út fyrir hlutverk sitt og kveðið upp eins konar siðferðisdóm yfir honum. Telur hann ummælin mjög móðgandi fyrir sig og því brot á 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

Varðandi ummælin undir 2. tölulið bendir áfrýjandi á, að þau séu bæði harkaleg og ósönn. Dómnefndin hefði getað leitað nánari skýringa áður en þau voru birt en ekki gert. Eftir að skýring hafði verið veitt hafi ummælin verið felld úr lokagerð álitsins. Ummælin séu tilhæfulausar, ærumeiðandi aðdróttanir í hans garð, sett fram ófyrirsynju og því brot á 235. gr. almennra hegningarlaga. Engu breyti þótt nefndin hafi fellt ummælin niður í endanlegri útgáfu álitsins, brotið hafi verið fullframið með gerð upphaflega álitsins og sendingu þess til rektors.

Áfrýjandi segir ekki um það deilt að gagnrýni á verk hans og annarra umsækjenda sé nauðsynlegur hluti starfa nefndarinnar og njóti hún því rýmkaðs tjáningarfrelsis. Öll gagnrýni slíkrar nefndar verði hins vegar að byggjast á traustum rökum, auk þess að falla undir starfssvið hennar og vera í samræmi við hlutverk hennar. Því séu gerðar kröfur um sanngjarnan og hófsaman búning gagnrýninnar, ummælin megi ekki vera staðlausar dylgjur.

Málsástæður stefndu eru raktar í héraðsdómi. Stefndu halda því meðal annars fram að hin átöldu ummæli séu gildisdómar en ekki staðhæfingar um staðreyndir. Samkvæmt dómaframkvæmd í meiðyrðamálum verði gildisdómar ekki sannaðir, þeir séu skoðanir sem ekki feli sér ærumeiðingar í opinberri umræðu.

II.

Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands var hlutverk stefndu, sem annarra dómnefndarmanna, að láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða mætti af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann væri hæfur til að gegna starfinu. Dómnefndinni bar að fylgja almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar og rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna og gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þeim bar samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar að sjá til þess að nægar upplýsingar lægju fyrir svo að unnt væri að fjalla um álitið á málefnalegan hátt. Ítarleg fyrirmæli um dómnefndir, mat á hæfi umsækjenda, dómnefndarálit og meðferð þess, svo og afgreiðslu máls, eru í 42. - 45. gr. reglugerðar nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands. Í 8. mgr. 42. gr. hennar kemur fram að dómnefnd sé heimilt að afla frekari gagna um umsækjendur, telji hún þau nauðsynleg til að leggja mat á hæfi þeirra.

Stefndu njóta tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar, og allar takmarkanir á því ber að skýra þröngt. Ágreiningslaust er að þetta frelsi stefndu sé rúmt vegna stöðu þeirra og skyldu til að leggja dóm á og gagnrýna verk áfrýjanda og annarra umsækjenda. Álitaefni máls þessa er því um mörk frelsis stefndu til tjáningar og æruverndar áfrýjanda samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Fallast ber á með stefndu að gildisdómar í opinberri umræðu um samfélagsleg málefni séu almennt ekki refsiverðir. Hins er að gæta, að með umsókn sinni um starfið tók áfrýjandi ekki þátt í opinberri umræðu um samfélagsmál og ummæli stefndu um hann féllu ekki í slíkri umræðu heldur drögum að dómnefndaráliti, sem samið skyldi eftir ströngum reglum, þar sem engin réttlæting er fyrir því að vegið sé að æru manna. Í þessu ljósi verða ummælin skoðuð.

1. töluliður. Fyrir héraðsdómi voru tvö af stefndu spurð um fyrri ummælin, að áfrýjandi hafi slegið fram „fullyrðingum sem ekki eru byggðar á neinum rökum, en það er hreint og beint ábyrgðarleysi.“ Annað þeirra svaraði, að þeim hafi ekki þótt áfrýjandi rökstyðja þetta nógu vel, og hitt, að rök hans hafi ekki verið gild að þeirra mati. Mikill munur er á því að segja að fullyrðingar séu ekki byggðar á neinum rökum og að segja að rökin séu ekki fullnægjandi eða ekki gild að mati álitsgjafa. Hið síðara hefðu stefndu hæglega getað sagt í álitinu, en gerðu ekki. Ummæli stefndu eru röng og meiðandi fyrir áfrýjanda og til þess fallin að skerða fræðimannsheiður hans. Með þeim gerðust stefndu brotleg við 234. gr. almennra hegningarlaga og ber að ómerkja ummælin samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laganna.

2. töluliður. Síðari ummælin tóku stefndu úr drögum að áliti eftir að hafa fengið skýringu frá áfrýjanda. Þau hafa ekki borið því við sér til varnar í málinu að þar með hafi ummælin orðið þeim refsilaus. Skýringuna gátu þau hæglega fengið áður en þau létu þessi ummæli frá sér fara, enda mátti ljóst vera að viðkomandi rannsókn hafi verið gerð að beiðni Vegagerðarinnar og kostuð af henni. Með ummælunum dróttuðu þau að áfrýjanda eyðslusemi og ófaglegum vinnubrögðum. Ummælin fela því í sér siðferðisdóm, sem er meiðandi fyrir áfrýjanda, enda tilhæfulaus og óviðurkvæmileg í dómnefndaráliti. Þau eru brot á 235. gr. almennra hegningarlaga og verða því einnig dæmd ómerk samkvæmt 1. mgr.  241. gr. sömu laga.

Í málinu krefst áfrýjandi sem fyrr segir greiðslu á 1.500.000 krónum úr hendi stefndu, þar af 1.000.000 krónum í miskabætur og 500.000 krónum til að standa straum af birtingu dómsins í þremur dagblöðum.

 Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum skal sá sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn æru manns greiða honum miskabætur. Þau skilyrði eru uppfyllt í þessu máli. Við ákvörðun bótafjárhæðar verður að líta til þess að með forsendum þessa dóms út af fyrir sig hefur hlutur áfrýjanda verið réttur eftir því sem efni standa til. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 100.000 krónur. Verður stefndu gert að greiða áfrýjanda fjárhæðina sameiginlega ásamt vöxtum, eins og í dómsorði greinir.

Ekki eru efni til að taka til greina kröfu áfrýjanda um fjárgreiðslu vegna birtingar dóms, þar sem ummæli stefndu voru ekki birt í fjölmiðlum.

Stefndu verða dæmd til að greiða áfrýjanda sameiginlega málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Framangreind ummæli eru ómerk.

Stefndu, Guðrún Sveinbjarnardóttir, Helgi Þorláksson og John Hines, greiði áfrýjanda, Bjarna F. Einarssyni, sameiginlega 100.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. nóvember 2002 til greiðsludags.

Stefndu greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 


Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2003.

       Mál þetta, sem dómtekið var 5. júní sl., er höfðað 28. nóvember 2002 af Bjarna F. Einarssyni, Framnesvegi 24b, Reykjavík, á hendur Guðrúnu Sveinbjarnardóttur, Skálholtsstíg 2, Reykjavík, Helga Þorlákssyni, Seljavegi 10, Reykjavík, og John Hines, 41 Stanwell Rd., Penarth, CF64 3LR, United Kingdom.

Stefnandi krefst þess að neðangreind ummæli í áliti dómnefndar um starf lektors eða dósents í fornleifafræði við heimspekideild Háskóla Íslands verði dæmd dauð og ómerk. Einnig krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða honum in solidum 1.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi, 28. nóvember 2002, og að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 28. nóvember 2003. Enn fremur krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða honum in solidum 500.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu í þremur dag­blöðum, að dæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001 frá dómsuppkvaðningu og að dráttarvextir leggist við höfuð­­­stól á 12 mánaða fresti. Stefnandi krefst málskostnaðar úr höndum stefndu in solidum að mati dómsins og að tekið verði tillit til þess að greiða þurfi virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Ummælin sem krafist er ómerkingar á koma fram í áliti dóm­nefndar­innar frá 23. apríl 2002 og eru undirstrikuð og feitletruð í eftirfarandi texta:

"Minjarnar í Hólmi í Laxárdal virðast vera enn eitt dæmi um landnámsbýli sem ekki var vitað um áður og rannsókn þeirra er því mikilvægt framlag til rannsókna á fyrstu byggð í landinu. Lítið verður sett út á aðferðir Bjarna við uppgröftinn. Sama er ekki hægt að segja um túlkun hans á minjunum. Þar slær hann fram fullyrðingum sem ekki eru byggðar á neinum rökum, en það er hreint og beint ábyrgðarleysi."

      ………

"Rannsóknin var gerð fyrir Vegagerðina vegna fyrirhugaðrar vegagerðar sem kæmi til með að eyðileggja rúst á Snæfellsnesi. Farið var út í nákvæma fornleifarannsókn á nausti frá 20. öld sem upplýsingar hefði mátt fá um frá staðarmönnum fyrir rannsókn. Rústin, sem var eyðilögð við rannsóknina, var ekki staðsett í landskerfi. Tilgangi rannsóknarinnar var því ekki náð og illa var farið með almannafé."

         Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara er krafist verulegrar lækkunar á fjárkröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun málskostnaðar verði þess gætt að greiða beri virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.

         Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

         Stefnandi sótti um kennarastarf í fornleifafræði sem auglýst var laust til umsóknar við sagnfræðiskor heimspekideildar Háskóla Íslands í Morgunblaðinu 31. desember 2001. Aflað var umsagnar dómnefndar sem skipuð var samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999. Í áliti nefndarinnar frá 23. apríl 2002 koma fram ummæli sem stefnandi telur að vegi að æru og persónu hans. Einkum séu þó tvenn ummæli mjög ærumeiðandi fyrir hann. Þau séu lítt eða ekki rökstudd þrátt fyrir að þau feli í sér sterkar fullyrðingar um störf hans. Stefnandi krefst miskabóta vegna þessa. Stefnandi telur ummælin jafnframt óviðurkvæmileg og krefst hann að þau verði ómerkt og að stefndu verði gert að greiða kostnað við birtingu dóms í dagblöðum.

         Stefndu mótmæla því að ummælin séu óviðurkvæmileg eða ærumeiðandi í garð stefnanda. Í þeim komi fram mat á störfum stefnanda og vísindalegu gildi rannsókna sem hann hafi lagt fram til mats. Dómnefndin hafi því eingöngu gert það sem henni hafi borið að gera samkvæmt lögum. Mótmælt er að álit nefndarinnar sé ekki nægilega rökstutt eða að nefndin hafi farið út fyrir þau mörk sem henni væru sett í lögum.     

         Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að með auglýsingu 31. desember 2001 hafi verið auglýst laust til umsóknar starf lektors eða dósents í fornleifafræði við sagnfræðiskor heimspeki­deildar Háskóla Íslands. Í auglýsingunni hafi meðal annars komið fram að niðurstöður mats dómnefndar á hæfi umsækjenda yrðu lagðar til grundvallar því hvort sá eða sú sem starfið hlyti yrði ráðinn sem dósent eða lektor. Í auglýsingunni hafi verið óskað eftir skýrslu umsækjenda um vísindastörf, rannsóknir og ritsmíðar auk yfirlits yfir námsferil og störf. Einnig skyldu fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf eftir því sem við ætti.

         Fjórir hafi sótt um starfið. Rektor Háskóla Íslands hafi skipað þriggja manna dómnefnd til að meta hæfi umsækjenda um stöðuna, sbr. 42. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000. Nefndin hafi verið skipuð stefndu, þeim Helga Þorlákssyni prófessor í sagnfræði, sem hafi verið tilnefndur af háskólaráði, John Hines prófessor í fornleifafræði, tilnefndur af mennta­mála­ráðuneytinu, og dr. Guðrúnu Sveinbjarnar­dóttur fornleifa­fræðingi, sem hafi verið tilnefnd af heimspeki­deild Há­skóla Íslands, og skyldi hún vera formaður nefndarinnar.

         Í áliti dómnefndarinnar um hæfi allra fjögurra umsækjenda frá 23. apríl 2002 sé gert grein fyrir hverjum umsækjanda um sig, farið yfir nám þeirra og störf, umsagnir og rannsóknir skoðaðar auk reynslu þeirra af kennslu og stjórnun. Niðurstaða dómnefndarinnar hafi verið sú að tveir umsækjenda væru hæfir til að gegna þeirri stöðu sem auglýst var. Nefndin hafi talið að Margrét væri hæf til að gegna stöðu lektors og Orri til að gegna starfi dósents. Jafnframt hafi dómnefndin talið að stefnandi og fjórði umsækjandinn væru ekki hæf til að gegna þessum stöðum.

         Stefnandi hafi gert athugasemdir við niðurstöðu dómnefndarinnar með bréfi til rektors Háskóla Íslands, dagsettu 12. maí 2002. Í bréfinu hafi hann farið fram á að niðurstaða nefndarinnar yrði ógilt og að ný nefnd yrði sett á fót sem fjallaði á nýjan leik um umsækjendur. Stefnandi hafi gert athugasemdir við skipan dómnefndarinnar, efnislega meðferð hennar á umsókn stefnanda og umsögn hennar um einstök ritverk stefnanda sem fylgt hafi umsókn hans. Rektor hafi ekki svarað þessu erindi en hann hafi sent athuga­semdirnar til dómnefndarinnar sem hafi svarað þeim með bréfi, dagsettu 27. maí 2002. Í því bréfi hafi dómnefndin tekið fram að athugasemdir stefn­anda um álit nefndarinnar breyttu ekki niðurstöðum hennar. Engu að síður hafi dómnefndin fallist á að "óþarflega fast" hafi verið kveðið að orði í álitinu og hafi hún því fellt niður síðasta málslið í umsögn um rannsókn á Hjarðarbólsodda. Þrátt fyrir athugasemdir stefnandi við álit dómnefndarinnar hafi rektor ákveðið að hætta hvorki við ráðningu í stöðuna né auglýsa hana á ný og hafi hann ráðið einn umsækjenda á grund­velli hins umdeilda álits dómnefndarinnar.

         Stefnandi telji að dómnefndin hafi farið út fyrir valdsvið sitt og vegið að æru hans í hinu umdeilda mati. Kveðinn hafi verið upp sið­ferðis­dómur yfir verkum stefnanda en ummælin séu sérlega meiðandi fyrir fornleifafræðing sem sinni mikið rannsóknum, m.a. fyrir opinbera aðila. Stefnandi hafi höfðað málið til að fá framangreind ummæli í álitinu dæmd dauð og ómerk og til að slík ómerking verði gerð opinber með birtingu dómsins í fjölmiðlum. Jafnframt krefjist stefnandi þess að stefndu greiði honum in solidum miskabætur fyrir hin ærumeiðandi ummæli.

         Vísað sé til þess að æra stefnanda sé vernduð samkvæmt íslenskum rétti. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar sé meðal annars kveðið á um friðhelgi einkalífs og æra manns njóti refsiverndar samkvæmt XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk verndar vegna ákvæða 26. gr. laga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Stefnandi telji hin umstefndu ummæli ærumeiðandi og að þau brjóti gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 127. og 128. gr. laga nr. 82/1998. Stefnandi krefjist þess að um­mælin verði dæmd óviðurkvæmileg og því ómerk, sbr. 241. gr. almennra hegningar­laga.

         Á grundvelli ofangreindra lagafyrirmæla telji stefnandi að dómnefnd um starf lektors eða dósents í fornleifafræði við heimspekideild Háskóla Íslands hafi farið langt út fyrir starfssvið sitt og hafi haft uppi ærumeiðandi móðganir og aðdróttanir í áliti sínu. Með þessu hafi verið vegið ósæmilega að starfsheiðri stefnanda og persónu og því beri stefndu að greiða stefnanda in solidum miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, eða samkvæmt mati réttarins, í samræmi við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.

         Dómnefndin sé matsaðili um hæfi umsækjanda. Við matið beri henni að láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda svo og af námsferli hans og störfum að hann sé hæfur til að gegna starfinu. Gagnrýni dómnefndarinnar á verk stefnanda og annarra umsækjanda sé nauðsynlegur hluti af starfi nefndarinnar og njóti því slík dómnefnd rýmkaðs tjáningar­frelsis og geti látið uppi gagnrýni á hugverk stefnanda. Hvorki sé deilt um þetta hlutverk dóm­nefndarinnar né heimildir hennar. Nefndinni sé heimilt og skylt að gagnrýna verk stefnanda sem og annarra umsækjenda. Öll gagnrýni dómnefndar eigi hins vegar að byggjast á traustum rökum og þar að auki verði hún að falla undir starfssvið hennar og vera í samræmi við hlutverk hennar. Af þeim sökum verði að gera kröfur um sanngjarnan og hófsaman búning gagnrýni; ummælin þurfi að vera rökstudd en megi ekki vera staðlausar dylgjur. Frá þessu hafi verið brugðið í hinu umdeilda áliti dómnefndarinnar. Ummælin gangi alltof langt, þau séu til þess fallin að meiða æru stefnanda og þau geti ekki talist eðlileg eða sanngjörn gagnrýni. Stefndu hafi sjálf viðurkennt að "óþarflega fast" hafi verið kveðið að orði og hafi samþykkt að fella niður ákveðin eigin ummæli eins og fram komi í umsögn stefndu frá 27. maí 2002. Þessi niðurfelling breyti engu um brot stefndu á 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en það hafi verið fullframið með gerð upphaflega álitsins og sendingu þess. Við munnlegan málflutning kom fram að stefndu hefðu átt að kalla eftir skýringum á rannsókn stefnanda, teldu stefndu þær vanta við matið.

         Krafa stefnanda um miskabætur byggi á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Samkvæmt þessu ákvæði skaðabótalaga sé heimilt að láta þann sem beri ábyrgð á "ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við." Tilgreind ummæli í álitsgerð dómnefndarinnar feli í sér "ólögmæta meingerð" gegn æru og persónu stefnanda í ofangreindum skilningi. Þannig sé skilyrðum lagagreinarinnar fullnægt og sé þess því krafist að fallist verði á miskabótakröfu stefnanda að fjárhæð 1.000.000 króna eða að mati réttarins.

         Stefnandi telji hin umstefndu ummæli varða við 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 127. og 128. gr. laga nr. 82/1998. Krafa stefnanda um ómerkingu ummæla byggðist á 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og krafa um að stefndu verði dæmdir til að greiða kostnað af birtingu dómsins á 2. mgr. 241. gr. sömu laga. Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Vaxtakrafa sé byggð á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en máls­kostnaðarkrafan styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

         Málsástæður og lagarök stefndu

         Stefndu vísa til þess að þau hafi verið skipuð í dómnefnd í samræmi við 3. mgr. 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands til að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna starfi kennara í fornleifafræði við sagnfræðiskor heimspeki­deildar Háskóla Íslands sem hafi verið auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 31. desember 2001. Umsóknir hafi borist frá fjórum einstaklingum og hafi stefnandi verið einn þeirra. Stefndu hafi skilað rektor áliti 23. apríl 2002 og hafi tveir umsækjenda verið taldir hæfir til að gegna starfi kennara í fornleifafræði, annar sem lektor en hinn sem dósent. Stefnandi hafi hvorki verið talinn hæfur til að gegna starfi lektors né dósents í fornleifafræði. Í samræmi við 3. mgr. 45. gr. reglna nr. 458/2000 hafi rektor sent umsækjendum álitið og gefið þeim kost á að gera skriflegar athugasemdir áður en það yrði sent heimspekideild til afgreiðslu. Athugasemdir hafi borist frá tveimur umsækj­enda, en einn þeirra hafi dregið umsókn sína til baka.

         Í athugasemdum sem stefnandi hafi sent rektor hafi þess verið krafist að álit dómnefndarinnar yrði ógilt og ný dómnefnd skipuð til að meta hæfi umsækjenda. Kröfuna hafi stefnandi meðal annars byggt á því að stefndu hefðu farið rangt með og sleppt mikilvægum atriðum við kynningu á störfum stefnanda, ekki gætt jafnræðis í fræðilegu mati og haft uppi ærumeiðandi ummæli um störf stefnanda. Stefnandi hafi einnig sett fram athugasemdir um sérstakt og almennt hæfi stefndu til setu í dóm­nefndinni. Stefndu hafi ekki talið tilefni til að gera breytingar á niðurstöðum dómnefndarálitsins. Þau hafi skilað skriflegri umsögn um athugasemdir stefnanda við dómnefndarálitið og endanlegu áliti 27. maí 2002. Í umsögn stefndu um athugasemdir stefnanda hafi verið fallist á að í umsögn um rannsókn á Hjarðarbóls­odda hafi verið kveðið óþarflega fast að orði og lokamálsliður umsagnarinnar felldur út úr álitinu. Hafi það verið gert með vísan til skýringa stefnanda og nýrra upplýsinga um óskir yfir­valda sem hafi óskað eftir rannsókninni. Rektor hafi sent dómnefndar­álitið deildar­forseta heimspekideildar til meðferðar. Eftir umfjöllun í stöðunefnd og sagnfræðiskor hafi dómnefndarálitið verið lagt fram til umfjöllunar og atkvæða­greiðslu á deildar­fundi heimspekideildar 19. júní 2002.

         Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands skuli dómnefnd "láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna starfinu." Í 43. gr. reglna nr. 458/2000 sé að finna nánari fyrirmæli um þau sjónarmið sem dómnefnd beri að leggja til grundvallar við mat sitt á hæfi umsækjenda. Samkvæmt 5. mgr. 43. gr. skuli við mat á rannsóknum leggja megináherslu á vísindagildi þeirra. Þá beri við matið að "athuga frumleika rannsóknarverkefnis og sjálfstæði gagnvart öðrum rannsóknum og ritverkum, þekkingu á stöðu rannsókna á viðkomandi fræðasviði, meðferð heimilda og vísindaleg vinnubrögð, fræðilegar nýjung­ar og eftir atvikum notagildi rannsókna." Starf dómnefnda felist samkvæmt framansögðu að verulegu leyti í því að meta hvort framlögð ritverk umsækjenda uppfylli þær kröfur sem gera verði til kennara á viðkomandi fræðasviði við Háskóla Íslands. Reglum laga nr. 41/1999 og reglum nr. 458/2000 um mat á hæfi umsækjenda sé ætlað að tryggja að til starfans veljist einungis einstaklingar sem búi yfir nægilegri þekkingu og reynslu til að þeir geti talist hæfir til að miðla af þekkingu sinni til nemenda við æðstu menntastofnun landsins. Áhersla sé lögð á rannsóknir og fræði­skrif umsækjenda, enda verði helst ráðið af þeim hvort umsækjandi hafi tamið sér þau vísindalegu vinnubrögð sem kennarar við Háskóla Íslands verði að hafa tileinkað sér.

         Stefnandi krefjist þess að tvenn ummæli í umsögnum stefndu um framlögð ritverk hans verði dæmd dauð og ómerk. Annars vegar sé um að ræða umsögn stefndu þar sem fjallað sé um skrif stefnanda um minjar sem fundist hafi í Hólmi í Laxárdal. Stefndu hafi talið verulega á það skorta í skrifum stefnanda að rök væru færð fyrir tilgátum eða staðhæfingum. Að mati stefndu sé það ábyrgðarleysi af stefnanda að slá fram fullyrðingum í fræðiskrifum án fullnægjandi raka. Gera verði þær kröfur til fræðimanna að þeir sýni aðgætni við túlkun heimilda og beiti vísindalegum aðferðum við að komast að niðurstöðum. Enn fremur verði að gera ríkar kröfur til þess að stefnandi færi sannfærandi rök fyrir fullyrðingum sínum eða tilgátum enda hafi verið um einstakan fund á minjum að ræða. Í umsögn stefndu sé meðal annars vísað til þess að niðurstaða um afstöðu jarðhýsisins í tíma til kumlsins sjálfs eða afstaða þess til bæjarstæðis kynni að varpa einhverju ljósi á eðli þessara minja. Þá hefði án nokkurs vafa verið þörf samanburðar við aðrar minjar, sem hefðu fundist, áður en slegið verði fram fullyrðingum af þessu tagi. Athugasemd stefndu um ábyrgðarleysi stefnanda verði að skoða í þessu samhengi. Hlutverk stefndu hafi verið að meta meðhöndlun stefnanda á heimildum og vinnubrögð sem hann hafi viðhaft við rannsóknir og túlkanir á helstu niðurstöðum slíkra rannsókna. Niðurstaða stefndu um að stefnandi hafi ekki gætt ábyrgrar fræðilegrar nálgunar að niðurstöðum eða tilgátum geti ekki með nokkru móti talist ærumeiðandi í skilningi 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga.

         Síðari ummælin, sem dómkröfur stefnanda taki til, sé að finna þar sem stefndu hafi fjallað um skýrslu stefnanda um fornleifarannsókn á rúst á Hjarðarbólsodda við Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi. Um hafi verið að ræða nákvæma fornleifarannsókn á nausti frá 20. öld sem staðarmenn hefðu haft upplýsingar um. Stefndu telji að upplýs­ingar hefði mátt fá með mun umfangsminni rannsókn. Rústin hafi verið eyðilögð við rannsóknina án þess að hafa áður verið staðsett í landskerfi. Af þessum sökum hafi stefndu talið að tilgangi rannsóknarinnar hefði ekki verið náð og hafi þau talið það gagnrýnivert. Tilvísun stefndu til þess að illa hafi verið farið með almannafé verði ekki skilin á annan hátt en þann að þeir fjármunir sem varið hafi verið til þessa verks hefðu að þeirra mati verið betur nýttir til annarra verka. Að mati stefndu sé það ábyrgðarhluti hjá fornleifafræðingi að eyða tíma og fjármunum til nákvæmra rannsókna á rústum sem standi okkur þetta nærri í tíma og afla hefði mátt upplýsinga um með öðrum og einfaldari hætti. Samkvæmt þjóðminjalögum nr. 107/2001 teljist minjar 100 ára og eldri til fornleifa og því ljóst að umrætt naust teljist ekki til fornleifa. Fjármunir til fornleifarannsókna séu af skornum skammti og afar mikilvægt að þeir séu vel nýttir. Gera verði þá kröfu til sérfræðinga sem veiti þjónustu við eftirlit og uppgröft fornleifa að þeir meti á ábyrgan hátt hverjar framkvæmdir séu nauðsyn­legar til að tryggja að ákvæði laga um verndun slíkra minja séu uppfyllt. Í athuga­semdum stefnanda við umsögn stefndu um þessa rannsókn komi fram að yfir­völd hafi farið fram á að umrædd rúst yrði rannsökuð með þessum tiltekna hætti. Í skýrslu stefnanda um rannsóknina hafi hins vegar hvorki verið gerð grein fyrir ástæðum né hver þörf hafi verið á hinni nákvæmu rannsókn. Í ljósi þessara nýju upplýsinga frá stefnanda hafi stefndu fallist á að fella niður síðasta málsliðinn í umsögn um rannsóknina. Ákvörðun um að fella ummælin niður verði hins vegar ekki jafnað til þess að stefndu hafi með því viðurkennt að ummælin væru ærumeiðandi í garð stefnanda. Stefndu telji þvert á móti að færð hafi verið fram fullnægjandi rök fyrir ummælunum. Í ljósi athugasemda stefnanda hafi það hins vegar verið mat stefndu að ummælanna væri ekki þörf og að fram hafi komið upplýsingar frá stefnanda sem hafi skýrt ástæður þess að farið var í svo umfangsmiklar rannsóknir.

         Hvorug ummælanna geti þó talist aðdróttun í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með aðdróttun sé fyrst og fremst átt við ásakanir um refsi­vert athæfi en ummæli stefndu verði ekki skilin þannig þegar virt er það samhengi sem þau hafi verið sett fram í. Skilyrði fyrir því að ummælin teljist refsiverð sam­kvæmt 235. gr. laganna séu þau að því sé beinlínis haldið fram að refsiverður, eða eftir atvikum annar, ólögmætur eða ósiðlegur, verknaður hafi verið framinn vísvitandi. Því fari fjarri að slík skilyrði séu uppfyllt. Við mat á því hvort ummæli stefndu færu í bága við 234. gr. sömu laga verði meðal annars að líta til þess hvort þau lýsi að almanna­dómi verulegri óvirðingu eða fyrirlitningu eða séu niðrandi um persónugildi þess sem fyrir verði. Ummælin kunni að vekja hug­myndir um að stefn­anda skorti að einhverju marki hæfileika eða þekkingu. Í því sam­bandi verði að líta til þess að stefndu hafi verið ætlað samkvæmt lögum og reglum um Háskóla Íslands að færa fram rökstudda gagnrýni á verk stefnanda og komast að niðurstöðu um það hvort ráða mætti af verkum hans að hann uppfyllti þær kröfur sem gera verði til kennara við skólann um ábyrg og vísindaleg vinnubrögð. Slík gagn­rýni kunni á stundum að þykja harka­leg fyrir þann sem í hlut eigi. Hins vegar sé nauð­syn­legt að dómnefndir njóti svig­rúms til slíkrar gagnrýni ella sé hætta á að þær nái ekki tilgangi sínum. Jafnframt beri að líta til þess að ummæli stefndu um skýrslu stefnanda um Hjarðarbólsodda hafi einungis verið sett fram í drögum sem ætluð hafi verið umsækjendum einum til um­sagnar. Með þessu ferli sé tryggt að umsækjendur geti komið að athugasemdum og leið­réttingum við umsögn dómnefndar áður en álit nefndarinnar verði lagt fram til atkvæða­greiðslu á deildarfundi. Dómnefnd gefist því svigrúm til breytinga eða leiðréttinga á dóm­nefndar­áliti áður en það verði gefið út í endanlegri mynd.

         Stefndu vísi til 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944 og 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Með þessum lagagreinum sé stefndu tryggður réttur til tjáningarfrelsis. Þau hafi notið rýmkaðs tjáningarfrelsis við mat sitt á verkum umsækjenda og sé vísað þar til hlutverks dómnefnda samkvæmt lögum og reglum um Háskóla Íslands. Mat stefndu, þar með talin hin umstefndu ummæli, sé gildis­dómur sem geti ekki falið í sér æru­meiðingar í garð stefnanda. Hin umstefndu ummæli séu vel innan marka tjáningar­frelsisákvæðis stjórnarskrár. Umfjöllun stefndu um verk stefnanda beri þess ekki á nokkurn hátt merki að ætlun þeirra hafi verið að óvirða stefnanda. Stefnandi hafi í dómnefndarálitinu verið látinn njóta þess sem vel hafi verið gert, einkum við störf á vettvangi.

         Stefndu telja skilyrði miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ekki vera fyrir hendi. Engar þær hvatir eða ástæður hafi legið að baki umsögnum stefndu um ritverk stefnanda að þær geti talist ólögmæt meingerð gegn stefnanda. Þá sé fjárhæð miskabótakröfunnar mótmælt sem of hárri.

         Um varakröfuna sé vísað til þess að telji dómurinn að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum 234. gr. eða 235. gr. almennra hegningarlaga sé þess krafist að fjárkröfur stefnanda verði verulega lækkaðar. Því sé mótmælt að stefnandi geti átt rétt til greiðslu á 500.000 krónum til birtingar dóms í þremur dagblöðum. Stefndu hafi ekki staðið að opinberri birtingu hinna umstefndu ummæla, en þau hafi eingöngu birst í dómnefndarálitinu sem ætlað hafi verið þröngum hópi manna. Líta verði einnig til þess að einungis hluta ummælanna hafi verið að finna í endanlegri útgáfu dómnefndarálitsins sem sent hafi verið deildarfundi til ákvörðunar. Ákvæði 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga sé heimildarákvæði sem verði ekki beitt um tilvik af þessu tagi. Þá sé fjárhæðum krafna í 2. og 3. tölulið dómkrafna mótmælt sem of háum. Upphafstíma dráttarvaxta í aðal- og varakröfu sé mótmælt og þess krafist að hann miðist við dómsuppsögu í héraði eða eftir atvikum Hæstarétti. Málskostnaðarkrafan sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.

         Niðurstaða

         Stefndu áttu sæti í dómnefnd, sem skipuð var samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999, en hlutverk nefndarinnar var að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna kennarastarfi í fornleifafræði við heimspekideild Háskóla Íslands. Hin umdeildu ummæli koma fram í áliti dómnefndarinnar frá 23. apríl 2002. Í auglýsingu um starfið kemur meðal annars fram að umsókn þurfi að fylgja greinargóð skýrsla um vísindastörf umsækj­anda, rannsóknir og ritsmíðar, svo og yfirlit um námsferil og störf. Nefndinni bar samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar að láta í té rök­stutt álit á því hvort ráða mætti af vísindagildi rita og rann­sókna um­sækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann væri hæfur til að gegna starfinu, sbr. og 1. mgr. 43. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, sbr. 1. gr. reglna nr. 718/2001. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar reglnanna bar við mat á rann­sóknum að leggja megináherslu á vísinda­gildi þeirra. Við matið bar samkvæmt sama ákvæði að athuga frumleika rannsóknar­verkefnis og sjálf­stæði gagnvart öðrum rannsóknum og rit­verkum, þekkingu á stöðu rannsókna á við­komandi fræðasviði, meðferð heimilda og vísindaleg vinnubrögð, fræðilegar nýjungar og eftir atvikum notagildi rannsókna.

         Í áliti dómnefndarinnar um rannsókn stefnanda á minjum að Hólmi í mynni Laxár­­dals er bent á galla sem stefndu töldu vera á rannsókninni. Einnig er gerð grein fyrir því í álitinu að umræddar minjar virtust vera enn eitt dæmi um landnáms­býli sem ekki hafi verið vitað um áður. Rannsókn á þessum minjum sé því mikilvægt framlag til rann­sókna á fyrstu byggð í landinu. Lítið verði sett út á aðferðir stefnanda við uppgröftinn en sama sé ekki hægt að segja um túlkun hans á minjum. Þar slái hann fram full­yrðingum sem ekki séu byggðar á neinum rökum, en það sé hreint og beint ábyrgðar­leysi. Í dómnefndarálitinu er lagt mat á gildi rannsóknarinnar, meðferð heimilda og vísindaleg vinnubrögð stefnanda, en matið er byggt á skýrslum stefnanda um rannsóknina og því að vísindalegt gildi á niður­stöðum rannsókna ráðist meðal annars af því hvort fyrir þeim hafi verið færð við­hlítandi rök. Í áliti dóm­nefndarinnar er rökstutt á hvern hátt vinnubrögðum og rannsókn stefnanda hafi verið áfátt sem stefndu telja ábyrgðarleysi af hans hálfu, en þar er höfðað til ábyrgðar stefnanda sem vísinda- og fræðimanns. Við úrlausn málsins verður lagt til grundvallar að stefndu hafi með fræðilegum ályktunum verið innan þeirra marka sem starfsemi dóm­nefndarinnar eru sett í lögum og öðrum reglum.

         Ummæli stefndu um að tilgangi rannsóknar stefnanda fyrir Vegagerðina á rúst á Hjarðarbóls­odda við Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi hafi ekki verið náð og að illa hafi verið farið með almannafé eru byggð á upplýsingum sem stefndu höfðu við matið. Fram hefur komið af hálfu stefndu að í skýrslu stefnanda um rannsóknina hafi ekki verið gerð grein fyrir ástæðum þess að staðið var að rannsókninni á þann hátt sem stefnandi gerði. Stefnandi hafi veitt upplýsingar um það í athugasemdum frá 12. maí 2002, en þar hafi komið fram að yfirvöld hefðu farið fram á að umrædd rúst yrði rannsökuð með þessum tiltekna hætti. Hér verður að líta svo á að stefndu hafi með framangreindum ummælum lagt mat á notagildi rannsóknarinnar eins og þeim bar að gera samkvæmt 5. mgr. 43. gr. reglna nr. 458/2000. Þykja ekki fram komin haldbær rök fyrir því að stefndu hafi með framangreindum ummælum farið út fyrir vald­heimildir eða önnur mörk sem skilgreind eru í lögum um starfsemi dómnefndarinnar. Þótt upplýsingar um ástæður fyrir hinni nákvæmu rannsókn hafi ekki komið fram í skýrslu stefnanda um rann­sóknina verður ekki fallist á að stefndu hafi borið að kalla eftir skýringum af því tilefni, en stefndu tóku tillit til upplýsinga sem síðar komu fram við matið og felldu ummælin niður í endanlegu áliti.

         Í ljósi þess sem að framan greinir verða ummælin sem hér um ræðir ekki talin ærumeiðandi enda verða þau hvorki túlkuð þannig að í þeim felst móðgun né að­dróttun í garð stefnanda. Það er einnig mat dómsins að þau verði heldur ekki talin óviðurkvæmileg þegar litið er til framangreindra atriða. Verður með vísan til þessa hvorki fallist á að stefndu hafi með ummælunum brotið gegn lagaákvæðum um æru­vernd né að þau hafi haft í frammi ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda. Kröfur stefnanda í málinu hafa þar með ekki lagastoð og ber því að sýkna stefndu af þeim.

         Rétt þykir að stefnandi greiði stefndu 400.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. 

         Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

DÓMSORÐ:

         Stefndu, Guðrún Sveinbjarnardóttir, Helgi Þorláksson og John Hines, skulu sýkn vera af kröfum stefnanda, Bjarna F. Einarssonar, í málinu.

         Stefnandi greiði stefndu 400.000 krónur í málskostnað.