Print

Mál nr. 25/2002

Lykilorð
  • Sjómaður
  • Skiptaverðmæti
  • Kjarasamningur
  • Sjóveðréttur
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Tómlæti

Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. júní 2002.

Nr. 25/2002.

Sigurður Jónsson

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

Árna G. Aðalsteinssyni

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Sjómenn. Skiptaverðmæti. Kjarasamningur. Sjóveðréttur. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Tómlæti.

 

Á starfaði sem vélstjóri á bát S, Agli SH-195, frá því í september 1998 til mars 2000. Samkvæmt samningi S við fiskverkunarfyrirtæki í Ólafsvík um sölu á afla bátsins var greitt fyrir aflann annars vegar með peningum en hins vegar með aflaheimildum. Sá hluti greiðslunnar sem var í formi aflaheimilda kom ekki til uppgjörs á hlut áhafnar í skiptaverðmæti. Í héraðsdómi var S dæmdur til að greiða Á þennan mismun, þar sem samningur útgerðarmanns við fiskkaupanda megi ekki hafa í för með sér lægra skiptaverð en kveðið væri á um í kjarasamningum. S áfrýjaði málinu og krafðist aðallega sýknu. Reisti hann dómkröfur sínar á því að í lagaákvæðum, sem kveði á um að samningar sem feli í sér lakari kjör en ákveðið er í kjarasamningum skuli vera ógildir, felist ólögmætt framsal á lagasetningar- og ákvörðunarvaldi löggjafans til hagsmunaaðila á vinnumarkaði, sem brjóti í bága við fyrirmæli stjórnarskrár um þrískiptingu ríkisvaldsins, mannréttindasáttmála Evrópu, og samningsfrelsi S. Hæstiréttur féllst ekki á þessi rök S og taldi að líta yrði svo á að umrædd ákvæði hafi verið sett til verndar einstökum launþegum til að tryggja þeim lágmarkskjör, sem samið sé um í kjarasamningum. Var ekki fallist á að í þessu felist framsal löggjafarvalds, heldur sé á því byggt að aðilar vinnumarkaðarins semji um kaup og kjör í frjálsum samningum sín á milli. Í þessu máli sé um það að ræða að samtök sem S sé aðili að, hafi gert þann kjarasamning við stéttarfélag Á, sem hann byggði kröfur sínar á, og S hlyti að vera við hann bundinn. Var S því dæmdur til að greiða Á umræddan mismun en tekin var til greina skuldajafnaðarkrafa S vegna fyrirframgreiddra launa sem Á hafði fengið fyrirfram og stóð eftir er hann hætti störfum. Þá var ákvæði héraðsdóms um sjóveðrétt Á í umræddum bát, Agli SH-195.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. janúar 2002 og krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnda en til vara að dómkröfur stefnda verði verulega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 

I.

Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Svo sem þar kemur fram starfaði stefndi sem vélstjóri á bát áfrýjanda Agli SH-195 frá því í september 1998 til mars 2000. Gerður var fiskverðssamningur milli áfrýjanda og áhafnar 9. september 1998, sem gilti í eitt ár frá 1. sama mánaðar og var síðar framlengdur til annars árs. Á sama tíma gekk áfrýjandi til samninga við fiskverkunarfyrirtækið Snoppu ehf. í Ólafsvík um sölu á afla bátsins og tryggði það fyrirtæki áfrýjanda aflaheimildir. Greiddi það áfrýjanda fyrir aflann annars vegar með peningum en hins vegar með aflaheimildum. Verðlagsstofa skiptaverðs, sem gerði athugun á uppgjöri aflaverðmætis bátsins á árunum 1999 og 2000, lýsti því áliti í bréfi 15. nóvember 2000 að hluti þess hefði verið greiddur með þeim hætti að Snoppa ehf. sem fiskkaupi hefði greitt kvóta fyrir útgerðina og nefnd greiðsla ekki komið til uppgjörs á hlut áhafnar svo sem kveðið væri á um í 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1987 og 10. gr. laga nr. 79/1994. Er reyndar óumdeilt í málinu að uppgjör aflaverðmætis hafi verið með þessum hætti.

Á þeim tíma sem hér um ræðir gilti um kjör stefnda kjarasamningur milli stéttarfélaga vélstjóra annars vegar og hins vegar Vinnuveitendasambands Íslands fyrir hönd aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna, sem áfrýjandi var aðili að. Segir þar meðal annars í grein 1.03, að útgerðarmaður hafi með höndum sölu aflans og hafi til þess umboð áhafnar að því er aflahlut hennar varði. Skuli hann tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn, þó aldrei lægra en útgerðarmaður fær. Ekki sé heimilt að draga frá heildarverðmæti afla kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum og er í því sambandi vísað til áðurnefndrar 1. gr. laga nr. 24/1986, sem hefur að geyma ákvæði efnislega samhljóða þessu.

Hæstiréttur hefur áður tekið afstöðu til þess, sbr. til dæmis dóm réttarins 10. maí 2001 í málinu nr. 369/2000, að samningur útgerðarmanns við fiskkaupanda, sambærilegur við þann, sem um ræðir í þessu máli, megi ekki hafa í för með sér lægra skiptaverð en ella hefði verið og fela í raun í sér, að sjómenn væru látnir taka þátt í útgerðarkostnaði, sem væri óheimilt lögum samkvæmt, og gæti slíkur samningur ekki tryggt þeim hæsta gangverð fyrir fiskinn eins og kveðið væri á um í kjarasamningum.

Í 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur segir að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá. Í 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, segir að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, skuli vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því, er samningur tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveði skuli vera ógildir.

II.

Áfrýjandi reisir dómkröfur sínar á því að í ofangreindum lagaákvæðum felist ólögmætt framsal á lagasetningar- og ákvörðunarvaldi löggjafans til hagsmunaaðila á vinnumarkaði og felist framsalið í því að löggjafinn hafi sett almennan lagaramma um kjör ýmissa starfsstétta á vinnumarkaði, en fengið síðan hagsmunasamtökum vald til að útfæra efni og innihald hinna almennu réttarheimilda án þess að löggjafinn komi með nokkrum hætti þar að. Telur áfrýjandi að þetta fyrirkomulag brjóti í bága við ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins, sem ekki geri ráð fyrir slíku framsali valds. Þá heldur áfrýjandi því fram að umrædd ákvæði brjóti í bága við 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um vernd eignarréttar. Auk þessa feli ofangreind ákvæði í sér brot gegn samningsfrelsi áfrýjanda og beiting þeirra með þeim hætti, sem aðilar vinnumarkaðarins tíðki, brjóti í bága við meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar.

Í úrlausnum dómstóla hefur margsinnis verið byggt á ofangreindum ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur og laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Líta verður svo á að þau hafi verið sett til verndar einstökum launþegum til að tryggja þeim lágmarkskjör, sem samið sé um í kjarasamningum. Verður ekki fallist á að í þessu felist framsal löggjafarvalds, heldur sé á því byggt að aðilar vinnumarkaðarins semji um kaup og kjör í frjálsum samningum sín á milli. Í þessu máli er um það að ræða að samtök, sem áfrýjandi er aðili að, gerðu þann kjarasamning við stéttarfélag stefnda, sem hann byggir kröfur sínar á, og hlýtur áfrýjandi að vera við hann bundinn. Líta ber og til þess, að kjarasamningurinn er, að því er tekur til þess atriðis, sem hér er deilt um, efnislega samhljóða ákvæði, sem lögfest hefur verið með 1. gr. laga nr. 24/1986.

Að þessu athuguðu verður ekki fallist á ofangreindar málsástæður áfrýjanda. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknukröfu áfrýjanda á grundvelli tómlætis. Verður niðurstaða héraðsdóms um aðalkröfu áfrýjanda því staðfest.

III.

Eins og fram kemur í héraðsdómi hefur áfrýjandi uppi skuldajafnaðarkröfu á hendur stefnda að fjárhæð 166.351 krónu, en um er að ræða laun, sem stefndi hafði fengið fyrirfram og stóð eftir er hann hætti störfum. Er þetta viðurkennt af honum og jafnframt að krafan sé tæk til skuldajafnaðar. Í héraðsdómi er greint frá ummælum áfrýjanda fyrir dómi um það, sem honum og stefnda fór á milli við skyndileg starfslok hins síðarnefnda. Verða þau ummæli ekki talin skýr og auk þess kom fram hjá áfrýjanda að stefndi hefði ítrekað sagt að hann ætlaði að greiða fjárhæðina til baka.

Ekki verður talið sýnt fram á að áfrýjandi hafi með óyggjandi hætti gefið eftir umrædda kröfu. Þegar litið er til þess að stefndi kom síðar fram með kröfu á hendur honum verður ekki fallist á að krafan sé niður fallin vegna tómlætis hans. Verður hún því tekin til greina.

IV.

Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 1.382.392 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Staðfest er ákvæði héraðsdóms um sjóveðrétt í Agli SH-195, sbr. 197. gr. og 201. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Einnig er staðfest ákvæði dómsins um málskostnað. Dæma ber áfrýjanda til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sigurður Jónsson, greiði stefnda, Árna Guðjóni Aðalsteinssyni, 1.382.392 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af  945.155 krónum frá 1. september 1999 til 1. september 2000, en af 1.382.392 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um sjóveðrétt stefnda í Agli SH-195 og um málskostnað.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, 150.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 19. október 2001.

Stefnandi þessa máls er Árni Guðjón Aðalsteinsson, kt. 090859-2429, Grundarbraut 39 Ólafsvík, Snæfellsbæ. Stefnt er Sigurði Jónssyni, kt. 110450-2069, Skipholti 8 Ólafsvík, Snæfellsbæ.

Málið var höfðað með birtingu stefnu 24. janúar 2001. Það var þingfest 14. febrúar og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 25. september sama ár.

Fyrir Héraðsdómi Vesturlands eru til meðferðar tvö mál sem eru öldungis hliðstæð þessu máli: mál nr. E-49/2001, Vilhelm Árnason gegn Sigurði Jónssyni, og E-51/2001, Stefán Birgir Birgisson gegn Sigurði Jónssyni. Ákveðið hefur verið að þau hvíli uns fengin eru úrslit í þessu máli. Þriðja málið, E-50/2001, Vagn Ingólfsson gegn Sigurði Jónssyni er einnig hliðstætt þessu máli með litlu fráviki. Fór aðalmeðferð í því máli fram að hluta til samhliða aðalmeðferð í þessu máli; voru skýrslutökur sameiginlegar fyrir bæði málin.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum kr. 1.548.743 með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987, af kr. 945.155 frá 1. september 1998 til 1. september 2000 en af kr. 1.548.743 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 1. september 1998.  Einnig er krafist staðfestingar í sjóveðrétti í Agli SH-195, með skipaskráningarnúmerið 1246, fyrir hluta kröfu stefnanda samtals að fjárhæð kr. 273.449,00.

Loks krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum.

Stefndi krefst þess aðallega hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Til vara krefst hann þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Jafnframt gerir stefndi þá kröfu að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt að viðbættum virðisaukaskatti á málskostnaðarfjárhæðina.

Málavextir

Í stefnu er málavöxtum svo lýst, að stefnandi hafi starfað hjá stefnda sem vélstjóri um borð í fiskiskipinu Agli SH-195, skipaskrárnúmer 1246, frá september 1998 til mars 2000. Skipið hafi verið gert út frá Ólafsvík.

Við upphaf veiða hafi stefnanda og öðrum skipverjum verið tjáð að hlutaskipti til áhafnar myndu lúta ákvæðum fiskverðssamnings milli áhafnar og útgerðar, sbr. grein 1.03. í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands ofl. og Vinnuveitendasambands Íslands vegna aðildarfélaga LÍÚ. Í kjölfarið hafi Vilhelm Árnason ritað undir svokallaðan fiskverðssamning þann 9. september 1998. Vilhelm hafi undirritað í umboði áhafnar samkvæmt fiskverðssamningnum (sem frammi liggur í málinu) án þess þó að slíks umboðs hafi verið aflað samkvæmt gildandi reglum kjarasamnings aðila.

Við undirritun þessa fiskverðssamnings hafi skipverjum verið gefið til kynna að kaupandi þorskaflans ætlaði að útvega útgerðinni kvóta. Allt að einu hafi verið fullyrt að þessi háttur á viðskiptum aðila hefði ekki áhrif á skilaverð aflans til hlutaskipta áhafnar. Jafnframt hafi stefndi staðhæft að samkomulag þeirra skv. fiskverðssamningnum væri löglegt og stæðist ákvæði kjarasamninga. Þá hafi skipverjar jafnframt staðið í þeirri trú að samningurinn miðaðist við óslægðan þorsk þar sem stærstum hluta þorskaflans hafi verið landað óslægðum. Þannig ætti fiskverð að reiknast í samræmi við það slægingarhlutfall sem er gefið upp í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða.

Í stefnu segir að umræddur fiskverðssamningur geri annars vegar ráð fyrir því að miðað sé við þrjá verðflokka við uppgjör til hlutaskipta þorskafla þar sem verð ráðist af stærð fisksins. Hins vegar sé gert ráð fyrir því að undirmáls þorskur og aðrar fisktegundir fari á fiskmarkað. Hafi kaupandi þorskaflans verið einkahlutafélagið Snoppa. Þegar á leið hafi stefnanda og samstarfsmönnum hans þótt undarlegt hvað samningurinn gaf þeim lágt verð þrátt fyrir góðan og stóran fisk. Þar sem skipverjar hafi talið að gengið væri á rétt þeirra við uppgjör til hlutaskipta með því að þeim væri greitt lægra verð fyrir aflann til hlutaskipta en gert væri  ráð fyrir í samningi aðila hafi þeir reynt að leita upplýsinga hjá stefnda um stærðardreifingu aflans og útreikning skiptahlutar. Sú viðleitni skipverja hafi engum árangri skilað, og hafi stefndi verið ófáanlegur til þess að veita nánari upplýsingar. Þó hafi verið upplýst að stefndi hafi reiknað aflaverðmæti samkvæmt fiskverðssamningnum miðað við slægðan fisk en ekki óslægðan eins og stefnandi hefði talið að gert hefði verið ráð fyrir í samningi aðila. Í ljósi þessarar stöðu málsins hafi skipverjar leitað fulltingis Sjómannasambands Íslands vegna málsins.

Eftir að hafa aflað nauðsynlegra gagna um viðskipti Egils SH-195 á Kvótaþingi hafi  Sjómannasamband Íslands komist að þeirri niðurstöðu, að skipverjar á Agli SH-195 væru þátttakendur í kaupum stefnda á aflamarki. Hins vegar hafi ekki tekist að afla nákvæmra skriflegra gagna, að svo stöddu, um það verð sem umræddur fiskkaupandi greiddi stefnda raunverulega fyrir aflann. Hafi þannig orðið nokkur bið á því að skipverjar fengju leyst úr því hvort hæsta gangverð hefði verið greitt fyrir fiskinn við uppgjör til hlutaskipta áhafnar.

Hinn 15. ágúst 2000 hafi Sjómannasamband Íslands sent beiðni til Fiskistofu þar sem óskað var upplýsinga um hvort stefndi hefði veitt öðrum aðila umboð til að annast viðskipti á Kvótaþingi fyrir sína hönd og þá hverjum. Þá hafi einnig verið farið fram á upplýsingar um hver hafi séð um greiðslu á aflamarkskaupum eða hver væri eigandi að bankareikningi þeim sem andvirði aflamarksins var fært út af vegna viðskipta stefnda á Kvótaþingi. Fiskistofa hafi hafnað ofangreindri beiðni Sjómannasambands Íslands með bréfi dags. 24. ágúst 2000.

Þar sem engar upplýsingar hafi verið að fá hjá Fiskistofu hafi Sjómannasamband Íslands fyrir hönd stefnanda leitað til Verðlagsstofu skiptaverðs. Hún hafi aflað upplýsinga á grundvelli heimilda sinna í lögum nr. 13/1998 og komist að þeirri niðurstöðu að um misræmi í uppgjöri væri að ræða. Verðlagsstofa skiptaverðs hafi sent stefnda bréf, dags. 15. nóvember 2000, þar sem hún hafi tilkynnt stefnda að misræmi væri milli gagna um söluverðmæti afla og þess verðs sem uppgjör við áhöfn Egils SH-195 hefði miðast við. Niðurstaða Verðlagsstofu byggist á útskrift frá Fiskistofu um viðskipti stefnda á Kvótaþingi árið 1999 og frá 1. janúar til 7. júlí 2000. Samkvæmt gögnum Fiskistofu nemi seldur afli á árinu 1999 skv. ársreikningi kr. 58.686.357 og árið 2000 kr. 45.579.048.  Sundurliðist þetta þannig:

Árið 1999

 

Sala á þorski til Snoppu ehf.

kr. 32.949.784,00

Sala á flatfiski til Portlands ehf.

kr. 11.365.934,00

Selt á mörkuðum

kr. 14.370.639,00

Samtals

kr. 58.686.537,00

 

 

Tímabilið 1. janúar til 7. júlí 2000.

 

Sala á þorski til Snoppu ehf.

kr. 36.287.621,00

Sala á flatfiski til Portlands ehf.

kr. 3.731.529,00

Selt á mörkuðum

kr. 5.559.898,00

Samtals

kr. 45.579.048,00

Eftir bréfaskipti við stefnda hafi Verðlagsstofa skiptaverðs komist að þeirri niðurstöðu að hluti af aflaverðmæti hefði verið greiddur með þeim hætti að Snoppa ehf. hefði sem fiskkaupi greitt kvóta fyrir stefnda og að sú greiðsla hefði ekki komið fram til uppgjörs við hlutaskipti til áhafnar Egils SH-195 í samræmi við landslög.

Þá segir í stefnu að Sjómannasamband Íslands hafi reiknað út tilgreindan afla og aflaverðmæti hvers uppgjörstímabils Egils SH-195 eins og stefndi hafi gefið upp á uppgjörum til skipverjanna. Mismunur á uppgefnum hásetahlut og réttum hlut sé fyrir árið 1999 kr. 701.880 en árið 2000 kr. 376.682. Krafa stefnanda sé byggð á útreikningum Sjómannasambands Íslands, en hin vangreidda fjárhæð sé samtals kr. 1.548.743,00 sem er stefnufjárhæð máls þessa og sundurliðist þannig:

Tímabil

Hlutur skv. uppgjöri

Réttur hlutur

Mismunur

Október 1998

kr. 165.374,00

kr. 183.515,00

kr. 18.141,00

Nóvember 1998

kr. 158.772,00

kr. 217.833,00

kr. 59.061,00

Desember 1998

kr. 195.003,00

kr. 283.685,00

kr. 88.682,00

Febrúar 1999

kr. 429.902,00

kr. 518.208,00

kr. 88.307,00

Mars 1999

kr. 458.462,00

kr. 575.485,00

kr. 117.023,00

Apríl 1999

kr. 377.357,00

kr. 457.707,00

kr. 80.351,00

Maí 1999

kr. 588.327,00

kr. 851.408,00

kr. 263.081,00

Júní 1999

kr. 391.529,00

kr. 559.181,00

kr. 167.652,00

Júlí 1999

kr. 154.373,00

kr. 217.242,00

kr. 62.859,00

Október 1999

kr. 216.125,00

kr. 279.159,00

kr. 63.035,00

Nóvember 1999

kr. 151.170,00

kr. 195.791,00

kr. 44.621,00

Desember 1999

kr. 174.678,00

kr. 254.195,00

kr. 79.517,00

Janúar 2000

kr. 283.047,00

kr. 421.701,00

kr. 138.654,00

Febrúar 2000

kr. 277.494,00

kr. 412.289,00

kr. 134.795,00

Samtals

kr. 4.668.969,00

kr. 6.074.744,00

kr. 1.405.775,00

Orlof 10,17 %

 

 

kr. 142.968,00

Samtals dómkrafa

 

 

kr. 1.548.743,00

Innheimtutilraunir segir stefnandi að hafi reynst árangurslausar og málsókn þessi sé því óhjákvæmileg.

Í greinargerð stefnda er atvikum máls svo lýst:

Stefnandi hafi upphaflega ráðið sig til starfa hjá stefnda í ágústmánuði árið 1996.  Stefndi sé útgerðarmaður og gerir hann Egil SH-195 út frá Ólafsvík.  Þegar stefnandi hafi ráðið sig til starfa hjá stefnda hafi stefndi átt í viðskiptum við fiskverkunarfyrirtækið Sólrúnu ehf. á Árskógsströnd og landað hjá félaginu öllum þorski sem náð hafði tiltekinni stærð.

Við upphaf veiða í september 1998 hafi Sólrún ehf. hætt að kaupa þorsk af stefnda.  Í kjölfarið hafi hann farið að landa afla Egils SH-195 á fiskmarkaði, en hann hafi ekki haft yfir miklum aflaheimildum að ráða, og  komið hafi  í ljós að þær yrðu uppurnar fljótlega, eða um áramót, og því fyrirséð að bátnum yrði lagt við bryggju, yrði ekki gripið til neinna aðgerða, og að áhöfnin á Agli SH-195 myndi missa vinnuna.  Í ljósi þess hafi stefnandi og aðrir skipverjar lagt hart að stefnda að ganga til samninga við fiskverkunarfyrirtæki með það að markmiði að tryggja útgerðinni aflaheimildir og áhöfninni þar af leiðandi áframhaldandi vinnu.

Í framhaldi af þessu hafi stefndi gengið til samninga við Snoppu ehf. í Ólafsvík,  og hafi samningur tekist milli aðila. Með honum hafi útgerðinni verið tryggðar aflaheimildir fram á haustið 1999.  Á grundvelli samnings stefnda og Snoppu ehf. hafi verið gengið til samninga við stefnanda og aðra skipverja á Agli SH-195, sem endað hafi með því að gerður hafi verið fiskverðssamningur við stefnanda og áhöfn bátsins þann 4. september 1998 [Svo í greinargerð stefnda. Samningurinn er dagsettur 9. september. Aths. dómara], en gildistími samningsins skyldi vera frá 1. september það ár til 30. ágúst 1999.  Í samningnum komi fram að við uppgjör á launum áhafnar skyldi miða við slægðan afla, enda hafi ekki verið merkt í þar til gerðan reit á hinu staðlaði samningsformi að uppgjör skyldi miða við óslægðan afla.  Undir samninginn hafi ritað Vilhelm Árnason í umboði stefnanda og annarra skipverja, sbr. ákvæði kjarasamnings LÍÚ og Sjómannasambands Íslands, Vélstjórafélags Íslands o.fl.

Þá segir í greinargerð stefnda að í aðdraganda þess að ofangreindur fiskverðssamningur var gerður hafi stefnanda og öðrum skipverjum á Agli SH-195 verið gert ljóst hver kjör þeirra yrðu samkvæmt samningnum, en þau kjör hafi haldist í hendur við samning stefnda og Snoppu ehf. Svo hafi verið um samið að samningurinn miðaðist við slægðan þorsk. Stefnandi hafi fyrirvaralaust gengið að þeim kjörum sem þar hafi komið fram, enda hafi honum verið ljóst að viðskiptasamningur stefnda við Snoppu ehf. hafi verið gerður að hans undirlagi og annarra skipverja, og raunar samkvæmt beiðni þeirra, m.a. af þeirri ástæðu að þeir hafi vitað að ef stefnda tækist ekki að útvega aflaheimildir með þeim hætti sem gert var, heldur seldi aflann á markaði, væri fyrirséð að öll áhöfnin myndi missa vinnuna eigi síðar en um áramótin 1998-1999. 

Skömmu áður fiskverðssamningurinn rann út þann 30. ágúst [1999] hafi stefndi gert  sambærilegan fiskverðssamning við áhöfnina á Agli SH-195, svokallað fiskverðssamkomulag áhafnar og útgerðar m/s Egils SH-195. Sá samningur hafi tekið gildi 1. september 1999 og gilt til 31. ágúst 2000.  Undir þann samning hafi stefnandi ritað fyrirvaralaust. Í því samkomulagi hafi verið kveðið á um, eins og áður, að uppgjör áhafnar miðaðist við slægðan þorsk.  Því sé réttilega haldið fram í stefnu að stærstum hluta aflans hafi verið landað óslægðum. Hins vegar hafi stefnda og samstarfsmönnum hans verið gert ljóst að aflinn yrði slægður í landi og flokkaður í tölvuflokkara, skipverjum að kostnaðarlausu.  Að sjálfsögðu hafi aflinn rýrnað sem því nemur þar sem innyfli og ís hafi komið til frádráttar ef miðað er við óslægðan afla.

Þá segir í greinargerð stefnda að á þeim tíma sem stefnandi hafi verið launþegi hjá stefnda hafi samkomulag þeirra verið með ágætum framan af.  Stefnandi hafi allan þann tíma átt í fjárhagsörðugleikum og óskað eftir því við stefnda að hann greiddi sér laun, a.m.k. hluta launa sinna, fyrirfram. Hafi stefndi orðið við þeim óskum stefnanda af greiðasemi við hann en án skyldu.  Þegar líða tók á samstarfið hafi stefndi og samstarfsmenn hans óskað eftir upplýsingum um stærðardreifingu hins veidda afla og útreikning skiptahlutar.  Því sé ranglega haldið fram í stefnu að slíkar upplýsingar hafi ekki verið veittar, því stefndi hafi haldið nokkra fundi með skipverjum á Agli SH-195 þar sem farið hafi verið yfir áðurnefnda stærðardreifingu og útreikning skiptahlutar og veittar allar þær upplýsingar sem stefnandi og aðrir skipverjar óskuðu eftir.  Allan þann tíma sem stefnandi var að störfum hjá stefnda hafi hann aldrei gert neinar athugasemdir eða fyrirvara við launagreiðslur til sín, hvorki að liðnum áðurnefndum fundum, né eftir að stefndi greiddi honum áunnin laun.

Eftir að stefnandi hætti störfum hafi stefndi talið að öllum uppgjörum milli þeirra væri lokið að undanskilinni skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð kr. 166.351, en stefndi hafi greitt stefnanda þá fjárhæð sem fyrirframgreidd laun.  Stefnandi hafi skuldbundið sig til að greiða stefnda fjárhæðina en ekki staðið við gefin loforð.  Það hafi því komið stefnda í senn mjög á óvart og valdið honum vonbrigðum þegar stefnandi, ásamt þremur samstarfsmönnum hans, stefndi honum fyrir dómstóla til greiðslu á meintum vangoldnum launum, þar sem hann hafi talið stefnanda ganga á bak orða sinna og vanvirða gerða samninga, sem a.m.k. stefndi hafi gert í góðri trú, auk þess sem stefndi hafi fram að þeim tíma lagt mikið á sig til að koma til móts við þarfir og óskir stefnda.  Fram að þeim tíma er málið var þingfest hafi stefnandi ekki sent stefnda svo mikið sem innheimtubréf vegna hinna meintu vangreiðslu, en öðru er ranglega haldið fram í stefnu.

Málsástæður og lagarök stefnanda

 Stefnandi kveðst byggja málatilbúnað sinn á því að stefnda sé skylt að gera upp aflaverðmæti og greiða laun í samræmi við ákvæði laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og ákvæði greina 1.03., 1.04., 1.05., 1.06. og 1.07 í kjarasamningi aðila. Þessi ákvæði laga og kjarasamninga skyldi stefnda til þess að tryggja stefnanda hæsta gangverð fyrir þann afla sem landað var á umræddu tímabili og aldrei lægra verð enn hann fékk sjálfur fyrir aflann. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins hafi stefndi fengið mun meira greitt fyrir aflann en það verð sem miðað hafi verið við í uppgjörum til hlutaskipta.

Að því leyti sem stefndi hafi byggt slík uppgjör til hlutaskipta á fyrirliggjandi fiskverðssamningi frá 9. september 1998, þá séu þau ógild og að engu hafandi í lögskiptum aðila, enda séu samningar um lakari kjör en kjarasamningar kveða á um ógildir, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. og 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Fiskverðssamningar aðila sé því ógildur og óskuldbindandi fyrir stefnanda að svo mikli leyti sem hann tryggir stefnanda ekki raunverulega hæsta gangverð fyrir aflann. Hafi nefndur samningur áhafnar og útgerðar þannig ekkert skuldbindandi gildi fyrir stefnanda þar sem hann hafi ekki tryggt honum hæsta gangverð fyrir aflann. Beri stefndi þannig að standa stefnanda skil á hlutaskiptum miðað við það heildarverðmæti sem hann sannarlega fékk fyrir aflann sem útgerðarmaður.

Að svo miklu leyti sem greitt var fyrir aflann með öðru en peningum beri að meta slíkar greiðslur til peningaverðs við uppgjör hlutaskipta. Þannig beri stefnda að standa stefnanda skil á hlutaskiptum er miðist við fjárhæð þeirra peningagreiðslna sem hann þáði úr hendi Snoppu ehf., auk verðmætis þess aflamarks sem Snoppa ehf. greiddi fyrir aflann. Heildarverðmæti aflans til hlutaskipta áhafnar eigi þannig að miðast við samanlagt andvirði aflamarksins og peningagreiðslna frá Snoppu ehf.

Þá byggir stefnandi jafnframt á því að jafnvel þótt tilvitnaður fiskverðssamningur stæðist ákvæði laga og kjarasamninga hvað varðar vernd lögboðinna lágmarkskjara, þá sé hann ógildur þar sem ekki hafi verið fylgt skýrum formreglum kjarasamnings aðila við gerð samningsins. Eins og fram komi í kjarasamningi aðila skuli drög að fiskverðssamningi samin af útgerðarmanni og fulltrúa áhafnar, sem kosin er af skipverjum. Þá skuli bera slíkan samning undir atkvæði skipverja, og öðlist hann eigi gildi fyrr en hann hefur verið staðfestur af meirihluta skipverja í leynilegri kosningu. Engum þessara ákvæða hafi verið fylgt við gerð fiskverðssamningsins frá 9. september 1998. Þannig hafi aldrei stofnast gildur fiskverðssamningur á milli útgerðar og áhafnar í skilningi greinar 1.03. í kjarasamningi aðila. Þar af leiðandi beri stefnda að standa skil á uppgjöri til hlutaskipta miðað við það verðmæti sem stefndi raunverulega fékk fyrir aflann.

Stefnda beri samkvæmt ofangreindum ákvæðum að greiða laun miðað við það heildaraflaverðmæti sem hann fékk fyrir aflann sem útgerðarmaður. Við uppgjör aflahlutar hafi stefndi lagt til grundvallar aflaverðmæti skv. ógildum fiskverðssamningi sem reynst hafi töluvert minna en hann raunverulega fékk fyrir aflann. Með því hafi stefnandi dregið stóran hluta aflaverðmætis undan hlutaskiptum og greitt stefnanda lægri aflahluti en honum bar samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. lög nr. 24/1986. Lögin um skiptaverðmæti séu grundvöllur launakerfis sjómanna og hluti af kjarasamningi aðila. Verðmæti aflans í skilningi 1. gr. laganna geti aldrei verið háð einhliða ákvörðun útgerðarmanna enda bryti slíkt gegn lögum nr. 24/1986 og kjarasamningum.

Krafa um staðfestingu á sjóveðrétti í skipi stefnda Agli SH-195, með skipskráningarnúmerið 1246, segir stefnandi að sé vegna launakröfu hans vegna vinnuframlags hans í janúar og febrúar 2000, samtals að fjárhæð kr. 273.449.  Krafan styðjist við ákvæði 1. tl. 1. mgr. 197. gr. laga nr. 34/1985.

Um greiðsluskyldu stefnda vísar stefnandi til meginreglna vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga auk laga nr. 30/1987 um orlof. Þá styður stefnandi kröfu sína við lög nr. 55/1980, lög nr. 19/1979, lög nr. 24/1986 og lög nr. 80/1938. Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjast við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Krafa um staðfestingu á sjóveðrétti styðst við lög nr. 34/1985.

Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. eml. nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi hafnar því alfarið að hafa brotið á rétti stefnanda við uppgjör aflaverðmætis og útreikning launa og telur að stefnandi eigi ekki nokkurn rétt á hendur stefnda vegna þess viðskiptafyrirkomulags sem viðhaft var.

Byggjast dómkröfur stefnda á eftirfarandi málsástæðum:

I. Stefndi telur í fyrsta lagi að stefnandi geti hvorki byggt rétt gagnvart stefnda á ákvæðum 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda né ákvæði 7. gr. laga nr. 80/1038 um stéttafélög og vinnudeilur.  Þvert á móti telur stefndi sig hafa farið að lögum við uppgjör launa til stefnda og annarra skipverja, þ. á m. gert upp skv. lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Í 7. gr. laga nr. 80/1938 sé svo mælt fyrir að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti sem þeir fari í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá.  1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé sambærileg við 7. gr. laganna nr. 80/1938, en þar komi fram sú regla að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skuli vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningurinn tekur til.  Þá sé svo fyrir mælt að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skuli ógildir.  Stefndi telur að í ofangreindum lagaákvæðum felist framsal á lagasetningar- og ákvörðunarvaldi löggjafarvaldsins til hagsmunaaðila á vinnumarkaði. Felist framsal lagasetningarvaldsins í því að löggjafinn hafi sett almennan lagaramma um kjör ýmissa starfsstétta á vinnumarkaði, en fengið síðan hagsmunasamtökum vald til að útfæra efni og innihald hinna almennu réttarheimilda án þess að löggjafinn komi með nokkrum hætti að þeirri útfærslu eða reglusetningu.

Í 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 sé kveðið á um þrískiptingu ríkisvalds.  Með ákvæðinu sé alþingi og forseta Íslands fengið lagasetningarvald.  Þó svo að viðurkennt hafi verið í íslenskri réttarframkvæmd að löggjafinn geti framselt hluta valds síns til handhafa framkvæmdavaldsins með því að heimila að reglugerðir séu settar um afmörkuð efni telur stefndi fráleitt að löggjafanum sé heimilt að framselja svo viðurhlutamikið vald til hagsmunaaðila á vinnumarkaði.  Þannig sé hvorki í stjórnarskránni, dómaframkvæmd á sviði stjórnlaga, stjórnskipunarvenju né öðrum stjórnskipunarheimildum gert ráð fyrir að aðilum utan ríkiskerfisins, þ.e. handhafa ríkisvalds [svo í greinargerð stefnda], sé heimilað að setja almennar og ófrávíkjanlegar reglur fyrir borgarana.  Með ofangreindum ákvæðum 7. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, og 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, sé aðilum vinnumarkaðarins hins vegar falið slíkt lagasetningar- og ákvörðunarvald, þrátt fyrir að ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar kveði á um að slíkt vald skuli einungis vera í höndum hinna eiginlegu handhafa lagasetningarvalds, þ.e. alþingis og forseta Íslands.  Slíkt framsal lagasetningarvalds telur stefndi að brjóti í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar og í ljósi þess verði dómkröfur stefnanda hvorki byggðar á slíkum réttarheimildum né öðrum reglum eða fyrirmælum sem leiðir af slíkum lagaákvæðum, sem ekki standast ákvæði stjórnarskrár, s.s. þeim ákvæðum þess kjarasamnings sem dómkröfur stefnanda byggja á.  Í ljósi þess telur stefndi einsýnt að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda.

Jafnframt styður stefndi ofangreinda málsástæðu fyrir sýknukröfu sinni með tilvísun til ákvæðis 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, en greinin hafi hlotið lagagildi við lögtöku mannréttindasáttmála Evrópu á Íslandi, sbr. lög nr. 62/1994.  Í 1. gr. samningsviðauka nr. 1 segi: ,,Öllum mönnum og lögaðilum ber réttur til að njóta eigna sinna í friði.  Skal engan svipta eign sinni, nema hagur almennings bjóði og gætt sé ákvæða í lögum og almennra meginreglna þjóðarréttar.” Telur stefndi að í tilvitnuðu ákvæði felist ótvíræður réttur sinn til að njóta eignar sinnar í friði og slíkur réttur verði ekki skertur nema hagur almennings bjóði.  Ofangreind regla um rétt manna til að nýta eignir sínar í friði feli í raun í sér friðhelgi eignarréttarins, en sá réttur verði ekki skertur nema með lögum.  Stefndi telur að gera verði þær lágmarkskröfur til lagaákvæða sem kveða á um slíka skerðingu, þ.á m. á samningsfrelsi þeirra sem eiga og gera út fiskveiðiskip, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 80/1938, að þau standist íslensk stjórnskipunarlög, séu nauðsynleg fyrir almannahagsmuni innan skynsamlegra marka.  Og þar sem stefndi telur að slíku sé ekki til að dreifa hvað varðar ofangreind lagaákvæði þá felist í ákvæðum ofangreindra lagaákvæða ólögmæt skerðing á samningsfrelsi stefnda sem skerði nýtingarrétt hans á eignum sínum sem verndaður er í 1. gr. samningsviðauka nr.1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994.  Beri því að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.

Auk þessa er á því byggt af hálfu stefnda, að enda þótt talið yrði að ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 80/1938 væru gild gagnvart ákvæðum stjórnarskrár, þá feli sú beiting þeirra, sem stefnandi byggir dómkröfu sína á, í sér að brotið sé gegn samningsrétti og samningsfrelsi stefnda.  Í þessu sambandi er á því byggt að ofangreind lagaákvæði beri að túlka með þeim hætti að slík túlkun standist stjórnskipunarreglur. Er þannig á því byggt að ef talið verður að aðilar vinnumarkaðarins hafi það vald, sem þeim er veitt í ofangreindum lögum til að setja ófrávíkjanlegar reglur, þá sé þeim engu að síður og vitaskuld skylt að fara varlega með það vald og gæta hófs við setningu slíkra reglna.  Í máli þessu er hins vegar á því byggt að við setningu þeirra reglna, sem dómkröfur stefnanda byggja á, hafi ekki verið litið til þeirrar meðalhófsreglu stjórnskipunarréttarins og því beri að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.

Sýknukrafa stefnda byggist í öðru lagi á því að hugsanleg krafa stefnanda á hendur stefnda sé niður fallin sakir tómlætis stefnanda sjálfs og áhafnar Egils SH-195.  Samkvæmt ákvæði 1.03 (I) kjarasamnings LÍÚ og Vélstjórafélags Íslands þá sé það útgerðarmaður sem annist sölu afla og hafi hann við söluna umboð áhafnar viðkomandi fiskiskips að því er varðar aflahlut hennar. Sama ákvæði kjarasamningsins mæli svo fyrir að útgerðarmaður skuli hafa samráð við skipverja eða fulltrúa þeirra um fyrirhugaða sölu afla og gera þeim grein fyrir fyrirliggjandi upplýsingum um sölu og fiskverð.  Samkvæmt ákvæði 1.03 (III) sama kjarasamnings geti áhöfn krafist þess með 5 daga fyrirvara að sérstakur samningur verði gerður um uppgjörsverð fyrir afla sem seldur sé beint milli óskyldra aðila.  Náist ekki samkomulag hins vegar skal samkvæmt ákvæðinu ágreiningi aðila vísað til úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 84/1994.  Nefndin úrskurðar um ágreiningsefni þau sem fyrir nefndina verða lögð innan fjögurra sólarhringa.

Af ofangreindum ákvæðum kjarasamnings LÍÚ og Vélstjórafélags Íslands megi ljóst vera að ákvæði hans leggja ríkar frumkvæðisskyldur á sjómenn sem ekki vilja una uppgjörsverði. Röksemdir að baki ofangreindri reglu um frumkvæðisskyldur sjómanna við slíkar aðstæður eru þær að ríkir hagsmunir búi því að baki að festa ráði ákvörðunum um fiskverð, enda ótækt að aflahlutur sjómanna raskist verulega löngu eftir að sjóferð var farin og uppgjöri löngu lokið.

Stefndi segir að í máli því sem hér er til meðferðar liggi fyrir að stefnanda hafi verið fullkunnugt um eðli þeirra viðskipta sem stunduð voru í þeim veiðiferðum sem hann fór í á vegum stefnda.  Raunar hafi því uppgjörsfyrirkomulagi sem haft var í viðskiptum verið komið á samkvæmt óskum stefnanda, því honum hafi verið fullkunnugt um að næðust ekki samningar milli stefnda og Snoppu ehf., þá myndi hann og vinnufélagar hans missa vinnuna.  Auk þess hafi stefnanda verið það ljóst frá upphafi hvert viðmiðunarverð yrði við uppgjör.  Stefndi hafi haft fullt samráð við áhöfn sína og gert allt það sem í hans valdi stóð til að tryggja henni vinnu og að það verð sem hann fékk fyrir aflann og uppgjör stefnanda miðaðist við að væri hæsta gangverð sem mögulegt væri að fá miðað við stað og stund.  Hvorki stefnandi þessa máls né aðrir skipverjar Egils SH-195 hafi gert neinar athugasemdir vegna uppgjörs stefnda þrátt fyrir að sérstakar kæruleiðir í kjarasamningi hafi verið fyrir hendi, hefðu þeir viljað gera ágreining við stefnda um sinn hlut.  Þvert á móti hafi stefnandi verið, á sama hátt og aðrir skipverjar, sáttur við þau kjör sem hann bjó við hjá stefnda.  Að minnsta kosti hafi hann látið svo í veðri vaka allan þann tíma sem hann gegndi störfum hjá stefnda.  Telur stefndi því að með hliðsjón af atvikum málsins, samþykki stefnanda á fiskverðssamningum aðila málsins og athugasemdalausri viðtöku hans á launum sínum um svo langt skeið úr hendi stefnda, beri að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda, með vísan til áðurnefndra tómlætisáhrifa, skv. meginreglum íslensks kröfuréttar og meginreglu samningaréttarins um skuldbindingagildi samninga.

Þá segir í greinargerð stefnda að sjá megi á sundurliðun dómkröfu stefnanda að dómkrafa hans nái til tímabilsins frá októbermánuði 1998 til febrúarmánaðar 2000 og spanni því u.þ.b. eitt og hálft ár.  Á því tímabili hafi stefndi greitt stefnanda laun mánaðarlega, sem stefnandi hafi tekið við án þess að gera nokkurn tíma athugasemd við þau eða það uppgjör sem þau byggðust á eða gert yfirhöfuð fyrirvara við réttmæti þeirra.  Í ljósi þess langa tíma sem liðið hafi þar til stefnandi loks gerði athugasemdir við laun sín verði að telja að hann hafi sýnt af sér svo verulegt tómlæti að sýkna beri stefnda af dómkröfum hans. Telur stefndi að gera verði ríkari kröfur en svo til stefnanda og annarra skipverja á íslenskum fiskiskipum að þeir geti svo löngu eftir að uppgjöri er lokið gert fjárkröfur á hendur útgerð með þeim hætti sem stefnandi gerir í máli þessu. 

Sýknukrafa stefnda byggist í þriðja lagi á því að uppgjör hans við stefnanda og aðra skipverja Egils SH-195 hafi miðast við hæsta gangverð á afla á þeim tíma sem hér um ræðir, sbr. ákvæði 1.03 kjarasamnings LÍÚ og Vélstjórafélags Íslands.  Stefndi hafi miðað uppgjör sitt við þær greiðslur sem hann hafði fengið í peningum við sölu á aflanum.  Vilji stefnandi halda því fram, löngu eftir að uppgjör átti sér stað, að grundvöllur launagreiðslna í einstökum tilvikum hafi verið annar en umræddur kjarasamningur gerir ráð fyrir og samningar stefnanda og stefnda kváðu á um, þá beri hann í öllum tilvikum sönnunarbyrði fyrir slíkum fullyrðingum.  Stefndi telur að þau gögn sem stefnandi hefur þó lagt fram í máli þessu tryggi stefnanda ekki lögmælta sönnun fyrir kröfum sínum.  Og þar sem stefnanda hafi ekki lánast að leggja fram óyggjandi gögn kröfum sínum og fullyrðingum til sönnunar telur stefndi að sýkna beri hann af dómkröfum stefnanda.

Í þessu sambandi tekur stefndi fram að stefnandi hafi greinilega talið óþarft að afla sannana um hæsta gangverð á þeim tíma er uppgjör fór fram, og hann hafi engar athugasemdir gert eða fyrirvara við uppgjörið þegar það fór fram.  Sá samningur sem stefndi gerði við Snoppu ehf., hafi miðast við að fégreiðsla fyrir landaðan afla jafngilti hæsta gangverði sambærilegs afla á þeim tíma er uppgjör stefnda við stefnanda og aðra skipverja fór fram.  Gegn mótmælum stefnda geti stefnandi því ekki haldið því fram að verð sem stefnandi sjálfur vildi á sínum tíma una sem ,,hæsta gangverði” hafi ekki í reynd verið ,,hæsta gangverð” aflans.  Beri því að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.

II.  Stefndi vísar til þess í greinargerð sinni að í stefnu komi fram að stefnandi byggi kröfur sínar á því, að þó svo að fiskverðssamningar aðila þessa máls verði talinn standast ákvæði laga og kjarasamninga hvað varðar vernd lögboðinna lágmarkskjara þá sé hann engu að síður ógildur, þar sem ekki hafi verið fylgt skýrum formreglum kjarasamnings við gerð samningsins, og vísi stefnandi þessari málsástæðu sinni til stuðnings til gr. 1.03 í kjarasamningi aðila.

Stefndi telur að réttur stefnanda verði ekki byggður á þeim grundvelli sem að framan greinir.  Í ákvæði gr. 1.03 (I) í kjarasamningi aðila komi skýrt fram að umræddar formreglur eigi einungis við þegar um sé að ræða samning um viðskipti milli skyldra aðila.  Telur stefndi að í þeim viðskiptum sem hér eru til meðferðar eigi ofangreint ákvæði ekki við þar sem ekki sé um að ræða viðskipti milli skyldra aðila, hvorki í skilningi gr. 1.03 (I) kjarasamningsins né heldur í skilningi 4. gr. 9. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, eða annarra laga yfirleitt.  Þar við bætist að stefndi telur að form og efni þeirra fiskverðssamninga sem lagðir hafa verið fram í máli þessu uppfylli að öllu leyti ákvæði íslenskra laga og í ljósi þess geti stefnandi ekki byggt rétt gagnvart stefnda þessum grundvelli og því beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.

III. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu af öllum dómkröfum stefnanda gerir stefndi á kröfu til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Varakrafan byggist í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að dómkrafa stefnanda sé ekki í neinu samræmi við það sem gæti talist “hæsta gangverð fyrir þann afla sem landað var” og það liggi ljóst fyrir að skyldur stefnda takmarkist við að tryggja áhöfn sinni það verð.

Í þessu sambandi tekur stefndi fram að í þeim viðskiptum sem hann átti við Snoppu ehf. hafi hann skuldbundið sig til að landa afla sínum hjá því félagi, enda hefði Snoppa ehf. látið stefnda aflakvóta í té, og  því viðskiptafyrirkomulagi hafi verið komið á samkvæmt beiðni stefnanda og annarra skipverja með það fyrir augum að þeir héldu störfum sínum hjá stefnda.  Fyrir aflann hafi svo verið greitt umsamið verð.  Telur stefndi því ljóst að hann hafi sem útgerðarmaður ekki haft þann kvóta til frjálsrar ráðstöfunar og hafi kvótinn því ekki haft beint markaðsgildi fyrir hann.  Stefndi hafi því ekki getað selt kvótann eða veitt upp í hann og landað aflanum síðan hjá öðrum aðila en Snoppu ehf. og fengið í þeim viðskiptum almennt markaðsverð fyrir aflann.  Þar að auki hafi stefndi skuldbundið sig til að selja Snoppu ehf. aflann vegna þess kvóta sem Snoppa ehf. fékk honum í té á fyrirfram umsömdu verði og stefnandi samþykkti með því að ganga að þeim kjörum sem fram koma í fiskverðssamningunum frá 9. september 1998 og 20. september 1999.  Verðmæti kvótans fyrir stefnda hafi því aldrei getað numið hreinu markaðsverði hans, enda hafi greiðsla í formi kvótans verið hluti af gagnkvæmum samningi stefnda og aflakaupandans, Snoppu ehf., sem innihaldi fleiri atriði sem líta verði til.  Telur stefndi að þar sem um sé að ræða gagnkvæman samning sé ekki hægt að líta á markaðsverð kvóta þar sem aðeins komi fégreiðsla á móti til samanburðar, heldur verði að finna út raunverulegt verðmæti kvótans í þeim viðskiptasamningi sem um ræðir hverju sinni.  Telur stefndi að raunverulegt verðmæti komi fram í ofangreindum fiskverðssamningum og með þeim samningum hafi stefndi sem útgerðarmaður tryggt stefnanda hæsta mögulegt gangverð aflans, sbr. ákvæði gr. 1.03 í kjarasamningi LÍÚ og Vélstjórafélags Íslands, miðað við þær aðstæður sem uppi voru í atvinnugreininni á þeim tíma sem hér um ræðir.  Þar sem stefndi telur að stefnandi hafi ekki hnekkt þeim fullyrðingum stefnda telur stefndi að dómstólum beri eftir atvikum að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda eða lækka þær verulega á grundvelli útreikninga sem stefndi mun leggja fram á síðari stigum málsins [Slíkir útreikningar hafa ekki verið lagðir fram. Aths. dómara.].

Varakrafa stefnda um verulega lækkun byggist í öðru lagi á þeirri málsástæðu að verði ekki á það fallist að krafa stefnanda á hendur stefnda sé fallin niður í heild sinni fyrir tómlætis sakir þá beri engu að síður að líta svo á að hún sé fallin niður að hluta af þeim ástæðum.  Um rökstuðning fyrir lækkunarkröfu stefnda er að þessu leyti vísað til rökstuðnings fyrir sýknukröfu hér að ofan á þessum sama grundvelli, en nánar verður gerð grein fyrir lækkunarkröfu stefnda við aðalmeðferð málsins, muni til hennar koma.

Í þriðja lagi er krafist lækkunar á dómkröfu stefnanda á þeim grundvelli að þegar stefnandi hætti störfum hjá stefnda stóð hann í skuld við stefnda að fjárhæð kr. 166.351.  Skuld þessi er þannig tilkomin að á meðan stefndi var að störfum hjá stefnda óskaði hann ítrekað eftir því að fá laun sín fyrirframgreidd eða a.m.k. hluta þeirra, og stóð hann í raun í skuld við stefnda allan þann tíma sem hann starfaði hjá stefnda.  Stefndi féllst alla tíð á að lána stefnanda tilteknar fjárhæðir gegn því að þær yrðu dregnar af launum hans þegar þau yrðu greidd út.  Gerði stefndi þetta án skyldu og einungis af greiðasemi við stefnanda.  Þegar stefnandi hætti störfum hjá stefnda voru eftirstöðvar skuldar hans við stefnda kr. 166.351.  Stefnandi skuldbatt sig til að endurgreiða stefnanda ofangreinda fjárhæð með ítrekuðum yfirlýsingum þar um.  Greiðslan hefur hins vegar enn ekki borist stefnda.

Af atvikum málsins að öðru leyti og þar sem ljóst má vera að ofangreind krafa stefnda á hendur stefnanda og dómkrafa þessa máls séu af sömu rót runnar verði að telja að skilyrði skuldajafnaðar skv. íslenskum kröfurétti séu fyrir hendi. Lýsir stefndi yfir skuldajöfnuði hvað þennan hluta dómkröfu stefnanda varðar.  Og í ljósi þess telur stefndi að lækka beri dómkröfu stefnanda sem nemur skuld hans við stefnda, þ.e. um kr. 166.351.

Stefndi tekur fram að lokum að hann telji að niðurstaða málsins yrði í engu samræmi við veruleika á markaði né raunverulegar forsendur sem búa að baki viðskiptum eins og þeim sem hér um ræðir, ef fallist yrði á dómkröfur stefnanda. ,,Þar með yrði ljóst að útgerðarmenn gætu ekki verðmetið fisk eftir framboði og eftirspurn eftir allt annarri og óskyldri vöru, þ.e.a.s. kvóta.”  Slík niðurstaða væri að sjálfsögðu að mati stefnda ótæk.

IV. Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda alfarið.  Í því sambandi bendir hann á að verulegur ágreiningur sé uppi um þann uppgjörsmáta sem stefnandi byggir kröfu sína á og að eðlilegt sé að úr honum verði leyst fyrir dómstólum.  Stefndi hafi innt launagreiðslur stefnanda af hendi á gjalddaga, en þegar umræddar greiðslur fóru fram hafi ekki verið gerður nokkur ágreiningur um þær og stefnandi tekið við þeim án nokkurs fyrirvara.  Stefnandi hafi ekki krafið stefnda um greiðslu þeirrar kröfu sem hér er til meðferðar, s.s. með innheimtubréfi eða greiðsluáskorun, fyrr en við þingfestingu málsins þann 14. febrúar 2001.

Verði dómkrafa stefnanda tekin til greina gerir stefndi þá kröfu að upphafsdagur dráttarvaxta miðist við dómsuppsögu, en til vara frá 14. febrúar 2001, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Tilvísun til helstu lagaákvæða: Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á ákvæði 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.  Þá byggist aðalkrafa stefna á 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu.  Jafnframt er aðalkrafa stefnda byggð á meginreglum kröfuréttarins um réttaráhrif tómlætis og meginreglum samningaréttarins um skuldbindingagildi samninga, auk þess sem sýknukrafa stefnda byggir á meðalhófsreglu stjórnskipunarréttarins um túlkun almennra laga.

Varakrafa stefnda byggir á meginreglum kröfuréttarins um tómlæti og skuldajöfnuð.

Um útreikning dráttarvaxta vísar stefndi til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, einkum til 3. mgr. 9. gr. laganna.

Krafa um málskostnað byggist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna.

Skýrslur fyrir dómi: Aðiljar gáfu skýrslur. Stefnandi í málinu nr. E-50/2001 gaf skýrslu í því máli sem hér verður vitnað til, sbr. athugasemd í upphafi dóms þessa. Vitni báru Kristján Sigurður Kristjánsson framkvæmdastjóri Snoppu ehf., Jens Brynjólfsson, skipstjóri á Agli SH-195, Valtýr Þór Hreiðarsson forstjóri Verðlagsstofu skiptaverðs og Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands.

Stefnandi Árni Guðjón Aðalsteinsson kvaðst hafa starfað hjá stefnda í þrjú og hálft ár, hafið störf 22. júlí 1996 og verið sagt upp 3. janúar 2000. Hann hefði átt að hætta störfum 3. apríl 2000, en hefði verið látinn hætta fyrr, 26. eða 27. febrúar. Hann kvaðst fyrsta hafa verið háseti en síðar vélstjóri.

Stefnandi var beðinn að lýsa tilurð fiskverðssamninganna tveggja sem frammi liggja í máli. Hann sagði að skipverjum hefði verið gerð grein fyrir því að ,,það yrði að landa í föstum viðskiptum, [. . .] fá tonn á móti okkar tonni. Það væri ekkert annað hægt. Þeir yrðu bara að selja bátinn eða leggja honum. Og þá náttúrulega sá maður fram á það að nú yrði maður atvinnulaus, svo að það var ekkert annað að gera en skrifa undir þennan samning. En við komum ekki að því að gera þennan samning. Þeir voru búnir að gera samning fiskkaupandinn og útgerðarmaðurinn. Við höfðum engin áhrif á það. Þessi samningur var bara lagður fyrir okkur.” Nánar spurður sagði stefnandi Árni að þeir skipverjar hefðu ekki óskað eftir því að gerður yrði fiskverðssamningur. Hann sagði að haldinn hefði verið fundur um samninginn. Þar hefði stefndi verið og sennilega Metta eiginkona hans, því að fundurinn hefði verið heima hjá honum.

Stefnandi var spurður hvort hann kannaðist við að stefndi og Metta hefðu óskað eftir því við skipverja að þeir færu vel yfir samninginn og undirrituðu hann ekki nema þeir væru ánægðir með það sem þar kæmi fram. Stefnandi kvaðst ekki minnast þess, en sagði að ekki hefði verið boðið upp á annað en gera þennan samning eða þá ,,að við yrðum bara að hætta, eða þá að hann yrði að leggja bátnum, kvótastaðan væri það lítil á bátnum að hann gæti ekki gert út nema svona. Síðan var þessi samningur tilbúinn. Við komum ekkert nálægt gerð þessa samnings.” Vilhelm Árnason hefði undirritað samninginn fyrir hönd áhafnar.

Stefnandi sagði að skipverjar hefðu talið að útgerðin hefði ekki staðið við fiskverðssamningana þegar farið hefði verið að landa fiski eftir gerð þeirra. Í fiskverðssamningi hefði staðið að smæsti fiskurinn ætti að fara á fiskmarkað, en svo hefði ekki verið gert. Honum hefði verið hent. Í öðrum eða þriðja róðri hefði átt að láta hann fara upp í Snoppu, en skipverjar hefðu verið óhressir með það. Þeir hefðu gert athugasemdir við stefnda um borð. Eftir það hefði þeim verið gert að henda honum. Þeir hefðu talið að þeir fengju betra verð fyrir hann á markaði en í Snoppu. Stefnandi sagði einnig að þegar uppgjörin hefðu farið að koma og þeir hefðu farið að skoða þau, hefðu verðin ekki staðist. Stefnandi var þá spurður hvort þeir hefðu fengið einhverja skýringu á því. Hann sagði að samkvæmt samningum hefðu þeir átt að slægja fiskinn, en hann hefði farið óslægður frá borði, þess vegna, hefði verið sagt, að verðin hefðu ekki staðist. Stefndi hefði ráðið því að fiskurinn hefði farið óslægður frá borði. Stefnandi var þá spurður hvaða viðbrögð skipverjar hefðu fengið hjá útgerðinni við athugasemdum þeirra. ,,Þeir urðu bara fúlir,” sagði stefnandi. ,,Maður þorði nú ekki að gera neitt miklar athugasemdir, af því að það voru alltaf eilífar hótanir. Þá yrði maður bara að hætta ef maður væri ekki ánægður.”

Stefnandi sagði aðspurður að þær athugasemdir sem hann gerði grein fyrir hefðu verið komnar fram áður en fiskverðssamningurinn síðari var gerður 1999. Hann var þá spurður af hverju sá samningur hefði verið gerður. ,,Það var bara, við gætum hætt eða skrifað undir nýjan samning,” sagði hann.  ,,Það var ekkert annað í boði ef maður ætlaði að halda áfram. Maður var ekki að segja upp að gamni sínu, eða neitt svoleiðis, með fjölskyldu á framfæri, ætlaði sér ekki að standa uppi atvinnulaus.”

Stefnandi kvaðst ekki muna til þess, aðspurður, að hafa komið í slægingarþjónustu ásamt öðrum skipverjum, þar sem farið hefði verið yfir flokkun í tölvuflokkara og slægingu á afla Egils. Hann kvaðst hins vegar muna að sagt hefði verið við skipverja að aflinn færi í gegnum flokkara. Fiskkaupandinn hefði átt flokkara. 

Stefnandi sagði að sér hefði verið sagt upp störfum vegna fyrirhugaðra sölu á bátnum. Sig minnti að hafa verið þrjá mánuði atvinnulaus.

Stefnandi kannaðist við að hafa fengið fyrirfram greidd laun frá stefnda að fjárhæð kr. 165.351. Hann kvaðst ekki hafa rætt við stefnda hvernig fara skyldi með þessa fjárhæð þegar hann hætti. Upp á það hefði ekki verið boðið. Stefndi hefði bara sagt að hann, stefnandi, gæti átt þessa upphæð, eða það sem hann skuldaði útgerðinni. ,,Ég skyldi bara hætta strax, af því að ég var að gera athugasemdir við að þeir væru að svindla á kvóta [. . .] útgerðarmaðurinn og fiskkaupandinn.” Hann sagði að það hefði borið snögglega að að hann hætti. Hann hefði farið með vigtarnótu til stefnda, sem sýnt hefði óeðlilega háa ísprósentu, og það hefði hann gert áður. Þá hefði verið haldinn fundur með fiskkaupandanum. ,,Hann viðurkenndi það að það væri verið að svindla  kvóta, en við fengjum að veiða þetta seinna, og ég var ósamþykkur því. Þá lofuðust þeir til að hætta þessu kvótasvindli. En síðan sá ég fleiri nótur seinna og fór með þær heim til Sigurðar, og þá sagði hann að ég skyldi bara eiga þess upphæð sem ég skuldaði honum og ég skyldi bara hætta strax á bátnum. Ég fékk ekki að klára minn uppsagnarfrest.”  Hann sagðist ekki hafa fengið greidd laun út uppsagnarfrestinn.

Vagn Ingólfsson, stefnandi í málinu nr. E-50/2001, sbr. athugasemd í upphafi þessa dóms, kvaðst hafa starfað hjá stefnda árið 1990 sem háseti. Árið 1997 hefði hann sóst eftir lausu starfi hjá stefnda og fengið það og verið kokkur hjá stefnda frá 1997 til 1999; hefði látið af störfum í september 1999.

Aðilinn Vagn var spurður út í fiskverðssamninginn frá 9. september 1998. Hann sagði aðspurður að slíkur samningur hefði ekki áður verið gerður milli útgerðar og áhafnar. Hann lýsti aðdraganda samningsins þannig: Dag einn hefði hann verið boðaður á fund heima hjá stefnda eftir einn eða tvo klukkutíma. Þar og þá hefði samningurinn verið lagður fram. Stefndi hefði sagt þeim skipverjum að kvóti Egils væri orðinn svo lítill að það þýddi ekki að gera út bátinn nema með þessu [þ.e. slíkum samningi. Aths. dómara]. Stefndi hefði sýnt skipverjum ,,plögg sem hann bað okkur alla að lesa yfir”, frá Verðlagsstofu. Þau hefðu verið um lög og um starfssvið Verðlagsstofu. Þeir hefðu lesið þetta yfir. Síðan hefði stefndi sagt þeim að samningurinn ,,og öll þessi gögn” yrðu sendur til Verðlagsstofu. Hann hefði sagt þeim að þetta væri allt löglegt.  Síðan hefði ,,Villi” [Vilhelm Árnason] skrifað undir samninginn fyrir hönd skipverja. Aðilinn sagist aðspurður ekkert hafa haft að athuga við undirritun hans f. h. áhafnar.

Aðilinn sagði að allir skipverjar hefðu verið á fundinum, þeirra á meðal stefndi og skipstjórinn, Jens. Auk þeirra hefði Metta, eiginkona stefnda, verið þar, a.m.k. á hluta fundar. 

Aðilinn Vagn sagði að samningurinn hefði ekki komið frá skipverjum. Hann hefði verið lagður fyrir þá nákvæmlega eins og hann liggur fyrir í þessu máli. Skipverjum hefði verið sagt að annaðhvort væri að gera þennan samning eða báturinn yrði seldur eða honum lagt stóran hluta ársins. Þeir hefðu ekki óskað eftir þessum samningi. Í framhaldi af þessu var aðilinn spurður hvort hann kannaðist við að einhverjir í áhöfn hefðu komið að máli við stefnda og óskað eftir því að útvegaðar yrðu aflaheimildir. Hann svaraði að þetta væri bull. Hann sagði að þeir skipverjar hefðu vitað að kvótastaða Egils hefði verið lítil, en þeir hefðu ekki óskað ,,eftir samningi um að gera þetta”.

Aðilinn var spurður hvort hann kannaðist við að á fundinum hefði Metta, kona stefnda, beðið skipverja að kynna sér vandlega samninginn og skrifa ekki undir hann nema þeir væru sáttir við það sem þar kæmi fram. Hann kvaðst ekki minnast þess. Hann ítrekaði að frammi hefðu legið á fundinum gögn frá Verðlagsstofu sem þeir hefðu kynnt sér. Samningurinn hefði verið lagður fram fullmótaður og þeim hefði verið ætlað að skrifa undir. Hann sagði: ,,Þú hefur ekkert val. Báturinn verður seldur. Bátnum verður lagt mestan hluta ársins. Hvaða val á ég?”

Nánar spurður sagði aðilinn að það hefði komið til tals á fundinum að ,,Krissi” [þ.e. Kristján Sigurður Kristjánsson framkvæmdastjóri Snoppu ehf. aths. dómara] ,,mundi leggja til tonn á móti”, og þannig tengdist þessi fiskverðssamningur samningi stefnda við Snoppu ehf.

Aðspurður sagði aðilinn að skipverjar hefðu talið þegar frá leið að stefndi hefði ekki staðið við fiskverðssamninginn. Í samningnum standi að undirmálsþorskur minni en 3 eigi að fara á markað. Skipverjar hefðu fljótlega, í fyrstu róðrum, orðið varir við og þeim sagt að þessi fiskur ætti að fara til Snoppu. Þeir hefðu fett fingur út í það, bent á að í samningnum stæði að þetta ætti að fara á markað. Þá hefði það farið svo að í flestum tilvikum hefði þessum fiski verið hent í sjóinn. Þá sagði aðilinn Vagn að skipverjar hefðu talið sig lesa samninginn áður en þeir skrifuðu undir hann. Síðan hefðu þeir verið að róa á þessum samningi allt árið og hefðu alltaf staðið í þeirri meiningu að við verið væri að fara eftir samningnum. Og síðan þegar báturinn hefði farið í slipp, ,,þá vorum við ekkert að gera,  og þá hugsaði ég mér að ég skyldi vera betur undir næsta fund búinn.” Hann hefði þá farið að skoða hvað væri í gangi á mörkuðunum, verð o. fl. Hann hefði farið að reikna út frá uppgjörinu sínu, sem hann hefði aldrei fyrr gert, því hann hefði treyst því að hann væri að fá það rétta. Hann hefði leitað aðstoðar Jónasar hjá Deloitte & Touche, sem séð hefði um uppgjör fyrir stefnda. Við þessa skoðun hefði hann séð verð niður í 64 krónur á kg, eftir því sem honum hefði reiknast til. Hann hefði síðan farið á fund stefnda með skipverjum í september 1999 til að spyrja um þessa hluti. Hann hefði þá reyndar verið búinn að fá pláss á öðrum bát. Hann hefði á þeim fundi spurt stefnda hvernig á því stæði að þeir væru að sjá verð niður í 64 krónur, þar sem lágmarksverð skv. samningnum væri 70 krónur á kg. Þá hefðu þau, stefndi og Metta kona hans, sagt sér að það þýddi ekki að skila fiskinum óslægðum og ætla að fá borgað fyrir hann slægðan. Þá fyrst sagðist aðilinn Vagn hafa áttað sig á að samningurinn snerist um það að verðin væru fyrir slægðan fisk, en ekki óslægðan. Hann kvaðst vilja meina að þarna væri um brot á samningnum að ræða. Það hafi verið samið um að verðin væru 70, 80 og 90 krónur miðað við slægðan fisk, en síðan hefði allt annað verið gert, áhöfnin hefði verið látin skila fiskinum óslægðum í flestum tilvikum. Nánar spurður sagði aðilinn að það hefði verið aulagangur af skipverjum að átta sig ekki á því að samningurinn hefði átt að taka til slægðs fisks. En stefndi hefði vitað það alla tíð. Vagn var þá spurður hvort hann gæti ekki séð af samningnum hvort hann miðaðist við slægðan eða óslægðan fisk. Hann vísaði þá til þess sem stendur fyrir ofan lóðréttan dálk: ,,óslægt (x)”. Hann kvaðst nú vera búinn að átta sig á því að setja ætti X í dálkinn, ef fiskurinn væri óslægður. Þetta hefði honum yfirsést. Hann hefði ekki áttað sig á þessu fyrr en ári síðar þegar fara átti að gera annan samning. Hann kvaðst ekki muna hver hefði verið venja í þessu áður, að miða við slægðan eða óslægðan fisk.

Aðilinn var spurður hvort hann hefði einhvern tíma gert athugasemdir við að ekki væri staðið við fiskverðssamninginn. Hann kvað já við. Hann hefði gert athugasemdir við að undirmálsfiski hefði verið hent í sjóinn í stað þess að landa honum á markað. Það hefði verið mjög fljótlega eftir að samningur var gerður. Þetta hefði verið fyrirskipun frá skipstjóra.

Aðilinn var spurður hvort hann hefði einhvern tíma þegar hann fékk í hendur launaseðil óskað eftir nánari upplýsingum um á hverju útreikningur launanna byggðist. Hann neitaði því. Hann sagði hins vegar aðspurður að segja mætti að honum hefði verið neitað um aðgang að upplýsingum. Þegar hann hefði farið að undirbúa sig undir fund áhafnar með útgerð 1999 hefði hann farið til Jónasar, sem séð hefði um uppgjör fyrir stefnda, og beðið um yfirlit um hvernig fiskurinn af Agli hefði flokkast. Jónas hefði sagt að hann gæti ekki látið hann hafa yfirlitið nema spyrja stefnda hvort hann mætti það. Stefndi hefði gefið leyfi til að aðilinn, Vagn, fengi að sjá yfirlitið, en hann hefði ekki mátt fara til Jónasar til að sjá það, heldur hefði hann þurft að fara til stefnda til að sjá það. Þessar upplýsingar hefðu svo legið fyrir á fundinum 1999.

Stefndi Sigurður Pétur Jónsson sagði að hann hefði gegnt stöðu stýrimanns um borð í Agli. Skipstjóri hefði verið Jens Brynjólfsson, fóstursonur stefnda. Stefndi væri eigandi bátsins. Hann kvaðst vera félagi í Útvegsmannafélagi Snæfellsness, sem ætti aðild að Landssambandi ísl. útvegsmanna. 

 Stefndi sagði að hann hefði átt í viðskiptum við Sólrúnu á Árskógsströnd til 30. ágúst 1998, áður en fyrri fiskverðssamningurinn (1998) var gerður. Hann var spurður hvaða aflaheimildir hann hefði haft þegar samningurinn var gerður. Hann sagði að það væri ,,ekki stór kvóti á bátnum í sjálfu sér.” Kvótaúthlutun hefði gengið upp og niður. Mikið áfall hefði verið þegar skarkolakvóti hefði verið skertur um 60-70 tonn. Nánar spurður um aflaheimildir sagði stefndi: ,,Þær voru bara þær sem voru á bátnum.” Sjálfsagt hefði þurft að hætta róðrum á Agli fljótlega eftir áramót 1998-99, ef ekkert hefði verið gert í að afla kvóta.

Stefndi sagði að hann hefði farið að landa á markað eftir að hann hætti að landa hjá Sólrúnu. Þá hefðu allir um borð séð í hvað stefndi, að kvótinn yrði fljótt búinn. Mannskapurinn um borð hefði haft orð á að vont hefði verið að missa viðskiptin við Sólrúnu og spurt hvort ekki væri unnt að komast í einhver viðlíka viðskipti. Þá hefði verið gengið til samninga við Snoppu.

Stefndi var spurður um það á hvaða grundvelli fiskverðssamningurinn frá 1998 hefði verið gerður. Hann sagði: ,, Við ákváðum bara að landa okkar kvóta hjá Snoppu á ákveðnu verði. Svo ætlaði hann að sjá til þess að við þyrftum ekki að stoppa á árinu.” Spurður um nánari skýringu á þessu sagði stefndi að Snoppa hefði ætlað að skaffa útgerðinni fisk, kvóta, til að veiða. Samningurinn hefði verið um fast verð á fiski. Skipverjar hefðu verið ,,alveg gjörsamlega” upplýstir um hvað í fiskverðssamningnum fælist. Þeir hefðu samþykkt þetta fyrirkomulag, og þeim hefði verið bent á að skrifa ekki undir neitt nema þeir væru ánægðir með það. Það hefði kona sín, Metta, aðallega gert. Hún hefði ítrekað þetta við þá. Samningurinn hefði verið undirritaður af Vilhelm Árnasyni í umboði áhafnar. Það umboð hefði aldrei verið dregið í efa. Aðspurður sagði stefndi að ekki hefði fyrr en í september 1998 verið gerður fiskverðssamningur milli hans og áhafnar.

Stefndi sagði að í fyrstu hefðu ekki komið neinar athugasemdir frá skipverjum um uppgjör á grundvelli fiskverðssamningsins, ,,ekki fyrr en maður fær þetta allt frá Verðlagsráði [svo] [. . .] nema jú Árni kom einu sinni með ísprósentu [. . .] Þá kom hann með vigtarnótu, sem sýndi fram á að það var 18% ís. Það var það eina sem var sett út á.” Þegar samningurinn hefði verið undirritaður hefði hann sagt skipverjum að ef eitthvað væri sem þeir vildu spyrja um þá skyldu þeir koma til hans, stefnda. Það hefðu þeir ekki gert.

Stefndi var spurður hvort hann kannaðist við að stefnandi í málinu nr. E-50/2001, Vagn Ingólfsson, hefði komið á fund um síðari fiskverðssamninginn (1999) til að gera athugasemdir við fyrri samninginn frá 1998. Stefndi kvaðst ekki muna til þess, nema hvað Vagn hefði sagt að hann ætlaði ekki að taka þátt í þessu meir og ætlaði að hætta.

Stefndi sagði að uppgjör til áhafnar hefði miðast við slægðan fisk. Til þess að auðvelda mannskapnum vinnu hefði afla verið landað óslægðum. Þetta hefði átt við um þorsk. Öllum kola hefði verið landað slægðum. Kaupandi fisksins hefði slægt þorskinn útgerðinni (,,okkur”) að kostnaðarlausu og hefði ekki dregið frá skv. stuðulsprósentu Fiskistofu, heldur bara skv. innyflum. Skipverjar hefðu verið upplýstir um þetta fyrirkomulag á slægingu. Þeim hefði verið boðið að fara að horfa á flokkun og slægingu fisksins, ,, og þeir fengu að sjá pappíra og allt yfir það”.  Stefndi var spurður hver hefði tekið ákvörðun um hvort afla hefði verið landað slægðum eða óslægðum. Hann sagði að það hefði tíðkast lengi (,,frá alda öðli”) að landa óslægðum fiski. Einna helst hefði verið slægt um borð á sumrin, yfirleitt ekki á veturna.

Stefndi sagði aðspurður að hann myndi ekki til að skipverjum hefði verið meinaður aðgangur að gögnum sem launauppgjör þeirra byggðust á. Þeir hefðu aldrei gert fyrirvara þegar þeir tóku við launum.

Stefndi kannaðist ekki við að hafa stundað brottkast á þorski undir þremur kg að þyngd, sbr. framburð stefnanda Árna Guðjóns og stefnanda í málinu E-50/2201, Vagns Ingólfssonar. Slíkur fiskur hefði farið í Snoppu úr tveimur-þremur fyrstu róðrunum, eftir það hefði hann farið á markað.

Stefndi sagði að mjög oft hefði stefnandi, Árni Guðjón, fengið greiddar stórar upphæðir fyrirfram upp í laun. Hann hefði yfirleitt verið í skuld við útgerðina. Stefnanda hefði verið sagt upp 3. janúar 2000, og uppsögnin hefði þá miðast við 3. apríl. 15. febrúar hefði konan hans sótt uppgjörið hans heim til stefnda og hefði þá tekið fyrirfram 230.000 eða 250.000 krónur. Um kvöldið hefði stefnandi komið askvaðandi heim til stefnda og sagst vera hættur, ekki vilja vera lengur. Stefndi kvaðst þá hafa sagt við hann að það væri ekki gott í efni, því að konan hans hefði tekið þetta mikinn pening út um daginn og hvort hann gæti ekki verið lengur til að vinna upp í skuldina sína. Stefnandi hefði fallist á það. Svo hefði hann komið aftur seinna, þá komið fram í mars, og þá sagst vera hættur. Stefndi kvaðst þá hafa sagt við hann, að það væri allt í lagi, hann gæti þá farið. Það yrði þá að liggja eftir sem eftir lægi. ,,Nei nei, ég borga það, “ hefði þá stefnandi sagt. Komið hefði síðar í ljós að skuldin hefði verið kr. 165.351. Stefndi var þá spurður hvort stefnandi Árni Guðjón hefði tilgreint nokkra ástæðu fyrir því að hann vildi hætta skyndilega. Stefndi sagði að það hefði ekki verið. Stefnandi hefði ekki fengið greidd laun í uppsagnarfresti. Hann hefði hætt að eigin ósk, farið í fússi með skuld á bakinu, og hann hefði ekki farið fram á laun í uppsagnarfresti.

Stefndi sagði að stefnandi hefði undirritað síðari fiskverðssamninginn (1999) án fyrirvara eða athugasemda. Þá hefði eins og við fyrri samninginn verið ítrekað við skipverja að vera ekki að skrifa undir nema þeir væru ánægðir með samninginn.

Valtýr Þór Hreiðarsson, forstöðumaður Verðlagsstofu skiptaverðs, bar vitni. Hann var spurður hvernig þetta mál hefði komið til kasta Verðlagsstofu skiptaverðs. Hann sagði að 25. ágúst [2000] hefði Verðlagsstofa móttekið beiðni frá Sjómannasambandi Íslands  um upplýsingaöflun um viðskiptahætti og kvótakaup útgerðar Egils SH-195. Verðlagsstofan hefði tekið málið til athugunar og aflað gagna frá Fiskistofu, sent fyrirspurnir til útgerðar og kaupenda. Svör hefðu borist frá þessum aðilum, m.a. endurskoðunarskrifstofu Deloitte & Touche f. h. útgerðar og fiskkaupa. Niðurstaða Verðlagsstofu kæmi fram í bréfi, dags. 15. nóvember 2000, [dskj. nr. 7]. Þar segði að það væri álit Verðlagsstofu að hluti af aflaverðmæti hefði verið greiddur með þeim hætti að Snoppa ehf. sem fiskkaupi hefði greitt kvóta fyrir útgerð og að greiðsla komi ekki fram til uppgjörs á aflahlut.

Vitnið Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands, staðfesti að hann hefði gert þá útreikninga sem liggja til grundvallar kröfu stefnanda (dskj. nr. 8-10). Þetta mál hefði komið til kasta Sjómannasambandsins þannig, að á árinu 1999 (sennilega) hefðu skipverjar á Agli haft samband við sig. Þeir hefðu verið ósáttir við hlutinn sinn, talið sig fá of lítið. Þeir hefðu beðið sig að fara yfir þetta og sjá hvort þetta væri í anda kjarasamninga og laga. Niðurstaða sín hefði verið á einn veg: Ekki hefði verið framfylgt kjarasamningum eða lögum gagnvart skipverjum. Sjómenn á Agli hefðu verið látnir taka þátt í því að kaupa aflamark til skipsins, sem óheimilt væri skv. samningum og lögum. Fram lagðir útreikningar vitnisins fælu í sér hvaða fjárhæðir skipverjum hefði borið skv. kjarasamningum. Heimildir fyrir útreikningum sínum kvaðst vitnið Hólmgeir hafa fengið hjá Fiskistofu, um landaðan afla; úr uppgjörum til skipverja, þar sem sundurliðað hefði verið hvað fór til Snoppu og hvað fór annað; og um verðmæti kvótans hefði hann fengið upplýsingar frá Kvótaþingi gegnum Fiskistofu. Hann hefði líka fengið frekari upplýsingar frá Verðlagsstofu skiptaverðs. Allar upplýsingar hefðu verið fengnar frá opinberum aðilum.

Vitnið Kristján Sigurður Kristjánsson er framkvæmdastjóri Snoppu ehf. Hann gerði þá grein fyrir viðskiptum Snoppu við stefnda, að þau snerust eingöngu um það að kaupa af honum fiskinn á ákveðnum verðum. Hann sagði að stefndi og Jens [skipstjóri, Brynjólfsson) hefðu komið til sín 1998. Hann hefði þá verið nýbyrjaður með Snoppu. Þeir hefðu falast eftir viðskiptum. Um haustið 1998 hefði verið gerður samningur milli stefnda og Snoppu. Sá samningur, sagði vitnið, hefði byggst á fiskverðssamningnum frá 9. sept. 1998. Samningurinn milli stefnda og Snoppu hefðu verið um það að stefndi landaði til Snoppu öllum sínum kvóta og í staðinn mætti stefndi veiða eins og hann gæti veitt. Nánar spurður um þetta sagði vitnið Kristján Sigurður að Snoppa hefði tekið að sér að skaffa stefnda aflaheimildir. Snoppa hefði leigt kvóta sem stefndi hefði veitt. Kvóti Snoppu hefði verið færður á bátinn Egil. Aflanum hefði ýmist landað slægðum eða óslægðum. Ef afla hefði verið landað óslægðum hefði Snoppa séð um að slægja fiskinn á eigin kostnað. Áhöfnin á Agli hefði vitað þetta, að ef landað væri óslægðu væri slægt í Snoppu og sú vigt gilti. Verðin hefðu verið miðuð við slægðan fisk. Hann kvaðst ekki vita hvort skipverjar hefðu einhvern tíma verið viðstaddir flokkun á fiski í Snoppu. 

Vitnið kvaðst hafa verið viðstaddur fund skipverja og útgerðar um síðari samninginn (sept. 1999).

Vitnið kannaðist ekki við að hafa viðurkennt svo að stefnandi Árni Guðjón heyrði að hann hefði stundað kvótasvindl.  

Vitnið Jens Brynjólfsson er skipstjóri á Agli SH-195 og var það þegar atvik máls gerðust. Hann er fóstursonur stefnda. Hann lýsti svo aðdraganda þess að viðskipti komust á milli stefnda og Snoppu ehf. Útgerð Egils hefði landað hjá Sólrúnu, en þegar þeim viðskiptum lauk, hefðu verið landað á markað.  Honum og öðrum skipverjum hefðu fundist kvóti skipsins fljótur að fara þegar landað var á markað. ,,Okkur fannst þetta mjög spennandi,” sagði vitnið um fiskverðssamninginn fyrri. Hann hefði verið gerður til að tryggja skipverjum atvinnu allt árið.

Fiskverðssamninginn fyrri hefði verið undirritaður af Vilhelm Árnasyni í umboði áhafnar. Við það umboð hefði ekki verið gerður fyrirvari eða athugasemdir. Hann sagði að á fundi um fiskverðssamninginn hefði verið ítrekað að skipverjar ættu ekki að skrifa undir hann ef þeir væru ekki sáttir við hann. Það hefði móðir sín gert, Metta, og stefndi.

Um síðari fiskverðssamninginn sagði vitnið Jens, aðspurður, að enginn hefði verið neyddur til að undirrita hann. Skipverjar hefðu verið áminntir um að undirrita hann ekki nema að vel athuguðu máli.

Vitnið Jens sagði að það hefði verið ýmist að afla væri landað slægðum eða óslægðum. Það hefði veri þægilegra fyrir áhöfn að landa óslægðu. Þegar það hefði verið gert hefði Snoppa séð um slægingu á sinn kostnað.

Vitnið var þá spurt um skýringu á því að fiskverðssamningar gerðu ráð fyrir óslægðum fiski, þótt þægilegast væri fyrir áhöfnina að landa óslægðu. Vitnið sagði að Snoppa hefði slægingarþjónustu, þar sem fiskur væri slægður og flokkaður í tölvu. 

Vitnið Jens kvaðst aðspurður ekki kannast við að skipverjar hefðu gert athugasemdir eða kvartað yfir launauppgjöri sínu. 

Niðurstöður

Í kjarasamningi aðila (Vinnuveitendasambands Íslands vegna aðildarfélaga LÍÚ annars vegar og Vélstjórafélags Íslands, Vélstjórafélags Suðurnesja og Velstjórafélags Vestmannaeyja hins vegar) segir í grein 1.03, fyrst: ,,Vélstjórum/vélavörðum skal tryggt hæsta gangverð alls sem aflað er og aldrei lægra en útgerðarmaður fær fyrir sinn hlut. Þeir taka ekki þátt í útgerðarkostnaði.” Síðan segir í sömu grein, I: ,,Útgerðarmaður hefur með höndum sölu aflans og hefur til þess umboð áhafnar að því er aflahlut hennar varðar. Hann skal tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn, þó aldrei lægra en útgerðarmaður fær, þar með talin hrogn, lifur og bein. Ekki er heimilt að draga frá heildarverðmæti afla kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1986, sbr. 10. gr. laga nr. 79/1994 um breytingu á lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins með síðari breytingum.”  1. gr. laga nr. 24/1986, sbr. breytingalög nr. 79/1994 og nr. 21/1987, hefst þannig: ,, Þegar afli fiskiskipa er seldur óunninn hér á landi er skiptaverðmæti aflans til hlutaskipta og aflaverðlauna 75% af því heildarverðmæti sem útgerðin færi fyrir hann. Ekki er heimilt að draga frá heildarverðmæti afla í þessu sambandi kostnað við kaup á veiðiheimildum.”

Haustið 1998 samdi stefndi við fiskverkunarfyrirtækið Snoppu ehf. um að leggja upp hjá henni þorskafla bátsins Egils SH-195. Fyrir þennan afla átti stefndi að fá tiltekið verð, mismunandi eftir þremur stærðarflokkum þorsksins. Auk þessa tók Snoppa að sér að skaffa stefnda aflaheimildir (aflamark, kvóta), sbr. framburð stefnda fyrir dómi og þó einkum vætti Kristjáns Sigurðar Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Snoppu. Hann bar að Snoppa hefði leigt kvóta sem stefndi hefði veitt. Kvóti Snoppu hefði verið færður á bátinn Egil. Í samningnum fólst að bátur stefnda fengi aflaheimildir hjá Snoppu svo að áhöfn hans gæti veitt sem hún megnaði.

Í samningi stefnda við Snoppu ehf. fólst að hún greiddi fyrir þorskinn af Agli með tvennum hætti: Annars vegar greiddi hún fast verð, ákveðna krónutölu á hvert kg, og hins vegar greiddi hún fyrir aflann með kvóta.

Í framhaldi af nefndum samningi var undirritaður fiskverðssamningur milli stefnda og áhafnar Egils 9. september 1998, og rúmlega ári síðar, 20. september 1999, annar samningur mjög svipaðs efnis. Samningar þessir brutu í bága við 1. gr. laga nr. 24/1986 með áorðnum breytingum, þar sem augljóslega var dreginn frá heildarverðmæti afla kostnaður við kaup á veiðiheimildum. Þeir voru einnig brýnt brot á kjarasamningi, sem segir að útgerðarmaður ,,skal tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn, þó aldrei lægra en útgerðarmaður fær . . .” Þessi niðurstaða dómarans fellur saman við niðurstöðu Verðlagsstofu skiptaverðs, sem fram kemur í bréfi hennar til stefnda, dags. 15. nóvember 2000, þar sem segir: ,,Það er álit Verðlagsstofu að hluti af aflaverðmæti sé greiddur með þeim hætti að Snoppa ehf., sem fiskkaupi, greiði kvóta fyrir útgerð og að nefnd greiðsla komi ekki fram til uppgjörs á hlut áhafnar, svo sem lög kveða á um (1. gr. l. nr. 24/1986 og 10. gr. l. nr. 79/1994).”

Í 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur segir: ,,Samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur eru ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá.” Í 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda segir að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um skuli vera lágmarkskjör. Einnig segir þar: ,,Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.” Að þessu athuguðu ber að fallast á það með stefnanda að fiskverðssamningarnir frá 9. september 1998 og 20. september 1999  skuli teljast ógildir. Kemur þá ekki til álita hvort gætt var ákvæða kjarasamnings um form samninganna eða aðferð við gerð þeirra.

Sýnt þykir dómara af skýrslu stefnanda í þessu máli, skýrslu Vagns Ingólfssonar, stefnanda í máli sem hann höfðaði gegn stefnda og hliðstætt er þessu máli, og ennfremur af aðilaskýrslu stefnda, að ósannað sé að skipverjar á Agli hafi átt frumkvæði að því  að fiskverðssamningarnir voru gerðir, svo sem stefndi heldur fram, eða að þeir hafi óskað þess að slíkur samningur yrði gerður. Er ekki annað sýnna en að á fundi stefnda með áhöfn Egils 9. september 1998 hafi samningurinn verið lagður fyrir fullmótaður af hendi stefnda og án þess að stefnandi eða aðrir skipverjar ættu hlut að gerð hans. Verður ekki annað séð en að hann hafi verið lagður fyrir skipverja til samþykktar eða höfnunar.

Á fund stefnda og áhafnar um hinn síðari fiskverðssamning kom Vagn Ingólfsson, að því er hann ber til að ræða um hinn fyrri samning. Vagn var þá þegar ráðinn í annað skipsrúm en á Agli, og gat ekki átt annað erindi á fundinn en það sem hann sjálfur ber um, þ.e. að hann hafi þangað komið til að gera athugasemdir við hinn fyrri fiskverðssamning og spyrjast fyrir um hann, einkum fiskverð. Mátti þá þegar vera ljóst að komnar voru upp efasemdir um efni og framkvæmd samningsins. Er þetta í samræmi við það sem segir í greinargerð stefnda: ,,Þegar líða tók á samstarfið óskuðu stefndi og samstarfsmenn hans eftir upplýsingum um stærðardreifingu hins veidda afla og útreikning skiptahlutar.”

Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands bar að skipverjar á Agli hefðu leitað til sín, sennilega 1999, vegna þess að þeir hefðu verið ósáttir við sinn hlut, talið sig fá of lítið.

Sjómannasamband Íslands reiknaði út dómkröfu stefnanda. Til þess að það væri unnt þurfti Sjómannasambandi að afla gagna, og tók það nokkurn tíma, svo sem lýst er í stefnu. Stefnandi gat ekki gert gangskör að kröfugerð á hendur stefnda fyrr en niðurstaða Verðlagsstofu skiptaverðs og í framhaldi af henni útreikningur Sjómannasambandsins lá fyrir.

Að þessu athuguðu og einnig því að í samningi stefnda við Snoppu ehf. og fiskverðssamningum hans við áhöfn fólst bæði brot á lögum og kjarasamningi fellst dómari ekki á þá málsástæðu stefnda að sýkna beri hann af kröfu stefnanda sökum tómlætis hinn síðarnefnda. Er krafa stefnanda ekki niður fallin af þeim sökum, hvorki að hluta né í heild.

Dómari fellst ekki á það með stefnda að í ákvæði 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda felist ,,framsal á lagasetninga- og ákvörðunarvaldi löggjafarvaldsins  til hagsmunaaðila á vinnumarkaði,” sem brjóti í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Ákvæði þetta hefur verið í lögum í meira en 60 ár og er orðið venjuhelgað í samskiptum aðila vinnumarkaðarins.Augljóst er að í ákvæðinu  felst takmörkun á samningsfrelsi hagsmunaaðila á vinnumarkaði. Er sú takmörkun til verndar launamönnum, og má ætla að hún sé tilkomin vegna þess að þeir hafi löngum staðið höllum fæti í samningum við atvinnurekendur. Takmörkunin er almenns eðlis, og í beitingu hennar felst ekki brot á stjórnskipunarreglum.

Þá er það skoðun dómarans að 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994, eigi ekki við í þessu máli. Ákvæði felur í sér vernd á eignarrétti. Rétt er í þessu sambandi að benda á að veiddur fiskur er ekki einungis eign útgerðar, heldur og áhafnar samkvæmt hlutaskiptareglum, sbr.  1. gr. laga nr. 24/1986.

Dómarinn telur ennfremur að hafna beri þeirri málsástæðu stefnda að hann eigi að sýkna vegna þess að við samningu þeirra reglna, sem dómkröfur stefnanda byggjast á, hafi ekki verið litið til meðalhófsreglu stjórnskipunarréttarins.

Stefndi hefur í máli þessu uppi skuldajöfnunarkröfu að fjárhæð kr. 166.351. Ágreiningslaust er að þá fjárhæð hafði stefnandi tekið út fyrirfram upp í kaup sitt, þegar hann hætti störfum hjá stefnda.

Stefnandi hætti störfum skyndilega. Honum var ekki greitt kaup í uppsagnarfresti. Stefndi bar fyrir dómi að stefnandi hefði komið til hans í mars 2000 og sagst vera hættur. Stefndi kvaðst þá hafa sagt við hann, að ,,það væri allt í lagi, hann gæti þá farið. Það yrði þá að liggja eftir sem eftir lægi.” Verða þessi ummæli stefnda ekki skilin öðruvísi en svo að hann hafi gefið stefnanda upp skuldina, enda gerði hann aldrei reka að því að innheimta hana fyrr en með skuldjöfnunarkröfunni í þessu máli. Verður þessi krafa stefnda ekki tekin til greina.

Við aðalmeðferð málsins var bókuð svofelld yfirlýsing lögmanna aðila: ,,Í málum þessum deila aðilar um þær forsendur sem leggja beri til grundvallar fyrir uppgjöri aflahlutar áhafnar Egils SH-195. Ekki er hins vegar ágreiningur með aðilum varðandi þá útreikninga sem hvor aðili styður mál sitt við, þ.e. að þeir séu réttir að gefnum forsendum.”

Dómkrafa stefnanda er byggð á útreikningi Sjómannasambands Íslands. Hann var gerður eftir að fyrir lá niðurstaða Verðlagsstofu skiptaverðs, sem getið er hér að framan, um ,, að hluti af aflaverðmæti sé greiddur með þeim hætti að Snoppa ehf., sem fiskkaupi, greiði kvóta fyrir útgerð og að nefnd greiðsla komi ekki fram til uppgjörs á hlut áhafnar, svo sem lög kveða á um ...” Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að forsendur útreiknings á dómkröfu stefnanda séu rangar.

Með vísan til þess sem nú hefur verið ritað verður fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda tekin til greina með þeim vöxtum sem stefnandi krefst. Dráttarvextir reiknast skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. ákvæði til bráðabirgða II þeirra laga. Vextir reiknast fyrst frá 1. september 1999, en ekki 1998, eins og segir í kröfugerð stefnanda. Dæmt verður að heimilt sé að leggja vexti við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. september 2000. Staðfestur verður sjóveðréttur í Agli SH-195 svo sem stefnandi krefst.

Eftir úrslitum máls verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, og ákveðst hann kr. 200.000, auk virðisaukaskatts. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til þess hægðarauka að mál þetta er að miklu leyti hliðstætt málinu nr. E-50/2001 og aðalmeðferð var að hluta til sameiginleg í þessum tveimur málum.

Upphaflega fór með mál þetta f.h. stefnanda Jóhann Halldórsson hrl., en við aðalmeðferð Björn L. Bergsson hrl. Sigurður Kári Kristjánsson hdl. hélt upp vörnum f.h. stefnda.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Sigurður Jónsson, greiði stefnanda, Árna Guðjóni Aðalsteinssyni,  kr. 1.548.743 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 945.155 frá 1. september 1999 til 1. september 2000, en af kr. 1.548.743 frá þeim degi til greiðsludags. Heimilt er að leggja dráttarvexti við höfuðstól á 12 mánaða fresti,  í fyrsta sinn 1. september 2000. 

Stefnandi á sjóveðrétt í Agli SH-195, skipaskrárnúmer 1246, fyrir kröfu að fjárhæð kr. 273.449.

Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað, auk virðisaukaskatts.