Mál nr. 508/2005

Lykilorð
  • Líkamsárás
  • Skilorð

Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. mars 2006.

Nr. 508/2005.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Scott Mckenna Ramsay

(Ásgeir Jónsson hdl.)

 

Líkamsárás. Skilorð.

Með hinum áfrýjaða dómi var S fundinn sekur um brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á veitingahúsi í Keflavík slegið F hnefahöggi með þeim afleiðingum að hann hlaut bana af. S játaði sök. Við ákvörðun refsingar varð ekki litið fram hjá hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af broti S. Ekki var talið að framkoma hins látna hafi gefið tilefni til árásarinnar, en S kvaðst hafa talið að F hafi gerst nærgöngull við unnustu sína. Á hinn bóginn varð ekki talið að S hafi beitt sérlega hættulegri aðferð við atlöguna og var ljóst að afleiðingar af hnefahöggi hans urðu mun alvarlegri en við mátti búast. Talið var að S hafi framið brotið í skammvinnri geðshræringu. Hann hafði frá upphafi játað brot sitt og verið samvinnufús. Gögn málsins báru með sér að brotið hafði verið honum þungbært og hann hafði gert það sem í hans valdi stóð til að bæta fyrir það. Hann hafði ekki fyrr hlotið refsingu. Var staðfest refsiákvörðun héraðsdóms um átján mánaða fangelsi, þar af fimmtán mánuðir skilorðsbundnir.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. nóvember 2005. Hann krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms um refsingu. Ákærði hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur aðalkrafa hans því ekki til álita umfram það sem kveðið er á um í 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði fundinn sekur um brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, með því að hafa aðfaranótt 13. nóvember 2004 á veitingahúsi í Keflavík slegið A hnefahöggi með þeim afleiðingum að hann hlaut bana af. Ákærði játar sök. Kvaðst hann fyrir héraðsdómi hafa talið að A hafi gerst nærgöngull við unnustu sína. Hafi hann orðið mjög reiður og slegið A einu hnefahöggi þar sem hann stóð við barinn á veitingastaðnum. Ákærði mun 10. nóvember 2005 hafa greitt bætur til foreldra hins látna samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms.

Við ákvörðun refsingar verður ekki litið fram hjá hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af broti ákærða. Ekki verður talið að framkoma hins látna hafi gefið tilefni til árásarinnar sem var óvænt og virðist hann ekkert ráðrúm hafa haft til að verjast henni. Á hinn bóginn verður ekki talið að ákærði hafi beitt sérlega hættulegri aðferð við atlöguna og ljóst er að afleiðingar af hnefahöggi hans urðu mun alvarlegri en við mátti búast. Þannig bar Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur fyrir héraðsdómi, en hún gerði krufningarskýrslu vegna hins látna, að við hverjar 2.500 krufningar vegna áverka sem hljótast af líkamsárásum megi búast við einu slíku tilviki og í heildina miðað við aðra áverka sem hljótast af líkamsárásum þá sé „þetta óskaplega sjaldgæft.“ Ákærði framdi brotið í skammvinnri geðshræringu. Hann hefur frá upphafi játað brot sitt og verið samvinnufús. Gögn málsins bera með sér að brotið hefur verið honum þungbært og hann hefur gert það sem í hans valdi hefur staðið til að bæta fyrir það. Hann hefur ekki fyrr hlotið refsingu. Verður við ákvörðun hennar vísað til 1., 2., 3., 5., 6., 7. og 8. tölulið 70. gr. almennra hegningarlaga og sjónarmiða að baki 8. og 9. tölulið 74. gr. sömu laga. Með hliðsjón af framansögðu og vísan til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, þykir mega staðfesta refsiákvörðun héraðsdóms.

Ákærði sat einn sólarhring í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins sem kemur til frádráttar refsingu hans. Verður héraðsdómur staðfestur með þeirri breytingu.

Með vísan til 2. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 38. gr. laga nr. 36/1999, greiðist úr ríkissjóði allur sakarkostnaður málsins fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að til frádráttar refsingu ákærða, Scott Mackenna Ramsay, komi gæsluvarðhald er hann sætti frá 13. nóvember 2004 til 14. sama mánaðar.

Ríkissjóður greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, 311.250 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2005.

Mál þetta var þingfest 27. maí 2005 og tekið til dóms 22. september sl.  Það er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 12. maí 2005 gegn Scott Mckenna Ramsay, kt, 021075-2569, breskum ríkisborgara, Hringbraut 71, Keflavík, „fyrir stórfellda líkamsárás, svo að mannsbani hlaust af, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 13. nóvember 2004, á veitingahúsinu Traffic við Hafnargötu 30 í Keflavík, fyrirvaralaust slegið A, danskan ríkisborgara fæddan 1971, hnefahöggi efst á hálsi hægra megin, með þeim afleiðingum að blæðing sem A hlaut milli heila og innra heilahimna af völdum höggsins leiddi til dauða hans.  Kom rifa á slagæð er liggur upp meðfram hálshrygg hægra megin og varð rifan í þeim hluta æðarinnar sem liggur gegnum beingöng í hliðartindi fyrsta hálshryggjaliðs.  Einnig kom sprunga í sjálfan hliðartindinn aðlægt æðinni.  Leiddi þetta til mikillar blæðingar upp meðfram æðinni og inn í höfuðkúpu milli heila og innra heilahimna.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakröfur á hendur ákærða.

Af hálfu Y, [...], Danmörku, er krafist skaðabóta vegna greiðslu útfararkostnaðar að fjárhæð dkr. 39.808,14, auk miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000.  Af hálfu Z, sama stað, er krafist skaðabóta vegna greiðslu útfararkostnaðar að fjárhæð dkr. 39.808,14, auk miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000.“

Ákærði hefur játað sök, að hann hafi veitt A hnefahögg með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Hann krefst vægustu refsingar og að hún verði skilorðsbundin.  Ákærði fellst á kröfu bótakrefjenda vegna útfararkostnaðar eins og henni var breytt eftir útgáfu ákæru.  Ákærði krefst þess að miskabótakröfunni verði aðallega vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af þeirri kröfu og til þrautavara að krafan verði lækkuð verulega.  Þá er krafist málsvarnarlauna.

Við aðalmeðferð málsins lækkaði bótakrefjandi Y kröfu sína um 7.500 dkr. vegna útfararkostnaðar og að sama skapi lækkaði bótakrefjandi Z bótakröfu sína um 7.500 dkr. vegna útfararkostnaðar. Eins og áður sagði hefur ákærði samþykkt þessar kröfur þannig breyttar.          .

I.

Laugardaginn 13. nóvember 2004 kl. 04:13 var óskað eftir aðstoð lögreglu á skemmtistaðnum Traffic í Keflavík vegna líkamsárásar.  Þegar lögreglan kom á vettvang lá hinn slasaði, A, á sófa í aðstöðu starfsmanna og voru sjúkraflutningsmenn komnir á staðinn og voru að reyna lífgunartilraunir.  Hinn slasaði var færður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann var úrskurðaður látinn kl. 04:58.

Á vettvangi var lögreglunni tjáð að ákærði hefði slegið A og kl. 05:53 fóru lögreglumenn á heimili ákærða og handtóku hann.  Hann viðurkenndi strax að hafa slegið A og sagði ástæðuna þá að A hafi stöðugt verið að áreita sambýliskonu hans, B.

A var í danska flughernum og hafði komið til landsins daginn áður ásamt sjö félögum sínum og hugðust þeir fara af landi brott síðar þennan dag. 

Lögreglan tók skýrslur af fjölda vitna og í málinu hafa verið lagðar fram myndir af vettvangi svo og myndir úr öryggismyndavélum sem eru á skemmtistaðnum. Ákærða var tekið blóð til rannsóknar og mældist alkóhól í blóði 1,35 promill.  

Réttarkrufning fór fram og í niðurstöðu hennar segir meðal annars:  „Krufningin sýndi að A hlaut högg efst á hálsi hægra megin (við hægra kjálkabarð).  Höggið olli rifu á slagæð (vertebralis slagæð), er liggur upp meðfram hálshrygg hægra megin, og varð rifan í þeim hluta æðarinnar sem liggur gegnum beingöng í hliðartindi fyrsta hálshryggjarliðs (C1).  Einnig kom sprunga í sjálfan hliðartindinn aðlægt æðinni. Þetta leiddi til mikilla blæðinga upp meðfram æðinni og inn í höfuðkúpu, milli heila og innri heilahimna og olli sú blæðing dauða A.“

Þá hefur verið lögð fram skýrsla Flosa Karlssonar læknis þar sem fram kemur að ákærði hefur sótt fjórtán meðferðarviðtöl hjá lækninum.  Meginmarkmið viðtalanna var að verja ákærða þunglyndi og áfallastreitu og styðja fjölskylduna vegna þessa atburðar.

II.

Fyrir dóminn kom ákærði og eftirfarandi vitni:  Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir, sem tók á móti A á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Ó og J, báðir starfsmenn á skemmtistaðnum Traffic, B sambýliskona ákærða, D, sem var á skemmtistaðnum í umrætt sinn, Þórir Þorsteinsson og Loftur Kristjánsson lögreglumenn, Ari Elíasson og Eyþór R. Þorsteinsson sjúkraflutninga­menn, Þóra Steffensen læknir, sem skýrði skýrslu sína um réttarkrufningu, Flosi Karlsson læknir, sem lýsti ástandi ákærða og G frændi ákærða, sem var með ákærða umrætt kvöld.

Framburður ákærða og vitna eru í öllum meginatriðum samhljóma um atvik málsins.  Ákærði fór umrætt kvöld út að skemmta sér með félögum sínum úr knattspyrnuliði Keflavíkur og mökum þeirra.  Fólkið hittist í félagsheimili félagsins upp úr kl. 22:00.  Síðar um kvöldið hélt hópurinn á Kaffi Duus í Keflavík þar sem karlmenn settust við eitt borð en makar þeirra við annað.  Ákærði kvaðst hafa veitt þremur mönnum athygli þar sem þeir hafi verið sestir hjá kvenfólkinu.  Honum hafi virst einn þeirra stíga í vænginn við B, sambýliskonu hans.  Hópurinn dvaldi um eina og hálfa klukkustund á Kaffi Duus en síðan hélt hluti af hópnum yfir á skemmtistaðinn Traffic.  Þau B og ákærði ákváðu að gera það einnig og á leiðinni þangað spurði ákærði B hvort maður á Kaffi Duus hafi verið að fara á fjörurnar við hana.  B sagði að sér hafi fundist það en hún hafi jafnframt sagt manninum að hún ætti kærasta sem væri með henni.

Þegar þau voru komin á skemmtistaðinn Traffic fór B fljótlega að dansa við vinkonu sína.  Sá hún þá hvar A var kominn og vildi dansa við þær.  Þær hættu þá að dansa og fór B til ákærða og sagði honum að A væri að ónáða hana.  Ákærði sagði þá við hana að láta það afskiptalaust og skyldi hún setjast hjá sér.  Gerði hún það en síðar fór B á barinn til þess að kaupa handa þeim drykk en hún var ein með greiðslukort þetta kvöld.  Meðan hún var að sækja drykkinn kom til ákærða D sem er málkunnug B.  Sagði hún við ákærða eitthvað í þá veru að hann ætti ekki að láta A komast upp með að reyna svona við konuna hans.  Ákærði kvaðst þá hafa litið að barnum og séð svo ekki var um að villast að A var nærgöngull við B.  Hann sagðist hafa fundið fyrir afbrýðissemi og hvernig reiði blossaði upp í honum, sérstaklega þar sem A hafi átt að vita að B væri með ákærða.  Kvaðst ákærði hafa gengið að A, stoppað við hliðina á honum þar sem hann sat við barinn og kýlt hann einu höggi með krepptum hnefa.  Að því búnu strunsaði ákærði út af skemmtistaðnum og sagðist hann ekki hafa séð A falla í gólfið.  B sá ekki hvað gerðist en var sagt að ákærði ætti hlut að máli.  Fór hún að leita að honum og fann hann fyrir utan skemmtistaðinn.  Sagði B að ákærði hafi verið miður sín út af því sem gerst hafði.  Gengu þau heim og er þangað var komið reyndi B að grennslast fyrir um líðan A með því að hringja í lögreglu og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en fékk engar upplýsingar.  Vinur þeirra hringdi og sagði þeim frá því að A hafi verið fluttur með sjúkrabíl í burtu af skemmtistaðnum.  Þau ákváðu þá að ganga upp á lögreglustöð þar sem ákærði ætlaði að gefa sig fram.  Var B komin í úlpu og ákærði í skó er lögreglan birtist á heimili þeirra. 

Í skýrslu ákærða kom fram að hann skildi ekki hvað kom yfir sig þetta kvöld því hann hafi aldrei áður lagt hendur á nokkurn mann.

III.

Með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum malsins telst sök hans sönnuð.  Með krufningsskýrslu og framburði réttarlæknis hér fyrir dómi er sannað að  andlát var bein afleiðing þess hnefahöggs sem ákærði veitti honum. Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákæru.

Ákærði á engan sakaferil að baki. Persónulegir hagir ákærða eru þeir að hann á eitt barn með sambýliskonu sinni og hefur gengið öðru barni hennar í föðurstað. Þau hafa verið í sambúð í fjögur ár.  Hann er reglusamur og stundar fasta vinnu. Framlögð sérfræðigögn sýna fram á að ákærði gerir sér grein fyrir að ekkert réttlætanlegt tilefni var til viðbragða hans í umrætt sinn og verknaðurinn hefur lagst þungt á hann 

Við mat á refsingu ákærða verður litið til þess að ákærði hafði ekki ásetning til þess að vinna A slíkt tjón sem raun varð og afleiðingar hnefahöggsins urðu mun alvarlegri en höggið gaf tilefni til. Hins vegar verður ekki litið framhjá hinum alvarlegu afleiðingum sem hlutust af brotinu. Þegar allt  framangreint er virt í heild þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi en rétt þykir að skilorðsbinda 15 mánuði af  refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þrem árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr 22/1955.

Skúli Fjelsted hrl. hefur sett fram skaðabótakröfu í málinu fyrir hönd foreldra hins látna, Ingu og Z.  Krafa hvors þeirra er að fjárhæð 32.308 danskar krónur vegna útfarar sonar þeirra og hefur ákærði samþykkt þá kröfu þeirra.  Samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærði því dæmdur til að greiða bótakrefjendum þá fjárhæð.

Miskabótakrafa bótakrefjenda er að fjárhæð 1.000.000 krónur til hvors og er reist á 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1992, sbr. 13. gr. laga nr. 57/1999. Frávísunarkrafa ákærða er byggð á því að miskabótakrafan sé vanreifuð. Ekki verður fallist á það þar sem ekki þarf að velkjast í vafa um að andleg þjáning foreldra er mikil við að missa barn sitt.  Skilyrði 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga er því uppfyllt og þykja miskabætur til handa foreldrum til hins látna hæfilega ákveðnar 700.000 krónur til hvors.

Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 verður ákærða gert að bæta bótakrefjendum kostnað vegna lögmannsaðstoðar sem þykir hæfilega ákveðinn 80.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti til hvors bótakrefjenda fyrir sig.

Loks ber samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað sem samkvæmt yfirliti saksóknara er 500.403 krónur.  Þá ber að dæma ákærða til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Jónssonar hdl., sem þykja með hliðsjón af umfangi málsins  hæfilega ákveðin 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Scott Mckenna Ramsay, sæti fangelsi í 18 mánuði en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsivistinni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þrem árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði Y 780.000 íslenskar krónur og 32.308 danskar krónur.

Ákærði greiði Z 780.000 íslenskar krónur og 32.308 danskar krónur.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, sem er 500.403 krónur, svo og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Jónssonar hdl., 600.000  krónur.