Print

Mál nr. 598/2015

Kristín Pálsdóttir (Tómas Jónsson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.)
Lykilorð
  • Fjármálafyrirtæki
  • Skuldamál
  • Neytendalán
  • Yfirdráttarheimild
Reifun

L hf. höfðaði mál gegn K til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á tékkareikningi. K krafðist sýknu á þeim grunni að L hf. hefði verið óheimilt að krefja hana um vexti af yfirdráttarskuldinni og svonefnt heimildargjald með því að henni hefðu ekki verið veittar viðhlítandi upplýsingar um lánskjörin að þessu leyti eftir ákvæðum þágildandi laga nr. 121/1994 um neytendalán. Ætti hún því gagnkröfu á hendur L hf. vegna oftekinna vaxta og gjalda, sem næmi hærri fjárhæð, og bæri þannig að sýkna hana af kröfu L hf. sökum skuldajafnaðar. Talið var að L hf. hefði ekki tekist að axla sönnunarbyrði fyrir því að hann hefði veitt K þær upplýsingar sem honum hefði borið að gera samkvæmt 3. gr. laganna áður en stofnað var til yfirdráttarheimildar K. Um afleiðingar þess yrði á hinn bóginn að gæta að því að vegna g. liðar 1. mgr. 2. gr. laganna eins og hún hljóðaði við veitingu yfirdráttarheimildarinnar tækju ákvæði 1. og 2. mgr. 14. gr. þeirra ekki beint til tilvika, þar sem brestur hefði orðið á upplýsingagjöf fjármálafyrirtækis í tengslum við gerð samnings um yfirdráttarheimild. Þá yrði einnig að líta til þess að samkvæmt 3. mgr. síðastnefndrar lagagreinar giltu önnur ákvæði hennar heldur ekki ef lánveitandi gæti sannað að neytanda hefði mátt vera ljóst hver lántökukostnaðurinn hefði átt að vera. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem birtust á reikningsyfirlitum L hf. og tómlæti K vegna þessara útgjalda var ekki talið að bankinn hefði, svo að einhverjar afleiðingar gæti haft að lögum, vanrækt skyldur sínar gagnvart K samkvæmt 3. gr. laga nr. 121/1994. Þá var ekki fallist á með K að líta bæri svo á að upphaflegur samningur um yfirdráttarheimild af reikningi hennar hefði fallið niður og nýr samningur verið gerður um það efni eftir gildistöku laga nr. 179/2000 um breytingu á lögum nr. 121/1994. Yrðu því kröfur til L hf. um upplýsingagjöf til K vegna þessara viðskipta að taka mið af ákvæðum laga nr. 121/1994, eins og þau hefðu verið þegar til viðskiptanna var stofnað. Samkvæmt framansögðu var K gert að greiða L hf. umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. september 2015. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í málinu er óumdeilt að áfrýjandi hafi 2. september 1998 fengið opnaðan tékkareikning við tiltekið útibú Landsbanka Íslands hf., en réttindi og skyldur þess banka í tengslum við reikning þennan færðust til stefnda á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Engin gögn hafa verið lögð fram um stofnun reikningsins eða upplýsingagjöf bankans til áfrýjanda í tengslum við það. Þá liggja heldur ekki fyrir í málinu eldri gögn um notkun reikningsins en frá lokum nóvember 2000, en samkvæmt yfirliti vegna hans frá desember á því ári hafði frá 9. mars 1999 verið heimild til yfirdráttar á honum, sem þá nam 300.000 krónum. Á hinn bóginn hafa verið lögð fram reikningsyfirlit, sem ná til tímabilsins upp frá þessu allt þar til áfrýjandi virðist hafa látið af notkun reikningsins í nóvember 2010. Af þeim yfirlitum verður helst ráðið að heimild til yfirdráttar á reikningnum hafi tekið breytingum á þessu tímabili, þannig að hún hafi verið 610.000 krónur frá 5. desember 2001, 400.000 krónur frá 2. júlí 2002, 600.000 krónur frá 2. október sama ár, 900.000 krónur frá 3. desember sama ár, 300.000 krónur frá 1. ágúst 2003, 800.000 krónur frá 2. september 2004, 350.000 krónur frá 4. febrúar 2005, 800.000 krónur frá 11. nóvember sama ár, 750.000 krónur frá 2. desember 2006, 1.000.000 krónur frá 12. nóvember 2007, 950.000 krónur frá 2. febrúar 2008, 900.000 krónur frá 2. maí sama ár, 850.000 krónur frá 2. júní sama ár og 950.000 krónur frá 22. desember 2009. Af gögnum málsins verður ekki ráðið annað en að yfirdráttarheimildin hafi fallið niður 18. nóvember 2010.

Samkvæmt yfirlitunum, sem að framan var getið, nýtti áfrýjandi yfirleitt að einhverju leyti eða öllu heimild til yfirdráttar á reikningi sínum eins og hún var á hverjum tíma. Vegna þessa voru reglulega færð til skuldar á reikninginn tvenns konar útgjöld úr hendi áfrýjanda, annars vegar svonefnt heimildargjald og hins vegar vextir af yfirdráttarskuld. Um fyrrnefnda gjaldið verður ekkert fundið í gögnum málsins annað en að á reikningsyfirlitum var tiltekið að það væri „3,50%“ án þess að fram kæmi af hverju það væri reiknað. Á tímabilinu frá nóvember 2000 til september 2004 færði Landsbanki Íslands hf. þetta gjald til skuldar á reikning áfrýjanda við lok hvers mánaðar, að frátöldum tveimur mánuðum 2002 og fimm mánuðum 2003, svo og tveimur fyrstu mánuðum ársins 2004, þó svo að yfirdráttarheimild hafi verið nýtt á þeim tímabilum. Eftir september 2004 var þetta gjald ekki tekið, en á því hafa engar skýringar komið fram í málinu. Þá verður ráðið af yfirlitunum að vextir af yfirdráttarskuld hafi verið færðir mánaðarlega til gjalda á reikninginn frá og með nóvember 2000 til og með október 2010, að ágúst 2002 frátöldum, en síðan aftur í október, nóvember og desember 2013. Í flestum tilvikum var tekið fram í yfirlitunum hver vaxtafótur hafi verið og ef því var að skipta hvernig hann hafi breyst frá mánuðinum á undan. Samanlagt telur áfrýjandi vexti og heimildargjöld frá desember 2001 til og með október 2010 hafa numið 1.079.815 krónum að gættu því að í þeirri fjárhæð er ekki tekið tillit til þessara útgjalda á tímabilinu frá júlí til desember 2002.

Af fyrirliggjandi reikningsyfirlitum verður séð að áfrýjandi hafi ekki notað tékkareikninginn eftir 22. nóvember 2010, en yfirdráttarskuld á honum var þá 936.337 krónur. Frá þeim tíma voru engar hreyfingar á reikningnum fyrr en á árinu 2012 þegar 1.878 krónur voru færðar þar til skuldar vegna innheimtutilraunar. Á árinu 2013 voru engar færslur á reikningnum fyrr en í lok október, en eftir það voru sem fyrr greinir þrívegis færðir til gjalda vextir, alls 30.523 krónur, og þrisvar gjöld vegna innheimtutilrauna, samtals 17.700 krónur. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda var reikningnum lokað 31. janúar 2014 og hafi skuld á honum þá numið 996.960 krónum. Í framhaldi af því höfðaði stefndi mál þetta 14. maí 2014 til heimtu þeirrar fjárhæðar ásamt dráttarvöxtum frá 19. apríl sama ár og málskostnaði.

Áfrýjandi krefst sýknu af þessari kröfu á þeim grunni að Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda hafa verið óheimilt að krefja hana um vexti af yfirdráttarskuldinni og svonefnt heimildargjald með því að henni hafi ekki verið veittar viðhlítandi upplýsingar um lánskjörin að þessu leyti eftir ákvæðum þágildandi laga nr. 121/1994 um neytendalán. Eigi hún því gagnkröfu á hendur stefnda vegna oftekinna vaxta og gjalda, sem nemi áðurnefndum 1.079.815 krónum, og beri þannig að sýkna hana af kröfu stefnda sökum skuldajafnaðar. Fyrir Hæstarétti heldur áfrýjandi ekki lengur fram málsástæðu, sem hún byggði á fyrir héraðsdómi, um að krafa stefnda væri fallin niður fyrir fyrningu.

II

Eins og fyrr segir liggja ekki fyrir í málinu gögn um stofnun tékkareiknings áfrýjanda hjá Landsbanka Íslands hf. í september 1998, umsókn hennar um þau viðskipti eða upplýsingagjöf bankans til hennar af því tilefni. Þá er heldur ekki ljóst hvort áfrýjandi hafi notið heimildar til yfirdráttar af reikningnum frá öndverðu, en af yfirliti vegna hans er þó að sjá að slík heimild hafi að minnsta kosti verið fyrir hendi frá 9. mars 1999. Á þeim tíma tóku lög nr. 121/1994 ekki til lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar af tékkareikningi, sbr. g. lið 1. mgr. 2. gr. laganna, en samkvæmt 3. gr. þeirra bar þó fjármálafyrirtæki allt að einu að veita neytanda, sem stofnaði til slíkra viðskipta, tilteknar upplýsingar við upphaf þeirra. Slíkar upplýsingar áttu nánar að varða takmörk á lánsfjárhæð, hvaða vextir og gjöld myndu falla á lán, hvernig segja mætti samningi um viðskiptin upp, hvort breyta mætti vöxtum og gjöldum á lánstímanum og hvernig neytanda yrði tilkynnt það, þar á meðal með því að vekja athygli á breytingu í reikningsyfirliti. Stefndi hefur ekki axlað sönnunarbyrði fyrir því að alls þessa hafi verið gætt áður en stofnað var til yfirdráttarheimildar áfrýjanda. Um afleiðingar þess verður á hinn bóginn að gæta að því að vegna áðurnefnds g. liðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 121/1994 tóku ákvæði 1. og 2. mgr. 14. gr. þeirra ekki beint til tilvika, þar sem brestur hafi orðið á upplýsingagjöf fjármálafyrirtækis í tengslum við gerð samnings um yfirdráttarheimild, en til þess verður og að líta að samkvæmt 3. mgr. síðastnefndrar lagagreinar giltu önnur ákvæði hennar heldur ekki ef lánveitandi gat sannað að neytanda hafi mátt vera ljóst hver lántökukostnaðurinn átti að vera. Þótt svonefnt heimildargjald vegna yfirdráttar á reikninginn og vextir af skuld vegna hans hafi ekki getað birst á reikningsyfirliti fyrr en yfirdráttarheimild hafði í fyrsta sinn verið nýtt gátu áfrýjanda ekki dulist hver þessi útgjöld voru þegar það hafði gerst. Á reikningsyfirlitum kom einnig fram fjárhæð og gildistími yfirdráttarheimildar hverju sinni. Áfrýjandi hefur ekki borið því sérstaklega við að sér hafi ekki verið kunnugt um hvernig ljúka mætti þessum lánsviðskiptum eða að vextir og önnur útgjöld vegna nýtingar heimildarinnar gætu breyst, en breytingar, sem síðar urðu á vaxtafæti vegna yfirdráttarskuldar, komu jafnframt að öðru jöfnu skýrlega fram á reikningsyfirlitum. Ekki gerði áfrýjandi svo að séð verði nokkru sinni athugasemd vegna þessara útgjalda fyrr en í greinargerð sinni í máli þessu fyrir héraðsdómi. Er því ekki unnt að líta svo á að Landsbanki Íslands hf. hafi, svo að einhverjar afleiðingar geti haft að lögum, vanrækt skyldur sínar gagnvart áfrýjanda samkvæmt 3. gr. laga nr. 121/1994 á þeim tíma, sem stofnað var til yfirdráttarheimildar á tékkareikningi hennar.

Með lögum nr. 179/2000, sem tóku gildi 11. janúar 2001, var lögum nr. 121/1994 breytt meðal annars á þann hátt að fyrrgreindur g. liður 1. mgr. 2. gr. síðarnefndu laganna var felldur niður og ákvæði 3. gr. þeirra gerð ítarlegri um skyldur fjármálafyrirtækis gagnvart neytanda við gerð samnings um lán í formi yfirdráttarheimildar af tékkareikningi. Eftir þessar breytingar var þó tiltekið í e. lið 1. mgr. 3. gr. laganna að unnt væri að breyta slíkri heimild eftir munnlegri beiðni neytanda. Ekki hefur áfrýjandi sýnt fram á að stoð geti verið fyrir því að líta svo á að upphaflegur samningur um yfirdráttarheimild af reikningi hennar hafi fallið niður og nýr samningur verið gerður um það efni þegar heimildin hækkaði 5. desember 2001 eftir gildistöku þessarar lagabreytingar úr 300.000 krónum í 610.000 krónur, svo sem hún hélt fram við flutning málsins fyrir Hæstarétti, eða að svo hafi verið ástatt við síðari breytingar á fjárhæð heimildarinnar. Verða því kröfur til Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda um upplýsingagjöf til áfrýjanda vegna þessara viðskipta að taka mið af ákvæðum laga nr. 121/1994, eins og þau voru þegar til viðskiptanna var stofnað.

Að gættu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2015.

                                                                                     I.

Mál þetta var höfðað 14. maí 2014 og dómtekið 19. maí 2015.

                Stefnandi er Landsbanki Íslands, Austurstræti 11, Reykjavík, en stefnda er Kristín Pálsdóttir, Hvammsgerði 12, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 996.960 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 996.960 krónum frá 19. apríl 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefnda krefst sýknu á grundvelli skuldajöfnunar eins langt og dómkrafa sóknaraðila nær, en til vara krefst stefnda sýknu. Þá krefst stefnda málskostnaðar.

                                                                                    II.

Þann 2. september 1998 stofnaði stefnda tékkareikning nr. 104545 við útibú Landsbanka Íslands hf. Yfirdráttarheimild á reikningnum rann út og var honum lokað í kjölfarið þann 31. janúar 2014. Nam uppsöfnuð skuld reikningsins 996.960 krónur. Stefnandi sendi stefndu innheimtuviðvörun þann 26. febrúar 2014 og innheimtubréf þann 19. mars 2014. Samkvæmt gögnum málsins svaraði stefnda ekki bréfunum. 

                Samkvæmt endurkröfuútreikningi stefndu nemur gagnkrafa hennar á hendur stefnanda til skuldajöfnunar 2.154.371 krónu.

                                                                                   III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisir kröfu sína á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

                Við munnlegan flutning málsins tók stefnandi fram að stefnda hefði reglulega fengið send reikningsyfirlit frá bankanum. Á þeim komi fram að gera þurfi athugasemdir innan 20 daga, annars teljist reikningurinn réttur. Stefnda hafi ekki borið því við að yfirlitin hafi ekki borist til hennar. Þá mótmælir stefnandi gagnkröfu stefndu til skuldajöfnunar. Hún sé vanreifuð. Telur stefnandi einnig að stefnda hafi sýnt af sér tómlæti við að koma á framfæri mótmælum vegna yfirdráttarlánsins. Ítarleg reikningsyfirlit stefnanda, sem send voru stefndu reglulega, beri með sér vexti og annan kostnað. Þá hafi neytendalög nr. 121/1994, sem nú séu fallin úr gildi, ekki gilt um yfirdráttarlán stefndu. Lög nr. 121/1994 hafi ekki veitt stefndu nokkurn rétt. Þá hafi stefndu mátt vera ljós áfallinn kostnaður, enda hafi hún notað reikninginn frá árinu 1998. Hafi hún ekki gert athugasemdir við reikningsyfirlitin fyrr en undir rekstri þessa máls. Þá sé stærsti hluti gagnkröfunnar fyrndur þar sem fyrning hafi fyrst rofnað þegar gagnkrafa hafi verið sett fram til skuldajöfnunar. Þá mótmælir stefnandi tilvísun stefndu til laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sem þýðingarlausri fyrir úrslit málsins. Hið sama gildi um tilvísun stefndu til EES réttar. Stefnandi bendir á að kröfur vegna peningaláns fyrnist á 10 árum, sbr. þágildandi lög nr. 14/2005 og nú 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu

Stefnda reisir gagnkröfu sína til skuldajöfnunar á móti kröfum stefnanda á því, að stefnanda hafi verið óheimilt að innheimta nokkurn kostnað af yfirdrætti á tékkareikningi stefndu, þar sem aldrei hafi verið gerður skriflegur samningur á milli aðila, sbr. 3. og 5. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 um neytendalán. Því beri stefnanda að endurgreiða stefndu allan kostnað sem innheimtur hafi verið af tékkareikningi hennar með vöxtum, skv. 4. gr., sbr. 18. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefnanda hafi nánar tiltekið verið óheimilt að krefjast kostnaðar, dráttarvaxta og virðisaukaskatts af stefndu. Þá hafi stefnanda samkvæmt 6. gr. sömu laga borið að gera stefndu ítarlega grein fyrir kostnaði við lántökuna, þ.m.t. vextir, sbr. 3. gr. laga nr. 121/1994. Stefnda telur að háttsemi stefnanda fari gegn banni við óréttmætum viðskiptaháttum, sbr. lög nr. 57/2005 og lög nr. 121/1994. Þá sé jafnframt um að ræða óréttmæta skilmála sem séu frávíkjanlegir, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. c. Þá vísar stefnda til ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli E-25/13, fordæma Evrópudómstólsins í máli C-76/10 og niðurstöðu Neytendastofu í máli nr. 8/2014.

                Í umfjöllun um varakröfu sína telur stefnda að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir fyrningu.   

                                                                                   IV.

Stefnda stofnaði tékkareikning nr. 104545 þann 2. september 1998 við útibú Landsbanka Íslands hf. Yfirdráttarheimild var á reikningnum og rann hún út án þess að uppsöfnuð skuld reikningsins væri greidd. Reikningnum var lokað 31. janúar 2014 og nam skuldin þá 996.960 krónum sem er stefnufjárhæð málsins.

                Í málinu liggja fyrir reikningsyfirlit vegna ofangreinds bankareiknings frá árinu 2000 til loka hans, með sundurliðuðum upplýsingum um innborganir og úttektir, þ. á m. vegna þjónustugjalda og vaxtakostnaðar. Yfirlitin eru öll stíluð á stefndu. Neðst í yfirlitunum kemur fram eftirfarandi texti: „Athugasemdir óskast gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, annars telst reikningurinn réttur. […] Vaxtamánuður er 21. – 20. næsta mánaðar.“ Hefur stefnda hvorki mótmælt því að hafa móttekið yfirlit þessi né gert athugasemdir við þau. Á meðal gagna málsins er innheimtuviðvörun, dags. 26. febrúar 2014, og innheimtubréf, dags. 19. mars 2014, sem stefnda mótmælir ekki að hafa móttekið eða gert athugasemdir við.

                Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Fyrir liggur að stefnda notaði tékkareikninginn samfellt frá stofnun hans og þar til honum var lokað í janúar 2014, en mál þetta var höfðað 14. maí 2014. Í ljósi þess, og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 533/2014, frá 19. mars 2015, er þessari málsástæðu stefndu hafnað.

                Víkur þá næst að þeirri málsástæðu stefndu um að hún eigi rétt á skuldajöfnuði gagnvart kröfu stefnanda. Eins og áður segir telur stefnda að stefnanda hafi verið óheimilt að innheimta kostnað af yfirdrætti á tékkareikningi stefndu, þar sem aldrei hafi verið gerður skriflegur samningur á milli aðila. Eigi stefnda því kröfu á hendur stefnanda um endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem stefnandi hafi ranglega af sér haft og nemi gagnkrafa stefndu 2.154.371 krónu. Reisir stefnda kröfu sína á þágildandi lögum nr. 121/1994 um neytendalán, en í 5. gr. þeirra segi að lánssamningur skuli vera skriflegur og fela í sér upplýsingar þær sem tilgreindar eru í 6. og 8. gr. laganna. Enginn samningur hafi verið gerður milli aðila auk þess sem stefnanda hafi borið að gera stefndu ítarlega grein fyrir kostnaði við lántökuna og vexti, sbr. 3. gr. sömu laga.

Í 3. gr. laga nr. 121/1994 er mælt fyrir um upplýsingaskyldu lánveitanda þegar um yfirdráttarlán er að ræða. Engin gögn liggja fyrir hvort eða með hvaða hætti stefndu voru kynntar reglur stefnanda um notkun umrædds tékkareiknings, þar með taldar upplýsingar um gjöld, vaxtakjör og annað sem tengdist notkun reikningsins. Fyrir liggur á hinn bóginn að stefnda notaði umræddan tékkareikning athugasemdalaust í tæp 16 ár og greiddi á þeim tíma þann kostnað og vexti sem til féllu, en hún fékk send reikningsyfirlit vegna tékkareikningsins frá stofnun hans þar til honum var lokað. Í öllum yfirlitunum var tekið fram að gera skyldi athugasemdir innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, annars teldist reikningurinn réttur. Með vísan til þess og dóma Hæstaréttar í málum nr. 605/2012, frá 14. mars 2013, nr. 533/2014, frá 19. mars 2015 og nr. 349/2014 frá 22. desember 2014, telur dómurinn að komist hafi á samningur milli aðila um lánsviðskiptin. Verður því ekki fallist á að gagnkrafa hafi stofnast og þar af leiðandi er krafa um skuldajöfnuð ekki tekin til greina.

                Stefnda vísar með almennum hætti til ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli E-25/13, fordæma Evrópudómstólsins í máli C-76/10 og niðurstöðu Neytendastofu í máli nr. 8/2014, án nánari rökstuðnings. Telur dómurinn að ekki verði séð að greindir dómar eða niðurstaða Neytendastofu breyti niðurstöðu dómsins.

                Samkvæmt framansögðu ber stefndu að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 996.960 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 996.960 krónum frá 19. apríl 2014 til greiðsludags.

                Samkvæmt þessum málsúrslitum, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndu gert að greiða stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                       DÓMSORÐ:

Stefndu, Kristínu Pálsdóttur, ber að greiða stefnanda, Landsbankanum hf., skuld að fjárhæð 996.960 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 996.960 krónum frá 19. apríl 2014 til greiðsludags.

                Stefnda greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.