Print

Mál nr. 359/2011

Lykilorð
  • Ákæruvald
  • Refsiheimild
  • Fésekt
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Stjórnsýsla
  • Valdmörk
  • Frávísun frá héraðsdómi

                                                                                              

Fimmtudaginn 10. maí 2012.

Nr. 359/2011.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X og

A300 ehf.

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

Ákæruvald. Refsiheimild. Fésekt. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Stjórnsýsla. Valdmörk. Frávísun frá héraðsdómi

X og A ehf. var gefið að sök að hafa í tvö skipti skráð rangar upplýsingar um nettóvigt afla skipanna SJ og SÆ á endurvigtunarnótur sem X gaf út fyrir hönd einkahlutafélagsins og að hafa ekki vegið allan afla fyrrgreindra skipa í eitt skipti. Voru brot ákærðu talin varða við nánar tilgreind ákvæði laga um umgengni um nytjastofna sjávar og reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla, svo og 1. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í málinu lá fyrir að Neytendastofa hafði, í framhaldi af ábendingu Fiskistofu, áminnt X vegna háttseminnar á grundvelli laga nr. 91/2006. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af orðalagi 42. gr. þeirra laga bæri Neytendastofu að meta með hliðsjón af grófleika brots og réttarvörslusjónarmiðum, hvort máli skyldi lokið með stjórnvaldsákvörðun eða það kært til lögreglu. Við það mat bæri Neytendastofu að hafa til hliðsjónar að ákvæði laga nr. 91/2006 væru reist á því megin viðhorfi að ekki yrði bæði lögð á stjórnvaldssekt og dæmd refsing fyrir sama lögbrotið heldur yrði önnur hvor leiðin valin. Neytendastofa gæti ekki framselt öðrum stjórnvöldum áðurgreint mat né gætu önnur stjórnvöld tekið sér einhliða slíkt mat þannig að þýðingu hefði að lögum. Kæra Fiskistofu til ríkislögreglustjóra vegna ætlaðra brota X hefði því ekki verið í samræmi við áðurgreint og ætti sér ekki lagastoð. Var máli ákæruvaldsins gegn X því vísað frá héraðsdómi. Hvað ákærða A ehf. varðaði var fallist á með héraðsdómi að endurvigtanirnar hefðu verið rangar og að umrædd brot hefðu verið félaginu til hagsbóta í skilningi 24. gr. laga nr. 57/1996. Var sektarrefsing A ehf. því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu beggja ákærðu, en að refsing ákærða A300 ehf. verði þyngd og ákærða X gerð refsing ásamt því að hann verði, með vísan til 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sviptur rétti sem löggiltur vigtarmaður í skilningi laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Ákærðu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara sýknu af kröfum ákæruvalds. Að því frágengnu krefst ákærði A300 ehf. þess að sekt verði lækkuð verulega.

I

Það er upphaf máls þessa að 9. september 2008 kærði Fiskistofa ákærða X,  ákærða A300 ehf. (áður GPG fiskverkun ehf.) og A, stjórnarformann og eiganda A300 ehf., til ríkislögreglustjóra fyrir ætluð brot á lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, reglugerð nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla og almennum hegningarlögum vegna atvika er áttu sér stað 16. og 19. mars 2008 og 27. og 28. mars sama ár. Aðdraganda kærunnar og sakargiftum er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákæra ríkislögreglustjóra í máli þessu á hendur framangreindum aðilum var gefin út 12. október 2010. Tekur hún annars vegar til endurvigtunar afla á Húsavík 16., 19. og 20. mars 2008 vegna fjögurra landana á Ólafsvík, tveggja úr Sjöfn EA-142 og tveggja úr Sæborgu ÞH-55, sbr. a) lið ákæru, og hins vegar til endurvigtunar afla á Húsavík 27. mars 2008 vegna löndunar á Ólafsvík úr sömu skipum 26. sama mánaðar, sbr. b) lið ákæru.

Með hinum áfrýjaða dómi var A sýknaður af kröfum ákæruvalds í málinu. Krefst ákæruvaldið ekki endurskoðunar á þeim þætti málsins.

Í héraðsdómi var talið að slíkur vafi væri um niðurstöður mælinga Fiskistofu vegna löndunar úr Sæborgu ÞH-55 á Ólafsvík 18. mars 2008, en sá afli var endurvigtaður á Húsavík 19. sama mánaðar, að ekki yrði á þeim byggt í sakamáli og yrði því ekki sakfellt fyrir ætluð brot við endurvigtun þess afla. Um löndun úr Sjöfn EA-142 á Ólafsvík 17. mars 2008, en sá afli var endurvigtaður á Húsavík 19. sama mánaðar, segir í hinum áfrýjaða dómi að ekki verði talið sannað að um hafi verið að ræða óeðlilega rýrnun frá vigtun Fiskistofu til endurvigtunar á Húsavík, og var af þeirri ástæðu ekki sakfellt fyrir ætlað brot við endurvigtun þess afla. Unir ákæruvaldið niðurstöðu héraðsdóms um að ekki verði sakfellt vegna þessara tveggja tilvika.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu héraðsdóms og samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti stóðu eftir samkvæmt a) lið ákæru ætluð brot við endurvigtun á Húsavík 16. mars 2008 vegna löndunar afla úr Sjöfn EA-142 á Ólafsvík 14. sama mánaðar, og við endurvigtun á Húsavík 16. mars 2008 vegna löndunar afla 14. sama mánaðar úr Sæborgu ÞH-55. Þá stóð og eftir ætlað brot samkvæmt b) lið ákæru við endurvigtun 27. mars 2008, sem samkvæmt ákæru fólst í því að ekki hafi verið brugðist við „samtals 16 villumeldingum frá vog þannig að samtals 101,6 kg. afla var ekki veginn.“

Ákærði X var með hinum áfrýjaða dómi sakfelldur fyrir brot af gáleysi gegn 7. gr. laga nr. 57/1996, sbr. 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 224/2006, sbr. og 1. mgr. 23. gr. fyrrgreindra laga, en sýknaður af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga. Hvað b) lið ákæru varðar var ákærði sakfelldur samkvæmt sömu refsiheimildum og áður greinir en sýknaður af broti gegn 1. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga. Ákvörðun um refsingu ákærða var í héraðsdómi frestað skilorðsbundið í tvö ár og hafnað var kröfu ákæruvalds um sviptingu réttinda hans til að vera löggiltur vigtarmaður.

Ákærða A300 ehf. var með heimild í 24. gr. laga nr. 57/1996 gert að greiða 1.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð fyrir brot samkvæmt a) og b) liðum ákæru.

II

Kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi reisir ákærði X á því að Neytendastofa hafi veitt sér áminningu 23. desember 2008 vegna þeirra atvika er í ákæru greinir. Því brjóti það gegn 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við samning um vernd mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu,  að saksækja hann fyrir dómstólum vegna sömu háttsemi, þar sem stjórnvaldið hafi þegar úrskurðað um háttsemi hans. Sé mannréttindaákvæðinu ætlað að koma í veg fyrir endurtekna málsmeðferð til úrlausnar sömu refsiverðu háttsemi og beri því að vísa málinu frá héraðsdómi.

Með sama hætti reisir ákærði A300 ehf. kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi á því að með ákvörðun Fiskistofu 14. júlí 2008 hafi ákærði A300 ehf. vegna þeirra atvika er í ákæru greinir sætt ótímabundinni afturköllun á leyfi til endurvigtunar fiskafla. Brjóti það gegn fyrrgreindu ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu að saksækja ákærða fyrir dómstólum vegna sömu háttsemi.

III

Ákærði X hlaut löggildingu sem vigtarmaður með skírteini Neytendastofu 17. október 2007, en fram kemur í skírteininu að það gildi til 17. október 2017 og sé gefið út samkvæmt 23. gr. laga nr. 91/2006. Með bréfi 17. júlí 2008 tilkynnti Fiskistofa Neytendastofu um þau ætluðu brot ákærða sem nánar greinir í kafla I hér að framan. Segir í bréfinu að það sé mat Fiskistofu að tilefni sé til að skoða nánar hvort ákærði hafi við störf sín sem löggiltur vigtarmaður brotið af sér með þeim hætti að varði við ákvæði 28. gr. laga nr. 91/2006. Þá segir orðrétt í bréfinu: „Mál þetta er sent yður til þóknanlegrar meðferðar.“ Með erindinu fylgdi bréf Fiskistofu til ákærða A 300 ehf. 14. júlí 2008 en í lok þess bréfs segir: „Með hliðsjón af öllu framangreindu, og að teknu tilliti til eðlis og umfangs brotsins, hefur Fiskistofa ákveðið að afturkalla vigtunarleyfi [A 300 ehf.] ótímabundið til endurvigtunar á fiskafla. Brot löggilts vigtarmanns, X verða tilkynnt til Neytendastofu, og tilkynnist yður sú ákvörðun hér með. Fiskistofa mun jafnframt kæra umrætt brot til lögreglu.“ 

Neytendastofa tilkynnti ákærða X með bréfi 24. júlí 2008 að stofnunin hefði til meðferðar mál er kynni að varða sviptingu réttinda hans til að kallast löggiltur vigtarmaður samkvæmt 28. gr. laga nr. 91/2006. Í framhaldinu segir að af málsatvikum, eins og þeim hafði áður verið lýst í bréfinu, sé ljóst eins og orðrétt segir „að þér hafið með því að skrá rangar og óútskýrðar upplýsingar um hlutfall íss í afla á endurvigtunarnótur framið alvarlegt brot gegn ákvæðum sem gilda um löggilta vigtarmenn, skv. lögum nr. 91/2006 og mun Fiskistofa kæra umrætt brot til lögreglu.“ Var ákærða veittur andmælafrestur til 11. ágúst 2008. Ákærði sendi Neytendastofu andmæli sín með bréfi 11. desember 2008, en í millitíðinni hafði það gerst sem áður greinir að Fiskistofa kærði ákærða til ríkislögreglustjóra með bréfi 9. september 2008.

Neytendastofa tilkynnti ákærða X með bréfi 23. desember 2008 að stofnunin teldi ljóst að hann hefði brotið gegn ákvæðum sem gilda um starfsskyldur löggiltra vigtarmanna samkvæmt lögum nr. 91/2006 svo og reglum um vigtun sjávarafla. Er brotunum nánar lýst, þau talin varða við 26. gr. laga nr. 91/2006 og vera þess eðlis að varðað geti sviptingu löggildingar samkvæmt 1. mgr. 28. gr. sömu laga. Þá segir í bréfinu að „á grundvelli framkominna upplýsinga, m.a. að komið hafi verið í veg fyrir frekari mistök vegna villumeldinga á endurvigtunarvog og þar sem um fyrsta brot er að ræða hefur Neytendastofa ákveðið, með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga ..., að veita X ... áminningu á grundvelli 28. gr. laga nr. 91/2006 og með vísan til VII. kafla laga nr. 91/2006. Brjóti X aftur gegn ákvæðum laga og reglugerða sem gilda um starfskyldur löggiltra vigtarmanna, óháð alvarleika brots, mun hann tafarlaust verða sviptur löggildingu vigtarmanns, sbr. 28. gr. laga nr. 91/2006.“ Afrit af þessum úrskurði Neytendastofu var sent Fiskistofu.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 28. september 2009, ákæra á hendur honum og meðákærðu var sem fyrr segir gefin út 12. október 2010, málið þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra 11. nóvember sama ár og dómur í málinu kveðinn upp 11. apríl 2011. Ákærði A300 ehf. áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar 24. maí 2011 og með bréfi Hæstaréttar 6. september sama ár var ákærða X veitt áfrýjunarleyfi.

IV

Samkvæmt orðskýringu 3. gr. laga nr. 91/2006 merkir löggilding vigtarmanns í þeim lögum formlega staðfestingu á að einstaklingur uppfylli skilyrði laga og reglna settum samkvæmt þeim um menntun og önnur skilyrði til að starfa sem vigtarmaður. Ráðherra fer samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna með yfirstjórn mála samkvæmt þeim, en Neytendastofa fer í umboði ráðherra með framkvæmd laganna. Samkvæmt e. lið 2. mgr. 4. gr. er meðal hlutverka Neytendastofu að annast löggildingu vigtarmanna, sbr. VII. kafla laganna. Í 23. gr. kemur fram hver eru skilyrði til löggildingar vigtarmanns. Þar segir í 2. mgr. að vigtarmenn skuli hafa löggildingu Neytendastofu sem gefi út skírteini þeim til handa um að þeir megi taka að sér störf sem löggiltum vigtarmönnum einum eru falin samkvæmt ákvæðum í lögum eða reglum settum samkvæmt þeim. Synja skal manni um löggildingu ef 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans.   

Í 26. gr. laga nr. 91/2006 er kveðið á um starfsskyldur löggiltra vigtarmanna. Segir þar í 1. mgr. að löggiltur vigtarmaður beri ábyrgð á vigtun sem hann vottar í samræmi við viðurkennda starfshætti þeirrar vigtunaraðferðar sem notuð er hverju sinni. Í því felist að löggiltur vigtarmaður skuli sjálfur vera viðstaddur vigtun, tryggi alla framkvæmd hennar og staðfesti með undirritun sinni á vigtarvottorð sem hann beri ábyrgð á í samræmi við lög og reglur settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. 26. gr. segir að um starfshætti vigtarmanna gildi að öðru leyti ákvæði laga nr. 91/2006 og sérlaga eftir því sem við geti átt og reglur settar samkvæmt þeim. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 91/2006 segir í skýringum við 26. gr. að starf vigtarmanns sé mikilvægt trúnaðarstarf gagnvart kaupendum og seljendum þeirrar vöru sem þeir vigti hverju sinni og ekki síður gagnvart stjórnvöldum þegar svo beri undir. Sú krafa sé gerð að vigtarmaður fylgi í störfum sínum svonefndum „bonus pater familias“ mælikvarða, það er hvort hann hafi að öllu leyti framfylgt þeim reglum og starfsaðferðum sem „góður og gegn vigtarmaður“ myndi gera við aðstæður hverju sinni. Nefnd eru í skýringunum þau atriði sem taka skuli til athugunar þegar metið sé hvort vigtarmaður teljist hafa brotið gegn reglum um góða starfshætti samkvæmt lagaákvæðinu. Þá segir orðrétt í skýringunum: „Það er því á verksviði Neytendastofu og eftir atvikum í samráði við sérstjórnvöld, t.d. Fiskistofu, að meta hvort slík brot hafi verið framin og taka ákvörðun um hvort brot sé það alvarlegt að það varði sviptingu starfsréttinda og löggildingarinnar, sbr. 28. gr.“

Í 28. gr. laga nr. 91/2006 er fjallað um sviptingu löggildingar vigtarmanna. Þar segir að brot á reglum um starfsskyldur vigtarmanns séu grundvöllur tafarlausrar sviptingar réttinda löggilts vigtarmanns. Hið sama eigi við um ásetningsbrot um fölsun vigtarvottorða. Um málsmeðferð og úrskurð um sviptingu samkvæmt þessari grein skuli farið eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í XI. kafla laganna eru ákvæði um réttarúrræði, viðurlög o.fl. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum 91/2006 segir meðal annars um 28. gr. að þótt með ákvæðinu sé veitt heimild til tafarlausrar sviptingar sé hún ekki fortakslaus enda skuli gætt meðalhófs og annarra meginreglna stjórnsýslulaga. Ef um alvarleg ásetningsbrot sé að ræða sem varði við XVII. kafla almennra hegningarlaga beri Neytendastofu að vísa slíkum málum áfram til lögreglu til frekari rannsóknar og meðferðar. Ákvörðun um leyfissviptingu sé stjórnvaldsákvörðun „sem jafnframt er rétt að unnt sé að kæra til æðra stjórnvalds.“

Neytendastofa getur samkvæmt 40. gr. laga nr. 91/2006 lagt stjórnvaldssektir á einstaklinga og fyrirtæki fyrir brot gegn ákvæðum III., IV. og V. kafla laganna og í 41. gr. er mælt fyrir um refsingar. Þar kemur fram að sá sem brýtur gegn nánar tilgreindum greinum og köflum laganna eða reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim skuli sæta fésektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar. Dæma má sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga og fésekt jafnframt fangelsi ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi. Í 42. gr. laganna segir svo: „Nú varðar meint lögbrot bæði stjórnvaldssektum skv. 40. gr. og refsingum skv. 41. gr. og metur Neytendastofa þá með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða hvort mál skuli kært til lögreglu eða lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá Neytendastofu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.“ Um 42. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 91/2006 segir í athugasemdum að ákvæði greinarinnar séu byggð á því viðhorfi að ekki verði bæði lögð á stjórnvaldssekt og dæmd refsing fyrir sama lögbrotið heldur verði önnur hvor leiðin valin. Þannig eigi ekki að koma til þess að mál verði rannsakað á sama tíma bæði hjá Neytendastofu og lögreglu. Samkvæmt ákvæðinu falli það í hlut Neytendastofu að meta hvort ljúka beri mál með stjórnvaldssektum eða kæra það til lögreglu. Slíkt mat ráðist þá meðal annars af alvarleika brots og hvort um ítrekað brot sé að ræða.

V

Í kafla IV hér að framan eru rakin þau helstu ákvæði laga er varða störf löggiltra vigtarmanna, eftirlit með störfum þeirra og viðurlög sem þeir kunna að sæta vegna brota á lögbundnum starfsskyldum. Samkvæmt því sem þar kemur fram lúta löggiltir vigtarmenn í störfum sínum fyrst og fremst ákvæðum laga nr. 91/2006 og reglum settum samkvæmt þeim en að auki gilda um störf þeirra, eftir því sem við getur átt, ákvæði sérlaga og reglur settar samkvæmt þeim. Það er lögskipað hlutverk Neytendastofu sem stjórnvalds að hafa eftirlit með því að vigtarmenn ræki starfsskyldur sínar í samræmi við lög og aðrar reglur er um störf þeirra gilda og eru stjórnvaldinu fengnar í hendur ákveðnar valdheimildir sem því er ætlað að beita verði þar misbrestur á. Það er því á verksviði Neytendastofu, eftir atvikum í samráði við önnur stjórnvöld eins og Fiskistofu, að meta hvort brot hafi verið framin og taka ákvörðun um hvort brot sé svo alvarlegt að varði sviptingu löggildingar, sbr. 28. gr. laga nr. 91/2006.

Í samræmi við áðurgreint lögskipað hlutaverk sitt tók Neytendastofa í framhaldi af ábendingu Fiskistofu það réttilega til athugunar hvort ákærði X hefði sem löggiltur vigtarmaður við endurvigtanir þær er um ræðir í málinu brotið starfsskyldur sínar samkvæmt 26. gr. laga nr. 91/2006 með þeim hætti að varða skyldi tafarlausri sviptingu réttinda hans í samræmi við ákvæði 28. gr. laganna. Var það eins og áður greinir niðurstaða Neytendastofu, með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, að veita ákærða „áminningu á grundvelli 28. gr. laga nr. 91/2006 og með vísan til VII. kafla laga nr. 91/2006.“ Lyktir málsins með áminningu Neytendastofu voru þó bundnar því skilyrði að bryti ákærði aftur gegn ákvæðum laga og reglugerða sem um starfsskyldur löggiltra vigtarmanna gilda, skyldi hann sæta tafarlausri sviptingu löggildingar vigtarmanns, óháð alvarleika brots.

Af orðalagi 42. gr. laga nr. 91/2006 leiðir að Neytendastofu ber að meta, með hliðsjón af grófleika brots og réttarvörslusjónarmiðum, hvort máli skuli lokið með stjórnvaldsákvörðun eða það kært til lögreglu. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/2006 er áréttað í skýringum við 28. gr. að sé um alvarleg ásetningsbrot að ræða sem varði við XVII. kafla almennra hegningarlaga beri Neytendastofu að vísa slíkum málum áfram til lögreglu til frekari rannsóknar og meðferðar. Það er því lögbundið hlutverk Neytendastofu að meta sjálfstætt, út frá þeim hagsmunum sem löggjafinn hefur falið stofnuninni að vernda, hvort ætlað brot löggilts vigtarmanns í starfi sé þess eðlis að ástæða sé til að vísa máli áfram til lögreglu til frekari rannsóknar og meðferðar. Meðal þeirra sjónarmiða sem Neytendastofa á lögum samkvæmt að hafa til hliðsjónar í því mati er, eins og rakið er í kafla IV hér að framan, að ákvæði laga nr. 91/2006 eru reist á því megin viðhorfi að ekki verði bæði lögð á stjórnvaldssekt og dæmd refsing fyrir sama lögbrotið heldur verði önnur hvor leiðin valin. Þannig eigi ekki að koma til þess að mál verði rannsakað á sama tíma bæði hjá Neytendastofu og lögreglu. Mat í þessum efnum getur Neytendastofa ekki framselt öðrum stjórnvöldum og önnur stjórnvöld geta ekki einhliða tekið sér vald til slíks mats þannig að þýðingu hafi að lögum.

Af framangreindu leiðir að Neytendastofu bar í samræmi við lögskipað hlutverk sitt að taka afstöðu til þess, út frá þeim hagsmunum sem þeirri stofnun er ætlað að hafa eftirlit með og vernda, hvort máli ákærða X skyldi lokið með stjórnvaldsákvörðun Neytendastofu, eða hvort alvarleiki brots hans væri slíkur að ástæða væri til að vísa málinu áfram til rannsóknar og meðferðar lögreglu vegna ætlaðra hegningarlagabrota. Kæra Fiskistofu til ríkislögreglustjóra 9. september 2008 vegna ætlaðra hegningarlagabrota ákærða X var ekki í samræmi við áðurgreint og átti sér því ekki lagastoð. Samkvæmt þessu var með framangreindri kæru Fiskistofu á hendur ákærða X ekki lagður sá grundvöllur að rannsókn og meðferð máls hans hjá ákæruvaldi og dómstólum sem hann átti rétt til og lög mæla fyrir um. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá héraðsdómi að því er ákærða X varðar.

VI

Eins og greinir í kafla I hér að framan kærði Fiskistofa 9. september 2008 ákærða A300 ehf. til ríkislögreglustjóra fyrir ætluð brot á lögum nr. 57/1996, reglugerð nr. 224/2006 og almennum hegningarlögum vegna fyrrgreindra atvika er áttu sér stað 16. og 19. mars 2008 og 27. og 28. mars sama mánaðar. Þá greinir og frá því í kafla I að með ákæru ríkislögreglustjóra 12. október 2010 var höfðað sakamál á hendur A300 ehf. og ákærðu X og A vegna hinna ætluðu brota.

Í bréfi Fiskistofu 20. maí 2008 til ákærða A300 ehf. eru rakin atvik þau er mál þetta varða, ákvæði laga og reglugerða sem Fiskistofa taldi eiga við og komist að niðurstöðu um brot fyrirtækisins á grundvelli þeirra laga- og reglugerðarákvæða. Þá segir í bréfinu: „Áður en ákvörðun verður tekin um hvort endurvigtunarleyfi [A300 ehf.] verði afturkallað og Neytendastofu gert viðvart um brot löggilts vigtarmanns í starfi sem slíkur, og/eða hvort kært verði til lögreglu vegna máls þessa eða hvort áminningu verði beitt, er yður gefinn kostur á að koma athugasemdum yðar og skýringum á framfæri við Fiskistofu ... það skal gert skriflega og eigi síðar en 2. júní 2008.“ Ákærði sendi andmæli sín til Fiskistofu með bréfi 12. júní 2008. 

Ákærða A300 ehf. var með bréfi Fiskistofu 14. júlí 2008 tilkynnt sú niðurstaða að fyrirtækið hefði vegna þeirra atvika sem áður hafði verið lýst brotið gegn nánar tilgreindum laga- og reglugerðarákvæðum. Þá segir: „Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. l.  nr. 57/1996 skal Fiskistofa afturkalla leyfi aðila til vigtunar sjávarafla skv. 2. mgr. 6. gr. ef hann, fyrirsvarsmenn hans, starfsmenn eða aðrir þeir sem í þágu hans starfa hafa brotið gegn ákvæðum III. kafla laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim. Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. reglugerðar nr. 224/2006 er Fiskistofu heimilt að afturkalla vigtunarleyfi vinnslustöðva, fiskmarkaða eða annarra aðila sem fengið hafa vigtunarleyfi, sé ekki af þeirra hálfu farið að ákvæðum reglugerðar þessarar. Með hliðsjón af öllu framangreindu, og að teknu tilliti til eðlis og umfangs brotsins, hefur Fiskistofa ákveðið að afturkalla vigtunarleyfi [A300 ehf.] ótímabundið til endurvigtunar á fiskafla. Brot löggilts vigtarmanns, X verða tilkynnt til Neytendastofu, og tilkynnist yður sú ákvörðun hér með. Fiskistofa mun jafnframt kæra umrætt brot til lögreglu.“

Ákærði A300 ehf. kærði framangreinda ákvörðun Fiskistofu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins með bréfi 8. ágúst 2008 og með úrskurði ráðuneytisins 7. nóvember sama ár mun ákvörðun Fiskistofu hafa verið staðfest. Ákærði A300 ehf. sótti með bréfi 29. ágúst sama ár um endurvigtunarleyfi til Fiskistofu á grundvelli 2. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996. Þá voru liðnar 8 vikur frá sviptingu leyfisins 14. júlí 2008. Þeirri umsókn synjaði Fiskistofa með bréfi 9. september 2008 með vísan til 4. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996, þar sem ekki væri hægt að sækja um endurvigtunarleyfi fyrr en að liðnum 26 vikum. Þá synjun Fiskistofu kærði ákærði til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins með bréfi 17. september 2008 og felldi ráðuneytið synjunina úr gildi 14. nóvember sama ár og lagði fyrir Fiskistofu að taka umsókn kærandans til meðferðar að nýju með hliðsjón af úrskurðinum. Með bréfi Fiskistofu til ákærða 19. nóvember 2008 var honum veitt endurvigtunarleyfi með gildistíma frá þeim degi til 19. nóvember 2011.

VII

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996 kemur fram að Fiskistofa skuli afturkalla leyfi aðila til vigtunar sjávarafla ef starfsmenn aðila hafa brotið gegn ákvæðum III. kafla laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Eins og áður segir var ákærða A300 ehf. tilkynnt um slíka afturköllun með bréfi Fiskistofu 14. júlí 2008 jafnframt því sem ákærða var tilkynnt um að málið yrði kært til lögreglu. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 57/1996 varða brot gegn ákvæðum laganna og reglum settum samkvæmt þeim sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Í 1. mgr. 24. gr. laganna er tekið fram að sektir megi gera lögaðila sem einstaklingi. Þar er og sérstaklega tekið fram að ákvarða megi lögaðila sekt þótt sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða geta orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Með sama skilorði má einnig gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot.

Af framangreindu leiðir að úrlausn þess hvort ákærða A300 ehf. verði gerð sektarrefsing í máli þessu ræðst af því hvort fyrir liggi sönnun um brot í starfsemi félagsins sem hafi orðið eða geta orðið því til hagsbóta. Eru það samkvæmt því sem greinir í kafla I hér að framan ætluð brot samkvæmt b) lið ákæru og samkvæmt a) lið ætluð brot við endurvigtun á Húsavík 16. mars 2008 vegna löndunar afla úr Sjöfn EA-142 á Ólafsvík 14. sama mánaðar og ætluð brot við endurvigtun á Húsavík 16. mars 2008 vegna löndunar afla 14. sama mánaðar úr Sæborgu ÞH-55. Af fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 57/1996 leiðir að þessi ákæruatriði geta komið til endurskoðunar hér fyrir dómi, þrátt fyrir niðurstöðu héraðsdóms um sýknu A og þá niðurstöðu sem greinir í kafla V hér að framan að vísa málinu á hendur ákærða X frá héraðsdómi.

Hvað ákærulið a) varðar er fallist á það mat héraðsdóms að ekkert sé fram komið í málinu sem dragi úr trúverðugleika úrtaksvigtunar Fiskistofu og að það íshlutfall sem skráð var við endurvigtun á Húsavík umrædd tvö skipti 16. mars 2008 hafi verið hærra en svo að það verði skýrt með ísun og eðlilegri vatnslosun og bráðnun. Verður því að leggja til grundvallar að skráðar niðurstöður endurvigtunar umrædd tvö skipti hafi verið rangar, þótt umfang brota verði ekki tilgreint nákvæmlega, og hafi þannig verið brotið gegn  ákvæðum 7. gr. laga nr. 57/1996, svo og 1. mgr. 14. og 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 224/2006. Þá er og á það mat héraðsdóms fallist hvað b) lið ákæru varðar að við endurvigtun 27. mars 2008 hafi verið brotið gegn sömu refsiheimildum með því að bregðast ekki við þeim villumeldingum sem nánar greinir í héraðsdómi. Jafnframt er á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms fallist að umrædd brot hafi verið ákærða A300 ehf. til hagsbóta í skilningi 24. gr. laga nr. 57/1996. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða A300 ehf. í máli þessu. Standa ákvæði 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, því ekki í vegi að gera félaginu sektarrefsingu þótt það hafi áður verið svipt endurvigtunarleyfi.

Eftir þessum úrslitum verður ákærði A300 ehf. dæmdur til að greiða fjórðung sakarkostnaðar í héraði eins og hann var ákveðinn þar. Annar sakarkostnaður í héraði skal greiðast úr ríkissjóði.

Sakarkostnaður málsins fyrir Hæstarétti, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara, að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti með virðisaukaskatti, sem nánar er kveðið á um í dómsorði, greiðist að hálfu úr ríkissjóði, en ákærði A300 ehf. greiði helming hans.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar ákærða X.

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða A300 ehf.

Ákærði A300 ehf. greiði fjórðung þess sakarkostnaðar sem ákveðinn var í héraði, en annar sakarkostnaður þar skal greiðast úr ríkissjóði.

Sakarkostnaður málsins fyrir Hæstarétti, samtals 563.619 krónur, greiðist að hálfu úr ríkissjóði  en að hálfu af ákærða A300 ehf., þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, Guðmundar B. Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. apríl 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. febrúar, er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 12. október 2010, á hendur A, kt. og heimilisfang [...], X, kt. og heimilisfang [...]  og A300 ehf., áður GPG fiskverkun ehf., kt. 711097-2609, Suðurgarði, Húsavík, en ákærði A er fyrirsvarsmaður þess, fyrir

„brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla og almennum hegningarlögum framin í rekstri einkahlutafélagsins A300 (áður GPG-fiskverkun), sem ákærði A var framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi fyrir og ákærði X var verkstjóri og löggiltur vigtarmaður hjá með því að hafa:

a) Við endurvigtun á afla hjá einkahlutafélaginu á Húsavík sem ákærði X annaðist dagana 16., 19. og 20. mars 2008 skráð rangar upplýsingar um nettóvigt afla skipanna Sjafnar EA-142 og Sæborgar ÞH-55 á endurvigtunarnótur sem ákærði X gaf út fyrir hönd einkahlutafélagsins, þannig að heilvigtaður afli án íss var samtals 2.233 kg lægri en vigtun Fiskistofu á sama afla var á Ólafsvík dagana 14. og 18. mars 2008.

b) Við endurvigtun á Húsavík 27. mars 2008 ekki vegið allan afla fyrrgreindra skipa, sem var landað og veginn á hafnarvoginni á Ólafsvík 26. mars, með því að bregðast ekki við samtals 16 villumeldingum frá vog þannig að samtals 101,6 kg afla var ekki veginn.

Telst þetta varða við 7. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar og 14. og 16. gr. reglugerðar nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla, samanber einnig:

a) 23. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar og 63. gr. reglugerðar nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla, hvað varðar ákærðu A og X.

b) 24. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, hvað varðar ákærða einkahlutafélagið A300 (áður GPG fiskverkun ehf.).

Auk þess varðar brot ákærða X við 1. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er þess krafist með vísan til 2. mgr. 68. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 31/1961, að ákærði X verði sviptur rétti til að vera löggiltur vigtarmaður í skilningi laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.“

Í ákæru var í upphafi byggt á því að afli án íss hafi á endurvigtunarnótum verið sagður 2.243 kg lægri en verið hefði við vigtun Fiskistofu, en undir rekstri málsins lækkaði ákæruvaldið þessa þyngd um 10 kg.

Ákærðu krefjast sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfi.  Verjandi þeirra krefst málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Af hálfu allra ákærðu var lögð fram greinargerð með heimild í 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008.  Verður hún rakin síðar.

Í upphafi síðari dags aðalmeðferðar var gengið á vettvang í fiskverkunarhúsi ákærða A300 ehf. á Húsavík.

Málavextir

Ákæruliður a)

Samkvæmt gögnum málsins er upphaf þess kæra Fiskistofu til ríkislögreglustjóra, dags. 9. september 2008, á hendur öllum ákærðu fyrir ætlað brot á ákvæðum laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, reglugerðar nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla og almennra hegningarlaga með því að hafa við endurvigtun á afla skipanna Sæborgar ÞH-55 og Sjafnar EA-142 dagana 16. og 19. marz 2008, hjá GPG fiskverkun ehf. á Húsavík, skráð rangar og óútskýrðar upplýsingar um nettóvigt skipanna á endurvigtunarnótur sem ákærði X hafi gefið út sem löggiltur vigtarmaður fyrir hönd fyrirtækisins, og jafnframt fyrir að hafa ekki tryggt, við endurvigtun afla skipanna dagana 27. og 28. marz 2008, að allur afli skipanna yrði vigtaður og að hafa ekki brugðizt við villutilkynningum frá voginni.

Í málinu liggur skýrsla B eftirlitsmanns til Fiskistofu, dags. 27. marz 2008. Segir þar að hinn 14. marz hafi B fengið fregnir af því, að bátarnir Sæborg og Sjöfn lönduðu í Ólafsvík og væri afla þeirra ekið til vinnslu á Húsavík. Hafi skoðun á endurvigtunarnótum leitt í ljós óeðlilega hátt íshlutfall.  Hafi því verið ákveðið að úrtaksvigta afla bátanna „til að kanna hver ísprósenta í aflanum væri og hvort endurvigtun hjá GPG skilaði sömu niðurstöðu í ísprósentu.“  Segir í skýrslunni að aflinn hafi verið geymdur hjá fiskmarkaði Ólafsvíkur og þar hafi verið gerðar úrtaksvigtunarprufur.  Hinn 14. marz hefði verið landað 7014 kg brúttó úr Sæborgu, landað á hafnarvog í 18 körum og hafi verið tekið 11 kara úrtak.  Nettó afli hafi reynzt vera 6637 kg, eða 5,37% ís.  Hinn 16. marz hafi komið endurvigtunarnóta frá GPG vegna sama afla og hún borið um 5613 kg afla, eða 19,97% ís.  Sama dag hafi verið teknar úrtaksvigtunarprufur úr Sjöfn, sem hafi landað 9076 kg brúttó i 22 körum.  Hafi verið tekið sama úrtak með sama hætti og áður og niðurstaðan hafi verið 7984 kg eða 12,03% ís.  Endurvigtunarnóta hafi komið frá GPG hinn 16. marz og niðurstaða hennar verið 7204 kg eða 20,63% ís.  Þá segir í skýrslunni að hinn 18. marz hafi verið farið og teknar endurvigtunarprufur úr afla Sjafnar, sem landað hafi verið kvöldið áður.  Brúttó afli hafi verið 2946 kg.  Vigtað hafi verið úr öllum körum og nettó afli reynzt vera 2707 kg eða 8,11% ís.  Samkvæmt endurvigtunarnótu frá GPG hafi nettó afli verið 2587 kg eða 12,18% ís.  Þá segir í skýrslunni að Sæborg hafi komið í land kl. 11:30 og hafi fimm körum verið landað úr bátnum, 1738 kg brúttó.  Við endurvigtun Fiskistofumanna hafi aflinn reynzt 1745 kg nettó, eða -0,4% ís, en við endurvigtun hjá GPG hafi nettóafli samkvæmt endurvigtunarnótum verið 1427 kg, eða 17.89% ís.  Hinn 26. marz hafi enn verið farið og endurvigtaður afli úr Sæborgu og Sjöfn. Við vigtun á hafnarvog hafi afli Sjafnar verið 3253 kg brúttó en við endurvigtun hafi hann reynzt 3179 kg, eða 2,27% ís.  Afli Sæborgar hafi á hafnarvog verið 4169 kg brúttó en við endurvigtun 3978 kg, eða 4,57% ís.

Í málinu liggur vigtarnóta frá Ólafsvík, dagsett 18. marz, um afla úr Sæborgu ÞH-55. Kemur þar fram að vegin hafi verið alls sex kör og niðurstaðan hafi verið nettó 1.738 kg af slægðum þorski.  Undir er skráð nafn C löggilts vigtarmanns.  Þá er í málinu endurvigtunarnóta B, dagsett sama dag, um afla úr Sæborgu. Segir þar að nettóafli sé 1.745 kg og íshlutfall -0,4% en vegin hafi verið fimm kör. Þá er í málinu vottorð um heilvigtun endurvigtunarleyfishafa, GPG fiskverkunar ehf., dagsett 20. marz vegna löndunar úr Sæborgu 18. marz.  Segir þar að nettóafli sé 1.437 kg en vegið hafi verið úr sex fullum körum.  Undir ritar ákærði X.

Í málinu liggur fyrir tafla sem tekin hefur verið saman um landanir í Ólafsvík, úrtaksvigtanir eftirlitsmanna og endurvigtanir GPG, vegna afla Sjafnar EA-142, frá 15. febrúar til 8. apríl 2008. Greinir hún 34 tilvik þar sem Fiskistofumenn eru ekki viðstaddir endurvigtun á Húsavík.  Íshlutfall þá er lægst 6,16% hinn 21. febrúar vegna löndunar hinn 20. febrúar, en hæst 20,64% hinn 16. marz vegna löndunar hinn 14. marz.  Meðaltal íshlutfalls þessi 34 skipti er samkvæmt töflunni 15,9%.  Í þau tvö skipti sem Fiskistofumenn eru viðstaddir endurvigtun á Húsavík er íshlutfall annars vegar 6,79% hinn 27. marz, vegna löndunar 26. marz, og hins vegar 4,56% hinn 28. marz vegna löndunar hinn 27. marz.  Meðalíshlutfall þessara tveggja daga er samkvæmt töflunni 5,7%.

Í málinu liggur fyrir önnur tafla, sams konar, er fjallar um afla Sæborgar ÞH-55. Sýnir hún 26 tilvik þar sem eftirlitsmenn Fiskistofu voru ekki viðstaddir endurvigtun á Húsavík.  Íshlutfall er þá lægst 12,5% hinn 21. febrúar vegna löndunar hinn 20. febrúar, en hæst 20,3% hinn 14. marz vegna löndunar hinn 12. marz.  Meðalíshlutfall þessara 26 daga er samkvæmt töflunni 16,7%. Í þau tvö skipti sem Fiskistofumenn eru viðstaddir endurvigtun er íshlutfall annars vegar 10,99% hinn 27. marz vegna löndunar hinn 26. marz og 2,52% hinn 27. marz vegna löndunar hinn 26. marz.  Meðaltal þessara tveggja daga er samkvæmt töflunni 6,8%.

Í málinu liggja fyrir drög að skýrslu um hráefnisrýrnun ísaðs afla, en skráðir höfundar eru Heimir Tryggvason, Þóra Valsdóttir, Ólafur Þórisson, Lárus Þorvaldsson, Irek Klonowski, Kristín A. Þórarinsdóttir, Sigurjón Arason og Sveinn V. Árnason.  Segir í drögunum að allur flutningur sjávarafurða auki rýrnun þeirra og mikill veltingur, svo sem verði á misgóðum vegum, auki rýrnunina, og er nefnt sem dæmi úr tilraun að þyngd ufsa hafi rýrnað um 1,2-4,7% á 108 km vegarkafla, sem hafi verið blanda malarvegar og malbiks.  Þá eru í gögnunum tafla um niðurstöður um rýrnun þorsks í landflutningi eftir eknum kílómetrum og aldri hráefnis frá veiðum.  Má af töflunni ráða að séu eknir 550 km og hráefni sé tveggja daga gamalt sé rýrnunin um 2% en sé það fimm daga gamalt sé hún um 4%.

Ákæruliður b)

Í málinu liggur fyrir skýrsla veiðieftirlitsmannanna D og E til Fiskistofu, dags. 31. marz 2008.  Segir þar að dagana 27. og 28. marz hafi þeir verið staddir í fiskverkun GPG á Húsavík til að standa yfir og fylgjast með endurvigtun hjá fyrirtækinu.  Fyrri daginn hafi verið endurvigtaður fiskur af tveimur bátum.  Af Sæborgu hafi vog sýnt 604 fiska sem vegið hafi 3.825,8 kg og meðalþyngd fisks 6,334 kg.  Talning eftirlitsmanna hafi sýnt 617 fiska.  Komið hafi tólf villutilkynningar á vogarskjáinn en starfsmenn hafi enga tilraun gert til að ná í fiska vegna þeirra.  Þegar vogin sýni villutilkynningu skráist fiskurinn ekki, þyngdin komi hvergi fram og hann fari í kar með vigtuðum fiski.  Af Sjöfn hafi vog sýnt 489 fiska, alls 3.126,4 kg, meðalþyngd fisks 6,393 kg.  Talning eftirlitsmanna hafi sýnt 495 fiska og þar af fjórar villutilkynningar, sem ekki hafi verið brugðizt við, frekar en áður.  Hafi þetta verið rætt við X, sem hafi lýst undrun með þetta og sagzt ætla að athuga málið og setja jafnframt annan starfsmann með þeim á voginni til að fylgjast með og sækja allan fisk sem villutilkynning kæmi um.

Daginn eftir hafi komið alls 27 villutilkynningar, en þá hafi starfsmaður farið 26 sinnum og náð í fiskinn.

Greinargerð ákærðu.

Í greinargerð sinni segja ákærðu að í ákæru sé fjallað um endurvigtun afla á Húsavík, sem ákærði X hafi annazt dagana 16., 19. og 20. marz 2008. Séu þar nefndar þrjár endurvigtanir en síðar í verknaðarlýsingu sé aðeins getið um tvær vigtanir Fiskistofu á sama afla í Ólafsvík, dagana 14. og 18. marz.  Sé samspil þessara dagsetninga ekki ljóst.  Þá segjast ákærðu hafna þeim orðum ákæru að heilvigtaður afli án íss hafi verið samtals 2.243 kg lægri en vigtun Fiskistofu á sama afla hafi verið.  Ekki hafi verið um sama afla að ræða þar sem mestur hluti aflans hafi verið úrtaksvigtaður hjá Fiskistofumönnum en heilvigtaður hjá ákærðu.

Þá segjast ákærðu byggja sýknukröfu sína á því að einungis sé stuðzt við skýrslur eftirlitsmanns eða manna Fiskistofu sem dagsettar séu 27. og 31. marz 2008 um meint brot.  Skýrslurnar séu illa unnar og valdi ruglingi.  Ákærðu segja að samkvæmt skýrslu frá 27. marz séu þar skráðir þrír starfsmenn Fiskistofu.  Af lestri skýrslunnar að dæma virðist þó einungis einn starfsmaður, B, hafa fylgzt með löndun dagana 14., 15. og 17. marz og hafi hann einn séð um úrtaksvigtun 14. marz.  Gefi þetta atvikalýsingu skýrslunnar minna vægi.  Þá komi atvikalýsing um ísingu i kör, dagana 15. og 17. marz, ekki heim og saman við lýsingu F starfsmanns Gunnars útgerðar ehf.  Ákærðu segja að alvarlegast meintra brota varði íshlutfall í afla hinn 14. marz en þar sé aðeins við skýrslu B að styðjast og hafi framburður hans minna sönnunargildi en ella í ljósi þess að yfir hafi staðið umfangsmikil rannsókn Fiskistofu á hendur ákærðu A300 ehf. og sé því ekki víst að gætt hafi verið hlutleysis við eftirlit Fiskisstofu.  Þá geri B skýrsluna einn og riti einn undir hana.

Ákærðu benda á að samkvæmt lýsingu á vigtun afla úr Sæborgu ÞH-55, hinn 18. marz 2008, þar sem landað hafi verið fimm körum, hafi brúttóafli bátsins vigtazt 1738 kg en við heilvigtun eftirlitsmanna Fiskistofu, 12- 16 klukkustundum síðar, hafi aflinn, án íss og annarra óvissuþátta, reynzt vera 1745 kg.  Geti alls ekki staðizt að nettóþyngd sé meiri en brúttóþyngd og sé önnur hvor mælingin röng.  Umrædd vigtun geti því ekki verið samanburðarhæf við endurvigtun hjá ákærðu A300 ehf.

Þá segja ákærðu að ónákvæmni sé í skýrslu veiðieftirlitsmanns 26. marz.  Þar segi á bls. 3:  „Um kl 12:20 kom Sjöfn í land og hófst löndun kl. 13:00, við vigtun á hafnarvog reyndist aflinn vera 3253 kg brúttó en við endurvigtun okkar reyndist nettó afli vera 3179 kg eða 2,27% ís.“  Segja ákærðu að brúttóafli hafi í raun verið 3354 kg samkvæmt vigtarnótu og nettóafli 3126 kg samkvæmt vigtarnótu og íshlutfall 6,8% en ekki 2,27%.

Þá segja ákærðu að á sömu síðu skýrslunnar segi:  „Sæborg kom í land kl. 14:00 og vigtaði afli bátsins 4169 kg brúttó á hafnarvog.  Við endurvigtun okkar var hann 3978 kg nettó eða 4,57% ís.“  Hér sé hins vegar rétt að samkvæmt vigtarnótu hafi afli á hafnarvog verið 4298 kg samkvæmt vigtarnótu en við endurvigtun 3825 samkvæmt vigtarnótu.  Rétt íshlutfall sé 11,01%.  Þá sé ekki rétt með farið í skýrslunni þar sem afli hafi verið úrtaksvigtaður úr sjö fullum körum og einu kari sem hafi verið að nettóþyngd 184 kg, en landað hafi verið afla úr tíu fullum körum og einu þar sem hafi verið slatti af fiski.

Ákærðu segja að ekkert samhengi sé milli skýrslu 27. marz og skýrslu 31. marz 2008.  Í þeirri síðari sé ekki tekin upp þyngd kara „brúttó og nettó frá skýrslunni 27. mars til viðmiðunar.  Heldur einungis sagt að þann 27. mars hafi verið endurvigtaður fiskur af tveimur bátum.  Ekki ljóst hvort [hafi verið] um heilvigtun eða úrtaksvigtun. Jafnframt sem engin tenging [sé] við skýrslu eftirlitsmanna Fiskistofu dags. 27. mars 2008.“

Ákærðu segja að gera verði skýran greinarmun á úrtaksvigtun og heilvigtun og sé sá greinarmunur eitt lykilatriða málsins.  Verði úrtaksvigtun að hafa lagastoð þar sem hún varði réttindi manna og skyldur og geti varðað sviptingu leyfa og löggildingar og kostað menn sektir og fangelsisvist.  Ákvæði um heilvigtun og úrtaksvigtun séu í reglugerð nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla.  Leyfi til endurvigtunar séu almennt veitt bæði til heilvigtunar og úrtaksvigtunar. sbr. 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 224/2006.  Með því sé átt við, að eftir að brúttóvigtun fari fram á hafnarvog, þar sem aðeins sé heimilt að draga 3% ís frá vigtun, sé endurvigtunarleyfishöfum heimilt að nettóvigta aflann með endurvigtun, það er annað hvort úrtaksvigtun eða heilvigtun.  Fari vigtunin þó að jafnaði fram með heilvigtun.  Ástæðan sé sú, að brúttóvigtun sé aðeins viðmiðunartala og því nauðsynlegt að nettóvigta, það er að vigta einungis fiska upp úr körum, svo sem þegar ís sé 10-15% eða meira, auk þess sem vatnslosun og fleira spili inn í.  Hjá ákærðu sé því alltaf endurvigtað með heilvigtun, enda sé greitt eftir þyngd afla, bæði þegar A300 ehf. kaupi afla og selji.

Ákærðu segja að Fiskistofa telji heimild til úrtaksvigtunar byggða á auglýsingu nr. 768/1998 um reglur um lágmarksúrtak við úrtaksvigtun.  Auglýsingin hafi átt stoð í reglugerð nr. 522/1988 um vigtun sjávarafla, sbr. 6. gr. auglýsingarinnar.  Reglugerð nr. 522/1998 hafi verið felld úr gildi með reglugerð nr. 224/2006 sem tekið hafi gildi hinn 1. september 2006.  Auglýsing nr. 768/1998 virðist þó hafa lifað sjálfstæðu lífi allt til 12. janúar 2010 þegar ný auglýsing nr. 6/2010 um reglur um lágmarksúrtak og framkvæmd vigtunar hafi tekið gildi með stoð í reglugerð nr. 224/2006.

Ákærðu segja, að þegar úrtaksvigtanir Fiskistofu hafi farið fram hafi auglýsing nr. 768/1998 hvorki haft laga- né reglugerðarstoð og því verið ólögmæt.  Sé engin stoð undir auglýsingu eigi það að leiða til sýknu og megi um það vísa til dóma Hæstaréttar úr dómasafni 1945, bls. 18 og dómasafni 1986, blaðsíðu 1723.

Ákærðu segjast telja að ekki sé hægt að jafna saman úrtaksvigtun og heilvigtun og fá út samskonar niðurstöðu.  Við heilvigtun sé allur afli vigtaður en við úrtaksvigtun aðeins hluti hans, en slíkur samanburður hafi verið notaður hinn 14. marz og að hluta til 26. marz.  Ákærðu segja að mesti munur nettóvigtunar eftirlitsmanna Fiskistofu, úrtaksvigtunar, og nettóvigtunar ákærðu, heilvigtunar, þar sem hæsta íshlutfall hafi komið fram, hafi verið vegna löndunar úr báðum bátum hinn 14. marz 2008. Sé það grundvöllur málsins, ásamt endurvigtun, úrtaksvigtun, eftirlitsmanna Fiskistofu úr Sæborgu ÞH-55 hinn 26. marz, en heilvigtun hjá ákærðu. Um þessar vigtanir segja ákærðu að úrtaksvigtanir Fiskistofu hinn 14. marz hafi farið þannig fram að úr Sjöfn EA-142 hafi verið vigtað úr 11 körum af 22 en úr Sæborgu ÞH-55 úr 11 körum af 18.  Við úrtaksvigtun Fiskistofu hinn 26. marz hafi verið vegið úr sjö körum Sæborgar af tíu og hálfu kari. Segja ákærðu að munur á þyngd einstakra kara geti verið allt að 150 kg og þar sem ekki séu öll körin vigtuð geti niðurstaðan aldrei orðið eins og við heilvigtun. Segjast ákærðu nefna til skýringar eftirtaldar endurvigtunarnótur Fiskistofu:

Úr Sæborgu 14. marz, brúttómunur 494-398=96 kg, nettómunur 428-334 = 94 kg.

Úr Sæborgu 18. marz, brúttómunur 450-364=86 kg, nettómunur 388-303 = 85 kg.

Úr Sæborgu 26. marz, brúttómunur 497-420=77 kg, nettómunur 438-358 = 80 kg.

Úr Sjöfn 14. marz, brúttómunur 455-386 kg=69 kg, nettómunur 397-324 = 73 kg.

Úr Sjöfn 18.marz, brúttómunur 487-339 kg=148 kg, nettómunur 431-285=146 kg.

Úr Sjöfn 26. marz, brúttómunur 484-403= 81 kg, nettómunur 417-343 = 74 kg.

Þá hafi sum kör verið með afgangsfiski og því enn léttari, sbr. löndun úr Sæborgu 26. marz. Meðalþyngd kara í ofangreindum endurvigtunarnótum eftirlitsmanna geti því ekki verið rétt, því þau kör, sem ekki hafi verið úrtaksvigtuð, geti verið allt annarrar þyngdar en þeirra sem hafi verið vigtuð.

Ákærðu segja að munur úrtaksvigtunar og heilvigtunar komi sérstaklega fram þegar eftirlitsmenn Fiskistofu hafi heilvigtað afla Sjafnar hinn 18. marz 2008.  Þá sé sláandi lítill munur á íshlutfalli, 8,11% hjá eftirlitsmönnum en 12,18% hjá ákærðu og sé þetta eðlileg rýrnun frá löndun og til endurvigtunar tveimur dögum síðar, og skýrist af vatnslosun, eða svonefndu „drippi“.  Samkvæmt mælingum sé vatnslosun mest fyrsta sólarhringinn, allt að 5% en minnki síðan, „varlega áætlað á 2-3 dögum og má áætla 3-8%“.  Þessi endurvigtun Fiskistofu og endurvigtun 26. marz af Sjöfn séu einu marktæku mælingarnar sem unnt sé að styðjast við í málinu.

Ákærðu segja að í skýrslu eftirlitsmanna Fiskistofu 31. marz, um löndun 26. marz, komi fram að eftirtektarvert sé hve munur nettóvigtar Fiskistofu og nettóvigtar GPG fiskverkunar ehf. snarminnki þegar eftirlitsmenn séu viðstaddir endurvigtun á Húsavík.  Þessari fullyrðingu segjast ákærðu hafna með öllu og segja muninn skýrast, að því er afla Sjafnar varði, þar sem eftirlitsmenn hafi heilvigtað, og hafi munurinn þá verið 53 kg sem sé innan skekkjumarka, og að því er Sæborgu varði hafi afli verið úrtaksvigtaður „en einungis var um 10 kör að ræða og úrtaksvigtað var úr 7 körum og því minni líkur en meiri á [skekkju] í mælingum en þó var munurinn 153 kg sem var þó innan skekkjumarka er varðaði ísprósentu og dripp.“

Ákærðu segja að ekki liggi fyrir hvort allur afli sem eftirlitsmaður Fiskistofu hafi úrtaksvigtað hafi farið allur ofan í körin.  Þá liggi ekki fyrir hversu mikið hann hafi ísað yfir fiskinn eftir úrtaksvigtunina.

Ákærðu telja upp ýmis atriði sem hafi í framkvæmd áhrif á vigtun afla og rýrnun afla frá því honum er landað og brúttóvigtaður á hafnarvog og þar til hann er endurvigtaður hjá ákærðu innan tveggja til fjögurra sólarhringa, en endurvigtun geti dregizt fram yfir tvo sólarhringa við helgar og miklar annir:

1. Ákærðu segjast vilja hafa ís í körum við löndun um 10-15% svo að gæði aflans haldist, þótt misbrestur geti orðið á því.  Viðmiðunarregla um 3% ís til frádráttar í 7. gr. rgl. nr. 224/2006 sé því ekki í takti við raunveruleikann.

2. Viðurkennt sé að rýrnun afla, svokallað „dripp“, geti mest verið 5% á fyrsta sólarhring en síðan minna.  Um 12 klukkustunda akstur sé frá Ólafsvík til Húsavíkur á þunglestuðum bifreiðum.  Sé vatnslosun einna mest á þeim tíma.

3. Við endurvigtun eftirlitsmanna sé allt tekið úr þeim körum sem vigtuð séu, það er ís, sjór, vatn, krap og afli.  Eftir það séu aflinn og ísinn nettóvigtaðir hvor í sínu lagi. Vigtun sé alltaf ónákvæm að þessu leyti og geti stöðluð þyngd kara, 42 kg, breytzt í 50 – 60 kg eftir ástandi kars og því vatni sem í því sé. Íshlutfall Fiskistofu miðist við þann ís sem sé í karinu.

4. Eftir endurvigtun Fiskistofu þurfi að setja „sama afla“ aftur í karið og ísa á ný og sé þá komin ný brúttóvigtun sem ekki sé sú sama og verið hafi á hafnarvog. Geti það verið ónákvæm vísindi.

5. Á hafnarvog sé brúttóvigtun viðmiðunartala enda sé þá allt tekið með.  Kör séu misþung, þyngdarskráning ökutækja mismunandi og skipti þyngd eldsneytis þar meðal annars máli sem og þyngd tengivagns.  Þá séu vigtarmenn mismunandi og misvandvirkir.

Af þessu leiði að nettótala við endurvigtun, heilvigtun, hjá ákærðu sé eina rétta talan til að miða við.  Ekki verði ætlazt til þess að ákærðu fái við endurvigtun sína sömu tölu og eftirlitsmenn hafi fengið 12-48 klukkustundum áður.  Slíkt sé ómögulegt.

Þá segjast ákærðu draga í efa heimildir eftirlitsmanna til að koma á geymslustað ákærðu í Ólafsvík, taka þar afla og endurvigta án samþykkis og án óvilhallra vitna.  Sé tilgangur Fiskistofumanna að afla sér sönnunargagna til að nota gegn ákærðu.  Sé svo sönnunargögnunum breytt því taka þurfi allan aflann og ísinn úr körunum og sé ekki víst að sami afli og sami ís fari aftur í körin.  Telji ákærðu að í ákvæði 8. gr. laga nr. 57/1996 sé ekki skýrt um heimild eftirlitsmanna til að taka afla ákærðu og endurvigta hann án samþykkis. Komi engar skýringar um framkvæmd eftirlitsins fram í lagagreininni og ekkert um það hvort hún eigi við endurvigtun eftirlitsmanna eða hvort þeir þurfi að vera löggiltir vigtarmenn.  Sérstakt leyfi þurfi til endurvigtunar og orki tvímælis ef Fiskistofa geti veitt sjálfri sér slíkt leyfi.

Þá segja ákærðu að meint brot séu ekki stórvægileg, en Fiskistofa telji að 2.243 kg af þorski hafi ekki vigtazt dagana 14. og 18. marz og 101,6 kg hinn 26. marz.  Á einum vertíðardegi fari hins vegar um 50-80 tonn úr 20-40 bátum í gegn hjá fiskverkun ákærðu.  Nái því meint brot ekki 3,7% dagsafla, sé miðað við að hann sé 65 tonn.  Sé verðmæti þess afla, sem talið sé að ekki hafi vigtazt, undir hálfri milljón króna.

Að því er einstaka ákærðu varðar er í greinargerðinni sagt að ekki sé ljóst hvernig verknaðarlýsing og tilgreining til laga- og reglugerðarákvæða í ákæru eigi við um ákærða A.  Ekki komi fram í gögnum málsins hvernig persóna hans tengist málinu og ekki liggi fyrir sönnun afskipta hans vegna hinna meintu brota og af hinum löggilta vigtarmanni.  Hvorki sé sannað að ákærði A hafi gefið fyrirmæli um meint brot né að hann hafi vitað af þeim.  Tilgreining til 7. gr. sbr. 23. gr. laga nr. 57/1997 eigi því ekki við um hann, og sama megi segja um 14. og 16. gr. sbr. 63. gr. reglugerðar nr. 224/2006.  Sé því vandséð hvernig ábyrgð og tenging ákærða A við hin meintu brot grundvallist í ákæru og beri að sýkna hann af því, og jafnframt sé vakin athygli á því að hugsanlega beri að vísa ákæru á hendur honum frá án kröfu.

Að því er ákærða X varðar er tekið fram að í ákæru sé ekki vísað til laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn. Fiskistofa hafi tilkynnt Neytendastofu hinn 17. júlí 2008 um meint brot ákærða X.  Hann hafi sent andmæli til Neytendastofu inn 11. desember sama ár.  Með úrskurði Neytendastofu hinn 23. desember 2008 hafi hann verið áminntur. Með því að Fiskistofa hafi kosið að tilkynna málið til Neytendastofu hafi sá hluti þess, er varði ákærða X, farið úr höndum Fiskistofu.  Hún hafi allt að einu kært ákærða X til lögreglu hinn 9. september 2008.  Telja verði að samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga geti mál eins aðila ekki verið til meðferðar á tveimur stöðum til refsingar og sviptingar löggildingar.  Hafi Fiskistofa því ekki haft heimild til að vísa málinu til lögreglu eftir að það hafi farið til Neytendastofu. Þar sem máli ákærða X hafi lokið hjá Neytendastofu með áminningu þá sé ekki hægt að krefjast aftur refsingar og sviptingar löggildingar, eins og Fiskistofa hafi í raun gert með kæru sinni til lögreglu.

Þá sé vísað til tveggja dóma, sem beri númerin S-953/2008 og S-1957/2008, þar sem dómur hafi komizt að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð skattayfirvalda hafi tekið til sömu atvika eða brota og ákærðum hafi verið gefið að sök.  Vegna þessa hafi dómurinn álitið að málshöfðun vegna brotanna hafi verið andstæð 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu.  Málum þessum svipi til stöðu ákærða X í máli þessu.  Beri því að vísa þeim frá eða sýkna af þeim.

Þá sé byggt á því að ákærði X hafi ekki framið neitt brot og beri því að sýkna hann. Byggist meint brot hans alfarið á skýrslu eftirlitsmanna Fiskistofu, dags. 31. marz 2008. Þær niðurstöður eftirlitsmannanna, að ekki hafi verið sinnt villutilkynningum, hafi komið ákærða X í opna skjöldu og sé þar ekki allt sem sýnist.  Vigtun með stykkjavog hafi farið þannig fram, að fiski sé sturtað í þvottakar en þaðan fari hann á safnborð og þaðan sé tíndur einn og einn inn á vog. Vogarhausinn hafi verið staðsettur til hliðar við starfsmann vogarinnar, H.  Eftirlitsmenn hafi staðið 3-4 metra skáhallt fyrir aftan stykkjavogina og haft teljara í höndum til að telja fiskana.  Afar ólíklegt sé að þeir hafi bæði getað talið alla fiskana sem fóru á vogina og jafnframt fylgzt með villutilkynningum á stykkjavoginni, en einblína verði á stykkjavogina því rauða ljós villuboðanna hverfi nær samstundis.  Sé því hafnað að eftirlitsmennirnir hafi séð villutilkynningar á stykkjavoginni en því haldið fram, að þeir hafi einungis miðað við mun eigin talningar og útprentun upplýsinga úr stykkjavoginni. Hafi ákærða X verið ómögulegt að skrá aðrar upplýsingar en komið hafi frá voginni.

Þá sé því haldið fram að ekki hafi verið sýnt fram á af hverju ákærði X hefði átt að bera rangar og óútskýrðar upplýsingar á endurvigtunarnótur.  Sé hann sjálfstæður í störfum sínum, sbr. lög nr. 91/2006 og 4. gr. reglugerðar nr. 224/2006. Ákærðu A300 ehf. og A báru ekki ábyrgð á störfum ákærða X og engin fyrirmæli hafi legið fyrir frá ákærða A um að falsa skyldi nótur.  Þá hafi ákærði X enga hagnaðarvon átt í slíkri fölsun.  Ásetningur eða gáleysi ákærða X sé ósannað.

Að því er ákærða A300 ehf. varðar er því í greinargerðinni haldið fram að þeir, sem notið hefðu hagnaðar af meintum brotum, séu útgerðirnar Gunnars útgerð ehf. og Hraunútgerðin ehf., þar sem ekki hafi þá dregizt frá þorskaflamarki þeirra.  Sé því vandséð hvers vegna ákærða A300 ehf. sé ákært en ekki þessar útgerðir.  Þá sé ekki heimilt, ef forsvarsmaður ákærða A300 ehf. verði sýknaður, að leggja sekt á félagið samkvæmt 24. gr. laga nr. 57/1996, því ákvæðið eigi ekki lengur við þar sem endurvigtanir Fiskistofu séu ýmist ólögmætar og innan skekkjumarka vegna vatnslosunar, auk þess sem ósannað sé að brotin hafi orðið, eða hafi getað orðið, félaginu til hagsbóta.  Þá séu hin meintu brot smávægileg í verðmætum talið og væru auk þess fyrstu brot.  Loks verði að telja óeðlilegt að sekta félagið þar sem það hafi þegar hlotið viðurlög fyrir sama meinta brot með sviptingu endurvigtunarleyfis hinn 14. júlí 2008, en sviptingin hafi staðið í 17 vikur og verið metin ólögmæt í úrskurði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis hinn 14. nóvember 2009.  Hafi félagið vegna hennar orðið af tugmilljóna króna tekjum.

Verða nú raktar skýrslur ákærðu og framburður vitna fyrir dómi, eftir því sem ástæða þykir til.

Ákærði A kvaðst vera og hafa verið framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi A300 ehf., áður GPG fiskverkun ehf.  Væri þetta sjávarútvegsfyrirtæki með saltfiskverkun og fiskþurrkun á Húsavík og frystingu á Raufarhöfn.  Þá gerði fyrirtækið út nokkra báta og hefði um eitt hundrað manns í vinnu.  Keypti fyrirtækið fisk hvaðanæva að á landinu.  Samanlagðar aflaheimildir fyrirtækisins og dótturfélaga væru á fjórða þúsund tonna.  Á þeim tíma sem mál þetta varði hafi fyrirtækið leigt aflaheimildir sem veiddar hafi verið á Sæborgu, en ýmist hafi fyrirtækið eða aðstandendur skipsins Sjafnar leigt aflaheimildir fyrir það.

Ákærði lýsti endurvigtun þannig, að afla væri ekið í hús fyrirtækisins á Húsavík.  Þar væri aflanum fyrst sturtað í þvottakar, svo gengi hann á stigabandi upp á rist og væri þá reynt að skilja ís frá honum.  Á ristinni hristist ís og vatn af fisknum og væri þar starfsmaður sem raðaði fisknum á vog, þannig að hver og einn fiskur væri veginn áður en kæmi að hausun og flatningu.  Væri þannig hver og einn fiskur veginn og niðurstöður vigtunarinnar væru prentaðar út, þegar búið væri að afgreiða afla hvers einstaks báts með þessum hætti.  Undir slíka vigtarnótu ritaði svo löggiltur vigtarmaður.

Ákærði var spurður um afla sem landað hefði verið úr Sjöfn EA-142, á Ólafsvík hinn 14. marz 2008, og þá 781 kg rýrnun aflans sem orðið hafi frá því hann hafi verið veginn á hafnarvog og þar til hann hafi verið endurveginn á Húsavík.  Ákærði sagði ýmislegt spila þar inn í.  Í Ólafsvík hefði farið fram úrtaksvigtun, þar sem aðeins hluti aflans væri vigtaður, en á Húsavík hefði hann allur verið vigtaður.  Við úrtaksvigtun væru aðeins nokkur kör vigtuð og þar fundið meðaltal sem látið væri gilda yfir öll körin.  Hins vegar gæti munað allt að 100 til 150 kg á þyngd innihalds einstakra fiskkara.  Eins væri misjafnt hversu mjög væri ísað í hvert og eitt kar.  Þá lægi fyrir að fiskur „drippar“, en þar væri átt við vatnslosun fisksins en þannig missi hann allt að 5% af þyngd sinni á sólarhring, og því væri útilokað að sama niðurstaða kæmi úr vigtunum sem færu fram með nokkurra daga bili.

Ákærði var spurður um afla sem landað hefði verið úr Sjöfn EA-142, á Ólafsvík hinn 17. marz 2008 og þá 120 kg rýrnun aflans sem orðið hafi frá því eftirlitsmenn Fiskistofu hafi heilvigtað aflann hinn 18. marz og þar til hann hafi verið endurveginn á Húsavík hinn 19. marz.  Kvaðst ákærði skýra þá rýrnun með því sem áður var rakið, að vatn læki úr fiskinum. Sagði ákærði Fiskistofumenn hafa verið viðstadda endurvigtunina á Húsavík.

Ákærði var spurður um þann mun sem væri á rýrnun afla frá hafnarvog til endurvigtunar, eftir því hvort eftirlitsmenn væru viðstaddir endurvigtun eða ekki. Sagði ákærði að í annað tveggja skipta sem Fiskistofumenn hefðu verið viðstaddir endurvigtun hefðu augljóslega einhver mistök verið gerð.  Samkvæmt skráningu hefði verið 2% munur á brúttóvigtun í Ólafsvík og endurvigtun á Húsavík.  Væri það útilokað. Þessi ranga niðurstaða gerði það að verkum að meðalrýrnun að Fiskistofumönnum viðstöddum væri skráð of lítil.

Ákærði var spurður um afla sem landað hefði verið úr Sæborgu ÞH-55, á Ólafsvík hinn 14. marz 2008 og úrtaksvigtaður af Fiskistofumönnum sama dag, og endurvigtaður á Húsavík tveimur dögum síðar, og þá 1.024 kg rýrnun, 15,43%, sem verið hefði frá vigtun eftirlitsmanna og til endurvigtunar.  Skýrði ákærði það með vatnslosun fisks og þeim muni sem væri á úrtaksvigtun og heildarvigtun.

Ákærði var spurður um afla sem landað hefði verið úr Sæborgu ÞH-55, á Ólafsvík hinn 18. marz 2008, heilvigtaður af Fiskistofumönnum sama dag en endurvigtaður á Húsavík daginn eftir, og þá 318 kg rýrnun, 18,22%, sem orðið hefði frá vigtun Fiskistofu til endurvigtunar.  Ákærði benti á, að í þessu tilviki gæfi hafnarvog upp 1738 kg með ís, en þegar Fiskistofumenn vigtuðu aðeins íslausan fiskinn fengju þeir út 1745 kg. Kvað ákærði það sýna að ekkert væri á þessum mælingum að byggja.  Kvaðst hann rengja allar tölur í þessu dæmi, aðrar en þá sem komið hefði úr endurvigtun.

Ákærði kvaðst ekkert hafa komið að umræddum endurvigtunum.

Þá var ákærði spurður um það atriði sem ákæruliður b snýst um.  Ákærði sagði að ætíð hefði verið lagt ríkt á við þann starfsmann, sem raðaði á vogina, að vanda sig svo sem hann gæti.  Á þessum tíma hefði búnaður verið þannig, að ef fiskur vigtaðist ekki, af hvaða ástæðum sem það væri, kviknaði rautt ljós „framan við andlitið á manninum sem var að raða inn á vogina“, og hefði honum þá borið að sækja fiskinn og renna honum aftur á vogina.  Hefðu aðeins starfsmenn, sem löggiltur vigtarmaður hefði sérstaklega valið, sinnt þessu starfi. Sá starfsmaður, sem átt hefði hlut að máli á þeim tíma sem ákært væri fyrir, H, hefði sagt ákærða að enginn fiskur hefði farið óvigtaður í gegn, því allir fiskar, sem ekki hefðu vigtazt, hefðu verið sóktir og rennt í gegn að nýju.  Stundum kvikni hins vegar rauð ljós án þess að óvigtaður fiskur hafi farið í gegn, og séu þau vegna íshraungls á bandinu. Ákærði tók fram að þeir starfsmenn sem ynnu við bandið hefðu enga hagsmuni af því að koma fiski undan vigtun.

Ákærði sagði að umræddan dag hefðu eftirlitsmenn Fiskistofu sagzt hafa tekið eftir sextán villutilkynningum, án þess að brugðizt hefði verið við með því að sækja fiskinn.  Tók ákærði fram að þann daginn hefðu tuttugu þúsund fiskar farið um bandið. Daginn eftir hefði, vegna athugasemda Fiskistofumanna, annar starfsmaður verið fenginn til að fylgjast með starfi þess sem raðaði á bandið.  Í framhaldi af þessu hafi búnaðinum verið breytt þannig að við villutilkynningu stöðvaðist bandið.

Ákærði kvaðst telja mál þetta eiga sér þá forsögu að á árinu 2007 hefði fyrirtæki hans staðið starfsmann að því að stela peningum frá sér.  Hefði þeim manni verið sagt upp starfi.  Sá maður hefði síðan, við annan mann, komið því á kreik að menn væru að stela fiski í gegnum endurvigtun og hefði sú umræða beinzt að fyrirtækinu.  Hefði „alls kyns óhróður“ verið sagður um fyrirtækið, en maður þessi hefði marglýst því yfir að hann myndi ekki unna sér hvíldar fyrr en hann hefði komið fyrirtækinu í þrot.  Væri þessi fyrrverandi starfsmaður mikill félagi annars þeirra veiðieftirlitsmanna sem komið hefðu í eftirlit með endurvigtun í fyrirtækinu.  Í framhaldi af þessum sögusögunum hefði Fiskistofa ráðizt „inn í fyrirtækið með rannsókn“ og hefði meðal annars verið gerð ýtarleg úttekt á bókhaldi fyrirtækisins.  Hefði rannsóknin tekið hálft annað ár og hefði hún enn staðið yfir þegar eftirlitsmennirnir hefðu komið í fyrirtækið.  Ekkert hefði fundizt athugavert við rannsóknina og hefði henni lokið með afsökunarbréfi frá Fiskistofu. Meðal annars komið fram að nýtingarhlutfall fyrirtækisins væri undir meðallagi.  Kvað ákærði þá niðurstöðu benda gegn því að fyrirtækið kæmi fiski undan vigtun.  Hefði enda aldrei verið gerð athugasemd við endurvigtun fyrirtækisins fyrr en í því tilviki sem getið er í ákæru.

Ákærði var spurður um umfang meintra brota, miðað við umsvif fyrirtækisins.  Kvað ákærði um sextíu tonn af fiski hafa farið um vinnsluna á hverjum degi í umræddum marzmánuði.  Mætti ætla að allt að þrjátíu þúsund fiskar færu þar í gegn á degi hverjum, svo um sáralítið hlutfall væri að ræða.  Verðmæti þeirra um tveggja tonna, sem ákært væri fyrir, væri um hálf milljón króna, en á hverjum degi hefði þá verið framleitt fyrir um tuttugu til þrjátíu milljónir króna.

Ákærði sagði að útgerðir bátanna Sæborgar og Sjafnar væru ótengdar ákærðu, en hefðu landað hjá þeim.  Hefðu forsvarsmenn þeirra útgerða aldrei gert athugasemdir við uppgjör og vigtun hjá ákærðu, og hefðu viðskipti þeirra haldið áfram.  Hefði það aldrei gerzt að innleggjendur hefðu kvartað yfir vigtun fyrirtækisins.

Ákærði X kvaðst ekki telja sig hafa skráð rangar upplýsingar á endurvigtunarnótur.

Ákærði kvaðst hafa verið löggiltur vigtarmaður hjá A300 ehf. á umræddum tíma.  Í starfi sínu hefði falizt að sjá um vigtun á öllum afla sem endurvigta skuli og fylla út nótur og skila til hafnarvogar.  Sem löggiltur vigtarmaður bæri hann ábyrgð á endurvigtuninni.  Þegar endurvigtað væri, væri ákærði annað hvort á palli ofan við flæðivogina, eða þá inni á kompu sem hann hefði, um metra þar fyrir aftan.  Á hvorum staðnum sem væri hefði hann ágætt útsýni yfir vigtunina og sæi starfsmanninn, vogina og vogarhausinn.  Af pallinum hefði hins vegar á þessum tíma verið mjög erfitt að fylgjast í senn með fiskinum og villutilkynningum, sem fælist í rauðu ljósi sem birtist örstutta stund á skjá fyrir framan starfsmanninn sem raðaði á bandið.  Villutilkynning gæti komið vegna fisks sem ekki hefði verið vigtaður en einnig vegna ísmola sem lægi á bandinu.  Lítill ísmoli geti kveikt villuljós án þess að vera veginn og við þær aðstæður hefði starfsmanni ekki borið að bregðast sérstaklega við villuljósinu.

Ákærði sagði, að í því tilviki er ákæruliður b snýst um, hefði hann að lokinni endurvigtun farið inn á vinnukompu sína þar sem hann hefði tölvu, og hefði þar prentað út niðurstöður vigtunarinnar og lagt á borð fyrir framan eftirlitsmenn Fiskistofu.  Hefðu þeir þá sagzt hafa fengið út hærri tölu í sinni talningu og væri mismunurinn þá fólginn í villutilkynningum.  Hefði ákærði þar fyrst heyrt þá nefna villutilkynningar.  Ákærði hefði spurt eftirlitsmennina hvort hann ætti að breyta skráningu sinni en engin svör fengið.  Hefði hann því byggt á þeim upplýsingum sem hann hefði fengið á tölvu sína úr vigtuninni.

Ákærði kvaðst aldrei hafa séð teljara Fiskistofumanna. Sagði hann Fiskistofumönnum hafa verið ómögulegt að gera hvort í senn, að telja fiska og fylgjast með villutilkynningum.  Væri mikill hraði á bandinu.

Ákærði kvaðst telja líklegt að á degi sem þessum hefðu um ellefu þúsund fiskar farið í gegnum vinnsluhúsið.

Ákærði sagðist daginn eftir hafa látið annan starfsmann fylgjast með þeim sem raðaði á bandið til að tryggja það að brugðizt væri við öllum villutilkynningum.  Skyldi sá sækja allt sem færi eftir villutilkynningu, jafnvel þó að það yrði til þess að fiskur yrði tvítalinn.  Hefði ákærði gert þetta í framhaldi af ásökunum Fiskistofumanna sem hann hefði talið mjög alvarlegt mál.

Ákærði sagðist ekki hafa staðið sitt fólk að því að sinna ekki villutilkynningum.

Ákærði sagði að um leið og búið væri ljúka vigtun úr hverjum báti fyrir sig, og skrá nýjan inn í kerfið, væri úti sá möguleiki að sjá í tölvukerfinu hversu margar villutilkynningar hefðu komið.  Slíkt mætti einungis gera á meðan skráin væri opin og í vinnslu.  Ef Fiskistofumenn hefðu gert athugasemdir í tæka tíð hefði verið unnt að sjá í kerfinu hversu margar tilkynningar hefðu komið.  Kvaðst ákærði telja alveg ósannað að nokkurar villutilkynningar hefðu komið í þetta skipti, en sjálfur hefði hann engar villutilkynningar séð, en hann hefði fylgzt með ekki síður en Fiskistofumennirnir og staðið á sama stað og þeir.

Vitnið sagði að aðstæður við bandið hefðu nú breytzt að því leyti að vigtunin gengi ekki eins hratt fyrir sig.

Ákærði sagði að Fiskistofumenn hefðu staðið örfáa metra fyrir aftan starfsmanninn sem raðað hefði á bandið.  Hefði starfsmanninum verið fullkunnugt um að þeir fylgdust með.

Ákærði var spurður um þau atriði sem fjallað er um í ákærulið a.  Spurður um þá rýrnun sem orðið hefði á vegnum afla, sagði hann útilokað að bera saman úrtaksvigtun og heilvigtun.  Væri „gríðarlegur“ munur á þyngd einstakra fiskikara.  Þá skipti máli að fiskurinn hefði verið fluttur langan veg, frá Ólafsvík til Húsavíkur. Ákærði kvað 3-5% rýrnun á sólarhring vera mjög eðlilega og í takti við það sem hann kannaðist við.

Ákærði var spurður um mun sem væri á meðalrýrnun þegar Fiskistofumenn væru viðstaddir endurvigtun og þegar þeir væru það ekki.  Ákærði kvað líklegasta skýringu vera þá að þegar Fiskistofumenn hafi verið viðstaddir hafi sá fiskur, sem þeir hafi viljað fylgjast með í endurvigtun, haft forgang á annan í vinnslunni.  Hefði sá fiskur því verið endurveginn fyrr en venja væri og því minna lekið úr honum en öðrum.  Þá sagði ákærði að í marz hefði mikill fiskur borizt og hann því beðið alla sem hefðu landað hjá ákærðu um að ísa meira.  Gæti það skýrt hærra íshlutfall.

Ákærði kvaðst ekki eiga hlut í ákærðu A300 ehf. og aldrei hafa átt.  Sama gilti um það fólk sem honum tengdist.  Þá kvaðst ákærði aldrei hafa fengið fyrirmæli eða óskir frá yfirmönnum sínum um að standa á nokkurn hátt rangt að endurvigtun.

Vitnið H fiskverkamaður kvaðst hafa starfað við vog í fiskvinnsluhúsinu á umræddum tíma. Væri hlutverk sitt við endurvigtun að tína fiska inn á band, einn í senn.  Þyrfti að gæta þess að ekki minna bil væri milli fiskanna en um 10 cm.  Á þeim tíma sem málið varðar hafi búnaðurinn verið þannig úr garði gerður að bandið stöðvaðist ekki þó að villutilkynning kæmi.  Kvaðst vitnið hafa fylgzt „mjög mikið“ með skjánum þar sem tilkynningarnar kæmu, en það hefði þó ekki þurft þess sérstaklega.  Vitnið hefði sinnt starfinu eins vel og það hefði getað og treyst því að það gerði það rétt.  Hefði verið algengara að villutilkynningar kæmu vegna íss en fisks, en vitnið hefði verið undir fyrirmælum um að sækja fisk, sem ekki hefði verið veginn, ef tilkynningin hefði verið um fisk.  Í því tilviki er mál þetta snerist um hefðu villutilkynningar ætíð komið vegna íss.  Kvaðst vitnið hafa vitað vel af eftirlitsmönnum Fiskistofu fyrir aftan sig.  Ef þeir hefðu bæði getað fylgzt með fiski og villutilkynningum, þaðan sem þeir stóðu, væru þeir „ofurmenni“.  Kvaðst vitnið ekki skilja að eftirlitsmennirnir hefðu getað greint hvort villutilkynningin kæmi frá ís eða fiski. Hefðu eftirlitsmennirnir engar athugasemdir gert við vitnið um vinnubrögð þess.

Vitnið sagði að villuljósið væri um þriggja cm rautt strik, sem birtist og hyrfi á örskotsstund.

Vitnið I stýrimaður og fyrrverandi veiðieftirlitsmaður Fiskistofu kvaðst muna eftir því er Sæborg og Sjöfn hefðu lagt upp í Ólafsvík á umræddum tíma. Hefði vitnið komið að úrtaksvigtun sem gerð hafi verið.  Þeir B útibússtjóri Fiskistofu hefðu fyrst brúttóvigtað körin með fiski í á markaðnum en næst hefðu þeir tekið ísinn úr og vigtað fiskinn einan.  Næst hefðu þeir sett ís í karið að nýju, svo að jafn þung hefði orðið og áður var. Þessi athugun hefði verið gerð þar sem íshlutfall hjá fyrirtækinu hefði þókt óeðlilega hátt, en vitnið sagðist hafa séð þegar ísað hefði verið á bryggju í kör sem hefðu farið norður, og hefði þá verið settur ís úr einni eða tveimur skóflum ofan á fiskinn.  Væri það óvenjulega lítið en vitnið nefndi til samanburðar að það hefði vanizt úr sinni sjómennsku að settur væri ís úr sex til átta skóflum. Þá hefði vitnið ekki séð merki um að ísað hefði verið um borð heldur eingöngu þegar í land hefði verið komið.  Ef ekki væri ís í körum þegar komið væri á hafnarvog, væri ekki heimilt að endurvigta síðar. Vitnið sagði að eðlilegt íshlutfall væri að sínu mati 6-15%, eftir úthaldi skips.  Dagróðrabátar eins og Sjöfn og Sæborg ættu ekki að vera með meira en 3-5% íshlutfall. Vitnið hefði sjálft verið á dagróðrabáti og þar hefði íshlutfall verið að jafnaði um 4%.

Vitnið sagði að hafnarvog væri stór vog og hlypi þar gjarnan á 30 kg.  Sú í Ólafsvík væri þannig að ekið væri á þær og bifreið og farmur vegin og gæti eldsneytisstaða bifreiðar því haft áhrif á niðurstöðu vigtunar.  Vigtun eftirlitsmanna Fiskistofu væri mun nákvæmari.

Vitnið B veiðieftirlitsmaður sagði að ábendingar hefðu borizt sér um að endurvigtun hjá fyrirtækinu sýndi óeðlilega mikinn ís.  Vitnið hefði fylgzt með löndun úr bátunum 15. marz og við aðra löndunina 17. marz og hefði séð að „sáralítill“ ís hefði verið settur í við löndun og enginn ís verið um borð, og hefði vitnið því ákveðið að endurvigta og sjá svo hvað kæmi út úr endurvigtun nyrðra. Hefði ýmist verið tekin úrtaksvigtun eða heilvigtun og þess gætt að fyrirtækið vissi ekki af athuguninni.  Við vigtun Fiskistofumanna skömmu eftir löndun hefði lítill ís verið í körunum.  Við úrtaksvigtun væru kör valin af handahófi, eftir því þó sem jafnast þætti í körum.

Vitnið sagðist hafa verið skipstjóri á dagróðrabáti í um áratug og ísun þar hefði að jafnaði verið „þrjár skóflur í botninn, tvær á milli og þrjár ofaná, og 6, 7% ís, 8% ís, gegnumgangandi, þannig að 15, 16% ís, það [fyndist vitninu] vera óeðlilegt á báti með svona ísun.“  Vitnið sagði að íshlutfall gæti lækkað um eitt til tvö prósent vegna flutnings milli landshluta.  Þá sagði vitnið að 8 – 9% íshlutfall væri ekki óeðlilegt á dagróðrabáti.  En þegar lítið væri ísað, eins og vitnið hefði séð hjá Sjöfn og Sæborgu, þá væri 15% of hátt. Hefði hinn litli ís, sem þar hefði verið, vakið grunsemdir hjá sér.

Vitnið var spurt um niðurstöður vigtunar hinn 18. marz, þar sem niðurstaða hafnarvogar er skráð 1738 kg en niðurstaða heilvigtunar Fiskistofumanna sama dag er skráð 1745 kg.  Vitnið sagði slíkt gæti gerzt þegar afli væri lítill en hafnarvog stór, en vikmörk hafnarvogar gætu verið um 40 til 50 kg.  Veður geti tekið í bifreið á vigtinni og eldsneytismagn hennar hafi einnig áhrif.  Mætti alltaf búast við einhverri skekkju hjá hafnarvog.

Vitnið var spurt hvort það teldi eðlilegt að íshlutfall ykist um 4% þegar tveir dagar liðu frá heilvigtun Fiskistofumanna til heilvigtunar á Húsavík.  Kvaðst vitnið ekki geta útilokað að það væri eðlilegt.

Vitnið J sjómaður kvaðst hafa verið skipstjóri og útgerðarmaður Sæborgar ÞH-55, en hann væri eigandi Hraunútgerðar sem gerði skipið út.  Kvaðst vitnið hefði leigt aflaheimildir fyrir skipið af fyrirtækinu GPG, sem nú heitir A300 ehf.  Hefði vitnið landað hjá fyrirtækinu í fjölmörg ár.  Á þeim tíma sem málið varðaði hefði afli verið ísaður við löndun en ekki um borð.  Þrjár skóflur hefðu farið á hvert kar og það verið fullnægjandi.  Eftir það hefði aflinn verið vigtaður. Þrjár skóflur af ís væru um 18 kg.  Vitnið sagði að sér hefði fundizt íshlutfall eftir endurvigtun hjá fyrirtækinu óeðlilega hátt.  Hefði vitnið tvívegis spurt hafnarverði í Ólafsvík út í þetta og í bæði skiptin fengið það svar að íshlutfallið væri ekki óeðlilegt. Sagði vitnið að á vetrarvertíð væri meiri afla landað í Ólafsvík en í nokkurri annarri höfn.

Bornar voru undir vitnið tölur úr löndun Sæborgar hinn 14. marz og það spurt hvor það teldi íshlutfall nyrðra óeðlilega hátt.  Kvaðst vitnið ekki geta svarað því.  Það hefði „ekki hugmynd um hvað þetta dripp“ væri mikið, en því yrðu aðrir að svara.  En vitnið hefði þó talið íshlutfall það hátt að hann hefði borið sig upp við hafnarvörð vegna þess, með þeim viðbrögðum sem áður segir.  Eftir þau svör hefði vitnið ekki hafzt meira að.  Árið eftir hefði vitnið aftur farið á vertíð frá Ólafsvík og hefði þá landað á markað þar, og þar hefði fiskurinn verið slægður og endurvigtaður áður en hann hafi farið norður.  Árið 2010 hefði vitnið áfram átt viðskipti við ákærðu.

Vitnið kvaðst ekki hafa verið beðið um að ísa betur í körin.

Vitnið staðfesti það sem eftir því er haft í lögregluskýrslu um íshlutfallið á Húsavík.

Vitnið K sjómaður kvaðst hafa verið skipstjóri Sjafnar á þeim tíma sem málið varðar.  Fyrst hefði GPG útvegað sér aflaheimildir á bátinn en er liðið hefði á vertíðina hefði vitnið gert það sjálft en GPG greitt fyrir hann.  Vitnið sagðist fyrri hluta vertíðar hafa látið nægja að ísa þegar í land hefði verið komið, en í marzmánuði hefði hann farið að taka með sér ís út, og ísa einnig þar.  Hefði hann gert það eftir að hann hefði tekið eftir því hversu hátt íshlutfall væri í endurvigtun, og hefði gert það til að gæta hagsmuna sinna.  Íshlutfallið hefði hins vegar ekkert breytzt, sama hvað hann hefði mokað í körin.  Vitninu hefði ætíð fundizt íshlutfallið óeðlilega hátt og um svipað leyti og Fiskistofa hefði gert athugun sína hefði vitnið í tilraunaskyni ísað afar lítið, en niðurstaða endurvigtunar hafi orðið 16% íshlutfall, en einhverju síðar hefði hann sett gríðarmikinn ís og þá fengið 7% íshlutfall.  Kvaðst vitnið telja sig hlunnfarið með ósanngjörnum hætti og tryði það öllu upp á ákærða A.

Vitnið kvaðst telja eðlilegt íshlutfall á báti eins hann hefði verið á, vera milli fjögur og sex af hundraði.  Í sínum huga væri með íshlutfalli átt við hlutfall íss af þyngd þess sem væri í kari.  Þá væri ljóst að vatn læki af fiski, svo sem við flutning.

Vitnið kvaðst hafa rætt þessi mál tvívegis við hafnarverði í Ólafsvík og hefðu þeir svarað því til að þetta væri „bara svona“.  Þá hefði vitnið talað við Fiskistofu og ákærða A og X, skrifstofumann GPG, og alls staðar fengið þau svör að þetta væri allt eðlilegt.  Samskipti sín við ákærða A og X skrifstofumann hefðu verið erfið, en samskipti vitnisins við ákærða X hefðu verið góð og hjá honum ætíð fengist góðar skýringar á því sem vitnið hefði viljað ræða við hann.

Vitnið sagði útgerð sína hafa áfram stundað viðskipti við A300 ehf. fyrst eftir að málið hefði komið upp.  Árið 2010 hefðu viðskiptin verið hafin að nýju og hefði ákærði A sagt að þeir gætu fengið að veiða um eitthundrað og fimmtíu tonn.  Útgerð vitnisins hefði hafið veiðarnar og haft þann hátt á að blóðga sjálfur fiskinn en senda hann svo í slægingu á Rifi, þar sem fiskurinn hafi verið vigtaður áður en hann hefði farið norður.  Hefðu ákærðu því ekkert haft með vigtun hans að gera.  Vitnið hefði ekki farið í viðskipti við ákærðu þennan vetur, ef þau hefðu átt að vera með sama hætti og áður, það er ef endurvigtun yrði á Húsavík.  Hefðu ýmsir erfiðleikar orðið í þessum viðskiptum og hefði vitninu fundizt þeir stafa af því að ákærðu gætu ekki endurvigtað aflann fyrir norðan. Eftir að hafa veitt 47 tonn hefði vitnið hætt viðskiptunum.  Þar hefði þó skipt máli að í upphafi hefðu menn gert ráð fyrir að leyfður heildarþorskafli yrði aukinn, en sú hefði svo ekki orðið raunin.  Þá sagði vitnið að ákærða A hefði verið ljóst, þegar þeir hefðu samið árið 2010, hvernig vitnið hygðist standa að málum og að vigtun færi fram á Rifi.

Vitnið staðfesti þau orð sín í lögregluskýrslu að alger fjarstæða væri að þeir Sjafnarmenn hefðu mokað um tveimur tonnum af ís á fiskinn dagana 13. og 14. marz.

Vitnið D veiðieftirlitsmaður Fiskistofu kvaðst hafa komið til eftirlits á Húsavík dagana 27. og 28. marz 2008, að ósk yfirmanns síns, svæðisstjóra Fiskistofu á Akureyri.  Hefðu þeir F félagi hans staðið á palli ofanvið aðgerðaraðstöðuna og fylgzt með þegar fiskur var færður, einn af öðrum, á band sem gengi yfir vog.  Hefðu þeir verið með lítinn teljara á sér, sem menn smelltu á til talningar, og hefðu smellt í hvert sinn sem fiskur fór yfir vogina.  Útsýni þeirra hefði verið gott og óhindrað. Af og til hefðu komið villutilkynningar, sem kæmu fram í rauðum bletti sem birtist skamma stund, og hefði þá hlutaðeigandi fiskur ekki vigtazt.  Vitnið kvað þá hafa talið villutilkynningar í huganum og svo borið sig saman eftir á, og kvaðst vitnið muna að þær hefðu verið fleiri en tíu.  Vitnið sagði að íshraungl á bandinu gæti kallað á villutilkynningu en þeir hefðu getað greint þar á milli þar eð sæist vel af pallinum.  Ísmolana hefðu þeir ekki talið. Væri eftirlit sem þetta hluti af starfi vitnisins. Vel gerlegt væri að fylgjast með bandinu, villutilkynningum og vogarhausnum í senn.

Vitnið sagði að ákærði X og annar, starfsmaður fyrirtækisins, hefðu um tíma staðið á pallinum og fylgzt með, ákærði X lengur.  Hefðu þeir E bent þeim á að starfsmaðurinn sinnti ekki villutilkynningum.  Hefði ákærði X sagt þetta koma sér á óvart.  Hann hefði hins vegar ekki brugðizt við.  Þeir hefðu rætt þetta eftir á, inni á skrifstofu ákærða X, og hefði hann þá sagzt ætla að laga þetta.

Vitnið sagði að starfsmaðurinn við bandið hefði vitað af eftirlitinu.  Hann hefði vel getað fylgzt með villutilkynningunum en þær hafi blasað við honum. Væri einkennilegt ef hann hefði ekki séð þær.  Daginn eftir hefði hann hins vegar brugðizt við villutilkynningum og sókt fisk sem ekki hefði vigtazt.

Vitnið staðfesti það sem eftir því er haft í lögregluskýrslu sem liggur fyrir í málinu.

Vitnið var spurt hvort það tengdist nafngreindum brottreknum starfsmanni fyrirtækisins.  Vitnið kvaðst vera frændi konu þess manns en aldrei hafa rætt málefni fyrirtækisins við hann og ekki um brottrekstur hans.  Væri fráleitt að eftirlitsstörf vitnisins kæmu þessum starfsmanni eða brottrekstri hans við.

Vitnið E veiðieftirlitsmaður sagði þá D hafa farið í fiskverkun GPG hinn 27. marz 2008 til að fylgjast með endurvigtun.  Hefðu eftirlitið farið fram með hefðbundnum hætti og með hjálp teljara sem þeir hvor þeirra hefði haft.  Þá hefðu þeir fylgzt með villutilkynningum, sem kæmu fram í rauðum blossa, og kvað vitnið sig minna að þeir hefðu talið þær í huganum.  Heildarfjöldi fiska væri það sem máli skipti. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að ísmolar hefðu farið á bandið og kvaðst vitnið telja að allar villutilkynningarnar hefðu komið vegna fisks.

Vitnið sagði að starfsmaðurinn við bandið hefði verið H og væri hann eiginlega eini starfsmaðurinn sem sinnti þessu starfi. Þá hefði ákærði X hefði verið á staðnum þegar eftirlitið hefði farið fram.  Tók vitnið fram, þegar spurt var hversu vel það myndi eftir málsatvikum, að nú væru um þrjú ár liðin frá þeim.

Vitnið var spurt hversu vel þeim D hefði borið saman um talningu sína og svaraði það því til að „það munaði eitthvað einum tveimur þremur fiskum þarna fyrst, sem að ég held að hafi verið fyrir það að ég stóð of langt til hliðar.“

Eftir að þeir hefðu fylgzt með talningunni hefðu þeir D farið og talað við ákærða X og sagt honum af villutilkynningunum sem ekki hefði verið sinnt, og hefði hann sagt það koma sér á óvart.  Þá hefði ákærði lagt fyrir þá útprentað flokkunaryfirlit um vigtunina.  Vitnið sagði að ákærða X hefði ekki verið heimilt að skrá aðrar tölur á skýrslu sína en þær sem vigtin hefði sýnt.  Honum hefði ekki verið heimilt að nota þær tölur sem komið hefðu úr talningu eftirlitsmannanna. Þar hefðu aðeins verið taldir fiskarnir en ekki vigtaðir.

Vitnið kvaðst telja að ákærði X hefði verið inni í starfsaðstöðu sinni, en ekki á pallinum með eftirlitsmönnunum, meðan á vigtuninni hefði staðið.  Hefðu þeir eftirlitsmenn einbeitt sér að talningunni en ekki talað við ákærða X á meðan, svo vitnið myndi.

Vitnið sagði að daginn eftir hefði einnig verið endurvigtað.  Hefði þá annar starfsmaður staðið og fylgzt með þeim er raðaði á bandið.  Hefði hann farið og sókt 26 fiska sem ekki hefðu vigtazt, en reyndar hefði þá verið meiri afli úr fleiri bátum.

Vitnið sagði að þegar bifreiðin, sem flutti fiskinn norður, hefði verið opnuð hefði runnið úr henni vatn, enda bráðnaði ís á leiðinni.

Vitnið staðfesti skýrslu sína frá Fiskistofu.

Niðurstaða

Af hálfu ákærðu er krafizt sýknu af ákæru að öllu leyti.  Ekki er krafizt frávísunar og að áliti dómsins eru ekki efni til frávísunar málsins án kröfu.  Meðal annars með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 371/2010 þykir ekki ástæða til að vísa ákæru á hendur ákærða X frá dómi, þrátt fyrir að Neytendastofa hafi fengið málefni hans til meðferðar og áminnt hann.

Af hálfu ákærðu hefur verið byggt á því að ómakleg sjónarmið hafi búið að baki einstökum aðgerðum Fiskistofu í málinu og var sérstaklega nefnt að einn eftirlitsmanna Fiskistofu tengdist nafngreindum brottreknum starfsmanni ákærðs A300 ehf. fjölskylduböndum, en sá fyrrverandi starfsmaður hefði haft í hótunum við félagið.  Að mati dómsins er ekkert komið fram í málinu sem styður þetta og hefur þannig ekkert verið lagt fram um hótanir þessa starfsmanns, sem ekki var leiddur fyrir dóminn, og ekkert sem bendir til þess að umræddur starfsmaður Fiskistofu hafi á nokkurn hátt rekið hugsanleg erindi hans.  Var eftirlitsmaðurinn trúverðugur að mati dómsins og verður á engan hátt byggt á þessum ásökunum við úrlausn málsins.

Ákæruliður a.

Í a-lið ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa skráð rangar upplýsingar um nettóvigt afla skipanna Sjafnar EA-142 og Sæborgar ÞH-55 á endurvigtunarnótur  þannig að heilvigtaður afli án íss hafi verið skráður samtals 2.233 kg lægri en vigtun Fiskistofu á sama afla hafi verið á Ólafsvík dagana 14. og 18. marz 2008.

Raktar hafa verið töflur um landanir í Ólafsvík, úrtaksvigtun Fiskistofu þar sem hún fór fram og endurvigtun GPG á Húsavík.  Eins og áður hefur verið rakið, er rýrnun að jafnaði nokkuru minni við endurvigtun í þau skipti sem eftirlitsmenn voru viðstaddir en þegar þeir voru það ekki.  Á hinn bóginn voru þau skipti, þar sem þeir voru viðstaddir, mun færri en hin.  Ákæra varðar svo aðeins endurvigtun nokkurra tiltekinna daga, svo sem rakið hefur verið.

Ákært er vegna fjögurra landana, tveggja úr hvorum báti Sjöfn og Sæborgu.

Hinn 14. marz var landað úr Sjöfn EA-142.  Niðurstaða hafnarvogar var 9.076 kg en niðurstaða úrtaksvigtunar Fiskistofu var 7.984 kg. Samkvæmt endurvigtun GPG á aflanum vigtaðist aflinn 7.203 kg og nam rýrnun frá hafnarvog því 1.873 kg.  Rýrnun við endurvigtun ákærðu á Húsavík var því 20,64% frá hafnarvog en rýrnun úrtaksvigtunar Fiskistofumanna hafði verið 12,03% frá hafnarvog. Rýrnun frá vigtun Fiskistofu til endurvigtunar ákærðu var því 781 kg eða 9,78%.

Hinn 17. marz var landað úr Sjöfn.  Niðurstaða hafnarvogar var 2.946 kg en niðurstaða úrtaksvigtunar Fiskistofu 2.707 kg eða 8,11% íshlutfall.  Niðurstaða endurvigtunar ákærðu á Húsavík hinn 19. marz var 2.587 kg eða 12,19% íshlutfall.  Rýrnun frá vigtun Fiskistofu til endurvigtunar ákærðu var því 120 kg eða 4,43%.

Hinn 14. marz var landað úr Sæborgu ÞH-55.  Niðurstaða hafnarvogar var 7.014 kg en niðurstaða úrtaksvigtunar Fiskistofu var 6.637 kg.  Samkvæmt endurvigtun GPG á aflanum vigtaðist hann 5.613 kg og nam rýrnun því 1.401 kg frá hafnarvog.  Rýrnun við endurvigtun ákærðu á Húsavík var því 19,97% frá hafnarvog en rýrnun úrtaksvigtunar Fiskistofumanna 5,37% frá hafnarvog.  Rýrnun frá vigtun Fiskistofu til endurvigtunar ákærðu var því 1.024 kg eða 15,43%.

Hinn 18. marz var landað úr Sæborgu. Niðurstaða hafnarvogar var 1.738 kg en niðurstaða úrtaksvigtunar Fiskistofu var 1.745 kg.  Samkvæmt endurvigtun GPG á aflanum vigtaðist hann 1.427 kg og nam rýrnun miðað við endurvigtun því 311 kg frá hafnarvog.  Rýrnun við endurvigtun ákærðu á Húsavík var því 17,89% frá hafnarvog en rýrnun úrtaksvigtunar Fiskistofumanna -0,4% frá hafnarvog.  Rýrnun frá vigtun Fiskistofu til endurvigtunar ákærðu var því 318 kg eða 18,22%.

Vitnið K, sem var skipstjóri Sjafnar, staðfesti fyrir dómi það sem eftir honum var haft í lögregluskýrslu, að fjarstæða væri að á Sjöfn hefði verið mokað ís á fiskinn svo numið gæti tveimur tonnum, dagana 13. og 14. marz.  Kvaðst hann telja að þeir hefðu í mesta lagi 400 kg af ís eða svo, þessa daga.  Þá sagðist hann telja eðlilegt íshlutfall á báti, eins og hann hafi verið á, vera um fjögur til sex af hundraði. K var mjög trúverðugur að mati dómsins og þykir framburður hans styðja ákæru að því er þennan dag varðar og landanir úr Sjöfn.

Á hinn bóginn verður að hafa í huga að fleira en bráðnun íss veldur rýrnun frá hafnarvog, en óumdeilt er í málinu að fiskur rýrnar vegna vatnslosunar, „dripps“, og hefur þar áhrif bæði sá tími sem líður frá veiðum og flutningur aflans.

Vitnið J, sem var skipstjóri Sæborgar kvaðst hafa á umræddum tíma ísað í landi en ekki um borð.  Hefðu um 18 kg af ís farið á hvert kar.

Vitnið I kvaðst hafa tekið eftir er Sæborg og Sjöfn hefðu lagt upp í Ólafsvík og fundizt óvenjulega lítið vera ísað.

Vitnið B kvaðst hafa séð að sáralítill ís hefði verið settur í umrædda báta við landanir 15. og 17. marz.  Þá kvaðst vitnið telja, af sjómannsreynslu sinni að dæma, að 8-9% ís væri eðlilegt á dagróðrabáti en miðað við þann ís sem vitnið hefði séð hjá Sjöfn og Sæborgu væri 15% íshlutfall of hátt.

Eins og rakið hefur verið var niðurstaða hafnarvogar við löndun úr Sæborgu hinn 18. marz 1.738 kg en niðurstaða úrtaksvigtunar Fiskistofu sama dag 1.745 kg.  Dóminum þykir ljóst að alltjent önnur niðurstaðan sé röng.  Fyrir dómi voru færðar fram hugsanlegar skýringar sem snerust um að hafnarvog væri gróf vog, eldsneytisstaða bifreiðar gæti haft áhrif og svo framvegis.  Að mati dómsins er hugsanlegt að þessar skýringar nægi til að skýra þær tölur sem hér hefur verið lýst, en um það verður engu slegið föstu. Þykir slíkur vafi orðinn uppi um niðurstöðurnar að í refsimáli verði ekki byggt á niðurstöðu Fiskistofu í þessu tilviki og verða ákærðu ekki sakfelld fyrir endurvigtun þessa afla.

Dóminum þykir ljóst að einhver rýrnun verður á afla, bæði við að hann eldist og flutning hans.  Ekki er með öllu ljóst hversu hröð sú rýrnun er, þó að ljóst þyki að hún sé mest fyrsta sólarhringinn eftir að fiskur er veiddur.  Áður voru rakin drög að skýrslu um hráefnisrýrnun ísaðs afla sem og sú niðurstaða að séu eknir 550 km og hráefni sé tveggja daga gamalt sé rýrnunin um 2% en sé það fimm daga gamalt sé hún um 4%. Vitnið B sagði að íshlutfall gæti lækkað um eitt til tvö prósent vegna flutnings milli landshluta en nánar spurt kvaðst vitnið ekki geta útilokað að íshlutfall ykist um 4% þegar tveir dagar liðu frá heilvigtun Fiskistofu til heilvigtunar á Húsavík.

Eins og áður segir var hinn 17. marz landað úr Sjöfn.  Niðurstaða hafnarvogar var 2.946 kg en niðurstaða úrtaksvigtunar Fiskistofu hinn 18. marz 2.707 kg eða 8,11% íshlutfall. Niðurstaða endurvigtunar ákærðu á Húsavík hinn 19. marz var 2.587 kg eða 12,19% íshlutfall.  Rýrnun frá vigtun Fiskistofu til endurvigtunar ákærðu var því 120 kg eða 4,43%. Þegar á horft er á það sem rakið hefur verið um þá rýrnun, sem ætla megi að verði fyrstu dagana eftir veiði, og þá reglu að skýra skynsamlegan vafa ákærðum manni í hag, er það álit dómsins að ekki verði talið sannað í sakamáli þessu að hér hafi verið óeðlileg rýrnun frá vigtun Fiskistofu til endurvigtunar á Húsavík.

Í þeim tveimur vigtunum, sem hér hefur verið slegið föstu að ekki verði byggt á, munaði alls 438 kg á endurvigtunum á Húsavík og vigtun Fiskistofu.

Standa þá eftir í a-lið ákæru annars vegar endurvigtun á Húsavík hinn 16. marz, á afla Sæborgar sem landað var og úrtaksvigtaður af Fiskistofu hinn 14. marz, og hins vegar endurvigtun á Húsavík hinn 16. marz á afla Sjafnar, sem landað var og úrtaksvigtaður af Fiskistofu hinn 14. marz.

Samkvæmt endurvigtunarnótu B vegna afla úr Sjöfn, dags. 14. marz 2008, var vigtaður fiskur úr ellefu körum af tuttugu og tveimur. Nettóvigt karanna var frá 324 kg til 397 kg en meðalnettóvigt 363 kg.  Niðurstaða var, eins og áður er rakið, að alls væri aflinn, eftir framreiknun, 7.984 kg, en niðurstaða endurvigtunar á Húsavík 7.203 kg, svo rýrnun frá vigtun Fiskistofu var á tveimur dögum 781 kg eða 9,78%.

Samkvæmt endurvigtunarnótu B vegna afla úr Sæborgu, dags. 14. marz 2008, var vigtaður fiskur úr ellefu körum af átján.  Nettóvigt karanna var frá 334 kg til 428 en meðalnettóvigt 369 kg.  Niðurstaða var, eins og áður er rakið, að alls væri aflinn, eftir framreiknun, 6.637 kg, en niðurstaða endurvigtunar á Húsavík 5.613 kg, svo rýrnun frá vigtun Fiskistofu var á tveimur dögum 1.024 kg eða 15,43%.

Ákærðu byggja á því, að ekki sé til neins að bera saman úrtaksvigtun og heilvigtun.  Á þeim aðferðum sé sá grundvallarmunur sem orðin beri með sér, að við úrtaksvigtun sé ekki hver einasti fiskur veginn heldur aðeins sá sem sé í úrtakskörunum. Fallast verður á það með þeim, að úrtaksvigtun sé ekki sama sönnunargagn um heildarmagn fisks og heilvigtun væri.  Hitt telur dómurinn ljóst, að eðlilega framkvæmd úrtaksvigtun sé vísbending um heildarmagn fisks og því betri sem úrtak sé stærra.  Það úrtak sem notað var í þessum tilvikum var nægilega stórt til að uppfylla þau skilyrði sem sett voru í 3. gr. auglýsingar nr. 768/1998 og þykir það auka það mark sem taka beri á vigtuninni. Hugsanleg reglugerðarstoð auglýsingarinnar, á þeim tíma sem úrtaksvigtunin fór fram, þykir hér ekki skipta máli enda er niðurstaða úrtaksvigtunarinnar hér lögð fram sem sönnunargagn í sakamáli, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, en hér er ekki tekizt á um hvernig endurvigtunarheimilum aðila hefði verið heimilt að standa að úrtaksvigtun á þessum tíma.

Dómurinn telur að ekki verði horft framhjá niðurstöðum úrtaksvigtananna vegna þess hvernig að þeim hafi verið staðið eða vegna fyrri athugana Fiskistofu á hinu ákærða fyrirtæki.  Telur dómurinn að ekkert hafi verið fært fram að því leyti sem dragi úr trúverðugleika vigtunarinnar.

Þegar horft er á niðurstöður umræddra úrtaksvigtana og það sem rakið var áður úr framburði vitnanna B, I, J og K, er það niðurstaða dómsins að það íshlutfall, sem skráð var við endurvigtun á Húsavík í umrædd tvö skipti, hafi verið hærra en svo að það verði skýrt með ísun og eðlilegri vatnslosun og bráðnun.  Telur dómurinn óhjákvæmilegt að líta svo á að skráðar niðurstöður endurvigtunarinnar hafi verið rangar, þó að því verði ekki slegið föstu hve miklu þar hafi munað, umfram það sem telja má eðlilegt vegna vatnslosunar og þá varkárni sem fara verður í mati á niðurstöðum vigtunar sem fer fram með úrtaki.

Ekkert er komið fram um að ákærði A hafi tekið þátt í endurvigtun, gefið fyrirmæli um hvernig standa skyldi að henni eða skipt sér af henni á annan hátt. Þá sá hann til þess að um vigtunina sá löggiltur vigtarmaður, ákærði X.  Ekkert er komið fram í málinu að ákærði A hafi sýnt ásetning til þess rangt yrði vigtað eða röng niðurstaða send frá fyrirtækinu.  Þá hefur að mati dómsins ekki verið sýnt fram á gáleysi hans að því er þetta varðar.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn ber löggiltur vigtarmaður ábyrgð á vigtun sem hann vottar í samræmi við viðurkennda starfshætti þeirrar vigtunaraðferðar sem notuð er hverju sinni.  Í því felst að löggiltur vigtarmaður skal sjálfur vera viðstaddur vigtun, tryggja alla framkvæmd hennar og staðfesta hana með undirritun sinni á vigtarvottorð sem hann ber ábyrgð á í samræmi við lög og reglur settar samkvæmt þeim.  Samkvæmt þessu var á ábyrgð ákærða X að þær niðurstöður sem hann sendi frá sér væru byggðar á réttri mælingu.

Samkvæmt meginreglu íslenzks sakamálaréttarfars hvílir sönnunarbyrði um allt sem er ákærðum manni í óhag á ákæruvaldinu en ekki hinum ákærða.  Þegar horft er til þess sem síðar segir um ákærulið b, er það álit dómsins, að byggt verði á því, að það, sem talið er rangt í niðurstöðum endurvigtunar á vegum ákærðu, hafi farið svo vegna mistaka starfsmanna sem við hana unnu, en ekki vegna ásetnings, hvort sem væri ákærða A eða ákærða X. Verður ákærði A sýknaður með öllu af ákærulið a en ákærði X sakfelldur fyrir brot af gáleysi gegn 7. gr. laga nr. 57/1996 sbr. 1. mgr. 14. og 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 224/2006 og sbr. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 57/1996. Ekki verður talið að skráð hafi verið röng niðurstaða endurvigtunar til að blekkja í lögskiptum og verður sýknað af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þá verður ákærða A300 ehf. gerð sekt með heimild í 24. gr. laga nr. 57/1996.

Ákæruliður b)

Vitnin og eftirlitsmennirnir D og E báru um villutilkynningar sem ekki hefði verið sinnt.  Voru þeir báðir mjög trúverðugir fyrir dómi að mati dómsins.  Á hinn bóginn voru þeir einnig trúverðugir ákærði X, sem kvaðst engar villutilkynningar hafa séð, og vitnið H, sem kvað allar villutilkynningar umræddan dag hafa komið vegna íss.

Gengið var á vettvang.  Eftir það er það mat dómsins að unnt hafi verið af pallinum að fylgjast með villutilkynningum og einnig því hvort fiskur eða ís væri á bandinu og telja fiskana með teljara sem eftirlitsmaður hefði í hönd og ekki þyrfti að líta sérstaklega á við talninguna.  Að vísu bar ákærði X að fiskurinn hefði farið hraðar á umræddum tíma en hann gerði við vettvangsgönguna, en það breytir ekki þessu áliti dómsins, en hafa verður í huga að eftirlitsmennirnir kváðust fyrir dómi vera vanir slíku eftirliti.

Eins og rakið hefur verið standa hér orð eftirlitsmannanna gegn orðum þeirra H og ákærða X.  Þá þykir dóminum styðja framburð þeirra H og ákærða X að H vissi af eftirlitsmönnunum og ekki ólíklegt að það hafi fremur hvatt hann til sérstakrar vandvirkni.  Dómurinn telur allt að einu að hér skipti verulegu máli að telja verði sýnt fram á að daginn eftir hafi annar starfsmaður fylgzt með er vitnið H vann við bandið og hafi sá starfsmaður margsinnis farið og náð í fisk í kjölfar villutilkynningar.  Ef líta ætti svo á, að fyrri daginn hefðu engar villutilkynningar komið vegna fisks myndi gangurinn síðari daginn gefa til kynna að yfir nóttina hefði vitninu H farið töluvert aftur við röðun á bandið.  Þykir dóminum mun líklegra að í raun hafi daginn áður villutilkynningar komið vegna fisks og þeim hafi ekki verið sinnt. Dómurinn telur hins vegar að það hafi gerzt vegna mistaka en ekki ásetnings.  Þá verður álitið að ákærði X hafi einfaldlega ekki séð villutilkynningarnar.

Vigtunin fór fram á ábyrgð ákærða X, svo sem áður er rakið.  Verður hann vegna hennar sakfelldur fyrir sömu refsiheimildir og vegna ákæruliðar a, en sem fyrr er sýknað af broti gegn 1. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga.  Þá verður ákærðu A300 ehf. gerð sekt svo sem vegna ákæruliðar a.

Ekkert er komið fram um að ákærði X hafi haft nokkura sérstaka hagsmuni af brotinu.  Brotið þykir hafa verið unnið af gáleysi og ljóst þykir að ákærði X hafi, um leið og eftirlitsmenn færðu í tal við hann að villutilkynningum væri ekki sinnt, gripið til markvissra aðgerða til að hindra að slíkt yrði endurtekið, og í framhaldi af því hafi fyrirtækið, er hannaði vogina, verið fengið til að breyta henni svo að bandið stöðvaðist við hverja villutilkynningu.  Þykir framganga ákærða X, allt frá því eftirlitsmenn vöktu athygli hans á því að villutilkynningum hefði ekki verið sinnt, vera honum vel til tekna. Ákærði hefur hreint sakavottorð.  Þá hefur ekki verið sýnt fram á að brotin hafi snúið að miklum verðmætum, þegar horft er til umsvifa fyrirtækisins.  Þegar á allt framanritað er horft þykir mega ákveða að frestað skuli ákvörðun um refsingu ákærða X og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð.  Brotið þykir ekki gefa sérstaklega til kynna að ákærði X muni fremja brot í starfi sínu og ekki þykir brotið stórfellt.  Hafnar dómurinn kröfu um að ákærði verði sviptur rétti til að vera löggiltur vigtarmaður.  Ákærðu A300 ehf., en telja verður að brotið hafi orðið fyrirtækinu til hagsbóta, verður dæmt til greiðslu 1.000.000 króna sektar í ríkissjóð.  Sakarkostnaður greiðist að þremur fjórðu hlutum úr ríkissjóði en fjórðung skulu ákærði X og ákærða A300 ehf. greiða in solidum, þar á meðal fjórðung málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Þórðar Heimis Sveinssonar héraðsdómslögmanns, sem alls ákveðast 1.882.500 krónur og er virðisaukaskattur þar meðtalinn, og útlagðs kostnaðar verjandans, 79.110 króna.  Af hálfu ákæruvaldsins fór Eyjólfur Ármannsson aðstoðarsaksóknari með málið.

Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Ákærði A er sýkn af ákæru í máli þessu.

Ákvörðun um refsingu ákærða X er frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð.  Hafnað er kröfu um sviptingu réttinda hans til að vera löggiltur vigtarmaður.

Ákærða A300 ehf. greiði 1.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs.

Sakarkostnaður greiðist að þremur fjórðu hlutum úr ríkissjóði en fjórðung skulu ákærði X og ákærða A300 ehf. greiða í sameiningu, þar á meðal fjórðung málsvarnarlauna skipaðs verjanda þeirra, Þórðar Heimis Sveinssonar héraðsdómslögmanns, 1.882.500 króna, og fjórðung útlagðs kostnaðar verjandans, 79.110 króna.