Print

Mál nr. 203/2003

Lykilorð
  • Kærumál
  • Frestur
  • Stjórnarskrá

Miðvikudaginn 28

 

Miðvikudaginn 28. maí 2003.

Nr. 203/2003.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari))

gegn

C

B

A

D

E

F og

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Frestun. Stjórnarskrá.

X kærði ákvörðun héraðsdóms um að aðalmeðferð í máli ákæruvalds á hendur honum og fleirum yrði í september 2003. Fyrir lá að X hafði verið samfellt sviptur frelsi vegna málsins frá því snemma árs 2002. Samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 skal hraða meðferð opinbers máls eftir föngum, sbr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, og í 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar er boðið að maður skuli aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur. Þótt ljóst væri að það gæti verið vandkvæðum háð að koma aðalmeðferð við með skömmum fyrirvara í viðamiklu sakamáli, þar sem margir væru bornir sökum, gætu starfsannir eins verjanda af mörgum ekki réttlætt að sakborningur, sem sætti frelsissviptingu vegna málsins, fengi ekki notið réttar síns til að því yrði lokið innan hæfilegs tíma, svo sem hér myndi verða með þriggja mánaða töf á fyrirhugaðri aðalmeðferð. Var því óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar ekki síðar en 25. júní 2003.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Varnaraðilinn X skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2003, þar sem ákveðið var að aðalmeðferð á máli ákæruvaldsins á hendur varnaraðilum yrði dagana 2. til 4. september 2003. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar innan hæfilegs tíma.

Af hálfu ákæruvalds eru ekki gerðar kröfur í þessum þætti málsins fyrir Hæstarétti.

Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur varnaraðilum öllum 12. maí 2003, þar sem þeim voru gefin að sök nánar tiltekin fíkniefnabrot og peningaþvætti á tímabilinu frá september 2001 til janúar 2002. Þá gaf ríkissaksóknari jafnframt út ákæru á hendur varnaraðilanum E 13. maí 2003 fyrir kynferðisbrot. Áður hafði ríkissaksóknari gefið út ákæru fyrir fíkniefnabrot á hendur varnaraðilunum X 26. janúar 2000, svo og tvær aðrar fyrir sams konar brot, þá fyrri 25. janúar 2000, sem beindist að varnaraðilunum X og B og þá síðari 27. sama mánaðar, þar sem tveir nafngreindir menn voru ákærðir ásamt varnaraðilanum X. Ekki hafði reynst unnt að ljúka málum samkvæmt þessum ákærum frá janúar 2000 að því er varnaraðilann X varðar, þar sem hann mun hafa horfið af landi brott áður en tókst að birta þær honum. Varnaraðilinn X er þýskur ríkisborgari og mun frá þeim tíma hafa verið búsettur í Þýskalandi þar til hann var handtekinn í Hollandi snemma árs 2002, en þaðan var hann framseldur eftir samfellda frelsissviptingu til Íslands 3. janúar 2003. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi frá þeim tíma.

Framangreind mál voru tekin fyrir á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2003 og þau sameinuð. Samkvæmt bréfi, sem fylgdi kærumálsgögnum til Hæstaréttar frá héraðsdómaranum, sem fer með málið, hafði fyrir þingfestingu þess verið haft samráð við saksóknara og verjanda varnaraðilans X um að stefna að aðalmeðferð þess dagana 2., 4. og 5. júní 2003. Aðrir verjendur varnaraðila hafi lýst sig samþykka þessu að frátöldum verjanda varnaraðilans C, sem hafi ekki talið sér fært að koma til aðalmeðferðar málsins fyrr en eftir 20. júní nk. Eftir að hafa reynt árangurslaust að ná samkomulagi um aðra dagsetningu aðalmeðferðar hafi héraðsdómari tekið hina kærðu ákvörðun um að aðalmeðferðin færi fram dagana 2., 3. og 4. september 2003.

Varnaraðilinn X hefur sem fyrr segir verið samfellt sviptur frelsi vegna þessa máls frá því snemma árs 2002, en hann sætir nú gæsluvarðhaldi, sem er markaður tími til 25. júní nk. Samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 skal hraða meðferð opinbers máls eftir föngum, sbr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem henni var breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Í 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, er boðið að maður skuli aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur. Þótt ljóst sé að háð geti verið vandkvæðum að koma við með skömmum fyrirvara aðalmeðferð í viðamiklu sakamáli, þar sem margir eru bornir sökum, geta starfsannir eins verjanda af mörgum ekki réttlætt að sakborningur, sem sætir frelsissviptingu vegna málsins, fái ekki notið réttar síns til að því verði lokið innan hæfilegs tíma, svo sem hér myndi verða með þriggja mánaða töf á fyrirhugaðri aðalmeðferð. Er því óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar ekki síðar en 25. júní 2003.

Dómsorð:

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar ekki síðar en 25. júní 2003.