Print

Mál nr. 711/2015

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
Andra Þór Guðmundssyni (Bjarni Hauksson hrl.)
Lykilorð
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Reynslulausn
  • Ökuréttarsvipting
  • Ítrekun
  • Dómstóll
  • Dómari
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað
Reifun

Með dómi héraðsdóms var A sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var refsing hans ákveðin 4 mánaða fangelsi auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt. Í málinu krafðist A aðallega ómerkingar héraðsdóms, en til vara að refsing yrði milduð. Reisti hann ómerkingarkröfuna á því að sú tilhögun á skipan dómsvalds í héraði, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, að heimila aðstoðarmönnum dómara meðferð og úrlausn sakamála sem dæmd væru á grundvelli 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála samrýmdist hvorki fyrirmælum 2. gr., V. kafla og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár né 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af ákvæðum 16. og 17. gr. laga nr. 15/1998 væri ljóst að ráðning og störf aðstoðarmanns dómara, þar með talin þau takmörkuðu dómstörf sem honum mætti fela, væru með öllu á ábyrgð og forræði dómstjóra héraðsdómstóls. Gætu handhafar framkvæmdarvalds hvorki skipt sér af störfum aðstoðarmanns né ráðið neinu um það ráðningarsamband sem þar lægi til grundvallar. Var ómerkingarkröfu A því hafnað. Við ákvörðun refsingar var talið að A hefði með broti sínu rofið skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt til tveggja ára á eftirstöðvum fangelsisrefsingar 675 dögum. Var reynslulausnin því tekin upp og refsing A ákveðin fangelsi í 26 mánuði auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. október 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms, en til vara að refsing verði milduð.

I

Ómerkingarkrafa ákærða er á því reist að sú tilhögun á skipan dómsvalds í héraði, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, að heimila aðstoðarmönnum dómara meðferð og úrlausn sakamála sem dæmd séu á grundvelli 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála samrýmist hvorki fyrirmælum 2. gr., V. kafla og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár né 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Í stjórnarskrá sé byggt á þrígreiningu ríkisvalds og fari dómarar með dómsvaldið, sbr. 2. gr. hennar. Jafnframt sé áskilið að dómarar séu óháðir öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Miði þrígreiningin jafnframt að því að tryggja sjálfstæði hvers þáttar ríkisvalds og afstýra því að þeir komi að verkefnum sem hinum tilheyra.

Samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga nr. 15/1998 hefur dómstjóri meðal annars með höndum stjórn héraðsdómstóls, ber ábyrgð á starfsemi hans og skiptir verkum milli dómara. Hann ræður jafnframt aðra starfsmenn dómstóls en héraðsdómara og slítur ráðningu þeirra. Þá fer dómstjóri á eigin ábyrgð með fé það sem dómstólaráð leggur dómstólnum til, hann kemur að öðru leyti fram út á við í þágu dómstólsins og er í fyrirsvari um sérstök málefni hans. Í 1. mgr. 17. gr. laganna segir að til aðstoðar dómurum megi ráða lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2. til 6. töluliðar 2. mgr. 12. gr. Skuli þeir ráðnir til fimm ára og sé heimilt að endurnýja þá ráðningu einu sinni, en að öðru leyti gildi um þá almennar reglur um starfsmenn ríkisins. Það er dómstjóri, sbr. 5. mgr. 16. gr. laganna, sem fer að öllu leyti með vald vinnuveitanda í slíku ráðningarsambandi og tekur einn af hálfu ríkisins ákvörðun um stofnun þess og slit. Í 2. mgr. 17. gr. er síðan mælt fyrir um fyrrnefnda heimild dómstjóra til að fela aðstoðarmanni önnur dómstörf en þau að fara með og leysa að efni til úr hvers konar einkamálum, þar sem vörnum er haldið uppi, og sakamálum frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Dómstjórinn ber ábyrgð á þessum störfum aðstoðarmanns og getur gefið honum fyrirmæli um hvað eina sem lýtur að rækslu þeirra.

Af framangreindum ákvæðum 16. og 17. gr. laga nr. 15/1998 er ljóst að ráðning og störf aðstoðarmanns dómara, þar með talin þau takmörkuðu dómstörf sem honum má fela samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laganna, eru með öllu á ábyrgð og forræði dómstjóra héraðsdómstóls. Geta handhafar framkvæmdarvalds hvorki skipt sér af störfum aðstoðarmanns né ráðið neinu um það ráðningarsamband sem þar liggur til grundvallar. Að þessu gættu brýtur þessi skipan hvorki í bága við ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrígreiningu ríkisvaldsins né fyrirmæli V. kafla hennar um skipan dómsvalds. Þá uppfyllir hún kröfur 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Með vísan til þessa er ómerkingarkröfu ákærða hafnað.

II

Staðfest verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og heimfærslu háttsemi hans til refsiákvæða.

Ákærði framdi brot sitt 16. október 2014. Samkvæmt sakavottorði hefur hann frá árinu 2003 til 7. apríl 2009 alls hlotið 10 sinnum refsingar vegna fjölmargra brota á umferðarlögum nr. 50/1987, þar af fimm sinnum fyrir brot gegn 45. gr., eða á hverju ári, að undanskildum árunum 2007 og 2008. Hefur ákærði með broti sínu nú rofið skilorð reynslulausnar sem honum var veitt til tveggja ára frá 30. ágúst 2014 á eftirstöðvum fangelsisrefsingar 675 dögum. Eru þær komnar til vegna dóms Hæstaréttar 20. desember 2007 í máli nr. 175/2007, þar sem ákærði var dæmdur í 15 mánaða fangelsi vegna fíkniefnalagabrots, og tveggja dóma Héraðsdóms Reykjaness, annars vegar 6. febrúar 2008 þar sem honum var gert að sæta fangelsi í sex mánuði, einkum fyrir að aka margsinnis bifreið sviptur ökurétti, en hins vegar frá 7. apríl 2009 þar sem honum var gert að sæta fangelsi í tvö ár vegna fíkniefnalagabrots, brots gegn 1. mgr. 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ýmissa umferðarlagabrota þar á meðal tveggja brota gegn 45. gr. laganna. Eru engin efni til annars en að taka reynslulausn ákærða upp og ákveða refsingu með hliðsjón af hinni óloknu refsivist samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sbr. 60. gr. og 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði dæmdur til fangelsisvistar í 26 mánuði.

Ákærði var fyrst sviptur ökurétti ævilangt 10. október 2004 og hefur sú svipting verið ítrekuð í dómum tvisvar síðan þá, fyrst 13. febrúar 2006 og þá 7. apríl 2009. Með ákvörðun lögreglustjóra 24. júlí 2014 var ákærða endurveittur ökuréttur. Á hinn bóginn raskar slík veiting ekki réttaráhrifum eldri dóma um ítrekunaráhrif. Samkvæmt því og að virtum ákvæðum 1. mgr. 102. gr. og 1. og 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga verður niðurstaða héraðsdóms um ökuréttarsviptingu ákærða staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Andri Þór Guðmundsson, sæti fangelsi í 26 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu ákærða og sakarkostnað skulu óröskuð.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 515.733 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 18. ágúst 2015, á hendur Andra Þór Guðmundssyni, kennitala [...], Leirubakka 6, Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 16. október 2014, ekið bifreiðinni [...] óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 20 ng/ml og metamfetamín 45 ng/ml) suður Vesturlandsveg, við Hótel Hamar í Borgarbyggð, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt.  Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í september 1983.  Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 12. ágúst 2015, hefur ákærði nú í sjötta sinn, eftir að hann varð fullra 18 ára og innan ítrekunartíma, sbr. 1. og 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verið fundinn sekur um að aka undir áhrifum áfengis eða óhæfur til að stjórna bifreið örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 7. apríl 2009, var ákærða gert að sæta fangelsi í tvö ár.  Hinn 30. ágúst 2014 var ákærða veitt reynslulausn á eftirstöðvum fangelsisrefsingarinnar, 675 dögum, í tvö ár. Með því broti sem ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar frá 30. ágúst 2014, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga.  Refsing sú sem ákærði hefur nú unnið til fer fram úr sektum.  Hins vegar þykir rétt að láta skilorð reynslulausnarinnar frá 30. ágúst 2014 halda sér.  Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti ævilangt, frá uppkvaðningu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 96.720 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 94.193 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Halldór Rósmundur Guðjónsson fulltrúi.

Valborg Steingrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Andri Þór Guðmundsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt, frá uppkvaðningu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 96.720 krónur og 94.193 krónur í annan sakarkostnað.