Print

Mál nr. 252/1998

Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Lyfjaverð
  • Þagnarskylda
  • Hlutdeild

Prentsm

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999.

Nr. 252/1998.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Ingólfi Erni Margeirssyni

(Gestur Jónsson hrl.)

Stjórnarskrá. Tjáningarfrelsi. Friðhelgi einkalífs. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Læknalög. Þagnarskylda. Hlutdeild.

I var ákærður fyrir hlutdeild í broti gegn 230. gr. alm. hgl. með því að hafa í samvinnu við lækninn E skráð og birt frásögn E af einkamálefnum fyrrum sjúklings hans. I var sakfelldur og dæmdur til greiðslu sektar, enda var talið, m.a. með vísan til þeirra hagsmuna sem í húfi voru, að sakfellingin væri samrýmanleg ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegra mannrétttindasáttmála um tjáningarfrelsi. Þá var talið að almennar reglur um hlutdeild ættu við um brot gegn 230. gr. alm. hgl.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því sem ákveðið var í héraðsdómi.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður.

I.

Eins og lýst er í héraðsdómi var Esra Seraja Pétursson með ákæru 12. mars 1998 sóttur til saka fyrir að hafa skýrt frá sjúkdómum, sjúkrasögu og öðrum einkamálum fyrrum sjúklings síns, Á heitinnar, sem hann komst að sem læknir, og látið birta opinberlega í bókinni „Sálumessa syndara - Ævi og eftirþankar Esra S. Péturssonar geðlæknis og sálkönnuðar“, sem gefin var út í Reykjavík í októbermánuði 1997 af útgáfufélaginu Hrísey ehf. Í sömu ákæru var ákærða, sem skráði æviminningar Esra S. Péturssonar, gefið að sök að hafa, í samvinnu við Esra, birt frásögn hans af einkamálefnum fyrrum sjúklings hans í bókinni, en ákærði var aðalmaður í stjórn og framkvæmdastjóri útgáfufélagsins Hríseyjar ehf. Var atferli ákærða talið varða við 230. gr., sbr. 22. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 13. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956.

Samkvæmt a. lið 2. tl. 242. gr. laga nr. 19/1940 sætir brot gegn ákvæðum 230. gr. opinberri ákæru eftir kröfu þess manns, sem misgert var við. Á andaðist 5. apríl 1996. Hún lét eftir sig tvo syni og fer I með forsjá þeirra. Grundvallast málsóknin á því, að I gerði refsikröfu fyrir hönd eldri sonar Á heitinnar, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1940.

Með dómi héraðsdóms var Esra S. Pétursson sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 7. mgr. 15. gr. og 30. gr. læknalaga nr. 53/1988 og 230. gr. laga nr. 19/1940 og dæmdur til að greiða 350.000 krónur í sekt í ríkissjóð. Esra unir niðurstöðu héraðsdóms og ákæruvaldið áfrýjaði ekki hvað hann varðar. Hér fyrir dómi reynir því á hlutdeild ákærða í broti Esra gegn 230. gr. laga nr. 19/1940, án þess að þáttur Esra komi sjálfstætt til skoðunar. Leiðir það eitt út af fyrir sig ekki til frávísunar málsins, enda er í ljós leitt, að Esra var í héraðsdómi réttilega sakfelldur fyrir brot gegn áðurnefndum ákvæðum læknalaga og 230. gr. laga nr. 19/1940.

II.

Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist, að málinu verði vísað frá dómi. Telur hann ákæruna svo óljósa og almenna, að engin leið sé að verjast henni. Textinn, sem honum sé gefið að sök að hafa skrásett og birt, sé að mestu samfelld frásögn og sé engin leið að líta svo á að allt, sem þar kemur fram, hafi Esra S. Pétursson fengið vitneskju um sem læknir og sé þar af leiðandi háð trúnaði samkvæmt reglum læknalaga eða 230. gr. laga nr. 19/1940.

Ummæli þau, sem ákæran lýtur að, er að finna í 49. og 50. kafla bókarinnar. Í upphafi 49. kafla hefur Esra S. Pétursson þann formála að kynnum sínum við Á, að hún hafi verið send í meðferð til sín skömmu eftir að hann flutti til Íslands árið 1975. Síðan rekur hann sjúkrasögu Á heitinnar og meðferð sína á sjúkdómi hennar, en hún var sjúklingur hans í 10 ár og kom í viðtöl til hans að jafnaði þrisvar í viku hverri. Í lokamálsgrein þeirra ummæla, sem ákæran lýtur að, kemur fram, að þegar þar var komið sögu var Á heitin enn sjúklingur hans en meðferð hennar í þann veginn að ljúka. Við lestur framangreindra kafla er þannig ljóst, að læknirinn er að lýsa í samfelldu máli sjúkrasögu sjúklings og læknismeðferð sinni. Þar kemur og fram lýsing af einkalífi sjúklingsins, sem frá honum er komin, en einu má gilda hvort hún hafi verið tekin upp úr sjúkraskrám eða ekki. Fer ekki milli mála hver sú háttsemi er, sem ákært er fyrir. Er frávísunarkrafa ákærða ekki tekin til greina.

III.

Af hálfu ákærða er byggt á því, að í 230. gr. laga nr. 19/1940 séu taldir með tæmandi hætti þeir, sem geti skapað sér refsiábyrgð með því að aðstoða aðalmann í broti gegn ákvæðum greinarinnar, og verði almennum hlutdeildarreglum samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940 ekki beitt. Ekki verður á þetta fallist. Ákvæði 230. gr. geymir lýsingu á aðalmönnum brots, en fjallar ekki um hlutdeild eða hlutdeildarmenn. Gilda hér almennar reglur um hlutdeild. Getur því háttsemi ákærða réttilega varðað við þau refsiákvæði, sem getið er í ákæru.

IV.

Af hálfu ákærða er því haldið fram, að réttur hans til skráningar og birtingar ævisögunnar, þar á meðal ummælanna sem ákæra lýtur að, sé varinn af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 11. gr stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Einnig sé réttur hans til tjáningarfrelsis varinn af 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Þrátt fyrir það að tjáningarfrelsi hafi löngum verið talið til mikilvægustu mannréttinda, hefur því engu að síður verið játað að því megi setja vissar skorður. Er það gert með stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem heimilað er að setja tjáningarfrelsi skorður „með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum“. Fallast verður á að ákvæði 230. gr. laga nr. 19/1940 fullnægi þessum skilyrðum að því leyti að takmarkanir, sem þar eru gerðar á tjáningarfrelsi, eru settar með lögum vegna réttinda og eftir atvikum mannorðs annarra. Reynir því á hvort skorður, sem ákvæðið myndi setja við tjáningarfrelsi ákærða með sakfellingu hans, séu nauðsynlegar og samrýmanlegar lýðræðishefðum.

Í máli þessu reynir á mörkin milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs, sem nýtur verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Hugtakið friðhelgi einkalífs hefur verið skýrt á þann veg, að í því felist fyrst og fremst réttur til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi, og er litið svo á, að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar. Einkalíf manna nýtur einnig verndar samkvæmt ákvæðum 8. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994, og 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979. Samkvæmt 1. mgr., sbr. 7. mgr. 15. gr. læknalaga ber lækni að gæta fyllstu þagmælsku og hindra það, að óviðkomandi fái upplýsingar um sjúkdóma og önnur einkamál, er hann kann að komast að sem læknir. Rík trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á starfsmönnum heilbrigðisþjónustu, bæði vegna almennra mannréttindasjónarmiða og í þeim tilgangi meðal annars að samband lækna og sjúklinga geti verið náið og heilsuvernd og lækningar skilað sem mestum árangri. Vernd persónuupplýsinga, og þá ekki síst heilsufarslegra, er nauðsynleg til þess að menn fái notið þeirra réttinda, sem varin eru með ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Eins og að framan greinir er heimilt að setja tjáningarfrelsi skorður samkvæmt 3. mgr. 73. gr stjórnarskrárinnar. Í máli því, sem hér um ræðir, braut læknir trúnað sjúklings síns með því að birta einkamálefni sjúklingsins, sem hann komst að í starfi sínu, og vanvirða minningu hans. Við ákvörðun á mörkum tjáningarfrelsis hefur í dómaframkvæmd hin síðari ár verið litið mjög til þess að vegna lýðræðishefða verði að tryggja að fram getið farið þjóðfélagsleg umræða. Gildir þetta meðal annars við úrlausn um mörk tjáningarfrelsis rithöfunda og blaðamanna, sem ákærði hefur skírskotað til í málatilbúnaði sínum. Í málinu eru ekki í húfi neinir slíkir hagsmunir, sem réttlætt geti að gengið sé svo harkalega á friðhelgi einkalífs eins og hér var gert með því að birta ummæli þau, sem ákært er fyrir. Sakfelling ákærða fyrir brot gegn ákvæði 230. gr. laga nr. 19/1940 er því samrýmanleg heimild 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, svo og ákvæði 2. mgr. 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994, sem er af sama toga og nefnt ákvæði stjórnarskrárinnar. Ákærða stoðar ekki að halda því fram að nafngreindir læknar hafi ekki verið ákærðir fyrir háttsemi, sem hann telur samsvarandi, enda réttlætir það ekki verknað hans. Ber með þessum athugasemdum að staðfesta sakfellingu héraðsdóms á ákærða með vísan til forsendna hans.

V.

Í héraðsdómi var það virt ákærða til þyngingar refsingar, að hann hefði gert sér grein fyrir því, að brot hans gæti raskað tilfinningum barna Á heitinnar. Þykir það ekki eiga að öllu leyti við, þar sem í ljós er leitt, að ákærði reyndi að taka tillit til barnanna með því að umskrifa einn kafla bókarinnar. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess, að brot ákærða var framið í atvinnustarfsemi hans, þótt ágóði yrði enginn að hans sögn. Rétt þykir að ákveða ákærða sömu refsingu og Esra S. Pétursson hlaut í héraðsdómi og dæma hann til að greiða 350.000 króna sekt í ríkissjóð, og komi 50 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu.

Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað ákærða.

Dæma ber ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Ingólfur Örn Margeirsson, greiði 350.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 50 daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað ákærða er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 150.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 1998

Ár 1998, föstudaginn 8. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, og meðdómsmönnunum Auði Þorbergsdóttur og Steingrími Gauti Kristjánssyni, héraðsdómurum, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 300/1998: Ákæruvaldið gegn Esra Seraja Péturssyni og Ingólfi Erni Margeirssyni, sem tekið var til dóms 24. apríl sl.

Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 12. mars sl., á hendur ákærðu, Esra Seraja Péturssyni, kt. 110918-461, Stigahlíð 46, Reykjavík, og Ingólfi Erni Margeirssyni, kt. 040548-335, Ránargötu 22, Reykjavík. Ákærða Esra Seraja fyrir brot gegn friðhelgi einkalífs og þagnarskyldu lækna og ákærða Ingólfi Erni fyrir brot gegn friðhelgi einkalífs.

I.

1. Ákærða, Esra Seraja Péturssyni, er gefið að sök að hafa skýrt frá sjúkdómum, sjúkrasögu og öðrum einkamálum fyrrum sjúklings síns, Á heitinnar, sem hann komst að sem læknir og látið birta opinberlega í bókinni „Sálumessa syndara“ – Ævi og eftirþankar Esra S. Péturssonar geðlæknis og sálkönnuðar, sem gefin var út í Reykjavík í októbermánuði 1997 af útgáfufélaginu Hrísey ehf.

2. Ákærða, Ingólfi Erni Margeirssyni, sem skráði framangreindar æviminningar meðákærða, er gefið að sök að hafa, í samvinnu við meðákærða, birt frásögn meðákærða af einkamálefnum fyrrum sjúklings hans í bókinni „Sálumessa syndara“, sem gefin var út á vegum útgáfufélagsins Hríseyjar ehf., þar sem ákærði er einn aðalmaður í stjórn og framkvæmdastjóri.

II.

Ummælin í frásögninni, sem ákæran lýtur að, er að finna í 49. og 50. kafla bókarinnar, á bls. 213 til 219, og fara þau hér á eftir:

1.Úr 49. kafla bókarinnar, „Ofsóknarárátta Á“:

„Allir höfðu gefist upp á Á. Hún hafði gengið til margra geðlækna, verið lögð inn á Klepp og farið í meðferð í Skotlandi. En allt kom fyrir ekki; það gat enginn tjónkað við hana og ekki var unnt að veita henni bót á neinn hátt.....

.....Á var mikill fíkill; blandaði saman víni og róandi lyfjum. Hún var sífellt með hita, sem sennilega stafaði af ofneyslu lyfjanna.

Á var mjög reiðigjörn. Í fyrstu var hún mjög reið út í mig og í mikilli vörn. Hún var þegjandaleg; datt hvorki af henni né draup.....

Á hafði verið gift ungum listmálara en hjónabandið hafði leyst upp. Faðir Á var drykkfelldur og hafði verið illa þokkaður í föðurhúsum móður hennar. Hjónaband foreldra hennar hafði verið skammvinnt og átakamikið og endaði með skilnaði þegar Á var þriggja ára. Reiði móðurinnar var mikil út í föðurinn og hún bannaði honum að hafa samband við dótturina.

Á varð snemma villingur; hljóp upp á þök og var stundum hætt komin, ögraði fólki og var upp á kant við umhverfi sitt. Hún var ofdekruð af afa sínum og alin upp af móður og ömmu sem létu flest undan stelpunni.

Samvinna okkar Á var brösótt í byrjun en fór skánandi. Ég notaði þá aðferð að gera samantekt á þriggja mánaða fresti; um hvað samræðurnar höfðu snúist, hver vinnan hefði verið og árangur af henni; hvað væri orsök og afleiðing: persónurnar í fjölskyldumynstrinu og áhrif þeirra á mótun hennar og sálarlíf. Á var afskaplega mótfallin öllum slíkum greiningum og óttaðist þær.....

Á var haldin þessum dæmigerðu ranghugmyndum um geðlækna; að þeir væru andlega fullkomnir. Hún var ennfremur haldin ofsóknaráráttu og hataðist við sína nánustu. Hún hafði enga trú á þeim lækningum sem höfðu verið viðhafðar til að hjálpa henni úr einangruðum heimi. Hún fjargviðraðist út í spítalaveruna á Kleppi og erlendis; taldi þá vist vera svik af hendi móðurinnar og annarra ættingja.

Hún hafði upplifað æskuna sem svik; foreldrarnir voru stöðugt að koma og fara en amman og afinn voru þó til staðar og reyndar fjöldi annarra. En það kemur enginn í stað móður og Á var glöggt dæmi um afleiðingu móðurfjarveru. Henni fannst foreldrarnir óábyggilegir og svikulir og að sínir nánustu hefðu hafnað sér.

Þessi höfnun sat í henni.

Hún var læst í ringulreið og upplausn; fann ekki haldreipi í lífinu. Samband þeirra mæðgna hafði versnað með aldrinum; gagnkvæm rifrildi og hótanir um sjálfsmorð.

Á þjáðist einnig af lystarstoli - anorexiu nervosa - sem ég kalla sveltisýki; lífshættulegur sjúkdómur. Hún var grindhoruð en minnkaði ekki drykkjuna fyrir því. Hún þjáðist af paranoju – ofsóknaráráttu sem gerði það meðal annars að verkum að hún gat drukkið flesta undir borðið....... Á var haldin ofsóknarhugmyndum og við unnum sleitulaust við að draga úr ofsóknaráráttu hennar í hálft annað ár. Áráttan beindist aðallega gegn þeim sem voru henni kærastir. Þegar fram í sótti hataðist hún æ minna við fólkið sitt.

Þegar Á fékk sveltisýkiköstin hætti hún að hafa á klæðum. Þetta ástand gat varað allt upp í eitt ár. Ég átti í erfiðleikum með að aðstoða hana við lystarstolið. Hún var mjög dyntótt í mataræði; vildi helst kjúklinga og borðaði lítið annað.

Það sem gerði lækninguna erfiða og flókna var að hún var blanda af lyfjafíkli og taugasjúklingi. Hún þoldi illa breytingar; ef ég ætlaði að minnka við hana lyfjaskammtana varð ég að taka af henni eina pillu í einu. Ég lét hana halda dagbók um sjálfa sig þar sem henni var meðal annars uppálagt að tilgreina lyfjanotkunina. Á þremur, fjórum árum tókst mér að venja hana af lyfjunum að mestu, en þó ekki alveg. Hún át minna af pillum og drakk minna af víni. Þar með gerðist hún heilbrigðari – en árangurinn kom afar hægt; lúsaðist áfram. Þetta var sálkönnun með snigilshraða.....

Á kom þrisvar í viku og ég lækkaði gjaldið verulega fyrir hana til að gera henni kleift að halda áfram. Ég bauð henni einnig að taka þátt í hópmeðferðum en hún þoldi fólkið illa og hætti fljótlega. Einkatímarnir héldu þó áfram.

Smám saman fór ástand Á að lagast. Lystarstolsköstin urðu minni, hún fór að fá meira hold á sig þótt hún væri enn grönn, tíðirnar komu aftur og jafnvægi hennar varð betra.....

Á hélt áfram að ganga til mín. Hvort sem það var hinu nýja móðurhlutverki eða samtalstímum okkar að þakka, þá efldist hún stöðugt og varð æ heilbrigðari. Viðtalstímarnir voru orðnir mjög stopulir og nánast aflagðir. Það var komið að því að útskrifa hana.....“

2.Úr 50. kafla bókarinnar, „Faðir um sjötugt“:

„Í samtölum okkar hafði fljótlega borið töluvert á neikvæðri gagnúð Á gagnvart mér. Afstöðutengsl hennar við mig voru líkt og verið höfðu við vandamenn hennar í æsku. Síðan tók gagnúðin að breytast í hrifningu á mér; hún taldi að ég gæti hjálpað henni gífurlega. Það var einnig álit móður hennar og ýmissa í fjölskyldunni. Ég var því töluvert stallsettur um tíma. Það tók mig dágóðan tíma að vinna á gagnúð hennar; fá hana til að skilja að tengsl okkar væru ekki eins og ég væri einn af fjölskyldu hennar úr æsku, heldur væri ég læknir og hún sjúklingur læknisins.....

Á fór að fá kynferðislega gagnúð á mér; hún yfirfærði kynferðislegar hugmyndir og hugaróra yfir á mig.....

Ég reyndi að sýna Á fram á fáránleika kynferðislegrar gagnúðar í þessu tilviki. Ég væri þrjátíu árum eldri en hún. Það væri út í hött að vera skotinn í mér, aldursmunurinn væri allt of mikill.

„Ég elska þig ekki vegna gagnúðar, heldur sem mann,“ svaraði Á.

Í tæpan áratug reyndi ég að draga úr kynlífsáhuga hennar á mér með skírskotun til aldursmunar okkar. Það beit ekki á hana. Hún varð æ heilbrigðari og ég fór að hlusta á orð hennar undir öðrum formerkjum.....

Á situr í stólnum skáhallt gegn mér. Hún brosir tvírætt og segist hafa átt samfarir við mig í draumi. Hún tekur að lýsa draumnum; í smáatriðum dregur hún upp ástaleik okkar. Hún er komin að því að útskrifast úr sálkönnun; hraustleg með nýjan bjarma í augum. Hún lítur glettnislega á mig meðan hún heldur frásögninni rólega áfram...........“

III.

Framangreint atferli ákærða, Esra Seraja Péturssonar, telst varða við 1. mgr. sbr. 7. mgr. 15. gr., sbr. 2. mgr. 30. gr. læknalaga nr. 53, 1988 og 230. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Framangreint atferli Ingólfs Arnar Margeirssonar telst varða við 230. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 13. gr. laga um prentrétt nr. 57, 1956.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“

Af hálfu ákærðu hefur því verið hreyft að ákæran sé svo óljós og víðtæk að ekki sé unnt að gera sér fulla grein fyrir því hvað ákærðu sé gefið að sök eða verjast henni. Sé því rétt að vísa henni frá dómi. Á þetta verður ekki fallist. Telur dómurinn ákæruna vera skýra og ekki geti farið á milli mála hvað ákærðu sé gefið þar að sök.

Málavextir.

Í október í haust kom út í Reykjavík hjá forlaginu Hrísey ehf. bókin Sálumessa syndara með æviminningum ákærða Esra Seraja. Í bókinni, sem skiptist í 58 kafla, er sagt á hispurslausan hátt frá lífi og starfi Esra Seraja hérlendis og vestan hafs og skráði ákærði, Ingólfur Örn, frásögnina að mestu leyti eftir frásögn meðákærða en einnig að nökkru leyti eftir rituðum heimildum. Er ákærði, Ingólfur Örn, tilgreindur sem höfundur á kápu og titilsíðu bókarinnar en ákærðu báðir sagðir eigendur höfundarréttar að henni. Gerðu ákærðu með sér skriflega útgáfusamninga 28. maí 1997 þar sem m.a. er kveðið á um höfundarlaun til ákærða, Esra Seraja. Í bókinni er að finna efni það sem ákært er út af og segir ákærði Esra Seraja þá frásögn vera gerða eftir minni og efnislega rétta. Ákærði hlaut almennt lækningaleyfi hér á landi 17. febrúar 1948 en hann hefur starfað að sérgrein sinni, geðlækningum, um áratuga skeið bæði hér á landi og vestan hafs. Þá hefur hann lært og lagt fyrir sig sálkönnun sem að sögn ákærða hefur ekki verið viðurkennd sem hluti af læknisfræði, enda leggi fleiri en læknar stund á þá grein. Fram kemur í bókinni að ákærði telur samtöl sálkönnuðar og skjólstæðings vera algjört trúnaðarmál. Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið svipti ákærða lækninga­leyfi sínu 12. janúar sl. vegna bókarkaflanna sem hér um ræðir. Ákærði, Ingólfur Örn, hefur starfað við blaðamennsku frá því að hann lauk háskólanámi 1975. Hann segist hafa farið að skrifa bækur 1981, en áður hafa komið út eftir hann ævisögur 5 nafn­kunnra Íslendinga. Ákærði og eiginkona hans stofnuðu Hrísey ehf. 10. september 1997. Er ákærði framkvæmdastjóri og aðalmaður í stjórn félagsins en yfirlýstur tilgangur þess er bókaútgáfa, lánastarfsemi og rekstur fasteigna. Rannsókn máls þessa hófst í tilefni af kæru Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins til Lögreglustjórans í Reykjavík 10. desember sl. Þá hefur I, sem fer með forræði tveggja sona Á heitinnar, fæddra 1982 og 1986, kært yfir bókinni vegna eldri sonarins.

A.Ákærði, Esra Seraja, segist hafa svo til eingöngu lagt stund á sálkönnun eftir að hann fluttist hingað til lands 1975 en þó haft einstaka geðsjúkling í geðlæknismeðferð. Segir hann Á heitna hafa verið í meðferð hjá sér í um 10 ár frá því seint á árinu 1975 til 1985 og hafi hún gengið til sín til sálkönnunar en ekki til geðlækninga. Hafi hún komið til sín í viðtöl 3svar í viku hverri. Að svo miklu leyti sem hún hafi þurft á geðlæknismeðferð að halda hafi hún fengið hana hjá öðrum læknum og á sjúkrahúsum. Hann kannast þó við að hafa ávísað til hennar þunglyndislyfjum um 5 til 6 ára skeið. Þá segir hann aðferðir sálkönnunar og geðlækninga geta skarast að svo miklu leyti sem þessar greinar byggi báðar á samtalsmeðferð. Ákærði kveðst ekki líta svo á að hann hafi birt frásögn af sjúkdómi Á heitinnar eða sjúkraskrá hennar heldur sé umfjöllun um Á og ástarævintýri þeirra hluti af ævisögu hans og geti haft gildi fyrir aðra sem hana lesa. Kveðst hann ekki telja að það hefði haft mikið að segja fyrir frásögn hans af högum Á að hún var látin. Þá kveðst hann ekki líta svo á að hann hafi brotið trúnað við hana með því að birta þessa frásögn. Ákærði kveðst telja að hann hafi haft um 300.000 krónur í tekjur af bókinni. Aftur á móti hafi neikvæð gagnrýni um bókina alveg tekið fyrir jólasöluna á bókinni og muni vera tap á henni.

Fram er komið hjá ákærða að hann ávísaði Á heitinni geðlyfjum um árabil meðan hún gekk til hans. Þá kemur berum orðum fram í bókinni að ákærði leit á sig sem geðlækni hennar og á hana sem sjúkling sinn. Álítur dómurinn vafalaust að hann hafi stundað Á sem læknir og í skjóli lækningaleyfis síns. Skiptir þá ekki máli hvort hann beitti sálkönnun jafnhliða læknismeðferðinni. Samkvæmt 1. mgr., sbr. 7. mgr. 15. gr. læknalaga, bar ákærða að gæta fyllstu þagmælsku um allt sem hann komst að um sjúkdóm hennar og önnur einkamál hennar sem hann komst að við læknismeðferðina. Af hálfu ákærða er því haldið fram að birting þeirra upplýsinga sem málið snýst um njóti verndar 73. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands með því að öllum sé þar tryggður réttur til þess að láta í ljósi hugsanir sínar, svo og lagaverndar 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994, þar sem mönnum er einnig tryggður réttur „til tjáningarfrelsis“. Ríkir almennir hagsmunir standi til þess að menn geti birt upplýsingar sem þessar opinberlega án þess að eiga á hættu lögsókn. Dómurinn getur ekki fallist á þessa málsástæðu ákærða. Er í fyrsta lagi á það að líta að einkalíf manna nýtur friðhelgi og verður hún ekki skert nema með lögum, sbr. 1. og 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. og 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans. Þá er og sérstaklega áréttað í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að menn verði að ábyrgjast fyrir dómi þær hugsanir sem þeir birta og í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans segir að með lögum sé heimilt að setja tjáningarfrelsinu þær skorður sem nauðsynlegar séu í lýðræðislegu þjóðfélagi og þar eru tilgreindar, þar á meðal til þess að vernda mannorð manna og til þess að koma í veg fyrir uppljóstrun trúnaðarmála. Að þessu athuguðu ber að sakfella ákærða fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 7. mgr. 15. gr. læknalaga og 230. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa skýrt meðákærða Ingólfi Erni frá sjúkdómi og öðrum einkamálefnum Á með það fyrir augum að þau birtust á bók.

B.Ákærði, Ingólfur Örn, hefur sagt að efni það sem ákært er út af sé byggt alfarið á frásögn meðákærða og minningargreinum. Hafi hann ekki leitað til vandamanna Á heitinnar með efnisöflun. Hann kveðst hafa haft nokkrar áhyggjur af því hvort birting þessa efnis myndi á einhvern hátt raska lífi sona hennar. Hefði hann ætlað sér að hafa samband út af þessu við I, vegna sona Á. Áður en til þess kæmi hefði hún komið að máli við sig út af þessu þar sem hún hafði frétt af bókarsmíðinni. Hefði hún fengið að lesa yfir próförk og gert athugasemdir við nokkur atriði sem ákærði kveðst hafa breytt og gætt þess um leið að það kæmi ekki niður á frásögn meðákærða. Hins vegar hefði I sagt að hún efaðist um að þeim væri heimilt að birta þessa frásögn. Kveðst ákærði alls ekki hafa litið svo á að neitt í bókinni snerti þagnarskyldu lækna og ekki hvarflað að sér að bókin bryti í bága við læknalög eða önnur lög. Þá segir hann að andlát Á hafi ekki skipt máli fyrir frásögnina af sambandi þeirra Esra Seraja, enda hafi hún verið mikilsverð persóna í lífi hans og valdið straumhvörfum í því. Hefði verið útilokað að sleppa henni úr frásögninni. Hún hefði auk þess verið á lífi þegar vinnan við bókina hófst. Ákærði segist hafa verið bundinn trúnaði við meðákærða og litið á það sem skyldu sína að skrásetja ævifrásögn hans svo að hún kæmist rétt til skila í bókinni. Kveðst hann hafa litið á sig sem ritstjóra verksins, fyrst og fremst. Ákærði segir að 700.000 króna tap hafi verið af bókinni þegar hann vissi síðast en endanlegt uppgjör hafi ekki farið fram. Meðákærði hafi fengið 400.000 krónur greiddar fyrir sinn þátt í bókinni og eigi enn eftir að fá greiddar um það bil 250- til 300.000 krónur miðað við fjölda seldra eintaka.

Ákærði hefur borið fyrir sig sömu málsástæðu og meðákærði varðandi tjáningarfrelsið og fjallað hefur verið um hér að framan. Þá er því haldið fram að í 230. gr. almennra hegningarlaga séu i. f. tilgreindir á tæmandi hátt þeir sem bakað geti sér refsiábyrgð með því að aðstoða aðalmann í því broti og komi því almenna hlut­deildarákvæði 22. gr. hegningarlaganna ekki til álita. Í athugasemdum við 230. gr. hegningarlagafrumvarpsins segir að greinin taki til aðstoðarmanna, hvort heldur þeir eru opinberir starfsmenn eða sýslunarmenn. Það er álit dómsins að enda þótt 230. gr. almennra hegningarlaga taki til aðstoðar opinbers starfsmanns eða sýslunarmanns geti það ekki girt fyrir að aðrir en þeir (extranei) séu taldir hlutdeildarmenn í slíku broti samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna. Ákærði Ingólfur Örn er, eins og áður segir, fram­kvæmdastjóri og aðalmaður í stjórn útgáfufélagsins Hríseyjar ehf. sem gaf út umrædda bók. Ber hann þar með ábyrgð á birtingu og dreifingu bókarinnar samkvæmt 13. gr. laga um prentrétt og telst hafa gerst sekur um hlutdeild í broti meðákærða gegn 230. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing og sakarkostnaður.

Sakferill ákærða Esra Seraja hefur ekki þýðingu fyrir mál þetta og ákærði Ingólfur Örn hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot. Brot ákærðu gegn persónufriði og einkalífi Á heitinnar er stórfellt og siðferðislega mjög ámælisvert. Þá er á það að líta að brotið er framið í tengslum við útgáfu bókar sem ætla verður að varðveitist lengi, bæði á söfnum og í eigu margra, andstætt því sem gegnir um blöð og tímarit. Þá verður og að taka tillit til þess að ákærðu ætluðu að hafa fjárhagslegan ávinning af bókinni. Þegar ákærða Esra Seraja er gerð refsing ber að hafa hliðsjón af því að honum gat ekki dulist að uppljóstrun hans var alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart Á heitinni. Á hinn bóginn ber að líta til þess að hann er maður aldraður og eins þess að hann hefur verið sviptur lækningaleyfi. Þykir refsing hans vera hæfilega ákveðin 350.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 50 daga varðhald í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu. Að því er varðar refsingu ákærða Ingólfs Arnar er það til þyngingar henni að hann gerði sér grein fyrir því að brot hans gæti raskað tilfinningum barna Á. Þykir refsingin hæfilega ákveðin 450.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 55 daga varðhald í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.

Dæma ber ákærða, Esra Seraja, til þess að greiða málsvarnarlaun til verjanda síns Skarphéðins Þórissonar hrl, 75.000 krónur, og ákærða, Ingólf Örn, til þess að greiða málsvarnarlaun til verjanda síns, Jóns Magnússonar, hrl., 75.000 krónur. Annan sakarkostnað, þar með talin 75.000 króna saksóknarlaun í ríkissjóð ber að dæma ákærðu til þess að greiða óskipt.

Dómsorð:

Ákærði, Esra Seraja Pétursson, greiði 350.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 50 daga varðhald í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu. Ákærði, Ingólfur Örn Margeirsson, greiði 450.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 55 daga varðhald í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dóms­birtingu.

Ákærði, Esra Seraja, greiði 75.000 krónur í málsvarnarlaun til verjanda síns, Skarphéðins Þórissonar, hrl., og ákærði, Ingólfur Örn, greiði 75.000 krónur í máls­varnarlaun til verjanda síns, Jóns Magnússonar, hrl. Annan sakarkostnað, þar með talin 75.000 króna saksóknarlaun í ríkissjóð, greiði ákærðu óskipt.