Mál nr. 533/2014

Lykilorð
  • Skuldamál
  • Aðild
  • Fyrning
  • Yfirdráttarheimild

                                     

Fimmtudaginn 19. mars 2015.

Nr. 533/2014.

Guðmundur Ásgeirsson

(sjálfur)

gegn

Landsbankanum hf. 

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Skuldamál. Aðild. Fyrning. Yfirdráttarheimild.

L hf. höfðaði mál gegn G til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á tékkareikningi. G mótmælti ekki kröfunni en byggði á því að hann ætti gagnkröfu á hendur L hf. sem næmi hærri fjárhæð vegna ólögmætrar innheimtu vaxta og annars lántökukostnaðar af láninu. Þá hafi hafi enginn skriflegur samningur verið gerður milli aðilanna og G því ekki verið veittar þær upplýsingar sem L hf. bar að veita. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, kom fram að G hafi átt að vera ljóst þegar hann stofnaði til viðskiptanna hvaða kjör lágu til grundvallar viðskiptasambandi aðilanna. Þá hefði hann notað reikninginn athugasemdalaust í fimm ár og greitt á þeim tíma þann kostnað og vexti sem til féllu. Ennfremur hefði verið tekið fram í öllum reikningsyfirlitunum, sem G hefði fengið send, að gera skyldi athugasemdir innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins en ella teldist reikningurinn réttur. Í ljósi þessa var talið að komist hefði á samningur milli aðila um lánsviðskiptin og krafa L hf. því tekin til greina. Hafnað var þeirri málsástæðu G að krafan væri fyrnd og að L hf. væri ekki réttur aðili að málinu. Þá var ekki fallist á það með G að vísa ætti málinu frá vegna vanreifunar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. ágúst 2014. Tekur áfrýjun bæði til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2014, þar sem hafnað var kröfu áfrýjanda um frávísun málsins, og dóms í málinu 6. maí sama ár. Hann krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, til vara sýknu en að því frágengnu sýknu ,,á grundvelli skuldajöfnuðar, eins langt og dómkrafa stefnda … nær.“ Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi stofnaði áfrýjandi 14. mars 2006 tékkareikning við útibú stefnda í Hafnarfirði. Yfirdráttarheimild var á reikningnum og rann hún út án þess að uppsöfnuð skuld reikningsins væri greidd. Reikningnum var lokað 30. nóvember 2012 og nam skuldin þá 817.900 krónum.

Áfrýjandi krefst aðallega frávísunar málsins og reisir þá kröfu á því að stefna og málatilbúnaður stefnda hafi verið svo óljós að ekki standist grundvallarreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málflutning. Í máli þessu krefst stefndi greiðslu á skuld og er málið höfðað með hefðbundnum hætti. Ljóst er hvaða fjárhæðar og vaxta er krafist og frá hvaða tíma og telst stefna málsins fullnægja skilyrðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er því ekki fallist á að um vanreifun sé að ræða þannig að frávísun varði.                                                              

II

Sýknukröfu sína byggir áfrýjandi á því að stefndi hafi ekki fært sönnur á aðild sína með fullnægjandi hætti. Hann hafi sótt um tékkareikning til Landsbanka Íslands hf. 14. mars 2006  en á þeim tíma hafi stefndi ekki verið til og geti því ekki átt aðild að málinu. Með vísan til forsendna héraðsdóms, auk þess sem fyrir liggur að áfrýjandi átti viðskipti með tékkareikninginn bæði í tíð gamla bankans og hins nýja, er hafnað vörnum áfrýjanda um aðildarskort stefnda.

Áfrýjandi byggir sýknukröfu sína einnig á því að krafa stefnda sé fyrnd. Áfrýjandi notaði tékkareikninginn samfellt frá stofnun hans fram á mitt ár 2011, en mál þetta var höfðað 11. júlí 2013. Með vísan til þess svo og til forsendna héraðsdóms, sbr. dóm Hæstaréttar 14. mars 2013 í máli nr. 605/2012, er þessari málsástæðu áfrýjanda hafnað.

Loks byggir áfrýjandi sýknukröfu sína á því að hann eigi rétt á skuldajöfnuði gagnvart kröfu stefnda. Stefnda, og eftir atvikum forvera hans, hafi verið óheimilt að gjaldfæra lánskostnað og innheimtukostnað vegna óheimils yfirdráttar af tékkareikningi hans, þar sem skriflegur samningur þar um hafi ekki verið fyrir hendi. Eigi áfrýjandi því kröfu á hendur stefnda um endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem stefndi og forveri hans hafi þannig ranglega af sér haft. Áfrýjandi telur að stefndi og forveri hans hafi brotið gegn ákvæðum þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994, en í 5. gr. þeirra segi að lánssamningur skuli vera skriflegur og fela í sér upplýsingar þær sem tilgreindar eru í 6. og 8. gr. laganna. Þar sem enginn samningur hafi verið gerður milli aðila hafi heldur ekki verið veittar þær upplýsingar sem skylt var að veita samkvæmt lögunum. Í 3. gr. laganna er fjallað um upplýsingar lánveitanda þegar um yfirdráttarlán er að ræða, en ljóst er að í 6. gr. eru gerðar mun ítarlegri kröfur um upplýsingar lánveitanda en samkvæmt fyrrgreinda ákvæðinu, sbr. dóm Hæstaréttar 22. desember 2014 í máli nr. 349/2014.

Í skriflegri umsókn áfrýjanda um tékkareikning/debetkort 14. mars 2006 kom fram að áfrýjandi hafi kynnt sér reglur og skilmála um debetkort. Þær reglur hafa verið lagðar fyrir Hæstarétt. Þar kemur fram í grein 11.1 að gjöld vegna notkunar korts greiði korthafi samkvæmt gjaldskrá á hverjum tíma, en gjaldskrá, sem veiti upplýsingar um gjöld, vaxtakjör og annað, sem tengist notkun debetkorta, skuli jafnan liggja frammi í bankanum. Í grein 11.2 segir síðan að bankanum sé heimilt að færa korthafa til gjalda á viðskiptareikningi hans gjöld samkvæmt gjaldskrá. Áfrýjanda átti því að vera ljóst áður en hann stofnaði til viðskipta við stefnda hvaða kjör lágu til grundvallar viðskiptasambandi aðila. Fyrir liggur að áfrýjandi notaði reikninginn athugasemdalaust í fimm ár, bæði í tíð stefnda og forvera hans, og greiddi á þeim tíma þann kostnað og vexti sem til féllu, en hann fékk send reikningsyfirlit vegna tékkareikningsins frá stofnun hans þar til honum var lokað. Í öllum yfirlitunum var tekið fram að gera skyldi athugasemdir innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, annars teldist reikningurinn réttur. Að framangreindu virtu telst hafa komist á samningur milli aðila um lánsviðskiptin og verður ekki fallist á gagnkröfu áfrýjanda til skuldajafnaðar kröfu stefnda.

Samkvæmt framansögðu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Guðmundur Ásgeirsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

               

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2014.

                Mál þetta var höfðað 11. júlí 2013 og þingfest 3. september sama ár.

                Stefnandi er Landsbankinn hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11 í Reykjavík.

                Stefndi er Guðmundur Ásgeirsson, kt. [ ... ], [ ... ] í Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 817.900 kr. ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. mars 2013 til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins. 

                Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara er þess krafist „að stefndi verði sýknaður á grundvelli skuldajöfnuðar, eins langt og dómkrafa stefnanda nær“. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins. 

                Stefndi gerði í greinargerð kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi. Var sá þáttur málsins tekinn til úrskurðar í réttarhaldi 26. febrúar sl. eftir að málið hafði verið flutt sérstaklega um þá kröfu stefnda. Með úrskurði 10. mars sl. var frávísunarkröfu stefnda hafnað.

                Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 15. apríl 2014.

I.

Málsatvik

                Með umsókn um tékkareikning 14. mars 2006 stofnaði stefndi tékkareikning nr. 6426 við útibú stefnanda að Fjarðargötu 9, 220 Hafnarfirði. Yfirdráttarheimild á reikningnum rann út án þess að uppsöfnuð skuld reikningsins væri greidd og var reikningnum lokað af þeim sökum 30. nóvember 2012. Uppsöfnuð skuld reikningsins nam þá alls 817.900 kr., sem er stefnufjárhæð málsins. Stefnda var sent innheimtubréf 18. febrúar 2013. Stefnandi mun ekki hafa fengið skuldina greidda þrátt fyrir innheimtutilraunir og hefur því höfðað mál þetta til innheimtu.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi hafi stofnað til yfirdráttarskuldar í ofangreindu útibúi stefnanda. Stefndi hafi ekki brugðist við innheimtutilraunum stefnanda og hefur mál þetta verið höfðað af þeim sökum. 

      Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að verulegur aðstöðumunur sé á honum sem neytanda annars vegar og stefnanda sem fjármálastofnun, hins vegar. Vísar stefndi í þessu samhengi sérstaklega til ákvæða laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og bendir á að framlögð skjöl hafi verið einhliða útbúin af stefnanda. Af hálfu stefnda er einnig á því byggt að ekki liggi fyrir neinn skriflegur lánssamningur svo sem þó hafi verið skylt samkvæmt ákvæðum laga um neytendalán, sbr. ákvæði laga nr. 121/1994 um þau efni sem í gildi voru þegar stefndi stofnaði til umræddra reikningsviðskipta. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni hvernig stofnast hafi til réttinda stefnanda gagnvart stefnda. Þá hafi stefnandi ekki heldur fært sönnur á þau ætluðu kröfuréttindi sem um ræðir í máli þessu. Af hálfu stefnda er í þessu samhengi tiltekið að honum hafi ekki með samningi verið veittar upplýsingar um mörk yfirdráttarheimildar, vexti og annan kostnað, né heldur hvernig þeir vextir eða önnur umsamin gjöld gætu hugsanlega tekið breytingum á lánstímanum. Þá hafi stefnandi jafnframt vanrækt að veita upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar í samræmi við ákvæði fyrrgreindra laga. Vísar stefndi til þess að séu vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi sé lánveitanda óheimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Stefndi telur ekkert liggja fyrir um það hvort uppfyllt séu skilyrði þess að stefnandi geti sett fram kröfur af ofangreindu tagi, enda sé engum lánssamningi til að dreifa í gögnum málsins.

                Stefndi byggir jafnframt á því að krafa stefnanda sé fyrnd þar sem umsókn stefnda um tékkareikning hafi verið útbúin 14. mars 2006 og hafi því fyrnst fjórum árum síðar, sbr. ákvæði 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

                Sýknukröfu sinni til stuðnings vísar stefndi til þess að ekkert liggi fyrir um upphaf viðskipta stefnda nema umsókn til LBI sem stefnandi hafi ekki tengst. Stefndi hafi sótt um stofnun tékkareiknings hjá LBI, en þegar hún var gerð hafi stefnandi ekki verið til og geti því ekki átt aðild að máli þessu. Beri því að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts stefnanda.

                Auk ofangreinds hefur af hálfu stefnda verið sett fram gagnkrafa sem miðar að sýknu á grundvelli skuldajafnaðar. Við aðalmeðferð málsins gaf stefndi þær skýringar á gagnkröfum sínum að hann hafi talið sig mega vænta þess að stefnandi veitti honum vaxtalausa lánafyrirgreiðslu.

                Auk framangreinds vísar stefndi um lagarök til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ólögmæta löggerninga, einkum 36. gr., og sérstaklega ákvæða í stafliðum a-d þeirrar greinar. Stefndi hefur einnig vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og til ákvæða stjórnarskrárinnar. Þá vísar stefndi til réttarreglna um aðild og forsvar, reglna kröfuréttar um fyrningarfrest, auk annarra reglna eftir því þær sem kunna að eiga við um málsatvik og hugsanlegan ágreining málsaðila. Þá byggir stefndi kröfur um málskostnað úr hendi stefnanda á 130. gr. og eftir atvikum 131. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Stefndi hefur flutt mál sitt sjálfur. Hann er ólöglærður og hefur lagt áherslu á aðstöðumun aðila, þar sem hann sé grandlaus neytandi andspænis fjármálastofnun.

IV.

Niðurstaða

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, ráðstafað til stefnanda. Ákvörðun þessi var tekin með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Aðild stefnanda að málinu telst samkvæmt þessu nægjanlega skýr og ber því að hafna vörnum stefnda um aðildarskort stefnanda.

                Meðal gagna málsins er innheimtubréf 18. febrúar 2013, sem stefndi mótmælir ekki að hafa móttekið. Þá hafa verið lögð fram í málinu reikningsyfirlit vegna ofangreinds bankareiknings frá stofnun reikningsins til lokunar hans. Reikningsyfirlit þau sem hér um ræðir geyma alls rúmlega 140 blaðsíður með nákvæmum og sundurliðuðum upplýsingum um innborganir og úttektir, þ. á m. vegna þjónustugjalda og vaxtakostnaðar, af greindum reikningi stefnda nr. 0140 í útibúi stefnanda við Fjarðargötu 9 í Hafnarfirði. Yfirlitin eru öll stíluð á stefnda og bera með sér að hafa verið send honum frá stofnun reikningsins og fram til ársloka 2013. Neðst í öllum yfirlitunum er að finna eftirfarandi upplýsingar: „Athugasemdir óskast gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, annars telst reikningurinn réttur. Upplýsingar eru gefnar í síma 410 4000. Vaxtamánuður er 21.-20. næsta mánaðar.“ Af hálfu stefnda hefur því ekki verið mótmælt að hann hafi móttekið yfirlit þessi og fram kemur meðal annars í greinargerð stefnda að honum hafi „borist ómælt magn óumbeðinna póstsendinga frá stefnanda frá stofnun hans“. Andspænis þessu verður að hafna vörnum stefnda sem byggjast á grandleysi hans og skorti á skriflegum samningi aðila á milli. Með því að ekkert hefur komið fram um það að stefndi hafi á nokkru stigi málsins gert athugasemdir við útreikninga og gjaldfærslu stefnanda þykir stefndi hafa sýnt af sér verulegt tómlæti og með því glatað réttindum sem hann kynni mögulega að hafa átt á hendur stefnanda vegna þeirra viðskipta sem hér eru til umfjöllunar. Með sömu rökum verður að hafna gagnkröfum stefnda sem byggðar eru á óréttmætum vaxtaútreikningi stefnanda, enda þykir ofangreint athafnaleysi stefnda gagnvart þeim mikla fjölda yfirlita sem stefnandi hefur sent honum, með upplýsingum um vexti og kostnað stefnda, girða fyrir að gagnkröfur stefnda komi hér til nánari skoðunar.

                Stefndi hefur borið fyrir sig að krafa stefnanda sé niður fallin fyrir sakir fyrningar. Krafa stefnanda er vegna peningaláns. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905 sem í gildi voru þegar stefndi fyllti út áður greinda umsókn sína 14. mars 2006, sbr. nú 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, fyrnast slíkar kröfur á 10 árum. Stefnda er því ekki hald í þessari málsástæðu.

                Samkvæmt öllu framanskráðu ber að hafna málsástæðum stefnda og taka kröfu stefnanda til greina. Með hliðsjón af þeim úrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Dóm þennan kveður upp Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari.

Dómsorð:

                Stefndi, Guðmundur Ásgeirsson, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 817.900 kr., ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. mars 2013 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 250.000 kr. í málskostnað.