Mál nr. 842/2014
- Fjármálafyrirtæki
- Markaðsmisnotkun
- Hegningarauki
Í málinu voru SÞÁ, sem bankastjóri L hf., ÍG, sem forstöðumaður eigin fjárfestinga bankans, og JSH og W, sem starfsmenn sömu deildar, ákærðir fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með því að hafa í sameiningu í störfum sínum með tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning L hf. með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi kauphallarinnar á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, tryggt óeðlilegt verð og búið til verð á hlutabréfunum sem gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Í ákærunni var markaðsmisnotkunin sögð hafa verið framkvæmd af JSH og W að undirlagi ÍG og SÞÁ. Í dómi Hæstaréttar var því hafnað að verknaðarlýsing í ákæru hefði ekki verið svo skýr sem áskilið væri í c.lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með vísan til þess að verknaðarlýsing í ákæru ætti að vera gagnorð á sama hátt og þær röksemdir sem málsóknin væri byggð á, sbr. d. lið sömu málsgreinar. Talið var að L hf. sem fjármálafyrirtæki hefði verið óheimilt samkvæmt lögum nr. 108/2007 að stunda viðskipti með eigin hluti á skipulegum verðbréfamarkaði í þeim tilgangi að mynda markað með hlutina eins og um viðskiptavakt hefði verið að ræða. Umrædd viðskipti hefðu því verið ólögmæt og gæti þar engu breytt að fjallað hefði verið á jákvæðan hátt um L hf., bankakerfið eða önnur atriði á þeim tíma. Talið var að ekki hefði leikið neinn vafi á að sá mikli fjöldi tilboða, sem JSH og W hefðu gert, og þau umfangsmiklu viðskipti, sem þeir höfðu átt þátt í að koma á, hefðu gefið eða verið í það minnsta líkleg til að hafa gefið eftirspurn og verð hlutabréfa í L hf. ranglega eða misvísandi til kynna. Með þeirri háttsemi hefðu þeir því af ásettu ráði og á refsiverðan hátt brotið gegn a. lið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007, enda yrði slík háttsemi, ekki skýrð með því að lögmætar ástæður hefðu búið að baki henni eða hún verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á skipulegum verðbréfamarkaði. Þá var talið sannað að ÍG hefði gefið JSH og W fyrirmæli um hvernig þeir hefðu almennt átt að standa að viðskiptunum með hluti í L hf. í kauphöllinni og hefði fylgst náið með þeim. Var talið að ÍG hefði af ásettu ráði gerst sekur um brot gegn a. lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Þá var SÞÁ jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn a. lið 1. mgr. 117. gr. laganna vegna framangreindra viðskipta þar sem hann hefði, sem annar af bankastjórum L hf. og formaður fjármálanefndar bankans, haft yfirsýn yfir hin umfangsmiklu kaup hans á eigin hlutabréfum og að hin umfangsmiklu kaup á eigin hlutum í L hf. hefðu ekki getað farið fram án vilja hans og vitundar. Samkvæmt framansögðu voru allir ákærðu dæmdir til fangelsisrefsingar, SÞÁ í eitt ár og sex mánuði, ÍG í tvö ár, JSH í eitt ár og W í níu mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. desember 2014 af hálfu ákæruvaldsins og í samræmi við yfirlýsingu ákærða Sigurjóns Þorvalds Árnasonar um áfrýjun. Af hendi ákæruvaldsins er gerð krafa um að allir ákærðu verði sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og að refsing ákærðu Sigurjóns, Ívars Guðjónssonar og Júlíusar Steinars Heiðarssonar verði þyngd auk þess sem ákærði W verði dæmdur til refsingar.
Ákærði Sigurjón krefst þess aðallega að hann verði sýknaður, en til vara að refsing hans verði milduð.
Ákærði Ívar krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð.
Ákærði Júlíus krefst sýknu.
Ákærði W krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
I
1
Með bréfi 19. október 2010 beindi Fjármálaeftirlitið kæru til sérstaks saksóknara „vegna meintrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf.“ á tímabilinu frá maí 2003 til október 2008. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir efni kærunnar. Í henni kom meðal annars fram að Kauphöll Íslands hafi í október 2008 vakið athygli Fjármálaeftirlitsins „á grunsamlegum viðskiptum í aðdraganda falls viðskiptabankanna þriggja“ og sent síðan minnisblað til stofnunarinnar í janúar 2009 „þar sem þessi viðskipti voru nánar útlistuð.“ Þegar Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á málinu hafi verið „komnar fram vísbendingar um afmörkuð tilvik meintrar markaðsmisnotkunar ... í aðdraganda bankahrunsins.“ Hins vegar hafi fljótlega vaknað grunur um að deild eigin fjárfestinga í Landsbanka Íslands hf. „hafi verið beitt með skipulögðum hætti í þeim tilgangi að hækka eða styðja við gengi hlutabréfa sem gefin voru út af Landsbankanum, yfir margra ára tímabil en ekki einungis í aðdraganda bankahrunsins.“ Í kæru Fjármálaeftirlitsins til saksóknara voru 18 fyrrverandi starfsmenn Landsbanka Íslands hf., þeirra á meðal ákærðu í máli þessu, sakaðir um brot á lögum um verðbréfaviðskipti vegna framangreindrar háttsemi.
Að lokinni lögreglurannsókn gaf sérstakur saksóknari út ákæru 15. mars 2013 á hendur ákærðu auk SES og SG. Þær sakargiftir, sem fjallað er um í þessu máli, komu fram í I. kafla ákærunnar. Þar var ákærða Sigurjóni sem bankastjóra Landsbanka Íslands hf., ákærða Ívari sem forstöðumanni eigin fjárfestinga bankans og ákærðu Júlíusi og W sem starfsmönnum þeirrar deildar gefin að sök „markaðsmisnotkun í sameiningu í störfum sínum fyrir bankann í tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning Landsbankans með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands hf. ... á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, sem tryggðu óeðlilegt verð og bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.“ Í ákærunni var markaðsmisnotkunin sögð „framkvæmd af ákærðu Júlíusi og [W] að undirlagi ákærðu Sigurjóns og Ívars.“ Hefðu þeir fyrrnefndu, sem önnuðust fjárfestingar fyrir bankann, lagt fram fyrir hans hönd „í upphafi hvers viðskiptadags á tímabilinu, röð stórra kauptilboða með litlu innbyrðis verðbili í hlutabréf í Landsbankanum í tilboðabók Kauphallarinnar. Þegar framboð á hlutabréfum í Landsbankanum í tilboðabók Kauphallarinnar varð meira en eftirspurn annarra markaðsaðila en Landsbankans“ hefðu ákærðu Júlíus og W að jafnaði mætt „auknu framboði með því að bæta við nýjum kauptilboðum jafnharðan og fyrri tilboðum þeirra var tekið“ og þannig komið ýmist í veg fyrir eða hægt á verðlækkun bréfanna. Þá hafi hlutfall kaupa þeirra á hlutabréfunum í umræddum viðskiptum að jafnaði hækkað við lok viðskiptadags og þeir þannig haft áhrif á dagslokaverð þeirra. Síðan sagði í ákærunni: „Kaup eigin fjárfestinga Landsbankans á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á áðurgreindu tímabili voru umfangsmikil og kerfisbundin, enda voru þau verulegur hluti af heildarveltu með hlutabréf í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu ... Með þessum umfangsmiklu kauptilboðum og kaupum, en óverulegu magni sölutilboða og sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, komu ákærðu ýmist í veg fyrir eða hægðu á lækkun á verði hlutabréfa í Landsbankanum og mynduðu þannig gólf í verðmyndun á hlutabréfunum. Um var að ræða ólögmætt inngrip í gangverk markaðarins sem hafði áhrif á markaðsgengi hlutabréfa í Landsbankanum, tryggði óeðlilegt verð á hlutabréfunum á tímabilinu, bjó til verð á hlutabréfunum og gaf eða var líklegt til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Með háttsemi sinni röskuðu ákærðu þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa í Landsbankanum með ólögmætum hætti.“ Í niðurlagi ákærukaflans sagði: „Hin miklu kaup eigin fjárfestinga Landsbankans á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum umfram sölu leiddu til þess að hlutabréfin söfnuðust upp hjá bankanum. Vegna lögbundinna takmarkana á eignarhaldi fjármálafyrirtækja á eigin hlutabréfum, reglna um flöggunarskyldu og neikvæðra áhrifa á eiginfjárhlutfall Landsbankans þurfti að losa Landsbankann við hlutabréfin til þess að unnt væri að halda áfram umfangsmiklum kaupum á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Það var meðal annars gert með sölu á þeim í stórum utanþingsviðskiptum, fyrir tilstilli verðbréfamiðlunar Landsbankans“. Var háttsemi ákærðu, sem að framan er greind, talin varða við a. og b. liði 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Í II. kafla ákærunnar voru ákærða Sigurjóni ásamt SES gefin að sök umboðssvik með því að hafa veitt einkahlutafélaginu Imon lán 30. september 2008 til að fjármagna kaup þess á hlutum í Landsbanka Íslands hf. án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins. Jafnframt voru þau sökuð um markaðsmisnotkun við sölu bankans á hlutunum þar sem með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til kauphallarinnar 1. október 2008 hafi verið ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á rúmlega 2% útgefins hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. og borið af þeim fulla markaðsáhættu. Í III. og IV. kafla ákærunnar var ákærða Sigurjóni ásamt SG gefin að sök markaðsmisnotkun við sölu bankans á eigin hlutum 3. október 2008, annars vegar til Imon ehf. og hins vegar Azalea Resources Ltd., sem samtals hafi numið rúmlega 3,5% útgefins hlutafjár í Landsbanka Íslands hf., án þess að gengið hafi verið frá fjármögnun hlutabréfakaupanna. Með því hafi eftirspurn bréfanna verið gefin ranglega og misvísandi til kynna eða verið líkleg til að gera það og viðskiptin falið í sér blekkingu og sýndarmennsku þar sem með þeim og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til kauphallarinnar hafi verið ranglega látið líta svo út að fjárfestar hefðu lagt fé til kaupa á bréfunum og borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum.
2
Héraðsdómur ákvað 12. júní 2013 að skilja sakarefni samkvæmt II., III. og IV. kafla ákærunnar frá þessu máli. Hæstaréttardómur í því máli, nr. 456/2014, var kveðinn upp 8. október 2015 þar sem ákærði Sigurjón, SES og SG voru sakfelld fyrir þá háttsemi sem þeim var gefin að sök í ákæruköflunum þremur.
Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu Sigurjón, Ívar og Júlíus sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt I. kafla ákærunnar, þó aðeins að því er varðaði tímabilið frá 29. september 2008 til 3. október sama ár. Á hinn bóginn voru ákærðu sýknaðir af öðrum sakargiftum sem þar greindi.
II
Ákærðu Sigurjón, Ívar og Júlíus hafa gert margvíslegar athugasemdir við rannsókn málsins. Meðal þess er að brotið hafi verið gegn lögmæltum réttindum þeirra með því að hlusta á símtöl þeirra, auk þess sem ekki hafi verið gætt hlutlægni við rannsóknina.
Fyrir liggur að hlustað var á símtöl ákærðu við verjendur meðan á rannsókn málsins stóð án þess að upptökum af þeim væri eytt þegar í stað, svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Upptökur þessar hafa ekki verið lagðar fram, enda lagt bann við því í 4. mgr. 134. gr. laganna. Aftur á móti eru meðal málsgagna upptökur af símtölum og öðrum samskiptum ákærðu við aðra skömmu eftir að þeir höfðu gefið skýrslu hjá lögreglu þar sem þeir höfðu réttarstöðu sakborninga og var því óskylt að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun, sem þeim var gefin að sök, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008. Með því að hlusta á símtöl ákærðu við þessar aðstæður, þótt það væri gert á grundvelli dómsúrskurða, var brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Því verður horft framhjá upptökunum við úrlausn málsins.
Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 skulu ákærendur og þeir, sem rannsaka sakamál, vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu eða sektar. Af hálfu ákærða Júlíusar hefur því verið haldið fram að lögreglumaður, sem tók skýrslu af honum í tiltekið skipti, hefði augljóslega gengið út frá að hann væri sekur. Þótt lögreglumaðurinn hafi látið óviðeigandi ummæli falla umrætt sinn verður ekki séð að það hafi haft áhrif á svör ákærða við spurningum hans, auk þess sem verjandi ákærða var viðstaddur skýrslutökuna og átti þess kost að bera fram mótmæli teldi hann þess þörf, sbr. 4. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008.
Aðrar athugasemdir, sem ákærðu hafa gert við rannsókn málsins, eru haldlausar.
III
1
Landsbanki Íslands var settur á stofn með sérstökum lögum, nr. 14/1885, og var hann í eigu íslenska ríkisins. Á grundvelli laga nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands tók Landsbanki Íslands hf. til starfa 1. janúar 1998 og var hann í upphafi að fullu eign ríkisins. Þeim lögum var breytt með 1. gr. laga nr. 70/2001 á þann hátt að ríkinu var heimilað að selja þann hlut, sem það átti þá enn í Landsbanka Íslands hf., og var það sem eftir stóð af þeim eignarhlut selt 31. desember 2002. Kaupandinn var Samson eignarhaldsfélag ehf. sem var óbeint í eigu BG, BTB og MÞ, en sá síðastnefndi mun síðar hafa selt hlut sinn í félaginu. Samkvæmt ársskýrslu Landsbanka Íslands hf. 2007 átti umrætt einkahlutafélag liðlega 40% hlutafjár í félaginu í lok þess árs og hélst það hlutfall óbreytt til hausts 2008 eins og greinir í dómi Hæstaréttar í máli nr. 456/2014. Hluthafar voru alls 27.753 talsins í árslok 2007 og skiptist hlutaféð þannig að 30 stærstu hluthafarnir áttu samtals rúm 83% þess, en aðrir innan við 17%.
Ákærði Sigurjón var ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands hf. með samningi 21. apríl 2003. Í tilkynningu bankans til Kauphallar Íslands daginn eftir kom fram að ákærði hafi verið ráðinn bankastjóri við hlið HJK sem hafði einn gegnt starfi bankastjóra um nokkurt skeið. Í tilkynningunni sagði jafnframt: „Bankastjórarnir munu fara sameiginlega með stjórnun allra málefna bankans. Verkaskipting samkvæmt nýju skipuriti er þannig að HJK fer fyrir alþjóðasviði, viðskiptabankasviði og eignastýringarsviði en Sigurjón fyrir fyrirtækjasviði, verðbréfasviði og stoðsviðum. Báðir munu fara með viðskiptatengsl og viðskiptamál.“ Þá var greint í tilkynningunni frá breytingum „á stjórnskipan bankans“ og að þrír nýir framkvæmdastjórar hafi verið ráðnir til starfa, þeirra á meðal YÖK sem framkvæmdastjóri verðbréfasviðs bankans.
Ákærði Ívar var ráðinn forstöðumaður „eiginfjárfestingadeildar á verðbréfasviði“ Landsbanka Íslands hf. með samningi 22. apríl 2003. Þar var tekið fram að yfirmaður hans væri framkvæmdastjóri verðbréfasviðs. Í samningnum sagði ennfremur: „Starfsmaðurinn ber ábyrgð á daglegum rekstri deildarinnar, framþróun hennar og uppbyggingu. Auk þess sinnir starfsmaðurinn stjórnunarstörfum og öðrum þeim störfum sem honum kunna að vera falin af yfirmanni eða bankastjórn hverju sinni.“ Ákærði Júlíus hafði ráðist til starfa hjá Landsbréfum hf. samkvæmt samningi 11. febrúar 2000 til að sinna erlendri verðbréfamiðlun fyrir viðskiptavini þess félags og veita þeim ráðgjöf, en árið 2003 hóf hann störf í deild eigin fjárfestinga hjá Landsbanka Íslands hf. undir stjórn ákærða Ívars og fékkst þar einkum við kaup og sölu á innlendum hlutabréfum. Með samningum 25. apríl og 18. október 2005 var ákærði W ráðinn til starfa sem sérfræðingur við deildina og var tekið fram í samningunum að yfirmenn hans væru framkvæmdastjóri verðbréfasviðs og ákærði Ívar sem forstöðumaður eigin fjárfestinga.
Svo sem rakið er í dómi Hæstaréttar í máli nr. 456/2014 áttu bankastjórar Landsbanka Íslands hf., HJK og ákærði Sigurjón, símafund með forstjóra breska fjármálaeftirlitsins og tveimur öðrum starfsmönnum þess sunnudaginn 5. október 2008. Á fundinum var ítrekað það, sem áður hafði komið fram í samskiptum eftirlitsins og bankans, að hann yrði að senda til útibús síns í London tiltekna fjárhæð í sterlingspundum áður en viðskipti hæfust morguninn eftir. Ef þetta yrði ekki gert yrði eftirlitið knúið til þess að stöðva starfsemi útibúsins þegar í stað. Að auki þyrfti bankinn fyrir lok næsta dags að leggja dótturfélagi sínu í Bretlandi til lægri fjárhæð í sterlingspundum þar sem lausafjárstaða þess væri komin á hættulegt stig. Að morgni næsta dags, 6. október 2008, gaf ríkisstjórn Íslands út yfirlýsingu þar sem fram kom að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu. Degi síðar ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn bankans frá og setja yfir hann skilanefnd. Af þessum sökum varð föstudagurinn 3. október 2008 síðasti dagurinn þar sem viðskipti með hlutabréf í félaginu fóru fram í kauphöllinni.
2
Eins og fram kemur í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar var kveðið á um það í 20. grein samþykkta fyrir Landsbanka Íslands hf. að stjórn félagsins, svonefnt bankaráð, skyldi setja reglur um verkaskiptingu ráðsins og bankastjóra, svo og setja sér starfsreglur þar sem meðal annars skyldi fjallað um heimildir þess til að taka ákvarðanir um einstök viðskipti. Samkvæmt 21. grein samþykktanna báru bankastjórar sem framkvæmdastjórar félagsins ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fóru með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki væru öðrum falin í lögum, reglugerðum eða samþykktum. Bar þeim að sjá um að bankareksturinn væri í samræmi við lög, reglugerðir eða samþykktir og ákvarðanir bankaráðs. Samkvæmt 8.1 grein áðurnefndra starfsreglna fyrir bankaráðið mynduðu bankastjórar bankastjórn og í upphafi 9.3 greinar reglnanna sagði: „Bankastjórn hefur heimild til að ákveða kaup og sölu hlutabréfa í veltubók bankans.“
Í máli þessu liggur fyrir útgáfa af áhættureglum fyrir Landsbanka Íslands hf. frá því í október 2005, merkt 2.0.4, og önnur útgáfa af reglunum frá september 2006, merkt 2.0.5. Samkvæmt 3. grein síðarnefndu reglnanna hafði fjármálanefnd bankans meðal annars „það hlutverk að fylgjast með áhættuþáttum í starfsemi bankans og að ákveða áhættumörk.“ Í grein 9.5 sagði: „Stefnumótandi ákvarðanir er varða markaðsáhættu eru teknar af Fjármálanefnd.“ Þá var svofellt ákvæði í 14. grein: „Óheimilt er að fara út í nýjar tegundir viðskipta eða samninga við viðskiptavini eða í eigin reikning án samþykkis Fjármálanefndar.“ Í 21. grein sagði að verkefni eigin fjárfestinga fælust „í umsjón með öllum veltubókarviðskiptum bankans með hlutabréf og að sjá um fjárfestingar í skráðum og óskráðum bréfum.“ Einnig sæi deildin „um sölutryggingar og viðskiptavakt á hlutabréfum.“ Í grein 21.1.5.1 var fjallað um „færsluheimildir eigin fjárfestinga“. Í greininni var viðskiptum skipt í fjóra flokka og kom þar meðal annars fram að starfsmenn deildarinnar hefðu heimild til viðskipta fyrir allt að 250.000.000 krónum, en þyrftu að afla samþykkis forstöðumanns hennar fyrir viðskiptum að 500.000.000 krónum, samþykkis framkvæmdastjóra verðbréfasviðs fyrir viðskiptum að 1.000.000.000 krónum, en samþykkis fjármálanefndar eða bankastjórnar ef viðskiptin næmu hærri fjárhæð. Í bréfi þáverandi yfirmanns áhættustýringar Landsbanka Íslands hf. 16. mars 2015, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt af hálfu ákærða Sigurjóns, skýrði hann svo frá að áhættureglur bankans hafi verið skrifaðar undir sinni ritstjórn og tilgangur þeirra hafi verið „að skrá vilja bankastjórnar hvernig áhættutaka færi fram fyrir áhættuþætti verðbréfasviðs bankans og starfsemi henni tengdri.“ Þá hefur verið lagt fram í málinu tölvubréf frá framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Landsbanka Íslands hf. 27. september 2006 þar sem tilkynnt var að nýjar reglur um rekstraráhættu, sem bankastjórn hafi nýverið samþykkt, hafi tekið gildi. Þar kæmi meðal annars fram „að yfirmenn starfssviða (framkvæmdastjórar) skulu bera ábyrgð á að vakta rekstraráhættu á sínu starfssviði og sjá til þess að til staðar séu viðeigandi og aðgengilegar reglur og verkferlar er varða rekstraráhættuþætti í starfsemi bankans.“
Samkvæmt gögnum málsins voru oftast nær haldnir fundir í fjármálanefnd Landsbanka Íslands hf. einu sinni í viku á þeim tíma, sem ákæran tekur til, þótt fyrir kæmi að fundir féllu niður. Ákærði Sigurjón var formaður nefndarinnar, en meðal annarra, sem sátu fundi hennar, voru HJK bankastjóri, YÖK framkvæmdastjóri verðbréfasviðs og ákærði Ívar sem forstöðumaður eigin fjárfestinga. Dagskrá fundanna var yfirleitt þannig að fyrst fór fram kynning greiningadeildar, verðbréfamiðlunar og gjaldeyris- og afleiðumiðlunar bankans, að öllum fundarmönnum viðstöddum. Eftir að forstöðumenn þeirra þriggja deilda höfðu vikið af fundi fór fram kynning fjárstýringar, alþjóðasviðs, eigin fjárfestinga og áhættustýringar bankans. Var það ákærði Ívar sem annaðist kynningu eigin fjárfestinga og vék hann síðan af fundi eins og forstöðumenn hinna þriggja deildanna áður en kynning fyrirtækjaráðgjafar bankans fór fram sem var að jafnaði síðasti dagskrárliðurinn. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stjórnaði ákærði Sigurjón öllum fundum fjármálanefndar á tímabilinu frá 31. október 2007 til 1. október 2008, alls 32 talsins, og sat ákærði Ívar þá alla, að undanskildum þremur fundum sem haldnir voru 19. og 26. mars 2008 og 23. júlí sama ár.
Á þeim 32 fundum fjármálanefndar, sem haldnir voru frá því í lok október 2007 og fram í byrjun október árið eftir, mun ákærði Ívar hafa dreift 24 sinnum skýrslu sem tekin hafði verið saman af eigin fjárfestingum Landsbanka Íslands hf. og bar yfirskriftina „Report 4:15/Prop Trading Total/Prop Trading“. Í hverri skýrslu komu fram breytingar á eign eigin fjárfestinga í einstökum verðbréfaflokkum síðustu viku eða frá því að síðasti fundur fjármálanefndar hafði verið haldinn, miðað við nafnverð og markaðsverð verðbréfanna, svo og hagnaður eða tap vegna viðskipta með bréfin. Samkvæmt fundargerðum af fundum fjármálanefndar, sem lagðar hafa verið fram, var dreift yfirliti yfir stöðu Landsbanka Íslands hf. í eigin hlutabréfum á fundum nefndarinnar 9. apríl, 16. apríl, 14. maí, 2. júlí, 23. júlí, 6. ágúst, 20. ágúst og 1. október 2008, undir dagskrárliðnum „Umfjöllun um stöðu Landsbankans í eigin bréfum“. Mun útlánaeftirlit bankans hafa tekið þessi yfirlit saman á grundvelli 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Meðal gagna málsins eru skýrslur sem teknar voru nánast vikulega saman á tímabilinu frá 5. nóvember 2007 til 30. september 2008 og báru yfirskriftina: „Yfirlit yfir eign bankans í sjálfum sér skv. 29. gr. laga nr. 161 um fjármálafyrirtæki“. Af þessum skýrslum eru átta sem bera með sér að hafa verið lagðar fram á áðurnefndum fundum fjármálanefndar þar sem þær voru dagsettar einum eða tveimur dögum áður en fundirnir voru haldnir. Þá hafa verið lögð fram 19 tölvubréf sem send voru ákærða Ívari frá starfsmanni útlánaeftirlits Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu frá 27. febrúar til 30. september 2008 þar sem fram komu upplýsingar um „eign bankans í sjálfum sér“.
Samkvæmt fundargerðum af þeim fundum fjármálanefndar, sem ákærði Ívar sat frá því í lok október 2007 og fram í byrjun október árið eftir, gerði hann grein fyrir starfsemi eigin fjárfestinga og fór yfir stöðuna á verðbréfamarkaði. Á fundi nefndarinnar 19. desember 2007 var meðal annars bókað eftir ákærða: „Lækkun á síðustu tveimur vikum eru 631 m.kr., sé ekki tekið tillit til LAIS er lækkunin 500 m.kr. ... Þessi vika er búin að vera erfið á mörkuðum en náðist að selja í LAIS á ágætu verði“. Á fundi 27. sama mánaðar var auk annars fært til bókar þegar fjallað var um kynningu ákærða: „Staða þróast jákvætt frá síðasta fundi. Innan við 100 m.kr. niður á Q4 að teknu tilliti til LAIS. Markaðir opna upp í dag og stefnir í að verðum réttu megin við núllið um áramótin.“ Hinn 23. janúar 2008 var eftirfarandi skráð í fundargerð eftir ákærða: „Heildarstaða niður um 5,4 ma.kr. ... frá áramótum, 4,8 ma.kr. ef LAIS staða er tekin út. Staða niður um 3,8 ma.kr. síðustu tvær vikur.“ Í fundargerð 6. febrúar sama ár var haft eftir ákærða: „Stóra myndin er sú að síðustu tvær vikur hafa komið ágætlega til baka. Fyrir utan LAIS bréf er staðan 2,4 ma.kr. niður á árinu.“ Á fundi viku síðar var fært til bókar eftir ákærða: „Síðasta vika var erfið á öllum mörkuðum. Staða niður um 1300 m.kr. síðustu vikuna ef tekið er tillit til Landsbanka bréfa. Frá áramótum er staðan niður um 3,9 ma.kr.“ Í fundargerð 27. sama mánaðar var frásögn ákærða af stöðunni lýst svo: „Síðustu tvær vikur eru í heild niður 82 m.kr. ... fyrir utan Landsbankann. Staðan á árinu er niður um 4 ma.kr. ef tekið er tillit til LAIS.“ Á fundi viku síðar, 5. mars 2008, var haft eftir ákærða: „Lækkun í vikunni er um 246 m.kr. án LAIS. Á árinu 4,2 ma. niður.“ Hinn 9. apríl sama ár var gerð svofelld grein fyrir umfjöllun ákærða um stöðuna: „Farið yfir niðurstöðu síðasta ársfjórðungs en staða er niður um 4,2 ma.kr. ... Draga verður 977 m.kr. frá vegna Landsbankabréfa.“ Í fundargerð 14. maí 2008 var skráð þegar fjallað var um kynningu ákærða á stöðunni: „Farið í þróun síðustu viku sem var viðunandi. Vika upp um 366 m.kr. ef ekki er tekið tillit til LAIS, ársfjórðungur upp um ca. 900 m.kr. þegar allt er tekið saman“. Á fundi hálfum mánuði síðar var bókað um umfjöllun ákærða um stöðuna: „Síðasta vika var mjög erfið á mörkuðum ... Vikan er niður um 548 m.kr. ef leiðrétt er fyrir Landsbankanum.“ Hinn 11. júní sama ár var kynningu ákærða á stöðunni lýst svo í fundargerð: „Síðustu tvær vikur er niður um rúmar 1,5 ma.kr. ef tekið er tillit til Landsbankabréfa og ársfjórðungur er því um 200 m.kr. í plús.“ Á fundi hálfum mánuði síðar var fært til bókar þegar gerð var grein fyrir kynningu ákærða: „Farið yfir síðustu tvær vikur. Niður um 1 ma.kr. sem er það sama og ársfjórðungurinn en án LAIS er staðan niður um 500 m.kr. á ársfjórðungnum.“ Í fundargerð 20. ágúst 2008 var haft eftir ákærða: „Síðasta vika upp um rúmar 800 m.kr. sé ekki tekið tillit til Landsbanka bréfa. Þessi ársfjórðungur er þá niður um 3,8 ma.kr. ... LAIS hefur verið að hækka síðustu vikuna en framboð hefur þornað upp og eftirspurn leiddi til hækkunar.“ Á fundi 24. september sama ár var bókað eftir ákærða: „Mikið magn af Landsbankabréfum hefur verið að fara inn á markaðinn.“ Í síðustu fundargerðinni, 1. október 2008, var meðal annars fært til bókar eftir ákærða: „Síðasta vika erfið á mörkuðum ef ekki tekið tillit til LAIS. Ársfjórðungur niður í heild um 8,3 ma.kr.“
Af málsgögnum verður ráðið að á tímabilinu frá 13. júní 2001 til 3. október 2008 hafi „eftir hvern bankadag“, eins og komist var að orði í bréfi þáverandi regluvarðar Landsbanka Íslands hf. til Fjármálaeftirlitsins 26. apríl 2010, verið tekin saman svonefnd „4–15 skýrsla“ sem send var ákærða Sigurjóni og HJK sem bankastjórum og nokkrum öðrum stjórnendum og starfsmönnum bankans með tölvupósti. Mun deild áhættustýringar í bankanum hafa tekið þessa skýrslu saman á ákærutímabilinu. Í bréfi regluvarðarins sagði: „Tilgangur skýrslunnar var að gefa mynd af þeirri markaðsáhættu sem bankinn hafði tekist á hendur hverju sinni.“
3
Meðal málsgagna eru tölvubréf, sem ákærðu Ívar, Júlíus og W hafa ýmist sent eða fengið, svo og upptökur af símtölum þeirra, sem stafa frá ákærutímabilinu og varða með einum eða öðrum hætti kaup eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. á hlutum í félaginu og skyldu bankans til flöggunar vegna þeirra viðskipta samkvæmt 93. gr. laga nr. 108/2007.
Að kvöldi 20. nóvember 2007 sendi ákærði Júlíus ákærða Ívari svofellt tölvubréf: „Keyptum netto 17,4 m að nv í LAIS í dag (meðalverð 37,05) og heildar eignin er þá 150 m að nv í lok dags. Lokagengið var 37,90. Hvaða svigrúm höfum við í framhaldinu í LAIS ef mkt heldur áfram í ræpu á morgun?“ Að kvöldi 27. febrúar 2008 framsendi ákærði Júlíus í tölvupósti til ákærða Ívars tölvubréf sem honum og ákærða W hafði rétt áður borist frá starfsmanni áhættustýringar Landsbanka Íslands hf. með fyrirsögninni: „Nálgumst flöggunarmörk í LAIS“. Upphaf tölvubréfsins var svohljóðandi: „Nálgumst flöggunarmörkin í eigin bréfum. Staðan við lok dags var 523 milljónir hluta eða 4,67% af útgefnu hlutafé, um 36 milljón hlutum frá flöggun.“ Af þessu tilefni lét Júlíus eftirfarandi orð fylgja um leið og hann framsendi tölvubréfið til Ívars: „Thad er ahyggjuefni hvernig stada mala er i lais. Verdum ekki lengi ad na floggunarmorkunum mv hvernig overhangid er og almenn stemmning a markadi. Hversu stift eigum vid ad taka a moti eigin brefum afram?“ Í símtali sama starfsmanns áhættustýringar við W að morgni 5. mars 2008 ræddu þeir um að hafa verið mjög nálægt flöggunarmörkum við lok markaðar daginn áður. Undir lok símtalsins spurði sá fyrrnefndi: „Er ekki ætlunin að flagga ekki eða?“ Því svaraði W: „Jú jú, það er, geri allt til að komast hjá því.“ Viðmælandinn svaraði: „Já já, mig grunaði það“. Síðdegis föstudaginn 14. mars 2008 sendi sami starfsmaður áhættustýringar tölvubréf til Júlíusar og W með fyrirsögninni: „Staðan í LAIS 4,85%“, þar sem sagði meðal annars: „Staðan í LAIS er 542,6 milljón hlutir, 4,85% eða 17 milljón hlutum frá flöggun ... Miðlun á eitthvað eftir að klára í dag. Veit samt ekki hvort það lækkar stöðuna. Veit að 3 milljónir eiga að fara yfir á valréttina. Skilst einnig að þessar 10 sem SG var með séu enn ófarnar út.“ Þremur dögum síðar, að morgni mánudagsins 17. sama mánaðar, sendi sami starfsmaður þeim Júlíusi og W tölvubréf með fyrirsögninni: „Staðan í LAIS 4,86%“, og hófst það þannig: „Update á þessu. EOD var 544,1 milljón hlutir eða 4,86%. 15,5 milljón hlutum frá flöggun.“ Þetta tölvubréf framsendi Júlíus til Ívars sem svaraði að bragði: „Sendu þetta líka ávallt á mig“. Annar starfsmaður áhættustýringar hringdi til Júlíusar skömmu eftir hádegi 11. september 2008 og sagði: „Þið eruð komnir hérna yfir 5% inn í LAIS.“ Því svaraði Júlíus: „Uhh við vitum allt um það.“ Viðmælandinn: „Þið vitið allt um það?“ Júlíus: „Já.“ Viðmælandinn: „Okei, hérna verður þetta flaggað eða er þetta að fara út aftur eða hvernig er þetta?“ Júlíus: „Uh ... þessu verður ekki flaggað.“ Síðan bætti hann við: „Og ... það er bara verið að vinna í því að koma þessu út.“ Fyrir hádegi 29. sama mánaðar ræddust W og sami starfsmaður áhættustýringar tvívegis við. Í fyrra símtalinu spurði W: „Heyrðu hérna, flöggunarmörk ... eigum við að flagga í Landsbankanum eða?“ Því svaraði viðmælandi hans: „Erum við ekki komnir yfir bara eftir þessar hreyfingar þarna í morgun?“ Í því síðara, sem átti sér stað tæpum tveimur klukkustundum síðar, spurði starfsmaður áhættustýringar: „Heyrðu hafið þið litið eitthvað á stöðuna hvað þið ætlið að gera?“ W: „Já hérna, við þurfum bara að sjá hvernig dagurinn spilast. Annars verðum við þá bara að flagga í lok dags ef ...“ Viðmælandinn: „Já. Nægir það eða? Hefðuð þið ekki þurft að gera þetta fyrir tíu eða?“ W: „Ég veit það ekki.“ Nokkru síðar í símtalinu sagði hann: „En þú veist þetta kom óvænt upp á sko. Þetta eru viðskipti sem gengu til baka. Þannig að það er alveg hægt að, hérna þú veist, við vissum ekkert af þessu.“ Viðmælandinn: „Nei, það er hægt að færa rök fyrir því að þetta hafi gerst líka í dag sko.“ W: „Já ... þú sendir meilið til okkar, eða eitthvað svoleiðis, 10 mínútur 10 eða eitthvað þannig. Þannig að, það hefði heldur ekki verið skynsamlegt að senda út flöggun án þess að vera búinn að átta sig á hvað staðan var sko.“ Viðmælandinn: „Nei nákvæmlega.“ W: „Það verður bara að meta stöðuna núna og, og það verður bara flaggað í lok dags ... ef þess þarf.“ Síðdegis sama dag sendi sami starfsmaður áhættustýringar tölvubréf til Júlíusar og W með fyrirsögninni: „LAIS staða yfir flöggunarmörkum – lokastaða dagsins“. Í tölvubréfinu var greint frá flöggunarstöðunni í lok dagsins sem væri alls „705,127,218 eða 6,3% af útgefnu hlutafé.“ Í svari Júlíusar sem sent var í tölvupósti með afriti til Ívars sagði: „Það verður trade á eftir. Munum ekki flagga.“ Síðdegis daginn eftir, 30. september 2008, kom meðal annars fram í tölvubréfi frá Júlíusi til Ívars: „Erum 53,6 að nv. yfir flöggunarmörkum m.v. að miðlun sé óbr. frá því í gær.“
Þá hefur verið lögð fram upptaka af símtali milli SG forstöðumanns verðbréfamiðlunar Landsbanka Íslands hf. og ákærða Júlíusar sem átti sér stað fyrir hádegi 14. mars 2008. Í símtalinu spurði SG: „Hvernig er staðan?“ Júlíus svaraði: „Þetta er að gappa aðeins upp, upp um tæpt prósent.“ Stuttu síðar sagði SG: „Já já, þetta verður fínt. Þetta, við erum að fara með þetta yfir 30 núna.“ Júlíus: „Eigum við ekki bara að stefna á að setja það yfir það?“ SG: „Jú 32-3. Það er fínt. Eða 35, bara eins og árslokagengið. Ef þú ert sáttur við það.“ Júlíus: „Já, er ekki fínt að fá þetta í eitthvað svoleiðis. Ég held það ... við þurfum að fá þá færri svona viðbjóðslega daga eins og í gær. Þetta var hræðilegur dagur maður.“ SG: „Já, en samt engin velta samt.“ Júlíus: „En, það er ... nei engin velta. En það sem er jákvætt í þessu og það sem maður er svona að skynja. Sjáðu fyrir 6 mánuðum ef að krónan hefði fallið um 4% hvað hlutabréfamarkaðurinn hefði gjörsamlega misst fæturna.“
Í málsgögnum er að finna tölvubréf frá forstöðumanni á lögfræðisviði Landsbanka Íslands hf. til ákærða Sigurjóns 13. mars 2008 með minnisblaði, sem forstöðumaðurinn og tveir aðrir starfsmenn bankans höfðu tekið saman 5. sama mánaðar um eigin hluti hans, en þar kom fram „niðurstaða af skoðun á möguleikanum að lækka hlutafé og hækka á einum og sama hluthafafundi.“ Í upphafi minnisblaðsins sagði: „Landsbanki Íslands hf. á talsvert stóran hlut af eigin hlutabréfum um þessar mundir. Talsverðar hræringar hafa verið á fjármálamörkuðum og hætt er við að ef reynt verður að losa umrædda hluti út á markað muni það valda talsverðri verðlækkun á gengi bankans með tilheyrandi auknum óróa. Leita þarf leiða til að losna við hlutina með öðrum aðferðum en sölu ... Spurning er hvort unnt er að lækka hlutafé Landsbankans með ákvörðun hluthafafundar og hækka það síðan aftur með útgáfu jöfnunarhluta þannig að heildarhlutafé eftir fundinn sé hið sama og fyrir fundinn. Meta þarf hvort slík aðferð sé tæk eftir hlutafélagalögum annars vegar og hver skattaleg áhrif hennar eru hins vegar.“
Þá hafa verið lögð fram tvö tölvubréf sem ákærði Sigurjón sendi BTB í ágúst og september 2008. Með fyrra tölvubréfinu 22. ágúst 2008 fylgdi kynning á því í formi glæra hvernig haga mætti hugsanlegri sameiningu Landsbanka Íslands hf. og Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf., en sá banki mun að stórum hluta hafa verið í eigu félaga sem BTB og BG réðu yfir. Síðara tölvubréfinu 17. september 2008 fylgdi minnisblað sem ákærði hafði tekið saman um þennan hugsanlega samruna bankanna tveggja. Þar sagði meðal annars: „Kjarni málsins er að það er of mikið flot á bréfum hvors banka fyrir sig, þ.e. okkur vantar í endakaupendur af bréfum sem og fjármögnunaraðila á bréfin almennt ... Landsbankinn á erfitt með að kaupa meira af eigin bréfum án eiginfjáraukningar ... Sameining við Landsbanka býður hins vegar upp á að færa eiginfjárhlutfallið sameinaðs banka í c.a. 11% en við það losnar um ríflega 600 milljónir evra af eigin fé. Þetta er einmitt það eigið fé sem við höfum gert ráð fyrir að nota annars vegar í að þurrka upp eigin bréf og hins vegar til að leysa ákv. mál ... Jafnframt verður að hafa í huga að skv. reglum eru báðir bankarnir takmarkaðir af því að fjármagna eigin bréf við 10% af nafnverði hlutafjár. Það eru hins vegar minni takmarkanir á að fjármagna bréf hvors annars beint og óbeint ... Þetta hafa bankarnir verið að gera í töluverðum mæli. Þannig að það er umtalsvert magn af rými til fjármögnunar hlutabréfa sem fellur út við sameiningu þar sem lán út á Straumsbréf koma til með að flokkast sem lán út á eiginbréf eftir sameiningu og lán út á Landsbankabréf í Straumi verða lán út á eigin bréf í sameinuðum banka ... Þegar þetta er skoðað þá verður niðurstaðan sú að lán út á Straumsbréf/Samson Global í Landsbanka sem verði áfram til eftir sameininguna og lán í Straumi út á Landsbanka/Samson ehf. verða um 10% af hlutafé sameinaðs banka. Þetta er auðvitað vandamál þar sem til viðbótar eru auðvitað núverandi lán Landsbankans út á eigin bréf sem verða eftir sameininguna um 7-8% af heildarbréfum bankans þrátt fyrir að ég geri ráð fyrir að fella niður umtalsvert magn bréfa. Samtals er þetta um 17-18% sem auðvitað er nokkuð yfir 10% mörkunum. Þetta verður ekki leyst nema í samvinnu við KB og Glitni. En í því samhengi er rétt að muna að við erum núna að semja við Glitni um að taka 27 milljarða á Samson ehf. sem ekki er meðtalið í þessari umræðu.“
4
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi kom fram í bréfi kauphallarinnar til Fjármálaeftirlitsins 27. janúar 2009 að hún hafi haft til athugunar verðmyndun með hlutabréf stærstu viðskiptabanka landsins, þar á meðal Landsbanka Íslands hf. Í bréfinu sagði: „Kauphöllin hefur veitt því athygli að þegar skoðuð eru viðskipti þeirra miðlara innan bankanna sem áttu viðskipti fyrir hönd eigin reiknings (eigin viðskipti) á sl. mánuðum virðist sem það magn hlutabréfa sem keypt var í eigin félagi hafi verið umtalsvert meira heldur en það sem var selt. Á stundum þar sem mikill almennur söluþrýstingur var á hlutabréfamarkaði, innlendum sem erlendum, sérstaklega gagnvart bönkum og fjármálafyrirtækjum, og í kjölfar birtingar á fréttum sem undir eðlilegum kringumstæðum teldust neikvæðar, allt að því einokuðu eigin viðskipti bankanna kauphlið tilboðabókar eigin félags. Slíkur kaupþrýstingur getur eðli málsins samkvæmt haft talsverð áhrif á verðmyndun hlutabréfanna. Til þess að kanna viðskiptahætti eigin viðskipta bankanna nánar voru tekin saman öll viðskipti í Kauphöllinni með hlutabréf hvers banka fyrir sig, yfir tímabilið 02.05.2008 – 03.10.2008. Tímabilið var valið með hliðsjón af þeim hremmingum sem höfðu átt sér stað á fjármálamörkuðum auk mikillar veltuhlutdeildar bankanna í hlutabréfum eigin félags á tímabilinu. Þó skal þess getið að þátttaka eigin viðskipta bankanna í tilboðabókum sinna félaga var einnig umtalsverð á fyrrihluta ársins. Að mati Kauphallarinnar fæst í þessu tilviki skýrust mynd af hegðun viðkomandi kauphallaraðila með því fyrst og fremst að skoða viðskipti sem verða til við sjálfvirka pörun tilboða í viðskiptakerfi Kauphallarinnar (e. autotrades), eða m.ö.o. þegar horft er framhjá tilkynntum viðskiptum. Tilkynnt viðskipti hafa ekki áhrif á síðasta viðskiptaverð nema þau séu innan verðbils og eru verðáhrif slíkra viðskipta því takmörkuð ... Vankanturinn á þessari aðferðarfræði er sá að þegar skoða á nettó kaup eða sölu á tímabilinu er vantalið það magn sem keypt er, eða selt, utan tilboðabókarinnar og tilkynnt síðan í viðskiptakerfið. Nánar verður þó vikið að þessum þætti hér á eftir.“ Í bréfi kauphallarinnar var síðan gerð grein fyrir viðskiptum hvers banka um sig, þar á meðal Landsbanka Íslands hf., í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á umræddu tímabili og þar að auki sérstaklega viðskiptum þeirra í opnunar- og lokunartilboðum. Að því búnu var tekið fram í bréfinu: „Til þess að fá heilsteypta mynd af viðskiptaháttum eigin viðskipta bankanna er nauðsynlegt að líta ekki aðeins til viðskipta sem verða til við pörun tilboða í viðskiptakerfi Kauphallarinnar heldur einnig til tilkynntra viðskipta. Eins og fram hefur komið hér að framan eru kaup bankanna umfram sölu umtalsverð, þegar einungis eru skoðuð viðskipti sem orðið hafa við pörun tilboða. Sá möguleiki er aftur á móti fyrir hendi að eigin viðskipti bankanna hafi smám saman, eða í nokkrum stórum viðskiptum, selt þá hluti sem keyptir voru á tímabilinu með því að semja við aðra aðila, hvort sem um viðskiptavini eða aðra kauphallaraðila er að ræða, utan tilboðabókanna og tilkynna viðskiptin í kjölfar þess í viðskiptakerfið ... Þegar viðskipti eru tilkynnt í viðskiptakerfi Kauphallarinnar kemur ekki fram hver sé kaupandi og seljandi heldur einungis auðkenni miðlarans. Í tilvikum þar sem mótaðili viðskiptanna er einnig kauphallaraðili og samið er um að hvor aðilinn tilkynni sinn legg viðskiptanna er aftur á móti hægt að sjá auðkenni hvors miðlara fyrir sig, en ekki upplýsingar um hinn endanlega viðskiptavin – sem getur allt eins verið annar miðlari. Tilkynni starfsmaður eigin viðskipta viðskipti eru því mjög takmarkaðar leiðir til þess að sjá hvort um kaup eigin viðskipta eða sölu sé að ræða. Að auki geta aðrir kauphallaraðilar, eða miðlarar hjá sama kauphallaraðila, tilkynnt viðskipti þar sem eigin viðskipti bankanna eru hinn endanlegi kaupandi eða seljandi, m.ö.o. þar sem eigin viðskipti bankanna væru viðskiptavinur viðkomandi miðlara.“
Þess hefur áður verið getið að 19. október 2010 beindi Fjármálaeftirlitið kæru til sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar 18 fyrrverandi starfsmanna Landsbanka Íslands hf., þar á meðal ákærðu, með hlutabréf félagsins á tímabilinu frá maí 2003 til október 2008. Í kærunni kom fram að Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á málinu í kjölfar framangreinds erindis frá kauphöllinni. Rannsóknin hafi meðal annars leitt í ljós að starfsmenn eigin fjárfestinga bankans hafi á þessu tæplega fimm og hálfs árs tímabili keypt samtals 3,3 milljarða hlutabréfa sem útgefin voru af bankanum „nettó á markaði með sjálfvirkri pörun ... eða um 30% af útgefnu hlutafé bankans.“
Í kæru Fjármálaeftirlitsins var gerð svofelld grein fyrir sjálfvirkum pörunarviðskiptum: „Sjálfvirk pörun verður til í viðskiptakerfi kauphallar þegar samsvörun verður milli tilboða kaupenda og seljenda í tilboðabók. Í kerfinu verða til skrár yfir æskilegt verð (e. desired price) og magn í mismunandi kaup- og sölutilboðum sem miðlarar, sem hafa aðgang að kerfinu, setja inn. Þegar samsvörun verður milli tilboða kaupanda og seljanda verður til sjálfvirk pörun viðskiptanna og verðbréfin skipta um hendur. Sjálfvirk pörun viðskipta er því drifkrafturinn í að til verði markaðsverð verðbréfa á skipulegum verðbréfamarkaði. Þegar sjálfvirk pörun tekst verður til síðasta viðskipta- eða markaðsverð verðbréfsins og þar með einnig það verð sem notað er til útreikninga í verðbréfavísitölum. Í raun verður markaðsverð verðbréfa til við sjálfvirka pörun ... Til að hafa áhrif á markaðinn með sjálfvirkri pörun í kauphöll, þarf verðbréfasalinn stöðugt að uppfæra kauptilboð sitt svo það samsvari næsta sölutilboði í tilboðabókinni. Með því verður alltaf til kauptilboð sem samsvarar næsta sölutilboði og markaðsverðið, sem er síðasta greidda verð, ýmist hækkar, stendur í stað eða lækkar hægar en það hefði ella gert ef verðbréfasalinn hefði ekki verið til staðar. Án verðbréfasalans hefðu aðrir væntanlegir kaupendur að öllum líkindum ekki keypt hlutabréfin á því verði sem seljandinn bauð og verðið hefði lækkað til að mæta lægri kauptilboðum.“ Þá var í kærunni eftirfarandi lýsing á ferli viðskipta sem talið var að eigin fjárfestingar og verðbréfamiðlun Landsbanka Íslands hf. hefðu staðið að: „Það er álit Fjármálaeftirlitsins að fyrrgreind svið ... hafi á tímabilinu maí 2003 – október 2008 unnið saman og búið til feril viðskipta í þeim tilgangi að hafa áhrif á markaðsverð hlutabréfa útgefnum af bankanum sjálfum. Fjármálaeftirlitið telur að ferillinn hafi falist í því að kaupa stöðugt hlutabréf á markaði og selja þau síðan utan markaðar. Þessi aðferð sem var bæði skipulögð og kerfisbundin virðist hafa verið notuð í þeim tilgangi að hafa áhrif á verð hlutabréfanna ... Algengt var að verðbréfasalar EFL fóru af krafti inn á markaðinn. Þeir voru á kauphliðinni í mörgum viðskiptum og notuðu til þess fjármuni bankans, að því er virðist í þeim tilgangi að hækka verð eða viðhalda verði hlutabréfa í Landsbankanum. Þessi aukna eftirspurn varð til þess að styðja við verðið (þegar verð lækkaði á markaði) eða hækka verðið (þegar verð var stöðugt eða hækkandi) þar sem það er fyrst og fremst við sjálfvirka pörun viðskipta í Kauphöll sem markaðsverð verður til. Áhrifaríkasta leið verðbréfasala, sem vill styðja við eða hreyfa við hlutabréfaverði, er að vera á kauphliðinni í eins mörgum viðskiptum og hann getur í viðskiptakerfi kauphallar. Með því styður hann við verðið í hverjum viðskiptum fyrir sig. Það er álit Fjármálaeftirlitsins að verðbréfasalar EFL hafi haft þennan háttinn á ... Vandamálið við að kaupa ítrekað hlutabréf útgefið af fjármálafyrirtækinu sjálfu er að því er óheimilt að eiga eða taka að veði meira en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins ... Þegar reynt er að hafa áhrif á hlutabréfaverð með miklum kaupum á hlutabréfum er því oftast sjálfhætt, þar sem líklegast er að tap myndist þegar reynt er að selja uppsöfnuðu hlutabréfin í kauphöll. Miðlun Landsbankans var að mati Fjármálaeftirlitsins hjálparhöndin í þessu ferli. Miðlunin hafði aðgang að viðskiptavinum sem sumir fengu óeðlilegar lánafyrirgreiðslur frá lánadeildum bankans. Miðlararnir gátu því selt mikið af þessum hlutabréfum til „útvalinna“ viðskiptavina. Margir þeirra tóku litla eða enga áhættu við kaupin þar sem kaupin voru fjármögnuð að fullu með lánum frá bankanum og voru án annarra trygginga en veða í sjálfum hlutabréfunum ... Hér virðist því vera um tvenns konar óeðlileg áhrif að ræða, fyrst umfangsmikil kaup á opnum markaði til að styðja við hlutabréfaverðið og síðan losun á þessum bréfum með sýndarviðskiptum á verði sem var undir áhrifum af kaupum EFL.“
Í kærunni var því nánar lýst hvernig hin ætlaða markaðsmisnotkun hefði verið upp byggð, bæði með kaupum og sölu Landsbanka Íslands hf. á hlutabréfum útgefnum af félaginu sjálfu. Þar sagði meðal annars um kauphliðina á grundvelli upplýsinga um kaup eigin fjárfestinga bankans á slíkum hlutabréfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í kauphöllinni umfram sölu í þeim viðskiptum: „Fjármálaeftirlitið telur að EFL hafi stutt við verð hlutabréfa Landsbankans með því að auka kaup sín á bréfunum svo um munar þegar verð þeirra tók að lækka ... Eðlilegt verð á bréfum Landsbankans var aldrei vitað sökum verðstuðnings EFL við bréfin. Verð bréfanna hefði samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn lækkað mun hraðar og fyrr hefði ekki verið fyrir tilstilli falskrar eftirspurnar EFL ... Viðskipti með sjálfvirkri pörun geta verið á tvo vegu: sá aðili sem kaupir gengur að sölutilboði þess sem vill selja eða öfugt ... Allt þar til í lok árs 2007 voru flest viðskipti að frumkvæði mótaðila og telur Fjármálaeftirlitið að EFL hafi verið að dempa verðsveiflur bréfanna, þ.e.a.s. EFL var alltaf tilbúið með kauptilboð rétt undir síðasta viðskiptaverði. Frá nóvember 2007 og fram að falli bankans var verðið í frjálsu falli. „Gólf“ ... EFL réðu ekki við að halda verðinu uppi og telur Fjármálaeftirlitið að þá hafi EFL reynt að hækka verð bréfanna með því að ganga á sölutilboðahliðina, þ.e.a.s. EFL fór að kaupa meira að eigin frumkvæði til þess að hækka verðið. Þegar framboð er meira en eftirspurn á verð undir eðlilegum kringumstæðum að lækka. EFL beitti ákveðinni aðferð til þess að koma í veg fyrir þessa eðlilegu þróun. Aðferðin var sú að þegar framboð á bréfum var mikið röðuðu EFL inn kauptilboðum á verði nálægt síðasta viðskiptaverði og voru alltaf tilbúnir að kaupa bréfin á því gengi sem þeir vildu halda bréfunum á. Þannig gátu þeir komið í veg fyrir verðlækkun eða a.m.k. hægt á henni ... EFL voru virkir í viðskiptum með eigin hlutabréf og voru þátttakendur í um 14 – 20% af heildarveltu þeirra hvert ár frá 2003 – 2007 en árið 2008 var hlutfallið mun hærra eða u.þ.b. 53%. Árið 2006 var metár hvað varðar veltu með hlutabréf Landsbankans en árið eftir dróst veltan mikið saman. Það sama hefði að öllum líkindum gerst árið 2008 ef ekki hefði verið fyrir tilstilli EFL ... Þar sem EFL var svo stór aðili á markaði með hlutabréf Landsbankans á þessum árum gaf magn og seljanleiki bréfanna ranga mynd af raunverulegu virði þeirra.“
5
Í skýrslu sérstaks saksóknara um rannsókn málsins, sem sakargiftir á hendur ákærðu eru reistar á, er línurit sem sýnir kaup eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. á hlutabréfum útgefnum af félaginu, umfram sölu, sem hlutfall af heildarveltu í sjálfvirkri pörun í Kauphöll Íslands á tímabilinu frá 1. maí 2003 til 3. október 2008. Á línuritinu eru sýnd nettóviðskipti í sjálfvirkri pörun í hverjum mánuði, auk gengis hlutabréfanna í lok hvers mánaðar. Í nýju skjali, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt af hálfu ákæruvaldsins og endurspeglar línuritið, koma fram nettó viðskipti eigin fjárfestinga með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í sjálfvirkri pörun í kauphöllinni í hverjum mánuði frá maí 2003 til október 2008, miðað við nafnverð hlutabréfanna eða fjölda hluta í félaginu, svo og lokagengi bréfanna í lok hvers mánaðar á sama tímabili. Á þessu skjali sést að kaup eigin fjárfestinga á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. umfram sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum voru oft lítil frá miðju ári 2003 fram í október 2007 í samanburði við þann tíma, sem ákært er fyrir, og í einstaka mánuði voru hlutirnir, sem keyptir voru, færri en þeir sem seldir voru. Það átti sér síðast stað í október 2007 þegar sá mismunur nam 1.502.012 hlutum. Nettó kaup eigin fjárfestinga voru óvenju mikil í október 2004, 88.021.633 hlutir, þegar gengi hlutabréfanna lækkaði úr 14,00 krónum á hlut frá lokum september í 12,65 krónur í októberlok. Sama gerðist í mars 2006, en þá námu kaupin 86.966.733 hlutum meðan gengið lækkaði úr 28,90 í 24,50. Reyndar voru nettó kaup á öllu árinu 2006 miklum mun meiri en árin áður sem sést á því að árið 2005 námu þau samtals 192.696.536 hlutum, en 438.541.388 hlutum árið 2006. Á því síðarnefnda lækkaði gengi hlutabréfanna ört framan af árinu, úr 25,30 frá árslokum 2005 í 20,20 í lok júní 2006, en á þeim tíma voru keyptir samtals 349.349.966 hlutir umfram þá sem seldir voru. Fyrstu tíu mánuði ársins 2007, þegar gengið hækkaði úr 26,50 frá árslokum 2006 í 43,80 í lok október 2007, voru nettó kaup eigin fjárfestinga í lágmarki þar sem þau námu samtals 83.018.767 hlutum. Þetta breyttist hins vegar í nóvember og desember þetta ár þegar nettókaup í hvorum mánuði um sig voru um 80% af því sem þau námu samtals á tíu mánaða tímabilinu á undan. Í nóvember 2007 tók gengi hlutabréfanna að lækka. Það lækkaði svo enn meira þegar kom fram á árið 2008, en að sama skapi jukust kaupin eftir því sem á árið leið og náðu hámarki í september og október það ár. Þó dró nokkuð úr kaupunum í apríl og ágúst eftir að gengið hafði hækkað lítillega frá lokum febrúar annars vegar og lokum júlí hins vegar. Þegar horft er á línuritið sést glöggt eins og lýst hefur verið að á öllu því árabili, sem það nær yfir, er augljós fylgni milli þess hvernig gengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. hreyfðist og þess hvernig eigin fjárfestingar bankans höguðu viðskiptum sínum í sjálfvirkri pörun í kauphöllinni. Þegar gengið hækkaði var dregið úr kaupunum, en þegar það lækkaði jukust kaupin og urðu þeim mun meiri eftir því sem gengið féll meira.
Samkvæmt ákæru keyptu eigin fjárfestingar Landsbanka Íslands hf. 2.325.395.153 hluti af þeim 4.801.255.966 hlutum í félaginu sem viðskipti voru gerð með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í kauphöllinni á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 3. október 2008 eða 48,4% af heildarveltu með hlutina í þeim viðskiptum á þessum liðlega ellefu mánuðum. Á sama tíma hafi deildin aðeins selt 57.213.029 hluti í félaginu eða 1,2% af heildarveltunni. Sagði í ákærunni að kaup umfram sölu hafi því samtals numið 47,2% af heildarveltu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf., samtals 2.268.182.124 hlutum eða 56.240.113.876 krónum að markaðsvirði. Þar af hafi kaup umfram sölu verið 46% af heildarveltu með hlutabréf í félaginu í opnunaruppboðum og kaup umfram sölu 63% af heildarveltunni í lokunaruppboðum. Nafnverð kauptilboða eigin fjárfestinga bankans í hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. hafi á fyrrgreindu tímabili numið 43% af heildarnafnverði kauptilboða í hlutabréfin, en nafnverð sölutilboða deildarinnar í þau hlutabréf aðeins um 3% af heildarnafnverði sölutilboða. Samtals hafi kaup eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. á hlutabréfum í félaginu, umfram sölu, á tímabilinu verið um 20% af öllu útgefnu hlutafé þess. Í töflu í ákærunni var að finna skiptingu á framangreindum nettóviðskiptum á umræddu tímabili eftir mánuðum. Þar kom fram að þau hafi tekið til 67.705.455 hluta eða 15% af heildarveltu í þeim viðskiptum í nóvember 2007, 67.214.212 hluta eða 33% af heildarveltunni í desember sama ár, 195.885.014 hluta eða 39% af heildarveltunni í janúar 2008, 171.587.476 hluta eða 44% af heildarveltunni í febrúar sama ár, 154.885.306 hluta eða 42% af heildarveltunni í mars, 57.700.747 hluta eða 19% af heildarveltunni í apríl, 137.995.707 hluta eða 43% af heildarveltunni í maí, 241.609.648 hluta eða 57% af heildarveltunni í júní, 125.348.530 hluta eða 50% af heildarveltunni í júlí, 64.867.026 hluta eða 48% af heildarveltunni í ágúst, 569.989.300 hluta eða 61% af heildarveltunni í september og loks 413.393.703 hluta eða 79% af heildarveltunni í október 2008, en þann mánuð stóðu viðskiptin sem fyrr segir aðeins þrjá fyrstu dagana. Í tveimur öðrum töflum í ákærunni var gerð grein fyrir viðskiptum og tilboðum ákærðu Júlíusar og W fyrir hönd eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. í hlutabréf í félaginu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í kauphöllinni á því tímabili sem um ræðir, skipt eftir mánuðum. Ákærðu sáu um slík viðskipti þar sem kaup umfram sölu námu í tilviki Júlíusar samtals 1.696.804.179 hlutum eða 35% af heildarveltu viðskiptanna og hjá W samtals 537.937.956 hlutum eða 11% af heildarveltunni. Í fjórðu töflunni, sem er að finna í ákærunni, voru umrædd viðskipti sundurliðuð eftir viðskiptadögum sem voru alls 228 talsins á tímabilinu sem hún spannar. Flesta dagana keypti annar hvor ákærðu eða báðir hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. Yfirleitt var um að ræða kaup umfram sölu á bréfunum og oftast nær munaði þar miklu. Í töflunni voru einnig upplýsingar um skráð gengi hlutabréfanna í lok hvers viðskiptadags. Þar kom meðal annars fram að gengið var 43,40 krónur á hlut 1. nóvember 2007, 37,60 krónur 30. sama mánaðar, 35,50 krónur 28. desember sama ár, 30,80 krónur 31. janúar 2008, 26,80 krónur 29. febrúar sama ár, 29,60 krónur 31. mars, 29,90 krónur 30. apríl, 25,20 krónur 30. maí, 23,10 krónur 30. júní, 22,80 krónur 31. júlí, 24,00 krónur 29. ágúst, 20,40 krónur 30. september og loks 19,90 krónur 3. október 2008 þegar viðskiptum með hlutabréf í félaginu var hætt. Af gögnum, sem lögð hafa verið fram í málinu, verður ráðið að ákærðu Júlíus og W hafi samtals komið að um 5.400 viðskiptum með hluti í Landsbanka Íslands hf. í sjálfvirkri pörun í kauphöllinni á ákærutímabilinu.
Svo sem áður er fram komið var vísað til þess í ákærunni að hin miklu kaup eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. á hlutabréfum í félaginu, sem rakin hafa verið, hafi leitt til þess að hlutabréfin söfnuðust upp hjá bankanum. Meðal annars vegna skyldu til flöggunar hafi þurft að losa bankann við bréfin til að unnt væri að halda áfram kaupunum. Í röksemdum fyrir málsókninni var greint frá því að gripið hefði verið til ýmissa ráða í því skyni. Í fyrsta lagi með því að skipta við Straum-Burðarás Fjárfestingabanka hf. á eigin hlutabréfum á tímabilinu frá 17. til 31. mars 2008 þar sem eigin fjárfestingar Landsbanka Íslands hf. hafi selt 201.000.000 hluti í félaginu til Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. og keypt í staðinn 507.000.000 hluti í því félagi í utanþingsviðskiptum. Í öðru lagi hafi hlutafé í Landsbanka Íslands hf. verið lækkað um 300.000.000 hluti með ákvörðun aðalfundar félagsins 23. apríl 2008. Í þriðja lagi hafi Landsbanki Íslands hf. selt 91.000.000 hluti í félaginu til Hunslow S.A. í utanþingsviðskiptum 12. september 2008 og hafi þau kaup verið að fullu fjármögnuð með því að hinu erlenda félagi hafi verið veitt lán frá dótturfélagi bankans í Luxembourg, en bankinn sjálfur ábyrgst endurgreiðslu lánsins. Í fjórða lagi hafi Landsbanki Íslands hf. skipst á eigin hlutabréfum við Glitni banka hf. á tímabilinu 17. til 30. september 2008 þar sem eigin fjárfestingar fyrrnefnda bankans hafi selt 168.000.000 eigin hluti og keypt þess í stað 462.000.000 hluti af Glitni banka hf. í því félagi í utanþingsviðskiptum. Í fimmta lagi hafi Landsbanki Íslands hf. selt 210.000.000 hluti í félaginu til Pro-Invest Partners Corp. í utanþingsviðskiptum 30. september 2008 og hafi kaupin verið að fullu fjármögnuð með því að hinu erlenda fyrirtæki hafi verið veitt lán frá dótturfélagi bankans í Luxembourg, en bankinn sjálfur ábyrgst endurgreiðslu lánsins. Í sjötta lagi hafi Landsbanki Íslands hf. selt 250.000.000 hluti í félaginu til Imon ehf. í utanþingsviðskiptum 30. september 2008 og hafi kaupin verið að fullu fjármögnuð með láni frá bankanum sjálfum. Í sjöunda lagi hafi Landsbanki Íslands hf. selt 200.000.000 hluti í félaginu til sama einkahlutafélags í utanþingsviðskiptum 3. október 2008, en fyrirhugað hafi verið að viðskiptin yrðu að fullu fjármögnuð með láni frá bankanum sjálfum. Loks í áttunda lagi hafi Landsbanki Íslands hf. sama dag selt 199.000.000 hluti í félaginu til Azalea Resources Ltd. í utanþingsviðskiptum, en fyrirhugað hafi verið að viðskiptin væru að fullu fjármögnuð með láni frá bankanum sjálfum. Með þessum hætti hafi Landsbanki Íslands hf. losnað við 1.619.000.000 eigin hluti sem numið hafi 71% af þeim 2.268.182.124 hlutum í félaginu er eigin viðskipti bankans hafi keypt umfram sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í kauphöllinni á tímabilinu sem ákæran nær yfir. Þar af hafi bankinn losað sig við 1.319.000.000 hluti í utanþingsviðskiptum þeim sem að framan greinir.
Ákærðu hafa lagt fyrir Hæstarétt skjal með línuriti, áþekku því sem áður er lýst, þar sem fram koma viðskipti eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. með hlutabréf í félaginu á tímabilinu frá 1. maí 2003 til 3. október 2008 og þróun gengis bréfanna á sama tíma. Munurinn er sá að á hinu nýja línuriti eru sýnd öll kauphallarviðskipti deildarinnar með eigin hluti bankans á tímabilinu, ekki aðeins í sjálfvirkum pörunarviðskiptum þar sem miðað er við kaup umfram sölu, heldur einnig í utanþingsviðskiptum sem tilkynnt voru til kauphallarinnar. Í skýringum með skjalinu er tekið fram að sjálfvirk pörunarviðskipti hafi að jafnaði verið um eða innan við helmingur kauphallarviðskiptanna í heild. Í töflu, sem fylgir línuritinu, koma fram kaup eigin fjárfestinga á hlutum í Landsbanka Íslands hf., umfram sölu, í heildarviðskiptunum skipt eftir mánuðum. Ef tekin eru saman viðskiptin á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 3. október 2008, sem ákæran tekur til, hefur deildin keypt 170.196.480 hluti umfram þá sem hún seldi á þeim tíma.
6
Í hinum áfrýjaða dómi er rakinn í megindráttum framburður ákærðu fyrir héraðsdómi. Hér á eftir verður vitnað til einstakra ummæla ákærðu Sigurjóns, Ívars og Júlíusar fyrir dómi til að varpa skýrara ljósi á atvik málsins.
Í upphafi skýrslu sinnar vék ákærði Sigurjón meðal annars að því að Landsbanki Íslands hf. hefði haft viðskiptavakt í eigin hlutabréfum áður hann hafi ráðist til starfa sem bankastjóri 2003, en þangað kom hann úr starfi hjá Búnaðarbanka Íslands hf. Sagði ákærði að það hefði verið „viðskiptavakt á bréfum Búnaðarbankans. Og ég held meira að segja að Ívar hafi séð um hana ... og hans menn. Hann var að vinna í Búnaðarbankanum. Og það var viðskiptavakt í Landsbankanum sem aðrir sáu um og hann tók seinna við, þegar hann byrjaði að vinna og hans menn. Hvort að þessi viðskiptavakt var skráð eða hefur verið tilkynnt ... það var bara aldrei nokkru sinni ... rætt. En ég held til dæmis í Búnaðarbankanum hafi hún aldrei formlega verið tilkynnt.“ Spurður síðar hvort honum hafi verið kunnugt um að Landsbanki Íslands hf. hefði verið með viðskiptavakt í eigin bréfum svaraði ákærði að sér hafi verið „kunnugt um það. Ég tel að allir bankar á Íslandi hafi verið með vakt í eigin bréfum.“ Hann kvaðst halda að „allir stórir fjárfestar“ hefðu örugglega vitað það, allir „sem eru kallaðir fagfjárfestar. Ég skal ekki fullyrða að ... hver einasti Íslendingur hafi verið með það á hreinu.“ Aðspurður hvernig aðrir hafi átt að átta sig á þessu svaraði ákærði: „Ég held að konan í Vesturbænum ... myndi ekki hafa vitað þetta. En allir svona þessir stóru fagfjárfestar ... þeir áreiðanlegu vissu af því, vegna þess að ... þeir eru alltaf að tala við miðlarana og allir miðlararnir vissu þetta.“ Fyrir dómi sagðist ákærði hafa þekkt ákærða Ívar ágætlega þar sem þeir hafi unnið saman í […] hf. Eftir að þeir hófu störf í Landsbanka Íslands hf. hafi samskipti þeirra fyrst og fremst verið í fjármálanefnd bankans sem haldið hafi vikulega fundi. Spurður nánar um samstarf þeirra tveggja sagði ákærði að þeir hafi þurft að ræða saman milli þeirra funda, til dæmis um „allar óskráðar stöður“ sem leggja hafi þurft fyrir fundi nefndarinnar. Þá kvaðst ákærði hafa verið stjórnarformaður í þeim verðbréfafyrirtækjum sem bankinn hafi átt á erlendri grundu, þar með talið í Frakklandi, og hafi hann verið með ákærða Ívari „í því að byggja upp þá frönsku einingu“.
Ákærði Ívar kvaðst hafa séð „um að stýra öllum hlutabréfafjárfestingum Landsbankans ... það voru öll hlutabréf, bæði skráð og óskráð. Það voru innlend, erlend hlutabréf.“ Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi sagðist ákærði hafa gefið starfsmönnum sínum almenn fyrirmæli, en þeir hefðu að öðru leyti verið mjög sjálfstæðir í störfum sínum. Spurður hvort undirmenn hans hefðu þurft að bera undir hann ákvarðanir um viðskipti, sem farið hafi fram úr tilteknum fjárhæðamörkum, svaraði ákærði meðal annars: „Þeir báru oft ... hluti undir mig. Enda ... þá kom ég að stærri viðskiptum.“ Síðar bar ákærði aðspurður um samskipti sín við ákærðu Júlíus og W: „Þá ráðfærðu þeir sig oft við mig ... spurðu um mína skoðun“. Um samskiptin við þessa undirmenn sína að því er varðaði þau viðskipti, sem þeir voru að gera hverju sinni, fórust ákærða meðal annars svo orð: „Þá var svona í stærri viðskiptum, kom ég að þeim ... og ef ég var nálægur ... þá báru þeir oft undir mig verð í kannski magn í einhverjum svona tilkynntum viðskiptum og það gat auðvitað sveiflast í ... upphæðum. Og ef ég var nálægur þá spurðu þeir mig stundum um álit eða raunverulega létu mig ... vita eða ... spurðu mig álits um verðið í viðkomandi viðskiptum.“ Í héraðsdómi kemur fram að ákærði Ívar hafi borið að sú regla að eign Landsbanka Íslands hf. í eigin hlutabréfum mætti ekki fara yfir 5% hafi komið frá fjármálanefnd bankans. Fyrir dómi kvað ákærði starfsmenn sína hafa verið „með skýr fyrirmæli frá mér um það að þeir ættu ekki að fara yfir 5%.“ Að sögn ákærða bar áhættustýring bankans ábyrgð á því að „fylgjast með flöggunum og gerði strákunum viðvart ef ... það var eitthvað tæpt.“ Spurður hvort hann hafi gert eitthvað þegar borist hafi upplýsingar um að eign bankans í eigin bréfum væri jafnvel komin yfir flöggunarmörk svaraði ákærði: „Nei ... ég gerði ekkert sérstakt sjálfur. Ekki annað en það að tryggja það að ... menn respekteruðu þetta, bara almennt. Þeir voru mjög vel meðvitaðir um það að það var ekki ... eitthvað sem átti að gerast. Þeir áttu ekki að fara yfir ... 5%. En þetta var auðvitað svolítið erfitt stundum vegna þess að þegar þú ert að stýra einhverri afleiddri stærð af því hvað einhverjir aðrir gera ... og þess vegna er það áhættustýringin sem að horfir yfir allar bækur sem að ber ábyrgð á því. Hún er eina unitið sem getur borið ábyrgð á því að menn flaggi ef að það er orðin staðan.“ Undir lok skýrslutökunnar var ákærði inntur eftir því hvernig samskiptum hans við ákærða Sigurjón hafi verið háttað. Svaraði hann því til að bankastjórinn hafi verið mjög upptekinn og því erfitt að ná í hann, en þó mundi ákærði eftir að hann hafi nokkrum sinnum hringt til sín.
Í héraðsdómi er vísað til þess framburðar ákærða Júlíusar fyrir dómi að komið hafi fyrir að hann hafi fengið bein fyrirmæli frá ákærða Ívari um að setja fram ákveðinn fjölda kauptilboða í tilboðabók kauphallarinnar. Spurður hvernig hann hafi upplýst þennan yfirmann sinn um kaup sín á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. svaraði ákærði Júlíus: „Við vorum líka að selja Landsbankabréf, við vorum ekki bara að kaupa. Við vorum stanslaust að kaupa og selja og upplýsingagjöf til Ívars hún var annaðhvort munnlega eða í gegnum tölvupóst eða síma. Auk þess sem Ívar fékk senda skýrslu frá áhættustýringu daglega.“ Ákærði sagði að eigin fjárfestingar Landsbanka Íslands hf. hafi verið að mynda markað með eigin hlutabréf bankans. Aðspurður hvort deildin hafi verið með viðskiptavakt í bréfunum svaraði hann: „Við vorum að mynda markað með hlutabréfum og þessi framkvæmd ... hafði verið til staðar áður en ég hóf störf í bankanum ... Við vorum að mynda markaðinn með bréfum, við vorum með tilboðin í tilboðabókinni, svo vorum við sífellt að taka afstöðu til framboðs og eftirspurnar sem voru að berast okkur á símamarkaði.“
IV
1
Sakargiftir á hendur ákærðu, sem til úrlausnar eru í þessu máli, koma fram í upphafi I. kafla ákæru þar sem þeir eru í störfum sínum fyrir Landsbanka Íslands hf. sakaðir um „markaðsmisnotkun í sameiningu ... í tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning Landsbankans með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands hf. ... á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, sem tryggðu óeðlilegt verð og bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.“ Eins og áður greinir er því haldið fram í ákærunni að markaðsmisnotkunin hafi verið „framkvæmd af ákærðu Júlíusi og [W] að undirlagi ákærðu Sigurjóns og Ívars.“ Síðan er gerð grein fyrir viðskiptahegðun þeirra fyrrnefndu á hverjum viðskiptadegi á tímabilinu. Að því búnu er háttseminni sem ákært er fyrir lýst svo: „Kaup eigin fjárfestinga Landsbankans á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á áðurgreindu tímabili voru umfangsmikil og kerfisbundin, enda voru þau verulegur hluti af heildarveltu með hlutabréf í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu.“ Þessu fylgir lýsing á því hvert umfang þessara viðskipa var, en síðan segir að háttsemi ákærðu hafi haft svofelldar afleiðingar í för með sér: „Með þessum umfangsmiklu kauptilboðum og kaupum, en óverulegu magni sölutilboða og sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, komu ákærðu ýmist í veg fyrir eða hægðu á lækkun á verði hlutabréfa í Landsbankanum og mynduðu þannig gólf í verðmyndun á hlutabréfunum. Um var að ræða ólögmætt inngrip í gangverk markaðarins sem hafði áhrif á markaðsgengi hlutabréfa í Landsbankanum, tryggði óeðlilegt verð á hlutabréfunum á tímabilinu, bjó til verð á hlutabréfunum og gaf eða var líklegt til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Með háttsemi sinni röskuðu ákærðu þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa í Landsbankanum með ólögmætum hætti.“
Enginn vafi leikur á því að þessi lýsing á ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærðu tekur til þess hvernig almennt var staðið af þeirra hálfu að viðskiptum í Kauphöll Íslands á ákærutímabilinu. Jafn ljóst er að ákæran beinist ekki að einstökum viðskiptum eða viðskiptadögum á tímabilinu, enda þótt viðskiptin séu rakin þar frá degi til dags til skýringar á eðli og umfangi þeirra.
Því hefur verið borið við af ákærða Ívari að verknaðarlýsing í ákæru sé ekki svo skýr sem áskilið er í c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 þar sem segir að í ákæru skuli meðal annars greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af. Í flutningi málsins fyrir Hæstarétti var sérstaklega talið að það orðalag, sem notað er í ákærunni, að hin ætlaða markaðsmisnotkun hafi verið framkvæmd af ákærðu Júlíusi og W „að undirlagi“ ákærðu Sigurjóns og Ívars lýsi ekki nægilega hver hlutur þess síðastnefnda hafi verið í broti því sem ákært sé fyrir. Orðalag þetta merkir að eitthvað sé gert að ráði eða frumkvæði annars þannig að ekki fer milli mála að ákærða Ívari er gefið að sök að hafa tekið ákvörðun og lagt á ráðin um hvernig almennt skyldi staðið að viðskiptunum sem ákærðu Júlíus og W önnuðust í kauphöllinni á ákærutímabilinu fyrir deild eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. er hann veitti forstöðu. Sökum þess að verknaðarlýsing í ákæru á að vera gagnorð á sama hátt og þær röksemdir, sem málsóknin er byggð á, sbr. d. lið áðurnefndrar málsgreinar, fullnægir hún þeim kröfum um skýrleika sem þar eru gerðar.
Ákærðu neita allir sök. Þótt þeir vefengi ekki að þau viðskipti, sem gerð er grein fyrir í ákærunni, hafi átt sér stað og þær tölur, sem þar eru fram settar, séu út af fyrir sig réttar telja þeir að aðkoma sín að viðskiptunum hafi ekki falið í sér ólögmæta, hvað þá refsiverða háttsemi. Einnig mótmæla þeir framsetningu sakargiftanna á hendur sér sem villandi og þar með þeim ályktunum sem dregnar eru af þeirri framsetningu í ákærunni.
2
Lög nr. 108/2007 tóku gildi 1. nóvember 2007. Eitt af helstu markmiðum þeirra er að stuðla að eðlilegri verðmyndun á markaðstorgi fjármálagerninga eða skipulegum verðbréfamarkaði, þar á meðal í kauphöll, en reglur um þá markaði er einkum að finna í IV. og XII. kafla laganna. Samkvæmt því á lögmál um framboð og eftirspurn að ráða þar ríkjum þannig að sé framboð á tilteknum hlutabréfum meira en eftirspurn lækki verð þeirra, en sé eftirspurnin meiri en framboðið hækki verðið. Í samræmi við fyrrgreint markmið laganna beinast mörg af ákvæðum þeirra, svo og laga nr. 110/2007 um kauphallir, að því að koma í veg fyrir að fjárfestar og aðrir, sem hagsmuna hafa að gæta, láti freistast til að hafa áhrif á þessa verðmyndun með ótilhlýðilegum hætti og geri þeir það eru lögð ströng viðurlög við þeim brotum.
Í III. kafla laga nr. 108/2007 er fjallað um gagnsæi verðbréfaviðskipta og taka ákvæði þess kafla til fjármálafyrirtækja sem hafa heimild til þeirra viðskipta, sbr. 27. gr. laganna. Samkvæmt 29. gr. þeirra skal fjármálafyrirtæki sem á viðskipti utan skipulegra verðbréfamarkaða eða markaðstorga fjármálagerninga, annaðhvort fyrir eigin reikning eða fyrir hönd viðskiptavina, með hlutabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði gera opinberar upplýsingar um verð, umfang og tímasetningu viðskiptanna. Þá er í 93. gr. laganna mælt fyrir um flöggunarskyldu vegna eigin hluta. Í 1. mgr. segir að ef útgefandi aflar eða ráðstafar eigin hlutum skuli hann birta opinberlega hlutfall eigin hluta ef öflunin eða ráðstöfunin leiðir til þess að hlutfallið nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir 5% eða 10% atkvæðisréttar. Skuli hlutfallið reiknað út á grundvelli heildarfjölda hluta sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting atkvæðisréttarins falli niður. Samkvæmt 2. mgr. skulu upplýsingarnar birtar opinberlega eins fljótt og auðið er og eigi síðar en fyrir klukkan 12 næsta viðskiptadag eftir öflunina eða ráðstöfunina. Í XII. kafla laganna er fjallað um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði. Þar er í 116. gr. kveðið á um viðskiptavaka. Eftir 1. mgr. getur fjármálafyrirtæki sem hefur heimild til verðbréfaviðskipta með samningi við útgefanda fjármálagerninga skuldbundið sig til að vera viðskiptavaki, það er kaupa og selja fyrir eigin reikning eða reikning útgefanda tiltekna fjármálagerninga, í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim. Skal viðskiptavaki tilkynna um samninginn til skipulegs verðbréfamarkaðar þar sem viðkomandi fjármálagerningar hafa verið teknir til viðskipta, svo sem nánar er kveðið á um í 2. mgr. Geri fjármálafyrirtæki viðskiptavakasamning um viðskipti fyrir reikning útgefanda skal samkvæmt 4. mgr. tryggt að útgefanda sé ekki unnt að hafa áhrif á ákvarðanir um viðskipti á grundvelli samningsins. Í 117. gr. laganna eru ákvæði um markaðsmisnotkun sem lýst er óheimil í upphafi 1. mgr. þeirrar greinar. Samkvæmt 1. tölulið málsgreinarinnar er meðal annars með markaðsmisnotkun átt við að eiga viðskipti eða gera tilboð sem gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, sbr. a. lið, eða tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum, nema aðilinn sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. b. lið. Þó er tekið fram í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna að ákvæði 117. gr. þeirra eigi ekki við þegar um er að ræða viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga, enda hafi viðskiptin farið fram í samræmi við reglugerð sem sett skuli á grundvelli 118. gr. laganna Í 4. gr. viðauka við reglugerð nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik er mælt svo fyrir að áður en viðskipti hefjast með eigin hluti í endurkaupaáætlun skuli birta almenningi ítarlega lýsingu á áætluninni. Með hliðstæðum hætti segir í 9. gr. viðaukans að birtar skuli opinberlega upplýsingar varðandi fyrirhugaða verðjöfnun fjármálagerninga.
Þegar eldri lög um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, tóku gildi var í fyrsta skipti kveðið á um viðskiptavakt í lögum á sama hátt og gert er í 116. gr. núgildandi laga. Gagngerar breytingar voru síðan gerðar á lögum nr. 33/2003, þar á meðal ákvæðum þeirra um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði, með lögum nr. 31/2005 þegar tilskipun Evrópusambandsins, nr. 2003/6/EB, um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun (markaðssvik) var innleidd hér á landi. Við það var skilgreiningunni á markaðsmisnotkun breytt í það horf, sem nú er kveðið á um í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007, auk þess sem tekið var fram eins og nú er gert í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna að ákvæðin um markaðsmisnotkun ættu ekki við þegar um væri að ræða viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga. Eftir þessar breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti verða ákvæði XII. kafla laga nr. 108/2007 um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði skýrð á þann hátt með gagnályktun frá 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. og 116. gr. þeirra að fjármálafyrirtækjum, sem hafa heimild til verðbréfaviðskipta, sé óheimilt að stunda viðskipti með eigin hluti á slíkum markaði í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim, sbr. niðurlag 1. mgr. 116. gr., nema um sé að ræða viðskipti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. Í a. lið 2. töluliðar 1. gr. fyrrgreindrar tilskipunar, þar sem hugtakið markaðsmisnotkun er skilgreint, eru ákvæði sem svara til a. og b. liða 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Þó er sá munur á að eftir tilskipuninni nær undantekningarákvæðið, sem er í síðari hluta b. liðarins, til þeirrar háttsemi sem lýst er í báðum stafliðunum. Af þeim sökum er rétt að skýra 1. tölulið svo að það að eiga viðskipti eða gera tilboð, sem gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, teljist ekki markaðsmisnotkun ef sá, sem í hlut á, getur sýnt fram á að ástæður að baki viðskiptunum eða fyrirmælum um þau séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á skipulegum verðbréfamarkaði. Samkvæmt 13. tölulið 2. gr. laga nr. 108/2007 er um viðurkennda markaðsframkvæmd að ræða í skilningi laganna ef eðlilegt er að gera ráð fyrir að hún sé viðhöfð á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og Fjármálaeftirlitið hefur viðurkennt hana með þeim hætti sem kveðið er á um í reglugerð sem sett skal á grundvelli 118. gr. þeirra. Slíkt reglugerðarákvæði hafði ekki verið sett á þeim tíma sem ákæran í máli þessu tekur til.
Samkvæmt 19. gr. laga nr. 110/2007 skal kauphöll setja reglur um aðild að skipulegum verðbréfamarkaði þar sem gerð er grein fyrir þeim skyldum sem hvíla á markaðsaðilum. Skulu reglurnar vera gagnsæjar, hlutlægar og byggðar á jafnræði. Á grundvelli þessarar lagagreinar hafa verið settar aðildarreglur sem taka til Kauphallar Íslands. Í þeim reglum, sem giltu á þeim tíma er ákæran tekur til, var sjálfvirk pörun tilboða skilgreind þannig að með henni væri átt við „ferli í tilboðabók þar sem kaup- og sölutilboð eru pöruð sjálfkrafa þegar verð, magn og önnur skilyrði í tilteknu tilboði samsvara tilboði sem áður hefur verið skráð í tilboðaskrá.“ Í grein 4.6.1 í reglunum sagði að tilboð, sem skráð væru í tilboðaskrá, viðskipti sem parast sjálfkrafa og tilkynnt kauphallarviðskipti skyldu „endurspegla gildandi markaðsverð viðkomandi verðbréfa og ... samanstanda af raunverulegum tilboðum og viðskiptum.“
3
Eins og að framan er rakið liggja fyrir upplýsingar um kaup eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. á hlutabréfum útgefnum af félaginu, umfram sölu, sem hlutfall af heildarveltu í sjálfvirkri pörun í Kauphöll Íslands á tímabilinu frá 1. maí 2003 til 3. október 2008. Ef fyrri hluti tímabilsins frá maí 2003 til október 2007 er borinn saman við síðari hlutann frá nóvember 2007 fram í október 2008, en það er sá tími sem ákæran spannar, liggur fyrir að kaup umfram sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum voru oft lítil á fyrri hlutanum miðað við það sem síðar varð. Á hinn bóginn var allt frá upphafi og fram í október 2008 augljós fylgni milli þess hvernig gengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. hreyfðist og þess hvernig eigin fjárfestingar bankans höguðu viðskiptum sínum í kauphöllinni. Þegar gengið hækkaði var dregið úr kaupunum, en þegar það lækkaði jukust kaupin og urðu þeim mun meiri eftir því sem gengið féll meira. Af þessu verður dregin sú ályktun að eðli viðskiptanna, sem hér um ræðir, hafi verið það sama allt frá 2003 þótt umfangið hafi aukist til mikilla muna frá og með nóvember 2007.
Samkvæmt ákæru keyptu eigin fjárfestingar Landsbanka Íslands hf. 2.325.395.153 hluti af þeim 4.801.255.966 hlutum í félaginu, sem viðskipti voru gerð með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í kauphöllinni á ákærutímabilinu, eða 48,4% af heildarveltu með hlutina í þess háttar viðskiptum. Í ákærunni segir að deildin hafi á þessum liðlega ellefu mánuðum aðeins selt 57.213.029 hluti í félaginu eða 1,2% af heildarveltunni og kaup umfram sölu hafi því verið 47,2% af heildarveltu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum með hlutina. Samkvæmt þessu hafi kaup deildarinnar á tímabilinu umfram sölu numið samtals 2.268.182.124 hlutum eða 56.240.113.876 krónum að markaðsvirði. Svari fjöldi keyptra hluta umfram selda til um 20% af öllu útgefnu hlutafé Landsbanka Íslands hf. Í ákærunni eru jafnframt upplýsingar um skráð gengi hlutabréfanna í lok hvers viðskiptadags þar sem fram kemur að gengið var 43,40 krónur á hlut 1. nóvember 2007, en lækkaði síðan og var komið niður í 19,90 krónur 3. október 2008 þegar viðskiptum með þau var hætt.
Ákærðu vefengja sem fyrr segir ekki þær upplýsingar, sem fram koma í ákærunni, en telja að framsetning hennar sé villandi. Halda þeir því meðal annars fram að veltuhlutföllin, sem þar eru greind, gefi ekki rétta mynd af hlutdeild eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. í umræddum viðskiptum þar sem miðað sé við hlutföll keyptra hluta umfram selda af heildarfjölda keyptra hluta. Réttara væri að miða við hlutföll keyptra hluta af heildarfjölda jafnt keyptra sem seldra hluta.
Ef síðarnefndu aðferðinni væri beitt og hver viðskipti tvítalin fengist augljóslega röng mynd af því hver hlutdeild eigin fjárfestinga í viðskiptunum hafi verið vegna þess að deildin gat aðeins verið kaupandi eða seljandi í einum og sömu viðskiptunum. Þvert á móti væri rökréttara að miða við hlutföll keyptra hluta einna saman af heildarfjölda keyptra hluta, en sú aðferð væri óhagstæðari fyrir ákærðu. Verða því lögð til grundvallar við úrlausn sakargifta á hendur þeim þau hlutföll sem fram koma í ákærunni.
4
Helsta gagnrýni ákærðu á framsetningu sakargifta á hendur sér er að sá málatilbúnaður ákæruvaldsins að líta einvörðungu til sjálfvirkra pörunarviðskipta eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. með hluti í félaginu, án þess að taka jafnframt tillit til þeirra viðskipta bankans með hlutina sem fram fóru með öðrum hætti, gefi alranga mynd af aðkomu þeirra að viðskiptunum. Því til stuðnings hafa ákærðu bent á að stór hluti viðskiptanna hafi átt sér stað „utan þings“. Þau viðskipti hafi verið tilkynnt jafnharðan til kauphallarinnar og þar með ekki síður haft áhrif á markaðsverð hlutabréfanna en fyrrgreindu viðskiptin.
Þótt gögn málsins bendi til að viðskipti með hlutabréf í sjálfvirkri pörun í kauphöllinni hafi haft meiri áhrif á skráð gengi þeirra í lok dags en önnur hlutabréfaviðskipti er fallist á með ákærðu að síðargreindu viðskiptin hafi einnig haft áhrif á markaðsverð bréfanna, að minnsta kosti til lengri tíma litið. Hins vegar verður ekki framhjá því horft að sjálfvirk pörunarviðskipti í kauphöllinni eru annars eðlis en viðskipti, sem gerð eru annars staðar, jafnvel þótt þau viðskipti séu tilkynnt þangað um leið eða skömmu eftir að frá þeim er gengið. Það stafar af því að í fyrrnefnda tilvikinu geta margir komið að viðskiptunum í einu án þess að vita hver af öðrum og þau komast á við það að kaup- og sölutilboð, sem skráð hafa verið í tilboðaskrá, eru pöruð sjálfkrafa ef þau samsvara tilboði sem áður hefur verið þar skráð. Með þessu móti er leitast við að tryggja að viðskiptin séu gerð milli ótengdra aðila þannig að verð á hlutabréfum ráðist af raunverulegu framboði og spurn eftir þeim á markaði. Engin þvílík umgjörð er um kaup og sölu hlutabréfa utan kauphallar eða skipulegs verðbréfamarkaðar. Slík viðskipti geta að vísu verið milli ótengdra aðila og endurspeglað raunverulegt framboð og eftirspurn bréfanna, en aftur á móti er engin trygging fyrir því að sú sé reyndin. Af þessum sökum getur verið réttlætanlegt að gera greinarmun á þessum tvenns konar viðskiptum þegar skorið er úr því hvort markaðsmisnotkun hafi átt sér stað.
Þegar tekin er afstaða til sakargiftanna á hendur ákærðu skiptir ekki aðeins máli hvert var umfang viðskipta eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. með hluti í félaginu í hinum sjálfvirku pörunarviðskiptum á þeim tíma, sem ákæran tekur til, heldur einnig sú staðreynd að þar var um að ræða kaup að langmestu leyti. Hlutirnir voru síðan seldir af bankanum í viðskiptum utan skipulegs verðbréfamarkaðar, en í ákærunni er því lýst að bankinn hafi á árinu 2008 í sjö slíkum viðskiptum losað sig við 1.319.000.000 hluti af þeim 2.268.182.124 hlutum sem keyptir voru. Þar af voru tvenn viðskipti fólgin í skiptum á alls 369.000.000 hlutum í Landsbanka Íslands hf. gegn hlutum í Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. annars vegar og Glitni banka hf. hins vegar. Ekkert liggur fyrir um hvernig verð á hlutunum var ákveðið í þessum viðskiptum, en ljóst er að sú ákvörðun var ekki háð raunverulegu framboði og eftirspurn á markaði. Þá seldi Landsbanki Íslands hf. samtals 649.000.000 hluti í félaginu í þrennum viðskiptum til Imon ehf. og Azalea Resources Ltd. þar sem ætlunin var að fjármagna kaupin að fullu með lánum frá bankanum gegn tryggingu í hinum seldu hlutabréfum. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 456/2014 var því slegið föstu að í engu þessara tilvika hafi kaupendurnir í raun lagt fram frekari tryggingar fyrir greiðslu lánanna en bréfin og því hafi bankinn borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum. Í þessum tilvikum var bankanum því í lófa lagið að ráða verðinu á hlutunum án tillits til framboðs og eftirspurnar á markaði. Af gögnum máls þessa verður ekki ráðið hvernig staðið var að kaupum Hunslow S.A. og Pro-Invest Partners Corp. á samtals 301.000.000 hlutum í Landsbanka Íslands hf. af bankanum. Þá liggur fyrir að hlutafé í félaginu var lækkað um 300.000.000 hluti í apríl 2008 í því skyni að losna við eigin hluti, sem bankinn hafði eignast, í stað þess að selja þá á markaði eins og fram kom í áðurgreindu minnisblaði sem sent var ákærða Sigurjóni í mars það ár.
Stjórnendur Landsbanka Íslands hf. báru ábyrgð á þeirri tilhögun á viðskiptum bankans með eigin hluti, sem gerð hefur verið grein fyrir, enda hefði mátt selja þá hluti, sem keyptir höfðu verið í kauphöllinni, aftur á þeim vettvangi. Eins og rakið hefur verið gerði þetta bankanum kleift að losna við hlutina, sem hann hafði áður eignast með hinum umfangsmiklu kaupum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, án þess að bjóða þá til sölu á skipulegum verðbréfamarkaði og koma þannig í veg fyrir að verð þeirra réðist af raunverulegu framboði og eftirspurn. Með skírskotun til þessa er rétt að horfa framhjá öðrum viðskiptum en hinum sjálfvirku pörunarviðskiptum þegar leyst er úr því hvort viðskipti eigin fjárfestinga bankans með eigin bréf á ákærutímabilinu hafi falið í sér markaðsmisnotkun samkvæmt a. og b. liðum 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.
5
Ákærðu hafa allir borið fyrir héraðsdómi að Landsbanki Íslands hf. hafi stundað viðskipti með hluti í félaginu með „óformlegri viðskiptavakt“ eða með því að mynda markað með hlutabréfin. Halda ákærðu því fram að aðrir viðskiptabankar hér á landi hafi stundað slík viðskipti með eigin hluti og allir stórir fagfjárfestar og miðlarar hafi vitað af þeim eins og ákærði Sigurjón komst að orði fyrir dómi. Vegna þessarar útbreiddu viðskiptahegðunar og almennrar vitneskju um viðskipti bankanna með eigin bréf beri að sýkna þá af refsikröfu ákæruvaldsins.
Eins og fyrr greinir getur fjármálafyrirtæki, sem hefur heimild til verðbréfaviðskipta, skuldbundið sig samkvæmt 116. gr. laga nr. 108/2007 með samningi við útgefanda fjármálagerninga til að vera viðskiptavaki í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim. Skal viðskiptavaki tilkynna um samninginn og sé samið um viðskipti fyrir reikning útgefanda skal tryggt að honum sé ekki unnt að hafa áhrif á ákvarðanir um viðskipti á grundvelli samningsins. Með gagnályktun frá þessari lagagrein er fjármálafyrirtæki, sem annast verðbréfaviðskipti, óheimilt að takast á hendur viðskiptavakt með eigin hluti. Þá verða ákvæði laga nr. 108/2007 skýrð með þeim hætti, svo sem áður hefur komið fram, að lagt sé bann við því að slíkt fyrirtæki stundi skipuleg viðskipti með eigin hluti í þeim tilgangi að greiða fyrir því að markaðsverð skapist á hlutunum nema í þeim tilvikum, sem vísað er til í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna, og þá með því að tilkynna þær fyrirhuguðu ráðstafanir opinberlega.
Ekkert er fram komið í málinu um að Landsbanki Íslands hf. hafi tilkynnt, hvort sem er með formlegum eða óformlegum hætti, að hann stundaði skipulega kaup á eigin hlutabréfum í fyrrgreindum tilgangi. Þvert á móti benda skjöl málsins og framburður ákærðu fyrir héraðsdómi til þess að leitast hafi verið við af hálfu bankans að halda hinum umfangsmiklu kaupum hans á eigin hlutum leyndum fyrir þeim sem komu að viðskiptum með hlutina á skipulegum verðbréfamarkaði. Eins og greinir í héraðsdómi bar ákærði Sigurjón að þeir HJK hafi sem bankastjórar mælt fyrir um að ekki mætti án heimildar þeirra kaupa yfir 5% í félagi þannig að skylt væri að flagga á grundvelli 78. eða 93. gr. laga nr. 108/2007. Tölvubréf og upptökur af símtölum ákærðu Ívars, Júlíusar og W gefa ótvírætt til kynna að ítrekað hafi það gerst að hlutfall eigin hlutafjár í eigu Landsbanka Íslands hf. af heildarhlutafé félagsins hafi verið komið nálægt þeim 5% mörkum sem hefði kallað á flöggun. Virðist hlutfallið hafa oftar en einu sinni farið yfir mörkin, að minnsta kosti í skamman tíma, svo sem ráðið verður af símtölum ákærðu Júlíusar og W við starfsmann áhættustýringar bankans 11. og 29. september 2008. Engu að síður virðist það hafa verið einbeittur vilji ákærða Ívars og undirmanna hans, ákærðu Júlíusar og W, að hlíta fyrirmælum bankastjóranna og forðast flöggun í lengstu lög. Engin haldbær skýring hefur fengist á því hvers vegna lögð var svo rík áhersla á að forðast flöggun, en með því móti var komið í veg fyrir að stórfelld kaup Landsbanka Íslands hf. á eigin hlutum í kauphöllinni kæmust til vitundar almennings, þar á meðal þeirra þúsunda manna sem áttu hlutabréf í félaginu.
6
Samkvæmt skjölum málsins og framburði ákærðu Júlíusar og W fyrir héraðsdómi er sannað að þeir lögðu fram í kauphöllinni fyrir hönd Landsbanka Íslands hf. mikinn fjölda kauptilboða í hluti í félaginu og komu jafnframt á fjölmörgum viðskiptum með þá hluti flesta viðskiptadagana sem ákæran tekur til. Þá hafa ennfremur allir ákærðu borið að þetta hafi verið gert í þeim tilgangi að mynda markað með hlutina eins og um viðskiptavakt hefði verið að ræða. Eins og áður greinir var bankanum sem fjármálafyrirtæki, er hafði með höndum verðbréfaviðskipti, óheimilt samkvæmt lögum nr. 108/2007 að stunda viðskipti með eigin hluti á skipulegum verðbréfamarkaði eins og í kauphöllinni í þessum tilgangi nema í undantekningartilvikum sem ekki eiga við hér. Umrædd viðskipti voru því ólögmæt og getur þar engu breytt að fjallað hafi verið á jákvæðan hátt um Landsbanka Íslands hf., bankakerfið eða önnur atriði á sínum tíma, jafnvel þótt sú umfjöllun hefði verið til þess fallin að styrkja stöðu bankans og þar með hækka markaðsverð á hlutum í félaginu.
Í hinum áfrýjaða dómi komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að framburður ákærða W við aðalmeðferð málsins í héraði væri „ekki ótrúverðugur“ þegar hann færði fram skýringar á viðskiptahegðun sinni með vísan til samtímaheimilda og leitaðist jafnframt við að gera grein fyrir ástæðum að baki einstökum tilboðum og viðskiptum. Þá þótti sama eiga við um skýringar ákærða Júlíusar á viðskiptahegðun sinni allt til 29. september 2008. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 sætir þessi niðurstaða ekki endurskoðun Hæstaréttar. Sem fyrr segir breytir það hins vegar engu um ólögmæti viðskiptanna þótt ákærðu vísi til umfjöllunar eins og þeirrar, sem að framan greinir, eða leitist á annan hátt við að réttlæta einstök tilboð sín og viðskipti. Af þeirri ástæðu hafa skýringar ákærðu, sem hér um ræðir, enga þýðingu fyrir úrlausn um sekt eða sýknu af þeim sökum sem þeir eru bornir og beinast sem áður segir að því hvernig almennt var staðið af þeirra hálfu að viðskiptum fyrir Landsbanka Íslands hf. með hluti í félaginu allt ákærutímabilið.
Ekki leikur neinn vafi á að sá mikli fjöldi tilboða, sem ákærðu Júlíus og W gerðu, og þau umfangsmiklu viðskipti, sem þeir áttu þátt í að koma á, gáfu eða voru í það minnsta líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega eða misvísandi til kynna. Með þessari háttsemi brutu þeir því af ásettu ráði og á refsiverðan hátt gegn a. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007, enda verður slík háttsemi ekki skýrð með því að lögmætar ástæður hafi búið að baki henni ellegar hún verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á skipulegum verðbréfamarkaði.
Ákærði Ívar, sem var forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf., bar fyrir dómi að hann hafi séð um að stýra öllum fjárfestingum bankans í hlutabréfum. Einnig hafi hann gefið undirmönnum sínum, ákærðu Júlíusi og W, almenn fyrirmæli, auk þess sem þeir hafi oft ráðfært sig við hann. Eins og rakið hefur verið sat ákærði fundi fjármálanefndar bankans, sem yfirleitt voru haldnir vikulega, og gerði þar grein fyrir starfsemi deildar sinnar og fór yfir stöðuna á verðbréfamarkaði. Af fundargerðum nefndarinnar verður ráðið að hann hafi að minnsta kosti af og til á ákærutímabilinu fjallað um eignarhald bankans á eigin bréfum. Þá fékk ákærði, alla vega frá því í lok febrúar 2008 og til enda tímabilsins, sendar upplýsingar um „eign bankans í sjálfum sér“. Með þessum skjölum og framburði ákærða sjálfs, sem vísað hefur verið til að framan, svo og skýrslum ákærðu Júlíusar og W fyrir dómi um samskipti þeirra við hann sem gerð er grein fyrir í héraðsdómi, er sannað að ákærði hafi gefið þeim tveimur fyrirmæli um hvernig þeir skyldu standa almennt að viðskiptunum með hluti í Landsbanka Íslands hf. í kauphöllinni og fylgst náið með þeim. Samkvæmt því og með vísan til þess, sem áður greinir, hefur hann af ásettu ráði gerst sekur um brot gegn a. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.
Samkvæmt gögnum málsins fóru bankastjórar Landsbanka Íslands hf. með daglega stjórnun bankans og var ákærði Sigurjón annar þeirra. Undir hann heyrði verðbréfasvið bankans, þar á meðal deild eigin fjárfestinga. Ákærði var jafnframt formaður fjármálanefndar bankans og fékk því reglulega upplýsingar um verðbréfaviðskipti hans og eignarhald á eigin bréfum, bæði á fundum nefndarinnar og í skýrslum sem teknar voru saman eftir hvern bankadag. Þessi staða ákærða veitti honum yfirsýn yfir starfsemi verðbréfasviðsins og gátu hin umfangsmiklu kaup eigin fjárfestinga á hlutum í Landsbanka Íslands hf. eins og að þeim var staðið ekki farið fram án vilja hans og vitundar, en ákærði bar fyrir héraðsdómi að bankinn hafi verið með „viðskiptavakt“ í eigin bréfum. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur fyrir brot af ásetningi gegn a. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.
V
Samkvæmt framansögðu voru brot ákærðu, sem þeir hafa verið sakfelldir fyrir, mjög umfangsmikil, þaulskipulögð og stóðu yfir í langan tíma. Brotin leiddu til alvarlegrar röskunar á verðbréfamarkaði með víðtækum afleiðingum fyrir fjármálamarkaðinn hér á landi og allan almenning, en tjónið, sem af þeim hlaust, verður ekki metið til fjár.
Við ákvörðun refsingar verður horft til þess hve alvarleg brotin voru. Jafnframt ber að líta til þess að ákærði Sigurjón gegndi starfi bankastjóra og var yfirmaður ákærða Ívars. Undir hann heyrðu ákærðu Júlíus og W og var brot þess fyrrnefnda sýnu alvarlegra en þess síðarnefnda. Það horfir ákærðu til hagsbóta að enginn þeirra hafði brotið af sér þegar brotin voru framin þannig að áhrif hafi á ákvörðun refsingar. Þótt rannsókn og meðferð málsins fyrir dómi hafi samanlagt tekið langan tíma verður ekki litið svo á að hún hafi dregist úr hófi fram. Stafar það meðal annars af því að nauðsyn bar til að rannsaka það sakarefni, sem leyst er úr að þessu sinni, samhliða sakarefnum samkvæmt II., III. og IV. kafla ákæru. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 456/2014 var ákærði Sigurjón dæmdur í fangelsi í 3 ár og 6 mánuði. Refsing hans nú verður hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og brotin hefðu verið dæmd í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Að teknu tilliti til þessa er refsing hans ákveðin fangelsi í 1 ár og sex mánuði. Refsing ákærða Ívars er ákveðin fangelsi í 2 ár, en til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald sem hann sætti vegna rannsóknar málsins, svo sem í dómsorði greinir. Refsing ákærða Júlíusar er ákveðin fangelsi í 1 ár og ákærða W fangelsi í níu mánuði. Vegna þess hve brotin eru alvarleg kemur ekki til álita að binda refsinguna skilorði.
Ákvörðun héraðsdóms um fjárhæð sakarkostnaðar verður staðfest. Vegna málsúrslita verður ákærðu gert að greiða hann að öllu leyti eins og nánar segir í dómsorði.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og fram kemur í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði Sigurjón Þorvaldur Árnason sæti fangelsi í 1 ár og sex mánuði.
Ákærði Ívar Guðjónsson sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 14. til 17. janúar 2011.
Ákærði Júlíus Steinar Heiðarsson sæti fangelsi í 1 ár.
Ákærði W sæti fangelsi í níu mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um fjárhæð sakarkostnaðar er staðfest. Ákærðu greiði hver um sig málsvarnarlaun verjenda sinna í héraði, en annan sakarkostnað greiði þeir óskipt.
Hver ákærði fyrir sig greiði af áfrýjunarkostnaði málsins 7.440.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjenda þeirra, hæstaréttarlögmannanna Sigurðar G. Guðjónssonar, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, Helga Sigurðssonar og Reimars Péturssonar. Annan áfrýjunarkostnað, 1.420.084 krónur, greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 16. október 2014, er höfðað með ákæru, útgefinni af sérstökum saksóknara 15. mars 2013, samkvæmt I. kafla ákæru, á hendur Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni, kt. […], Ívari Guðjónssyni, kt. […], Júlíusi Steinari Heiðarssyni, kt. […], og W, kt. […], fyrir eftirtalin brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti:
„Á hendur ákærðu Sigurjóni sem bankastjóra Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík, (hér eftir Landsbankinn), Ívari sem forstöðumanni eigin fjárfestinga Landsbankans og Júlíusi og W sem starfsmönnum eigin fjárfestinga Landsbankans, fyrir markaðsmisnotkun í sameiningu í störfum sínum fyrir bankann í tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning Landsbankans með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands hf. (NASDAQ OMX Iceland hf., hér eftir Kauphöllin) á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, sem tryggðu óeðlilegt verð og bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.
Markaðsmisnotkunin var framkvæmd af ákærðu Júlíusi og W að undirlagi ákærðu Sigurjóns og Ívars. Ákærðu Júlíus og W, sem önnuðust fjárfestingar fyrir bankann sjálfan, lögðu fram, fyrir hönd Landsbankans, í upphafi hvers viðskiptadags á tímabilinu, röð stórra kauptilboða með litlu innbyrðis verðbili í hlutabréf í Landsbankanum í tilboðabók Kauphallarinnar. Þegar framboð á hlutabréfum í Landsbankanum í tilboðabók Kauphallarinnar varð meira en eftirspurn annarra markaðsaðila en Landsbankans mættu ákærðu Júlíus og W að jafnaði auknu framboði með því að bæta við nýjum kauptilboðum jafnharðan og fyrri tilboðum þeirra var tekið og komu þannig ýmist í veg fyrir eða hægðu á verðlækkun hlutabréfanna. Þá hækkaði að jafnaði hlutfall kaupa þeirra á hlutabréfunum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum við lok viðskiptadags, þ.e. við lok samfellda viðskiptatímabilsins og í lokunaruppboðum í Kauphöllinni, og höfðu ákærðu þannig áhrif á dagslokaverð hlutabréfanna.
Kaup eigin fjárfestinga Landsbankans á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á áðurgreindu tímabili voru umfangsmikil og kerfisbundin, enda voru þau verulegur hluti af heildarveltu með hlutabréf í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu. Eigin fjárfestingar Landsbankans keyptu 2.325.395.153 hluti af þeim 4.801.255.966 hlutum í Landsbankanum sem viðskipti voru með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu, eða 48,4% af heildarveltunni, en seldu aðeins 57.213.029 hluti, eða 1,2% af heildarveltunni. Kaup umfram sölu námu því samtals 47,2% af heildarveltunni í sjálfvirkum pörunarviðskiptum með hlutabréf í Landsbankanum, samtals 2.268.182.124 hlutum eða 56.240.113.876 krónum að markaðsvirði. Þar af voru kaup umfram sölu í opnunaruppboðum 46% af heildarveltunni með hlutabréf í Landsbankanum í opnunaruppboðum og kaup umfram sölu í lokunaruppboðum 63% af heildarveltunni í lokunaruppboðum. Nafnverð kauptilboða eigin fjárfestinga Landsbankans í hlutabréf í Landsbankanum nam á fyrrgreindu tímabili 43% af heildarnafnverði kauptilboða í hlutabréfin en nafnverð sölutilboða eigin fjárfestinga Landsbankans í hlutabréf í Landsbankanum aðeins um 3% af heildarnafnverði sölutilboða í hlutabréfin. Samtals námu kaup eigin fjárfestinga Landsbankans á hlutabréfum í bankanum umfram sölu á tímabilinu um 20% af öllu útgefnu hlutafé hans.
Með þessum umfangsmiklu kauptilboðum og kaupum, en óverulegu magni sölutilboða og sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, komu ákærðu ýmist í veg fyrir eða hægðu á lækkun á verði hlutabréfa í Landsbankanum og mynduðu þannig gólf í verðmyndun á hlutabréfunum. Um var að ræða ólögmætt inngrip í gangverk markaðarins sem hafði áhrif á markaðsgengi hlutabréfa í Landsbankanum, tryggði óeðlilegt verð á hlutabréfunum á tímabilinu, bjó til verð á hlutabréfunum og gaf eða var líklegt til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Með háttsemi sinni röskuðu ákærðu þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa í Landsbankanum með ólögmætum hætti.
Framangreindum viðskiptum og tilboðum eigin fjárfestinga Landsbankans með hlutabréf í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu er lýst í eftirfarandi töflu (neikvæð gildi merkja nettó sölu eða sölu umfram kaup, eigin fjárfestingar Landsbankans er skammstafað EFL):
Tímabil |
Nettó viðskipti EFL (Fjöldi hluta) |
Nettó viðskipti EFL sem hlutfall af heildarveltu |
Nettó viðskipti EFL í opnunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu |
Nettó viðskipti EFL í lokunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu |
Nafnverð kauptilboða EFL sem hlutfall af heildarnafnverði kauptilboða |
Nafnverð sölutilboða EFL sem hlutfall af heildarnafnverði sölutilboða |
Nóv. 2007 |
67.705.455 |
15% |
-8% |
30% |
20% |
9% |
Des. 2007 |
67.214.212 |
33% |
40% |
59% |
37% |
13% |
Jan. 2008 |
195.885.014 |
39% |
48% |
50% |
36% |
4% |
Feb. 2008 |
171.587.476 |
44% |
40% |
78% |
39% |
3% |
Mar. 2008 |
154.885.306 |
42% |
25% |
51% |
38% |
2% |
Apríl 2008 |
57.700.747 |
19% |
28% |
39% |
22% |
5% |
Maí 2008 |
137.995.707 |
43% |
0% |
69% |
35% |
1% |
Júní 2008 |
241.609.648 |
57% |
73% |
85% |
47% |
0% |
Júlí 2008 |
125.348.530 |
50% |
61% |
59% |
50% |
2% |
Ágúst 2008 |
64.867.026 |
48% |
67% |
53% |
58% |
1% |
Sept. 2008 |
569.989.300 |
61% |
46% |
77% |
56% |
0% |
Okt. 2008 |
413.393.703 |
79% |
94% |
82% |
73% |
0% |
Alls |
2.268.182.124 |
47% |
46% |
63% |
43% |
3% |
Viðskiptum og tilboðum ákærða Júlíusar (JSH í töflu) fyrir hönd eigin fjárfestinga Landsbankans í hlutabréf í Landsbankanum á framangreindu tímabili er lýst í eftirfarandi töflu:
Tímabil |
Nettó viðskipti JSH (fjöldi hluta) |
Nettó viðskipti JSH sem hlutfall af heildarveltu |
Nettó viðskipti JSH í opnunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu |
Nettó viðskipti JSH í lokunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu |
Nafnverð kauptilboða JSH sem hlutfall af heildarnafnverði kauptilboða |
Nafnverð sölutilboða JSH sem hlutfall af heildarnafnverði sölutilboða |
Nóv. 2007 |
53.648.100 |
12% |
-26% |
30% |
15% |
5% |
Des. 2007 |
27.159.365 |
13% |
22% |
30% |
17% |
5% |
Jan. 2008 |
114.829.808 |
23% |
15% |
30% |
21% |
2% |
Feb. 2008 |
129.555.064 |
33% |
13% |
30% |
28% |
2% |
Mar. 2008 |
146.713.003 |
40% |
35% |
47% |
34% |
1% |
Apríl 2008 |
34.195.247 |
11% |
9% |
8% |
14% |
4% |
Maí 2008 |
81.641.688 |
25% |
0% |
55% |
20% |
0% |
Júní 2008 |
171.382.690 |
40% |
50% |
59% |
32% |
0% |
Júlí 2008 |
63.390.689 |
25% |
32% |
14% |
29% |
0% |
Ágúst 2008 |
29.096.239 |
22% |
0% |
12% |
22% |
0% |
Sept. 2008 |
470.701.384 |
50% |
25% |
61% |
42% |
0% |
Okt. 2008 |
374.490.902 |
72% |
94% |
82% |
65% |
0% |
Alls |
1.696.804.179 |
35% |
26% |
43% |
30% |
1% |
Viðskiptum og tilboðum ákærða W (W í töflu) fyrir hönd eigin fjárfestinga Landsbankans í hlutabréf í Landsbankanum á framangreindu tímabili er lýst í eftirfarandi töflu:
Tímabil |
Nettó viðskipti W (fjöldi hluta) |
Nettó viðskipti W sem hlutfall af heildarveltu |
Nettó viðskipti W í opnunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu |
Nettó viðskipti W í lokunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu |
Nafnverð kauptilboða W sem hlutfall af heildarnafnverði kauptilboða |
Nafnverð sölutilboða W sem hlutfall af heildarnafnverði sölutilboða |
Nóv. 2007 |
14.057.355 |
3% |
18% |
0% |
5% |
4% |
Des. 2007 |
40.054.847 |
20% |
18% |
29% |
21% |
8% |
Jan. 2008 |
81.055.206 |
16% |
33% |
20% |
15% |
3% |
Feb. 2008 |
42.032.412 |
11% |
26% |
49% |
10% |
2% |
Mar. 2008 |
8.172.303 |
2% |
-10% |
4% |
4% |
1% |
Apríl 2008 |
23.505.500 |
8% |
19% |
31% |
7% |
1% |
Maí 2008 |
56.354.019 |
17% |
0% |
14% |
15% |
0% |
Júní 2008 |
70.226.958 |
16% |
23% |
26% |
15% |
0% |
Júlí 2008 |
31.362.653 |
13% |
0% |
27% |
14% |
1% |
Ágúst 2008 |
32.925.986 |
25% |
67% |
41% |
33% |
1% |
Sept. 2008 |
99.287.916 |
11% |
21% |
16% |
14% |
0% |
Okt. 2008 |
38.902.801 |
7% |
0% |
0% |
8% |
0% |
Alls |
537.937.956 |
11% |
19% |
19% |
13% |
1% |
Viðskiptum eigin fjárfestinga Landsbankans með hlutabréf í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum ásamt sundurliðun viðskipta ákærðu Júlíusar og W fyrir hvern viðskiptadag á því tímabili sem ákært er fyrir, er lýst í eftirfarandi töflu:
Dagsetning |
Heildarvelta |
Kaup EFL |
Nettó viðskipti Júlíusar |
Nettó viðskipti W |
Nettó viðskipti EFL |
Nettó viðskipti EFL sem hlutfall af heildarveltu |
Nettó-viðskipti EFL í lokunar uppboðum |
Dagsloka gengi |
1.11.2007 |
29.277.097 |
1.500.000 |
755.000 |
0 |
755.000 |
3% |
0% |
43,4 |
2.11.2007 |
6.109.472 |
0 |
0 |
0 |
0 |
0% |
- |
43 |
5.11.2007 |
35.864.375 |
3.070.000 |
0 |
2.570.000 |
2.570.000 |
7% |
0% |
42,6 |
6.11.2007 |
19.659.301 |
4.054 |
0 |
-995.946 |
-995.946 |
-5% |
- |
42 |
7.11.2007 |
43.056.554 |
5.000.000 |
2.000.000 |
3.000.000 |
5.000.000 |
12% |
0% |
40,8 |
8.11.2007 |
24.556.951 |
2.185.000 |
1.260.000 |
185.000 |
1.445.000 |
6% |
0% |
40,6 |
9.11.2007 |
20.652.254 |
4.225.000 |
412.500 |
1.000.000 |
1.412.500 |
7% |
- |
40 |
12.11.2007 |
13.273.903 |
5.500.000 |
1.000.000 |
3.000.000 |
4.000.000 |
30% |
- |
40 |
13.11.2007 |
19.958.877 |
3.730.000 |
2.230.000 |
0 |
2.230.000 |
11% |
100% |
39,6 |
14.11.2007 |
15.224.833 |
0 |
-500000 |
0 |
-500.000 |
-3% |
0% |
40 |
15.11.2007 |
13.722.992 |
2.517.500 |
2.517.500 |
0 |
2.517.500 |
18% |
0% |
39,5 |
16.11.2007 |
20.524.639 |
3.572.500 |
3.072.500 |
-487.500 |
2.585.000 |
13% |
0% |
39 |
19.11.2007 |
14.134.376 |
7.000.000 |
6.500.000 |
500.000 |
7.000.000 |
50% |
0% |
38 |
20.11.2007 |
51.152.837 |
8.890.000 |
5.890.000 |
1.500.000 |
7.390.000 |
14% |
- |
37,9 |
21.11.2007 |
15.724.279 |
6.000.000 |
4.500.000 |
1.500.000 |
6.000.000 |
38% |
100% |
36,6 |
22.11.2007 |
30.088.837 |
8.500.000 |
5.000.000 |
3.500.000 |
8.500.000 |
28% |
0% |
36,3 |
23.11.2007 |
25.429.819 |
19.538.100 |
19.538.100 |
0 |
19.538.100 |
77% |
89% |
36,6 |
26.11.2007 |
14.857.031 |
0 |
-1000000 |
0 |
-1.000.000 |
-7% |
0% |
37,1 |
27.11.2007 |
7.782.571 |
3.225.000 |
3.197.500 |
-800.000 |
2.397.500 |
31% |
-100% |
36,4 |
28.11.2007 |
15.142.255 |
1.687.500 |
-222.500 |
-136.699 |
-359.199 |
-2% |
-100% |
37 |
29.11.2007 |
9.996.655 |
1.232.500 |
-990.000 |
-277.500 |
-1.267.500 |
-13% |
9% |
37,2 |
30.11.2007 |
8.337.139 |
500.000 |
-1.512.500 |
0 |
-1.512.500 |
-18% |
100% |
37,6 |
3.12.2007 |
5.717.287 |
1.000.000 |
1.000.000 |
0 |
1.000.000 |
17% |
0% |
37,2 |
4.12.2007 |
17.243.427 |
2.500.000 |
0 |
2.500.000 |
2.500.000 |
14% |
- |
36,1 |
5.12.2007 |
31.621.869 |
6.527.380 |
5.527.380 |
1.000.000 |
6.527.380 |
21% |
0% |
35,9 |
6.12.2007 |
14.074.882 |
3.520.782 |
-494.218 |
1.500.000 |
1.005.782 |
7% |
50% |
35,4 |
7.12.2007 |
13.720.561 |
4.083.700 |
3.083.700 |
500.000 |
3.583.700 |
26% |
- |
35,7 |
10.12.2007 |
5.853.002 |
500.000 |
500.000 |
0 |
500.000 |
9% |
- |
35,8 |
11.12.2007 |
10.512.007 |
2.525.000 |
-1.180.000 |
0 |
-1.180.000 |
-11% |
100% |
36,8 |
12.12.2007 |
11.155.431 |
1.287.500 |
287.500 |
500.000 |
787.500 |
7% |
- |
37 |
13.12.2007 |
9.217.984 |
500.000 |
0 |
0 |
0 |
0% |
0% |
37 |
14.12.2007 |
13.195.195 |
1.429.258 |
0 |
1.429.258 |
1.429.258 |
11% |
- |
36,9 |
17.12.2007 |
5.932.371 |
3.833.163 |
0 |
3.833.163 |
3.833.163 |
65% |
- |
36,2 |
18.12.2007 |
12.590.189 |
7.719.166 |
2.552.500 |
5.166.666 |
7.719.166 |
61% |
71% |
36,3 |
19.12.2007 |
15.154.259 |
11.537.400 |
3.100.000 |
8.437.400 |
11.537.400 |
76% |
- |
35,6 |
20.12.2007 |
12.150.160 |
9.655.000 |
8.655.000 |
1.000.000 |
9.655.000 |
79% |
100% |
35,5 |
21.12.2007 |
5.607.657 |
2.772.503 |
2.012.503 |
760.000 |
2.772.503 |
49% |
- |
35,7 |
27.12.2007 |
3.309.039 |
2.115.000 |
2.115.000 |
0 |
2.115.000 |
64% |
76% |
35,4 |
28.12.2007 |
16.877.613 |
13.523.360 |
0 |
13.428.360 |
13.428.360 |
80% |
100% |
35,5 |
3.1.2008 |
15.390.345 |
11.505.000 |
11.505.000 |
0 |
11.505.000 |
75% |
100% |
34,9 |
4.1.2008 |
18.586.694 |
8.702.500 |
5.700.000 |
3.002.500 |
8.702.500 |
47% |
100% |
33,7 |
7.1.2008 |
23.202.354 |
7.460.250 |
2.000.000 |
5.460.250 |
7.460.250 |
32% |
0% |
32,5 |
8.1.2008 |
12.474.092 |
8.802.081 |
2.984.689 |
5.817.392 |
8.802.081 |
71% |
50% |
32,3 |
9.1.2008 |
59.444.514 |
40.900.907 |
20.835.907 |
20.065.000 |
40.900.907 |
69% |
100% |
31,6 |
10.1.2008 |
34.617.412 |
14.490.000 |
11.000.000 |
1.990.000 |
12.990.000 |
38% |
100% |
32,1 |
11.1.2008 |
12.987.062 |
8.139.108 |
7.639.108 |
0 |
7.639.108 |
59% |
100% |
32,2 |
14.1.2008 |
7.617.467 |
5.425.500 |
5.425.500 |
0 |
5.425.500 |
71% |
- |
32 |
15.1.2008 |
15.380.596 |
6.697.500 |
5.697.500 |
500.000 |
6.197.500 |
40% |
- |
31,8 |
16.1.2008 |
18.881.979 |
8.935.691 |
8.435.691 |
500.000 |
8.935.691 |
47% |
46% |
31,6 |
17.1.2008 |
4.338.365 |
0 |
-500000 |
0 |
-500.000 |
-12% |
- |
31,9 |
18.1.2008 |
3.374.861 |
1.492.500 |
1.492.500 |
0 |
1.492.500 |
44% |
- |
32,2 |
21.1.2008 |
19.352.071 |
8.650.000 |
5.150.000 |
3.500.000 |
8.650.000 |
45% |
100% |
31,2 |
22.1.2008 |
42.134.957 |
10.241.435 |
0 |
9.741.435 |
9.741.435 |
23% |
0% |
31,1 |
23.1.2008 |
35.924.005 |
17.351.589 |
0 |
17.351.589 |
17.351.589 |
48% |
100% |
30 |
24.1.2008 |
19.795.432 |
2.560.000 |
1.060.000 |
1.500.000 |
2.560.000 |
13% |
100% |
30,7 |
25.1.2008 |
41.781.339 |
9.535.391 |
9.535.391 |
0 |
9.535.391 |
23% |
22% |
31,9 |
28.1.2008 |
20.465.063 |
2.005.000 |
2.005.000 |
0 |
2.005.000 |
10% |
0% |
31,5 |
29.1.2008 |
14.121.360 |
4.754.500 |
1.779.500 |
2.475.000 |
4.254.500 |
30% |
0% |
31,9 |
30.1.2008 |
54.189.741 |
17.194.862 |
9.172.822 |
6.022.040 |
15.194.862 |
28% |
100% |
31,4 |
31.1.2008 |
23.468.702 |
9.541.200 |
3.911.200 |
3.130.000 |
7.041.200 |
30% |
- |
30,8 |
1.2.2008 |
15.033.383 |
8.654.500 |
5.954.500 |
2.690.000 |
8.644.500 |
58% |
100% |
30,8 |
4.2.2008 |
5.619.491 |
2.960.555 |
1.120.000 |
1.840.555 |
2.960.555 |
53% |
100% |
30,6 |
5.2.2008 |
16.245.747 |
8.222.500 |
7.222.500 |
1.000.000 |
8.222.500 |
51% |
19% |
29,9 |
6.2.2008 |
36.117.079 |
18.221.450 |
15.721.450 |
2.500.000 |
18.221.450 |
50% |
- |
29 |
7.2.2008 |
26.219.392 |
5.000.000 |
5.000.000 |
0 |
5.000.000 |
19% |
0% |
28,8 |
8.2.2008 |
27.211.598 |
13.559.250 |
8.2.2008 |
27.211.598 |
13.559.250 |
50% |
100% |
28,5 |
11.2.2008 |
29.546.673 |
20.481.017 |
19.809.257 |
671.760 |
20.481.017 |
69% |
0% |
27,5 |
12.2.2008 |
34.007.427 |
11.864.643 |
11.860.419 |
4.224 |
11.864.643 |
35% |
0% |
28,4 |
13.2.2008 |
22.989.685 |
717.500 |
0 |
717.500 |
717.500 |
3% |
100% |
28,8 |
14.2.2008 |
8.135.354 |
1.310.000 |
0 |
1.310.000 |
1.310.000 |
16% |
0% |
28,7 |
15.2.2008 |
17.508.010 |
6.472.427 |
0 |
6.472.427 |
6.472.427 |
37% |
100% |
28,8 |
18.2.2008 |
6.752.151 |
520.484 |
0 |
-479.516 |
-479.516 |
-7% |
- |
29,2 |
19.2.2008 |
10.187.145 |
5.004.600 |
0 |
5.004.600 |
5.004.600 |
49% |
100% |
28,6 |
20.2.2008 |
26.060.334 |
18.425.484 |
18.425.484 |
0 |
18.425.484 |
71% |
100% |
28,3 |
21.2.2008 |
10.250.511 |
8.233.969 |
7.816.969 |
417.000 |
8.233.969 |
80% |
100% |
28,1 |
22.2.2008 |
14.469.217 |
9.051.321 |
9.051.321 |
0 |
9.051.321 |
63% |
- |
28 |
25.2.2008 |
8.020.659 |
1.522.689 |
0 |
1.522.689 |
1.522.689 |
19% |
- |
28,2 |
26.2.2008 |
9.792.107 |
4.810.000 |
4.200.000 |
610.000 |
4.810.000 |
49% |
- |
28,2 |
27.2.2008 |
11.966.598 |
5.128.800 |
2.528.800 |
2.600.000 |
5.128.800 |
43% |
0% |
27,6 |
28.2.2008 |
37.194.973 |
17.204.364 |
8.314.364 |
8.890.000 |
17.204.364 |
46% |
100% |
26,9 |
29.2.2008 |
15.853.112 |
5.231.923 |
0 |
5.231.923 |
5.231.923 |
33% |
76% |
26,8 |
3.3.2008 |
23.316.451 |
16.871.642 |
14.389.670 |
2.481.972 |
16.871.642 |
72% |
100% |
26,4 |
4.3.2008 |
20.862.050 |
10.095.000 |
9.855.000 |
-760.000 |
9.095.000 |
44% |
100% |
26,2 |
5.3.2008 |
18.745.093 |
10.507.500 |
7.007.500 |
2.500.000 |
9.507.500 |
51% |
100% |
26,5 |
6.3.2008 |
8.669.313 |
5.585.000 |
4.632.500 |
0 |
4.632.500 |
53% |
0% |
26,6 |
7.3.2008 |
32.452.244 |
18.946.500 |
18.946.500 |
0 |
18.946.500 |
58% |
- |
27,4 |
10.3.2008 |
10.913.583 |
5.842.026 |
5.659.526 |
182.500 |
5.842.026 |
54% |
100% |
27,4 |
11.3.2008 |
10.245.102 |
1.102.500 |
650.000 |
452.500 |
1.102.500 |
11% |
- |
28 |
12.3.2008 |
12.151.188 |
7.736.485 |
7.236.485 |
500.000 |
7.736.485 |
64% |
100% |
28,5 |
13.3.2008 |
12.246.813 |
8.102.500 |
8.102.500 |
0 |
8.102.500 |
66% |
100% |
28,2 |
14.3.2008 |
17.733.057 |
8.530.000 |
7.985.000 |
545.000 |
8.530.000 |
48% |
63% |
28,3 |
17.3.2008 |
20.760.514 |
11.801.500 |
10.801.500 |
1.000.000 |
11.801.500 |
57% |
- |
27,1 |
18.3.2008 |
16.784.442 |
5.850.000 |
5.850.000 |
0 |
5.850.000 |
35% |
- |
27 |
19.3.2008 |
53.722.677 |
16.072.831 |
15.802.500 |
270.331 |
16.072.831 |
30% |
0% |
27,5 |
25.3.2008 |
21.140.757 |
546.779 |
546.779 |
0 |
546.779 |
3% |
0% |
28,9 |
26.3.2008 |
16.282.892 |
10.316.100 |
9.816.100 |
500.000 |
10.316.100 |
63% |
100% |
29,4 |
27.3.2008 |
35.226.500 |
7.595.000 |
7.095.000 |
500.000 |
7.595.000 |
22% |
79% |
29,7 |
28.3.2008 |
27.350.359 |
11.177.500 |
10.177.500 |
0 |
10.177.500 |
37% |
100% |
29,4 |
31.3.2008 |
6.692.363 |
2.158.943 |
2.158.943 |
0 |
2.158.943 |
32% |
0% |
29,6 |
1.4.2008 |
22.163.922 |
7.132.500 |
7.017.500 |
115.000 |
7.132.500 |
32% |
100% |
29,5 |
2.4.2008 |
22.557.394 |
4.891.360 |
386.360 |
0 |
386.360 |
2% |
- |
30,2 |
3.4.2008 |
24.644.163 |
2.332.500 |
1.332.500 |
0 |
1.332.500 |
5% |
0% |
30,4 |
4.4.2008 |
7.752.791 |
1.195.000 |
195.000 |
1.000.000 |
1.195.000 |
15% |
0% |
30,2 |
7.4.2008 |
13.720.781 |
5.738.000 |
0 |
5.238.000 |
5.238.000 |
38% |
0% |
30,6 |
8.4.2008 |
21.952.815 |
4.300.000 |
3.300.000 |
1.000.000 |
4.300.000 |
20% |
0% |
31 |
9.4.2008 |
24.881.275 |
8.842.500 |
6.700.000 |
1.642.500 |
8.342.500 |
34% |
- |
31,2 |
10.4.2008 |
23.897.808 |
7.720.000 |
6.000.000 |
1.720.000 |
7.720.000 |
32% |
- |
30,8 |
11.4.2008 |
19.481.824 |
7.188.181 |
7.188.181 |
0 |
7.188.181 |
37% |
- |
30,4 |
14.4.2008 |
4.607.599 |
1.235.794 |
235.794 |
1.000.000 |
1.235.794 |
27% |
0% |
29,8 |
15.4.2008 |
7.944.936 |
2.500.000 |
1.000.000 |
1.500.000 |
2.500.000 |
31% |
100% |
29,8 |
16.4.2008 |
15.870.745 |
1.157.412 |
657.412 |
-1000000 |
-342.588 |
-2% |
0% |
30,5 |
17.4.2008 |
15.831.453 |
3.172.500 |
1.000.000 |
2.172.500 |
3.172.500 |
20% |
0% |
30,9 |
18.4.2008 |
9.661.683 |
17.500 |
-3000000 |
17.500 |
-2.982.500 |
-31% |
0% |
31,3 |
21.4.2008 |
3.247.114 |
1.000.000 |
0 |
1.000.000 |
1.000.000 |
31% |
0% |
31,1 |
22.4.2008 |
6.322.329 |
2.197.500 |
2.182.500 |
15.000 |
2.197.500 |
35% |
100% |
30,6 |
23.4.2008 |
17.277.575 |
0 |
0 |
0 |
0 |
0% |
0% |
30,8 |
25.4.2008 |
10.565.777 |
1.585.000 |
0 |
1.085.000 |
1.085.000 |
10% |
83% |
31 |
28.4.2008 |
3.897.434 |
0 |
0 |
0 |
0 |
0% |
0% |
31 |
29.4.2008 |
12.476.290 |
4.500.000 |
0 |
4.500.000 |
4.500.000 |
36% |
60% |
30 |
30.4.2008 |
13.316.408 |
2.500.000 |
0 |
2.500.000 |
2.500.000 |
19% |
83% |
29,9 |
2.5.2008 |
5.651.047 |
3.525.000 |
0 |
3.525.000 |
3.525.000 |
62% |
- |
29,7 |
5.5.2008 |
13.576.192 |
4.769.113 |
0 |
4.769.113 |
4.769.113 |
35% |
- |
28,6 |
6.5.2008 |
24.827.761 |
3.492.190 |
0 |
3.492.190 |
3.492.190 |
14% |
3% |
27,8 |
7.5.2008 |
26.087.139 |
8.492.500 |
307.500 |
7.185.000 |
7.492.500 |
29% |
98% |
27,9 |
8.5.2008 |
11.057.402 |
8.003.979 |
3.008.000 |
4.995.979 |
8.003.979 |
72% |
- |
27,6 |
9.5.2008 |
16.333.591 |
8.889.603 |
2.612.500 |
6.277.103 |
8.889.603 |
54% |
- |
27,4 |
13.5.2008 |
19.848.933 |
6.522.500 |
6.522.500 |
0 |
6.522.500 |
33% |
100% |
27,1 |
14.5.2008 |
11.428.042 |
5.333.345 |
3.000.000 |
2.333.345 |
5.333.345 |
47% |
0% |
26,6 |
15.5.2008 |
30.437.420 |
16.771.500 |
10.771.500 |
6.000.000 |
16.771.500 |
55% |
100% |
25,9 |
16.5.2008 |
35.453.153 |
13.972.203 |
13.972.203 |
0 |
13.972.203 |
39% |
- |
26 |
19.5.2008 |
6.056.660 |
40.000 |
0 |
40.000 |
40.000 |
1% |
0% |
26,1 |
20.5.2008 |
17.844.541 |
11.885.000 |
11.885.000 |
0 |
11.885.000 |
67% |
0% |
26 |
21.5.2008 |
24.245.706 |
4.500.000 |
1.000.000 |
3.500.000 |
4.500.000 |
19% |
0% |
26,1 |
22.5.2008 |
5.123.674 |
125.000 |
120.000 |
5.000 |
125.000 |
2% |
100% |
26 |
23.5.2008 |
11.330.161 |
7.130.850 |
7.130.850 |
0 |
7.130.850 |
63% |
100% |
25,7 |
26.5.2008 |
13.866.722 |
5.228.789 |
1.997.500 |
3.231.289 |
5.228.789 |
38% |
- |
25,5 |
27.5.2008 |
6.281.918 |
2.000.000 |
2.000.000 |
0 |
2.000.000 |
32% |
0% |
25,7 |
28.5.2008 |
13.314.584 |
6.000.000 |
6.000.000 |
0 |
6.000.000 |
45% |
- |
25,6 |
29.5.2008 |
8.019.541 |
6.910.785 |
3.910.785 |
3.000.000 |
6.910.785 |
86% |
- |
25,5 |
30.5.2008 |
22.059.068 |
15.403.350 |
7.403.350 |
8.000.000 |
15.403.350 |
70% |
100% |
25,2 |
2.6.2008 |
32.149.167 |
19.529.711 |
18.529.711 |
1.000.000 |
19.529.711 |
61% |
- |
24,9 |
3.6.2008 |
33.544.008 |
19.460.426 |
19.460.426 |
0 |
19.460.426 |
58% |
100% |
24,7 |
4.6.2008 |
28.453.521 |
18.328.016 |
15.321.911 |
3.006.105 |
18.328.016 |
64% |
0% |
24,7 |
5.6.2008 |
14.238.503 |
4.089.069 |
4.000.000 |
89.069 |
4.089.069 |
29% |
- |
24,8 |
6.6.2008 |
9.635.383 |
5.992.869 |
3.916.157 |
2.076.712 |
5.992.869 |
62% |
70% |
|