Print

Mál nr. 311/2004

Lykilorð
  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabótamál
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. mars 2005.

Nr. 311/2004.

Hlynur Eggertsson

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Gæsluvarðhald. Skaðabótamál. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Gjafsókn.

H, sem hafði setið í gæsluvarðhaldi um tæplega þriggja mánaða skeið vegna gruns um aðild að innflutningi á fíkniefnum, krafðist skaðabóta eftir að ríkissaksóknari tilkynnti honum að mál á hendur honum hefði verið fellt niður. Talið var að hegðun H hafi leitt til handtöku hans og framkoma hans við skýrslugjöf hjá lögreglu hafi verið með þeim hætti að hún hafi stuðlað, ef ekki valdið því, að hann var hnepptur í gæsluvarðhald og hversu sú vist hans dróst á langinn. Var íslenska ríkið því sýknað af bótakröfu H þrátt fyrir að gæsluvarðhaldtíminn hafi verið í lengra lagi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. júlí 2004. Hann krefst þess að stefndi greiði 4.900.000 krónur með ársvöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. janúar 2001 til 1. júlí sama ár og samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 5. september 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. þeirra laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

I.

Atvikum málsins og málsástæðum eru gerð skil í héraðsdómi. Áfrýjandi krefst bóta af stefnda vegna setu sinnar í gæsluvarðhaldi frá 7. nóvember 2000 til 29. janúar 2001, er hann var látinn laus. Gæsluvarðhaldinu var hagað í samræmi við b. – e. liði 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til 5. janúar 2001, en þann dag var hætt að takmarka aðgang áfrýjanda að fjölmiðlum, sbr. e. lið ákvæðisins. Áfrýjanda var kynnt, með bréfi ríkissaksóknara 13. mars 2003, að mál á hendur honum hefði verið fellt niður með vísun til 112. gr. laga nr. 19/1991, þar sem ekki var talið nóg fram komið við rannsókn málsins til þess að líklegt væri til sakfellis hans. Með bréfi 5. ágúst 2003 krafði áfrýjandi dómsmálaráðuneyti um bætur vegna gæsluvarðhalds að ósekju. Kröfu sína reisir hann á XXI. kafla laga nr. 19/1991 og vísar sérstaklega til ákvæða 175. gr. og 176. gr. kaflans. Þá vitnar hann einnig til 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar má engan svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Í 3. mgr. sömu greinar segir meðal annars að hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skuli án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skuli dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem þyngri refsing liggur við en fésekt. Þá kveður ákvæðið jafnframt á um það að maður skuli ekki sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur. Í lokaákvæði greinarinnar segir svo að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta. Í c. lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er mælt svo fyrir að svipta megi mann frelsi með löglegri handtöku eða gæslu, sem efnt sé til í því skyni að færa hann fyrir réttan handhafa opinbers valds, enda hvíli á honum rökstuddur grunur um afbrot eða með rökum sé talið nauðsynlegt að koma í veg fyrir að hann fremji afbrot eða komist undan að svo búnu. Í 5. mgr. ákvæðisins segir loks að sá sem tekinn hefur verið höndum eða settur í gæslu andstætt öðrum ákvæðum greinarinnar skuli eiga bótarétt, sem unnt sé að koma fram.

Hin almennu lagaákvæði um bætur handa sakborningum eru í XXI. kafla laga nr. 19/1991. Í 176. gr. laganna segir að dæma megi bætur vegna tiltekinna aðgerða, þar á meðal gæsluvarðhalds og annarra aðgerða, sem hafa frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi, sbr. 177. gr., ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið eins og á stóð nægilegt tilefni til þeirra eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Í 1. mgr. 175. gr. laganna, sbr. 42. gr. laga nr. 36/1999, eru ákvæði, sem ná til alls kaflans, en þar segir meðal annars í 1. mgr., að kröfu um bætur megi taka til greina, ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur hefur verið borinn, hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana. Þó megi fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal bæta fjártjón og miska, ef því er að skipta. Skilyrði bótaréttar XXI. kafla laga nr. 19/1991 hafa verið skýrð með hliðsjón af ákvæðum 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu á þann veg að sá sem sæta þarf gæsluvarðhaldi, án þess að hafa sannanlega unnið til frelsisskerðingar, njóti bótaréttar, nema hann sjálfur hafi valdið eða stuðlað að því að til aðgerða var gripið gagnvart honum eða þeim viðhaldið.

II.

Í héraðsdómi er rakið tilefni þess að áfrýjandi var handtekinn grunaður um aðild að innflutningi fjögurra mismunandi fíkniefnasendinga til landsins. Þar er greint frá framburði fólks um veruleg kaup þeirra á gjaldeyri fyrir áfrýjanda, sem hann hefur litla grein gert fyrir, og um hleranir lögreglu í nokkurn tíma á símtölum hans við aðra grunaða um þennan fíkniefnainnflutning. Ljóst er að þessi gjaldeyriskaup og símtöl voru þess eðlis að fullkomin ástæða var til handtöku áfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991. Áfrýjandi gerir ekki kröfu til bóta fyrir handtöku.

Þá er í héraðsdómi rakið að áfrýjandi var yfirheyrður af lögreglu sama dag og hann var handtekinn og næsta dag leiddur fyrir dómara og þess krafist að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 28. nóvember 2000. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu lögreglunnar og var áfrýjandi með úrskurði 7. nóvember 2000 úrskurðaður í gæsluvarðhald með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Úrskurður þessi var staðfestur með dómi Hæstaréttar 13. sama mánaðar. Í héraðsdómi eru síðan tíundaðar skýrslutökur af áfrýjanda þar sem meðal annars voru bornar undir hann upptökur af símahlerunum. Jafnframt er þar greint frá úrskurðum dómstóla um framlengingu gæsluvarðhaldsins. Fram kom að grunur beindist að þátttöku áfrýjanda í skipulagningu innflutnings fíkniefnanna, fjármögnun þeirra og móttöku til dreifingar hérlendis. Þátttaka hans, ef sönnuð hefði verið, gat varðað hann fangelsi um langan tíma. Í málinu hafa verið lagðir fram dómar sem leiddu af þessari rannsókn allri. Kemur þar fram að rannsóknin var umfangsmikil og verulegir almannahagsmunir voru því tengdir að upp kæmist um þessa brotastarfsemi alla. Fjöldi manns var viðriðinn þessi brot og nauðsynlegt var að grunaðir gætu ekki haft samband sín í milli.

Skýrslur áfrýjanda bera það með sér að hann ýmist kveðst ekkert muna um ákveðin símtöl, sem óumdeilt er að hann hefur átt við greinda aðila, eða skýringar hans á þeim eru afar ótrúverðugar. Stuðlaði hann þannig sjálfur að því að rannsóknin dróst á langinn og gæsluvarðhaldstíminn varð svo langur sem raun ber vitni. Þótt rannsóknin leiddi ekki til ákæru á hendur áfrýjanda verður ekki hjá því komist að líta svo á að hegðun hans sjálfs hafi leitt til handtöku hans og framkoma hans við skýrslugjöfina hjá lögreglu hafi verið með þeim hætti að hún hafi stuðlað, ef ekki valdið því, að hann var hnepptur í gæsluvarðhald og hversu sú vist hans dróst á langinn. Samkvæmt framansögðu, með stoð í niðurlagi 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991, verður að sýkna stefnda af bótakröfu áfrýjanda, þrátt fyrir að gæsluvarðhaldtíminn sé í lengra lagi.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Áfrýjandi hefur gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður hans í héraði er staðfestur á þann hátt sem greinir í dómsorði héraðsdóms. Gjafsóknarkostnaður hans fyrir Hæstarétti ákveðst í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Hlyns Eggertssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. þessa mánaðar, er höfðað 11. september 2003 af Hlyni Eggertssyni, [...], gegn íslenska ríkinu.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.900.000 krónur með vöxtum frá 30. janúar 2001 samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 5. september 2003 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr.og 12. gr. sömu laga. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

I.

Stefnandi var handtekinn 6. nóvember árið 2000 vegna gruns um aðild að stórfelldum fíkniefnabrotum. Um var að ræða fjögur mál sem stefnandi var talin tengjast.

Í fyrsta lagi var stefnandi grunaður um að hafa verið í samstarfi við nafngreindan mann í Hollandi um innflutning fíkniefna til Íslands og hafa fengið menn hérlendis til að skipta íslenskum peningum í gjaldeyri og senda hann til Hollands. Keyptu karl og kona gjaldeyri fyrir 3.673.642 krónur fyrir stefnanda á árinu 2000 fyrir peninga sem þau sögðust hafa fengið frá stefnanda. Sama fólk greindi frá því að það hefði skipt peningum fyrir stefnanda á árunum 1999 og 2000 og keypt gjaldeyri fyrir um 5.000.000 króna. Önnur kona kannaðist við að hafa keypt gjaldeyri fyrir stefnanda fyrir 338.403 krónur árið 2000. Var stefnandi grunaður um að hafa átt að taka við 10 kg af hassefni, afhenda 5 kg til annars manns og selja sjálfur 5 kg. Komu fíkniefnin til landsins með farskipi í júlí árið 2000 og var varpað í sjóinn skammt frá Engey með þeirri fyrirætlan að þau yrðu sótt síðar.

Í annan stað var stefnandi grunaður um að hafa lagt 250.000 krónur til fjármögnunar á fíkniefnum. Var það mat lögreglu að símtöl, sem hleruð höfðu verið, bentu til að stefnandi hefði átt að fá hálft kg af amfetamíni um það leyti sem hann kæmi frá Mallorca eftir miðjan júlí árið 2000. Hafi stefnandi ætlað að drýgja efnið með íblöndunarefni þannig að úr yrði eitt og hálft kg en málið snerist um innflutning á 8 kg af amfetamíni.

Í þriðja málinu var stefnandi grunaður um að hafa átt að taka við 94,12 g af kókaíni sem „burðardýr” og koma með það til landsins í maí árið 2000. Hafi hann jafnframt átt að selja fíkniefnið og að skipta hafi átt ágóða milli hans og þess manns sem stefnandi var talinn vera í samstarfi við í Hollandi.

Í fjórða lagi var stefnandi grunaður um innflutning á 342,03 g af kókaíni, 48,91 g af MDMA-dufti (ectsasy) og 2,1 ml af LSD-vökva en fíkniefnin voru flutt til landsins 18. október árið 2000. Jafnframt var stefnandi grunaður um að hafa átt að taka við fíkniefnum og sjá um sölu þeirra þannig að ágóði skiptist milli stefnanda og annars manns.

Stefnandi var yfirheyrður sama dag og hann var handtekinn en næsta dag krafðist lögreglan þess að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 28. nóvember 2000. Hafði þá hald verið lagt á um 8 kg af amfetamíni, 10 kg af hassi, milli 400 og 500 g af kókaíni, allt að 50 g af dufti sem innihélt MDMA auk LSD í fljótandi formi. Höfðu nokkrir menn setið í gæsluvarðhaldi eða voru í gæsluvarðhaldi á þessum tíma vegna gruns um aðild að innflutningi fíkniefnanna.

Krafa lögreglu á hendur stefnanda um gæsluvarðhald var einkum rökstudd með því sem fram kom í símtölum milli stefnanda og annarra sem hleruð höfðu verið. Beindist grunurinn að þátttöku stefnanda í skipulagningu innflutnings fíkniefnanna, fjármögnun þeirra og móttöku efnanna til dreifingar hérlendis. Fram kom í kröfunni um gæsluvarðhald að málið væri á frumstigi og væri umfangsmikil rannsókn fyrirsjáanleg. Bæri nauðsyn til að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi þar sem honum yrði að öðrum kosti auðvelt að torvelda rannsókn málsins, meðal annars með því að hafa áhrif á vitni og samseka.

Fallist var á kröfu lögreglu með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2000 með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurðinn með dómi 13. sama mánaðar.

Skýrslur voru teknar af stefnanda 17., 24. og 27. nóvember 2000. Voru meðal annars bornar undir stefnanda upptökur af símhlerunum. Kannaðist stefnandi við símtöl en að mati lögreglu voru svör hans við ýmsum spurningum fjarstæðukennd og ótrúverðug.

Lögregla krafðist áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir stefnanda 28. nóvember 2000 allt til 4. janúar 2001. Taldi lögregla að fyrir lægi að stefnandi þekkti og hefði haft tengsl við flesta þá sem kærðir voru í fyrrgreindum málum. Var og á það bent að rannsóknin væri sérlega umfangsmikil og bera yrði undir stefnanda mikinn fjölda símtala og framburða. Þá var vísað til skýrslna sem teknar höfðu verið af stefnanda en í þeim kæmi fram að stefnandi hefði verið afar ósamvinnufús. Kannaðist hann við að vera viðmælandi í símtölum þeim sem höfðu verið hleruð en þau væru á eins konar dulmáli. Stefnandi segðist hins vegar annars vegar ekkert vita um símtölin eða muna ekki eftir þeim.

Með úrskurði héraðsdóms 28. nóvember 2000 var fallist á framlengingu gæsluvarðhalds yfir stefnanda en tíminn var styttur til 19. desember sama árs. Voru tvær ítarlegar skýrslur teknar af stefnanda á þessu tímabili.

Er gæsluvarðhaldið rann út 19. desember 2000 var krafist framlengingar þess til 9. janúar 2001 á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Að mati lögreglu lágu þá fyrir framburðarskýrslur sem bentu ótvírætt til þátttöku stefnanda í innflutningi fíkniefna og fjármögnun til kaupa þeirra. Átti enn eftir að bera undir stefnanda allmörg símtöl og framburði. Þá höfðu skýrslur ekki verið teknar af öllum sem að málinu komu og var meðal annars beðið eftir að ætlaður aðalmaður í hluta málanna yrði framseldur frá Hollandi. Taldi lögregla mega vænta komu hans til landsins þar sem hún taldi að hann myndi ekki mótmæla framsalskröfunni.

Með úrskurði héraðsdóms 19. desember 2000 var orðið við kröfu lögreglu um framlengingu gæsluvarðhaldsins eins og hún var fram sett og með dómi Hæstaréttar 22. sama mánaðar var úrskurðurinn staðfestur. Á nefndu tímabili voru teknar fimm ítarlegar skýrslur af stefnanda. Í skýrslutöku 3. janúar 2001 viðurkenndi stefnandi að efni símtals sem borið var undir hann gengi út á að hann hefði átt að fá innihald fíkniefnapakka, sem varpað hafði verið fyrir borð úr farskipi skammt frá Engey, og hvað átt hafi að gera við hann. Hins vegar bar stefnandi sem fyrr við ókunnugleika og minnisleysi varðandi efni ýmissa símtala sem hann viðurkenndi að hafa átt.

Með kröfu 9. janúar 2001 fór lögregla fram á að stefnandi yrði úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 30. sama mánaðar og var fallist á kröfuna með úrskurði héraðsdóms sama dag. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 12. janúar 2001. Stefnandi var látinn laus úr gæsluvarðhaldi 29. janúar 2001.

Meðan á gæsluvarðhaldinu stóð sætti stefnandi einangrun, heimsóknarbanni, bréfaskoðun og fjölmiðlabanni samkvæmt b-, c-, d- og e- lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 en 5. janúar 2001 var fjölmiðlabanni aflétt.

Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins 14. nóvember 2003.

II.

Krafa stefnanda er reist á því að frá upphafi rannsóknar málsins hafi stefnandi neitað sakargiftum. Stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá 7. nóvember 2002 til og með 29. janúar 2001. Fyrirkomulag gæsluvarðhaldsins hafi allan tímann verið algjör einangrun samkvæmt b-, c-, d- og e- lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. Þar hafi verið um að ræða einangrun, heimsóknarbann, bréfaskoðun og svokallað fjölmiðlabann. Hafi stefnandi þannig verið látinn sæta gæsluvarðhaldi að ósekju í þágu svonefndra rannsóknarhagsmuna í samtals tæpa þrjá mánuði.

Ekki sé vafa undirorpið að gæsluvarðhaldið í svo langan tíma í fullkominni einangrun hafi haft í för með sér fyrir stefnanda andlega þjáningu og miska sem hann eigi rétt á að fá bættan að svo miklu leyti sem það sé unnt. Verði að telja að miskabótakrafa að fjárhæð 4.000.000 króna sé síst of há miðað við þann tíma sem stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi, svo og með tilliti til hinna alvarlegu sakargifta sem hefðu getað varðað margra ára fangelsi, hefðu þær verið á rökum reistar, en svo hafi ekki reynst vera.

Stefnandi hafi verið í fullri vinnu hjá A er hann var handtekinn. Samkvæmt yfirlýsingu A 27. maí 2003 sé tekjutap stefnanda fyrir tímabilið 6. nóvember 2002 (handtökudagur) til 29. janúar 2001 varlega áætlað 900.000 krónur. Krefji stefnandi stefnda um þá fjárhæð vegna tekjumissis meðan hann sætti gæsluvarðhaldi.

Að því er varði lagarök er vísað til XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og þá sér í lagi til 175. gr. og 176. gr. laganna. Einnig er í þessu sambandi vísað til 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 5. gr. og 8. gr. laga nr. 97/1995, og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Stefndi byggir sýknukröfu á því að lagaskilyrði hafi verið til að halda stefnanda í gæsluvarðhaldi vegna þess að rökstuddur grunur hafi beinst að honum um aðild að mjög umfangsmiklum fíkniefna­brotum, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Í stefnu sé ekki efast um að skilyrði hafi verið til að handtaka stefnanda en kröfur hans í málinu séu á því reistar að hann hafi verið í gæsluvarðhaldi samfellt frá 7. nóvember 2000 til og með 29. janúar 2001. Um gæsluvarðhaldið hafi í öllum tilvikum verið úrskurðað af dómi svo sem lög geri ráð fyrir. Í stefnu hafi engar ástæður verið færðar fram sem réttlætt gætu endurskoðun á þeim úrlausnum dómstóla, hvorki um skilyrði gæsluvarðhalds né tímalengd þess.

Ljóst sé að stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi í alllangan tíma enda hafi verið um að ræða rökstuddan grun um að hann tengdist stórfelldum fíkniefnabrotum eins og að framan sé lýst og hafi málið verið sérstaklega umfangsmikið og flókið. Málsástæður stefnanda að því er varði umfjöllun um bótaskilyrði og bótagrundvöll séu mjög knappar og nánast órökstuddar.

Fyrir liggi úrskurðir héraðsdóms og Hæstaréttar þar sem fallist hafi verið á kröfur lögreglustjóra um að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi en í þeim málum hafi reynt á skilyrði gæsluvarðhalds, eins og mælt sé fyrir um þau í lögum, og varðhaldi markaður tími.

Enda þótt ekki hafi komið til ákæru á hendur stefnanda og málið verið fellt niður með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 geri það bótarétt ekki sjálfgefinn. Hafi því ítrekað verið slegið föstu með dómum Hæstaréttar að 175. gr. og 176. gr. laganna verði ekki túlkaðar með þeim hætti að sýknudómur, niðurfelling rannsóknar eða það að horfið sé frá saksókn leiði sjálfkrafa til bótaskyldu stefnda. Tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins í stefnu og mannréttindasáttmála Evrópu leiði heldur ekki til slíkrar hlutlægrar ábyrgðar. Í ljósi þessa og þegar fyrir liggi að stefnandi hafi fjórum sinnum verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna mjög umfangs­mikillar rannsóknar hljóti að liggja í augum uppi að gera hafi orðið grein fyrir því í stefnu af hvaða ástæðum stefnandi hafi talið að stofnast hafi til bótaskyldu með vísan til nefndra ákvæða, þ.e. hvort hann telji að lagaskilyrði gæsluvarðhalds hafi ekki verið fyrir hendi á einhverjum stigum rannsóknar, rannsóknarhagsmunir hafi á einhverjum tíma fallið niður og þá hvenær, framkvæmd gæsluvarðhaldsins hafi ekki verið í samræmi við lög eða þess háttar. Ekkert sé að þessu vikið í stefnu og ekki á því byggt að stefnanda hafi verið haldið í gæsluvarðhaldi lengur en nauðsynlegt hafi verið vegna rannsóknarhagsmuna.

Með vísan til þessa bendi stefndi í fyrsta lagi á að til greina komi að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi sökum vanreifunar, sbr. d- til g- liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Verði hins vegar talið að málið sé tækt til efnismeðferðar sé kröfum og málsástæðum stefnanda mótmælt sem órökstuddum. Fyrir liggi að lögmæt skilyrði hafi staðið til þess að stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi þar sem rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi og miklir rannsóknarhagsmunir. Stefnandi hafi í raun ekki reifað málið svo heitið geti með tilliti til þeirra bótaskilyrða sem fram komi í upphafsákvæðum XXII. kafla laga nr. 19/1991. Þegar af þessum ástæðum beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda þar sem málatilbúnaður hans sé órökstuddur.

Skilyrði til bóta samkvæmt 176. gr. laga nr. 19/1991 séu ekki fyrir hendi. Ríkt tilefni hafi verið til gæsluvarðhaldsins enda miklir rannsóknarhagsmunir í húfi meðan á því hafi staðið. Þá hafi tilhögun gæsluvarðhaldsins verið í samræmi við lög og rannsóknarhagsmuni þar sem stefnanda hefði verið auðvelt að torvelda rannsóknina hefði hann með einum eða öðrum hætti getað fylgst með henni, haft samband við aðra sem grunaðir voru eða önnur vitni. Þá hafi tilhögun varðhaldsins verið nauðsynleg til að stefnandi fengi ekki spillt sönnunargögnum.

Grunsemdir lögreglu á hendur stefnanda hafi snúið að mörgum sendingum fíkniefna í fjórum aðskildum lögreglurannsóknum þar sem fjölmargir hafi komið við sögu og tengst með ýmsum hætti, beint og óbeint. Hafi hér verið um að ræða stærstu fíkniefnamál þessa tíma og augaleið gefi hversu brýnt sé frá þjóðfélagslegu sjónarmiði að svo flókin net fíkniefnaviðskipta séu upprætt. Í tilviki stefnanda hafi hann legið undir rökstuddum grun um að eiga samtímis aðild að mögum ótengdum málum sem sé óvenjulegt. Vinnsla málanna hafi verið tímafrek og útheimt mikla rannsóknarvinnu. Afla hafi þurft mjög margra gagna og vinna úr þeim. Skýrslutökur í málinu hafi verið vandasamar og mikill tími farið í að undirbúa þær. Af þessari ástæðu hafi verið ófært að mati lögreglu að láta stefnanda lausan fyrr en raunin varð, enda hafi tekið langan tíma að rannsaka ætluð tengsl hans við málin og tryggja að rannsóknarhagsmunum yrði ekki spillt. Liggi í augum uppi að rannsóknarvinna eins og í tilviki stefnanda sé mjög tímafrek, t.d. uppritun samtala og framburða, undirbúningur spurninga, rann­sókn á efni símtalanna og öflun annarra gagna eða staðfestinga í tengslum við þau. Bera hafi þurft símtölin undir aðra aðila og síðan stefnanda og vinna þá úr þeim upplýsingum að nýju. Framferði stefnanda meðan á gæsluvarðhaldinu hafi staðið hafi gert þessa vinnu augljóslega erfiðari og tímafrekari en ella hefði orðið. Þótt gæsluvarðhald sé þvingunaraðgerð og allajafna þungbær sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir andlegri þjáningu.

Svör stefnanda hafi ítrekað verið ótrúverðug þrátt fyrir að fyrir lægju upptökur af símahlerunum sem kynntar hafi verið honum skref fyrir skref þar sem hann hafi viðurkennt að vera viðmælandi í þeim símtölum auk þess að þekkja marga þá sem málinu hafi tengst. Hafi það ekki síst verið fyrir tilstuðlan stefnanda að gæsluvarðhaldið hafi staðið svo lengi sem raun beri vitni. Þrátt fyrir að hann hafi viðurkennt að hann væri viðmælandi í símtölunum hafi hann þráfaldlega borið við algjörum ókunnugleika við efni þeirra og samskipta sem undir hann hafi verið borin. Slíkan framburð verði að telja fjarstæðukenndan og ótrúverðugan miðað við hin sérkennilegu og flóknu samtöl sem með hliðsjón af öðrum upplýsingum hafi borið þess merki að varða fíkniefnaviðskipti með einum eða öðrum hætti. Lögð sé áhersla á að stefnanda hafi verið skylt að greina satt og rétt frá svo sem brýnt hafi verið fyrir honum í upphafi hverrar skýrslutöku, undanbragðalaust og greinilega, sbr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Af þessum sökum byggi stefndi á því að ef svo ólíklega vilji til að lagaskilyrði hafi brostið fyrir gæsluvarðhaldinu leiði framferði stefnanda við rannsókn málsins engu að síður til þess að fella beri niður bætur að öllu leyti, sbr. lokamálsl. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991.

Ýmislegt bendi og til þess að hinn rökstuddi grunur, sem fallið hafi á stefnanda, hafi átt við rök að styðjast og hafi því gæsluvarðhaldið verið fyrir tilstuðlan hans sjálfs. Hafi margt bent til þess að stefnandi hefði í raun verið þátttakandi í fjármögnun, innflutningi og dreifingu fíkniefna. Í skýrslutöku 3. janúar 2001 hafi stefnandi viðurkennt að hann hafi átt að taka á móti 5 kg af hassi sem hent hafi verið fyrir borð úr farskipi en að öðru leyti hafi hann haldið uppteknum hætti að bera við ókunnugleika eða minnisleysi um efni margra samtala og margt er hafi varðað meðferð mikilla fjármuna. Allt hafi þetta verið samskipti og ráðstafanir sem hafi verið þess eðlis að hverjum manni ætti að standa í fersku minni. Efni samtalanna, ráðagerðir um fjármögnun og gjaldeyriskaup og kunnugleiki við aðra aðila, sem grunaðir hafi verið, hafi bent til þess að grunur á hendur stefnanda hafi átt við rök að styðjast þrátt fyrir að fallið hafi verið frá ákæru.

Með vísan til alls framanritaðs sé því mótmælt að kröfur stefnanda eigi sér stoð í ákvæðum 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrár eða 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu.

Mótmælt er kröfu um bætur fyrir ætlað fjártjón. Í málinu hafi stefnandi ekki lagt fram skattframtöl vegna tekna áranna 2000 og 2001. Ekki hafi verið lagðir fram launaseðlar eða ráðningarsamningur. Engin gögn séu þannig um ráðningu stefnanda hjá föður sínum, hve lengi þeirri ráðningu hafi verið ætlað að vara eða hvort og með hvaða hætti hafi verið dregið af launum hans. Liggi fyrir að stefnandi hafi verið á launum í nóvember og desember 2000. Ekkert liggi þó fyrir um janúar 2001. Staðfestingu, undirritaðri af stefnanda sjálfum og föður hans, sé mótmælt sem rangri, enda sé þar gert ráð fyrir að stefnandi hafi að lágmarki orðið af launum að fjárhæð 900.000 krónur á tímabilinu sem hann hafi setið í haldi eða frá 6. nóvember 2000 til 29. janúar 2001. Láti nærri að gert sé ráð fyrir að laun hafi verið tæpar 300.000 krónur á mánuði en fyrir því sé engin stoð í gögnum málsins og sé fjárhæðin auk þess í algeru ósamræmi við aðrar upplýsingar í málinu um laun stefnanda í kringum þetta tímabil. Kröfum um bætur fyrir ætlað fjártjón vegna tekjumissis sé því mótmælt sem órökstuddum og ósönnuðum.

Varakrafa er byggð á sömu málsástæðum og að framan greinir. Lögð er áhersla á að stefnandi hafi sjálfur verið valdur að því að hann sætti gæsluvarðhaldi og torveldað rannsóknina með sérstaklega ótrúverðugum fram­burð­i í skýrslum, sbr. lokamálslið 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Miska­bótakröfu sé mótmælt sem allt of hárri. Þá er byggt á sömu mótmælum gegn kröfu um bætur fyrir fjártjón og áður er getið.

Mótmælt er vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda, einkum upphafstíma þeirra. Verði fallist á bótaskyldu komi ekki til greiðslu dráttarvaxta fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu.

III.

Í stefnu eru tilgreindar dómkröfur stefnanda. Er þar á því byggt að stefnandi hafi verið látinn sæta gæsluvarðhaldi að ósekju enda hafi hann neitað sök allan tímann. Að lokum er í stefnu vísað til helstu lagaákvæða sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á. Þykja þannig vera uppfyllt þau formskilyrði sem áskilin eru í 80. gr. laga nr. 91/1991 til að efnisdómur verði lagður á málið.

Samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991, svo sem henni var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999, má dæma bætur ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur var borinn, hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana eða sakborningur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu. Þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Þá má, samkvæmt 176. gr. laganna, dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarra aðgerða, sem hefur frelsisskerðingu í för með sér, aðra en fangelsi, ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt enda sé jafnframt uppfyllt skilyrði 175. gr.

Skýra verður 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 svo að í síðarnefndu greininni, svo og 177. gr. laganna, sem hér á ekki við, séu tæmandi taldar þær aðgerðir er leitt geta til bótaskyldu stefnda á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu. Jafnframt þurfi þó að vera fullnægt öðrum skilyrðum sem greinir í 176. gr. laganna og þeim skilyrðum sem um ræðir í 175. gr. þeirra. Hafa ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, með áorðnum breytingum, verið skýrð svo að þau veiti ekki ríkari bótarétt en leiddar verða af reglum XXI. kafla laga nr. 19/1991.

Svo sem áður greinir skýrðu karlmaður og kvenmaður lögreglu frá því að þau hefðu keypt gjaldeyri að fjárhæð 3.673.642 krónur á árinu 2000 fyrir peninga sem þau sögðust hafa fengið frá stefnanda. Sama fólk greindi og frá því að það hefði margoft skipt peningum fyrir stefnanda á árunum 1999 og 2000 og keypt gjaldeyri fyrir hann fyrir um 5.000.000 króna. Þá kannaðist önnur kona við að hafa keypt gjaldeyri fyrir stefnanda fyrir allt að 338.403 krónur árið 2000. Er hér um að ræða þekkta aðferð þeirra sem stunda fíkniefnaviðskipti, í því skyni að dylja slóð sína. Stefnandi kannaðist við að hafa fengið fólkið til að kaupa gjaldeyri fyrir sig en framburði hans og fólksins um fjölda tilvika og fjárhæðir bar ekki saman.

Ofangreindur framburður karlmanns þess og þeirra tveggja kvenmanna, sem greindu frá gjaldeyriskaupum sínum fyrir stefnanda, en framburður þeirra hefur stoð í bankagögnum og að hluta framburði stefnanda, var til þess fallinn að rökstuddur grunur beindist að stefnanda um að hafa notað peningana til stórra fíkniefnakaupa. Hið sama er að segja um ýmis símtöl stefnanda við fólk sem tengdist þeim málum er voru til rannsóknar.

Af málsgögnum er ljóst að stefnandi var grunaður um aðild að stórfelldum innflutningi fíkniefna. Um var að ræða fjögur aðskilin mál sem gerð er grein fyrir í málavaxtalýsingu. Komu þar fjölmargir við sögu og var rannsókn mála þessara afar umfangsmikil og tímafrek. Teknar voru margar ítarlegar skýrslur af stefnanda og öðrum sem taldir voru tengjast málunum.              Við yfirheyrslu 3. janúar 2001 viðurkenndi stefnandi loks þátttöku í einu málanna með því að hafa átt að taka á móti 5 kg af hassi sem varpað hafði verið fyrir borð úr farskipi í júlí árið 2000. Fíkniefnið fannst ekki þrátt fyrir mikla leit. Eftir það voru teknar skýrslur af stefnanda 5. og 22. sama mánaðar þar sem bornar voru undir hann upptökur af símtölum við einstaklinga sem voru undir rökstuddum grun um aðild að einu málanna. Að lokum var tekin ítarleg skýrsla af stefnanda 29. sama mánaðar þar sem enn voru bornar undir hann upptökur af símtölum við aðila sem tengdust rannsókn sama máls. Að lokinni þeirri yfirheyrslu var stefnandi látinn laus.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið er það álit dómsins að miðað við umfang málsins hafi rannsókn lögreglu verið hraðað eins og kostur var.

Stefnandi neytti ekki þess réttar síns að neita að svara spurningum og kaus allan tímann að gefa skýrslu. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 19/1991 ber sakborningi að skýra satt frá kjósi hann að gefa skýrslu um sakarefnið. Bera lögregluskýrslur með sér að framangreind skylda hafi verið brýnd fyrir stefnanda.

Samkvæmt framansögðu bar stefnanda að skýra frá sannleikanum samkvæmt um þau atriði sem hann var spurður um. Á þeim tíma, sem stefnandi sætti gæsluvarðhaldi, voru bornar undir hann tugir símtala hans við ýmsa aðila sem tengdust rannsókn málanna en símtölin höfðu sem fyrr segir verið hleruð. Stefnandi kannaðist við að vera viðmælandi í símtölunum, sem í langflestum tilvikum gengu að mati dómsins ótvírætt út á fíkniefnaviðskipti, en kvaðst ýmist ekki muna eftir þeim eða svaraði út í hött spurningum lögreglu um efni þeirra. Mjög algengt var að stefnandi svaraði: „Ég man það ekki ... Ég veit það ekki”. Sem dæmi um svör stefnanda við spurningum lögreglu skal getið yfirheyrslu 20. desember 2000. Þar var hann spurður um hver tilgangurinn hafi verið með því af hálfu áðurnefnds karlamanns, sem keypti gjaldeyri fyrir stefnanda, að senda peninga fyrir stefnanda til Hollands. Svarað stefnandi: „Ég veit það ekki en mig grunaði að þeir væru fyrir kaupum á fíkniefnum”. Þá var stefnandi spurður um hvar hann hefði fengið peningana og svaraði stefnandi: „Ég þori ekki að greina frá því hvar ég fékk þessa peninga vegna ótta við hefndaraðgerðir”. Enn var stefnandi spurður hvort einhver annar aðili en stefnandi hefði staðið á bak við sendingarnar og svaraði stefnandi þá: „Já það er mjög líklega einhver annar aðili en ég sem stóð á bak við þessa peninga”. Spurningu um hvernig það kom til að stefnandi bað manninn um að senda peningana til Hollands svaraði stefnanda: „Ég veit ekki út af hverju”.

Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða dómsins að lögmæt skilyrði hafi verið til gæsluvarðhalds yfir stefnanda og fullt tilefni til þess að beita því úrræði. Þá er það álit dómsins að stefnandi hafi, sem fyrr segir, með afar ótrúverðugum tilsvörum sínum við skýrslugjöf hjá lögreglu stuðlað af sjálfsdáðum að gæsluvarðhaldi yfir sér þannig að ekki þykja uppfyllt lagaskilyrði til að dæma honum bætur, sbr. niðurlagsákvæði 175. gr. laga nr. 19/1991. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Stefnandi nýtur gjafsóknar í máli þessu og eru því ekki efni til að dæma íslenska ríkið til greiðslu málskostnaðar. Fellur málskostnaður þar af leiðandi niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Hlyns Eggertssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 300.000 krónur.