Print

Mál nr. 38/2002

Lykilorð
  • Kærumál
  • Upplýsingaskylda
  • Fjarskipti
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. febrúar 2002.

Nr. 38/2002.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi)

gegn

Tali hf.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Upplýsingaskylda. Fjarskipti. Friðhelgi einkalífs. Stjórnarskrá.

T hf. var gert skylt að láta lögreglunni í té upplýsingar um hvaða símanúmer hefði verið notað í farsíma með tilteknu IMEI númeri yfir tveggja daga tímabil. Jafnframt hver væri skráður fyrir símanúmerinu, í hvaða símanúmer hefði verið hringt þessa daga úr símanum og úr hvaða símanúmerum hefði verið hringt í símann þessa daga. Aftur á móti var kröfu lögreglunnar um að T hf. yrði gert skylt að láta í té upplýsingar um hverjir væru skráðir notendur þriggja símanúmera hafnað þar sem því hafði ekki verið hnekkt að þessi númer væru félaginu ýmist óviðkomandi eða að því væri ókleift af tæknilegum ástæðum að láta þessar upplýsingar í té.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. janúar 2002, þar sem varnaraðila var gert skylt að láta sóknaraðila í té upplýsingar um hvaða símanúmer hafi verið notað í farsíma með svonefndu IMEI númeri [...] dagana 9. og 10. janúar sl. Jafnframt hver sé skráður fyrir símanúmerinu, í hvaða símanúmer var hringt þessa daga úr símanum og úr hvaða símanúmerum var hringt í símann þessa daga. Enn fremur var varnaraðila gert skylt að láta sóknaraðila í té upplýsingar um hver sé skráður notandi símanúmerana [...], [...] og [...]. Kæruheimild er í 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

I.

Hinn 10. janúar 2002 var nafngreindur maður handtekinn, grunaður um fjársvik og tilraunir til fjársvika í nokkrum verslunum í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Er nánar lýst í hinum kærða úrskurði hvaða aðferðum hann beitti við iðju sína. Við handtökuna fannst á manninum farsími og grunar lögreglu að sá handtekni hafi notað símtækið til að eiga samskipti við aðra menn, sem tengdust nefndum brotum. Miða kröfur sóknaraðila í málinu að því að upplýsa hvaða menn sé hér um að ræða, en í því skyni sé mikilvægt að afla nánari vitneskju um símtækið og notkun á því á tilteknu tímabili.

Fram er komið að á farsímann er skráð tiltekið IMEI númer. Kemur fram í málatilbúnaði varnaraðila fyrir Hæstarétti að svokölluðu IMEI númeri (International Mobile Equipment Identity) sé ætlað að einkenna símtækið sem slíkt. Í það sé unnt að nota símkort, sem geti ýmist verið greidd fyrirfram eða eftirá. Símkortin geti verið upprunnin hjá hverju því farsímaþjónustufyrirtæki, sem hafi heimild til að gefa út kort með tilteknu símanúmeri. Telur varnaraðili ekki uppfyllt í málinu skilyrði 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 til þess að kröfur sóknaraðila megi ná fram að ganga. Er tekið fram í kæru að ástæða hennar sé meðal annars sú að í úrskurði héraðsdómara sé kveðið á um að veita skuli upplýsingar úr tilteknu farsímatæki en ekki farsímanúmeri, en telja verði óheimilt að veita slíkar upplýsingar. Í greinargerð til Hæstaréttar bendir varnaraðili meðal annars á að glati eigandi farsímatækis því geti hver sem er notað það með öðru símkorti. Upplýsingar um notkun farsímatækisins geti því leitt til skerðingar á einkalífi þess, sem rannsókn beinist ekki að. Umbeðnar upplýsingar séu viðkvæmar einkalífsupplýsingar, sem njóti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og eigi það við um hver hafi samband við hvern í síma, þótt ekki sé um hlerun efnis símtala að ræða. Þá sé krafa sóknaraðila ekki nægilega skilgreind til að hún uppfylli skilyrði sérgreiningar. Varnaraðili tekur einnig fram að símanúmerið [...] sé honum með öllu óviðkomandi. Símanúmerin [...] og [...] séu hins vegar hjá honum, en þau séu fyrirframgreidd og því ekki vitað um notendur þeirra.

Sóknaraðili styður kröfur sínar meðal annars við það að hin ætluðu fjársvik nemi háum fjárhæðum og hluti varnings, sem svikinn hafi verið út, sé ekki enn kominn í leitirnar. Telur hann lagaskilyrði vera uppfyllt til að fallast á kröfur hans.

II.

Samkvæmt b. lið 86. gr. laga nr. 19/1991 er heimilt í þágu rannsóknar máls og að gengnum dómsúrskurði að fá upplýsingar hjá yfirvöldum um símtöl við tiltekinn síma eða fjarskipti við tiltekið fjarskiptatæki, enda séu uppfyllt skilyrði, sem getið er í 2. mgr. 87. gr. sömu laga. Skyldu til að veita slíkar upplýsingar er unnt að leggja á einkaaðila, sem rekur fjarskipti, jafnt sem yfirvöld, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 3740. Verður fallist á með sóknaraðila að kröfur hans um aðgang að upplýsingum, sem greinir í 1. tölulið hins kærða úrskurðar, rúmist innan þeirra heimilda, sem felast í fyrrnefndu lagagreininni. Engar aðstæður eru í ljós leiddar í málinu, sem leitt geta til þess að varhugavert sé með tilliti til friðhelgis einkalífs að veita aðgang að þeim upplýsingum, sem hér um ræðir. Að þessu virtu og þar sem skilyrði samkvæmt 2. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 eru uppfyllt verður staðfest niðurstaða í 1. tölulið hins kærða úrskurðar um þargreindar skyldur varnaraðila.

Með 2. tölulið hins kærða úrskurðar var varnaraðila gert skylt að láta í té upplýsingar um hver sé skráður notandi þriggja símanúmera. Af hálfu varnaraðila er fram komið að ýmist séu þessi númer honum óviðkomandi eða að honum sé ókleift af tæknilegum ástæðum að láta þessar upplýsingar í té. Hefur þessum staðhæfingum ekki verið hnekkt. Að þessu virtu verður tekin til greina krafa hans um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að þessu leyti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að 2. töluliður hans er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. janúar 2002.

Sýslumaðurinn í Kópavogi hefur í dag gert kröfu um að Tal hf.. verði með úrskurði gert að veita lögreglunni í Kópavogi eftirtaldar upplýsingar um símtöl og símanúmer:

1. Hvaða símanúmer var notað í farsíma með IMEI númerið [...] dagana 9. og 10. janúar s.l., hver er skráður fyrir því símanúmeri og í hvaða símanúmer var hringt þennan dag úr símanum og hvaða símanúmer hringdu í símann þennan dag.

2. Hver er skráður notandi eftirfarandi símanúmera: [...], [...] og [...].

Málsatvik.

Í greinargerð sýslumannsins í Kópavogi, sem og í framlögðum lögregluskýrslum kemur fram að [...].

Niðurstaða.

Hjá lögreglunni í Kópavogi er svo sem rakið er hér að frama og fram kemur í framlögðum rannsóknargögnum til rannsóknar talsvert alvarlegt brot á 248. gr. almennra hegningarlaga sem framangreindur X er grunaður um, en fleiri eru taldir geta verið viðriðnir.  Gögn málsins hníga að því að öll framangreind símanúmer og símatæki geti hafa verið notuð í sambandi við meint svikamisferli.  Fallist er á að lögreglunni sé nauðsynlegt að fá framangreindar upplýsingar í þágu rannsóknarinnar og með vísan í hin tilvitnuðu ákvæði laga nr. 19/1991 sbr. lög nr. 36/1999, b-lið 86. gr., sbr. 1. mgr. 87. gr. úrskurðast að Tal hf. sé skylt að láta lögreglu í Kópavogi í té greindar upplýsingar.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Tali hf. er skylt að láta lögreglunni í Kópavogi í té þessar upplýsingar:

1. Hvaða símanúmer var notað í farsíma með IMEI númerið [...] dagana 9. og 10. janúar s.l. Hver er skráður fyrir símanúmerinu og í hvaða símanúmer var hringt þessa daga úr símanum og úr hvaða símanúmerum var hringt í þessa daga.

2. Hver er skráður notandi símanúmerana [...], [...] og [...].