Print

Mál nr. 144/2001

Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Sjómaður
  • Tímabundin örorka

Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. október 2001.

Nr. 144/2001.

Indriði Hauksson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Skagstrendingi hf. og

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Sjómenn. Tímabundin örorka.

I, sem var vélstjóri á fiskiskipi í eigu S hf., lenti í bifreiðarslysi í tengslum við vinnu sína og varð óvinnufær vegna þess um níu mánaða skeið. Í málinu lá fyrir að I átti að vera í launalausu leyfi í tveimur veiðiferðum sem voru farnar í kjölfar slyssins. Í málinu deildu aðilar um hvort draga ætti staðgengilslaun, sem I fékk greidd fyrir umræddar ferðir samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, frá bótum til hans fyrir tímabundið atvinnutjón, sbr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hæstiréttur taldi að við skýringu á þágildandi 2. mgr. 2. gr. yrði að hafa að leiðarljósi að ákvæðið væri reist á þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli ætti ekki rétt á hærri bótum en svöruðu raunverulegu fjártjóni hans. Af því leiddi að greiðslur, sem tjónþoli nyti úr hendi þriðja manns, yrðu að meginreglu dregnar frá kröfu tjónþola um skaðabætur fyrir tímabundið atvinnutjón nema mælt væri á annan veg í lögum. Skaðabótakrafa I yrði því eingöngu að taka mið af þeim launum sem hann hefði haft ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu. Taldi Hæstiréttur að líta yrði á greiðsluna sem laun og að hvorki yrði leitt af 36. gr. sjómannalaga né 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga að slík launagreiðsla ætti að koma öðru vísi til álita við uppgjör skaðabóta fyrir tímabundið atvinnutjón, en aðrar launatekjur tjónþola. Var S hf. ásamt vátryggingafélagi bifreiðarinnar því sýknað af kröfu I.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2001. Hann krefst þess að stefndu verði í sameiningu dæmdir til að greiða sér 3.034.856 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir þess að fjárhæð, sem áfrýjanda kann að verða dæmd, verði látin bera vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 1. nóvember 1999 til 1. júlí 2001 og samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til uppsögu dóms í málinu, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. síðastnefndra laga frá þeim degi til greiðsludags. Verði málskostnaður þá látinn falla niður.

I.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir slysi 15. janúar 1999 þegar hann var á leið með bifreið frá Akureyri til Skagastrandar í tengslum við vinnu sína sem vélstjóri á fiskiskipinu Arnari HU 1, sem var í eigu stefnda, Skagstrendings hf. Bifreiðin, sem áfrýjandi ferðaðist í, tilheyrði félaginu og var ábyrgðartryggð hjá Tryggingu hf., sem stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., hefur nú komið í stað fyrir. Áfrýjandi var óvinnufær vegna slyssins til 15. október 1999. Aðilana greinir ekki á um að stefndu beri ábyrgð á því tjóni, sem slysið hefur valdið áfrýjanda.

Óumdeilt er að störfum áfrýjanda á áðurnefndu skipi var háttað þannig að hann fór tvær veiðiferðir í röð, en var í launalausu leyfi í þeirri þriðju. Þegar hann varð fyrir slysinu lá fyrir að hann yrði í slíku leyfi í næstu ferð skipsins, sem átti að vera sú fyrsta á árinu 1999. Þá hafði verið afráðið milli áfrýjanda og stefnda Skagstrendings hf. að sá fyrrnefndi yrði aukalega í launalausu leyfi í annarri veiðiferð ársins, þar sem kona hans átti þá von á barni. Hann átti á hinn bóginn að koma aftur til starfa í þriðju ferð ársins, en taka launalaust leyfi í þeirri fjórðu. Upp frá því áttu störf áfrýjanda að fara í fyrra horf.

Fyrir liggur að áfrýjandi fékk greidd frá stefnda Skagstrendingi hf. svokölluð staðgengilslaun vegna tveggja fyrstu veiðiferða ársins 1999, sem stóðu yfir á tímabilinu frá 17. janúar til 1. apríl á því ári. Þessi laun, sem voru samtals 2.888.266 krónur, voru greidd áfrýjanda án tillits til þess að hann hafi átt að vera í launalausu leyfi í þessum veiðiferðum, en aðilarnir eru sammála um að áfrýjandi hafi átt rétt á þeim úr hendi vinnuveitanda síns samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Eftir þetta tímabil fékk áfrýjandi 408.907 krónur í kauptryggingu til 15. júlí 1999. Greiðslur stefnda Skagstrendings hf. til áfrýjanda vegna slysaforfalla námu þannig alls 3.297.173 krónum. Að auki fékk áfrýjandi slysadagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins og dagpeninga úr slysatryggingu sjómanna, alls 215.234 krónur. Óumdeilt er að ef áfrýjandi hefði ekki orðið fyrir slysi hefðu laun hans á tímabilinu frá 15. janúar til 15. október 1999 orðið 5.495.278 krónur samkvæmt því fyrirkomulagi á vinnu hans, sem áður var lýst. Er þá miðað við að hann hefði verið við störf í þriðju, fimmtu, sjöttu og áttundu veiðiferð ársins, en í launalausu leyfi í tveimur fyrstu ferðunum, svo og þeirri fjórðu og sjöundu.

Í málinu krefst áfrýjandi greiðslu úr hendi stefndu sem eiganda og vátryggjanda bifreiðarinnar, sem hann varð fyrir slysi í, vegna tímabundins atvinnutjóns síns samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og það ákvæði hljóðaði á slysdegi. Telur áfrýjandi sig eiga rétt á að fá áðurnefndar 5.495.278 krónur vegna tapaðra launa í þriðju, fimmtu, sjöttu og áttundu veiðiferð ársins 1999, auk kauptryggingar að fjárhæð 146.590 krónur vegna tímabilsins 30. apríl til 7. júní á því ári, meðan á fjórðu veiðiferðinni stóð, eða alls 5.641.868 krónur. Til frádráttar komi fyrrnefndar 408.907 krónur, sem áfrýjandi fékk í kauptryggingu, og dagpeningar að fjárhæð samtals 215.234 krónur, eða samtals 624.141 króna. Trygging hf. hafi greitt áfrýjanda 6. september og 21. desember 1999 samtals 1.982.870 krónur í bætur vegna tímabundins atvinnutjóns. Samkvæmt því vanti enn 3.034.857 krónur upp á að áfrýjandi fái þetta tjón að fullu bætt. Stefndu telja í hinn bóginn að frá áðurnefndum 5.495.278 krónum eigi draga samanlagðar greiðslur stefnda Skagstrendings hf. til áfrýjanda, sem námu eins og fyrr greinir 3.297.173 krónum, auk dagpeninga að fjárhæð 215.234 krónur. Mismuninn, 1.982.871 krónu, hafi áfrýjandi fengið greiddan frá Tryggingu hf.

Eins og aðilarnir hafa lagt málið fyrir stendur deila þeirra um það hvort draga eigi staðgengilslaun samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, sem stefndi Skagstrendingur hf. greiddi áfrýjanda vegna fyrstu og annarrar veiðiferðar ársins 1999, frá bótum til hans fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga. Með því að aðilarnir hafa lýst því yfir að ekki sé tölulegur ágreiningur milli þeirra verður að líta svo á að þeir séu sammála um að áfrýjandi eigi rétt á að fá greiddar 3.034.856 krónur ef umrædd staðgengilslaun verða ekki dregin frá bótum handa honum fyrir tímabundið atvinnutjón, en komi þau á hinn bóginn til frádráttar hafi áfrýjandi fengið tjónið að fullu bætt og verði stefndu þá sýknir af kröfu hans.

II.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir breytingar, sem gerðar voru á því með 1. gr. laga nr. 37/1999, skyldi draga frá skaðabótum vegna tímabundins atvinnutjóns laun í veikinda- og slysaforföllum, dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir slíkt tjón, vátryggingabætur þegar greiðsla vátryggingafélags væri raunveruleg skaðabót og sambærilegar greiðslur til tjónþola vegna þess að hann væri ekki full vinnufær. Við skýringu á þessu ákvæði verður að hafa að leiðarljósi að það er reist á þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli eigi ekki rétt á hærri bótum en svara raunverulegu fjártjóni hans, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 1762. Af því leiðir að greiðslur, sem tjónþoli nýtur úr hendi þriðja manns, verða að meginreglu dregnar frá kröfu tjónþola um skaðabætur fyrir tímabundið atvinnutjón nema mælt sé á annan veg í lögum.

Í málinu liggur fyrir að áfrýjandi hefði ekki átt rétt til launa úr hendi vinnuveitanda síns, stefnda Skagstrendings hf., á tímabilinu frá 17. janúar til 1. apríl 1999 ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu, sem um ræðir í málinu, enda átti áfrýjandi eins og áður greinir að vera í launalausu leyfi frá störfum á fiskiskipinu Arnari í tveimur veiðiferðum, sem þá stóðu yfir. Vegna slyssins öðlaðist áfrýjandi á hinn bóginn rétt til launa á þessu tímabili samkvæmt sérreglu, sem aðilarnir eru sammála um að leiði af ákvæði 2. málsliðar 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, eins og það var skýrt með dómi Hæstaréttar í dómasafni 1985, bls. 1360. Ekki verður litið svo á að þessi regla geti fengið því breytt að bætur handa áfrýjanda vegna tímabundins atvinnutjóns eigi eingöngu að gera hann eins settan fjárhagslega og ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu og misst úr vinnu af þeim sökum. Verður því skaðabótakrafa hans að taka eingöngu mið af þeim launum, sem hann hefði annars haft. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga verður sem fyrr segir að draga frá þeirri kröfu meðal annars laun, sem áfrýjandi naut í slysaforföllum. Eftir hljóðan áðurnefnds ákvæðis 36. gr. sjómannalaga var sú greiðsla laun, sem áfrýjandi fékk úr hendi stefnda Skagstrendings hf. fyrir tímabilið 17. janúar til 1. apríl 1999. Verður hvorki leitt af því lagaákvæði né 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga að slík launagreiðsla, þótt sérstaks eðlis sé, eigi að koma öðru vísi til álita við uppgjör skaðabóta fyrir tímabundið atvinnutjón en aðrar launatekjur tjónþola. Samkvæmt þessu og með því að fallist verður á með héraðsdómara að ákvæði 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. og 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, geti í engu varðað úrlausn þessa máls verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2001.

Mál þetta sem dómtekið var 22. febrúar sl. er höfðað með stefnu birtri 28.júní 2000.

Stefnandi er Indriði Hauksson, kt. 280569-4379, Ránarbraut 9, Skagaströnd.

Stefndu eru Skagstrendingur hf, kt. 580269-6649, Túnbraut 1-3, Skagaströnd, og Tryggingamiðstöðin hf, kt. 660269-2079, Aðalastræti 6-8, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda 3.034.856 krónur auk vanskilavaxta p.a., skv. 10. gr., sbr. 15. gr. vaxtalaga, frá 1.11.1999 til greiðsludags.

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu.

Dómkröfur stefndu eru aðallega þær, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu að mati dómsins að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.  Til vara er krafist, ef bætur verða tildæmdar, að tildæmd fjárhæð beri vextir af skaðabótum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum frá 1.11.1999 til þess dags, þegar endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp, og dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess jafnframt krafist að málskostnaður verði látinn niður falla.

MÁLSATVIK, MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Stefnandi slasaðist þ. 15.1.1999 í umferðarslysi en hann var farþegi í bifreið í eigu stefnda, Skagstrendings hf., á leið frá Akureyri til Skagastrandar.  Stefnandi var 2. vélstjóri á Arnari HU-1.  Af slysinu leiddi að stefnandi var óvinnufær frá 15.1.1999 til og með 15.10.1999.

Bifreiðin var tryggð lögbundinni ábyrgðartryggingu hjá Tryggingu hf en stefndi Tryggingamiðstöðin hf hefur tekið við skyldum þess félags vegna tryggingarinnar.

Skv. 3. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 nýtur sjómaður forfallalaunaréttar ef hann slasast við vinnu.  Þar sem stefnandi var í vinnunni er hann slasaðist og varð að fullu óvinnufær telur stefnandi að hann hafi átt rétt á fullum launum í tvo mánuði skv. l. mgr. 36. gr. sjómannalaga.  Í samræmi við þetta hafi útgerðin greitt honum vinnulaun fyrir þessar tvær veiðiferðir.   Stefnandi átti auk þess rétt til kauptryggingar í fjóra mánuði skv. 2. og 3. mgr. 36. gr. sl.  Um þennan rétt stefnanda er ekki ágreiningur í málinu.

Stefnandi er ekki sáttur við uppgjör stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf á tímabundinni örorku eftir slysið skv. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Stefndi Tryggingamiðstöðin hf hafi dregið frá greiðslur sem stefnandi fékk frá stefnda Skagstrendingi á grundvelli 36. gr. sjómannalaga og kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna en greiðslur þessar hafa ekkert með raunverulegt tjón stefnanda að gera.

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að í 36. gr. sjómannalaga, eins og hún hafi verið túlkuð af dómstólum og í lögskýringargögnum, sé verið að greiða sjómanni forfallalaun og greiðist þau ótengt því hvernig áform hafa verið uppi um launalaus frí enda brostin forsenda fyrir frítökunni.  Sé beinlínis tekið á atriði þessu í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 49/1980 en þar sé kveðið á um launarétt skipverja sem sé á leið í launalaust leyfi þegar hann forfallast vegna veikinda eða slyss.  Um þetta atriði segi í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 49/1980:

"Tekið er inn nýtt ákvæði þess efnis, að forfallist skipverji í launalausu fríi þá skuli launagreiðslur til hans hefjast þegar er hann átti að koma til starfa að nýju.  Hins vegar er gert ráð fyrir að skipverji, sem forfallast við vinnu sína, haldi launum, þótt hann hafi átt að fara í launalaust leyfi síðar."

Auk framangreinds sé á því byggt að réttur til greiðslu fullra launa á meðan á frítíma stendur sé hluti af starfskjörum sjómanna skv. 36. gr. sjómannalaga og kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands og LÍÚ.  Þetta sé á sviði samningaréttar og fjalli um ófjárhagslegt tjón sem ekkert hafi með hugtakið "atvinnutjón" að gera í skaðabótalögum.  Ákvæði 36. gr. sjómannalaga sé sett til hagsbóta fyrir sjómenn og það viðurkennt af löggjafanum og Hæstarétti að aðilar kunni að koma fjárhagslega betur settir en hefðu þeir ekki orðið fyrir slysi né veikindum, sbr. dóm H 1985 1360.  Það að stefnandi eigi kröfu á hendur þriðja manni geti vart orðið til þess að skerða rétt stefnanda skv. sjómannalögum og kjarasamningi.

Jafnframt sé á því byggt að ótækt sé fyrir stefnanda að taka greiðslur frá útgerðinni fyrir tímabilið 17. jan. til. 1. apríl og draga það frá síðara tíma tjóni.  Krafa stefnanda feli í sér að verið sé að krefja fyrir tímabilið 2. apríl til 5. ágúst 1999 þar sem það tímabil óvinnufærni hafi ekki fengist greitt að fullu sökum þess að stefndi Tryggingamiðstöðin hf beiti frádrætti fyrir greiðslur frá atvinnurekanda stefnanda sem átt hafa sér stað fyrir alls óskylt tímabil.

Eins og greiðsla skv. 36. gr. sjómannalaga sé túlkuð í lögskýringargögnum og af dómstólum sé verið að bæta fyrir tapaðan frítíma og þegar af þessari ástæðu sé ekki hægt að draga þá greiðslu frá tímabundnu tekjutapi skv. skaðabótalögum.

Uppgjör stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf feli það í sér að bætur fyrir tímabundið tekjutap eftir 60 daga óvinnufærni falli í raun niður.  Þetta sjáist best á því að nafngreindur félagi stefnanda, sem slasaðist í sama slysi og var óvinnufær í 60 daga, sé betur settur fjárhagslega en stefnandi.  Þetta stafi af því að hann hafi farið til sjós strax eftir að hann varð vinnufær og því fengið greidd laun fyrir þann tíma sem stefndi Tryggingamiðstöðin hf neitar greiðslu fyrir.  Kjarni málsins sé sá að félagi stefnanda hafi fengið greitt fyrir fyrstu 60 dagana með sama hætti og stefnandi en af því að hann gat verið að vinna hafi hann haldið fullum launum eftir það en stefnandi, sem sætir frádrætti, sé ver settur.  Feli þessi túlkun stefndu í sér skerðingu á réttindum stefnanda samkvæmt sjómannalögum og samningi auk þess sem þessi túlkun feli í sér ólögmæta mismunun, sbr. 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og H 1998 2233 og H 1998 3115.

Stefnandi hafi fengið greitt frá stefnda Skagstrendingi tvær veiðiferðir á staðgengislaunum sbr. 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, 1.442.451 krónur (tímabilið 17. janúar 1999-21. febrúar s.á.) og 1.445.815 krónur (tímabilið 22. febrúar 1999-1. apríl s.á.).  Auk þess hafi hann fengið greidda kauptryggingu í fjóra mánuði eftir það sbr. 2. og 3. mgr. 36. gr. sl., samtals 408.907 krónur.  Krafa stefnanda byggi m.a. á því að kauptrygging sem greidd sé frá atvinnurekanda komi til frádráttar kröfu stefnanda þó ekki fyrir þann tíma sem stefnandi hefði átt að vera í fríi þar sem hann á rétt skv. 36. gr. sjómannalaga til þeirrar greiðslu frá atvinnurekanda.  Sé því, með sömu rökum og að framan er rakið, hafnað þeim frádrætti sem stefndi Tryggingamiðstöðin hf beiti sem nemi kauptryggingu fyrir tímabilið 30. apríl 1999 - 7. júní s.á., samtals  146.590 krónur (3.501,53 x 38 dagar x 10,17% orlof samtals kr. 146.590).

Kröfugerð stefnanda sundurliðast svo:

Veiðif. Tímabil Staðgengilslaun Greitt af útgerð Ógr./tjón / Kauptrygging

117.01. - 21.02. 1.442.451 1.442.451 0

2. 22.02. - 01.04. 1.445.815 1.445.815 0

3.02.04. - 29.04.1.366.0231.366.023

4.30.04. - 07.06.IH. í fríi0

Kauptr.30.04. - 07.06.146.590146.590

5.08.06. - 29.06.1.285.8761.285.876

Kauptr.15.03 . - 3 0.06.351. 044 -351. 044

Kauptr.01.07. - 15.07.57.863 -57.863

6.30.06. - 05.08.1.414.1961.414.196

Slsdp. TR15.07. - 05.08.-23.709

Slstr. sjóm.15.07. - 31.08.-55.225

Tjón3.724.844

Greittþ. 6.09.'99-501.846

Greittþ.22.12.'99.-188.142

Ógreitt3.034.856

Um lagarök vísar stefnandi til 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, skaðabótalaga nr. 50/1993 og XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, auk reglunnar um skuldbindingagildi samninga og brostnar forsendur, ásamt almennu jafnræðisreglunni og 65. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Um dráttarvaxtakröfuna vísast til 15. gr. vaxtalaga en þá var liðinn mánuður frá bréfi lögmanns stefnanda til stefnda.  Um málskostnað vísast til XXI. kafla 1. nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. Þess er krafist að tekið verði tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og þarf því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.

Af hálfu stefndu er á það bent að kröfugerð stefnanda og málatilbúnaður gangi út á það að staðgengilslaun, sem stefndi Skagstrendingur hf. hafi greitt honum vegna 1. og 2. veiðiferðar á árinu 1999, og kauptrygging vegna 4. veiðiferðar sama árs dragist ekki frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón sem stefnda, Tryggingamiðstöðin hf., hafi greitt honum úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar PO-992.  Staðgengilslaun til stefnanda að meðtöldu orlofi vegna 1. veiðiferðar hafi numið 1.442.451 króna og vegna 2. veiðiferðar 1.445.815 króna.  Um greiðslur vegna þessara veiðiferða sé ekki ágreiningur. Kauptryggingu, sem samsvari 4. veiðiferð, að meðtöldu orlofi kveður stefnandi nema  146.590,00.  Stefnufjárhæðin, kr. 3.034.856,00 (1.442.451 + 1.445.815 + 146.590), sætir því ekki tölulegum ágreiningi.  Þá sé ekki um það deilt að greiðslur þessar, sem stefndi Skagstrendingur hf. greiddi, hafi verið dregnar frá við uppgjör bóta úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar PO-992 fyrir tímabundið atvinnutjón stefnanda.

Þá sé heldur ekki ágreiningur um það að fríkerfi stefnanda hafi verið þannig að hann hafi farið tvær samliggjandi veiðiferðir með fyrrnefndu skipi, en tekið sér svo frí í þriðju veiðiferðinni.  Er stefnandi slasaðist hafi hann samkvæmt fríkerfinu átt að vera í fríi í l. veiðiferð árið 1999, en fara svo í 2. og 3. veiðiferð og þannig koll af kolli.  Í tilviki stefnanda hafi hins vegar háttað svo til, að hefði beðið aukalega um launalaust leyfi í 2. veiðiferð.  Á beiðni þessa hefði verið fallist af hálfu útgerðarinnar, stefnda Skagstrendings hf.  Stefnandi hafi því í raun átt að vera í fríi bæði í 1. og 2. veiðiferð, en fara svo í 3. veiðiferð, síðan vera í fríi í 4. veiðiferð og síðan vinna og taka frí samkvæmt hinu reglubundna frídagakerfi.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skuli bætur fyrir tímabundið atvinnutjón stefnanda ákveðnar fyrir tímann frá því tjón varð til 15. október 1999, er stefnandi hafi getað hafið vinnu að nýju samkvæmt mati læknis.  Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar skyldi draga frá bótunum

"laun í veikinda- eða slysaforföllum, dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir tímabundið atvinnutjón og vátryggingabætur þegar greiðsla vátryggingafélags er raunveruleg skaðabót, svo og sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær. "

Engum vafa sé undirorpið að tímabundið atvinnutjón stefnanda, sem honum beri að fá bætt úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar PO-992, nemi þeim launum sem hann hefði fengið, ef slysið hefði ekki komið til, að frádregnum þeim greiðslum sem hann hafi fengið og draga beri frá skv. fyrrgreindu ákvæði 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga.  Á greindu tímabili hefði stefnandi verið í launalausu leyfi í l., 2., 4. og 7. veiðiferð.  Hins vegar hefði hann verið til vinnu í 3., 5., 6. og 8. veiðiferð. Staðgengilslaun í þessum fjórum veiðiferðum hafi samtals numið kr. 5.495.278 (1.366.023 + 1.285.876 + 1.414.196 + 1.429.183). Frá þessum launum voru dregnar launagreiðslur, sem stefndi Skagstrendingur hf. greiddi í slysaforföllum, þ.e. laun, sem samsvöruðu staðgengilslaunum 1. veiðiferðar og 2. veiðiferðar frá 22. febrúar  til 15. mars 1999 samtals 2.888.266 krónur, og kauptrygging frá 15. mars til 15. júlí 1999 samtals 408.907 krónur.  Þá voru einnig dregnir frá slysadagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisins tímabilið 15. júlí til 15. október 1999 samtals 107.134 krónur og dagpeningar úr slysatryggingu sjómanna fyrir sama tímabil samtals 108.100 krónur.  Tímabundið atvinnutjón sem stefnandi hafi þannig fengið bætt úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar hafi numið samtals 1.982.870 krónum (5.495.278 - 2.888.266 - 408.907 - 107.134 - 108.100).  Það hafi verið greitt í tveimur áföngum, annars vegar með 501.846  þann 6. september 1999 og með 1.481.024 krónum þann 21. desember 1999.

Þótt stefndi Skagstrendingur hf. hafi greitt stefnanda staðgengilslaun og kauptryggingu í slysaforföllum hans eins og fyrir sé mælt í 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og í samræmi við skýringar dómstóla á lagagreininni, sé óhjákvæmilegt annað en draga þessar greiðslur frá bótakröfum hans fyrir tímabundið atvinnutjón. Skýr og ótvíræð fyrirmæli 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga standi ekki til annars. Ef hinar umdeildu greiðslur hefðu átt að njóta sérstakrar lögverndar þannig að þær ættu ekki að dragast frá skaðabótakröfu fyrir tímabundið atvinnutjón, eins og stefnandi gerir kröfu um, hefðu bein lagafyrirmæli þurft að koma til.  Slíkum lagaákvæðum sé ekki til að dreifa.  Þótt stefnda Skagstrendingi hf. hafi þegar borið að greiða stefnanda hinar umdeildu fjárhæðir án tillits til þess hverjar hafi verið fyrirætlanir stefnanda um frítöku, þá geti það ekki skipt máli hvernig með þær skuli fara, þegar tímabundið atvinnutjón stefnanda sé gert upp eftir reglum skaðabótaréttar.

Þeim sjónarmiðum stefnanda að umræddar greiðslur hafi ekkert með raunverulegt tjón hans að gera og að þær séu hluti af starfskjörum sjómanna skv. 36. gr. sjómannalaga og kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands og LÍÚ, greiddar án tillits til áforma tjónþola um frí, er eindregið mótmælt sem röngum að öllu leyti.  Greiðslurnar hafi beinlínis og einvörðungu komið til vegna hins bótaskylda slyss.  Þær verða því með engu móti rofnar frá, þegar bætur vegna slyssins séu ákveðnar.

Sú staðhæfing að uppgjör stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. feli í sér "að bætur fyrir tímabundið tekjutap eftir 60 daga óvinnufærni falla í raun niður." sé óskiljanleg með öllu og er henni mótmælt. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón vinnufélaga stefnanda séu ekki til skoðunar hér og lögbundnar launagreiðslur til hans í veikinda- eða slysaforföllum geti með engu móti verið til samanburðar, þegar bætur fyrir tímabundið atvinutjón stefnanda sé ákveðið.  Þá sé fráleitt að ákvörðun bóta til stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón verði jafnað við ólögmæta mismunun sem falist hafi í 8. gr. skaðabótalaga áður en henni var breytt með 7. gr. laga nr. 37/1999, sbr. H 1998 2233 og H 1998 3115.  Með bótum til stefnanda eigi hann að vera eins settur fjárhagslega og slysið hefði ekki borið að höndum.  Hann eigi hvorki að vera betur né lakar settur.  Þetta sé meginmarkmið 2. gr. skaðabótalaganna og hafi þessi meginregla skaðabótaréttar verið höfð að leiðarljósi við uppgjör bóta til stefnanda.

Því fari fjarri að stefndu dragi greiðslur til stefnanda að nauðsynjalausu. Undir þessum kringumstæðum sé afar óeðlilegt að hin umdeilda krafa beri dráttarvexti fyrr en endanlega hafi verið skorið úr deilunni fyrir dómi.  Samkvæmt þessu og með vísan til síðari málsliðar 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 sé þess krafist, ef krafa stefnanda verður tekin til greina, að hún beri vexti af skaðabótum skv. 7. gr. vaxtalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989 um breytingu á þeim, frá 1. nóvember 1999 til endanlegs dómsuppsögudags.  Frá þeim tíma sé hins vegar ekki gerður ágreiningur um rétt stefnanda til dráttarvaxta, sbr. 15. gr. vaxtalaganna.

Málskostnaðarkröfur stefndu, bæði í aðalkröfu og varakröfu, séu reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Krafa um virðisaukaskatt byggi á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.  Stefndi Tryggingamiðstöðin hf., sem greiða muni allan kostnað stefndu vegna málareksturs þessa, hafi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi með höndum.  Því sé nauðsyn að fá virðisaukaskattinn dæmdan ofan á tildæmdan málskostnað.

NIÐURSTAÐA

Ágreiningur aðila snýst um það hvort stefnda Tryggingamiðstöðin hf geti dregið greiðslur sem stefndi Skagstrendingur greiddi stefnanda samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1988 frá skaðabótum til stefnanda vegna slyss þess er stefnandi varð fyrir 15. janúar 1999.  Er stefnandi slasaðist var eftirfarandi ákvæði 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í gildi:

"Frá skaðabótum skal draga laun í veikinda- eða slysaforföllum, dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir tímabundið atvinnutjón og vátryggingabætur þegar greiðsla vátryggingafélags er raunveruleg skaðabót, svo og sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær."

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til skaðabótalaga segir að ákvæði þetta feli ekki í sér breytingar frá gildandi rétti og að föst dómvenja sé um að draga hvers kyns laun og dagpeninga, sem tjónþoli fái frá þriðja manni vegna slyss, frá skaðbótakröfu hans á hendur hinum bótaskylda.  Sama regla sé talin gilda um vátryggingabætur. 

Skýra ber ákvæði þetta með þá meginreglu skaðabótaréttar í huga að tjónþoli skuli ekki eiga rétt á hærri bótum en svara raunverulegu fjártjóni hans.  Fram kemur m.a. í dómi Hæstaréttar frá 17. febrúar 2000 í málinu nr. 306/1999 að samskonar frádrætti hefur verið beitt við uppgjör tjóns og stefndi Tryggingamiðstöðin hf. vill beita hér.  Er það álit dómsins að greiðslur þær sem stefnandi hafði fengið úr hendi stefnda Skagstrendings séu sambærilegar við greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær eins og segir í tilvitnuðu lagaákvæði.  Samkvæmt þessu fellur tilvik það sem hér er til úrlausnar undir 2. mgr. 2. gr. sakaðbótalaga.  Stefnandi ber fyrir sig að með því að beita frádrætti eins og hér er gert sé brotið í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrár nr. 33/1944, sbr. l nr. 97/1995 auk þess sem hann vitnar til eignaréttarákvæðis stjórnarskrár.  Ber hann saman tilvik sem ekki eru sambærileg og hefur ekki sýnt fram á að brotið hafi verið gegn nefndum ákvæðum.  Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málsins að frádráttur sá er stefndi Tryggingamiðstöðin hf beitti við uppgjör tjóns stefnanda sé í samræmi við reglu 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga og verða stefndu því sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

Málskostnaður á milli aðila fellur niður.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndu, Tryggingamiðstöðin hf. og Skagstrendingur hf., skulu sýkn af kröfum stefnanda, Indriða Haukssonar.

Málskostnaður fellur niður.