Print

Mál nr. 494/2017

Ólafur Brynjar Ásgeirsson (Arnar Þór Stefánsson lögmaður)
gegn
Kvistum ehf. (Magnús Baldursson lögmaður)
Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Riftun
  • Miski
  • Vitni
Reifun

K ehf. rifti ráðningarsamningi sínum við Ó, en hann starfaði sem bústjóri á hrossaræktarbúi K ehf. Hélt félagið því fram að Ó hefði brotið gegn samningnum með því að hafa haft milligöngu um og fjárhagslegan ávinning af sölu nánar tilgreindrar hryssu til eiganda K ehf. Höfðaði Ó í kjölfarið mál gegn K ehf. og krafðist bóta vegna vangoldinna launa, launatengdra réttinda og hlunninda. Þá krafðist hann einnig miskabóta vegna ávirðinga sem hann taldi að félagið hefði haft uppi í sinn garð. Með vísan til framburðar vitna fyrir dómnum, og þá einkum framburðar fyrri eiganda hryssunnar, taldi héraðsdómur sannað að Ó hefði brotið gróflega gegn samningsskyldum sínum gagnvart K ehf. og að fyrirvaralaus riftun ráðningarsamningsins hefði því verið réttlætanleg. Þá taldi dómurinn ósannað að K ehf. hefði valdið Ó miska með þeim hætti sem hann hélt fram. Var K ehf. því sýknað af kröfum Ó. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms með þeirri áréttingu að Ó hefði ekki leitt í ljós að umræddar ávirðingar hefðu verið settar fram gegn betri vitund eða að þær teldust ólögmæt meingerð í skilningi b. liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir landsréttardómari.  

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. ágúst 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 7.643.543 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. janúar 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn á því að uppgjör við hann eftir ráðningarsamningi frá júní 2014 eigi að miða við uppsögn samningsins 19. október 2015. Samkvæmt því hafi sex mánaða uppsagnarfrestur miðað við mánaðamót runnið út í lok apríl 2016. Í samræmi við þetta hefur áfrýjandi fallið frá aðalkröfu sinni í héraði þar sem uppgjörið var miðað við riftun samningsins sem lýst var yfir með bréfi 9. desember 2015.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að stefnda hafi verið heimilt að rifta fyrrgreindum ráðningarsamningi við áfrýjanda. Af því leiðir að sýkna ber stefnda af kröfum áfrýjanda um bætur vegna launa, launatengdra gjalda, hlunninda og miska vegna riftunar á samningnum.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi krefst áfrýjandi miskabóta vegna ávirðinga í sinn garð í bréfi stefnda 29. apríl 2016. Í bréfinu var fundið að störfum áfrýjanda og framgöngu hans þegar hann gegndi starfi sínu sem bústjóri hrossaræktarbús stefnda að Kvistum í Rangárþingi ytra. Til þess er að líta að þessar ávirðingar voru settar fram eftir að stefndi hafði rift ráðningarsamningi sínum við áfrýjanda, en játa verður honum nokkurt svigrúm við að gæta hagsmuna sinna vegna þessara lögskipta í samskiptum aðila fyrir milligöngu lögmanna þeirra. Hefur áfrýjandi ekki leitt í ljós að þessar ávirðingar í sinn garð hafi verið settar fram gegn betri vitund eða teljist ólögmæt meingerð þannig að stefndi hafi fellt á sig skyldu til greiðslu miskabóta eftir b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt þessu og með vísan til forsendna héraðsdóms um þennan kröfulið verður einnig fallist á þá niðurstöðu að hafna honum.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Eftir þessari niðurstöðu verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ólafur Brynjar Ásgeirsson, greiði stefnda, Kvistum ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 9. maí 2017

            Mál þetta, sem höfðað er með stefnu birtri 2. september 2016, en þingfest 7. sama mánaðar, var dómtekið 11. apríl sl.

            Stefnandi er Ólafur Brynjar Ásgeirsson, kt. [...], til heimilis að Laugalandi, Rangárþingi ytra.

            Stefndi er Kvistir ehf., kennitala [...], Kvistum, Rangárþingi ytra.

            Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda bætur vegna vangoldinna launa, vangoldinna launatengdra réttinda og hlunninda, auk miskabóta, samtals að fjárhæð 9.748.000 krónur ásamt dráttvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af kr. 433.440 frá 1. janúar 2016 til 1. febrúar 2016 og frá þeim degi af kr. 1.300.994 til 1. mars 2016 og frá þeim degi af kr. 3.779.005 til 1. apríl 2016 og frá þeim degi af kr. 4.757.016 til 1. maí 2016 og frá þeim degi af kr. 5.735.027 til 1. júní 2016 og frá þeim degi af kr. 6.713.038 til 1. júlí 2016 og frá þeim degi af kr. 9.688.866 til 1. ágúst 2016 og frá þeim degi af kr. 9.748.000 til greiðsludags.

            Til vara gerir stefnandi þær dómkröfur að stefnda verið gert að greiða stefnanda bætur vegna vangoldinna launa, vangoldinna launatengdra réttinda og hlunninda, auk miskabóta, samtals að fjárhæð kr. 7.643.543 ásamt dráttvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af kr. 433.440 frá 1. janúar 2016 til 1. febrúar 2016 og frá þeim degi af kr. 1.300.994 til 1. mars 2016 og frá þeim degi af kr. 3.779.005 til 1. apríl 2016 og frá þeim degi af kr. 4.757.016 til 1. maí 2016 og frá þeim degi af kr. 5.735.027 til 1. júní 2016 og frá þeim degi af kr. 5.794.161 til 1. júlí 2016 og frá þeim degi af kr. 7.643.543 til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól aðal- og varakröfu á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. janúar 2017, en síðan árlega.

            Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins, sem beri vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafist virðisaukaskatts á málskostnað.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi lækkunar stefnukrafna. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins eða eftir málskostnaðarreikningi. 

Málavextir

Helstu málavextir eru þeir að stefnandi réði sig sem bústjóra á hrossaræktarbú stefnda á bænum Kvistum í Rangárþingi ytra. Ráðningarsamningur aðila er ódagsettur en í viðauka við hann, dags. 2. maí 2015, kemur fram að ráðningarsamningur hafi verið gerður 6. júní 2014. Með áðurnefndum viðauka var þriðju grein samningsins um launakjör breytt. Ráðningarsamningurinn, sem er í níu greinum, fjallar um eftirfarandi þætti: Starfs- og ábyrgðarsvið bústjóra, ráðningartíma og uppsagnarfrest, launakjör, önnur starfskjör, orlof og fæðingarorlof, greiðslur launa í slysa- og veikindatilfellum, trúnað, önnur atriði og ágreining og varnarþing. Í 2. gr. kemur að samningurinn sé ótímabundinn með gildistíma frá og með 1. júní 2014. Í 1. gr. ráðningarsamningsins segir að bústjóri, þ.e. stefnandi, beri ábyrgð á daglegum rekstri búsins. Í 2. mgr. 1. gr. er kveðið á um að bústjóri skuli í starfi sínu fylgja stefnu og fyrirmælum Günther Weber, eiganda stefnda, varðandi rekstrarstefnu búsins. 

Fyrir liggur að með bréfi stefnda til stefnanda, dags. 19. október 2015, sem móttekið var sama dag, sagði stefndi upp áðurnefndum ráðningarsamningi aðila ásamt viðauka. Í uppsagnarbréfi til stefnanda kemur fram að uppsögn miðist við 1. nóvember 2015 og samkvæmt sex mánaða uppsagnarfresti í ráðningarsamningi verði starfslok stefnanda 30. apríl 2016. 

Í ráðningarsamningnum er ákvæði um að ef bústjóri þykir hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfi eða hann brjóti að öðru leyti gegn ákvæðum samningsins geti stefndi rift ráðningarsamningnum fyrirvaralaust og án bóta. Undir rekstri málsins kom fram að stefnandi mætti á skrifstofu lögmanns stefnda þann 9. desember 2015 og var honum þá tilkynnt um riftun ráðningarsamningsins. Í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 9. desember 2015, eru ástæður riftunar ráðningarsamningsins raktar og gerð grein fyrir þeim ákvæðum ráðningarsamningsins sem stefndi taldi að stefnandi hefði brotið gegn. Kemur fram í riftunarbréfinu að stefndi hafi fengið upplýsingar frá Eyrúnu Ýr Pálsdóttur, eiganda hryssunnar Dömu frá Pulu, um að stefnandi hafi haft milligöngu um og fjárhagslegan ávinning af viðskiptum tengdum kaupum eiganda stefnda, Günther Weber, á hryssunni í september 2015. Segir í riftunarbréfinu að um þetta hafi stefnandi ekki upplýst nefndan Günther og með því hafi stefnandi brotið gróflega gegn starfsskyldum sínum samkvæmt nánar tilgreindum ákvæðum ráðningarsamningsins. 

Varðandi atvik að baki viðskiptum með hryssuna Dömu frá Pulu vísar stefndi til upplýsinga frá Eyrúnu, heimildarmanni sínum, þ.e. um sölu Eyrúnar á Dömu til Kvíarhóls ehf., á 6.000.000 króna auk virðisaukaskatts, og sölu Kvíarhóls ehf., á Dömu til eiganda stefnda, Günther Weber, á 9.000.000 króna. Samkvæmt heimildum stefnda hafi stefnandi og forsvarsmaður Kvíarhóls ehf., Viðar Ingólfsson, skipt með sér mismun þess kaupverðs sem Kvíarhóll ehf., greiddi fyrir hryssuna og söluverði hryssunnar til eiganda stefnda, Günther Weber, þannig að 1.500.000 krónur hafi komið í hlut stefnanda og sama fjárhæð í hlut forsvarsmanns Kvíarhóls, Viðars Ingólfssonar. 

Þessu hafnaði stefnandi og vísaði til yfirlýsingar Viðars Ingólfssonar um að stefnandi hafi ekki átt fjárhagslegra hagsmuna að gæta í framangreindum viðskiptum. Í málavaxtalýsingu í stefnu kemur fram að stefnandi hafi á engan hátt komið að viðskiptum með hryssuna Dömu nema sem fulltrúi Günther Weber, sem hafi óskað eftir því að stefnandi myndi leita eftir góðum keppnishrossum fyrir hönd Günther.

Gögn málsins bera með sér að stefnandi hafi árangurslaust leitað sátta við stefnda varðandi uppgjör og starfslok í kjölfar riftunarinnar.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Aðalkrafa

                Stefnandi byggir á því að stefndi hafi með ólöglegum, saknæmum og tilefnislausum hætti rift ráðningar- og viðaukasamningi við stefnanda og beri því að bæta stefnanda það tjón sem hann hafi orðið fyrir við að njóta ekki þeirra launakjara og hlunninda í sex mánaða uppsagnarfresti eins og fyrir hafi verið mælt um við lögmæta uppsögn ráðningarsamnings aðila. 

Byggir stefnandi á því að með hinni ólögmætu og tilefnislausu riftun hafi stefndi fallið frá fyrri uppsögn á ráðningarsamningi aðila, þ.e. uppsögn þar sem miðað hafi verið við starfslok þann 30. apríl 2016, og beri stefnda því samkvæmt aðalkröfu stefnanda að bæta honum missi launa, launatengdra greiðslna og hlunninda frá 9. desember 2015 til 30. júní 2016. Vísar stefnandi til þess að lagt sé til grundvallar að stefnandi hafi átt rétt til sex mánaða uppsagnarfrests samkvæmt 2. gr. ráðningarsamningsins miðað við að uppsögn skyldi vera bundin við mánaðarmót, 1. janúar 2016.

                Stefnandi sundurliðar höfuðstól aðalkröfu sinnar í 15 töluliðum. Töluliðir 1-7 taki til vangoldinna launa, lífeyrissjóðsframlags, sjóðagjalda og gjalda til stéttarfélags. Töluliður 8 til vangoldinnar desemberuppbótar og orlofsuppbótar og töluliður 9 til vangreidds orlofs á laun. Töluliðir 10-13 taka til vangoldinna hlunninda og töluliðir 14-15 til bóta vegna miska.

Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir 1-7.

1.       Krafa um vangreidd laun vegna tímabilsins 9. til 31. desember 2015, kr. 433.440, krafa um lífeyrarsjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun í desember 2015, kr. 34.675, krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 6.718, eða samtals kr. 474.833.

2.       Krafa um vangreidd laun vegna janúar 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun í janúar 2016, kr. 49.536, og krafa um 1,55% sjóðagjöld af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334.

3.       Krafa um vangreidd laun í febrúar 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna febrúar 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334.

4.       Krafa um vangreidd laun í mars 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna mars 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334.

5.       Krafa um vangreidd laun í apríl 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna apríl 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334.

6.       Krafa um vangreidd laun í maí 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna maí 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334.

7.       Krafa um vangreidd laun í júní 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna júní 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334.

Stefnandi kveður aðalkröfu sína taka mið af því að mánaðarlaun hans hjá stefnda samkvæmt ráðningarsamningnum hafi verið 619.200 krónur. Þá hafi honum borið réttur til orlofs sem nemur 24 virkum orlofsdögum á hverju heilu orlofsári. Stefnda hafi borið samkvæmt 3. grein ráðningarsamnings að greiða 8% í mótframlag af vangoldnum launum í lífeyrissjóð, þ.e. Lífeyrissjóð verslunarmanna. Einnig hafi stefnda borið að greiða af vangoldnum heildarlaunum til Verslunarmannafélags Reykjavíkur 1% í sjúkrasjóð, 0,25 % í orlofsheimilasjóð og 0,30% í starfsmenntasjóðs.

Í aðalkröfu sé miðað við að laun hafi fallið í gjalddaga fyrsta dag næsta mánaðar eftir þann mánuð sem laun skuli greidd og sé krafist dráttarvaxta á vangoldin laun frá þeim tíma. Greiðslur í lífeyrissjóði og sjóði stéttarfélags hafi fallið í gjalddaga fyrsta dag þess mánaðar sem sé einum mánuði eftir þann mánuð sem sjóðagjald skuli greitt og sé dráttarvaxta krafist frá þeim tíma. Þá sé krafist dráttarvaxta á orlof frá 1. júlí 2016.

Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir 8-9.

8.       Krafa um desemberuppbót á vangreidd laun frá 9. desember 2015 til 30. júní 2016, kr. 49.200, og krafa um orlofsuppbót á vangreidd laun vegna sama tímabils kr. 26.700, eða samtals 75.900.

9.       Krafa um orlof á vangreidd laun frá 9. desember 2015 til 30. júní 2016, kr. 421.917. 

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt ráðningarsamningi beri honum réttur til orlofsuppbótar sem hafi numið kr. 44.500 fyrir árið 2016 miðað við fullt starf og skyldi það greitt 1. júní 2016. Einnig beri stefnanda réttur til desemberuppbótar sem samkvæmt kjarasamningi VR sé kr. 82.000 fyrir árið 2016, en áunna desemberuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrr. Þá sé krafist dráttvaxta á orlofs- og desemberuppbót frá og með 1. júlí 2016 til greiðsludags.

Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir 10-13.

10.    Krafa um vangoldin húsnæðishlunnindi og vangoldin hlunnindi vegna vatns- og rafmagnsnotkunar í íbúðarhúsi frá 18. janúar 2016 til 30. júní 2016, kr. 52.284 vegna janúar 2016, en kr. 124.677 fyrir hvern mánuð á tímabilinu 1. febrúar til 30. júní 2016, eða samtals kr. 675.669.

11.    Krafa um vangoldin bifreiðahlunnindi fyrir tímabilið 1. janúar 2016 til 30. júní 2016, kr. 40.000 fyrir hvern mánuð, eða samtals kr. 240.000.

12.    Krafa um vangoldin hlunnindi vegna tölvutengingar í íbúðarhúsi og vegna síma kr. 35.000 á mánuði frá og með 18. janúar 2016 kr. 14.677, vegna janúar en kr. 35.000 fyrir mánuðina febrúar til júní eða samtals kr. 189.677

13.    Krafa um vangoldin hlunnindi vegna aðstöðu og fóðrun fimm hrossa í eigu stefnanda og fjölskyldu hans kr. 100.000 á mánuði frá 1. janúar til 30. júní 2016, eða samtals kr. 600.000.

Stefnandi kveður hluta af starfskjörum sínum samkvæmt ráðningarsamningnum hafa lotið að endurgjaldslausum afnotum hans og fjölskyldunnar af um 133,7 fermetra íbúðarhúsi á jörðinni Kvistum. Þó svo þess sé ekki getið í hinum skriflega ráðningarsamningi hafi eigandi stefnda, Günther Weber, afhent stefnanda húsnæðið í upphafi ráðningatímans. Umrætt húsnæði hafi stefnandi rýmt þann 18. janúar 2016 eftir að hafa gert leigusamning um húsnæði á Laugalandi. Í þeim samningi hafi leiga á mánuði verið 124.677 krónur, þ.e. greiðsla fyrir leiguafnot 117.677 krónur, en krónur 7.000 greiðslur vegna notkunar á heitu vatni, rafmagni og hússjóði. Stefnandi byggi á að hann hafi átt rétt á að nýta íbúðarhúsnæðið, þ.m.t. rekstrarkostnaðar vegna hita og rafmagns, á Kvistum endurgjaldslaust til 30. júní 2016.  

Stefnandi vísar til ráðningarsamnings og sérstaks samnings við Günther Weber um rétt stefnanda til einkanota utan vinnutíma af bifreiðinni UL-Y66, en bifreiðina hafi stefndi tekið úr vörslu stefnanda 9. desember 2015. Því sé krafist bifreiðahlunninda frá þeim degi til loka júní 2016. Um sé að ræða bifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser 2000 árgerð 2008. Einkanot stefnanda hafi verið 364 km á mánuði og að andvirði 40.000 króna á mánuði í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. 

Stefndi hafi látið stefnanda í té farsíma til endurgjaldslausra afnota og staðið straum af aðgangi að tölvunettengingu á heimili stefnanda. Þessum hlunnindum hafi stefndi svipt stefnanda með ólögmætum og tilefnislausum hætti. Vegna missis þeirra sé gerð krafa um greiðslu 35.000 króna fyrir hvern mánuð frá 18. janúar til 30. júní 2016.  

                Varðandi vangoldin hlunnindi vegna aðstöðu og fóðrun fimm hrossa í eigu stefnanda og fjölskyldu hans vísar stefnandi til 1. gr. ráðningarsamningsins, og þess að stefnandi hafi verið sviptur framangreindu með ólögmætum hætti í desember 2015. Gerð sé krafa um 100.000 krónur á mánuði vegna þessara hlunninda frá 1. desember 2015 til 30. júní 2016, en stefnandi hafi flutt hrossin frá Kvistum fyrir janúarmánuð 2016. 

                Gjalddagi framangreindra hlunninda sé miðaður við fyrsta dag þess mánaðar á eftir þeim mánuði sem hlunnindin séu reiknuð vegna og krafist dráttarvaxta frá þeim tíma til greiðsludags.

Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir 14-15.

14.    Krafa um miskabætur vegna meiðandi og tilhæfulausra ummæla stefnda í riftunarbréfi að fjárhæð 1.500.000 krónur.

15.    Krafa um miskabætur vegna meiðandi og tilhæfulausra ávirðinga stefnda í bréfi hans, dags. 29. apríl 2016,  1.500.000 krónur.                   

Varðandi kröfu um miskabætur vegna meiðandi ummæla í riftunarbréfi vísar

stefnandi, sem kveðst hafa getið sér gott orð sem ábyrgur og reglusamur bústjóri á hrossaræktarbúum, til þess að með ósönnum hætti og tilhæfulausum fullyrðingum hafi hann verið sakaður um hafa haft milligöngu og fjárhagslegan ávinning af sölu á hryssunni Dömu. Hafi uppsagnarbréfið spurst út og verið umtalað meðal hestamanna og hafi uppsögnin út á við borið þess merki að stefnandi hafi gerst sekur um slíkt alvarlegt brot á ráðningarsamningi að það hafi réttlætt fyrirvaralausa brottvikningu af vinnustað. Með því hafi rýrð verið kastað á starfsheiður stefnanda og dregið úr starfsmöguleikum hans í framtíðinni.

Varðandi kröfu um miskabætur vegna ólögmætra, saknæmra og tilhæfulausra fullyrðinga stefnda í bréfi hans til stefnanda, dags. 29. apríl 2016, vísar stefnandi til þess að þar hafi stefndi haldið því ranglega fram að stefnandi hafi sýnt af sér aðgæsluleysi og vanrækslu við umhirðu og eftirlit með stóðhryssum, sem hafi m.a. leitt til hvarfs tiltekins folalds haustið 2014. Þá hafi stefnandi þjálfað hross á búinu án heimildar auk fleiri tilvika sem fram koma í framangreindu bréfi stefnda. Umræddar ávirðingar, sem hafi verið settar fram fimm mánuðum eftir hina ólögmætu uppsögn, hafi ekki áður komið fram. Þessar alvarlegu og tilhæfulausu ávirðingar hafi einnig spurst út, verið umtalaðar meðal hestamanna og hafi þær einnig verið til þess fallnar að kasta rýrð á starfsheiður stefnanda og draga úr starfsmöguleikum hans í framtíðinni.

                Vísar stefnandi til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 miskabótakröfum sínum til stuðnings. Varðandi miskabótakröfu í 14. tölulið kröfugerðar er krafist dráttarvaxta frá 1. mars 2016 til greiðsludags og vísað til þess að miskabóta hafi verið krafist í bréfi til stefnda í febrúar 2016. Varðandi miskabótakröfu í 15. tölulið kröfugerðar er krafist dráttarvaxta frá 1. júlí 2016.

                Stefnandi vísar til þess að hann hafi ekki unnið hjá öðrum atvinnurekanda né reiknað sér laun í sjálfstæðum rekstri frá 9. desember 2015 til 30. júní 2016 og því verið án launa á framangreindum tíma. Þá hafi hann hvorki þegið atvinnuleysisbætur né aðrar bætur á umræddum tímabili sem eðlilegt geti talist að draga ætti frá fjárkröfum hans á hendur stefnda.

Varakrafa

                Stefnandi byggir varakröfu sína á sömu málsástæðum og lagarökum og varðandi aðalkröfu að öðru leyti en því að ef dómurinn telji að uppsögn stefnda á ráðningarsamningnum með sex mánaða fyrirvara, m.v. starfslok 30. apríl 2016, haldi gildi sínu þrátt fyrir hina ólögmætu riftun frá 9. desember 2015, séu gerðar kröfur um að stefndi bæti stefnanda vangoldin laun, launatengd réttindi og vangoldin hlunnindi vegna tímabilsins 9. desember 2015 til 30. apríl 2016 og greiði stefnanda miskabætur með sama hætti og krafist sé í aðalkröfu.

                Varakröfu sína sundurliðar stefnandi þannig:

  1. Krafa um vangreidd laun vegna tímabilsins 9. til 31. desember 2015, kr. 433.440, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun í desember 2015, kr. 34.675, krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 6.718, eða samtals kr. 474.833.
  2. Krafa um vangreidd laun vegna janúar 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun í janúar 2016, kr. 49.536, og krafa um 1,55% sjóðagjöld af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334.
  3. Krafa um vangreidd laun í febrúar 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna febrúar 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334.
  4. Krafa um vangreidd laun í mars 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna mars 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334.
  5. Krafa um vangreidd laun í apríl 2016, kr. 619.200, krafa um lífeyrissjóðsmótframlag 8% á vangreidd laun vegna apríl 2016, kr. 49.536, og krafa um sjóðagjöld 1,55% af vangreiddum launum til stéttarfélags kr. 9.598, eða samtals kr. 678.334.
  6. Krafa um desemberuppbót á vangreidd laun frá 9. desember 2015 til 30. apríl 2016, kr. 34.622, og krafa um orlofsuppbót á vangreidd laun vegna sama tímabils kr. 18.789, eða samtals kr. 53.411.
  7. Krafa um orlof á vangreidd laun frá 9. desember 2015 til 30. apríl 2016, kr. 295.971.
  8. Krafa um vangoldin húsnæðishlunnindi og vangoldin hlunnindi vegna vatns- og rafmagnsnotkunar í íbúðarhúsi frá 18. janúar 2016 til 30. apríl 2016, kr. 52.284 vegna janúar 2016, en kr. 124.677 fyrir hvern mánuð á tímabilinu 1. febrúar til 30. apríl 2016, eða samtals kr. 426.315.
  9. Krafa um vangoldin bifreiðahlunnindi fyrir tímabilið 1. janúar til 30. apríl 2016, kr. 40.000 fyrir hvern mánuð, eða samtals kr. 160.000.
  10. Krafa um vangoldin hlunnindi vegna tölvutengingar í íbúðarhúsi og vegna síma kr. 35.000 á mánuði frá og með 18. janúar 2016 kr. 14.677, vegna janúar en kr. 35.000 fyrir mánuðina febrúar til apríl eða samtals kr. 119.677.
  11. Krafa um vangoldin hlunnindi vegna aðstöðu og fóðrun fimm hrossa í eigu stefnanda og fjölskyldu hans kr. 100.000 á mánuði frá 1. janúar 2016 til 30. apríl 2016, eða samtals kr. 400.000.
  12. Krafa um miskabætur vegna meiðandi og tilhæfulausra ummæla stefndu í riftunarbréfi að fjárhæð 1.500.000 krónur.
  13. Krafa um miskabætur vegna meiðandi og tilhæfulausra ávirðinga stefndu í bréfi hans, dags. 29. apríl 2016, 1.500.000 krónur.

Í varakröfu er krafist dráttarvaxta með sama hætti og í aðalkröfu í öllum kröfuliðum. Eins og í aðalkröfu vísar stefnandi til þess að hann hafi hvorki þegið laun hjá öðrum atvinnurekanda eða vegna eigin rekstrar né bóta á tímabilinu 9. desember 2015 til 30. júní 2016.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttar-, vinnuréttar- og samningaréttar um greiðslu skuldbindinga og um skuldbindingagildi samninga. Vísað er til laga um orlof nr. 30/1987, laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfssemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 og skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við ákvæði II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og kröfur um málskostnað er vísað til 129. og 130 gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá er krafist greiðslu virðisaukaskatts á málskostnað. 

Málsástæður og lagarök stefnda

Aðalkrafa stefnda um sýknu.

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum skaðabótakröfum stefnanda í máli þessu, þ.m.t. miskabótakröfum. Byggir stefndi sýknukröfu sína á 7. mgr. 1. gr. ráðningarsamnings aðila þar sem kveðið sé á um að bústjóra sé óheimilt að starfa hjá öðrum vinnuveitanda eða að öðrum launuðum verkefnum nema með skriflegu samþykki eiganda. Jafnframt sé í áðurnefndum ákvæðum samningsins kveðið á um að stefnanda sé óheimilt að vera beint eða óbeint þátttakandi í annarri starfsemi, eða hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta gagnvart aðilum sem séu í samkeppni við búið nema með sérstöku skriflegu samþykki eiganda. Þá vísar stefndi til 3. mgr. 2. gr. ráðningarsamningsins þar sem kveðið sé á um að ef bústjóri þykir hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfi hvað varðar starfsskyldur sínar og ábyrgðarsvið eða hann brjóti að öðru leyti gegn ákvæðum samningsins, geti búið, þ.e. stefndi, rift ráðningarsamningnum fyrirvaralaust og án bóta.

                Vísar stefndi til þess að með því að stefnandi hafi haft milligöngu um sölu á hrossi til eiganda stefnda, Günther Weber, og haft fjárhagslegan ávinning eða hagsmuni af þeirri sölu hafi stefnandi brotið þannig gegn ákvæðum ráðningarsamnings hans við stefnda að réttlæti fyrirvaralausa riftun samningsins án bóta. Ráðningarsamningur stefnda við stefnanda hafi verið skýr og afdráttarlaus hvað varðar brot á samningsskyldum stefnanda sem bústjóra. Í því sambandi skipti ekki máli þó greiðslur milli stefnanda og viðskiptafélaga hans, Viðars Ingólfssonar, hafi hugsanlega ekki verið inntar af hendi í kjölfar riftunar stefnda á ráðningarsamningnum.

                Vísar stefndi til þess að Eyrún Ýr Pálsdóttir, eigandi hryssunnar Dömu, hafi fengið fréttir af réttu söluverði hryssunnar og aðkomu stefnanda að sölunni áður en hún hafi farið á fund með áðurnefndum Viðari. Sé því ljóst að síðari staðhæfingar Viðars um að hann hafi logið að Eyrúnu til að „fela“ álagningu Kvíarhóls ehf., á kaupverði hryssunnar standist ekki. Breyting og síðari tíma skýringar Viðars á þeim upplýsingum sem hann hafi veitt Eyrúnu séu ótrúverðugar og beri að skoða í ljósi vinskapar Viðars við stefnanda og þeirra afleiðinga sem framganga þeirra hafði haft fyrir stefnanda. Samkvæmt þessu beri að leggja til grundvallar að stefnandi hafi brotið gegn ákvæðum ráðningarsamnings við stefnda á þann hátt að það hafi réttlætt fyrirvaralausa riftun samningsins. Með vísan til alls þessa beri að sýkna stefnda af öllum skaðabótakröfum stefnanda í málinum er byggja á meintri ólögmætri riftun ráðningarsamnings við hann, þ.m.t. miskabótakröfu vegna hinnar meintu ólögmætu riftunar.

                Varðandi kröfu stefnanda um miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta vegna ólögmætra, saknæmra og tilhæfulausra fullyrðinga í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 29. apríl 2016, sem stefnandi telji fela í sér brot gegn 26. gr. laga nr. 50/1993, vísar stefndi til þess að í bréfinu hafi hann gert athugasemdir við verklag stefnanda við framkvæmd starfa í þágu stefnda á grundvelli samningssambands aðila. Stefndi hafi ekki gert efni bréfsins opinbert né þau efnisatriði sem komið hafi fram í bréfinu. Staðhæfingar stefnanda um að efni bréfsins hafi spurst út og þar með kastað rýrð á starfsheiður stefnanda verði alfarið rakið til stefnanda sjálfs. Beri gögn málsins með sér að stefnandi hafi farið víða um sveitir og safnað saman vitnisburði einstaklinga til að hrekja það sem fjallað hafi verið um í bréfi stefnda. Framganga stefnanda sjálfs geti ekki verið grundvöllur miskabótakröfu á hendur stefnda vegna framangreindra athugasemda sem settar hafi verið fram í bréfi milli aðila. Engu breyti þó svo umrætt bréf hafi verið sent lögmanni stefnanda og vísar stefndi í því sambandi til hlutverks og skyldna lögmanna skv. lögum um lögmenn nr. 77/1998.

Varakrafa stefnda um lækkun stefnukrafna.

Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir nr. 1-7.

                Stefndi vísar í fyrsta lagi til þess að deila um heimild til riftunar ráðningarsamnings aðila breyti á engan hátt því réttarástandi sem legið hafi fyrir eftir uppsögn stefnda á umræddum samningi með bréfi dags. 19. október 2015. Stefnandi öðlist ekki víðtækari rétt gagnvart stefnda en hann hafi átt fyrir riftun samnings, komi til þess að margnefnd riftun verði metin ólögmæt og bótaskyld. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um bætur vegna missi launa og annarra greiðslna fyrir mánuðina maí til júní 2016, samtals að fjárhæð 1.356.668 krónur samkvæmt 6. og 7. kröfulið í stefnu.

                Í öðru lagi vísar stefndi til þess að greiðslur stefnda í sjúkrasjóð, orlofsheimilasjóð og starfsmenntasjóð Verslunarmannafélags Reykjavíkur hafi ekki verið hluti ráðningarkjara stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi, en greiðslur stefnda í tilgreinda sjóði hafi fyrir riftun samningsins verið inntar af hendi fyrir mistök og umfram skyldu, enda sé í 3. gr. samnings aðila beinlínis tekið fram að ekki sé um önnur laun eða fríðindi að ræða en þau sem sérstaklega hafi verið samið um. Þá hafi kjarasamningur VR ekki gilt um ráðningarsamband aðila né sé stefndi aðili að samtökum atvinnurekenda. Einnig vísar stefndi til þess að greiðslur vinnuveitenda í umrædda sjóði séu ekki lagaskylda heldur háð samningi milli vinnuveitenda og launþega hverju sinni, mismunandi eftir starfsstéttum, sbr. 6. gr. laga nr. 55/1980. Loks vísar stefnandi til þess að stefnandi eigi ekki aðild að kröfum um greiðslur í umrædda eða hliðstæða sjóði heldur sjóðirnir sjálfir og leiði því aðildarskortur til sýknu. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um bætur vegna greiðslna í áðurnefnda sjóði er samsvari 1,55% af launum hverju sinni, samtals að fjárhæð 64.306 krónur, sbr. 1. til 7. kröfulið í stefnu.

Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir nr. 8-9.

                Varðandi kröfu stefnanda um bætur vegna orlofs- og desemberuppbótar samkvæmt kjarasamningi VR byggir stefndi á sömu málsástæðum og að framan eru raktar varðandi greiðslur í sjóði VR. Beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda að þessu leyti, þ.e. að fjárhæð 75.900 krónur samkvæmt 8. tölulið kröfugerðar í stefnu. 

                Varðandi bætur vegna orlofs á vangreidd laun frá 9. desember 2015 til 20. júní 2016, vísar stefndi til þess að krafan taki mið af fjárhæð skaðabóta vegna meintra vangreiddra launa. Lækka beri kröfu þessa samkvæmt 9. kröfulið í stefnu til samræmis við dæmdar bætur vegna launa.

Kröfugerð stefnanda, kröfuliðir 10-13.

                Varðandi kröfu um bætur vegna meintra endurgjaldslausra afnota stefnanda og fjölskyldu hans af íbúðarhúsi vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að stefndi hafi ekki samið við stefnanda um þau, enda sé stefndi hvorki eigandi húsnæðisins né hafi yfirráð þess. Þá sé umræddra afnota hvorki getið í ráðningarsamningi aðila né viðauka við hann. Í öðru lagi sé krafan ekki studd viðhlítandi gögnum. Leigusamningur um stærra húsnæði á öðrum stað fullnægi ekki kröfum um sönnun fyrir fjárhæð hins meinta tjóns. Því beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda að fjárhæð 675.669 krónur samkvæmt 10. tölulið kröfugerðar í stefnu.

                Varðandi bætur vegna meintra endurgjaldslausra einkanota stefnanda af bifreiðinni UL-Y66 vísar stefndi í fyrsta lagi til þess framangreind afnot hafi ekki verið hluti ráðningarkjara stefnanda hjá stefnda. Þá sé umræddra afnota hvorki getið í ráðningarsamningi aðila né viðauka við hann. Umrædd bifreið sé vinnutæki við búrekstur og til afnota fyrir bústjóra stefnda í starfi. Í öðru lagi vísar stefndi til þess að stefnandi hafi ekki greitt hlunnindaskatt af hinum meintu einkanotum af bifreið stefnda. Í þriðja lagi sé fjárhæð kröfunnar hvorki studd gögnum né rökstudd sú staðhæfing að einkanot stefnanda hafi verið 364 km á mánuði. Í fjórða lagi geti stefnandi ekki byggt skaðabótakröfu gegn stefnda að þessu leyti á meintum sérstökum samningi við þriðja aðila. Loks liggi fyrir að á ráðningartímanum hafi stefnandi sjálfur átt bifreið sem hafi verið á staðnum til einkanota. Samkvæmt þessu beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda að fjárhæð 240.000 krónur samkvæmt 11. tölulið kröfugerðar í stefnu. Auk þessir byggir stefndi á því að framangreind krafa stefnanda geti ekki tekið til maí og júní 2016 þar sem ráðningartíma hans hjá stefnda hefði ávallt lokið 30. apríl 2016 á grundvelli uppsagnar og deilna um réttmæti riftunar samnings aðila veiti stefnanda ekki víðtækari rétt til hlunninda en hann ætti hefði ekki komið til riftunar samningsins. Krafa um bætur vegna umræddra bifreiðarhlunninda fyrir maí og júní, 80.000 krónur, teljist því ekki lögvarin krafa.

Varðandi bætur vegna farsíma og tölvunettengingar vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að hún sé ekki studd gögnum eða rökstudd af hálfu stefnanda. Í öðru lagi sé krafan margfalt hærri en símafélög bjóða fyrir slíka þjónustu. Beri því að sýkna stefnda af kröfu um bætur að fjárhæð 189.677 samkvæmt 12. tölulið í kröfugerðar í stefnu.

Vegna kröfu stefnanda um bætur vegna missis hagabeitar og fóðurs fyrir fimm hross á tímabilinu frá 1. desember 2015 til 30. júní 2016 vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að krafan sé engum gögnum studd né rökstudd á annan hátt. Í öðru lagi liggi fyrir að heimild stefnanda til að hafa fimm hross í hagabeit og á fóðrum hjá stefnda hafi verið með þeim ófrávíkjanlega fyrirvara að slíkt raskaði ekki starfi og ábyrgð bústjóra. Þá hafi stefnanda ekki verið heimilt að stunda eigin hrossarækt á búinu nema með skriflegu samþykki eiganda, sem ekki hafi legið fyrir. Umrædd skilyrði hafi því takmarkað verulega heimild stefnanda til hrossahalds. Þá verði að ætla að mat fyrirsvarsmanna stefnda ráði að þessu leyti. Því hafi aldrei verið um fastákveðin hlunnindi að ræða og geti því ekki verið um að ræða grundvöll skaðabóta úr hendi stefnda. Beri því að sýkna stefnda af kröfu um bætur að fjárhæð 600.000 krónur samkvæmt 13. tölulið í kröfugerðar í stefnu, ellegar lækka bótafjárhæð verulega.

Kröfugerð stefnanda, kröfuliður 14.

Varðandi kröfu stefnanda um miskabætur vegna fyrirvaralausrar, ólögmætrar og saknæmrar uppsagnar á ráðningarsamningi vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að uppsögn stefnda á samningi aðila hafi byggst á áreiðanlegum upplýsingum frá einstaklingum sem átt hafi beina aðild að þeim viðskiptum með hross sem legið hafi að baki riftun ráðningarsamningsins. Einnig sé vísað til upplýsinga frá stefnanda sjálfum í stefnu um þær upplýsingar sem Viðar Ingólfsson hafi veitt um milligöngu og fjárhagslegan ávinning stefnanda af viðskiptunum. Hafi því meint brot stefnda gegn stefnanda hvorki verið unnið af ásetningi né gáleysi, né réttlæti það greiðslu miskabóta til stefnda. Í öðru lagi hafi stefnandi ekki sýnt fram á, eða gert líklegt, að riftun ráðningarsamningsins hafi valdið honum miska. Með öllu sé ósannað að riftun samningsins hafi haft áhrif á orðspor stefnanda eða kastað rýrð á starfsheiður hans. Þá sé til þess að líta að stefndi hafi þá þegar sagt stefnanda upp störfum og þá sé þeirri röksemd stefnanda að riftun hafi dregið úr starfsmöguleikum hans sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda. Skertir starfsmöguleikar, teljist þeir sannaðir, falli undir beint fjártjón en ekki miska. Í þriðja lagi sé fjárhæð kröfunnar langt umfram þær fjárhæðir sem dæmdar hafi verið í hliðstæðum tilvikum þar sem miski telst sannaður. Því beri að sýkna stefnda af framangreindri kröfu samkvæmt 14. tölulið kröfugerðar í stefnu, ellegar lækka bótafjárhæð verulega.

Kröfugerð stefnanda, kröfuliður 15.

Varðandi kröfu um miskabætur vegna meintra ólögmætra, saknæmra og tilhæfulausra fullyrðinga í bréfi stefnda dags. 29. apríl 2016, vísar stefndi í fyrsta lagi til allra sömu röksemda og færðar eru fram til stuðnings sýknukröfu stefnda. Í öðru lagi beri að taka mið af þeirri staðreynd að fullyrðingar stefnda séu ekki settar fram á opinberum vettvangi heldur aðeins gagnvart stefnanda. Beri því að lækka verulega kröfu um miskabætur samkvæmt 15. tölulið kröfugerðar í stefnu.

Þá vísar stefndi til þeirrar meginreglu skaðabótaréttar að tjónþola beri að draga úr tjóni sínu eins og hægt sé. Ekki verði séð að stefnandi hafi leitað sér annars starfs á umræddu tímabili. Komi til þess að riftun samnings aðila verði dæmd ólögmæt beri að taka tillit til þess að stefnandi hefur ekki, eftir því sem fyrir liggur, leitast við að afla sér starfs annars staðar eða afla sér tekna á því starfssviði sem ráðning hans hjá stefnda hafi lotið að. Því beri að taka mið af framansögðu.

Varakrafa stefnanda.

                Stefnandi fjallar ekki sérstaklega um varakröfu stefnanda og vísar til þess að hún rúmist að fullu innan aðalkröfunnar, þannig að í varakröfu sé sleppt kröfum um bætur vegna launa o.fl., fyrir tvo mánuði, þ.e. maí og júní 2016. Vísar stefndi því til rökstuðnings gegn aðalkröfu stefnanda.

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar og almennu skaðabótareglunnar. Vísað er til laga um meðferð einkamála nr. 91/1919 varðandi meðferð málsins fyrir dómi og til 129. gr. og 130. gr. lagaanna varðandi málskostnað.  

Niðurstaða.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur stefnandi, Ólafur Brynjar Ásgeirsson, og Guðbjörn Árnason, sem sæti á í varastjórn hins stefnda félags og er jafnframt framkvæmdastjóri. Einnig gáfu skýrslu vitnin Eyrún Ýr Pálsdóttir, Viðar Ingólfsson, Eva Dyröy, fyrrverandi starfsmaður stefnda, og Kristjón Laxdal Kristjánsson, fyrrverandi bústjóri stefnda. 

            Stefnandi starfaði sem bústjóri á hrossaræktarbúi stefnda. Ráðningarsamningi hans við stefnda var sagt upp með bréfi dags. 19. október 2015, mótteknu sama dag. Óumdeilt er í málinu að áður en stefnanda var sagt upp bústjórastarfinu, var hryssan Dama frá Pulu í þjálfun hjá Viðari Ingólfssyni, fyrirsvarsmanni Kvíarhóls ehf., en félagið keypti hryssuna af Eyrúnu Ýr Pálsdóttur á 6.000.000 króna auk virðisaukaskatts í byrjun september 2015. Þá er einnig óumdeilt að á framangreindum tíma keypti eigandi hins stefnda félags, Günther Weber, áðurnefnda hryssu til útflutnings af Kvíarhóli ehf., fyrir 9.000.000 króna án virðisaukaskatts. Stefnandi lýsti aðkomu sinni að framangreindum viðskiptum í skýrslutöku fyrir dómi á þann veg að Günther hafi óskað eftir því að stefnandi færi með hryssuna í læknisskoðun og útflutning, sem og að tilkynna Viðari Ingólfssyni að Günther væri tilbúinn til að kaupa hryssuna á níu milljónir króna, en stefnanda minnti að sett hefði verið hærra verð á hryssuna. Vitnið Viðar Ingólfsson staðfesti fyrir dómi að stefnandi hafi tilkynnt sér að Günther væri tilbúinn að greiða níu milljónir fyrir hryssuna, en vitnið minnti að ásett verð hryssunnar hafi verið tíu milljónir króna. 

            Samkvæmt gögnum málsins barst forsvarsmanni stefnda, Guðbirni Árnasyni, tölvupóstur frá vitninu Eyrúnu Ýr Pálsdóttur þann 8. desember 2015. Þar kemur m.a. fram að áðurnefnd hryssa, Dama frá Pulu, hafi í ágúst 2015 verið í þjálfun hjá Viðari Ingólfssyni. Örfáum dögum eftir að hryssan kom til Viðars hafi hann greint Eyrúnu frá því að hann hefði kaupanda að hryssunni en mikil leynd hafi ríkt um hver það væri. Hafi Eyrún gert kröfu um að allt væri uppi á borðinu og þá verið upplýst um að Günther Weber, væri kaupandi og milligöngumenn með sölunni væru Viðar og stefnandi. Hafi Viðar greint Eyrúnu frá því að þeir hafi lagt milljón ofan á það verð sem hún hafi fengið fyrir hryssuna, þ.e. eins og áður greinir, sex milljónir króna. Rúmum tveimur mánuðum síðar, þann 28. nóvember 2015, hafi Eyrún frétt að Viðar og stefnandi, hafi verið að „gera einhverja svakalega sölu á einhverri meri og tekið 1.500.000 á mann í sölulaun.“ Segir í tölvupóstinum að þá hafi Eyrún áttað sig á því að um hafi verið að ræða söluna á Dömu og hafi hún strax kallað Viðar á sinn fund. Þá segir í tölvupóstinum: „Hann viðurkenndi þá að þeir hafi ekki verið að segja mér satt og að þeir hafi lagt 3.000.000 ofan á það sem ég fékk fyrir hana og skipt því á milli sín.“ Sama dag, þ.e. 8. desember 2015, sendi forsvarsmaður stefnda Eyrúnu tölvupóst og spurði hvort hún gæti staðfest að Viðar hefði óskað eftir því að hún nefndi ekki nafn stefnanda þegar þau hittust. Í svari sama dag staðfesti Eyrún að svo hafi verið. Vitnið Eyrún staðfesti framangreinda tölvupósta fyrir dómi.

            Fyrir liggur að fengnum þessum upplýsingum rifti stefndi ráðningarsamningi við stefnanda og mun stefndi hafa tilkynnt stefnanda um riftunina á skrifstofu lögmanns stefnda þann 9. desember 2015 að viðstöddum lögmanni stefnanda. Í framburði forsvarsmanns stefnda, Guðbjörns Árnasonar, fyrir dómi kom fram að eftir að vitnið Eyrún, sem forsvarsmenn stefnda hefðu borið traust til, hafi komið að máli við vitnið, hafi ekki verið hægt annað en að rifta ráðningarsamningnum. Riftunarbréfið er dagsett 9. desember 2015. Í bréfinu lýsir stefndi yfir riftun á ráðningarsamningi aðila, dags. 6. júní 2014 með viðauka dags. 2. maí 2015, og vísað er til þess að riftun samningsins byggi á 3. mgr. 2. gr. og 7. mgr. 1. gr. ráðningarsamningsins. Í riftunarbréfinu er gerð grein fyrir tiltekinni háttsemi stefnanda, sem að mati stefnda hafi verið gróft brot gegn starfsskyldu stefnanda samkvæmt áður tilgreindum ákvæðum ráðningarsamningsins, og jafnframt ástæða hinnar fyrirvaralausu riftunar. Er háttseminni lýst þannig að stefnandi hafi haft milligöngu og fjárhagslegan ávinning af sölu hryssunnar Dömu frá Pulu, í eigu Eyrúnar Ýrar Pálsdóttur, til Kvíarhóls ehf., í september 2015 fyrir sex milljónir króna auk virðisaukaskatts og í framhaldinu sölu sömu hryssu til eiganda stefnda, Günther Weber, fyrir níu milljónir króna, án þess að stefnandi hafi upplýst Günther um aðkomu sína og ávinning af sölunni.    

Í ódagsettu bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, sem gögn málsins bera með sér að hafi verið afhent á skrifstofu lögmanns stefnda eftir að riftun var tilkynnt, er riftun ráðningarsamningsins mótmælt og því hafnað að stefnandi hafi haft með ákvörðun á verðlagningu hryssunnar að gera sem og að hann hafi haft fjárhagslegan ávinning af viðskiptunum. Með áðurnefndu bréfi fylgdu annars vegar tölvupóstsamskipti lögmanns stefnanda og vitnisins Eyrúnar Ýrar Pálsdóttur og hins vegar yfirlýsing vitnisins Viðars Halldórssonar.  

Rétt þykir að rekja efni framangreindra tölvupósta. Í tölvupósti lögmanns stefnanda til vitnisins Eyrúnar 10. desember 2015 segir m.a: „Getur þú staðfest við mig, sem lögmanns [sic] Ólafs, að þær upplýsingar sem þú lést Kvistum ehf. í hendur um aðkomu Ólafs að framangreindri sölu á hryssunni Dömu hafi verið byggðar á samtali þínu við Viðar Ingólfsson og sögusögnum eftir sölu hryssunnar. Getur þú einnig staðfest við mig að Viðar Ingólfsson hafi nú tjáð þér að hann hafi farið með rangt mál við þig að því er varðar aðkomu Ólafs að sölunni og sagst veita þér rangar upplýsingar varðandi málið m.a. til þess að fela fyrir þér álagningu Kvíarhóls ehf. á það kaupverð sem ákvarðað var gagnvart þér.“ Framangreindum tölvupósti svaraði Eyrún þannig 12. desember 2015: „Ég staðfesti hér með að þær upplýsingar sem ég fékk voru frá Viðari Ingólfssyni og ónefndum aðila sem vill ekki láta nafn sitt getið. Einnig get ég staðfest að þær upplýsingar sem ég fékk frá Viðari hefur hann dregið til baka.“ Vitnið Eyrún staðfesti framangreind samskipti fyrir dómi.

Yfirlýsing vitnisins Viðars Ingólfssonar, dags. 10. desember 2015, liggur frammi í málinu og staðfesti vitnið fyrir dómi að allt væri rétt sem þar stæði. Þar kemur m.a. fram að stefnandi hafi, fyrir hönd Günther Weber, lýst yfir áhuga á kaupum á góðum keppnishrossum og því hafi Viðar sýnt stefnanda og Günther nokkur efnileg hross, m.a. hryssuna Dömu. Í framhaldinu hafi Günther  sent sérstaka fulltrúa sína til Íslands sem hafi ákveðið, fyrir hönd Günther, að kaupa hryssuna Dömu. Þá segir í yfirlýsingunni: „Með yfirlýsingu þessari staðfesti ég persónulega og f.h. Kvíarhóls ehf. að í viðskiptum Kvíarhóls ehf. við Eyrúnu Ýr Pálsdóttur um hryssuna Dömu og í viðskiptum Kvíarhóls ehf. við Gunter [sic] Weber um sömu hryssu hafi Ólafur Brynjar Ásgeirsson engar greiðslur fengið persónulega og engar greiðslur hafa farið til aðila honum tengdum. Samkvæmt framangreindu hafði Ólafur engar fjárhagslegra hagsmuna að gæta vegna viðskiptanna um merin [sic] Dömu frá Pulu. Ég lýsi mig reiðubúinn til þess að leggja fram bókhaldsgögn framangreindu til staðfestu.“

            Vitnið Eyrún Ýr Pálsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti þætti sínum í viðskiptum með hryssuna Dömu frá Pulu. Við upphaf skýrslutöku lýsti vitnið því yfir að það væri hvorki skylt aðilum þessa máls né tengt. Vitnið kvað Viðar Ingólfsson hafa greint sér frá því að hann hefði áhugasama kaupendur af hryssunni Dömu skömmu eftir að hryssan kom til hans í þjálfun. Kvaðst vitnið hafa óskað eftir því við Viðar að fá upplýsingar um hverjir það væru sem sýnt hefðu hryssunni áhuga og hverjir myndu hafa milligöngu um söluna. Hafi Viðar greint henni frá að stefndi eða Günther Weber vildi kaupa hryssuna og að hann, þ.e. Viðar, og stefnandi væru milligöngumenn með sölunni. Vitnið Eyrún kvað Viðar hafa óskað eftir því að reikningur fyrir kaupverði hryssunnar, 6.000.000 krónur, yrði gefin út á fyrirtæki Viðars, þ.e. Kvíarhól ehf., sem vitnið kvaðst hafa gert. Vitnið Eyrún kvaðst hafa viljað hafa allt uppi á borðinu í þessum viðskiptum og því spurt Viðar, þegar hann tilkynnti henni að Günther vildi kaupa hryssuna, hvað þeir, þ.e. Viðar og stefnandi, ætluðu að taka. Hafi Viðar svarað því til að þeir ætluðu að leggja eina milljón króna ofan á það verð sem hún fékk fyrir hryssuna og taka hvor um sig fimmhundruð þúsund krónur. Kvaðst vitnið hafa samþykkt þetta fyrirkomulag. 

            Í skýrslu vitnisins Eyrúnar kom einnig fram að eftir söluna hafi maður henni nákominn, sem hún hafi borið traust til, sagt sér að Viðar og stefnandi hafi verið „gera svakalega sölu“. Fram kom í skýrslu vitnisins, sem á umræddum tíma kvaðst hafa verið í miklum samskiptum og vinskap við Viðar, að hún hafi vitað hvað væri í gangi hjá Viðari, eins og vitnið orðað það. Því kvaðst vitnið hafa beðið Viðar um að hitta sig og kvaðst hún hafa spurt hann hvort þessi „svakalega sala“ hafi verið salan á Dömu frá Pulu. Hafi Viðar játað því og sagt sér að þeir, þ.e. Viðar og stefnandi, hafi lagt töluvert meira ofan á söluverð hryssunnar til Kvíarhóls ehf., en þeir hefðu greint henni frá. Í framhaldinu hafi Viðar greint henni frá því að Günther hafi greitt í kringum níu milljónir króna fyrir hryssuna og að hann og stefnandi hafi tekið mismun á kaupverði  Kvíarhóls ehf., og söluverði til Günther. Í skýrslu vitnisins Eyrúnar kom einnig fram að einum til tveimur dögum síðar hafi Viðar óskað eftir að hitta vitnið. Hafi þau farið í langan bíltúr þar sem Viðar hafi greint frá því að hann hafi nefnt nafn stefnanda til að fría sig, það hafi verið hann, þ.e. Viðar, sem tekið hafi allan mismuninn til sín. Hafi Viðar dregið til baka að stefnandi hafi verið með í þessari sölu. Hafi Viðar sagst hafa verið eini milligöngumaður með sölunni og tekið hagnaðinn, þ.e. þrjár milljónir króna. Sérstaklega aðspurð kvaðst vitnið Eyrún aldrei hafa verið í samskiptum við stefnanda í tengslum við framangreind viðskipti með hryssuna Dömu frá Pulu.

            Vitnið Viðar Ingólfsson gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti atvikum að baki viðskipunum með hryssuna Dömu frá Pulu á nokkuð annan veg en vitnið Eyrún. Aðspurður um lýsingar Eyrúnar á viðskiptunum kvað vitnið greinilegt að um væri ræða einhvern misskilning. Auðvitað hefði stefnandi komið að kaupum Günther á hryssunni enda hafi stefnandi komið í tvígang til vitnisins til að skoða hesta, í fyrra skiptið með Günther og í það síðara með tveimur starfsmönnum hans. Kvaðst vitnið hvorki hafa greitt stefnanda eina einustu krónu né hafi það staðið til. Sérstaklega aðspurður um þann framburð Eyrúnar að hann, þ.e. Viðar, hafi greint Eyrúnu frá því að hann og stefnandi hafi ætlað að leggja ofan á kaupverðið og skipta hagnaðinum á milli sín, kvað vitnið það alrangt. Eina sem hann hafi sagt Eyrúnu, og það hafi hún vitað frá upphafi, að hann hafi ætlað að selja hryssuna með hagnaði. Eyrún hafi hins vegar ekki spurt um söluverð fyrr, að því er vitnið minnti nokkrum dögum eftir að vitnið greiddi Eyrúnu fyrir hryssuna. Kvaðst vitnið þá hafa sagt Eyrúnu aðeins ósatt, eins og vitnið orðaði það, þar sem honum hafi ekki fundist það skipta máli, Eyrún hafi fengið það verð sem hún hefði beðið um, enda kvaðst vitnið ekki vita til þess að fólk sendi reikning nema það væri ánægt með söluverð. Nánar aðspurt kvaðst vitnið bara ekki muna það verð sem hann hafi tilgreint, hvort það hafi verið sjö eða átta miljónir, „man ekki töluna sem ég sagði.“ Vitnið Viðar staðfesti að Eyrún hafi ekki verið ánægð og hafi þau átt fund saman í nóvember. Aðspurt hvort það neitaði því að hafa sagt Eyrúnu að stefnandi hefði átt aðkomu að sölunni og fengi sölulaun, svaraði vitnið: „Ég, ég í raun sagði henni bara að hún ætti ekki að vera blanda honum í það því hann hefði ekki haft neitt út úr þessu.“

            Stefnandi vísar til þess að riftun ráðningarsamningsins hafi verið ólögmæt, saknæm og tilefnislaus og því beri stefnda að bæta honum það tjón sem hann hafi orðið fyrir, þ.e. annars vegar vangreidd laun, launatengd gjöld og hlunnindi og hins vegar miskabætur vegna sérlega meiðandi ummæla í riftunarbréfinu. 

            Þessu hafnar stefndi og vísar til þess að með því að hafa haft milligöngu um sölu á hryssu til eiganda stefnda og með því að hafa haft af því fjárhagslegan ávinning eða hagsmuni, hafi stefnandi brotið gegn ákvæðum ráðningarsamningsins þannig að réttlætt hafi fyrirvarlausa riftun samningsins án bóta. Tekur stefndi fram að í því sambandi skipti ekki máli þó greiðslur hafi hugsanlega ekki verið inntar af hendi milli stefnanda og viðskiptafélaga stefnanda, Viðars Ingólfssonar, í kjölfar riftunar ráðningarsamningsins.

            Á stefnda hvílir sönnunarbyrði fyrir því að stefnandi hafi brotið gegn starfsskyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi aðila með þeim hætti að réttlætt hafi fyrirvaralausa riftun ráðningarsambandsins sem enn var í gildi þegar riftun fór fram. Hér að framan hafa ítarlega verið rakin samskipti forsvarsmanns stefnda við vitnið Eyrúnu Ýr Pálsdóttur, sem fyrir liggur að átti beina aðild að viðskiptum með hryssuna Dömu frá Pulu áður en til riftunar ráðningarsamnings stefnanda kom, sem og framburður vitnisins fyrir dómi. Einnig hafa verið rakin viðbrögð stefnanda við riftun ráðningarsamningsins, þ.e. yfirlýsing vitnisins Viðars Ingólfssonar, sem einnig liggur fyrir að átti beina aðild að framangreindum viðskiptum, sem og framburður vitnisins fyrir dómi.

            Eins og áður er rakið liggur fyrir að umrædd viðskipti með Dömu frá Pulu fóru fram fyrri hluta septembermánaðar 2015, þ.e. áður en stefndi sagði uppi ráðningarsamningi við stefnanda.  Þá liggur einnig fyrir að áður en til riftunar kom aflaði stefndi skriflegrar staðfestingar vitnisins Eyrúnar á aðkomu stefnanda að þeim viðskiptum, en á grundvelli þeirra upplýsinga rifti stefndi ráðningarsamningnum. Í framburði vitnisins Viðars kom fram að hann og Eyrún hafi margoft átt í viðskiptum af þessu tagi með hross, bæði þegar þau hafi selt hross saman eða þegar þau hafi selt hvort öðru hross. Þá kom það skýrt fram hjá vitninu Eyrúnu að henni var kunnugt um að eftir kaup félags í eigu Viðars á Dömu frá Pulu stæði til að leggja eina milljón ofan á verð hryssunnar við sölu til eiganda stefnda. Að þessu frátöldu ber vitnunum Eyrúnu og Viðari ekki saman um hvað þeim fór í milli í viðskiptunum með hryssuna Dömu frá Pulu.

            Að mati dómsins var framburður vitnisins Eyrúnar fyrir dómi skýr og í öllum meginatriðum í samræmi við framlögð gögn sem frá vitninu stafa. Vitnið svaraði af öryggi spurningum sem til hennar var beint fyrir dómi. Lýsingar hennar á samskiptum við vitnið Viðar, sem á þeim tíma var vinur hennar og náinn samstarfsmaður í hrossaviðskiptum, var að mati dómsins trúverðugur og verður ekki séð að vitnið hafi átt nokkra hagsmuna að gæta hvorki gagnvart stefnanda né stefnda í máli þessu. Framburður vitnisins Viðars fyrir dómi var hins vegar um margt óskýr og skorti verulega á skýrleika og öryggi í svörum vitnisins við spurningum sem til hans var beint. Þá verður ekki fram hjá því litið við mat á því hvort stefndi hafi nægjanlega axlað sönnunarbyrði í máli þessu, að í tölvupósti lögmanns stefnanda til vitnisins Eyrúnar 10. desember 2015 var gengið út frá því að vitnið Viðar hafi upphaflega greint vitninu Eyrúnu frá aðkomu stefnanda að sölunni hryssunnar Dömu. Er það ekki í samræmi við framburð vitnisins Viðars fyrir dómi sem svaraði spurningu lögmanns stefnanda hvort hann hafi í einhverju bríaríi til að réttlæta álagningu sína sagt Eyrúnu að stefnandi hefði átt þátt í viðskiptunum en síðan leiðrétt það gagnvart Eyrúnu, á eftirfarandi hátt: „Sko, nei ég held að ég hafi ekki gert það sko, en það má vel vera að ég hafi orðað það einhvern veginn þannig að, að, að við höfum komið að þessu máli, skilurðu, stefnandi var í þessu máli að því að hann var þá starfsmaður stefnda og kom fyrir hönd Günther, en að ég hafi ætlað að greiða honum einhver laun fyrir það eða hann hafi haft einhvern fjárhagslegan ávinning, hann hefur ekki haft þann fjárhagslega ávinning frá mér.“ Að öllu framangreindu virtu er það mat  dómsins að talsvert hafi skorti á trúverðugleika framburðar vitnisins Viðars fyrir dómi og bar framburður hans þess merki að hann væri að vernda stefnanda, en stefnandi kvað þá Viðar vera kunningja. Aðspurt um tengsl við stefnanda kvað vitnið Viðar stefnanda vera vin sinn og kunningja.    

            Riftun ráðningarsamningsins sem aðilar þessa máls gerðu sín á milli í júní 2014 byggði samkvæmt riftunarbréfi annars vegar á 3. mgr. 2. gr. samningsins en þar segir: 

 „Ef bústjóri þykir hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfi hvað varðar starfsskyldur hans og ábyrgðarsvið eða hann brýtur að öðru leyti gegn ákvæðum samnings þess getur búið [stefndi, innskot dómara] rift ráðningarsamningnum fyrirvaralaust og án bóta. Hins vegar var í riftunarbréfinu vísað til 7. mgr. 1. gr. ráðningarsamningsins, en þar segir: „Bústjóra er óheimilt að starfa hjá öðrum vinnuveitanda eða að öðrum launuðum verkefnum nema með skriflegu samþykki eiganda. Jafnframt er honum óheimilt að vera beint eða óbeint þátttakandi í annarri starfsemi, eða hafa fjárhagslegra hagsmuni að gæta gagnvart aðilum sem eru í samkeppni við búið nema með sérstöku skriflegu samþykki eiganda.

            Með vísan til framburðar vitnisins Eyrúnar Ýrar Pálsdóttur og alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að stefndi hafi axlað með fullnægjandi hætti sönnunarbyrði í máli þessu og sýnt fram á að stefnandi hafi í starfi sem bústjóri brotið gróflega gegn samningsskyldum sínum. Hafi því riftun ráðningarsamnings aðila verið reist á nægilega efnislegum forsendum og verið réttlætanleg án fyrirvara eða aðvörunar. Þá er það mat dómsins að í 1. mgr. 7. gr. ráðningarsamningsins hafi verið kveðið með skýrum hætti á um starfsskyldur stefnanda, en alþekkt er að samkeppni ríkir milli hrossaræktarbúa hér á landi og að í viðskiptum með hross fara manna á milli háar fjárhæðir, eins og ráða má af máli þessu. Að mati dómsins eru þau ákvæði ráðningarsamningsins sem vísað er til í riftunarbréfinu frá 9. desember 2015, skýrt orðuð og hefði stefnanda átt að vera ljósar afleiðingar viðskipta af því tagi sem dómur telur liggja fyrir að hann hafi komið að í tengslum við kaup eiganda stefnda á hryssunni Dömu frá Pulu, þ.e. riftun ráðningarsambands án bóta. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda um bætur vegna launa, launatengdra gjalda, hlunninda og miska vegna riftunar ráðningarsamnings. 

            Stefnandi krefur stefnda einnig um miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur  vegna meiðandi og tilhæfulausra ávirðinga stefnda í bréfi dags. 29. apríl 2016, og vísar stefnandi kröfu sinni til stuðnings til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 

            Í framangreindu bréfi, sem lögmaður stefnda sendi lögmanni stefnanda eftir riftun ráðningarsamningsins, nánar tiltekið 29. apríl 2016, eru í tólf liðum tilgreind tilvik sem stefndi taldi hafa falið í sér alvarlega vanrækslu stefnanda í starfi umfram það sem legið hafi að baki riftun ráðningarsamningsins. Er í bréfinu af hálfu stefnda áskilinn réttur til skaðabóta og endurgreiðslu kostnaðar úr hendi stefnanda. Stefnandi vísar til þess að hinar alvarlegu og tilhæfulausu ásakanir í bréfinu, sem hafi spurst út og séu umtalaðar meðal hestamanna, hafi verið til þess fallnar að kasta rýrð á starfsheiður hans og draga úr starfsmöguleikum hans í framtíðinni.

            Sönnunarbyrði í þessum þætti málsins hvílir á stefnanda. Þarf hann í fyrsta lagi að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvert tjón hans er. Í öðru lagi að um hafi verið að ræða saknæma háttsemi af hálfu stefnda og í þriðja lagi að tjón stefnanda verði rakið til háttsemi stefnda, þ.e. orsakatengsl. 

            Fyrir liggur að bréf það sem stefnandi heldur fram að hafi valdið honum miska fór ekki í almenna birtingu eða umferð heldur var því beint til stefnanda persónulega í gegnum lögmann hans. Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi sendi, fyrir milligöngu lögmanns síns, sex nafngreindum mönnum, sem allir tengdust hestamennsku með einum eða öðrum hætti, tölvupóst þar sem efni umrædds bréfs var lýst og í ákveðnum tilvikum rakið nokkuð ítarlega, þ.e. ýmis tilvik sem snertu rækslu starfa stefnanda sem bústjóra á Kvistum. Með vísan til þess að framangreindar meintar aðfinnslur við störf stefnanda voru settar fram í bréfi milli aðila málsins og ekkert er komið fram um að stefndi hafi upplýst aðra um efni bréfsins, hefur stefnandi að mati dómsins ekki fært fram sönnur þess að stefndi hafi valdið honum miska með þeim hætti sem stefnandi vísar til. Verður því stefndi sýknaður af framangreindri miskabótakröfu.

            Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 950.000 krónur.  

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Kvistir ehf., er sýknaður af öllum kröfu stefnanda, Ólafs Brynjars Ásgeirssonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 950.000 krónur í málskostnað.