Print

Mál nr. 65/1999

Lykilorð
  • Handtaka
  • Skaðabætur
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 30. september 1999.

Nr. 65/1999.

Íslenska ríkið

(Jón G. Tómasson hrl.)

gegn

Ólafi Högna Ólafssyni

(Ásgeir Þór Árnason hrl.

Björgvin Jónsson hdl.)

Handtaka. Skaðabætur. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Gjafsókn. Sératkvæði.

Ó var handtekinn ásamt sjö öðrum mönnum á Austurvelli við mótmæli, en á þessum tíma fór þar fram upptaka efnis í bandarískan sjónvarpsþátt. Talið var, að mótmæli, sem fram færu með þeim hætti að hrópa sameiginleg slagorð gegn aðgerðum erlends ríkis, bera spjöld með áletrunum og fána, sem vísuðu til stjórnmálalegra hugmynda, væru ótvírætt tjáning í skilningi 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Yrði að gera ríkar kröfur til þess, að skýr heimild væri í settum lögum til handtöku manna, sem hefðu uppi mótmæli sem þessi. Ekki var á það fallist, að ætlað brot gegn 95. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem refsing er lögð við því að smána þjóðfána erlends ríkis, hefði legið til grundvallar handtökunni eða að hún yrði réttlætt á þeim grundvelli, en einn hinna handteknu hafði verið vafinn bandaríska fánanum og verið með snöru um hálsinn. Talið var, að í háttsemi Ó og félaga hans hefði ekki falist meiri truflun á upptöku sjónvarpsþáttarins en almennt mætti vænta við slíka atburði á almannafæri, en hér hefði ekki verið um að ræða truflun á skipulögðum mannfundi eða hátíðarhöldum. Þótti ekki hafa verið leitt í ljós, að uggvænt hefði mátt þykja, að af framferði Ó og félaga hans leiddi óspektir eða hætta á óspektum í skilningi e. liðar 98. gr. laga nr. 19/1991. Var því ekki talið, að lögmælt skilyrði hefðu verið til handtökunnar. Að virtum atvikum málsins og eðli þeirra sakargifta, sem bornar voru á Ó, þótti ennfremur ekki hafa verið sýnt fram á, að rannsóknarnauðsyn hefði krafist þess, að honum væri haldið í gæslu lögreglu eins lengi og raun varð. Voru Ó því dæmdar skaðabætur úr ríkissjóði samkvæmt a. lið 176. gr. laga nr. 19/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. febrúar 1999. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnda en til vara, að kröfur hans verði verulega lækkaðar. Áfrýjandi krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

I.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var stefndi, ásamt sjö öðrum mönnum, handtekinn á Austurvelli og fluttur á aðalvarðstöð lögreglunnar í Reykjavík kl. 12.01 föstudaginn 16. maí 1997. Á Austurvelli fór á þessum tíma fram upptaka efnis í bandaríska sjónvarpsþáttinn „Good morning America“, sem sjónvarpað var beint til Bandaríkjanna. Þátturinn mun jafnframt hafa verið sendur út í ríkissjónvarpinu á tímabilinu frá kl. 11:00 - 13:00. Samkvæmt bréfi sjónvarpsins til lögmanns áfrýjanda 18. nóvember 1998 fóru fram í þættinum sex stuttar útsendingar frá Austurvelli.

Í frumskýrslu lögreglunnar kemur fram, að nokkur fjöldi manna hafi þar verið saman kominn af þessu tilefni, aðallega Bandaríkjamenn af Keflavíkurflugvelli ásamt fjölskyldum sínum. Samkvæmt framburði hinna handteknu höfðu þeir komið á Austurvöll í þeim tilgangi að hafa í frammi friðsamleg mótmæli gegn framferði bandarískra stjórnvalda, svo sem viðskiptabanni þeirra gegn Kúbu, veru bandaríska hersins á Íslandi og meintum mannréttindabrotum í Bandaríkjunum. Áttmenningarnir báru spjöld með ýmsum slagorðum auk fána. Einn þeirra var vafinn bandaríska fánanum og var með snöru um hálsinn, en annar var sveipaður kúbanska fánanum. Áttmenningarnir hófu að hrópa ýmis slagorð, einkum orðin: „Free Mumia Abu Jamal“, þar til lögreglan handtók þá eftir um það bil hálfa mínútu.

Samkvæmt lögregluskýrslu hafði lögreglan tal af tveimur mótmælendanna um klukkustund áður en mótmælin hófust og tilkynnti þeim þá, að þau yrðu stöðvuð, ef til þeirra kæmi. Í skýrslu Tristans Péturs Depenne og Óskars Steins Gestssonar fyrir héraðsdómi kom fram, að óeinkennisklæddir lögreglumenn hefðu gefið þeim til kynna, að afskipti yrðu höfð af þeim, ef þeir hefðu uppi mótmæli.

II.

Samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr.  11. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, á hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun eða aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Í 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 12. gr. laga nr. 97/1995, er tekið fram, að menn eigi rétt á að safnast saman vopnlausir, en lögreglunni sé heimilt að vera við almennar samkomur og banna megi mannfundi undir berum himni, ef uggvænt þyki, að af þeim leiði óspektir.

Með þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar er slegið föstum almennum rétti manna til þess að láta í ljós hugsanir sínar og skoðanir með friðsamlegum hætti. Þannig er tryggt, að fleiri menn saman geti nýtt sér hið almenna tjáningarfrelsi með fundum, sameiginlegum mótmælum eða á annan veg. Af þessu leiðir, að rétti manna til þess að koma saman í áðurnefndum tilgangi verða ekki settar skorður nema með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 10. gr. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 62/1994.

Mótmæli, sem fram fara með þeim hætti að hrópa sameiginlega slagorð gegn aðgerðum erlends ríkis, bera spjöld með áletrunum og fána, sem vísa til stjórnmálalegra hugmynda, eru ótvírætt tjáning í skilningi 73. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt framangreindu verður réttur manna til þess að hafa uppi slík mótmæli aðeins takmarkaður eftir þeim skilyrðum, sem greinir í 3. mgr. greinarinnar, enda fari mótmælin friðsamlega fram eða ekki sé uggvænt, að af þeim leiði óspektir, þannig að þau megi banna samkvæmt 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Handtaka manna, sem hafa í frammi mótmæli sem þessi, er viðurhlutamikil skerðing á því tjáningar- og fundafrelsi, sem verndað er af framangreindum ákvæðum stjórnarskrár. Af þessum sökum verður að gera ríkar kröfur til þess, að skýr heimild sé til handtöku í settum lögum, sbr. einnig 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995, og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, enda sé handtaka nauðsynleg af þeim ástæðum, sem nefndar eru í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.

III.

Í málatilbúnaði áfrýjanda í héraði var handtaka stefnda og félaga hans einkum rökstudd með vísun til 15. gr. og 16. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, en þau lög tóku ekki gildi fyrr en 1. júlí 1997, einum og hálfum mánuði eftir hina umdeildu atburði. Áfrýjandi telur þær heimildir, sem lögreglu eru veittar með þessum ákvæðum, hafa verið óskráðar og venjumyndaðar fyrir gildistöku laganna. Áfrýjandi vísar einnig til handtökuheimilda í XII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, einkum þágildandi e. liðar 98. gr. laganna. Hætta hafi verið á óspektum og handtakan því nauðsynleg. Í greinargerð áfrýjanda í héraði var einnig vísað til 95. gr. og 119. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en í fyrrnefnda ákvæðinu er refsing meðal annars lögð við því að smána þjóðfána annars ríkis. Í greinargerðinni var tekið fram, að þessum ákvæðum hafi ekki verið beitt í málinu, þótt þau hefðu getað átt við háttsemi hinna handteknu. Við málflutning fyrir Hæstarétti lagði lögmaður áfrýjanda megináherslu á, að þeir hefðu verið að fremja brot á 95. gr. hegningarlaganna með meðferð sinni á bandaríska fánanum, er þeir voru handteknir. Hefði handtakan því verið heimil samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991, en þar er lögreglu með ákveðnum skilyrðum játaður réttur til að handtaka mann, ef rökstuddur grunur er á, að hann hafi framið brot, sem sætt getur ákæru

Í frumskýrslu lögreglunnar kemur fram, að lögreglumenn á vettvangi hafi haft almenn fyrirmæli frá aðstoðaryfirlögregluþjóni þess efnis, að „fjarlægja skyldi alla sem upphæfu mótmæli og væru með óæskilega háreysti.“ Í inngangi skýrslunnar er efni hennar sagt vera: „Neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu.“ Af framlögðum gögnum lögreglunnar verður ekki ráðið, að stefnda og félögum hans hafi verið kynnt, að tilefni handtökunnar væri vanvirðing við fána erlends ríkis. Í bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til lögmanns stefnda 15. desember 1997 segir, að ekki hafi meira verið aðhafst í málinu af hálfu lögreglunnar en að kalla skjólstæðinga lögmannsins til viðtals hjá varðstjóra í framhaldi af handtöku. Af hálfu embættisins sé málinu lokið og ekki sé fyrirhuguð opinber málshöfðun. Í málinu liggur ekkert fyrir um bréfaskipti lögreglustjórans við ríkissaksóknara, sem höfðar opinber mál vegna brota á X. kafla almennra hegningarlaga um landráð, sbr. a. lið 3. mgr. 27. gr. laga nr. 19/1991, sbr. lög nr. 84/1996.

Þegar allt það er virt, sem að framan greinir, verður ekki fallist á þann málflutning áfrýjanda, að ætlað brot gegn 95. gr. almennra hegningarlaga hafi í raun legið til handtökunnar eða hún verði réttlætt á grundvelli 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991.

IV.

Eins og áður segir verður að áskilja skýra lagaheimild fyrir handtöku manna, sem saman eru komnir til þess að hafa uppi mótmæli af pólitískum toga. Verður handtaka stefnda ekki studd við heimildir reistar á venju eða öðrum óskráðum reglum. Eins og málið liggur fyrir kemur til skoðunar, hvort handtaka stefnda gat stuðst við þágildandi e. lið 98. gr. laga nr. 19/1991, en samkvæmt því ákvæði var lögreglunni rétt að handtaka mann, ef hann ærðist á almannafæri eða olli þar hneyksli eða hættu á óspektum, sbr. nú a. lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga. Hér á aðeins við að kanna, hvort mótmæli stefnda og félaga hans hafi falið í sér óspektir eða hættu á óspektum á Austurvelli 16. maí 1997.

Telja verður, að háttsemi áttmenninganna hafi verið til þess fallin að valda truflunum á þeirri sjónvarpsútsendingu, sem fram fór á Austurvelli á umræddum tíma, og lögreglu hafi verið rétt að hafa afskipti af þeim. Einnig verður á það fallist, að stórfelldar truflanir, sem hávær og umfangsmikil mótmæli hóps manna geta valdið vegfarendum eða öðrum borgurum, geti falið í sér óspektir eða röskun á allsherjarreglu í skilningi áðurnefndra stjórnarskrárákvæða. Hins vegar er á það líta, að á almannfæri má almennt búast við einhverjum truflunum, sem meðal annars geta falist í því, að menn kjósi að tjá þar skoðanir sínar eða hugsanir.

Af gögnum málsins má ráða, að fyrirsvarsmenn hins bandaríska sjónvarpsþáttar hafi haft einhvers konar samráð við lögregluyfirvöld í Reykjavík um framkvæmd upptökunnar, en ekki er fram komið, að þeir hafi óskað þess, að yfirvöld tryggðu, að hún sætti ekki truflunum vegna umferðar eða athafna almennings. Sá staður, sem upptakan fór fram á, var ekki afmarkaður eða afgirtur. Verður að telja, að í þeirri háttsemi stefnda og félaga hans að koma með mótmælaspjöld og fána á Austurvöll og hafa í frammi nokkra háreysti hafi ekki falist meiri truflanir á upptöku sjónvarpsþáttarins en almennt má vænta við slíka atburði á almannafæri. Þess er og að gæta, að hér var ekki um að ræða truflun á skipulögðum mannfundi eða dagskrá í þágu almennings eða félagasamtaka eða annars konar opinberum hátíðarhöldum. Að þessu virtu hefur ekki verið leitt í ljós, að uggvænt hafi mátt þykja, að af framferði stefnda og félaga hans leiddi óspektir eða hættu á óspektum í skilningi þágildandi e. liðar 98. gr. laga nr. 19/1991. Þá hefur heldur ekki verið sýnt fram á, að lögregla hafi ekki á þessu stigi átt kost á hóflegri aðgerðum en handtöku.

Með hliðsjón af framansögðu verður ekki talið, að þær aðstæður hafi verið fyrir hendi, þegar lögregla handtók stefnda og félaga hans, að lögmælt skilyrði væru þá til þessara athafna.

V.

Af skýrslum lögreglunnar vegna hinnar umdeildu handtöku verður ráðið, að yfirheyrslur hafi hafist kl. 13.10 og hafi hinir handteknu síðan verið yfirheyrðir hver á fætur öðrum, en síðasta skýrslutakan hafi hafist kl. 14.18. Skýrslur lögreglunnar eru ekki áritaðar um það, hvenær stefnda eða öðrum handteknu var sleppt úr haldi, en í skýrslunum er merkt við reiti þar sem við stendur: „Látinn laus eftir viðr. við yfirm.“ og „Færður í biðherbergi og síðan látinn laus kl.“ án þess að tímasetning sé tilgreind. Í sjö skýrslum af átta kemur og fram, að hinir handteknu hafi verið frjálsir ferða sinna að loknu samtali.

Í skýrslu Stefáns Arnar Guðjónssonar lögregluvarðstjóra 9. október 1998 er sett fram sú skýring við skýrslurnar, að rætt hafi verið við hvern og einn hinna handteknu og þeir síðan færðir aftur í biðherbergi. Síðan hafi farið fram myndatökur og að því loknu hafi þeir verið frjálsir ferða sinna. Í skýrslunni segir, að líklegt sé, að hinir handteknu hafi verið lausir á tímabilinu frá kl. 14.30 til 15.00. Mjög ólíklegt sé, að það hafi verið mikið síðar, en það hafi ekki verið skráð niður. Samkvæmt framburði Stefáns Arnar fyrir héraðsdómi voru stefndi og félagar hans frjálsir ferða sinna að loknum myndatökum, en Svanur Elísson rannsóknarlögreglumaður, sem tók myndirnar, kvað þær hafa verið teknar einhvern tíma á milli kl. 13.00 og 15.00. Samkvæmt framburði Ólafs Guðmundssonar lögreglumanns fyrir héraðsdómi var áttmenningunum öllum sleppt á svipuðum tíma, eftir að myndatökur höfðu farið fram, einhvern tíma frá kl. 14.30 til 15.00.

            Samkvæmt framangreindu leið ríflega klukkustund frá handtöku, þar til hafist var handa við að taka skýrslur af stefnda og öðrum hinum handteknu. Með framburði lögreglumanna fyrir dómi er einnig leitt í ljós, að þeim var ekki sleppt að loknum yfirheyrslum, eins og greinir í skýrslum lögreglunnar, heldur var þeim haldið áfram í gæslu í því skyni, að myndatökur gætu farið fram, en samkvæmt framburði Svans Elíssonar fyrir héraðsdómi tók í mesta lagi um það bil eina mínútu að mynda hvern og einn. Samtals voru stefndi og aðrir handteknu í haldi lögreglunnar í allt að þrjár klukkustundir, ef framburður lögreglumanna er lagður til grundvallar, en í tvær til fjórar og hálfa klukkustund eftir eigin frásögnum.

Í samræmi við meginreglu 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. mgr. 101. gr. laga nr. 19/1991, sbr. nú lokaorð 2. mgr. 16. gr. laga nr. 90/1996, bar að gæta þess að halda stefnda eigi lengur í gæslu en nauðsyn var til. Þau atvik, sem leiddu til handtöku stefnda, voru einföld og gáfu ekki tilefni til ítarlegra yfirheyrslna eða tímafrekra rannsókna að öðru leyti. Að þessu virtu og eðli þeirra sakargifta, sem voru bornar á stefnda, hefur ekki verið sýnt fram á, að rannsóknarnauðsyn hafi krafist þess, að stefnda væri haldið í gæslu lögreglu þann tíma, sem að framan greinir.

VI.

Samkvæmt framangreindu brast lögmælt skilyrði til handtöku stefnda og var honum að auki haldið í vörslu lögreglunnar lengur en réttlætt verði. Á stefndi því rétt til skaðabóta úr ríkissjóði samkvæmt a. lið 176. gr. laga nr. 19/1991. Stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi og verður ákvörðun dómsins um bótafjárhæð staðfest.

 Vegna gjafsóknar stefnda er ekki ástæða til að dæma áfrýjanda til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, er renni í ríkissjóð. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefnda verður staðfest. Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Ólafi Högna Ólafssyni, 50.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. júní 1998 til greiðsludags.

Málskostnaður verður ekki dæmdur í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 40.000 krónur.

       

Sératkvæði

Hjartar Torfasonar

hæstaréttardómara

í hæstaréttarmálinu nr. 65/1999:

Íslenska ríkið

gegn

Ólafi Högna Ólafssyni

Ég er sammála atkvæði annarra dómenda að öðru en því er varðar þau ummæli í upphafsmálsgrein IV. kafla, að handtaka manns í stöðu stefnda verði ekki studd við heimildir reistar á venju eða öðrum óskráðum reglum. Á þau verður ekki fallist án afdráttar, þar sem það heyrir til grundvallarreglna íslensks réttar, að óskráð lög geti verið jafngild settum lögum og einnig eftir atvikum staðið því í vegi, að ný lög tiltekins efnis verði sett. Er ekki unnt að útiloka, að reynt geti á gildi slíkra lagareglna, þegar meta þarf atlögur að því lýðfrelsi, sem mælt er um í 67. gr., 73. gr. og 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Fyrirvari minn þessa vegna skiptir þó litlu um sakarefni málsins, og í raun er hann einkum til kominn vegna þeirrar staðhæfingar áfrýjanda, að líta megi við meðhöndlun þess til ákvæða 15. gr. og 16. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sem gildi tóku 1. júlí 1996. Hafi þau falið í sér staðfestingu löggjafans á óskráðum og venjubundnum lagaheimildum, sem verið hafi í fullu gildi, þegar hinir umdeildu atburðir áttu sér stað. Eigi þetta einkum við um 15. gr., svo sem lýst hafi verið í skýringum með frumvarpi til laganna, en hún fjallar með almennum hætti um heimildir lögreglu til afskipta af borgurunum í þágu almannafriðar og allsherjarreglu eða vegna yfirvofandi röskunar á öryggi einstaklinga eða almennings. Ákvæði 16. gr. um heimildir til handtöku manna hafi hins vegar síður verið nýmæli í settum lögum, þar sem þau séu að mestu samhljóða fyrri ákvæðum í e- og f- liðum 98. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Á það má fallast, að meginefni 15. gr. laga nr. 90/1996 svari að miklu leyti til almennra reglna, sem áður hafi notið lagagildis. Þessar reglur voru þó ekki með öllu óskráðar, þar sem þeirra mátti sjá stað í lögreglusamþykktum víðs vegar á landinu, sem stoð höfðu í lögum, og einnig í ýmsum ákvæðum settra laga og stjórnarskránni sjálfri. Þessi ályktun skiptir á hinn bóginn engum sköpum um málstað áfrýjanda og mat á aðgerðum lögregluyfirvalda gagnvart stefnda og félögum hans í þetta sinn. Þar ræður það úrslitum, að aðgerðirnar gengu lengra en nauðsyn krafðist, að því er séð verður af gögnum málsins. Þá nauðsyn er að vísu erfitt að meta eftir á, þar sem lögreglumenn við eftirlit á Austurvelli stöðvuðu athafnir þeirra félaga þegar á byrjunarstigi, en við blasir, að hófstillt afskipti eða eftirlit á sviði 15 gr. núgildandi lögreglulaga, sem styðja mátti meðal annars við lögreglusamþykkt nr. 625/1987 fyrir Reykjavík, voru ekki látin duga, heldur voru félagarnir teknir höndum og færðir til yfirheyrslu án teljandi umsvifa. Hefur áfrýjanda ekki tekist að réttlæta þá ráðstöfun.

Með þessum athugasemdum er ég sammála niðurstöðu annarra dómenda, bæði um efni málsins og málskostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 1998.

Ár 1998, þriðjudaginn 29. desember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Hirti O. Aðalsteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í máli nr. E-2919/1998: Ólafur Högni Ólafsson gegn íslenska ríkinu.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 11. desember s.l., er höfðað með stefnu út gef­inni 3. júní s.l. og birtri samdægurs.

Stefnandi er Ólafur Högni Ólafsson, kt. 190877-3969, Laufvangi 13, Hafnar­firði.

Stefndu eru dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska rík­is­ins, kt. 540269-6459, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til þess að greiða sér miskabætur að fjárhæð kr. 300.000 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þingfestingardegi 11. júní s.l. til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfunnar á tólf mánaða fresti og myndi þannig nýjan vaxtaberandi höfuðstól. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikn­ingi úr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Enn fremur er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins. Til vara er gerð krafa um verulega lækkun stefnufjárhæðar.

Málavextir.

 Stefnandi lýsir málsatvikum svo að lögreglan í Reykjavík hafi handtekið hann ásamt 7 öðrum einstaklingum á Austurvelli kl. 12:01 föstudaginn 16. maí 1997 og flutt hann nauðugan á aðalvarðstöð lögreglunnar að Hverfisgötu 113. Stefn­andi segist hafa verið færður til fangaklefa, síðan yfirheyrður og látinn laus kl. 15:00. Á þessum tíma hafi staðið yfir bein sjónvarpsútsending á vegum banda­rískrar sjónvarpsstöðvar á þættinum „Good morning America“. Stefnandi hugð­ist ásamt félögum sínum hafa uppi friðsamleg mótmæli og hafði hann með sér fána með mynd af byltingarleiðtoganum Che Guevara.

 Í lögregluskýrslu Björns Ágústs Einarssonar lögreglumanns er atburðum lýst svo: „Undirritaður ásamt ofangreindum lögreglumönnum vorum við gæslu á Aust­urvelli vegna beinnar sjónvarpssendingar frá Íslandi í þættinum Good morning America. Fyrirmæli okkar frá Jónasi Hallssyni, aðstoðar­yfir­lög­reglu­þjóni, voru þau að fjarlægja skyldi alla sem upphæfu mótmæli og væru með óæski­lega háreysti. Þarna var samankominn nokkur fjöldi fólks og þá aðallega Ameríkanar af Keflavíkurflugvelli ásamt fjölskyldum. Þegar viðtal var yfir­stand­andi komu inn á svæðið átta einstaklingar með áróðursspjöld og fána hrópandi slag­orðið “Frelsi fyrir Mumia Abu-Jamal“. Einn var vafinn fána Bandaríkjanna og hafði hann vafið um sig kaðli og var um háls hans snara og var síðan kaðallinn tengdur á milli mannanna. Einn aðilinn var vafinn kúbanska fánanum. Komu menn þessir aftan að okkur sem vorum óeinkennisklæddir. Snerum við okkur að mönn­um þessum, sögðum deili á okkur og gáfum þeim fyrirmæli um að yfirgefa vett­vang. Virtust þeir gera sér grein fyrir hverjir við værum og fyrstu tilsvörin voru þau, að þeir hefðu fulla heimild samkvæmt stjórnarskránni að mótmæla á al­manna­færi. Neituðu þeir að yfirgefa vettvang af þeim ástæðum. Tókum við því aðila þessa og færðum í næsta lögreglubíl sem stóð við verslunina Álafoss. Að­il­ar þessir veittu ekki mótspyrnu utan einn sem streittist á móti. Aðilar þessir voru fluttir á aðalstöð lögreglunnar við Hverfisgötu 113. Þangað komnir var þeim kynnt réttarstaða handtekinna manna […]. Aðspurðir kváðust mennirnir hafa verið að mótmæla í pólitískum tilgangi ofbeldi í heiminum og hafa ætlað að dreifa riti sem ber yfirskriftina Rödd hinna raddlausu og riti Samtaka her­stöðv­ar­and­stæð­inga Dagfara.“

 Samkvæmt lögregluskýrslu var stefnandi færður fyrir Stefán Örn Guðjóns­son, varðstjóra og er skráð að yfirheyrsla hefjist kl. 13:36. Ekki er bókað hvenær yfir­heyrslu lauk og engin gögn hafa fundist hjá lögreglu um það hvenær stefnanda var sleppt úr haldi. Lögð hefur verið fram í málinu skýrsla Stefáns dagsett 9. októ­ber s.l. Segir hann að rætt hafi verið við hvern og einn og hann færður aftur í bið­herbergi, síðan hafi farið fram myndatökur og að því loknu hafi allir verið frjálsir ferða sinna, líklega á tímabilinu kl. 14:30 til 15:00. Stefán segir mjög ólík­legt að það hafi verið mikið síðar, en það hafi ekki verið skráð.

Málsástæður og lagarök.

 Stefnandi byggir aðallega á því að handtaka lögreglunnar hafi verið til­efn­is­laus og ólögmæt og hafi bakað íslenska ríkinu bótaskyldu. Til vara er byggt á því að frelsisskerðing stefnanda hafi varað í mun lengri tíma en þörf var fyrir og hafi þar af leiðandi bakað íslenska ríkinu bótaskyldu.

 Stefnanda hafi verið heimilt að láta í ljós skoðanir sínar með þeim hætti er hann hugðist gera á Austurvelli og sé lögregluyfirvöldum öldungis óheimilt að grípa til handtöku og skerða þannig tjáningarfrelsi stefnanda. Engar þær aðstæður hafi verið fyrir hendi sem stefnt gátu öryggi íslenska ríkisins í hættu og heimild til hand­töku verði ekki sótt til ólögskráðra reglna um ordre public. Fjöldi manns hafi verið samankominn á Austurvelli sem hafði uppi hróp og köll og báru borða eða spjöld með ýmslum áletrunum. Allt að einu voru stefnandi og félagar hans þeir einu sem voru handteknir og því ljóst að lögreglumenn tóku sérstaka afstöðu á vett­vangi til þess boðskapar er þeir fluttu en heimiluðu öðrum að koma sínum boð­skap á framfæri óáreittum. Í þessari afstöðu lögreglunnar hafi falist ólögmæt skerð­ing á tjáningarfrelsi stefnanda og brot gegn jafnræðisreglu sem varðar íslenska ríkið bótaskyldu.

 Stefnandi segist ekki hafa orðið fyrir fjártjóni vegna handtökunnar. Hann hafi sætt ólögmætri frelsisskerðingu í 3 klukkustundir og stolt hans sem þegns í lýð­frjálsu landi hafi beðið stórkostlegan hnekki. Miskabótakröfu sé í hóf stillt þegar þau sjónarmið eru virt og auk þess sé nauðsynlegt að dómstólar veiti fram­kvæmda­valdinu aðhald þegar grundvallarmannréttindi þegnanna eru gróflega fótum troðin eins og raun varð á með frelsissviptingu stefnanda.

 Stefnandi vísar til 65. gr., 67. gr., 73. gr. og 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, 5. gr., 9. gr., 10. gr. og 11. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, 11. og 12. gr. stjórn­sýslu­laga, 18., 19. og 21. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg rétt­indi nr. 10/1979 og XII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 Stefnandi vísar um heimild til þess að krefjast miskabóta til XXI. kafla laga nr. 19/1991 og 26. gr. skaðabótalaga. Um vexti er vísað til vaxtalaga, um máls­kostn­að til XXI. kafla laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt á mál­flutn­ings­þóknun til laga nr. 50/1988. Gerð er krafa um málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál með vísan til leyfisbréfs dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 8. júní sl.

 Stefndi vísar til 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 um heimildir lögreglumanna til afskipta af áttmenningunum í því skyni að halda uppi almannafriði og alls­herjar­reglu, koma í veg fyrir yfirvofandi röskun og gæta öryggis. Samkvæmt grein­argerð með frumvarpi til laganna sé tilgangur ákvæða 15. gr. að treysta laga­legan grundvöll lögreglu til að hafa afskipti af borgurum og feli það í sér svo­kallað allsherjarumboð lögreglu, en með því sé átt við að sú óskráða regla sé lög­fest að lögregla hafi almenna venjumyndaða heimild innan vissra marka til að halda uppi lögum og reglu í landinu. Jafnframt sé tekið fram í greinargerðinni að upp­talning 15. gr. á tilvikum, sem réttlæta afskipti lögreglu af borgurum sé ekki tæm­andi, heldur verði að líta á upptalninguna sem leiðbeinandi um hin ýmsu úr­ræði sem lögregla getur gripið til. Þá segir að ákvæðið sé lögfest til að taka af allan vafa um lögmæti afskipta lögreglu af borgurum í framangreindu skyni. Eitt af úrræðum lögreglu sé að banna dvöl á ákveðnum svæðum og að vísa á brott eða fjar­lægja fólk. Óhlýðnist maður slíkum fyrirmælum getur lögreglan gripið til nauð­synlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir að óhlýðni hans valdi tjóni eða stofni almenningi í hættu.

 Stefndi byggir á því að samkvæmt 16. gr. lögreglulaga sé handhafa lög­reglu­valds heimilt að handtaka mann og færa á lögreglustöð í þeim tilgangi m.a. að halda uppi lögum og reglum og koma í veg fyrir að hlutaðeigandi valdi hneyksli á al­mannafæri eða skapi hættu á óspektum. Stefndi vísar til 73. gr. stjórn­ar­skrár­innar þar sem segir að tjáningarfrelsi megi setja skorður með lögum í þágu alls­herjar reglu.

 Stefndi byggir á því að áttmenningarnir hafi verið komnir á Austurvöll til þess að halda uppi mótmælum við Bandaríkjastjórn í beinni útsendingu á sjón­varps­­þætti. Hafi lögreglu því bæði verið rétt og skylt að hafa afskipti af mönn­un­um. Þeim hafi öllum verið gefinn kostur á að hverfa af vettvangi og láta af hátt­semi sinni, en þeir hafi ekki sinnt því. Var lögreglu þá rétt og skylt að fjarlægja þá af vettvangi með því að handtaka þá og færa á lögreglustöð. Hafi lagaskilyrði til afskipta lögreglu því verið uppfyllt.

 Stefndi vísar til ákvæða 95. og 119. gr. almennra hegningarlaga, enda þótt þeim ákvæðum hafi ekki verið beitt í þessu máli. Mönnunum hafi verið sleppt strax að lokinni skýrslutöku, þótt nefnd ákvæði hegningarlaga hefðu getað átt við um háttsemi þeirra.

 Stefndi heldur því fram að allar aðgerðir lögreglu hafi verið í samræmi við mann­réttindaákvæði jafnt stjórnarskrár sem alþjóðasamninga. Þá sé bóta­skil­yrð­um XXI. kafla laga nr. 19/1991 ekki fullnægt, enda hafi lögmæt skilyrði til hand­töku verið fyrir hendi. Áttmenningarnir hafi sjálfir gefið nægilegt tilefni til að­gerð­anna og þær voru ekki framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðg­andi hátt, sbr. 176. gr. laganna.

 Stefndi mótmælir því sem ósönnu að fleiri hafi verið með hróp, köll, borða eða spjöld í mótmælaskyni á Austurvelli eða með öðrum hætti gefið tilefni til af­skipta lögreglu. Fráleitt yrði einnig að telja það brot á jafnræðisreglu, þótt fleiri hefðu gefið tilefni til handtöku, en sloppið við hana.

 Stefndi mótmælir því að frelsisskerðing stefnanda hafi staðið eins lengi og hann greinir frá. Skýrslutökur yfir áttmenningunum hafi staðið yfir frá kl. 13:10 til 14:18 og hafði lögreglan hvorki tilefni né hagsmuni af því að greina rangan tíma í skýrslum.

 Til vara mótmælir stefndi fjárhæð stefnukröfunnar sem órökstuddri og allt of hárri og fjarri dómvenju.

 Ekki tókst að upplýsa við skýrslutökur fyrir dómi hvenær áttmenningunum var sleppt, en fram kom að þeir höfðu verið settir saman í klefa á jarðhæð lög­reglu­stöðvarinnar. Björn Ágúst Einarsson, rannsóknarlögreglumaður, skýrði svo frá að áttmenningarnir hefðu verið með hávaða og læti á Austurvelli og voru þeir stöðv­aðir og þeim meinað að fara lengra. Þeir hafi verið færðir í biðherbergi en varð­stjóri hafi komið á stöðina laust eftir kl. 13:00. Þeir hafi verið yfirheyrðir og lauk yfirheyrslum kl. 14:30. Eftir yfirheyrslu voru þeir færðir aftur í herbergið meðan beðið var eftir ljósmyndara. Ólafur Guðmundsson, lögreglumaður, skýrði frá á sama hátt. Pétur Sveinsson, rannsóknarlögreglumaður, skýrði svo frá fyrir dómi að fyrirmæli lögreglumannanna hafi verið þannig að ekki var unnt að beita vægari aðferðum en gert var. Svanur Elísson, rannsóknarlögreglumaður, tók myndir af áttmenningunum, en hann mundi ekki tímasetningar. Hann hélt að mynd­irnar hefðu verið teknar meðan á yfirheyrslum stóð eða á eftir og hafi mynda­tökunum sennilega verið lokið kl. 15:00.

Forsendur og niðurstaða.

  Af hálfu stefnda er á því byggt að um heimild lögreglu til afskipta af átt­menn­ingunum fari að lögreglulögum nr. 90 frá 13. júní 1996. Samkvæmt 42. gr. þeirra laga öðluðust þau ekki gildi fyrr en eftir að atburðir þeir urðu sem mál þetta snýst um, eða 1. júlí 1997 og verður því ekki byggt á þeim lögum í máli þessu. Ákvæði um handtöku var að finna í XII. kafla laga nr. 19/1991, um meðferð opin­berra mála. Samkvæmt e-lið 98. gr. laganna var lögreglumanni rétt að handtaka mann ef hann ærist á almannafæri eða veldur þar hneyksli eða hættu á óspektum. Þessi handtökuheimild hefur nú verið felld inn í 16. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

 Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugs­­anir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sam­bæri­­legar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar eiga menn rétt á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur. Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir. Samkvæmt 67. gr. stjórn­ar­skrár­innar má engan svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Sambærileg ákvæði eru í mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og alþjóða­samn­ingi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi nr. 10/1979.

 Óumdeilt er að stefnandi og félagar hans ætluðu að nýta sér beina sjón­varps­út­sendingu til Bandaríkjanna til þess að koma stjórnmálaskoðunum sínum á fram­færi. Í þessum tilgangi fóru þeir á Austurvöll í miðborg Reykjavíkur með spjöld og fána með ýmsum áletrunum og hrópuðu þar slagorð. Virtist gagnrýni þeirra einkum beinast gegn obeldi í heiminum og hlut Bandaríkjamanna í því. Upplýst hefur verið að lögreglumenn fengu þau fyrirmæli að fjarlægja alla sem væru með mót­mæli og óæskilega háreysti. Ekki hefur verið upplýst að Austurvöllur hafi verið girtur af vegna sjónvarpsútsendingarinnar eða lagt hafi verið að fólki að halda sig fjarri. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að athafnir stefnanda og félaga hans væru til þess fallnar að valda hættu á óspektum. Verður því að telja að lög­reglu hafi skort lagaheimild til handtöku stefnanda sem nýtti sér stjórn­ar­skrár­bund­inn rétt sinn til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Með vísan til 176. gr. laga um meðferð opinberra mála og 26. gr. skaðabótalaga á stefnandi rétt til miskabóta úr hendi stefnda. Þykja þær hæfilega ákveðnar 50.000 krónur og bera dráttarvexti frá þingfestingardegi 11. júní s.l. til greiðsludags.

 Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

 Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt 178. gr. laga nr. 19/1991 um með­ferð opinberra mála, sbr. 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, sbr. gjaf­sókn­ar­leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsett 8. júní s.l. Allur gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns stefnanda, Ásgeirs Þórs Árnasonar, hrl. 60.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virð­is­auka­skatts. Samkvæmt reikningi lögmanns er útlagður kostnaður hans 4.283 krónur.

Dómsorð:

 Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Ólafi Högna Ólafssyni, 50.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 11. júní 1998 til greiðslu­dags.

 Málskostnaður fellur niður.

 Allur gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn út­lagður kostnaður 4.283 krónur og málflutningslaun lögmanns stefnanda, Ásgeirs Þór Árnasonar, hrl., 60.000 krónur með virðisaukaskatti.