Mál nr. 737/2013

Lykilorð
 • EFTA-dómstóllinn
 • Kærumál
 • Ráðgefandi álit

                                     

Föstudaginn 6. desember 2013.

Nr. 737/2013.

Sævar Jón Gunnarsson

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

 

Kærumál. Ráðgefandi álit. EFTA-dómstóllinn.

S höfðaði mál á hendur L hf. og dró einkum í efa lögmæti verðtryggingarákvæðis skuldabréfs, sem L hf. gaf út til hans, þar sem fjárhæð skuldabréfsins var bundin vísitölu neysluverðs samkvæmt heimildum laga nr. 38/2001. Undir meðferð málsins í héraði beiddist S þess að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum og var úrskurður héraðsdóms um úrlausn þeirrar beiðni kærður til Hæstaréttar. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindu atriði um skýringu á tilskipun 87/102/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán með síðari breytingum, svo og nánar tilgreindum atriðum um skýringu á tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. október 2013 í máli nr. 489/2013. Hafnað var beiðni S um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum er vörðuðu skýringu á tilskipun 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga, með skírskotun til þess að útgáfa þess skuldabréfs, sem málið varðaði, fæli ekki í sér nein þau atriði sem gætu talist til verðbréfaviðskipta í merkingu tilskipunarinnar eða laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og því væri þýðingarlaust fyrir úrlausn málsins að leita ráðgefandi álits um fyrrgreind atriði.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2013 þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði er lúta í fyrsta lagi að skýringu á tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán eins og henni var breytt með tilskipunum 90/88/EBE og 98/7/EB, og í öðru lagi að skýringu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þá leið að til viðbótar þeim spurningum sem héraðsdómur féllst á að leita ráðgefandi álits um verði einnig aflað ráðgefandi álits um eftirfarandi spurningar: „1. Telst skuldabréf, sem er einhliða samið af fjármálafyrirtæki, og einstaklingur gefur út og selur fjármálafyrirtækinu í tengslum við lánveitingu fjármálafyrirtækisins til einstaklingsins, fjármálagerningur sem heyrir undir tilskipun 2004/39/EB? 2. Ef svarið við fyrstu spurningunni er jákvætt, þá er spurt hvort slíkt skuldabréf, tengt vísitölu neysluverðs á þann hátt að höfuðstóll skuldarinnar breytist í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs, ýmist til hækkunar eða lækkunar, þannig að höfuðstóll getur hækkað umfram upphaflegan höfuðstól, sé með „innbyggðri afleiðu“ sem fellur ekki undir heimildarákvæði 6. mgr. 19. gr. tilskipunar 2004/39/EB, sem heimilar fjárfestingarfyrirtækjum að veita viðskiptavinum sínum fjárfestingarþjónustu, án þess að krefja viðskiptavininn um upplýsingar skv. 5. mgr. sömu greinar, til þess að meta hvort fjárfestingarþjónustan eða afurðin hæfi umræddum viðskiptavini?“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í kröfugerð sóknaraðila felst að hann krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en því að til viðbótar þeim spurningum sem héraðsdómari féllst á að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um komi tvær nánar tilgreindar spurningar og leitað ráðgefandi álits um þær. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á það mat héraðsdóms að ekki hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins að afla ráðgefandi álits um skýringu á ákvæðum tilskipunar 2004/39/EB. Verður því ekki aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þær viðbótarspurningar sem fram koma í kröfugerð sóknaraðila hér fyrir dómi. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Málskostnaður dæmist ekki í þessum þætti málsins.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2013.

Mál þetta var höfðað með stefnu þingfestri 29. janúar 2013. Stefnandi er Sævar Jón Gunnarsson, Höfðabraut 2, Akranesi. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

          Við fyrirtöku málsins 24. apríl sl. lýsti lögmaður stefnanda því yfir að hann kynni að óska eftir öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins undir meðferð málsins samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Í þinghaldi 5. júní sl. fylgdi stefnandi þessari yfirlýsingu eftir með framlagningu bókunar um beiðni um öflun ráðgefandi álits. Að ósk stefnda var málinu frestað til munnlegrar athugasemda um framkomna beiðni stefnanda. Aðilar færðu fram munnlegar athugasemdir sínar í þinghaldi 29. ágúst sl. og mótmælti stefndi því þá að aflað yrði álits EFTA-dómstólsins. Þessi þáttur málsins var tekin upp að nýju 18. október sl. í framhaldi af dómi Hæstaréttar 8. október 2013, þar sem ákveðið var að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á skýringu á ákvæðum tilskipunar nr. 93/19/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Við þessa fyrirtöku málsins kom fram að stefnandi teldi téðan dóm Hæstaréttar ekki hagga beiðni sinni um öflun ráðgefandi álits. Jafnframt kom fram sú afstaða stefnda að dómur Hæstaréttar ætti ekki að hafa áhrif á niðurstöðu dómsins um hvort aflað yrði ráðgefandi álits. Var beiðni stefnanda að nýju tekin til úrskurðar að loknum munnlegum athugsemdum aðila.

                Það athugast að við fyrirtöku málsins 24. apríl sl. lýstu aðilar yfir samkomulagi um að leyst yrði úr frávísunarkröfu stefnda vegna varakröfu stefnanda samhliða efnislegri úrlausn málsins.

Yfirlit yfir málsatvik

Í máli þessu gerir stefnandi tvær efniskröfu. Annars vegar krefst hann viðurkenningar á því að ákvæði í skuldabréfi sem hann gaf út til stefnanda 19. nóvember 2008, á þá leið að lánið sé bundið vísitölu neysluverðs, sé óskuldbindandi, en til vara að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að uppfæra mánaðarlega höfuðstól skuldabréfs í samræmi við þróun á vísitölu neysluverðs. Hins vegar krefst stefnandi viðurkenningar á því að ógilt sé ákvæði í greiðsluáætlun sem fjallar um heimild stefnanda til að krefjast þóknunar í samræmi við gjaldskrá sína og skuldabréfsins ef lánið er greitt hraðar upp eða að fullu fyrir umsaminn gjalddaga.

Atvik málsins eru ágreiningslaus. Hinn 19. nóvember 2008 tók stefnandi lán að fjárhæð 630.000 krónur á grundvelli skuldabréfs sem hann gaf út til stefnda. Er lántökunni lýst svo í stefnu að skuldabréfið hafi verið með stöðluðum samningsákvæðum og útbúið af stefnda. Þá segir að eftir að bréfið hafði verið gefið út hafi stefndi keypt skuldabréfið af stefnanda og greitt honum út andvirði bréfsins að frádregnum lántöku- og stimpilkostnaði.

                Téð skuldabréf hefur verið lagt fram í málinu. Yfirskrift bréfsins er „Skuldabréf með óskiptri sjálfsskuldarábyrgð – lán til einstaklings“ og er þar jafnframt tekið fram að skuldabréfið sé verðtryggt með breytilegum vöxtum og jöfnum greiðslum (annuitet). Samkvæmt upphafsorðum bréfsins viðurkennir stefnandi að skulda útibúi stefnanda á Akranesi 630.000 krónur. Þá kemur fram að fjárhæðin endurgreiðist með þeim skilmálum að lánstími sé 64 mánuðir, fjöldi afborgana 60, gjalddagi fyrstu afborgunar 1. apríl 2009 en gjalddagi fyrstu vaxtagreiðslu sé 1. desember 2008. Þá segir að vextir reiknist frá útborgunardegi, kjörvextir séu nú 8,8%, flokkur vaxtaálags sé 3, vaxtaálag sé 2%, vextir séu samtals 10,8% og grunnvísitala sé 315,5 stig.

Í fyrstu málsgrein meginmáls bréfsins kemur efnislega fram að um sé að ræða lán með jöfnum greiðslum afborgana og vaxta (annuitet), þ.e. afborgun og vextir séu ávallt sama upphæðin nema vextir breytist. Þá segir eftirfarandi: „Lánið er bundið vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og breytist skuldin í samræmi við breytingar á vísitölunni frá grunnvísitölu til gjalddaga á hverjum tíma. Þannig skal útgefandi greiða til viðbótar hverri einstakri greiðslu afborgana og vaxta, verðuppbót á hverjum gjalddaga, sem miðast við hækkun  vísitölu frá grunnvísitölunni.“ Í annarri málsgrein meginmáls bréfsins kemur fram að lánið sé með breytilegum ársvöxtum og kveðið á um heimild stefnda til að breyta samningsvöxtum. Í þriðju málsgrein meginmálsins er fjallað um tilkynningu um breytingu á samningsvöxtum og heimild lántaka til að greiða lánið upp við þær aðstæður. Í fjórðu málsgrein meginmálsins kemur fram að nafngreindur maður, sem mun vera faðir stefnanda, gangist í „óskipa sjálfsskuldaábyrgð (in solidum) gagnvart eiganda þessa láns, á endurgreiðslu lánsins“. Ekki er ástæða til að rekja önnur ákvæði í meginmáli bréfsins, en bréfið var undirritað með eigin hendi af stefnanda sem útgefanda og áðurgreindum sjálfskuldarábyrgðarmanni.

Í málinu liggur fyrir skjal, „Fylgiskjal skuldabréfs – Greiðsluáætlun“, sem ágreiningslaust er að gert var í tengslum við útgáfu fyrrgreinds skuldabréfs samkvæmt fyrirmælum laga nr. 121/1994 um neytendalán með síðari breytingum. Í áætluninni er að finna sundurliðun greiðslna af láninu á hverjum áætluðum gjalddaga, alls 64 talsins, auk útreiknings á eftirstöðvum, afborgun, greiðslu vaxta og kostnaðar miðað við hverja greiðslu. Er þar gert ráð fyrir því að mánaðarleg greiðsla sé 14.230 krónur eftir að fyrstu fjórum mánuðum lánstímans sé lokið.

Í áætluninni kemur fram að nafnvextir á ári séu 10,8%, heildarlántökukostnaður sé 270.304 krónur (þ.e. höfuðstóll/andvirði + vextir + kostnaður á gjalddaga). Heildarupphæð sem greiða á miðað við óbreytta vexti er sögð vera 875.454 krónur (þ.e. andvirði bréfs + heildarlántökukostnaður). Árleg hlutfallstala kostnaðar er tilgreind 15,23%. Þá er rakin gjaldskrá fyrir vanskilakostnað og kveðið á um uppgreiðsluþóknun bankans ef greitt er fyrir umsaminn gjalddaga. Þá segir eftirfarandi: „Athugið að um áætlun er að ræða. Áætlunin er byggð á 0% verðbólgu, núgildandi vöxtum, og gjaldskrá bankans, sem geta tekið breytingum sbr. ákvæði í skuldabréfi.“ Áætlunin er undirrituð af stefnanda og fyrir hönd stefnda og dagsett 20. nóvember 2008.

Í málinu liggur einnig fyrir umsókn stefnanda dagsett 20. nóvember 2011 um fimm ára lán að fjárhæð 630.000 krónur hjá stefnda. Í athugasemd starfsmanns stefnda á umsókninni kemur fram að stefnandi sé atvinnulaus en vonist eftir tilteknu starfi innan skamms. Þar kemur einnig fram að umsóknin sé samþykkt með sjálfskuldarábyrgð. Í niðurstöðu greiðslumats sem dagsett er 19. nóvember 2008 kemur fram að eignastaða stefnanda sé neikvæð um tæplega sjö milljónir króna og að áætluð greiðslugeta að teknu tilliti til skulda sé neikvæð um 284.556 krónur. Kemur fram í skjalinu að greiðslugeta teljist ekki næg. Skjalið er undirritað af stefnanda, maka hans og umræddum sjálfskuldarábyrgðarmanni.

Í stefnu segir að hvorki stefnandi né sjálfskuldarábyrgðarmaður hans hafi neina sérstaka kunnáttu í fjármálum. Stefnandi hafi sinnt verkamannastörfum og sjómennsku en tekið lánið til framfærslu fjölskyldu sinnar. Hann hafi því verið venjulegur neytandi í skilningi laga.

                Í stefnu er rakið að greiðslubyrði lánsins hafi flesta mánuðina verið talsvert hærri en ráð var fyrir gert í greiðsluáætluninni, jafnvel þótt hinir breytilegu vextir af láninu hafi lækkað í kjölfar þess að byrjað var að greiða afborganir. Hinn 1. desember 2009 nam afborgun af láninu t.d. 14.631 krónu, hinn 1. desember 14.916 krónum, hinn 1. desember 2011 15.348 krónum og hinn 1. desember 2012 15.924 krónum. Í stefnu segir að þessi hækkun hafi orsakast af verðbótauppreikningi lánsins á hverjum gjalddaga, en sá uppreikningur hafi haft þau áhrif að bæði afborgun og vextir hafi hækkað talsvert. Jafnvel þótt þetta liggi fyrir hafi uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins 1. janúar 2013 numið 211.491 krónu í stað 190.517 króna samkvæmt greiðsluáætlun.

Á sama tíma liggi fyrir að heildargreiðslur af láninu til stefnda hafa numið 714.081 krónu en hefðu samkvæmt greiðsluáætluninni átt að vera 676.238 krónur að meðtöldum gjalddaga 1. janúar 2013. Þá segir að þróunin hafi orðið með þessum hætti þótt fyrir liggi að samningsvextir hafi lækkað talsvert eða úr 10,8% í 7,05% lengst af lánstímanum.

                Í stefnu er gerð grein fyrir fyrirspurnum stefnanda um útreikning neysluvísitölu hjá Hagstofu Íslands og svari starfsmanns Hagstofunnar við fyrirspurn stefnanda með tölvuskeyti 7. janúar 2013, en í svarinu kemur fram að upplýsingar um einstakar vörur og verðmælingar þeirra í grunni neysluvísitölu séu trúnaðarmál.

Helstu málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á því að verðtrygging áðurlýsts skuldabréfs sé andstæð ákvæðum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og tilskipun nr. 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga, svonefndri MiFID-tilskipun. Stefnandi rekur að sérstakar reglur gildi um vernd almennra fjárfesta, þ.e. fjárfesta sem ekki hafa verið samþykktir sem fagfjárfestar, samkvæmt fyrrgreindum lögum og tilskipun. Framangreind viðskipti hafi falið í sér flókinn fjármálagerning í skilningi umræddra reglna og hafi stefnda því borið að afla sér upplýsinga um þekkingu og reynslu stefnanda og meta hvort fyrirhuguð viðskipti hans væru tilhlýðileg.

Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið tilhlýðilegt að gera umræddan samning við almennan neytenda, enda hafi í reynd verið um flókinn afleiðusamning í skilningi fyrrgreindra laga og tilskipunar að ræða þar sem ekki sé með nokkru móti hægt að gera sér grein fyrir þróun vísitölu neysluverðs hér á landi eða verja sig gegn slíkum breytingum. Engin leið sé að gera sér grein fyrir því hvernig vísitala neysluverðs muni þróast, enda sé mæling hennar flókin og háð fjölmörgum utanaðkomandi þáttum, svo sem þróun alþjóðlegs hrávöruverðs, gengis íslensku krónunnar, skattaákvörðunum stjórnvalda bæði á Íslandi og erlendis, kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, þróun alþjóðlegra fjármálamarkaða, ákvörðunum seljenda vöru og þjónustu um álagningu og svo mætti lengi telja. Þar með sé alger og fullkomin óvissa um það strax í upphafi, hverjar raunverulegar og endanlegar efndaskyldur, samningurinn hafi í för með sér. Því til stuðnings að umræddur samningur hafi verið afleiðusamningur vísar stefnandi til 2. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja og h-liðar 2. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 og 10. töluliðar C-þáttar 1. viðauka MiFID-tilskipunarinnar. Þá vísar stefnandi til þess að allar afleiður, bæði skráðar og óskráðar, teljist vera flóknir fjármálagerningar.

Stefnandi telur samkvæmt þessu að draga megi þá ályktun að framangreint skuldabréf hafi verið „skuldabréf með innbyggða afleiðu“ og þar með flókinn fjármálagerningur. Sérstaklega eigi þetta við þar sem notuð sé sú aðferð að höfuðstólsfæra verðbæturnar. Þar af leiðandi hafi stefnda borið að beita fyllstu varkárni þegar stefnandi gaf út bréfið og hafi þá borið skylda til að tryggja fjárfestavernd út í ystu æsar. Ekki hafi mátt bjóða stefnanda þennan samning nema metið hefði verið hvort varan væri viðeigandi og tilhlýðileg fyrir stefnanda sem neytanda, sbr. 1. mgr. 16. gr. laganna. Í raun hafi því stefnda verið óheimilt að bjóða til sölu og selja almennum fjárfestum verðtryggða lánssamninga eða skuldabréf þar sem uppgjör var bundið vísitölu neysluverðs.

Án tillits til framangreindra sjónarmiða vísar stefnandi einnig til þess að umrætt skuldabréf teljist verðbréf samkvæmt fyrrgreindum lögum og tilskipun.  Samkvæmt 1. og 2. tl 1. mgr. 1. gr. laganna beri að líta svo á að stefndi hafi sinnt fjárfestingarráðgjöf sem falli undir ákvæði laganna. Þar sem umrætt skuldabréf hafi verið flókinn afleiðusamningur hafi hvílt á stefnda rík skylda til upplýsingagjafar og upplýsingaöflunar, sbr. m.a. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002.

Í annan stað byggir stefnandi á því að verðtrygging hins umþrætta lánssamnings sé óskuldbindandi vegna ákvæða laga nr. 121/1994 um neytendalán. Stefnandi vísar til þess að lögin feli í sér innleiðingu á tilskipun nr. 87/102/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi neytendalán. Stefnandi byggir á því að hann hafi verið neytandi í skilningi laganna sem tekið hafi til áðurlýstra viðskipta málsaðila. Hann vísar til upplýsingaskyldu lánveitanda samkvæmt nánari ákvæðum laganna og þess að heimilt sé að semja um breytilega vexti og breytilegan lántökukostnað en þó sé lögð á lánveitanda sú skylda samkvæmt 9. gr. laganna að upplýsa neytanda um hvernig vextir séu á þeim tíma sem upplýsingarnar séu gefnar ásamt því að tilgreina með hvaða hætti vextirnir séu breytilegir og við hvaða aðstæður þeir geti breyst. Þá vísar stefnandi til 12. gr. laganna þar sem kveðið er á um að miðað skuli árlega hlutfallstölu kostnaðar við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans þegar lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur fer fram. Stefnandi telur að þetta ákvæði eigi að skýra til samræmis við 6. málslið 1. gr. a í umræddri tilskipun, svohljóðandi: „Þegar um er að ræða lánssamninga, sem í eru ákvæði er heimila breytingar á vaxtagjöldum og upphæð eða stigi annars kostnaðar er fellur undir árlega hlutfallstölu kostnaðar en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar á þeirri forsendu að vextir og annar kostnaður verði óbreytanlegur og gildi fram til loka lánssamnings.“

Stefnandi vísar til tilgangs fyrrgreindrar tilskipunar svo og markmiðs ákvæðis 6. málsliðar 1. gr. a í tilskipuninni. Samkvæmt þessu telur stefnandi að við lántöku hans hefði átt að túlka 12. gr. laganna þannig að í greiðsluáætlun hefði verið miðað við að verðbólga yrði óbreytt úr lánstímann en ekki 0%, líkt og gert hafi verið. Stefndi hafi þannig brotið gegn upplýsingaskyldu sinni samkvæmt 12. gr. laganna og komið því til leiðar að árleg hlutfallstala kostnaðar virtist mun lægri, en ef gert hefði verið ráð fyrir sömu þróun verðlags út lánstímann. Stefnandi telur að ekki fari á milli mála að verðbætur á lánssamninginn hafi fallið undir heildarlántökukostnað í skilningi laganna. Stefnandi telur einnig að stefnda sé óheimilt að krefja hann um frekari kostnað en hann hafi tilgreint í greiðsluáætlun, sbr. 14. gr. laganna.

Stefnandi byggir í þriðja lagi á því að ákvæði fyrrgreinds skuldabréfs um verðtryggingu sé óskuldbindandi með vísan til 36. gr. og greina 36. a til 37. d í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum. Hann vísar í því sambandi til þess að umrædd ákvæði leiði í íslenskan rétt tilskipun 93/13/EB um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Stefnandi telur ljóst að umræddar reglur laga nr. 7/1936 og tilskipun nr. 93/13/EB hafi gilt um lánssamning hans við stefnda. Þá bendir hann á að umræddum reglum sé einkum beint gegn stöðluðum samningsskilmálum, svo sem um hafi verið að ræða í nefndum viðskiptum, og einnig hafi stefndi haft yfirburðastöðu gagnvart stefnanda.

Stefnandi leggur áherslu á að skýra eigi umrædd ákvæði íslenskra laga til samræmis við tilskipun nr. 93/13/EB. Hann vísar til þess að í l-lið 1. hluta viðauka tilskipunarinnar séu nefndir sem dæmi um ósanngjarna samningsskilmála skilmálar sem hafa það að markmiði að heimila seljanda vöru eða veitanda þjónustu að hækka verðið án þess að veita neytandanum tilsvarandi rétt til að ógilda samning ef endanlegt verð er of hátt samanborið við umsamið verð samnings. Þessi liður gildi ekki um viðskipti með framseljanleg verðbréf en eigi hins vegar að fullu við um lánasamninga neytenda samanber c-lið 2. hluta viðaukans og að lokum sé í d-lið 2. hluta viðaukans kveðið á um að ákvæði l-liðar komi ekki í veg fyrir löglega vísitölubindingu ef aðferðin við útreikning verðbreytinga er útskýrð rækilega í samningi. Stefnandi telur þessu skilyrði ekki fullnægt um téðan lánssamning aðila og vísar í því sambandi til þess að engar upplýsingar séu aðgengilegar stefnanda um grundvöll og nánari útreikning neysluvísitölu. Þá byggir stefnandi á því að ljóst sé að umræddur samningur hafi verið lánssamningur í skilningi laga nr. 121/1994 og því hljóti framangreindar reglur l-liðar í viðaukanum að eiga hér við.

Ekki er ástæða til að gera grein fyrir málsástæðum stefnanda viðvíkjandi varakröfu hans í fyrri lið kröfugerðar eða síðari aðalkröfu hans í þessum þætti málsins.

Helstu málsástæður stefnda

Í efnisþætti málsins krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda, þó þannig að krafist er frávísunar á síðari lið fyrri stefnukröfu. Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu að verðtrygging skuldabréfaláns gangi gegn lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og svonefndri MiFID-tilskipun nr. 2004/39/EB. Telur stefndi að lánið hafi ekki falið í sér verðbréfaviðskipti sem falli undir gildissvið þessara reglna, enda hafi stefndi ekki sinnt neins konar milligöngu eða þjónustu við verðbréfaviðskipti gagnvart stefnanda, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Þá hafi ekki verið um að ræða lánafyrirgreiðslu tengda verðbréfaviðskiptum, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 1. gr. laganna eða fjárfestingarráðgjöf samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. sömu greinar. Hér hafi því verið um að ræða útlánastarfsemi sem falli undir lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki en ekki þær reglur sem stefnandi vísi til.

Jafnvel þótt talið yrði að umrædd lög og tilskipun hafi gilt um fyrrgreinda lántöku rökstyður stefndi þó að kröfum þessara reglna hafi verið fullnægt. Vísar hann í því sambandi til þess að verðtrygging sé heimil samkvæmt íslenskum lögum og ákvæði um verðtryggingu hafi komið skýrt og ótvírætt fram í lánsskjölum.

Stefndi mótmælir sjónarmiðum stefnanda á þá leið að ákvæðum laga nr. 121/1994 um neytendalán kunni ekki að vera fullnægt um lántöku stefnanda. Hann vísar til þess að samkvæmt 12. gr. laganna skuli lánveitandi, þegar um breytilega vexti eða gjöld af láni er að ræða, reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Þetta ákvæði sé í samræmi við ákvæði tilskipunar nr. 87/102/EBE sem geri ráð fyrir því að þegar lánssamningur kveði á um breytilega vexti eða annan kostnað skuli útreikningur byggja á þeirri forsendu að engin breyting verði á vöxtum og kostnaði fram til loka lánstíma. Samkvæmt þessu sé ótvírætt að stefnda hafi borið að ganga út frá þeirri forsendu við útreikning á áætluðum heildarlántökukostnaði stefnanda að verðlag myndi haldast óbreytt allan lánstímann. Stefndi telur sig því ekki hafa brotið gegn umræddum reglum með því að gera ráð fyrir 0% verðbólgu. Þá vísar hann til þess að ákvæði um verðtryggingu hafi verið skýr og allar forsendur greiðsluáætlana hafi legið fyrir. Stefndi telur sig hins vegar ekki geta borið ábyrgð á nánari forsendum við útreikning vísitölu neysluverðs sem ráðist af lögum.

Stefndi mótmælir því að umrædd lánveiting orki tvímælis gagnvart ákvæðum laga nr. 7/1936, með síðari breytingum, varðandi ósanngjarna skilmála í neytendasamningum og tilskipun 93/13/EBE. Hann bendir á að umrædd verðtrygging hafi stuðst við skýra heimild í lögum og verði henni ekki vikið til hliðar með úrlausn dómstóla. Í þessu sambandi vísar stefndi til þjóðhagslegrar þýðingar verðtryggingar og rekur þær aðstæður sem séu uppi á íslenskum lánamarkaði. Hann leggur áherslu á að farið hafi verið eftir fyrirmælum laga nr. 121/1994 um neytendalán, svo sem áður greinir. Þá vísar stefndi til þess að í formála tilskipunar 93/13/EBE sé tekið fram að tilskipunin eigi ekki við um samningsskilmála sem leiði af „lögum eða reglubundnum“ ákvæðum. Breyting á lánssamningi sem leiði af vísitölutryggingu sé því ekki einhliða breyting af hálfu lánveitanda.

Spurningar sem stefnandi telur að leggja eigi fyrir EFTA-dómstólinn

Þær spurningar sem stefnandi telur að vísa eigi til EFTA-dómstólsins samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins eru orðrétt eftirfarandi:

 1. Telst skuldabréf, sem er einhliða samið af fjármálafyrirtæki, og einstaklingur gefur út og selur fjármálafyrirtækinu í tengslum við lánveitingu fjármálafyrirtækisins til einstaklingsins, fjármálagerningur sem heyrir undir tilskipun 2004/39/EB.
 2. Ef svarið við fyrstu spurningu er jákvætt, þá er spurt hvort slíkt skuldabréf, tengt vísitölu neysluverðs á þann hátt að höfuðstóll skuldarinnar breytist í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs, ýmist til hækkunar eða lækkunar, þannig að höfuðstóll getur hækkað umfram upphaflegan höfuðstól, sé með ,,innbyggðri afleiðu“ sem fellur ekki undir heimildarákvæði 6. mgr. 19. gr. tilskipunar 2004/39/EB, sem heimilar fjárfestingarfyrirtækjum að veita viðskiptavinum sínum fjárfestingarþjónustu, án þess að krefja viðskiptavininn um upplýsingar skv. 5. mgr. sömu greinar, til þess að meta hvort fjárfestingarþjónustan eða afurðin hæfi umræddum viðskiptavini? 
 3. Ef svarið við annarri spurningu er jákvætt, þá er spurt hver séu áhrif þess að fjármálafyrirtæki veiti einstaklingi, sem ekki hefur verið flokkaður sem ,,fagfjárfestir“, slíka fjármálaþjónustu eða eigi viðskipti við hann með slíka afurð? Leiðir slíkt sjálfkrafa til þess að ákvæði um innbyggða afleiðu falli úr gildi, þar sem mat á viðskiptavini hefur ekki farið fram?  
 4. Falla verðbætur sem neytandi greiðir og/eða er bætt við höfuðstól skuldar, sem neytandi stofnar til við fjármálafyrirtæki á þann hátt sem lýst er í spurningum eitt og tvö, undir ,,heildarlántökukostnað neytanda“ skv. d. lið, 2. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 87/102/EB?
 5. Brýtur það gegn ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EB ef lánveitandi birtir ekki upplýsingar um kostnað vegna verðbóta, reiknaðan út miðað við þekkt verðbólgustig á lántökudegi?
 6. Brýtur það gegn ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EB að þekktur kostnaður vegna verðbóta sé ekki innifalinn í yfirlýsingu um árlega hlutfallstölu kostnaðar á lántökudegi?
 7. Ef svarið við spurningu 5 eða 6 er já, felur slíkt brot í sér óréttmæta viðskiptahætti í skilningi tilskipunar 2005/29/EB
 8. Ef svarið við spurningu 5 eða 6 er já, felur slíkt brot í sér að ákvæði samningsins, sem heimilar lánveitanda að krefja neytanda um kostnað vegna vísitöluhækkana, teljist vera ósanngjarn skilmáli í þýðingu tilskipunar nr. 93/13/EB sbr. l. lið 1. viðauka tilskipunarinnar, enda sé þá verðtryggingin ekki rækilega útskýrð sbr. d. lið 2. viðauka tilskipunarinnar.

Stefnandi telur málsástæður sínar og úrslit málsins ráðast af túlkun íslenskra lagareglna sem feli í sér innleiðingu á gerðum sem teknar hafi verið upp í EES-samninginn, sbr. lög nr. 2/1993, og áður greinir. Framangreindar spurningar lúti að álitaefnum viðvíkjandi regluverki ESB sem þarfnist nánari skýringar og túlkunar, en slík túlkun sé á valdi EFTA-dómstólsins.

Afstaða stefnda til beiðni um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins

Af hálfu stefnda er beiðni stefnanda mótmælt með vísan til þess að fyrrgreindar spurningar séu þýðingarlausar fyrir sakarefni málsins. Stefnandi telur að enginn ágreiningur sé uppi um að umrætt skuldabréf hafi verið fjármálagerningur sem heyri undir tilskipun nr. 2004/39/EB. Jákvætt svar við þeirri spurningu breyti hins vegar engu um það hvort umrædd lánveiting hafi falið í sér verðbréfaviðskipti sem falli undir tilskipunina eða fyrrgreind lög um verðbréfaviðskipti. Stefndi telur að útgáfa skuldabréfsins og veiting lánsins hafi ekki falið í sér afleiðusamning í skilningi fyrrgreindra réttarheimilda og geti því hvorki fallið undir tilskipunina né lögin. Jafnvel þótt gengið yrði út frá því að svo væri sé ljóst að stefndi hafi fullnægt skyldu sinni til að veita stefnanda allar tilskildar upplýsingar um þá fjárfestingarþjónustu sem hér var um að ræða, sbr. 5. mgr. 19. gr. tilskipunarinnar og 19. gr. laganna. Önnur spurning stefnanda er að mati stefnda gölluð að því leyti sem gengið sé út frá því að svo hafi ekki verið gert. Samkvæmt þessu sé ljóst að stefnandi hafi fullnægt umræddum ákvæðum við þær aðstæður að talið sé að þau hafi átt við um téð lögskipti.

Að því er varðar þriðju spurningu stefnanda telur stefndi að það sé ekki í valdi EFTA-dómstólsins að tjá sig um réttaráhrif mögulegs réttarbrots á þeim reglum sem hér er um að ræða. Viðvíkjandi fjórðu spurningu stefnanda telur stefndi að enginn ágreiningur sé um það að verðbætur falli undir heildarlántökukostnað neytanda samkvæmt d-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 87/102/EBE. Hins vegar sé ljóst að um sé að ræða breytilegan kostnað samkvæmt 6. mgr. 1. gr. a í tilskipuninni, sbr. 1. gr. breytingartilskipunar nr. 90/88/EBE, og 12. gr. fyrrgreindra laga um neytendalán. Samkvæmt þessu fari ekki á milli mála að miða hafi átt greiðsluáætlun stefnanda við óbreytt verðlag, þ.e. óbreytta verðbólgu. Af sömu ástæðum telur stefndi að fimmta og sjötta spurning stefnanda séu þýðingarlausar.

Að mati stefnda lýtur sjöunda spurning stefnanda að atriði sem ekki er byggt á í málatilbúnaði stefnanda. Er því mótmælt sem nýrri málsástæðu að umrædd lánveiting hafi falið í sér óréttmæta viðskiptahætti. Að því er varðar áttundu spurningu stefnanda er lögð á það áhersla að tilskipunin geti ekki átt við skilmála sem skýrlega leiði af lögum ríkis.

Niðurstaða

Að mati dómara liggja staðreyndir málsins nægilega fyrir á þessu stigi þess svo að heimilt sé að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt ítrekuðum fordæmum EFTA-dómstólsins um skýringu 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, verður ráðgefandi álit þó að hafa raunverulega þýðingu fyrir úrlausn sakarefnis málsins, sbr. meðal annars dóm EFTA-dómstólsins 13. júní 2013 í máli E-11/12. Þá leiðir af almennt viðurkenndum viðhorfum við skýringu umrædds ákvæðis að réttlætanlegur vafi verður að vera fyrir hendi um skýringu þeirra EES-reglna sem taldar eru hafa þýðingu fyrir sakarefni málsins, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 7. júní 2005 í máli nr. 212/2005.

A

Fyrstu tvær spurningarnar sem stefnandi óskar eftir að dómurinn leggi fyrir EFTA-dómstólinn hafa það að markmiði að fá úr því skorið hvort lánveiting stefnda til stefnanda 19. nóvember 2008 hafi fallið undir gildissvið laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, eins og lögin verða skýrð til samræmis við ákvæði tilskipunar nr. 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga. Þriðja spurningin lýtur hins vegar að nánri túlkun umræddrar tilskipunar.

Af fyrirmælum laga nr. 108/2007 og ákvæðum tilskipunar nr. 2004/39/EB er ljóst að þessum réttarheimildum er ætlað að ná til verðbréfaviðskipta, svo og ákveðinnar tengdrar starfsemi, en ekki til hefðbundinnar lánastarfsemi og skuldabréfaútgáfu henni samfara. Í 1. mgr. 1. gr. laganna, sem svarar efnislega til A-þáttar 1. viðauka tilskipunar nr. 2004/39/EB, er þannig á því byggt að til verðbréfaviðskipta teljist meðal annars móttaka og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga, framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina, viðskipti með fjármálagerninga fyrir eigin reikning, eignastýring og fjárfestingarráðgjöf, sbr. 1-5. lið málsgreinarinnar. Í 2. mgr. greinarinnar er hins vegar kveðið á um viðskipti eða starfsemi sem er í nánum tengslum við verðbréfaviðskipti í skilningi 1. mgr. greinarinnar. Er þar meðal annars talin upp veiting lánsheimilda, ábyrgða eða lána til fjárfestis þannig að hann geti átt viðskipti með fjármálagerninga og þjónusta sem tengist undirliggjandi þáttum afleiðu samkvæmt e- og h-lið 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, ef hún er í tengslum við verðbréfaviðskipti samkvæmt þessari grein.

                Dómurinn telur engan vafa leika á því að skuldabréfið, sem stefnandi gaf út til stefnda 19. nóvember 2008, sé verðbréf í skilningi a-liðar 1. mgr. 2. gr. laganna, sbr. 1. tölulið C-þáttar 1. viðauka tilskipunar nr. 2004/39/EB, og hafi sem slíkt verið hæft til þess að vera andlag verðbréfaviðskipta sem fjármálagerningur samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna. Hins vegar telur dómurinn ljóst að útgáfa skuldabréfsins fór fram sem óaðskiljanlegur þáttur í lánveitingu stefnanda til stefnda og fól skuldabréfið þannig bæði í sér greiðsluskilmála lánsins og ákvæði um tryggingarréttindi til handa stefnda. Af því sem áður er rakið um efnislega afmörkun 1. mgr. 1. gr. laga 108/2007 fól sjálf útgáfa skuldabréfsins því ekki í sér nein þau atriði sem gátu talist til verðbréfaviðskipta í skilningi málsgreinarinnar. Jafnvel þótt fallist yrði á sjónarmið stefnanda þess efnis að rétt væri að líta á skuldabréfið sem samning um afleiðu milli málsaðila, sem félli undir gildissvið laga nr. 108/2007 sem slíkur, gæti það ekki haggað þessari niðurstöðu.

Að mati dómsins er ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að umrædd lánveiting hafi verið gerð í þeim tilgangi að stefnandi gæti átt viðskipti með fjármálagerninga þannig að 2. töluliður 2. mgr. 1. gr. laga nr. 108/2007 eigi við. Þar sem umrædd lögskipti tengdust ekki með neinum hætti verðbréfaviðskiptum stefnanda getur 7. töluliður málsgreinarinnar ekki heldur haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.

Samkvæmt framangreindu hefur stefnandi því engin haldbær rök fært fyrir því að í fyrrgreindum lögskiptum hafi falist verðbréfaviðskipti sem falla undir ákvæði 1. gr. laga nr. 108/2007 eða gildissvið fyrrgreindrar tilskipunar nr. 2004/39/EB. Af þessari ástæðu getur það ekki haft þýðingu fyrir úrlausn málsins að aflað sé ráðgefandi álits um ákvæði tilskipunar nr. 2004/39/EB svo sem fyrstu þrjár spurningar stefnanda gera ráð fyrir.

B

Með fjórðu, fimmtu og sjöttu spurningu sinni óskar stefnandi í meginatriðum eftir því að leitað verði ráðgefandi álits á því hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EBE um neytendalán við téða lánveitingu að því er varðar úreikninga og upplýsingagjöf stefnda til stefnanda.

                Í 6. mgr. 1. gr. a í fyrrgreindri tilskipun, sbr. 1. gr. breytingartilskipunar nr. 90/88/EBE, er fjallað um upplýsingagjöf lánveitanda þegar um er að ræða lánssamninga er heimila breytingar á vaxtagjöldum og upphæð eða stigi annars kostnaðar er fellur undir árlega hlutfallstölu kostnaðar en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður. Segir í ákvæðinu að þá skuli reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar á þeirri forsendu að vextir og annar kostnaður verði óbreytanlegur og gildi til loka lánssamnings. Þetta ákvæði var innleitt með 12. gr. laga nr. 121/1994 en þar segir meðal annars að ef lánsamningur heimili verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skuli reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.

                Samkvæmt 9. lið aðfararorða tilskipunar nr. 87/102/EBE hefur hún það að markmiði að neytendur fái fullnægjandi upplýsingar um lánsskilyrði, lánskostnað og skuldbindingar sínar. Verður þannig ráðið af aðfararorðunum að lántaka eigi, eftir því sem kostur er, að vera ljóst hverjar fjárhagslegar byrðar hann tekst á hendur í raun með töku láns. Einnig verður ráðið af aðfararorðum tilskipunarinnar að útreikningur árlegrar hlutfallstölu lánskostnaðar, svo og áætlaður heildarkostnaður við lán, séu upplýsingar sem gegni veigamiklu hlutverki í þessu skyni. Að þessu virtu telur dómurinn ekki loku fyrir það skotið að skýra beri 6. mgr. 1. gr. a í fyrrgreindri tilskipun á þá leið að við gerð samnings um neytendalán, sem bundinn er vísitölu neysluverðs, beri að miða útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar við að verðlagsþróun eða annar grundvöllur hlutaðeigandi vísitölu haldist óbreyttur. Þegar verðbólga er fyrir hendi bæri lánveitanda samkvæmt þessu að miða útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar við óbreytta verðbólgu í stað þess að miða við að verðbólga verði engin, líkt og stefndi telur að samræmist ákvæðinu. Að virtum tiltækum lögskýringargögnum telur dómari enn fremur að orðalag 12. gr. laga nr. 121/1994 sé ekki svo fortakslaust að lögskýring til samræmis við slíkt efnislegt inntak 6. mgr. 1. gr. a í tilskipunarinnar sé útilokuð. Er enn fremur ljóst að áralöng framkvæmd íslenskra lánastofnana geti ráðið úrslitum um skýringu 12. gr. laganna að þessu leyti.

Samkvæmt þessu verður að telja að skýring á umræddu ákvæði tilskipunarinnar geti haft þýðingu um úrlausn málsins. Jafnframt hefur þá þýðingu hvort heimilt sé við útreikning á heildarlántökukostnaði samkvæmt d-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, sbr. 1. gr. tilskipunar nr. 90/88/EBE, að líta alfarið fram hjá verðbólgu, eins og hún er á þeim tíma þegar samið er um lán, og miða þess í stað við 0% verðbólgu. Telur dómurinn því rétt að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þeim efnisatriðum sem fjórða til sjötta spurning stefnanda lúta að, þó aðeins með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði. Hins vegar telur dómurinn ekki að færð hafi verið rök fyrir því að sjöunda spurning stefnanda, sem lýtur að tilskipun nr. 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum, tengist málsástæðum stefnanda í máli þessu eða sakarefni málsins að öðru leyti.

C

Þau álitaefni sem uppi eru í málinu um skýringu 36. gr., 36. gr. a., 36. gr. b., 36. gr. c. og 36. gr. d. í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986 og fyrirmæli laga nr. 14/1995, til samræmis við ákvæði tilskipunar 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, eru efnislega þau sömu og fjallað var um í dómi Hæstaréttar 8. október 2013 í máli nr. 489/2013. Með vísan til forsendna dóms Hæstaréttar þykir nægjanlega fram komið að ákvæði tilskipunar 93/13/EBE hafi þýðingu fyrir sakarefni málsins og jafnframt sé fyrir hendi réttlætanlegur vafi um skýringu þeirra EES-reglna sem hér um ræðir. Eins og málið liggur fyrir þykir rétt að haga spurningum til samræmis við dóm Hæstaréttar í fyrrgreindu máli, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

                Málskostnaðar var ekki krafist í þessum þætti málsins.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Björn Þorri Viktorsson hrl.

                Af hálfu stefnda flutti málið Aðalsteinn Jónasson hrl.

                Skúli Magnússon kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi spurningum:

1. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EBE um neytendalán, eins og tilskipuninni var breytt með tilskipun nr. 90/88/EBE og tilskipun nr. 98/7/EB, að við gerð lánssamnings, sem bundinn er vísitölu neysluverðs samkvæmt heimild í settum lögum og tekur því breytingum í samræmi við verðbólgu, sé við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem birtur er lántaka við samningsgerðina, miðað við 0% verðbólgu en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi?

2. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ef löggjöf í ríki sem aðild á að EES-samningnum heimilar að samningur um neytendalán hafi að geyma ákvæði þess efnis að greiðslur af láninu skuli verðtryggðar samkvæmt fyrir fram ákveðinni vísitölu?

3. Ef svarið við annarri spurningunni er á þann veg að verðtrygging greiðslna af neytendaláni sé samrýmanleg ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE þá er í þriðja lagi spurt hvort tilskipunin takmarki svigrúm viðkomandi samningsríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir skuli valda breytingum á hinni fyrir fram ákveðnu vísitölu og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar.

4. Ef svarið við þriðju spurningunni er að tilskipun 93/13/EBE takmarki ekki það svigrúm samningsríkis sem nefnt er í þeirri spurningu þá er í fjórða lagi spurt hvort samningsskilmáli teljist hafa verið sérstaklega umsaminn í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar þegar a) tekið er fram í skuldabréfi sem neytandi undirritar í tilefni lántöku að skuldbinding hans sé verðtryggð og tilgreint er í skuldabréfinu við hvaða grunnvísitölu verðbreytingar skuli miðast, b) skuldabréfinu fylgir yfirlit sem sýnir áætlaðar og sundurliðaðar greiðslur á gjalddögum lánsins og tekið er fram í yfirlitinu að áætlunin geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins, og c) neytandi og veitandi undirrita báðir greiðsluyfirlitið samtímis og samhliða því að neytandi undirritar skuldabréfið?

5. Telst aðferðin við útreikning verðbreytinga í lánssamningi hafa verið útskýrð rækilega fyrir neytanda í skilningi d-liðar 2. gr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE þegar atvik eru með þeim hætti sem nánar greinir í fjórðu spurningunni?

6. Á ríki sem er aðili að EES-samningnum val milli þess við innleiðingu 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE, annars vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að heimilt sé að lýsa óskuldbindandi fyrir neytanda óréttmæta skilmála í skilningi 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, eða hins vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að slíkir skilmálar skuli ávallt vera óskuldbindandi fyrir neytandann?