Print

Mál nr. 846/2017

Allianz Global Corporate & Specialty AG, Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Brit Insurance Ltd., Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, John Leon Gilbart, Joseph Elmaleh, Julian Michael West, Kelvin Underwriting Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Norman Thomas Rea, Novae Corporate Underwriting Ltd., QBE Corporate Ltd., QBE International Insurance Ltd., Richard Michael Hodgson Read, SCOR Underwriting Ltd. og Sorbietrees Underwriting Ltd. (Viðar Lúðvíksson lögmaður)
gegn
LBI ehf. (Pétur Örn Sverrisson lögmaður), Andra Sveinssyni (Reimar Pétursson lögmaður), Halldóri J. Kristjánssyni (Ólafur Haraldsson lögmaður), Jóni Þorsteini Oddleifssyni (enginn), Kjartani Gunnarssyni (Guðjón Ármannsson lögmaður), Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni (enginn), Svöfu Grönfeldt (enginn) og Þorgeiri Baldurssyni (enginn)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Yfirmat
  • Málshraði
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum A o.fl. um dómkvaðningu matsmanna. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Hæstarétti, kom meðal annars fram að samkvæmt beiðni A o.fl. væri tilgangur þeirra að óska eftir yfirmati að meginstefnu sá að yfirmatsmenn myndu svara til hlítar spurningum sem matsmenn hefðu ekki talið sér fært að svara á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Var talið að þessi hluti beiðni A o.fl. fæli í reynd í sér að yfirmatsmenn héldu áfram matsstörfum undirmatsmanna þar sem þeim sleppti og væri hún því í andstöðu við ákvæði 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi hinn hluta beiðninnar þar sem óskað var eftir endurskoðun á tilteknum niðurstöðum matsmanna kom fram að þær fyrirsjáanlegu tafir sem yrðu á meðferð málsins vegna framkvæmdar yfirmats um þau atriði væru úr hófi að teknu tilliti til meginreglunnar um hraða málsmeðferð og rétt annarra aðila samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 5. janúar 2018. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2017, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild var í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að lagt verði fyrir héraðsdóm að dómkveðja þrjá yfirmatsmenn til að „endurmeta svör undirmatsmanna við tilteknum matsspurningum í samræmi við beiðni sóknaraðila frá 28. nóvember 2017“, til vara að lagt verði fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo matsmenn til að svara tilteknum matsspurningum í samræmi við fyrrgreinda matsbeiðni, en að því frágengnu að lagt verði fyrir matsmennina Margréti Pétursdóttur og Jóhann Unnsteinsson að svara frekar tilteknum matsspurningum í samræmi við sömu beiðni. Þá krefjast þau í öllum tilvikum kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn LBI ehf. krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðilum gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðilarnir Andri Sveinsson, Halldór J. Kristjánsson og Kjartan Gunnarsson krefjast hver fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Jón Þorsteinn Oddleifsson, Sigurjón Þorvaldur Árnason, Svafa Grönfeldt og Þorgeir Baldursson hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilinn LBI ehf. hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og getur því krafa hans um málskostnað í héraði ekki komið frekar til álita.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Allianz Global Corporate & Specialty AG, Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Brit Insurance Ltd., Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, John Leon Gilbart, Joseph Elmaleh, Julian Michael West, Kelvin Underwriting Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Norman Thomas Rea, Novae Corporate Underwriting Ltd., QBE Corporate Ltd., QBE International Insurance Ltd., Richard Michael Hodgson Read, SCOR Underwriting Ltd. og Sorbietrees Underwriting Ltd. greiði óskipt varnaraðilum LBI ehf., Andra Sveinssyni, Halldóri J. Kristjánssyni og Kjartani Gunnarssyni hverjum fyrir sig 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 11. desember 2017

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 17., 18. og 23. janúar 2012. Stefnandi er LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þ. Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík, Halldór J. Kristjánsson, sagður óstaðsettur í hús í Kanada, Kjartan Gunnarsson, Starhaga 4, Reykjavík, Andri Sveinsson, sagður óstaðsettur í hús í Englandi, Þorgeir Baldursson, Stórahjalla 5, Kópavogi, Svafa Grönfeldt, sögð óstaðsett í hús í Bandaríkjunum og Jón Þorsteinn Oddleifsson, Krossakri 6, Garðabæ. Þá er stefnt Brit Insurance Ltd., 55 Bishopsgate, London, Stóra-Bretlandi og 24 öðrum nafngreindum vátryggjendum með lögheimili í Bretlandi og Þýskalandi.

                Við fyrirtöku málsins 28. nóvember sl. var hálfu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. lögð fram matsgerð dómkvaddra matsmanna dagsett 22. nóvember sl. samkvæmt dómkvaðningu með úrskurði héraðsdóms 14. mars 2014. Í sama þinghaldi var lögð fram „beiðni um (1) dómkvaðningu yfirmatsmanna, (2) til vara um dómkvaðningu matsmanna en (3) til þrautavara um kröfu um frekari skoðun dómkvaddra matsmanna á matsgerð samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“ Í beiðninni er þess aðallega krafist að dómkvaddir verði þrír hæfir og óvilhallir yfirmatsmenn til að endurmeta svör undirmatsmanna við nánar tilteknum matsspurningum „og undirmatsmenn svöruðu ekki með fullnægjandi hætti að mati matsbeiðenda“. Til vara er þess krafist, með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991, að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að svara nánar tilteknum matsspurningum „og matsmennirnir Margrét Pétursdóttir og Jóhann Unnsteinsson svöruðu ekki með fullnægjandi hætti að mati matsbeiðenda.“ Til þrautavara er þess krafist, með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991, að lagt verði fyrir dómkvadda matsmenn að svara frekar nánar tilteknum matsspurningum „sem þau svöruðu ekki með fullnægjandi hætti að mati matsbeiðenda.“

                Af hálfu allra annarra aðila var öllum þáttum í beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. mótmælt og þess krafist að beiðninni yrði hafnað. Í þinghaldinu lýstu lögmenn aðila sig reiðbúna til að færa þegar í stað fram munnlegar athugasemdir um ágreiningin og leggja hann í úrskurð dómsins.

Beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl.

                Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. vísa til þess að nú liggi fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna dagsett 22. nóvember 2017. Í matsgerðinni svari matsmenn mörgum spurningum matsbeiðenda en öðrum svari matsmenn ekki með fullnægjandi hætti, einkum sökum þess að þeir telji að ófullnægjandi gögn og/eða upplýsingar komi í veg fyrir frekari efnislega umfjöllun um það efni sem óskað var mats á, annað hvort að hluta til eða í heild. Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. vísa þó einnig til þess að „í einstaka tilvikum“ séu þeir ósammála niðurstöðu matsmanna. Þessir stefndu leggja á það áherslu að yfirmat muni taka mun skemmri tíma en undirmat, líklega örfáa mánuði, enda liggi matsgerð fyrir og öll þau gögn sem hún byggi á.

                Þær spurningar sem settar eru fram í beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. eru orðrétt þær sömu og settar voru fram í fyrri matsbeiðni aðilanna 26. nóvember 2013 og skorið var úr með fyrrnefndum úrskurði héraðsdóms sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 29. apríl 2014, þó þannig að í sumum tilvikum er efni spurninganna þrengt. Er um að ræða spurningar í eftirfarandi liðum matsbeiðninnar: liður 3) (i), (ii) og (iv); liður 4) (i) og (ii); liður 5) (i) og (ii); liður 6) (i), (ii) og (iii); liður 7) (i), (ii) og (iii); liður 8) (i) og (ii); og liður 9) (i) og (iii).

                Í umfjöllun um einstakar matsspurningar segir eftirfarandi: „Í svörum við matsspurningu 3) (i) í fyrirliggjandi matsgerð Jóhanns Unnsteinssonar og Margrétar Pétursdóttur vísa matsmenn til þess að þau hafi hvorki haft aðgang að heildarlista yfir lán bankans á þeim dagsetningum sem um ræðir né heildarlista yfir veð. [/] Í svörum við matsspurningum 3) (ii) og (iii) vísa matsmenn til þess að fyrirliggjandi gögn séu að þeirra mati ekki nægjanleg til að svara þessum spurningum. [/] Matsbeiðendur eru sammála svörum matsmanna við matsspurningu 3) (iv) að því leyti að veð sem Landsbanki Íslands hf. tók í eigin hlutum hefðu átt að koma fram í skýringum í ársreikningum bankans. Matsbeiðendur eru hins vegar ósammála öðru í svari matsmanna við þessum lið, um að lánveitingar hafi engin áhrif haft á eigið fé bankans í reikningsskilum hans og um afstöðuleysi matsmanna um hvort draga hefði átt lánveitingar frá eiginfjárgrunni, og óska því eftir yfirmati eða endurskoðun á þeim þáttum. [/] Í svörum við matsspurningum 4) (i) og (ii) vísa matsmenn til þess að fyrirliggjandi gögn séu að þeirra mati ekki nægjanleg til að svara þessum spurningum. [/] Í svörum við matsspurningu 5) (i) kveðast matsmenn ekki hafa fengið fullnægjandi gögn til að svara hluta spurningarinnar með fullnægjandi hætti, svo sem kaupréttarsamninga, ráðningarsamninga starfsmanna Landsbanka Íslands hf. eða aðrar upplýsingar um möguleg afkastahvetjandi launakerfi sem fólu í sér boð um hluti í bankanum til stjórnenda og starfsmanna bankans. Þá var þeim hluta spurningarinnar er lýtur að 31. mars 2008 ekki svarað sökum þess að Landsbanki Íslands hf. birti ekki skýringu um kaupréttarsamninga í árshlutareikningi. Auk þess eru matsbeiðendur ósammála niðurstöðu matsmanna að því er varðar fjárhæð kauprétta hinn 31. desember 2007 (bls. 59 í matsgerð). Er því óskað eftir yfirmati eða endurskoðun á þeim þáttum. [/] Í svörum við matsspurningu 5) (ii) vísa matsmenn til þess að engin gögn hafi borist matsmönnum vegna 9. janúar 2008 og því hafi þeim ekki verið unnt að leggja mat á þennan lið. [/] Í svörum við matsspurningu 6) (i) vísa  matsmenn til þess að upplýsingum úr skjölum um stórar áhættuskuldbindingar og listum úr lánakerfi Landsbanka Íslands hf., Libra loan, beri ekki saman í öllum tilvikum og því megi leiða að því líkur að um fleiri lánakerfi  hafi verið að ræða sem matsmenn hafi ekki haft aðgang að. [/] Í tengslum við matsspurningu 6) (ii) telja matsbeiðendur að unnt sé með tiltölulega auðveldum hætti að afla gagna um tengsl félaganna Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. og tengdra aðila (á öðrum dagsetningum en 31. desember 2006), Elliðahamars ehf., Elliðatinda ehf., Bakkavarar Group og tengdra aðila, Exista hf. (nú Klakki ehf.), Sigurðar Bollasonar ehf. og Sigurðar Bollasonar persónulega, Hunslow S.A., Bruce Assets Limited, Pro-Invest Partners Corp, MP fjárfestingarbanka og fleiri við Landsbanka Íslands hf.  Óska matsbeiðendur því eftir yfirmati eða frekari skoðun og mati á matsspurningunni. [/] Matsbeiðendur eru ósammála hluta niðurstaðna matsmanna vegna matsspurningar 6) (iii), nánar tiltekið um að ekki hafi verið gerðar kröfur í reikningsskilareglum um að skýra frá stórum áhættuskuldbindingum eða einstökum lánum til þeirra aðila sem vísað er til í matsspurningu 6. Óska matsbeiðendur því eftir yfirmati eða frekari skoðun og mati á matsspurningunum. [/] Í svörum við matsspurningu 7) vísa matsmenn til þess að ekki séu til staðar gögn til að leggja mat á virðisrýrnun útlána í heild sinni heldur er einungis hægt að taka afstöðu til þeirra lána sem skoðuð voru. Óska matsbeiðendur því eftir yfirmati eða frekari skoðun og mati á matsspurningunni en þó með þeirri undantekningu að matsbeiðendur óska ekki eftir frekari umfjöllun matsmanna um Fjárfestingafélagið Primus ehf., Icelandic Group hf. eða Gnúp fjárfestingafélag ehf., þar eð matsmennirnir Jóhann Unnsteinsson og Margrét Pétursdóttir hafa þegar metið hæfilega virðisrýrnun lána Landsbanka Íslands hf. til þeirra í fyrirliggjandi matsgerð. [/] Í svörum við matsspurningu 8) vísa matsmenn til þess að fyrirliggjandi gögn hafi ekki verið nægjanleg til að leggja mat á liðina, þó að ýmsar upplýsingar um skuldbindingar og fjárhagslega stöðu Landsbanka Íslands hf. hafi verið fyrirliggjandi á þeim tímabilum sem spurt er um. [/] Matsbeiðendur eru ósammála niðurstöðu matsmanna vegna matsspurningar 9(i) og (iii), hvað varðar ársreikning Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2007 (bls. 149 í fyrirliggjandi matsgerð). Óska matsbeiðendur því eftir yfirmati eða frekari skoðun og mati á matsspurningunum að því er varðar ársreikning Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2007.“

                Um aðalkröfu sína í þessum þætti málsins vísa stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. til IX. kafla laga nr. 91/1991, einkum 64. gr. þeirra laga. Krafan lúti að því að dómkvaddir verði yfirmatsmenn í því að skyni að endurskoða niðurstöður undirmatsmanna, þar sem undirmatsmenn svöruðu ekki viðkomandi spurningum með fullnægjandi eða réttum hætti að mati matsbeiðenda. Það sé hlutverk yfirmatsmanna að skoða hvort fyrirliggjandi gögn séu fullnægjandi, þrátt fyrir niðurstöðu undirmatsmanna, og/eða að upplýsa hvaða gögn þeir telja að vanti til að unnt sé að svara spurningunum með öðrum hætti en undirmatsmenn gerðu. Í 64. gr. laga nr. 91/1991 segi að aðili geti krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem hafa áður verið metin. Krafan sé sett fram eins skjótt og kostur er. Þá sé ljóst að vinna við yfirmatið muni ekki taka langan tíma sé tekið mið af þeim tíma sem virðist hafa farið í vinnu við undirmatsgerð eftir að eiginleg vinna við það hófst.

                Varakrafa stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. er einnig sögð styðjast við IX. kafla laga nr. 91/1991. Varakrafan lúti að því að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að svara sömu matsspurningum og aðalkrafan lúti að, ef svo fari að ekki verði talin uppfyllt skilyrði til að dómkveðja yfirmatsmenn á grundvelli 64. gr. laga nr. 91/1991. Í lögum nr. 91/1991 séu ekki lagðar sérstakar hömlur við því að dómkvaddir verði matsmenn til að meta atriði sem matsgerðar hefur þegar verið aflað um. Enn síður sé girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýrrar matsgerðar, sem sé ætlað að gefa ítarlegri upplýsingar um matsefni en áður hafi fengist, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar Íslands 7. nóvember 2000 í máli nr. 400/2000.

                Þrautavarakrafa er einnig sögð styðjast við IX. kafla laga nr. 91/1991. Gerð sé krafa um að dómkvaddir matsmenn endurskoði mat sitt, verði ekki fallist á að heimilt sé að óska eftir yfirmati eða mati nýrra matsmanna. Þrautavarakrafan lúti að því að matsmennirnir Jóhann Unnsteinsson og Margrét Pétursdóttir reyni til þrautar að svara þeim spurningum, sem ítrekaðar eru í beiðni þessari en þau ekki talið sér fært að svara út frá fyrirliggjandi gögnum á þeim tíma.

Mótmæli annarra aðila við beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl.

                Af hálfu annarra aðila en stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. er einkum vísað til þess til þess að framlögð matsgerð sé haldinn svo stórkostlegum annmörkum að hún í sé í reynd markleysa. Frekari gagnaöflun í tilefni hennar sé því bersýnilega tilgangslaus. Þá er vísað til dóms Hæstaréttar 17. október 2017 þar sem hafnað hafi verið frekari kröfum um frestun málsins til að bíða matsgerðar. Verði að skilja dóminn þannig að lagt hafi verið fyrir héraðsdóm að lýsa gagnaöflun lokið og ákveða aðalmeðferð málsins þegar í stað. Vísað er til þess að í beiðni Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. felist í reynd beiðni um að sama matsferli verði haldið áfram undir breyttum formerkjum í berri andstöðu við niðurstöðu Hæstaréttar.

Niðurstaða

                Svo sem áður greinir var fallist á beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. um dómkvaðningu matsmanna með úrskurði héraðsdóms 14. mars 2014. Í forsendum úrskurðarins, sem staðfestur var með vísan til forsendna sinna með dómi Hæstaréttar 29. apríl þess árs, er því slegið föstu að aðili einkamáls njóti víðtæks réttar til að afla matsgerða til að færa sönnur á staðhæfingar sínar, enda beinist matsbeiðni að þeim atriðum sem kveðið er á um 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 og matið sé ekki bersýnilega þýðingarlaust fyrir sakarefni málsins. Hins vegar kemur einnig fram í forsendum úrskurðarins að umræddur réttur stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. til sönnunarfærslu sem aðila einkamáls takmarkist af öðrum meginreglum einkamálaréttarfars, meðal annars reglunni um að hraða beri meðferð máls eftir föngum. Verði þá einnig að horfa til þess að sú meginregla styðjst ekki aðeins við þá opinberu hagsmuni sem tengjast skilvirkri starfsemi dómstóla og allsherjarreglu, heldur lúti hún einnig að rétti manna til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög um lögfestingu sáttmálans nr. 62/1994. Var talið leiða af þessu að við þær aðstæður að óskað væri eftir tímafreku og kostnaðarsömu mati, með hliðsjón af umfangi málsins, yrði að gera ríkar kröfu til þess að fyrir lægi að matsspurningar beindust að þeim atriðum sem kveðið er á um í 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, að þær hefðu raunverulega þýðingu fyrir sakarefni málsins og matsgerð myndi þjóna tilgangi fyrir sönnunarfærslu aðila, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Að mati dómsins eiga þessi sjónarmið dómsins einnig við um fyrirliggjandi beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl..

A

Í forsendum fyrrnefnds úrskurðar héraðsdóms var, við mat á lögmæti matsspurninga, sérstaklega horft til þess að matsmenn leysa úr matsspurningum á grundvelli gagna sem aðilar leggja fram eða matsmenn kunna að ákveða að afla sjálfir samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Nytu matsmenn ákveðins svigrúms til þess að afmarka matsspurningar nánar, en einnig hlyti matsgerð eðli málsins samkvæmt að takmarkast við þau svör sem unnt er að veita við matsspurningum á grundvelli gagna sem tiltæk eru matsmönnum. Var vísað til þess í úrskurðinum að engin skylda yrði lögð á matsmenn að afla sjálfir gagna umfram það sem þeir teldu eðlilegt eða mögulegt. Væri aðila matsmáls unnt að bera undir dóm ágreiningsatriði er vörðuðu framkvæmd matsgerðar að þessu leyti, svo sem hvort það hefði verið metið sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningu, sbr. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991.

                Í máli þessu lá fyrir frá upphafi að um væri að ræða sérlega umfangsmikið og tímafrekt mat. Lá einnig fyrir að matsspurningar væru þess eðlis að erfiðleikum kynni að vera bundið fyrir matsmenn að svara þeim til hlítar á grundvelli tiltækra gagna, ekki síst þegar litið væri til framangreindrar meginreglu um að hraða skuli málsmeðferð eftir föngum. Mátti stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., sem kusu að leita svo viðamikillar matsgerðar sem raun ber vitni, því allt frá byrjun vera ljóst að brýnt væri að matsstörf yrðu markviss og þeim yrði flýtt svo sem kostur væri að því viðlögðu að frestur fengist ekki í málinu til að koma matsgerð að. Eins mátti þeim vera ljóst að matsgerð kynni að meira eða minna leyti vera því marki brennd að svör matsmanna yrðu takmörkuð við niðurstöður sem matsmenn teldu mögulegt að færa fram á grundvelli tilækra gagna og þeirra fresta sem dómari hefði ákveðið í málinu. Er þá sérstaklega litið til þess að með dómi Hæstaréttar 17. október sl. var felldur úr gildi úrskurður dómara um að veita stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. frest í því skyni að leggja fram frekari beiðnir um afhendingu gagna vegna matsmálsins.

                Samkvæmt fyrirliggjandi beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. er tilgangur þeirra með því að óska eftir yfirmati að meginstefnu sá að yfirmatsmenn svari til hlítar spurningum sem matsmenn hafa ekki talið sér fært að svara á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Að mati dómsins er því í reynd hér um það að ræða að þessir stefndu óski eftir því að yfirmatsmenn haldi áfram matsstörfum undirmatsmanna þar sem þeim sleppir. Er langstærstur hluti beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., að þessu leyti í beinni andstöðu við ákvæði 64. gr. laga nr. 91/1991 sem heimilar öflun yfirmats í þeim tilgangi að afla endurskoðunar á þeim atriðum sem áður hafa verið metin. Er þá einnig horft til þess að með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að téðum stefndu hefði þá þegar gefist nægilegur frestur til að afla matsgerðar og væru því ekki efni til að fresta málinu sérstaklega til þess afla gagna í þágu matsmálsins.

B

Í beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. er því lýst að þessir stefndu telji sig ósammála tilteknum niðurstöðum matsmanna og óski eftir endurskoðun á þeim þáttum. Hér er um að ræða svör við matsspurningu 3) (iv), hluta að svari við matsspurningu 6) (iii) og niðurstöður um matsspurningar 9) (i) og (iii). Að mati dómsins samræmist beiðni téðra stefndu um yfirmat um þessi atriði fyrrnefndri 64. gr. laga nr. 91/1991 að því leyti sem hér er óskað endurskoðunar á atriðum sem áður hafa verið metin. Heimild þessara stefndu til þess að óska eftir yfirmati verður hins vegar einnig að meta í því ljósi að meðferð málsins hefur þegar umtalsvert dregist og hafa aðrir aðilar málsins ítrekað krafist þess að gagnaöflun verði lýst lokið málið og aðalmeðferð ákveðin þegar í stað. Svo sem áður greinir hefur Hæstiréttur einnig slegið því föstu, að gættum rétti þessara aðila eftir 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands að ófært sé að telja að téðum stefndu hafi ekki gefist nægur frestur til gagnaöflunar.

                Í málinu verður að líta til þess að framangreind ágreiningsatriði eru ekki þess eðlis að þau verði talin ráða úrslitum fyrir málatibúnað stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. Hvað sem þessu líður eru þessum stefndu tæk úrræði til þess að fjalla nánar um þessi tilteknu atriði við aðalmeðferð málsins. Er endanleg úrlausn um þau og þýðing fyrir úrslit málsins á forræði dómsins, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991. Þegar allt framangreind er virt er það niðurstaða dómsins að þær fyrirsjáanlegu tafir fyrir meðferð málsins sem leiða myndu af yfirmati um þessi atriði séu úr hófi að teknu tilliti meginreglunnar um hraða málsmeðferð og réttar annarra aðila samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Verður beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. um yfirmat því hafnað í heild sinni.

C

Með varakröfu sinni óska stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. í reynd eftir nýrri matsgerð um þau atriði sem þeir telja að matsmenn hafi ekki metið með fullnægjandi hætti svo og um fyrrgreindar niðurstöður matsmanna sem þessir stefndu eru ósammála. Svo sem áður greinir liggur fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna þar sem spurningum stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., sem matsbeiðanda, er svarað að því marki sem dómkvaddir matsmenn hafa talið mögulegt á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Liggur og fyrir sú afstaða dómsins að ekki sé grundvöllur til þess að veita frekari fresti í málinu til öflunar gagna í þágu matsmálsins eða til vinnu við matsgerðina. Verður þessari aðstöðu því ekki jafnað til þess þegar dómstólar hafa talið heimilt að afla nýrrar matsgerðar sem tekur að einhverju leyti til atriða sem þegar hafa verið metin eða er ætlað að gefa ítarlegri upplýsingar um matsefni en áður hafa fengist. Að mati dómsins er varakrafa stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. því í andstöðu við þann grundvöll 64. gr. laga nr. 91/1991 að matsgerð verði aðeins endurskoðuð með yfirmati. Þá leiða fyrrgreind sjónarmið um hraða málsmeðferð og rétt annarra málsaðila samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar einnig til þess að synja ber stefndu um frekari gagnaöflun á þessa leið. Verður varakröfunni því einnig synjað.

D

Með annarri varakröfu sinni krefjast stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. þess, með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991, að lagt verði fyrir matsmennina Margréti Pétursdóttur og Jóhann Unnsteinsson, sem dómkvödd voru á dómþingi hinn 17. nóvember 2014 og skiluðu matsgerð hinn 22. nóvember 2017, að svara frekar þeim matsspurningum sem þau svöruðu ekki með fullnægjandi hætti að mati matsbeiðenda. Skilja verður kröfuna á þá leið að téðir stefndu telji að matsmennirnir hafi ekki metið með fullnægjandi hætti það sem meta skyldi samkvæmt dómkvaðningu og/eða matsgerð sé ekki nægilega rökstudd að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991.

                Matsgerð dómkvaddra matsmanna ber það með sér að matsmenn hafi í fleiri tilvikum ekki talið mögulegt að svara matsspurningum til hlítar vegna skorts á gögnum, en einnig er ljóst að sá tími sem matsmenn höfðu til umráða var takmarkaður vegna þeirra fresta í málinu sem dómari hafði ákveðið. Svo sem áður greinir lá fyrir frá upphafi að matsspurningar væru þess eðlis að erfiðleikum kynni bundið fyrir matsmenn að svara þeim til hlítar á grundvelli tiltækra gagna, ekki síst þegar litið væri til framangreindrar meginreglu um að hraða skuli málsmeðferð eftir föngum. Í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar 17. október sl. var einnig ljóst að matsmenn hlutu að reyna hraða matsstörfum eftir því sem kostur væri í þeim tilgangi að fullnægja þeirri grunnskyldu sinni að ljúka matsgerð samkvæmt kvaðningu dómsins. Í þessu ljósi telur dómurinn ekkert fram komið um að matsmenn hafi ekki metið það sem lagt var fyrir þá, eftir því sem þeim var unnt, eða rökstutt niðurstöður sínar með fullnægjandi hætti. Verður því, að svo stöddu, hafnað þeirri kröfu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. að lagt verði fyrir matsmenn að svara frekar þeim spurningum sem beint var til þeirra með matsbeiðni. Er þessum stefndu hins vegar heimilt að krefjast þess að matsmenn komi fyrir dóm við aðalmeðferð málsins til að gefa skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð, sbr. 65. gr. laga nr. 91/1991.

                Samkvæmt framangreindu er beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. um yfirmat eða frekari gagnaöflun vegna matsgerðar dómkvaddra matsmanna dagsettrar 22. nóvember sl., sem lögð var fram í þinghaldi 28. nóvember sl., hafnað.

                Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. um yfirmat eða frekari gagnaöflun vegna matsgerðar dómkvaddra matsmanna dagsettrar 22. nóvember sl., sem lögð var fram í þinghaldi 28. nóvember sl., er hafnað.