Print

Mál nr. 225/1998

Lykilorð
  • Áfengislög
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 14

                                                        

Fimmtudaginn 28. janúar 1999.

Nr. 225/1998.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Bjartmari Vigni Þorgrímssyni

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Áfengislög. Stjórnarskrá.

B var ákærður fyrir að hafa fimm sinnum hafið framleiðslu ólöglegs áfengis á heimili sínu. Talið sannað með játningu ákærða að hann hefði brotið gegn ákvæðum áfengislaga. Í Hæstarétti var, með vísan til 2. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, dæmt eftir nýjum áfengislögum, nr. 75/1998, er tóku gildi 1. júlí 1998, eftir að héraðsdómur gekk. Ekki var fallist á frávísunarkröfu ákærða þar sem talið var að refsikröfur hefðu verið nægilega ákveðnar í ákærum og var málatilbúnaður ákæruvaldsins ekki talinn andstæður 1. málsl. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög 62/1994. Við ákvörðun refsingar var tekið tillit til þess að um ítrekað brot var að ræða. Dómur héraðsdóms um sakfellingu og ákvörðun viðurlaga staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður.

Hvorugur málsaðila krefst endurskoðunar á ákvæði héraðsdóms um upptöku eigna.

I.

Svo sem greinir í héraðsdómi krafðist ákærði þess að málinu yrði vísað frá dómi, þar sem refsikröfur væru ekki nægilega ákveðnar í ákærum. Ítrekaði hann þá kröfu fyrir Hæstarétti. Í ákærunum þremur var þess krafist að ákærði yrði dæmdur til refsingar. Var greinilega vísað til refsiákvæða, sem ákærurnar tóku til. Telja verður að kröfugerð þessi hafi verið nægilega ljós, sbr. d. lið 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þykir ekki skipta máli, þótt í ákæruskjölum sé ekki vikið að refsitegund eða refsihæð, en í 1. mgr. 33. gr. þágildandi áfengislaga nr. 82/1969 með áorðnum breytingum sagði meðal annars að brot gegn lögunum vörðuðu sektum eða fangelsi allt að sex árum.

Sá málatilbúnaður ákæruvalds, sem áður greinir, verður ekki talinn andstæður ákvæðum 1. málsl. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar með áorðnum breytingum, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem öðlaðist lagagildi á Íslandi með lögum nr. 62/1994. Ákærurnar eru ekki heldur að öðru leyti gerðar þannig úr garði að frávísun varði.

II.

Fyrir Hæstarétt var lagt endurrit af dómi Héraðsdóms Reykjaness 28. september 1998, þar sem ákærði var dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir brot, sem hann framdi skömmu áður en hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp. Var refsingin hegningarauki til viðbótar refsingu, sem ákærði hlaut með hinum áfrýjaða dómi. Brotin voru þau, að ákærði bjó til í janúar, febrúar og mars 1998 nánar tiltekið magn af áfengi. Í ákæru voru brotin talin varða við 7. gr., sbr. 33. gr. laga nr. 82/1969. Dóminum var ekki áfrýjað.

Af hálfu ákæruvalds hefur verið bent á að skýrslur, er lágu fyrir í héraði frá Rannsóknastofu í lyfjafræði í Háskóla Íslands, beri með sér að magn áfengis, sem fannst hjá ákærða hafi verið nokkru minna en greinir í ákærum 2. september 1996 og 21. október 1997. Í I. lið fyrri ákærunnar sé tilgreint heildarmagn áfengislögunar, svonefnds gambra, talið 371,8 lítrar, en hafi í reynd verið 341,7 lítrar, en í II. lið sömu ákæru sé tilgreint heildarmagn sams konar áfengislögunar talið 622 lítrar, en hafi reynst vera 602 lítrar. Í fyrri lið ákæru 21. október 1997 sé tilgreint heildarmagn sams konar áfengislögunar 97,4 lítrar, en hafi í reynd verið 78,4 lítrar.

III.

Eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp voru áfengislög nr. 82/1969 felld úr gildi. Leystu núgildandi áfengislög nr. 75/1998 þau af hólmi frá 1. júlí 1998. Meginregla 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 leiðir til þess að dæma skal í máli þessu eftir lögum nr. 75/1998 um refsinæmi verknaðar og refsingu. Samkvæmt 2. gr. má þó aldrei dæma refsingu, nema heimild hafi verið til þess í lögum, þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum.

Í 2. gr. laga nr. 75/1998 er hugtakið áfengi í aðalatriðum skilgreint á sama hátt og gert var í 2. gr. laga nr. 82/1969. Ákvæði 6. gr. laga nr. 75/1998 eru í samræmi við 7. gr. eldri laga í þeim atriðum, sem hér skipta máli. Hámark fangelsisrefsingar eftir 1. mgr. 27. gr. núgildandi laga er það sama og var eftir 1. mgr. 33. gr. laga nr. 82/1969. Þegar litið er til þessa eru ekki efni til hagga niðurstöðu héraðsdóms vegna gildistöku nýrra áfengislaga. Jafnframt hefur skekkja sú, sem greinir í niðurlagi II. kafla hér að framan um magn áfengislögunar, ekki áhrif á niðurstöðu í máli þessu. Með þessum athugasemdum verður héraðsdómur staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Í málsgögnum kemur fram, að meðferð málsins í héraði dróst verulega vegna veikinda ákærða.

D ó m s o r ð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Bjartmar Vignir Þorgrímsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð 35.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 1998.

          Ár 1998, mánudaginn 30. mars, er lagður svohljóðandi dómur á sakamálið nr. 658/1996: Ákæruvaldið gegn Bjartmari Vigni Þorgrímssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur. Steingrímur Gautur Kristjánsson héraðsdómari dæmir málið. Mál þetta, sem var dómtekið 26. þ. m., hefur lögreglustjórinn í Reykjavík höfðað fyrir dóminum, með ákæru, útgefinni 2. september 1996 og birtri 11. september 1996, á hendur Bjartmari Vigni Þorgrímssyni, kennitala 100251-4189, með lögheimili að Nönnugötu 10, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot á áfengislögum:

I.        Að hafa, í síðustu viku desembermánaðar 1995, á heimili sínu að Nönnugötu 10, Reykjavík, hafið framleiðslu ólöglegs áfengis, með því að framleiða þar 650 til 670 lítra af áfengislögun, gambra, í þrem 200 lítra tunnum og þann 17. janúar 1996, er lögreglan gerði húsleit á heimili hans, verið búinn að eima sterkt áfengi, landa, úr um 300 lítrum af gambranum, samtals 76 lítra af landa, sem hann hafði þar í sínum vörslum ásamt afgangi gambrans, 371,8 lítrum, sem lögreglan lagði hald á.

II. Að hafa, í kringum 15. júní 1996, á heimili sínu að Nönnugötu 10, Reykjavík, hafið framleiðslu ólöglegs áfengis, með því að framleiða 650 til 660 lítra af áfengislögun, gambra, í þrem 200 lítra tunnum, verið búinn að eima 7 til 8 lítra af landa úr um 30 lítr­um af gambranum þann 25. júní 1996, er lögreglan gerði húsleit á heimili hans, en verið með í vörslum afgang landans, 2 lítra, og gambrans, 622 lítra, sem lögregla lagði hald á.

          Telst þetta varða við 7. gr., sbr. 33. gr., laga nr. 82/1969, sbr. 5. gr. laga nr. 52/1978, sbr. 2. gr.laga nr. 38/1988, sbr. 2. gr. laga nr. 94/1995.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Þann 21. október 1997 var gefin út önnur ákæra á hendur ákærða fyrir áfengislagabrot á árinu 1997, með því að hafa búið til áfengi á dvalarstað sínum að Nönnugötu 10, Reykjavík, svo sem hér greinir:

I. Í mars búið til 97,4 l af gambra og 12,7 l af sterku áfengi, sem lögreglan fann við húsleit 20. mars.

II. Síðari hluta maí búið til 4-500 l af gambra, eimað hluta af honum og búið þannig til 6-7 l af sterku áfengi, en við húsleit hjá ákærða 4. júní fann lögreglan 381 l af gambra og 1,7 l af sterku áfengi.

                Teljast framangreind brot varða við 7. gr., sbr. 33. gr., áfengislaga nr. 82/1969, sbr. 5. gr. laga nr. 52/1978, 2. gr. laga nr. 38/1988 og 2. gr. laga nr. 94/1995.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að gerðir verði upptækir 14,4 lítrar af sterku áfengi, sem lagt var hald á, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. áfengislaga, sbr. 3. gr. laga nr. 38/1988.

          Þann 15. janúar 1998 var gefin út þriðja ákæran á hendur ákærða fyrir áfengislagabrot með því að hafa, í október 1997, búið til áfengi á dvalarstað sínum, Nönnugötu 10, Reykjavík, 694 lítra af gambra og 23,5 lítra af sterku áfengi sem lögreglan fann við húsleit þann 25. október.

          Telst þetta varða við 7. gr, sbr. 33. gr., laga nr. 82/1969, sbr. 5. gr. laga nr. 52/1978, sbr. 2. gr. laga nr. 38/1988, sbr. 2. gr. laga nr. 94/1995.

          Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

          Ákærða hafa verið birt tvö síðari ákæruskjölin og málin verið sameinuð.

          Undir rekstri málsins hefur magn gambra í síðasta ákæruskjalinu verið minnkað í 681 lítra í samræmi við sakargögn.

          Þann 15. janúar sl. gekkst ákærði við sakargiftum í ákæruskjölum út gefnum 2. september 1996 og 21. október 1997. Hinsvegar gekkst hann ekki við sakargiftum í ákæru útgefinni 15. janúar 1998, kvaðst telja að magn landa væri þar oftalið. Var því ákveðið að fram færi aðalmeðferð 25. þ. m. Þegar ákærði var yfirheyrður þá kom fram skýlaus játning en málsmeðferð fór fram samkvæmt 129. gr. laga nr. 19 1991. Af hálfu ákæruvaldsins er þó ekki krafist saksóknarlauna.

Samkvæmt rannsóknargögnum eru atvik málsins varðandi síðasta ákæruefnið þau að lögreglan kvaddi dyra hjá ákærða að Nönnugötu 10 25. október sl. en ákærði gegndi ekki. Var þá læsing í útidyrum boruð út og lögreglumennirnir fóru inn. Var þá suðutæki í gangi á salerni og í stofunni voru fjórar 250 lítra tunnur nær fullar af gambra auk minni plastbrúsa með ætluðum landa, 25 lítra plastbrúsi með botnfylli, 10 lítra brúsi, hálfur og tveir 25 lítra plastbrúsar, hálffullir. Samanlagt magn gambra reyndist 694 lítrar en ætlaður landi er 23,5 lítrar samkvæmt efnaskrá. Landinn er talinn í þrem liðum og í 10. lið er glær litlaus vökvi, ætlaður landi, sagður 15 l. Voru suðutæki og ílát haldlögð en sýnishorn tekin af ætluðum gambra og landa. Við rannsókn á rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfjafræði reyndist magn etanóls í gambra minna en 1%, 11% og 12% en í landa 32%, 34% og 35%.

Ákærði var handtekinn kl. 11 35 og vistaður í fangageymslu. Kl. 16 18 var hann yfirheyrður og sagðist hafa lagt í fjórar tunnur þrem vikum fyrr í því skyni að búa til gambra sem síðan mætti sjóða úr landa. Um það bil viku síðar kvaðst hann hafa smíðað suðu­tæki og hafið suðu um viku fyrir handtöku. Úr þeirri suðu fékk hann um fimm lítra sem hann drakk. Hann kvaðst síðan hafa byrjað að sjóða aftur kvöldið áður og sagði að land­inn sem fannst væri úr þeirri suðu. Hann kannaðist við að hafa framleitt það áfengi sem tilgreint er á efnaskrá. Þó gerði hann þá athugasemd varðandi 10. lið efnaskrárinnar að þar væri einungis um að ræða vatnslás sem hefði verið notaður á gambratunnunum.

Verjandi ákærða gagnrýnir orðalag ákæru þar sem ákærði er sakaður um að „framleiða“ „gambra“ og „landa“. Í ákæruskjali út gefnu 2. september 1996 kemur þó skýrt fram að með „gambra“ er átt við áfengislögun og með „landa“ sterkt áfengi. Í efna­skrám og vottorðum um niðurstöður rannsókna á vínandamagni er það sem nefnt er gul­leitur gerjandi vökvi með allt að 15% alkohólinnihaldi gambri en tær litlaus vökvi með 31% - 55 % alkohólinnihaldi landi. Dómarinn telur ekki fara milli mála hvað við er átt. Í mæltu alþýðlegu máli er áfengur vökvi nefndur gambri þegar sett er saman vatn, ger og sykur og látið gerjast. Þegar gambri hefur verið eimaður nefnist hann landi og telst sterkt áfengi. Gambri sem meira er í en 1¼% af vínanda að rúmmáli er áfengi í skiln­ingi 2. gr. áfengislaga. Það sem nefnt er landi í þessu máli er sterkur drykkur í skiln­ingi 2. mgr. 2. gr. áfengislaga. Það magn af áfengi sem ákærði er sakaður um að hafa gert réttlætir að hann sé talinn hafa „framleitt“ það þótt hann sé ekki sakaður um að hafa ætlað það til sölu.

Verjandinn telur að vísa beri málinu frá dómi þar sem refsikrafa sé ekki nægilega ákveðin í ákæru. Ákæran er í samræmi við fyrirmæli 116. gr. laga nr. 19 1991 og langa framkvæmd og dómiðkun en verjandinn telur kröfugerð af hálfu ákæruvaldsins fara í bága við 6. gr. Evrópusamnings um mannréttindi, sbr. 1. gr. laga nr. 62 1994.

Samkvæmt greindu samningsákvæði skal sakborningur eiga rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óvilhöllum dómstóli þegar kveða skal á um sök hans. Fallast verður á það með verjandanum að það sé skilyrði réttlátrar málsmeðferðar að sá sem heldur uppi vörnum fyrir sakborning geti gert sér grein fyrir hverrar refsingar sé að vænta. Ekki verður talið að nauðsynlegt sé í þessu sambandi að refsingar sé krafist af meiri nákvæmni í ákæruskjali en tíðkast hefur og lög um meðferð opinberra mála gera ráð fyrir. Samkvæmt 125. gr. laga nr. 19 1991 skal dómari gefa aðilum kost á að tjá sig um ákvörðun viðurlaga þegar með mál er farið samkvæmt því ákvæði. Sækjanda er þá rétt að gera grein fyrir, nánar en greinir í ákæru, hverjum viðurlögum hann telur að ákærði eigi að sæta. Verður að telja að þetta eigi ekki síður við þegar með mál er farið samkvæmt 129. gr.

Þegar ljóst varð að sækjandinn mundi ekki tjá sig svo sem vert var um þetta efni innti dómarinn hann eftir áliti hans á því hver viðurlög hann teldi hæfileg en fékk ekki skýr svör. Fallast verður á það með verjandanum að þetta geri honum erfitt fyrir að gæta hagsmuna ákærða varðandi ákvörðun viðurlaga. Dómarinn telur hinsvegar að ákvæði mannréttindasáttmálans um réttláta málsmeðferð feli í sér lágmarkskröfur sem fullnægt sé með þeim hætti sem hér tíðkast um kröfugerð og málflutning af hálfu ákæruvaldsins og mun því ekki vísa málinu frá dómi.

          Með skýlausri játningu ákærða, studdri sýnilegum sönnunargögnum, þykir sannað að hann hafi framið brot þau sem honum eru gefin að sök og réttilega eru heimfærð til refsiákvæða. Samkvæmt þessu þykir verða að fallast á allar kröfur ákæruvaldsins í málinu.

          Ákærði fæddist á Akureyri og átti heima til 18 ára aldurs að Ártúni í Saurbæjarhreppi á heimili afa síns og ömmu, þar sem móðir hans var til heimilis. Hann gekk í skóla í Sólgarði sem nú er í Eyjafjarðarsveit, lauk barnaskóla og tveimur bekkjum í miðskóla. Síðan fór hann á sjó og var í Vestmannaeyjum um tveggja ára skeið, þá fluttist hann til Reykjavíkur og fór að vinna á vélgröfum og vörubílum. Við það var hann í 3 - 4 ár en síðan við iðnaðarframleiðslu hjá Runtal ofnum um 8 ára skeið. Þá fór hann aftur á sjó og stundaði hann í 3 ár. Þá fór hann að aka leigubíl og síðar sendiferðabíl og var við það til 1987 þegar heilsa hans bilaði. Hann fékk berkla, náði sér nokkuð af þeim en fékk þá lömun í fætur og hefur síðan ekki getað stundað líkamlega vinnu. Hann hefur verið metinn 100% öryrki. Hann er með rýrnun á litla heila sem kom í ljós upp úr því að hann fór að veikjast 1987-1988. Hann kveðst hafa verið í læknisrannsóknum undanfarið, m.a. ómskoðun, en ekki hafa fengið niðurstöður rannsóknarinnar. Hann segist hafa verið í áfengisóreglu síðan hann fór að veikjast og einu sinni hafa farið í meðferð að Vogi, í lok afplánunar 1995. Hann kveður meðferðina hafa dugað talsvert langan tíma en síðan hafi allt farið í sama farið. Hann kveður afa sinn og ömmu og móður sína nú látin. Hann hefur ekki haft samband við föður sinn og á enga fjölskyldu. Hann segist hafa örorkubætur og fá greiðslur úr lífeyrissjóði, samtals um 70.000 krónur.

          Samkvæmt læknisvottorði hefur ákærði síðustu tíu árin þjáðst af jafnvægisleysi og gang-erfiðleikum vegna rýrnunar á litla heila. Engin von er um bata.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann, frá árinu 1972, hlotið 15 refsidóma fyrir umferðarlagabrot, skjalafals, fjársvik og áfengislagabrot. Þá hefur ákærði 12 sinnum frá árinu 1967 og fram í mars á sl. ári gengist með sáttum og viðurlagaákvörðun undir að greiða sektir fyrir ýmis brot, aðallega á umferðarlögum og áfengislögum, þ. á m. frá árinu 1986 fjórum sinnum fyrir sölu áfengis, síðast 2. mars 1993 og þá einnig fyrir bruggun. Frá og með árinu 1990 hefur ákærði verið dæmdur fimm sinnum fyrir sölu áfengis og í tvö skiptin einnig fyrir bruggun, þ.e. 13. maí 1992 og 1. desember sl. Ákærði hlaut með dómi 13. maí 1992, 50.000 króna sekt fyrir bruggun og sölu, 2. mars 1993 hlaut hann 300.000 króna sekt með viðurlagaákvörðun fyrir sama, 3 mánaða fangelsi og 300.000 króna sekt fyrir bruggun og sölu með dómi 1. desember 1993, 16. febrúar 1993, 5 mánaða fangelsi, hegningarauka að hluta, fyrir bruggun, og þann 17. maí 1994, 4 mánaða fangelsi fyrir bruggun. Dómurinn frá 16. febrúar 1994 var staðfestur í Hæstarétti Íslands þann 11. maí 1994. Þann 30. september 1994 var ákærði dæmdur hér fyrir dómi í sex mánaða fangelsi fyrir bruggun áfengis. Sá dómur var þyngdur í níu mánaða fangelsi með dómi Hæstaréttar 24. september 1995. Jafnframt var ákærði dæmdur til að sæta upptöku á áfengi og bruggtækjum. Þann 24. september 1995 hlaut ákærði reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum refsingar, 315 dögum. Hann hefur rofið skilorð reynslulausnarinnar og ber þá, samkvæmt 42. gr. laga nr. 19 1940, sbr. 60. gr. s.l., að ákveða refsingu í einu lagi.

Ákærða verða í máli þessu ákvörðuð viðurlög í ellefta skiptið frá árinu 1986 ýmist fyrir sölu og eða bruggun áfengis, en einu sinni var ákærða ekki gerð sérstök refsing, þar sem um hegningarauka hefði verið að ræða. Með viðurlagaákvörðuninni 2. mars 1993 voru afgreidd fjögur brot ákærða, með dóminum 1. desember s. á. einnig fjögur brot, með dóminum frá 16. febrúar 1994 þrjú brot, með dóminum frá 17. maí s. á. tvö brot en með síðasta dóminum eitt brot.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður höfð hliðsjón af 72. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga og óvenjulega hörnuðum brotavilja ákærða. Þar sem refsidómar virðast ekki hafa hrinið á ákærða þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinnar þóknunar skipaðs verjanda síns, Ragnars Aðalsteinssonar, hrl., 70.000 krónur.

Dómsorð:

Ákærði Bjartmar Vignir Þorgrímsson, sæti fangelsi í 20 mánuði og upptöku á 14,4 lítrum af sterku áfengi til eyðingar.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Ragnars Aðalsteinssonar hrl., 70.000 krónur.