Print

Mál nr. 193/2017

Finnur Sigfús Illugason og Kristín Þuríður Sverrisdóttir (Magnús Óskarsson hrl.)
gegn
Landsneti hf. (Þórður Bogason hrl.) og íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir hrl., María Thejll hdl. 4. prófmál)
Lykilorð
  • Eignarnám
  • Fasteign
  • Raforka
  • Stjórnarskrá
  • Friðhelgi eignarréttar
  • Meðalhóf
  • Rannsóknarregla
  • Andmælaréttur
  • Stjórnsýsla
  • Flýtimeðferð
Reifun

Í málinu kröfðust F og K þess að ógilt yrði ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra frá árinu 2016 annars vegar um heimild L hf. til að framkvæma eignarnám til ótímabundinna afnota vegna lagningar tveggja 220 kV háspennulína, svonefndra Kröflulína 4 og 5, frá Kröflu að Þeistareykjum um land jarðarinnar Reykjahlíðar og hins vegar um þinglýsingu á nánar tilgreindri kvöð á jarðirnar Bjarg og Víðihlíð í Skútustaðahreppi. Í héraðsdómi, sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var ekki fallist á með F og K að ein lína væri raunhæfur valkostur miðað við þær forsendur um rekstrar- og afhendingaröryggi sem gert væri ráð fyrir í kerfisáætlun L hf. fyrir árin 2015 til 2024. Þá var talið að L hf. og Í hefðu með fullnægjandi hætti rannsakað þann kost að leggja jarðstrengi í stað loftlína, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem andmælaréttur F og K hefði verið virtur við meðferð málsins, sbr. 13. gr. sömu laga. Loks var litið svo á að L hf. hefði sinnt skyldu sinni til samráðs við F og K og aðra landeigendur við undirbúning framkvæmdarinnar og að L hf. hefði reynt til þrautar að ná samningum við þau um afnot af landi þeirra vegna umræddra lína. Að þessu gættu og með hliðsjón af ákvæðum raforkulaga nr. 65/2003 var litið svo á að L hf. hefði fullnægt skilyrðum 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf og meðalhóf fyrir framkvæmdunum. Voru L hf. og Í því sýknuð af kröfum F og K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 23. mars 2017. Þau krefjast þess að ógilt verði ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra 14. október 2016 annars vegar um heimild stefnda Landsnets hf. til að framkvæma eignarnám til ótímabundinna afnota vegna lagningar tveggja 220 kV háspennulína, svonefndra Kröflulína 4 og 5, frá Kröflu að Þeistareykjum um land jarðarinnar Reykjahlíðar og hins vegar um þinglýsingu á nánar tilgreindri kvöð á jarðirnar Bjarg og Víðihlíð í Skútustaðahreppi. Þá krefjast þau þess að kvöð þessi, sem var þinglýst 19. október 2016, verði afmáð úr þinglýsingabók. Loks krefjast áfrýjendur hvort fyrir sitt leyti málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast þess báðir að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjendum gert óskipt að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Eins og getið er í hinum áfrýjaða dómi hefur stefndi íslenska ríkið ekki gert athugasemd við að áfrýjendur beini máli þessu að sér samhliða stefnda Landsneti hf. Í þessu ljósi verður stefndi íslenska ríkið ekki sýknaður vegna aðildarskorts þótt aðild hans að málinu sé með öllu ástæðulaus, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 12. maí 2016 í máli nr. 511/2015. Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Finnur Sigfús Illugason og Kristín Þuríður Sverrisdóttir, greiði óskipt stefndu, Landsneti hf. og íslenska ríkinu, hvorum fyrir sig 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2017.

Mál þetta, sem var dómtekið 16. febrúar sl., var höfðað með birtingu stefnu þann 4. janúar s.l., Stefnendur eru Finnur Sigfús Illugason, Bjargi, Mývatni og Kristín Þuríður Sverrisdóttir, Víðihlíð, Mývatni. Stefndu eru Landsnet hf., Gylfaflöt 9 í Reykjavík og íslenska ríkið.

                Dómkröfur stefnenda eru þær í fyrsta lagi að ógilt verði með dómi ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 14. október 2016, annars vegar um heimild Landsnets hf. til að framkvæma eignarnám til ótímabundinna afnota vegna lagningar tveggja 220 kV háspennulína frá Kröflu að Þeistareykjum, um land jarðarinnar Reykjahlíðar og hins vegar um að í þessu skyni verði svohljóðandi kvöð þinglýst á jarðirnar Bjarg, landnúmer 153542 og Víðihlíð, landnúmer 153612, að teknu tilliti til burðarmastra:

  1. Landsneti hf., kt. 580804-2410, er heimilt að leggja um óskipt land jarðarinnar Reykjahlíðar tvær 220 kV háspennulínur, Kröflulínu 4 og 5, ásamt því að reisa 72 stauravirki í landinu til að bera línurnar uppi, nánar tiltekið 60 burðarmöstur og 12 hornmöstur, sbr. meðfylgjandi yfirlitskort, fylgiskjal 1 frá eignarnámsbeiðanda. Skal Landsnet hf. jafna allt jarðrask að loknum framkvæmdum og sá í gróðursár. Verða mannvirki þessi óskoruð eign Landsnets hf. eða annars þess aðila sem fyrirtækið framselur rétt sinn til.
  2. Línulögn þessari fylgir sú kvöð, í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki nr. 678/2009, sbr. og 13. gr. laga um öryggi raforkuvirkja o.fl., nr. 146/1996, bæði með áorðnum breytingum, að óheimilt verður að koma fyrir mannvirkjum á belti, sem er að jafnaði 99,2 metra breitt undir og við línurnar. Landsnet hf. eða þeir, sem það felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að stauravirkjum og rafmagnslínu í landi jarðarinnar, bæði að því er varðar byggingarframkvæmdir, svo og viðhald, eftirlit og endurnýjun síðar. Landsneti hf. er heimilt en ekki skylt í þessu skyni, að leggja samtals 10.833 metra langa vegslóða að línunum og meðfram þeim og halda slóðunum við eftir því sem þörf krefur að mati Landsnets hf. en ber engin skylda til þess. Landsnet hf. gerir ekki athugasemdir fyrir sitt leyti við að landeigandi nýti slóðina og skrái hana sem sinn einkaveg, enda sé Landsneti hf. ávallt tryggður óheftur aðgangur og umferðarréttur, sbr. 3. gr. hér að neðan. Ef vegslóðanum er lokað af landeigendum skal Landsneti hf. tryggður framangreindur afnota- og umferðarréttur með afhendingu lykils að þeim lokunarbúnaði.
  3. Mega mannvirki þau sem yfirlýsing þessi tekur til standa í landinu ótímabundið og óátalið af eigendum og ábúendum jarðarinnar. Landsnet hf. eða þeir, sem fyrirtækið felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að helgunarsvæði rafmagnslínanna í landi jarðarinnar, bæði vegna byggingarframkvæmda, sem og vegna viðhalds, eftirlits og endurnýjunar síðar. Ákveði Landsnet hf. að hætta rekstri Kröflulínu 4 og 5 að fullu og öllu og rífa mannvirkin og fjarlægja, skal það gert án kostnaðar fyrir landeigendur. Skal landinu þá skilað til baka með snyrtilegum frágangi er tekur mið af næsta umhverfi hins raskaða svæðis eins og kostur er.

Auk þess krefst stefnandi Kristín þess að kvöð, tilgreind sem 455-C-001258/2016, sem móttekin var til þinglýsingar þann 19. október 2016, og innfærð þann 20. október 2016 á jörðina Víðihlíð (landnr. 15-3612), Skútustaðahreppi, sem greinir í lið (1) verði afmáð úr þinglýsingarbókum.

Enn fremur krefst stefnandi Finnur Sigfús þess að kvöð, tilgreind sem 455-C-001257/2016, sem móttekin var til þinglýsingar þann 19. október 2016, og innfærð þann 20. október 2016 á jörðina Bjarg (landnr. 15-3542), Skútustaðahreppi, sem greinir í lið (1) verði afmáð úr þinglýsingarbókum.

Stefnendur krefjast einnig greiðslu málskostnaðar að skaðlausu og óskipt úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda auk greiðslu málskostnaðar. Af hálfu íslenska ríkisins er gerð sú varakrafa að málskostnaður verði látinn niður falla.

Mál þetta er rekið eftir reglum XIX. kafla nr. 91/1991 um flýtimeðferð einkamála.

I.

Ágreiningur málsaðila hverfist um þá ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 14. október 2016 að heimila stefnda Landsneti hf. að framkvæma eignarnám vegna lagningar tveggja 220 kV háspennulína, nefndar Kröflulínur 4 og 5, sem ráðgert er að muni liggja samsíða í landi Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi. Stefnandi Kristín á 25% hlut í jörðinni Víðihlíð og stefnandi Finnur Sigfús á 75% hlut í jörðinni Bjargi, en báðum jörðunum tilheyrir hlutdeild í óskiptu landi jarðarinnar Reykjahlíðar. Jörðin Reykjahlíð er í óskiptri sameign sjö lögbýla, Reykjahlíðar 1-4, Reynihlíðar, Víðihlíðar og Bjargs.

                Undirbúningur að framkvæmdum tengdum lagningu Kröflulína 4 og 5 hefur staðið í langan tíma, en með þeim hyggst stefndi Landsnet hf. tengja iðnaðarsvæði á Bakka við Húsavík og Þeistareykjavirkjun við Kröfluvirkjun. Gert er ráð fyrir framkvæmdunum á staðfestu svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum fyrir árin 2007-2025. Auk þess er gert ráð fyrir framkvæmdunum í samþykktu skipulagi fyrir Skútustaðahrepp sem fellur innan þess svæðisskipulags og var samþykkt 18. apríl 2013. Þá hafa framkvæmdirnar sætt sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum í samræmi við skilyrði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, auk sameiginlegs mats Skipulagsstofnunar með öðrum tengdum framkvæmdum frá 24. nóvember 2010.

                Gert er ráð fyrir því að Kröflulína 4 liggi frá tengivirki sem reist er við Kröfluvirkjun og að tengivirki við Þeistareykjavirkjun. Kröflulína 4 mun tengja Þeistareykjavirkjun við hið almenna flutningskerfi raforku í landinu. Frá tengivirkinu við Þeistareykjavirkjun og að tengivirki á Bakka við Húsavík gerir samþykkt skipulag ráð fyrir háspennulínu sem nefnd er Þeistareykjalína 1. Saman mynda því Kröflulína 4 og Þeistareykjalína 1 tengingu milli Kröfluvirkjunar, Þeistareykjavirkjunar og iðnaðarsvæðisins á Bakka. Kröflulína 5 á að liggja að fyrirhuguðu tengivirki á Hólasandi, í landi jarðarinnar Grímsstaða í Skútustaðahreppi. Er þeirri framkvæmd ætlað að styrkja almenna flutningskerfið.

                Í því skyni að semja við landeigendur Reykjahlíðar um lagningu Kröflulína 4 og 5 um jörðina sendi lögmaður stefnda Landsnets hf. fyrirsvarsmanni einkahlutafélagsins Landeigendur Reykjahlíðar ehf., sem er að öllu leyti í eigu þinglýstra landeigenda Reykjahlíðar, þ.m.t. stefnenda, fundarboð með tölvubréfi 20. júní 2014 undir heitinu „Fundur með landeigendum Reykjahlíð“. Þar var því lýst að tilgangur fundarins væri einkum sá að hefja samningaviðræður við landeigendur með því að kynna „fyrirhugaða framkvæmd, drög að samkomulagi ásamt tillögu að uppgjöri bóta“. Í fundargerð fundar Landsnets með fyrirsvarsmanni Landeigenda Reykjahlíðar ehf. 25. júní 2014 segir að fyrirhuguð framkvæmd hafi verið kynnt, tilhögun hennar og skipulagsmál. Í fundargerðinni greinir einnig frá því að fyrirsvarsmaður Landeigenda Reykjahlíðar ehf. hafi gert grein fyrir því að félagið hefði umboð frá eigendum þeirra sjö lögbýla sem eiga óskipt land Reykjahlíðar til að annast samningaviðræður við stefnda.

                Samningaviðræður á milli Landeigenda Reykjahlíðar ehf. og stefnda, Landsnets hf., héldu áfram fram á haustið 2014 og hafði þá verið rætt um að stefndi greiddi 350.000 krónur fyrir hvern hektara úr landi Reykjahlíðar. Á fundi 6. október 2014 undirrituðu fulltrúar Landeigenda Reykjahlíðar ehf. undir tilboð stefnda vegna óskipts lands Reykjahlíðar og nam heildarfjárhæð bóta samkvæmt því 27.499.000 kr. miðað við 100% eignarhlutdeild í jörðinni og að umboð til undirritunar eftirfarandi samnings við stefnda kæmi frá öllum landeigendum til Landeigenda Reykjahlíðar ehf. Samkvæmt tilboðinu 6. október 2014 hefðu samtals 2.147.672 krónur af þeirri fjárhæð sem tilboðið hljóðaði upp á komið í hlut stefnenda.

                Síðar kom í ljós að Landeigendur Reykjahlíðar ehf. skorti umboð tíu landeigenda að jörðinni Reykjahlíð, þar með talið stefnenda, til að undirrita samkomulag á grundvelli tilboðsins sem hafði verið undirritað af hálfu stefnda Landsnets hf. og fulltrúa Landeigenda Reykjahlíðar ehf. 6. október 2014. Úr varð að stefndi Landsnet hf. boðaði þá landeigendur, sem vegna umboðsleysisins átti eftir að semja við, á fund til samningaviðræðna með bréfi 10. desember 2014. Meðfylgjandi bréfinu var tilboðið sem hafði verið undirritað 6. október 2014, ásamt drögum að samkomulagi um fébætur við landeigendur, yfirlýsing vegna kvaðar sem þinglýst yrði á lögbýlin sjö sem eiga jörðina Reykjahlíð, sem og yfirlitskort sem upphaflega var lagt fram á fundi 25. júní 2014 með fulltrúa Landeigenda Reykjahlíðar ehf. Jafnframt voru landeigendur boðaðir til fundar með stefnda, Landsneti hf., 14. janúar 2015. Í fundarboðinu var landeigendum einnig boðið að óska eftir nýjum fundartíma, meðal annars vegna þess að stefnandi Finnur Sigfús, hafði gert grein fyrir því að hann yrði erlendis á fyrirhuguðum fundartíma. Til fundarins 14. janúar 2015 mætti hvorugur stefnanda, en þar var farið yfir fyrirhugaða framkvæmd vegna Kröflulína 4 og 5 og lagt fram tilboð stefnda Landsnets hf. um fébætur vegna þeirra kvaða sem nauðsynlegar væru vegna framkvæmdarinnar eins og hún hefði verið skilgreind. Þá óskaði lögmaður stefnda Landsnets hf. eftir sérstökum fundi með stefnanda, Finni Sigfúsi, með tölvupósti 20. febrúar 2015, í ljósi þess að hann var fjarverandi þegar fundurinn 14. janúar 2015 fór fram, sem sá stefnandi frábað sér 5. febrúar 2015 sökum tímaþrengsla.

                Að nýju var boðað til samningafundar með þeim landeigendum Reykjahlíðar sem átti eftir að semja við, meðal annars stefnenda, með bréfi 1. apríl 2015. Í fundarboðinu var skorað á þá að taka afstöðu til samningstilboðs stefnda Landsnets hf. Á fundinn, sem haldinn var 4. maí 2015, voru báðir stefnenda mættir og var þar farið yfir fyrirhugaða framkvæmd stefnda Landsnets hf. Í fundargerð fundarins, sem allir fundargestir undirrituðu til staðfestingar á réttu efni hennar, greinir meðal annars frá því að lögmaður stefnda Landsnets hf. hafi þar tekið fram að tilgangur fundarins væri einkum sá að fá sjónarmið landeigenda og afstöðu þeirra til fyrirliggjandi tilboðs um fébætur. Á fundinum komu fram mótmæli frá stefnendum við línuleið Kröflulína 4 og 5. Jafnframt kom þar fram sú afstaða stefnenda að ekki yrði gengið til samninga við stefnda Landsnet hf. á grundvelli þeirrar framkvæmdar sem stefndi hugðist ráðast í heldur með því annað hvort að finna línunum nýtt stæði eða leggja jarðstrengi í stað háspennulína. Stefndi Landsnet hf. áréttaði þá afstöðu sína að samningaviðræðurnar gætu aðeins varðað þá þætti framkvæmdarinnar sem stefndi hugðist ráðast í og hafði farið í gegnum lögbundið ferli og verið ákveðin á skipulagi. Tilboð um bætur tækju mið af áhrifum þeirrar framkvæmdar, sem hafði þá þegar verið kynnt stefnendum og öðrum landeigendum, fyrst á fundi 25. júní 2014 og aftur 14. janúar 2015. Óskað var eftir því að landeigendur settu fram afstöðu sína til þess hvort þeir myndu semja um þá framkvæmd eins og hún var þá fyrirhuguð.

                Stefnendur, ásamt nokkrum öðrum landeigendum jarðarinnar Reykjahlíðar, lögðu þann 11. maí 2015 fram beiðni hjá Skipulagsstofnun um endurskoðun á umhverfismati vegna framkvæmdanna sem fyrirhugaðar voru vegna Kröflulína 4 og 5.

                Með bréfi stefnda Landsnets hf. 15. júní 2015 voru landeigendur Reykjahlíðar boðaðir til fundar þann 30. júní 2015, en stefnendum var einnig boðið að stinga upp á öðrum fundartíma. Í bréfinu gerði stefndi Landsnet hf. grein fyrir undirbúningi þeirrar framkvæmdar sem stefndi Landsnet hf. hygðist ráðast í og hafði undirbúið m.a. með mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og samþykkt hennar á skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Eins var gerð grein fyrir tilgangi framkvæmdarinnar og hvers vegna 220kV háspennulínur hefðu verið valdar fyrir flutning rafmagns um land stefnenda, þar sem meðal annars var vísað til eðlisfræðilegra ástæðna fyrir því hvers vegna jarðstrengur hafi ekki orðið fyrir valinu á svæðinu. Þá var og gerð grein fyrir hlutverki stefnda Landsnets hf. samkvæmt raforkulögum og markmiði þeirra laga og heimildar ráðherra til að ákveða að eignarnám skyldi fara fram á landinu ef ekki næðust samningar. Komu þar fram upplýsingar og skýringar á því af hverju stefndi Landsnet hf. sá sér ekki fært að fallast á sjónarmið stefnenda. Jafnframt var spurningum stefnenda svarað og var skorað á landeigendur, þ.m.t. stefnendur, að taka skýra og afdráttarlausa afstöðu til samningstilboðs stefnda Landsnets hf. Á fundinn 30. júní 2015 mættu stefnendur ásamt öðrum landeigendum sem höfðu þá ekki þegar samið við stefnda Landsnet hf. Á fundinum lögðu landeigendurnir fram bókun um að þeir teldu ekki, að svo stöddu, efni til að ræða tilboð stefnda Landsnets hf. um bætur vegna þeirra kvaða sem stefndi teldi sig þurfa að leggja á land stefnenda, enda væri Skipulagsstofnun með mál til umfjöllunar í tilefni af áðurnefndri beiðni stefnenda til stofnunarinnar um endurskoðun umhverfismats á fyrirhugaðri framkvæmd. Jafnframt var í bókuninni óskað eftir því að lögmaður stefnenda, sem þá hafði nýverið tekið við málinu, fengi frest til að kynna sér það og annast samskipti við stefnda Landsnet hf. Í fundargerð fundarins 30. júní 2015 kemur fram að stefndi Landsnet hf. boðaði þar að nýju til samningafundar 6. júlí 2015.

                Í kjölfar fundarins 30. júní 2015 áttu lögmenn aðila, stefnenda og stefnda Landsnets hf., í samskiptum um framvindu samningaviðræðna. Lögmaður stefnenda ítrekaði að stefnendur vildu fresta samningaviðræðum á meðan Skipulagsstofnun tæki afstöðu til kröfu landeigenda um endurskoðun umhverfismats. Lögmaður stefnda Landsnets hf. svaraði á þá leið að samningaviðræður sneru ekki að tilhögun fyrirhugaðrar framkvæmdar, sem þegar hefði verið tekin ákvörðun um, einungis um bætur sem fyrir þær skyldu koma. Ef ekki yrði svarað því tilboði sem fyrir lægi til landeigenda myndi stefndi líta svo á að samningaviðræður væru ólíklegar til þess að skila árangri og því yrði Landsneti hf. nauðugur sá einn kostur að leita eignarnámsheimildar á grundvelli 23. gr. raforkulaga. Ítrekað var fundarboð 6. júlí 2015 og óskað eftir því að þá í síðasta lægi kæmi fram afstaða stefnenda og annarra landeigenda til þess tilboðs sem fyrir lægi.

                Hvorki stefnendur né lögmaður stefnenda mættu til fundarins 6. júlí 2015 og ekki var stungið upp á nýjum fundartíma af þeirra hálfu. Með bréfi 22. júlí 2015 tilkynnti stefndi Landsnet hf. að frekari samningaviðræðum yrði ekki haldið áfram í ljósi afstöðu stefnenda, þó með þeim formerkjum að ávallt væri hægt að leita samninga ef afstaða landeigenda breyttist. Að óbreyttu myndi stefndi Landsnet hf. leita eignarnámsheimildar hjá ráðherra í samræmi við fyrirmæli 23. gr. raforkulaga. Í bréfi lögmanns stefnenda til stefnda Landsnets hf. 21. ágúst 2015 var því andmælt að fullreynt væri að ná samkomulagi við landeigendur, þar með talið stefnendur, um endurgjaldið. Í bréfi stefnda Landsnets hf. til lögmanns stefnenda 11. september 2015 var vísað til þess að í bréfinu frá 21. ágúst 2015 komi ekki fram frekari viðbót við það sem þegar hefði komið fram af hálfu stefnenda meðan á samningaviðræðum hafi staðið. Stefndi Landsnet hf. liti á það sem enn eina vísbendingu um að stefnendur hefðu ekki vilja til að ganga til samninga og ítrekaði þá afstöðu sína að samningaviðræður væru fullreyndar.

                Með bréfi til iðnaðarráðherra 21. september 2015, óskaði stefndi Landsnet hf. eftir því, með vísan til 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, að fyrirtækinu yrði heimilað að framkvæma eignarnám á tilteknum landsréttindum í óskiptu landi jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, meðal annars í eigu stefnenda, í þágu Kröflulína 4 og 5, 220 kV háspennulína sem yrði hluti af almennu raforkuflutningskerfi stefnda Landsnets hf. Stefndi Landsnet hf. óskaði þar nánar tiltekið eftir heimild til að leggja 220 kV háspennulínu frá Kröflu að Þeistareykjum og þaðan áfram að iðnaðarsvæði Bakka við Húsavík. Þá var einnig greint frá því að fyrirhugað væri að reisa aðra háspennulínu samsíða hinni fyrri sem myndi liggja að fyrirhuguðu tengivirki á Hólasandi til styrkingar almenna flutningskerfinu. Fyrirhugaðar háspennulínur kæmu til með að liggja um óskipt land jarðarinnar Reykjahlíðar.

                Ráðuneytið sendi stefnendum bréf 14. október 2015 og óskaði eftir afstöðu þeirra til framkominnar eignarnámsbeiðnar. Þá var birt auglýsing í Lögbirtingablaðinu 30. október 2015 og vakin athygli á eignarnámsbeiðninni. Andmæli stefnenda bárust ráðuneytinu með bréfi lögmanns þeirra 13. janúar 2016. Kröfðust þeir þess að beiðni um eignarnám yrði synjað þar sem skilyrði stjórnarskrár um almenningsþörf væri ekki fyrir hendi. Stefnendur hefðu ítrekað bent á aðrar og minna íþyngjandi framkvæmdir sem næðu sama markmiði, þ.e. að leggja jarðstreng á öðrum stað og sá kostur hefði ekki verið tekinn til alvarlegrar skoðunar. Þá hefði Landsnet hf. ekki sýnt fram á þjóðhagslega hagkvæmni fyrirhugaðra framkvæmda skv. 1. gr. raforkulaga og í því efni bæri að meta umhverfistjón til fjár. Auk þess mótmæltu stefnendur því að samningar við þá væru fullreyndir. Í kjölfarið var óskað eftir athugasemdum stefnda Landsnets hf. 19. janúar 2016 og barst svar hans 17. febrúar 2016. Landeigendum, þar með talið stefnendum, var gefinn kostur á að svara bréfi stefnda eigi síðar en 16. mars 2016. Svar barst ráðuneytinu 18. mars 2016 með bréfi dagsettu 15. mars 2016. Ráðuneytið sendi andmæli landeigenda til stefnda Landsnets hf. 22. mars 2016 og barst svar 31. mars 2016. Andmæli stefnda Landsnets hf. voru send til umsagnar landeigenda, þar með talið stefnenda, 5. apríl 2016 og bárust frekari andmæli þeirra 19. apríl 2016. Á þeim tíma hafði ráðuneytið óskað þrisvar sinnum eftir athugasemdum aðila eignarnámsmálsins.

                Erindi landeigenda 19. apríl 2016 innihélt nýja málsástæðu sem laut að þýðingu friðlýsingar skv. bráðabirgðaákvæði II í lögum um vernd Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu nr. 97/2004 og var leitað umsagnar stefnda Landsnets hf. um hana með bréfi 29. apríl 2016 og barst svar 9. maí 2016. Þann 12. maí 2016 ógilti Hæstiréttur eignarnámsákvörðun ráðuneytisins vegna Suðurnesjalínu 2 með dómum í málum nr. 511-513/2015 og 541/2015. Forsenda þeirrar niðurstöðu var sú að ekki hefði verið kannað með viðhlítandi hætti kostir þess að leggja jarðstreng í stað loftlínu á umdeildu svæði. Ráðuneytið óskaði í kjölfarið eftir frekari upplýsingum um hvort skoðaðir hefðu verið aðrir kostir vegna þeirrar framkvæmdar sem hér er deilt um. Með bréfi 20. maí 2016 óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um hvort framkvæmdaáform stefnda Landsnets hf. féllu að þeim skilyrðum sem þingsályktun nr. 11/114 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína kvæði á um og félaginu bæri að fara eftir við uppbyggingu flutningskerfisins, sbr. 1. mgr. 9. gr. raforkulaga, svo sem henni var breytt með 2. gr. laga nr. 26/2015. Óskað var eftir því að svar bærist eigi síðar en 3. júní 2016. Svar stefnda Landsnets hf. barst 31. maí 2016 ásamt minnisblaði frá verkfræðistofunni Mannviti. Minnisblaðið inniheldur samantekt um skipulags- og matsferlið vegna Kröflulína 4 og 5 og skýrslu sem unnin var af verkfræðistofunni Eflu hf. og stefnda Landsneti hf. um notkun jarðstrengs sem kosts fyrir 220 kV háspennulínu, það er Kröflulínu 4. Jafnframt fylgdi bréf stefnda Landsnets hf. með frekari upplýsingum um framkvæmdina.

                Ráðuneytið sendi lögmanni landeigenda svör stefnda Landsnets hf. frá 31. maí 2016 ásamt fylgiskjölum 2. júní 2016 og óskaði eftir athugasemdum. Lögmaður landeigenda svaraði erindinu með bréfi 9. júní 2016, þar sem óskað var eftir fresti til 30. september 2016 til að láta verkfræðiskrifstofu yfirfara gögnin. Ekki var fallist á svo langan frest meðal annars með vísan til þess að gæta þyrfti að málshraða og í ljósi þess að ráðuneytið aflaði sjálft álits óháðra verkfræðiskrifstofa.

                Ráðuneytið óskaði eftir rýni Orkustofnunar á skýrslu stefnda Landsnets hf. og Eflu hf. 20. júní 2016. Var það gert með vísan til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir því að verkfræðistofan Lota ehf. og ráðgjafafyrirtækið Alta ehf. tækju að sér að rýna skýrslu stefnda Landsnets hf. og Eflu hf. Rýni Lotu ehf. á framangreindri skýrslu lá fyrir 29. júní 2016 og Alta ehf. skilaði sinni rýni 6. júlí 2016. Ráðuneytið sendi lögmanni landeigenda bréf 27. júní 2016, þar sem upplýst var um þessa gagnaöflun og beiðni stefnenda um frest til 30. september 2016 var um leið hafnað. Hins vegar var veittur frestur til 8. júlí 2016. Lögmaðurinn svaraði því erindi með bréfi 30. júní 2016, þar sem fram kemur að gagnaöflun ráðuneytisins breytti því ekki að landeigendur vildu ráða sérfræðinga til að fara yfir gögnin. Auk þessa var ítrekuð krafa um frest til 30. september 2016. Ráðuneytið svaraði með bréfi 18. júlí 2016, þar sem ítrekað var að það féllist ekki á svo langan frest.

                Rýni Lotu ehf. á skýrslu stefnda Landsnets hf. lá fyrir 29. júní 2016 og rýni Orkustofnunar annars vegar og Öltu ehf. hins vegar lágu fyrir þann 6. júlí 2016. Orkustofnun benti á að ósamræmi væri á nöfnum lína í gildandi kerfisáætlun og fyrirliggjandi skýrslu stefnda Landsnets hf. og Eflu hf. um Kröflulínu 4. Í framkvæmdaáætlun Landsnets hf. fyrir tímabilið 2015-2024 væri ekki fjallað um framkvæmdina „Kröflulínu 4“. Í skýringum stefnda Landsnets hf. á þessu misræmi kom fram að sú framkvæmd sem lýst sé í kafla 5.2.3 í framkvæmdaáætlun kerfisáætlunarinnar, sem nefnd er tenging Þeistareykja, sé Kröflulína 4.

                Ráðuneytið sendi bréf til landeigenda 3. ágúst 2016 og gaf þeim kost á að koma á framfæri frekari andmælum vegna skýrslu Eflu hf. „Athugun á jarðstreng sem kost í 220 kV Kröflulínu 4“. Meðal gagna sem fylgdu með bréfinu, auk áðurnefndar skýrslu Eflu og stefnda Landsnets, voru þau gögn sem ráðuneytið hafði aflað frá Lotu ehf., Alta ehf. og Orkustofnun. Var jafnframt skorað á aðila málsins að reyna að ná samningum. Var gefinn frestur til 19. ágúst 2016. Sama dag var eignarnámsbeiðendum sent bréf og þeim veittur kostur á að gera athugsemdir og jafnframt skorað á þá að reyna semja við landeigendur.

                Stefnendur sendu ráðuneytinu athugasemdir 18. ágúst 2016. Þeir drógu niðurstöður framlagðra gagna varðandi jarðstreng í efa, mótmæltu skömmum frestum til andmæla og töldu sig af þeim sökum ekki hafa fengið tækifæri til að afla sjálfir nauðsynlegra gagna.

                Stefndi Landsnet hf. svaraði bréfi ráðuneytisins sama dag og stefnendur. Í bréfinu var farið yfir rýni verkfræðistofunnar Lotu ehf. annars vegar og ráðgjafafyrirtækisins Öltu ehf. hins vegar á skýrslu Eflu hf. og stefnda Landsnets hf. Degi síðar bárust upplýsingar frá stefnda Landsneti hf. um að samningar hefðu náðst við þrjá landeigendur til viðbótar. Samningar tókust hins vegar ekki við stefnendur og tvo aðra landeigendur, Sólveigu Illugadóttur og Héðin Sverrisson.              Fallist var á beiðni stefnda Landsnets hf. um framkvæmd eignarnáms vegna tveggja 220 kV háspennulína, Kröflulína 4 og 5, með ákvörðun ráðherra 14. október 2016. Í ákvörðun ráðherra, sem í máli þessu er krafist ógildingar á, kom fram að framkvæmdin væri lagning tveggja 220 kV háspennulína frá Kröflu að Þeistareykjum. Fyrirhugaðar háspennulínur myndu liggja um land jarðarinnar Reykjahlíðar. Var fallist á umsóknina með vísan til 23. gr. raforkulaga. Í ákvörðun ráðherra kom fram að eignarnámið væri heimilað til ótímabundinna afnota fyrir stefnda Landsnet hf. og skyldi þeirri kvöð þinglýst á jarðirnar Bjarg, landnr. 153542 og Víðihlíð, landnr. 153612.

                Framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4 var gefið út af hálfu sveitastjórnar Skútustaðahrepps 26. október 2016 en áður hafði sveitarfélagið gefið út framkvæmdaleyfi þann 20. apríl 2016, sem fellt var úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 46/2016 frá 10. október það ár.

                Þann 3. nóvember 2016 hafnaði Skipulagsstofnun beiðni stefnenda um endurskoðun á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna, sem óskað hafði verið eftir með bréfi þeirra 11. maí 2015.

II.

                Stefnendur byggja á því að fyrirliggjandi ákvörðun um eignarnám sé haldin slíkum annmörkum, bæði hvað form- og efni áhrærir, að hún sé ógildanleg. Hver og einn þessara annmarka leiði óhjákvæmilega til þess að fella beri ákvörðunina úr gildi. Reisa þeir kröfu sína á því að ákvörðunin sé í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Jafnframt hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga, og andmælarétti stefnda, sbr. 13. gr. sömu laga. Sönnunarbyrði um öll þau atriði sem reyni á í máli þessu hvíli á stefndu, enda séu stefndu stjórnvöldin sem sækist eftir eignarnáminu sem á reyni og þurfi að sanna að lagaskilyrði séu fyrir því. Auk þess verði, með hliðsjón af íþyngjandi eðli eignarnáms, að gera þá kröfu að stjórnvöld axli sönnunarbyrði í málinu.

                Í fyrsta lagi halda stefnendur því fram að ekki séu uppfyllt skilyrði um almenningsþörf og að ákvörðunin sé í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar og jafnframt að skort hafi á fullnægjandi rannsókn málsins áður en ákvörðun hafi verið tekin. Lagning Kröflulína 4 og 5 í jörðu sé raunhæfur framkvæmdakostur og mun minna íþyngjandi en loftlína. Sá kostur hafi hins vegar ekki verið tekinn til raunverulegrar skoðunar svo sem skylt sé og hafi ráðuneytið ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni að því leyti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn á 220 kV línu og meðalhófs ekki verið gætt að því leyti. Ákvörðun um eignarnám sé auk þess reist á röngum forsendum og að leggja hefði átt línurnar eftir annarri leið.

                Að mati stefnenda standi 72. gr. stjórnarskrárinnar í vegi fyrir eignarnámi þar sem skilyrði 1. mgr. ákvæðisins fyrir eignarnámi, að almenningsþörf krefji, sé ekki uppfyllt eins og ástatt sé í málinu. Við mat á því hvort slík þörf sé til staðar þurfi að gæta meðalhófs. Þegar unnt sé að ná markmiði framkvæmdar sem feli í sér skerðingu á eignarrétti, með ásættanlegum og mismunandi leiðum, beri að velja þann kost sem sé minnst íþyngjandi fyrir þann sem skerðingin bitni á. Því hvíli sú lágmarksskylda á framkvæmdaraðila að taka þá kosti sem geti náð markmiðinu til raunverulegrar og raunhæfrar skoðunar áður en ákvörðun sé tekin um framkvæmdakost.

                Stefnendur byggja á því að fyrir hendi séu aðrir kostir en tvær 220 kV loftlínur og aðrar leiðir en sú sem ákvörðunin geri ráð fyrir, sem geti fullnægt þörfum um styrkingu á raforkukerfi á svæðinu, sem telja megi minna íþyngjandi fyrir stefnendur, valdi mun minni skemmdum á línuleiðinni og nánast engri sjónmengun. Þeir kostir hafi ekki verið kannaðir með raunhæfum og hlutlægum hætti. Þá hafi ráðuneytið ekki gætt að skyldu sinni að tryggja að slík skoðun færi fram, en það sé forsenda þess að til greina komi að fallast á beiðni um eignarnám. Þá felist skyldan til að taka mismunandi framkvæmdakosti til raunhæfrar skoðunar ekki eingöngu í 72. gr. stjórnarskrárinnar, heldur einnig í óskráðri meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Krafa um almenningsþörf sé einnig varin í eignarréttarákvæði 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ákvæðið feli því í sér sams konar skyldu til að kanna raunhæfa framkvæmdakosti þegar framkvæmd feli í sér skerðingu á eignarrétti og velja þann kost sem er minnst íþyngjandi. Þá hafi meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins sambærilega þýðingu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, en báðir stefndu séu bundnir af þeirri reglu. Að sama skapi felist í rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að taka verði alla framkvæmdakosti sem uppfylli markmið framkvæmdar til skoðunar á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga. Með hliðsjón af þessu telja stefnendur að framkvæmdaaðili verði að taka framkvæmdakosti sem uppfylla markmið framkvæmdar til raunhæfrar skoðunar og geti ekki útilokað slíka kosti án þess að fyrir liggi forsvaranlegt, hlutlægt og málefnalegt mat á þeim. Stefnendur byggja á því að þar sem þeir framkvæmdakostir sem stefnendur hafi rökstutt að séu minna íþyngjandi en 220 kV loftlína hafi ekki verið kannaðir með raunverulegum hætti, leiði það eitt og sér til þess að ekki hafi verið sýnt fram á almenningsþörf fyrir framkvæmdinni í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og eignarréttarákvæðis mannréttindasáttmála Evrópu. Með þessu móti hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar. Byggt er á því að ráðuneytinu hafi borið að hafna beiðni um eignarnám þegar af þessari ástæðu.

                Stefnendur hafi haldið því fram frá upphafi að styrking raforkuflutningskerfis á svæðinu með lagningu jarðstrengs sé mun minna íþyngjandi fyrir stefnendur en lagning línanna í lofti, einkum vegna verulegrar sjónmengunar sem stafi af háspennulínu á því umtalsverða helgunarsvæði sem loftlínum fylgi og skertari möguleika til landnýtingar en í tilviki jarðstrengja. Í stefnu er nánar lýst því umhverfistjóni sem stefnendur telja það svæði sem hér er deilt um verði fyrir m.a. vegna sérstæðs náttúrufars og mikilvægis náttúrunnar fyrir ferðaþjónustu sem taka beri tillit til. Þrátt fyrir það hafi sá möguleiki að leggja línurnar í jörðu ekki verið tekinn til raunhæfrar skoðunar. Enginn raunhæfur eða hlutlaus samanburður liggi fyrir í málinu á kostnaði við lagningu línanna annars vegar í jörðu og hins vegar í lofti. Enn síður liggi fyrir samanburður sem taki með í reikninginn allan ávinning og allan kostnað eða tjón. Því síður hafi verið gerður samanburður á öðrum þáttum sem líta beri til við mat á hagkvæmni og áhrifum framkvæmdarinnar fyrir stefnendur og aðra landeigendur, svo sem áhrifum á umhverfi og landnýtingu á því svæði sem eignarnámið taki til. Þá hafi ekki verið tekið mið af þáttum sem varði þjóðfélagið í heild, svo sem áhrif á ferðaþjónustu, rekstrarhagkvæmni og umhverfistjóni, en skylt sé að líta til slíkra þátta, enda sé markmið raforkulaga nr. 65/2003 að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi.

                Stefnendur byggja á því að ekki hafi verið sýnt fram á þjóðhagslega hagkvæmni framkvæmdanna þar sem ljóst sé að bæði jarðstrengur og loftlína geti náð því markmiði framkvæmdarinnar að styrkja raforkuflutningskerfi á svæðinu. Ítrekað hafi verið hafnað að taka jarðstrengi til skoðunar með vísan til almennra og úreltra upplýsinga um kostnaðarmun á milli jarðstrengja og loftlína. Órökstuddar fullyrðingar um almennan kostnaðarmun séu þýðingarlausar og geti ekki útilokað raunhæfa framkvæmdakosti auk þess sem líta beri til annarra atriða, svo sem umhverfisáhrifa og þjóðhagslegrar hagkvæmni.

                Stefnendur hafi teflt fram margvíslegum rökum og gögnum til stuðnings því að jarðstrengur sé raunhæfur valkostur og skilað ítarlegum athugasemdum við málsmeðferð ráðuneytisins þar sem þetta hafi verið rökstutt og lagt fram fjölda gagna, þar á meðal sérfræðigögn og nýjustu upplýsingar um tækni- og kostnaðarþróun á sviði jarðstrengja. Vísa þau í því efni fyrst og fremst til skýrslu kanadíska ráðgjafarfyrirtækisins Metsco Energy Solutions Inc. (Metsco) um tæknilega þróun og kostnaðarmun jarðstrengja og loftlína á 132 kV og 220 kV spennu á Íslandi, frá nóvember 2013. Af þessum gögnum megi ráða að tækninýjungar og lækkandi verð jarðstrengja hafi gert notkun þeirra að sífellt vænlegri kosti og líklega ódýrari en loftlínur sé umhverfistjón metið til fjár, svo sem beri að gera. Sérstaklega hafi verið brýnt að skoða nánar möguleika á jarðstreng þegar umdeild eignarnámsbeiðni var gerð í ljósi þess að forsendur framkvæmdanna hafi gerbreyst frá því sem upphaflega var lagt upp með þar eð hætt var við áform um að reisa álver á Bakka. Ráðuneytið hafi hvorki rannsakað málið né veitt stefnendum færi á að láta gera slíka rannsókn.

                Lagning jarðstrengs sé raunhæfur framkvæmdakostur og öll aðgengileg og óháð gögn bendi til þess að áreiðanleiki þeirra sé mikill. Auki þess sýni umhverfislöggjöf hér á landi og Evrópu að jarðstrengir séu umhverfisvænni kostur en loftlínur sem beri að taka fram yfir loftlínur sé þess kostur.

                Þá byggja stefnendur á því að skýrsla Orkustofnunar frá 6. júlí 2016 hafi enga þýðingu í málinu. Hún sé afar rýr og fjalli ekki heildstætt um málið. Auk þess geti stefndi íslenska ríkið ekki vikið sér undan skyldu til að rannsaka málið sjálfstætt samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Stefnendum hafi ekki gefist kostur á að koma að andmælum við þessa skýrslu. Á sömu forsendum sé minnisblaði verkfræðistofunnar Lotu ehf. frá 29. júní 2016 og minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Alta ehf. frá 6. júlí 2016 mótmælt. Bæði fyrirtækin, Alta ehf. og Lota ehf., hafi unnið mikið fyrir báða stefndu og stór hluti afkomu fyrirtækjanna komi frá stefndu og séu eigendur og starfsmenn fyrirtækjanna margir hverjir fyrrverandi starfsmenn stefnda Landsnets hf. eða fyrirrennara hans Landsvirkjunar. Umrædd fyrirtæki, starfsmenn þeirra og eigendur, hafi því verið vanhæfir og geti stefndu ekki byggt á minnisblöðum þessara aðila. Þetta ætti sérstaklega við í ljósi þess að stefnendum hafi ekki gefist kostur á að láta vinna sambærileg minnisblöð fyrir sitt leyti, þrátt fyrir að það hafi verið nauðsynlegt. Brotin hafi verið jafnræðisregla stjórnsýslulaga, stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu með því að að gefa stefnendum ekki jafnt tækifæri á að afla slíkra gagna. Hið minnsta sé fyrir hendi skortur á rannsókn þess efnis hvort unnt væri að setja Kröflulínu 5 í jörðu og byggt væri á því til vara um þessa málsástæðu.

                Stefnendur byggja á því að fimm valkostir komi til greina aðrir en sá kostur sem stefndi Landsnet hf. lagði til og hafi verið skoðaður. Nánar tiltekið sé unnt að reisa 132 kV loftlínu eða eina 220 kV loftlínu, leggja 132 kV eða 220 kV jarðstreng eða blöndu af þessum kostum. Í málinu liggi ekki fyrir hlutlausar greiningar á raforkuþörf heldur eingöngu einhliða yfirlýsingar þar um frá stefnda íslenska ríkinu eða fyrirtækjum sem starfi fyrir ríkið sem sönnunargildi um almenningsþörf. Stefnendur hafi ítrekað bent á hagkvæmari og styttri leið fyrir jarðstreng eða loftlínu á svæðinu en þá leið sem sé fyrirhuguð, meðfram slóða sem liggi norður frá Stóra-Víti, vestan á Hágöngum og út fyrir Sandmúla sem síðan tengist öðrum slóða sem liggi frá austri til vesturs. Yrði einhvern tíma virkjað við Gjástykki yrði stöðvarhús slíkrar virkjunar mjög nærri þeirri leið sem stefnendur hafi lagt til.

                Stefnendur telja að ekki hafi verið sýnt fram á að nauðsynlegt sé að reisa tvær 220 kV línur, eins og miðað er við í ákvörðun um eignarnám, eftir að hætt hafi verið við að reisa álver Alcoa á Bakka árið 2011, sem hefði annars aðeins þolað sambandsleysi við rafmagn í mjög skamman tíma vegna eðlis starfseminnar. Þeim sjónarmiðum hafi verið komið á framfæri við ráðuneytið. Í fylgiskjali VII með frumvarpi til laga nr. 52/2013 hafi af hálfu stefnda verið gerð grein fyrir fyrirhuguðum raflínumannvirkjum frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka, vegna kísilverksmiðjunnar sem PPC Bakki Silicon hafi í huga að reisa. Þar komi fram að fyrst um sinn standi til að reisa 220 kV línu frá Kröflu um Þeistareyki að Bakka sem fyrst um sinn yrði rekin á 132 kV en að á Bakka standi til að reisa kísilver. Sé því ekki af hálfu stefnda sýnt fram á sannanlega þörf fyrir 220 kV línu og enn síður tvær slíkar línur um land stefnenda heldur í mesta lagi 132 kV línu. Orkuþörf fyrirhugaðs álvers Alcoa hafi átt að vera 577 MW og hafi flutningsgeta Kröflulína 4 og 5, sem myndi saman svokallaða „N-1 tengingu“, verið næg, sem merki að þó að ein lína bili þá verði ekki straumrof. Stefnendur kveða stöðuna í dag breytta og að ákvörðun um eignarnám byggi því á röngum forsendum. Það afl sem tvær 220 kV línur gætu flutt, eins og miðað hafi verið við í ákvörðun um eignarnám, er 10 sinnum meiri orka en þörf sé á. Nánar tiltekið væri fyrirhugað að virkjun á Þeistareykjum verði 45 til 90 MW. Fyrsti hluti hennar verði 45 MW og sé það beinlínis vegna kísilversins sem muni nota allt að 58 MW af orku í áföngum. Þar af kæmu 45 MW úr Þeistareykjavirkjun en 13 MW frá öðrum fyrirliggjandi virkjunum Landsvirkjunar. Ekkert liggi fyrir um frekari flutningsþörf frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka, auk hugsanlegrar smávægilegrar samnýtingar þeirrar línu vegna almennra nota á Húsavík. Þó svo að sýnt yrði fram á að annar stórnotandi en kísilverið kæmi á Bakka gæti 132 kV lína annað slíkum notendum einnig.

                Í öðru lagi byggja stefnendur á því að stefndu hafi brotið gróflega gegn skyldu sinni til samráðs við sig og aðra landeigendur við undirbúning framkvæmdarinnar. Lagning Kröflulína 4 og 5 hafi mikil umhverfisáhrif og gildi strangar málsmeðferðarreglur sem feli í sér lágmarkskröfur um kynningu, samráð og aðkomu hagsmunaaðila að slíkum málum. Fram komi í 4. mgr. 6. gr. Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sem Ísland hafi fullgilt og sé einnig hluti af EES-rétti, að sérhver samningsaðili skuli gera ráð fyrir þátttöku almennings snemma í ferlinu þegar allir kostir séu fyrir hendi og um virka þátttöku almennings geti verið að ræða. Einnig sé í þessu sambandi byggt á tilskipun 2003/35/EB sem varði þátttöku almennings við gerð skipulags- og framkvæmdaáætlana í tengslum við umhverfismál, einkum 2. gr. og 4. mgr. 3. gr., en tilskipunin sé einnig hluti af EES-samningnum. Vinnubrögðin við undirbúning þeirrar framkvæmdar sem hér um ræði hafi hvorki verið í samræmi við framangreind ákvæði né 8. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Stefnendur hafi aldrei haft tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að í málinu fyrr en búið hafi verið að ákveða línuleið og að um tvær loftlínur yrði að ræða Hafi því almenningur ekki notið réttar til virkrar þátttöku snemma í ferlinu. Framangreindar reglur umhverfisréttarins, sem og 72. gr. stjórnskrárinnar, sbr. 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, veiti landeigendum ríkan rétt til þátttöku í ákvörðunum um umhverfismál sem standi til að taka varðandi eignir þeirra, þ.e. rétt til virkrar þátttöku í ferli sem miði að ákvarðanatöku um tilhögun framkvæmdar frá upphafi þegar allir valkostir séu opnir og mögulegt að hafa einhver áhrif á ákvarðanatöku. Ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans um vernd eignarréttinda feli í sér skyldu til að leita beinna samninga við landeigendur um allt ferli fyrirhugaðrar eignarskerðingar, þ.e. til að leita samninga við þá um framkvæmdir á landi þeirra, fyrirkomulag framkvæmda, alla útfærslu og loks bætur til þeirra. Sýnilega yrðu samningaviðræður við landeigendur að eiga sér stað á meðan fleiri en einn valkostur um framkvæmd væru mögulegir, en ekki eftir að þeir hafi verið útilokaðir með samningum aðila sem ekki væru bærir til ákvarðana fyrir hönd landeigenda. Breyti hér engu þó að samið hafi verið við aðra landeigendur eða semja hafi þurft við marga. Mat á umhverfisáhrifum og skipulagsgerð sveitarfélaga séu ekki ferlar fyrir framkvæmdaraðila til þess að stytta sér leið til skerðingar á eignarrétti borgaranna og svipta þá lögbundnum rétti til samráðs og aðkomu að ákvarðanatöku um eignarréttindi þeirra. Þar sem ekki hafi verið löglega staðið að undirbúningi framkvæmdarinnar og brotið hafi verið gegn skyldu til samráðs við stefnendur hafi þeim ekki gefist færi á viðræðum við Landsnet hf. fyrr en aðrir framkvæmdakostir en 220 kV loftlína hefðu verið útilokaðir. Stefnendur hafi þannig aldrei átt þess kost að hafa áhrif á ákvörðun um tilhögun þeirrar framkvæmdar sem skerði eignarréttindi stefnenda.

                Stefnendur mótmæla því að samningaviðræður hafi verið reyndar til þrautar, svo sem áskilið sé í 72. gr. stjórnarskrárinnar og 23. gr. raforkulaga. Ekki hafi verið reynt að ná samningum við stefnendur nema að mjög takmörkuðu leyti og eingöngu til málamynda. Aldrei hafi staðið til að semja við stefnendur eða þeim veitt raunhæft tækifæri til þátttöku í samningaviðræðum. Stefndi Landsnet hf. hafi lengst af eingöngu staðið í samningaviðræðum við félagið Landeigendur Reykjahlíðar ehf. sem aldrei hafi haft eignarheimildir að landi stefnenda eða annarra landa á svæðinu og ekki haft umboð stefnenda til að ráðstafa landi þeirra á nokkurn hátt. Virðist sem stefnendum hafi vísvitandi verið haldið utan við samningaviðræður til að gera samningsstöðu þeirra verri síðar. Þegar loks hafi verið haft samband við stefnendur, hafi þar aðeins verið mættir fulltrúar frá stefnda, sem margsinnis hafi borið fyrir sig að þeir hefðu ekki umboð til samninga nema að mjög takmörkuðu leyti. Jafngildi það því að senda engan til samningaviðræðna við stefnendur. Loks hafi viðræður við stefnendur hafist afar seint og án þess að efnislegar viðræður hafi farið fram. Þá hafi fundir ekki verið ákveðnir í samráði við og með samþykki stefnenda, sem sé ólögmætt og hafi ítrekað verið mótmælt af hálfu stefnenda.

                Stefnendur byggja á því að samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu hafi Umhverfisstofnun verið skylt að undirbúa og gera tillögur um hvaða svæði í Skútustaðahreppi, utan þess svæðis sem 2. gr. laganna skilgreini, skyldu friðlýst í samræmi við lög um náttúruvernd. Þær tillögur hafi komið fram í september 2004 og verið sendar ráðherra í sama mánuði. Árið 2011 hafi umhverfis- og auðlindaráðherra friðlýst Dimmuborgir og Hverfell, Seljahjallagil, Bláhvamm, Þrengslaborgir og nágrenni, en þessi svæði hafi verið hluti af tillögum Umhverfisstofnunar samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu. Með lögum nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð hafi Askja, Dyngjufjöll, Trölladyngja og Ódáðahraun, samtals um 2000 ferkílómetra svæði sem einnig hafi verið meðal áðurgreindra tillagna Umhverfisstofnunar, verið friðlýst. Af tillögum Umhverfisstofnunar hafi staðið eftir nokkur svæði sem enn eigi eftir að friðlýsa, en ætla verði að það verði gert innan skamms. Þar á meðal sé Leirhnjúkshraun, sem hafi átt að friðlýsa eigi síðar en 1. janúar 2008 sem hljóti að verða gert innan skamms. Leirhnjúkshraun sé einmitt svæði sem áformað sé að Kröflulína 4 og 5 liggi um. Stefnendur byggja á því að óheimilt sé að leggja loftlínu í gegnum Leirhnjúkshraun, þar sem það njóti bráðabirgðaverndar samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 97/2004.

                Stefnendur hafna því að þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína frá 28. maí 2015 hafi lagalega þýðingu í málinu, sbr. 61. gr. stjórnarskrár enda hafi hún ekki næga lagastoð í 1. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Þingsályktunin mæli meðal annars fyrir um að miða skuli við núvirtan stofnkostnað við samanburð á kostnaði við lagningu raflína, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 1.3 gr. ályktunarinnar. Sé þetta beinlínis á skjön við markmið raforkulaga sem sé meðal annars að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi, sbr. 1. gr. laganna. Til að geta fullyrt að raforkukerfi sé þjóðhagslega hagkvæmt þurfi að taka allan kostnað með í reikninginn, meðal annars líftímakostnað og umhverfistjón. Auk þess hafi þingsályktunin verið samþykkt eftir að mál þetta var hafið og umhverfismöt gerð. Þingsályktunin segi ekkert um nýjar framkvæmdir og vísi til þess að horfa eigi til tiltekinna viðmiða sem réttlæti að dýrari kostur við lagningu raforkulína sé valinn.

                Jafnvel þótt fallist yrði á að þingsályktunin hefði þýðingu í málinu þá styðjist fyrirhugaðar framkvæmdir ekki við þá stefnu sem þar sé lýst. Ósannað og raunar ólíklegt sé að jarðstrengir séu dýrari en loftlínur, ef raunverulegt mat yrði lagt á umhverfistjón af völdum loftlína, svo sem stefnendur hafi skorað á ráðuneytið að gera. Þá sé ljóst að svæðið sem um ræði ætti að vera friðlýst, sbr. bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Því sé rétt að beita ákvæðum þingsályktunarinnar um friðlönd. Í 1. tölul. gr. 1.5 sé sérstök tilvísun í svæði sem njóti sérstakrar verndar. Í þingsályktuninni sé og mælt fyrir um að að minnsta kosti 50% af landshluta- og meginflutningskerfi raforku á 11 kV spennustigi eða hærra skuli lögð í jörð árið 2020. Til að ná því markmiði sé nauðsynlegt að Kröflulínur 4 og 5 fari í jörð. Í 3. tölul. gr. 1.5 þingsályktunarinnar segi að ekki skuli raska ósnortnu svæði ef aðrar lausnir koma til greina, en stefnendur hafi lagt til slíka lausn, það er að línurnar liggi meðfram vegaslóðum, sbr. einnig 4. tölul. sömu greinar. Í 3. gr. þinsályktunarinnar segi svo sérstaklega að taka þurfi tillit til umhverfiskostnaðar, eins og stefnendur byggi á en það hafi stefndu ekki gert.

                Í þriðja lagi byggja stefnendur á því að brotið hafi verið gegn andmælarétti þeirra, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, með því að leggja minnisblað Lotu ehf. frá 29. júní 2016, minnisblað Alta ehf. frá 6. júlí 2016 og rýni Orkustofnunar frá 6. júlí 2016, til grundvallar ákvörðun um eignarnám án þess að gefa stefnendum færi á að koma að andmælum við þau skjöl, sbr. sjónarmið þar að lútandi sem að framan hafa verið rakin.

                Um lagarök vísa stefnendur til 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Jafnframt vísa þau til laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, einkum 8. gr. laganna. Þá er vísað til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10., 12. og 13. gr. auk óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttarins um rannsóknarskyldu, andmælarétt, meðalhóf og lögmæti. Aukinheldur er vísað til Árósasamningsins og tilskipunar 2003/35/EB, sem og meginreglna á sviði umhverfisréttar. Krafa stefnenda um málskostnað byggir á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

III.

                Stefndi Landsnet hf. mótmælir öllum málsástæðum stefnenda og krefst sýknu af kröfum þeirra. Hlutverk fyrirtækisins sé að annast flutning raforku og stjórnun íslenska raforkukerfisins, sbr. III. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Fyrirtækið starfi samkvæmt sérleyfi og sé háð opinberu eftirliti Orkustofnunar. Stefndi hafi einn heimild að lögum til að reisa ný flutningsvirki og beri honum að byggja upp flutningskerfi raforku á hagkvæman hátt. Stefnda sé bæði rétt og skylt að haga undirbúningi framkvæmda sinna í samræmi við niðurstöður úr lögbundnum ferlum og lögmætar ákvarðanir skipulagsyfirvalda. Þá hvíli einnig skylda á stefnda að tengja orkuframleiðendur og orkunotendur við flutningskerfi raforku.

                Í kerfisáætlun stefnda Landsnets hf. fyrir árin 2015-2024 sé fjallað um framkvæmdina við Kröflulínur 4 og 5. Sú kerfisáætlun hafi verið samþykkt af Orkustofnun með ákvörðun 25. apríl 2016. Þar komi fram að Orkustofnun hafi metið allar framkvæmdir kerfisáætlunar stefnda með hliðsjón af markmiðum raforkulaga um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku, sbr. 9. gr. a og b raforkulaga. Kerfisáætlunin hafi einnig hlotið umfjöllun í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana.

                Framkvæmdir vegna Kröflulína 4 og 5 hafi sætt vönduðum undirbúningi sem hafi staðið yfir í um áratug og farið í gegnum lögbundið ferli. Framkvæmdirnar eigi rætur að rekja til opinberrar stefnumörkunar stjórnvalda um uppbyggingu iðnaðar með nýtingu virkjanakosta á Norðausturlandi, meðal annars tengdum iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þannig sé í stefnumótandi byggðaáætlun og lögum nr. 41/2013 kveðið á um stuðning og heimildir til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi á svæðinu. Þá hafi Alþingi með lögum nr. 52/2013 veitt iðnaðar- og viðskiptaráðherra heimild til að gera fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisins um byggingu kísilvers á Bakka. Framkvæmdirnar séu ákveðnar á staðfestu svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025 sem unnið hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Auk þess séu framkvæmdirnar í samræmi við staðfest aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2013. Þá hafi framkvæmdirnar sætt sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum á grundvelli laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, auk sameiginlegs mats Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember 2010 með öðrum tengdum framkvæmdum.

                Stefndi Landsnet hf. byggir á því að eignarréttur stefnenda sæti almennum takmörkunum á grundvelli ákvæða stjórnarskrár og almennra laga. Ákvörðun stefnda íslenska ríkisins um eignarnám á landi stefnenda feli í sér almennt og hlutlægt mat á því að eignarnámið sé nauðsynleg forsenda framkvæmdanna og búi ríkir almannahagsmunir að baki þeim. Málsatvik beri að meta heildstætt út frá lögbundnum hagsmunum, lögfestum skyldum og réttindum stefnda Landsnets hf., ekki síður en einstaklingsbundnum hagsmunum stefnenda. Sú kvöð sem lögð sé á land stefnenda sé sú sama og aðrir meðeigendur þeirra að hinu óskipta landi þurfi að hlíta og hafi gengist undir með samkomulagi við stefnda Landsnet hf. á grundvelli raforkulaga.

                Hlutverk stefnda íslenska ríkisins sé að leggja mat á almenningsþörf af framkvæmdunum annars vegar og hins vegar hagsmuni stefnenda sem landeigenda til óskertra eignarráða yfir landi sínu, sbr. 2. gr. og 72. gr. stjskr. Það mat liggi fyrir og hafi eignarnám á landi stefnenda verið samþykkt á grundvelli þess.

                Stefnendur dragi ekki í efa að þörf sé á orkuflutningi að iðnaðarsvæðinu að Bakka við Húsavík, enda sé engin flutningsleið nú fyrir hendi. Stefnendur vilji að tilhögun verði önnur í þeirra landi og hafi í því skyni bent á annað leiðarval, sem tekin hafi verið afstaða til á ólíkum stigum málsins og hafnað, síðast í eignarnámsákvörðuninni. Þar hafi stefnendur einnig krafist þess að lagður yrði jarðstrengur. Stefndi hafi gert ítarlega grein fyrir möguleikum á notkun jarðstrengs og kostnaði, sem stefndi íslenska ríkið hafi látið rýna. Hafi stefndi íslenska ríkið einnig tekið tillögur stefnenda um jarðstreng til ítarlegrar skoðunar og tekið rökstudda afstöðu til þeirra við ákvörðun sína.

                Líkt og fram komi í eignarnámsákvörðuninni, feli skipulags- og matsferli það í sér að stefndi hafi ekki alfarið í höndum sér hvaða leið sé valin, auk þess sem honum beri að horfa til stefnu stjórnvalda í þessum efnum, sbr. þingsályktun nr. 11/144. Ekki sé heldur unnt að horfa fram hjá því að stefnda beri að annast um orkuflutning á grundvelli raforkulaga, en hann taki ekki ákvörðun um í hvaða framkvæmdir skuli ráðist og kalli á slíka tengingu. Í þessu máli liggi fyrir opinber stefnumörkun og ákvörðun sveitarfélaga sem stefndi íslenska ríkisins hafi tekið tillit til við ákvörðun um hvort almannahagsmunir skuli í þessu tilviki ganga framar einstaklingsbundnum hagsmunum stefnenda.

                Með hliðsjón af framangreindu séu því öll skilyrði fyrir eignarnáminu fyrir hendi og ákvörðunin um að heimila það þar af leiðandi ekki haldin neinum annmörkum sem leitt geti til ógildingar henni, hvorki vegna einstakra atriða í málsmeðferðinni né fleiri saman. Jafnvel þótt talið yrði að einhverjir annmarkar væru á meðferð málsins telur stefndi í öllu falli ljóst, með vísan til heildstæðs mats á málinu og umfangi þess, að slíkir annmarkar væru óverulegir og því ekki skilyrði að lögum til ógildingar á ákvörðuninni.

                Eignarnámsákvörðunin sé ítarlega rökstudd og byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum stjórnsýsluréttar. Hún byggi á sjónarmiðum sem fram komi fyrst og fremst í 72. gr. stjskr., 23. gr. raforkulaga og stjórnsýslulögum nr. 37/1993, meðal annars 10.-13. gr. laganna, þegar metin hafi verið staða stefnenda og annarra sameigenda að hinu óskipta landi Reykjahlíðar. Þurfi sameigendurnir að sæta sömu almennu, en þó afmörkuðu, takmörkunum á eignarréttindum sínum og stefnendur. Áður en stjórnvaldsákvörðun um eignarnám á landi stefnenda hafi verið tekin hafi stefndi íslenska ríkið veitt bæði stefnendum og stefnda kost á að koma að andmælum og sjónarmiðum. Stefnendur hafi nýtt sér andmælarétt á öllum stigum stjórnsýslumálsins og öll sjónarmið um einstaklingsbundna hagsmuni þeirra hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin. Gögn málsins beri með sér að andmælaréttar hafi verið gætt af hálfu stefnda íslenska ríkisins. Auk þess að óska eftir sjónarmiðum beggja aðila og andmæla þeirra hafi stefndi íslenska ríkið ákveðið, að eigin frumkvæði, og til samræmis við nýlega dómaframkvæmd Hæstaréttar, að óska eftir tilteknum upplýsingum og gögnum, meðal annars um möguleika á notkun jarðstrengs í 220 kV Kröflulínu 4.

                Stefndi Landsnet hf. byggir á því að meðalhófs hafi verið gætt við ákvörðun um eignarnám í landi stefnenda. Rangt sé og ósannað að sá kostur sem sé minnst íþyngjandi fyrir stefnendur hafi ekki verið valinn. Í eignarnámsákvörðun sé tekin afstaða til þess að sú leið sem stefnendur hafi lagt til sé ekki í samræmi við þau markmið sem stefnt sé að með framkvæmdinni og hafi henni verið hafnað í lögbundnum umhverfismats- og skipulagsferlum. Hafi stefnendur hvorki hrakið þá niðurstöðu né gert líklegt að niðurstaða stefnda íslenska ríkisins sé efnislega röng. Ekki sé seilst lengra en þörf krefji til að ná skilgreindum markmiðum framkvæmdarinnar líkt og fram komi í rökstuðningi fyrir eignarnámsákvörðuninni. Þá liggi fyrir ítarleg rannsókn sem stefndi íslenska ríkið hafi látið framkvæma á því hvort unnt sé að leggja 220 kV Kröflulínu 4 í jörðu, en þar sé einnig fjallað um flutningsþörf á 220 kV spennu.

                Stefndi Landsnet hf. tekur undir þá niðurstöðu stefnda íslenska ríkisins að í framkvæmdina verði ekki ráðist nema með heimild til eignarnáms á grundvelli 23. gr. raforkulaga. Þá sé mikilvægi hennar sem forsenda opinberrar stefnumótunar og ákvarðana staðreynd. Kjarni málsins sé sá að fram hafi farið ítarleg skoðun á málinu af hálfu stefnda íslenska ríkisins líkt og gögn málsins beri með sér, meðal annars á grundvelli þeirra ábendinga sem fram hafi komið í andmælum stefnenda. Sé málið því nægjanlega upplýst.

                Stefndi Landsnet hf. byggir á því að rangt sé og ósannað að stefndu hafi ekki tekið til raunhæfrar skoðunar þann möguleika að leggja Kröflulínur 4 og 5 í jörðu. Umfjöllun stefnenda um jarðstrengi byggist að stórum hluta á gögnum sem séu málinu óviðkomandi, ásamt því að þau hafi að geyma úreltar upplýsingar. Í málinu hafi stefndu lagt fram rannsóknir og skýrslur sem byggist á nýjustu upplýsingum um jarðstrengi, meðal annars rannsókn sem stefndi íslenska ríkið hafi látið gera á þeim möguleika að leggja 220 kV Kröflulínu 4 í formi jarðstrengs. Þar sé tekið tillit til nýjustu gagna og upplýsinga, svo sem um kostnaðartölur. Því sé ekki unnt að halda því fram að aðstæður séu sambærilegar þeim er uppi hafi verið í nýlegum dómafordæmum Hæstaréttar sem stefnandi byggi á, enda hafi þar ekki legið til grundvallar ákvörðunar um eignarnám sérstök athugun á notkun jarðstrengja til raforkuflutnings. Þar hafi jafnframt verið um að ræða styrkingu á flutningskerfi raforku á tilteknu landsvæði þar sem hafi verið fyrir ein háspennulína, sem annist orkuflutning til og frá landsvæðinu. Allt aðrar aðstæður séu fyrir hendi í þessu máli þar eð Kröflulínu 4 sé ætlað að annast orkuflutning frá Þeistareykjavirkjun og tengja raforkuverið við hið almenna flutningskerfi raforku. Hér sé því ekki um styrkingu raforkuflutnings að ræða heldur nauðsynlega tengingu við flutningskerfi raforku á Norðausturlandi. Kröflulína 5 muni síðar verða liður í styrkingu þess flutningskerfis raforku með tengingu við tengivirki á Hólasandi.

                Stefndi Landsnet hf. mótmælir þeim málatilbúnaði stefnenda að þeir hafi frá upphafi mótmælt framkvæmdum vegna Kröflulína 4 og 5 og lagt áherslu á jarðstreng eða aðra línuleið. Afgerandi sé sú ákvörðun sem falist hafi í svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Við það hafi stefnendur engar athugasemdir gert. Ekki heldur við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Mótmæli stefnenda við háspennulínum hafi fyrst komið fram við gerð aðalskipulags Skútustaðahrepps í desember 2012 og bent af þeirra hálfu á jarðstreng í þeirra stað.

                Stefndi Landsnet hf. hafnar því sem röngu og ósönnuðu að jarðstrengir yrðu ódýrari ef tillit væri tekið til umhverfistjóns við mat á skilyrðum eignarnáms. Auk þess eigi sá málatilbúnaður stefnenda sér hvorki stoð í lögum né staðreyndum málsins. Líkt og fram komi í eignarnámsákvörðun standi hvorki lagaheimildir né lagarök til þess að fjalla beri um umhverfistjón eða að aflað skuli álits Skipulagsstofnunar um slíkt til þess að lagaskilyrði eignarnáms teljist uppfyllt.

                Stefndi Landsnet hf. hafnar því að stefndu hafi ekki metið framkvæmdir vegna Kröflulína 4 og 5 út frá þjóðhagslegum forsendum í skilningi 1. gr. raforkulaga. Stefna stjórnvalda um atvinnuuppbyggingu á iðnaðarsvæðinu við Bakka og tengdar framkvæmdir, meðal annars Þeistareykjavirkjun, krefjist þess að stefndi tryggi tengingu á svæðinu við flutningskerfi raforku, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 9. gr. raforkulaga. Við mat stefnda íslenska ríkisins á almenningsþörf og nauðsyn til eignarnáms í aðdraganda hinnar umdeildu ákvörðunar sé ítarlega fjallað um markmið framkvæmdanna og bent á ákvæði 1. gr. og 1. mgr. 9. gr. raforkulaga um þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi. Til þess að svo megi vera þurfi raforkukerfið í heild sinni að vera byggt upp og rekið á hagkvæman hátt til að nýta framleiðsluþætti þess sem best. Fram komi í eignarnámsákvörðuninni að líta beri á flutningskerfi raforku sem hluta af grunninnviðum samfélagsins og að sýnt hafi verið fram á þörf framkvæmdarinnar með fullnægjandi hætti. Sú niðurstaða að framkvæmdirnar uppfylli skilyrði raforkulaga sé einnig sérstaklega áréttuð af Orkustofnun í bréfi til stefnda íslenska ríkisins í aðdraganda eignarnámsákvörðunarinnar.

                Kröflulína 4 feli í sér tengingu flutningskerfsins við Þeistareykjavirkjun en ekki styrkingu á almennu flutningskerfi. Því sé þjóðhagsleg nauðsyn orkuflutningsins augljós, enda geri stefnendur ekki athugasemd við þá hlið málsins heldur útfærslu framkvæmdanna, það er leiðarval fyrir Kröflulínur 4 og 5 og notkun háspennulína ofanjarðar í stað jarðstrengs. Stefndi hafi borið saman kostnað af jarðstrengjum og háspennulínum og ítarlegar forsendur fyrir því mati séu á meðal gagna málsins. Stefndi Landsnet hf. hafi að ósk stefnda íslenska ríkisins látið skoða sérstaklega, og með tilliti til aðstæðna í þessu máli, möguleika á jarðstreng sem kosti í 220 kV Kröflulínu 4. Stefndi Landsnet hf. hafi bæði á árinu 2014 og 2015 skoðað ítarlega möguleika á notkun jarðstrengja. Því hafi eldri og almenn umfjöllun, líkt og skýrsla Metsco sem stefnendur vísi til, enga þýðingu í þessu máli. Stefnendur þurfi að bera hallann af því að færa ekki fram nýrri gögn til stuðnings málatilbúnaði sínum. Í eignarnámsákvörðun stefnda íslenska ríkisins sé fjallað um samanburð á kostnaði við loftlínu og jarðstreng, án þess að gerðar hafi verið athugasemdir við þá niðurstöðu rannsókna að kostnaðarhlutfall jarðstrengs á móti loftlínu sé 2,56.

                Stefndi Landsnet hf. hafnar umfjöllun stefnenda um rekstrarlega þætti jarðstrengja, þar með talið áreiðanleika afhendingar og gæði raforku, sem málinu óviðkomandi og rangri. Litið sé fram hjá þeirri staðreynd að á heildarlínuleið Kröflulínu 4, sem er 32,8 km, geti hámarkslengd jarðstrengs ekki orðið lengri en 11 km sökum raffræðilegra þátta. Í ljósi þeirrar takmörkunar sé ekki unnt að fjalla um jarðstreng sem raunhæfan kost til að tengja Kröfluvirkjun og Þeistareykjavirkjun. Ekki verði af framkvæmdinni án notkunar háspennulína og beri gögn málsins það með sér.

                Stefndi Landsnet hf. hafnar því sem röngu að hægt sé að leggja Kröflulínu 4 og 5 í jörð með miklu minni umhverfisspjöllum og byggir á því að skilyrði laga, um að ákvörðun um eignarnám grundvallist á fyrirmælum laga og að eignarnám sé afmarkað, séu uppfyllt. Í eignarnámsákvörðun stefnda íslenska ríkisins sé bæði fjallað um að í 23. gr. raforkulaga sé að finna lagaheimild til eignarnáms og komist að þeirri niðurstöðu að beiðni stefnda Landsnets hf. sé sett fram og afmörkuð með þeim hætti að gætt sé meðalhófs og ekki seilst lengra en þörf krefji til að ná fram skilgreindum markmiðum framkvæmdanna. Þá sé einnig staðfest að ákvörðun stefnda Landsnets hf. um að leggja fram eignarnámsbeiðni sé ekki stjórnvaldsákvörðun. Í kjölfar eignarnáms meti matsnefnd eignarnámsbóta bætur til eignarnámsþola, sbr. 72. gr. stjskr. og lög um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.

                Því er sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda Landsnets hf. að draga megi þá ályktun af ákvæðum 20. og 22. tölul. viðauka I við lög nr. 106/2000, að jarðstrengir ættu að öðru jöfnu að vera teknir fram yfir loftlínumannvirki. Þvert á móti skuli meginregla í meginflutningskerfi raforku vera sú að notast sé við loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum, sbr. þingsályktun 11/144 og 1. mgr. 9. gr. raforkulaga, sbr. og 1. gr. þeirra laga.

                Stefndi Landsnet hf. hafnar málatilbúnaði stefnenda um aðra þætti svo sem landnýtingu á grundvelli einstaklingsbundinna hagsmuna landeigenda sem ósönnuðum. Þannig sé meðal annars fjallað um ferðaþjónustu almennt og einnig sérhagsmuni annars stefnanda, Finns Sigfúsar, sem stundi ferðaþjónustu, án þess að vísað sé til gagna því til stuðnings. Þá fjalli stefnendur einnig um umhverfistjón án þess að sú umfjöllun styðjist við lagarök.

                Stefndi Landsnet hf. mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að stefnendum þessa máls hafi ekki verið gefinn kostur til andmæla af hálfu stefnda íslenska ríkisins. Gildi það um alla málsmeðferð á vegum íslenska ríkisins, einnig þá rýni á athugun stefnda Landsnets hf. sem ráðuneytið hafi látið fara fram. Stefndi íslenska ríkið hafi þannig ráðist í sjálfstæða gagnaöflun, en líkt og fram komi í eignarnámsákvörðuninni hafi ráðuneytið kallað eftir rýni Orkustofnunar, sem hafi þýðingu við úrlausn málsins, á grundvelli þess lögbundna hlutverks sem Orkustofnun hafi, sbr. 2. gr. laga nr. 87/2003, auk þess sem vísað sé til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Þar að auki hafi ráðuneytið óskað eftir rýni frá tveimur ráðgjafafyrirtækjum á framkvæmdarkostum. Því sé mótmælt að líta megi á umrædd ráðgjafafyrirtæki sem dótturfyrirtæki stefnda íslenska ríkisins eða Landsvirkjunar. Að sama skapi sé því mótmælt að unnt sé að samsama stefnda Landsnet hf. og Landsvirkjun og í því sambandi vísað til laga nr. 75/2004, um stofnun Landsnets hf., einkum niðurlags 2. gr., sbr. og 8. gr. raforkulaga. Þótt hin tilvitnuðu ráðgjafafyrirtæki hafi í tímans rás sinnt verkefnum fyrir stefnda íslenska ríkið, líkt og flest önnur ráðgjafafyrirtæki á sviði rafmagnsverkfræði eða skipulagsmála, hafi þau enga aðkomu átt á fyrri stigum að þeirri athugun sem ráðuneytið fól þeim að rýna í aðdraganda ákvörðunar um eignarnám. Þeirri staðhæfingu stefnenda að ekki hafi verið kannað hvort nota mætti jarðstreng vegna Kröflulínu 5 sé mótmælt sem rangri og ósannaðri. Að henni sé vikið í umfjöllun um takmarkaða möguleika á notkun jarðstrengja á svæðinu, m.a. í kerfislegu samhengi. Skoða þurfi lengd jarðstrengshluta í flutningslínum í kerfislegu samhengi með öðrum loftlínum og jarðstrengjum í kerfinu. Meta þurfi hvort kerfið í heild sinni sé rekstrarhæft og áreiðanleiki þess viðunandi. Þá hafi verið horft til þess hvort unnt væri að spennusetja línurnar án þess að spennuþrep fari yfir mörk og eins hvort kerfið þoli að línur leysi fyrirvaralaust út. Einnig þurfi að hafa í huga mögulega framtíðarþróun kerfisins, til dæmis hvort jarðstrengshluti í línu muni hafa takmarkandi áhrif á mögulega lengd jarðstrengshluta lína sem byggðar verði í framtíðinni.

                Stefndi Landsnet hf. mótmælir öllum málsástæðum stefnenda, sem byggist á því að ekki hafi verið kannaðir aðrir valkostir en flutningur rafmagns með 220 kV háspennulínum yfir land þeirra, sem röngum og ósönnuðum. Það sama eigi við um málsástæður stefnenda þess efnis að stefndi íslenska ríkið hafi horft fram hjá röksemdum stefnenda eða andmælum um lagaskilyrði um almenningsþörf og meðalhóf vegna eignarnámsákvörðunarinnar. Þá sé fullyrðingum stefnenda, um að gögn sem stafi frá stefnda séu „einhliða yfirlýsingar“ og „slík gögn“ hafi ekkert sönnunargildi um almenningsþörf, mótmælt sem röngum. Niðurstaða sjálfstæðrar og hlutlausrar umfjöllunar stefnda íslenska ríkisins hafi leitt til þess að hafnað hafi verið sjónarmiðum stefnenda um frekari flutningskosti, sem stefnendur hafi bent á, sem óraunhæfum. Stefndi Landsnet hf. tekur undir þá niðurstöðu. Í stefnu vísi stefnendur í þessu samhengi með mjög almennum og rökstuddum hætti til þess mats síns að aðrir kostir séu í boði sem mun hagfelldara væri fyrir stefnda Landsnet hf. að velja fremur en þá kosti sem hafi verið ákveðnir í lögbundnum ferlum. Hins vegar hafi stefnendur hvorki látið þessa þætti málsins til sín taka við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna né við gerð svæðisskipulags. Á síðari stjórnsýslustigum hafi þeir gert athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum og óskað endurskoðunar á því, en Skipulagsstofnun hafi hafnað þeirri beiðni. Þar að auki séu fullyrðingar stefnenda rangar um aðra valkosti fyrir framkvæmdirnar sem eignarnámsákvörðunin nær til. Þannig líti stefnendur fram hjá því að í eignarnámsákvörðuninni hafi verið bent á að mat á því hvort Kröflulína 4 geti verið á lægra spennustigi, eða 132 kV í stað 220 kV, sé sérfræðilegt mat sem stefndi Landsnet hf., sem flutningsfyrirtæki raforku, hafi metið í kerfisáætlun meðal annars á grundvelli framtíðaruppbyggingar á svæðinu sem land stefnenda tilheyri, öryggisatriða, afhendingaröryggis, og kerfisstjórnunar flutningskerfisins. Stefndi íslenska ríkið bendi á að þetta mat hafi verið endurskoðað af Orkustofnun við lögbundna yfirferð stofnunarinnar á kerfisáætlun stefnda Landsnets hf. í samræmi við fyrirmæli raforkulaga. Orkustofnun hafi þar aflað upplýsinga frá stefnda Landsneti hf. og nánari rökstuðnings fyrir niðurstöðu matsins áður en samþykki Orkustofnunar 25. apríl 2016, fyrir kerfisáætlun 2015-2024, hafi verið veitt. Þá komi fram í athugun stefnda Landsnets hf. að 220 kV háspennulína hafi orðið fyrir valinu þar sem gert væri ráð fyrir frekari iðnaðaruppbyggingu á iðnaðarsvæðinu á Bakka, en flutningur á 132 kV spennu fullnægi ekki þeirri framtíðarþörf. Jafnframt sé það niðurstaða rýni sérfræðinga Lotu ehf. að flutningsþörf sé skynsamlega metin sem 400 MVA og til þess þurfi 220 kV háspennulínu.

                Stefndi Landsnet hf. mótmælir sem rangri þeirri fullyrðingu stefnenda að eignarnámsákvörðun byggi á röngum forsendum enda geri hún ráð fyrir tveimur háspennulínum frá Kröflu að Bakka. Mikilvægt sé að hafa í huga að eignarnámsákvörðunin varði eingöngu óskipt land Reykjahlíðar og tilhögun framkvæmda þar, það er að tvær háspennulínur liggi samhliða þar um. Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 46/2016 frá 10. október 2016 hafi fjallað um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og rakið það mat sem hafi farið fram á umhverfisáhrifum háspennulína, þar á meðal Kröflulínu 4. Áhrif þeirra hafi einnig verið metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum. Fram komi að úrskurðarnefndin telji, að þrátt fyrir að fallið hafi verið frá áformum um álver á Bakka, sé engum vafa undirorpið að mat á háspennulínum sérstaklega, greini frá áhrifum þeirra framkvæmda, meðal annars á þær framkvæmdir sem mál þetta snýst um. Fram komi að ekki skipti máli í því sambandi að ekki standi til nú að leggja allar þær línur sem sameiginlega matið hafi tekið til. Telji úrskurðarnefnd auðlindamála í úrskurði sínum að ekkert liggi annað fyrir en að fyrirhuguð framkvæmd við Kröflulínu 4 í Skútustaðahreppi sé í samræmi við það mat á háspennulínum sem farið hafi fram.

                Stefndi Landsnet hf. byggir á því að samningaviðræður við stefnendur í aðdraganda eignarnámsákvörðunarinnar hafi verið fullreyndar. Slíkar samningaviðræður við landeigendur, um afnot lands og kvaðasetningu þess í þágu flutningskerfisins, fari fram á grundvelli VI. kafla raforkulaga um skyldur landeigenda og eignarnáms- og bótaákvæði, einkum 1. mgr. 21. gr. og 23. gr. laganna. Ekki sé um að ræða frjálsa samninga heldur lögbundna skyldu stefnda Landsnets hf. til að semja um endurgjald vegna afnota af landi í þágu tiltekinnar framkvæmdar sem ákveðið hafi verið að ráðast í á grundvelli raforkulaga. Samningaviðræður verði að fara fram og á málefnalegan hátt. Þess hafi stefndi gætt í samningaviðræðum við stefnendur. Vilji landeigendur hins vegar ekki veita heimild til framkvæmdar sé stefnda Landsneti hf. rétt og skylt að óska eignarnámsheimildar á grundvelli 23. gr. raforkulaga. Beiðni um eignarnám hafi því verið lögð fram 21. september 2015

                Fyrstu samningafundir stefnda Landsnets hf. við stefnendur hafi farið fram með eigendum einstakra jarða í júní 2014. Jörðin Reykjahlíð sé í óskiptri sameign sjö lögbýla, nánar tiltekið Reykjahlíðar 1-4, Reynihlíðar, Víðihlíðar og Bjargs. Að venju hafi verið haft samband við Landeigendur Reykjahlíðar ehf. um samningafundi vegna landeigenda í óskiptu landi Reykjahlíðar, mörg fordæmi séu fyrir þeirri nálgun og að félagið hafi samið fyrir hönd landeigenda í sambærilegum málum og átt aðild að dómsmálum vegna þinglýstra fasteignaréttinda fyrir hönd landeigenda Reykjahlíðar. Þá eigi allir þinglýstir eigendur í Reykjahlíð eignarhlut í einkahlutafélaginu, þar með talið stefnendur. Á fyrsta samningafundi 25. júní 2014 hafi fulltrúi landeigenda í óskiptu landi Reykjahlíðar tekið fram að einkahlutafélagið Landeigendur Reykjahlíðar ehf. yrði samningsaðili samkvæmt umboði frá þinglýstum eigendum hinna sjö lögbýla sem eiga hið óskipta land Reykjahlíðar og óskað eftir því að samningar tækju mið af því. Síðar hafi komið í ljós að hluti landeigenda, þar á meðal stefnendur, hafi ekki viljað veita Landeigendum Reykjahlíðar ehf. umboð sitt. Í því ljósi hafi stefndi Landsnet hf. boðið þeim hópi til samningaviðræðna. Fyrir hafi legið að kanna að hvaða marki sjónarmið minnihluta landeigenda í óskiptu landi Reykjahlíðar vörðuðu framkvæmdina og forsendur hennar og að hvaða marki væri eðlilegt að taka tillit til annarra hagsmuna en þeirra sem þegar hafi þá komið fram af hálfu meirihluta landeigenda.

                Stefndi mótmælir því hins vegar sem röngu og ósönnuðu að hann hafi lengst af eingöngu staðið í samningaviðræðum við Landeigendur Reykjahlíðar ehf. eða að samningaviðræður við stefnendur hafi hafist seint og verið með mjög einhliða hætti. Þá sé því mótmælt að engar efnisviðræður hafi farið fram við stefnendur líkt og þeir haldi fram eða að fulltrúar stefnda hafi ekki haft umboð til samninga við þá. Staðfesta beri hins vegar þá niðurstöðu stefnda íslenska ríkisins í eignarnámsákvörðun að ekki hafi verið raunhæft, með hliðsjón af gögnum málsins og atvikum öllum, að ætla að frekari samningaviðræður hafi getað leitt til þess að samkomulag myndi nást við stefnendur um umræddar framkvæmdir.

                Samningaviðræður við stefnendur hafi verið ítarlegar og lengri en við aðra landeigendur, en hafi ekki borið árangur vegna andstöðu þeirra við framkvæmdina. Stefndi sendi bréf 10. desember 2014 til þeirra tíu landeigenda sem ekki höfðu veitt Landeigendum Reykjahlíðar ehf. umboð til að semja um bætur vegna framkvæmdanna. Meðfylgjandi bréfinu hafi verið tilboð frá 6. október 2014 um fébætur vegna óskipts lands Reykjahlíðar, ásamt drögum að samkomulagi um fébætur við landeigendur, yfirlýsing vegna kvaðarinnar og yfirlitskort. Með bréfi þessu hafi landeigendur verið boðaðir á fund 14. janúar 2015. Þar að auki hafi símleiðis verið haft samband við stefnanda, Finn Sigfús, í desember 2014 þar sem hann hafi þá verið á leið til útlanda og reynt að koma á fundi með honum í Reykjavík. Það hafi ekki gengið eftir og ekki heldur þegar hann hafi snúið aftur til landsins. Ljóst sé að upphaf og umfang samningaviðræðna hafi ekki afmarkast af þátttöku þessa eina stefnanda, en afstaða hans hafi verið skýr.

                Boðað hafi verið á ný til samningafundar 20. apríl 2015 en honum hafi síðar verið frestað til 4. maí 2015. Á þeim fundi, með stefnendum og fleiri landeigendum, hafi komið fram mótmæli stefnenda við línuleiðinni. Jafnframt hafi komið skýrt fram sú afstaða stefnenda að ekki yrði gengið til samninga á grundvelli þeirrar framkvæmdar sem stefndi hugðist ráðast í heldur með því annaðhvort að finna línunum nýtt stæði eða leggja jarðstrengi í stað háspennulína. Ljóst hafi verið að mati stefnda að slíkar kröfur fælu í sér að grundvöllur samningaviðræðna um tiltekna framkvæmd hafi verið brostinn. Stefnendum hafi verið ljóst að kröfur þær sem þeir hafi sett fram hafi ekki byggt á framkvæmdum sem farið hefðu í gegnum lögbundið ferli og verið ákveðnar á skipulagi. Af hálfu stefnenda hafi verið litið fram hjá áralöngum undirbúningi og opinberri stefnumótun sem hafi legið að baki framkvæmdunum. Á fundinum hafi stefndi áréttað að samningaviðræður snérust um þá þætti sem vörðuðu framkvæmdina og samning um eignarnám og afstöðu landeigenda til þeirra bóta sem hafi verið boðnar. Óskað hafi verið eftir afstöðu landeigenda um hvort þeir myndu semja um bætur fyrir framkvæmdina sem stefndi hugðist ráðast í. Á þessum fundi hafi af hálfu stefnda verið upplýst að stefnt væri að því að ljúka samningaviðræðum fyrir 1. júlí 2015, enda hefði landeigendum þá gefist gott ráðrúm til að taka afstöðu til samningstilboðsins.

                Skömmu eftir fundinn 4. maí 2015 hafi nokkrir landeigendur, þar á meðal stefnendur, lagt fram beiðni hjá Skipulagsstofnun um endurskoðun á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Þrátt fyrir andmæli stefnenda hafi stefndi ávallt litið svo á að sú afstaða stefnenda, að hafna því að ganga til samninga um framkvæmdir þær sem stefndi hafði þá þegar undirbúið, hefði greinilega falið í sér að heimild fyrir þeim yrði ekki veitt af þeirra hálfu. Stefnendur geti ekki með útúrsnúningi eða málalengingum dregið fjöður yfir þá staðreynd. Stefndi Landsnet hf. tekur undir það sem fram komi í eignarnámsákvörðun um að stefndi íslenska ríkið telji ljóst af gögnum málsins að stefnendur hafi getað gert gagntilboð og fundað með stefnda Landsneti hf., hafi staðið vilji til þess af þeirra hálfu.

                Landeigendur hafi hinn 15. júní 2015 verið boðaðir til fundar 30. júní 2015 af hálfu stefnda Landsnets hf., með ítarlegu bréfi. Þar hafi ítarlega verið fjallað um sjónarmið landeigenda og veittar upplýsingar og skýringar á því af hverju ekki væri unnt að fallast á sjónarmið stefnenda og eftir atvikum voru veitt svör við spurningum þeirra. Jafnframt hafi stefndi skorað á landeigendur, þar með talið stefnendur, að taka skýra og afdráttarlausa afstöðu til samningstilboðs stefnda. Á fundinum 30. júní 2015 hafi stefnendur og þrír aðrir landeigendur lagt fram bókun. Á fundinum hafi stefndi kallað eftir skýrri afstöðu til samningstilboðsins og tekið fram að ella yrði litið svo á að samningar myndu ekki takast og að leitað yrði eignarnámsheimildar. Á fundinum hafi verið ákveðið að boða á ný til fundar 6. júlí 2015 og hafi fulltrúar stefnda mætt á hann, en hvorki stefnendur né lögmaður þeirra þrátt fyrir sérstaka boðun. Ekki hafi heldur verið stungið upp á nýjum fundartíma af þeirra hálfu.

                Með bréfi 22. júlí 2015 hafi verið tilkynnt að frekari samningaviðræðum yrði ekki haldið áfram við stefnendur í ljósi afstöðu þeirra, þó með þeim formerkjum að ávallt væri hægt að leita samninga ef afstaða landeigenda breyttist. Í eignarnámsákvörðun sé, af hálfu stefnda íslenska ríkisins, tekið fram að af bréfum lögmanns stefnenda í ágúst og september 2015, hafi mátt ráða að stefnendur hafi ekki verið til viðræðu fyrr en niðurstaða Skipulagsstofnunar, sem óskað hafi verið eftir af hálfu stefnenda í kjölfar fundar 4. maí 2015, lægi fyrir. Undir það mat stefnda íslenska ríkisins taki stefndi Landsnet hf.

                Eftir að dómar hafi fallið í Hæstarétti 12. maí 2016, í málum nr. 511-513 og 541/2015 um eignarnámsákvarðanir vegna Suðurnesjalínu 2, hafi stefndi íslenska ríkið óskað eftir upplýsingum um hvort mögulegt væri að leggja Kröflulínu 4 sem 220 kV háspennulínu í jörðu og hvernig slík framkvæmd myndi samræmast stefnu stjórnvalda um lagningu raflína samkvæmt þingsályktun nr. 11/144. Óskað hafi verið eftir rýni sérfræðinga og Orkustofnunar á þeim upplýsingum sem stefndi hafi þá veitt.

                Fram komi í eignarnámsákvörðun að í bréfi 3. ágúst 2016 hafi verið skorað á stefnendur, sem og aðra landeigendur sem eignarnámsbeiðni hafi beinst að, og stefnda Landsnet hf. að reyna að ná samningum. Stefndi mótmælir málsatvikalýsingu stefnenda um þennan þátt sérstaklega. Í stefnu sé því ýmist haldið fram að frumkvæðisskylda til samninga hafi hvílt á stefnda eða að stefndi hafi boðað einhliða og án samráðs til funda. Hið rétta sé að stefndi hafi ítrekað reynt að ná fundi lögmanns stefnenda í ágúst 2016 og hafi bæði verið lagðir til fundartímar og óskað eftir tillögu um þá. Stefndi tekur undir þá niðurstöðu í eignarnámsákvörðun að stefndi hafi gefið stefnendum ríkt tækifæri og svigrúm til frekari viðræðna og reynt til hins ítrasta að ná fram frekari samskiptum og samningum, stefnendur sem eignarnámsþolar hafi hins vegar sýnt af sér athafnaleysi.

                Fjallað hafi verið um alla þá þætti sem stefnendur hafi bent á um tilhögun þeirrar framkvæmdar sem stefnda sé nauðsynlegt að ráðast í. Fyrir liggi upplýsingar um notkun jarðstrengs við framkvæmdina og einnig upplýsingar um leiðarval. Eins og fram komi í bréfi stefnenda til stefnda íslenska ríkisins 19. ágúst 2016, þar sem greint sé frá niðurstöðum tilrauna til samningaviðræða til samræmis við áskorun ráðuneytisins þar um, hafi þrír eignarnámsþolar samið við stefnda í ágúst 2016 og hafi eignarnámsbeiðni því verið afturkölluð er þátt þeirra hafi varðað. Stefnendum þessa máls hafi einnig boðist að semja á sama grundvelli. Þá yrði líka að benda á að í desember 2016, er ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. nóvember 2016 hafi legið fyrir, hafi tveir eignarnámsþolar til viðbótar samið um bætur við stefnda. Þrátt fyrir að stefnendur hafi við samningaviðræður haldið því fram að nauðsynlegt hafi verið að bíða umræddrar niðurstöðu hafi hún engu breytt um afstöðu þeirra og þeir hafi ekki leitað eftir samningi við stefnda. Á þeim tímapunkti hafi samningar náðst við alla sameigendur stefnenda að óskiptu landi Reykjahlíðar um bætur vegna framkvæmdanna og þeirra kvaða sem leggjast skyldu á landið.

                Stefndi mótmælir því að hann hafi brotið gróflega gegn skyldu sinni til samráðs við stefnendur við undirbúning framkvæmdarinnar. Stefnendur, líkt og aðrir hagsmunaaðilar, hafi getað gert athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna eða svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum, það hafi þeir hins vegar ekki gert. Verði því að telja að stefnendur hafi á síðari stigum viljað gjörbreyta fyrirliggjandi skipulagsákvörðunum, en slíkri málaumleitan hafi verið hafnað af Skipulagsstofnun. Lögbundin ferli líkt og mat á umhverfisáhrifum og gerð skipulagsáætlana byggi beinlínis á því að hagsmunaaðilar hafi getað komið á framfæri athugasemdum við undirbúning þeirra, þar með talið landeigendur. Á þessu umsagnarferli byggi Árósasamningur og reglur EES-réttar sem íslensk lög séu í samræmi við. Stefnendur hafi átt þess kost að hafa áhrif á ákvörðun um tilhögun þeirrar framkvæmdar sem skerði eignarréttindi þeirra. Framkvæmdirnar hafi sætt lögbundnu kynningarferli.

                Því sé mótmælt sem röngu og villandi að 72. gr. stjórnarskrár og 1. gr. 1. viðaukasamnings við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, feli í sér skyldu til að leita beinna samninga við landeigendur um allt ferli fyrirhugaðrar eignarskerðingar, þ.e. til að leita samninga við þá um framkvæmdir á landi þeirra, fyrirkomulag framkvæmda, alla útfærslu og loks bætur til þeirra líkt og fram komi í stefnu. Áður hafi verið vikið að ákvæðum 23. gr. raforkulaga sem fjalla sérstaklega um endurgjald fyrir landnot vegna framkvæmdar.

                Stefndi vísar til þess að almennar sönnunarreglur réttarfarslaga nái til málatilbúnaðar stefnenda, sú krafa verði þar af leiðandi gerð til þeirra að þeir sanni staðhæfingar sínar og beri sönnunarbyrði fyrir þeim. Það hafi stefnendum ekki tekist. Stefndi Landsnet hf. hafi ekki sjálfur tekið eignarnámsákvörðun þá sem um sé þrætt í málinu, heldur stefndi íslenska ríkið, sem hafi tekið beiðni hans um eignarnám á landi stefnenda til málsmeðferðar eftir reglum stjórnsýsluréttar og hafi tekið ákvörðun byggða á lögum og lögbundnu mati framkvæmdavaldsins, sbr. 2. gr. stjskr. Ekkert hafi komið fram um að gagnaöflun hafi verið áfátt á stjórnsýslustigi málsins eða að skort hafi á að skilyrði eignarnáms væru fyrir hendi.

                Stefndi hafnar umfjöllun stefnenda um friðlýsingu sem rangri og málinu óviðkomandi og komi hún því ekki til skoðunar við mat á því hvort skilyrði eignarnáms séu fyrir hendi. Sérstaklega sé því vísað á bug að óheimilt sé að leggja loftlínu gegnum Leirhnjúkshraun þar sem það njóti bráðabirgðaverndar skv. bráðabirgðaákvæði II í lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 46/2016. Byggi stefndi á niðurstöðu nefndarinnar sem sem ekki sæti endurskoðun í þessu máli.

                Stefndi hafnar umfjöllun stefnenda um stöðu og gildi þingsályktunar nr. 11/144, frá 28. maí 2015 sem rangri. Hið sama gildi um umfjöllun stefnenda um 1. mgr. 9. gr. raforkulaga. Í eignarnámsákvörðun sé fjallað um þingsályktunartillöguna og vísar stefndi til þess. Stefndi telur að samkvæmt þeim viðmiðum sem fram komi í þingsályktuninni beri almennt séð ekki að leggja Kröflulínu 4 sem jarðstreng og undir það taki Orkustofnun og aðrir sérfræðingar sem stefndi íslenska ríkið hafi leitað til um rýni.

                Stefndi gerir þá kröfu að stefnendum verði, sameiginlega (in solidum), gert að greiða honum málskostnað í samræmi við framlagt málskostnaðaryfirlit eða reikning, eða eftir mati dómsins, sbr. XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr.

                Um lagarök vísar stefndi Landsnet hf. einkum til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, aðallega 2. og 72. gr., mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, raforkulaga nr. 65/2003, aðallega 1. gr., III. og VI. kafla, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 75/2004, um stofnun Landsnets hf., laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, laga nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, skipulagslaga nr. 123/2010, laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd í umhverfis- og auðlindamálum, og laga nr. 41/2013 og 52/2013.

IV.

Stefndi íslenska ríkið mótmælir kröfugerð og málatilbúnaði stefnanda og krefst sýknu af kröfum stefnenda. Stefndi byggir á því að ákvörðun ráðherra um eignarnám hafi verið vönduð og ítarleg og ekki verið haldin neinum þeim annmörkum sem leiði til þess að hún sé ógildanleg. Farið hafi verið að lögum við ákvörðun um eignarnám. Fyrir eignarnáminu hafi verið ótvíræð heimild í lögum, sbr. 1. mgr. 23. gr. raforkulaga. Um framkvæmd eignarnámsins hafi síðan farið eftir almennum reglum, sbr. 5. mgr. 23. gr. laganna. Ákvörðunin hafi verið í samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og stjórnsýslulög nr. 37/1993.

                Stefndi hafnar því að hann hafi brotið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, enda hafi ráðuneytið rannsakað málið með umfangsmiklum og sjálfstæðum hætti, ekki síst þann möguleika að leggja jarðstreng í stað raflínu á landi stefnenda. Stefndi byggir jafnframt á því að ekki hafi verið brotið gegn andmælarétti stefnenda. Stefnendum hafi verið gefinn kostur á að koma að ítarlegum athugasemdum á öllum stigum málsins og hafi sjónarmið þeirra legið fyrir er stefndi hafi tekið ákvörðun um að heimila eignarnám. Hafi málsmeðferð stefnda því verið í samræmi við lög og staðhæfingum um annað sé mótmælt sem ósönnuðum og röngum.

                Stefndi byggir á því að skilyrði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um að almenningsþörf krefjist eignarnámsins séu fyrir hendi og jafnframt að skilyrði 23. gr. raforkulaga um að eignarnám skuli eingöngu ákvarðað að því leyti sem nauðsyn beri til, séu fyrir hendi. Hin umþrætta eignarnámsákvörðun sé því lögmæt. Öryggi raforkuafhendingar falli undir mikilvæga almannahagsmuni, enda komi fram í 1. gr. raforkulaga að markmið þeirra sé að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi. Í því skyni skuli meðal annars tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda.

                Stefndi Landsnet hf. hafi bæði ábyrgð og skyldur sem fylgi einkarétti félagsins til flutnings rafmagns í landinu, sbr. III. kafla raforkulaga. Landsnet hf. beri ábyrgð á uppbyggingu flutningskerfis raforku hérlendis og kerfisstjórnun, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Flutningskerfið flytji rafmagn frá virkjunum til stórnotenda og dreifiveitna. Landsnet hf. þurfi að tengja þá aðila sem óski eftir því og tryggja öryggi kerfisins og áreiðanleika afhendingar rafmagns. Stefndi íslenska ríkið telji nægileg rök fram komin fyrir því að brýn þörf sé á styrkingu raforkuflutningakerfisins á svæðinu sem land stefnenda tilheyri. Kröflulína 4 og 5 verði byggðar með þarfir hins almenna flutningskerfis raforku í huga til lengri tíma og með tilliti til samfélagslegra hagsmuna. Markmið umræddra framkvæmda, sem eignarnámsbeiðnin snúi að, sé að reisa Kröflulínu 4 sem skuli annast orkuþörf á iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þá sé tilgangur línunnar að tengja jarðgufuvirkjun Landsvirkjunar á Þeistareykjum við meginflutningskerfi raforku í landinu. Kröflulína 5, sem fyrirhugað sé að reisa síðar, hafi það hlutverk að tengja Kröfluvirkjun og fyrirhugað tengivirki á Hólasandi. Kröflulína 5 verði hluti af hringtengdu flutningskerfi raforku í því skyni að auka sveigjanleika og rekstraröryggi flutningskerfisins til framtíðar. Kröflusvæðið sé lykiltengipunktur flutningskerfis raforku á Norðausturlandi, hvort sem litið sé til byggðalínu, tengingar Þeistareykjavirkjunar eða atvinnuuppbyggingar á Bakka. Löggjafinn hafi af þessu tilefni sett lög nr. 41/2013, um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, og lög nr. 52/2013, um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi.

                Í 1. gr. raforkulaga komi fram að markmið þeirra sé að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi. Í því skyni skuli meðal annars tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda. Um skyldur flutningsfyrirtækisins segi í 1. mgr. 9. gr. laganna, að byggja skuli flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sbr. einnig það sem fram komi í frumvarpi til raforkulaga. Löggjafinn líti því svo á að öryggi raforkuafhendingar falli undir mikilvæga almannahagsmuni og sýnt hafi verið fram á með óumdeildum hætti að út frá afhendingaröryggi raforku sé þörf á hinni skilgreindu framkvæmd Kröflulínu 4 og 5. Löggjafinn hafi metið það svo að afhendingaröryggi raforku teljist til almannahagsmuna og fordæmi séu fyrir því að eignarnám hafi verið heimilað á þeim grunni. Stefndi telji að líta verði á flutningskerfi raforku sem hluta af grunninnviðum samfélagsins og sýnt hafi verið fram á þörf framkvæmdarinnar með fullnægjandi hætti. Eignarnámið sé nauðsynleg forsenda framkvæmdarinnar því fyrir liggi að stefnendur vilji ekki heimila hana með öðrum hætti.

                Stefndi byggir á því að við mat á almenningsþörf hafi sá valkostur að leggja Kröflulínu 4 og 5 í jörðu komið til skoðunar. Stefndi hafi þar tekið tillit til röksemda stefnenda í þá átt og um leið gætt að þeirri skyldu sinni að tryggja að stefndi Landsnet hf. hafi kannað með raunverulegum hætti þá framkvæmakosti sem gætu náð markmiði framkvæmdarinnar. Hafi stefnandi þar hugað að skilyrðum 72. gr. stjórnarskrárinnar um að gæta meðalhófs við mat á almenningsþörf, sem og eignaréttarákvæðis 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig hafi stefndi gætt að meðalhófsreglu 12. gr. og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Málsástæðum stefnenda á annan veg mótmælir stefndi sem röngum og ósönnuðum.

                Stefndi mótmælir því að ráðuneytið hafi ekki skoðað framkvæmdakosti með sjálfstæðum hætti. Í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands frá 12. maí 2016 í málum nr. 511-513/2015 og 541/2015, þar sem eignarnám vegna Suðurnesjalínu 2 hafi verið fellt úr gildi, hafi ráðuneytið ákveðið að kalla eftir nánari gögnum frá Landsneti hf. um möguleika á jarðstreng vegna framkvæmdarinnar. Þeirri fyrirspurn hafi stefndi Landsnet hf. svarað með skýrslu sem verkfræðistofan Efla hf. hafi unnið og hafi verið kynnt stefnendum 2. júní 2016. Ráðuneytið hafi þessu til viðbótar ákveðið að fá tvo óháða aðila, auk Orkustofnunar, til að rýna skýrslu Eflu hf. Með þessum hætti hafi ráðuneytið uppfyllt á fullnægjandi hátt rannsóknarskyldu sem á því hvíli. Þessi gögn málsins hafi svo verið send stefnendum 3. ágúst 2016 og skorað á aðila að reyna að ná sáttum. Í kjölfarið hafi náðst samningar við þrjá sameigendur stefnenda til viðbótar við þá sem þegar hafi verið búið að ná samningum við. Ákvörðun um að heimila eignarnám á landi stefnenda hafi að endingu verið tekin 14. október 2016.

                Dómar Hæstaréttar frá 12. maí 2016 hafi ekki fordæmisgildi í máli þessu enda séu málin ekki sambærileg. Þar hafi ekki verið gerð sérstök athugun á notkun jarðstrengs í stað háspennulínu heldur einungis vísað til almennrar umfjöllunar og gagna Landsnets hf. þar að lútandi. Ólík aðstaða sé uppi í þessu máli svo sem að framan er rakið.

                Þá hafi meðalhófs verið gætt við útfærslu framkvæmdarinnar og hafi því verið fallist á beiðni stefnda Landsnets hf. um eignarnám.

                Stefndi byggir á því að hagsmunaðilar hafi komið á framfæri athugasemdum sínum í skipulags- og matsferli vegna Kröflulínu 4 og 5 líkt og sjáist af gögnum málsins. Jafnframt hafi opinberar stofnanir komið sínum sjónarmiðum að. Skipulags- og matsferli framkvæmdar feli í sér að stefndi Landsnet hf. geti ekki ákveðið upp á sitt eindæmi hvaða leið sé valin. Þá þurfi að horfa til stefnu stjórnvalda í þessum efnum en hana megi finna í þingsályktun nr. 11/144 um lagningu raflínu frá 28. maí 2015. Í ljósi þess að málið hafi verið fullnægjandi rannsakað og útilokað að annar framkvæmdakostur væri mögulegur á landi stefnenda til að ná markmiðum raforkulaga og þar sem krafa um eignarnám hafi verið nægilega afmörkuð hafi meðalhófs verið gætt.

                Mat á því hvort Kröflulína 4 geti verið á lægra spennustigi, það er 132 kV samanborið við 220 kV, sé sérfræðilegt mat sem flutningsfyrirtækið, stefndi Landsnet hf., meti í kerfisáætlun á grundvelli framtíðaruppbyggingar á svæðinu, öryggisatriða, afhendingaröryggis og kerfisstjórnunar flutningskerfisins, ásamt fleiri þáttum. Þetta mat sé svo endurskoðað af Orkustofnun við yfirferð kerfisáætlunar eins og kveðið sé á um í raforkulögum. Samþykki Orkustofnunar 25. apríl 2016 liggi fyrir á kerfisáætlun stefnda Landsnets hf. fyrir tímabilið 2015-2024. Í þeirri ákvörðun Orkustofnunar komi fram að stofnunin hafi óskað eftir skýringum á ákveðnum þáttum kerfisáætlunarinnar áður en hún hafi verið samþykkt. Meðal annars hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum stefnda Landsnets hf. vegna Kröflulínu 4. Fram komi í svarbréfi stefnda Landsnets hf. 8. apríl 2016 til Orkustofnunar, að við valkostagreiningu hafi tveir kostir verið skoðaðir við uppbyggingu flutningskerfisins á Norðausturlandi frá Kröflu að Bakka, annars vegar að byggja 132 kV háspennulínu og hins vegar að byggja 220 kV háspennulínu. Ástæða þess að 220 kV lína hafi orðið fyrir valinu sé sú að gert sé ráð fyrir frekari iðnaðaruppbyggingu á iðnaðarsvæðinu Bakka og 132 kV lína myndi ekki sinna þeirri framtíðarþörf. Í skýrslu Eflu hf. með athugun á jarðstreng sem kost í 220 kV Kröflulínu 4, sé síðan gert ráð fyrir því að jarðstrengur yrði 220 kV. Í rýni Alta ehf. á skýrslu Eflu hf. sé áréttað að efnisatriði sem varði raffræðilega og kerfisfræðilega eiginleika falli utan sérsviðs rýnanda. Í rýni Lotu ehf. á skýrslu Eflu hf. komi fram að það sé mat höfunda að flutningsþörf línunnar sé skynsamlega metin 400 MVA og til þess þurfi 220 kV línu.

                Stefndi byggir á því að við mat á því hvernig staðið sé að uppbyggingu flutningskerfis raforku verði að horfa til lengri tíma og framtíðarþarfa allra viðskiptavina flutningskerfisins, það er dreifiveitna, stórnotenda, virkjana og aðila sem stunda viðskipti með raforku. Gera þurfi ráð fyrir mismunandi sviðsmyndum og þróun næstu áratugina. Kerfið þurfi að vera viðbúið þeim sviðsmyndum sem metnar séu líklegar samkvæmt kerfisáætlun. Þetta mat sé svo yfirfarið af Orkustofnun. Að mati stefnda íslenska ríkisins hafi stefndi Landsnet hf. sýnt fram á að markmiði framkvæmdarinnar yrði ekki náð með fullnægjandi hætti til lengri tíma litið nema með lagningu 220kV línu.

                Niðurstaða skýrslu Eflu hf. varðandi tæknilega möguleika á að leggja jarðstreng vegna framkvæmdarinnar sé að takmarkanir séu á mögulegri lengd jarðstrengs á svæðinu. Meginástæða þess væri einkum skammhlaupsafl sem geti orsakað miklar spennusveiflur og mögnun yfirtóna. Niðurstaða greiningar á raffræðilegum þáttum sé sú að hámarkslengd jarðstrengs sé 11 km en heildarlengd Kröflulínu 4 er 32,8 km. Lengri streng sé ekki hægt að leggja fyrr en frekari styrkingar á kerfinu hafi verið gerðar. Þá komi fram í skýrslunni að eðlilegast væri, ef leggja ætti jarðstreng, að hann yrði lagður sem næst endastöð Kröflu sem sé sterki punkturinn. Í rýniskýrslum sem ráðuneytið hafi kallað eftir sé einnig farið yfir þennan kost. Með hliðsjón af niðurstöðu skýrslu Eflu hf. og rýni óháðra aðila leggur stefndi til grundvallar að 220 kV jarðstrengur geti ekki orðið lengri en 11 km og að rétt hafi verið að miða við endapunkt í Kröflu.

                Í ákvörðun ráðherra hafi verið fjallað um samanburð á kostnaði loftlínu og jarðstrengs. Þar sé vísað í skýrslu Eflu hf. þar sem finna megi samanburð á stofnkostnaði jarðstrengja og loftlínulausnum. Kostnaður vegna loftlínu væri þekktur af mikilli nákvæmni þar sem samningar og/eða bindandi tilboð hafi verið til staðar vegna allra helstu þátta framkvæmdarinnar. Kostnaður við jarðstrengslögn hafi verið metinn og byggst á ítarlegum magntölum og einingaverðum. Hlutfall kostnaðar jarðstrengs á móti loftlínu sé metið 2,56. Í ákvörðuninni komi einnig fram að Lota ehf. og Orkustofnun hafi ekki gert athugasemdir við kostnaðarmat skýrslu Eflu hf.

                Stefnendur mælist til þess að lagður verði jarðstrengur á öðrum stað, þ.e. með fram slóða sem liggi norður frá Stóra-Víti, vestan á Hágöngum og út fyrir Sandmúla sem síðan tengist öðrum slóða sem liggi frá austri til vesturs. Leiðin sem stefnendur leggi til sé um 30 km að lengd en hámarkslengd jarðstrengs væri sem fyrr segi 11 km. Tillögu stefnenda svipi mjög til valkosts sem nefndur hafi verið C3 í greinargerð svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslu 2007-2025. Aðrir kostir hafi þar verið taldir betri eftir heildarskoðun. Með vísan til framangreinds telur stefndi að slíkur kostur sé óraunhæfur.

                Stefndi hafi því metið það svo að meðalhófs hafi verið gætt við útfærslu framkvæmdarinnar. Lagning háspennulínu á þann hátt sem stefndi Landsnet hf. leggi til sé minnst íþyngjandi fyrir landeigendur á línuleiðinni. Öðrum útfærslum fylgi umtalsvert viðbótarrask. Jarðstrengir séu ekki án umhverfisáhrifa, enda séu þeir taldir verri kostur í ákveðinni landgerð, svo sem hrauni, en hluti leiðarinnar liggi um hraun. Virðast stefnendur alfarið líta fram hjá óhjákvæmilegum umhverfisspjöllum sem fyrirséð væru við lagningu jarðstrengs um viðkvæm hraun. Mat stefnenda á kostum jarðstrengs umfram loftlínu sé almenns eðlis og að miklu leyti byggt á úreltum gögnum. Í málinu liggi fyrir skýrslur og rannsóknir sem byggi á nýjustu upplýsingum um jarðstrengi. Þá liggi fyrir í málinu sérstök athugun á jarðstreng sem framkvæmdakosti í 220 kV Kröflulínu 4 sem stefndi íslenska ríkið hafi látið rýna. Slík umfjöllun hljóti að hafa meira vægi en gögn sem fjalli með almennum hætti um jarðstrengi.

                Stefndi íslenska ríkið telji einnig að stefndi Landsnet hf. hafi sýnt fram á að framkvæmdaáform hans falli að skilyrðum sem fram komi í þingsályktun nr. 11/114. Umfjöllun stefnanda um stöðu og gildi þingsályktunarinnar sé mótmælt sem rangri. Hið sama gildi um umfjöllun í stefnu um 1. mgr. 9. gr. raforkulaga.

                Stefndi byggir á því að öll afgreiðsla ákvörðunarinnar hafi verið í samræmi við lög. Ítarleg rannsókn hafi legið að baki ákvörðuninni og gætt hafi verið meðalhófs í hvívetna. Sé því mótmælt fullyrðingum stefnenda um að stefndi hafi skotið sér undan því að taka sjálfstæða og rökstudda ákvörðun í málinu og þar með brotið meðal annars gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Ekki hafi verið færð fyrir því nægileg rök að sá kostur sem stefnendur hafi lagt til sé minna íþyngjandi valkostur fyrir Kröflulínu 4 og 5. Þvert á móti telji stefndi að sá framkvæmdakostur sem sé fyrirhugaður sé sá minnst íþyngjandi. Hafi það verið niðurstaða ráðuneytisins eftir umfangsmikla yfirferð á öllum gögnum málsins og röksemdum aðila.

                Stefndi íslenska ríkið byggir á því að samningaviðræður milli stefnda Landsnets hf. og stefnenda hafi verið fullreyndar. Samningaviðræður hafi staðið yfir frá júní 2014. Þær séu skjalfestar með tölvubréfum og undirrituðum fundargerðum, að undanskilinni fundargerð 30. júní 2015 sem ágreiningur hafi verið um, líkt og fram komi í eignarnámsákvörðun ráðuneytisins. Auk þess hafi ráðuneytið 3. ágúst 2016 sent aðilum málsins bréf og hvatt þá til að reyna til þrautar að ná samningum. Eftir áskorun ráðuneytisins hafi náðst samningar við þrjá landeigendur til viðbótar. Því hafi eignarnám að endingu verið heimilað, enda hafi samningaviðræður við stefnendur verið fullreyndar.

                Stefndi íslenska ríkið telji ljóst af gögnum málsins að landeigendur hafi getað gert gagntilboð við framkomið tilboð stefnda Landsnets hf og átt kost á að funda með þeim stefnda. Stefnendur hafi mótmælt því sérstaklega að á fundi 30. júní 2014 yrði boðað til annars fundar 6. júlí 2015. Eftir fundinn 6. júlí 2015 hafi stefndi Landsnet hf. hins vegar haldið opnum möguleikanum á frekari samningaviðræðum. Í bréfi 22. júlí 2015, þar sem fyrirtækið hafi tilkynnt slit á samningaviðræðum, hafi verið tekið fram að ekki yrði boðað til frekari samningaviðræðna nema að frumkvæði stefnenda og þá á grundvelli breyttrar afstöðu þeirra. Stefnendur hafi á þessum tíma hvorki svarað tilboði stefnda Landsnets hf. né gert gagntilboð. Þá hafi stefnendur ekki leitað eftir því að funda með stefnda Landsneti hf. vegna málsins. Af bréfum lögmanns stefnenda 21. ágúst og 30. september 2015 megi ráða að stefnendur hafi ekki verið til viðræðu fyrr en niðurstaða Skipulagsstofnunar um endurupptöku umhverfismats lægi fyrir. Eftir fyrrgreinda áskorun ráðuneytisins 3. ágúst 2016 hafi náðst samningar við þrjá landeigendur og hafi þar með verið búið að semja við 98% landeigenda. Ekki hafi tekist að halda fund með lögmanni stefnenda þrátt fyrir tilraunir lögmanna stefnda Landsnets hf. Stefnendur hafi ekki svarað tilboði stefnda Landsnets hf. um fébætur en þess í stað gert athugasemdir við að frestir í málinu væru ekki nægilega langir og rannsakendur málsins væru ekki óháðir stefndu. Að mati stefnda beri erindi stefnenda og gögn stefnda Landsnets hf. í sér vísbendingu um að samningaviðræður hafi verið fullreyndar.

                Stefndi íslenska ríkið telji gögn málsins sýna fram á að stefndi Landsnet hf. hafi gefið stefnendum ríkt tækifæri og svigrúm til frekari viðræðna og reynt til hins ítrasta að ná fram frekari samskiptum og samningum. Að mati stefnda sé ekki raunhæft að ætla, með vísan til gagna málsins og samskipta málsaðila, að frekari samningaviðræður hafi getað leitt til þess að samkomulag næðist um umrædda framkvæmd. Að mati stefnda hafi borið að líta svo á að það skilyrði eignarnáms væri uppfyllt að samningaviðræður vegna framkvæmdarinnar væru fullreyndar. Að því virtu byggi stefndi íslenska ríkið á því að stefndi Landsnet hf. hafi með sannanlegum hætti leitast við að ná samningum við stefnendur. Sé því mótmælt öllum málsástæðum stefnenda sem lúti að skorti á samningaviðræðum.

                Stefndi mótmælir þeim staðhæfingum stefnenda að brotið hafi verið á andmælarétti þeirra. Er því haldið fram að stefndi hafi brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga með því að leggja minnisblað Lotu ehf. 29. júní 2016, minnisblað Alta ehf. og rýni Orkustofnunar, hvort tveggja frá 6. júlí 2016, til grundvallar ákvörðun um eignarnám án þess að gefa stefnendum færi á að koma að andmælum við þessi skjöl. Þessar staðhæfingar séu bæði rangar og ósannaðar. Frumgagnið sé skýrsla verkfræðistofunnar Eflu hf. frá maí 2016. Stefndi hafi lagt það í hendur stefnda Landsnets hf. að gera úttekt á jarðstreng sem framkvæmdakosti í stað loftlínu. Síðar hafi stefndi íslenska ríkið falið Orkustofnun, sem ráðgjafa stjórnvalda á sviði orkumála, og tveimur óháðum aðilum, að gera úttekt á skýrslunni og hvort þær forsendur sem þar hafi verið lagðar til grundvallar stæðust. Skýrsla Eflu hf. hafi verið send til stefnenda 2. júní 2016. Sjálfstæð gagnaöflun ráðuneytisins hafi verið liður í því að rannsaka málið. Aðilar máls hafi hins vegar haft frumgagnið, skýrslu Eflu hf., og hafi verið gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum vegna hennar 2. júní 2016 þegar hún hafði borist ráðuneytinu. Um leið og rýniskýrslurnar þrjár hafi legið fyrir hafi stefnendur fengið þær afhentar og getað komið á framfæri athugasemdum. Skýrsla Orkustofnunar hafi og verið send lögmanni stefnenda 6. júlí 2016, um leið og hún hafi borist ráðuneytinu. Hið sama gildi um skýrslur Öltu ehf. og Lotu ehf. Stefnendur hafi fengið þær í hendur um leið og þær hafi borist ráðuneytinu og gefist kostur á að gera athugasemdir við þær. Óskað hafi verið eftir andmælum stefnenda við skýrslu Eflu hf. 2. júní 2016. Stefnendur hafi farið fram á frest til 30. september 2016 til að bregðast við henni. Ráðuneytið hafi ekki sett sig upp á móti því að stefnendur leituðu til sérfróðra aðila til að rýna skýrsluna. Fresturinn sem óskað hafi verið eftir hafi hins vegar verið metinn of langur. Stefnendur hafi ekki nefnt hvaða aðila þeir hafi viljað fá til verksins og virðist heldur ekki hafa gert tilraun til að fá fram rýni á skemmri tíma. Ráðuneytið hafi þurft að horfa til málshraða í þessu samhengi og með vísan til þess hafi ekki verið fært að verða við kröfu stefnenda um svo langan frest.

                Áður en skýrsla Eflu hf. hafi verið lögð fram hafi málið þegar farið þrjár umferðir hjá aðilum þess. Stefnendum hafi ítrekað verið gefið færi á að koma að gögnum og athugasemdum sínum. Tilgangur andmælaréttarins sé sá að stjórnvald sem taki ákvörðun í máli hafi allar upplýsingar til staðar og að því sé ljós afstaða allra aðila. Þegar kom að því að taka ákvörðun um eignarnám á landi stefnenda hafi stefnda verið fullkunnugt um afstöðu þeirra til málsins. Er því alfarið vísað á bug að andmælaréttur 13. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotinn gagnvart stefnendum við meðferð málsins. Stefnendur komu athugasemdum sínum og gögnum að og var ítarlega farið yfir sjónarmið þeirra. Fullyrðingar stefnenda um annað séu ósannaðar.

                Stefndi íslenska ríkið mótmælir málsástæðum stefnenda sem lúta að banni við lagningu háspennulína vegna friðlýsingar, enda liggi ekkert fyrir um friðlýsingu svæðisins sem vísað sé til í stefnu.

                Stefndi íslenska ríkið geri ekki athugasemd við að máli þessu sé beint að honum samhliða stefnda Landsneti hf. Stefndi íslenska ríkið vísar í málsástæður stefnda Landsnets hf. að því leyti sem þær samrýmast málatilbúnaði hans. Til stuðnings málskostnaðarkröfu vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

V.

                Í máli þessu krefjast stefnendur ógildingar ákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að heimila stefnda Landsneti hf. að taka eignarnámi landspildu úr landi Reykjahlíðar vegna lagningar tveggja 220 kV háspennulína, Kröflulínu 4 og 5, og jafnframt að kvöðum vegna þessara framkvæmda verði aflýst af jörðum þeirra. Jörðin Reykjahlíð er óskipt í eigu stefnenda og eigenda fimm annarra jarða í Skútustaðahreppi.

                Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar má engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og skal fullt verð koma fyrir. Lagaheimild fyrir umdeildu eignarnámi er að finna í 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003 þar sem kveðið er á um að ráðherra geti heimilað flutningsfyrirtæki að framkvæma eignarnám vegna framkvæmda á grundvelli laganna enda hafi fyrirtækið ekki náð samkomulagi við landeiganda um þær framkvæmdir. Sönnunarbyrðin fyrir því að skilyrði til eignarnáms samkvæmt framangreindum ákvæðum séu fyrir hendi hvílir á stefndu og sömuleiðis sönnunarbyrðin fyrir því að gætt hafi verið réttra málsmeðferðarreglna.

i.

                Fyrsta málsástæða stefnenda lýtur að því að skilyrði eignarnáms samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar séu ekki fyrir hendi þar sem almenningsþörf krefjist ekki þeirra framkvæmda sem eignarnámi er ætlað að þjóna. Í þessu efni er þó ekki ágreiningur um að þörf sé á auknum raforkuflutningi á svæðinu og því hvorki mótmælt af hálfu stefnenda að nauðsynlegt sé að tengja raforkuframleiðslu á Þeistareykjum við iðnaðarsvæðið á Bakka, svo sem gera á með lagningu Kröflulínu 4, né að nauðsynlegt sé að styrkja raforkuflutningskerfið með lagningu Kröflulínu 5. Svo sem lýst er í atvikalýsingu dómsins er fyrirhugað að línurnar liggi samsíða frá Kröflu að tengivirki á Hólasandi sem ráðgert er að reisa. Kröflulína 4 heldur svo áfram að Þeystareykjum og þaðan að Bakka og er á uppdráttum nefnd Þeystareykjalína 1. frá Þeistareykjum að Bakka. Þá er ráðgert að önnur lína muni liggja frá tengivirki á Hólasandi að Rangárvöllum við Akureyri.

                Þótt nauðsyn raforkuflutnings á framangreindu svæði sé óumdeild byggja stefnendur á því að fyrirhugaðar framkvæmdir gangi gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar þar sem ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn á því hvort ná megi markmiðum framkvæmdarinnar með öðrum og minna íþyngjandi hætti auk þess sem ákvörðun um að reisa línurnar hafi verið tekin á grundvelli forsendna sem ekki séu lengur fyrir hendi. Í því efni vísa stefnendur til þess að þegar undirbúningur framkvæmdanna hófst hafi verið fyrirhugað að reisa álver á Bakka sem sé mun orkufrekari starfsemi en kísilverið sem nú sé verið að reisa.

                Hvað meðalhófsregluna varðar þá byggja stefnendur á því að unnt sé að flytja raforku á svæðinu með öðrum hætti og nefna nokkrar leiðir í því efni. Í fyrsta lagi að ekki sé þörf fyrir þá miklu flutningsgetu sem Kröflulína 4 og 5 muni anna, en tvær 132 kV loftlínur eða ein 220 kV lína hafi fullnægjandi flutningsgetu. Þá telja stefnendur mögulegt og æskilegt að leggja jarðstreng í stað loftlínu. Byggja stefnendur á því að borið hafi að leggja línunar sem jarðstreng á öðrum stað, þ.e. norður frá Stóra-Víti, vestan á Hágöngum og út fyrir Sandmúla og þaðan til vesturs. Á þessari leið séu nú þegar vegaslóðar og því muni jarðrask af framkvæmdunum verða í lágmarki. Loks sé mögulegt að fara blöndu af ofangreindum leiðum. Svo sem nánar er rakið í kaflanum um málsástæður stefnenda byggja þeir á því að stefndu hafi ekki valið þá leið sem hagfelldust sé út frá umhverfissjónarmiðum og í raun ekki tekið til raunverulegrar og hlutlægrar skoðunar önnur og minna íþyngjandi úrræði.

                Stefndi Landsnet annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 2. gr. laga um stofnun Landsnets hf. nr. 75/2004. Fyrirtækið hefur m.a. þær skyldur að byggja upp flutningskerfi á hagkvæman hátt að teknu tillit til öryggis, skilvirkni, áreiðaleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 9. gr. raforkulaga og nánar lýst í síðari málsgreinum sömu greinar, svo sem þeim lögum var breytt með lögum nr. 26/2015, sem tóku gildi 4. júní það ár. Í 9. gr. a í lögunum er nú nánar gerð grein fyrir því að fyrirtækið hafi skyldur til að gera kerfisáætlun, þar sem sett er fram langtímaáætlun til tíu ára sem sýni fyrirhugaða uppbyggingu á meginflutningskerfinu, og framkvæmdaáætlun sem sýni ákvarðanir um fjárfestingar til næstu þriggja ára þar sem greining valkosta er útskýrð og rökstuddur sá kostur sem valinn er. Orkustofnun skal samþykkja kerfisáætlunina og hafa eftirlit með framkvæmd hennar sbr. 9. gr. b í sömu lögum. Áður var áskilið að flutningsfyrirtæki þyrfti leyfi stofnunarinnar fyrir nýjum raflínum samkvæmt 2. mgr. 9. gr. raforkulaga. Af framangreindu má ráða að ákvarðanir um flutningsgetu og uppbyggingu raforkukerfisins byggja samkvæmt núgildandi lögum á áætlunum til lengri tíma og framkvæmdaáætlun til skemmri tíma, sem settar eru fram í kerfisáætlun stefnda Landsnets sem samþykkt er af Orkustofnun sem jafnframt hefur eftirlit með framkvæmdum á grundvelli hennar.

                Í kerfisáætlun 2015-2024, frá í nóvember 2015, er lýst fyrirætlunum um lagningu 220 kV línu frá Kröflu að Þeystareykjum (Kröflulína 4). Línunni er ætlað að tengja Þeistareykjavirkjun við meginflutningskerfi raforku í landinu og ásamt Þeystareykjalínu 1 að tengja iðnaðarsvæðið á Bakka við meginflutningskerfið. Í kerfisáætlun Landsnets hf. er flutningsþörf línunnar metin um 400 MVA. Orkustofnun samþykkti áætlunina án athugasemda um áætlaða flutningsgetu. Í minnisblaði verkfræðistofunnar Lotu frá 29. júní 2016 er sérstaklega vikið að þessari forsendu um flutningsþörf línunnar og segir að kallað hafi verið eftir nánari skýringum frá stefnda Landsneti hf. vegna þessa atriðis. Segir síðan að áætluð nýting á Þeistareykjasvæðinu hafi verið metin allt að 200 MW og gert sé ráð fyrir eðlilegri uppbyggingu á Bakka umfram það sem þegar hafi verið ákveðið. Fyrir 220 kV línu með einföldum leiðara sé 400 MVA eðlileg flutningsgeta. Jafnframt er tekið fram í skýrslunni að ásýnd og stofnkostnaður línu breytist lítið við það eitt að auka flutningsgetu hennar. Niðurstaða sérfræðinga Lotu er sú að flutningsþörf línunnar sé skynsamlega metin 400 MVA.

                Að virtum framangreindum gögnum og þeim skyldum sem hvíla á stefnda Landsneti hf. að lögum, telur dómurinn ekkert komið fram í málinu sem styður staðhæfingar stefnenda um að framangreind forsenda um nauðsynlega flutningsgetu Kröflulínu 4 sé ofmetin. Þá verður að horfa til þess að svo að unnt sé að tryggja flutningsgetu fyrir 400 MVA ásamt því að uppfylla skilyrði um svonefnt N-1 afhendingaröryggi, svo sem það er skilgreint í kerfisáætlun stefnda, er þörf á tveimur línum í rekstri. Er sú málsástæða stefnenda, að ein 220 kV lína sé fullnægjandi til að mæta viðhlítandi öryggisstigi, ekki studd haldbærum rökum. Er því ekki á það fallist með stefnendum að ein 220 kV lína sé raunhæfur valkostur í stað Kröflulínu 4 og 5 miðað við þær forsendur um rekstrar- og afhendingaröryggi sem áður greinir og stefnendur hafa í reynd ekki mótmælt. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að stefndu hafi sýnt fram á að þörf sé á tveimur 220 kV háspennulínum til að ná því markmiði sem að er stefnt. Var ákvörðun stefnda Landsnets um lagningu slíkra lína og beiðni um eignarnám á þeim grundvelli því ekki í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnskipunar- eða stjórnsýsluréttar að þessu leyti.

ii.

                Verður þá vikið að þeirri málsástæðu stefnenda að borið hafi að leggja raflínurnar í jörð á öðrum stað en fyrirhugað línustæði er. Byggja þeir á því að sú aðferð sé minna íþyngjandi en lagning háspennulína ofanjarðar auk þess sem hún hafi í för með sér mun minna umhverfistjón.

                Hvað staðarval varðar bera gögn málsins með sér að áform stefnda Landsnets hf. um að leggja línurnar á þeim stað sem umdeild eignarnámsheimild gerir ráð fyrir, hefur legið fyrir í mörg ár. Þannig voru mögulegar línuleiðir kynntar í svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem staðfest var af umhverfisráðherra 16. janúar 2008. Einnig er gert ráð fyrir þessari línuleið í aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023, sem var samþykkt í sveitarstjórn 21. febrúar 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. maí s.á og í deiliskipulagi vegna stækkunar Kröfluvirkjunar, sem samþykkt var 14. nóvember 2013 og 8. maí 2014 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní 2014.

                Stefnendur byggja á því að línan ætti fremur að liggja norður frá Stóra-Víti, vestan á Hágöngum og út fyrir Sandmúla og síðan eftir slóða þangað til vesturs. Þessi leið er í stórum dráttum svipuð einni af þeim línuleiðum sem skoðaðar voru við gerð áðurnefnds svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum og er þar nefnd kostur C3, sem gerir ráð fyrir línu austan Gæsafjalla. Segir í greinargerð skipulagsins, um mat á samanburði þessarar leiðar við aðra kosti, þ.á m. þá leið sem ákveðin var, að náttúrverndargildi leiðarinnar sé mjög hátt vegna víðerna norðaustan Gæsafjalla og Leirhnjúkshrauns. Var niðurstaða svæðisskipulagsáætlunar sú að velja ekki þessa línuleið heldur þá sem hér er deilt um þar sem sá valkostur var talinn falla best að þeirri stefnu sveitarfélaganna að líta til alls skipulagssvæðisins og takmarka áhrif við sem fæstar landslagsheildir og viðhalda þar með landslagsheild austan Gæsafjalla. Í framangreindu mati var gert ráð fyrir að um loftlínu yrði að ræða og eru sjónarmiðin sem talin eru mæla gegn þessari leið m.a. þau að með henni yrði stærra svæði fyrir sjónrænum áhrifum og samlegðaráhrif framkvæmdanna myndu tapast þar sem eftir sem áður yrði að styrkja línu milli Kröflu og Akureyrar. Í ljósi tæknilegra takmarkana við lagningu jarðstrengs, sem nánar er vikið að síðar, er það mat dómsins að stefnendur hafi ekki fært fyrir því haldbær rök að við val á línustæði hafi skort á að metnir hafi verið aðrir tækir kostir eða valin sú leið sem, þegar á heildina er litið, var talin valda minnstum umhverfisáhrifum.

                Líta verður svo á að í málatilbúnaði stefnenda felist einnig, óháð ákvörðun um hvar umdeildar háspennulínur eigi að liggja, sú sjálfstæða málsástæða að línurnar hafi átt að leggja í jörð en ekki sem loftlínur með vísan til meginreglunnar um að gæta skuli meðalhófs við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana. Til þess að til álita komi að taka afstöðu til röksemda sem stefnendur færa fram til stuðnings þessari málsástæðu, er nauðsynlegt að skoða fyrst þá málsástæðu stefndu að miklar tæknilegar takmarkanir séu á lengd jarðstrengs. Vísa stefndu í þessu sambandi til skýrslu stefnda Landsnets hf. og verkfræðistofunnar Eflu frá því í maí 2016 þar sem athugaður er sá möguleiki að leggja Kröfulínu 4 sem jarðstreng á sama stað og fyrirhugaðri loftlínu er ætlað að vera. Í skýrslunni er lýst þeirri niðurstöðu greiningarvinnu að ekki sé mögulegt að leggja jarðstreng alla línuleiðina. Helsta ástæða þess er sögð lágt skammhlaupsafl í endapunktum línuleiðarinnar og mikil launaflsframleiðsla jarðstrengja sem leiði til þess að ekki sé mögulegt að tryggja, við mismunandi rekstrarskilyrði, að spennan í endapunktum línuleiðarinnar haldist innan þeirra marka sem skilgreind eru í 11. gr. reglugerðar nr. 1048/2004. Samkvæmt því sem þar komi fram skuli kerfisspenna haldast innan ± 10% vikmarka og að hámarks spennuþrep við tengingu eða útleysingu línunnar sé 5%. Að auki er nefnt að undirsegulmögnun vinnslueininga í Kröflu og að Þeistareykjum, vegna launaflsframleiðslu jarðstrengsins, takmarki einnig hve löng jarðstrengslögnin geti orðið. Þá er greint frá því að möguleikar á notkun jarðstrengs á einum stað í meginflutningskerfinu ráðist ekki einvörðungu af staðháttum og aðstæðum á viðkomandi línuleið heldur einnig af þáttum sem varði tæknilega atriði í flutningskerfinu í heild. Þannig geti jarðstrengur á einum stað í kerfinu haft áhrif á mögulega lengd slíkra strengja á öðrum stöðum.

                Í skýrslunni er greint frá því að rannsakað hafi verið hvort unnt væri að leggja Kröflulínu 4 sem jarðstreng og í því efni hafi þrír möguleikar verið skoðaðir, þ.e. að leggja alla línuna í jörð eða annars vegar 11 km og hins vegar 16 km af línunni. Í síðarnefndu tveimur tilvikum var gert ráð fyrir að jarðstrengurinn lægi frá Kröflu. Niðurstaða framangreindrar skoðunar var sem áður greinir sú að útlokað væri að leggja alla línuna í jörð. Mögulegt væri að leggja 16 km af leiðinni sem jarðstreng að því gefnu að Kröflulína 3 væri komin í rekstur og væri öll lögð með loftlínu en án Kröflulínu 3 væri ekki ráðlagt að leggja meira en 11 km af línunni í jörðu.

                Í málinu liggja fyrir umsagnir þriggja aðila um framangreinda athugun stefnda Landsnets hf. og Eflu, þ.e. minnisblað Lotu ehf. frá 29. júní 2016, minnisblað Alta ehf. frá 6. júlí 2016 og skýrsla Orkustofnunar þann sama dag. Stefnendur byggja á því að þau gögn hafi ekki sönnunargildi í málinu. Skýrsla Orkustofnunar sé rýr og fjalli ekki um málið heildstætt og með því að afla hennar geti stefndi íslenska ríkið ekki vikið sér undan skyldu sinni til að rannsaka málið. Þá vinni Lota ehf. og Alta ehf. talsvert mikið fyrir stefnda Landsnet hf. og svo hafi einnig verið í tíð forvera þess stefnda, Landsvirkjunar hf. Í því ljósi séu félögin tvö fjárhagslega háð báðum stefndu og geti því ekki talist óhlutdrægir álitsgjafar.

                Þótt fallast megi á það með stefnendum að það geti rýrt gildi umsagnar ráðgjafafyrirtækis, sé sýnt fram á að fyrirtækið sé sterklega háð tekjum frá einum aðila máls, verður ekki á það fallist að gögn frá slíku fyrirtæki sé af þeirri ástæðu einni að vettugi virðandi. Verður að leggja mat á slík gögn eftir efni og atvikum hverju sinni. Í því efni er óhjákvæmilegt að horfa til þess að stefnendur hafa ekki lagt fram önnur gögn sem veita vísbendingar um að þær niðurstöður í umsögnum fyrirtækjanna, sem lúta að raffræðilegum þáttum, séu rangar eða ófullnægjandi. Hvað snertir umsögn Orkustofnunar er til þess að líta að það er lögbundið hlutverk hennar að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um orkumál, sbr. 2. gr. laga nr. 87/2003, um Orkustofnun. Verður því að telja það eðlilegan þátt í rannsóknarskyldu ráðuneytisins að afla umsagnar stofnunarinnar og til þess fallið að veita nánari upplýsingar í aðdraganda ákvörðunar um eignarnám. Loks er staðhæfing stefnenda, þess efnis að þeim hafi ekki gefist kostur á að láta vinna sambærileg minnisblöð fyrir sitt leyti, ósönnuð og raunar í ósamræmi við atvik málsins eins og þau verða ráðin af framlögðum gögnum.

                Í minnisblaði Alta ehf. er tekið fram að ekki sé tekin afstaða til raffræðilegra og kerfisfræðilegra þátta í skýrslu stefnda Landsnets hf. og verkfræðistofunnar Eflu og það sagt vera í höndum annarra sérfræðinga. Í minnisblaði Lotu ehf. kemur fram að sérfræðingar á þeirra vegum hafi lagt mat á skammhlaupsafl á svæðinu og niðurstaða þeirra hafi verið sú sama og komi fram í skýrslunni. Niðurstaða Lotu ehf., hvað varðar mögulega hámarkslengd jarðstrengs, er nokkurn veginn sú sama og stefndi Landsnet hf. og Efla komust að, eða 10,8 km, að því gefnu að línan verði lögð í jörðu sem næst Kröfluvirkjun þar sem sterkust tenging er við núverandi meginflutningskerfi. Loks segir í bréfi Orkustofnunar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 6. júlí 2016 að stofnunin geri hvorki athugasemdir við niðurstöðu skýrslunnar að því er varðar tæknilegar hliðar málsins né kostnaðarútreikninga og lagalegar forsendur.

                Að mati dómsins eru þær skýringar sem fram koma í skýrslu stefnda Landsnets hf. og verkfræðistofunnar Eflu, og studdar eru niðurstöðu Lotu ehf. og Orkustofnunar, varðandi áhrif launaflsframleiðslu jarðstrengja og lágs skammhlaupsafls til takmörkunar á hámarkslengd mögulegs jarðstrengskafla, vel rökstuddar. Á hinn bóginn er niðurstöðum greiningarvinnunnar um raffræðileg lengdartakmörk jarðstrengja aðeins lauslega lýst í orðum án þess að birtar séu tölulegar niðurstöður eða gröf sem sýna hvers vegna mögulegt sé að notast við 11 km jarðstrengslögn og hvers vegna 16 km jarðstrengslögn uppfylli ekki fyrrnefnd skilyrði. Því er erfitt að meta á grundvelli þess sem fram kemur í skýrslunni hvort sá hluti sem snýr að raffræðilegum lengdartakmörkum jarðstrengslagnarinnar hafi verið nægjanlega ítarlegur svo að unnt hafi verið að staðfesta þessi lengdartakmörk við rýni á skýrslunni. Þrátt fyrir þennan annmarka verður að telja niðurstöðurnar trúverðugar að teknu tilliti til þeirra útskýringa sem veittar eru um takmarkandi áhrif launaflsframleiðslu jarðstrengja og lágs skammhlaupsafls á lengd þeirra. Enn fremur kemur sú niðurstaða heim og saman við niðurstöður annarrar skýrslu stefnda Landsnets hf. og fleiri aðila frá 12. febrúar 2015. Sú skýrsla fjallar um lagningu jarðstrengja á hærri spennu í raforkuflutningskerfinu og er þar sýnt með tölulegum niðurstöðum og gröfum hvernig skammhlaupsafl og launaflsframleiðsla jarðstrengja hafi takmarkandi áhrif á mögulega lengd 220 kV jarðstrengs. Að mati dómsins fela þau sérfræðilegu gögn sem að framan er lýst því í sér fullnægjandi skoðun á þeim möguleika að leggja Kröflulínu 4 í jörð í stað loftlínu.

                Að virtu öllu því sem að framan er rakið verður að leggja til grundvallar við úrslausn málsins að útilokað sé af tæknilegum ástæðum að leggja meira en 16 km af Kröflulínu 4 í jörðu, en heildarlengd línunnar er tæplega 33 km. Skýrsla Metsco, Energy Solution, sem stefnendur halda fram að sýni fram á annað, getur ekki haggað þessari niðurstöðu, enda felur hún ekki í sér rannsókn á þeirri línulögn sem hér um ræðir. Loks er fallist á það með stefndu að sömu raffræðilegu ástæðurnar liggi að baki ályktun um að fyrirhuguð Kröflulína 5 verði ekki lögð í jörð fremur en Kröflulína 4, þótt ekki sé með skýrum hætti vikið að þessu atriði í gögnum málsins.

iii.

                Kemur þá að endingu til skoðunar hvort stefnda Landsneti hf. hafi borið, í ljósi framangreindrar niðurstöðu á tæknilegum möguleikum jarðstrengs, að taka ákvörðun um að leggja hluta af Kröflulínu 4 í jörð. Við ákvörðun þar að lútandi ber að líta til þess markmiðs raforkulaga nr. 65/2003 að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi sbr. 1. gr. laganna og þeirra atriða sem talin eru upp í 1. -5. tölul. greinarinnar, þar sem nánar er lýst atriðum sem líta beri til í því efni, m.a. skilvirkni og hagkvæmni flutningskerfisins, öryggi þess og umhverfissjónarmiða. Þá er í 9. gr. laganna, svo sem henni var breytt með 2. gr. laga nr. 26/2015, nánar fjallað um skyldur stefnda Landsnets hf. sem flutningsfyrirtækis. Þar segir að flutningsfyrirtæki skuli byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tillit til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Sú stefna liggur fyrir í þingsályktun nr. 11/144 sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2015.

                Af framangreindu má ráða að löggjafinn hefur mælt fyrir um helstu sjónarmið sem líta ber til við ákvörðun um hvernig flutningskerfi raforku er byggt upp. Þar á meðal leiðir af lögum að líta ber til stefnu stjórnvalda. Þótt slík stefnumótun verði að rúmast innan laga og samrýmast þeim, þ.á m. markmiðum 1. gr. raforkulaga, er hafnað sjónarmiðum stefnenda um að þingsálytkunin sé þýðingarlaus við úrlausn málsins.

                Í grein 1.3 í þingsályktuninni segir að meginreglan skuli vera sú að í meginflutningskerfi raforku skuli notast við loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Þá eru í sömu grein sett fram tiltekin viðmið þar sem talin eru upp í fimm liðum þau tilvik eða aðstæður sem réttlætt geta val á dýrari kosti. Stefnendur mótmæla hins vegar niðurstöðu stefnda Landsnets hf. um að það sé dýrara að leggja jarðstreng en loftlínu.

                Við útreikninga stefnda um kostnað vegna loftlínu annars vegar og jarðstrengs hins vegar hefur verið stuðst við núvirtan stofnkostnað svo sem mælt er fyrir um í fyrrnefndri grein þingsályktunarinnar. Ekki er fallist á það með stefnendum að það leiði af 1. gr. raforkulaga eða öðrum ákvæðum laga eða stjórnvaldsfyrirmæla að þessi aðferð sé ólögmæt. Verður því að leggja til grundvallar að það sé meira en tvisvar sinnum dýrara að leggja jarðstreng en loftlínu á hinu umdeilda svæði svo sem útreikningar stefnda Landsnets hf. bera með sér. Jafnvel þótt á það verði fallist að þetta atriði þurfi ekki að ráða úrslitum um hvort jarðstrengur geti engu að síður talist þjóðhagslega hagkvæmari lausn samkvæmt markmiðum raforkulaga er hér engu að síður um að ræða eitt af þeim atriðum sem stefnda Landsneti hf. bar að líta til við heildarmat sitt. Þá verður að horfa til þess að það landsvæði sem deilt er um í máli þessu fellur ekki undir nein þau viðmið sem talin eru upp í nefndri grein þingsályktunarinnar um að réttlætt geti að dýrari kostur sé valinn. Að auki kemur fram í gögnum málsins að lagning jarðstrengs á einum stað á meginflutningsleiðum raforkukerfisins, hafi veruleg áhrif á möguleika til að leggja raflínur í jörð á öðrum stöðum á Norð-austurlandi. Myndi því ákvörðun stefnda Landsnets hf. um að legga jarðstrengi í stað loftlína skerða möguleika á því að nýta þennan kost á öðrum stöðum í landshlutanum þannig að markmiðum 1. gr. raforkulaga væri í heild sinni betur þjónað.

 

Af öllu því sem að framan er rakið er ekki fallist á það með stefnendum að brotið hafi verið gegn reglum stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar um meðalhóf þegar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið heimilaði umdeilt eignarnám vegna lagningar Kröflulínu 4 og 5 í landi stefnenda. Er því hafnað að stefndu hafi litið fram hjá raunhæfum kosti sem væri minna íþyngjandi en fyrirhuguð framkvæmd kemur til með að vera. Vegur þar þyngst sú niðurstaða dómsins að stefndu hafi með fullnægjandi hætti rannsakað þann möguleika að leggja jarðstreng í stað loftlína og jafnframt að niðurstaða þeirrar rannsóknar sé í grófum dráttum sú að tæknilega sé ómögulegt að leggja nema takmarkaðan hluta þeirra í jörð á því svæði sem hér um ræðir.

iv.

                Rannsóknir þær sem framangreind niðurstaða dómsins byggist á, voru að stærstum hluta gerðar að tilhlutan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, eftir að stefndi Landsnet hf. hafði óskað eftir heimild til eignarnáms á landi stefnenda. Í greinargerð stefnda ríkisins kemur fram að tilefni þess að ráðist var í þessa rannsókn hafi verið niðurstaða Hæstaréttar í dómum sem féllu 25. apríl 2016 í málum 511-513/2015 og máli 541/2015. Dómurinn lítur svo á að með réttu lagi hefði þessi rannsókn átt að vera hluti af samanburði á valkostum sem á að fara fram á fyrri stigum máls. Umdeild framkvæmd var matsskyld skv. lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og í 9. gr. þeirra laga er kveðið á um að í frummatsskýrslu framkvæmdaraðila skuli ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra. Auk þess er í núgildandi ákvæðum raforkulaga kveðið á um að í framkvæmdahluta kerfisáætlunar skuli greining valkosta útskýrð og rökstuddur sá kostur sem valinn er sbr. m.a. 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. a í lögunum.

                Með rannsókn þeirri sem ráðuneytið hafði forgöngu um var leitast við að bæta úr áðurlýstum annmarka á málsmeðferð. Er það mat dómsins að þetta hafi verið gert með fullnægjandi hætti áður en umdeild ákvörðun atvinnuvegaráðuneytisins var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður ákvörðun um eignarnám því ekki ógilt á grundvelli ófullnægjandi rannsóknar málsins.

 

v.

                Í öðru lagi byggja stefnendur kröfu um ógildingu ákvörðunar ráðuneytisins á því að stefndu hafi annars vegar brotið gróflega gegn skyldu sinni til samráðs við þau og aðra landeigendur við undirbúning framkvæmdarinnar og hins vegar að samningar við þau hafi ekki verið reyndir til þrautar.

                Hvað skort á samráði áhrærir byggja stefnendur á því að brotið hafi verið á rétti þeirra sem landeigenda til virkrar þátttöku í ákvarðanatöku um tilhögun framkvæmdar frá upphafi þegar allir valkostir hafi verið opnir og möguleiki verið á að hafa áhrif á ákvörðun um staðarval og önnur atriði.

                Í löggjöf um skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum er almenningi víða tryggður réttur til upplýsinga og til að gera athugasemdir við framkvæmdir. Þannig má af gögnum málsins ráða að þá stefnumörkun að leggja háspennulínur á hinu umdeilda svæði sé að finna í svæðisskipulagi um háhitasvæði í Þingeyjasýslum, sem staðfest var af umhverfisráðherra í janúar 2008 en hafði áður verið til umfjöllunar í samvinnunefnd sveitarstjórna á svæðinu frá því í ársbyrjun 2007, í samræmi við ákvæði 6. mgr. 12. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að fram hafi farið lögboðin kynning á tillögu að svæðisskipulaginu og vinnu samvinnunefndarinnar, en skv. 13. gr. þeirra laga skyldu tillögur samvinnunefndarinnar kynntar opinberlega bæði fyrir og eftir afgreiðslu þeirra úr nefndinni.

                Frummatsskýrsla, um mat á umhverfisáhrifum, stefnda Landsnets hf. var auglýst opinberlega á tímabilinu 28. apríl til 14. júní 2010, sbr. 10. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Matsskýrsla stefnda Landsnets hf. lá fyrir 5. október 2010 og álit Skipulagsstofnunar 24. nóvember sama ár. Þá er gert ráð fyrir umdeildum háspennulínum á aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 sem var samþykkt í sveitarstjórn 21. febrúar 2013 og í deiliskipulagi vegna stækkunar Kröfluvirkjunar sem samþykkt var 14. nóvember 2013.

                Í öllum tilvikum sem að framan eru rakin voru ákvarðanir kynntar almenningi og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Telur dómurinn einsýnt að sú staðhæfing stefnenda fái ekki staðist að brotið hafi verið á rétti þeirra til þátttöku í ákvarðanatöku um tilhögun framkvæmdarinnar en þau hafi aftur á móti kosið að gera ekki athugasemdir eða hreyfa mótmælum fyrr en við gerð aðalskipulags Skútustaðahrepps, sem unnið var á árunum 2011 til 2013 og svo aftur árið 2015, þegar þau óskuðu eftir því að Skipulagsstofnun endurskoðaði álit sitt um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2010.

                Hins vegar byggja stefnendur á því að stefndi Landsnet hf. hafi ekki reynt til þrautar að ná samningum við stefnendur um afnot af landi þeirra vegna umdeildra lína. Í þessu efni telur dómurinn að líta verði til þess á hvaða grundvelli stefndi Landsnet hf. leitaði til landeigenda Reykjahlíðar, þar með talið stefnenda, um greiðslu bóta vegna fyrirhugaðra framkvæmda á landi þeirra. Í VI. kafla raforkulaga er að finna fyrirmæli um skyldu þessa stefnda til að eiga viðræður við landeigendur um afnot á landi þeirra og kvaðasetningu í þágu flutningskerfis raforku í landinu. Í 21. og 23. gr. laganna eru enn fremur fyrirmæli um skyldu landeigenda til að heimila slík afnot en þau séu óheimil nema samkomulag hafi náðst um endurgjald fyrir slík landnot eða eignarnám hefur farið fram og umráðataka samkvæmt því. Af fyrirmælum 23. gr. raforkulaga má svo ráða að flutningsfyrirtæki beri að sjá til þess að slíkt samkomulag náist en ef það næst ekki beri því að krefjast eignarnáms á nauðsynlegu landi.

                Af skriflegum samskiptum milli stefnenda og stefnda Landsnets hf. og staðfestum fundargerðum funda þeirra frá 10. desember 2014, þegar sá stefndi leitaði fyrst til stefnenda um samninga vegna afnota og kvaðasetningar á landi þeirra og þar til samningaviðræðum við stefnendur var slitið 22. júlí 2015, má ráða að stefnendur hafi ekki fellt sig við að samningaviðræður við stefnda Landsnet hf. lytu einvörðungu endurgjaldi fyrir afnot af landi og kvaðir sem því fylgdu. Leituðust þau þess í stað við að fá stefnda til að falla frá áformum sínum um lagningu umdeildra háspennulína. Fallast verður á það með stefndu að þegar hér var komið sögu hafi þau atriði hins vegar ekki getað verið grundvöllur viðræðna milli aðila. Ákvarðanir sem lutu að öðru línustæði eða annars konar línum höfðu þá fyrir löngu verið teknar og stefnendur átt kost á að koma að andmælum og athugasemdum á fyrri stigum. Verður þannig ekki á það fallist að stefnda Landsneti hf. hafi á þessu stigi málsins verið rétt eða skylt að taka þátt í viðræðum við landeigendur um framkvæmdaatriði sem þá þegar voru til lykta leidd eftir lögbundnum leiðum.

                Af sömu gögnum má ráða að stefndi Landsnet hf. bauð margsinnis til fundar, bauð stefnendum að velja fundartíma og veitti þeim fresti til að svara erindum og koma með athugasemdir. Stefnendur mættu báðir á fundi 4. maí og 30. júní 2015. Á síðari fundinum lögðu nokkrir landeigendur, þar á meðal stefnendur, fram bókun þess efnis að þau teldu ekki, a.m.k. að svo stöddu, vera efni til að ræða tilboð stefnda Landsnets hf. um bætur vegna vegna lagningar Kröflulínu 4 og 5 um land þeirra. Er í yfirlýsingunni m.a. vísað til erindis stefnenda til Skipulagsstofnunar með beiðni um endurskoðun umhverfismats framkvæmdanna. Þá eru meðal gagna málsins samskipti stefnda Landsnets hf. við lögmann stefnenda eftir að óskað var heimildar til eignarnáms þar sem sá stefndi reyndi árangurslaust að leita samninga við stefnendur. Verður af framlögðum gögnum ekki annað ráðið en að stefnendur hafi skýrt tekið fram að þau vildu ekki ganga til samninga á þessum tíma um þau atriði sem stefnda Landsneti hf. bar að leita eftir samningum um skv. 23. gr. raforkulaga. Ekki er fallist á að stefnda Landsneti hf. hafi borið að verða við beiðni stefnenda um að beðið yrði niðurstöðu Skipulagsstofnunar við erindi stefnenda frá 11. maí 2015 um endurskoðun á áliti þeirrar stofnunar á umhverfisáhrifum frá árinu 2010.

                Af því sem að framan er rakið telur dómurinn einsýnt að stefndi Landsnet hf. hafi reynt með fullnægjandi hætti að semja við landeigendur Reykjahlíðar, þar með talið stefnendur, bæði áður og eftir að beiðni um eignarnám var lögð fram, meðal annars eftir að rannsókn að tilstuðlan ráðuneytisins á frekari kostum fyrir flutning raforku um land stefnenda lá fyrir. Er því hafnað þeirri málsástæðu stefnenda að ákvörðun ráðuneytisins geti sætt ógildingu á þeirri forsendu að samningaviðræður í aðdraganda þess að eignarnámið var heimilað hafi verið ófullnægjandi.

vi.

Af hálfu stefnenda er loks á því byggt að andmælaréttur þeirra, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi ekki verið virtur við hina umdeildu ákvörðun um eignarnám. Hér að framan hefur verið fjallað um bréfaskipti málsaðila í aðdraganda umræddrar ákvörðunar. Stefnendur vísa til þess að ráðuneytið hafi stutt ákvörðun um eignarnám við gögn sem stefnendur hafi ekki fengið tækifæri til að tjá sig um. Nánar tiltekið er vísað til minnisblaðs Lotu ehf. frá 29. júní 2016, minnisblaðs Alta ehf. frá 6. júlí 2016 og álit Orkustofnunar frá 6. júlí 2016.

                Að mati dómsins verður að meta heildstætt málsmeðferð ráðuneytisins vegna fyrrgreindrar ákvörðunar um eignarnám. Í því ljósi verður ekki fram hjá því litið að stefnendum var ítrekað veitt tækfæri til að koma að andmælum sínum eftir að eignarnámsbeiðni stefnda Landsnets hf. var lögð fram hjá ráðuneytinu 21. september 2015. Stefnendum var þannig boðið að koma að sjónarmiðum sínum með bréfum ráðuneytisins 14. október 2015, 10. febrúar 2016 og 5. apríl 2016. Í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands 12. maí 2016 taldi ráðuneytið þörf á frekari rannsókn á þeim kosti að leggja Kröflulínu 4 og 5 í jörðu svo sem áður greinir. Svör bárust frá stefnda Landsneti hf. 31. maí 2016 við bréfi ráðuneytisins 20. sama mánaðar, en með því fylgdu ýmis viðbótargögn, þar á meðal áðurnefnd skýrsla stefnda Landsnets hf. og Eflu um athugun á möguleika jarðstrengs á svæðinu. Þann 2. júní 2016 sendi ráðuneytið lögmanni stefnenda umrædd gögn Landsnets hf. og óskaði eftir andmælum landeigenda vegna þeirra fyrir 16. júní 2016. Með bréfi stefnenda 9. júní 2016 var óskað eftir fresti til 30. september 2016 til að bregðast við hinum nýju gögnum, en meðal annars vildu stefnendur freista þess að ráða verkfræðistofu til að greina og svara þeim upplýsingum sem fram komu í skýrslu stefnda Landsnets hf. og verkfræðistofunnar Eflu. Þá kom fram sú krafa að ráðuneytið rannsakaði sérstaklega þá leið sem stefnendur hefðu lagt til vegna Kröflulína 4 og 5. Þeim langa fresti var hins vegar hafnað með bréfi ráðuneytisins 27. júní 2016 og stefnendum þess í stað veittur andmælafrestur til 8. júlí 2016 og tekið fram að ráðuneytið hefði óskað eftir rýni á skýrslu stefnda Landsnets hf. og Eflu hf. frá tveimur mismunandi ráðgjafafyrirtækjum, Lotu ehf. og Alta ehf., sem og frá Orkustofnun. Eins og aðstæðum var háttað verður á það fallist að veiting viðbótarfrests til 30. september 2016 hefði verið úr hófi með hliðsjón af málshraðareglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

                Með bréfi ráðuneytisins 3. ágúst 2016 var stefnendum að endingu veittur lokafrestur til 19. ágúst 2016 til að koma á framfæri athugasemdum og gögnum vegna málsins. Með því bréfi fylgdu áðurnefnd gögn frá Lotu ehf., Alta ehf. og Orkustofnun. Athugasemdir stefnenda bárust ráðuneytinu 18. ágúst 2016.

                Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að ráðuneytið hafi við meðferð eignarnámsbeiðni stefnda Landsnets hf., gefið stefnendum kost á að kynna sér öll framkomin gögn og koma að andmælum innan eðlilegs frests. Stefnendur hafa ekki bent á einstök gögn sem þeir telja sig ekki hafa haft tækifæri til að afla og leggja fyrir ráðuneytið í aðdraganda ákvörðunarinnar né heldur bent á sjónarmið sem ráðuneytinu hafi ekki verið fullkunnugt um þegar umdeild ákvörðun var tekin. Var því ekki brotið á andmælarétti stefnenda sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga og verður ákvörðun um eignarnám því ekki felld úr gildi á þeim grundvelli.

vii.

Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið er það álit dómsins að málsmeðferð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 14. október 2016, um að heimila Landsneti hf. eignarnám á landi stefnenda og leggja kvöð á jarðir þeirra því tengdu, og málsmeðferð stefnda Landsnets hf. í aðdraganda þess að beiðnin var sett fram, sé ekki haldin annmörkum sem leitt geti til ógildingar ákvörðunarinnar. Verða stefndu því sýknaðir af kröfu stefnenda.

                Rétt þykir eins og atvikum er hér háttað að hver aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

                Stefnendur njóta gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi innanríkisráðuneytisins frá 7. febrúar 2017 og er hún takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Greiðist allur gjafsóknarkostnaður stefnenda því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Magnúsar Óskarssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.200.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Mál þetta dæma Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari og dómsformaður, og meðdómsmennirnir Skúli Magnússon héraðsdómari og Hjörtur Jóhannsson rafmagnsverkfræðingur ph.d.

D ó m s o r ð :

                Stefndu, íslenska ríkið og Landsnet hf., eru sýkn af kröfum stefnenda, Finns Sigfúsar Illugasonar og Kristínar Þuríðar Sverrisdóttur.

                Málskostnaður fellur niður.

                Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Magnúsar Óskarssonar hrl., 1.200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.