Print

Mál nr. 81/2017

Guðbjörg Kristjándóttir (Tómas Jónsson lögmaður)
gegn
Arion banka hf. (Sigurður Guðmundsson lögmaður)
Lykilorð
  • Lánssamningur
  • Neytendalán
  • Yfirdráttarheimild
Reifun

A hf. höfðaði mál á hendur G til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á debetreikningi. Hélt G því fram að hún ætti kröfu til skuldajafnaðar við kröfu A hf. þar sem ekki hefði verið gerður við hana skriflegur samningur um yfirdráttarlán og því hefði verið óheimilt að innheimta lánskostnað vegna þess. Talið var að hvað sem liði fyrirmælum 5. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, um að samningar um yfirdráttarheimildir skyldu skriflegir, væri sérstaklega tekið fram í skýringum með ákvæðinu í frumvarpi til upphaflegra laga um neytendalán nr. 30/1993 að það væri ekki fortakslaust skilyrði fyrir gildi lánssamninga að þeir væru skriflegir, heldur gildi munnlegir samningar eftir sem áður. Þegar G sótti um að stofna reikninginn hafði hún undirritaði yfirlýsingu þar sem meðal annars kom fram að hún hefði kynnt sér reglur og skilmála sem giltu um tékkaviðskipti og debetkort og að hún staðfesti að hún myndi fara eftir ákvæðum þeirra. Kom þar einnig fram að G væri samþykk því að vextir af yfirdráttarheimild reikningsins yrðu skuldfærðir af honum mánaðarlega. Var því talið að G hefði mátt vera ljóst áður en hún stofnaði til viðskiptanna hvaða kjör lágu til grundvallar viðskiptasambandi aðila. Þá hefði G aldrei gert athugasemdir við útreikninga og gjaldfærslu A hf. samkvæmt reikningsyfirlitum sem hún fékk send og greitt athugasemdalaust þann kostnað og vexti sem til féllu. Var G því gert að greiða A hf. umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2017. Hún krefst þess aðallega að „hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið að krafa stefnda verði stórlega lækkuð, þannig að höfuðstóll hennar nemi aðeins“ 288.492 krónum en til vara „að krafa stefnda verði lækkuð að mati réttarins.“ Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt og þeirra á meðal reglur Kaupþings Búnaðarbanka hf. um debetkort sem giltu frá janúar 2004. Eru þær efnislega samhljóða þeim reglum sem lágu fyrir héraðsdómi um þau atriði sem máli skipta við úrlausn málsins.

Þegar áfrýjandi sótti 31. október 2003 um að stofna debetkortareikning hjá Kaupþingi Búnaðarbanka hf. undirritaði hún yfirlýsingu þar sem meðal annars sagði: „Ég [undirrituð] sem hef óskað eftir að stofna tékkareikning/debetkort við Kaupþing Búnaðarbanka hf. skuldbind mig hér með til að: ... gefa ekki út tékka nema innstæða eða yfirdráttarheimild sé fyrir hendi á reikningi mínum. Misnotkun getur haft í för með sér að reikningi mínum verði lokað og einnig öllum öðrum tékkareikningum á mínu nafni ... Ég hef kynnt mér reglur og skilmála er gilda um tékkaviðskipti og debetkort. Ég staðfesti með undirritun minni að ég mun í einu og öllu fara eftir ákvæðum þeirra. Ég samþykki að vextir af yfirdráttarheimild ofangreinds tékka/debetreiknings verði skuldfærður af honum mánaðarlega.“ Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétt sem ákveðinn verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Guðbjörg Kristjánsdóttir, greiði stefnda, Arion banka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. desember 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. október sl., höfðaði stefnandi, Arion banki hf., Borgartúni 19 í Reykjavík, hinn 18. febrúar 2016 á hendur stefndu, Guðbjörgu Kristjánsdóttur, Mosprýði 1 í Garðabæ.

Kröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 2.485.459 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. ágúst 2015 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Kröfur stefndu eru þær að krafa stefnanda verði stórlega lækkuð og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

I

Með umsókn um debetkortareikning 31. október 2003 stofnaði stefnda reikning nr. [...] hjá Kaupþingi-Búnaðarbanka hf., er nú tilheyrir stefnanda. Samkvæmt framlögðum reikningsyfirlitum var heimild til yfirdráttar á reikningnum til staðar frá 17. mars 2004. Heimildin nam í upphafi 100.000 krónum og nýtti stefnda sér hana. Yfirdráttarheimildin var reglulega hækkuð og nam hún 1.500.000 krónum frá 15. ágúst 2007. Heimildin var felld niður 20. mars 2011 án þess að uppsöfnuð skuld reikningsins, 1.497.671 króna, væri greidd á þeim degi.

Stefnda fór í greiðsluskjól hjá umboðsmanni skuldara 30. júní 2011. Umsókn hennar um samning til greiðsluaðlögunar var hafnað 21. júlí 2015. Reikningi stefndu hjá stefnanda var lokað 31. ágúst 2015 og nam uppsöfnuð skuld reikningsins á þeim degi stefnufjárhæð málsins. Stefndu var sent innheimtubréf 15. október 2015 og aftur 30. sama mánaðar. Þar sem stefnda greiddi ekki kröfuna höfðaði stefnandi mál þetta til innheimtu hennar 18. febrúar sl. samkvæmt áðursögðu.

II

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda hafi fengið heimild til að yfirdraga reikning nr. [...] upp að tiltekinni fjárhæð og stofnað þannig til skuldar við stefnanda. Nemi uppsöfnuð skuld reikningsins á þeim degi sem honum var lokað, 31. ágúst 2015, stefnufjárhæð málsins. Stefnda hafi reglulega fengið send yfirlit frá stefnanda um stöðu reikningsins á hverjum tíma og ekki gert athugasemdir við þau yfirlit. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar og meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga beri stefndu að greiða hina umkröfðu fjárhæð.

Stefnandi kveðst ekki gera kröfu um dráttarvexti frá umsömdum gjalddaga kröfunnar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, heldur láti hann nægja að krefjast dráttarvaxta frá þeim degi sem reikningnum var lokað, stefndu til hagsbóta. 

Stefnandi hefur mótmælt því að stefnda eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar. Stefnandi bendir á að stefnda hafi með undirritun á umsókn um stofnun reikningsins staðfest að hafa kynnt sér reglur og skilmála sem um tékkaviðskipti og debetkort giltu, svo og að vextir af yfirdráttarheimild yrðu skuldfærðir af reikningnum. Stefnda hafi því ávallt vitað hver kostnaður af lántökunni yrði, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994. Þá hafi stefnda engin mótmæli haft uppi við vaxtaútreikning á reikningsyfirlitum sem hún hafi fengið send. Stefnda hafi heldur ekki mótmælt útsendum innheimtubréfum.

Af hálfu stefnanda er því mótmælt að hann hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar. Bendir stefnandi á að ákvæði 11. gr. laga nr. 121/1994 hafi girt fyrir að stefnandi gæti innheimt kröfuna á meðan stefnda var í greiðsluskjóli. Stefnda hafi verið í greiðsluskjóli í fjögur ár og áfallnir vextir á því tímabili gjaldfallið við lok tímabilsins 22. júlí 2015. Tómlæti komi því ekki til álita.

Við munnlegan flutning málsins mótmælti stefnandi því sérstaklega að stefndu hafi verið heimilt undir aðalmeðferð málsins að auka við kröfur sínar. Stefnda geti ekki gert frekari kröfur en hún hafi sett fram í greinargerð sinni, en þar hafi hún viðurkennt að skulda stefnanda 1.162.229 krónur.

III

Stefnda vísar til þess að ekki hafi verið gerður lánssamningur um yfirdráttarheimild samkvæmt ákvæðum þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994. Stefnanda hafi vegna þessa í fyrsta lagi verið óheimilt að innheimta lánskostnað, það er útvexti, viðvörunargjald, þjónustugjald og FIT-kostnað, af „heimilaðri yfirdráttarheimild“ sem veitt var stefndu 30. júní 2009 að fjárhæð 1.500.000 krónur og gilti fram til 20. mars 2011. Við munnlegan málflutning kom fram hjá lögmanni stefndu að henni hafi fyrst verið veitt yfirdráttarheimild 17. mars 2004 en ekki 30. júní 2009, eins og fram komi í greinargerð. Gaf lögmaðurinn þær skýringar að stefnda hefði ekki haft undir höndum upplýsingar að því er varðaði fyrra tímabil og hafi stefnandi neitað að afhenda stefndu gögn um það. Stefnda byggir í öðru lagi á því að stefnanda hafi verið óheimilt að innheimta útvexti af „óheimilaðri yfirdráttarheimild“ frá 20. mars 2011 fram til 31. ágúst 2015 þegar reikningnum var lokað. 

Hvað fyrra tímabilið varðar byggir stefnda á því að enginn lánssamningur hafi verið gerður vegna yfirdráttarheimildarinnar þrátt fyrir ófrávíkjanlega skyldu þess efnis samkvæmt 1. mgr. 3. gr., sbr. 5. gr. þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994, sbr. lög nr. 179/2000. Hafi stefnanda því verið óheimilt að innheimta lánskostnað í formi útvaxta, þjónustugjalds, viðvörunargjalds og FIT-kostnaðar af yfirdráttarheimildinni sem var í gildi fram til 20. mars 2011, að fjárhæð 1.500.000 krónur. Stefnda vísar til 1. mgr. 14. gr. tilvitnaðra laga þar sem mælt hafi verið fyrir um að lánveitanda væri óheimilt að krefja lánþega um vexti og annan kostnað, væri slíkt ekki tilgreint í lánssamningi. Í greinargerð kom fram að stefnda teldi sig eiga skuldajafnaðarkröfu á hendur stefnanda vegna greiðslu lánskostnaðar af reikningnum á tímabilinu frá 30. júní 2009 fram til 20. mars 2011 og að sú krafa næmi samtals 335.442 krónum (321.267+7.332+5.200+1.643). Við aðalmeðferð málsins var því síðan haldið fram af hálfu stefndu að hún ætti kröfu á hendur stefnanda vegna lánskostnaðar sem innheimtur hefði verið yfir lengra tímabil, eða allt frá 17. mars 2004. Lagði stefnda fram skjal við upphaf aðalmeðferðar með útreikningum sem við þetta miðaði. Er krafa stefndu þar sögð nema 880.149 krónum (725.100 + 134.733 + 20.316). Um heilmild til skuldajafnaðar vísar stefnda til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Öll skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendi þar sem kröfurnar séu samrættar, efndatími þeirra kominn og báðar varði þær tékkareikning stefnda hjá stefnanda.

Stefnda byggir á því að stefnanda hafi átt að vera ljósar skuldbindingar sínar samkvæmt lögum nr. 121/1994 sem sérfrótt fjármálafyrirtæki í skilningi 1. og 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stefnandi sé sérfróður aðili á umræddu sviði og hafi honum borið að fara að lögum í starfsemi sinni. Standi það stefnanda nær en stefndu sem sé neytandi. Stefnda hafi ekki þekkt rétt sinn heldur treyst stefnanda að því er varðaði innheimtu kostnaðar af reikningnum. Meðal annars af þeirri ástæðu hafi hún ekki gert athugasemdir við reikningsyfirlit stefnanda.

Stefnda vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 3. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 121/1994, skuli lánveitandi gera skriflegan samning um yfirdráttarlán til neytanda. Þá sé einnig áskilnaður um skriflegan lánssamning um yfirdráttarheimild í 2. mgr. 6. gr. og 9. gr., sbr. 1. mgr. 12. gr., laganna. Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 121/1994, stafliðum a-e, sé kveðið á um hvaða upplýsingar lánveitandi skuli veita í samningi um yfirdráttarheimildir. Skylda stefnanda til að gera lánssamning um yfirdráttar­heimild við stefndu hafi því verið ófrávíkjanleg. Stefnda vísar til þess að einu undantekninguna frá þeirri skyldu sé að finna í 3. málslið e-liðar 1. mgr. 3. gr. laganna, er varði breytingu á yfirdráttarheimild, en þar sé þó gert ráð fyrir að lánveitandi sendi skriflegan samning eftir á. Með gagnályktun frá umræddu ákvæði sé skýrt að lánssamningar eigi að vera skriflegir í upphafi með þar tilgreindum upplýsingum a-e-liða 1. mgr. 3. gr. laganna. Þá megi ráða af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 672/2012 að ef ekki hafi verið gerður samningur sem innihaldi þær upplýsingar sem skylt hafi verið að veita samkvæmt lögum nr. 121/1994 sé ekki heimilt að innheimta kostnað, hverju nafni sem hann nefnist.

Þá vísar stefnda til þess að lög um neytendalán hafi verið sett til innleiðingar á tilskipun 87/102/EBE, sbr. breytingatilskipun 90/88/EBE, en meginatriði tilskipunar­innar sé að neytendur fái upplýsingar um lántökukostnað í prósentum samkvæmt árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Sé tilskipuninni ætlað að tryggja neytendum lágmarksvernd gagnvart fjármála­fyrirtækjum. Stefnda byggi á því að 1. mgr. 3. gr. laga nr. 121/1994 hafi áskilið lánssamning við ákveðinn neytanda um yfirdrátta­rheimild á hans tékkareikningi. Þar sem um mismunandi yfirdráttarheimildir og kjör geti verið að ræða fyrir hvern og einn neytanda hjá fjármálafyrirtæki geti almennir skilmálar, sem lagðir séu fram eða komi fram á heimasíðu fjármálafyrirtækis, ekki komið að öllu leyti í staðinn fyrir samning við hvern neytanda. Verði tilgangi laga um neytendalán og tilskipunar 87/102/EBE ekki náð án þess að skriflegur samningur liggi fyrir, jafnframt því að upplýsingum samkvæmt a til e-liðum 1. mgr. 3. gr. laga nr. 121/1994 yrði ekki komið sannanlega til skila. Í lögunum sé ekki gert ráð fyrir því að neytandi þyrfti að leita þessara upplýsinga heldur hafi þær átt að liggja fyrir frá lánveitanda við töku yfirdráttarheimildar.

                Hvað síðara tímabilið varði byggi stefnda á því að eftir að yfirdráttarheimild hennar féll niður 20. mars 2011 hafi verið um óheimilaða yfirdráttarheimild að ræða fram til 31. ágúst 2015 er reikningnum var lokað. Stefnanda hafi því verið óheimilt að innheimta útvexti á tímabilinu. Sömu sjónarmið eigi við að þessu leyti og hvað fyrra tímabilið varði. Því til viðbótar byggi stefnda á því að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 121/1994, sbr. lög nr. 179/2000 og 1. gr. laga nr. 63/2008, sé fjármálafyrirtæki ekki heimilt að innheimta útvexti vegna óheimils yfirdráttar ef slík gjaldtaka eigi sér ekki stoð í samningi. Þar sem engum slíkum samningi hafi verið til að dreifa hafi gjaldtakan verið óheimil.

Stefnda vísar til þess að staða skuldar á reikningnum 28. febrúar 2011 hafi verið 1.497.671 króna, en þann dag hafi síðustu útvextir af heimilaðri yfirdráttarheimild verið reiknaðir. Eins og áður segir byggði stefnda á því í greinargerð að til frádráttar þeirri yfirdráttarskuld skyldi koma óheimill lánskostnaður í formi útvaxta, viðvörunargjalds, þjónustugjalds og FIT-kostnaðar, samtals að fjárhæð 335.442 krónur og hafi því staða reikningsins 28. febrúar 2011 verið 1.162.229 krónur (1.497.671 – 335.442) sem stefnda skuldi stefnanda. Við aðalmeðferð málsins var á hinn bóginn til þess vísað af hálfu stefndu að til frádráttar yfirdráttarskuldinni skyldu koma 880.149 krónur. Þá byggir stefnda á því að ef ekki verði fallist á gagnkröfu hennar til skuldajafnaðar samkvæmt framansögðu verið lagt til grundvallar að staða skuldarinnar við stefnanda sé 1.497.671 króna, miðað við stöðu yfirdráttarins 28. febrúar 2011, þar sem stefnanda hafi verið óheimilt að innheimta útvexti eftir þann tíma.

                Verði ekki fallist á málsástæður stefndu samkvæmt framansögðu er á því byggt af hálfu stefndu að krafa stefnanda sé niður fallin vegna tómlætis. Frá því stefnda hætti notkun reikningsins 28. febrúar 2011 og heimild reikningsins féll niður 20. mars sama ár, og þangað til reikningnum var lokað 31. ágúst 2015, hafi liðið meira en fjögur ár án þess að stefnandi héldi rétti sínum til kröfunnar til haga. Stefndu hafi verið send innheimtuviðvörun 15. október 2015 og málinu stefnt fyrir dómstóla í mars 2016 en þá hafi verið liðin 5 ár frá því reikningurinn var síðast notaður. Frá þeim tíma hafi reikningurinn borið útvexti sem hlaðist hafi upp þar til reikningnum var lokað. Stefnda hafi verið í greiðsluaðlögun á þessum tíma og ekki mátt greiða kröfur lánardrottna sinna. Hins vegar hafi stefnandi mátt stefna málinu fyrir dóm fljótlega eftir að reikningnum var lokað og halda þannig kröfu sinni til haga. Stefnandi hafi látið hjá líða, lengur en hæfilegt geti talist, að gera einhverjar þær ráðstafanir sem löggjöf eða venja mæli fyrir um til að tryggja rétt sinn eða viðgang kröfunnar.

Við munnlegan flutning málsins féll stefnda frá þeirri málsástæðu sinni að hluti kröfu stefnanda væri fallin niður fyrir fyrningu.

                Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda til laga um neytendalán nr. 121/1994 sbr. lög nr. 179/2000 og lög nr. 63/2008, einkum 3., 5., 6., 9., 12., 14. og 28. gr. laganna.  Jafnframt vísar stefnda til 1. og 19. gr. laga nr. 161/2002 og til 2. og 3. gr. laga nr. 2/1993, 3. gr. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Upplýst er að stefnda stofnaði debetkortareikning þann er mál þetta varðar, nr. [...] hjá Kaupþingi Búnaðarbanka hf., er nú tilheyrir stefnanda, 31. október 2003. Heimild til yfirdráttar á reikningnum var til staðar frá 17. mars 2004. Heimildin nam í upphafi 100.000 krónum og nýtti stefnda sér hana. Yfirdráttarheimildin var reglulega hækkuð og nam hún 1.500.000 krónum frá 15. ágúst 2007. Heimildin var felld niður 20. mars 2011 án þess að uppsöfnuð skuld reikningsins, 1.497.671 króna, væri greidd á þeim degi. Reikningnum var lokað 31. ágúst 2015 og nam reikningsskuldin þá stefnufjárhæð málsins, 2.485.459 krónum.

Málsvörn stefndu er á því reist að hún eigi kröfu til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda þar sem ekki hafi verið gerður við hana sérstakur samningur um yfirdráttarlán og því hafi verið óheimilt að innheimta lánskostnað vegna yfirdráttar á reikningi hennar.

Samkvæmt 5. gr. þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994 skyldi lánssamningur vera skriflegur og fela í sér upplýsingar sem tilgreindar voru í 6. og 8. gr. laganna. Eftir gildistöku laga nr. 179/2000 hinn 20. desember 2000 tók ákvæði 5. gr. til samninga um yfirdráttarheimild, þó þannig að 3. gr. laganna fól í sér sérákvæði um upplýsingagjöf við samninga um yfirdráttarheimild af tékkareikningi og sambærilegum láns­samningum með breytilegum höfuðstól. Hvað sem líða kann fyrirmælum 5. gr. um skriflegan lánssamning hefur verið talið, með hliðsjón af skýringum með 5. gr. frumvarps til upphaflegra laga um neytendalán nr. 30/1993, að það sé ekki fortakslaust skilyrði fyrir gildi lánssamninga að þeir séu skriflegir, heldur gildi munnlegir samningar eftir sem áður, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 349/2014. Þá kom fram í 3. mgr. 14. gr. laganna að lánveitanda væri heimilt að krefja neytanda um vexti og annan lántökukostnað, sem ekki væru tilgreindir í samningi, ef hann gæti sannað að neytanda hafi mátt vera ljóst hver lántökukostnaðurinn hafi átt að vera.

   Í umsókn stefndu um debetkortareikning 31. október 2003 kom fram að stefnda hefði kynnt sér reglur og skilmála sem giltu um tékkaviðskipti og debetkort og að stefnda staðfesti með undirritun sinni að hún myndi í einu og öllu fara eftir ákvæðum þeirra. Þá kom einnig fram að stefnda væri samþykk því að vextir af yfirdráttarheimild reikningsins yrðu skuldfærðir af honum mánaðarlega. Fyrir dóminn hafa verið lagðir fram almennir skilmálar innlánsreikninga svo og reglur og skilmálar vegna debetkorta. Í grein 11.1 í reglum um debetkort kemur fram að gjöld vegna notkunar korts greiði korthafi samkvæmt verðskrá á hverjum tíma en verðskrá sem veiti upplýsingar um gjöld, vaxtakjör og annað, sem tengist notkun debetkorta, skuli jafnan liggja frammi í bankanum. Í grein 11.2 segir síðan að bankanum sé heimilt að færa korthafa til gjalda á viðskiptareikningi hans gjöld samkvæmt verðskrá. Með vísan til þessa og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 533/2014 verður talið að stefndu hafi átt að vera ljóst áður en hún stofnaði til viðskipta við stefnanda hvaða kjör lágu til grundvallar viðskiptasambandi aðila. Þessu til viðbótar liggja fyrir í málinu reikningsyfirlit frá stofnun reikningsins á árinu 2003 til lokunar hans á árinu 2015 sem bera það með sér að hafa verið send stefndu. Yfirlitin hafa að geyma nákvæmar og sundurliðaðar upplýsingar um innborganir og úttektir, þar á meðal vegna þjónustugjalda og vaxtakostnaðar. Á öllum yfirlitunum kemur fram að athugasemdir óskist gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins en annars teljist reikningurinn réttur. Stefnda hefur ekki mótmælt því að henni hafi borist umrædd yfirlit. Þá er óumdeilt að stefnda gerði á engum tímapunkti athugasemdir við útreikninga og gjaldfærslu stefnanda og greiddi athugasemdalaust þann kostnað og vexti sem til féllu. Sú staðreynd að stefnandi er fjármálafyrirtæki og sérfróður aðili getur ekki, svo sem málið liggur fyrir dómnum, haft áhrif við mat á framangreindu. Að öllu þessu virtu telst hafa komist á samningur um lánsviðskiptin og verður ekki fallist á gagnkröfu stefndu til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda.

Í ljósi alls þess sem að framan er rakið verður hafnað kröfum stefndu um lækkun á kröfum stefnanda hvort tveggja er varðar tímabil fyrir og eftir 20. mars 2011. Er því þá hafnað að 3. mgr. 3. gr. laga nr. 121/1994, eftir breytingar með lögum nr. 62/2008, leiði til þess að stefnanda hafi verið óheimilt að innheimta vexti af skuldinni. Af skýringum með ákvæðinu í frumvarpi að lögum nr. 62/2008 er ljóst að ákvæðinu hafi verið beint að kostnaði sem fjármálafyrirtæki innheimta þegar viðskiptavinir eyða um efni fram án þess að hafa heimild til yfirdráttar á reikningi, eða hinum svokallaða FIT-kostnaði. Leiðir ákvæðið ekki til þess að stefnanda hafi verið óheimilt að skuldfæra samningsvexti af yfirdráttarskuld stefndu á tímabilinu frá og með 20. mars 2011 þegar yfirdráttarheimild á reikningnum féll niður.

   Stefnda hefur á því byggt að krafa stefnanda sé niður fallin fyrir tómlæti. Fyrir liggur að yfirdráttarskuld á reikningi stefndu féll í gjalddaga 20. mars 2011. Stefnda fór í greiðsluskjól hjá umboðsmanni skuldara 30. júní sama ár og meðan á því stóð var stefnanda óheimilt að krefja um eða taka við greiðslu á kröfum sínum en vextir féllu á skuldina samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Umsókn stefndu um samning til greiðsluaðlögunar var hafnað 21. júlí 2015 og var skorað á stefndu að greiða skuldina með innheimtubréfi 15. október 2015 og aftur 30. sama mánaðar. Mál þetta var síðan höfðað í febrúar 2016. Með hliðsjón af þessu og þar sem það voru atvik er vörðuðu stefndu sem girtu fyrir innheimtuaðgerðir mestan hluta þess tíma sem liðinn er frá gjaldfellingu kröfunnar verður því hafnað að krafan sé niður fallin vegna tómlætis.

   Með vísan til þess sem að framan er rakið verður krafa stefnanda tekin til greina, svo sem hún er fram sett. Samkvæmt þeim málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað sem hæfilega þykir ákveðinn 250.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D Ó M S O R Ð:

Stefnda, Guðbjörg Kristjánsdóttir, greiði stefnanda, Arion banka hf., 2.485.459 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. ágúst 2015 til greiðsludags.

Stefnda greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.