Print

Mál nr. 85/1999

Lykilorð
  • Ríkisstarfsmenn
  • Biðlaun
  • Stjórnarskrá
  • Sératkvæði

___

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 7. október 1999.

Nr. 85/1999.

Pétur Bjarnason

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Ríkisstarfsmenn. Biðlaun. Stjórnarskrá. Sératkvæði.

P var tilkynnt um að staða hans hjá Í yrði lögð niður samhliða því að ný lög um grunnskóla nr. 66/1995 gengju í gildi 1. ágúst 1996. Talið var að staða P hefði ekki verið lögð niður fyrr en 1. ágúst 1996 og bæri því að miða réttarstöðu hans, að því er biðlaun varðaði, við lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem gengu í gildi 1. júlí sama árs. Í málinu væri óumdeilt að P hafði tekið við nýju starfi 1. ágúst 1996 og notið hærri launa en í starfinu sem var lagt niður. Uppfyllti hann því ekki skilyrði 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 til biðlauna. Ekki var talið að sú breyting á rétti til biðlaunagreiðslna sem leiddi af lögum nr. 70/1996, að réttur til biðlaunagreiðslna réðist af launamismun eldra og nýs starfs, án tillits til þess hvort það væri hjá ríki eða öðrum aðila, bryti gegn mannréttindaákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna Í af kröfum P.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 1999 og krefst hann þess að stefndi verði dæmur til að greiða sér 2.510.028 krónur með dráttarvöxtum frá 1. ágúst 1997 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og fram kemur í niðurstöðu hans féllu lög nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins niður hinn 1. júlí 1996, er gildi tóku lög nr. 70/1996 um sama efni. Staða áfrýjanda sem fræðslustjóra Vestfjarðaumdæmis var ekki lögð niður fyrr en frá og með 1. ágúst 1996 og ber að miða réttarstöðu hans, að því er biðlaun varðar, við síðargreind lög. Samkvæmt 5. mgr. ákvæðis þeirra til bráðabirgða var áfrýjanda tryggður biðlaunaréttur vegna niðurlagningar stöðunnar í jafnlangan tíma og hann hefði átt samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954. Hins vegar var um bótarétt og bótafjárhæð á biðlaunatíma vísað til 34. gr. hinna nýju laga. Samkvæmt 2. mgr. hennar, sem hér á við, skyldu greiðslur á biðlaunatíma falla niður ef viðkomandi starfsmaður tæki við starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en biðlaunatíminn væri liðinn ef nýja starfinu fylgdu jöfn eða hærri laun, en ef laun væru lægri skyldi greiða honum mismuninn til loka tímabilsins. Varð hér á sú breyting frá 14. gr. laga nr. 38/1954, að réttur til greiðslna á biðlaunatíma réðist af launamismun eldra og nýs starfs án tillits til þess hvort það var hjá ríki eða öðrum aðila.

Áfrýjandi tók hinn 1. ágúst 1996 við starfi forstöðumanns Skólaskrifstofu Vestfjarða, sem er byggðasamlag með aðild þeirra sveitarfélaga, er mynda Fjórðungssamband Vestfjarða. Er óumdeilt í málinu að áfrýjandi nýtur þar hærri launa en í starfinu, sem lagt var niður, og uppfyllti því ekki skilyrði 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 til að njóta launagreiðslna frá stefnda í tólf mánuði frá niðurlagningu stöðu hans, svo sem hann krefst.

Sú breyting, sem gerð var samkvæmt framansögðu á rétti til greiðslna á biðlaunatíma, þykir ekki þess eðlis að brjóti í bága við eignaréttarákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Getur breytingin hvorki talist ómálefnaleg né ósanngjörn. Hún náði og jafnt til allra ríkisstarfsmanna, sem eins stóð á um, og verður ekki talin brot á jafnræðisreglu.

Að þessu athuguðu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, verður hann staðfestur.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                     

Sératkvæði

Hjartar Torfasonar

hæstaréttardómara

í hæstaréttarmálinu nr. 85/1999:

Pétur Bjarnason

gegn

íslenska ríkinu

Ákvörðun um niðurlagningu á stöðu áfrýjanda sem starfs á vegum ríkisins var tekin með lögum nr. 66/1995 um grunnskóla, er gildi tóku 8. mars 1995 og skyldu koma að fullu til framkvæmda hinn 1. ágúst 1996, að áskildu samþykki Alþingis fyrir þann tíma við breytingum á tvennum lögum öðrum og setningu þriðju laganna, er fjalla skyldu um ráðningarréttindi kennara og skólastjórnenda við grunnskóla og tryggja þeim efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda. Réðst ákvörðunin einkum af ákvæðum II. kafla laganna um stjórn skólanna. Átti afnám stöðunnar að fara fram á tilteknum fresti, sem stjórnvöld voru bundin við. Svo fór, að fresturinn var nýttur að fullu, og mun áfrýjandi hafa sinnt starfi sínu til lokadags. Ekki virðist ástæða til að efast um, að eðlileg nauðsyn hafi ráðið þeirri tilhögun. Hins vegar gerðist það á þessum fresti, að ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins tóku gildi, hinn 1. júlí 1996. Sýnist mál þetta í raun af því risið, að svo vildi til, en ákvæði laganna um afnám stöðu eru frábrugðin fyrri reglum í mikilsverðum atriðum.

Málið varðar rétt áfrýjanda til biðlauna á grundvelli þess, að staða hans var lögð niður. Í honum fólust áunnin réttindi, sem meta þarf í ljósi eignarréttarákvæða 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ef því er að skipta. Um efni réttarins fór eftir lögum nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þegar umrædd ákvörðun gekk í gildi, en af henni var áfrýjandi ekki síður bundinn en þau stjórnvöld, sem réðu nýtingu frestsins. Eðlilegt var að miða við, að rétturinn héldist í því horfi, hverju sem fram kynni að vinda um hraðann á framkvæmd grunnskólalaganna. Verður sú ályktun enn nærtækari þegar til þess er litið, að viðurkennt var og ákveðið við meðferð þeirra laga á Alþingi, að þörf væri á að fjalla um biðlaunarétt og starfsöryggi þeirra manna, sem lögin næðu til, sbr. fyrrnefndan áskilnað í 57. gr. þeirra. Var því og fylgt eftir með samþykkt laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, sem tóku gildi 1. ágúst 1996 og gerðu þannig kleift að ljúka framkvæmd grunnskólalaganna á tilsettum fresti. Með þessum sérstöku lögum var hinum fjölmenna hópi kennara og stjórnenda við skólana tryggður sami réttur við afnám stöðu hjá nýjum vinnuveitanda og hann hafði áður notið hjá ríkinu eftir lögum nr. 38/1954. Af hálfu löggjafans var hins vegar ekki að gert um stöðu hins fámenna hóps sérfræðinga og fræðslustjórnenda, sem áfrýjandi heyrði til og hafði einnig lotið ákvæðum grunnskólalaganna. Hefur stefndi ekki sýnt, svo sem málið liggur fyrir, að í því hafi mismunun ekki verið fólgin.

Við þessi atvik að því, hvernig staða áfrýjanda var lögð niður, verður að hafna því, að hann þurfi óátalið að sæta skerðingu á þeim biðlaunarétti hans, sem um var mælt í 14. gr. laga nr. 38/1954. Samkvæmt því er það álit mitt, að taka beri kröfu áfrýjanda til greina að undirstöðu til, en eftir úrslitum málsins eru ekki efni til að fjalla endanlega um fjárhæð kröfunnar. Jafnframt ber að ákveða honum hæfilegan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti:

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 1998.

I.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 18. mars 1998 og dómtekið 18. þ.m.

 Stefnandi er Pétur Bjarnason, kt. 120641-3879, Túngötu 17, Ísafirði.

 Stefndi er íslenska ríkið, kt. 540269-6459, Arnarhváli, Reykjavík.

 Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 2.510.028 krónur með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 1. ágúst 1997 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

 Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans, en til vara, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

II.

Í málinu krefur stefnandi stefnda um greiðslu biðlauna.

 Hinn 6. október 1983 var stefnandi settur fræðslustjóri í Vestfjarðaumdæmi frá og með 10. s.m. að telja og skipaður í stöðuna 16. maí 1986 frá 1. júní s.á. að telja. Hann gegndi þeim starfa til 1. ágúst 1996. Samkvæmt framlögðum launaseðli fyrir júlímánuð 1996 var starfsaldur/prófaldur stefnanda talinn frá september 1962 og samkvæmt því, sem greinir í stefnu, hóf hann störf hjá ríkinu sem kennari 1. september 1965.

 Lög um grunnskóla nr. 66/1995 tóku gildi 13. mars 1995 og skyldu, samkvæmt 57. gr., koma að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996. Samkvæmt 10. gr. skal allur rekstur almennra grunnskóla vera á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga frá þeim tíma, er lögin kæmu að fullu til framkvæmda, sé ekki sérstaklega kveðið á um annað. Í 6. gr. reglugerðar nr. 349 frá 20. júní 1995, um framkvæmd laga um grunnskóla nr. 66/1995, segir:  „Fræðsluskrifstofur er við gildistöku reglugerðar þessarar starfa sem ríkisstofnanir samkvæmt ákvæðum 11. gr. laga nr. 49/1991 annast, eftir því sem við verður komið, þau störf er þeim voru falin samkvæmt þeim lögum fram til 1. ágúst 1996 en þá hætta þær störfum sem ríkisstofnanir.“

 Menntamálaráðherra sendi stefnanda svohljóðandi bréf, dags. 21. september 1995:

 „Lög um grunnskóla nr. 66 frá 8. mars 1995 koma að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996 sbr. 57. gr. laganna. Þau verkefni er núverandi fræðsluskrifstofur sem ríkisstofnanir annast munu frá þeim tíma vera á höndum sveitarfélaga, svo og ráðning starfsmanna til að sinna þeim. Fram til þess tíma verður starfsemi fræðsluskrifstofa sem ríkisstofnana óbreytt að öðru leyti en því er leiða kann af flutningi á einstökum verkefnum til sveitarfélaga fyrir 1. ágúst 1996 vegna undirbúnings skólaársins 1996 - 1997.

 Með vísan til þess sem að framan greinir verður staða yðar lögð niður frá og með 1. ágúst 1996 og er yður því hér með tilkynnt um starfslok þann 31. júlí 1996.“

 Í bréfi menntamálaráðherra til stefnanda, dags. 11. júlí 1996, segir, að ráðuneytið telji rétt að gera honum grein fyrir þeim lagaákvæðum, sem fara skuli eftir við greiðslu biðlauna til hans, þar sem starf hans verði lagt niður eftir gildistöku nýrra laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, hinn 1. ágúst 1996. Um biðlaunaréttinn fari skv. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996. Samkvæmt því sé biðlaunarétturinn sá sami og var skv. eldri lögum nr. 38/1954, nema hvað varðar bótarétt og bótafjárhæð, sem fari skv. 2. mgr. 34. gr. l. nr. 70/1996.

 Með samningi, undirrituðum 13. júní 1996, var stefnandi ráðinn í starf forstöðumanns Skólaskrifstofu Vestfjarða frá og með 1. ágúst 1996 til og með 31. júlí 1999. Í 3. gr. ráðningarsamningsins segir, að laun skuli greidd fyrir fram mánaðarlega og að um orlof, önnur starfskjararéttindi og skyldur skuli fara samkvæmt reglum, er gildi um starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt samningum launanefndar sveitarfélaga. Í 4. gr. segir, að forstöðumaður skuli njóta orlofs og annarra réttinda samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og að Skólaskrifstofa Vestfjarða greiði mótframlag í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 8. gr. samningsins er gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir og síðan segir: „Verði ekki um endurráðningu að ræða á ráðningarsamningi, eða starfsemi skrifstofunnar verður lögð af, hefur forstöðumaður rétt til 6 mánaða biðlauna. Um greiðslu biðlauna er ekki að ræða, ef forstöðumaður óskar sjálfur að láta af störfum, áður en samningstímabili lýkur.“

 Í bréfi stefnanda til fjármálaráðherra, dags. 12. desember 1996, er vísað til þess, að fáum vikum fyrir starfslok hans sem fræðslustjóra Vestfjarðaumdæmis hafi tekið gildi lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem skerði biðlaunarétt þeirra verulega og afnemi hann hvað varðar stefnanda. Hann hafi þá verið ráðinn til starfa við Skólaskrifstofu Vestfjarða og færist áunninn biðlaunaréttur ekki yfir, þar sem hér sé um nýja stofnun að ræða, byggðasamlag. Með lögum þessum, sem sett hafi verið löngu eftir uppsögn fræðslustjóra en skömmu fyrir starfslok þeirra, telji stefnandi, að réttindi sín hafi verið skert verulega og áunnin samningsbundin eign sín, sem greitt hafi verið fyrir í þrjá áratugi sem hluti af launakjörum ríkisstarfsmanna, hafi verið gerð upptæk án bóta. Stefnandi fór fram á, að þessi skerðing yrði bætt og áskildi sér rétt til þess að leita til dómstóla.

 Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 2. janúar 1997, við framangreindu erindi kemur fram höfnun á sjónarmiðum stefnanda.

 Stefnanda var ekki boðið annað starf á vegum ríkisins í tenglum við það, að staða hans sem fræðslustjóra í Vestfjarðaumdæmi var lögð niður frá og með 1. ágúst 1996. Hann hefur samfellt frá þeim tíma gegnt starfi forstöðumanns Skólaskrifstofu Vestfjarða. Í stefnu segir, að laun hans í því starfi séu hærri en þau, sem hann hafði hjá ríkinu.

III.

Málsástæður stefnanda og lagarök.

a) Í fyrsta lagi er á því byggt, að um biðlaunarétt stefnanda eigi að fara eftir lögum nr. 38/1954 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það byggist á þeirri staðreynd, að hinn 21. september 1995 hafi menntamálaráðuneytið sent honum bréf, þar sem honum hafi verið tilkynnt, að staða hans yrði lögð niður 31. júlí 1996. Slík tilkynning sé í eðli sínu uppsögn og ákvöð og taki því gildi, er hún sé komin til vitundar viðtakanda. Á þessum tíma hafi verið í gildi lög nr. 38/1954 og því hafi átt að fara um biðlaunarétt stefnanda samkvæmt þeim lögum. Þá hafi lög um grunnskóla nr. 66/1995, er felldu niður störf starfsmanna fræðsluskrifstofa hjá ríkinu, öðlast gildi 8. mars 1995 og þau hafi átt að koma til framkvæmda í áföngum. Lögin hafi að mestu leyti tekið gildi 1. júní 1996, sbr. reglugerð menntamálaráðuneytisins nr. 349/1995 um framkvæmd laganna. Þá hafi lög nr. 38/1954 enn verið í gildi.

b) Einnig er á því byggt, að biðlaunaréttur stefnanda hafi verið áunninn réttur, sem sé varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi hafi með áralangri þjónustu sinni fyrir íslenska ríkið unnið sér inn rétt til biðlauna. Rétturinn hafi varðað atvinnuöryggi stefnanda. Hann hafi um árabil verið hluti af ráðningarkjörum stefnanda, og því hafi hann mátt treysta því, að réttur þessi yrði ekki afnuminn einum mánuði fyrir starfslok sín. Opinberir starfsmenn hafi um árabil sætt sig við lakari launakjör en tíðkaðist á hinum almenna vinnumarkaði. Það hafi m.a. helgast af þeim ráðningarkjörum, sem þeir höfðu og því starfsöryggi, sem þeim voru tryggð. Því sé þetta hluti af launakjörum, sem verði ekki af tekin, nema fullt verð komi fyrir.

 Rétturinn til biðlauna sé kröfuréttindi og sem slíkur eign viðkomandi. Strax á árinu 1995 hafi stefnanda verið tilkynnt, að staða hans yrði lögð niður árið eftir. Við það hafi réttur hans orðið til og hann þá þegar átt kröfu um biðlaun. Því hafi ekki verið hægt án bóta að fella niður þann rétt hans ári síðar með lögum.

 Biðlaunaréttur stefnanda hafi verið skertur þannig með lögum nr. 70/1996, að laun hans hjá öðrum, eftir að staða hans var lögð niður, skyldu dragast frá biðlaunum hans. Stefnandi, sem hafi fengið hærra launaða stöðu hjá sveitarfélagi, hafi þannig misst biðlaun sín.

c) Að lokum er á því byggt, að ekki hafi verið gætt jafnræðis, er ákvæðum laga um biðlaun starfsmanna við grunnskóla hafi verið breytt. Slíkt sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

 Hafa verði í huga, að lögin um grunnskóla frá 1991 hafi náð til þeirra, sem störfuðu við grunnskólann, þ.m.t. kennara, skólastjóra og starfsmanna fræðsluskrifstofa. Þegar grunnskólinn hafi verið fluttur yfir til sveitarfélaganna hafi kennarar og skólastjórnendur haldið öllum þeim réttindum, sem þeir höfðu fyrir og átt sjálfkrafa rétt á stöðum sínum áfram. Þessu hafi hins vegar verið öfugt farið með starfsmenn fræðsluskrifstofa, enda hafi störf þeirra í raun verið lögð niður. Auk þess hafi skerðing á biðlaunarétti þeirra verið mun meiri, séu borin saman ákvæði laga nr. 70/1996 og laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla.

 Í stefnu segir, að stefnandi hafi fengið fyrir fram greidd laun og því fengið síðast greidd út laun 1. júlí 1996 fyrir þann sama mánuð. Biðlaun hans falli því í gjalddaga næstu 12 mánuði, í fyrsta sinn 1. ágúst 1996. Gerð sé krafa um dráttarvexti, er öll launin séu gjaldfallin. Fjárhæð dómkröfu stefnanda sundurliðast þannig:

1. Föst mánaðarlaun ágúst ´96 - júlí ´97

2. Föst yfirvinna 40 klst. pr. mánuð kr. 1.773.372

"    736.656

IV.

Málsástæður stefnda og lagarök.

Því er haldið fram, með vísun til þess, sem fram sé komið um laun stefnanda og önnur starfskjör hjá hinum nýja vinnuveitanda, að hann eigi ekki rétt til biðlauna samkvæmt ákvæðum laga, sem giltu um biðlaunarétt á þeim tíma, er starf hans var lagt niður, þ.e. frá og með 1. ágúst 1996. Þann 1. júlí 1996 hafi lög nr. 38/1954 fallið úr gildi og lög nr. 70/1996 leyst hin eldri af hólmi frá sama tíma. Staða stefnanda hafi ekki verið lagt niður 21. september 1995, þótt stefnanda væri gerð grein fyrir því, að ákvæði laga nr. 66/1995 um grunnskóla kæmu að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996 og að verkefni fræðsluskrifstofa yrðu frá þeim tíma á hendi sveitarfélaga. Stefnanda hafi verið gerð grein fyrir því með bréfi ráðherra, dags. 11. júlí 1996, að staða hans yrði lögð niður frá og með 1. ágúst, þannig að starfslok yrðu 31. júlí 1996. Ekki sé skylt að tilkynna um niðurlagningu stöðu eða að leggja niður stöðu með fyrirvara. Unnt sé að tilkynna um niðurlagningu stöðu sama dag og af verður eða að hætta við áform um niðurlagningu allt til þess tíma. Því er mótmælt, að staða stefnanda hafi verið lögð niður fyrir gildistöku laga nr. 70/1996 eða að uppsögn hafi borist honum fyrir það tímamark. Um rétt stefnanda til biðlauna hafi farið eftir 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, sbr. 2. mgr. 34. gr. þeirra laga, og beri að sýkna stefnda þegar af þeirri ástæðu, að stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrði biðlauna.

 Því er mótmælt, að réttur til launa við niðurlagningu stöðu eftir þeim reglum, sem áður giltu, þ.e. samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954, hafi notið verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar eða hafi getað talist eign í skilningi þess ákvæðis. Biðlaunaréttur hafi verið háður óvissu skilyrði um niðurlagningu stöðu og ekki verið afmarkaður sem eign í skilningi fjármunaréttar. Biðlaunarétti hafi í öndverðu verið ætlað það hlutverk að samsvara ríflegum uppsagnarfresti þeirra embættismanna, sem voru skipaðir eða ráðnir ótímabundið án sérstakra ákvæða um gagnkvæman uppsagnarfrest. Hafi löggjafanum verið heimilt að afnema eða breyta rétti til biðlauna með almennum lögum. Telur stefndi ekki efni til að breyta mati löggjafans á því, hvernig fari um biðlaunarétt starfsmanna ríkisins. Þá hafi réttur til launa við niðurlagningu stöðu ekki orðið virkur vegna framlaga eða iðgjalda af neinu tagi og engin fjármunaréttindi tengd 14. gr laga nr. 38/1954 verið skráð, haldið sérgreindum eða menn getað hagnýtt sér þau.

 Þótt talið yrði, að réttur til launa við niðurlagningu stöðu hafi notið eignarréttarverndar stjórnarskrár, hafi löggjafanum verið heimilt að breyta þeim réttindum með almennum lögum. Verði talið, að í lögum nr. 70/1996 hafi falist skerðing á eign, hafi verið um að ræða almenna og málefnalega breytingu, sem hafi ekki komið sérstaklega niður á einstökum aðilum eða afmörkuðum hópum ríkisstarfsmanna og sem menn verði að þola bótalaust. Stefndi telur einnig, að líta verði svo á, að þótt talið verði, að biðlaunaréttur hafi notið verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar hafi í raun komið fullt verð fyrir þá breytingu, með því að ríkisstarfsmönnum sé, samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, tryggður réttur til launa í sex eða tólf mánuði, hafi þeir ekki aflað sér nýs starfs með jafnháum eða hærri launum.

 Því er mótmælt, að með breytingunni hafi atvinnuöryggi verið skert. Þá er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að stefnandi eða aðrir ríkisstarfsmenn, sem hann tilgreini ekki, hafi greitt fyrir biðlaunarétt með lakari kjörum en tíðkaðist á hinum almenna vinnumarkaði.

 Af hálfu stefnda er því mótmælt, að ekki hafi verið gætt jafnræðis, er ákvæðum laga um biðlaun ríkisstarfsmanna hafi verið breytt. Breyting sú, sem hafi orðið með lögum nr. 70/1996 á biðlaunarétti ríkisstarfsmanna, hafi ekki falið í sér sviptingu þess réttar gagnvart þeim, sem féllu undir 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða. Telur stefndi breytingu þessa vera málefnalega og sanngjarna. Einnig er á því byggt, að stefnandi hafi tekið við starfi hjá öðrum aðila, sem hafi verið fyllilega sambærilegt; launin hærri og kjör að öðru leyti hin sömu, þ.á m. um biðlaunarétt.

 Vísað er til þess, að samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi uppsagnarfrestur verið talinn til biðlaunatíma, hvort sem starfsmaður hafi verið við störf eða ekki. Verði ekki fallist á framangreindar sýknuástæður stefnda, verði að líta svo á, að er lög nr. 66/1995 hafi verið birt þann 13. mars 1995 og reglugerð nr. 349/1995 þann 21. júní s.á., hafi orðið straumhvörf á starfi stefnanda, hliðstæð þeim, er hann ráði af bréfi því, sem ritað hafi verið 21. september 1995, og telji að jafngilt hafi uppsögn. Af þessum ástæðum beri að telja allan tímann frá 21. júní 1995 til 31. júlí 1996 til uppsagnarfrests, sem leiði til sýknu af kröfum stefnanda.

 Varakrafa stefnda er rökstudd þannig, að verði miðað við það tímamark, er menntamálaráðherra hafi ritað stefnanda bréf þ. 21. september 1995, sem hann telji hafa verið uppsögn, beri a.m.k. að telja tímann frá 1. október 1995 til 31. júlí 1996, eða tíu mánuði, til biðlaunatímans.

 Stefndi mótmælir grundvelli kröfugerðar stefnanda tölulega á þann veg, að hefði stefnandi notið biðlauna í 12 mánuði væri samtala þeirra 2.614.056 krónur í stað 2.510.028 króna, eins og haldið sé fram í stefnu.

 Kröfu stefnanda um dráttarvexti er mótmælt með vísun til 9. gr. og/eða 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, og séu einungis efni til að dæma þá frá dómsuppsögu eða þingfestingu málsins.

V.

Í 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var kveðið á um biðlaunarétt. Þar sagði í 1. mgr.: „Nú er staða lögð niður, og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en í 12 mánuði, eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu á vegum ríkisins.“ Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar skyldi greiða starfsmanni, sem nyti launagreiðslna skv. 1. mgr. og tæki við lægra launuðu starfi í þjónustu ríkisins., launamismuninn til loka 6 eða 12 mánaða tímabilsins. Launagreiðslurnar skyldu hins vegar falla niður, ef hann tæki við starfi í þjónustu ríkisins, áður en liðinn var 6 eða 12 mánaða tíminn, og laun þau, sem fylgdu nýja starfinu, væru jöfn eða hærri en þau, er hann naut í fyrri stöðunni.

 Lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins öðluðust gildi 1. júlí 1996. Við gildistöku laganna féllu brott lög nr. 38/1954. Í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða segir: „Sé starf lagt niður á starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hefur undir lög nr. 38/1954, en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laga þessara, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í tólf mánuði. Að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr.“ Biðlaunaréttur samkvæmt 34. gr. laga nr. 70/1996 er hinn sami og var samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 að öðru leyti en því, að biðlaun skerðast, eða eftir atvikum falla brott, ekki einungis vegna launa, sem fylgja nýju starfi í þjónustu ríkisins á biðlaunatímanum, heldur einnig vegna launa, sem fylgja starfi í þjónustu annarra aðila.

 Stefnandi lét af starfi sínu við Fræðsluskrifstofu Vestfjarðaumdæmis frá og með 1. ágúst 1996 við það, að staða hans var lögð niður sem og starfsemi skrifstofunnar. Á því tímamarki einu gat réttur hans til biðlauna orðið virkur, að uppfylltum öðrum skilyrðum gildandi laga um það efni. Lög nr. 38/1954, sem stefnandi styður kröfu sína við, voru þá fallin úr gildi. Með bréfi menntamálaráðherra frá 21. september 1995, þar sem stefnanda var gert viðvart um fyrirhugaða breytingu á starfshögum hans, var gætt vandaðra stjórnsýsluhátta, en það hafði ekki áhrif á réttarsamband aðila málsins.

 Ósannað er, að stefnandi (eða aðrir opinberir starfsmenn) hafi goldið fyrir biðlaunarétt með lakari kjörum en tíðkaðist á hinum almenna vinnumarkaði. Réttur stefnanda að þessu leyti var háður skilyrðum, hann tengdist ekki framlögum hans, og að öðru leyti eru eigi uppfylltar kröfur, sem gerðar eru um stofnun eignaréttar. Almenna löggjafanum var því heimilt að breyta réttindum þessum eftir málefnalegum og sanngjörnum sjónarmiðum, eins og gert var með lögum nr. 70/1996, án þess að það verði talið brjóta í bága við 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Lög þessi taka jafnt til allra, sem eins er ástatt um, og er ekki fallist á, að með setningu þeirra hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu íslensks réttar, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

 Samkvæmt framanrituðu er niðurstaða dómsins sú, að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.

 Eftir atvikum þykir mega ákveða, að málskostnaður falli niður.

 Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

Dómsorð:

 Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Péturs Bjarnasonar. Málskostnaður fellur niður.