Print

Mál nr. 177/2002

Lykilorð
  • Kærumál
  • Samkeppni
  • Stjórnarskrá
  • Friðhelgi einkalífs
  • Húsleit
  • Hald

Föstudaginn 3

 

Föstudaginn 3. maí 2002.

Nr. 177/2002.

Samkeppnisstofnun

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Olíuverzlun Íslands hf.

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

 

Kærumál. Samkeppni. Stjórnarskrá. Friðhelgi einkalífs. Húsleit. Hald.

O krafðist þess fyrir dómi að Samkeppnisstofnun yrði gert að eyða afritum af öllum skjölum í rafrænu formi en til vara af öllum tölvupósti, sem stofnunin hafði afritað við húsleit hjá O vegna gruns um brot O á samkeppnislögum með samráði við tvö önnur olíufélög. O var talið rétt að eiga aðild að slíku máli fyrir dómstólum, þótt kröfur fyrirtækisins vörðuðu að nokkru leyti lögmæti þess að við húsleitina hafi verið lagt hald á tölvutæk gögn sem O kvað vera í eigu starfsmanna sinna. O var ekki talið heimilt að bera lögmæti heimildar til húsleitar undir dómstóla, né atriði er vörðuðu framkvæmd hennar, þar sem húsleitinni hafi þá verið lokið. Á hinn bóginn var tekið fram að heimilt væri að leita úrlausnar dómstóla um hvort leggja hafi mátt hald á einstök gögn án þess að áður hafi verið lagt mat á sönnunargildi þeirra, svo og hvort farið hafi verið fram úr hófi við haldlagningu gagna, enda hafi þolandi slíkrar aðgerðar ekki fengið gögnin í hendur. Ljóst þótti að Samkeppnisstofnun hafi við framkvæmd umræddrar rannsóknar afritað m.a. verulegan fjölda tölvutækra gagna án þess að athuga nánar efni þeirra þá þegar. Þótt ætla yrði að stofnunin hafi með þessu tekið í vörslur sínar mikið af gögnum sem ekki gátu varðað rannsókn hennar, varð ekki horft fram hjá því að athugun allra tölvutækra gagna á vettvangi hefði bersýnilega tekið langan tíma og truflað mjög starfsemi O. Að þessu gættu var ekki unnt að líta svo á að aðgerðir Samkeppnisstofnunar hafi farið úr hófi. Þá var talið að þótt starfsmenn O kynnu, svo sem O hélt fram, að hafa varðveitt á vinnustað sínum tölvutæk gögn, sem tilheyrðu þeim persónulega, gæti það engu breytt um að Samkeppnisstofnun hafi verið rétt vegna rannsóknar sinnar og í skjóli húsleitarheimildar að taka afrit af öllum gögnum í tölvubúnaði O. Var þá horft til þess að hafi starfsmenn O varðveitt persónuleg gögn sín í tækjabúnaði O bæru þeir áhættu af því að þau kæmust í hendur annarra vegna lögmætra aðgerða handhafa opinbers valds í garð O. Var kröfum O hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2002, þar sem hafnað var nánar tilgreindum kröfum varnaraðila varðandi skjöl í tölvutæku formi, sem sóknaraðili lagði hald á við húsleit hjá varnaraðila 18. desember 2001. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að sóknaraðila verði gert að eyða afritum af öllum skjölum í tölvutæku formi en til vara af öllum tölvupósti, sem hald var lagt á hjá varnaraðila áðurgreindan dag og vistuð eru í tölvum sóknaraðila. Að þessu frágengnu krefst varnaraðili þess að kveðið verði á um að sóknaraðila sé óheimilt að opna þau skjöl, sem aðalkrafa varnaraðila lýtur að. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins leitaði sóknaraðili 17. desember 2001 eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til þess að mega gera húsleit hjá varnaraðila vegna gruns um að hann hefði með samráði við tvö önnur nafngreind olíufélög brotið gegn ákvæði 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Heimildar þessarar var leitað á grundvelli 40. gr. sömu laga. Með beiðni sóknaraðila um heimildina fylgdi yfirlit hans um verðbreytingar á bifreiðaeldsneyti á tímabilinu frá 1. janúar 1992 til 1. desember 2001, svo og útdráttur úr viðtali við forstjóra annars olíufélags, sem mun hafa birst í Morgunblaðinu 11. janúar 2001. Samhliða þessu mun sóknaraðili hafa leitað samsvarandi heimildar til húsleitar hjá hinum olíufélögunum tveimur. Með úrskurði héraðsdómara 17. desember 2001 var fallist á beiðni sóknaraðila og tekið þar fram, eins og hann hafði krafist, að heimild hans næði til leitar og haldlagningar á munum og gögnum í húsnæði og læstum hirslum og til að taka afrit af gögnum í tölvutæku formi.

Húsleit samkvæmt framangreindri heimild fór fram hjá varnaraðila 18. desember 2001 og um leið hjá hinum olíufélögunum tveimur. Áður hafði sóknaraðili 14. sama mánaðar beint skriflegu erindi til lögreglustjórans í Reykjavík um að lögreglumenn yrðu fengnir „til aðstoðar við umrædda leit“. Liggur fyrir að þrír lögreglumenn fóru ásamt nokkrum fjölda starfsmanna sóknaraðila og aðstoðarmanna á hans vegum á skrifstofur varnaraðila nokkru eftir kl. 10 að morgni fyrrgreinds dags. Verður ráðið af lögregluskýrslum um húsleitina að umræddir lögreglumenn hafi kynnt starfsmönnum varnaraðila heimildina til hennar og verið viðstaddir framkvæmd hennar, en skrár um haldlögð gögn virðast á hinn bóginn allar hafa verið gerðar af starfsmönnum sóknaraðila. Lauk þessum aðgerðum nokkru fyrir kl. 16 sama dag með því að ýmis gögn, sem hald var lagt á, voru flutt af vettvangi. Jafnframt tóku menn á vegum sóknaraðila afrit af miklum fjölda gagna í tölvum á skrifstofum varnaraðila, þar á meðal um 600.000 tölvupóstsendingum að sögn þess síðastnefnda. Öll þessi gögn voru síðan afrituð inn á tölvur hjá sóknaraðila, þar sem þau munu þó ekki enn hafa komið til efnislegrar skoðunar.

Með bréfi 25. febrúar 2002 leitaði varnaraðili úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um lögmæti þess að sóknaraðili hafi lagt hald á framangreind tölvutæk gögn, en um heimild til þessa vísaði varnaraðili til 75. gr. og 79. gr. laga nr. 19/1991. Af því tilefni var mál þetta þingfest í héraði 26. sama mánaðar og gerði varnaraðili þar sömu kröfur og hann gerir nú fyrir Hæstarétti. Með hinum kærða úrskurði var þeim öllum hafnað.

II.

Fyrrgreindri kröfu sóknaraðila um húsleit var beint að varnaraðila og fór leitin fram í húsakynnum hans, þar sem lagt var hald á þau gögn, sem mál þetta varðar. Í því ljósi er varnaraðila rétt sem vörsluhafa gagnanna, sbr. 79. gr. laga nr. 19/1991, að leggja málið fyrir dómstóla, þótt kröfur hans varði að nokkru leyti lögmæti þess að sóknaraðili hafi við húsleitina lagt hald á tölvutæk gögn, sem varnaraðili kveður vera í eigu starfsmanna sinna.

III.

Samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 verður úrskurður héraðsdómara ekki kærður til Hæstaréttar ef athöfn, sem kveðið er á um í úrskurðinum, hefur þegar farið fram eða ástand, sem leitt hefur af ákvæðum hans, er þegar um garð gengið. Með þessum reglum er tekið mið af því að þótt heimild til að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara líði undir lok þegar ákvæðum hans hefur verið hrundið í framkvæmd, þá geti sá, sem verður að þola rannsóknaraðgerð samkvæmt úrskurðinum, allt að einu fengið leyst úr atriðum varðandi lögmæti heimildar til hennar eða aðferðir við framkvæmd hennar í opinberu máli, sem kann að verða höfðað um sakarefnið, eða með því að höfða einkamál til heimtu skaðabóta á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991.

Þegar sóknaraðili hafði lokið húsleit hjá varnaraðila 18. desember 2001 féll niður heimild þess síðastnefnda til að kæra til Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. sama mánaðar. Samkvæmt framangreindum rökum að baki 3. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 getur varnaraðili ekki nú beitt ákvæðum 75. gr. eða 79. gr. sömu laga til að leita eftir sérstakri úrlausn dómstóla um hvort héraðsdómara hafi með þeim úrskurði verið rétt að heimila húsleit hjá honum. Af sömu ástæðu getur varnaraðili heldur ekki beitt síðastnefndum tveimur lagaákvæðum til að fá leyst í máli þessu úr atriðum, sem varða framkvæmd húsleitar, sem þegar er lokið. Vegna þessa geta ekki komið frekar til skoðunar í máli þessu röksemdir varnaraðila, sem snúa að því hvort annmarki hafi verið á stjórn húsleitarinnar með því að lögreglumenn hafi ekki haft hana með höndum og hvort haldlögð gögn hafi verið skráð á fullnægjandi hátt. Sama máli gegnir um röksemdir varnaraðila, sem lúta að því hvort meðalhófs hafi verið gætt við húsleitina. Hafi haldi ekki verið aflétt í kjölfar húsleitar má á hinn bóginn leita úrlausnar dómstóla í máli, sem rekið er með stoð í 79. gr. laga nr. 19/1991, um hvort leggja hafi mátt hald á einstök gögn án þess að áður væri lagt mat á sönnunargildi þeirra, svo og hvort farið hafi verið fram úr hófi við haldlagningu gagna.

IV.

Í ljósi þess, sem áður greinir, verður að leggja til grundvallar að sóknaraðili hafi ekki enn kannað efni gagna, sem hann afritaði við húsleit hjá varnaraðila úr tölvum á skrifstofum hans. Sóknaraðili fékk áðurnefnda heimild héraðsdómara 17. desember 2001 til húsleitarinnar, svo og til að leggja hald á þessi gögn með því að afrita þau, en fyrir þessu var nægileg stoð í 1. mgr. 40. gr. samkeppnislaga, sbr. 78. gr. laga nr. 19/1991. Gögn þessi eru ekki slík að ákvæði 1. mgr. 80. gr. síðastnefndra laga geti átt við um þau. Af þeim sökum getur sóknaraðili reist heimild til að kanna á síðari stigum efni umræddra gagna á þeim úrskurði, sem hann aflaði sér fyrir dómi til að leita þeirra, en til að leggja hald á gögnin við leitina naut hann sjálfstæðrar heimildar í 2. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991.

Þótt varnaraðili sé hlutafélag nýtur hann jafnt sem einstaklingur þeirrar friðhelgi, sem um ræðir í 1. mgr. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, gagnvart aðgerðum sóknaraðila við leit á skrifstofum hans og könnun þar á skjölum og tölvutækum gögnum. Eins og áskilið er í síðarnefndu málsgreininni hafði sóknaraðili aflað sér dómsúrskurðar fyrir leitinni og naut hann þannig sem áður segir lagaheimildar til að leggja þar hald á gögn og aðra muni. Við framkvæmd rannsóknar á skrifstofum varnaraðila afritaði sóknaraðili meðal annars verulegan fjölda tölvutækra gagna án þess að athuga nánar efni þeirra þá þegar. Þótt ætla verði að sóknaraðili hafi með þessu tekið í vörslur sínar mikið af gögnum, sem geta ekki varðað rannsókn hans, verður ekki horft fram hjá því að athugun allra tölvutækra gagna á vettvangi hefði bersýnilega tekið langan tíma og truflað mjög starfsemi varnaraðila. Að þessu gættu er ekki unnt að líta svo á að aðgerðir sóknaraðila hafi farið úr hófi, enda helgaðist heimild hans til húsleitar af því að á skrifstofum varnaraðila kynni að mega finna gögn, sem vörðuðu rannsókn hans, þar á meðal í tölvutæku formi.

Í málinu hafa ekki verið bornar brigður á að aðgerðir sóknaraðila við leit að tölvutækum gögnum og haldlagningu þeirra hafi snúið að tækjabúnaði, sem var í eigu varnaraðila og staðsett á skrifstofum hans, en ekki að tölvubúnaði í eigu starfsmanna hans eða í híbýlum þeirra. Þótt starfsmenn varnaraðila kunni, svo sem hann heldur fram, að hafa varðveitt á vinnustað sínum tölvutæk gögn, sem tilheyrðu þeim persónulega og komu starfsemi hans ekki við, getur það engu breytt um að sóknaraðila var rétt vegna rannsóknar sinnar og í skjóli húsleitarheimildar að taka afrit af öllum gögnum í tölvubúnaði varnaraðila. Er þá horft til þess að ef starfsmenn varnaraðila hafa varðveitt persónuleg gögn sín í þeim búnaði, í stað þess að geyma slík gögn á heimili sínu eða öðrum stað, sem friðhelgi þeirra sjálfra samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar tekur til, er óhjákvæmilegt að þeir beri áhættu af því að þau komist í hendur annarra vegna lögmætra aðgerða handhafa opinbers valds í garð varnaraðila.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2002.

Með beiðni, dagsettri 25. febrúar 2002 beiddist sóknaraðili, sem er Olíuverslun Íslands hf., úrlausnar um lögmæti haldlagningar á gögnum sem framkvæmd var 18. desember sl. á starfsstöð sóknaraðila að Sundagörðum 2, Reykjavík. Um heimild fyrir beiðni þessari vísar sóknaraðili til 75.gr., sbr. 1. gr. 79.gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Sóknaraðili kefst þess aðallega að varnaraðila sem er Samkeppnisstofnun verði gert skylt að eyða öllum afritum skjala á rafrænu (tölvutæku) formi sem hald var lagt á við leit hjá sóknaraðila 18. desember 2001 og vistuð eru á tölvum varnaraðila.

Til vara er þess krafist að varnaraðila verði gert skylt að eyða öllum afritum tölvupósts sem hald var lagt á við leit hjá sóknaraðila 18. desember 2001 og vistuð eru á tölvum varnaraðila.

Til þrautavara er þess krafist að úrskurðað verði að varnaraðila sé óheimilt að opna skjöl á rafrænu (tölvutæku) formi sem hald var lagt á við leit hjá sóknaraðila 18. desember 2001 og vistuð eru á tölvum varnaraðila.

Þá er þess krafist að sóknaraðila  verði úrskurðaður hæfilegur málskostnaður að mati dómsins.

Kröfur varnaraðila, Samkeppnisstofnunar, eru þær, að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að varnaraðila verði úrskurðaður hæfilegur málskostnaður að mati dómsins.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. desember 2001 var Samkeppnisstofnun heimilað að framkvæma leit í húsakynnum Olíuverslunar Íslands hf., Sundagörðum 2, Reykjavík en úrskurðarorð hljóða svo:

Samkeppnisstofnun er heimilt að framkvæma leit hjá Olíuverslun Íslands hf., Sundagörðum 2, Reykjavík, kt. 500269-3249.

Heimildin nær til leitar og haldlagningar á munum og gögnum í húsnæði og læstum hirslum og til að taka afrit gagna sem geymd eru á tölvutæku formi.

Húsleit var framkvæmd 18. desember 2001. Var hald lagt á ýmis gögn, svo sem minnisblöð, ársskýrslur, námsgögn og handbækur. Jafnframt var lagt hald á margs konar tölvubúnað, svo sem far- og lófatölvur, geisladiska, hljóðsnældur og öryggisafrit. Rafræn afrit voru tekin af verulegum en óskilgreindum fjölda skjala sem vistuð voru á tölvutæku formi, ýmist í miðlægum kerfum sóknaraðila eða á einstökum útstöðvum starfsmanna félagsins. Meðal þeirra gagna sem þannig voru afrituð voru að sögn sóknaraðila persónuleg skjöl starfsmanna sem ýmist voru vistuð sem tölvupóstur, ritvinnslu- eða töflureiknisskjöl. Öll tölvugögn sem hald var lagt á hjá sóknaraðila voru afrituð inn á tölvur hjá varnaraðila, sem hefur skilað gögnum þeim sem afrituð voru til sóknaraðila. Af hálfu varnaraðila hafa gögn þau úr tölvum sóknaraðila sem afrituð voru ekki verið opnuð en fram kemur í málinu að af hálfu sóknaraðila  var fyrirhugað að hefja rannsókn á innihaldi tölvugagnanna 25. febrúar sl.

Því er haldið fram af sóknaraðila að verulegur hluti þeirra gagna sem um er að ræða sé eign óskilgreinds fjölda starfsmanna sóknaraðila sem eigi aðild að þessari kröfu sem vörsluhafi gagnanna, sbr. l. mgr. 79.gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Sóknaraðili bendir á samkvæmt 2.mgr. 71.gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sé óheimilt að framkvæma leit í húsakynnum eða munum manns nema fyrir liggi dómsúrskurður eða sérstök lagaheimild. Það sama eigi við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manna. Ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar sé í samræmi við 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62/1994, sbr. 8.gr. þeirra laga.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. desember 2001 hafi verið  reistur á 40.gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. 89. og l.mgr. 90.gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Samkvæmt l.mgr. 40.gr. samkeppnislaga geti Samkeppnisstofnun gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður séu til að ætla að brotið hafi verið gegn lögunum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Við framkvæmd slíkra aðgerða beri skv. 2.mgr. 40.gr. samkeppnislaga að fylgja ákvæðum laga nr. 19/1991 um leit og hald á munum.

Umrædd ákvæði samkeppnislaga og laga nr. 19/1991 beri að skýra þröngt með hliðsjón af framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og MSE.

Samkvæmt 1. tl. 94.gr. laga nr. 19/1991 beri lögreglumönnum að stjórna leit sem fram fari á grundvelli 11. kafla laganna. Þessa hafi ekki verið gætt við leit á starfsstöð sóknaraðila enda hafi leit verið stjórnað af starfsmönnum Samkeppnisstofnunar án þess að lögreglumenn hefðu þar nokkur afskipti af önnur en að kynna úrskurð héraðsdóms við upphaf leitar. Hafi verið farið verulega út fyrir heimildina við framkvæmd leitarinnar.

Sóknaraðili telur að framkvæmd haldlagningar við leit varnaraðila á starfsstöð félagsins 18. desember 2001 hafi verið verulega ábótavant. Starfsmenn varanarðila hafi ítrekað farið út fyrir þá heimild sem þeim var fengin með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2001 við framkvæmd leitarinnar enda leit ekki stjórnað af þar til bærum aðilum.

Þá sé ljóst að ákvæði l. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið virt að vettugi við ákvörðunartöku um haldlagningu gagna. Á starfsmönnum varnaraðila hafi hvílt sú skylda að leggja mat á það í hverju einstöku tilviki hvort þau gögn sem fundust við leit hefðu þýðingu við rannsókn á þeim sakargiftum sem voru tilefni leitarinnar. Slíkt mat hafi ekki farið fram áður en hald var lagt á gögn á tölvutæku formi heldur hafi óskilgreindur fjöldi skjala verið afritaður og færður yfir á tölvur varnaraðila. Þessi framkvæmd sé skýrt brot gegn l. mgr. 78.gr. laga nr. 19/1991 og lögfestum og ólögfestum reglum um meðalhóf. Þá telur sóknaraðili að meðferð umræddra gagna feli í sér brot gegn ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þessi vanræksla stofnunarinnar leiði til þess að stofnuninni beri að eyða umræddum gögnum sem fengin voru með ólögmætum hætti.

Þá verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að verulegur hluti þeirra gagna sem hald var lagt á tilheyri ekki sóknaraðila heldur starfsmönnum félagsins og hafi ekkert með rannsókn varnaraðila að gera. Sú skylda verði ekki lögð á sóknaraðila að greina á milli gagna sem tilheyra starfsmönnum persónulega og annarra gagna. Ef varnaraðili hefði sinnt skyldu sinni til skoðunar og mats á gögnum áður en til haldlagningar kom hefði auðveldlega mátt komast hjá þeirri stöðu sem nú sé uppi.

Verði ekki fallist á kröfur um að öllum gögnum, eða einungis tölvupósti, verði eytt, er þess krafist til þrautavara að kveðið verði á um það með úrskurði að varnaraðila sé óheimilt að opna öll skjöl í vörslu stofnunarinnar sem eru geymd þar á rafrænu formi. Fyrir liggi að ekkert þessara skjala hefur verið opnað og að sóknaraðila er óheimilt að opna skjölin án þess að fyrir liggi ótvíræð heimild til slíks samkvæmt úrskurði héraðsdóms og tryggt sé að ekki sé gengið á rétt þeirra starfsmanna sem í hlut eiga.

 

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að mál þetta snúist ekki um það hvernig staðið var að leit hjá sóknaraðila skv. XI, kafla laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála, að öðru leyti en lúti að umræddum tölvugögnum, né heldur um þá staðreynd að lagt var hald á skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn í umræddri leit. Ástæða sé til að taka þetta fram þar sem í erindi sóknaraðila sé blandað saman umfjöllun um málsástæður sem hann hafi fyrir kröfum sínum í málinu og ýmsum fullyrðingum og rangfærslum um framkvæmd sjálfrar leitarinnar og haldlagningu á öðrum gögnum sem ekki séu til umfjöllunar í málinu, eins og kröfugerð sóknaraðila sé háttað.

Af bréfi sóknaraðila verði ekki skýrlega ráðið hvort því sé haldið fram að ólögmætt hald standi enn yfir á þeim tölvugögnum sem málið tekur til. Til öryggis sé því mótmælt að svo sé. Öll þau gögn sem málið fjalli um séu í vörslum sóknaraðila en varnaraðili búi yfir afritum af þeim. Telja verði að haldlagningarástand á umræddum gögnum hafi aðeins varað þann tíma sem það tók að afrita gögnin. Af þessu leiði að mati varnaraðila að lögvarða hagsmuni skortir til að taka afstöðu til þess, á grundvelli 1. mgr. 79. gr. oml., hvort leggja hafi mátt hald á tölvugögnin í upphafi enda hafi haldlagningarástandi verið aflétt. Af þessu leiði jafnframt að aðilastaða sóknaraðila í málinu verði ekki leidd af l. mgr. 79. gr. oml., svo sem gert sé í bréfi félagsins. Hins vegar telji varnaraðili ekki ástæðu til að gera athugasemd við að sóknaraðili beri undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna, sbr. 75. gr. oml., að því er lýtur að afritun tölvugagna, þótt málatilbúnaðurinn lúti að því er virðist aðallega að því hvort hagsmuna ótilgreindra starfsmanna félagsins hafi verið raskað með rannsóknaraðgerðunum.

Leit varnaraðila hafi farið fram á grundvelli dómsúrskurðar en þar fyrir utan hafi Samkeppnisstofnun sérstaka lagaheimild til leitar og haldlagningar á gögnum, sbr. 1. mgr. 40. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, með síðari breytingum. Hvað ákvæði l. mgr. 8. gr. MSE varðar er á það bent að samkvæmt orðanna hljóðan taki ákvæðið ekki til lögpersóna. Ákvæðið hafi því enga þýðingu við úrlausn máls þessa. Telji einstakir starfsmenn sóknaraðila að aðgerðir varnaraðila hafi brotið gegn þeim rétti sem viðkomandi starfsmönnum er tryggður í 1. mgr. 8. gr. MSE sé eðlilegt að þeir hinir sömu láti á það reyna en ekki verði fallist á að sóknaraðila sé það heimilt. Þá er því mótmælt að skýra beri ákvæði 40. gr. samkeppnislaga og ákvæði laga um meðferð opinberra mála um leit og hald þröngt með hliðsjón af umræddum ákvæðum stjórnarskrár og MSE. Réttara sé að segja að skýra beri ákvæði samkeppnislaga og laga um meðferð opinberra mála að þessu leyti á þann hátt að þau nái tilgangi sínum, þó þannig að tekið sé eðlilegt tillit til réttinda sakbornings og annarra samkvæmt stjórnarskrá og MSE.

Skýrslur skv. 95. gr. oml. hafi verið unnar af viðkomandi lögreglumönnum og lagðar fram í málinu.

Um það að leit og haldlagning gagna af hálfu varnaraðila hafi verið ómarkviss sé þess að gæta að málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti hafi ekki þýðingu fyrir þær kröfur sem gerðar séu á hendur varnaraðila. Í málinu sé ekki fjallað um lögmæti haldlagningar á skjölum eða öðrum sýnilegum sönnunargögnum öðrum en tilteknum tölvugögnum. Hvað sem því líði sé því mótmælt að nokkuð hafi skort á vinnubrögð varnaraðila að þessu leyti. Leit að gögnum, sem sýnt geti fram á samráð fyrirtækja um verð, markaðsskiptingu, gerð tilboða o.fl. hljóti eðli málsins samkvæmt að taka til mikils hluta þeirra skjala sem í fyrirtækinu finnist enda fyrirfram ómögulegt að vita hvar nákvæmlega þau gögn sé að finna sem máli skipti í því sambandi. Húsleitarúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur beri með sér að ástæða leitar var grunur um brot sem séu alvarlegustu brot á samkeppnislöggjöf sem hugsast geti. Upplýsingar um brot sem þessi geti verið falin í hvers kyns gögnum, skjölum og tölvuskrám. Hin ætluðu brot sóknaraðila séu mjög umfangsmikil og við leit hafi komið í ljós að mikið af gögnum sóknaraðila hafi getað falið í sér veigamikilar upplýsingar um brotin sem kallað hafi á haldlagningu fjölda skjala. Við munnlegan flutning málsins var því haldið fram að þessi háttur á leit og haldlagningu gagna eigi sér samsvörun hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem annist rannsókn á meintum brotum gegn samkeppnisreglum innan þess. Því er mótmælt að haldlagning varnaraðila á þeim tölvugögnum sem mál þetta lýtur að hafi brotið gegn 1. mgr. 78. gr. oml.

Varnaraðili telur að umfjöllun um frágang haldlagningarskrár skipti ekki máli við mat á sakarefni málsins. Til öryggis sé því mótmælt að haldlagningarskýrslur hafi verið ófullnægjandi. Sóknaraðila og starfsmönnum hans hljóti að hafa verið ljóst hvaða gögn voru á tölvum sóknaraðila þegar afrit voru tekin. Listi yfir skjöl verði sendur áður en nokkur tölvuskjöl verði rannsökuð og muni fyrirtækið því, fyrir eigin hönd og eftir atvikum starfsmanna sinna, hafa öll tækifæri til að benda á þau gögn sem ekki stafi frá fyrirtækinu heldur starfsmönnum þess persónulega. Jafnframt hafi sóknaraðila verið sendur listi yfir öll skjöl sem varnaraðili hafi ljósritað en frumgögnum öllum verið skilað til fyrirtækisins. Einnig hafi sóknaraðila verið boðið að skoða ljósrituð skjöl hjá varnaraðila. Því er mótmælt að nokkrum gögnum hafi verið eytt úr tölvum starfsmanna sóknaraðila eins og haldið er fram í erindi hans.

Um meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar segir af hálfu varnaraðila að aðeins sé til umfjöllunar hvort afritun þeirra tölvugagna sem málið snýst um hafi farið gegn sjónarmiðum um meðalhóf Almenn sjónarmið um meðalhóf feli í sér að ekki skuli beita strangari aðferðum til að ná lögmætu markmiði en nauðsynlegt er. Lykilatriði hér sé hvaða aðferðum unnt sé að beita til að ná lögmætu markmiði. Hið lögmæta markmið í þessu máli sé að upplýsa um ætlað brot sóknaraðila gegn ákvæðum samkeppnislaga. Rannsókn á tölvugögnum í þessu sambandi skipti afar miklu enda sé nú til dags mikið magn upplýsinga geymt á tölvutæku formi en ekki á pappír. Augljóst sé að sú leið sem valin var, að afrita gögn á staðnum og rannsaka þau síðar, að viðstöddum viðkomandi starfsmönnum og lögmönnum þeirra eins og varnaraðili hafi þegar boðið, sé í fyllsta samræmi við sjónarmið um meðalhóf og best til þess fallin að tryggja hagsmuni starfsmanna og annarra þeirra, sem eigi persónuleg gögn sem kunni að vera innan um gögn sem þýðingu geti haft við rannsókn málsins. Að öðrum kosti hefði ótiltekinn fjöldi starfsmanna Samkeppnisstofnunar orðið að sitja við tölvur starfsmanna hans svo dögum eða vikum skipti og lesa þar tölvupóst og skjöl til að afmarka hvaða gögn gætu skipt máli við rannsókn samkeppnisyfirvalda. Af þessu hefði leitt margfalt meiri röskun á starfsemi sóknaraðila en raun varð á, og reyndar hafi sú röskun verið í algjöru lágmarki enda hafi leit staðið yfir í aðeins fimm og hálfa klukkustund. Engin tölvuskjöl hafi verið tekin heldur aðeins afrituð og haldlögðum skjölum skilað svo skjótt sem unnt var. Jafnframt hefði þetta þýtt að mikill fjöldi fólks hefði óhjákvæmilega orðið að opna tölvuskjöl sem sum hver innihaldi, skv. fullyrðingum sóknaraðila, persónulegar upplýsingar um einstaka starfsmenn fyrirtækisins. Sú aðferð sem varnaraðili hyggist nota, þ.e. að opna ekki tölvuskjöl nema gefa viðkomandi starfsmanni og/eða lögmanni hans og sóknaraðila færi á að vera viðstaddir, tryggi hagsmuni allra aðila eins vel og unnt er.

Því er mótmælt að varnaraðila skorti heimild til leitar í hinum haldlögðu gögnum eins og það er orðað í erindi sóknaraðila. Leit sú, á grundvelli dómsúrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur, sem fram fór þann 18. desember sl., hafi lokið þann sama dag. Við þá leit hafi verið lagt hald á gögn og þau ýmist afrituð á staðnum, eins og við á um þau gögn sem í máli þessu greinir, eða síðar og frumritum þá skilað til sóknaraðila. Sú rannsókn sem fram fari um þessar mundir á þeim gögnum sem hald var lagt á í umræddri rannsókn feli ekki í sér leit í skilningi laga um meðferð opinberra mála.

Því er mótmælt að sú aðferð sem varnaraðili hafi beitt, þ.e. að leggja hald á mikið magn tölvugagna án þess að skoða innihald hvers og eins skjals á staðnum hafi gert það að verkum að persónuleg gögn starfsmanna hafi verið haldlögð án heimildar í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. desember sl.

Eins og áður segir fól leitarúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í sér heimild fyrir varnaraðila til að leita á starfsstöð sóknaraðila og leggja hald á gögn vegna rannsóknar á ætluðu broti á ákvæðum samkeppnislaga. Öll gögn sem afrituð voru á staðnum hafi verið í tölvum sóknaraðila á starfsstöð fyrirtækisins. Fyrirfram geti varnaraðili ekki vitað hvort innanum gögn fyrirtækisins leynist skjöl eða tölvugögn sem geymi upplýsingar um persónuleg mál einstakra starfsmanna. Fyrir liggi hins vegar að varnaraðili hafi boðið sóknaraðila að einstakir starfsmenn og/eða lögmenn þeirra geti verið viðstaddir þegar tölvugögn verði rannsökuð og að sérstaklega verði að því gætt að taka frá öll gögn sem ekki varði rannsókn málsins heldur geyma persónulegar upplýsingar frá starfsmönnum sóknaraðila. Aðeins tilteknir starfsmenn varnaraðila muni hafa heimild til að inna þessa vinnu af hendi og verði hún framkvæmd með öruggum hætti. Á starfsmönnum varnaraðila hvíli þagnarskylda skv. ákvæðum samkeppnislaga og beri þeir ábyrgð á rækslu starfa sinna sem opinberir starfsmenn. Á þennan hátt sé best tryggt að gætt verði að þeim hagsmunum starfsmanna sóknaraðila að persónulegar upplýsingar þeirra verði ekki gerðar opinberar.

Hvað sem öðru líði verði og að benda á að varnaraðili geti ekki borið ábyrgð á því að engar reglur séu til á vettvangi sóknaraðila um nýtingu einstakra starfsmanna á tölvum og tölvukerfi fyrirtækisins í eigin þágu. Því er mótmælt að afritun tölvugagna sóknaraðila vegna rannsóknar á ætluðu broti á ákvæðum samkeppnislaga feli í sér vinnslu á viðkvæmum persónuupplýsingum í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Verið sé að rannsaka ætluð brot á samkeppnislögum sem, leiði rannsóknin í ljós að brot hafi verið framin, geti leitt til höfðunar opinbers máls á hendur einstökum starfsmönnum en brot gegn þeim ákvæðum samkeppnislaga sem máli skipta hér geti varðað sektum eða fangelsi, sbr. 57. gr. samkeppnislaga. Verði ekki séð að umrædd lög taki til þeirrar rannsóknar sem í máli þessu greini.

Að lokum bendir varnaraðili á að ekki verði séð að lagagrundvöllur sé fyrir þeirri kröfu sóknaraðila að varnaraðila verði gert að eyða þeim gögnum sem afrituð voru á starfsstöð fyrirtækisins þann 18. desember 2001. Ljóst sé að slík krafa verði ekki byggð á þeirri hugsanlegu staðreynd að á meðal gagna fyrirtækisins séu persónuleg gögn starfsmanna enda gæti skylda til eyðingar á gögnum aldrei náð lengra en til eyðingar á hinum persónulega gögnum en ekki hinum. Í því sambandi megi geta þess að varnaraðili hafi boðið viðkomandi starfsmönnum að vera viðstaddir opnun tölvuskjala til að gæta hagsmuna sinna.

NIÐURSTAÐA

   Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr 8/1993 getur Samkeppnisstofnun við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar ríkar aðstæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Í 2. mgr segir að við framkvæmd aðgerða skv. 1. mgr. skuli fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.  Varnaraðili leitaði heimildar dómara til þess framkvæma leit hjá sóknaraðila sbr. 1. mgr. 90. gr. l. nr. 19/1991 og m.a. að taka afrit gagna sem geymd voru á tölvutæku formi. Með úrskurði dómara 17. desember sl. fékk varnaraðili umbeðna heimild. Liggur þannig fyrir að lagaheimild var til aðgerða þeirra er varnaraðili greip til og að þær voru framkvæmdar að fengnum úrskurði dómara.

Samkvæmt framansögðu var varnarðila heimil afritun gagna á tölvutæku formi og augljóst að með þá heimild í hendi er honum rétt að kanna þau gögn, þar á meðal persónuleg gögn starfsmanna, eftir því sem rannsóknarnauðsynjar gefa tilefni til.

Um framkvæmd leitar og haldlagningar er þess að gæta að hér var um að ræða rannsókn varnaraðila en ekki lögreglu og ákvæði 2. mgr. 40. gr. samkeppnislaga verður að túlka þannig að við þær aðstæður sé hlutverk lögreglumanna að veita aðstoð við rannsókn sem eðli máls samkvæmt er undir stjórn og á ábyrgð stjórnvalds þess sem hana framkvæmir.

Með vísan til framanritaðs þykir ekki sýnt fram á að lagaskilyrði séu fyrir hendi til þess að verða við kröfum sóknaraðila en ekki þykja efni til að kveða á um málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfum sóknaraðila, Olíuverslunar Íslands hf., er hafnað.