Print

Mál nr. 354/2017

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
X (Björgvin Jónsson hrl.)
Lykilorð
  • Hatursorðræða
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Sératkvæði
Reifun

X var gefið að sök brot gegn ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa látið nánar tilgreind ummæli falla í athugasemd á tiltekinni vefsíðu. Lutu ummælin að ályktun sem bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hafði samþykkt og sneri að gerð samstarfssamnings við Samtökin ´78 um svokallaða hinseginfræðslu í grunnskólum sveitarfélagsins. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur forsögu lagaákvæðisins og þær röksemdir sem bjuggu því að baki samkvæmt lögskýringargögnum. Taldi rétturinn að af þeim röksemdum yrði ráðið að til þess að teljast refsiverð yrði tjáning að fela í sér slíka óbeit, andúð, fyrirlitningu eða fordæmingu að telja mætti hana til hatursorðræðu í garð þess sem henni væri beint að. Með vísan til orðalags ummæla X taldi Hæstiréttur að þótt þau hefðu falið í sér smánun í garð samkynhneigðra og fordóma, gætu þau ekki talist slík að fullnægt væri því skilyrði að þau fælu í sér hatursorðræðu í þessum skilningi. Var X því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins 24. maí 2017 og krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið, en að því frágengnu að refsing verði svo væg sem lög heimila.

I

Samkvæmt gögnum málsins var á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 15. apríl 2015 lögð fram svohljóðandi tillaga: „Samfylkingin gerir það að tillögu sinni að farið verði í átak í eflingu hinseginfræðslu og –ráðgjafar í grunnskólum Hafnarfjarðar. Hafnarfjarðarbær leitist við að gera samstarfssamning við Samtökin ´78 um þróun námsefnis fyrir öll stig grunnskóla, frá 1. til 10. bekkjar og sérfræðingar Samtakanna haldi námskeið fyrir alla starfsmenn grunnskóla Hafnarfjarðar. Nemendum í unglingadeildum grunnskóla verði sömuleiðis gert kleift að sækja einstaklingsráðgjöf hjá sérfræðingum Samtakanna án endurgjalds.“ Tillögunni fylgdi greinargerð, þar sem lýst var röksemdum fyrir því að taka upp fræðslu af þessum toga. Þær röksemdir lutu einkum að aðstæðum barna á unglingsárum, sem teldu sig eiga í félagslegum erfiðleikum vegna kynhneigðar eða kynvitundar, en fræðslan gæti skipt sköpum í lífi þeirra og auðveldað þeim að takast á við tilfinningar sínar. Samkvæmt félagslögum Samtakanna ´78, sem vísað var til í tillögunni, er markmið þeirra að lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir og „transgender fólk“, í einu lagi nefnt hinsegin fólk, verði sýnilegt, viðurkennt og njóti fyllstu réttinda í samfélaginu. Til að ná þeim markmiðum leitist samtökin við að skapa hinsegin fólki félagslegan og menningarlegan vettvang og styrkja þannig sjálfsvitund þess, samkennd og samstöðu um sérkenni sín, svo og að vinna að baráttumálum þess með „fræðslu um reynslu þess og sérkenni, eftir þeim leiðum sem árangursríkastar þykja hverju sinni svo sem á vettvangi löggjafarvalds, í opinberu fræðslukerfi og í fjölmiðlum“. Af fundargerð bæjarstjórnarinnar verður ráðið að talsverðar umræður urðu um framangreinda tillögu, en að þeim loknum var einróma samþykkt svofelld ályktun: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar tekur jákvætt í málið og vísar tillögunni til frekari útfærslu í fræðsluráði.“

Að kvöldi 15. apríl 2015 birtust á tveimur vefmiðlum fréttir um framangreinda ályktun bæjarstjórnarinnar. Annars vegar var á vefmiðlinum dv.is birt frétt með fyrirsögninni: „Hafnarfjörður: Fyrst til að bjóða grunnskólanemum upp á hinseginfræðslu“, þar sem tillagan að baki ályktuninni var tekin upp í heild. Greint var frá því að tillagan hafi verið flutt að frumkvæði félags ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði, sem lýst hafi mikilli ánægju með niðurstöðu bæjarstjórnarinnar. Hins vegar var á vefmiðlinum Vísi birt frétt undir fyrirsögninni: „Hinseginfræðsla í Hafnarfirði“, sem hófst með eftirfarandi orðum: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í dag að efla hinseginfræðslu í grunnskólum bæjarins. Samkvæmt tillögunni sem samþykkt var munu starfsmenn grunnskóla Hafnarfjarðar fá fræðslu frá fulltrúum Samtakanna 78. Þá verður öllum nemendum skólanna boðið að fá viðtal hjá ráðgjöfum Samtakanna 78 nemendunum að kostnaðarlausu. Sveitarfélagið mun hefja samstarf við Samtökin 78 um þróun námsefnis fyrir alla bekki grunnskóla.“ Á sama hátt og á hinum vefmiðlinum var greint frá því hverjir hafi átt frumkvæði að flutningi tillögunnar, svo og að þeir hafi lýst ánægju með niðurstöðu bæjarstjórnarinnar.

Ráðið verður af gögnum málsins að verulegar umræður hafi kviknað vegna framangreindra frétta og birtust meðal annars á báðum vefmiðlunum í stórum stíl athugasemdir frá almenningi, sem tengdust þeim. Verður þar séð að þeir, sem létu frá sér slíkar athugasemdir, hafi margir haft eindregnar skoðanir um ágæti eða lesti ákvörðunar bæjarstjórnarinnar og var sú umræða á köflum hvöss. Dagana á eftir færðist umræðan jafnframt út í aðra miðla. Meðal annars í þætti á útvarpi Sögu 20. apríl 2015 gafst hlustendum kostur á að láta uppi í útsendingu álit sitt á ályktun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og eiga skoðanaskipti um atriði henni tengd við stjórnanda þáttarins. Umræður í þeim þætti kölluðu fram viðbrögð í öðrum miðlum, þar sem því var meðal annars hreyft að í honum hafi fólki gagnrýnislaust gefist kostur á að koma á framfæri fordómum og hatursorðræðu. Um líkt leyti var einnig sett á fót vefsíða með heitinu: „Barnaskjól“ og stóð efst á forsíðu hennar: „Stöðvum innrætingu Samtakanna 78 á skólabörnum“. Á forsíðunni sagði einnig: „Stöðvum innrætingu háværra en lítilla þrýstihópa í samfélaginu á börnum okkar. Enga kennslu í skólum sem ekki er samþykkt af meirihluta þjóðarinnar.“

Ákærði var meðal þeirra, sem tók þátt í almennri umræðu af framangreindu tilefni, en frá honum birtist 22. apríl 2015 svofelld athugasemd á vefsíðunni Barnaskjóli: „Hlutlausa kynfræðslu á að veita í skólum en ALDREI réttlæta ónáttúrulega kynhegðan fyrir saklausum börnum og kalla það sem er óeðlilegt eðlilegt!!!“

Samtökin ´78 beindu 26. apríl 2015 kæru til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fram kom að nafngreindur fyrirsvarsmaður samtakanna teldi ákærða hafa unnið sér til refsingar með framangreindum ummælum. Með bréfi 8. september sama ár tilkynnti saksóknari við embætti lögreglustjórans kærandanum að kæru hans hafi verið vísað frá, þar sem ekki þætti grundvöllur til að hefja rannsókn á ætluðu broti. Ríkissaksóknari felldi þessi málalok úr gildi með ákvörðun 6. nóvember 2015 og lagði þar fyrir að fram færi rannsókn í tilefni af kærunni. Á þessum grunni hóf lögreglustjórinn rannsókn og höfðaði að henni lokinni mál þetta á hendur ákærða með ákæru 8. nóvember 2016. Í hinum áfrýjaða dómi er ákæran tekin orðrétt upp, en í henni er ákærða gefin að sök hatursorðræða með fyrrgreindum ummælum á áðurnefndri vefsíðu og að hafa brotið á þann hátt gegn 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II

Fyrrnefnd 233. gr. a. var tekin upp í almenn hegningarlög með 1. gr. laga nr. 96/1973, en þar var mælt svo fyrir að hver, sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt réðist opinberlega að hópi manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða, skyldi sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til þessara laga, var því meðal annars lýst að ályktun hafi verið samþykkt 12. desember 1960 á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þar sem fordæmd hafi verið hvers konar mismunun á sviðum stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála og menntunar- og menningarmála vegna þjóðernis, kynþáttar eða trúarbragða og hún talin ganga í berhögg við sáttmála þeirra samtaka. Á grundvelli þessarar ályktunar hafi á vettvangi þeirra verið gerður 21. desember 1965 Alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis. Íslenska ríkið hafi fullgilt þennan samning 13. mars 1967, sbr. auglýsingu nr. 14/1968. Með 2. gr. samningsins hafi aðildarríki hans tekið á sig skyldur til að fordæma hvers konar kynþáttamismunun og vinna gegn henni með öllum ráðum. Í þessu skyni hafi aðildarríkin skuldbundið sig til að setja löggjöf, sem bannaði þá mismunun sem samningurinn tæki til og höfð væri í frammi af einstaklingum, hópum eða samtökum. Með 4. gr. samningsins hafi aðildarríkin jafnframt skuldbundið sig til að setja lög, sem lýstu refsiverða hvers konar starfsemi sem breiddi út skoðanir um kynþáttahatur eða hvetti til mismununar eða ofbeldisverka gagnvart tilteknum hópi manna vegna litarháttar þeirra eða þjóðernis. Á Norðurlöndunum hafi sérstakar nefndir fjallað um þörf á lagasetningu vegna samningsins og hafi verið samvinna milli þeirra. Íslenska ríkið hafi ekki átt hlut að þeirri samvinnu, en við afrakstur hennar hafi verið stuðst við gerð frumvarpsins og fylgt fyrirmyndum í öðrum norrænum lagafrumvörpum um sama efni. Í skýringum við 1. gr. frumvarpsins var tekið fram að ætlast væri til að bæði orð og annars konar viljatjáning félli undir hið refsiverða svið. Slíka háttsemi yrði að hafa uppi opinberlega og hún jafnframt að beinast að hópi manna, en þar gætu þó fallið undir tilvik, sem sneru að einstökum manni, ef hann teldist tákn fyrir heild. Ljóst væri að refsiákvæði frumvarpsins myndi ekki stemma stigu við „að lýsa með fræðilegum hætti mismun kynþátta, fólki af mismunandi litarhætti o.fl., og gegnir hinu sama um málefnislegar umræður, þótt ekki séu á fræðasviði.“ Þá var áréttað að með frumvarpinu væri að norrænni fyrirmynd gengið lengra en í samningnum frá 21. desember 1965, enda væri þar ekki fjallað um atlögur vegna trúarbragða.

Með 2. gr. laga nr. 135/1996 var 233. gr. a. almennra hegningarlaga að tvennu leyti breytt, en að því gerðu varðaði sömu refsingu og fyrr að ráðast með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt opinberlega að manni eða hópi manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar. Fólust breytingarnar þannig annars vegar í því að háttsemi, sem lýst var í ákvæðinu, gæti hvort heldur beinst að einstökum manni eða hópi manna og hins vegar að tilefni háttseminnar gæti auk annars verið kynhneigð þess manns eða hóps. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til þessara laga, var getið um að tilefni til flutnings þess mætti rekja til skýrslu nefndar, sem forsætisráðherra hafi skipað í samræmi við ályktun Alþingis 19. maí 1992 til að kanna stöðu samkynhneigðra hér á landi. Í skýrslunni hafi verið bent á að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafi refsiákvæðum, sem fjalli um kynþáttamisrétti, verið breytt á þann hátt að þau næðu einnig til misréttis í garð samkynhneigðra. Þar hafi einnig verið vísað til þess að slík breyting myndi fela í sér skýra yfirlýsingu löggjafans um ótvíræð réttindi samkynhneigðra til fullrar aðildar að íslensku samfélagi, sem myndi stuðla að því að þeir leituðu óhikað réttar síns.

Aftur voru gerðar breytingar á 233. gr. a. almennra hegningarlaga með 2. gr. laga nr. 13/2014, en áður höfðu fyrirmæli um varðhaldsrefsingu verið felld úr ákvæðinu með lögum nr. 82/1998. Frá því að lög nr. 13/2014 tóku gildi hefur það varðað sömu viðurlögum og fyrr að hæðast opinberlega að, rógbera, smána eða ógna manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar eða að breiða slíkt út. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpinu sem varð að lögum nr. 13/2014, var því lýst að í tillögu um breytt orðalag 233. gr. a. almennra hegningarlaga væri einkum skilgreint nánar en í gildandi lögum með hvaða hætti ólögmæt tjáning væri sett fram. Það væri gert með hliðsjón af samningi Evrópuráðsins um tölvubrot frá 23. nóvember 2001 og breytingum, sem gerðar hafi verið á hliðstæðu ákvæði hegningarlaga annars staðar á Norðurlöndunum, en að þessu leyti yrði ekki efnisleg breyting frá gildandi ákvæði um annað en það að jafnframt yrði refsivert að breiða ummæli út. Einnig væri lagt til eftir fyrirmynd í annarri norrænni löggjöf að felld yrðu brott fyrirmæli um að refsiverða háttsemin fælist í því að ráðast með nánar tilteknum hætti að öðrum, en þess í stað gert ráð fyrir því að brot yrði framið með því að tiltekin tjáning væri „sett fram opinberlega eða hún breidd út með ógnunum, smánun, niðurlægingu, fyrirlitningu eða með hatursfullum hætti.“ Þá væri breyttu ákvæði ætlað að sporna við mismunun á grundvelli kynvitundar, sbr. meðal annars lög nr. 57/2012 um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda. Auk þessa var því lýst í athugasemdunum að í frumvarpinu væri tekið mið af tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 31. mars 2010 um aðgerðir til að berjast gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar. Þar hafi aðildarríki Evrópuráðsins verið hvött til að taka refsilöggjöf til sérstakrar skoðunar til að tryggja mannréttindi þessara hópa, veita þeim aðgang að virkum réttarúrræðum meðal annars með refsivernd og berjast gegn hvers konar tjáningu í fjölmiðlum eða vefmiðlum, sem væri fallin til að hvetja til, dreifa eða stuðla að hatri eða annars konar mismunun í garð þessara hópa, en slíkan hatursáróður ætti að banna. Einnig var vísað til ályktunar þings Evrópuráðsins 29. apríl 2010 um mismunun vegna kynhneigðar og kynvitundar, en þar væru aðildarríki ráðsins hvött meðal annars til að fordæma hatursáróður á þessum grunni og tryggja einstaklingum vernd gegn slíku án þess þó að skerða tjáningarfrelsi.

III

Í 233. gr. a. almennra hegningarlaga kemur ekki fram hugtakið hatursorðræða þótt það sé notað í ákæru í upphafi lýsingar sakargifta á hendur ákærða og að auki í fyrrgreindum lögskýringargögnum með frumvarpinu, sem varð að lögum nr. 13/2014, og tilmælum og ályktunum alþjóðlegra stofnana, sem snúa að lagasetningu um þessi efni. Má líta á þetta hugtak sem samnefnara fyrir þá hæðni, rógburð, smánun eða ógnun, sem refsivert er að tjá eftir ákvæðinu, og þá um leið sem mælikvarða á þann grófleika tjáningarinnar, sem áskilinn er. Af því leiðir að tjáningin verður að fela í sér slíka óbeit, andúð, fyrirlitningu eða fordæmingu að telja megi hana til hatursorðræðu í garð þess, sem henni er beint að.

Hér að framan voru tekin upp þau ummæli ákærða, sem ákæruvaldið krefst að honum verði gerð refsing fyrir. Í þeim lýsti ákærði þeirri skoðun að veita ætti „hlutlausa kynfræðslu“ í skólum, en þar ætti aldrei að „réttlæta ónáttúrulega kynhegðan“ fyrir börnum og „kalla það sem er óeðlilegt eðlilegt“. Af samhengi þessara ummæla ákærða við umræðuna, sem þá stóð yfir, orkar ekki tvímælis að sú ónáttúrulega og óeðlilega kynhegðan, sem hann nefndi svo, væri samkynhneigð. Jafnframt fólst í orðum hans tjáning á þeirri skoðun að með kynfræðslu barna ætti ekki að láta í veðri vaka að samkynhneigð væri eðlileg. Með þessu viðhafði ákærði orð, sem telja má smánun í garð samkynhneigðra. Þótt orðin hafi jafnframt borið með sér fordóma verður á hinn bóginn ekki litið fram hjá því að samkvæmt áðursögðu verður tjáning ekki felld undir verknaðarlýsingu 233. gr. a. almennra hegningarlaga nema telja megi hana fela í sér slíka óbeit, andúð, fyrirlitningu eða fordæmingu að flokka megi hana undir hatursorðræðu. Framangreind orð ákærða geta ekki talist slík að því skilyrði sé fullnægt. Af þessum sökum verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða af kröfum ákæruvaldsins.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Þá verður felldur á ríkissjóð allur áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur.

 

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara

Ég geri hvorki athugasemdir við lýsingu meirihluta dómenda á málavöxtum né umfjöllun þeirra um aðdragandann að setningu þess refsiákvæðis sem háttsemi ákærða er færð undir í ákæru en þar segir að hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Í 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Er jafnframt kveðið á um að ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar má aðeins setja tjáningarfrelsi skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samræmast lýðræðishefðum. Sambærileg ákvæði um tjáningarfrelsi er að finna í 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Við úrlausn málsins verður einnig að líta til 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, svo og til 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Verður ennfremur að hafa í huga ákvæði 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar um að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð að lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Er sú regla jafnframt höfð sem upphafsákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Til þess er að líta að orðalag framangreinds hegningarlagaákvæðis er einkar opið og veitir litla leiðbeiningu um það hvað löggjafinn telur flokkast undir slíka háttsemi, sem í ákæru er nefnd hatursorðræða, eða hversu langt borgararnir megi ganga í umræðu áður en til greina kemur að ríkisvaldið refsi fyrir hana sem afbrot með þeim áhrifum sem það hefur í för með sér í lýðræðislegu samfélagi. Með hliðsjón af því og að virtum ákvæðum 73. gr. og 69. gr. stjórnarskrárinnar, verður að túlka gildissvið ákvæðisins afar varlega og ákærðum manni mjög í hag. Er ella hætt við að varnaðaráhrif refsidóma í málum sem þessum hefti um of hina almennu umræðu sem 73. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að vernda, innan þeirra marka sem þar eru sett.

Eins og nánar greinir í atkvæði meirihlutans voru ummæli ákærða viðbrögð hans við ályktun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um gerð samstarfssamnings við tiltekin frjáls félagasamtök um svonefnda hinsegin fræðslu í grunnskólum sveitarfélagsins. Ummælin lét ákærði falla í athugasemdadálk um þetta efni á vefsíðu tiltekins samfélagsmiðils og voru þau sem slík opinber.

Samkvæmt áðurgreindu voru ummæli ákærða innlegg hans í samfélagsumræðu um það hvernig hagað skyldi kennslu skólaskyldra grunnskólabarna í umræddu sveitarfélagi. Voru ummælin hluti af skoðanaskiptum á samfélagsmiðli þar sem oft er vaðið á súðum og vart til þess fallin að veita skoðun ákærða brautargengi. Á hinn bóginn má fallast á með ákærða að ekki liggi annað fyrir en að megintilgangur orða hans hafi átt að vera sá að andmæla samþykkt stjórnvaldsins og eftir atvikum fá hana dregna til baka. Hafi ummælin þannig verið viðbrögð ákærða í kjölfar þess að fjallað var opinberlega um ályktun stjórnvaldsins frekar en viðleitni hans til að ógna, smána, rógbera eða hæðast að ótilteknum hóp vegna kynhneigðar eða kynvitundar, eins og honum er gefið að sök í ákæru. Þá voru ummæli ákærða ekki þess eðlis að kallað væri eftir ólögmætum aðgerðum eða ofbeldi. Má hafa í huga í þessu sambandi að ummælunum var ekki þröngvað upp á fólk með öðrum hætti en þeim að þau máttu þeir lesa sem vildu nýta sér tiltekna síðu á samfélagsmiðli.

Samkvæmt framansögðu verður að líta á hin sannanlega niðrandi ummæli ákærða sem hluta af framlagi hans til almennrar og opinberrar umræðu um athafnir lýðræðislega kjörins stjórnvalds er vörðuðu almenning. Í ljósi þessa og alls framanritaðs, en þó einkum vegna þeirrar verndar sem veita verður umræðu um meðferð opinbers valds í lýðræðisþjóðfélagi, þó slík vernd geti ekki verið takmarkalaus, er ekki rétt að dæma ákærða sekan um refsivert brot samkvæmt 233. gr. a. almennra hegningarlaga. Að þessu sögðu er ég sammála niðurstöðu meirihluta dómenda. 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2017

Árið 2017, föstudaginn 28. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-834/2016: Ákæruvaldið gegn X en málið var dómtekið 3. þ.m.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 8. nóvember 2016, á hendur:

,,X, kt. [...],

                                 [...],

fyrir hatursorðræðu, með því að hafa miðvikudaginn 22. apríl 2015, skrifað og birt eftirfarandi  ummæli við innslag á opnu svæði hópsins „Barnaskjól - Stöðvum innrætingu Samtakanna 78 á skólabörnum“  á samfélagsmiðlinum facebook:

 

„Hlutlausa kynfræðslu á veita í skólum en ALDREI réttlæta ónáttúrulega kynhegðan fyrir saklausum börnum og kalla það sem er óeðlileg eðlilegt!!!“

 

sem fólu í sér ógnun, háð, rógburð og smánun á opinberum vettvangi í garð ótiltekins hóps manna hér á landi vegna kynhneigðar og kynvitundar þeirra.

Telst þetta varða við 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Með bréfi, dagsettu 26. apríl 2015, var lögð fram kæra fyrir hönd Samtakanna 78 - félags hinsegin fólks á Íslandi, á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í ákæru greinir.

Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 8. september 2015, var kærunni vísað frá embættinu þar sem ekki þótti grundvöllur fyrir því að hefja rannsókn á hinum meintu brotum. Var í þessu sambandi vísað til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ríkissaksóknara barst hinn 3. nóvember 2015 kæra Samtakanna 78 þar sem krafist var endurskoðunar á ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að vísa kærunni frá samanber ofangreint. Í greinargerð ríkissaksóknara segir að í skýringum lögreglustjóra fyrir ákvörðun sinni segi meðal annar svo: „Lögreglu barst kæra í málinu þann 27. apríl sl. á hendur X vegna ærumeiðinga og brota gegn friðhelgi einkalífs, með því að hafa ráðist opinberlega með háði, rógi og smánun á hóp ónafngreindra manna vegna kynhneigðar og/eða kynvitundar þeirra, með nánar tilgreindum ummælum sem sjá má í kæru. Er það mat lögreglu að ummælin falli innan marka tjáningarfrelsis einstaklinga, sem verndað er með 73. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, og teljist því ekki refsiverð skv. 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var því tekin ákvörðun um að vísa málinu frá á grundvelli 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008.“

Hinn 6. nóvember 2016 felldi ríkissaksóknari ákvörðun lögreglustjórans um að vísa kærunni frá úr gildi og lagði fyrir lögreglustjórann að taka málið til rannsóknar.

Í kæru Samtakanna 78 til lögreglu og síðar til ríkissaksóknara var brot ákærða talið varða við 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 17. ágúst 2016 þar sem hann skýrði skrif sín.

Nú verður rakinn framburður ákærða fyrir dómi en vitni voru ekki leidd

                Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa skrifað og birt ummælin sem um ræðir í ákæru eins og þar greinir. Hann kvað tilefni skrifanna mega rekja til samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 15. apríl 2015. Ákærði kvaðst hafa, sem prestur, verið reiður eftir að prestum og trúnni hafi verið hent út úr skólum bæði í Reykjavík og Hafnarfirði eins og ákærði bar og skýrði það álit sitt að prestar ættu að sinna þar ákveðnu hlutverki. Hann kvað sér ekki í nöp við samkynhneigða. Hann samgleddist þeim vegna áunninna réttinda. Hann hafi ekki reiknað með því að skrifin hefðu þau áhrif á lesendur sem lýst er í niðurlagi ákærunnar og í 233. gr. a almennra hegningarlaga, það hafi ekki vakað fyrir sér að hafa nein slík áhrif með skrifunum og hann biðjist afsökunar hafi skrifin haft slík áhrif. Hann hafi hins vegar vonað að skrifin hefðu einhver áhrif á bæjarstjórnina og skýrði ákærði að með skrifunum hafi hann viljað „leyfa börnum að vera börn þangað til þau væru komin undir 12 ára aldur“. Hann kvaðst einungis hafa beint sjónum sínum að bæjarstjórninni með skrifunum og að hinsegin fræðslunni sem um var rætt. Hann hafi verið að tala um óeðlilegt ferli hjá bæjarstjórninni að „henda út prestum og hleypa á ungabörn kynfræðslu“ og ætti hann þá jafnt við um kynfræðslu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Með hlutlausri kynfræðslu hefði hann átt við slíka fræðslu fyrir börn frá vissum aldri.

Niðurstaða

                Ákærði neitar sök.

Sannað er með framburði ákærða og öðrum gögnum málsins að hann skrifaði og birti ummælin sem í ákæru greinir á opnu svæði hóps á Facebook hinn 22. apríl 2015 eins og lýst er í ákærunni.

Í 233. gr. a almennra hegningarlaga segir að hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar mannorði eða hópi manna með ummælum eða annarskonar tjáningu svo sem með myndum eða táknum vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar eða breiðir slíkt út skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Það að birta hin tilvitnuðu skrif á opinu svæði hópsins sem í ákæru greinir er opinber umfjöllun í skilningi 233. gr. a almennra hegningarlaga og eru uppfyllt skilyrði greinarinnar um opinbera umfjöllun.

Í 73. gr. stjórnarskrárinnar segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar segir að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmast lýðræðishefðum. Sambærilegt ákvæði til verndar tjáningarfrelsinu er að finna í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans er fjallað um takmarkanir á tjáningarfrelsi. Þar segir að mæla verði fyrir um takmarkanir tjáningarfrelsis í lögum og þær þurfi að vera nauðsynlegar í lýðræðislegu þjóðfélagi eða vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla til að fyrra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.

Ráða má af þessu að mikilsverð málefni þarf til að heimilt sé að skerða tjáningarfrelsið og þær ströngu kröfur renna ásamt öðrum lögskýringarsjónarmiðum stoðum undir það að túlka beri 233. gr. a almennra hegningarlaga þröngri lögskýringu.

Í ákærunni er ekki getið um það hvert var tilefni skrifanna sem ákært er vegna en ákærði lýsti því fyrir dóminum að skrifin hefðu verið tilkomin vegna athugasemda sem fram komu í frjálsri umræðu á facebook í tilefni samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 15. apríl 2015. Samhengisins vegna og til að setja það sem skrifað var í samhengi er rétt að lýsa tillögunni sem var tilefni skrifanna. Í tillögunni segir meðal annars: „[...].að farið verði í átak í eflingu hinseginfræðslu og -ráðgjafar í gunnskólum Hafnarfjarðar. Hafnarfjarðarbær leitist við að gera samstarfssamning við Samtökin 78 um þróun námsefnis fyrir öll stig grunnskóla, frá 1 til 10 bekkjar og sérfræðingar Samtakanna haldi námsskeið fyrir alla starfsmenn grunnskóla Hafnarfjarðar. Nemendum í unglingadeildum grunnskóla verði sömuleiðis gert kleift að sækja einstaklingsráðgjöf hjá sérfræðingum Samtakanna án endurgjalds.“

Ákærði lýsti tilefni skrifanna sem í ákæru greinir og hvað hefði vakað fyrir honum með þeim t.d. að láta í ljós skoðanir sínar varðandi kynfræðslu og aðkomu presta að starfi í skólum.

Þótt tjáningarfrelsinu megi setja skorður með lögum eins og lýst er í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar er tjáningarfrelsi, opinber umræða og frjáls skoðanaskipti ein af undirstöðum lýðræðisþjóðfélags. Opinber umræða um hvað eina í lýðræðisþjóðfélagi hefur iðulega í för með sér ýmiss konar óþægindi fyrir einstaklinga og eða hópa fólks. Fólk móðgast, hneykslast eða reiðist, telur á sig hallað, telur á sér brotið og svo framvegis. Þetta er óhjákvæmilegur fylgisfiskur opinberrar umræðu í lýðræðisþjóðfélagi. Hin tilvitnuðu ummæli samkvæmt ákæru kunna að vera þessu marki brennd og hafa þessi áhrif en grundvallarrétturinn um tjáningarfrelsi sem tryggður er í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10 gr. mannréttindasáttmála Evrópu tryggir ákærða réttinn til að tjá sig eins og hann gerði. Eins og rakið var ber að túlka 233. gr. a almennra hegningarlaga þröngt. Meta verður skrif ákærða út frá tilefninu en þau voru í raun hluti af þjóðfélagsumræðu um málefni þar sem skoðanir voru skiptar. Þegar skrifin eru virt með þessi sjónarmið sem rakin voru í huga, svo sem að túlka beri 233. gr. a almennra hegningarlaga þröngt, er það mat dómsins að ekkert í skrifunum sé þannig að virða beri þau sem brot gegn 233. gr. a almennra hegningarlaga.

Ásetningur er saknæmisskilyrði samkvæmt 233. gr. a almennra hegningarlaga. Það er mat dómsins að gegn eindreginni neitun ákærða sé ósannað að hann hafi haft ásetning til þess að hafa þau áhrif með skrifum sínum sem tekin eru upp í ákæruna eða að hann hafi mátt reikna með því að þau hefðu þau áhrif sem lýst er í 233. gr. a almennra hegningarlaga og í niðurlagi ákærunnar.

Samkvæmt öllu ofanrituðu er það mat dómsins að ákærði hafi ekki gerst brotlegur við 233. gr. a almennra hegningarlaga með skrifum sínum sem rakin eru í ákæru. Þá er ásetningur hans ósannaður. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða og dæma að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin 1.254.260 króna málsvarnarlaun Ólafs Kristinssonar héraðsdómslögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kjartan Ólafsson aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 1.254.260 króna málsvarnarlaun Ólafs Kristinssonar héraðsdómslögmanns.