Print

Mál nr. 98/2006

Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögræði
  • Nauðungarvistun

Mánudaginn 20

 

Mánudaginn 20. febrúar 2006.

Nr. 98/2006.

A

(Haukur Örn Birgisson hdl.)

gegn

Akureyrarkaupstað

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Kærumál. Lögræði. Nauðungarvistun.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu A um að hún þyrfti ekki að sæta þvingaðri lyfjagjöf meðan á nauðungarvistun á sjúkrahúsi stæði.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. febrúar 2006. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. sama mánaðar, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að úrskurðað yrði að henni væri óskylt að hlíta þvingaðri lyfjagjöf af hendi starfsmanna Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að dæmt verði að sér sé óskylt að sæta fyrrnefndri lyfjagjöf. Þá krefst hún þess að skipuðum verjanda hennar verði dæmd þóknun í héraði og fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, en sú þóknun verður ákveðin í einu lagi vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, A.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti, Hauks Arnar Birgissonar héraðsdómslögmanns, samtals 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. febrúar 2006.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 10. febrúar sl., er til komið vegna kröfu A, [kt. og heimilisfang], sem með bréfi dagsettu 9. febrúar 2006 og mótteknu í dag, krefst þess að úrskurðað verði að henni sé óskylt að sæta þvingaðri lyfjagjöf af hálfu starfsmanna FSA.

Þá er þess krafist að Haukur Örn Birgisson hdl. verði skipaður verjandi sóknaraðila og úrskurðuð þóknun vegna málsins.

Varnaraðili málsins er fjölskyldudeild Akureyrarbæjar, [kt.], Glerárgötu 26, Akureyri.  Talsmaður varnaraðila, Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

I.

Sóknaraðili rekur málavexti svo að hún hafi verið vistuð á geðdeild FSA, 27. janúar 2006 án samþykkis hennar.  Ákveðið hafi verið að hún skyldi vistuð í 48 klukkustundir.  Tók hún geðlyf fyrsta daginn eftir eindregnar fortölur starfsmanna FSA.  Frá 28. janúar hafi hún neitað að taka geðlyf.  Þann 29. janúar hafi 48 klukkustunda nauðungavistun hennar runnið út en henni þó ekki tilkynnt að hún væri frjáls ferða sinna.

Þann 2. febrúar 2006 hafi verið óskað eftir því við dómsmálaráðuneytið að sóknaraðili sætti áframhaldandi vistun á sjúkrahúsinu og ráðuneytið hafi orðið við þeirri beiðni með bréfi sama dag.  Sóknaraðili hafi skotið þeirri ákvörðun til ráðuneytisins til Héraðsdóms Norðurlands eystra með bréfi 2. febrúar 2006.  Héraðsdómur hafi hafnað þeirri kröfu með úrskurði 3. febrúar sl.

Frá 6. febrúar sl. hafi sóknaraðili sætt þvingaðri lyfjameðferð, væntanlega á grundvelli 28. gr. lögræðislaga.  Hún hafi ekki fengið afrit sjúkraskrár þrátt fyrir beiðni þar að lútandi með símbréfi 8. febrúar sl.

Fyrirkomulag meðferðarinnar hafi verið með þeim hætti að þrír lögreglumenn hafi komið á FSA og haldið sóknaraðila, sem  hafi haldið upp mótmælum, og starfsmenn FSA sprautað í hana geðlyfjum.

Vegna meðferðar FSA á sóknaraðila sjái hún sig knúna til að leita úrskurðar héraðsdóms um hina þvinguðu lyfjagjöf.

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína á því að aðgerðir þær sem hún sæti fari í bága við lög og gangi allt of langt miðað við tilefni.  Hún hafi nú þrjá daga í röð þurft að sæta því að vera sprautuð með sterkum geðlyfjum gegn eigin vilja.  Þess á milli dvelji hún á sjúkrahúsinu og geri ekkert á hlut annarra.  Bent sé á að í bréfi Sigfúsar Sigmundssonar forstöðulæknis geðdeildar FSA, dags. 3. febrúar sl., komi fram að geðlæknar deildarinnar hafi þá ekki séð ástæðu til að beita þvingaðri lyfjagjöf að sinni.  Ekkert í málinu bendi til að aðstæður sóknaraðila hafi breyst frá þeim tíma og því verði að fallast á kröfu hennar.  Þá sé bent á að engar sérstakar öryggisráðstafanir, umfram hefðbundnar ráðstafanir á geðdeild FSA, séu taldar nauðsynlegar gagnvar sóknaraðila.  Stafi því engin hætta af henni.

Sóknaraðili vísar til þess að aðgerðir FSA séu brot á persónufrelsi hennar og friðhelgi einkalífs.  Persónufrelsi sé verndað í 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Í ákvæðinu felist bann við því að menn verði sviptir persónufrelsi sínu nema í ítrustu neyð og með stoð í lögum.  Engin sérstök neyð sé fyrir hendi og lagastoð skorti fyrir aðgerðunum, enda séu þær aðeins tiltækar í algjörum undantekningatilvikum.

Þá sé friðhelgi einkalífs vernduð í 71. gr. stjórnarskrárinnar og í því felist réttur og frelsi manns til að ráða yfir eigin lífi og líkama.  Með því að gefa sóknaraðila sterk lyf þvert á vilja hennar sé brotið gegn þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar.  Framangreindar reglur séu hluti af mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og ljóst megi vera að allar lagareglur og aðgerðir sem fela í sér frávik frá reglunum beri að skýra þröngt.

Um heimildir til þvingaðrar lyfjagjafar sé fjallað í 28. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.  Þeir sem séu nauðungarvistaðir geti þurft að þola úrræðið að uppfylltum nánar greindum skilyrðum.  Sóknaraðili byggi á því að engin sérstök þörf sé á að gefa henni lyf gegn hennar vilja.  Við mat á því hljóti að þurfa að taka afstöðu til þess hvort hún sé hættuleg sjálfri sér eða öðrum innan geðdeildarinnar eða lífi hennar eða heilsu sé stefnt í voða án lyfjagjafarinnar, sbr. 3. mgr. 28. gr. lögræðislaga.  Ekkert liggi fyrir í málinu um það og FSA hljóti að þurfa að sýna fram á þessa hættu með áþreifanlegum hætti.

FSA sé í öllu falli bundið af óskráðri meðalhófsreglu stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttarins en í henni felist að ekki megi ganga lengra en efni standi til í því skyni að ná því markmiði sem að sé stefnt.  Ekkert í málinu bendi til að vistunin ein á geðdeild FSA gangi ekki nægilega langt að svo stöddu.

Þá sé þess að geta að í samtali talsmanns sóknaraðila við yfirmann geðsviðs FSA, Sigmund Sigfússon, hafi komið fram að hann teldi ekki að hætta stafaði af sóknaraðila innan veggja deildarinnar þó lyfjagjöfin væri ekki innt af hendi.  Liggi viðurkenning hans á því fyrir sé ljóst að heimild bresti til lyfjagjafarinnar.

Til stuðnings framangreindu vísar sóknaraðili til framangreindra reglna stjórnarskrárinnar og lögræðislaga.  Um heimild til málskots vísast til 2. mgr. 30. gr. lögræðislaga.  Um skipunarkröfu er vísað til 3. mgr. sömu greinar og um þóknunarkröfu til 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga.

Til stuðnings kröfu sinni vísar varnaraðili fyrst og fremst til framlagðs læknisvottorðs Sigmundar Sigfússonar forstöðulæknis geðdeildar FSA og Lárusar Karlssonar geðlæknis á FSA.  Þá vísar hann til þess, að samkvæmt 2. mgr. 28. gr. lögræðislaga, eigi þau skilyrði sem sett séu fyrir þvingaðri lyfjagjöf í 3. mgr. 28. gr. laganna aðeins við um ákvörðun vakthafandi læknis en ekki ákvarðanir yfirlæknis.  Að auki sé í 3. mgr. 28. gr. laganna gerð sú krafa að uppfyllt sé annað tveggja skilyrða; að nauðungarvistaður maður sé sjálfum sér eða öðrum hættulegur eða að lífi hans eða heilsu sé annars stefnt í voða.  Í máli þessu sé ljóst, af framlögðu læknisvottorði og framburði forstöðulæknisins fyrir dómi, að heilsu sóknaraðila sé stefnt í voða sæti hún ekki lyfjameðferð við sjúkdómi sínum.

II.

Vegna framkominnar kröfu sóknaraðila óskaði dómurinn hinn 10. febrúar sl. eftir greinargerð forstöðulæknis geðdeildar FSA, sbr. 11. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.  Samdægurs barst vottorð Sigmundar Sigfússonar forstöðulæknis og Lárusar Karlssonar geðlæknis dags. 10. febrúar 2006, en þar segir:

[...]“

Sigmundur Sigfússon forstöðulæknir kom fyrir dóminn og staðfesti framlagt vottorð sitt, dags. 10. febrúar 2006.  Hann segir sóknaraðila haldna aðsóknargeðrofi (paranoid psychosis) sem sé alvarlegur geðsjúkdómur.  Ekki sé fullrannsakað hvort sóknaraðili sé haldinn öðrum langvinnari sjúkdómi.  Vitnið segir læknismeðferð nauðsynlega sóknaraðila og lyfjameðferð óhjákvæmilega.  Lyfjameðferð geri aðra meðferð mögulega og nauðungarvistun sóknaraðila verði gagnslaus án lyfjagjafar.  Árangur sé betri ef sjúklingur fáist til samvinnu og því beðið með þvingaða lyfjagjöf sé það forsvaranlegt, það sé metið eftir ástandi sjúklingsins og aðstæðum.  Varðandi ummæli vitnisins í greinargerð dags. 3. febrúar 2006 þess efnis að þá teldu geðlæknar ekki þörf á þvingaðri lyfjagjöf að sinni heldur yrði sóknaraðili beittur fortölum til að þiggja nauðsynlega meðferð, segir vitnið að læknar deildarinnar hafi metið það svo út frá sinni reynslu og vaxandi óróa sóknaraðila að hætta gæti verið á ferðum og ekki skyldi bíða lengur með lyfjagjöf hennar.  Að auki hefði vitninu borist frekari upplýsingar sem staðfestu að hún væri óútreiknanleg og gæti komið sjálfri sér og öðrum í hættu.  Fram hafi komið að hún hafi í vikunni áður en hún var vistuð á geðdeild, ekið um Eyjafjarðarsveit á allt að 140 km. hraða, stundum á röngum vegarhelmingi, með börn sín í bílnum svo þau urðu óttaslegin.  Aðspurt segir vitnið erfitt að svara því ótvírætt hvort sóknaraðili sé hættuleg sjálfri sér eða öðrum inni á geðdeild FSA, þar séu henni búnar þær aðstæður að alls öryggis sé gætt, hún haldi sig innan afmarkaðs hluta deildarinnar og sé undir sífelldri gæslu starfsmanna.  Ekki hafi enn skapast hætta af sóknaraðila innan sjúkrahússins en reynslan af slíkum sjúkdómi og hegðun sóknaraðila í vikunni áður en hún var nauðungavistuð sýni að ástand hennar sé óútreiknanlegt og varhugavert.  Vitnið kveðst telja ótvírætt að sjúkdómur sóknaraðila gæti leitt af sér hættulegt athæfi væri hún utan sjúkrahúss.  Aðspurt segir vitnið þau lyf sem sóknaraðila séu gefin hafa þau áhrif að deyfa mjög ofskynjanir séu þær fyrir hendi og slá á svokallaðar ranghugmyndir og ranghugmyndakerfi, þannig að þó ranghugmyndirnar séu fyrir hendi skipti þær sjúklinginn minna máli og hann fari síður eftir þeim.  Lyfin hafi þó ekki alltaf nægileg áhrif í þessa veru, sérstaklega ekki hafi sjúkdómurinn verið ómeðhöndlaður lengi.  Aðspurt segir vitnið það hafa verið hans ákvörðun og á hans ábyrgð að hefja þvingaða lyfjagjöf.  Um áhrif þess að sóknaraðili fengi ekki umrædd lyf segir vitnið andlegt ástand hennar verða óbreytt og e.t.v. versna.  Með því að taka ekki lyfin stefni sóknaraðili heilsu sinni í voða í tvennu tilliti; í fyrsta lagi minnki lækningarlíkur og hugsanatruflanir festist í sessi fái sjúkdómurinn að vera ómeðhöndlaður vikum eða mánuðum saman og í öðru lagi hafi sóknaraðili greinilega svokallaðar imperatífar ranghugmyndir, þ.e. ranghugmyndir sem skipa henni að gera ákveðna hættulega hluti eins og  hraðakstur og ákeyrslur.

Álit dómsins.

Sóknaraðili hefur lýst því yfir hér fyrir dómi að hún telji sig vera alheilbrigða, en að virtu vottorði geðlæknanna Sigmundar Sigfússonar og Lárusar Karlssonar verður að leggja til grundvallar að hún sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi og hafi ekki sjúkdómsinnsæi.

Í 2. mgr. 28. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 segir að maður sem er nauðungarvistaður til meðferðar á sjúkrahúsi skuli einungis sæta þvingaðri lyfjagjöf samkvæmt ákvörðun yfirlæknis.  Í 3. mgr. er hins vegar mælt fyrir um skilyrði þess að vakthafandi læknir geti tekið ákvörðun um að nauðungarvistaður maður skuli sæta þvingaðri lyfjagjöf, þ.e. hann sé sjálfum sér eða öðrum hættulegur eða ef lífi hans eða heilsu sé annars stefnt í voða.  Í slíkum tilvikum skal tilkynna yfirlækni þetta svo fljótt sem verða má og skal hann taka ákvörðun um frekari meðferð.  Hefur yfirlæknir samkvæmt þessu víðtækari heimildir til þvingaðrar lyfjagjafar nauðungavistaðs mann en vakthafandi læknir.  Virðist gert ráð fyrir að þvinguð lyfjagjöf geti verið þáttur í nauðungarvistuninni, enda er ljóst að nauðungarvistun skilar í mörgum tilvikum ekki árangri án lyfjagjafar.

Þó verður að líta til þess að ákvörðun um slíka meðferð er alvarlegt inngrip í persónufrelsi manna, sem verndað er í 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995, 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 9. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.  Ber yfirlækni því, við töku ákvarðana um slíka meðferð, að gæta meðalhófs og ekki grípa til slíkra úrræða nema brýn nauðsyn krefji.

Lyfjagjöf sú sem sóknaraðili hefur verið látin sæta gegn vilja sínum á geðdeild FSA hefur verið framkvæmd að tilstuðlan forstöðulæknis deildarinnar.  Segir forstöðulæknirinn óhjákvæmilegt að meðhöndla sóknaraðila með lyfjum, þau geri aðra meðferð mögulega og að nauðungarvistunin verði gagnslaus án lyfjagjafar.  Ljóst sé að sóknaraðili geti verið sjálfri sér og öðrum hættuleg verði hún útskrifuð í óbreyttu ástandi.

Verður að telja fram komið að heilsu sóknaraðila er stefnt í voða taki hún ekki þau lyf sem um ræðir við sjúkdómi sínum, þá er hætta á að ástand hennar versni og líkur á bata minnka.

Með vísan til þessa verður að telja nauðsynlegt að sóknaraðili fái lyf við sjúkdómi sínum en hún hefur algerlega hafnað því.  Er því hafnað kröfu sóknaraðila um að henni sé óskylt að sæta þvingaðri lyfjagjöf starfsmanna geðdeildar FSA.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Hauks Arnar Birgissonar hdl., þykir hæfilega ákveðin kr. 100.000 og er þá virðisaukaskattur innifalinn.

Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu sóknaraðila, A, um að úrskurðað verði að henni sé óskylt að sæta þvingaðri lyfjagjöf af hálfu starfsmanna FSA er hafnað.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Hauks Arnar Birgissonar hdl., að fjárhæð kr. 100.000 að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.