Print

Mál nr. 98/2013

Lykilorð
  • Opinber innkaup
  • Verksamningur
  • Skaðabætur

                                     

Miðvikudaginn 19. júní 2013.

Nr. 98/2013.

J&L ehf.

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

Opinber innkaup. Verksamningur. Skaðabætur.

J ehf. krafði Í um greiðslu reiknings vegna vinnu sem varið hefði verið í vinnu við tillögu að útfærslu á markaðsátaki í ferðaþjónustu. Beiðni um tillöguna kom frá starfshópi sem settur var á stofn af iðnaðarráðherra í kjölfar eldgoss í Eyjafjallajökli, en fjórum öðrum auglýsingastofum gafst einnig kostur á að skila inn tillögum. Í beiðni starfshópsins kom fram að fyrir tillöguna fengjust greiddar 75.000 krónur. Eftir fund starfshópsins með Ríkiskaupum, þar sem kom fram að kaup á þjónustu sem þessari væru almennt útboðsskyld, tilkynnti starfshópurinn J ehf. að ekki væri unnt að standa að ráðstöfun fjár vegna markaðsátaksins með þeim hætti sem fyrirhugað hefði verið. Myndu tiltekin ferðaþjónustufyrirtæki sjá um það sem sneri að framleiðslu kynningar- og auglýsingaefnis og hefðu þau valið tvær auglýsingastofur til verksins. Hæstiréttur taldi að líta yrði svo á að starfshópurinn teldist hafa farið með hlutverk opinbers aðila í skilningi 3. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Hefði hópnum því borið að standa að innkaupaferlinu með almennu eða lokuðu útboði nema heimild væri til annars eftir ákvæðum laganna. Undan þessu hefði ekki verið fært að víkjast með því að klæða innkaupin á síðari stigum í þann búning að einkafyrirtæki, sem hefðu verið þátttakendur í starfshópnum, bæru kostnað af þeim með hluta framlaga sinna. Hefði starfshópurinn beitt aðferð til að koma fram innkaupum, sem átti sér enga stoð í ákvæðum laga nr. 84/2007. Hefði sú háttsemi falið í sér brot á lögunum og bæri Í skaðabótaábyrgð vegna tjóns J ehf. af þeim sökum, sbr. 1. mgr. 101. gr. þeirra. Var það mat Hæstaréttar að J ehf. væri óbundinn af skilmála um greiðslu á 75.000 krónum fyrir tillöguna þar sem ekki hefði verið fullnægt þeirri forsendu að innkaupaferlið stæðist ákvæði laga nr. 84/2007 og veitti þannig tryggingu fyrir því að réttilega yrði staðið að vali á viðsemjanda. Þá var ekki talið að Í hefði mótmælt fjárhæð reiknings J ehf. í tæka tíð undir rekstri málsins og var Í því gert að greiða J ehf. hina umkröfðu fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. febrúar 2013. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.001.175 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. maí 2010 til 29. ágúst sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 21. maí 2013 að fjárhæð 104.999 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

I

Samkvæmt gögnum málsins ákvað iðnaðarráðherra í framhaldi af því að eldgos hófst í Eyjafjallajökli vorið 2010 að setja á stofn svonefnt viðbragðsteymi ferðaþjónustunnar og stjórnvalda, sem skipað var meðal annars fulltrúum frá ráðuneytinu og fyrirtækjum í ferðaþjónustu, til að gera tillögur um aðgerðir til að bregðast við röskun á henni, sem leiddi af gosinu. Innan þessa starfshóps munu hafa komið upp hugmyndir um að efna vegna afleiðinga eldgossins til markaðsátaks erlendis. Ríkisstjórnin mun hafa samþykkt 27. apríl 2010 að stefndi legði 350.000.000 krónur til slíks átaks ásamt Reykjavíkurborg gegn því að fyrirtæki í ferðaþjónustu létu af hendi jafn háa fjárhæð í sama skyni og mun það hafa gengið eftir. Forsvarsmaður starfshópsins sendi tölvubréf 28. apríl 2010 til fimm auglýsingastofa, þar á meðal áfrýjanda, ásamt fylgiskjali með fyrirsögninni: „Markaðsátak í ferðaþjónustu“. Þar sagði meðal annars eftirfarandi: „Vegna öskufalls frá gosinu í Eyjafjallajökli og mikilla hindrana í flugsamgöngum er komin upp alvarleg staða í íslenskri ferðaþjónustu. Stjórnvöld ásamt hagsmunaaðilum greinarinnar hafa því ákveðið að bregðast við með markaðsátaki erlendis þegar samgöngur verða komnar í eðlilegt horf. Meginmarkmiðið er að draga úr neikvæðum áhrifum á trausta markaði ferðaþjónustunnar sem tekið hefur langan tíma að byggja upp. Stjórnvöld hafa samþykkt að veita allt að 350 milljónum í þetta átak gegn sama framlagi atvinnugreinarinnar og annarra hagsmunaaðila. Átakið skal standa yfir í maí og júní sem er mikilvægasti bókunartími sumarleyfisferða til Íslands. Af þessu tilefni hefur verið ákveðið að leita til fimm auglýsingastofa eftir tillögu að útfærslu á markaðsátakinu. ... Hverri stofu verða greiddar 75.000 kr. fyrir tillöguna. Skilafrestur er laugardagurinn 1. maí n.k. kl. 14 og gefst auglýsingastofunum þann sama dag kostur á að kynna tillögur sínar, ásamt drögum að kostnaðaráætlun, fyrir stýrihópi átaksins.“ Í þessu skjali var síðan í stuttu máli greint frá markmiðum verkefnisins, svo og að óskað væri eftir lýsingu á hugmyndum, að hverjum beina ætti átakinu og hvernig. Þá var eftirfarandi tekið fram: „Tillagan þarf bæði að geta staðið sem ein heildarherferð en líka sem hluti af stærra samstarfi. Eðli málsins samkvæmt þarf að klára hugmyndavinnu og framleiðslu afar hratt og skal það haft í huga við vinnslu kynningarinnar. Hugmyndir skulu taka mið af markaðssvæðum átaksins sem eru Bretland, Norðurlönd, Mið- og Suður-Evrópa og Norður-Ameríka.“

Í skýrslu, sem framkvæmdastjóri áfrýjanda gaf við aðalmeðferð málsins í héraði, kvað hann þetta hafa verið stærsta verkefni fyrir auglýsingastofur „sem boðið hefur verið út í sögu Íslands fyrr og síðar.“ Skammur tími hafi verið gefinn til verksins og hafi því verið unnið dag og nótt fram að skilafresti, bæði meðal starfsmanna áfrýjanda, sem alls hafi verið um 30 talsins, og með aðstoð verktaka. Samkvæmt framburði forsvarsmanns starfshópsins fyrir héraðsdómi bárust tillögur frá öllum auglýsingastofunum, sem leitað var til, og kynntu þær tillögurnar, sem farið var síðan yfir innan hópsins. Þar hafi komið til tals hvort ekki þyrfti að hafa samráð við Ríkiskaup um þetta viðfangsefni, sem hafi svo verið gert 3. maí 2010. Samkvæmt minnisblaði starfsmanns iðnaðarráðuneytisins áttu fulltrúar starfshópsins fundi með starfsmönnum Ríkiskaupa 3. og 4. sama mánaðar, þar sem þeir síðarnefndu hafi bent á að kaup á þjónustu sem þessari væru „almennt útboðsskyld sé kaupandinn opinber aðili.“ Kynni að mega „bera fyrir ákveðnum neyðarsjónarmiðum“ samkvæmt c. lið 1. mgr. 33. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup til að „komast hjá útboðsskyldu, en fulltrúar Ríkiskaupa höfðu fyrirvara á því og bentu á að um afar þrönga sérreglu væri þar að ræða“. Hafi þeir talið hugsanlegt að „fara með slíkt útboð ... í forval og lokað hraðútboð“, en það gæti tekið tvær til þrjár vikur. Því hafi verið rætt um aðra leið, sem fælist í því „að verkefninu yrði tvískipt og hlutverk hins opinbera og einkaaðila aðskilin.“ Myndu flugfélögin Icelandair og Iceland Express „nota sín framlög í verkefnið til að velja auglýsingastofu (eða stofur) til að hanna og framleiða markaðs- og kynningarefni sem verður opið öllum til afnota“. Félögin bæru allan kostnað af þessu, en framlög stefnda og Reykjavíkurborgar yrðu notuð „í annað en kaup á þjónustu sem er útboðsskyld á Íslandi.“ Myndi „verkefnisstjórn innan stjórnsýslunnar“ sjá um framkvæmd verkefnisins að því er varðaði ráðstöfun fjárframlaga frá stefnda. Sagði í minnisblaðinu að almennt hafi fengist „jákvæð viðbrögð frá Ríkiskaupum við þessari leið“ þótt stofnunin gæti ekki tekið af skarið um að hún væri fær.

Starfsmaður í iðnaðarráðuneytinu sendi 4. maí 2010 tölvubréf til áfrýjanda, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Framkvæmdanefnd markaðsátaks ferðaþjónustunnar vegna afleiðinga eldgoss í Eyjafjallajökli þakkar fyrir fagmannlega kynningu og áhrifamiklar hugmyndir sem fram komu á fundi hennar með fulltrúum auglýsingastofunnar. Því miður hefur komið í ljós að ekki reyndist unnt með tilliti til reglna um opinber innkaup að standa með þeim hætti að ráðstöfun fjár sem safnast hafði í markaðsátakið, með vilyrðum opinberra aðila og einkaaðila, eins og framkvæmdanefndin hafði hugsað sér. Af þessum sökum hefur tekist samkomulag um þá verkaskiptingu að ferðaþjónustufyrirtækin, sem taka þátt í átakinu, munu sjá um þann þáttinn sem snýr að framleiðslu kynningar- og auglýsingaefnis. Það efni verður síðan opið öðrum til birtingar og notkunar meðan á átakinu stendur í maí og júní. Fulltrúar ferðaþjónustufyrirtækja hafa valið Íslensku auglýsingastofuna sem meginframleiðanda og Fíton til þess að efna til þjóðarátaks á Netinu.“ Síðastnefndar auglýsingastofur voru meðal þeirra fimm, sem starfshópurinn beindi áðurgreindu tölvubréfi til 28. apríl 2010.

Áfrýjandi sendi sundurliðaðan reikning 10. maí 2010 til iðnaðarráðuneytisins fyrir vinnu í samtals 331 klukkustund, sem varið hafi verið til fyrrgreinds verks, og nam fjárhæð hans 5.001.175 krónum að meðtöldum útlögðum kostnaði. Ráðuneytið hafnaði reikningnum með bréfi 19. ágúst sama ár og höfðaði áfrýjandi mál þetta 3. febrúar 2012 til greiðslu hans. Stefndi hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn um að áfrýjanda hafi 21. maí 2013 verið greiddar 75.000 krónur fyrir verk sitt í samræmi við áðurgreint fyrirheit í bréfi 28. apríl 2010 ásamt vöxtum að fjárhæð 29.999 krónur eða samtals 104.999 krónur.

II

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 84/2007 taka ákvæði þeirra til ríkisins, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila í skilningi 2. mgr. sömu lagagreinar, svo og samtaka, sem þeir kunna að hafa með sér. Í 2. mgr. 3. gr. kemur fram að aðili teljist opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans til að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verði til starfsemi einkaaðila. Að auki þurfi eitt þriggja skilyrða að vera uppfyllt, nánar tiltekið samkvæmt a. lið þessa lagaákvæðis að starfsemi aðilans sé að mestu leyti rekin á kostnað ríkisins eða sveitarfélaga og teljist svo vera ástatt ef svonefnd opinber fjármögnun nemur meira en helmingi af árlegum rekstrarkostnaði, samkvæmt b. lið að aðilinn lúti yfirstjórn ríkisins eða sveitarfélaga eða c. lið að hann eigi undir sérstaka stjórn, sem ríkið eða sveitarfélög skipi að meiri hluta. Um skipulag og fjárreiður starfshópsins, sem samkvæmt framansögðu hefur ýmist verið nefndur viðbragðsteymi ferðaþjónustunnar og stjórnvalda eða framkvæmdanefnd markaðsátaks ferðaþjónustunnar vegna afleiðinga eldgoss í Eyjafjallajökli, er lítið sem ekkert upplýst í gögnum málsins umfram það, sem áður hefur verið getið. Verður stefndi að bera halla af því að ekki hafi verið reifuð nánar atriði, sem að þessu snúa, og verður af þeim sökum að líta svo á að starfshópurinn teljist í skilningi 3. gr. laga nr. 84/2007 hafa farið með hlutverk opinbers aðila, sem ákvæði þeirra taki til. Þá er til þess að líta að áðurgreind málaleitan starfshópsins 28. apríl 2010 til áfrýjanda og fjögurra annarra auglýsingastofa laut að öflun hugmynda og kostnaðaráætlunar vegna þjónustu, sem átti undir 4. gr. laga nr. 84/2007, og var ráðgert að kaupverð hennar færi langt fram úr þeim mörkum, sem um ræðir í 20. gr. laganna. Starfshópnum bar því samkvæmt síðastnefndu ákvæði, sbr. og 1. mgr. 30. gr. sömu laga, að standa að þessum innkaupum með almennu eða lokuðu útboði nema heimild væri til að beita einhverju öðru innkaupaferli, sem um ræðir í 31. til 35. gr. laganna. Undan þessu var ekki fært að víkjast með því að klæða þessi innkaup á síðari stigum í þann búning að láta tvö einkafyrirtæki, sem voru þátttakendur í starfshópnum, bera kostnað af þeim með hluta framlaga sinna til starfsemi hans.

Ekki var efnt til almenns útboðs í skilningi 3. töluliðar 2. gr. laga nr. 84/2007 á þjónustunni, sem mál þetta varðar. Þá er ekki unnt að líta svo á að starfshópurinn hafi með fyrrnefndri orðsendingu 28. apríl 2010 stofnað til lokaðs útboðs í skilningi 9. töluliðar sömu lagagreinar, enda gafst hér hvorki hvaða fyrirtæki sem er kostur á að taka þátt í slíku útboði né voru þátttakendur áður fundnir með forvali, sbr. 1. mgr. 56. gr. laganna. Ekki var fullnægt skilyrðum 31. gr. laga nr. 84/2007 til að beita samkeppnisviðræðum við val á viðsemjanda starfshópsins og var aðferðum samkvæmt því ákvæði heldur ekki beitt af hendi hans til að koma á kaupum. Hér var ekki um að ræða samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu samkvæmt 32. gr. sömu laga, enda var engin slík auglýsing gefin út. Að því er varðar ákvæði 33. gr. laganna, sem taka til samningskaupa án undangenginnar útboðsauglýsingar, er þess að gæta að stefndi hefur ekkert lagt fram til að styðja staðhæfingar sínar um að innkaup hafi hér verið algerlega nauðsynleg vegna aðkallandi neyðarástands, sem hafi stafað af ófyrirsjáanlegum atburðum, og ekki hafi verið unnt að hlíta töfum, sem hefðu fylgt útboði eða samningskaupum að undangenginni útboðsauglýsingu, en fyrir skilyrðum undantekningarheimildar c. liðar 1. mgr. 33. gr., sem að þessu snýr, ber stefndi sönnunarbyrði. Þá verður ekki fram hjá því litið að starfshópurinn kaus að leita ekki samninga við eina auglýsingastofu, heldur óskaði hann eftir hugmyndum og kostnaðaráætlun frá áfrýjanda og fjórum öðrum slíkum fyrirtækjum. Af þeim sökum hefði starfshópnum verið rétt að fylgja ákvæðum 3. mgr. og 4. mgr. 32. gr., sbr. 31. gr. laga nr. 84/2007 við framkvæmd innkaupa hefði verið um að ræða samningskaup án undangenginnar útboðsauglýsingar í skilningi 33. gr. laganna, en að því var hér ekki gætt. Hvorki var hér um að ræða innkaupaferli samkvæmt 34. gr. né 35. gr. sömu laga. Að öllu þessu virtu beitti starfshópurinn í raun aðferð til að koma fram innkaupum, sem átti sér enga stoð í ákvæðum laga nr. 84/2007, og fól þessi háttsemi því í sér brot á þeim lögum.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 ber kaupandi skaðabótaskyldu vegna tjóns, sem fyrirtæki verður fyrir sökum brots á lögunum. Stefndi hefur ekki borið fyrir sig að fébótaábyrgð geti ekki hvílt á sér vegna gerða starfshópsins, sem um ræðir í málinu. Að því er varðar þau skilyrði þessa lagaákvæðis fyrir rétti til skaðabóta að fyrirtæki þurfi einungis að sanna að það hafi átt raunhæfan kost á að verða valið af kaupanda og að hann hafi skerst sökum brots kaupandans verður að gæta að því að starfshópurinn valdi áfrýjanda í þessu skyni samhliða fjórum öðrum auglýsingastofum og bar starfshópurinn jafnframt lof á afrakstur vinnu áfrýjanda í áðurnefndu tölvubréfi 4. maí 2010. Stefndi hefur ekki leitast við að skýra hvað ráðið hafi þegar upp var staðið vali á auglýsingastofum til að sinna verkefninu, sem um ræðir í málinu, og hefur ekkert lagt fram um hugmyndir og kostnaðaráætlanir þeirra. Að þessu virtu verður að líta svo á að fullnægt sé hér áðurnefndum skilyrðum 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 fyrir skaðabótaskyldu stefnda við áfrýjanda. Samkvæmt ákvæðinu skal fjárhæð skaðabóta taka mið af kostnaði fyrirtækis af undirbúningi tilboðs og þátttöku í innkaupaferli. Áfrýjandi reisir kröfu sína sem áður segir á reikningi frá 10. maí 2010, sem byggður var aðallega á framlögðum tímaskráningum starfsmanna hans og verktaka. Í greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi var engum athugasemdum hreyft við fjárhæð reiknings áfrýjanda á öðrum grunni en þeim að til hennar ætti ekki að líta sökum þess að hann hafi í verki gengist undir þann skilmála starfshópsins að fá einungis 75.000 krónur greiddar fyrir vinnu sína ef ekki yrði samið við hann um framkvæmd verkefnisins. Samkvæmt endurriti úr þingbók krafðist stefndi á hinn bóginn til vara við munnlegan flutning málsins í héraði að krafa áfrýjanda yrði lækkuð. Líta verður svo á að áðurnefndur skilmáli um greiðslu á 75.000 krónum hafi ekki getað bundið áfrýjanda nema fullnægt væri þeirri forsendu að innkaupaferlið, sem starfshópurinn réðst í, stæðist ákvæði laga nr. 84/2007 og veitti þar með áfrýjanda og öðrum þátttakendum tryggingu fyrir því að réttilega yrði staðið að vali á viðsemjanda. Með því að áfrýjandi verður þannig að teljast óbundinn af þessum skilmála og fjárhæð reiknings hans var ekki mótmælt í tæka tíð undir rekstri málsins í héraði verður tekin til greina krafa hans um greiðslu á 5.001.175 krónum og vöxtum, en dráttarvaxta hefur hann réttilega krafist frá þeim degi þegar mánuður var liðinn frá því að hann krafðist skaðabóta úr hendi stefnda, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Frá þessu dregst fyrrnefnd innborgun stefnda 21. maí 2013 eins og nánar greinir í dómsorði.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, J&L ehf., 5.001.175 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. maí 2010 til 29. ágúst sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 21. maí 2013 að fjárhæð 104.999 krónur.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2012. 

Mál þetta, sem var dómtekið 1. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af J&L ehf., Laugavegi 26, Reykjavík á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu birtri 3. febrúar 2012.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 5.001.175 kr. með almennum vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. maí 2010 til 29. ágúst 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. ágúst 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda. Til vara er krafist lækkunar á dómkröfum stefnanda og í því tilfelli verði málskostnaður látinn falla niður.

Málavextir

Hinn 28. apríl 2010 sendi iðnaðarráðuneytið, í tölvupósti, beiðni til fimm auglýsingastofa, þar á meðal stefnanda, um grófa útfærslu á markaðsátaki sem standa mundi í maí og júní 2010 í tengslum við gosið í Eyjafjallajökli. Í tölvupóstinum var tekið fram að um væri að ræða samstarf iðnaðarráðuneytis og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Þá var vísað til skjals sem ber yfirskriftina „markaðsátak í ferðaþjónustu“. Þar er gerð grein fyrir markmiði verkefnisins og tilgreint að í útfærslunni skuli gerð grein fyrir hugmyndum að markaðsátaki í ferðaþjónustu, mögulegum skilaboðum, markhópum, við hverja skuli tala og hvernig og hvaða samskiptaleiðir og miðla skuli nota og af hverju. Tekið var fram að skilafrestur tillagna væri 1. maí kl. 14:00, greiddar yrðu 75.000 kr. fyrir hverja tillögu og að auglýsingastofunum yrði gefinn kostur á að kynna tillögur sínar þann sama dag ásamt drögum að kostnaðaráætlun.

Hinn 3. maí 2010 gerðu Ríkiskaup athugasemdir við framkvæmd verkefnisins sem taldi að útboðið væri hugsanlega útboðsskylt á hinu Evrópska efnahagssvæði. Hugsanlega mætti þó styðja umrædda framkvæmd við undantekningarreglu um neyðarrástand í c-lið 1. mgr. 33. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007. Þá var einnig lögð fram sú tillaga að í stað þess að bjóða verkefnið út mætti tvískipta umræddu verkefni þannig að flugfélögin, Icelandair og Iceland Express, myndu nota sín framlög til að velja auglýsingastofu og greiða fyrir þá þjónustu sem keypt væri af auglýsingastofum, en fjárframlögum hins opinbera yrði varið í önnur verkefni, ótengd auglýsingastofunum.

Í kjölfarið hafnaði stefndi öllum tilboðum auglýsingastofanna og leysti málið á þann hátt að ferðaþjónustufyrirtækin, sem þátt tóku í átakinu, tóku að sér framleiðslu á kynningar- og auglýsingaefni án aðkomu stefnda.

Með bréfi, dagsettu 29. júlí 2010, krafði stefnandi iðnaðarráðuneytið um bætur vegna þess tjóns sem hann hafði orðið fyrir við umrædda tilboðsgerð. Þeirri kröfu hafnaði iðnaðarráðuneytið með bréfi, dagsettu 19. ágúst 2010. Bar iðnaðarráðuneytið fyrir sig að undantekningarreglan í c-lið 1. mgr. 33. gr. laga um opinber innkaup ætti við og hefði þeim ekki borið að bjóða umrætt verk út á grundvelli laganna, þar sem um neyðarástand hefði verið að ræða og því hafi í raun ekki verið um útboð að ræða í skilningi laganna. Taldi iðnaðarráðuneytið því bótaskyldu gagnvart stefnanda ekki vera til staðar.

Framhald verkefnisins var síðan boðið út af Ríkiskaupum fyrir hönd Íslandsstofu á Evrópska efnahagssvæðinu hinn 15. nóvember 2011.

Hinn 24. nóvember 2011 var ítrekuð krafa á hendur iðnaðarráðuneytinu um skaðabætur og mál síðan höfðað í febrúar 2012, án þess að svar hefði borist frá iðnaðarráðuneytinu.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar háttsemi iðnaðarráðuneytisins. Á því tjóni beri stefndi ábyrgð og engar þær ástæður eða réttlætingar hafi verið færðar fram af hálfu stefnda sem undanþiggi hann hefðbundinni skaðabótaábyrgð.

Sú ólögmæta háttsemi sem leiði til skaðabótaskyldu sé tvíþætt og leiði hvor þáttur um sig til bótaskyldu stefnda. Í fyrsta lagi sé þar um að ræða þá háttsemi iðnaðarráðuneytisins að afla tilboða þrátt fyrir útboðsskyldu á Evrópska efnahagssvæðinu. Í öðru lagi sé um að ræða þá háttsemi iðnaðarráðuneytisins að hafna öllum tilboðum á forsendum sem ekki geti talist málefnalegar. Ágreiningur aðila í máli þessu snúist því um það hvort verkkaupa beri að bæta það tjón sem leiði af ólögmætri höfnun allra tilboða sem og af ólögmætri öflun tilboða. Hvort sem fallist sé á aðra af þessum málsástæðum eða báðar megi ljóst vera að umrædd háttsemi iðnaðarráðuneytisins í tengslum við útboð verkefnisins Inspired by Iceland sé ólögmæt auk þess sem hún hafi bakað stefnanda tjón. Á því tjóni beri stefndi ábyrgð.

Um ólögmæta höfnun tilboða. Iðnaðarráðuneytið hafi óskað eftir tilboði stefnanda í verkið Inspired by Iceland en eftir kynningu tilboðanna hafi ráðuneytið hafnað öllum tilboðum, þar á meðal tilboði stefnanda. Stefnandi telur þá höfnun ekki byggða á málefnalegum sjónarmiðum og því ólögmæta. Það sé meginregla í verktaka- og útboðsrétti að verkkaupi verði ekki, gegn neitun sinni, bundinn við að ganga til samninga við tiltekinn aðila kjósi hann að hætta við útboð. Hins vegar taki verkkaupi ávallt þá áhættu að verða skaðabótaskyldur gagnvart bjóðendum vegna slíkra ákvarðana. Megi því ljóst vera að möguleikar iðnaðarráðuneytisins til að hætta við umrætt útboð hafi hugsanlega verið fyrir hendi en slíkt leysi stefnda ekki undan bótaábyrgð.

Heimildum til að hafna tilboðum, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða og 74. gr. laga um opinber innkaup, séu settar þær skorður að þeim verði ekki beitt nema fyrir því séu málefnalegar og rökstuddar ástæður. Ef ástæður höfnunar eigi að standast kröfur ofangreindra ákvæða þá megi þær ekki hafa verið til staðar á þeim tíma sem tilboða var aflað. Í því máli sem hér um ræði hafi öllum tilboðum verið hafnað á þeim forsendum að lög um opinber innkaup heimiluðu ekki fyrirhugað innkaupafyrirkomulag. Þær forsendur hafi hins vegar verið til staðar þegar tilboða var aflað, þ.e. sú skylda hafi legið fyrir við tilboðsöflun að umrætt útboð hafi verið útboðsskylt í samræmi við lög um opinber innkaup. Geti umrædd forsenda því ekki talist málefnaleg í ofangreindum skilningi. Hafi tilboði stefnanda, ásamt tilboðum allra annarra sem tóku þátt í útboðinu, því verið hafnað á grundvelli forsendna sem teljist ekki vera málefnalegar. Höfnunin sé því ólögmæt.

Að auki komi ekki fram í útboðslýsingu að val á tilboði væri háð þeim atriðum sem höfnun tilboða byggðist á, líkt og skylt sé skv. 45. gr. laga um opinber innkaup. Jafnvel þó að líta megi svo á að verkkaupa sé almennt heimilt að hafna öllum tilboðum, þurfi höfnunin engu að síður að byggjast á þeim forsendum sem fram komi í útboðslýsingu, útboðsgögnum eða skýringargögnum, sbr. 2. mgr. 72. gr. laga um opinber innkaup. Svo hafi ekki verið í máli þessu.

Það megi því ljóst vera að iðnaðarráðuneytið hafi byggt höfnun allra tilboða á forsendum sem hafi verið til staðar þegar tilboðanna var aflað. Þá hafi umrædd höfnun ekki verið í samræmi við 2. mgr. 72. gr. laga um opinber innkaup. Þá hafi jafnframt verið óheimilt að nota sérstakar aðferðir við útreikning í því skyni að komast hjá útboðsskyldu skv. 2. mgr. 28. gr. laga um opinber innkaup. Að auki hafi verið óheimilt að skipta upp framkvæmdum eða fyrirhuguðum innkaupum á tilteknu magni vöru og/eða þjónustu til að komast hjá beitingu tilskipunar Evrópusambandsins nr. 18/2004 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga og laga um opinber innkaup, sbr. 3. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar nr. 18/2004. Framangreind háttsemi sé því ólögmæt, hvernig sem á hana sé litið, og valdi því þar af leiðandi að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir sökum hennar.

Um ólögmæta tilboðsöflun. Sú háttsemi iðnaðarráðuneytisins að afla tilboða með lokuðu útboði, þrátt fyrir skýra útboðsskyldu á Evrópska efnahagssvæðinu með opnu tilboði skv. lögum um opinber innkaup, sé einnig ólögmæt. Sú ólögmæta háttsemi hafi valdið stefnanda tjóni og beri stefndi bótaábyrgð á því.

Hin tilgreinda ástæða fyrir afturköllun útboðsins hafi verið sú að fyrir hendi hafi verið lagalegur annmarki. Komi það skýrt fram í svarbréfi iðnaðarráðuneytisins frá 19. ágúst 2010. Liggi þar í raun fyrir viðurkenning á ólögmæti ofangreindrar tilboðsöflunar iðnaðarráðuneytisins. Hvort sem fallist verði á að sú hafi verið hin raunverulega ástæða höfnunarinnar eða ekki, sé einnig ljóst að slíkur skortur á getu til að efna skuldbindingar sínar er bótaskyldur samkvæmt reglum fjármunaréttar.

Í ljósi framangreinds sé ljóst að uppfyllt séu öll skilyrði hinnar almennu skaðabótareglu um saknæma og ólögmæta háttsemi, huglæga afstöðu, orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Það megi telja ljóst að það hafi blasað við og mátt vera iðnaðarráðuneytinu ljóst við töku umdeildra ákvarðana að þær væru til þess fallnar að valda stefnanda tjóni.

Um skaðabótaskylduna. Það sé grundvallarregla að aðila beri að bæta það tjón sem hann valdi af ásetningi eða gáleysi, með ólögmætri háttsemi sinni. Því til viðbótar sé á það bent að kaupandi sé skaðabótaskyldur gagnvart bjóðendum skv. 1. mgr. 101. gr. laga um opinber innkaup vegna brota á ákvæðum laganna. Til að skaðabótaskylda myndist þurfi bjóðandi einungis að sýna fram á að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn í útboðinu. Stefnandi hafi verið einn af fimm þátttakendum í lokuðu útboði og hafi hann því átt raunhæfa möguleika á að vera valinn í útboðinu hefði iðnaðarráðuneytið ekki afturkallað útboðið.

Í ljósi þess að iðnaðarráðuneytið hafi valið stefnanda til að taka þátt í umræddu útboði verði að telja löglíkur fyrir því að stefnandi hafi átt raunhæfa möguleika til að verða fyrir valinu hefði útboðinu lokið með gerð samnings. Þá hafi verið sérstaklega tekið fram af iðnaðarráðuneytinu að tilboð stefnanda hefði verið tilkomumikið og faglega unnið. Ljóst sé að iðnaðarráðuneytið hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup, lögum um framkvæmd útboða og gegn meginreglum samningaréttar, eins og lýst hafi verið að framan. Á þeirri háttsemi beri stefndi ábyrgð á grundvelli 101. gr. laga um opinber innkaup ásamt hinni almennu skaðabótareglu.

Um kröfugerðina. Krafa stefnanda sé um vangildisbætur og miði að því að gera stefnanda eins settan og ef hin ólögmæta öflun tilboða hefði aldrei farið fram. Skaðabótakrafa stefnanda samanstandi því af kostnaði stefnanda við að taka þátt í umræddu útboði iðnaðarráðuneytisins. Tjón stefnanda sé reiknað skv. tímaskráningum starfsmanna stefnanda og miðist við tímagjald skv. gjaldskrá stefnanda og að auki sé þar með talin aðkeypt þjónusta.

Krafa stefnanda að fjárhæð 5.001.175 kr. sundurliðast svo:

Undirbúningur og rannsóknir

-Gagnaöflun við verkefnið                                              15 tímar á 12.400 kr.         186.000 kr.

Stefnumótun 

-Strategíuvinna fyrir herferðina                                      41 tími á 12.400 kr.           508.400 kr.

Hugmyndavinna og textagerð

-Vinna texta- og hugmyndasmiða að verkefninu       90 tímar á 11.600 kr.         1.044.000 kr.

Verkefnastjórnun

-Vinna verkefnastjóra að verkefninu                            24 tímar á 11.600 kr.         278.000 kr.

Grafísk hönnun

-Vinna grafískra hönnuða að verkefninu                     30 tímar á 11.600 kr.         348.000 kr.

Tillögugerð

-Hugmyndum breytt í útfærðar tillögur og vinna

við gerð kynningar (frá öllum starfsmönnum)            64 tímar á 11.600 kr.         742.000 kr.

Hreyfihönnun, myndver

-Vinna í motiondeild við útfærslu TV auglýsing og annarrar

  hreyfigrafík                                                                      67 tímar á 12.400 kr.         830.800 kr.

Aðkeypt myndefni                                                                                                             47.000 kr.

Útlistaður kostnaður sé sá kostnaður sem stefnandi hafi sannanlega orðið fyrir. Á þessar fjárhæðir bætist svo virðisaukaskattur, sem stefnandi hafi þegar staðið skil á.

Kröfur sínar byggir stefnandi á meginreglum útboðsréttar, fjármunaréttar og skaðabótaréttar sem og ákvæðum laga um framkvæmd útboða nr. 65/1993, laga um opinber innkaup nr. 84/2007 og tilskipun Evrópusambandsins nr. 18/2004 sem innleidd hafi verið með lögum nr. 84/2007. Einnig sé byggt á hinni almennu skaðabótareglu. Krafa um almenna vexti byggist á 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og miðast upphafsdagur vaxta við tjónsdag, þ.e. 4. maí 2010. Krafa um dráttarvexti sé byggð á 1. mgr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, og miðast upphafsdagur vaxta við einn mánuð frá þeim degi sem stefnandi sannanlega krafði stefnda um skaðabætur, þ.e. þann 29. ágúst 2010. Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi lítur svo á að heimilt hafi verið samkvæmt lögum að standa að útboðinu hinn 28. apríl 2010 á þann hátt sem gert var. Afstaða stefnda að þessu leyti sé byggð á c-lið 1. mgr. 33. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Í lagagreininni sé kveðið á um að samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar séu heimil „þegar innkaup eru algjörlega nauðsynleg vegna aðkallandi neyðarástands sem stafar af ófyrirsjáanlegum atburðum og ekki er unnt að standa við fresti í almennu útboði,...“. Að mati stefnda hafi þetta neyðarástand verið fyrir hendi vegna afleiðinga eldgoss í Eyjafjallajökli sem þegar í stað hafði geigvænlegar truflanir í för með sér á flug á norðurhveli jarðarinnar, eins og kunnugt sé.

Stefndi byggir á því að ofangreind lagaheimild hafi átt við 28. apríl 2010 þegar leitað hafi verið til auglýsingastofanna fimm með beiðni um grófa útfærslu á hinu tímabundna markaðsátaki. Það hafi legið ljóst fyrir á þessum tíma að ef farið væri í hefðbundið útboðsferli á grundvelli útboðslaga myndi markmið átaksins ekki nást þar sem skaðinn á íslenskum ferðamannaiðnaði væri þegar orðinn til að loknu útboðsferlinu. Til að bregðast við hinu aðkallandi neyðarástandi hafi þurft að hefja átakið eins fljótt og unnt var með birtingu auglýsinga og upplýsinga í erlendum miðlum. Þetta hafi verið ástæðan fyrir því að auglýsingastofurnar fimm hafi eingöngu fengið tæpa þrjá sólarhringa til að vinna að tillögum sínum.

Samkvæmt framansögðu byggir sýknukrafa stefnda á því að í þessu tilviki hafi skilyrðislaus útboðsskylda í skilningi laga um opinber innkaup ekki verið til staðar. Undanþáguákvæði c-liðar 1. mgr. 33. gr. laga nr. 84/2007 hafi hér átt við eins og á stóð. Sé þetta réttur skilningur hjá stefnda séu engar forsendur fyrir bótakröfu stefnanda enda brot á útboðslögum þá ósönnuð.

Fyrir liggur að stefnda lofaði fyrir fram að greiða auglýsingastofunum fimm 75.000 kr. hverri fyrir þær hugmyndir sem óskað hafði verið eftir. Stefnandi hafi samþykkt þessa greiðslutilhögun með því að takast á við verkefnið. Stefnandi muni þegar hafa fengið upphæð þessa greidda og samkvæmt þeim skilmálum sem um verkið giltu voru engar væntingar gefnar um að frekari greiðslur yrðu inntar af hendi til þess sem fengi verkið, hvað þá hinna sem ekki yrði leitað til. Að öðru leyti séu engin augljós rök til stuðnings því að stefnandi eigi rétt á frekari greiðslum tengdum kostnaði við að leggja fram tillögu um útfærslu að umræddu markaðsátaki.

Stefndi bendir á að það var algjörlega undir auglýsingastofunum sjálfum komið hvaða vinnu þeir legðu í þetta tiltekna verkefni. Fyrir fram hafi öllum mátt vera ljóst að tillögum þeirra yrði ekki endilega tekið því samhliða unnu fimm aðilar að tillögum um sama efni. Auk þess hafi tíminn verið mjög naumur og ekki gefið tilefni til mikillar vinnu.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að útboðsskylda hafi verið fyrir hendi og c-liður 1. mgr. 33. laga nr. 84/2007 eigi því ekki við. Þessu hafi stefndi mótmælt. Það sé skoðun stefnda að jafnvel þótt útboðsskylda hafi verið fyrir hendi þá breyti það ekki réttarstöðu stefnanda hvað varði dómkröfur hans. Með öðrum orðum; stefnandi eigi ekki rétt á frekari greiðslum en hann hafi þegar fengið frá framkvæmdanefndinni.

Samkvæmt 74. gr. laga nr. 84/2007 hafi stefndi og samstarfsfélagar hans átt rétt á því að hafna öllum tilboðum formlega. Það hafi þeir gert og tilkynnt stefnanda þar um hinn 4. maí 2010. Þótt ástæða þess að öllum tilboðum hafi verið hafnað hafi verið umdeild í kaupendahópnum þá skapi sú aðstaða stefnanda ekki neina sérstaka réttarstöðu fram yfir aðra tilboðsgjafa í sömu stöðu eins og hann virðist halda fram.

Skaðabótaskylda kaupanda þjónustu byggi á 101. gr. laga nr. 84/2007. Forsenda bótaskyldu sé að lög um opinber innkaup hafi verið brotin á tilboðsgjafa og að það brot hafi haft efnislega þýðingu í innkaupaferlinu og að við viðkomandi fyrirtæki hefði verið samið ef ætluð réttarbrot framkvæmdanefndarinnar hefðu ekki komið til. Með öðrum orðum þurfi krefjandi bóta að sanna að hann hafi átt raunhæfan möguleika á að hafa verið valinn til verkefnisins af kaupanda. Í dómsmáli þessu hafi stefnanda ekki tekist að sanna þetta. Málatilbúnaður hans virðist einungis byggður á væntingum hans sjálfs. Ekkert í gögnum málsins gefi til kynna að tillögu stefnanda hefði verið tekið ef formlegt útboð hefði verið auglýst innan Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við lög um opinber innkaup.

Í samskiptum stefnanda og framkvæmdanefndarinnar hafi engin lög verið brotin á stefnanda að mati stefnda. Í þessu sambandi sé það í raun aukaatriði hvort c-liður 1. mgr. 33. gr. laga nr. 84/2007 eigi við eða ekki. Eigi ákvæðið við þurfi ekki að spyrja frekar að niðurstöðu. Eigi ákvæðið ekki við þurfi stefnandi að sýna fram á að brotið hafi verið á honum og að hann hafi átt raunhæfan möguleika á því að fá umrætt verkefni.

Framkvæmdanefndin hafi hafnað öllum tilboðum 4. maí 2010. Þetta hafi nefndin getað gert samkvæmt útboðslögum og það hafi hún gert á málefnalegum grundvelli. Bótaskylda vegna þessarar ákvörðunar einnar geti því ekki stofnast. Stefnandi virðist telja að framkvæmdanefndin hafi ekki mátt hafna þeim tilboðum sem lögð hafi verið fram á lokadegi tilboðsfrests. Kröfugerðin geri enn fremur ráð fyrir því að framkvæmdanefndin hefði þurft að taka einu tilboði og að því sé virðist einungis tilboði stefnanda. Þessari afstöðu stefnanda sé að sjálfsögðu mótmælt sem óraunhæfri og ósannaðri.

Samkvæmt framansögðu hafi stefnandi ekki sýnt fram á eðlilegan lagagrundvöll bótaskyldu í máli þessu og beri því að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda.

Niðurstaða

Svo sem kunnugt er hófst eldgos í Eyjafjallajökli hinn 14. apríl 2010. Gosið var í gangi í nokkrar vikur, rétt fyrir aðalferðarmannatímann, sem var í júní, júlí og ágúst. Rúmlega einu og hálfu ári áður hafði bankakerfið hér á landi hrunið á nokkrum dögum. Efnahagsástandið var því bágborið þegar eldgosið átti sér stað. Í kjölfar eldgossins og fréttaflutnings erlendis af því fóru afpantanir að streyma inn frá erlendum ferðamönnum og bókanir hættu að berast og var mikilvæg sumarvertíð ferðarþjónustunnar hér á landi í hættu. Stjórnvöld sáu fram á verulegt tap á gjaldeyristekjum, sem mikil þörf var á í ljósi þeirra hamfara sem gengið höfðu yfir landið. Við þessar aðstæður var samþykkt að gera markaðsátak til að efla ferðaþjónustuna og þar með þess freistað að fá gjaldeyri til landsins. Að því verkefni komu Icelandair, Reykjavíkurborg, Iceland Express, Útflutningsráð, Samtök ferðaþjónustunnar auk stefnda. Til átaksins voru lagðar í heild 700 milljónir króna, þar af 350 milljónir frá stefnda og átti átakið að standa yfir í maí og júní sem eru mikilvægasti bókunartími sumarleyfisferða til Íslands. Sá hópur er sá um markaðsátak þetta, það er svokölluð framkvæmdanefnd, leitaði til fimm auglýsingastofa eftir tillögum að útfærslu á átakinu og var stefnandi einn þeirra. Í kynningu markaðsástaksins, sem sent var stefnanda hinn 28. apríl 2010, kom skýrt fram að skila ætti tillögum þremur sólarhringum seinna, eða 1. maí 2010 kl. 14:00 og greiddar yrðu 75.000 kr. fyrir hverja tillögu. Dómurinn telur að líta verði á þessa beiðni framkvæmdanefndarinnar til stefnanda og hinna auglýsingastofanna sem forkönnun á því hvernig best væri að haga markaðsátaki til að bregðast við annars fyrirsjáanlegu tapi í ferðaþjónustunni. Hér var hvorki um opið né lokað útboð að ræða. Hefði framkvæmdanefndin talið að einhver tillagan hefði komið til greina hefði forkönnunin getað leitt af sér samningskaup. Því eiga lögin um opinber innkaup nr. 84/2007 ekki við í máli þessu.

Ótvírætt er að framkvæmdanefndin gat hafnað öllum tillögunum. Hins vegar leiðir það af reglum stjórnsýsluréttarins að höfnunin varð að byggjast á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum.

Í tölvupósti frá stefnda hinn 4. maí 2010 til stefnanda er honum þakkað fyrir fagmannlegar og áhrifamiklar hugmyndir sem fram hafi komið af hans hálfu á fundi með framkvæmdanefndinni. Þá er tekið fram að í ljósi reglna um opinber innkaup hafi ekki reynst unnt að standa með þeim hætti að ráðstöfun þeirra peninga er safnast höfðu eins og framkvæmdanefndin hafi hugsað sér. Síðar í tölvupóstinum er kynnt sú breyting sem nefndin hafi gert með því að tvískipta verkefninu. Að lokum er tilkynnt að ferðarþjónustufyrirtækin hafi valið Íslensku auglýsingastofuna sem meginframleiðanda og Fíton til þess að efna til þjóðarátaks á Netinu.

Í framlögðum minnispunktum framkvæmdanefndarinnar, vegna tímabilsins 23. apríl til 7. maí 2010, segir að hinn 1. maí 2010 milli kl. 14 og 17 hafi kynning auglýsingastofanna átt sér stað. Daginn eftir hafi verið farið yfir verkefnið og ákveðið að velja tvær stofur án þess að þær væru nafngreindar. Mánudaginn 3. maí 2010 hafi Ríkiskaup gert athugasemdir og verkefninu þá verið skipt upp og breytt. Af þessum málavöxtum verður ráðið að framkvæmdanefndin hafi ekki lokið því að fara yfir tillögur þær sem henni bárust, bera þær saman og komast að niðurstöðu og tilkynna hlutaðeigendum, áður en verkefninu var tvískipt, en stefnandi átti kröfu til þess að hún færi yfir tillögur hans og mæti þær í samanburði við hinar tillögurnar. Því er fallist á það að um annmarka á málsmeðferð hjá framkvæmdanefndinni hafi verið að ræða.

Þá er að líta til þess hvort þessi annmarki á málsmeðferð framkvæmdanefndarinnar geti leitt til bótaábyrgðar stefnda. Eins og að framan greinir var stefnanda boðið að taka þátt í átakinu, senda inn tillögur sínar og þiggja að launum 75.000 kr. fyrir þær. Annmarki á málsmeðferðinni leiðir ekki til þess að stefnandi fái kröfu sína greidda þegar hann hefur samþykkt fyrir fram að þiggja ákveðna fjárhæð fyrir hana. Þá er á það að líta að þótt tillaga stefnanda hafi verið fagmannleg og hugmyndin áhrifamikil, eins og stefndi tilgreinir í tölvupósti sínum, þá segir það ekkert um að hinar tillögurnar hafi ekki verið það líka. Stefnandi hefur ekki á neinn hátt sýnt fram á að hann hafi átt raunhæfa möguleika á því að verða valinn af stefnda umfram aðra þátttakendur.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir þykir verða að sýkna stefnda að öllum kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, J&L ehf.

Málskostnaður fellur niður.