Print

Mál nr. 390/1999

Lykilorð
  • Kærumál
  • Samkeppni
  • Stjórnarskrá
  • Húsleit
  • Hald
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti

___

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 30. september 1999.

Nr. 390/1999.

Samkeppnisstofnun

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Banönum ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson  hrl.)

Kærumál. Samkeppni. Stjórnarskrá. Húsleit. Hald. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Samkeppnisstofnun gerði leit í húsakynnum B að fengnum úrskurði héraðsdómara og lagði við leitina hald á ýmis gögn og muni. Talið var, að um kæru á úrskurði héraðsdómara færi samkvæmt almennum reglum laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þar sem leit sú, sem heimiluð hafði verið með úrskurðinum, hafði þegar farið fram þegar B kærði úrskurðinn brast heimild til kærunnar, að því er varðaði heimild til leitarinnar. Þar sem B hafði ekki krafist úrskurðar héraðsdómara um lögmæti haldlagningar Samkeppnistofnun var kröfum hans um skil haldlagðra muna einnig vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti og þar með málinu í heild.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. september 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 1999, þar sem sóknaraðila var heimilað að gera leit og leggja hald á muni í húsakynnum varnaraðila að Súðavogi 2e í Reykjavík. Um kæruheimild vísar varnaraðili til 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sóknaraðila að skila aftur þeim gögnum og hlutum, sem hald var lagt á 24. september 1999. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Hann krefst kærumálskostnaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 getur Samkeppnisstofnun við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð fyrirtækis og lagt hald á gögn, þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögunum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal við framkvæmd slíkra aðgerða fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum. Með hliðsjón af 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, verður að skýra síðarnefnda ákvæðið á þá leið að leit samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu skuli heimiluð með úrskurði dómara samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 19/1991 nema sá, sem í hlut eigi, samþykki hana. Af þessu leiðir einnig að um kæru úrskurðar héraðsdóms um þetta efni fer eftir almennum reglum um kæru úrskurða og ákvarðana samkvæmt lögum nr. 19/1991, sbr. XVII. kafla laganna.

Samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 verður úrskurður dómara ekki kærður til Hæstaréttar ef athöfn, sem kveðið er á um í úrskurðinum, hefur þegar farið fram eða ástand, sem leitt hefur af ákvæðum úrskurðarins, er þegar um garð gengið. Samkvæmt gögnum málsins var leitinni, sem sóknaraðila var heimiluð með hinum kærða úrskurði, lokið þegar sóknaraðili kærði hann. Brestur þannig heimild til kæru úrskurðarins að því er varðar heimild til leitarinnar.

Samkvæmt ákvæðum X. kafla laga nr. 19/1991 má að meginreglu leggja hald á muni við leit án þess að áður hafi verið fenginn úrskurður dómara um heimild til haldlagningar. Þessu til samræmis verður 40. gr. laga nr. 8/1993 ekki skýrð á þá leið að sóknaraðila hafi verið þörf á sérstökum úrskurði dómara til að leggja hald á muni við leit hjá varnaraðila, enda nýtur sá síðarnefndi heimildar til að bera lögmæti haldlagningar undir héraðsdómara samkvæmt 75. gr. og 79. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 8/1993. Verður því að líta svo á að ákvæði hins kærða úrskurðar um heimild til haldlagningar, án nánari tilgreiningar einstakra muna, hafi eingöngu falið í sér áréttingu á almennri heimild sóknaraðila í þessum efnum samkvæmt ákvæðum  40. gr. laga nr. 8/1993. Varnaraðili hefur ekki krafist úrskurðar héraðsdómara um lögmæti haldlagningarinnar 24. september 1999 samkvæmt framangreindum heimildum. Verður kröfum hans um skil á haldlögðum munum því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Varnaraðili, Bananar ehf., greiði sóknaraðila, Samkeppnisstofnun, 50.000 krónur í kærumálskostnað.