Print

Mál nr. 97/1999

Lykilorð
  • Kærumál
  • Aðför
  • Aðfararfrestur
  • Stjórnarskrá

Miðvikudaginn 17

Miðvikudaginn 17. mars 1999.

Nr. 97/1999.

Gísli Guðmundsson

(Pétur Þór Sigurðsson hrl.)

gegn

Kristjáni Sveinbjörnssyni

(Klemenz Eggertsson hdl.)

Kærumál. Aðför. Aðfararfrestur. Stjórnarskrá.

K krafðist aðfarar hjá G á grundvelli dóms sem kveðinn hafði verið upp í gildistíð laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði, en samkvæmt dómsorðinu skyldi G greiða K tiltekna fjárhæð innan 15 daga frá birtingu dómsins að viðlagðri aðför. Við aðför féllst sýslumaður á þau mótmæli G að dómurinn væri ekki aðfararhæfur þar sem hann hefði aldrei verið birtur fyrir G. Í málinu, þar sem þess var krafist að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi, var ekki á það fallist með G, að 2. gr. stjórnarskrárinnar stæði því í vegi að meta bæri réttaráhrif dómsins í samræmi við gildandi ákvæði yngri laga. Færi um aðfararfrest fyrir kröfu varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 1. mgr. 102. gr. sömu laga, og væri birting dómsins fyrir G ekki skilyrði fyrir aðfararhæfi hans. Var niðurstaða héraðsdóms um að fella úr gildi ákvörðun sýslumanns því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 1999, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 25. nóvember 1998 um að hafna kröfu varnaraðila um fjárnám hjá sóknaraðila og lagt fyrir sýslumann að láta gerðina fara fram. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun sýslumanns 25. nóvember 1998 um synjun aðfarargerðinnar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

Ekki verður fallist á með sóknaraðila að 2. gr. stjórnarskrárinnar standi því í vegi að meta beri réttaráhrif dóms, sem kveðinn var upp í gildistíð laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði, í samræmi við þau ákvæði yngri laga, sem nú gilda. Samkvæmt þessu fer um aðfararfrest fyrir kröfu varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 1. mgr. 102. gr. sömu laga. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður hann staðfestur.

Verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Gísli Guðmundsson, greiði varnaraðila, Kristjáni Sveinbjörnssyni, 50.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 1999.

Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 5. febrúar sl.

Sóknaraðili er Kristján Sveinbjörnsson, Miðskógum 6, Bessastaðahreppi, kt. 190658-3179, og krefst hann þess að hrundið verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 25. nóvember sl. um að synja um framkvæmd aðfarar hjá varnaraðila, Gísla Guðmundssyni, Marklandi 8, Reykjavík, kt. 191153-4729, fyrir kröfu að fjárhæð 726.777 krónur og lagt fyrir sýslumann að framkvæma gerðina. Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili, framangreindur Gísli, krefst þess að framangreind ákvörðun sýslumanns verði staðfest og þá er einnig krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málavextir eru þeir að sóknaraðili fór þess á leit við sýslumanninn í Reykjavík með beiðni 21. október sl. að fjárnám yrði gert til tryggingar skuld varnaraðila, sem sóknaraðili kvað nema framangreindri fjárhæð. Aðfararheimildin var dómur Bæjarþings Kópavogs frá 30. desember 1991. Samkvæmt dómnum var varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila tiltekna fjárhæð auk vaxta og málskostnaðar, „allt innan 15 daga frá birtingu dóms þessa að viðlagðri aðför að lögum“.

Gerðin var tekin fyrir hjá sýslumannsembættinu 23. nóvember sl. og var þá framgangi hennar mótmælt af hálfu varnaraðila á þeirri forsendu að dómurinn hefði aldrei verið birtur. Gerðinni var frestað til 25. sama mánaðar en þann dag tók sýslumaður þá ákvörðun að hún færi ekki fram þar eð dómurinn hefði ekki verið birtur eins og áskilið væri í dómsorði. Því var þá lýst yfir af hálfu sóknaraðila að þessi ákvörðun yrði borin undir héraðsdóm og var það gert með bréfi 26. nóvember sl. og var málið þingfest 18. desember sl.

Sóknaraðili byggir á því að reglur um birtingu dóms, sem skilyrði aðfarar, séu fallnar úr gildi með lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og hafi því ekki verið þörf á að birta dóminn. Samkvæmt 4. mgr. 115. gr. byrji frestir að líða við dómsuppkvaðningu og skipti engu hvort aðilar séu viðstaddir eða ekki. Þetta sé í samræmi við 1. mgr. 5. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 þar sem segir að upphaf aðfararfrests miðist við uppkvaðningu dóms og sé engra sérstakra birtingaraðgerða þörf. Engu máli skipti þótt í dómsorði sé birting gerð að skilyrði og heldur ekki að dómurinn hafi verið kveðinn upp í tíð eldri laga, sem áskildu birtingu áður en aðför mátti fara fram. Þau lög hafi verið numin úr gildi og þar með sé birting dóms ekki skilyrði fyrir framkvæmd aðfarar.

Varnaraðili byggir á því að í dóminum sé kveðið á um að birta skuli dóminn áður en aðför geti farið fram. Það sé í samræmi við ákvæði laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði, sem giltu þegar dómurinn var kveðinn upp. Dómurinn hafi ekki verið birtur og því geti aðför samkvæmt honum ekki farið fram. Lög sem sett séu eftir að dómar gangi geti ekki upphafið það sem í dómsorði standi og berið því að staðfesta ákvörðun sýslumanns.

Aðfararheimildin, sem um er deilt í málinu, er dómur uppkveðinn 30. desember 1991 í gildistíð laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði. Samkvæmt 3. mgr. 194. gr. þeirra skyldi sá, er byggja vildi rétt sinn á dóminum eða láta fresti líða, birta dóminn með sama hætti og stefnu ef aðili hefði ekki verið við dómsuppsögu staddur. Þá var kveðið á um það í 7. gr. laga um aðför nr. 19/1887 að aðför megi gera eftir dómi þegar liðinn er fullnægingarfrestur sá, sem tiltekinn sé í dóminum. Þessi lög féllu úr gildi með gildistöku aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. 1. tl. 2. mgr. 99. gr. þeirra.

Í 1. mgr. 102. gr. núgildandi aðfararlaga segir að aðför megi gera samkvæmt fyrirmælum laga þessara til fullnustu kröfu þótt hún hafi ekki verið aðfararhæf samkvæmt fyrirmælum eldri laga og þótt gjalddagi hennar og efndatími hafi verið fyrir 1. júlí 1992. Í 1. mgr. 5. gr. laganna segir að aðför megi gera eftir dómi eða úrskurði, þegar liðnir séu fimmtán dagar frá uppkvaðningu hans, ef annar aðfararfrestur er ekki tiltekinn. Samkvæmt 4. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að frestir samkvæmt dómi eða úrskurði byrji að líða þegar við uppkvaðningu hans án tillits til þess hvort aðilar séu þar staddir.

Með vísan til framanritaðs var ekki þörf á því fyrir sóknaraðila, eftir gildistöku núgildandi aðfararlaga, að láta birta dóminn á hendur varnaraðila áður en hann beiddist aðfarar gegn honum. Ákvörðun sýslumanns verður þar af leiðandi felld úr gildi og lagt fyrir hann að láta gerðina fara fram. Rétt þykir að varnaraðili greiði sóknaraðila 30.000 krónur í málskostnað.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 25. nóvember 1998 um að hafna því að láta fara fram aðför hjá varnaraðila, Gísla Guðmundssyni, að kröfu sóknaraðila, Kristjáns Sveinbjörnssonar, er felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að láta aðförina fara fram.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 30.000 krónur í málskostnað.