Print

Mál nr. 338/1998

Lykilorð
  • Rangur framburður
  • Hlutdeild
  • Áfrýjun


Fimmtudaginn 28. janúar 1999.

Nr. 338/1998.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Ara Þorsteinssyni og

(Kristján Stefánson hrl.)

Franklín Kristni Steiner

(Jón Magnússon hrl.)

Rangur framburður. Hlutdeild. Áfrýjun.

A var ákærður fyrir að hafa borið rangt fyrir dómi í máli ákæruvaldsins gegn F. Talið var að vitnaskylda hefði verið kynnt fyrir A með fullnægjandi hætti er hann gaf skýrsluna fyrir dómnum. Var talið sannað að A hefði brotið gegn 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Ekki var talið skipta máli um refsinæmi verknaðarins að hann hafði ekki leitt til rangrar úrlausnar í viðkomandi máli. Þá var það eigi talið hafa áhrif á niðurstöðu málsins að A tók með gerðum sínum á sig sakir annars manns. Var A dæmdur til fangelsisrefsingar.

F var ákærður fyrir hlutdeild með því að hafa hvatt A til hins ranga framburðar. Ekki þótti alveg nægilega sannað, gegn eindreginni neitun beggja ákærðu, að háttsemi F hefði verið með þeim hætti sem um ræðir í 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Var F því sýknaður. Ekki þóttu efni til að vísa málinu frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvalds 3. júlí 1998. Hann krefst þess að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og þeim ákveðin refsing. Þess er jafnframt krafist að ákærðu verði gert að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og kostnað við áfrýjun þess.

Báðir ákærðu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

I.

Af hálfu ákærða Franklíns Kristins Steiner hefur því verið hreyft að vísa beri málinu frá Hæstarétti af sjálfsdáðum. Er í því sambandi bent á, að héraðsdómur hafi verið kveðinn upp 15. júní 1998 og áfrýjunarstefna dagsett 3. júlí sama árs og birt ákærða 8. sama mánaðar. Frumrit hennar hafi hins vegar ekki borist Hæstarétti fyrr en í fyrsta lagi 26. ágúst 1998, svo sem fram komi í svari réttarins þann dag við fyrirspurn verjanda ákærða um það, hvort áfrýjunarstefna hafi verið móttekin. Telur ákærði að skýra beri 152. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1994, á þann veg, að bæði þurfi að birta ákærða stefnu og koma frumriti hennar til Hæstaréttar innan þess átta vikna frests, sem þar er kveðið á um. Verði hins vegar ekki talið að hún þurfi að berast réttinum innan þessara tímamarka sé ljóst, að í máli þessu hafi orðið svo verulegur dráttur á að koma frumriti áfrýjunarstefnu til Hæstaréttar að það hljóti að leiða til frávísunar málsins. Því til stuðnings er vísað til d. liðar 2. mgr. og 3. mgr. 153. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1994.

Frestur ákæruvalds samkvæmt fyrri málslið 152. gr. laga nr. 19/1991 til að áfrýja héraðsdómi miðast við að gefa verði út áfrýjunarstefnu innan hans. Frumrit áfrýjunarstefnu ber með sér að hún hafi ekki aðeins verið gefin út, heldur einnig birt báðum ákærðu innan hins lögmælta frests. Sú skýring að stefnu þurfi að auki að koma til Hæstaréttar innan sömu tímamarka á sér ekki stoð í orðum ákvæðisins, lögskýringargögnum eða venju. Verður því ekki fallist á þessa lögskýringu ákærða.

Leggja verður til grundvallar, að nokkuð hafi dregist að áfrýjunarstefna bærist Hæstarétti eftir útgáfu hennar og birtingu. Ekki er þó fram komið að sá dráttur hafi verið svo verulegur að nokkru hafi skipt við rekstur málsins, sem hefur verið með eðlilegum hraða. Að þessu virtu eru ekki efni til að vísa málinu frá Hæstarétti.

II.

Ákærði Ari Þorsteinsson er í máli þessu sóttur til saka fyrir að hafa borið rangt fyrir dómi 9. desember 1996, er hann gaf sem vitni skýrslu í máli ákæruvaldsins gegn meðákærða Franklín. Lýsti vitnið því þá yfir að það hafi átt fíkniefni, sem fundust á og við heimili ákærða Franklíns, en ekki sá síðastnefndi. Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar ákærði Ari til bókunar héraðsdómarans í upphafi þinghalds áðurnefndan dag. Kemur fram í skriflegu endurriti úr þinghaldinu, að áður en vitnið gaf skýrslu sína, sem var hljóðrituð, hefur héraðsdómarinn bókað: „Vitnið er áminnt um sannsögli en því er kunn vitnaábyrgðin.“ Telur ákærði, að dómarinn hafi ekki gætt sem skyldi ákvæða 1. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 um að brýna fyrir sér vitnaskyldu og ábyrgð sína sem vitnis með þeim hætti, sem honum hafi borið að gera. Sé ekkert fram komið um að sér hafi verið „kunn vitnaábyrgðin“, svo sem dómarinn hafi bókað, en þar segi ekki að honum hafi verið kunngerð vitnaskyldan. Lagaákvæðið felli skýrar skyldur á dómara í þessum efnum. Í ljósi þess hve dómarinn í hinu fyrra máli hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína sé ókleift að sakfella sig fyrir að hafa vísvitandi brotið gegn skyldum sínum sem vitni.

Er ákærði hafði í áðurnefndu þinghaldi skýrt frá með þeim hætti, sem ákært er fyrir, lýsti héraðsdómarinn því yfir að hann hafi fyrr í þinghaldinu kynnt fyrir vitninu hvaða viðurlög lægju við því að skýra rangt fyrir dómi. Spurði dómarinn því næst hvort vitnið héldi engu að síður fast við framburð sinn fyrr í þinghaldinu. Svar vitnisins var jákvætt og að það væri með framburðinum að segja sannleikann.

Bókun dómarans í upphafi þinghalds er ekki skýr um það, hvað þá var sagt við vitnið um skyldu þess fyrir dómi. Það, sem síðar kom fram í þinghaldinu af hendi dómarans, varpar hins vegar ljósi á það og afstaða vitnisins í tilefni þeirrar brýningar dómarans var afdráttarlaus um að það stæði við fyrri orð sín. Ákærða var þegar í upphafi þinghaldsins gert skýrlega ljóst að hann kæmi fyrir dóminn sem vitni. Það var ekki fyrr en nokkru eftir að ákærði hafði í sama þinghaldi ítrekað framburð sinn að dómarinn kynnti honum stöðu hans sem grunaðs manns og gætti þá jafnframt ákvæða 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991.

Þegar allt framangreint er virt verður ekki fallist á að sýkna beri ákærða Ara á þeim grundvelli að vitnaskylda hafi ekki verið kynnt honum í umrætt sinn.

III.

Með áðurnefndum dómi héraðsdóms í máli ákæruvaldsins gegn Franklín Kristni Steiner var komist að þeirri niðurstöðu að framburður Ara Þorsteinssonar stæðist ekki og var hann metinn sem markleysa. Var tekið fram, að við sönnunarmat í málinu yrði við það miðað að framburður þessa vitnis hefði ekki komið til. Með dómi Hæstaréttar í dómasafni 1997, bls. 3480, var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða Franklíns. Leggja verður til grundvallar dómi nú þá niðurstöðu í hinu fyrra máli að framburður ákærða Ara hafi verið rangur. Er því eingöngu til úrlausnar í þessu máli hvort hann hafi bakað sér refsingu með þeirri háttsemi sinni.

Ákærði kom fyrir dóm í fyrra málinu sem vitni, þar sem hann bar rangt af ásetningi. Skiptir ekki máli um refsinæmi gerða hans, þótt þær hafi ekki leitt til rangrar úrlausnar í því máli. Verða gerðir hans heldur ekki refsilausar þótt hann hafi tekið með þeim á sig sakir annars manns. Er sannað, að ákærði Ari hafi brotið gegn 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 12. gr. laga nr. 101/1976, þegar hann bar fyrir Héraðsdómi Reykjaness 9. desember 1996 með þeim hætti sem greinir í ákæru. Hann hefur ekki áður gerst sekur um háttsemi, sem haft getur áhrif á ákvörðun refsingar nú. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Skal ákærði Ari jafnframt greiða hluta sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar segir í dómsorði.

IV.

Ákæra í málinu gegn ákærða Franklín er á því reist, að hann hafi hvatt ákærða Ara til hins ranga framburðar og þannig tekið þátt í broti hins síðarnefnda. Gegn eindreginni neitun beggja ákærðu verður ekki fallist á að ákæruvaldinu hafi tekist alveg nægilega að sanna að háttsemi ákærða Franklíns hafi verið með þeim hætti, sem um ræðir í 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til 45. gr. laga nr. 19/1991 verður því ekki komist hjá að sýkna ákærða Franklín af kröfum ákæruvalds í málinu. Verður hluti sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans á báðum dómstigum lagður á ríkissjóð, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ari Þorsteinsson, sæti fangelsi í 3 mánuði. Hann greiði jafnframt helming alls sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, sem hann skal greiða með samtals 80.000 krónum á báðum dómstigum. Hann greiði ennfremur málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 160.000 krónur.

Ákærði, Franklín Kristinn Steiner, er sýkn af kröfum ákæruvalds í málinu. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans í héraði og fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, greiðist úr ríkissjóði, samtals 160.000 krónur.

                                                                                       

Dómur Héraðdsóms Reykjaness 15. júní 1998.

Ár 1998, mánudaginn 15. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Brekkugötu 2, Hafnarfirði af Gunnari Aðalsteinssyni, héraðsdómara kveðinn upp dómur í málinu nr. S-106/1998: Ákæruvaldið gegn Ara Þorsteinssyni og Franklín Kristni Steiner.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. maí sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 24. mars 1998 á hendur „ Ara Þorsteinssyni, kt. 151166-5989, Reykjavíkurvegi 36, Hafnarfirði og Franklín Kristni Steiner, kt. 140247-5459, Austurgötu 27b, Hafnarfirði.

Gegn ákærða Ara fyrir rangan framburð fyrir rétti og ákærða Franklín Kristni fyrir hlutdeild í því broti með því að hafa, mánudaginn 9. desember 1996, ákærði Ari, er hann kom fyrir Héraðsdóm Reykjaness sem vitni í héraðsdómsmálinu nr. S-418/1996: Ákæruvaldið gegn Franklín Kristni Steiner, fyrir fortölur og hvatningu meðákærða Franklíns Kristins, ranglega borið að hann (Ari) hefði verið eigandi að fíkniefnum þeim, sem fundust í vörslum Franklíns Kristins og urðu tilefni fyrrgreinds héraðsdómsmáls með eftirgreindum framburði: „... og áður en hann fór að heiman þá lét ég hann hafa þetta hass sem hann var með í fórum sínum þessi 50 grömm eða þar um bil. Og svo fór hann bara og ég fór upp ég var ekki með lykla þarna og var heimagangur þarna, ég fór upp á efri hæð hússins og var með eitthvað af amfetamíni sem hann vissi ekkert um, ég stakk því inní herbergi þarna, það var rennandi blautt ég ætlaði að þurrka það og setti það ofaná ofn í herberginu, svo fór ég, svo í leiðinni fór ég niður í kjallara og þar átti ég meira af þessu ég stakk þessu öllu ofan í poka og fór útí garð hjá honum og henti því þar, undir eitthvað drasl, og svo fór ég og ætlaði að koma daginn eftir að sækja þetta.

Þykir brot ákærða Ara varða við 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. lög nr. 101, 1976, en brot ákærða Franklíns Kristins við sama ákvæði sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist, að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“

Við aðalmeðferð krafðist saksóknari auk þess saksóknarlauna. Ákærðu krefjast báðir sýknu og að málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði.

Mál þetta var dómtekið 11. maí 1998 en endurupptekið 29. s.m. og dómtekið á ný.

I.

Eins og í ákæru greinir kom ákærði Ari fyrir dóm sem vitni í máli ákæruvaldsins gegn Franklín Kristni Steiner. Í því máli var ákærði Franklín m.a. dæmdur fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni og hlaut hann 20 mánaða fangelsi 4. desember 1997 í Hæstarétti. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 1997 í málinu nr. S-418/1996 segir um atvik þau sem hér eru til umfjöllunar, að við húsleit á heimili ákærða Franklíns hafi fundist fíkniefni. Síðan segir í dómi:

,,Hann kannaðist ekki við að fíkniefnin, sem fundust við húsleit á heimili hans að Austurgötu 27B, Hafnarfirði og á lóð hússins 13. apríl 1996, svo sem greint er í II. kafla ákæru dskj. nr. 2, hafi verið í vörslum hans, þ.e. 252,5 g af amfetamíni, 75,8 g af hassi og 6,7 g af marihuana. Ákærður hafði verið viðstaddur er húsleitin fór fram og verið mjög undrandi á því að efnin skyldu finnast hjá honum og ekki hafa haft hugmynd um, að þau væru þarna. Hann hafði ekki fylgst með er efnið fannst út á lóðinni né heldur ekki verið kominn í herbergið inn af stofunni, þegar lögreglan fann þar fíkniefni og hafi verið komið með þau fram. Hann kvað þetta lítið herbergi, sem notað hafi verið undir drasl og enginn sérstakur á heimilinu haft það til umráða, en í heimili hafi verið hann, kona hans og barn þeirra. Herbergið hafi verið ólæst og opið og allir getað gengið þar um, en þar hafi aðallega til greina komið heimilisfólkið og Ari Þorsteinsson, sem hafi verið að vinna hjá honum við að   brjóta upp gólfið í kjallaranum og hafi haft lykil að húsinu. Ákærður kvað bara þau Önnu Katrínu nota svefnherbergið og því væri ekki öðrum til að dreifa sem komið hafi fyrir hassefni í lampa þar. Þetta hafi verið eldgamalt efni, sem hann gæti hafa komið þarna fyrir án þess að muna eftir því, og neitaði hann ekki að hafa verið með það í vörslum sínum. Ákærður neitaði að hafa komið fyrir í herberginu inn af stofunni því amfetamíni, sem þar fannst og ekki vitað af því, fyrr en það fannst þar. Hann kvaðst halda sig við það eins og hjá lögreglu að hann hafi tekið á sig að eiga þessi efni og þau sem fundust út í garði, en viðurkenndi ekki að eiga þau. Hann er inntur eftir því, hvers vegna hann hafi tekið á sig að eiga efnin eins og hann hafi orðað það hjá lögreglu. Hann kvað það hafa komið flatt upp á sig að efnin skyldu vera á heimili hans og honum þá dottið margt í hug, svo sem að kona hans væri að gera einhverja vitleysu eða jafnvel að sitja uppi með efnin fyrir einhvern annan. Hann hafi viljað komast að því, hvað hefði skeð og hvernig stæði á þessum fíkniefnum þarna og ef konan hans hefði gert þetta, þá vildi hann ekki blanda henni neitt í þetta. Þá hefði og ráðið nokkru, að meiri líkur hafi verið til þess, að hann slyppi við gæsluvarðhald, með því að taka á sig að eiga efnin heldur en hitt. Aðspurður sagði hann það nú ótvírætt að hann ætti ekki efnin og hafi ekki átt þau. Honum kvaðst nú vera kunnugt um hver ætti efnin og væri það Ari Þorsteinsson. Aðspurður hvernig hann vissi það að Ari ætti efnin, sagði hann, að Ari hefði komið til hans og viðurkennt það fyrir honum. Atvik að því hafi verið þau, að Ari hafi verið staddur á verkstæðinu hjá Viðari bróður sínum, þegar boðunarmaður hjá sýslumanni hafi komið þangað og verið að spyrja Viðar, hvort hann vissi hvar væri hægt að ná í ákærða, sem hann hefði ekki vitað þá stundina. Boðunarmaðurinn hafi síðar hitt á ákærða og honum verið birt ákæra í málinu. Síðar hafi svo Ari komið til hans og farið að spyrja um hvað boðunarmaðurinn hafi viljað honum. Ákærður kvaðst hafa sagt Ara það. Hann hafi sagt já og verið hugsi og svo komið til hans síðar og sagt honum, að hann ætti sök á þessu. Er ákærður hefði gengið frekar á hann með þetta, hafi hann viðurkennt það fyrir honum að eiga efnin og hafa komið þeim fyrir. Hann kvað Ara engar skýringar hafa gefið á þessu, en skýri þetta er hann komi fyrir dóminn. Aðspurður kvaðst ákærður engan þátt eiga í því, að Ari taki þetta á sig, heldur ráði þar samviska Ara.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 1997 segir eftirfarandi um þátt ákærða Ara:

,,Í lok þinghaldsins 9. desember s.l. kom fyrir dóminn að ósk ákærða, sem vitni Ari Þorsteinsson, atvinnulaus, Reykjavíkurvegi 36, Hafnarfirði, kt. 151166-5989. Vitnið lýsti því yfir að það hafi verið statt á heimili ákærða kvöldið sem hann var handtekinn og hafi það verið að vinna við breytingar á kjallara hússins. Vitnið kvaðst hafa látið ákærða hafa um 50 g. af hassi sem það hafi verið með áður en ákærður fór að heiman þetta kvöld. Vitnið kvaðst hafa verið heimagangur þarna og haft lykla að húsinu. Eftir að ákærður var farinn kvaðst það hafa farið upp á efri hæð hússins með eitthvað af amfetamíni sem var rennandi blautt og það ætlaði að þurrka og sett það ofan á ofn inni í herbergi á efri hæð hússins. Það kvaðst svo hafa farið, en í leiðinni farið aftur niður í kjallara, þar sem það hafi átt meira af fíkniefnum og það stungið því öllu ofan í poka og svo farið út í garð hjá ákærða og hent því þar undir eitthvað drasl og ætlað svo að sækja þetta daginn eftir. Vitnið kvaðst ekki hafa verið fenginn til að gefa þennan framburð, en kvaðst hafa orðið að segja frá þessu, þar sem allt hafi verið komið í upplausn heima hjá ákærða út af þessu og hann kominn í ljót mál. Vitninu var bent á að það yrði að spyrja það sem grunað um refsivert athæfi ef það ætlaði að halda sig við þennan framburð. Vitnið skýrði aðdraganda þess, að það gæfi þessa skýrslu nú mjög á sama veg og komið hefur fram hjá ákærða hér að framan. Aðspurt af hverju það hafi ekki sagt lögreglunni strax frá þessu, sagði vitnið, að það hafi ekki verið fyrr en það hafi séð hve alvarlegar afleiðingar þetta hafi ætlað að hafa fyrir ákærða, að það hafi talið sig verða að skýra frá þessu. Vitnið kvaðst hafa þekkt ákærða í u.þ.b. 10 ár. Það kvaðst hafa verið búið að vinna lengi við þessar viðgerðir í kjallaranum, þ.e. dýpka helminginn af honum, þar sem bara er hálf lofthæð og væri kjallarinn enn í sama ásigkomulagi, og þegar þetta mál kom upp og hafi ekkert verið gert eftir það. Vitnið kvaðst ekki hafa borið það undir ákærða né konu hans, að hann hafi geymt þessi efni heima hjá honum. Vitnið var spurt hvort það væri háð ákærða, væri á launum hjá honum og svaraði það því til að það væri ekki að öðru leyti en því, að hann borgaði því laun fyrir vinnu þess í húsinu, en að öðru leyti væri það á atvinnuleysisbótum, en ekki gat það upplýst hvað ákærði hefði greitt til þess í laun árið 1996. Vitnið kvað það ekki rétt að það búi hjá ákærða eða hafi dvalið þar langtímum saman. Það kvaðst hafa lögheimili að Reykjavíkurvegi 36, Hafnarfirði, og dvelja að Hverfisgötu 36, Reykjavík, þar sem það svæfi. Það kvaðst ekki vera fíkniefnaneytandi, en einhverntíma hafa komið við sögu fíkniefnalögreglunnar.

Vitninu var enn bent á að líta yrði á hann sem grunaðan og réttarstaða hans sem grunaðs manns kynnt honum sbr. 3. mgr. 32. gr. oml.   Það hélt enn fast við að eiga efnin og hafa komið þeim fyrir á heimili ákærða. Ákveðið var þá að fresta aðalmeðferð málsins meðan lögreglurannsókn færi fram á ætluðu broti vitnisins. Með bréfi Ríkissaksóknara dags. 12. desember 1996, var málinu um ætlað brot Ara Þorsteinssonar vísað til Rannsóknarlögreglu ríkisins í því skyni að upplýst yrði um sannleiksgildi framburðar Ara. Sannreyndur yrði framburður hans fyrir dóminum, um að hann væri sekur um hin umræddu fíkniefnabrot, en jafnframt höfð hliðsjón af því, að Ari kunni með framburði sínum að hafa gerst brotlegur við 142. gr. almennra hegningarlaga. Rannsókninni lauk með því að 16. janúar s.l. sendi R.L.R. gögn um rannsóknina til Ríkissaksóknara og með bréfi dags. 30. janúar s.l. sendi hann réttinum afrit þessara rannsóknargagna og tilkynnti jafnframt að framburður hefði ekki í för með sér breytingar á afstöðu ákæruvaldsins í málinu og stæði ákæran í málinu óhögguð eftir sem áður. Þá var tekið fram, að frestað væri af hálfu ákæruvaldsins ákvörðun vegna ætlaðs brots Ara gegn 142. gr. almennra hegningarlaga. Afrit framangreindra rannsóknargagna voru lögð fram í réttinum 14. febrúar s.l. og var þá ákveðið að halda aðalmeðferðina með skýrslutökum eftir því sem rannsóknin gaf tilefni til 27. febrúar s.l. Þá varð enn að fresta málinu vegna veikindaforfalla ákærða og Ara Þorsteinssonar og enn síðar tafði það lok aðalmeðferðar. Ari mætti ekki í þinghald þrátt fyrir tilmæli þar um. Aðalmeðferðinni lauk svo 20. mars s.l.

Rannsókn Rannsóknarlögreglu ríksins vegna framburðar Ara Þorsteinssonar sbr. bréf Ríkissaksóknara frá 12. desember s.l. fólst aðallega í því að teknar voru mjög ítarlegar skýrslur af ákærða og Ara Þorsteinssyni og nánari skýrslur voru teknar af einstökum lögreglumönnum, sem unnu að frumrannsókn málsins og einnig tekin skýrsla af Þorsteini Hraundal, rannsóknarlögreglu, sem var með leitarhundinn við húsleitina og hafði tekið efnin, þar sem hundurinn fann þau. Þá var gerð vettvangskönnun að Austurgötu 27B, Hafnarfirði, og var Ari Þorsteinsson þar látinn benda á og sýna hvar hann kom fyrir fíkniefnunum fyrir, bæði úti og inni voru teknar ljósmyndir af þessu. Þá var Þorsteinn Hraundal rannsóknarlögreglumaður látinn sýna hvar hann hafði fundið efnin og teknar ljósmyndir af því. Þá var aflað vottorðs Veðurstofu Íslands um veður til kl. 0600 13. apríl 1996. Í tilefni af þessu gáfu ákærði og Ari Þorsteinsson aftur skýrslur hér fyrir dómi, Þorsteinn Hraundal og svo Herbjörn Sigmarsson, sem rannsóknarlögreglan hafði og tekið skýrslu af.

Í skýrslu Ara Þorsteinssonar hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins hér fyrir dómi kom þetta m.a. fram. Hann játaði því nú að hafa notað fíkniefni, hass og amfetamín í nokkur ár, en þó með einhverjum hléum. Hann kvaðst hafa selt fíkniefni, en ekki á árinu 1996. Hann vildi ekki tjá sig um það hvernig hann útvegaði sér þau fíkniefni, sem hann heldur fram að hann hafi átt og geymt heima hjá ákærða. Fram kom að hann hafði keypt þau en var ekkert farinn að borga fyrir þau. Hann hafi verið nýbúinn að fá þau eða tveimur dögum áður en mál þetta kom upp og átt eftir að skoða þau almennilega, en þetta hafi átt að vera um 180 g af amfetamíni og um 120 g af hassi. Hann kvaðst aðeins hafa geymt fíkniefni í þetta eina skipti heima hjá ákærða og hafi það verið án hans leyfis og vitundar. Anna hafi heldur ekki vitað af þessu, né neinn annar. Hann kvaðst hafa verið heima hjá ákærða föstudagskvöldið 12. apríl 1996. Hann mundi ekki nákvæmlega hvenær hann hafði komið eða hvað hann hafi verið þar lengi, en hann kvaðst hafa farið um miðnætti. Hann hafði komið fótgangandi, og höfðu þá alla vega verið heima ákærður, Anna kona hans og svo Herbjörn Sigmarsson, sem hann kannaðist lítillega við og hafði áður hitt nokkrum sinnum heima hjá ákærða. Hann minntist þess ekki að hafa talað við Herbjörn þarna. Fram kom hjá Ara að hann hafi sýnt ákærða tveimur dögum áður að hann ætti framangreinda plötu af hassi og hann falast eftir því að fá af því. Ákærður kvaðst þarna um kvöldið hafa brotið hassplötuna í sundur og látið ákærða hafa annan helminginn og hafi verið umsamið að ákærði greiddi honum síðar með sama. Hann kvað Herbjörn ekki hafa séð, er hann afhenti ákærða hassið. Hann kvaðst halda, að hann hafi vafið hassinu, sem hann afhenti ákærða, í glæra plastfilmu. Hann kvað ákærða samt ekki hafa vitað að hann geymdi hinn hluta hassins og amfetamínið í kjallaranum hjá honum, þar sem hann var að vinna. Hann vissi ekki hvað ákærði ætlaði að gera við hassið. Ákærður og Herbjörn hafi farið akandi á Benz bifreið ákærða um miðnættið, en þá kvaðst Ari hafa farið aftur niður í kjallara, þar sem hann hafi gengið frá einhverju drasli sem hann var með. Hann hafði svo farið upp aftur á efri hæð hússins, til að þrífa sig, en þar hafi engin verið sjáanlegur og Anna því líklega verið farin að sofa. Hann hafði haft með sér poka með blautu amfetamíni og farið með hann inn í herbergi inn af stofunni og sett pokann þar á ofninn þannig að loftaði um efnið, sem hann hafi ætlað að þurrka. Hann kvaðst hafa troðið pokanum ofan á og inn fyrir ofninn vinstra megin og pokinn hafi verið eitthvað opinn svo að loftaði um efnið, en pokinn hafi verið eins og sælgætispoki, en þó stærri en venjulegur sælgætispoki og ólitaður, en þeir séu oftast grænir. Hann gat ekki skýrt það af hverju efnið var blautt. Hann var heldur ekki viss um hvort það hafi verið í einföldum eða tvöföldum poka. Hann kvaðst hafa hafa ætlað að hafa efnið þarna á ofninum fram til mánudags. Hann kvaðst hafa verið sem fyrr segir með hin fíkniefnin niður í kjallara og því farið aftur niður í kjallara um leið og hann fór og sótti þau, þ.e. hinn helminginn af hassplötunni og það sem eftir var af amfetamíninu. Hann kvaðst hafa tekið einhvern poka með einhverju drasli í, troðið fíkniefnunum ofan í og farið með hann út og komið honum fyrir í horninu á garðinum. Hann hafi verið að fara til Reykjavíkur og ekki viljað þvælast með þetta með sér og ekki viljað heldur fara inn í húsið til að sækja það, og því geymt það úti í garði. Hann lýsti hvernig hann hefði látið pokann með fíkniefnunum alveg upp í hornið á lóðinni fyrir ofan húsið að vestanverðu og þar falið hann undir spýtnabraki og öðru dóti, sem hann hafi fundið þarna hjá. Hann var látinn lýsa umbúðunum utan um fíkniefnin. Hann kvað hassið hafa verið í plastpoka með rennilás. Hann kvað amfetamínið sem hann geymdi í kjallaranum, ekki hafa verið sama efnið og hann fór með upp á efri hæð hússins til þurrkunar. Það hafi ekki verið blautt, en hugsanlega rakt. Hann gerði ekki að öðru leyti greinarmun á amfetamíninu. Það hafi aðallega verið í þessum tveimur pokum og svo hafi verið pínulítið amfetamín laust í einum poka. Hann kvað amfetamínið allt hafa verið við það að vera hvítt eða hvítt. Hann kvað hassið ekki hafa verið í neyslupakkningum og kannaðist ekki við að hafa bútað það niður, né að hafa hlutað amfetamínið niður í smærri einingar. Hann kvað það hafa verið í innkaupapoka, sem hann lét fíkniefnin í áður en hann fór með þau út í garð. Hann mundi að í honum hafi verið einhver svipa, en gat ekki lýst öðrum munum, sem voru í pokanum og kvaðst ekkert hafa verið að pæla í því hvað í honum væri. Hann var ekki í fyrstu viss um hvort hann hafði verið berhentur eða með hanska, er hann setti efnin í pokann, en taldi svo ábyggilegt, að hann hafi ekki verið með hanska. Hann kvaðst hafa talað við ákærða nokkru eftir að hann slapp úr haldi, og hann þá ekki minnst á það við ákærða, að hann ætti þau fíkniefni sem fundust á heimili hans og í garðinum. Hann kvað ákærða ekki heldur hafa talað um þessi fíkniefni við hann, heldur hafi hann fyrst og fremst verið að velta því fyrir sér, hvort að Anna Katrín væri að koma honum í eitthvað klandur. Hann kvað ákærða einhvern tíma hafa ýjað að því að hann ætti efnin en aldrei gengið á hann um það eða sakað hann um að eiga þau.

Hann taldi að það hafi verið myrkur, er hann var að koma efnunum fyrir út í garði, en hann mundi það þó ekki gjörla og kvað það varla hafa verið mikið myrkur. Hann taldi að það hafi verið ágætisveður og það hefði ekki verið rigning.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 1997 var eftirfarandi um trúverðuleika frásagnar ákærðu Ara og Franklíns.

,,Við frumrannsókn málsins vildi ákærður ekki í fyrstu tjá sig, um þau fíkniefni sem fundust á heimili hans, og við það, er húsleitin fór þar fram. Eftir að honum hafði þá verið bent á að hassplatan sem hann var með við handtökuna passaði við hassplötuna sem fannst við húsleitina út í garði, kvaðst hann taka á sig að eiga fíkniefnin sem fundust við húsleitina og hafi hann m.a. orðað þetta þannig til að komast hjá því að verða úrskurðaður í gæsluvarðhald. Ef fullyrðing ákærða hér fyrir dómi um að hann hafi fengið hassplötuna rétt áður frá Ara væri rétt, þá hefur hann vitað þarna áður en honum var sleppt, hver var eigandi eða umráðamaður þeirra efna, sem höfðu fundist við húsleitina og er ljóst að hann þurfti þá ekki að vera að velkjast í neinum vafa um þetta eða jafnvel gefa í skyn að kona hans væri að koma honum í vanda, svo sem fram kemur í gögnum málsins. Það verður að teljast með ólíkindum, ef ákærður hefði ekki við þessar aðstæður sakað Ara strax um að eiga fíkniefnin heldur látið hjá líða fram yfir útgáfu ákæru að Ari dragist inn í málið.

Ákærður hefur samt byggt á því í málinu, að hann hafi ekki vitað, hver átti efnin, og tekið á sig að eiga þau, meðan hann væri að komast til botns í því, og vísast til framburðar Ara Þorsteinssonar til sönnunar því, að það væri rétt að hann hafi tekið á sig sök fyrir annan.

Margt er athugavert við framburð og játningu ákærða á sök hér fyrir dómi sem nú verður nánar vikið að.

Er Ari gaf fyrst skýrslu hér fyrir dómi og játaði á sig sök, var liðinn tæpur mánuður frá því að málið var þingfest, og ákærður hafði kynnt sér framlögð skjöl.

Framburður Ara var að miklu leyti í samræmi við framlögð rannsóknargögn, er farið var að spyrja hann nánar um einstök atriði varðandi meint brot kom fram mikið misræmi svo sem nú skal greint og og ýmislegt ósennilegt.

1.             Í húsleitarskýrslu Páls Sigurðssonar lögreglumanns, kemur fram að plastpokinn með ýmsum munum og ætluðum fíkniefnum, hafi verið falinn undir grjóti og timbri í suðvesturhorni garðsins, og lýsir Ari á svipaðan veg, hvernig hann gengur frá poka með fíkniefnum o.fl.

Páll hafði ekki séð felustaðinn og hlaut að hafa þetta eftir öðrum og gætir þarna ónákvæmni. Vitnið Þorsteinn Hraundal, sem fann felustaðinn með aðstoð leitarhunds, lýsti honum þannig, að pokinn hafi verið í holu, sem grafin var undir klett og ein spýta ofan á og ekkert annað.

2.             Lýsing Ara á því, hvernig hann hafi gengið frá fíkniefnunum samrýmist engan veginn því hvernig þau voru þegar þau fundust, sbr. vettvangskönnun og myndir.

Þannig kveðst Ari ganga frá amfetamíninu sem hann setti á ofninn miðað við að hann ætlaði að þurrka það, og átti pokinn með því að liggja að hluta ofan á ofninum og sjást er horft var framan á ofninn. Hins vegar fannst það þannig, að því var troðið á bak við ofninn og þannig falið að það sást ekki nema komið væri upp að útveggnum og litið til hliðar á ofninn.

Staðurinn sem hann kvaðst hafa falið innkaupapokann með fíkniefnum og fleira dóti er 2 - 3 metrum frá þeim stað sem efnið fannst, þar sem hann var í holu og undir einni spýtu, en Ari kvaðst ekkert hafa grafið efnið niður, heldur falið undir spýtnabraki og öðru dóti.

3.             Tímasetning Ara stóðst ekki. Hann er óviss í framburði sínum um hvenær hann hafi komið til ákærða um mitt kvöld og hve lengi hann hafi dvalið, en er viss um að hafa farið þaðan um miðnætti eftir að ákærði og Herbjörn höfðu farið þaðan í bifreið ákærða. Ákærður og Herbjörn voru handteknir kl.0240 eftir að ekið var beint frá heimili ákærða að Vífilstöðum og samkvæmt því hefur hann farið frá ákærða um kl. 0230 .

4.             Ari var óviss um birtuskilyrði á þessum tíma og kvað veðrið hafa verið ágætt og enga rigningu, en skv. vottorði Veðurstofu var rigning á þessum tíma í Reykjavík og vindur 3 - 6 vindstig.

5.             Lýsing Ara á fíkniefnum, sem hann kvaðst hafa gengið frá út í garði eru engan veginn rétt. Hann kvað hassplötuna hafa verið í einum poka og amfetamínið í öðrum og svo pínulítið amfetamín í þeim þriðja og kannast ekki við að hafa bútað hassið niður eða hlutað amfetamínið niður í smærri einingar og kvað efnin ekki hafa verið í neyslupakkningum, en af ljósmyndum Tæknideildar R.L.R. af þessum efnum sem voru í innkaupapokanum sjást 6 neyslueiningar af hassi og 7 af amfetamíni.

6.             Ari gerði ekki greinarmun á amfetamíninu og kvað það hafa verið hvítt eða við það að vera hvítt. Af ljósmyndum Tæknideildar R.L.R., sem er í lit er ljóst að stærstur hluti amfetamínisins sem var í innkaupapokanum var gult og skar sig úr frá öðru amfetamíni, sem lagt var þarna hald á.

7.             Í innkaupapokanum, sem Ari sagðist hafa sett fíkniefnin í var töluvert af skartgripum, silfurmunum, skrautsteinum, úrum o.fl. og heldur ólíklegt, að Ari hafi aðeins veitt athygli einni svipu.

8.             Ari var atvinnulaus og hafði litlar tekjur, og er heldur ólíklegt að hann hafi fjárhagslegt bolmagn til að eiga svona mikið magn fíkniefna eða að honum hafi verið treyst fyrir því.

9.             Skýring Ara á því hvers vegna hann hafi flutt fíkniefni úr læstum kjallara út í garð, þar sem hver sá sem átt hefði þar leið um, hefði geta hirt þau er afar ótrúleg og er líklegra að um skyndiúrræði hafi verið að ræða, eftir að grunur hafði komið upp um að ákærði gæti verið í gæslu, en frá handtöku að húsleit liðu um 10 klukkustundir.

Framburður ákærða þykir og óskýr og óljós um fleiri atriði.

10.           Herbjörn Sigmarsson þykir hafa verið margsaga um atvik umræddrar nætur, er framburður hans svo óstöðugur og óljós, að hann verður ekki talinn vera því til styrktar að Ari hafi verið á heimili ákærða umrædda nótt og telst það óvíst.

Þegar allt það sem nú er rakið er virt, þykir framburður Ara ekki standast og er hann metinn sem markleysa og ekki byggt á honum í málinu. Við sönnunarmat í málinu verður því við það miðað, að framburður Ara hafi ekki komið til.

Ákærðu Ari og Franklín Steiner komu báðir fyrir dóm. Framburður þeirra var á sama veg og áður. Þeir sögðu að Ari hefði ákveðið á eigin spýtur að bera vitni um að hann ætti efnið. Franklín hefði ekki beitt hann þrýstingi eða fortölum.

Lögreglumennirnir Páll Sigurðsson, Lárus Kjartansson og Þorsteinn Hraundal komu fyrir dóm í þessu máli. Þeir voru við húsleit heima hjá ákærða Franklín þegar fíkniefnin fundust. Páll Sigurðsson sagði að sér hefði virst Franklín verða hálf fúll út í sambýliskonu sína, Önnu Katrínu Stefánsdóttur og sagt eitthvað á þá leið „þessar konur“. Lárus Kjartansson var ekki viðstaddur þegar Franklín voru færð þau tíðindi að fíkniefni hefðu fundist. Hins vegar hefði Franklín virst vera undrandi á því að fíkniefni fundust. Þorsteini Hraundal virtust viðbrögð ákærða Franklíns hafa verið þau að hann vildi ekki kannast við efnin.

Sambýliskona Franklíns, Anna Katrín Stefánsdóttir, kom fyrir dóm 11. maí s.l. Hún staðfesti að ákærði Ari Þorsteinsson og Herbjörn Sigmarsson hefðu verið heima hjá þeim Franklín kvöldið sem Franklín var handtekinn. Viðar Þorsteinsson, bróðir ákærða Ara, bar að hann hefði sótt Ara heim til Franklíns Steiner umrætt kvöld um miðnætti.

Björn Halldórsson lögreglufulltrúi og Herbjörn Sigmarsson komu ekki fyrir dóm í þessu máli þar sem þeir eru búsettir erlendis. Björn kom fyrir dóm 9. desember 1996 í máli ákæruvaldsins gegn Franklín Steiner. Björn sagði þá fyrir dómi að sér hefði fundist Franklín undrandi á því að fíkniefni hefðu fundist í og við húsið. Hann hefði sagt við lögreglumanninn að þetta ætti ekki að vera þarna. Við yfirheyrslu hefði hann ekki viljað tjá sig um þetta í fyrstu. Honum hafi þá verið gerð grein fyrir því að hassplötur sem fundust heima hjá honum pössuðu saman við hassplötur sem fundust á vettvangi. Þá hefði ákærði Franklín sagt að hann tæki það á sig að eiga þessi fíkniefni. Björn sagði að hann hefði litið á þetta sem fullkomna játningu.

II.

Niðurstaða.

Um þátt ákærða Ara Þorsteinssonar.

Ákærða Ara er gefið að sök að hafa skýrt rangt frá málsatvikum í þinghaldi Héraðsdóms Reykjaness háðu þann 9. desember 1996 í málinu nr. S-418/1998; ákæruvaldið gegn Franklín Kristni Steiner, en Franklín Kristinn er sjálfur ákærður í máli þessu fyrir hlutdeild í broti ákærða Ara.

Dómurinn telur að sú háttsemi manns, sem gefin er réttarstaða vitnis fyrir dómi í opinberu máli, að játa eða gefa bendingu um að hann hafi sjálfur framið refsivert athæfi, geti eigi talist refsinæm í skilningi 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 12. gr. laga nr. 101/1976. Hefur dómurinn til stuðnings þessari niðurstöðu litið til eftirgreindra atriða:

Ákvæði 51. gr. laga nr. 19/1991 gerir ráð fyrir að vitni sé óskylt að svara spurningu eða tjá sig að öðru leyti um atvik máls ef í framburðinum gæti falist játning eða bending um að vitnið hafi framið refsiverðan verknað. Efnisákvæði þetta leiðir af þeirri fortakslausu meginreglu íslensks réttar, sem fram kemur í 3. mgr. 33. gr. sömu laga og sem einnig má leiða af 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að sakborningi sé á öllum stigum málsmeðferðarinnar rétt að skorast undan því að svara spurningum er varða refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök, enda hvíli sönnunarbyrði um sekt sakbornings á ákæruvaldinu. Telja verður að grunnregla þessi sé einnig varin af 2. mgr. 70. gr. íslensku stjórnarskrárinnar nr. 33/1994, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Löggjafinn hefur með skírskotun til framangreindra meginreglna ákveðið að rangur framburður manns, sem sé óskylt að tjá sig um málsatvik, sökum þess að framburður hans gæti haft í för með sér játningu, bendingu eða rennt stoðum undir sönnun um refsiverða hegðun hans, sé refsilaus að íslenskum lögum, sbr. grundvallarreglu 1. mgr. 143. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga byggir á því grunnsjónarmiði að þeim manni, sem fyrir dóm kemur, sé skylt að skýra satt og rétt frá málsatvikum og er sett til verndar hagsmunum almennings og refsivörslukerfisins af réttri og eðlilegri framvindu mála innan dómskerfisins. Hafa þessir hagsmunir hins vegar eigi talist standa í vegi fyrir viðurkenningu á framangreindum rétti einstaklinga til að bera rangt um atvik er varða meinta refsiverða háttsemi þeirra sjálfra. Þá verður að telja að þessi réttur sakbornings sé fyrir hendi án tillits til þess hvort hann hafi í reynd verið sekur eða saklaus, sbr. athugasemdir greinargerðar með ákvæði 1. mgr. 143. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Ari Þorsteinsson kom fyrir dóm og gaf dómari málsins honum réttarstöðu vitnis í áðurnefndu máli ákæruvaldsins gegn Franklín Kristni Steiner. Var honum ekki sérstaklega kynnt ákvæði 51. gr. laga nr. 19/1991. Framburður ákærða Ara fól í sér játningu eða bendingu um að hann hefði sjálfur framið refsivert athæfi, en honum var samkvæmt áðurnefndum meginreglum íslenskra laga og grunnreglu stjórnarskrárinnar óskylt að tjá sig um þetta atriði.   Naut hann af þeim sökum um leið sömu réttinda og sakborningar njóta við dómsmeðferð í opinberum málum er hann gaf umrædda skýrslu. Er því jafnframt ótækt að líta til lokamálsliðar 2. mgr. 143. gr. hegningarlaga í máli þessu. Að þessu virtu, áðurnefndum meginreglum íslensks réttar, efnisákvæðum 1. mgr. 142. gr. og 1. mgr. 143. gr. almennra hegningarlaga og þeim hagsmunum, sem að baki þeim búa, verður þannig að telja að ákærði Ari hafi, með vísan til efnis framburðar hans fyrir dóminum og lagalegri stöðu hans við skýrslugjöfina, að refsilausu mátt bera rangt um atvik, sem lutu að meintri refsiverðri hegðun hans sjálfs.   Þá þykir styrkja þessa niðurstöðu, að um það tilvik, sem hér er til úrlausnar, hefur löggjafinn eigi kveðið skýrlega á um í almennum lögum. Þann vafa sem við lýði er í þessu efni ber að mati dómsins að túlka ákærða í hag, sbr. grunnreglu 45. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framanrituðu hefur sá hluti ákæru, er varðar ákærða Ara Þorsteinsson, að geyma lýsingu á háttsemi, sem eigi verður talin refsinæm samkvæmt gildandi refsiheimildum í íslenskum rétti. Er hún því refsilaus, sbr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður því ákærði Ari Þorsteinsson sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

                Um þátt ákærða Franklíns Kristins Steiner.

Ákærða Franklín Kristni er gefið að sök að hafa með fortölum og hvatningum gerst sekur um hlutdeild í broti meðákærða Ara Þorsteinssonar. Er um háttsemi ákærða Franklíns Kristins vísað til 1. mgr. 142. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að háttsemi meðákærða Ara Þorsteinssonar hafi eigi verið refsinæm samkvæmt gildandi refsiheimildum og því refsilaus. Þrátt fyrir að löggjafinn hafi með setningu hlutdeildarákvæðis 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, gert ráð fyrir í athugasemdum greinargerðar með lögunum að leggja ætti sérstætt mat á þátttöku hlutdeildarmanns óháð aðalverknaðinum hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að hlutdeild sakbornings í röngum en refsilausum framburði samsökunautar sé refsilaus samkvæmt grundvallarreglu 143. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 119/1950, upp kveðnum þann 25. júní 1951. Eigi verða nú talin fyrir hendi rök til þess að víkja frá þessu fordæmi Hæstaréttar Íslands og verður því ákærði Franklín Kristinn Steiner einnig sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Sakarkostnaður.

Með hliðsjón af málalokum þessum verður allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. saksóknarlaun kr. 100.000, málsvarnarlaun skipaðs verjanda Ara Þorsteinssonar, Kristjáns Stefánssonar, hrl., kr. 100.000 og málsvarnarlaun skipaðs verjanda Franklíns Kristins Steiner, Jóns Magnússonar, hrl., kr. 100.000.

Gunnar Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

                Ákærði, Ari Þorsteinsson, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

                Ákærði, Franklín Kristinn Steiner, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

                Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. saksóknarlaun kr. 100.000, málsvarnarlaun skipaðs verjanda Ara Þorsteinssonar, Kristjáns Stefánssonar, hrl., kr. 100.000 og málsvarnarlaun skipaðs verjanda Franklíns Kristins Steiner, Jóns Magnússonar, hrl., kr. 100.000.