Print

Mál nr. 653/2007

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Ómerking ummæla
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá
  • Miskabætur
  • Prentréttur

                                             

Fimmtudaginn 2. október 2008.

Nr. 653/2007.

Eiríkur Jónsson

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Þóru Guðmundsdóttur

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Ærumeiðingar. Ómerking ummæla. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá. Miskabætur. Prentréttur.

 

Þ höfðaði mál gegn E, M og ÞS til greiðslu miskabóta og ómerkingar á ummælum sem birt höfðu verið á forsíðu og í tímaritsgrein vikuritsins S&H í nóvember 2006 og lutu að fasteignaviðskiptum hennar og ÞS. Með héraðsdómi voru M og ÞS sýknaðir í málinu en E hins vegar talinn bera ábyrgð á þeim hluta ummælanna sem birt höfðu verið í tímaritsgreininni, en óumdeilt var í málinu að greinin væri rituð af E. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að telja yrði að hluti þeirra ummæla sem E hafði ritað í umræddri tímaritsgrein fælu í sér ærumeiðandi móðgun í garð Þ og vörðuðu því við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá voru önnur ummæli sem Þ óskaði ómerkingar á talin fela í sér ærumeiðandi aðdróttun í hennar garð er varðar við 235. gr. almennra hegningarlaga. Var niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummælanna því staðfest. Með vísan til þess að framsetning greinarinnar hefði verið til þess fallin að auka sölu blaðsins var jafnframt staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að E bæri að greiða Þ miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur.

                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. desember 2007. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefndu og að hún verði dæmd til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að miskabætur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í héraðsdómi er því lýst að í 47. tölublaði tímaritsins Séð og heyrt árið 2006, sem út kom 23. nóvember, hafi í opnugrein verið viðhöfð ummæli um stefndu. Þar er nánar greint frá því hvernig þessi ummæli lutu að fasteignaviðskiptum stefndu við nafngreindan mann og í hvaða samhengi ummælin í greininni hafi staðið við atvik að þeim viðskiptum.

Stefnda höfðaði málið til ómerkingar á eftirfarandi orðum í 1. kröfulið: A. „Þóra er blönk.” B. „Þóra Guðmundsdóttir í Atlanta hefur látið byggja stærsta einbýlishús í Kópavogi í Asparhvarfi en gallinn er bara sá að hún hefur ekki enn borgað krónu í því.“ C. „Hann er að bíða eftir 120 milljónum frá einni ríkustu konu landsins. Sjálfur er hann farinn að halda að Þóra sé blönk.“ D. „Svanur í Trompverki segist hafa ætlað að afhenda Þóru húsið fyrir ári en ekki gert það þar sem hún hafi ekki enn borgað krónu í því.“ Þá krefst stefnda í 3. kröfulið ómerkingar á eftirfarandi ummælum: A. „Hún hlýtur að vera orðin blönk“. B. „Og hún virðist svo blönk að hún hefur ekki einu sinni greitt gatnagerðargjöldin, hvað þá sérpöntuðu flísarnar frá Kína sem ég pantaði og klæddi húsið með að utan“. C. „Nema hún sé orðin blönk“. Krafa stefndu um ómerkingu ummæla í 2. kröfulið beindist ekki að áfrýjanda, en sýknað var af þeirri kröfu í héraði. Kröfuliður 3. beindist aðallega að fyrrgreindum viðsemjanda stefndu, sem var sýknaður af kröfu hennar í þessum lið, en til vara að áfrýjanda og var ómerkingarkrafa gagnvart honum tekin til greina. Stefnda unir niðurstöðu héraðsdóms.

Í framangreindum orðum í 1. kröfulið A. og 3. kröfulið A. og C. felst ærumeiðandi móðgun í garð stefndu og varða þau við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Önnur tilvitnuð ummæli í 1. og 3. kröfulið fela í sér ærumeiðandi aðdróttun í hennar garð þegar litið er til starfa hennar og stöðu. Varða þau ummæli við 235. gr. almennra hegningarlaga. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um ómerkingu ummæla.

Með hliðsjón af því að framsetning umræddrar opnugreinar sýnist til þess gerð að auka sölu blaðsins er fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Áfrýjandi, Eiríkur Jónsson, greiði stefndu, Þóru Guðmundsdóttur, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2007.

Mál þetta var dómtekið 19. september sl.

Stefnandi er Þóra Guðmundsóttir, Leirutanga 6, Mosfellsbæ.

Stefndu eru Eiríkur Jónsson, Öldugötu 42, Reykjavík, Mikael Torfason, Vesturgötu 26a, Reykjavík, og Þorsteinn Svanur Jónsson, Skógarhjalla 23, Kópavogi.

Málið höfðar stefnandi til greiðslu miskabóta og ómerkingar á ummælum, sem birtust um stefnanda á forsíðu og í tímaritsgrein í vikuritinu Séð og heyrt, 47. tölublaði 2006, 24. til 30. nóvember.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

Kröfuliður 1

Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til D, sem er að finna í tímaritsgrein í vikuritinu Séð og heyrt, 47. tölublaði - 2006, 24. til 30. nóvember, sem stefndi, Eiríkur Jónsson er höfundur að, verði dæmd dauð og ómerk:

A. „Þóra er blönk.“

B. „Þóra Guðmundsdóttir í Atlanta hefur látið byggja stærsta einbýlishús í

Kópavogi í Asparhvarfi en gallinn er bara sá að hún hefur ekki enn borgað krónu í því.“

C. „Hann er bíða eftir 120 milljónum frá einni ríkustu konu landsins. Sjálfur er hann farinn að halda að Þóra sé blönk.“

D „Svanur í Trompverki segist hafa ætlað að afhenda Þóru húsið fyrir ári en ekki gert það þar sem hún hafi ekki enn borgað krónu í því.“

Kröfuliður 2

Þess er einnig krafist að eftirfarandi fyrirsögn í staflið A, sem er að finna á forsíðu vikuritsins Séð og heyrt, 47. tölublaði - 2006, 24. til 30. nóvember, sem telja verður að stefndi, Mikael Torfason, beri ábyrgð á sem ritstjóri, verði dæmd dauð og ómerk:

A,  „Þóra í Atlanta borgar mér ekki!“

Til vara, ef ekki verður fallist á að stefndi Mikael Torfason, beri ábyrgð á ofangreindri fyrirsögn á forsíðu, sem ritstjóri, er kröfu um ómerkingu ummælanna í kröfulið 2(A) beint að stefnda Eiríki Jónssyni, sem höfundi opnugreinarinnar, sem fyrirsögnin á forsíðu vísar til, og á þeim grundvelli verði ummælin, dæmd dauð og ómerk.

Kröfuliður 3

Þess einnig krafist að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til C, sem stefndi Þorsteinn Svanur Jónsson, lét falla um stefnanda í tímaritsgrein í Séð og heyrt, 47. tölublaði - 2006, 24. til 30. nóvember, verði dæmd dauð og ómerk:

A. „Hún hlýtur að vera orðin blönk ...“

B „Og hún virðist svo blönk að hún hefur ekki einu sinni greitt gatnagerðargjöldin, hvað þá sérpöntuðu flísarnar frá Kína sem ég pantaði og klæddi húsið með að utan.“

C. „Nema hún sé orðin blönk ...“

Til vara, ef ekki verður fallist á að stefndi, Þorsteinn Svanur Jónsson, beri ábyrgð á á ofangreindum ummælum í kröfulið 3(A til C), s.s. vegna þess að ekki sé rétt eftir honum haft eða hann hafi ekki viðhaft ofangreind ummæli, er kröfu um ómerkingu ummælanna beint að stefnda, Eiríki Jónssyni, sem höfundi opnugreinarinnar, og á þeim grundvelli verði ummælin, dæmd dauð og ómerk.

Kröfuliður 4

Gerð er krafa um að stefndu, verði hver um sig dæmdur til að greiða stefnanda 5.000.000 króna í miskabætur, og beri dómkröfurnar vexti frá 23. nóvember 2006 til 5. janúar 2007, en dráttarvexti frá þeim degi samkvæmt IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, til greiðsludags.

Kröfuliður 5

Einnig er gerð krafa þess efnis að forsendur og dómsorð dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði Séð og heyrt eftir að dómur fellur, sbr. 22. gr, laga nr. 57/1956 um prentrétt.

Kröfuliður 6

Þá er þess einnig krafist að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefndu, Eiríks Jónssonar og Mikaels Torfasonar, eru þær að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda sem að hvorum þeirra er beint.

Til vara er þess krafist að fjárkröfur verði lækkaðar verulega.

Þá krefjast stefndu hvor um sig málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu, þ.m.t. 25,5% virðisaukaskatt samkvæmt málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.

Dómkröfur stefnda, Þorsteins Svans Jónssonar, eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum greiddur málskostnaður að skaðlausu.

Málavextir

Málavextir eru þeir að í 47. tölublaði Séð og heyrt árið 2006, sem kom út fimmtudaginn 23. nóvember, birtist opnugrein um fasteignaviðskipti stefnanda og stefnda Þorsteins Svans þar sem stefndi Þorsteinn Svanur segir farir sínar ekki sléttar vegna viðskipta sinna við stefnanda. 

Gerir stefnandi grein fyrir fasteignaviðskiptum stefnanda og stefnda, Þorsteins Svans, svo og málavöxtum að öðru leyti, með eftirfarandi hætti í stefnu.

Með kaupsamningi, dags. 25. febrúar 2006, hafi stefnandi keypt fasteignina Asparhvarf 20 í Kópavogi af stefnda Þorsteini Svani.  Fasteignin sé einbýlishús og hafi kaupverð eignarinnar verið 82.000.000 króna.  Í kaupsamningi hafi verið kveðið á um að fasteignin skyldi afhent stefnanda eigi síðar en 15. júlí 2005, fullbúin að utan, í samræmi við teikningar og fyrirliggjandi byggingarlýsingu, með vandaðri gerð af flísum (veðurkápu) og grófjafnaðri lóð.

Samkvæmt 3. gr. kaupsamningsins skyldi kaupverð fasteignarinnar greitt með eftirfarandi hætti:

1.Með peningum við undirritun kaupsamnings      20.000.000 kr.

2.Þegar botnplata og jarðlagnir eru komnar      20.000.000 kr

3.Þegar 1. hæð fasteignarinnar er uppsteypt      15.000.000 kr.

4.Þegar þak, gler og hurðir eru komnar í      17.000.000 kr.

5.Þegar klæðningu er lokið - Við afhendingu       10.000.000 kr.

Samtals82.000.000 kr.

Stefnandi hafi innt af hendi þær greiðslur sem henni bar að greiða samkvæmt kaupsamningnum.  Þannig hafi stefnandi greitt 20.000.000 króna við undirritun kaupsamnings, 20.000.000 króna þegar botnplata og jarðlagnir voru komnar, 15.000.000 króna þegar búið var að steypa 1. hæð byggingarinnar og 15.000.000 króna þegar þak, gler og gluggar voru komnir í húsið. Greiðslan, sem síðast var nefnd hafi, samkvæmt kaupsamningi, átt að vera 17.000.000 króna.  Stefnandi hafi beitt stöðvunarrétti vegna 2.000.000 króna, sökum þess að þær hurðir sem settar voru í húsið hafi verið margfalt lakari en gert hafði verið ráð fyrir.  Stefnandi hafi ekki verið höfð með í ráðum við val á útihurðunum og þær útihurðir sem stefndi, Þorsteinn Svanur, hafi valið hafi ekki verið í samræmi við teikningar.

Í 2. gr. kaupsamningsins segi síðan að stefndi, Þorsteinn Svanur, eigi að greiða öll lóðar- og gatnagerðargjöld vegna fasteignarinnar, þ.m.t. viðbótargjöld vegna breytinga á einu rými fasteignarinnar, stærð 129,8 fm en stefnandi eigi hins vegar að greiða skipulagsgjald þegar það verði lagt á.  Þess beri að geta að ógreidd gatnagerðargjöld í vanskilum, sem stefnda, Þorsteini Svani, beri að greiða samkvæmt kaupsamningi, séu í dag 8.246.614 krónur.  Í 6. gr. kaupsamnings sé síðan greint frá því að á 1. veðrétti fasteignarinnar hvíli veðskuld frá Kópavogsbæ að fjárhæð 4.129.500 krónur, en staða skuldarinnar 1. nóvember 2006 hafi verið 2.590.867 krónur.  Skuld þessi sé stefnanda óviðkomandi og sú skylda hvíli á stefnda Þorsteini Svani að aflýsa veðskuldabréfinu fyrir lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi.

Það liggi fyrir að ágreiningur var á milli stefnanda og stefnda, Þorsteins Svans, um fjárhæð greiðslna fyrir viðbótarverk, en stefndi, Þorsteinn Svanur, hafi sent stefnanda ósundurliðaðan reikning að fjárhæð 17.053.321 króna, dags. 15. janúar 2006, nr. T-6001, vegna viðbótarverka, en reikningsfjárhæðin sé rúm 20% af heildarkaupverði fasteignarinnar.  Reikningnum hafi fylgt kröfubréf frá lögmanni stefnda.  Þar sem stefnandi hafi talið að reikningur vegna viðbótarverka væri allt of hár hafi hann verið endursendur auk þess sem krafist var að reikningurinn yrði rökstuddur ítarlega.  Stefndi, Þorsteinn Svanur, hafi höfðað dómsmál til innheimtu framangreinds reiknings fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og stefnandi skilað greinargerð í málinu.

Til þess að reyna að stuðla að lausn á ágreiningi málsaðila um fjárhæð viðbótarverka og í von um að stefndi, Þorsteinn Svanur, myndi bretta upp ermarnar, ljúka verkinu og afhenda fasteignina, hafi stefnandi tekið þá ákvörðun í lok apríl sl., að greiða Þorsteini Svani 7.000.000 króna.  Greiðslan hafi að hluta til gengið inn á kaupverð fasteignarinnar og að hluta til hafi hún verið fyrir viðbótarverk, án nánari skilgreiningar. Greiðslan hafi ekki á neinn hátt falið í sér viðurkenningu á kröfu stefnda Þorsteins Svans vegna viðbótarverka, heldur hafi greiðslan einungis verið innt af hendi til þess að reyna að greiða úr þeirri flækju sem viðskipti stefnanda og stefnda voru komin í.  Greiðslan hafi  jafnframt verið innt af hendi í trausti þess að Þorsteinn Svanur myndi nú bretta upp ermar, klára fasteignina og skila henni fullbúinni í samræmi við skilalýsingu, teikningar og kaupsamning.  Þess hafi verið vænst að eignin yrði afhent fullbúin eigi síðar en 1. júní 2006.  Það hafi þó ekki orðið.  Hafi stefndi, Þorsteinn Svanur, haldið áfram að draga lappirnar hvað varðar vinnu við fasteignina og 16 mánuðum eftir að stefndi átti að afhenda stefnanda eignina hafi hún enn verið ókláruð.

Af framansögðu telur stefnandi ljóst að hún hafi að fullu staðið við kaupsamning þann sem hún gerði við stefnda, Þorstein Svan, og það að halda öðru fram séu hrein og klár ósannindi.

Á forsíðu og í opnugrein í 47. tbl. vikuritsins Séð og heyrt hafi stefndi, Eiríkur Jónsson blaðamaður, séð sérstaka ástæðu til þess að gera fasteignaviðskipti stefnanda og stefnda Þorsteins Svans að umfjöllunarefni í blaðinu. Það sé skemmst frá því að segja að flest það sem fram  komi í umfjölluninni séu helber ósannindi.

Í uppslætti á forsíðu vikuritsins segi: „Þóra í Atlanta borgar mér ekki.“  Þessi fullyrðing blaðsins sé einfaldlega ekki sönn, þar sem stefnandi hafi greitt stefnda Þorsteini Svani 77.000.000 króna af 82.000.000 króna sem hún hafi átt að greiða fyrir fasteignina, sem um ræðir, samkvæmt kaupsamningi, og það án þess að stefndi, Þorsteinn Svanur, hafi afhent fasteignina, en lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningnum, 10.000.000 krónur eigi  stefnandi að greiða við afhendingu fasteignarinnar.

Í aðalfyrirsögn opnugreinar í vikuritinu segi síðan með stóru letri og hástöfum „Þóra er blönk.“ Þessi fullyrðing eigi heldur ekki við rök að styðjast þar sem stefnandi sé mjög vel stæð fjárhagslega.  Í undirfyrirsögn undir aðalfyrirsögninni segi síðan „Þóra Guðmundsdóttir í Atlanta hefur látið byggja stærsta einbýlishús í Kópavogi í Asparhvarfi en gallinn er bara sá að hún hefur ekki enn borgað krónu í því.“  Sú fullyrðing sem komi fram í undirfyrirsögninni sé uppspuni frá rótum, en það liggi fyrir að stefnandi hafi greitt stefnda, Þorsteini Svani, 77.000.000 króna.

Fyrir neðan yfirfyrirsögn opnugreinarinnar í vikuritinu sé síðan eftirfarandi úrdráttur „Hann er að bíða eftir 120 milljónum frá einni ríkustu konu landsins. Sjálfur er hann farinn að halda að Þóra sé blönk.“  Hér sé því enn á ný haldið fram að stefnandi sé blönk og verði að telja að stefndi Eiríkur geri það gegn betri vitund, þar sem honum eigi að vera það fullljóst að stefnandi sé mjög vel stæð fjárhagslega.  Hér sé því einnig haldið fram að stefndi Þorsteinn Svanur eigi von á 120.000.000 króna greiðslu frá stefnanda, sem einnig sé alrangt, þar sem kaupverð áðurgreindrar fasteignar hafi verið 82.000.000 króna og stefnandi hafi nú þegar greitt stefnda, Þorsteini Svani, 77.000.000 krónur.

Í 2. mgr. í meginmáli opnugreinarinnar í vikuritinu segi síðan: „Svanur í Trompverki segist hafa ætlað að afhenda Þóru húsið fyrir ári en ekki gert það þar sem hún hafi ekki enn borgað krónu í því.“  Hér sé því enn á ný haldið fram að stefnandi hafi ekki borgað krónu í fasteigninni, sem sé alrangt.

Í meginmáli opnugreinarinnar í vikuritinu sé á nokkrum stöðum bein tilvitnun í stefnda Þorstein Svan.  Í 1. mgr. í meginmáli opnugreinarinnar sé þannig haft eftir Þorsteini Svani „Hún hlýtur að vera orðin blönk.“  Í 3. mgr. í meginmáli opnugreinarinnar segi stefndi Þorsteinn Svanur, „Og hún virðist svo blönk að hún hefur ekki einu sinni greitt gatnagerðargjöldin, hvað þá sérpöntuðu flísarnar frá Kína sem ég pantaði og klæddi húsið með að utan.“  Í niðurlagi í meginmáli opnugreinarinnar endurtaki stefndi Þorsteinn Svanur, enn á ný, ummæli sín um blankheit stefnanda, en þar segi hann „Nema hún sé orðin blönk.“  Telur stefnandi að stefndi, Þorsteinn Svanur, viðhafi framangreind ummæli um stefnanda gegn betri vitund, þar sem honum sé fullkunnugt um það að stefnandi sé fjárhagslega vel stæð.

Samkvæmt kaupsamningi um fasteignina hafi stefndi, Þorsteinn Svanur, átt að greiða gatnagerðargjöld vegna fasteignarinnar og greiða fyrir flísar, sem notaðar voru til að klæða fasteignina að utan.  Að halda því fram að stefnandi hafi átt að greiða fyrir þetta telur stefnandi hreinan uppspuna hjá stefnda, Þorsteini Svani.  Hvað viðkomi ummælum Þorsteins Svans um meint blankheit stefnanda þá liggi fyrir að stefnandi hefur þegar greitt stefnanda 77.000.000 króna af 82.000.000 króna sem hún átti að greiða stefnda Þorsteini Svani fyrir fasteignina.  Þorsteinn Svanur hafi þrátt fyrir þetta ekki enn afhent fasteignina, en lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi, 10.000.000 króna, eigi stefnandi að greiða við afhendingu fasteignarinnar.  Það að stefnandi hafi ekki að fullu greitt fyrir fasteignina  hafi því ekkert með fjárhagsstöðu hennar að gera, þar sem gjalddagi lokagreiðslu sé enn ekki kominn, og þar sem stefndi Þorsteinn Svanur hafi ekki afhent fasteignina og raunar ekki lokið við hana í þeirri mynd sem kveðið sé á um í kaupsamningi og skilalýsingu.  Um þetta sé stefnda Þorsteini Svani fullkunnugt.  Því sé hann að halda meintum blankheitum stefnanda fram gegn betri vitund og ummælin virðast sett fram í þeim tilgangi einum að skaða stefnanda.

Af framansögðu telur stefnandi ljóst að hin umstefndu ummæli séu algjörlega úr lausi lofti gripin þar sem hún hafi greitt stefnda Þorsteini Svani 77.000.000 króna af þeim 82.000.000 króna sem hún eigi að greiða samkvæmt kaupsamningi.  Það sé athyglisvert að stefndi Eiríkur Jónsson virðist ekki hafa gert neina tilraun til að hafa samband við stefnanda til þess að kanna sannleiksgildi frásagnar stefnda Þorsteins Svans og verði það að teljast vítaverð vinnubrögð af hálfu blaðamanns með áratuga reynslu í starfi.

Af hálfu stefnda, Þorsteins Svans, er á það bent að stefnandi og stefndi, Þorsteinn Svanur, hafi gert kaupsamning sín á milli um að stefndi byggði hús fyrir stefnanda og hafi greinin í blaðinu fjallað um þau viðskipti.  Stefndi Þorsteinn hafi ekkert með orðaval eða uppsetningu greinarinnar að gera, sé ekki eigandi eða útgefandi ofangreinds vikurits og komi ekki að neinu leyti að útgáfu þess.

Eftir stefnda séu höfð ákveðin ummæli í ofangreindu vikuriti svo sem eins og „Þóra í Atlanta borgar ekki“ og hafi þá verið vísað til þess að stefnandi hefði ekki greitt samkvæmt samningi aðila þegar umrædd ummæli birtust.

Stefndi, Þorsteinn Svanur, beri ekki ábyrgð á aðalfyrirsögn vikuritsins eða uppsetningu að öðru leyti eða myndtextum eins og að framan greini.

Um málavexti að öðru leyti sé tekið fram að stefndi hafi ekki með birtingu umfjöllunarinnar að gera.

Í greinargerð stefndu, Eiríks og Mikaels segir að mál þetta varði umfjöllun sem birtist í tímaritinu Séð og heyrt í 47. blaði 2006 sem kom út 30. nóvember 2006.  Í því blaði hafi, meðal annars, verið fjallað um mál er varðaði ágreining milli stefnanda og meðstefnda, Þorsteins Svans Jónssonar, um viðskipti er tengdust kaupum og byggingu húss í Asparhvarfi.

Samkvæmt framlögðum gögnum hafi stefndi, Þorsteinn Svanur, þegar höfðað mál á hendur stefnanda til greiðslu peninga er umrætt tímarit var gefið út.  Samkvæmt stefnu í því máli, sem þingfest var þann 5. október 2006, hafi stefndi, Þorsteinn Svanur, talið að stefnandi hefði vanefnt að greiða sér verulegar fjárhæðir.  Greinargerð stefnanda í því máli hafi verið skilað þann 5. desember 2006, þ.e. eftir þá umfjöllun sem mál þetta snúist um.

Umfjöllun um ágreiningsmál stefnanda og Þorsteins Svans í Séð og heyrt hafi byggst á upplýsingum og sýn Þorsteins Svans á málinu og verði ekki séð að hann haldi því beinlínis fram að rangt hafi verið eftir honum haft.  Á forsíðu blaðsins sé birt mynd af málsaðilum og haft beint eftir Þorsteini Svani:   „Þóra í Atlanta borgar mér ekki.“  Fyrirsögnin og fullyrðingin sem í henni felist beri með sér að stafa frá Þorsteini Svani og sé rétt, eins og mál horfðu við honum, enda lýsi hún einungis viðhorfi hans til þess ágreinings sem var uppi milli hans og stefnanda.

Eins og gögn beri með sér hafi stefndi, Eiríkur Jónsson, verið sá blaðamaður sem átt hafi samskipti við Þorstein Svan og verið höfundur greinar þeirrar sem birt var.  Fyrirsögn greinarinnar sé: „Þóra er blönk“ með upphrópunarmerki sem sé hluti fyrirsagnarinnar.  Í umfjölluninni sjálfri sé ýmist beint eða óbeint verið að vitna til Þorsteins Svans eða upplýsinga frá honum.

Við mat á umfjölluninni verði að lesa greinina í heild og í samhengi.  Þannig komi fram í greininni að verið sé að ræða um eina ríkustu konu landsins, eins og almenn vitneskja sé um.  Það hafi því ekki getað dulist þeim sem lásu þessi orð um stefnanda að þau höfðu ekki beina þýðingu heldur hafi þau verið sett fram í samhengi þeirra orða Þorsteins Svans að fyrst stefnandi greiddi honum ekki.  Hún væri þá kannski blönk.

Stefnandi þessa máls sé þjóðþekktur einstaklingur sem hafi á undanförnum árum verið í opinberri umræðu vegna þeirra viðskipta sem hún hefur stundað og vegna þeirra miklu fjármuna sem henni hafa áskotnast í þeim viðskiptum.  Sé þetta ágreiningslaust svo sem ráða megi af stefnu enda þar lýst að á almannavitorði sé að stefnandi sé mjög vel fjárhagslega sett.  Ekkert hafi komið fram um það í opinberri umfjöllun að stefnandi hafi tapað fjármunum í viðskiptum eða með öðrum hætti.

Að mati stefndu sé umfjöllun um stefnanda í Séð og heyrt ekki með þeim hætti að almenningur hafi á grundvelli hennar mátt ætla að stefnandi hefði tapað meginhluta eigna sinna og fjármuna.  Þar sé á hinn bóginn sagt frá viðhorfum Þorsteins Svans við því að stefnandi greiddi honum ekki það sem hann taldi sig eiga rétt á úr hendi hennar.

Þá megi vera ljóst af umfjölluninni og framsetningu að ekki sé í alvöru verið  að tala um að stefnandi eigi ekki lengur fjármuni enda talað um hana sem eina ríkustu konu landsins.  Nú um stundir teljist þær fjárhæðir, sem nefndar séu í umfjölluninni, ekki stórar í samanburði við eignir og fjármuni fólks hér á landi sem talið sé til hinna ríku, ef svo megi að orði komast.

Það hafi því, að mati stefndu, ekki getað dulist neinum sem las að þegar talað sé um að stefnandi sé blönk þá sé það sagt til gamans en ekki sem fullyrðing um staðreynd.  Umfjöllunin beri að öðru leyti með sér að Þorsteinn Svanur sé mjög ósáttur við samskipti við stefnanda í viðskiptum þeirra, sérstaklega í ljósi þess sem hann hafi vænst.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Ummæli í Kröfulið 1(A til D)

Stefnandi vísar til málavaxtalýsingar og byggir á því að ummæli sem tilgreind séu í 1. kröfulið í kröfugerð stefnanda séu ósönn.  Það sé á almannavitorði í íslensku samfélagi að stefnandi sé velstæð og því verði að telja að stefndi Eiríkur haldi því fram gegn betri vitund í kröfulið 1A og 2. ml. kröfuliðar 1C, að stefnandi sé blönk.  Það fái jafnframt stoð í myndatexta opnugreinarinnar, þar sem birt sé mynd af stefnanda, en þar fullyrði stefndi Eiríkur að stefnandi sé ríkasta kona landsins.

Í kröfulið B og D fullyrði stefndi Eiríkur að stefnandi hafi ekki enn greitt krónu í fasteign sem hún hafi keypt í Asparhvarfi í Kópavogi.  Hér sé enn á ný um hreinan uppspuna að ræða þar sem stefnandi hafi nú þegar greitt 77.000.000 króna af þeim 82.000.000 króna sem hún átti að greiða fyrir fasteignina samkvæmt kaupsamningi.

Í 1. ml. kröfuliðar C haldi stefndi Eiríkur því fram fullum fetum að stefndi, Þorsteinn Svanur, sé að bíða eftir 120.000.000 króna frá einni ríkustu konu landsins. Hér gerist stefndi Eiríkur enn á ný sekur um ósannindi og vandi sé að sjá á hvaða forsendum stefndi Eiríkur byggi útreikninga sína.  Það liggi fyrir að kaupverð fasteignarinnar var 82.000.000 krónur.  Stefnandi hafi nú þegar greitt stefnanda 77.000.000 króna.  Mismunur sé því 5.000.000 króna, en þá fjárhæð muni stefnandi greiða stefnda Þorsteini Svani, þegar hann hafi efnt kaupsamninginn réttilega og afhent fasteignina.

Telja verði að ummælin varði við 234., 235., og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga enda ljóst að ummæli stefnda séu hreinn uppspuni og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

Það beri einnig að átelja að stefndi Eiríkur Jónsson virðist ekki hafa gert neina tilraun til að hafa samband við stefnanda til þess að kanna sannleiksgildi frásagnar stefnda Þorsteins Svans og verði það að teljast vítaverð vinnubrögð af hálfu blaðamanns með áratuga reynslu í starfi.

Ummæli í kröfulið 2(A)

Stefnandi byggir á því að ummælin í þessum kröfulið séu ósönn.  Með fyrirsögninni, framsetningu hennar á forsíðu og umfjölluninni, sem hún vísi til í blaðinu, sé vegið alvarlega að æru stefnanda.  Telja verði að ummælin varði við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga enda ljóst að ummæli stefnda séu hreinn uppspuni og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda.  Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

Til vara, ef ekki verður fallist á stefndi Mikael Torfason beri ábyrgð á ofangreindri fyrirsögn á forsíðu, sem ritstjóri, er kröfu um ómerkingu ummælanna í kröfulið 2(A) beint að stefnda Eiríki Jónssyni, sem höfundi opnugreinarinnar, sem fyrirsögnin á forsíðu vísi til, sbr. sératkvæði í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 122/1992, og á þeim grundvelli verði ummælin í kröfulið 2(A), dæmd dauð og ómerk.  Heimild til að stefna Eiríki Jónssyni til vara sé að finna í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ummæli í kröfulið 3(A til C)

Stefnandi byggir á því að ummælin séu ósönn.  Með ummælunum sé vegið alvarlega að æru stefnanda.  Eins sé ljóst að stefndi Þorsteinn Svanur viðhafi ummælin gegn betri vitund þar sem það sé á almanna vitorði á Íslandi að stefnandi sé mjög vel stæð fjárhagslega.

Það verður að telja að ummælin varði við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga enda ljóst að ummæli stefnda séu hreinn uppspuni og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

Til vara, ef ekki verði fallist á að stefndi, Þorsteinn Svanur Jónsson, beri ábyrgð á ofangreindum ummælum í kröfulið 3(A til C), s.s. vegna þess að ekki sé rétt eftir honum haft eða hann hafi ekki viðhaft ofangreind ummæli, sé kröfu um ómerkingu ummælanna beint að stefnda Eiríki Jónssyni, sem höfundi opnugreinarinnar, og á þeim grundvelli verði ummælin i kröfulið 3(A til C) dæmd dauð og ómerk.

Miskabótakrafa

Stefnandi byggir á því að tilvitnuð ummæli stefndu, sem viðhöfð voru í Séð og heyrt hafi fengið mjög á stefnanda andlega, enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða, sem bæði séu rangar og bornar fram án þess að stefndu hafi nokkuð haft fyrir sér.  Einnig sé ljóst að virðing stefnanda hafi beðið hnekki, sem og æra hennar og persóna, þar sem því er haldið fram um stefnanda að hún sé vanskilamanneskja, sem standi ekki við gerða samninga.

Stefnandi sé fjárfestir og því skipti orðspor hennar í viðskiptum hana afar miklu máli. Sú háttsemi stefndu að bera út þau ósannindi um stefnanda að hún sé vanskilamanneskja sem standi ekki við gerða samninga hafi því valdið henni umtalsverðu tjóni.  Fjöldi fólks lesi Séð og heyrt og því hafi útbreiðsla ummæla sem stefndu viðhöfðu um stefnanda verið mikil og náð til fjölda fólks, enda ummælin endurtekin ítrekað.  Séð og heyrt sé gefið út í hagnaðarskyni og hvatinn að baki frétt stefndu einungis aukin hagnaðarvon.  Séð og heyrt sé, samkvæmt upplýsingum í blaðinu, mest lesna glanstímarit á Íslandi, en telja verði að töluvert fleiri lesi hvert eintak heldur en sá einn sem festir kaup á eintakinu, þar sem Séð og heyrt liggi víða frammi á biðstofum lækna, hárgreiðslu- og snyrtistofum og fleiri stöðum.

Almenn og sérstök varnaðaráhrif skaðabótareglna standi því til þess að stefnanda verði dæmdar háar miskabætur.  Þess beri einnig að geta að Séð og heyrt birtir forsíðu sína í öðrum fjölmiðlum í auglýsingaskyni og þannig fá hin umstefndu ummæli aukna dreifingu.  Auk þessa birtir Séð og heyrt auglýsingar í hljóðvarpi þar sem fyrirsagnir af forsíðu eru gjarnan birtar.  Almenn og sérstök varnaðaráhrif skaðabótareglna standi því til þess að stefnanda verði dæmdar háar miskabætur.

Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Við mat á miskabótum vísi stefnendur einnig til grunnraka að baki 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Málsaðild

Vísað sé til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt varðandi varnaraðild stefnda, Eiríks Jónssonar, en hann er höfundur umfjöllunarinnar sem birtist í 47. tbl. Séð og heyrt.

Um varnaraðild stefnda, Mikaels Torfasonar, vegna ábyrgðar hans á fyrirsögn blaðsins sé vísað til 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 122/1992.  en um varakröfu á hendur stefnda Eiríki Jónssyni, vegna fyrirsagnarinnar, sé vísað til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956, sbr. sératkvæði í dómi Hæstaréttar nr. 122/1992, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

Um varnaraðild stefnda, Þorsteins Svans, sé vísað til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, en um varakröfu á hendur stefnda, Eiríki Jónssyni, sé vísað til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

Með vísan til þess er segi hér að framan sé ljóst að stefndu beri refsi- og fébótaábyrgð á efni umfjöllunar um stefnanda í 47. tbl. Séð og heyrt.

Varnarþing

Um varnarþing stefndu Eiríks og Mikaels sé vísað til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Um varnarþing stefnda Þorsteins Svans sé byggt á heimild í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Tjáningarfrelsi stefndu

Hvað varðar tjáningarfrelsi stefndu vísar stefnandi til 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en tjáningarfrelsi njóti ekki verndar þegar brotið sé gegn mannorði annarra manna.

Málskostnaðarkrafa

Þess sé krafist að stefndu greiði stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og sé krafan byggð 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Þess er krafist að dæmdur málskostnaður beri virðisaukaskatt.

Lagarök

Um lagarök vísar stefnandi til 234., 235., 236. og 1. og 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og grunnraka þeirra sem búa að baki framangreindum lagagreinum.  Einnig vísar stefnandi til laga nr. 57/1956, um prentrétt, einkum 2. og 3. mgr. 15. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra skaðabótareglna, s.s. reglunnar um vinnuveitandaábyrgð og sakarreglunnar.  Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti á miskabótakröfu er byggð á IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.  Þá er krafa um málskostnað byggð á 130. gr. l. nr. 91/1991.  Einnig er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, s.s. hvað varðar varnarþing, málsaðild og málskostnað.

Málsástæður og lagarök stefnda, Þorsteins Svans Jónssonar

Sýknukröfur stefnda byggjast í fyrsta lagi á því að hann hafi ekki komið að umfjöllun tímaritsins Séð og heyrt og ekki ráðið orðavali og/eða uppsetningu og einstök ummæli hafi ekki verið höfð beint eftir honum.  Þegar af þeim sökum verði ummæli, sem höfð séu eftir einstaklingi, af blaðamanni ekki dæmd dauð og ómerk eða refsiverð hvað hann varðar.

Í því sambandi sé á það bent að umbjóðandi minn viðhafi ekki umrædd ummæli. Hann hafi í raun ekkert með þau að gera.  Ummælin og efnistökin séu tímaritsins en ekki stefnda.  Ummæli sem blaðamaður hafi þannig eftir einstaklingi geti því á engan hátt varðað viðurlögum eða verið dæmd dauð og ómerk þar sem viðkomandi einstaklingur hafi ekki haft með birtinguna eða umfjöllunina að gera.

Þau ummæli sem krafist er að verði dæmd dauð og ómerk séu orð sem eigi að vera höfð eftir stefnda, varði tilvísun í hann þegar hann skýri blaðamanninum frá því að stefnandi hafi ekki greitt ákveðna kostnaðarliði og skuldi því.  Stefndi dragi þá eðlilega þá ályktun að stefnandi hafi ekki handbært fé til að greiða umræddan kostnað og gjöld. Fyrir liggi að þau gjöld og þær flísar sem nefndar séu í umræddri umfjöllun höfðu ekki verið greiddar þegar stefndi átti ræddi við blaðamann tímaritsins Séð og heyrt. Aðspurður hafi stefndi gert blaðamanninum grein fyrir því og þeirri ályktun sinni að viðsemjanda hans, stefnanda málsins, hlyti að vera fjár vant fyrst stefnandi greiddi ekki það sem henni bæri að greiða.  Þau ummæli sem höfð séu eftir stefnda hafi því verið rétt þegar þau voru viðhöfð, þ.e. að stefnandi hafði ekki greitt það sem talað er um og sú ályktun stefnda að það stafi af lausafjárskorti stefnanda sé þar af leiðandi ekki óeðlileg.

Í máli þessu gildi meginreglan um exceptio veritas eða að sannleikurinn sé refsilaus, og í viðtali sínu við blaðamann tímaritsins hafi stefndi sagt blaðamanninum frá viðskiptum og samskiptum sínum við stefnanda, eins og þau höfðu gengið til og hafi, með réttum hætti og trúverðugum, gert honum grein fyrir þeim viðskiptum.  Stefndi hafi hins vegar ekkert haft með efnistök að gera eða hvernig blaðamaður kaus að hafa hluti eftir stefnda eða setja í beina ræðu.  Allt hafi það verið ákvörðun blaðamannsins en ekki stefnda, Þorsteins Svans.

Þegar svo hátti til eins og hér, þar sem blaðamaður nafngreini sig og ritstjóri sé ábyrgðarmaður viðkomandi tímarits, verði einstaklingur, sem ummæli séu höfð eftir, ekki sakfelldur vegna þeirra eða ummælin hvað hann varðar dæmd dauð og ómerk.  Stefndi beri í raun enga ábyrgð á því hvað haft sé eftir honum í beinni ræðu en hann kannist hins vegar við það að hafa gefið blaðamanni tímaritins þær upplýsingar sem leitt hafi til þeirra ályktana sem blaðamaðurinn hafi síðan dregið í umræddri blaðagrein.

Þegar greinin birtist hafi stefndi átt í deilu við stefnanda.  Stefnandi hafi dregið mjög greiðslur til hans og þar hafi verið um háar fjárhæðir að ræða.  Sú ályktun stefnda, og það sem eftir honum sé haft, hafi því verið eðlilegt eins og á stóð.

Hvað varðar refsikröfu þá hafi stefndi ekki bakað sér refsingu og beri að sýkna hann af refsikröfu þeirri sem höfð sé uppi í málinu.  Ekkert af þeim refsilagaákvæðum sem stefnandi vísi til í stefnu eigi við um stefnda, Þorstein Svan.  Af ofangreindum ástæðum, og með vísan til þess sem segi hér að framan, sé einnig krafist sýknu af refsikröfunni.

Af hálfu stefnda er vísað til ákvæðis 73. gr. stjórnarskrárinnar.  Jafnframt er vísað til 71. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá er vísað til 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindi. Einnig er vísað til 1. nr. 57/1956 um prentrétt og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 einkum hvað varðar málskostnað.

Málsástæður og lagarök stefndu, Eiríks Jónssonar og Mikaels Torfasonar

Á því er byggt að skoða verði umfjöllun blaðsins í heild þegar metið sé hvort hún sé innan lögvarinna heimilda.

Stefndu byggja á því að umrædd umfjöllun í Séð og heyrt sé að öllu leyti innan marka tjáningar- og ritfrelsis enda beri að játa fjölmiðlum rúmar heimildir í þeim efnum.

Verður nú fjallað um einstaka liði í kröfugerð stefnanda:

1.Ómerkingarkrafa á hendur stefnda Eiríki Jónssyni.

Stefndi byggir á að það sem krafist sé ómerkingar á sé haft eftir meðstefnda og sé innan lögvarins tjáningarfrelsis.  Þá beri að skoða setningar þessar í samhengi við greinina sjálfa og efni hennar að öðru leyti.

2.Ómerkingarkrafa, aðallega á hendur Mikael Torfasyni og til vara á hendur Eiríki Jónssyni.

Af hálfu stefnanda sé á því byggt að setning sú sem krafist sé ómerkingar á sé ósönn.  Eins og áður greini beri setningin með sér að hún stafar frá Þorsteini Svani.  Á því sé byggt að stefndu beri ekki ábyrgð á efni tilgreindrar setningar.

Þá liggi fyrir að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi, á þessum tíma, verið í gangi dómsmál milli stefnanda og Þorsteins Svans þar sem Þorsteinn krafði stefnanda þessa máls um verulega fjármuni.  Það geti því á engan hátt talist ólögmætt að segja frá viðhorfi meðstefnda, Þorsteins Svans, með þeim hætti sem gert var enda verður ekki um það deilt og staðfestist með gögnum í máli þessu að stefnandi hafði á því tímamarki sem umfjöllun birtist ekki greitt meðstefnda það sem hann taldi sig eiga rétt á.

Á því er byggt að hin tilvitnuðu orð geti ekki talist fela í sér ærumeiðandi ummæli enda njóti stefnandi ekki sérstakrar verndar vegna ríkisdæmis síns þegar fjallað sé um það hvort eitthvað hafi verið greitt eður ei.

3.Ómerkingarkrafa, aðallega á hendur meðstefnda en til vara á hendur Eiríki Jónssyni.

Stefndi byggir í fyrsta á lagi á því að hann beri ekki ábyrgð á tilvitnuðum orðum enda séu þau höfð beint eftir Þorsteini Svani.

Í öðru lagi er á því byggt að umræddar setningar séu innan marka tjáningarfrelsis þegar af þeirri ástæðu að verið er að lýsa skoðunum en ekki fullyrðingum um staðreyndir.

Á framangreindum grundvelli sé þess krafist að stefndu verði sýknaðir af ómerkingarkröfum stefnanda.  Af þeirri niðurstöðu leiði að sýkna beri stefndu af öllum fjárkröfum stefnanda í 4.-7. tl. kröfugerðar í stefnu.

Því er sérstaklega andmælt að uppfyllt séu skilyrði til að dæma stefnanda miskabætur úr hendi stefndu. Þá sé fjárhæð miskabótakrafna mótmælt sérstaklega. Stefndu mótmæla því að fjárhæð miskabóta eigi að ráðast af viðskiptahagsmunum stefnanda eða varnaðaráhrifum.  Telji stefnandi sig hafa orðið fyrir fjártjóni beri henni að sanna það en ekki sé unnt að hafa til hliðsjónar við mat á miskabótum að stefnandi telji sig geta orðið fyrir fjártjóni.  Þá verður vart séð að æruvernd, fyrir því að tala um vanskil eða að menn greiði ekki, aukist eftir því sem efni fólks séu meiri eða það sé þekktara í þjóðfélaginu.

Vaxtakröfum er einnig mótmælt enda þær með öllu vanreifaðar.  Verði fallist á miskabætur að einhverju leyti er því haldið fram að eins og kröfugerð og málatilbúnaði stefnanda sé háttað eigi ekki að dæma vexti fyrr en frá dómsuppsögudegi.

Kröfugerð um að dómur í máli þessu verði birtur í Séð og heyrt er mótmælt sérstaklega.  Á því er byggt að ekki verði dæmt um slíka kröfu án aðildar útgefanda þess blaðs sem krafan beinist gegn. 

Af hálfu stefndu er vísað til 73. gr. stjórnarskrár Íslands hr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá er vísað til laga nr. 57/1956, sbr. sérstaklega V. kafli og 22. gr.

Niðurstaða

Fram er komið í málinu að stefnandi keypti af stefnda, Þorsteini Svani Jónssyni, einbýlishús sem var í byggingu.  Óumdeilt er að stefnandi greiddi meginhluta kaupverðsins en ágreiningur var um aukaverk.  Þá var stefnandi ekki fullkomlega sátt við frágang.  Fyrir liggur að stefndi, Þorsteinn Svanur, höfðaði mál á hendur stefnanda vegna þessa ágreinings og var það þingfest skömmu áður en umdeild ummæli birtust í Séð og heyrt.  Aðilar náðu samkomulagi og var málið fellt niður 5. janúar sl.

Umdeild ummæli eru sprottin af þessum ágreiningi.

Umrædd blaðagrein í Séð og heyrt er rituð af stefnda, Eiríki Jónssyni.  Ber hann ábyrgð á efni hennar, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.

Í fyrsta kröfulið í stefnu gerir stefnandi þá kröfu á hendur stefnda, Eiríki Jónssyni, að eftirgreind ummæli verði dæmd dauð og ómerk en þessi ummæli voru birt í þeirri grein er Eiríkur ritaði.

A. „Þóra er blönk“

B. „Þóra Guðmundsdóttir í Atlanta hefur látið byggja stærsta einbýlishús í

Kópavogi í Asparhvarfi en gallinn er bara sá að hún hefur ekki enn borgað krónu í því.“

C. „Hann er bíða eftir 120 milljónum frá einni ríkustu konu landsins. Sjálfur er hann farinn að halda að Þóra sé blönk.“

D. „Svanur í Trompverki segist hafa ætlað að afhenda Þóru húsið fyrir ári en ekki gert það þar sem hún hafi ekki enn borgað krónu í því.“

Efst á opnu þeirri sem umrædd grein birtist segir að Svanur Jónsson sitji uppi með 120 milljóna höll við Asparhvarf.  Þá er með orðinu peningar, sem letrað er stórum stöfum og upphrópunarmerki, gefið í skyn að greinin fjalli um peninga.  Fyrirsögn greinarinnar „Þóra er blönk“ er letruð stórum stöfum og þar undir með ofurlítið smærra letri „Þóra Guðmundsdóttir í Atlanta hefur látið byggja stærsta einbýlishús í  Kópavogi í Asparhvarfi en gallinn er bara sá að hún hefur ekki enn borgað krónu í því.“

Í greininni er ekkert fjallað um raunverulegan ágreining aðila eða málavexti að öðru leyti heldur einungis látið að því liggja að stefnandi hafi ekkert greitt fyrir það hús er hún fékk Þorstein Svan til að byggja fyrir sig.  Enda þótt í myndtexta segi að stefnandi sé ein af ríkustu konum landsins miðar framsetning greinarinnar að því að undirstrika að stefnandi standi ekki í skilum með gerða samninga og eigi í stórfelldum vanskilum við Þorstein Svan.  Er ekki fallist á með stefnda að ljóst sé af umfjöllun og framsetningu greinarinnar að ekki sé í alvöru verið að fjalla um að stefnandi eigi ekki lengur fjármuni enda á stefnandi ekki að þurfa að sæta því að um hana sé fjallað með slíkum hætti.  Stefnandi er fjárfestir og orðspor hennar í viðskiptalífinu því mikilvægt.  Telja verður að framangreind ummæli, sem eiga ekki við rök að styðjast, séu óviðurkvæmileg, ærumeiðandi og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda sem persónu og fjárfestis.  Ber með vísan til 241. gr. laga nr. 19/1940 að ómerkja þau.

Í öðrum kröfulið í stefnu gerir stefnandi kröfu til þess að ómerkt verði ummæli sem eru á forsíðu blaðsins.  Ummælin eru „Þóra í Atlanta borgar mér ekki.“  Telja verður að ritstjóri blaðsins, Mikael Torfason, beri, sem slíkur, ábyrgð á framsetningu þessara ummæla.  Er ekki fallist á að í þessum ummælum einum og sér felist móðgun eða aðdróttun í garð stefnanda.  Teljast þau ekki óviðurkvæmileg eins og þau eru fram sett og ber því að sýkna stefnda, Mikael Torfason, af þessari kröfu stefnanda.

Í þriðja kröfulið í stefnu er krafist ómerkingar á eftirgreindum ummælum:

A. „Hún hlýtur að vera orðin blönk ...“

B .„Og hún virðist svo blönk að hún hefur ekki einu sinni greitt gatnagerðargjöldin, hvað þá sérpöntuðu flísarnar frá Kína sem ég pantaði og klæddi húsið með að utan.“

C. „Nema hún sé orðin blönk ...“

Kröfu þessari er aðallega beint að stefnda, Þorsteini Svani, en til vara að stefnda, Eiríki Jónssyni. 

Af hálfu stefnda, Þorsteins Svans, er á því byggt að hann hafi ekki viðhaft tilgreind ummæli og séu þau ekki höfð beint eftir honum.  Hann hafi einungis sagt blaðamanni réttilega frá samskiptum sínum við stefnanda eins og þau hafi gengið til en  hins vegar hafi hann ekkert haft með efnistök blaðsins að gera eða hvernig blaðamaður kaus að hafa það sem hann sagði eftir honum eða setja það í beina ræðu.

Ósannað er að umrædd ummæli séu höfð beint eftir stefnda, Þorsteini Svani.  Ekkert liggur fyrir um það í málinu hvaða orð Þorsteinn Svanur viðhafði um viðskipti sín við stefnanda í umræddu viðtali.  Þá liggur ekki fyrir að Þorsteinn Svanur hafi haft neitt með birtingu á umræddu efni að gera eða framsetningu og efnistök blaðsins.  Að því virtu þykir verða að sýkna hann af kröfum stefnanda í málinu.  Stefndi, Eiríkur Jónsson, telst hins vegar, sem höfundur greinarinnar, bera ábyrgð á efni hennar.

Enda þótt ofangreind ummæli séu sett fram sem vangaveltur Þorsteins Svans er ósannað, sbr. það sem áður er rakið, að ummælin séu eftir honum höfð.  Ummælin eru tilhæfulaus, ærumeiðandi og óviðurkvæmileg í því samhengi sem þau eru fram sett og ber að ómerkja þau.

Fallist er á með stefnanda að í þeim ummælum sem ómerkt verða felist meingerð gegn persónu og æru stefnanda sem höfundur greinarinnar sem ummælin birtust í, stefndi Eiríkur Jónsson, ber miskabótaábyrgð á samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.  Eftir atvikum þykja bætur til handa stefnanda hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.  Vaxtakrafa stefnanda fram til 5. janúar 2007 er vanreifuð.  Dráttarvaxta er krafist frá 5. janúar 2007 en eftir atvikum ber að taka kröfu um dráttarvexti til greina frá dómsuppsögudegi. 

Stefnandi krefst þess að forsendur og dómsorð í dómi þessum verði birt í næsta tölublaði Séð og heyrt eftir að dómur fellur, sbr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.  Stefndu mótmæla þessari kröfu stefnanda.  Er því haldið fram að ekki verði dæmt um þessa kröfu án aðildar útgefanda þess blaðs sem krafan beinist gegn.

Af stefnu verður ekki ráðið gegn hverjum hinna stefndu umrædd krafa beinist.  Fær krafan enga umfjöllum í málsástæðum stefnanda í stefnu og er hún ekki rökstudd en einungis, í sjálfri kröfunni, vísað til 22. gr. laga nr. 57/1956.  Er þessi krafa stefnanda ekki nægilega reifuð og ber að vísa henni frá dómi ex officio.

Eftir atvikum ber að fella niður málskostnað milli stefnanda og stefndu, Þorsteins Svans Jónssonar og Mikaels Torfasonar.  Stefndi, Eiríkur Jónsson, greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Þorsteinn Svanur Jónsson og Mikael Torfason, skulu vera sýknir af kröfum stefnanda Þóru Guðmundsdóttur.

Ummæli sem tilgreind eru í kröfulið 1 og kröfulið 3 hér að framan skulu vera dauð og ómerk.

Stefndi, Eiríkur Jónsson, greiði stefnanda, Þóru Guðmundsdóttur, 500.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá 31. október 2007 til greiðsludags.

Kröfu um að forsendur og dómsorð í dómi þessum verði birt í næsta tölublaði Séð og heyrt er vísað frá dómi ex officio.

Málskostnaður á milli stefnanda og stefndu, Þorsteins Svans Jónssonar og Mikaels Torfasonar, fellur niður.  Stefndi, Eiríkur Jónsson, greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.