Print

Mál nr. 575/2008

Lykilorð
  • Friðhelgi einkalífs
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. maí 2009.

Nr. 575/2008.

Lucia Celeste Molina Sierra og

Birnir Orri Pétursson

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

Páli Magnússyni

Helga Seljan Jóhannssyni

Jóhönnu Vilhjálmsdóttur

Sigmari Guðmundssyni og

Þórhalli Gunnarssyni

(Kristján Þorbergsson hrl.)

 

Friðhelgi einkalífs. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá.

L og B höfðuðu mál til heimtu bóta vegna miska sem þau töldu sig hafa orðið fyrir vegna umfjöllunar P, H, J, S og Þ í dægurmálaþættinum Kastljósi og í fréttatímum útvarps og sjónvarps Ríkisútvarpsins um umsókn L um íslenskan ríkisborgararétt. Kjarni umfjöllunarinnar var hvort meðferð umsóknarinnar hefði verið óeðlileg og það helgast af tengslum L við þáverandi umhverfisráðherra. Var málatilbúnaður L og B reistur á því að umfjöllunin hefði falið í sér ólögmæta meingerð í þeirra garð. Taldi Hæstiréttur að ætla yrði fjölmiðlum svigrúm til umfjöllunar um málefni sem þetta, sem ætti erindi til almennings og væri hluti af þjóðfélagsumræðu. Viðleitni H, J, S og Þ til að sýna fram á að afgreiðsla umsóknar L væri tortryggileg og að valdi hefði verið misbeitt hefði ekki beinst að L og B heldur að þáverandi umhverfisráðherra og allsherjarnefnd Alþingis. Hins vegar var talið að umfjöllun H, J, S og Þ í Kastljósi og viðleitni þeirra til að sýna fram á að meðferð og afgreiðsla umsóknar L hefði verið óeðlileg hefði borið ofurliði vilja þeirra til að fara rétt með staðreyndir og til að leiðrétta rangfærslur og gera viðhlítandi grein fyrir lagagrundvelli málsins. Þótt fallast mætti á með L og B að P, H, J, S og Þ hefðu í ýmsum atriðum brotið þær skyldur sem á þeim hvíldu í starfi og ekki sýnt L og B þá tillitssemi sem ætlast hefði mátt til, þá hefði umfjöllunin um persónuleg atriði sem L og B vörðuðu verið svo samofin málefninu að útilokað hefði verið að greina þar skýrlega á milli. Yrðu einstaklingar að nokkru marki að þola að persónuleg málefni, er þá varða, kæmu í slíkum tilvikum til almennrar umfjöllunar. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu af kröfum L og B um miskabætur og að ekki væru skilyrði til að dæma refsingu vegna brota á 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 23. október 2008. Þau krefjast þess að stefndu verði dæmd til að greiða óskipt áfrýjandanum Luciu Celeste Molina Sierra 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. október 2007 til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að stefndu greiði óskipt áfrýjandanum Birni Orra Péturssyni 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. október 2007 til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur að stefndu verði hvert fyrir sig dæmd til ítrustu refsingar fyrir brot gegn 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Jafnframt er þess krafist að þeim verði gerð vararefsing samkvæmt 1. mgr. 54. gr. sömu laga verði þau dæmd til greiðslu sektar. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Fallist er á með héraðsdómi að ekki geti komið til refsi- eða fébótaábyrgðar á útvarps- eða sjónvarpsefni um málefni sem flutt var af öðrum en stefndu í máli þessu og að stefndi Páll Magnússon beri sem útvarpsstjóri ekki ábyrgð á efni, sem flutt er af öðrum, sbr. a., b. og d. lið 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000. Eins og málið er vaxið getur því einungis komið til ábyrgðar þessa stefnda vegna efnis sem hann flutti í kvöldfréttatíma í sjónvarpi Ríkisútvarpsins 4. maí 2007.

II

Tilefni máls þessa er umfjöllun stefndu í Kastljósi, sem er dægurmálaþáttur í sjónvarpi þar sem fjallað er meðal annars um stjórnmál, og í fréttatímum útvarps og sjónvarps Ríkisútvarpsins um umsókn áfrýjandans Luciu um íslenskan ríkisborgararétt. Fjallað var um afgreiðslu umsóknarinnar í stjórnsýslunni og hjá allsherjarnefnd Alþingis. Kjarni umfjöllunarinnar var hvort meðferð umsóknarinnar hefði verið óeðlileg og það helgast af tengslum áfrýjandans við þáverandi umhverfisráðherra í ríkisstjórn Íslands. Beindist umfjöllunin einkum að því hvort ráðherrann kynni að hafa beitt áhrifum sínum í því skyni að tryggja að þessi áfrýjandi fengi ríkisborgararétt fyrr en hún ella hefði fengið. Ætla verður fjölmiðlum svigrúm til umfjöllunar um málefni sem þetta, enda snýst það um athugun á því hvernig stjórnsýslan og kjörnir fulltrúar á Alþingi fara með vald, sem þeim er fengið með lögum. Málefni sem þetta er hluti af almennri þjóðmálaumræðu og á brýnt erindi til almennings. Mikilvægt er að fjölmiðlar gæti við slíka umfjöllun að skyldum sínum samkvæmt lögum og brjóti ekki gegn stjórnarskrárvernduðum rétti einstaklinga til friðhelgi um einkalíf sitt. Í lögum eru fyrirmæli um hvernig haga eigi slíkri umfjöllun. Í 9. gr. útvarpslaga er sú skylda lögð á útvarpsstöðvar að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum. Í lögum nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. er kveðið á um sambærilegar skyldur og jafnframt mælt fyrir um að gætt skuli fyllstu óhlutdrægni í frásögn og túlkun. Um skyldur er lúta að fréttaþjónustu segir í 7. tölulið 2. mgr. 3. gr. þeirra laga, að það sé meðal skyldna Ríkisútvarpsins ohf. að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir í málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða. Í samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu, sem menntamálaráðuneytið hefur gert við Ríkisútvarpið ohf. á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2007, eru sambærilegar skyldur Ríkisútvarpsins áréttaðar. Í 2. gr. samningsins kemur fram að stofnunin skuli með vönduðum hætti miðla fréttum, menningarefni og fleiru. Þá er einnig kveðið á um skyldu þess til að flytja fréttir og fréttatengt efni af sanngirni og hlutlægni. Í 5. mgr. 2. gr. samningsins segir meðal annars: ,,Fjalla skal um umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni af nákvæmni og óhlutdrægni.“

Í þessum fyrirmælum felst meðal annars að Ríkisútvarpinu ohf. er skylt, þegar þörf krefur, að gera með upplýsandi hætti grein fyrir því lagaumhverfi, sem þýðingu hefur til þess að fréttir, fréttatengt efni og umfjöllun um umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni verði á réttum forsendum þannig að almenningi sé gert kleift að taka afstöðu til álitaefna.

III

Efnisleg umfjöllun um málefnið, sem er tilefni þessa máls, hófst í þættinum Kastljósi 26. apríl 2007 með greinargerð stefnda Helga Seljan að undangenginni stuttri kynningu stefnda Þórhalls. Í greinargerð sinni fjallaði stefndi Helgi Seljan um ýmis skilyrði þess að menn fái íslenskan ríkisborgararétt og hvernig hann sé veittur samkvæmt þeim reglum sem giltu. Hann gerði einnig grein fyrir atvikum sem tengdust umsókn áfrýjandans Luciu um íslenskan ríkisborgararétt og hvernig slík mál eru unnin á vettvangi allsherjarnefndar Alþingis. Umfjöllun um hvernig menn fá íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt reglum laga nr. 100/1952 um það efni, eins og þeim var þá skipað, og hvaða munur var á þeim þremur meginleiðum sem til greina komu til þess að menn fengju íslenskan ríkisborgararétt var ófullnægjandi. Ekki var gerð grein fyrir þeim skýra mun sem var á veitingu dómsmálaráðherra á ríkisborgararétti með stjórnvaldsákvörðun á grundvelli lögbundinna skilyrða, sbr. 5. gr. a í lögunum og á því hvernig Alþingi veitir íslenskan ríkisborgararétt með lögum, sem eðli málsins samkvæmt er ekki reist á því að fullnægt sé lögbundnum skilyrðum, en háð umsögn lögreglustjóra og Útlendingastofnunar, sbr. 6. gr. laganna. Þá var í greinargerð stefnda Helga Seljan fjöldi rangra og misvísandi fullyrðinga, auk ónákvæmni. Rangt var farið með grundvöll dvalarleyfis áfrýjandans Luciu, fjölda þeirra sem sóttu um íslenskan ríkisborgararétt til Alþingis á vorþingi 2007 og fjölda þeirra sem fengu ríkisborgararétt. Þá voru rangar fullyrðingar um mismunandi aðstæður umsækjenda um ríkisborgararétt sem afgreiddur var samtímis umsókn áfrýjandans og um afstöðu Útlendingastofnunar til umsóknar hennar. Sumar fullyrðingarnar lutu að atriðum sem skiptu verulegu máli fyrir almenning til þess að geta lagt mat á málefnið í heild sinni og tekið afstöðu til þess, hvort valdi hefði verið misbeitt.

Málefnið var aftur til umfjöllunar í sama þætti 27. apríl 2007. Í kynningu stefnda Þórhalls komu fram ýmsar rangfærslur, svo sem að Útlendingastofnun hefði hafnað umsókn áfrýjandans Luciu um íslenskan ríkisborgararétt og um dvalartíma hennar í landinu. Villandi upplýsingar komu að auki fram í kynningunni, svo sem að allsherjarnefnd Alþingis hefði ákveðið að veita henni íslenskan ríkisborgararétt. Að kynningunni lokinni átti stefndi Helgi Seljan viðtal við þáverandi umhverfisráðherra, tengdamóður áfrýjandans Luciu og móður áfrýjandans Birnis Orra. Ýmsar spurningar í viðtalinu fólu í sér rangfærslur, en efni þess laut þó öðru fremur að því hvort ráðherrann hefði leitast við að beita áhrifum sínum við meðferð og afgreiðslu umsóknarinnar.

Málið var til umfjöllunar í sama þætti 30. apríl 2007. Þar flutti stefndi Þórhallur kynningu í upphafi, þar sem enn var farið rangt með ýmsar staðreyndir, til dæmis um lengd dvalartíma áfrýjandans Luciu í landinu, þótt leitast hefði verið við að leiðrétta það af hálfu þáverandi umhverfisráðherra og annarra. Meginefni umfjöllunarinnar þetta sinn var greinargerð stefnda Sigmars um skilyrði fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar og um umsókn áfrýjandans Luciu og efni hennar. Greinargerð þessi um skilyrði fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar var bæði röng og ónákvæm í ýmsum atriðum og veitti ekki skýra mynd af því hvernig reglum um efnið var skipað. Enn var farið rangt með dvalartíma áfrýjandans Luciu í landinu og umfjöllunin um skilyrði þess hve dvalartími þyrfti að vera langur til að fallist væri á umsókn var villandi. Í þessum þætti var lesið upp úr umsókn þessa áfrýjanda um íslenskan ríkisborgararétt og umsóknin sýnd í mynd, en strikað hafði verið yfir nafn áfrýjandans Birnis Orra.

Málefnið var enn til umfjöllunar í sama þætti 2. maí 2007. Í kynningu stefnda Þórhalls var enn farið rangt með nokkrar staðreyndir, svo sem um dvalartíma áfrýjandans Luciu í landinu, lengd afgreiðslutíma umsóknar hennar og fjallað með villandi hætti um lengd afgreiðslutíma umsókna, annars vegar hjá dómsmálaráðuneyti þegar sótt er um ríkisborgararétt á grundvelli 5. gr. laga nr. 100/1952 og hins vegar þegar sótt er um til Alþingis samkvæmt 6. gr. laganna. Meginefni þáttarins var viðtal stefndu Jóhönnu við Bjarna Benediktsson, þáverandi formann allsherjarnefndar Alþingis. Spurningar þessarar stefndu í þættinum voru um sumt reistar á röngum staðhæfingum, svo sem um atriði sem misfarið var með í kynningu og gerð hefur verið grein fyrir.

Loks er að geta lestrar stefnda Páls á frétt um málið í fréttatíma sjónvarps Ríkisútvarpsins 4. maí 2007, kl. 19. Þá var birt mynd af umsókn áfrýjandans Luciu þar sem sjá mátti ýmsar persónuupplýsingar án þess að yfir þær hefði verið strikað.

Umfjöllun stefndu um málið í Kastljósi og viðleitni þeirra til að sýna fram á að meðferð og afgreiðsla umsóknar áfrýjandans Luciu í stjórnsýslunni og hjá allsherjarnefnd Alþingis hefði verið óeðlileg, bar ofurliði vilja þeirra til að fara rétt með staðreyndir og til að leiðrétta rangfærslur og gera viðhlítandi grein fyrir lagagrundvelli málsins.

IV

Áfrýjendur reka mál þetta til heimtu bóta vegna miska sem þau telja sig hafa hlotið við umfjöllun stefndu. Málatilbúnaður áfrýjenda er reistur á því að umfjöllunin hafi falið í sér ólögmæta meingerð í þeirra garð. Kröfur þeirra að þessu leyti eru um miskabætur og reistar á b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Eins og áður greinir verður að ætla fjölmiðlum svigrúm til umfjöllunar um málefni eins og hér um ræðir, sem á erindi til almennings og er hluti af þjóðmálaumræðu. Viðleitni stefndu Þórhalls, Sigmars, Helga Seljan og Jóhönnu til þess að sýna fram á að afgreiðsla umsóknar áfrýjandans Luciu væri tortryggileg og að valdi hefði verið misbeitt, beindist ekki að áfrýjendum, heldur að þáverandi umhverfisráðherra og allsherjarnefnd Alþingis, einkum þeim þremur alþingismönnum sem sæti áttu í undirnefnd er undirbjó afgreiðslu nefndarinnar á umsóknum til Alþingis um íslenskan ríkisborgararétt. Þótt fallast megi á með áfrýjendum að stefndu hafi í ýmsum atriðum brotið þær skyldur sem á þeim hvíla í starfi, og gerð er grein fyrir að framan, og ekki sýnt áfrýjendum þá tillitssemi sem ætlast mætti til, þá var umfjöllunin um persónuleg atriði sem áfrýjendur varðar svo samofin málefninu að útilokað var að greina þar skýrlega á milli. Verða einstaklingar að nokkru marki að þola að persónuleg málefni, er þá varða, komi í slíkum tilvikum til almennrar umfjöllunar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 541/2005, sem birtur er á bls. 2759 í dómasafni réttarins 2006. Verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefndu af kröfum áfrýjenda um miskabætur því staðfest með þessum athugasemdum.

Niðurstaða héraðsdóms um að ekki séu skilyrði til að dæma stefndu refsingu vegna brota á 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga verður staðfest með vísan til forsendna hans.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Luciu Celeste Molina Sierra og Birni Orra Péturssyni, báðum til heimilis að Laugavegi 103, Reykjavík, á hendur Páli Magnússyni, Sunnuflöt 14, Garðabæ, Helga Seljan Jóhannssyni, Snorrabraut 30, Reykjavík, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, Eskihlíð 21, Reykjavík, Sigmari Guðmundssyni, Kórsölum 1, Kópavogi og Þórhalli Gunnarssyni, Nýlendugötu 24, Reykjavík, með stefnu birtri  26. október 2007.

Stefnendur gera þær dómkröfur að stefndu, Páll Magnússon, Helgi Seljan Jóhannsson, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Sigmar Guðmundsson og Þórhallur Gunnarsson, verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda Luciu Celeste Molina Sierra 2.500.000 krónur í miskabætur skv. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi til greiðsludags, vegna brots á friðhelgi einkalífs hennar og ólögmætrar meingerðar gegn æru hennar og persónu við umfjöllun um umsókn hennar um íslenskan ríkisborgararétt í fréttatímum og Kastljósþáttum Ríkisútvarpsins á tímabilinu 26. apríl til 4. maí 2007 en þó sérstaklega að kvöldi 30. apríl 2007.

Þá krefjast stefnendur þess að stefndu, Páll Magnússon, Helgi Seljan Jóhannsson, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Sigmar Guðmundsson og Þórhallur Gunnarsson, verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda Birni Orra Péturssyni 1.000.000 króna í miskabætur skv. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi til greiðsludags, vegna brots á friðhelgi einkalífs hans og ólögmætrar meingerðar gegn æru hans og persónu við umfjöllun um umsókn stefnanda Luciu Celeste Molina Sierra um íslenskan ríkisborgararétt í fréttatímum og Kastljósþáttum Ríkisútvarpsins á tímabilinu 26. apríl til 4. maí 2007 en þó sérstaklega að kvöldi 30. apríl 2007.

Loks krefjast stefnendur þess að stefndu, Páll Magnússon, Helgi Seljan Jóhannsson, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Sigmar Guðmundsson og Þórhallur Gunnarsson, verði hvert fyrir sig dæmt til ýtrustu refsingar fyrir brot á 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, fyrir umfjöllun í fréttatímum og Kastljósþáttum Ríkisútvarpsins á tímabilinu 26. apríl til 4. maí 2007, en þó einkum að kvöldi 30. apríl. Jafnframt er þess krafist að þeim verði gerð vararefsing skv. 1. mgr. 54. gr. sömu laga verði þau dæmd til greiðslu sektar.

Þá er að auki krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndu krefjast þess að verða sýknuð af öllum kröfum stefnenda, eins og þær eru settar fram í stefnu, en til vara að þau verði sýknuð að hluta og að málskostnaður falli niður.

Þá er þess krafist að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.  

Málsatvik

Málavextir eru þeir að stefnandi, Lucia Celeste Molina Sierra, sótti um íslenskan ríkisborgararétt til dómsmálaráðuneytisins með umsókn dagsettri 5. mars 2007. Stefnandi, Lucia, hafði þá dvalið á Íslandi frá því í lok október 2005 eða í u.þ.b. 17 mánuði. Með umsókninni sendi stefnandi Lucia meðmæli. Þar sem fyrir lá að stefnandi Lucia uppfyllti ekki eitt af skilyrðum 5. gr. a. laga nr. 100/1952, með síðari breytingum, um dvalartíma hér á landi, sendi hún sérstakt bréf með umsókninni, dagsett 6. mars 2007, þar sem hún óskaði eftir því að Alþingi fengi umsóknina til meðferðar. Samdægurs óskaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið eftir því að Útlendingastofnun og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gæfu umsögn um umsóknina. Mælti stofnunin ekki með því að stefnanda Luciu yrði veittur íslenskur ríkisborgararéttur þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði 1. töluliðar A. liðar 5. gr. a. laga nr. 100/1952 með síðari breytingum. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu lagðist ekki gegn því að stefnanda Luciu yrði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Næsta dag, þann 7. mars, sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið allsherjarnefnd Alþingis umsóknina til meðferðar og afgreiðslu.

Hinn 14. mars 2007 lagði allsherjarnefnd Alþingis fram frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar (701. mál, þskj. 1162, 133. löggjafarþing). Var þar lagt til í 1. gr. að samtals 18 einstaklingar fengju íslenskan ríkisborgararétt. Var stefnandi Lucia þar á meðal. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að nefndinni hafi borist 36 umsóknir á 133. löggjafarþingi og að hún leggi til að þessu sinni verði 18 einstaklingum veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Við afgreiðslu umsókna til Alþingis á haustþingi 2006 hafði nefndin lagt til að 13 einstaklingar fengju ríkisborgararétt. Af 36 umsóknum fengu því samtals 31 jákvæða afgreiðslu á 133. löggjafarþingi. Allir sem sóttu um ríkisborgararétt á vorþingi, samtals 15 einstaklingar, fengu ríkisborgararétt. Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi 16. mars 2007 og voru þau birt þann 23. mars 2007 sem lög nr. 23/2007.

Í fréttatíma sjónvarps Ríkisútvarpsins (RÚV) kl. 19 hinn 26. apríl 2007 hófst umfjöllun um umsókn stefnanda Luciu um ríkisborgararétt og afgreiðslu hennar undir fyrirsögninni Umdeilt ríkisfang samþykkt. Þessi umfjöllun Ríkisútvarpsins stóð til 4. maí. Umfjöllun RÚV um mál þetta var þessi:

 Hinn 26. apríl var í fréttum sjónvarps RÚV kl. 19 fjallað um umsókn stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt undir fyrirsögninni Umdeilt ríkisfang samþykkt, í Kastljósinu og kl. 22 undir fyrirsögninni Vissu ekkert um tengsl Jónínu við stúlkuna. Í Kastljósþætti þennan dag las stefndi Helgi upp pistil undir fyrirsögninni Umdeildur ríkisborgararéttur. Í pistlinum sagði m.a. að einn umsækjandi um ríkisborgararétt, tæplega tvítug stúlka frá Mið-Ameríku, sem einungis hafi verið hér á landi í um 15 mánuði, hafi fengið ríkisborgararétt. Í pistlinum sagði síðan að hún hafi dvalist hér á landi sem námsmaður með skráð lögheimili á heimili Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra, og hafi, þar til Alþingi veitti henni ríkisborgararéttinn, haft tímabundið dvalarleyfi á forsendum náms. Í pistlinum kom fram að það sé næsta fordæmislaust að fólk með eins skamma dvöl í landinu og stefnandi Lucia fái ríkisborgararétt. Sagði enn fremur í pistlinum að Kastljós hafi heimildir fyrir því að Útlendingastofnun hefði eindregið lagst gegn því að umræddur einstaklingur fengi ríkisborgararétt enda hefðu engar málefnalegar ástæður legið að baki því. Öðru máli hafi gegnt um hina 17 sem fengu ríkisborgararétt þetta skiptið.

Hinn 27. apríl var fjallað um málið í fréttum hljóðvarps RÚV kl. 12:20 undir fyrirsögninni Íslenskt ríkisfang og kl. 18:00 undir fyrirsögninni Ekkert óeðlilegt við afgreiðslu Alþingis. Í fréttum sjónvarps RÚV kl. 19 var fjallað um málið undir fyrirsögninni Neitar að hafa beitt áhrifum. Í Kastljósi þetta kvöld var viðtal stefnda Helga við Jónínu Bjartmarz. Inngang að viðtalinu las stefndi Þórhallur. 

Hinn 28. apríl var fjallað um málið í fréttum sjónvarps RÚV kl. 19 undir fyrirsögninni Tortryggilegt verklag.

Hinn 29. apríl var fjallað um málið í fréttum sjónvarps kl. 19 undir fyrirsögninni Flest bendir til sérmeðferðar.

Hinn 30. apríl 2007 var í fréttatíma sjónvarps RÚV kl. 19 fjallað um málið undir fyrirsögninni Það er aldrei gott að ljúga og kl. 22 undir fyrirsögninni Mál stúlkunnar sérstakt. Í myndskeiði sem sýnt var við lestur fréttanna var umsókn stefnanda birt að hluta, þar sem m.a. kom fram nafn stefnanda Birnis Orra ásamt kennitölu. Í Kastljósþætti þetta sama kvöld var fjallað um málefnið Ríkisborgararéttur. Um var að ræða upplestur stefnda Sigmars á pistli um málið. Kom fram í pistlinum að Kastljós hafi umsókn stefnanda Luciu undir höndum og var lesið orðrétt upp úr umsókninni.

Hinn 2. maí 2007 var fjallað um umsókn stefnanda Luciu í fréttum sjónvarps RÚV kl. 19 undir fyrirsögninni Fimm til tólf mánuðir urðu tíu dagar. Í Kastljósi þetta kvöld var fjallað um málið og sat formaður allsherjarnefndar fyrir svörum stefndu Jóhönnu.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu 3. maí 2007 þar sem fram kom að enginn fótur væri fyrir fullyrðingum um það að afgreiðsla umsóknar stefnanda Luciu hafi verið önnur en almennt gerðist. Ráðuneytið fengi upplýsingar frá lögreglu og Útlendingastofnun oft samdægurs þegar svo bæri undir. Sama dag birtist yfirlýsing í Morgunblaðinu frá Jónínu Bjartmarz. Stefndi Þórhallur svaraði yfirlýsingu Jónínu sama dag og birtist hún þá m.a. á mbl.is en einnig í Morgunblaðinu næsta dag.

Í fréttum hljóðvarps RÚV kl. 8 hinn 3. maí var frétt um málið undir fyrirsögninni Engin fordæmi um hröðun ríkisfangs. Í fréttinni var haft eftir lögfræðingi Alþjóðahúss að engin dæmi væru um svo skjóta afgreiðslu umsóknar um ríkisborgararétt. Í fréttum hljóðvarps RÚV kl. 12:20 voru tvær fréttir um málið, önnur undir fyrirsögninni Jónína vísar ásökunum á bug þar sem vísað var til yfirlýsingar Jónínu í Morgunblaðinu þann sama dag. Hins vegar var frétt undir fyrirsögninni Ekki einsdæmi. Í þeirri frétt var viðtal við forstjóra Útlendingastofnunar sem staðhæfði að 10 daga afgreiðsla á umsókn væri ekki einsdæmi. Í fréttum hljóðvarps RÚV kl. 18 var fjallað um málið í tveimur fréttum undir fyrirsögninni Hefðbundin vinnubrögð þar sem vísað var til yfirlýsingar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Kastljós ekki misnotað þar sem vísað var til yfirlýsingar stefnda Þórhalls. Í fréttum sjónvarps RÚV kl. 19 var fjallað um málið undir fyrirsögninni Sakar Kastljós um misnotkun  og aftur kl. 22 undir fyrirsögninni  Yfirlýsing Guðjóns Ólafs.

Hinn 4. maí var fjallað um málið í fréttum hljóðvarps RÚV kl. 12:20 undir fyrirsögninni Jónína Bjartmarz kærir Kastljós og var skýrt frá því að Jónína hafi ákveðið að kæra Kastljós til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Í fréttum sjónvarps RÚV kl. 19 var fjallað um málið undir fyrirsögninni Jónína Bjartmarz kærir Kastljósið.

Með bréfi dagsettu 11. maí 2007 kærði Jónína Bjartmarz umfjöllun RÚV og stefndu, Helga Seljan Jóhannssonar, Sigmars Guðmundssonar og Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og fréttastofu Sjónvarps vegna ríkisfangsumsóknar stefnanda Luciu, til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands.

Niðurstaða siðanefndar frá 15. júní 2007 var sú að þegar málið væri metið í heild hafi umfjöllunin verið röng og misvísandi og til þess fallin að gera Jónínu tortryggilega. Þetta ætti einkum við um upphaf umfjöllunarinnar, pistil stefnda Helga 26. apríl í Kastljósi. Rangfærslur, sem þó hafi verið leiðréttar smám saman, hafi engu að síður litað alla umfjöllunina. Stefndi Helgi hafi látið undir höfuð leggjast að leita grundvallarupplýsinga í viðkvæmu máli. Ríkisútvarpið og Helgi Seljan töldust hafa brotið 3. gr. siðareglna félagsins og að brotið væri alvarlegt.

Niðurstöðu siðanefndar var sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda Þórhalls.

Málsástæður og lagarök stefnenda 

Stefnendur byggja dómkröfur sínar á því að með umfjöllun sinni um umsókn stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt hafi stefndu, með ólögmætum hætti, brotið gegn rétti stefnenda til friðhelgi einkalífs, sbr. ákvæði 71. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Með sýningu í myndskeiði á umsókn stefnanda Luciu hafi stefndu ekki gætt fyrirmæla í 1., 7., 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Með því að hafa undir höndum umsókn stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt, með því að lesa orðrétt upp úr henni og með því að birta hana í myndskeiði þannig að sæist nafn stefnenda beggja, hafi stefndu brotið ákvæði 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Stefndi Páll Magnússon beri ábyrgð á umfjöllun í RÚV á tímabilinu 26. apríl til 4. maí 2007 á grundvelli d-liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. Stefndi Páll beri einnig ábyrgð á því að Ríkisútvarpið ohf. gætti 3. gr. laga nr. 6/2007 í allri útvarpsþjónustu. Umfjöllun RÚV um umsókn stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt hafi hvorki samrýmst ákvæðum 5. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna um að gæta skuli fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð né 7. tölul. sömu málsgreinar um hlutlæga og áreiðanlega fréttaþjónustu um innlend málefni. Aðrir stefndu beri ábyrgð á umfjöllun í RÚV á greindu tímabili á grundvelli a- og b-liðar sömu greinar samkvæmt því sem nánar verði rakið.

Stefnendur stefni Helga Seljan Jóhannssyni, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, Sigmari Guðmundssyni og Þórhalli Gunnarssyni vegna ábyrgðar sem þeir telji að þau beri skv. a- og b-liðum 26. gr. útvarpslaga. Augljóst sé að þau teljist flytjendur efnis í eigin nafni og flytjendur efnis sem annar maður hafi samið í skilningi ákvæðisins. Stefnendur stefni Páli Magnússyni á grundvelli d-liðar 26. gr. útvarpslaga vegna umfjöllunar í fréttum útvarps og hljóðvarps RÚV umrædda daga. Stefnendum sé ómögulegt að henda reiður á því hver eigi að bera ábyrgð samkvæmt a- eða b-liðum 26. gr. útvarpslaga á umfjöllun í fréttum á þessu tímabili. Hluti frétta sé lesinn af þulum, hluti af fréttamönnum. Samkvæmt upplýsingum frá Fjölmiðlavaktinni ehf. komu a.m.k. 12 fréttamenn RÚV að fréttum í hljóðvarpi og sjónvarpi um mál stefnanda Luciu á þessum tíma auk fréttaþula. Stefnendur telji að það geti ekki verið tilgangur 26. gr. útvarpslaga að ætlast til að sá sem brotið sé gegn með útsendingu á útvarpsefni eigi að stefna hverjum og einum þegar ekki sé nægilega víst hverja leiða eigi til refsi- og fébótaábyrgðar. Af þeim sökum stefni stefnendur Páli Magnússyni sem útvarpsstjóra til refsi- og fébótaábyrgðar fyrir alla umfjöllun í RÚV í fréttatímum hljóðvarps og sjónvarps og Kastljósi, sem þau telji refsiverða og ólögmæta eins og rakið verði nánar á eftir.

Stefnendur byggja kröfu sína um miskabætur skv. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á því að stefndu beri solidariska ábyrgð á greiðslu miskabóta til þeirra vegna refsiverðrar og ólögmætrar umfjöllunar RÚV um umsókn stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt, á tímabilinu 26. apríl til 4. maí, þó einkum 30. apríl, þegar umsókn hennar var sýnd í myndskeiði og orðrétt lesið upp úr henni. Öll umfjöllun RÚV, sem stefndu beri ábyrgð á skv. 26. gr. laga nr. 53/2000, hafi verið brot á 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, brot á friðhelgi einkalífs þeirra samkvæmt 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga, brot á ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, brot á 3. gr. laga nr. 6/2007 og því saknæm samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga þar sem í allri umfjölluninni hafi falist ólögmæt meingerð gegn æru þeirra og persónu.

Málsástæður og lagarök stefnenda fyrir miskabótakröfum þeirra eru nánar þessi:

Stefnendur fullyrði að í allri umfjöllun RÚV í fréttatímum hljóðvarps og sjónvarps og Kastljósi, á því tímabili sem áður hafi verið rakið, hafi verið farið mjög frjálslega með staðreyndir og upplýsingar sem byggt var á hafi verið beinlínis rangar. Allur fréttaflutningur RÚV, sem stefndu beri refsi- og fébótaábyrgð á, hafi einkennst af dylgjum og hálfkveðnum vísum. Megintilgangur umfjöllunarinnar virðist hafa verið sá að vekja upp þær ranghugmyndir hjá áhorfendum og áheyrendum að Jónína Bjartmarz, móðir stefnanda Birnis Orra, hefði haft ósiðleg og jafnvel ólögleg afskipti af afgreiðslu umsóknar stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt. Þess hafi ekki verið gætt áður en umfjöllun hófst að leita réttra upplýsinga um gang umsókna um íslenskan ríkisborgararétt hjá Alþingi og þeim mun sem var á afgreiðslu Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þetta hefði stefndu verið í lófa lagið. Allur undirbúningur umfjöllunarinnar hafi þannig verið hroðvirknislegur og einkennst af annarlegum hvötum. Virt hafi verið að vettugi fyrirmæli 5. töluliðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2007 um óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð og fyrirmæli 7. töluliðar sömu málsgreinar um að veita áreiðanlega og hlutlæga fréttaþjónustu. Þótt leiðréttingar kæmu fram eftir að fyrst var fjallað um málið hélt RÚV, einkum Kastljós, áfram að setja fram rangar fullyrðingar um málið og vinnubrögð allsherjarnefndar og annarra aðila sem að umsóknum um ríkisborgararétt komi. Stefndu mátti ljóst vera að umfjöllunarefnið var sérstaklega vandasamt bæði með tilliti til þess að stutt var í Alþingiskosningar og Jónína Bjartmarz var frambjóðandi til Alþingis og einnig þar sem fjallað var um viðkvæm persónuleg málefni stefnenda, einkum stefnanda Luciu.

Í upphaflegu umfjölluninni í Kastljósi 26. apríl 2007 hafi verið a.m.k. eftirfarandi ónákvæmni og rangfærslur, sem stefndu Helgi, Þórhallur og Páll beri refsi- og fébótaábyrgð á:

1. Ranglega farið með aldur stefnanda Luciu og dvalartími hennar sagður nokkru styttri en hann í raun var. Jafnframt var fullyrt að hún væri á dvalarleyfi námsmanna, sem er rangt. Hún var á fullu dvalarleyfi.

2. Ranglega var farið með fjölda þeirra sem fengu ríkisborgararétt hjá Alþingi þannig að verulegu nam. Fullyrt var að 38 umsóknir hefðu borist allsherjarnefnd og einungis 18 hafi fengið jákvæða afgreiðslu. Hið rétta sé að samtals 36 umsóknir bárust nefndinni á 133. löggjafarþingi og 31 fékk jákvæða afgreiðslu. Í fréttinni var þannig gefið í skyn að ríflega helmingi umsókna til Alþingis væri hafnað meðan hið rétta var að einungis liðlega 13% var hafnað.

3. Fullyrt var að aðstæður annarra sem fengu ríkisborgararétt hefðu verið málefnalegri og studdar betri rökum en umsókn stefnanda Luciu. Samantekt sýndi að á nokkrum undanförnum árum höfðu a.m.k. 22 einstaklingar fengið ríkisborgararétt á sambærilegum sjónarmiðum og umsókn stefnanda Luciu byggði á.

4. Fullyrt var að næsta fordæmislaust væri að einstaklingar með eins skamma dvöl í landinu og stefnandi Lucia fengi ríkisborgararétt. Samantekt sýndi að á nokkrum undanförnum árum höfðu 45 einstaklingar fengið ríkisborgararétt eftir að hafa dvalið hér í skemmri tíma en 2 ár.

5. Fullyrt var að Útlendingastofnun hefði eindregið lagst gegn því að stefnandi Lucia fengi ríkisborgararétt enda væru engar málefnalegar forsendur að baki hennar umsókn. Öðru máli hafi gegnt um hina 17 sem hlutu ríkisborgararétt um leið og hún. Hið rétta sé að Útlendingastofnun leggst ætíð gegn því að einstaklingar sem ekki uppfylli skilyrði 5. gr. a laga nr. 100/1952 fái ríkisborgararétt. Fullyrðing um að stofnunin hafi sérstaklega lagst gegn umsókn stefnanda Luciu sé því röng og sett fram á villandi og misvísandi hátt.

Í umfjöllun Kastljóss 27. apríl 2007, sem stefndi Þórhallur, Helgi og Páll beri refsi- og fébótaábyrgð á hafi verið eftirfarandi rangfærslur:

1. Í inngangi stefnda Þórhalls var fullyrt að stefnandi Lucia hafi fengið neitun þegar hún sótti um íslenskt ríkisfang til Útlendingastofnunar. Sama fullyrðing kom fram í spurningu stefnda Helga. Þetta séu rangfærslur. Útlendingastofnun veiti ekki íslenskt ríkisfang, hún sé umsagnaraðili og mæli aldrei með að ríkisfang sé veitt ef skilyrðum laganna í 5. gr. a um dvalartíma í landinu sé ekki fullnægt, sbr. hér að framan.

2. Fullyrt hafi verið að aðstæður stefnanda Luciu hafi verið mjög ólíkar aðstæðum annarra umsækjenda sem einnig fengu ríkisfang. Þessi fullyrðing sé röng, eins og rakið hafi verið hér að framan.

3. Í spurningum stefnda Helga til Jónínu var ítrekað ætlast til þess að hún upplýsti um persónuleg málefni stefnanda Luciu og virti þannig að vettugi ákvæði 1., 7., 8. og 9. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.

Hinn 30. apríl 2007 hafi verið fjallað um umsókn stefnanda Luciu bæði í fréttatímum sjónvarps RÚV kl. 19 og 22 og í Kastljósþætti. Í myndskeiði við lestur fréttanna í kvöldfréttatímunum hafi umsókn stefnanda Luciu verið birt þannig að hægt var að lesa hvað í henni stóð. Sáust þar nöfn stefnenda beggja. Með birtingu umsóknarinnar sjálfrar, sem RÚV hljóti að hafa fengið með ólögmætum hætti, þar sem um trúnaðarplagg sé að ræða, voru ákvæði 1., 7., 8. og 9. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 brotin auk þess sem myndbirtingin og upplesturinn úr umsókninni var brot á 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Refsi- og fébótaábyrgð á umfjöllun í fréttatímunum beri stefndi Páll.

Í Kastljósi sama kvöld las stefndi Sigmar pistil um málefnið Ríkisborgararéttur og ber refsi- og fébótaábyrgð á þeirri umfjöllun ásamt stefnda Þórhalli og Páli. Í pistlinum var enn farið ranglega með staðreyndir um málið og umsókn stefnanda Luciu.

1. Enn var farið ranglega með dvalartíma stefnanda Luciu hér á landi.

2. Fullyrt sé í pistlinum að fólk þurfi að hafa dvalist hér á landi í sjö ár til að fá ríkisborgararétt og ranglega farið með undantekningarnar frá þeirri reglu. Vísast til þess sem áður sé sagt um rangfærslur í þessari fullyrðingu.

Til viðbótar bætist að í umfjölluninni var beint lesið upp úr umsókninni, sem eins og áður sé rakið, hljóti að hafa komist í hendur RÚV með ólögmætum hætti þar sem um trúnaðarplagg sé að ræða. Bein tilvitnun í umsóknina í umfjöllun Kastljóss hafi þannig verið bæði brot á ákvæðum 1., 7., 8. og 9. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 og brot á 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga. Á þeim brotum beri stefndi Sigmar, Þórhallur og Páll refsi- og fébótaábyrgð.

Í Kastljósi 2. maí 2007 hafi verið fjallað um umsókn stefnanda Luciu undir fyrirsögninni Tíu daga afgreiðsla. Í þættinum var viðtal við formann allsherjarnefndarnefndar Alþingis. Stefnda Jóhanna Vilhjálmsdóttir var spyrill. Á umfjölluninni beri stefndu Þórhallur, Jóhanna og Páll refsi- og fébótaábyrgð. Í inngangi að viðtalinu og viðtalinu sjálfu voru misvísandi fullyrðingar:

1. Fullyrt var að afgreiðsla málsins hafi eingöngu tekið 10 daga hjá Alþingi en samkvæmt vef dómsmálaráðuneytisins megi búast við að ferlið taki 5 til 12 mánuði. Hér gæti verulegrar ónákvæmni og rangfærslna, eins og dóms- og kirkjumálaráðuneytið leiðrétti í fréttatilkynningu næsta dag. Þar kom fram að ferill umsóknar hjá ráðuneytinu væri 5 til 12 mánuðir. Ferill umsókna hjá Alþingi geti verið mun styttri og velti m.a. á því hvenær umsókn berst til Alþingis og hversu langt sé í þinglok haustþings eða vorþings.

2. Í spurningum stefndu Jóhönnu til formanns allsherjarnefndar voru endurteknar sömu rangfærslur og hafðar höfðu verið uppi í fyrri umfjöllun Kastljóss, þótt réttar upplýsingar hefðu komið fram í millitíðinni. Jafnframt voru spurningar stefndu Jóhönnu, eins og í fyrri umfjöllun Kastljóss, með þeim hætti að hún ætlaðist til að viðmælandi ræddi persónuleg málefni stefnanda Luciu og fjallaði um málefni hennar sérstaklega með hætti sem væri brot á 1., 7., 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Til viðbótar við ofangreinda umfjöllun hafi öll umfjöllun um mál stefnanda Luciu vegna umsóknar hennar um ríkisborgararétt í fréttatímum RÚV verið ónákvæm og beinlínis röng. Á þeirri umfjöllun allri beri stefndi Páll refsi- og fébótaábyrgð skv. d-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 53/2000 auk þess sem umfjöllun af þessu tagi sé brot gegn 5. og 7. tölulið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2007, eins og áður hafi verið rakið. Stefndi Páll beri refsi- og fébótaábyrgð á að Ríkisútvarpið ohf. gæti þessara lagaákvæða í allri útvarpsþjónustu sinni.

Alvarlegast var þó að mati stefnenda að í allri umfjöllun RÚV um umsókn stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt hafi verið látið að því liggja, og nánast sagt berum orðum, að umsóknin hafi sætt sérmeðferð af þeirri ástæðu einni að hún væri tengdadóttir Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra. Þannig hafi stefnandi Lucia verið borin þeim sökum að hafa notið sérréttinda, sérmeðferðar og sérkjara við afgreiðslu Alþingis á máli hennar. Í umfjöllun RÚV var með engum hætti stoðum rennt undir þessar dylgjur í garð stefnanda Luciu og umsóknar hennar. Þvert á móti sýndu allar upplýsingar sem smátt og smátt komu fram að öll afgreiðsla umsóknar hennar hjá allsherjarnefnd Alþingis hafi verið í fullu samræmi við þær reglur sem allsherjarnefnd hafi sett sér og vinni eftir. Þrátt fyrir það að upplýsingar sem síðar komu fram, og sem stefndu hefðu átt að hafa aflað áður en umfjöllunin hófst, hafi engu að síður verið haldið áfram með rangfærslurnar og dylgjurnar.

Stefnendur telji að með umfjöllun sinni hafi RÚV brotið alvarlega friðhelgi einkalífs hennar sem verndað sé bæði af 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga og fjallað um umsókn hennar um ríkisborgararétt með ólögmætum og ómálefnalegum hætti í þeim tilgangi einum að koma pólitísku höggi á Jónínu Bjartmarz, sem á þessum tíma hafi staðið í kosningabaráttu vegna framboðs til Alþingis. Mál stefnanda Luciu hafi þannig verið notað í annarlegum og ómálefnalegum tilgangi af stefndu og stefnandi Lucia þar með dregin inn í kosningabaráttu sem hún átti enga aðild að. Í umfjölluninni hafi einnig falist brot gegn ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga auk þess sem umfjöllunin hafi verið skýrt brot á 5. og 7. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2007, eins og áður hafi verið rakið. Ítrekuð umfjöllun RÚV hafi aldrei verið óhlutdræg heldur ætíð hlutdræg og lituð fyrir fram ákveðinni afstöðu og síðast en ekki síst haft það eina markmið að koma höggi á umhverfisráðherra sem stóð í kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar. Aftur og aftur hafi verið farið með rangfærslur um staðreyndir og fullyrðingar endurteknar þótt réttar upplýsingar kæmu fram í millitíðinni. Grundvallaratriði, sem auðvelt hefði verið að fá réttar upplýsingar um, voru ítrekað rangfærð. Persóna stefnanda Luciu var endurtekið dregin inn í umræðuna með því að viðmælendur voru krafnir svara um innihald umsóknar hennar. Með ólögmætum hætti hafi verið aflað afrits af umsókn stefnanda Luciu um ríkisborgararétt, hún birt í sjónvarpi þannig að lesa mátti efni hennar auk þess sem lesið var orðrétt upp úr umsókninni.

Öll þessi háttsemi af hálfu starfsmanna stefnda feli í sér brot á friðhelgi einkalífs stefnenda sem varið sé af 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga. Í umfjöllun RÚV hafi einnig falist brot á 1., 7., 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og 5. og 7. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. Stefndu beri skaðabótaábyrgð skv. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 gagnvart stefnendum á þessum brotum á grundvelli a-, b- og d-liðar 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga.

Stefnandi Lucia telji miskabæturnar sér til handa hæfilega ákvarðaðar 2.500.000 krónur. Endurtekin umfjöllun stefnda um umsókn hennar um ríkisborgararétt hafi verið henni sérstaklega íþyngjandi og meiðandi og valdið henni miklum ama og hugarangri. Hún hafi mátt þola birtingu á umsókn sinni um ríkisborgararétt, sem sé trúnaðarskjal sem aldrei hefði átt að komast í hendur fjölmiðla. Þá hafi verið lesið beint upp úr umsókninni. Persóna hennar hafi verið til umfjöllunar í RÚV og í framhaldinu í öllum ljósvaka- og prentmiðlum um margra daga skeið. Sú umfjöllun og þær rangfærslur, dylgjur og aðdróttanir sem í henni fólust hafi verið sérstaklega meiðandi fyrir hana.

Stefnandi Birnir Orri telji miskabætur sér til handa hæfilega ákvarðaðar 1.000.000 króna. Um rökstuðning fyrir kröfunni vísast til rökstuðnings fyrir miskabótakröfu stefnanda Luciu þar sem sömu sjónarmið búi að baki. Sérstaklega sé byggt á því að umfjöllun í kvöldfréttatímum RÚV og Kastljósi 30. apríl 2007 hafi verið meiðandi fyrir hann. Þar hafi verið birt umsókn stefnanda Luciu þar sem nafn hans og aðrar persónuupplýsingar komu fram. Í allri umfjöllun RÚV um mál stefnanda Luciu var látið að því liggja, og nánast sagt berum orðum, að umsóknin hafi sætt sérmeðferð af þeirri ástæðu einni að hann væri sonur Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra og því hafi umsókn unnustu hans fengið sérstaka og ómálefnalega meðhöndlun, fengið í raun ólögmætan forgang, þótt engar sannanir hafi verið færðar fyrir þeirri staðhæfingu. Þannig hafi hann og stefnandi Lucia verið borin þeim sökum að móðir hans hafi tryggt unnustu hans sérréttindi, sérmeðferð og sérkjör við afgreiðslu Alþingis á máli hennar. Engin gögn hafa rennt nokkrum stoðum undir þessar dylgjur stefndu í garð stefnanda, Luciu, og Jónínu. Þvert á móti hafi öll gögn sem komið hafi fram sýnt að öll afgreiðsla umsóknar hennar hjá allsherjarnefnd Alþingis hafi verið í fullu samræmi við þær reglur sem allsherjarnefnd hafi sett sér og vinni eftir. Þessar fullyrðingar voru sérstaklega meiðandi fyrir stefnanda Birni Orra, þar sem þær snertu bæði unnustu hans og móður. Með umfjöllun sinni hafi RÚV dregið hann og unnustu hans með ólögmætum og ómálefnalegum hætti inn í pólitískar ofsóknir á hendur móður hans, Jónínu Bjartmarz, sem á þessum tíma hafi staðið í kosningabaráttu. Endurtekin umfjöllun RÚV um umsókn unnustu hans um ríkisborgararétt og dylgjur um það að móðir hans hafi haft áhrif á gang mála hafi verið honum sérstaklega íþyngjandi og meiðandi og valdið honum miklum ama og hugarangri. Mál unnustu hans og móður hafi um margra daga skeið verið slegið upp í fjölmiðlum sem tortryggilegu máli sem kalli á frekari skoðun vegna vinnubragða Alþingis, sem móðir hans átti að hafa haft áhrif á. Þá hafi hann mátt þola birtingu á umsókn unnustu sinnar þannig að nafn hans og ýmsar persónuupplýsingar voru auðlæsilegar úr trúnaðarskjali sem aldrei hefði átt að komast í hendur fjölmiðla. Þá hafi verið lesið beint upp úr umsókn stefnanda Luciu og reynt eftir megni að gera ástæður hennar fyrir umsókn um ríkisborgararétt tortryggilegar.

Stefnendur telji að stefndu beri allir sem einn ábyrgð á greiðslu miskabóta þeim til handa en vísa þó til e-liðar 26. gr. útvarpslaga um ábyrgð útvarpsstöðvar á greiðslu skaðabóta sem starfsmönnum útvarpsstöðvar kann að vera gert að greiða.

Stefnendur geri einnig þá dómkröfu að stefndu, Páll Magnússon, Helgi Seljan Jóhannsson, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Sigmar Guðmundsson og Þórhallur Gunnarsson, verði hvert fyrir sig dæmt til refsiábyrgðar og jafnframt ýtrustu refsingar fyrir brot á 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, fyrir umfjöllun í fréttatímum og Kastljósþáttum RÚV á tímabilinu 26. apríl til 4. maí 2007, en þó einkum að kvöldi 30. apríl.

Það teljist brot á 228. gr. almennra hegningarlaga ef maður hnýsist í bréf, skjöl, dagbækur eða önnur slík gögn, sem hafi að geyma upplýsingar um einkamál annars manns, og hann hafi komist yfir gögnin m.a. með brögðum. Stefnendur telji að með því að koma höndum yfir umsókn hennar um íslenskan ríkisborgararétt, sem hljóti að teljast bréf í skilningi ákvæðisins, hafi stefndu með ólögmætum hætti gerst sek um að hnýsast í þessa umsókn hennar. Umsókn stefnanda Luciu sé bundin trúnaði og teljist ekki skjal sem stefndu áttu aðgang að. Stefndu hafi því með ólögmætum hætti fengið afrit umsóknarinnar. Stefnendur óskuðu eftir því að dóms- og kirkjumálaráðuneytið kannaði hvort stefndu hefðu fengið umsóknina hjá ráðuneytinu, Útlendingastofnun eða lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Í svari ráðuneytisins sé fullyrt að enginn þessara aðila hafi afhent stefndu afrit umsóknarinnar. Stefnandi Lucia átti ekki að þurfa að þola að í myndskeiði í sjónvarpsfréttum RÚV 30. apríl og í Kastljósi sama kvöld, væri umsókn hennar sýnd. Sýningin teljist þannig skýrt brot á 228. gr. hegningarlaga sem refsa beri stefndu fyrir. Krafist sé ýtrustu refsingar vegna þessara brota þeirra á 228. gr. almennra hegningarlaga.

Það teljist brot á 229. gr. almennra hegningarlaga að skýra opinberlega frá einkamálefnum annars manns án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi er réttlæti verknaðinn. Umsókn stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt sé einkamálefni sem engin ástæða hafi verið til að skýra opinberlega frá og engar kringumstæður réttlættu birtingu umsóknar hennar og umfjöllun um hana. Stefnendur telji að stefndu hafi allir bakað sér refsiábyrgð skv. 229. gr. með þeim hætti sem skýrt var opinberlega frá um umsókn stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt og með þeirri víðfeðmu umfjöllun sem varð hjá RÚV vegna þeirrar umsóknar og meðferðar hennar hjá Alþingi. Þessi umfjöllun sé ítarlega rakin hér í málavaxtalýsingu í stefnu. Einstök atriði hennar, sem stefnendur telji sérstaklega refsiverð, séu nánar tilgreind hér að framan í málsástæðum og lagarökum stefnenda fyrir miskabótakröfu sinni. Í fréttatímum RÚV hafi ítrekað verið endurteknar rangfærslur úr Kastljósi án þess að leiðréttingar sem fram komu í millitíðinni skiluðu sér með nægilega skýrum hætti. Stefndi Páll beri refsiábyrgð á allri refsiverðri umfjöllun skv. 228. og 229. gr. hegningarlaga í fréttatímum RÚV og Kastljósi en aðrir stefndu beri refsiábyrgð á allri refsiverðri umfjöllun skv. sömu lagaákvæðum í Kastljósi.

Stefnendur krefjist þess, verði stefndu dæmdir til sektargreiðslu vegna brota á 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga, að þeim verði jafnframt gerð vararefsing skv. 1. mgr. 54. gr. sömu laga.

Krafa um málskostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefnendur máls þessa séu ekki virðisaukaskattskyld og sé þeim því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefndu.

Málsástæður og lagarök stefndu 

Af hálfu stefndu er m.a. tekið fram um málsatvik að upphaf umfjöllunar í Kastljósi, þar sem stefndu, að stefnda Páli frátöldum, starfa sem fréttamenn, megi rekja til þess að þeim hafi borist ábendingar frá heimildarmanni um afgreiðslu umsóknar stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt. Afgreiðsla umsóknarinnar hafi þótt óeðlileg og ástæða til að vekja athygli á afgreiðslunni opinberlega. Það hafi  einkum verið fimm atriði í upphafi sem vöktu athygli við afgreiðslu umsóknarinnar. Í fyrsta lagi hve hraða og skjóta afgreiðslu mál stefanda Luciu fékk, en frá því að stefnandi lagði inn beiðni til ráðuneytisins um íslenskan ríkisborgararétt þann 6. mars 2007, liðu einungis 10 dagar þar til umsækjandi hafði fengið íslenskan ríkisborgarrétt með lögum frá Alþingi þann 16. mars 2007, sbr. lög nr. 23/1997 um veitingu ríkisborgararéttar. Í öðru lagi vakti athygli sú ástæða sem stefnandi Lucia tilgreindi fyrir umsókn sinni sem var sú að hún hefði í hyggju námsdvöl erlendis næstu þrjú árin og þyrfti að sækja um dvalarleyfi á Íslandi eftir hverja önn í skólanum þar sem hún hefði ekki íslenskt ríkisfang. Það hefði mikla fyrirhöfn í för með sér. Var sú ástæða að mati heimildarmanns ekki talin eiga sér sambærilegt fordæmi. Í þriðja lagi vakti athygli að stefnandi hafði dvalið stutt á Íslandi, aðeins 17. mánuði. Í fjórða lagi vakti athygli að Lucia, umsækjandinn og annar stefnandi í máli þessu, var unnusta sonar þáverandi umhverfisráðherra og þingmanns, Jónínu Bjartmarz, en stefnandi hafði tilgreint lögheimili umhverfisráðherra á umsókn sinni ásamt kennitölu sonar umhverfisráðherra, sem er meðstefnandi í máli þessu. Í fimmta lagi vakti athygli að annar meðmælenda stefnanda, er móðir fyrrverandi umhverfisráðherra Jónínu Bjartmarz, sbr. meðmælabréf dags. 23. febrúar 2007.

Í heimild allsherjarnefndar Alþingis samkvæmt 6. gr. laga nr. 100/1952 felist matskennt vald til þess veita ríkisborgararétt, en í greininni eða greinargerð með lögunum sé ekki að finna nein fyrirmæli hvernig beita skuli greininni og ekki sé vitað til þess að neinar niðurskrifaðar eða fastsettar verklagsreglur séu til.

Verklag allsherjarnefndar varðandi stefnanda Luciu hafi vakið athygli hjá heimildarmanni stefndu, einkum í ljósi aðstæðna stefnanda Luciu. Miðað við framangreint var talið að málið ætti fullt erindi við almenning. Það varðaði handhöfn og meðferð mikilvægs valds í samfélaginu, heimildina til að veita ríkisborgararétt, mikilvægustu grundvallarréttindi einstaklinga, en almenningur eigi skýlausan rétt til þess að sjá og vita hvort farið sé með það vald á grundvelli jafnræðis og gagnsæi. Þar sem margir eigi mikla hagsmuni af því að fá sanngjarna og gagnsæja umfjöllun um umsókn um ríkisborgarrétt og vita að farið sé með það veitingarvald af sanngirni, sé allt það sem til þess sé fallið að sá efa um meðferð þess valds, augljóslega fréttaefni. Þær staðreyndir sem heimildarmaður stefndu hafði vakið athygli á, svo og sú staða sem þáverandi ráðherra í ríkisstjórn landsins hafði gagnvart stefnanda Luciu sem umsækjanda um ríkisborgararétt, hafi veitt stefndu sem fréttamönnum fullan rétt til þess að spyrja spurninga um verklag allsherjarnefndar Alþingis og hvernig farið væri með framangreint vald. Í þessu samhengi hafi verið mjög eðlilegt að bent væri á tengsl stefnenda við umhverfisráðherra. Óhjákvæmilegt hafi verið að rekja í umfjölluninni í hverju tengslin fólust. Hafi sú umfjöllun ekki gengið lengra en nauðsyn bar til.

Af hálfu stefnda er tekið fram að kjarni máls þessa varði annars vegar rétt almennings til að fá upplýsingar um störf og starfsaðferðir allsherjarnefndar Alþingis sem hafi með höndum vald til þess að veita ríkisborgararétt með lögum. Heimildin, sem sé í 6. gr. laga nr. 100/1952, sé skýr undantekningarregla, en almenna reglan sé sú að löggjafinn hafi falið ráðherra að veita ríkisborgararétt á grundvelli III. kafla sömu laga. Hins vegar varði málið þá aðstöðu þegar æðstu handhafar framkvæmdavalds í ríkisstjórn Íslands tengist einstaklingum sem sæki um ríkisborgararétt og hvort sú aðstaða geti hugsanlega haft áhrif á meðferð mála hjá allsherjarnefnd Alþingis, nefndar sem skipuð sé stjórnmálamönnum sem kosnir séu lýðræðislegri kosningu.

Umfjöllunin, er mál þetta sé sprottið af, hafi augljóst fréttagildi og eigi fullt erindi við almenning. Það fælist í því aðför að hlutverki fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi ef tjáningarfrelsi fréttamanna yrði skert að því marki að ekki mætti fjalla um meðferð stjórnmálamanna á matskenndu valdi sem þeir fari með í þingnefndum, svo og fjalla um tengsl eins af æðstu handhöfum framkvæmdavalds, ráðherra, við umsækjanda um ríkisborgararétt og spyrja hvort slík tengsl séu til þess fallin að valda tortryggni í ljósi þess hvaða afgreiðslu umsókn stefnanda Luciu um ríkisborgararétt hafi fengið. Því sé ekki haldið fram í málinu af hálfu stefnenda að meðferð allsherjarnefndar hafi ekki verið fréttaefni sem slíkt eða að óeðlilegt hafi verið að segja frá málinu í fjölmiðlum.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. segi að hlutverk félagsins sé rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu, svo sem hljóðvarps og sjónvarps. Samkvæmt 7. tl. 2. mgr. 3. gr. laganna segi að félagið skuli veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst séu á baugi hverju sinni eða almenning varði. Í samningi milli Ríkisútvarpsins ohf. og menntamálaráðuneytisins, um útvarpsþjónustu í almannaþágu, sem undirritaður hafi verið 23. mars 2007, segi í 5. mgr. 2. gr. samningsins að „RÚV [skuli] ávallt flytja fréttir og fréttatengt efni af sanngirni og hlutlægni. Halda skuli í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Fjalla skuli um umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni af nákvæmni og óhlutdrægni.“ Þá segi í 1. gr. i.f. samningsins að RÚV skuli vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu.

Stefndu byggja á því að þeim sem starfsmönnum Ríkisútvarpsins og fréttamönnum beri skylda til að framfylgja ákvæðum 3. gr. laga nr. 6/2007. Félagið hafi með höndum lögskipað hlutverk og eigi að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst séu á baugi hverju sinni eða almenning varði. Þessu fylgi stefndu eftir í starfi sínu sem fréttamenn með því að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Í þessu hlutverki felist meðal annars að taka við ábendingum úr þjóðfélaginu um atvik eða aðstöðu sem almenning varði og taka þær til umfjöllunar.          

Krafa stefndu um sýknu sé á því reist að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til að dæma stefnendum miskabætur í máli þessu. Af lagaákvæðum sem stefnendur styðji kröfur sínar við geti aðeins 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 átt við um miskabætur fyrir ófjárhagslegt tjón. Til að dæma miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga eða samkvæmt 26. gr. útvarpslaga þurfi sá sem ábyrgð beri á broti gegn friðhelgi einkalífs og meintri ólögmætri meingerð gegn æru að hafa gerst sekur um ólögmæta og saknæma hegðun. Stefndu telji lagaskilyrði tilvitnaðra lagagreina ekki vera fyrir hendi þar sem stefndu hafi hvorki brotið lög né gerst sek um neina saknæma hegðun.                

Eins og málið sé búið, af hendi stefnenda, sé einungis hluta þeirra fréttamanna sem hafi staðið að umfjölluninni stefnt, en allir séu þeir nafngreindir sem flytjendur á hverri umfjöllun um málið. Samkvæmt ákvæðum a-liðar 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga segir að sá sem flytji sjálfur efni í eigin nafni beri ábyrgð á því en samkvæmt b-lið sömu greinar beri flytjandi ábyrgð á efni sem annar maður hafi samið. Verði málatilbúnaður stefnenda ekki skilinn öðruvísi en svo að stefndu í máli þessu sé eingöngu stefnt vegna umfjöllunar sem þau séu nafngreind sem fréttamenn fyrir í hverri umfjöllun í málinu. Umfjallanir er mál þetta varði og aðrir en stefndu séu nafngreindir fyrir geti þannig ekki varðað stefndu eða sakarefnið í máli þessu, enda lagaskilyrði fyrir beitingu a, b og d-liðar 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga ekki uppfyllt. Hvað varði stefndu, Helga, Sigmar, Jóhönnu og Þórhall, geti eingöngu það efni umfjöllunarinnar komið til álita, sem þau séu skráð fyrir. Stefndi Páll hvorki samdi né flutti efnið í skilningi a- og b liðar 1. mgr. 26. gr. laganna, en einungis komi til ábyrgðar útvarpsstjóra samkvæmt d-lið greinarinnar ef enginn sé skráður flytjandi eða höfundur efnis. Af þeirri ástæðu einni beri þá þegar að sýkna stefnda Pál af öllum kröfum stefnenda í máli þessu. Umfjöllun annarra fjölmiðla sé ekki á ábyrgð stefndu og geti ekki varðað sakarefni þessa máls.      

Samkvæmt 26. gr. útvarpslaga fari um refsi- og fébótaábyrgð samkvæmt ákvæðinu ef útsending á útvarpsefnis brjóti í bága við lög. Stefndu byggja á því að lagaskilyrði séu ekki fyrir hendi til að beita ákvæðinu þar sem stefnendur hafi ekki sýnt fram á ólögmæta eða refsiverða hegðun. Í greininni sé eingöngu fjallað um hvernig fari með refsi- og fébótaábyrgð en beiting hennar verði að styðjast við að gjörðir stefndu varði ólögmæta og saknæma hegðun. 

Stefndu byggja á því að sú umfjöllun sem hafi farið fram og þau beri ábyrgð á feli ekki á nokkurn hátt í sér brot á friðhelgi einkalífs þeirra eða ólögmæta meingerð gegn æru þeirra sem varin sé m.a. af ákvæðum stjórnarskrár og refsiákvæðum almennra hegningarlaga. Umfjöllunin veitti enga innsýn inn í einkalíf eða persónulega hagi stefnenda, heldur var eingöngu bent á þá nálægð sem einn af þáverandi handhöfum framkvæmdavalds í ríkisstjórn landsins hafði við stefnendur, annars vegar að stefnandi Lucia gaf upp sem lögheimili sitt, lögheimili þáverandi umhverfisráðherra og hins að stefnandi Lucia og stefnandi Birnir, sonur umhverfisráðherra, voru unnustupar. Upplýsingar um lögheimili manna séu öllum aðgengilegar og teljist ekki einkaupplýsingar og almennt sé ekki tíðkanleg sú venja  að halda leyndu til hvers maður fellur hug til, sé vilji beggja gagnkvæmur í þeim efnum. Staðreynd málsins sé sú að stefnandi Birnir sé sonur Jónínu Bjartmarz sem á þeim tíma, sem stefnandi Lucia sótti um ríkisborgararétt, var ráðherra í ríkisstjórn landsins. Þeir sem hafi með höndum æðstu embætti landsins megi vita þegar þeir takast slíkar skyldur á  hendur, að þeir og fjölskyldur þeirra kunni að þurfa þola meiri og ágengari umfjöllun um háttu og aðstöðu sem þeir séu í en aðrir borgarar landsins. Sé sú krafa almennt viðurkennd að handhafar opinbers valds verði stöðu sinnar vegna að þola umfjöllun sem varði hvernig þeir beiti sér í störfum sínu og hvernig þeir fari með vald og aðstöðu þá sem þeim sé treyst fyrir af almenningi. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi verið óhjákvæmilegt að benda á þau tengsl sem stefnendur höfðu við ráðherra. Þó svo það kynni að valda stefnendum óþægindum sé fráleitt að slík aðstaða geti heft tjáningarfrelsi fjölmiðils og hindrað að hann greini frá málinu í heild, þeim sem að því komi og hver tengsl þeirra séu hver við annan. Ráðherrar, og í þeim tilvikum sem fjölskyldumeðlimir ráðherra tengist með beinum hætti máli eins og því sem hér sé til umfjöllunar, verði einfaldlega að sæta því að fjallað sé um slíka aðstöðu fyrir opnum tjöldum, einkum ef aðstaðan ein og sér sé til þess fallin að valda tortryggni um meðferð opinbers valds. Þá bendi stefndu á að umfjöllunin í reynd hafi aðeins snúist að litlum hluta um stefnendur. Það að framangreind umfjöllun hafi farið fram af hálfu stefndu í Kastljósi geti ekki ein og sér falið í sér meingerð gegn friðhelgi einkalífs stefnenda.

Þá byggja stefndu á að stefnandi Lucia og stefnandi Birnir hafi aldrei verið nefnd á nafn í umfjöllun stefndu í Kastljósi eða birt af þeim mynd eða annað sem veitti um þau persónuupplýsingar. Stefnda Lucia hafi hins vegar kosið síðar að koma fram í viðtali við aðra fjölmiðla og greina þar opinberlega frá öllum upplýsingum og tengslum við stefnanda Birni Orra og þáverandi umhverfisráðherra er málið varði og hér séu nú til umfjöllunar.

Stefndu byggja á að umsókn stefnanda Luicu um ríkisborgararétt hafi ekki verið sýnd í heild heldur aðeins sá hluti hennar sem nauðsynlegt hafi verið að birta, það sé sá hluti hennar þar sem stefnandi Lucia tilgreindi á hvaða forsendum hún sótti um ríkisborgararétt. Sú birting hafi verið nauðsynleg vegna andsvara sem komu fram, m.a. frá formanni allsherjarnefndar Alþingis, við skoðun á fjölda þeirra sem fengið höfðu ríkisborgararétt og þeirra sem hafði verið hafnað. Að mati allsherjarnefndar Alþingis skipti þar miklu máli á hvaða forsendum sótt hafi verið um ríkisborgararétt. Við þá skoðun hafi komið í ljós að sú fullyrðing stefndu stóðst að stefnandi Lucia var eini einstaklingurinn sem fengið hafði ríkisborgararétt með lögum vegna skerts ferðafrelsis með þeirri ástæðu sem hún gaf upp í umsókn sinni.

Stefndu haldi því fram að umfjöllun þeirra geti ekki falið í sér misgjörð gagnvart stefnendum. Þær upplýsingar er fram hafi komið í þættinum vörðuðu stefnendur eingöngu að því marki sem nauðsynlegt var til að fjalla um starfshætti allsherjarnefndar Alþingis. Í umfjölluninni hafi hvorki verið fjallað um stefnendur persónulega né sé í henni að finna ólögmæta meingerð gegn friðhelgi þeirra, einkalífi eða æru. Af upplýsingum sem í þættinum komi fram verði ekki á neinn hátt ráðið í einkalíf eða aðra persónulega hagsmuni stefnenda. Einu hagsmunir þar sem umfjöllunin kom að stefnendum beinist að fjölskyldutengslum stefnenda við ráðherra í ríkisstjórn, en sá sé ekki aðili að máli þessu.

Stefndu byggja á því að þegar umfjöllunin fór af stað var hún byggð á bestu fáanlegum upplýsingum og snéri að meðferð allsherjarnefndar Alþingis á matskenndu valdi til að veita ríkisborgararétt. Geti umfjöllun, sem beinist að meðferð þess valds, þó svo fjallað sé um stefnendur í því samhengi, ekki falið í sér meingerð gegn persónulegri friðhelgi einkalífs stefnenda eða æru. Þó fallast megi á, að það geti valdið stefnendum óþægindum að um þá sé fjallað í þessu samhengi, feli það ekki í sér ólögmæta meingerð gegn friðhelgi einkalífs þeirra eða æru. Af þessum sökum séu skilyrði fyrir beitingu 26. gr. skaðabótalaga eða annarra laga ekki fyrir hendi.                 Stefnendur kvörtuðu aldrei sjálf til stefndu eða komu á framfæri athugasemdum um efni eða efnistök umfjöllunarinnar og kröfðust ekki leiðréttingar eða þess að fá að koma fram til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri svo sem þau eigi rétt til samkvæmt 11. gr. laga nr. 53/2000. Stefndu komu öllum sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri sem bárust vegna umfjöllunarinnar jafnóðum og þær komu fram og héldu þannig í heiðri rétti aðila til andsvara sem telji að lögmætir hagsmunir þeirra, einkum orðspor og mannorð, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í umfjöllun.             

Stefndu byggja á því að umfjöllunin eigi sér fulla stoð í raunveruleikanum og staðreyndum og sé hvergi í umfjölluninni hvikað frá því. Í umfjölluninni sé hvergi að finna ranga frásögn, gildisdóm eða ærumeiðingu og síst af öllu nokkra hnýsni í einkamálefni stefnenda.

Tilvísunum stefnenda til ákvæða laga um persónuvernd nr. 77/2000 sé mótmælt af stefndu. Samkvæmt 5. gr. laganna segi að þegar persónuupplýsingar séu einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gildi aðeins ákvæði 4. gr., 1. og 4. tölul. 7. gr., 11.–13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna.

Þá byggja stefndu á því að stefnendur geti ekki byggt á ákvæðum persónuverndarlaga, þar sem brot á þeim lögum sæti opinberri ákæru samkvæmt 42. gr. laganna. Verði ekki byggt á ákvæðum laganna í einkamáli þar sem eingöngu handhafar opinbers ákæruvalds fari með beitingu laganna. Af þessum orsökum séu hvorki lagaskilyrði fyrir beitingu 26. gr. skaðabótalaga né 26. gr. útvarpslaga fyrir hendi.

Þá byggja stefndu á því, verði talið af dóminum að ákvæði laga nr. 77/2000 eigi við, að þau hafi ekki brotið gegn 1. og 4. tölulið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Stefndu halda því fram að persónuupplýsingar sem fram komi í þættinum hafi verið unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og þær voru byggðar á eins áreiðanlegum heimildum og frekast var kostur. Umfjöllun stefndu gekk aldrei lengra í garð stefnenda en nauðsyn bar til. Stefnendur voru aldrei nefndir á nafn eða mynd birt af þeim í umfjöllun stefndu.

Stefnendur virðist halda því fram að stefndu hafi farið langt umfram leyfileg mörk tjáningarfrelsis. Þessu mótmæla stefndu og byggja á því að umfjöllun sú, sem þau unnu og fram fór á vegum Kastljóss, sé mikilvægt framlag til opinberrar umræðu um meðferð löggjafarvalds og veitingu ríkisborgararéttar. Þó sjónvarp sé áhrifaríkur miðill sem nái til margra, feli það ekki í sér takmörkun á tjáningarfrelsi, ef ákveðið sé að nota tækni eða aðferð sem sé áhrifaríkari til að koma boðskap, frétt eða mikilsverðu málefni á framfæri við almenning. Óumdeilt sé að sjónvarp sé sá miðill sem nái til flestra landsmanna og því eðlilegt að hann verði fyrir valinu til að fjalla um það mikilvæga málefni er umfjöllunin hafi tekið til.

Stefndu byggja á að réttur þeirra, til að segja frá framangreindum atburði og birta umfjöllunina í dagskrá sinni, sé lögvarinn af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Réttur þessi til tjáningarfrelsis sé einnig varinn af 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Setja megi tjáningarfrelsi vissar skorður sem skal gert með stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndu byggja á því að engin slík skilyrði séu fyrir hendi í málinu. Hafi stefnendur ekki sýnt fram á að lagaskilyrði séu til staðar er réttlæti takmörkun á tjáningarfrelsi stefndu eða að stefnendur eigi réttindi er gangi framar tjáningarfrelsi stefndu.

Stefndu haldi því fram að í kröfugerð stefnenda felist í raun krafa um ritskoðun á efni í dagskrá Ríkisútvarpsins og að stefndu sem starfi sem fréttamenn eigi að sæta ritskoðun, en samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar komi fram fortakslaust bann við ritskoðun og annarri sambærilegri skerðingu á tjáningarfrelsi. Engin heimild sé í lögum til að banna, ritstýra eða koma í veg fyrir umræðu um mikilvæg þjóðfélagsleg málefni. Í skyldu Ríkisútvarpsins ohf., vinnustaðar stefndu samkvæmt lögum nr. 6/2007, felist ekki eingöngu skylda til að miðla og hafa í dagskrá sinni fréttir, umfjöllun, málefni eða upplýsingar, sem séu öllum að skapi eða taldar meinlausar eða litlu máli skipti, heldur einnig skylda til að miðla efni, upplýsingum og hugmyndum sem kunni að móðga, hneyksla eða raska hugarró. Að mati stefndu hafi fjölmiðlar mikilvægu hlutverki að gegna í nútímaþjóðfélagi og verði að játa þeim frelsi til tjáningar. Beri að skýra allar lagaheimildir og lagaákvæði sem skerða tjáningarfrelsi fjölmiðla þröngt.

Stefndu byggja á að við ákvörðun á mörkum friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsis verði að líta til lýðræðishefða sem eigi að tryggja að fram getið farið þjóðfélagsleg umræða, en stefndu telji að horfa beri til þessa við úrlausn um mörk tjáningarfrelsis fjölmiðla. Í þeirri umfjöllun sem sé til skoðunar sé fjallað um meðferð á matskenndu valdi þingnefndar til þess að veita ríkisborgararétt og þeirri aðstöðu sem stefnendur voru í við afgreiðslu á umsókn annars þeirra, Luciu, um ríkisborgararétt. Stefndu byggi á því að í lýðræðislegu þjóðfélagi hvíli sú grundvallarskylda á stefndu, sem fréttamönnum hjá Ríkisútvarpinu, að miðla upplýsingum og skoðanaskiptum um þjóðfélagsmál, stjórnmál og önnur mál sem varði almenning og almannahagsmuni. Í þeirri kvöð og skyldu felist að skýra verði allar undantekningar á tjáningarfrelsi, til að hrinda af stað eða taka þátt í umræðu, þröngt.

Stefndu byggja á því að ekki standist hjá stefnendum að heimfæra atvik málsins til 228. og 229. gr. almennra hegningarlag nr. 19/1940. Fullt tilefni hafi verið til umfjöllunar og fréttaflutnings stefndu og innihald og tildrög réttlættu í hvívetna umfjöllunina. Engin rök standi til þess að umfjöllunin feli í sér ólögmæta árás á æru og friðhelgi stefnenda. Hvorki séu fyrir hendi í málinu skilyrði um ólögmæti né sú huglæga afstaða sem sé forsenda þess að beita framangreindum ákvæðum hegningarlaga gagnvart stefndu. Umfjöllun af þeirra hálfu feli í sér hlutlægan fréttaflutning þar sem sannanleg atvik og aðstaða sé skoðuð út frá því sjónarhorni hvort sú óvenjulega afgreiðsla sem umsókn stefnanda Luciu um ríkisborgararétt fékk og þess hvernig tengslum hennar og stefnanda Birnis Orra við þáverandi umhverfisráðherra var háttað. Þá séu ekki lagaskilyrði til að dæma vararefsingu samkvæmt 1. mgr. 54. gr. hgl. með sömu rökum.

Heimildarmaður færði stefndu gögn um umsókn stefnanda Luciu um ríkisborgararétt og gáfu gögnin til kynna, að mati heimildarmanns, óeðlilega veitingu ríkisborgararéttar í ljósi fyrri framkvæmdar á veitingu ríkisborgararéttar. Hornsteinn lýðræðislegrar og frjálsrar fréttamennsku sé réttur fréttamanna og fréttastofa til að standa vörð um og halda leynd yfir heimildum og heimildarmanni sem hafðir séu fyrir fréttum. Sé þessi réttur meðal annars lögfestur í 1. mgr. 53. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og staðfestur með dómsúrlausnum Hæstaréttar.

Stefndu byggja á að hafi þau sem fréttamenn fengið upplýsingar frá heimild sem þau meti trausta, lagt sjálfstætt og hlutlægt mat á slíkar upplýsingar og metið trúverðugleika heimildarinnar í samræmi við almennt viðurkenndar starfsreglur fréttamanna, ásamt því að leggja mat á fréttagildi upplýsinganna, beri þeim sem fréttamönnum skylda til að flytja fréttir af viðkomandi atburði eða aðstöðu, eigi upplýsingarnar erindi við almenning. Það að geta heitið heimildarmanni nafnleynd skipti grundvallarmáli í starfi stefndu. Samtímis verði fjölmiðill að standa dyggan vörð um það að heimildarvernd hans sé ekki misnotuð, þ.e. að reynt sé að koma höggi á einstaklinga, samtök eða fyrirtæki í skjóli nafnleyndar. Stefndu og Ríkisútvarpið noti ónafngreinda heimildarmenn í fréttum sínum af mikilli varfærni og einungis í undantekningartilfellum. Vinnureglur stefndu séu að í hvert sinn sem slík mál komi upp skuli lagt mat á hversu mikilvægar upplýsingarnar séu og hvort hægt sé að nálgast upplýsingarnar annars staðar án þess að styðjast við nafnlausa heimildarmenn. Þá leggi ritstjóri Kastljóss, stefndi Þórhallur, sem ritstjóri Kastljóss, mat á  áreiðanleika heimildarinnar sem um ræði áður en ákveðið sé að taka málið til umfjöllunar.

Stefndu byggja á að réttur þeirra sem fréttamanna til að vernda heimildir og heimildarmenn sé kjarni þess að hægt sé að miðla upplýsingum um fréttnæma viðburði og aðstöðu í þjóðfélaginu. Án skyldu fréttamanna til að halda leynd yfir heimildum og heimildarmönnum sínum væri skylda fréttamanna, til þess að veita handhöfum opinbers valds, einkaaðilum og einstaklingum aðhald í formi sanngjarns og hlutlægs fréttaflutnings, fyrir borð borinn. Ef heimildamenn, sem miðluðu upplýsingum um fréttnæmt efni, ættu síðar á hættu að þurfa að koma fram myndi slíkt leiða til þess að öflun gagna og upplýsinga yrði nánast ógerleg og myndi einkennast af sjónarmiðum og upplýsingum sem aðilar máls er frétt varðar, vildu sjálfir að færu í fjölmiðla, en ekki upplýsingum eða frásögn sem einkenndist af hlutlægri og óháðri umfjöllun.

Þá sé því sérstaklega mótmælt af hálfu stefndu að niðurstaða siðanefndar Blaðamannafélags Íslands verði lögð til grundvallar í máli þessu telji dómari ástæðu til þess að fjalla sérstaklega um málsástæður stefnenda sem vísi til þeirrar niðurstöðu.

Þá byggja stefndu sýknukröfu sína á þeirri dómvenju íslensks réttar í málum sem þessum að sannindi ummæla valdi sýknu og sá sem borinn sé sökum njóti vafans um sönnun. Stefnendur hafi í máli þessu ekki fært með nokkrum viðhlítandi eða fullnægjandi hætti sönnur á fullyrðingar sínar, m.a. um að umfjöllunin hafi einkennst af dylgjum og hálfkveðnum vísum og að megintilgangur umfjöllunarinnar hafi verið að vekja upp ranghugmyndir hjá almenningi að Jónína Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra og móðir stefnanda Birnis Orra, hafi haft ósiðleg og jafnvel ólögleg afskipti af afgreiðslu umsóknar stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt og að umfjöllunin hafi einkennst af röngum fullyrðingum og ósannindum. Fullyrðingum um að umfjöllun stefndu hafi haft annarlegan og ómálefnalegan tilgang, hún hafi verið hlutdræg og lituð fyrir fram ákveðinni afstöðu og haft á sér blæ pólitískra ofsókna á hendur þáverandi umhverfisráðherra, sem þá hafi staðið í kosningabaráttu, sé í heild mótmælt sem ósönnum og tilefnislausum. Stefnendur beri allan halla af skorti á sönnun fyrir fullyrðingum sínum í stefnu. 

Verði ekki fallist á kröfu stefndu um sýknu, sé þess krafist til vara að dómkrafa stefndu verði lækkuð verulega og að ekki verði dæmt til refsingar. Byggir stefnda þar á öllum sömu málsástæðum og að framan séu raktar.    

Verði niðurstaða dómsins, að einhver hluti umfjöllunarinnar hafi verið ónákvæmur eða hugsanlega villandi, sé þess farið á leit að tekið verði tillit til þess að mjög erfitt hafi verið að fá fullnægjandi og áreiðanlegar upplýsingar frá allsherjarnefnd Alþingis um veitingu ríkisborgararéttar áður en umfjöllunin hófst. Hafi þá verið gerð samantekt að beiðni formanns allsherjarnefndar Alþingis, en engu að síður hafi sú samantekt verið hvergi nærri fullnægjandi. Þá neituðu aðilar málsins að koma fram eða gera athugasemdir við umfjöllunina áður en hún hófst, en því höfnuðu stefnendur og m.a. þáverandi umhverfisráðherra, þegar stefndu leituðu eftir viðbrögðum við umfjölluninni sem fyrirhuguð var. Þá komi beinlínis fram í stefnu viðurkenning af hálfu stefnenda að eftir því sem umfjöllunin hélt áfram hafi komið fram upplýsingar sem sýndu að öll afgreiðsla umsóknar stefnanda Luciu hjá allsherjarnefnd Alþingis hafi verið í fullu samræmi við þær reglur sem allsherjarnefnd hafi sett sér og vinni eftir. Þannig viðurkenni stefnendur að umfjöllunin hafi verið leiðrétt um leið og upplýsingar fengust. Sé þess farið á leit að tekið verði tillit til framangreindra atriða þegar metið sé hvernig stefndu hafi verið rétt að vinna úr og meta þær upplýsingar sem þau höfðu undir höndum. Þá beri að geta þess að þó smávægilegrar ónákvæmni kunni að hafa gætt í upplýsingum í fyrstu, haggaði það ekki á nokkurn hátt fréttagildi umfjöllunarinnar og þess að málið átti fullt erindi við almenning.

Þá byggja stefndu á því, að fjárhæð krafna stefnenda til hvors þeirra um sig, sé órökstudd með öllu og engir útreikningar eða sönnunargögn liggi henni að baki. Fjárhæð krafnanna sé ekki í neinu samræmi við dómvenju um miskabætur hér á landi.      Þá byggja stefndu á að hið meinta tjón stefnenda sé með öllu ósannað, enda hafi stefnendur ekki lagt fram nein gögn um hvert hið meinta tjón þeirra sé eða hvers eðlis það sé. Þá hafi stefnendur ekki sýnt fram á að orsakasamhengi sé milli hins meinta tjóns þeirra og umfjöllunar þeirrar er stefndu hafi staðið að.      

Um lagarök vísa stefndu til 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 svo og ákvæða 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, auk grunnreglna og viðmiða um þýðingu, hlutverk og heimildir fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi, ákvæði útvarpslaga nr. 53/2000, einkum 9. gr., 11. gr. og 26. gr. þeirra laga, laga um Ríkisútvarpið ohf. nr. 6/2007, laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940, lög um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993.

Hvað varði lagarök að baki málskostnaðarkröfu stefndu fyrir hvert og eitt þeirra vísast til ákvæða 130. gr. laga um meðferð einkamála í héraði nr. 91/1991.

Niðurstaða 

Mál þetta lýtur að umfjöllun í Kastljósi og fréttum Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) vegna umsóknar stefnanda Luciu Celeste Molina Sierra um íslenskan ríkisborgararétt og afgreiðslu þeirrar umsóknar hjá allsherjarnefnd Alþingis. Óumdeilt er að umfjöllunin fór fram í Kastljósþætti RÚV dagana 26., 27., 30. apríl og 2. maí 2007.  Þá var fjallað um málið í fréttum RÚV þann 26., 27., 28., 29., 30. apríl, 2., 3. og 4. maí 2007.  

Dómkröfur sínar á hendur stefnda Páli Magnússyni byggja stefnendur á því hann beri ábyrgð á allri umfjöllun RÚV í fréttatímum hljóðvarps og sjónvarps og Kastljósi um mál  stefnanda Luciu á grundvelli d-liðar 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 og 3. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf.  Meginreglan um ábyrgð á útvarpsefni kemur fram í a-lið 26. gr. útvarpslaga en þar segir að sá sem flytur sjálfur efni í eigin nafni beri ábyrgð á því. Samkvæmt b- lið 26. gr. ber flytjandi ábyrgð á efni sem annar maður hefur samið og samkvæmt c- lið ber auglýsandi ábyrgð á auglýsingu. Loks segir í d-lið 26. gr. útvarpslaganna að útvarpsstjóri beri ábyrgð á öðru efni.

Fyrir liggur samkvæmt gögnum máls að ýmsir fréttamenn og þulir fluttu fréttir af málinu á því tímabili sem um ræðir án þess að þeim hafi verið stefnt til aðildar að málinu. Reynir því ekki á ábyrgð þeirra að útvarpslögum í máli þessu. Ljóst er að ábyrgð stefnda Páls getur aðeins komið til álita ef enginn annar ber ábyrgð á grundvelli a-c liðar greinarinnar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 25. október 2007 í máli nr. 67/2007. Þá er ekki fallist á að stefndi Páll beri sérstaka ábyrgð á umfjöllun RÚV um málið á grundvelli 3. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. umfram eða samhliða þeirri ábyrgð sem af útvarpslögum leiðir. Að þessu virtu verður stefndi Páll Magnússon sýknaður af kröfum stefnenda á hendur honum. 

Öðrum stefndu er stefnt í málinu á grundvelli ábyrgðar sem stefnendur telja að þau beri samkvæmt a- og b-liðum 26. gr. útvarpslaga vegna umfjöllunar um málið sem þau eru nafngreind sem fréttamenn fyrir.

Stefnendur byggja kröfur sínar um miskabætur skv. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á því að stefndu beri solidariska ábyrgð á greiðslu miskabóta til þeirra vegna refsiverðrar og ólögmætrar umfjöllunar RÚV um umsókn stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt, á tímabilinu 26. apríl til 4. maí, þó einkum 30. apríl, þegar umsókn hennar var sýnd í myndskeiði og orðrétt lesið upp úr henni. Stefndu hafi ekki staðið nægilega vel að undirbúningi umfjöllunarinnar og farið rangt með ýmsar staðreyndir og upplýsingar. Öll umfjöllun RÚV, sem stefndu beri ábyrgð á skv. 26. gr. laga nr. 53/2000, hafi verið brot á 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, brot á friðhelgi einkalífs þeirra samkvæmt 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga, brot á ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, brot á 3. gr. laga nr. 6/2007 og því saknæm samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga þar sem í allri umfjölluninni hafi falist ólögmæt meingerð gegn æru þeirra og persónu.  Byggja stefnendur á því að umfjöllun stefndu hafi haft þann tilgang einan að koma pólitísku höggi á Jónínu Bjartmarz, sem á þeim tíma stóð í kosningabaráttu vegna framboðs til Alþingis, en hún er móðir stefnanda Birnis, sem er unnusti stefnanda Luciu. 

Samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Þegar metið er hvort lagaskilyrði séu fyrir hendi til þess að dæma miskabætur í máli þessu kemur sérstaklega til skoðunar hvort stefndu hafi með fréttaflutningi sínum farið út fyrir þau mörk sem friðhelgi einkalífs setur tjáningarfrelsinu. Viðurkennt er að hlutverk fjölmiðla sé m.a. að veita stjórnvöldum aðhald og fjalla um mál ef grunur leikur á að misfarið sé með vald í þjóðfélaginu. Er enda óumdeilt að fjölmiðlar hafi verulegt svigrúm til umfjöllunar um menn og málefni líðandi stundar. Hæstiréttur hefur í dómum sínum staðfest (m.a. í dómum Hæstaréttar í málum nr. 278/2006 og nr. 541/2005), að málefni sem talin eru varða almenning og geta talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu, eigi rétt á fréttaumfjöllun í fjölmiðlum. Almennt er viðurkennt að þeir sem fara með áberandi og ábyrgðarmikil trúnaðarstörf í þjóðfélaginu, svo sem stjórnmálamenn, verði að þola vissa fjölmiðlaumfjöllun en þó með þeim takmörkunum að ekki verði gengið nær einkalífi þeirra en óhjákvæmilegt er í opinberri umræðu um málefni er almenning varða. Jónína Bjartmarz, móðir stefnanda Birnis, var ráðherra í ríkisstjórn Íslands er umfjöllunin átti sér stað.

Stefndi Sigmar Guðmundsson bar fyrir dóminum að stefndu hefðu metið það svo, að um réttmætt fréttaefni hefði verið að ræða sem stefndu hafi fundist að almenningur ætti rétt á að vita um. Hafi umfjöllunin ekki beinst gegn stefnendum persónulega heldur hafi hún snúist um það hvernig stjórnvöld færu með vald. Kvað stefndi Sigmar minniháttar leiðréttingar hafa verið gerðar á umfjölluninni á síðara stigi en þær hefðu ekki verið efnislegar. Kváðu stefndi Helgi Seljan Jóhannsson og stefndi Þórhallur Gunnarsson jafnframt að undirbúningur og meðferð efnisins hefði ekki verið frábrugðið því sem almennt tíðkast við vinnslu mála hjá Kastljósi.

Í skýrslutöku fyrir dóminum kvaðst stefnandi Lucia ekki hafa haft samband við stefndu eftir að umfjöllunin hófst í Kastljósi né hefðu stefndu falast eftir viðtali við hana. Hún hefði hins vegar mætt í fréttaþátt Stöðvar 2 og sagt þar frá ástæðum þess að hún sótti um íslenskan ríkisborgararétt.   

Ekki er dregið í efa að málið hafi haft fréttagildi og því eðlilegt að um það væri fjallað í fjölmiðlum. Hins vegar er fallist á að ekki hafi verið vandað nægilega til undirbúnings umfjöllunar um málið í upphafi og gætt hafi ónákvæmni og að sumu leyti ekki farið rétt með staðreyndir um málsmeðferð varðandi umsóknir um ríkisfang. Leiðréttingar áttu sér stað er á umfjöllunina leið og verður ekki talið að umfjöllunin að þessu leyti hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnenda.

Fyrir liggur að stefndu fengu í hendur frá ónafngreindum heimildarmanni sínum umsókn stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt, auk þess fram kom í skýrslutökum stefndu fyrir dómi að þau höfðu aðgang að upplýsingum um umsóknir annarra umsækjenda um ríkisborgararétt.

Stefnendur byggja kröfu sína um miskabætur einkum á því að umfjöllun um umsókn stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt, bæði í fréttatímum sjónvarps RÚV kl. 19 og kl. 22 og í Kastljósþætti hinn 30. apríl 2007, hafi verið ólögmæt og refsiverð. Í myndskeiði við lestur fréttanna í kvöldfréttatímunum hafi umsókn stefnanda Luciu verið birt þannig að hægt var að lesa hvað í henni stóð og sést hafi þar nöfn stefnenda beggja. Fyrir liggur samkvæmt gögnum máls að myndskeið af umsókninni þar sem nafn og kennitala stefnanda Birnis sást var sýnt í fréttatíma RÚV kl. 19 þann 30. apríl 2007, en í Kastljósinu sama dag var nafn hans og kennitala hulið. Þar sem þeim aðilum er ábyrgð geta borið á flutningi útvarpsefnis samkvæmt a og b-liðum 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 hefur ekki verið stefnt í málinu bera stefndu enga ábyrgð á myndbirtingu umsóknarinnar í fréttatímum RÚV. 

Stefnendur byggja á því að með birtingu umsóknar Luciu um ríkisborgararétt, sem aflað hafi verið með ólögmætum hætti, og upplesturs úr henni hafi stefndu brotið gegn 1., 7., 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í 5. gr. laganna er að finna sérreglu um það, þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, að heimilt er að víkja frá ákvæðum laganna þannig að slík vinnsla lúti aðeins ákvæðum 4. gr., 1. og 4. tl. 7. gr., 11.-13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna.  Samkvæmt því verður við úrlausn málsins aðeins litið til þess hvort stefndu hafi brotið gegn 1. og 4. tl. 7. gr. laga nr. 77/2000.  Í 1. tl. 7. gr. laganna kemur fram að við meðferð persónuupplýsinga skuli þess gætt að upplýsingarnar séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Í 4. tl. 7. gr. kemur fram að við meðferð persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum en þær persónuupplýsingar sem séu óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við vinnslu þeirra, skuli afmá eða leiðrétta.  Ekkert er fram komið er bendir til þess að stefndu hafi ekki unnið úr þeim upplýsingum, er þau höfðu undir höndum, með vönduðum hætti. Þrátt fyrir að vissar upplýsingar um málið hafi ekki verið réttar í upphafi voru leiðréttingar gerðar á síðari stigum umfjöllunarinnar og þessar misfellur högguðu ekki fréttagildi málsins.

 Umfjöllun Kastljóss vegna umsóknar stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt var málefni sem átti erindi til almennings og hafði fréttagildi. Óhjákvæmilegt var í þágu úrvinnslu fréttaefnisins að fram kæmu upplýsingar um persónulega hagi stefnanda Luciu.  Að því er varðar myndbirtingu umsóknarinnar í Kastljósi hinn 30. apríl 2007 þá verður að telja eðlilegt í ljósi framvindu málsins og í kjölfar viðtals í Kastljósi við Jónínu Bjartmarz að fram kæmi á hvaða grundvelli umsókn Luciu um íslenskan ríkisborgararétt væri reist. Verður ekki talið að með myndbirtingu umsóknarinnar, eins og hún var sýnd í Kastljósi, og umfjöllun um hana, hafi verið gengið nær einkalífi stefnenda en þörf var á í opinberri umræðu um málefni sem varðaði almenning.

Þá byggja stefnendur á því að myndbirtingin og upplesturinn úr umsókninni sé brot á 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Stefnendur byggja á því að stefndu hafi brotið gegn 1. mgr. 228 almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar segir, ef maður hnýsist í bréf, skjöl, dagbækur eða önnur slík gögn, sem hafa að geyma upplýsingar um einkamál annars manns, og hann hefur komist yfir gögnin með brögðum, opnað bréf, farið í læsta hirslu eða beitt annarri áþekkri aðferð, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Samkvæmt 229. gr. skal hver sá sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

Eins og fyrr er vikið að þá var fullt tilefni til umfjöllunar og fréttaflutnings af því máli sem hér um ræðir. Þá er og til þess að líta að stefndu bar ekki skylda til að skýra frá því með hvaða hætti þeim barst í hendur afrit af umsókn stefnanda Luciu um ríkisborgararétt, sbr. dóm Hæstaréttar frá 10. janúar 1996 í máli nr. 419/1995. Nægar ástæður voru fyrir hendi er réttlættu þessa umfjöllum um  efni sem tengdist meðferð og afgreiðslu allsherjarnefndar á veitingu ríkisborgararéttar. Verður fallist á með stefndu að umfjöllunin í garð stefnenda hafi ekki gengið lengra en nauðsyn bar til.  Er þá litið til þess að um var að ræða opinbera umræðu um málefni sem varðaði almenning.  Eru því engin skilyrði til þess að dæma stefndu til refsingar samkvæmt 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga.

Loks byggja stefnendur á því að umfjöllun stefndu hafi verið skýrt brot á 5. og 7. tl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2007 er hlutverk Ríkisútvarpsins ohf. rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu. Í 2. mgr. 3. gr. er talið upp hvað útvarpsþjónusta í almannaþágu feli í sér en þar kemur fram í 5. tl. að í henni felist að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Þá skuli gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Í 7. tl. segir að hún feli auk þess í sér að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst séu á baugi hverju sinni eða almenning varða. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu um að stefndu hafi hvorki fjallað um málið með ólögmætum eða refsiverðum hætti né brotið gegn rétti stefnenda til friðhelgi einkalífs verður ekki fallist á það með stefnendum að umrædd ákvæði hafi verið brotin. 

Af gögnum máls verður ekki ráðið að afgreiðsla umsóknar stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt hafi verið önnur en almennt gerist, eins og gefið var í skyn í upphaflegri umfjöllun Kastljóss um málið. Það breytir því þó ekki að réttlætanlegt tilefni var til þess að fjalla um málið sem varðaði meðferð og afgreiðslu allsherjarnefndar á veitingu ríkisborgararéttar, eins og fyrr greinir.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að stefnendur hafi sýnt fram á að í umfjöllun stefndu hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnenda samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hefur einnig verið komist að þeirri niðurstöðu að með umfjöllun sinni um mál stefnanda Luciu hafi stefndu ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, ákvæðum 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæðum laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf.

Að virtu öllu því sem rakið er að framan ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Páll Magnússon, Helgi Seljan Jóhannsson, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Sigmar Guðmundsson og Þórhallur Gunnarsson, skulu vera sýkn af kröfum stefnenda, Luciu Celeste Molina Sierra og Birnis Orra Péturssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.