Print

Mál nr. 334/2001

Lykilorð
  • Vinnusamningur
  • Uppsögn
  • Orlof
  • Trúnaðarskylda

Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. febrúar 2002.

Nr. 334/2001.

Sápugerðin Frigg ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Indriða Björnssyni

(Ragnar H. Hall hrl.)

 

Vinnusamingur. Uppsögn. Orlof. Trúnaðarskylda.

I, sem var efnafræðingur að mennt og starfað hafði hjá S ehf. frá árinu 1995, sagði starfi sínu lausu frá og með 1. mars 2000 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ágreiningslaust var að I hafði haldið fund 7. apríl 2000 með fyrirsvarsmönnum þriggja fyrirtækja sem átt höfðu í samkeppni við S ehf., þar sem rætt var um husanlega samvinnu og jafnvel samruna þessara fyrirtækja. Deilt var um hvort I hefði með þessum viðræðum brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart S ehf. Ekki var fram komið að I hefði veitt keppinautum S ehf. trúnaðarupplýsingar, en með hliðsjón af framburði I fyrir dómi og með tilliti til sérþekkingar hans á framleiðslu S ehf. og reynslu var talið að honum hafi hlotið að vera fyllilega ljóst að áform hans, sem til umræðu voru á fundinum, gætu verulega skaðað hagsmuni S ehf. ef úr þeim yrði. Var sú háttsemi I talin ósamrýmanleg trúnaðarskyldum, sem hann bar gagnvart vinnu­veitanda sínum. Var því fallist á með S ehf. að félaginu hefði verið heimilt að víkja I úr starfi án aðvörunar eða fyrirvara. S ehf. kaus þó að bíða með brottvikninguna til 12. maí 2000 þrátt fyrir að hafa áður orðið áskynja um trúnaðarbrestinn, en óumdeilt var að fram að þeim tíma innti I af hendi vinnuskyldu sína. I voru dæmd laun fyrir það vinnuframlag hans, auk áunnins orlofs.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. september 2001 og krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í héraði höfðaði áfrýjandi gagnsök á hendur stefnda og krafðist skaðabóta að fjárhæð 1.000.000 króna vegna tjóns, sem hann taldi stefnda hafa valdið sér. Með hinum áfrýjaða dómi var gagnkröfunni vísað frá dómi. Sá þáttur málsins hefur ekki verið kærður til Hæstaréttar eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kemur því ekki til endurskoðunar.

I.

Stefndi, sem er efnafræðingur að mennt, réðist til starfa hjá áfrýjanda í janúarmánuði 1995. Samkvæmt lýsingu áfrýjanda hafði hann þar umsjón með gæða- og þróunarvinnu, framleiðsluuppskriftum, stjórnun á innkaupum og framleiðslu og öðru því, sem varðar framleiðslu á vörum áfrýjanda. Með bréfi 29. febrúar 2000 sagði stefndi starfi sínu lausu með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá og með 1. mars sama árs. Ágreiningslaust er að stefndi hélt fund 7. apríl 2000 með fyrirsvarsmönnum Efnaverksmiðjunnar Sjafnar hf., Sáms ehf. og Mjallar hf., en þessi þrjú fyrirtæki höfðu átt í samkeppni við áfrýjanda á innanlandsmarkaði um framleiðslu hreinlætis- og sápuefna. Jafnframt er óumdeilt að sá fundur var haldinn að frumkvæði stefnda og að hann hafi stjórnað fundinum. Á honum var rætt um hugsanlega samvinnu og jafnvel samruna framangreindra þriggja fyrirtækja. Aðila greinir á um það hvort stefndi hafi með þessum viðræðum brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart áfrýjanda. Fyrir liggur að forsvarsmenn áfrýjanda fréttu af fundinum í lok sama mánaðar og hann var haldinn. Eftirmaður stefnda kom til starfa 4. maí 2000, en 12. þess mánaðar var stefnda vikið af starfsstöð áfrýjanda og þær skýringar gefnar að hann hafi með athöfnum sínum fyrirgert rétti til launa út uppsagnarfrestinn. Við þessi málalok hefur stefndi ekki viljað una og krefur hann áfrýjanda um 313.250 krónur í laun fyrir maímánuð 2000 auk orlofslauna að fjárhæð 465.948 krónur, samtals 779.198 krónur.

II.

Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að stefndi hafi með ólögmætum hætti brotið skyldur sínar gagnvart áfrýjanda samkvæmt vinnusamningi er hann að eigin frumkvæði, án vitundar og án heimildar vinnuveitanda síns, hlutaðist til um að þrír helstu keppinautar hans sameinuðu krafta sína í samkeppni við áfrýjanda og bauð fram aðstoð sína til þess að sú samvinna og/eða sameining næði fram að ganga. Er á því byggt að þrátt fyrir að stefndi hafi sagt upp starfi sínu hjá áfrýjanda hafi trúnaðarskylda vinnusambandsins verið í fullu gildi. Hafi augljóslega vakað fyrir stefnda að vinna tjón á hagsmunum áfrýjanda með því að hvetja samkeppnisaðilana til innbyrðis samvinnu og stefnda hafi ekki getað dulist að slík háttsemi væri ósamrýmanleg trúnaðarskyldum hans. Hafi legið í augum uppi að næðu hvatningar hans til keppinautanna fram að ganga hlyti það að verða mjög andstætt hagsmunum áfrýjanda. Stefndi hafi því fyrirgert rétti sínum til launa úr hendi áfrýjanda er hann hóf að vinna gegn hagsmunum hans með þessum hætti. Í trúnaðarskyldu samkvæmt vinnusamningi felist að eigin hagsmunir ráði ekki einhliða athöfnum eða athafnaleysi í samningssambandinu heldur verði að taka tillit til hagsmuna viðsemjandans. Sú trúnaðarskylda vari á meðan samningurinn sé í gildi. Þessi skylda sé einnig fyrir hendi á uppsagnarfresti og brot á henni réttlæti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi. Hafi áfrýjanda því verið heimilt að rifta vinnusamningnum einhliða og bótalaust.  Áfrýjandi bendir loks á að samkvæmt skýrslu stefnda fyrir dómi hafi hann ekki verið að leita eftir starfi hjá keppinautunum með gerðum sínum og sé engin önnur skýring fram komin en sú að óvild hans í garð áfrýjanda hafi legið þar að baki og um leið vilji til að valda honum skaða. Áfrýjandi hefur einnig lagt fyrir Hæstarétt ljósrit úr Morgunblaðinu 5. júlí 2001 þar sem fram kemur að áðurnefnd þrjú félög, sem keppa við áfrýjanda, hafa verið sameinuð í eitt félag og samruninn tekið gildi 1. sama mánaðar.

Stefndi reisir kröfur sínar á því að hann eigi inni laun hjá áfrýjanda fyrir maímánuð og nánar tilgreind orlofslaun. Hafi hann boðið fram vinnu sína út uppsagnarfrestinn, en áfrýjandi að ósekju kosið að afþakka vinnuframlag hans. Af hálfu stefnda er því mótmælt að hann hafi aðhafst nokkuð, sem réttlætt geti fyrrgreindan brottrekstur hans. 

Við skýrslutöku fyrir héraðsdómi kom fram af hálfu stefnda að hann hafi ekki sinnt undirbúningi fyrrgreinds fundar í vinnutíma sínum hjá áfrýjanda, heldur hafi hann tekið sér frí frá störfum í því skyni og meðal annars tekið frídag er hann flaug norður í land til undirbúningsviðræðna við forsvarsmenn Efnaverksmiðjunnar Sjafnar hf. Svo sem áður greinir er viðurkennt af hálfu stefnda að hann boðaði til fundarins 7. apríl 2000 og stýrði honum. Sagði stefndi við framangreinda skýrslutöku að engar sérstakar tillögur hafi komið fram á fundinum, en rætt hafi verið „vítt og breitt um möguleika á hagræðingu og samruna” og innlegg hans í málið hafi í raun verið að ,,leiða hugmyndina áfram og koma þessum mönnum saman.” Aðspurður um það hvert hlutverk hans hafi átt að vera í þessu samstarfi eða sameinaða félagi sagðist stefndi hafa lýst því yfir á fundinum að hann gæti ,,fylgt þessu eitthvað úr hlaði eða lagt mitt af mörkum því ég hafði ennþá áhuga á þessum sápubransa enda með mikla reynslu.” Lýsti stefndi því einnig fyrir dómi að hann hafi greint frá því á fundinum að ef ákvörðun yrði tekin um að ganga lengra með þessar hugmyndir væri hann til viðræðu um framhaldið. Í skýrslu stefnda kom ennfremur fram að hann hafi ekki greint fyrirsvarsmönnum áfrýjanda frá fundinum eða efni hans. Aðrir fundarmenn gáfu einnig skýrslu fyrir dómi og bar saman um að málefni áfrýjanda hafi ekki verið til umræðu á fundinum, en af framburði þeirra að öðru leyti má ráða að hugmyndir stefnda hafi ekki fengið hljómgrunn og því hafi árangur af fundinum enginn orðið.

 

III.

Af gögnum málsins er ekki fram komið að stefndi hafi veitt keppinautum áfrýjanda trúnaðarupplýsingar, sem hann bjó yfir vegna starfs síns og sérþekkingar. Svo sem fyrr greinir er hins vegar ljóst að stefndi átti frumkvæði að því að til áðurnefnds fundar var boðað, auk þess sem hann annaðist fundarstjórn. Hafði hann áður sett sig í samband við þá menn er fundinn sátu og kynnt þeim hugmyndir sínar. Fyrir liggur að stefndi hélt þessum viðræðum og efni fundarins leyndum fyrir áfrýjanda. Er stefndi átti viðræður við forsvarsmenn ofangreindra þriggja fyrirtækja og leiddi þá saman til fundar bar hann enn trúnaðarskyldu gagnvart áfrýjanda þótt hann hefði sagt upp vinnusamningi sínum. Með hliðsjón af framburði stefnda fyrir dómi og með tilliti til sérþekkingar hans á framleiðslu áfrýjanda og reynslu hlaut honum að vera fyllilega ljóst að áform hans gætu verulega skaðað hagsmuni áfrýjanda ef úr þeim yrði. Sú háttsemi hans var ósamrýmanleg trúnaðarskyldum, sem hann bar gagnvart vinnuveitanda sínum. Að þessu virtu verður fallist á með áfrýjanda að honum hafi verið heimilt að víkja stefnda úr starfi án aðvörunar eða fyrirvara. Áfrýjandi kaus þó að bíða með brottvikninguna fram til 12. maí 2000, þrátt fyrir að hafa áður orðið áskynja um trúnaðarbrestinn, en óumdeilt er að fram að þeim tíma innti stefndi af hendi vinnuskyldu sína. Samkvæmt því ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda laun fyrir vinnuframlag hans frá 1. til 11. maí 2000 að báðum dögum meðtöldum með 114.858 krónum, en ekki er í málinu tölulegur ágreiningur. Kröfu sína um greiðslu fyrir orlof byggir stefndi á því að hann eigi inni þriggja daga orlof, sem hann hafi áunnið sér orlofsárið 1998-1999, 27 daga orlofsárið 1999-2000 og 2,25 daga orlofsárið 2000-2001, samtals 32,25 virka daga eða 258 orlofsstundir. Á stefndi samkvæmt framanröktu rétt á 30,82 daga orlofi eða 247 orlofsstundum, samtals 446.082         krónum. Verður áfrýjandi samkvæmt þessu dæmdur til að greiða stefnda samtals 560.940 krónur með vöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sápugerðin Frigg ehf., greiði stefnda, Indriða Björnssyni, 560.940 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. maí 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2001.

I

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 26. júní 2000 og dómtekið 17. f.m.

Stefnandi er Indriði Björnsson, kt. 310365-4409, Bjargarstíg 5, Reykjavík.

Stefndi er Sápugerðin Frigg ehf., kt. 700394-3799, Lynghálsi 1, Garðabæ.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 779.198 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. maí 2000 til greiðsludags.  Hann krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

Stefndi höfðaði gagnsök með gagnstefnu sem var þingfest 19. september 2000.

Gagnstefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að upphæð 1.000.000 króna með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi til greiðsludags.  Þá krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Í gagnsök krefst stefndi sýknu  af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

II

Stefnandi er efnafræðingur og réðst til starfa hjá stefnda í janúar 1995.  Fólst starf hans í að hafa umsjón með blöndun á öllum efnum til framleiðslu á vörum stefnda, hafa umsjón með þróun á vörugerðum stefnda og frá hausti 1998, eftir að núverandi eigendur komu að fyrirtækinu, ennfremur að annast hráefnainnkaup og samskipti við erlenda birgja. 

Stefnandi sagði upp starfi sínu  með  þriggja mánaða fyrirvara með bréfi 29. febrúar 2000 og tók uppsögnin gildi 1. mars s.á.  Nýr efnafræðingur, Sigurður Ingvar Sigurðsson sem skyldi taka við starfi stefnanda, kom til starfa 4. maí 2000.  Þann 12. maí afþökkuðu stjórnendur stefnda frekara vinnuframlag af hálfu stefnanda og vísuðu honum af starfsstöð fyrirtækisins.

Stefnandi leitaði til stéttarfélags síns, Félags íslenskra náttúrufræðinga, sem sendi Lúther Guðmundssyni, framkvæmdastjóra stefnda bréf 1. maí 2000.  Þar segir að stefnandi hafi komið þ. 12. maí að skrifstofudyrum á vinnustað sínum læstum.  Við aðra tilraun til að mæta til vinnu sinnar hafi hann  hitt annan eiganda fyrirtækisins, Lúðvík Lúðvíksson, sem hafi tjáð stefnanda að ekki væri lengur óskað eftir vinnuframlagi hans það sem eftir væri af uppsagnarfrestinum eða til 31. maí 2000.  Lúðvík hafi sagt nýja ákvörðun um áður umsamda vinnutilhögun á uppsagnartíma byggjast á því að stefnandi hefði átt fund með samkeppnisaðilum stefnda.  Stefnandi hafi aftur á móti skýrt Lúðvík frá því að engar trúnaðarupplýsingar tengdar starfi sínu hjá stefnda hefðu verið gefnar og fundurinn eingöngu verið á persónulegum grunni.  Stefnandi hafi þ. 16. maí óskað að fá að sækja persónulegar eigur sínar í húsnæði stefnda en ekki fengið heimild til þess.  Félagið fór fram á að stefnandi fengi afhentar persónulegar eigur og benti á að hann ætti rétt á að fá greitt áunnið og ótekið orlof um leið og síðustu mánaðarlaun væru greidd.

Lögmaður stefnda sendi stefnanda bréf dags. 22. maí 2000.  Þar segir að stjórnendum stefnda hafi nýlega borist vineskja um að stefnandi hafi, meðan hann var starfandi hjá stefnda, haft samband við helstu samkeppnisaðila stefnda, Sjöfn hf., Mjöll ehf. og Sám hf., átt fund með þeim til þess að ræða samstarf um samkeppni við stefnda og sé rökstuddur grunur um að hann hafi látið af hendi trúnaðarupplýsingar við samkeppnisaðila stefnda sem kunni að valda honum tjóni.  Við skoðun á tölvu þeirri, sem stefnandi hafi haft til afnota hjá stefnda, hafi komið í ljós að hann muni hafa sent Axel Gíslasyni, fyrrverandi verksmiðjustjóra stefnda, gögn úr tölvunni skömmu áður en Axel lét af störfum hjá stefnda og svo virðist sem hann hafi reynt að fela hvaða gögn voru send.  Með vísun til þessa var stefnanda tilkynnt að stefndi mundi ekki greiða honum laun frá 12. maí 2000 þar sem hann hafi með greindum samblæstri með samkeppnisaðilum stefnda brotið svo af sér í starfi að réttlætanlegt væri af hálfu stefnda að slíta þegar vinnusamningnum.  Í bréfinu er vísað til 27. gr. samkeppnislaga og stefnanda gefinn sjö daga frestur til þess að gera grein fyrir þeim tölvugögnum, sem hann hafi afhent Axel Gíslasyni, og jafnframt afhenda öll gögn stefnda sem hann hafi í fórum sínum.  Að öðrum kosti var hafður uppi áskilnaður um að vísa málinu til viðeigandi meðferðar, hvort heldur er fyrir dómstólum eða Samkeppnisstofnun.

Lögmaður stefnanda sendi stefnda innheimtubréf 5. júní 2000.  Þar segir að stefnandi  mótmæli því sem gersamlega tilhæfulausu að hann hafi brotið af sér í starfi og að það réttlæti fyrirvaralausan brottrekstur úr starfi.  Er höfð uppi krafa um greiðslu launa fyrir maímánuð og orlofs, auk innheimtulauna, og er krafan í samræmi við kröfugerð stefnanda í máli þessu.

Í greinargerð stefnda segir um fund þann, sem að framan getur, að hann hafi  verið haldinn 7. apríl 2000 og hafi forsvarsmaður stefnda fregnað  af honum síðar í þeim mánuði.  Honum hafi verið tjáð að stefnandi hafi átt frumkvæði að fundinum og á honum hafi verið til umræðu rekstur stefnda og staða hinna í samkeppni við fyrirtækið.  Stefnandi hafi lagt til að hann og umrædd fyrirtæki stofnuðu til félags í því skyni að sameinast gegn stefnda.  Í hugmyndinni hafi falist að stefnandi yrði hluthafi og hefði með höndum framleiðslustjórn og ljóst hafi verið að ætlunin væri að hagnýta vitneskju stefnanda um innviði stefnda í hinum áformaða  samkeppnisrekstri.  Þessi hugmynd hafi síðan gerjast en niðurstaðan orðið sú að verða ekki við tilboði stefnanda.  Vitneskju um þetta hafi verið haldið leyndri fyrir stefnanda og þess í stað reynt að fá hann til að veita væntanlegum eftirmanni sínum upplýsingar sem máli skiptu en komið hafi í ljós að öllum upplýsingum um birgja, pantanir og fleira hafi verið eytt úr tölvu stefnanda.  Viðkvæmum upplýsingum um málefni stefnda hafi verið haldið frá honum eins og kostur var, tilteknum skrifstofum læst að kveldi dags og settur nýr kóði í öryggiskerfi hússins.  Að kvöldi 11. maí 2000, milli kl. 10 og 11, hafi aðvörunarbjöllur í verksmiðju stefnda farið í gang.  Við eftirgrennslan öryggisvarða hafi komið í ljós að stefnandi hafi reynt að fara inn í verksmiðjuna.  Daginn eftir hafi stefnandi verið inntur skýringa á ferðum sínum í verksmiðjuna.  Þar sem frambærileg skýring hafi ekki verið gefin hafi verið ákveðið að ekki yrði lengur unað við trúnaðarbrot stefnanda og honum því vikið af starfsstöðinni með þeim orðum að hann hefði fyrirgerð rétti sínum til launa, m.a. með samblæstri sínum gegn stefnda.

Þá segir í greinargerðinni að nýi efnafræðingurinn hafi orðið þess áskynja 17. maí, við undirbúning framleiðslu á tiltekinni vöru, að stefnandi hafi ekki pantað efni af gerðinni Neodol 25-7 en alla jafna hafi verið pantað með  margra vikna fyrirvara enda vörurnar fluttar til landsins með skipum.  Orðið hafi að grípa til þess ráð að panta efnið með flugi svo afstýra mætti stöðvun á framleiðslunni.  Af þeim sökum hafi kostnaður pr. einingu orðið 97.289 krónur í stað 25.403 króna þegar flutt hafi verið með skipi eins og venjulega tíðkaðist.  Þetta hafi því valdið stefnda beinu fjártjóni.  Ennfremur hafi komið í ljós, þegar hefja hafi átt framleiðslu á nýrri lögun af þvottadufti, að tiltekið hráefni var ekki til.  Við eftirgrennslan hjá framleiðanda, Woellner SILIKAT, hafi komið í ljós að hann hafi sent stefnda bréf, stílað á stefnanda þ. 22. september 1999, þar sem tilkynnt hafi verið að framleiðslu efnisins yrði hætt í árslok 1999.  Bréf þetta hafi ekki fundist en verið símsent frá W.S. 23. maí 2000.  Ljóst hafi verið að stefnandi hafi ekki leitað eftir öðrum sambærilegum efnum til framleiðslunnar enda þótt boðin væri fram aðstoð til þess í greindu bréfi.  Þetta hafi valdið stefnda verulegu tjóni.

III

Málsástæður aðila í aðalsök.

A

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi inni vinnulaun hjá stefnda fyrir maímánuð 2000.  Stefnandi hafi boðið fram vinnu sína út uppsagnarfrestinn og ekki haft vinnutekjur annars staðar í þeim mánuði eftir að stefndi kaus að afþakka vinnuframlag hans.  Því er mótmælt að stefnandi hafi aðhafst nokkuð sem réttlætt geti fyrirvaralausan brottrekstur af vinnustað hans hjá stefnda og hafi stefndi sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum um slíkt.

Tölulega gerir stefnandi þá grein fyrir kröfu sinni að stefndi hafi ekki greitt neitt af launum hans fyrir maímánuð sem hafi átt að vera 313.250 krónur.  Þá eigi hann inni orlofslaun sem svari til launa fyrir 32,25 virka daga og nemi fjárhæð orlofslaunanna 465.948 krónum.

Um lagarök er vísað til þeirrar meginreglu samningaréttarins að gerða samninga beri að efna og þeirrar meginreglu vinnuréttarins að launþegi eigi rétt á að fá greidd laun samkvæmt vinnusamningi sínum.  Þá er bent á að stefndi megi ekki nota hugsanlegar eða ímyndaðar bótakröfur til skuldajafnaðar á móti vinnulaunakröfum stefnanda, sbr. 1. gr. laga nr. 28/1930.

B

Af hálfu stefnda er á því byggt að honum hafi verið heimilt að segja stefnanda upp fyrirvara- og bótalaust þar sem hann hafi brotið trúnaðarskyldu sína gagnvart stefnda með því að efna til fundar með samkeppnisaðilum í því augnamiði að hvetja þá til samvinnu við sig um samkeppni við stefnda og með því að hann hafi nýtt sér og áformað að nýta sér mikilsverðar trúnaðarupplýsingar sem eðli málsins samkvæmt hafi verið í fórum stefnanda.

Stefnandi hafi ekki sinnt starfsskyldum sínum, annað hvort af ásetningi eða gáleysi, eftir að  uppsögn tók gildi með þeim afleiðingum að tjón hafi hlotist af.  Stefndi eigi rétt til þess að fá það fjártjón bætt og eignist rétt til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda að því marki sem ekki verði fallist á að réttur hans til launa hafi fallið niður vegna brots á trúnaðarskyldunni.  Vísað er til þess að stefndi muni höfða gagnsakarmál.

Málsástæður aðila í gagnsök.

A

Stefnandi  kveður stefnda hafa brotið starfsskyldur sínar með því að panta ekki nauðsynleg hráefni með þeim afleiðingum að stefnandi hafi orðið að greiða aukinn flutningskostnað á hráefni og ekki hafi verið unnt að framleiða tiltekna þvottaefnategund á ásettum tíma.  Um málavexti er að öðru leyti vísað til málavaxta í aðalsök. 

Stefnandi kveður stefnda vera bótaskyldan á grundvelli meginreglna íslenskra laga um fébótaábyrgð vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda.  Vísað er til almennu skaðabótareglunnar svo og til almennra reglna um fébætur innan samninga.

Bótakrafan sundurliðast þannig:

Aukinn útlagður kostnaður vegna flutnings á Neodol 25-7

 

kr.  143.772

Fjártjón vegna framleiðslustöðvunar og hækkunar á aðfangakostnaði við þvottaduftsframleiðslu

 

 

kr.  857.238 

 

Þess er krafist, að því leyti sem stefnanda reynist örðugt að sanna raunverulegt fjártjón sitt, að dæmdar verði  fébætur að álitum.

B

Af hálfu stefnda er á það bent að stefnandi haldi uppi sömu kröfunum sem sýknuástæðu í aðalsök, þar sem þær séu ekki settar fram tölulega, og sem stefnukröfum í gagnsök.

Af  hálfu stefnda er kröfum stefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum bæði hvað varðar grundvöll þeirra og fjárhæðir.

Þá er á það bent að stefnandi hafi ekki fyrr en eftir höfðun aðalsakar haft uppi neinar kröfur á hendur stefnda vegna starfslokanna.  Telur stefndi þetta sýna að gagnkröfugerðin sé eingöngu fyrirsláttur í viðleitni til að komast hjá greiðslu.

Í greinargerð stefnda eru sett fram sjónarmið, sem lúta eindregið að vanreifun málsins, án þess að krafist sé frávísunar.

IV

Niðurstöður.

A.  Aðalsök.

Varðandi atvik að kvöldi 11. maí 2000 kvaðst stefnandi hafa komið í verksmiðju stefnda kl. 18.30 til að þvo bifreið sína.  Þegar kóðinn hafi ekki virkað hafi hann hringt í Ásgrím framleiðslustjóra en aldrei orðið var við viðvörunarbjöllur.  Vitnið Ásgrímur Reisenhus staðfesti að stefnandi hafi hringt í sig en áætlaði að það hefði verið mun síðar um kvöldið en stefnandi bar og  hefði verið óvenjulegt að starfsmenn kæmu svo seint eftir vinnu.

Við málflutning var því lýst yfir af hálfu stefnda að ekki væri tölulegur ágreiningur um kröfu stefnanda.

Í málinu voru lagðar fram svofelldar þrjár samhljóða yfirlýsingar frá Ásbirni Einarssyni, Mjöll ehf., Ómari Gunnarssyni, Efnaverksmiðjunni Sjöfn hf. og Brynjólfi Grétarssyni (og tveimur öðrum) frá Verksmiðjunni Sámi hf., svohljóðandi:  “Undirritaður staðfestir hér með að á fundi, sem haldinn var með Indriða Björnssyni síðdegis 7. apríl 2000, komu af hálfu Indriða engar trúnaðarupplýsingar fram, sem tengdust starfi hans hjá Frigg ehf, enda var fundurinn haldinn á persónulegum grunni af hans hálfu.” Hinir framangreindu staðfestu, sem vitni við aðalmeðferð málsins, yfirlýsingar þessar.  Þeir báru að ekkert hefði verið minnst á málefni stefnda.  Fram kom að stefnandi hefði boðað til fundarins.  Ásbjörn Einarsson kvað stefnanda hafa áður komið á fundi sínum með Lúther Guðmundssyni, framkvæmdastjóra stefnda, um samvinnu fyrirtækja þeirra.  Fram kom að á fundinum 7. apríl 2000 hefðu verið til  umræðu málefni sem tengdust hugsanlegri eða æskilegri framtíðarsamvinnu en ekki samruna fyrirtækjanna og að ekki hefði borið á góma hlutverk stefnanda í slíku samhengi.

Stefnandi  skýrði svo frá að það hafi ekki verið leyndarmál að hann hefði haft þá skoðun að of mörg fyrirtæki væru í “sápubransanum” með svipaðar vörur og að þau mundu ná betri árangri með sameiningu.  Umræddan fund kvað hann hafa verið haldinn til að kanna áhuga á hagræðingarhugmyndum en enga niðurstöðu orðið af honum.  Hann kvaðst ekki hafa haft neitt meðferðis frá stefnda eða kynnt neinar trúnaðarupplýsingar fyrirtækisins.

Málsástæða stefnda, sem lýtur að ætluðum tilgangi framangreinds fundar og misnotkun stefnanda á trúnaðarupplýsingum, er  engum gögnum studd og er ekki fallist á hana.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 er varnaraðila rétt að  hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar séu skilyrði hans fyrir hendi.  Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar er varnaraðila heimilt að hafa uppi gagnkröfu í máli til sjálfstæðs dóms og eftir atvikum skuldajafnaðar að uppfylltum tilteknum skilyrðum.  Ákvæði þessi verða skilin þannig að líta beri sjálfstætt á kröfugerð stefnda í aðalsök og án hliðsjónar af kröfugerð sem hann hafði síðar uppi í gagnstefnu.

Stefndi hefur uppi kröfu um skuldajöfnun án þess að tilgreina neina fjárhæð.  Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til álita að á hana verði fallist.

Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins í aðalsök sú að fallist er á kröfur stefnanda en vaxtakröfu er ekki sérstaklega andmælt.  Málskostnaður er ákveðinn 200.000 krónur.

B.  Gagnsök.

Fyrir kröfu sinni hefur stefnandi lagt fram eftirtalin gögn:

a)  Reikning frá Skeljungi hf. dags. 29. mars 2000 sem sýnir verð á Neodol 25-7, 190 kg., 25.403 krónur.

b)  Reikning frá Skeljungi hf. dags. 18. maí 2000 sem sýnir verð á Neodol 25-7, 190 kg., 97.289 krónur.

c)  Bréf Woellner SILIKAT, dags. 22. september 1999, til stefnda, stílað á “Ingi Björnsson”.  Þar er skýrt frá því að sala á Sikalon-vörum hafi dregist saman og hafi verið ákveðið að stöðva framleiðslu á dutsilíkati við lok ársins 1999.

d)  Pöntun stefnda, send í símbréfi 22. maí 2000 til Woellner SILIKAT, á 2600 kg. af Sikalon D ásamt árituðu svari um að efnið væri ekki lengur framleitt og fylgdi afrit af framangreindu bréfi (sbr. staflið c).

Sigurður Ingvar Sigurðsson bar fyrir dóminum að upplýsingar, sem vörðuðu starfssvið forvera síns í starfi, stefnda í gagnsök þessari, hafi verið aðgengilegar í tölvukerfi og skjalamöppum stefnda.  Hins vegar hafi tekið tíma fyrir nýjan starfsmann að leita í  slíkum gögnum og stefndi hafi ekki verið samstarfsfús.  Eigi að síður gaf stefndi upplýsingar um þau atriði sem Sigurður Ingvar óskaði skriflega eftir að fá samkvæmt framlögðum lista. Sigurður Ingvar kvaðst hafa fundið bréf það, sem um ræðir hér að framan undir staflið c), eftir brottför stefnda.  Varðandi hin ætluðu vandkvæði við hráefnaöflun gaf stefndi þá skýringu að sér hefði ekki veist ráðrúm vegna brottrekstursins til viðhlítandi ráðstafana, s.s. pantana.

Um þann kröfulið stefnanda, sem lýtur að auknum kostnaði vegna flutnings á efninu Neodol. 25-7, 143.772 krónur, hefur stefnandi einvörðungu lagt fram tvo mismunandi háa reikninga.  Ekkert kemur þar fram um að mismunurinn stafi, og þá að hve stórum hluta, af mismunandi flutningsaðferðum.  Þá skortir upplýsingar um það magn sem til var af efninu við brottför stefnda, hve lengi það hefði enst með venjulegri notkun og hve langan tíma hefði tekið að fá það afgreitt miðað við flutning með skipi.

Í síðari kröfuliðnum “Fjártjón vegna framleiðslustöðvunar og hækkunar á aðfangakostnaði við þvottaduftsframleiðslu, 857.238 kr.” er átt við efnið Sikalon D  sem var einkum notað til framleiðslu á vörunni “Milt fyrir barnið”.  Til stuðnings kröfunni nýtur einungis framburða Sigurðar Ingvars Sigurðssonar og Lúthers Guðmundssonar, framkvæmdastjóra stefnanda og eiganda, um að framleiðsla hafi stöðvast, í sjö til tíu daga að sögn hins síðarnefnda, og fjártjón hlotist af því.  Í málinu eru engin gögn um ætlað tjón, hvorki vegna framleiðslustöðvunar né hækkunar á aðfangakostnaði, og að því er varðar hið síaðargreinda er enga vísbendingu að finna um ástæðu þess að stefndi er sóttur til ábyrgðar.

Samkvæmt framangreindu er kröfugerð stefnanda verulega vanreifuð. Dómurinn hefur engar forsendur til að meta fjártjón stefnanda að álitum.  Samkvæmt þessu er eigi fært að leggja efnisdóm á gagnsökina.  Ber því að vísa henni frá dómi af sjálfsdáðum.  Ákveðið er að málskostnaður falli niður í þessum þætti málsins.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Í aðalsök greiði stefndi, Sápugerðin Frigg ehf., stefnanda, Indriða Björnssyni, 779.198 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. maí 2000 til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað.

Gagnsök er vísað frá dómi.  Málskostnaður fellur niður í þeim þætti málsins.